Seltún

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1943 lýsir Ólafur Þorvalddson “Fornum slóðum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar”.

„Gömlum vinum og gömlum götum á enginn að gleyma”.

Ólafur Þorvaldsson

Þetta segja frændur okkar Færeyingar, og væri gott, að fleiri minntust.
Með þennan málshátt í huga rifja ég hér upp minningar um nokkrar gamlar götur hér í nágrenni, sem voru fram á síðustu áratugi nokkuð fjölfarnar, en eru nú að mestu og flestar að öllu lagðar af, — hætt að fara þær. Ýmist hafa þessar götur lagzt af vegna þess, að girðingar hafa verið settar um þær þverar eða sökum þess, að nýir vegir hafa verið lagðir og þeir að sjálfsögðu farnir nú, þar sem flest farartæki, sem nú eru mest notuð, eru þannig, að krókóttir götuslóðar, sem aðeins voru ætlaðir manna- og hestafótum, koma þeim ekki að notum.
Þessar gömlu götur og vegir, því að nokkuð af þeim kallaðist vegir, annað götur eða stígar, búa í þögn sinni og yfirgróningu yfir margra alda óskráðum minningum um alla þá menn, sem þar hafa um ferðazt; um alla þá erfiðleika, sem þeir áttu við að etja, á jafntorfærum leiðum og margar þeirra voru, — en voru þrátt fyrir allt leið manna um landið frá landnámstíð fram á vora daga.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Þær búa líka yfir mörgum ánægjustundum vegfarenda, sem svo oft síðar var vitnað til, að þetta eða hitt hefði borið við á þessum leiðum. Efast ég um, að fólk, sem ferðast nú um landið eftir dýrum vegum, á dýrum farartækjum nútímans, eigi ánægjulegri og bjartari minningar að ferðalokum en þessar fornu og nú yfirgefnu slóðir veittu oft og einatt þeim, sem um þær fóru á sínum tíma.
Flestar hafa þessar götur orðið til smám saman af umferð manna og hesta, og hafa margar þeirra verið mjög fjölfarnar, t. d. sést víða, þar sem leiðir liggja yfir hraunhellur, að hesthófurinn með sínum pottuðu skeifum og oft líka pottuðu hestskónöglum, hefur sorfið götur oft 10—20 sm djúpar. Til þess að djúpar götur myndist í hart hraunið eða grágrýtisklappir, hefur umferðin hlotið að vera bæði mikil og það um langan tíma.

Krýsuvíkurgötur
Ég ætla nú að lýsa að nokkru vegum, götum og stígum, sem liggja milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur og oftast voru farnir. Að sjálfsögðu sleppi ég hér þeim nýja Krísuvíkurvegi, sem nú er að mestu fullger. Þó á hann þegar nokkra sögu, en hún er annars eðlis og skal ekki rakin hér.

Kaldárselsgata

Kaldárselsgata.

Fyrst skal hér lýst þeim vegi, sem mest var farinn og aðallega, þegar farið var með hesta. Vegur sá var tekinn úr Hafnarfirði öðru hvoru megin Hamarskotshamars, upp yfir Öldur, þar sem nú er kirkjugarður Hafnfirðinga, upp í Lækjarbotna, með Gráhelluhrauni sunnanverðu, upp að Gjám, sem er hraunbelti frá því móts við Fremstahöfða, upp í Kaldársel. Þar var venjulega aðeins staldrað við, hestar látnir drekka, þegar farið var yfir ána, því að oftast var ekki um annað vatn að ræða, fyrr en til Krýsuvíkur var komið.

Frá Kaldárseli lá leiðin yfir smáhraunbelti, unz komið var að Undirhlíðum. Lá vegurinn suður með þeim, víða allsæmilegur, moldar- og melgötur. Vegurinn liggur yfir eitt hraunhaft, norðarlega með Undirhlíðum, kringum eldvörp þau, sem Ker heita, og hefur hraun streymt þar upp undan hlíðinni á vinstri hönd, þegar suður er farið.

Kerin

Kerin í Undirhlíðum.

Syðst með Undirhlíðum, eða nokkru sunnar en Stórihríshvammur, er farið yfir mel úr rauðu gjalli, og heitir sá melur Vatnsskarðsháls, þaðan er stutt í Vatnsskarð, þar sem hinn nýi vegur liggur nú úr hrauninu upp á hálsinn. Í Vatnsskarði var talin hálfnuð leiðin milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Venjulega var áð þar snöggvast, lagað á hestunum, gert að, sem kallað var, stundum kippt ofan, einkum ef lest var ekki þung. Þegar lagt er upp úr Vatnsskarði, taka við hinir svonefndu Hálsar, réttu nafni Sveifluháls, og má segja, að suður með hálsinum sé góður vegur. Sem næst þriggja stundarfjórðunga lestagang frá Vatnsskarði skerst dálítil melalda fram úr hálsinum, og heitir þar Norðlingaháls.

Köldunámur

Köldunámur.

Nokkru þar sunnar sjást í hálsinum leifar af brennisteinshverum, og heitir það svæði Köldunámur. Þar litlu sunnar tekur við stór grasflöt, sem Hofmannaflöt heitir. Við suðurenda hennar rís upp úr hálsinum hæsti tindur Sveifluháls, sem Miðdagshnjúkur heitir. Veit ég ekki, hvernig það nafn er til orðið, — en gamalt er það. Ef um dagsmörk er að ræða í því sambandi, getur það ekki komið frá Krýsuvík. Fremur gæti það átt við frá Hvaleyri eða Ási eða annars staðar í grennd Hafnarfjarðar. Þegar Hofmannaflöt sleppir, er skammt ófarið að Ketilsstíg, þar sem vegurinn liggur upp yfir hálsinn. Stór steinn er á hægri hönd og á honum dálítil varða, og er það leiðarmerki um það, að þeir, sem til Krýsuvíkur ætluðu, tækju stíginn upp í hálsinn, en héldu ekki lengra suður með, því að sá vegur lá til Vigdísarvalla og enda alla leið suður fyrir háls, og er syðsti útvörður þessa langa og tindótta háls, fagurt, keilulagað fell, — Mælifell. Þegar Ketilsstígur er tekinn, liggur vegurinn fyrst upp allbratt klettahögg, en þegar upp á það er komið, liggur Ketillinn svo að segja fyrir fótum manns. Ketillinn er kringlóttur, djúpur dalur eða skál inn og ofan í hálsinn. Grasflöt er í botni Ketilsins, sem er svo djúpur, að botn hans mun vera jafn undirlendinu fyrir neðan Hálsinn.

Seltún

Seltún.

Vestur- og norðvesturbrún Ketilsins er þunnur móbergshringur, en norður-, austur- og suðurhliðar eru hálsinn sjálfur upp á brún, og er hæð hans þar um 350 m. Ketilsstígur liggur því í fullan hálfhring um Ketilinn, hærra og hærra, þar til á brún kemur. Láta mun nærri, að verið sé 30—4 5 mín. upp stíginn með lest, enda sama þótt lausir hestar væru, því að flestir teymdu hesta sína upp stíginn. Ketilsstígur er tvímælalaust erfiðasti kaflinn á þessari hér um ræddu leið. Slæmt þótti, ef laga þurfti á hestum í stígnum, og búast mátti við, ef baggi hrökk af klakk, hvort heldur var á uppleið eða ofan, að hann þá, ef svo var lagaður, ylti langt niður, því að utan stígsins, sem heita má snarbrattur, eru mest sléttar skriður ofan í Ketilbotn.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Ketilsstígur er mjög erfiður klyfjahestum og sízt betri niður að fara en upp. Þegar upp á brún kemur, sést, að hálsinn er klofinn nokkuð langt norður, allt norður að Miðdagshnjúk, og eru í þeirri klauf sanddalir, sem Folaldadalir heita. Af vestari brún hálsins liggur vegurinn spölkorn eftir sléttum mel til suðausturs, og blasir þar við hæsta nípa á austurbrún hálsins og heitir Arnarnípa.

Seltún

Seltún.

Litlu sunnar er komið að dálitlu stöðuvatni, sem Arnarvatn heitir. Eftir það fer að halla niður af hálsinum að sunnan, og er nú ekki eins bratt og að vestan, þar til komið er fram á síðari brekkuna, sem er brött, en stutt. Þegar brekkunni sleppir, er komið í grashvamm, sem Seltún heitir. Allur er hálsinn uppi, norðan vegar, gróðurlaus, en sunnan vegar er sæmilegur gróður. Allhár og umfangsmikill hnjúkur er sunnan vegarins, þegar austur af er farið, og heitir sá Hattur. Víðsýnt er af vesturbrún Sveifluháls, þaðan sér yfir allan Faxaflóa, allt til Snæfellsness, en af austurbrún blasir Atlantshafið við, sunnan Reykjaness. Þegar í Seltún kemur, er talið, að komið sé til Krýsuvíkur, þó er um einnar stundar lestagangur heim að Krýsuvík. Í Seltúni eru nokkrir leirhverir, og kraumar í sumum græn leðja, aðrir eru dauðir. Ur Seltúnshvamminum er farið yfir alldjúpt gil, Selgil. Á sumrum seytlar þar vatn í botni, en á vetrum getur það orðið ófært með hesta sökum fannar, sem í það skeflir, þar eð gilið er djúpt og krappt.

Seltún

Námuhús Brennisteinsfélagsins við Seltúnsbarð.

Sunnan gilsins er Seltúnsbarð, og stóðu þar fram yfir aldamót síðustu tvö allstór timburhús, sem enskt félag, er rak brennisteinsnám þar og í Brennisteinsfjöllum á síðari hluta nítjándu aldar, reisti þar. Nú eru þessi hús löngu horfin. Af Seltúnsbarði er haldið yfir svonefnda Vaðla.

Grænavatn

Grænavatn.

Eftir það taka við melar, og liggur vegurinn þar á vesturbakka Grænavatns. Nokkru norðvestar er Gestsstaðavatn, umlukt háum melum, og sést ekki af veginum. Þegar Grænavatni sleppir, er örstuttur spölur suður á móts við Nýjabæina, Stóri-Nýibær til vinstri, Litli-Nýibær til hægri, og þar með komið í Krýsuvíkurhverfi. Milli Nýjabæjanna og heimajarðarinnar Krýsuvíkur er um 12 mín. gangur. Tún heimajarðarinnar liggur sunnan undir og uppi í Bæjarfelli, en bæjarhús, kirkjan og kirkjugarðurinn standa á hól eða hrygg sunnarlega á túninu.
Hér hefur verið lýst að nokkru aðalveginum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, sem, eins og fyrr segir, var oftast farinn og aðalleið á sumrin, þegar farið var lausríðandi eða með lest, og var þessi leið talin um 8 klst. lestagangur.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi við Ketilsstíg.

Þá mun ég hér að nokkru lýsa tveimur stígum, sem vestar liggja og aðallega voru farnir af gangandi mönnum, svo og ef farið var með fáa hesta að vetrarlagi, bæði af því að þessar leiðir lágu mun beinna við til Hafnarfjarðar eða frá, svo líka eftir því, hvernig snjór lá, ef mikill var.

Krýsuvíkurgata

Krýsuvíkurgatan milli Grænavatns og Krýsuvíkurbæjar.

Ef snjó setti niður af austri eða norðaustri, t. d. meðan menn höfðu viðdvöl í kaupstaðnum, var venjulega snjóléttara á þessum leiðum en með Undirhlíðum og Hálsum. Hins vegar gat síðartalda leiðin verið snjóminni, ef mikið snjóaði af suðvestri. Þetta þekktu rnenn af langri reynslu. Annars voru vetrarferðir fátíðar með hesta milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Þó kom fyrir, að farið var fyrir jólin, aðallega þá með rjúpur til að selja, svo og stöku sinnum á útmánuðum. Venjulega fóru menn vetrarferðir, ef farnar voru, gangandi, og ýmist báru menn þá eða drógu á sleða það, sem með var verið. Stillt var svo til, að tungl væri í vexti og færi og veðurútlit sem ákjósanlegast. Margir voru þá mjög veðurglöggir, og var þar eftir ýmsu að fara, sem löng reynsla, ásamt skarpri eftirtekt kenndi mönnum.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Þegar ferðamenn fetuðu Stórhöfðastíg, var farið frá Hafnarfirði upp hjá Jófríðarstöðum, um hlaðið í Ási, oft gist þar, ef menn t. d. komu frá Reykjavík. Frá Ási var farið suður úr Skarði, yfir Bleiksteinsháls, suður yfir Selhraun, vestan undir Stórhöfða, nokkurn spöl suðaustur með honum, lagt á hraunið frá suðurhorni hans, fyrst um gamalt klappahraun, þar til komið var á nýrra brunabelti, sem á sínum tíma hefur runnið ofan á gamla hraunið. Gegnum nýja brunann liggur stígur eða gata, sem enginn veit, hvenær ruddur hefur verið, annars með öllu ófær hestum.

Snókalönd

Snókalönd.

Í nýja brunanum, spölkorn austur af stígnum, eru tveir dálitlir blettir eða hólmar, sem bruninn hefur ekki náð að renna yfir. Hólmar þessir heita Snókalönd. Ekki ber þau hærra en umhverfið og sjást því ekki lengra til, og helzt ekki fyrr en að er komið. Hestfær götuslóð liggur norður í Snókalönd, nokkru austar en þar, sem Stórhöfðastígurinn kemur suður úr brunanum. Ekki eru Snókalöndin jafnstór, það vestra nokkru stærra, og slóð á milli. Hvað liggur til grundvallar þessu nafni, veit víst enginn lengur, en á tvennt mætti benda. Í fyrra lagi, að þarna hafi vaxið villihvönn, snókahvönn — geitla. Í öðru lagi, að blettir þessir, sem hafa verið miklu gróðurríkari en umhverfið, hafi fengið nafn sem land af töngum þeim og hornum, sem hinn ójafni brunakantur myndar þarna í grennd, og gæti því þýtt „Krókalönd”.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur norðan Snókalanda.

Í orðabók Blöndals segir, að snókur sé angi eða útskiki út frá öðru stærra. Gætu því tangar þeir, sem út úr brunanum ganga, verið stofn að þessu nafni. Þó finnst mér fyrri tilgátan sennilegri. Líkur benda til, að þarna hafi verið nokkur skógur og máske verið gert þar til kola fyrrum.
Gatan út í Snókalöndin bendir á nokkra umferð þangað. Sökum fjarlægðar þessa staðar frá alfaraleið óttast ég, að svo geti farið, að hann gleymist og nafnið týnist, þar sem þeir, er mest fóru þar um og héldu með því við mörgum örnefnum, voru fjármenn og smalar, en þeim fækkar óðum um þessar slóðir sem víðar.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Af þessum orsökum get ég hér þessara litlu hólma með hinu fágæta og fallega nafni. Þess má geta, að gren er í vestara Snókalandinu — Snókalandagren. Þegar suður úr brunanum kemur, liggur stígurinn upp með suðvesturbrún hans, og fylgir maður brunanum, þar til komið er móts við Vatnsskarð í Undirhlíðum, sem farið er þá að nálgast. Úr því liggur stígurinn meira til suðurs, þar til komið er að Fjallinu eina. Er það fremur lágt, hrygglaga fjall með klettaborg á suðurenda. Austan undir því liggur stígurinn, og er þá Sandfell á vinstri hönd allnærri. Er nú stutt þar til komið er á Undirhlíðaveginn, skammt suður af Sandfellsklofa.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Stórhöfðastíg fóru stundum lausríðandi menn frá Krýsuvík til Hafnarfjarðar. Fóru þá sem leið lá inn með hálsum, þar sem sú leið er allgóður reiðvegur, þar til kom á móts við, þar sem Stórhöfðastígurinn lá vestur á milli Fjallsins eina og Sandfells. Sá stígur var stundum tekinn, því að við það féll úr mikill krókur, inn með Undirhlíðum um Kaldársel, en hitt bein lína til Hafnarfjarðar. Þó að Stórhöfðastígurinn sé frekar slitróttur, var gott að láta hestinn njóta hægu ferðarinnar, en jafnsnemma komið til Hafnarfjarðar eða fyrr, þrátt fyrir stirðari veg.

Hrauntungustígur

Þeir, sem ætluðu sér Hrauntungustíg frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur, fóru um Jófríðarstaði að Ási, þaðan um skarð vestan Ásfjallsaxlar, yfir hraunhaft milli Grísaness og Hamraness, undir vesturenda þess, austur að stórum steini flötum ofan, sem er þar stakur á jafnsléttu.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Frá Hrauntungustíg er farið suður á gamalt helluhraun um 10 mínútur, þá tekur við Nýibruni eða Háibruni, sem runnið hefur ofan á eldra hraunið. Gegnum brunann er, eins og á Stórhöfðastíg, rudd allgreiðfær gata, sennilega gerð á svipuðum tíma og Stórhöfðastígur, en hver það hefur látið gera, veit víst enginn, en mjög gamlar eru þessar vegabætur, og eru þær sennilega fyrstu vegabætur, sem gerðar hafa verið til Krýsuvíkur.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur – vegvísir.

