Íslandsheimsókn Friðriks VIII árið 1907

Friðrik VIII

Í Tímanum 19. des. 1958 segir Þ.M.J. frá útgáfu bókarinnar um „Íslandsferðina 1907„, þ.e. ferð Friðriks VIII, Danakonungs til Íslands það ár.

Friðrik VIII

Konungsheimsókn Friðriks VIII. Bæjarbryggjan, Steinbryggjan í forgrunni. Danski fáninn við hún. Konungsflotinn sést fyrir utan, 1907. Ljósmyndari: Magnús Ólafsson.

„Sama árið og Friðrik VIII. varð konungur, bauð hann og ríkisþing Dana alþingismönnum og ráðherrum Íslands til Danmerkur, og var þeim tekið þar með mikilli viðhöfn og vinahótum.

Árið á eftir (1907) kom svo konungur hingað til lands ásamt fjörutíu dönskum ríkisþingmönnum og fleira dönsku stórmenni, þar á meðal Haraldi prinsi syni sínum, J.C. Christensen, forsætisráðherra Dana og sagnfræðingnum Troels-Lund. Með í förinni voru og blaðamennirnir Holger Rosenbérg og Sven Poulsen, sem skrifuðu bók um förina til Íslands, og kom hún út á dönsku sama ár og förin var farin, en nú í fyrsta sinn hefur hún verið þýdd og gefin út á íslenzku.

J. C. Cristensen

Jens Christian Christensen (J.C. Christensen); 21. nóvember 1856 – 19. desember 1930. Embættismenn er jafnan vanmetnir þegar kemur að sögulegum „ákvörðunartökum“ valdhafa.

Segja þeir í inngangi bókarinnar, að sá hafi orðið árangur Íslandsferðarinnar, að hinn norðlægari og suðlægari hluti ríkisins hafi tengzt stórum traustari böndum en áður. Íslendingar tóku vel á móti konungi og fylgdarliði hans.
Konungur vann sér hér vinsældir vegna ljúfmannlegrar framkomu snnar, en fyrst og fremst fyrir það, að Íslendingar álitu hann vera sér hliðhollan í sjálfstæðisbaráttu sinni. En blaðamennimir hafa misskilið Íslendinga er þeir halda, að gestrisni þeirra hafi táknað, að þeir vildu bindast Danmörku enn fastari böndum en áður. Eg man að vísu eftir einni þingmálafundarsamþykkt frá vorinu 1907, þar sem samþykkt var, að fundurinn óskaði eftir, að Ísland yrði bundið sem traustustu ríkissambandi við Danmörku. Á öðrum fundi í sama kjördæmi kom fram samskonar tillaga, en henni var vikið til hliðar, áður en hún var borin upp. En þetta voru undantekningar. Samþykkt Þingvallafundarins 1907 segir aftur á móti vilja meirihluta þjóðarinnar, eins og sannaðist við þingkosningarnar 1908.“

Friðrik VIII

Friðrik VIII Kristjánsson.

Í Morgunblaðinu 4. ágúst 2007 mátti m.a. lesa eftirfarandi um „Íslandsheimsókn Friðriks VIII. Danakonungs árið 1907“: „Þriðjudaginn 30. júlí eða níu dögum eftir að lagt var af stað [frá Danmörku], með viðkomu Færeyjum, gekk konungur á land í Reykjavík. Allt var með hátíðabrag í bænum, hús voru skreytt og spariklætt fólk á ferli. Í fjöldanum mátti sjá konur í þjóðbúningi, einkennisklædda embættismenn, danska og franska sjóliðsforingja, ræðismenn erlendra ríkja í viðhafnarbúningi, bændur, sjómenn og fleiri.

Friðrik VIII. gekk upp Steinbryggjuna eftir rauðum flosdregli en við enda hans reis hár heiðursbogi, inngangur í bæinn.

Friðrik VIII

Friðrik VIII og fylgdarlið koma til Reykjavíkur 30. júlí 1907.