Gegnum Háabrunann er sem næst 20 mín. gangur með lest, og þegar á suðurbrún hans kemur, ganga til beggja handa suður úr brunanum tvær brunatungur, sem stígurinn liggur suður á milli, og ná þessar tungur spölkorn suður á svokallaðan Almenning, sem er nú búfjárhagar Hraunajarðanna, en hefur fyrr á öldum, eins og nafnið bendir til, verið frjáls til afnota fleiri en Hraunabændum, t. d. til kolagerðar, og sjást þar enn allvíða leifar gamalla kolagrafa. Af brunatungum þessum tel ég víst, að stígurinn hafi nafn fengið, Hrauntungustígur.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Eftir að suður úr Hrauntungum kemur, er óglögg, sums staðar jafnvel engin gata, og verður því sjónhending að ráða, enda torfærulaust yfir kjarri vaxið lágahraun, en allt á fótinn. Þegar kemur dálítið upp í Almenninginn, fer maður nálægt gömlu selstæði, sem Gjásel heitir, og er þar venjulega vatn.

Gjásel

Gjásel.

Sennilega hefur þar verið haft í seli frá Þorbjarnarstöðum eða Stóra-Lambhaga í Hraunum. Nokkru austar er annað selstæði, sem Fornasel heitir. Þegar suður á há-Almenning kemur og útsýnið víkkar til suðurs, sést hár klettahryggur í suðvestur, og eru það Sauðabrekkur. Norður af þeim er farið yfir víða og djúpa gjá, á jarðbrú, Sauðabrekkugjá, eftir það er komið á svonefnda Mosa, sem er flatt grámosahraun, og er gata þar allglögg. Þá er hár brunahryggur, sem liggur frá norðri til suðurs á vinstri hönd og heitir Hrútagjá, Hrútadalir þar suður af. Þegar Mosum sleppir, hefur maður Mávahlíðarhnjúk og Mávahlíðar skammt sunnar á hægri hönd. Móti Mávahlíðum syðst er komið í Hrúthólma; er það langur, en fremur þunnur melhryggur, nokkuð gróinn neðan, öllum megin, smávin í þessari brunaeyðimörk.

Hrúthólmi

Hrúthólmi.

Þegar úr Hrúthólma er farið, taka við sléttar hraunhellur, ágætar yfirferðar. Sunnarlega á þessum hellum er stakt móbergsfell, Hrútafell. Þegar á móts við það kemur, en það er nokkuð til hægri við stíginn, er stutt þar til komið er á sumarveg Krýsuvíkur, skammt norðan Ketilsstígs. Þessi leið, sem hér hefur lýst verið að nokkru, var að heita má eingöngu farin af gangandi mönnum, og stundum ráku Krýsvíkingar fé til förgunar þessa leið. Sömuleiðis kom fyrir, að hún var farin af Herdísarvíkurmönnum, svo og Selvogsbúum, þegar þeir ráku fé í kaupstað, ef snjór var fallinn á fjallið og Kerlingarskarð, sem annars var þeirra aðalleið til Hafnarfjarðar og Reykjavíkur.
Hér hefur þá nokkuð ýtarlega verið gerð tilraun til að lýsa þeim þremur höfuðleiðum, sem lágu milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, frá því þar varð fyrst byggð, fram á síðustu ár.

Óttarsstaðasel

Rauðamelsstígur.

Að lokum vil ég svo geta að nokkru fjórðu leiðarinnar, sem kom fyrir, að Krýsvíkingar fóru, ef með hesta voru fyrir neðan, þ . e. í Hafnarfirði, og dreif niður svo miklum snjó, að hinum leiðunum var engri treyst. Þá gat þessi leið verið fær. Leið þessi lá frá byggð í Hraunum sunnan Hafnarfjarðar.

Óttarsstaðaselsstígur

Óttarsstaðaselsstígur (Rauðmelsstígur).

Þegar menn fóru þessa leið, var venjulega farið út af Suðurnesjaveginum, norðan Rauðamels, skammt sunnan Óttarsstaða, um Óttarsstaðasel, vestan undir Skógarnefjum, sunnan Einihlíða, en norðan Lambafells, fram hjá afar stórum klettum, sem eru einstæðir á sléttum mosaflákum og Bögguklettar heita, þaðan yfir brunatagl, sem liggur upp að norðurhálsi Trölladyngju, upp slóða yfir hálsinn, síðan yfir helluhraun slétt norðan Hörðuvalla, sem er nokkurt undirlendi mót norðri, milli Trölladyngju og Grænudyngju. Þá er komið að fjalli, sem Fíflavallafjall heitir, og farið nokkuð suður með því að austan, þar til komið er undir Stórusteinabrekku, þaðan liggur stígurinn yfir slétt helluhraun norðan Hrútafells, unz komið er á stíginn upp úr Hrúthólma, sem er á Hrauntungustígsleið, sem áður getur.

Önnur leið upp úr Hraunum lá nokkru norðar, — eða upp frá Þorbjarnarstöðum, venjulega norðan Draughólshrauns, um Straumsel, norðan Gömluþúfu, sem er hár og umfangsmikill klettur upp úr hæstu hæð Hraunaskógar (Almennings). Þegar upp fyrir Gömluþúfu kom, mátti fara hvort menn vildu heldur, austan eða vestan Sauðabrekkna, og var komið á Hrauntungustíg norðan Mávahlíða.

Straumsselsstígur

Straumsselsstígur – Fornasels- og Gjáselsstígur.

Þessi leið var helzt farin af Hraunamönnum, er svo voru almennt kallaðir, sem fóru aðallega til fjárleita haust og vor til Krýsuvíkur, svo og af Krýsvíkingum, þegar fyrir kom, að þeir sóttu sjóföng til Hraunabænda, því að meðan Hraunajarðir voru almennt í byggð sem bændabýli, sem var fram yfir síðustu aldamót, — enda tvær jarðir enn —, var þaðan mikil sjósókn.

Hellan

Hellan vestan Kleifarvatns.

Áður en við yfirgefum þessar slóðir að fullu, skulum við nú, þegar við hverfum frá Krýsuvík að þessu sinni, fara leið, sem við höfum ekki áður farið. Þessi leið er hin svonefnda Vatns- eða Dalaleið. Nú vill svo til, að nokkur kafli hins nýja vegar frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur liggur með Kleifarvatni að vestan, svo að nú gefst fleiri mönnum kostur á að fara þessa leið en áður var.

Þessi leið mun ekki hafa talizt til höfuðleiða milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, enda sjaldan farin, og þá helzt á vetrum. Þó tel ég hana ekki með öllu ómerkilega, og ber fleira til en eitt. Það er þá fyrst, að þessi leið er stytzta og beinasta lestaleiðin milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Hún er greiðasta og hægasta leiðin. Hún liggur í sérkennilegu og fögru umhverfi. Hún var nokkrum annmörkum háð, — og hún gat verið hættuleg.

Gvendarsel

Askur í Gvendarseli við Bakhlíðar.

Þessa leið var ekki hægt að fara, jafnvel svo árum skipti, nema ísar væru tryggir, og lágu til þess tvær meginástæður. Annars vegar réðu hér um vetrarhörkur, hins vegar náttúrufyrirbæri, sem enn eru óskýrð, svo að fullsannað sé. Hér kom fram sem oftar, að ekki fóru ávallt saman óskir ferðamannsins og lögmál náttúrunnar. Til þess að hægt væri að fara þessa leið með hesía að vetri til, varð Kleifarvatn að vera á hestís. Reynslu voru menn búnir að fá fyrir því, að Kleifarvatni var ekki að treysta á ís með hesta fyrr en eftir vetrarsólhvörf.

Hellan

Krýsuvíkurvegurinn um Helluna undir Sveifluhálsi. Dalaleiðin lá ofar á Hellunni.

Meginorsök þess, hve vatnið leggur seint, er vafalaust sú, að allmikill hiti er í botni þess, sér í lagi að sunnanverðu, og hafa, þegar vatnið er lítið, verið talin þar milli 10 og 20 hveraaugu, sem spýta sjóðheitri gufu upp í vatnið og í loft upp, þegar út af þeim fjarar. Hvað sem um skoðanir manna og reynslu í þessu efni er að segja, er hitt víst, að frosthörkur voru venjulega meiri og stóðu oft lengur, eftir að kom fram yfir miðjan vetur. Hins vegar var vorís ekki treyst, þótt þykkur væri.
Á þessari leið gátu ísar verið ótryggir víðar en á Kleifarvatni, sem síðar mun að vikið. Á öðrum árstíðum, þegar menn hefðu gjarnan viljað fara þessa leið með hesta, gat það dottið í Kleifarvatn að banna ferðir manna, svo að árum skipti. Þar kemur leyndardómur Kleifarvatns til sögunnar. Kleifarvatn hefur frá ómunatíð verið mjög breytilegt að vatnsmagni. Það er háð eins konar flóði og fjöru, útfalli og aðfalli, — en þetta gerðist ekki allt á einum sólarhring. Annað fallið tekur, eftir reynslu margra kynslóða, hvorki meira né minna en 12 — 20 ár, getur verið nokkuð breytilegt til eða frá. Hvað veldur þessari hreyfingu á vatninu, er, að því er ég bezt veit, ósannað enn, þrátt fyrir ýmsar minni háttar rannsóknir, sem venjulega hafa endað á getgátum sitt á hvað.

Gullbringa

Gullbringa.

Landi því, sem að Kleifarvatni liggur, er þannig háttað í höfuðdráttum: Fyrir suðausturenda vatnsins er móbergshöfði, sem gengur í vatn fram og heitir Geithöfði. Þá nokkru lengra til suðausturs er hæðabunga, sem Gullbringa heitir. Þá tekur við grámosahraun, sem steypzt hefur fram af fjallinu norðan Vörðufells og runnið í mjóu belti í vatn fram og heitir Hvannahraun. Eftir það tekur Vatnshlíðin við, brött og nokkuð grafin af giljum, sem ófær eru hestum, og þar með lokast leiðin austan Kleifarvatns, því að vatnið liggur upp að hlíðinni, en stórgrýtt er í botni við landið.
Innst í Vatnshlíðinni eru Hrossabrekkur, brattar og giljóttar. Þegar yfir þær er komið, telst, að komið sé inn fyrir Kleifarvatn að austan. Vestan Kleifarvatns liggur Sveifluháls, brattur, tindóttur og svipmikill. Tveir stapar skaga austur úr hálsinum út í vatnið og heita Syðri- og Innri-Stapi. Vegurinn liggur uppi á stöpunum, en milli þeirra gengur klettarani fram að vatninu, en til þess að menn kæmust leiðar sinnar með vatninu, varð að komast framan undir þessum klettarana, en til þess að hægt væri að komast þar með klyfjahesta, varð vatnið að vera allmikið fjarað, — eða lítið vaxið, ef í vexti var.

Kleifarvatn

Innri-Stapi.

Nokkru innar en Innri-Stapi gengur hálsinn eða hamar úr honum þverhnípt í vatn á litlum spöl. Þarna er hin svonefnda Hella. Þegar hátt var í vatninu, náði það upp í Helluna, en stórgrýtt er í botni undir hamrinum. Einstigi, aðeins fyrir gangandi menn, lá eftir Hellunni um 10—20 m ofar vatni, en svo var stígur þessi tæpur, að ekki fóru hann nema stöku menn, og það aðeins þegar autt var, og þá sumir á sokkaleistum, og lofthræddir fóru þar alls ekki. Þegar inn fyrir Helluna kom, voru torfærur á Vatnsleiðinni yfirstígnar. Að öðru leyti var þessi leið sem hér segir: Þegar farið var frá Krýsuvík, var venjan að vetri til að fara inn með Lambafellum, yfir Svuntulækinn, milli Lambafells og Norðurkotsness, þaðan beint inn Nýjaland og inn á Kleifarvatn. Væri hins vegar farið á auðu, var farið úr Norðurkotsnesi, vestan við Nýjaland um Kaldrana. Á Kaldrana er sagt að ein hjáleiga Krýsuvíkur hafi verið fyrr meir, og segja munnmæli, að hún hafi eyðzt vegna álaga, sem mæltu svo um, að allur silungur í Kleifarvatni skyldi að loðsilung verða, en hann á óætur að vera, samanber vísu þá, sem sagt er, að kveðin hafi verið á glugga í Krýsuvík, eftir að fólkið á Kaldrana hafði étið silunginn, en það vissi ekki, að það var búið að gera hann að umskiptingi. Vísuna hef ég lært þannig:

Liggur andvana
lýður á Kaldrana,
utan ein niðurseta,
sem ei vildi eta.

Kaldrani

Tóftir Kaldrana.

Nú sjást engin merki um býlið á Kaldrana, en staðinn geta menn enn bent á. (Saga þessi er í Þjóðs. Jóns Árnasonar I, bls. 636—37. Í nafnaskrá er gert ráð fyrir, að bærinn sé Kaldrani á Skaga, enda er Kleifarvatn ekki nefnt á nafn í sögunni. Sbr. þó Árbók fornl.fél. 1903, bls. 50.)
Af Kaldrana liggur leiðin inn yfir Sand, um Syðri-Stapa. Eftir það var farið ýmist alveg með vatninu eða aðeins ofar, þar til komið er inn fyrir Hellu. Eftir það sléttur sandur, þar til komið er inn á Blesaflöt. Þegar á hæðina kemur innan Blesaflatar, opnast útsýn til norðurs og norðausturs. Til norðausturs sér inn með Lönguhlíð allt til Grindaskarða, og lengra í sömu átt sér til Vífilfells og Hengils. Mestallt land í þessum víða fjallafaðmi, milli Lönguhlíðar og allt til Vífilfells annars vegar, allt í sjó fram, sunnan Reykjaness til Hafnarfjarðar hins vegar, að nokkrum smærri fjöllum og hlíðum undanteknum, — er brunnið land, hraun á hraun ofan. Öll eru hraun þessi mosavaxin, og allvíða annar gróður, svo sem viðarkjarr, lyng, víðir, einir og margs konar grasategundir.

Breiðdalur

Breiðdalur – Helgafell fjær.

Þó að land þetta sýnist auðnarlegt og gróðursnautt yfir að líta, er hér mörg matarholan fyrir búpening manna og margur fagur blettur og aðlaðandi, þegar lærzt hefur að þekkja þá.
Af áður umgetinni hæð innan Blesaflatar liggur gatan inn á Breiðdal, sem sendinn er að sunnanverðu, en að austan og norðan samfelldur harðvellisgróður og sem tún yfir að líta. Upp úr norðurbotni Breiðdals er farið yfir allbratt melhaft, og þegar norður af því kemur, er komið í Syðri-Leirdal, sem er aðeins sandur og leir, og má svo heita, að samtengdur sé innsta dalnum á þessari leið — Slysadal. Það nafn mun þessi dalur hafa fengið á síðari helmingi nítjándu aldar, eftir að vinnumaður frá Krýsuvík, sem var á leið til Hafnarfjarðar, missti þar ofan um ís þrjá hesta, sem allir fórust.

Slysadalur

Slysadalur.

Í öllum þessum dölum er að vísu allmikið vatn á vetrum, sem svo leggur í frostum, og ættu þeir því ekki að vera hættulegri yfirferðar en Kleifarvatn. Hér hefur áreiðanlega einstök slysni hent þennan umrædda ferðamann, þar eð hann var klaklaust kominn yfir Kleifarvatn og syðri dalina. En svo er háttað, að nyrzt á Slysadal, þar sem hann er gróinn sem tún væri, eru jarðföll nokkur, sem sennilega hafa myndazt þar, sem vatn hefur hlaupið í jörð á vorin.

Leirdalur

Slysadalir / Leirdalur – Helgafell fjær.

Jarðföll þessi eru að vísu ekki djúp, 2—4 m, en nógu djúp til þess, að þegar vatn er og ísar yfir öllu, er í þeim meira vatn en svo, að hestar nái niðri, ef ofan í lenda. Af þessu má ráða, að ferðamaðurinn hafi verið svo óheppinn, að leið hans hafi legið yfir eitthvert jarðfallið, þar eð þau flest eru nærri götu, vatn verið hlaupið undan ísnum og hol komið milli íss og vatns, og ísinn þar með misst viðhald að neðan, sem svo leiddi til þess, að ísinn brast undan þunga hestanna. Hafi þetta slys þannig að borið, var vonlaust fyrir einn mann að bjarga hestunum, enda tókst það ekki.
Þegar Slysadal sleppir, er komið á Bakhlíðar. Liggur gatan með þeim, um smáhæðir og daladrög, þar til komið er á Gvendarselshæð. Þar var haft í seli á síðustu öld, og sagt hefur verið, að þar hafi svo þykkur rjómi verið á trogum, að haldið hafi uppi vænni silfurskeið, aðrir segja skaflaskeifu.