Hannes Hafstein ráðherra bauð konung velkominn og kynnti fyrir honum helstu embættismenn. Á bryggjunni voru meðal annars eftirtaldir meðlimir í móttökunefnd: Jón Jakobsson landsbókavörður, Guðmundur Björnsson landlæknir, Skúli Thoroddsen ritstjóri og Tryggvi Gunnarsson bankastjóri. Síðan fylgdi Hannes konungi og fylgdarliði um götur til búsetu í latínuskólanum sem breytt hafði verið í konungsbústað og var fljótlega nefndur konungshöllin.

Hannes hafstein

Hannes Hafstein (1861-1922). Fyrsti ráðherra Íslands (01.02.1904-31.03.1909). Hannes varð fyrsti ráðherra Íslands frá og með 1. febrúar 1904. Meðan Hannes var ráðherra var sími lagður til landsins. Deilur risu um uppkast að nýrri stjórnarskrá og var kosið um „Uppkastið“ árið 1908. Andstæðingar Uppkastsins unnu sigur og Björn Jónsson varð ráðherra 31. mars 1909. Þá varð Hannes bankastjóri Íslandsbanka. Hannes varð ráðherra í annað sinn 24. júlí 1912, þá fyrir Sambandsflokk, þegar Kristján Jónsson lét af embætti, og sat til 21. júlí 1914. Á því tímabili var fánamálið mjög til umræðu, og tapaði Hannes atkvæðagreiðslu um skipan nefndar um tilhögun og tillögugerð í fánamálinu. Tók Sigurður Eggerz við ráðherraembætti af Hannesi. Hannes settist þá aftur í bankastjórastól Íslandsbanka og sat þar til 1917 er hann sagði af sér vegna heilsubrests.

Í latínuskólanum undirritaði konungur þrenn lagafyrirmæli handa Íslendingum, ein um aðflutningsgjöld en hin varðandi útvegsmál. Voru það fyrstu lög sem staðfest höfðu verið á íslenskri grund. Frá sama stað var ennfremur tilkynnt um að skipuð yrði nefnd ríkisþingmanna og alþingismanna til þess að gera ráðstafanir til nýrrar löggjafar varðandi stjórnskipunarlega stöðu Íslands í Danaveldi.

Seinna um daginn var móttökuhátíð í Alþingishúsinu. Deginum lauk með stórri veislu sem Íslandsráðherra og alþingisforsetar buðu til…“

Á vefsíðunni Hugi.is mátti árið 2013 m.a. lesa eftirfarandi um konungskomuna eftir Örn H. Bjarnason árið 1907 undir fyrirsögninni „Gamlar götur“:

„Í byrjun ágúst árið 1907 hefði verið vandalaust að feta sig slóð Friðriks 8. og 200 manna fylgdarliðs hans. [Friðrik 8. af Glücksborg var konungur Danmerkur frá 1906 – 1912. Hann var elstur barna Kristjáns konungs 9. og Lovísu af Hessen-Kassel.]
Fyrst var riðið á Þingvöll, svo austur að Laugarvatni, að Geysi og Gullfossi, yfir Hvítá á nýrri brú við Brúarhlöð. Síðan niður Hreppa hjá Álfaskeiði, yfir Stóru- Laxá og að Þjórsárbrú. Þaðan um Ölfusárbrú í Arnarbæli í Ölfusi, upp Kambana, yfir Hellisheiði á Kolviðarhól, niður hjá Lækjarbotnum og til Reykjavíkur aftur. Vandlætingafólk þess tíma taldi að fikra mætti sig Kóngsveginn svonefnda eftir tómum kampavínsflöskum.
Víst er um það að ríkisþingmenn fengu fyrir brottför silfurslegna svipu að gjöf frá Alþingi og ferðabikar í ól til að smeygja um öxl sér. En að þetta hafi verið einhver fyllirístúr er af og frá, menn kannski fengið sér í annan fótinn en ekki mikið meira, flestir. Sérstök gullplata var á svipu konungs og hafði Árni Gíslason grafið á hana “Ísland 1907.”
Áhugavert er að skoða ljósmyndir teknar þessa sumardaga, pípuhattar í öllum áttum og harðkúluhattar, barðastórir kvenhattar, upphlutur og skotthúfur, skautbúningur og möttull. Í bakgrunninum voru derhúfur en á húfum lúðurþeytara voru sérstakir borðar. Allir báru höfuðföt sem er hyggilegt enda fer að sögn veðursérfræðinga 75% af hitatapi líkamans um höfuðið.