Kaldársel

Kaldársel – gamla gatan.

Frá Gvendarseli er stutt, þar til farið er ofan af Undirhlíðum, í Kúadal, og þá komið á Krýsuvíkurleið, aðalleið, skammt sunnan Kaldársels. Þótt þessi leið væri heldur fáfarin sökum annmarka, fannst mér hún þess verð, að hennar væri að nokkru getið.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Hér skal ekki fjölyrt um Krýsuvík, þetta forna stórbýli með 10 hjáleigum sínum, — þótt nú séu bæirnir hrundir og löndin auð — , sem áður var sérstök kirkjusókn og allar þessar leiðir lágu til. Þó er hún á svo margan hátt stórbrotin og merkileg jörð, að vel væri til fallið, að saga hennar væri skráð. Allar þær leiðir, sem hér hafa verið að nokkru teknar til lýsingar, er nú hætt að fara. Fyrir sumum þeim, sem einhvern tíma hafa farið þær, eru þær nú gleymdar og týndar, fyrir fjöldanum nú með öllu ókunnar, og fæstir vita, að þær hafi nokkurn tíma til verið.

Litli-Nýibær

Litli-Nýibær í Krýsuvík.

Fer því um þær eins og annað það, sem úr gildi fellur og hætt er að nota, að yfir þær fyrnist með öllu, þær gleymast, týnast, og með þeim mörg örnefni, sem staðið hafa og standa í órofa sambandi við þær, flest ef ekki öll svo vel heitin, að nútíðin eða framtíðin mun trauðla fylla þau skörð, þar sem gömul nöfn týnast, ef þá nokkurn tíma verður reynt að bæta fyrir það virðingar- og ræktarleysi þjóðarinnar að hafa gleymt og glatað gömlu örnefnunum og gömlu götunum, gleymt gömlum vinum.

Heimild:
Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, Ólafur Þorvaldsson,01.01.1943, bls. 6 og 83-95.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Stafnes

Í Árbók Hins ísl. fornleifafélags árið 1903 er að finna grein Brynjúlfs Jónssonar; Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902. Fjallar hann þar m.a. um Stafnes, Básenda, Þórshöfn og Gamla Kirkjuvog við Ósa.

Stafnes

Stafnes

Stafnes – uppdráttur ÓSÁ.

er í fornum máldögum oftast kallað »Starues«, og ef það er upprunanafn bæjarins, bendir það til þess, að þar hafi í fyrri daga verið starengi. En hafi svo verið, þá er líklegast, að það sé uú komið í sjó. Skal eg ekkert um það segja. En sannfróðir eru menn um það, að þar hafa margar hjáleigur lagzt í eyði og þar af sumar af sjógangi.
Nokkrar af eyðihjáleigunum heyrði eg nefndar, og eru þær þessar: Urðabær, Sandhús, Refabær, Hólmabær, Gosa (Gosabær=Gottsvinsbærr), Vallarhús, Lodda (þ. e. Loðvíksstofa). Þar hefir víst verið einna bezt lýsing um aldamótin 1800, því þangað flúði Bátsendakaupmaður er kaupstaðurinn fór af. Nú sjást varla merki til tófta í Loddu, því öskuhaugur hefir seinna verið borinn ofan á þær og gróið upp sem hóll í túninu hjá heimabænum.

Stafnes

Stafnes – dómhringur.

Í túninu er ein at þessum hringmynduðu fornbyggingum, sem kallaðar eru »lögréttur«. Þessi er líka kölluð það. Hún er einkennileg og frábrugðin öllum öðrum, er eg hefi séð, að því leyti, að á henni eru 6 dyr eða hlið, sem skifta henni í 6 jafna parta. Mundi svara því að 2 sæti hefði verið undir hverjum parti. Að öðru leyti er ekki hægt að gizka á hvaða tilgang hlið þessi hafa haft. Og því óskiljanlegri eru þau, ef maður vill geta þess til, að hringurinn sé sáðgarður eða fjárrétt. Og ekki lítur þó út fyrir, að það séu skörð. Þau eru hér um bil jafnstór og jafnlangt milli þeirra, eins og þau séu skipulega sett af mönnum. Annað er hér þó ekki, sem bendir á þingstað, hvorki munnmæli né búðatóftir. Þær gætu að vísu verið horfnar. Sumstaðar hefir sandfok sléttað túnið.
Sumstaðar geta kot verið bygð ofan á búðatóftir. Á tveim stöðum, skamt frá »lögréttunni«, var eins og vottaði fyrir tóftum, en mjög var það óglögt, enda var þá þessi hluti túnsins ósleginn. Skal eg ekkert frekara um þetta segja.

Bátsendar

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

heita skamt fyrir austan Stafnes. Þar liggur strandlengjan til austurs inn í Ásabotna. Á Bátsendum var kaupstaður, sem kunnugt er, og stóð á hraunnefi milli tveggja mjórra víka. Var höfnin á eystri víkinni. Var innsigling fremur vandasöm, en höfn trygg er inn var komið, þó svo, að binda varð skipin á 3 vegu, en með því móti gátu 2 skip legið þar undir eins. Sér enn um fjöru, járnbolta þá, sem greiptir cru í klappirnar, til að festa skipin við. Hafa verið höggnar holur í klappirnar fyrir þá og blýi rent utan með þeim. Hraunnefið, sem kaupstaðurinn stóð á, er hæst framantil og var þar bær. Sér þar enn nokkuð af rúst bæjarins á grastorfu lítilli. Þar fyrir ofan er lægð yfir þeim þvert milli víkabotnanna og í þeirri lægð sér leifar af undirstöðum verzlunarhússins. Hefir það verið hér um bil 12 fðm. langt og 6 fðm. breitt. Þó er ekki öldungis víst, að það hafi verið alt eitt hús, svo óslitin er undirstaðan ekki. En útlit er til þess. Af kaupstaðnum sjást nú ekki aðrar leifar en nú hefir verið sagt. En miklar girðingar hafa verið þar fyrir ofan, líklega bæði túngarðar og jurtagarðar. En nú er þar alt blásið.

Básendar

Festarkengir á Básendum.

Kaupstaðurinn eyddist í flóðinu mikla nóttina fyrir 9. jan. 1800. Fólkið komst nauðulega undan, nema ein gömul kona, sem heldur kaus að verða eftir og taka því er guð vildi verða láta, en að reynt yrði að hrökklast með hana heim að Stafnesi. Síðasti kaupmaður á Bátsendum er nefndur I Hansen, danskur að ætt. Hann flúði til Loðvíksstofu, sem fyr getur. Um vorið fór hann utan og kom eigi aftur til Íslands.
Nafnið »Bátsendar« er óviðkunnanlegt og óefað afbökun. En hvað hefir það þá upprunalega veriðr Naumast getur það hafa verið »Bátsandar« (af: sandur), því að, þó þar sé blásið nú, þá hefir það eigi verið fyrrum, þá er nafnið var gefið. Og enn eru þar meiri klappir en sandar, bæði með sjónum og fyrir ofan, svo ástæðulítið virðist að gefa þar örnefni af söndum. Líklegra virðist mér, að þágufallsmyndin: »á Bátsendum« sé afbökun úr þágufallsmyndinni: að Bátsundum (af: sund). Það nafn hefði getað átt við sjávarsund þar fyrir framan. Og alkunnugt er, að bæjarnöfn og önnur örnefni eru langoftast nefnd í þágufalli hér á landi. Verður það því jafnan, eí þágufallið afbakast, að sú afbökun verður ósjálfrátt fram einnig í öðrum föllum.

Þórshöfn

Þórshöfn

Þórshöfn.

heitir vík ein, löngum spöl fyrir innan Bátsenda.

Hallgrímshellan

“Hallgrímshellan” í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Þar er þrautalending og óbrigðul höfn í öllum norðlægum áttum. Þó eru þar engin mannvirki að sjá, enginn vottur þess, að þar hafi bygð verið, enda er engin sögn um það. En því get eg Þórshafnar, að mér þykir það líklegt, að sveitarnafnið »Hafnir* sé þannig myndað, að miðað hafi verið við Þórshöfn og Kirkjuhöfn, sem eru andspænis hvor annari út með Hafnavík, sín hvorumegin. Mun þeirri sveit hafa verið tileinkað alt svæðið milli þessara hafna.

Milli Bátsenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinnværi í með áhöggnu fangamarki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; íangamarkið er HP; en ártalið er 1728.

Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur – uppdráttur ÓSÁ.

hefir til forna staðið langt inn með Ósum að norðanverðu. Ósarnir eru sem dálítill fjörður, sem gengur til austurs inn úr Hafnavík. Inst skiftist hann í smávoga, og kallast þeir Ósabotnar. Er löng bæjarleið frá Þórshöfn inn að KirkjuVógi forna. Þar sem bærinn var, er rústabunga mikil. Þar er alt nú blásið hraun, þó er rústin að nokkru leyti grasgróin. Er eigi hægt að sjá grein á húsaskipun og eigi sést með vissu hvar kirkjan hefir verið. En kunnugir menn vita það, því mannabein hafa fundist þar, er kirkjugarðurinn blés upp. Voru þau flutt að Kirkjuvogi. Var það nálægt aldamótunum 1800, að bein voru síðast flutt þaðan, en sagt er að nokkuð hafi verið flutt áður, smátt og smátt.”

Heimild:
-Árbók Hins ísl. fornleifafélags, 01.01.1903, Rannsókn í Gullbringusýslu og Ánessýslu sumarið 1902 eftir Brynjúlf Jónsson, bls. 39-41.

Ósabotnar

Ósabotnar – götukort.

Leiruvogur

Í fornleifaskráningu um Skiphól og Varmárbakka 2020 vegna deiliskipulagsbreytinga má lesa eftirfarandi um Skiphól og Hestaþinghól, auk bæjarrins Varmár í Mosfellsbæ.

Varmá

Varmá

Varmá – túnakort 1916

Jörðin Varmá kemur fyrir í heimildum þegar á 14. öld og var þar þá kirkja en hún lagðist af skömmu fyrir 1600. Jörðin er síðan nefnd í Fógetareikningum frá 1547-1552 og þá sem konungseign.

Varmá

Varmá – bæjarhóll.

Varmá var þingstaður og er fyrst getið sem slíks árið 1505.
Jörðin var áfram í konungseign við jarðaskráningu árin 1704 og 1847 og ábúendur tveir.

Varmá var svo lögð undir Lágafell um 1900.
Af Fasteignabókum má sjá að jörðin var ekki lengur í ábúð árin 1922-1932 og hefur ekki verið það síðan. Rústir gamla bæjarins eru greinilegar um 40-50 metra suðaustan og austan við Varmárskóla.

Varmá – Kirkja

Varmá

Varmá – uppgröftur kirkjutóftar.

Árin 1968 og 1969 fór fram fornleifauppgröftur að Varmá. Elsta tóftin, sem kom fram við uppgröftinn, var af lítilli kirkja úr kaþólsku. Þar var líklega vallgróin tóft 1721 en skömmu síðar er reist smiðja á staðnum.
Á nítjándu öld virðist hún fallin og er litlum kofa þá fundinn staður í tóftinni. Af rituðum heimildum er vitað um kirkju að Varmá á 14. öld. Messuhaldi er hætt þar á árunum 1554-1584. Að öðru leyti vísast til greinar Sveinbjarnar Rafnssonar „Kirkja frá síðmiðöldum að Varmá“.

Varmá

Varmá – uppgröftur kirkjutóftar.

Skv. ábendingu Hauks Níelssonar, bónda að Helgafelli, á kirkjan að hafa staðið um 5-7 m V við bæinn. Borið saman við mynd þá, sem birt er í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1970, bls. 32, virðist staðsetning Hauks nokkurn veginn rétt. Við byggingu skólans, sem er þarna vestan við, hefur verið ýtt fram mikilli möl og mold, þannig að nú er allhár bakki vestan við rústirnar. Líklega er kirkjan öll eða að hluta komin undir þennan bakka (Ágúst Ó. Georgsson).

Leiðir
Varmá
Á Herforingjaráðskortinu er að finna leið sunnan megin við hafnarsvæðið sem hefur verið sunnan Leiruvogs en er nú sunnan Köldukvíslar. Þessi leið hefur legið út í Langatanga og fram hjá Skiphól og komið þar sem eru krossgötur á austurbakka Varmár. Þessi leið hefur líka verið farin út að Hestaþingshól. Loks hefur legið leið niður að Skiphól frá bænum Varmá og sést hún líka á kortinu.

Skiphóll

Leiruvogur

Siglingar um Norður-Atlantshafið fyrrum.

Kålund nefnir Skiphól þegar árið 1877: „Nord for Guvenæs skærer sig Lervågene (Leiruvogur) eller som i oldskrifterne udtrykke sig Lerevågen (Leiruvágr) sig ind i landet; nu bruges ordet sædvanlig i flt., på grund af den huk Skibshol, som adskiller dem.“ Við örnefnaskráningu í Varmárlandi sagði Ari Gíslason: „Merkin móti Lágfelli eru frá Lækjarfarveg við sjó […]. Ef við höldum með sjó inn, þá er þar tangi fram í sjóinn og voginn. Þar eru tveir hólar. Heitir sá neðri Skiphóll, en sá, sem er ofar, er með þúfu á, og heitir hann Hestaþingshóll. Bendir nafn hans á forn hestaöt þarna niður við sjóinn. Hóll þessi er á tanganum, og ef vel er að gáð virðist þarna vera um gamalt mannvirki að gera.“ Árni Jónsson gerði athugasemdir við skráningu Ara og taldi að Skiphóll væri ofar: „Farið er út með Varmá að Skiphól ekki inn með. Skiphóll er ofar, Hestaþingshóll neðar.“

Skiphóll

Skiphóll.

Eins þarna kemur fram voru áður tveir hólar á svæðinu og nokkuð á reiki hvor hóllinn var Skiphóll. Samkvæmt Hauki Níelssyni, bónda á Helgafelli og heimildamanni við fornleifaskráningu árið 1980, var hóllinn næst Varmá nefndur Hestaþingshóll þótt sjálfur teldi hann líklegra, að það væri Skiphóll því þar væri betra skipalægi. Annar heimildamaður árið 1980, Einar Björnsson á Litla-Landi, var sömu skoðunar og sagði hólinn á Varmárbakka heita Skiphól. Einar ólst upp í Norður-Gröf í Kjalarneshreppi og var fyrrverandi bóndi á Skeggjastöðum og seinna Laxnesi og því mjög kunnugur staðháttum á svæðinu. Að hans sögn var byggingarefni fyrir Álafossverksmiðjuna skipað upp við Skipshól. Þar var líka skipað út heyi sem fór til Reykjavíkur og var notað sem fóður fyrir hesta. Einar taldi þó örnefnið vera eldra.

Skiphóll

Skiphóll.

Í „Lýsingu Mosfells- og Gufunessókna“ 1855 er fjallað um lendingar við Leiruvog: „Lendingar eru hér víðast góðar, því vogar þeir, er áður eru nefndir, skerast langt inn, svo að brimsjóir af hafi ganga sjaldan inn í þá, og eyjar þar, er einnig eru nefndar, eru til hlífðar við sjógangi. Í Þerney og Kollafirði eru góðar lendingar, sömuleiðis í Viðey og Gufunesi. Í Leiruvogum eru sléttar leirur og útgrynni mikið, en ekki sker eða boðar.“ Á fyrri öldum er eins og þarna stundum talað um Leiruvoga í fleirtölu; sjórinn virðist áður hafi teygt sig lengra inn og þá hefur mótað betur fyrir tveimur vogum við mynni ánna, Köldukvíslar og Varmár sunnar en Leirvogsár norðar. Landsvæðið á milli ánna nefnist Leirvogstunga. Vogarnir hafa hins vegar grynnkað með árframburði í aldanna rás og fleirtölumyndin Leiruvogar þá horfið úr málinu. Þegar nýleg kort af svæðinu eru borin saman við Herforingjaráðskort Dana frá árinu 1909 sést greinilega að landið nær lengra út nú en áður.
Í Landnámu og Íslendinga sögum er margsinnis getið um skipakomur í Leiruvog fyrir sunnan land eða neðan Heiði og er þá átt við Mosfellsheiði. Þarna hefur verið siglingastaður og ein mikilvægasta höfnin á suðvesturhorni landsins. Skjól var fyrir brimi og vindi af landi og hafnarskilyrði góð fyrir grunnrist skip. Á flóði hefur Leiruvogur verið skipgengur allt upp fyrir Hestaþingshól og að Skiphóli. Ætla má að skipum hafi verið lent við Skiphól allt frá þjóðveldisöld og þannig hefur örnefnið orðið til. Jafnframt er líklegt að þar hafi verið haldnar kaupstefnur þar sem skipt var á varningi sem skip komu með að utan og vörum heimamanna úr nærliggjandi sveitum.

Skiphóll

Skiphóll.

Skiphóll er lágur grasi vaxinn hóll á suðurbakka Köldukvíslar, skammt vestan við Varmá sem sameinast Köldukvísl rétt áður en hún rennur fram hjá hólnum. Hann er um 10 m sunnan árbakkans og um 20 m norðan við austasta hesthúsið. Hóllinn er sa. 26 x 21 m að stærð og 2,5 m á hæð. Birkitré hafa nú verið sett niður í hálfhring um hólinn eins og skjólveggur vestan, sunnan og austan við hann. Austan og vestan hans eru mýrarsund og sunnan megin eru hesthús.
Engin ummerki eru lengur um höfnina við Skiphól og engar rústir sjáanlegar, hvorki á hólnum eða við hann. Þegar rætt var við Hauk á Helgafelli kvaðst hann þó hafa séð hleðslur úr torfi á honum og sýndist honum það vera tóft eða tóftir. Á þeim tíma sást að grafið hafði verið í systa hluta hólsins og mátti þá sjá að hann var úr mold. Haukur minntist einnig á hróf og varir við hólinn. Þessar minjar eru horfnar en við fornleifakönnun og jarðsjármælingar árin 2012-2014 fundust minjar. Í könnunarskurði í hólnum sjálfum komu í ljós torfhleðslur og skurðir og virtist jafnvel mega greina skurð með skipslögun innan í hólnum auk þess fannst bátasaumur. Þessar minjar eru líklega frá því skömmu eftir 871 en ekki yngri en 1226. Tveir litlir skurðir voru teknir nokkru vestan við Skiphóll en engar mannvistarleifar fundust þar. En vel má vera að mannvistarleifar leynist vestan við hann og þarf að fara gætilega á því svæði en aðeins lítill hluti af svæðinu var kannaður.

Skiphóll

Fræðsluskilti við Skiphól; -Skiphóll er gamalt skipalægi við ísa Varmár en á flóði var hægt að sigla skipum alla leið að hólnum. Lengi mátti sjá tvö skipshróf (eins konar naust) hér við Skiphól en þau eru nú horfin. Í fornum sögum er getið um skipaferðir hér í Leiruvogi og stundum talað um að skip hafi komið út í Leiruvog fyrir neðan heiði, þ.e. Hellisheiði. Í Hallferðar sögu er sagt frá viðskiptum Hallfreðar vandræðaskálds og Mosfellinga eftir að hann hafði lent skipi sínu á þessum slóðum.- “Og að sumri fór Hallfreður út til Íslands og kom skipi sínu í Leiruvog fyrir sunnan land. Þá bjó Önundur að Mosfelli. Hallfreður átti að gjalda hálfa mörk silfurs húskarli Önundar og svaraði heldur harðlega. Kom húskarlinn heim og sagði sín vandræði. Hrafn kvað slíks von að hann mundi lægra hlut bera í þeirra skiptum. Og um morguninn eftir reið Hrafn til skips og ætlaði að höggva strengina og stöðva brottferð þeirra Hallfreðar. Síðan áttu menn hlut í að sætta þá og var gjaldið hálfu meira en húskarl átti og skildu að því.” (Úr Hallfreðar sögu)

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar af Varmá segir m.a.: “Ef við höldum með sjó inn, þá er þar tangi fram í sjóinn og voginn. Þar eru tveir hólar. Heitir sá neðri Skiphóll, en sá sem er ofar, er með þúfu á, og heitir hann Hestaþingshóll. Bendir nafn hans á forn hestaöt þarna niður við sjóinn. Hóll þessi er á tanganum, og ef vel er að gáð, virðist vera þarna um gamalt mannvirki að gera.”
Í athugasemdum við örnefalýsinguna segir: “Skiphóll er seinasta leiti á mörkum milli Helgafells og Varmár. Skip gátu komizt þar upp um flóð og tóku hey úr Skaftatungu.”
Lágur grasivaxinn hóll á suðurbakka Leirvogsár, skammt þar frá, sem Varmá og Leirvogsá mætast. Hóllinn er um 10 m sunnan árbakkans og um 10-15 m norðan við austasta hesthúsið. Hóll þessi er ýmist kallaður Skipshóll eða Hestaþingshóll.
Engar rústir sjánlegar á eða við hólinn.
Mýrarsund eru austan og vestan við. Haukur Níelsson, bóndi á Helgafelli segir, að hóll þessi heiti Hestaþingshóll. Telur hann þó líklegra, að réttnefni sé Skipshóll. Þar sé betra skipalægi en neðar við ána (þar sem hann segir að Skipshóll sé).
Sem sagt: Munnmæli þau sem Haukur hefur heyrt segja, að Hestaþingshóll sé ofar við ána, en Skipshóll neðar. Haukur, sem pælir í Íslendingasögum, vill hins vegar ætla Skipshól stað ofar við ána.
Syðsti hluti hólsins er nú skemmdur. Hefur verið grafið þar í hann. Sýnir sárið að hóllinn er úr mold.
Á Hestaþingshól kveðst Haukur hafa séð einhverjar hleðslur, úr torfi einungis. Var því líkast sem um einhverjar tóftir eða tóft væri að ræða.
Einar Björnsson, Litla-Landi, uppalinn í Norður-Gröf, Kjalarneshr. og f.v. bóndi á Skeggjastöðum og seinna í Laxnesi, segir hól þennan heita Skiphól. Byggingarefni í Álafossverksmiðjuna hafi verið skipað upp við Skipshól. Þó telur Einar örnefni þetta vera eldra, en frá þessum tíma. Þarna var líka skipað út heyi, sem fór til Rvk og var notað sem fóður fyrir hesta.
17/9 1980 (Ágúst Ólafur Georgsson)

Hestþinghóll

Hestþinghóll

Hestþinghóll.

Auk Skiphóls var svonefndur Hest[a]þingshóll á þessu svæði. Honum er lýst í landamerkjalýsingu frá árinu 1889:
”1. Á suðursíðuna milli Varmár og Reykjahverfis: Úr Markarlæksfossi við ána Varmá ræður lækurinn upp að næsta krók á honum, og þaðan eptir beinni stefnu á Stórahnjúk allt að Lágafellslandi eptir svokallaðri Markakeldu.
2. Á vestursíðunni frá Markakeldu um Svartaklett og syðri Urðarþúfu, þaðan í stærstu steinana á svokölluðu Markholti og þaðan í beina línu í lækjarfarveg niður við sjó, þaðan ræður sjórinn merkjum að Hestaþingshól.
3. Á norður og suðursíðuna, frá nefndum Hestaþingshól, ræður áin Varmá merkjum milli Leirvogstungu og Helgafells alla leið upp að fyrstnefndum Markalæksfossi.“
Miðað við þessa lýsingu liggja merkin frá Hestaþingshól eftir Varmá og hljómar það eins og þarna sé átt við hólinn við bakka Varmár sem oftast hefur verið nefndur Skiphóll. En eins og komið hefur fram eru heimildir ekki samsagna um það hvor hóllinn hafi verið ofar með Köldukvísl og hvor þeirra utar. Ljóst er að þeir voru tveir en sá ytri er horfinn. Hann hefur verið úti á tanga sem nú er búið að ýta til og raska.
Nafnið Hestaþingshóll bendir til að þar hafi verið haldin hestaþing eða hestaöt og má ætla að efnt hafi verið til þeirra í tengslum við kaupstefnur við Skiphól. Á hestaþingum skemmtu menn sér við að etja saman stóðhestum og fara sögur af slíku allt frá landnámi. Siðurinn hefur flust hingað frá Noregi og hélst fram eftir öldum. Hestaöt virðast að lokum hafa lagst af á 16. og 17. öld í kjölfar þess að kirkjunnar menn fóru að amast við þeim eftir siðskiptin.
Leirurnar við Leiruvog hafa verið vinsælar meðal ríðandi fólks. Þar hefur verið hægt að spretta úr spori og enn í dag er þarna útivistarsvæði hestamanna og hesthúsahverfi reis sunnan Skiphóls á síðari hluta 20. aldar.

Heimild:
-Skiphóll og Varmárbakkar; Fornleifaskráning vegna deiliskipulags breytingar, Ragnheiður Traustadóttir og Rúna K. Tetzschner – ANTIKVA EHF 2020.
-Agnes Stefánsdóttir, Rúna K. Tetzschner o.fl., Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, 2006.
-Ari Gíslason. Varmá. Örnefnastofnun Íslands. ópr.
-Ágúst Ólafur Georgsson. Fornleifaskráning í Mosfellssveit 1980. Skráningarbók 1604-100.
-Árni Jónsson frá Varmá. Athugasemdir við handrit Ara Gíslasonar. Örnefnastofnun Íslands. ópr.
-Stefán Þorvaldsson. „Lýsing Mosfells- og Gufunessókna“. Sýslulýsingar og sóknalýsingar. Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess III. Félagið Ingólfur gaf út. Reykjavík 1937-1939.

Leiruvogur

Leiruvogur – loftmynd.

Ás

Bærinn Ás ofan við Hafnarfjörð hefur jafnan látið lítið fyrir sér fara þrátt fyrir að eiga sér langa og merka sögu.

Ás

Gamli bæjarhóllinn.

Í Örnefnaskrá segir að landamerki fyrir umboðsjörðina Ás í Garðahreppi séu: “Stefna á Fuglastapaþúfu fyrir vestan Skarð austast á Grímsnesi; þaðan í Bleikstein í Bleiksteinshálsi; þaðan í Þormóðshöfða og þaðan í Steinhús”
Í Örnefnaskrá segir enn fremur: “Ás í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi, en tilheyrir nú Hafnarfirði. Jörðin tilheyrði jörðum þeim er lágu við fjörðinn”.

Ás

Gamli bærinn.

Í Jarðabók frá 1703 segir m.a.:
“Jarðardýrleiki á kóngsins parti er óviss og veit enginn neitt til að segja.
Jóns Peturssonar part segja menn almennilega vera iii [symbol] lxxx álnir, er þetta þó nokkuð á óvissu, þar bóndaeignin engvum tíundast nje tíundast hefur það menn til vita. Er sögn manna að þessi bóndahlutans tíund niður falli fyrir örðugan hreppamanna flutning yfir Kapelluhraun að Þorbjarnarstöðum; sýnist líklegt að jörðin muni til samans öll xii [symbol] verið hafa, og væri þá kóngsparturinn viii [symbol] og xl álnir.
Eigandinn að meira hlut jarðarinnar er kóngleg Majestat, að minna hlut Jón Petursson á Hlíði lögrjettumaður. Ábúandinn Þórður Jónsson.
Landskuld af kóngsins parti er lx álnir, af bóndaeigninni xx álnir. Betalast með iiii vættum fiska í kaupstað. Við til húsabótar leggur ábúandinn af báðum pörtunum.
Leigukúgildi með kóngsins parti í, með bóndaeigninni i. Leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða eftir kóngskúgildið. En eftir bóndans kúgildið ýmist í smjöri eður fiski heim til eigandans eður í kaupstað. Kóngskúgildið uppýngdi í fyrra umboðsmaðurinn Páll Beyer. So hafa og eignarmenn bóndahlutans eftir þörfum uppýngt sitt kúgildi.

Ás

Fjósið frá 1904.

Kvaðir af kóngspartinum eru mannslán um vertíð, sem leyst hefur verið stundum með einuri vætt fiska, stundum með því að ljá umboðsmanninum eitt tveggja manna far leigulaust um vertíð. Item einn hrísshestur árlega heim til Bessastaða; þótti næst umliðið ár umboðsmannsins fólki sá hrísshestur ekki nógu gildur, er bóndinn færði; var hönum því tilsagt að bæta þar við, og færði hann annan hrísshest lakari í því nafni. Hjer að auki einn dagsláttur heim til Bessastaða, og fæðir bóndinn sig sjálfur. Stundum hafa skipaferðir kallaðar verið og jafnvel nokkrum sinnum fleiri en ein á ári, fæðir þá bóndinn sig sjálfur. Í fyrra og margoft áður var maður heimtur að þjóna að húsastörfum staðarins á Bessastöðum og fæðir bóndinn verkmanninn. Enn nú setti Jens Jurgensson tvö ár þau síðustu, sem manninn. Enn nú setti Jens Jurgensson tvö ár þau síðustu, sem hann var umboðsmaður, og so í fyrra umboðsmaðurinn Páll Beyer, eitt lamb í fóður hvört ár þessara þriggja með jörðinni. Hafði sú kvöð aldrei verið það menn til minnast, og hefur bóndinn ekkert fyrir það fóður þegið. Hjer á ofan voru í hittifyrra ár af Jens Jurgenssyni og nú í sumar af Páli Beyer útheimtur heyhestur til að fóðra kvikfjenað þann, er fálkanum var ætlaður til fæðis á útsiglingunni, og bóndanum sjálfum skikkað að flytja heyið inn í Hólmskaupstað. Þessi kvöð hafði og fyrr aldrei verið það menn muna. Áður þegar fálkarnir sigldu á Básendum og Keflavík var bóndanum skikkað að láta mann á tje til að bera fálkana ásamt öðrum frá Bessastöðum suður til áðurnefndra kaupstaða og kostaði bóndinn manninn að suður til áðurnefndra kaupstaða og kostaði bóndinn manninn að öllu. Þessi kvöð var og aldrei fyr en í Ás

Innviðir fjósflórsins.

Heidemanns tíð og þaðan í frá iun til þess er fálkarnir sigldu með Hólmsskipi. Bóndinn gaf manninum xx álnir, sem hans vegna fór í þessa för, og fæddi hann. Á bóndans parti eru kvaðir alls öngvar. Kvikfjenaður er iiii kýr, viii ær, í sauður tvævetur, vii veturgamlir, viii lömb, i foli þrevetur. Fóðrast kann iii kýr og í úngneyti. Heimilissmenn iiii.
Selstöðu á jörðin í heimalandi, eru þar hagar sæmilegir og vatnsból gott.
Hrísrif hefur jörðin í almenningum til kolgjörðar og eldiviðar.
Lýngrif er í heimalandi brúkað nokkurn part til eldiviðar og til að fæða pening í heyskorti.
Torfrista og stúnga lök og lítt gagnvænleg.
Heimræði brúkar jörðin frí og skipsuppsátur í Ófriðastaðarlandi að sumir halda, en sumir eigna skipsuppsátrið Ási so sem ítak á móti selstöðu, sem Ófriðarstaðir skuli eiga og síðar segir. Vita menn ekki glögt hvort þetta skipsuppsátur og búðarstæði sje með skyldurjetti eður fyrir liðunarsemi. Þó gánga þar skip ábúandans og hafa gengið um lángan aldur, en búð var þar ekki það menn minnast fyr en Margrét Þorsteinsdóttir bjó að Ási fyrir meir en tuttugu árum.

Ás

Norðurtúnsgarðurinn.

“Í lýsingu Selvogsþinga eftir síra Jón Vestmanns segir m.a. Kaupstaðavegur til hafnarfjarðar liggur úr Selvogi yfir Grindarskörð, stífgild þingmannaleið yfir fjallgarðinn nr. 1, brattur og grýttur mjög. Frá Krýsuvík liggur annar vegur til sama kaupstaðar nefndur Ketilsstígur, þrír partar úr þingmannaleið að lengd grýttur og brattur sem hinn. Hlíð í Selvogi er næsti bær við Grindarskarðsveg, en Litli-Nýibær í Krýsuvík næst við Ketilsstíg. Ás í Garðasókn á Álftanesi er næst[i] bær við Ketilsstíg að vestan er Hafnarfjörður í sömu sókn næstur Grindarskarðarveg að vestanverðu.
Lýsing Garðaprestakalls 1842 eftir síra Árna Helgason segir m.a.: Þar eru taldir upp bæir í sókninni og einn af þeim er Ás með tómthúsi. Einnig eru taldir upp alfaravegir, og er sá syðsti sem liggur upp í Krýsuvík, liggur hann frá Ási Garðasókn, og heitir Stórhöfðastígur.

Í Jarðatali Johnsens frá 1847, segir m.a.:
Álftaneshreppur. Ás, jarðarnúmer 169; jörðin er í kojungseign. Dýrleiki er 12 hundruð, landskuld er 0.80, kúgildi tvö, ábúandi einn.
Jörðin Ás var lögð undir lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar 1959 og bærinn eignaðist landið 1964.

Sjá eignarnámsskuldir Hafnarfjarðar gagnvart einstökum bæjum – https://ferlir.is/logsagnarumdaemi-hafnarfjardar-fra-1908/

Samkvæmt túnakorti frá 1918, er túnið á Ási 2.8 teigar og þar af helmingur sléttaður. Kálgarðar eru i, 670 m2.
Tún Stekks er talið 0.6 teigar, ýft að mestum hluta. Kálgarður 720 m2.