Friðrik VIII

Skrúðganga í Reykjavík í tilefni heimsóknar Friðriks VIII.

Svo voru það skínandi einkennisbúningarnir. Myndir frá þessum tíma eru allar í svart/hvítu og þess vegna heldur maður kannski að í gamla daga hafi allt verið svo leiðinlegt. Svo var þó ekki ef marka má allar sögurnar og eitt er víst að þarna var ekki litlaus hópur á ferð, öðru nær.
Tildur segjum við í dag á stíllausri öld, en gleymum því ekki að á bak við stífa framkomu þessa fólks leyndist oft hörku dugnaðar. Það er meira en að segja það að fara í 7 daga hestaferð á Íslandi að viðbættum íþyngjandi ræðuhöldum, ofáti og skjalli hvers konar sem sterk bein þarf til að þola. Auk þess var mikil pólitísk spenna í loftinu vegna sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Frá Reykjavík á Þingvöll
Friðrik VIIIFerðin hófst 1. ágúst og var lagt af stað frá Latínuskólanum í Reykjavík. Konungur reið gráum hesti og var í búningi sjóliðsforingja með derhúfu að hætti aðmiráls og í uppháum leðurstígvélum. Hannes Hafstein Íslandsráðherra var á léttvígum, rauðskjóttum gæðingi Glæsir að nafni, kallaður Ráðherra-Skjóni. Seinna í ferðinni reið hann brúnum hesti en konungur hélt sig við gráa litinn enda hafði honum verið ætlaðir fjórir í þeim lit í ferðina. Þegar til kom líkaði honum aðeins við tvo þeirra. Mér skilst að Eggert Benediktsson bóndi í Laugardælum, stórbýli rétt fyrir austan Selfoss, hafi skaffað þessa gráu hesta.

Haraldur prins var í húsarabúningi. Þarna voru líka Axel Tulinius sýslumaður Suður-Múlasýslu, aðalskipuleggjari ferðarinnar, Rendtorff yfirhestasveinn konungs í rauðum búningi, J.C. Christensen forsætisráðherra og Rosenstand leyndaretatsráð svo að einhverjir séu nefndir.

Axel V. Tulinius

Axel V. Tulinius.

Leiðsögumenn voru m.a. þeir Guðmundur Björnsson landlæknir og Jón Magnússon skrifstofustjóri, síðar forsætisráðherra. Jón var hæglætismaður og frekar orðfár, en hvar sem hann sýndi sig fóru hjólin að snúast. Þannig var það einnig við undirbúning þessarar ferðar.
Það þurfti töluverða skipulagshæfileika til að henda reiður á öllu því hafurstaski sem fylgdi þessu liði, kerrur með tjöld og matföng og trússhestar, klyfsöðlar, hnakkar, beisli, lyfjaskrín, hattaöskjur og ferðakoffort. Þetta líktist meira innrásinni í Rússland eða herleiðingu eins og sagt er frá í Gamla testamentinu hjá Móse frá Egyptalandi eða Esekiel til Babylon, erillinn var svo mikill. Að morgni fyrsta dags voru allir að ganga af göflunum og þá var notalegt að hafa Jón Magnússon með sína góðu nærveru.