Ás

Ás-túnakort 1914.

Til er “Fornleifaskráning í landi Áss Hafnarfirði” 2005, en skráning sú verður að teljast í besta falli mjög hæpin. Skráningin sem slík veltir óneitanlega upp spurningunni um hvar takmörkin eru og eigi að vera á heimildum um opinberar samþykktir á slíkum skráningum hér á landi.
Fyrst Ari Gíslason: “Jörð í Garðahreppi, næst Hvaleyri, nær ekki að sjó, vegna þess að Hafnarfjarðarbær er þar á milli. Upplýsingar um örnefni eru frá Oddgeiri Þorkelssyni að Ási.
Upp og austur frá bænum Ási rís upp fjall, sem heitir Ásfjall (1). Það er raunverulega framhald af Hvaleyrarholti, (er fyrr getur). Á Ásfjalli er varða, sem heitir Ásvarða (2). Bærinn Ás stendur í brekku vestan undir fjallinu. Vestur frá bænum er tjörn í lægð, sem heitir Ástjörn (3). Norður frá henni er býli, sem heitir Stekkur (4). Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Neðan við Stekksbæinn er lægð, grasi vaxin, sem heitir Leirdalur (5), og ve[stur] af Ásfjalli er Grísanes, hæð í Hvaleyrarlandi.
Norðan við bæinn að Ási er holtið nafnlaust, og brekkurnar þar næstar, sem tilheyra Ási, utan í fjallinu eru einnig nafnlausar. Slakki er í fjallinu, sem nefndur er Skarð (6). Þegar hallar svo niður af fjallinu sunnanverðu, koma þar börð og lægðir á milli. Þetta svæði er nefnt Grófir (7), og neðan þess tekur svo við svæði, sem heitir Lækir (8). Þá fer að nálgast jafnsléttuna, og taka þar við Ásflatir (9). Þær eru fyrir botni dals þess, er myndast milli Grísaness og Hamraness, Svo er hár hnúkur syðst á fjalli, sem heitir Vatnshlíðarhnúkur (10). Vestur af honum hallar fjallinu niður og myndar þar háls, sem nær niður á Hamranesið fyrrnefnda og heitir Bliksteinaháls (11) eða Bleiksteinaháls (12). Á honum eru tveir steinar ljósir að lit, sem heita Bliksteinar (13). Þeir eru í hálsinum norðanverðum og eru á merkjum móti Hvaleyri.

Ásvarða

Útsýni af Ásfjalli.

Sunnan við Vatnshlíðarhnúkinn fyrrnefnda er hlíð með giljum og skógarbörðum, sem hallar niður að Hvaleyrarvatni (14), og heitir hlíð þessi Vatnshlíð (15). Að norðan eru merki Jófríðarstaða svo nærri vatninu, að þegar hátt er í vatninu, getur Jófríðarstaðabóndinn vatnað hesti sínum í því. Norðurendinn á Ásfjalli er nefndur Ásfjallsöxl (16), og þar er merkjavarða; svo í landsuður þaðan er varða á Bláberjahrygg (17), sem er á merkjum móti Jófríðarstöðum; svo eins og fyrr segir rétt við vatnsendann.
Sunnan við vestri endann á vatninu er gríðarstór höfði eða hóll, sem heitir Selhöfði (18). Á honum er merki móti Hvaleyri. Sunnan við vatnið er dálitill hryggur, sem nefndur er Kjóadalsháls (19). Svo er landið mjótt, því nú ná nöfnin þvert yfir land jarðarinnar. Svo er gríðarstór dalur, helmingur grasflöt, hitt moldarflag; heitir hann Miðhöfði (20). Þar upp af er svo Efstihöfði (21), og svo skerst landið í odda við svonefnt Steinhús (22), neðst í gjánni, rétt fyrir neðan túnið í Kaldárseli. Þar myndar það tungu.”

Ás

Stríðsminjar á Ásfjalli.

Og í framhaldinu Gísi Sigurðsson: “Landamerki fyrir umboðsjörðinni Ás í Garðahreppi eru: Stefna úr Fuglstapaþúfu í þúfu fyrir vestan svokallað Skarð austast á Grísanesi; þaðan í Bleikstein í Bleiksteinshálsi; þaðan í Þormóðshöfða og þaðan í Steinhús.
Úr Fuglstapaþúfu fyrir vestan Guðbrandsbæ bein lína í austur í vörðu milli Áss og Jófríðarstaða; þaðan í vörðu norðan til við Ásfjallsöxl. Þaðan til suðausturs í vörðu á Bláberjahrygg; sama lína í Vatnsenda efri; svo í vörðu á Kjóadalshálsi; þaðan beint í vörðu á Miðhöfða; þaðan í Fremstahöfða; þaðan upp í Steinhús.
(Úr landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu).
Ás í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi, en tilheyrir nú Hafnarfirði. Jörðin tilheyrði jörðum þeim, er lágu við fjörðinn. Ás, bærinn, stóð á Bæjarhólnum (1), sem var um það bil í miðju Ástúni. Allt var túnið umgirt Ástúngörðum. Norðurtúngarður lá að ofan og vesturtúngarður að vestan, suðurtúngarður sunnan og neðan og austurtúngarður austan upp með fjallinu.
Heiman frá bæ niður Brekkuna (2) lágu Suðurtraðirnar (3) niður í suðurtraðarhlið. Um Austurtúnið (4) rann Lækurinn (5). Túnlækurinn (6) rann varla nema í rigningartíð og í leysingum. Neðan við Hólinn (7) vestan bæjarins var Ásbrunnur (8), og að honum lá Brunngatan (9). Austan lækjarins var Lambhústún (10) og þar lambhúsið. Í Norðurtúni (11) var Hjallabrekka (12), og þar sem saman komu Austurtún og Norðurtún, Hjallabyrgi (13). Þar eru nú sumarbústaðir. Heiman frá bæ lágu Norðurtraðir (14) og þar á mótum garðanna, norður- og vesturgarðs, var norðurtraðarhlið. Ofanvert við traðirnar nyrzt var flöt, nefndist Dansflöt (15), en neðan traðanna var Fjarðarflöt (16), en þar niður af þýfður hluti, nefndist Harðhaus (17).
Utan suðurhliðs var Stöðullinn (18), þar fyrir neðan var kargþýfður mói, nefndist Ásmói (19), sem sumir nefndu Ásumói (20). Þá var þar neðar Ásmýri (21) eða Mómýrin (22). Þar var mótak, og suður af var Móholtið (23). Þangað var mórinn borinn frá mógröf og þurrkaður. Út frá vesturtúngarði neðarlega var uppspretta, nefndist Áslindin (24). Þar var vatnsból fyrir Ás, ef brunninn þraut.

Ás

Bæjarlækurinn.

Vestur í holtinu var önnur uppspretta, sem var kölluð Lindin (25). Þar var vatnsból frá Stekknum.
Ofar hér í holtinu voru Börðin (26), þau hafa nú verið jöfnuð út, og er þar komið allgott tún. Hér ofar taka svo við Ásmelar (27). Þeir liggja austan og ofan frá Ásholti (28), en norðan landamerkja eru garðlönd Hafnfirðinga. Ásvegur (29) liggur frá Norðurtröðum norður um Ásleiti (30) og yfir á Háaleiti (31), síðan áfram norður að Ófriðarstaðatúngarði.
Vestur á melunum var hringlaga gerði nefnt Kringla (32). Hér enn vestar var svo býli, þurrabúð, nefndist það Stekkurinn (33), Ásstekkur (34), Vindás (35) og Vindásstekkur (36). Honum fylgdi Stekkstúnið umgirt Stekkstúngörðum, vesturtúngarður, suðurtúngarður, austurtúngarður og norðurtúngarður. Þar sem saman komu norður- og vesturtúngarður, var norðurhlið. Þaðan lá Stekksgata (37) niður að Brandsbæ og áfram niður til Fjarðar. Suðurhlið var neðarlega á mótum vestur- og suðurtúngarðs. En Lindargatan (38) lá heiman frá Stekksbæ austur um austurgarðshlið austur að Lindinni. Brunngatan var löng frá Stekk og austur.
Norðvestur frá Stekk, neðan vestasta hluta melanna, var Leirdalur (39), og tilheyrði nokkur hluti hans Ási, en í Fuglstapaþúfu syðri (40) voru hornmörk jarðanna Áss, Ófriðarstaða og Hvaleyrar. Þaðan lá landamerkjalínan í Axlarvörðu (41) á Ásfjallsöxl eystri (42), en neðan og vestan undir Öxlinni (43) var svokallaður Dagmálahvammur (44). Suðvestur og upp frá Öxlinni var Ásfjall (45) og þar á Ásfjallsvarða (46).

Ás

Upplýsingaskilti nálægt Ási.

Suður eða suðsuðaustur frá háfjallinu var klettastallur, nefndist Mógrafarhæð (47). Ekki er nú hægt að sjá, að mótak hafi verið hér í fjallinu. Landamerkjalínan liggur úr vörðunni suður á svonefndan Bláberjahrygg (48), sem er misgengisbrún og þaðan um Vatnshlíðargil (49) austast í Vatnshlíðinni (50). Hæst á Vatnshlíðinni er svonefndur Vatnshlíðarhnúkur (51). En vestan á Bláberjahrygg er Bláberjahnúkur (52).
Landamerkjalína liggur úr gilinu um Vatnsendann (53) og þaðan upp Kjóadalaháls (54) í Kjóadalahálsvörðu (55). Frá Markavörðunni (56) liggur lína um Kjóadali (57) upp í Miðhöfðavörðu (58) á Miðhöfða (59), þaðan í Fremsthöfðavörðu (60) á Fremsthöfða (61) og þaðan í Steinhús (62), sem í gömlum skjölum nefnist Steinhes (63), og er þar hornmark margra landa. Landamerkjalínan á vesturmörkum mun svo liggja úr Steinhúsi norður eftir Langholti (64) um Þormóðshöfða (65) og Selhöfða (66), en efst á höfðanum er Borgin (67), fjárborg allstór um sig. Héðan liggur línan niður á Selhraun (68) eða Seljahraun (69). Það liggur alveg að Hvaleyrarvatni (70). Við suðurhlið vatnsins er Hval-eyrarsel (71) og innar Ássel (72). Þar má enn vel sjá móta fyrir seljarústum. Úr Seljahrauni liggur línan upp á Bleikisteinsháls (73). Bleikisteinsstígur (74) liggur rétt við klöpp, sem nefnd er Bleikisteinn (75), en austur og upp frá hálsinum er Bleikisteinshnúkur (76). Bliksteinshnúkur (77), Bliksteinn (78), Bliksteinsháls (79) og Bliksteinsstígur (80) eru einnig nöfn, sem hér eru viðhöfð. Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun (81), sem liggur í Hellisdal (82), en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn (83) eða Hellishraunsskjól (84). Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn.

Ás

Steinn af æsi við Ás.

Neðan frá hrauntungunni eru svo Ásflatir (85). En fram á þær syðst rennur Grófarlækur (86) ofan úr Grófunum (87). Þær liggja norðan við Bláberjahrygg. En stígur liggur um Ásflatir vestur á Grísanesháls (88), en þar er Hrauntungustígur (89), sem þarna er að byrja. Síðan liggur landamerkjalínan norður af hálsinum norður yfir Ástjörn (90), upp fyrir vestan Stekkinn í Fuglstapaþúfu. En Grísanesstígur (91) liggur niður af hálsinum heim að suðurtraðarhliði. Þaðan liggur aftur á móti Skarðsstígurinn (92) upp í svonefnt Skarð (93) á Ásfjallsöxl vestari (94). Skarðsvarðan (95) var þarna, sem einnig nefndist Hádegisvarða (96) og Hádegisskarð (97) skarðið. Hér um rann féð til beitar suður á Grófirnar, Bláberjahrygg og Vatnshlíðina. Hellishraun (98), svo var hraunið í Hellisdal einnig nefnt.”
Sjá einnig Ás og Ástjörn – friðlýsing Áss og Ástjarnar.

Til mun vera “Fornleifaskráning vegna samkeppni um skipulag í Áslandi og Grísanesi, Birna Gunnarsd. og Ragnheiður Traustad, 1996”, en sú skráning mun vera öllum öðrum hulin nema skráningaraðilunum sjálfum.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar um Ás.
-Örnefnalýsing Gísla Siguðssonar um Ás.
-Jarðabókin 1703.
-“Fornleifaskráning í landi Áss Hafnarfirði” 2005.

Ás

Ástjörn og nágrenni.

Íslandsuppdráttur 1595

Á vefsíðunni https://www.kb.dk/ má líta ýmsan aldraðan fróðleik um Ísland, s.s. gömul Íslandskort og uppdrætti. Hér er ætlunin að sýna nokkur þeirra með skírskotun til meðfylgjandi texta hverju og einu til handa. Textinn er, af skiljanlegum ástæðum, á dönsku:

Reykjanesskagi – kort 1900

Reykjanesskagi 1900

Reykjanesskagi 1900.

Arbejdskort over Island med Opmaalingsnet til Atlasblade i 1:100 000 indtegnet.
Udgivelsesdato; 1900-1905.
Lokalitet; Island.
Opmålingsnettet er indtegnet på: Uppdráttr Íslands af Ó. N. Ólsen og B. Gunnlaugsson [Generalstabens topografiske Afdeling].

Reykjanesskagi – uppdráttur 1879 – Kålund

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi 1879 – Kålund.

Guldbringe og Kjos Sysler OphavKålund, P.E. Kristian.
Udgivelsesdato; 1879.
Lokalitet; Island.

Ísland – uppdráttur 1849

Ísland

Ísland 1849.

Uppdráttr Íslands Ophav Gunnlaugsson, Bjørn Olsen, Oluf Nicolai.
Udgivelsesdato; 1849.
Lokalitet; Island.
Kommentargjörðr að fyrirsögn Ólafs Nikolas Ólsens eptir landmælíngum Bjarnar Gunnlaugssonar … gefinn út af hinu Íslenzka Bókmentafélagi F. C. Holm sculp. Kjöbenhavn Paralleltitel: Carte d’Islande /d’après le mesurage de Björn Gunnlaugsson; exécutée sous la direction de O. N. Olsen ; publiée par la Societété Littéraire d’Islande hið bókmenntafélag Med liste over koordinater for trigonometriske stationer og liste over sysler og herreder i randen uden for kortet.

Ísland – uppdráttur 1844

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi 1944.

Uppdráttr Íslands: No. 1: Suðvestr-fjórðúngr Ophav Gunnlaugsson, Bjørn Olsen, Oluf Nicolai Scheel, Hans Jacob.
Lokalitet; Island.
Opstilling KBK 1115-0-1844/2a-d. KommentarStik gjörðr að fyrirsögn Ólafs Nikolas Ólsens eptir landmælingum Bjarnar Gunnlaugssonar … reiknað hefir Hans Jakob Scheel gefinn út af hinu Íslenzka Bókmentafèlagi grafið hefir F. C. Holm hið bókmenntafèlag Indsat: Bjergprofiler og snit Koordinaterne for 124 trigonometriske stationer angivet i randen af kortet Titelblad og signaturforklaring er med islandsk og fransk tekst OphavsretMaterialet er fri af ophavsret.

Ísland – uppdráttur 1944

Reykjanesskagi 1944

Reykjanesskagi 1944.

Uppdráttr Íslands: No. 1: Suðvestr-fjórðúngr OphavGunnlaugsson, Bjørn Olsen, Oluf Nicolai Scheel, Hans Jacob.
Udgivelsesdato; 1944.
Lokalitet; Island.
Kommentargjörðr að fyrirsögn Ólafs Nikolas Ólsens eptir landmælíngum Bjarnar Gunnlaugssonar … reiknað hefir Hans Jakob Scheel gefinn út af hinu Íslenzka Bókmentafèlagi grafið hefir F. C. Holm Indsat: Bjergprofiler og snit Koordinaterne for 124 trigonometriske stationer angivet i randen af kortet Faksimileudgave af kort sandsynligvis udarbejdet til: Islands Kortlægning.

Ísland – uppdráttur 1761

Íslandsuppdráttur

Íslandsuppdráttur 1761.

Islandiae delineatio, prout haec Solenni mensurandi negotio sub Auspiciis Potentissimi Regis Daniae facto, & a. 1734. demum per Cnopfium Archit. militarem ad finem perducto, debetur; divisæ in quatuor partes, Islandice Fiördung, quarum quævis in suas minores regiunculas Islandice Sislu, danice Syssel dictas subdividitur OphavHomann, Johann Baptist Knoff, Thomas Hans Henrik Homanns Arvinger.
Udgivelsesdato; 1761.
Lokalitet; Island.

Hólmakaupstaður – kort 1715

Hólmakaupstaður

Hólmakaupstaður 1715.

[Holmskaupstad] = [Reykjavik] OphavHoffgaard, Hans.
Udgivelsesdato; 1715.
Emne Island, Syd Vest Reykjavik og omegn.
OpstillingKBK 1115,1-0-1715/1 KommentarKoloreret håndtegning H. Hoffgaard Tekst nederst på kortet: Paa Holmen Haabet kom aar Sytten hundrede og fembten Tillige voor Conböy Som war dend Svendske Fallecken/ Dend Tied jeg paa Gafonen laa mig tieden Ey fortrød og omskiøndt blandt gledskabt Hatex, waer skjult dend blege død/Som sig da tegne lod da heste flock reed granden da hørtes jammer og råb af Skougaard og Kiøbmanden og svie som så derpå og oh elendig strand! Det Hierte briste maatte da Kiøbmanden/reckte haand.

Ísland – uppdráttur 1700

Íslandskort 1700

Íslandskort 1700.

Novissima Islandiæ tabula OphavSchenk, Pieter Schenk, Petrus Valk, Gerard.
Udgivelsesdato; 1700.
Lokalitet; Island.

Ísland – uppdráttur 1684

Íslandsuppdráttur

Íslandsuppdráttur 1684.

Isle D’ Islande Ophav Mallet, Allain Manesson.
Udgivelsesdato; 1684.
Lokalitet; Island.

Ísland – uppdráttur 1683

Íslandskort 1683

Íslandskort 1683.

Isle D’ Islande Ophav Mallet, Allain Manesson.
Udgivelsesdato; 1683.
Lokalitet; Island.

Reykjaneskagi – uppdráttur 1650

Íslandskort 1683

Íslandskort 1650.

Sydlendinja Fiording Ophav Mejer, Johannes (1606-1674).
Udgivelsesdato; 1650?
Lokalitet; Island.

Ísland – uppdráttur 1595

Íslansuppdráttur 1595

Íslandsuppdráttur 1594.

Islandia Ophav Ortelius, Abraham Velleius, Andreas Vedel, Anders Sørensen.
Udgivelsesdato; 1595.
Lokalitet; Island.

Bessastaðastofa – uppdráttur 1724

Íslandskort 1724

Íslandskort 1724.

Ældre islandske specialkort : 1: Plan og Prospect af Bessesteds Kongs Gaard udi Island bygt Anno 1722 Ophav Raben.
Udgivelsesdato; 1720-1722. Emne; Bessestaðir -Søkort – Bessested Hafnarfjördur.
Lokalitet; Island.

Þingvellir 1720

Þingvellir 1720

Þingvellir 1720.

Ældre islandske specialkort: 3: Plan og Prospect af Øver Aae Alting Tagen Anno 1720 Ophav Raben.
Udgivelsesdato; 1720-1722.
Lokalitet; Island.

Bessastaðir – uppdráttur 1720

Bessastaðir 1770

Bessastaðir 1770.

Ældre islandske specialkort : 2: Plan og Prospect af Bessesteds KongsGaard, og St. Nicolai Kirke Ophav Raben.
Udgivelsesdato; 1720-1722. Emne; Bessestaðir – Søkort – Bessested Hafnarfjördur.
Lokalitet; Island.

Bessastaðir 1750

BessastaðirBessastaður 1750.
Ældre islandske specialkort : 2: Plan og Prospect af Bessesteds KongsGaard, og St. Nicolai Kirke Ophav Raben.
Udgivelsesdato; 1720-1722. Emne; Bessestaðir Bessested Hafnarfjördur.
Lokalitet; Island.

Bessastaðir – kort 1750
Ældre islandske specialkort: 4: Haune: Fjord Ophav Raben.
Udgivelsesdato; 1720-1722. Emne; Bessestaðir – Søkort – Bessested Hafnarfjördur.
Lokalitet; Island.

Ísland – uppdráttur 1770

Íslandskort

Íslandskort 1770.

Island RessourcetypeKort GenreTopografi.
Udgivelsesdato; 1770.
Lokalitet; Island.

Gullbringusýsla 1944

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi 1944.

Soe og Land Charta over Guldbringe og Kioese=Sysseler samt een deel af Aarness Syssel udi Iisland OphavAressen, Magnus Aresen, Magnus Arason, Magnus Raben, Peter Sheel, Hans Jacob.
Kort i farver.
Emne; Guldbringe Syssel Gullbringusýsla Kioese Syssel Kjósarsýsla
Lokalitet; Island
Koloreret håndtegning i delvis eleveret plan Efter Deres Kongl. Maj:t allernaadigste Ordre og Befalning paa det accurateste i de aar 1721 og 1722 optaget og forfærdiget af Magnus Aressen og nu i det aar 1733 copieret af Hans Jacob Sheel Med signaturforklaring Iflg. Geodætisk Institut betegnet Admiral Rabens kort nr. 4. Se også: Islands Kortlægning. En historisk Fremstilling af N. E. Nørlund. Geodætisk Instituts Publikationer VII. København 1944.

Básendar [höfn] 1736

Básenra 1726

Básendahöfn 1726.

Bosand og Kieblevigs Havner udi Island OphavBech, Hans Christian – Søkort.
Emne; Island, Syd Vest Bosand Keflavík.
Lokalitet; Island.
Årstallet er rettet til 1736 – Hans Christian Bech 1726.

Grindavík [höfn] 1751

Grindavík 1751

Grindavíkurhöfn 1751.

Grindevigs havn udi Island, Hans Christian Klog, Christoph – Søkort.
Emne; Island, Syd Vest Grindevig Grindavik.
Lokalitet; Island.
KommentarKoloreret håndtegning H[ans] C[hristian] B[ech] an: 1751 tegnet af Christoph Klog.

Heimild:
-http://www5.kb.dk/maps/kortsa/2012/jul/kortatlas/subject341/da?sort=creator_ssi+asc%2C+score+desc%2C+cobject_random_number_dbsi+desc

Reykjanesskagi 8844.

Reykjanesskagi 1844.

Gullbringu- og Kjósarsýsla

Í útgáfu Sögufélagsins um “Gullbringu- og Kjósarsýslu; sýslu- og sóknarlýsingar” má m.a. lesa um örnefni, atburði o.fl. í sýslunum á árunum 1839-1855.

Útgáfa Sýslu- og sóknalýsinga Gullbringu- og Kjósársýslu markaði upphaf endurútgáfu Sögufélags á Sýslu- og sóknalýsingum Hins íslenska bókmenntafélags sem lengi höfðu verið ófáanlegar. Guðlaugur R. Guðmundsson sagnfræðingur og Svavar Sigmundsson rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum annast undirbúning útgáfunnar.

Gullbringu- og Kjósarsýsla.
Í bókinni eru ítarlegar upplýsingar á sýslunni og flestum sóknum hennar, skrifaðar af staðkunnugum mönnum á fyrstu áratugum nítjándu aldar, áður en nútíminn gekk í garð, og í henni eru birtar myndir af kirkjum og nokkum höfundanna. Í viðauka eru sýnd sóknarmörk og gamlar götur eftir korti Björns Gunnlaugssonar frá 1844. Sýslu- og sóknalýsingar Gullbringu- og Kjósársýslu eru grundvallarrit um örnefni og lýsingar á fornum leiðum á svæðinu og kjörið rit fyrir þá sem unna sögu og staðfræði á suðvesturhorni landsins.

-Stutt lýsing á Gullbringu- og Kjósarsýslu – Þórður Jónasson [1852]
-Geir Backmann – Grindavík 1840-’41
-Brandur Guðmundsson – Lýsing á Höfnum
-Sigurður Sívertsen – Útskála- og Kirkjuvogssóknir 1839
-Pétur Jónsson – Kálfatjarnarprestakall 1840
-Árni Helgason – Garðaprestakall 1842
-Stefán Þorvaldsson – Lýsing á Mosfells- og Gufunessóknu 1855
-Sigurður Sigurðsson – Lýsing á Reynivallasókn 1840

Formáli
“Hefst þá meginsform þessa bindis, en það eru sýslulýsingar og sóknalýsingar þær, sem gerðar voru að tilhlutun Hins íslenska bókmenntafélags. Aðalhvatamaður þessa verks var skáldið Jóns Hallgrímsson, er hugðist þannig að safna efni til ýtarlegrar og nákvæmlegrar Íslandslýsingar, sem hann hafði ætlað sér að semja, en entist ekki aldur til.

Boðsbréf og spurningar frá deild Hins íslenska bókmenntafélags í Kaupmannahöfn til sýslumanna og presta á Íslandi 1839.
Spurningarnar voru:

Í fyrsta lagi:

1. Afstaða og stærð landsins.
2. Landslag.
3. Haf og vötn.
4. Veðráttufar og loftslag.
5. Auðæfi náttúrunnar.
6. Kynferði og eðlisfar þjóðarinnar.

Í öðru lagi:
1. Landsbyggð allt frá landnámstíð.
2. Læknisdæmi.
3. Veraldleg skipan allt frá landnámstíð.

Í þriðja lagi:
A. Uppruni og forlög þjóðarinnar (almennt yfirlit).
B. Þjóðarlýsing.
C. Landsstjórnarsagan.

Þórður Jónason: Stutt lýsing á Gullbringu- og Kjósarsýslu 1852

Þórður Jónason

Þórður Jónason.

“Sýslur þessar hétu fyrrum Kjalarnesþing, og eru þær báðar eitt prófastdæmi og sami sýslumaður í þeim báðum; heitir hann héraðdómari í Gullbringusýslu, en sýslumaður í Kjósarsýslu.
Gullbringusýsla er að landslagi frábrugðin öðrum sýslum í landinu. Hún er mestmegnis hraun og melar; þar vantar víða sauðfjár- en alls staðar kúahaga; útheyisslægjur eru engar og utantúns lítið og allvíðast ekkert graslendi. Þar eru engar ár og einungis 3 lækir í allri sýslunni. Atvinnuvegur sýslubúa er því einkum fiskiveiði, og sækja þangað og margir úr öðrum sveitum á vetrarvertíðinni, bæði úr Norðurlandi og úr Árnessýslu. Nafnkenndustu veiðistöðvar eru Vogar, Njarðvíkur (Norðvíkur) og Hafnir.
Gullbringusýsa er íll yfirferðar og vegirnir bæði krókóttir og slitróttir. Bæirnir standa með sjónum og byggðin er hvergi tvésett, og sýslan er þannig öll á lengdina.
Í Kjósarsýslu, sem Elliðaár aðskilja frá Gullbringusýslu, eru landskostir þar á móti góðir, víðast nægar slægjur og mikið graslendi, móskurður góður, torfrista og hagar vetur og sumar og hægt til allra aðdrátta, og má að vísu telja Kjósarsýslu í þessu tilliti með hinum bestu sýslum á landinu.
Innan sýslu eru engir fjallvegir, nema ef telja skyldi Svínaskarð milli Kjósar og Mosfellssveitar, sem mun vera hér um bil 2 mílur bæja á milli.
Bæði Mosfells- og Hellisheiði eru býsna langir fjallvegir og vandrataðir á vetrardag. Eru því vörður reistar og sæluhús byggð á heiðum þessum, eitt á Mosfellsheiði, en 2 á Hellisheiði handa ferðamönnum, og eiga þeor oft náttstað á Hellisheiði í sæluhúsum þessum, þegar þá dagar uppi á leiðinni. Torfærur eru engar á vegum þessum, nema menn villist af réttum vegi, en þá kvað ferðamönnum hætta búin, einkum á Hellisheiði, þegar fara skal niður af heiðinni, því heiðin er mjög brött að austanverðu.

Grindavík – Geir Backmann 1840-’41
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Takmörk sóknarinnar eru að vestanverðu Valahnúkur, sem aðskilur bæði land og reka Hafna og Grindavíkur. Á Selatöngum er drangi eða klettur í fjörunni, Dagon kallaður, og skilur hann bæði land og reka Krisi- og Grindavíkur.
Í Grindavíkursókn eru einasta 7 aðalbýli, en hina bæina köllum vér hjáleigur, og eru þær nú á tímum 13 byggðar. Hinn fyrsti og vestasti bær í sökninni er Staður. Stekkjarveg í landnorður frá Stað er annað aðalbýlið Húsatóttir. Hið þriðja býlið er Járngerðarstaðir. Fjóra býlið er Hóp. Hið 5ta býlið eru Þorkötlustaðir. 6ta aðalbýlið er Hraun. Á milli Hrauns og hins 7da býlisins, Ísuskála, alii Ísólfsskála, sem er austasti bærinn í sókninni, er hið minnsta 1 1/4 míla, því nú verður að afra almenningsveg upp svo kallað Hálsa.
Það er vel að merkja við allar jarðir í sókn þessarri, að þær árlega að segja má, ganga af sér bæði til lands og sjávar, sumar af sjó og sandfoki, t.d. Staður, Hraun og Þorkötlustaðir, af sandfoki Húsatóttir, af sjávargangi Járngerðarstaðir, Hóp og Ísuskáli, en við hvertveggi mætti þó með pössun og atorku mikið gjöra.

Geir Backmann

Geir Backmann.

Staður á selstöðu á Selsvöllum. Selsvellir eru héðan í landnorður upp í fellum, og er Keilir, þegar í sel þetta er komið, rétt í útnorður. Stendur selið í Strandarmannalandi eður fyrir norðan Grindavíkur landamerki. Þar er allgrösugt, en bíst fljótt upp, því allir bæir í sókninni nema Hraun hafa þar í seli, og þó að engu goldið Staðarprestinum. Vilja menn hér gjöra þess selstöðu almenning, og þyrfti þó ei að vera. Litlu vestar en Selsvellir er selstaða frá Hrauni; hér er árlega haft í seli frá bæ þessum, og eru landamerkin milli seljanna í svoköllum Þrengslum. Flestir bæir í Grindavík hafa haft í seli einhvers staðar til fjalla; er mér sagt, að vatnsleysi olli því, að allar þær eru afræktar og getur vel verið sannleiki. Sú mun og orsök, að allir hafa þyrpst á Selsvelli, því þar er dálítill rennandi lækur rétt við selið. Vanalegt er að reka sel í 8du v(iku) sumars, og aftur úr því 16 eða síðast 17 v(iku) af sumri, nema óþerrir hafi hamlað fólki að ná töðum af túnum sínum. Ekkert er hér afréttarlandM allt fé ungt og gamalt, lömb og sauðir er rekið í selið og þar smalað á hverju máli; lömbin eru kefluð.
Hér skulu hvergi finnasdt nokkrar fornmannaleifar, nema ef væru nokkur garðlög úti um hraun, sem ég ímynda mér helst gjörð umkring gamalla manna beitiland. Ekki veit ég að fornleifar hér fundnar og því ekki heldur vera hér í nokkurs manns geymslu.
Ég óska, að línur þessar mættu koma að því gagni, sem til er miðað.”

Lýsing á Höfnum – Brandur Guðmundsson
Gullbringu- og kjósarsýsla
Byggð þessi er við sjóinn, hvar Kirkjuvogsósar byrja; er sjór fyrir vestan og norðan, en Ósarnir liggja til austurs landnorðurs, eru um hálfa viku sjávar að lengd með skerjum víða. [Í Jarðabók ÁM segir, að Gamli Kirkjuvogur hafi legið í auðn lengur en 120 ár 1703, en það bæjarstæði var í Kirkjuvogslandi. “Heyrt hefi eg, að þær 3 jarðir Stóra- og Litla-Sandhöfn og Kirkjuhöfn hafi lagts í eyði, að kirkja hafi staðið þar, eftir að jörðin lagist í eyði, en ofnaumt mun tilnefnt tímatalið á annað hundrað ár síðan [hefir lagst í eyði um 1660, því tilnefnd Ingigerður sál. vissi aðeins til, að uppblásin mannabein í hennar minni hefðu verið flutt til Kirkjuvogskirkju og lögð í kirkjugarð, og eru þó síðan full 100 ár… – Á sama aukablaði getur Brandur og þess, að hann hafi á “landcommissiþingi á Járngerðarstöðum 1801 séð í bók hjá commissariis Kirkjuvog nefndan fyrir norðan Ósa ár 1516, sem mig minnir og þar í getið eyðijarða Haugsenda hér og Arnargerðis”].
24 geirfuglum alls á skip langmest, en optast 5 til 8, en seinustu 2 vorin hafi hann ekki sést.
Engar vita menn þar fornmenjar í jörðu eða á, en steinkol meina menn vera á Reykjanesi.
Þetta er þá sú upplýsing, er eg get í stuttu máli meðdeilt yður, prestur minn góður, í því áður umtalaða og bið eg yður auðmjúklega að virða, en skyldi þar þurfa nokkru við að bæta, vilda eg að því leyti get sýna viljann, en bið auðmjúklega leiðréttingar á missmíðinni og yfirsjónum.”