Friðrik VIIIHófaskellirnir á götum Reykjavíkur þennan dag komu öllum í ferðaham og góðhestarnir sem bændur sunnanlands og norðan höfðu lánað af þessu tilefni voru ekki af verri endanum. Flestar sýslur landsins lögðu til 18 hesta hver landssjóði að kostnaðarlausu, en einnig voru fjöldinn allur af leiguhestum.
Af lista yfir íslenska alþingismenn sem varðveist hefur er svo að sjá, að flestir þeirra hafi fengið tvo hesta til afnota. Númer 13 á listanum er Hannes Hafstein, 1. Þingmaður Eyfirðinga, Tjarnargötu. Hann fékk bara einn hest enda lagði hann sjálfur til Ráðherra-Skjóna. Björn M. Olsen, 3. Konungskjörinn þingmaður, Lækjargötu 8, fékk 3 hesta. Tryggvi Gunnarsson 1. Þingmaður Reykvíkinga fékk 2 hesta og sömuleiðis Þórhallur Bjarnarson þingmaður Borgfirðinga síðar biskup yfir Íslandi.

Guðmundur Björnsson

Guðmundur Björnsson, alþingismaður. Alþingismaður Reykvíkinga 1905–1908, konungkjörinn alþingismaður 1913–1915, landskjörinn alþingismaður 1916–1922 (Heimastjórnarflokkurinn, Sambandsflokkurinn, Heimastjórnarflokkurinn).
Forseti efri deildar 1916–1922. Milliþingaforseti efri deildar 1915.

Guðmundur Björnsson 2. Þingmaður Reykvíkinga, Amtmannsstíg 1, fékk engan hest enda hefur hann sjálfsagt verið með sína eigin hesta í ferðinni.
Í bréfi dagsettu 7. febrúar 1907 býður Daniel Danielsson hinni háttvirtu Heimboðsnefnd vagnhesta til kaups á kr. 160 stykkið. Hann segir í bréfinu, að hann treysti sér ekki til að fara neðar þar sem hann telji að verð á hestum á sumri komandi verði mjög hátt. Þetta var svo sannarlega uppgripstími fyrir hestaspekúlanta.
Þar sem riðið var upp Hverfisgötu blakti danski fáninn við hún. Farið var upp hjá Rauðavatni og Geithálsi og síðan Hafravatnsveg í Djúpadal á Mosfellsheiði, en þar byrjar hinn eiginlegi gamli Þingvallavegur. Svipusmellir fylltu loftið og öllum mátti vera ljóst að þetta var enginn venjulegur reiðtúr. Á leiðinni bættust í hópinn bændur sem höfðu hlaupið frá búum sínum til að skoða kónginn. Þegar til kom gátu þeir ekki stillt sig um að slást í för á Þingvöll. Sumir voru ekki einir á ferð heldur með allt sitt hyski, konu og krakka.
Í Djúpadal var framreiddur hádegisverður. Eins og allir vita þá eru Danir fyrst í essinu sínu þegar matur er annars vegar. Þeir borða ekki eingöngu til að lafa á fótunum. Matargerð er í þeirra augum listgrein og að skeggræða um mat umræðuefni sem stendur jafnfætis heimspekitali á gangstéttarkaffihúsum stórborganna. Virkilega siðaður Dani getur rifjað upp matseðla áratugi aftur í tímann af jafn mikilli nákvæmni og veðurglöggur Íslendingur lýsir skýjafari. Danir eru heimsmenn.

Djúpidalur

Djúpidalur.

Nema hvað í Djúpadal hafði Franz Håkansson, bakari og conditori, Austurstræti 17 látið senda 150 rúnstykki, 7 rúgbrauð og 12 franskbrauð. Pagh veitingastjóri var staðráðinn í því, að hvað sem öðru liði þá myndi Friðrik 8. Danakonungur ekki verða hungurmorða í ferðinni og þyrstur yrði hann ekki, enda sést í skjölum að Thomsens Magasin lét senda 4000 flöskur vestur að Rauðamel. Þar var tappað ölkelduvatni á flöskurnar. Þetta ölkelduvatn var haft til hressingar í heimsókn konungs.