Útskálaprestakall – Sigurður B. Sívertsen 1839
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Útskálaprestakall inniheldur 3 aóknir, nl. Útskála, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir; þær 2 síðari voru lagðar við 1811.
Takmörk milli Útskála- og Kirkjuvogssóknar er Háaleiti, milli Hvalsness- og Kirkjuvogssóknar Ósar þeir, er skerast inn í austur-landnorður, og þaðan upp að Háaleiti. Á millum Útskála- og Hvalsnessóknar eru engin örnefni, sem sóknir skilja.
Í Útskálasókn eru þessi byggðalög: Keflavík, Leiran, Stórihólmur, Gufuskálar (landnámsjörð) og Rafnkelsstaðir.
Fyrir sunnan Skagann kemur Nesið, sem liggur suður með sjónum. Þar var í fyrri daga höfuðból, sem Kirkjuból heitir, sem nú að mestu má heita komið í eyði. Á Kirkjubóli var áður hálfkirkja eða bænahús, sem síðar var af tekið. Eftir máldögum átti Péturskirkja að Kirkjubóli xl hndr. í heimalandi, fjórðung í Geirfuglaskeri og viðreka allan á Skarðaurð. (Á Kirkjubóli var junkherra Ívar Hólmur drepinn af biskupssveinum í Skálholti 1443. Líka Kristján skrifari í hefndir eftir Jón biskup Arason, voru þeir, sem Norðlingar drápu, dysjaðir fyrir norðan túngarð á Hafurbjarnastöðum, hafa bein þeirra í núverandi manna minnum blásið upp úr sandinum.
Flangastaðir er jörð. Hennar er getið í Landnámu, og mælt, að Flangur, sem fyrstu skyldi hafa byggt hana, sé heygður þar í túninu; er grjót umhverfis leiði hans, ef tilhæfi er í.
Á Býjaskerjum var áður kirkja, sem um er geið í Vilchins-máldaga, og kennd er við Ólaf kóng helga; er haldið, að hún hafi staðið á svonefndum Kirkjukletti.
Sunnar, í fullt útsuður, stendur Hvalsnes. Þar er snotur timburkirkja, annexía frá Útskálum. Hvalsneskirkja var fyrst byggð og vígð 1370, með þeim máldaga.
Syðst liggja Bátssandar, gamall kaupstaður, sem fór í stórflóði, sem síðan er kallað Básendaflóðið. Það var árið 1799, nóttina m(illi) 8. og 9. jan.
Sunnar með sjónum liggur Þórshöfn; það er mjó vík, sem þýskir höfðu lagt inn skipum sínum, þá þeir höfðu verslun.
Tveir liggja alfaravegir útúr sókninni, sem nefnast Sandgerðis- og Hvalsnesvegur. Liggja þeir báðir inn í Keflavík; kemur sá fyrri á Garðveg skammt fyrir innan Keflavík, en hinn liggur beint að sunnan og byrjast við Melbergsá. Til er líka gamall vegur, sem aflagður er, frá Stafnesi og suður með sjó, inn fyrir Ósa og suður í Hafnir; það er gamall kaupstaðavegur frá Bátssöndum; er hann grýttur og langur.

Sigurður Sívertssen

Sigurður Sívertsen.

Sunnan við Kalmanstjörn er Sandhöfn, eyðijörð, sem af lagðist og fór í eyði vegna sandsfoks, því ekkert sést eftir nema lítið af hól, hvar bærinn skyldi hafa staðið. Sunnar er Eyrin, fyrir innan Hafnarberg. Þar var bær og útræði fyrir rúmum 50 árum síðan.
Sunnar eru Skjótastaðir, sem meint verið hafi ein eyðijörð, enda er í mæli, sem satt mun vera, að allt Reykjanes hafi fyrr meir byggt verið.
Sunnar eru Valhúkar, sem er bergnös há, þá Valahnúksmöl (við hvörja trjáviðaskipið mikla strandaði um árið, eða réttara sagt þau mörgu og stóru tré bárust að landi).
Eldey er stór klettur í hafinu í vestur frá Reykjanesi. Mest hafa fengist þar á seinni tímum 24 geirfuglar í einu, en í 2 skipti seinast ekki sést.
Af fornleifum veit ég öngvum innan þessara <sókna> merkilegum. Steinn er eða klettur, sem stendur í svo nendu Kistugerði nálægt Rafnkelsstöðum með áklöppuðum rúnastöfum. Ekki hafa menn getað lesið úr þeim, en hafa þó oft verið af teiknaðir. (Líklega er það frá seinni tímum og skammstafað eða bundið mannsnafn). Að þar skammt frá sé heyður Rafnkell sá, sem jörðin er kennd við, eru munnmæli, sem við ekkert hafa að styðjast.)
Á Flangastöðum eða þar í túni nálægt Klöll er grjóthrúga, líkt sem dys. Þar hafa gamlir menn sagt, að heygður væri Flangur sá, sem í landnámstíð mundi fyrstu byggt hafa þá jörð, eða sem hún nefnist eftir. Annað dys eða haug þykjast menn geta séð í túni á Nesjum, sem áður lá til Másbúða, og segir fólk, að þar liggi undir Már sá, sem fyrstur hafi byggt Mársbúðir. Því er líka bætt við munnmæli þessi, að Katla hafi heitið kona hans, skörungur mikill. Annar haugur sé og í túninu, undir hverjum að liggi smali Márs.
Þetta, í flýti saman tekið og uppskrifað, en þó sem sannleikanum næst og nákvæmast sem orðið gat, biður undirskrifaður félagið vel að virða.”

Kálfatjarnarprestakall – Pétur Jónsson 1840
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Takmörk Njarðvíkusóknar að utanverðu er skurður eður dæld, sem liggur beint frá heiði, rétt við höndlunarstaðinn Keflavík ofan við sjó; frá hans efri enda upp í heiðinni að Gömlu-Þúfu á svo kölluðu Háaleiti, af hvörju sjá má umhverfis 3já vegu í sjó.
Hvergi er rennandi vatn, en brunnar grafnir, víðast slæmir og saltir.
Höfuðbæir í Njarðvíkum eru tevir; innri- og Ytri-Njarðvík; hinir eru afbýli, hjáleigur og kot.
kirkjan í Njarðvík, orðin altimburkirkja, á ekkert utan það hún á stendur, þar sem hún fékki ekki kirkjrétt fyrri en í Jóns biskups Vídalíns tíð, og Njarðvíkur áttu áður kirkjusókn yfir heiði, suður í Hafnir; varð fyrst annexía frá Hvalsnesi og þar eftir að Kálfatjörn.
Á Kálfatjörn er nýbyggð altimburkirkja.
Þetta er það helsta, sem ég get skýrt frá.”

Garðaprestakall – Árni Helgason 1842
Gullbringu- og Kjósarsýsla
“Álftanessveit, sem yfir grípur Garða- og Bessastaðasóknir, hefur að norðanverðu við sig Reykjavíkursókn, að sunnanverðu Kálfatjarnar.
Á næstliðnu sumri þóttist fyrrverandi kaupkm(aður) í Keflavík A. Gunnarssonon hafa fundið brennisteinsnámu í Hraunamannalandi, nálægt Stórhöfðastígsvegi, er enginn vissi af áður. Hann segist hafa sent út með kaupmanni Siemsen nokkuð af þessum fundið, en eg þekki ei dóminn.
Þesir bæir eru í Garðasókn: Syðst Lónakot, þá Óttarstaðir með tveimur hjáleigum, Straumur, Þórbjarnarstaðir með tveimur tómthúsum, Lambhagi. Allir þessir bæir heita einu nafni Hraunabæir. Nú kemur Hvaleyi með 5 hjáleigum; ei hafa þær allar grasnyt. Óseyri með tómthúsi. Ás með tíomthúsi. Ófriðarstaðir, Hamarskot. Sá eiginlegi Havnarfjarðarhöndlunarstaður tekur nú við. Þar var áður jörð tilheyrandi Garðakirkju, sem hét Akurgerði; nú sjást hennar ekki menjar. Þessi jörð var tekin frá Garðaprestakalli fyrir hálfa Rauðkollsstaði vestur í Hnappadalssýslu. Enginn veit nú, hvað mikið land Akurgerði fylgdi, og þingsvitni, sem tekið var nálægt 1790, gat engu orkað, það hefir dankað svona, að kaupmenn, sem eiga Akurgerði, eigna sér ströndina frá Fiskakletti og inn að Hamrakotslæk, og prestar í Görðum hafa eigi ákært. Á þessu petti eru nú þrjú höndlunaraðsetur, grossera KnutZons, Thomsens og Linnets.
Í Bessastaðasókn eru þessir bæir: Bessastaðir, Lambhús og Breiðabólstaðir.
Ég veit ekki nema það, að Garðar eiga selstöðu í því sokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliðavatns- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin. Hitt veit eg og, að nú brúkar enginn hér selstöður, og séu Garðar undanteknir, sem höfðu pening í seli til 1832, hafa ei selstöðu héðan verið brúkaðar í næstliðin 50 a 60 ár.

Árni Helgason

Árni Helgason.

Úr sókninni liggur vegur úr Hafnarfirði upp í Selvog, sem heitir Grindarskraðavegur. Syðst er Ólafsskarðsvegur, svo er Lágaskarð og loks Hellisheiðarvegur. Á þessum vegi eru, þá Hellisheiði er farin, 3 sæluhús; þeir, sem fara Lágaskarð, gefa haft gagn af einu þeirra, og af öðru þeirra þeir, sem fara Ólafsskarð. Hjá Arnarnesi liggur og vegur og til hægri handar, þá héðan er farð, upp úr Kópavogi inn að Helliám, sem kemur þar saman við alfaraveg allra austa, norðan- og vestanmanna, sem ferðast til Reykjavíkur. Við fleta þessa vegi er gjör árlega, brýr lagðar hér og hvar yfir bleytuflög, en vörður brúkast ei nema á fjallvegum og þó ei öllum. Á Hellisheiðar- og Lágaskarðsvegi eru Bolavellir, upp vi fjallið, og Vötnin, nokkru nær byggðinni hérna megin, almennustu áfangastaðirnir. Helliskot er næsti bær á sama vegi hérna megin við fjallið, hinum megin Reykir eða Reykjakot.
Fornleifar eru varla, að megi kalla. Skoðað hef eg klappir þær, sem eru utarlega á Hvaleyrarhöfða, og séð, að þær eru margvíslega útrispaðar (bergið er ekki hart). Mörg nöfn get eg þar lesið, sem voru alþekkt nöfn danskra og þýskra, og eru þessi nöfn líklega skrifuð þar af sj´ómönnum framandi þjóða, helst meðan kaupstaðurinn var þeim megin við fjörðinn, rétt eins og margir hafa grafið nöfn sín inní bergið í Rauðshellir, sem þangað hafa komið; sums staðar er hvað skrifað ofan í annað. Mögulegt er, að þeir, sem betur eru læsir, geti hér fundið rúnir.
Gerði tvö, sem sumir ætla, að séu dómhringir, finnast. Hið annað á Hofstöðum, hitt í Ráðagerðistúni, sem er næsti bær við Garða.

Lýsing á Mosfells- og Gufunessóknum – Stefán Þorvalddson 1955
Gullbringu- og Kjósarsýsla
Mosfellsprestakall er tvær kirkjusóknir, Mosfells og Gufuness.
Þrír liggja þjóðvegir um sóknirnar; 1. Vegur sá, er liggur norðan yfir Svínaskarð, sem er stuttur fjallvegur milli Kjósar og Kjalarness og Mosfellssveitar. – 2. Sá, er liggur austan yfir Mosfellsheiði og fram í Seljadal, niður hjá bæjunum Þormóðsdal, Miðdal og Reynisvatni og Árbæ, og 3ji vegurinn liggur suðaustan yfir Hellisheiði, fyrir sunna Helliskot og norðan Klapparhlt og Árbæ.
Fornmenjar eru hér fáar sem engar, hvörki rúnir eða myndir, húsatóftir eða dómgringar. En haugur einn er hér í dalnum, á landamærum milli Hraðastaða og mosfells, á sléttu undirlendi við Suðurá, og er haugur sá nefndur Hraðaleiði. Hann er aflangur og snýr í norður og suður og ekki allstór. Það er mælt, að Hraði hafi verið þræll í fornöld, en hafi fengið frelsi, og hafi hann þá reist bæs inn þarm er enn kallast Hraðastaðir, og sé þessi haugur yfir hann orpinn og við hann kenndur.”

Lýsing á Reynivallasókn – Sigurður Sigurðsson 1940
Gullbringu- og Kjósarsýsla
“Meðtekið hefi eg á næstl(iðnu) sumri ykkar heiðursverða og góða bréf til mín af 30. apríl f.á., áhrærandi það efbi að svara upp á þær spurningar, sem bréfið hljóðaði upp á. En bæði vasleysi þá í stað og sumarannir hindruðu mig frá því að sýna lit á að koma þessu í verk, síst í lagi nokkuð eftir óskum, sem þurfti, þar fáviska, aldurdómur og ókunnleiki, þar sem maður kemur gamall langt að, bægði mér að geta nákvæmari útmálan gefið en þessa.”

Heimild:
-Gullbringu- og Kjósarsýsla; sýslu og sóknarlýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855, Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson, Sögufélagið 2007.

Gullbringu- og Kjósarsýsla

Kort Björn Gunnlaugssonar.

Grímsvarða

Þriðjudaginn 23. desember 2014 mátti lesa eftirfarandi í Víkurfréttum:

Guðmundur

Guðmundur Sigurbergsson.

“Grímsvarða við Sandgerðisveg hefur verið endurreist og er nú minnisvarði um þá sem látist hafa á Miðnesheiði. Það var fyrir tilstuðlan þeirra Guðmundar Sigurbergssonar og Sigurðar Eiríkssonar í Norðurkoti að varðan var endurreist.

Þeir Guðmundur og Sigurður eru áhugamenn um sögu Miðnesheiðar og hafa m.a. endurhlaðið vörður á þjóðleiðinni yfir heiðina.

Miðnesheiði er mannskæðasta heiði landsins og í kirkjubókum á Útskálum eru nafngreindir næstum 60 einstaklingar sem orðið hafa úti á heiðinni í aldanna rás. Talið er að þeir séu mun fleiri. Nú er Miðnesheiði sakleysisleg á að horfa en ástæða þess að svo margir hafa orðið úti þar er að heiðin veitir lítið skjól og þar eru fá kennileiti og því var auðvelt að villast þar á árum áður þegar hverrgi sást til ljósa.

Heimild:
-https://www.vf.is/frettir/minnisvardi-um-latna-a-midnesheidi-1

Grímsvarða

Á hinni nýju Grímsvörðu er kross sem Guðmundur Sigurbergsson byrjaði að höggva til á Þorláksmessu 2013.

 

Skarfur

Fræðiheiti skarfs er Phalacrocoracidae. Hann er af ætt pelíkanfugla sem telur um 40 tegundir um allan heim nema á eyjum í miðju Kyrrahafi. Skarfar eru sjófuglar sem halda sig við ströndina eða á vötnum nálægt sjó. Flestir skarfar eru dökkleitir eða svartir, með langan mjóan gogg með krók á endanum. Skarfar lifa á fiski og kafa eftir æti. Þeir verpa í varpnýlendum á skerjum og í klettum.
Skarfar eru stórir dökkir sjófuglar. Hérlendis eru tvær skarfategundir, dílaskarfur (Phalacrocorax carbo) og toppskarfur ( P.aristotelis). Þeir eru báðir staðfuglar og er varpútbreiðsla beggja að mestu bundin við Faxaflóa og Breiðafjörð.

Dílaskarfur

Skarfur

Dílaskarfur.

Dílaskarfurinn er stóri bróðir toppskarfsins. Fullorðinn dílaskarfur í varpbúningi, frá janúar til júní, er með hvíta kverk og vanga. Hann er oft með hvíta fjaðrajaðra annars staðar á hausnum og ýfðar hnakkafjaðrir, þannig að höfuðið virðist kantað að aftan. Dílaskarfur fær nafnið af stórum, hvítum díl, sem hann ber á lærunum í varpskrúðanum. Aðrir hlutar fuglsins eru blásvartir og glansandi. Í vetrarbúningi, frá júlí fram í desember, er hann allur litdaufari og tapar hvíta litnum, nema á kverk. Ungfugl á fyrsta ári er brúnn að ofan og ljós að neðan, frá höfði og niður á kvið, dökknar síðan smátt og smátt og fær fullorðinsbúning á þriðja ári. Goggurinn er dökkur, en gulur við ræturnar, krókboginn í oddinn, gulur fiðurlaus blettur er við goggrót. Fætur eru svartir, augu blágræn.
Dílaskarfur flýgur nokkuð hratt og er háfleygari en toppskarfur. Torvelt getur reynst að greina skarfana að á færi. Dílaskarfur teygir hálsinn fram á flugi og veit höfuðið lítið eitt upp á við. Þegar hann syndir eða situr veit goggurinn upp. Situr oft með þanda vængi eftir ætisleit og blakar þeim í sífellu til að þurrka þá, „messar“. Dílaskarfur styggur og var um sig á varpstöðvum og er hann alger andstæða „litla bróður“, toppskarfsins.