Friðrik VIII

Gamli Þingvallavegurinn 1907.

Að loknum málsverði þumlungaðist hersingin áfram fyrir norðan Borgarhóla í áttina að Þrívörðum og sunnan við Vilborgarkeldu á Mosfellsheiði, sem er forn áningarstaður. Þaðan var ekki langt í Ferðamannahorn, en það heitir svo vegna þess að þar sést fyrst til langferðamanna að koma á Þingvöll. Svo lá leiðin um Kárastaðastíg og niður í Almannagjá. Þegar konungur reið niður gjána hrópaði fólkið sem hafði raðað sér þar upp nífalt húrra, ég endurtek nífalt, minna mátti ekki gagn gera.

Friðrik VIII

Friðrik VIII.

En hver var þessi konungur sem verið var að hrópa húrra fyrir? Friðrik 8. var fæddur árið 1843 og dó árið 1912. Hann ríkti frá árinu 1906 til 1912. Faðir hans var Kristján 9. Þann stutta tíma sem Friðrik var við völd ferðaðist hann mikið um ríki sitt og komst í nána snertingu við þjóð sína. Hann beitti sér m.a. fyrir bættum samskiptum við Íslendinga. Árið 1869 gekk hann að eiga sænska prinsessu Louise að nafni.

Friðrik VIII

Frímerki af tilefni eitt hundrað ára minningar um komu Friðriks VIII. Danakonungs til Íslands 1907.

Og þjóðin sem hann var að heimsækja hvernig var hún? Af því að maður er svolítið blindur á sitt eigið fólk þá gerði ég það að gamni mínu að fletta upp í Nordisk Konversasions Leksikon, 5. bindi, bls. 183. Þar stendur: “Íslendingar tilheyra hinum hvíta kynstofni, flestir eru háir, ljósir yfirlitum og langhöfðar. Þeir eru með blá augu og grannvaxnir.” Þetta fannst mér áhugaverð lesning, en meira hafði ég samt gaman af að koma út af bókasafninu og labba eftir Austurstræti og sjá margbreytileikann í útliti fólks enda er þjóðin örugglega ekki svona einslit eins og stendur í alfræðiritinu. Rannsóknir á blóðflokkum Íslendinga sýna raunar að þjóðin er af margvíslegum uppruna.

Friðrik VIIIEn við vorum stödd á Þingvöllum. Þar höfðu miklar vegabætur farið fram sem og annars staðar á leið konungs. Árið 2000 voru líka lagðir vegir á Þingvöllum. Það tengdist Kristnitökuhátíðinni. Þetta voru mjög snotrir vegir út um alla móa, en lágu svo sem ekkert sérstakt að mér fannst. Áhugavert þótti mér að sjá hvílíkri tækni vegakarlar bjuggu yfir þegar þeir mokuðu þessum sömu vegum upp á vörubíla aftur og keyrðu í burtu. Þarna hófst nýr kafli í samgöngusögu þjóðarinnar. Það er ekki enn búið að moka í burtu Kóngsveginum gamla en slitróttur er hann orðinn á köflum.
Að loknum kvöldverði þennan fyrsta dag gekk konungur um meðal fólksins í tvo klukkutíma. Hann var skrafhreyfinn og lék við hvern sinn fingur. Engin þreytumerki voru á honum að sjá.

Þjóðhátíð á Þingvöllum

Friðrik VIII

Friðrik VIII á Þingvöllum.

Næsta dag 2. ágúst var haldin þjóðhátíð á Þingvöllum. Drifhvítar tjaldborgir höfðu risið þar og byggður hafði verið konungsskáli í hallanum upp að Almannagjá ekki langt frá Öxarárfossi en í Hestagjá voru höfð hross sem þurftu að vera til taks. Ekki létu fréttamennirnir sig vanta en Guðmundur Finnbogason var fulltrúi Blaðamannafélagsins. Þegar á ferðina leið reyndust fréttamennirnir hvað dugmestir. Það er ótrúlegt hvað forvitnin er mikið hreyfiafl.
Friðrik VIIIÍ Valhöll var snæddur hádegisverður, en kl. 1 hófst Lögbergsgangan og tóku nær 6000 manns þátt í henni. Það var regnkápuveður þennan dag og margar ræður voru fluttar og mikið sungið. Hannes Hafstein flutti konungsminni. Ýmsir aðrir tóku til máls. Tulinius sýslumaður stjórnaði glímukeppni og sigraði Hallgrímur Benediktsson í þessari keppni en þriðji varð Jóhannes Jósefsson sem síðar var kenndur við Hótel Borg en hann hafði lagt sig eftir grísk rómverskum fangbrögðum og var talinn öflugur glímumaður. Sem sigurmerki fékk Hallgrímur birkigrein og síðan var hann borinn af sviðinu í gullstól.

Björn M. Olsen

Björn M. Olsen; Konungkjörinn alþingismaður 1905–1908 (Heimastjórnarflokkurinn).

Björn M. Olsen prófessor fræddi fólkið um Úlfljótslög, Grágás, Járnsíðu og Jónsbók. Eins sagði hann frá því hvernig Gissur Þovaldsson sendi árið 1238 Hjalta biskupsson upp á þing með stóran flokk manna til að hleypa þinginu upp. Svo var það bardaginn á Alþingi eftir Njálsbrennu og hvernig dómi var hleypt upp árið 999 er dæma skyldi í máli á hendur Hjalta Skeggjasyni um goðgá. Það var síður í frásögur færandi að oftast fór þingið fram með hinni mestu friðsemd og spekt.
Lítillega sagði prófessorinn frá því hvernig þjófar höfðu verið hengdir við Gálgaklett og konur sem höfðu borið út börn sín eða deytt á annan hátt drekkt í Drekkingarhyl. Þetta gerði stóra lukku.
Um kvöldið var haldin hátíðarveisla. Þar flutti Sveistrup þjóðþingsmaður ræðu fyrir minni íslenska hestsins, en konungur mælti fyrir minni kvenna. Aðeins ein kona Ragnheiður Hafstein eiginkona Íslandsráðherra var í veislunni, sem mönnum þótti alveg kappnóg. Konungur beindi orðum sínum til hennar frekar en að tala út í buskann til allra þeirra kvenna sem voru annars staðar. Dansað var á palli fram á nótt og tók konungur þátt í dansinum.

Friðrik VIII

Verst var að hesturinn sem Sveistrup lofaði hvað mest í fjörugri ræðu sinni fældist nokkrum dögum seinna fyrir vagni hans uppi á Hellisheiði. Sveistrup hlaut nokkrar skrámur á enni og mikil mildi að ekki hlaust verra af.“

Frá Þingvöllum að Geysi

Friðrik VIII

Minningarsteinn um komu Friðriks VIII til Geysis 1907.

Næsta dag þann 3. ágúst var svo riðið hjá Skógarkoti Skógarkotsveg og í Vatnsvíkina hjá Vellankötlu um Gjábakkastíg og Barmaskarð á Laugarvatnsvelli. Þangað var komið um hádegisbil og beið þar stórt veitingatjald. Franz Håkansson, bakari og conditori, Austurstræti 17 hafði sent þangað 160 rúnstykki, 8 rúgbrauð og 12 franskbrauð…“

Í Fréttablaðinu 7. maí 2019 er fjallað um Gamla Þingvallaveginn á þeim nótum að hann „fái veglegri sess með friðlýsingu“. Þar segir:

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði.

„Þrjú sveitarfélög við Mosfellsheiði og minjavörður Suðurlands vilja að hafið verði ferli til að breyta skilgreiningu á nítjándu aldar hestvagnavegi sem liggur frá Geithálsi að Almannagjá úr því að vera friðaður í það að verða friðlýstur. Þá yrði vegurinn merktur og vakin á honum athygli sem menningarminjum.
Minjastofnun vinnur nú að því með þremur sveitarfélögum að Gamli Þingvallavegurinn frá því á 19. öld verði friðlýstur.
„Vegna aldurs síns er vegurinn friðaður samkvæmt lögum en vert er að skoða hvort ekki sé ástæða til að ganga lengra og friðlýsa hann. Með friðlýsingu fengi Gamli Þingvallavegurinn veglegri sess, hann yrði merktur og vakin athygli á honum sem merkum menningarminjum,“ segir í minnisblaði Tómasar G. Gíslasonar, umhverfisstjóra Mosfellsbæjar, sem lagt var fram er bæjarstjórnin þar staðfesti vilja sinn í málinu.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur frá 1907 millum Djúpadals og Þingvalla.

Í framhaldinu var málið borið undir yfirvöld í Grímsnes- og Grafningshreppi og Bláskógabyggð þar sem Gamli Þingvallavegurinn liggur einnig um lönd þeirra sveitarfélaga. „Að langstærstum hluta er leiðin á landi Mosfellsbæjar; sker svo norðurhorn Grímsnes-og Grafningshrepps við Klofningstjörn á stuttum kafla en fer þá yfir í Bláskógabyggð, í Vilborgarkeldu nálægt núverandi Þingvallavegi við Torfdalslæk,“ segir Uggi Ævarsson, minjavörður Suðurlands, í samantekt um málið.
Vegurinn hafi verið geysimikið mannvirki á sinni tíð; upphlaðinn á köflum með vatnsræsum, brúm og vel hlöðnum vörðum. Hann sé vel varðveittur hestvagnavegur.

Friðrik VIII

Konungsheimsókn Friðriks VIII 1907. Hannes Hafstein ráðherra kveður konung á Bæjarabryggju (Steinbryggjunni).
Ljósmyndari: Magnús Ólafsson.

„Hann markaði tímamót í samgöngusögu heiðarinnar og við hann var einnig hlaðið sæluhús úr tilhöggnu grágrýti. Eftir að önnur þjóðbraut var lögð yfir norðanverða
heiðina til Þingvalla um 1930 var þessi leið aflögð að mestu og hlaut hún þá nafnið Gamli Þingvallavegurinn,“ rekur Tómas umhverfisstjóri.
Nú liggur fyrir að afla þurfi upplýsinga um minjarnar og síðan fá ráðgefandi álit Fornminjanefndar áður en málið er kynnt almenningi og á endanum lagt fyrir mennta- og menningarmálaráðherra til endanlegrar ákvörðunar um friðlýsingu eður ei.“

Heimildir:
-Tíminn 19. des. 1958, Íslandsferðin 1907, bls. 8.
-Gamlar götur-Konungskoman árið 1907, Örn H. Bjarnason – https://www.hugi.is/saga/greinar/130222/gamlar-gotur-konungskoman-1907/
-Örn H. Bjarnason. Konungskoman árið 1907. Heima er bezt 53. árg., 3. tbl., mars 2003, bls. 122-127.
-Fréttablaðið 7. maí 2019, Gamli Þingvallavegurinn fái veglegri sess með friðlýsingu, bls. 6.
-„Aukinn skilning mun hún færa oss, þessi Íslandsferð“, Þ. M. J – Heimsókn Friðrik VIII Danakonungs til Íslands 1907, rit Landsbókasafns Íslands 2007 – https://rafhladan.is/bitstream/handle/10802/9442/Konungskoma_%C3%ADslenska.pdf?sequence=1
-Morgunblaðið 4. ágúst 2007, Íslandsheimsókn Friðriks VIII. Danakonungs árið 1907, Lesbók Morgunblaðsins.

Friðrik VIII

Friðrik VIII. með ríkisþings- og alþingismönnum við Miðbæjarskólann í Reykjavík.