Hópar fljúga venjulega oddaflug. Oft má sjá skarfa á leið til eða frá náttstað í eyjunum í Kollafirði og fæðuslóða í Hafnarfirði og á Álftanesi fljúga yfir Seltjarnarnes eða Vesturbæ Reykjavíkur kvölds og morgna á veturna.

Skarfar tilheyra ættbálki árfætla eða pelíkanfugla og eru skyldir súlum, pelíkönum, spírum, skutlum og freigátufuglum.

Skarfur

Skarfur á kolaveiðum.

Dílaskarfur lifir á fiski og er slyngur kafari, fangar helst botnfisk líkt og kola og marhnút, einnig smáufsa, smáþorsk, hrognkelsi o.fl. Kafar með því að nota fæturna, etur stærri fisk á yfirborði en smærri fisk í kafi.

Dílaskarfur verpur í byggðum, aðallega á flötum, gróðursnauðum skerjum, stundum á stöpum. Hreiðrið er hraukur úr þangi, fóðrað með fjöðrum og grasi. Dvelur á veturna með ströndum fram en leitar stundum upp á ferskvatn, ár og vötn og skarfar sjást jafnvel á vötnum á hálendinu. Nokkrir tugir halda oft til á Þingvallavatni. Toppskarfurinn er aftur á megin eindreginn sjófugl.

Aðalvarpstöðvar dílaskarfs er norðanverður Faxaflói og Breiðafjörður. Áður varp hann allvíða á Norðurlandi og jafnvel víðar. Varpútbreiðslan dróst saman snemma á síðustu öld, hann hvarf þá frá Norðurlandi og öðrum landshlutum nema Vesturlandi. Lágmark var í stofninum 1993, en eftir það hefur honum fjölgað jafnt og þétt. Hann er nú farinn að verpa á Ströndum og fyrir skömmu fannst varp í eyju í Djúpavogshreppi. Eftir varptímann dreifast skarfarnir um land allt.

Dílaskarfur er algengur varpfugl víða um heim, bæði á norður- og suðurhveli jarðar. Erlendis verpur hann gjarnan í trjám og jafnvel gömlum háspennumöstrum, nærri fiskiríkum vötnum inntil landsins.

Lítil þjóðtrú fylgir dílaskarfinum, þó þótti fuglinn gefa mönnum vísbendingu um fisk í sjó. Hann var líka veðurviti og réðu menn í veður af flugi hans eða hátterni.

Á flæðiskeri (lokaerindi)
Yfir skerið skella bárur, skrokkur titrar.
Hátt mót vindi kría kallar:
“Krí nú skolast bjargir allar”

Dílaskarfur skeri framhjá skríður öldu.
Kallar: “vinur komdu fljótur
köfum saman – gamli þrjótur”.

Nú syndir hjá hin sæmilega síldartorfa
Sælt er líf og fengsæll flóinn.
Ég flaksa vængjum – stekk í sjóinn. – HBJ.

Skarfur

Toppskarfur.

Dílaskarfur er stór, dökkur og hálslangur sjófugl. Fullorðnir fuglar eru svartir, í varpbúningi (síðla vetrar og á vorin) er hann með hvíta kverk og vanga, oft hvíta fjaðrajaðra annars staðar á hausnum og ýfðar hnakkafjaðrir, minna á pönkara. Stór hvítur díll er á hvoru læri og bera þeir nafn sitt af honum. Ungfugl á fyrsta ári er brúnn að ofan og ljós að neðan, frá höfði og niður á kvið, dökknar síðan smátt og smátt og fær fullorðinsbúning á þriðja ári. Kynin eru eins.

Dílaskarfur flýgur nokkuð hratt og er háfleygari en toppskarfur. Torvelt er að greina skarfana að á færi, en dílaskarfurinn er miklu stærri, með þykkari gogg og flatara enni . Dílaskarfur teygir hálsinn fram á flugi og veit höfuðið lítið eitt upp á við. Þegar hann syndir eða situr veit goggurinn upp.

Situr oft með þanda vængi eftir ætisleit og blakar þeim í sífellu til að þurrka þá, „messar“. Er styggur og var um sig á varpstöðvum. Félagslyndur.

Dílaskarfur er fiskiæta, fangar helst botnfisk líkt og kola og marhnút, einnig smáufsa, smáþorsk, hrognkelsi o.fl. Hann kafar með því að nota fæturna, etur stærri fisk á yfirborði en smærri fisk í kafi.

Verpir í byggðum, aðallega á flötum, gróðursnauðum skerjum, stundum á stöpum. Hreiðrið er hraukur úr þangi, fóðrað með fjöðrum og grasi.

Dvelur á veturna með ströndum fram. Hann leitar stundum upp á ferskvatn, ár og vötn, aðallega á veturna, jafnvel inn á hálendið á sumrin. Toppskarfur gerir það aldrei.

Toppskarfur

Skarfur

Toppskarfur.

Hann verpir á sjávarklettum í Vestur- og Suður-Evrópu, Suðvestur-Asíu og Norður-Afríku. Hann hefur oftast vetursetu á svipuðum slóðum og hann verpir, nema þeir fuglar sem verpa allra nyrst. Við Ísland er ein mesta skarfabyggðin við Breiðafjörð en þar voru talin árið 1975 um 6.600 hreiður og er það einnig aðal varpsvæði hans. Á veturna er hann aftur á móti við ströndina um allt vesturland, frá Vestmannaeyjum og Faxaflóa og allt norður fyrir Vestfirði, á Ströndum inn á Húnaflóa.

Toppskarfurinn er meðalstór svartur, grannur og langur sjófugl, um 68 – 78 sentimetra langur með 95 – 110 sentimetra vænghaf. Honum er oft ruglað saman við Dílaskarf en þótt hann sé líkur honum er hann nokkru minni en Dílaskarfurinn.

Á varptímanum er hann alsvartur með grænleitri slikju en hún er tilkomin vegna dökkra fjaðrajaðra og virðist hann fyrir vikið vera hálf hreistraður að ofan. Fullorðnir fuglar hafa einkennandi uppsveigðar fjaðrir á höfðinu frá því eftir áramótin og fram á vor. Ungfuglarnir eru aftur á móti dökkbrúnir með ljósan framháls.

Toppskarfar halda hópinn og verpa í byggðum og þá helst á lágum eyjum og hólmum en einnig stundum á lágum klettum og í fuglabjörgum. Hreiðrið er einfaldur hraukur úr þangi og fóðrað með fjöðrum og grasi. Eggin eru frá einu til sex og liggur hann á í 30 til 31 dag.

Skarfur

Toppskarfur.

Toppskarfur heldur sig við ströndina og sést sjaldan inn í landi. Hann er einn besti kafari meðal skarfa og getur kafað 45 metra eða meira. Fæða hans kemur frá sjávarbotni og aðalfæða þeirra er sandsíli. Toppskarfurinn rennblotnar svo við köfunina að hann þarf að þurrka sig og sjást þeir oft með útbreidda vængina í sólbaði eða að blaka þeim. Er oft sagt að þá sé hann að „messa“. Eins og með marga fugla sem sérhæfa sig í köfun er hann er frekar klaufskur við að taka sig á loft. Hann er nokkuð veiddur og hefur því fækkað aðeins fyrir vikið.

Toppskarfur er nokkru minni og grennri en dílaskarfur. Hálsinn er styttri og grennri og höfuðið minna, en annars getur verið erfitt að greina þessa fugla sundur eftir stærð og vexti nema sjá þá saman. Höfuð toppskarfs er hnöttóttara, enni brattara og goggur áberandi grennri en á dílaskarfi. Í varpbúningi er toppskarfur alsvartur með grænleitri slikju. Virðist hreistraður að ofan vegna dökkra fjaðrajaðra. Uppsveigður fjaðratoppur á höfði er einkenni fullorðinna fugla frá því í janúar fram á vor. Ungfugl er dökkbrúnn, með ljósan framháls, en ekki ljósleitur á bringu og kviði eins og ungir dílaskarfar. Kynin eru eins.

Toppskarfur er djúpsyndur og ber höfuðið hátt á sundi eins og dílaskarfur. Eftir köfun þarf toppskarfur að þurrka vængina og situr þá oft og blakar þeim, ,,messar” eins og dílaskarfur, en breiðir ekki jafn mikið úr vængjunum. Hann er fremur klaufalegur þegar hann hefur sig á loft, flýgur með hraðari vængjatökum en dílaskarfur og teygir hálsinn og gogginn ekki upp eins og hann, flýgur fremur lágt. Er venjulega félagslyndur.

Toppskarfur er fiskiæta, kafar eftir bráðinni, fangar m.a. sandsíli, síld, marhnút, þorsk, ufsa og sprettfisk. Stingur sér á sundi og kafar með fótunum.

Heldur sig við strendur og sést nær aldrei inn til landsins eins og dílaskarfurinn. Verpur í byggðum, er algengastur á lágum eyjum eða hólmum í Breiðafirði og Faxaflóa. Er einnig í lágum klettum, stundum í fuglabjörgum eða í stórgrýtisurðum. Hreiðrinu svipar til dílaskarfshreiðurs.

Toppskarfur er staðfugl, sem sést víða um vestanvert landið á veturna. Hann hefur breiðst út um Strandir á undanförnum árum og er nú farinn að verpa í Papey. Hann verpir við strendur Evrópu, frá Kólaskaga suður í Miðjarðarhaf og til Marokkó.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Skarfur
-https://nmsi.is/molar/fugl_manadarins/dilaskarfur/
-https://fuglavefur.is/birdinfo.php?val=4&id=42
-https://is.wikipedia.org/wiki/Toppskarfur
-https://fuglavefur.is/birdinfo.php?val=1&id=60

Skarfur

Dílaskarfur.

Rauðhólar

Rauðhólar eru þyrping gervigíga við Elliðavatn í útjaðri Reykjavíkur og tilheyra Heiðmerkursvæðinu. Upphaflega voru gígarnir um 80 talsins en hefur fækkað síðustu áratugi sökum efnistöku. Mestur hluti efnisins var nýttur í Reykjavíkurflugvöll á tímum heimstyrjaldarinnar síðari.

RauðhólarFyrir um 5200 árum varð eldgos í austanverðu Brennisteinsfjallakerfinu en þá rann mikið hraun frá gígnum Leitum austan undir Bláfjöllum (nefnt Leitahraun). Meginhraunstraumurinn fór til suðurs á milli Bláfjalla og Lambafells og niður á láglendið, allt til sjávar (þar sem nú er Stokkseyri). Önnur hraunkvísl rann til norðurs að Húsmúla og síðan til vesturs um Sandskeið, Lækjarbotna, Elliðavatnslægðina og síðan um farveg Elliðaár til sjávar. Á leið sinni fór hraunið um allvíðlent votlendi og grunnt stöðuvatn, forvera Elliðavatns. Gufusprengingar urðu í hrauninu þegar það rann yfir vatnssósa setlög og upp hlóðst þyrping gjall- og klepragíga. Hólarnir ná yfir um 1,2 ferkílómetra svæði. Annað minna gervigígasvæði er um 5 km austan Rauðhóla, svonefnd Tröllabörn.

Rauðhólar

Í Rauðhólum.

Rauðamalarnám var stundað af kappi úr Rauðhólum um miðja síðustu öld og var þá um þriðjungi hólanna spillt. Talið er að gíghólarnir hafi í upphafi verið um 150 talsins. Í sundurgröfnum gígunum gefst gott tækifæri til að skoða innri gerð gervigíga og sjá hvernig þeir hafa hlaðist upp

Gervigígar eru fyrirbæri sem sagt er að ekki hafi fundist annars staðar en á Íslandi og reikistjörnunni Mars. Önnur dæmi hér á landi eru Álftavershólar og Landbrotshólar í Skaftafellssýslu (hvoru tveggja taldir vera í Eldgjárhrauni frá 934) og gígarnir við Mývatn, til dæmis Skútustaðagígar.

Rauðhólar

Gervigígar myndast þegar hraun rennur út í grunnt vatn eða yfir votlendi. Um gervigíga er hægt að lesa meira í svari Ármanns Höskuldssonar við spurningunni Hvernig myndast gervigígar? Rauði liturinn stafar af örsmáum ögnum af hematíti sem myndaðist í gosinu við oxun járns í bráðinni af völdum gufu.

Gervigígar myndast þegar helluhraun rennur í göngum út í vatn með vatnsósa seti. Kvikutotur þrýstast niður í setið, hvellsuða verður og gjall brýst gegnum þak hraungangsins upp til yfirborðsins. Kvika heldur áfram að streyma að og toturnar seylast æ dýpra niður í setið uns þær ná (í þessu tilviki) niður í jökulbergið undir.

Rauðhólar

Tjaldbúðir Komorowicz í Rauðhólum.

Rauðhólarnir urðu til fyrir 4700 árum þegar Leitahraun (Elliðavogshraun) rann frá gígnum Leiti hjá Bláfjöllum og allt til sjávar í Elliðavogi. Þar sem nú eru Rauðhólar var grunnt stöðuvatn sem hraunið varð að fylla áður en það héldi áfram þeirri ferð. Þýskur jarðfræðingur, Komorowitz, lýsti Rauðhólum árið 1912 og birti af þeim kort, hið eina sem til er af þeim óspilltum. Stærstu hólarnir voru 212 m að grunnþvermáli og risu 22 m yfir hraunið undir. Frá um 1940 og fram til 1960 voru þeir notaðir sem gjallnáma, einkum til að byggja Reykjavíkurvöll á stríðsárunum, en síðar í húsgrunna og vegi.

Rauðhólar

Rauðhólar eru þyrping af gervigígum. Sagt er að gervigígar hafi aðeins fundist á Íslandi og á reikistjörnunni Mars.

Sveinn Pálsson, læknir og náttúrufræðingur, áttaði sig fyrstur á því (1793) að gígar af þessu tagi eru myndaðir við gufusprengingar, en almennt var það ekki viðurkennt fyrr en Sigurður Þórarinsson lýsti gervigígunum við Mývatn um 1950. Áður töldu ýmsir þýskir eldfjallafræðingar þá vera sérstaka gerð af eldstöðvum, „svæðisgos“ (Aerialeruption), ólíka sprungugosum og gosum frá einstökum gíg.

Rauðhólar

Hús Vorboðans í Rauðhólum.

Á austur hluta hólasvæðisins var stór gígur sem hét Kastali. Vestur af honum var gígur sem nefndist Stóri-Rauðhóll og er hann að mestu leyti horfinn. Þaðan suðaustan af var Miðaftanshóll sem er einnig mikið raskaður.
Innan Rauðhólasvæðisins má í dag finna minjar um húsagrunna frá stríðsárunum. Með auknum athöfnum og ágangi á náttúruna sem fylgdi útþenslu borgarsamfélagsins jókst jafnframt meðvitund manna á því að vernda rétt náttúrunnar. Sumarið 1958 kvað Náttúruverndarnefnd Reykjavíkur upp úrskurð sinn um friðlýsingu á Rauðhólasvæðinu. Sama ár samþykkti bæjarráð bann við því að skertir yrðu fleiri hólar. Árið 1961 var sá hluti sem ekki var stórskemmdur friðlýstur sem náttúruvætti. Á fyrsta náttúruverndarþingi árið 1972 var hvatt til þess að gerð yrði náttúruminjaskrá undir forystu Náttúruverndarráðs og var lagt til að Náttúruverndarráð í samvinnu við Náttúruverndarnefnd og áhugamenn myndi kynna sér þær náttúruminjar sem ástæða þótti til að lýsa sem friðlönd, þjóðgarða eða fólkvanga. Það var svo árið 1973 á fundi Náttúruverndarnefndar sem samþykkt var að óska eftir fólkvangsfriðun Rauðhólasvæðisins. Að tillögu Náttúruvernarráðs og samþykki frá borgarstjórn Reykjavíkur ákvað Umhverfisstofnun að friðlýsa svæðið sem fólkvang skv. 24. gr. laga nr. 47/1972 (Borgarskjalasafn Reykjavíkur). Svæðið var svo friðlýst sem fólkvangur 12. mars árið 1974 með auglýsingu í Stjórnartíðindum B nr. 185/1974, án athugasemda (Umhverfisstofnun, á.á.c). Með friðlýsingu svæðisins sem fólkvangur var það komið í umsjá sveitarfélagsins.

Vorboðinn

Vorboðinn

Vorboðinn – barnaheimili í Rauðhólum.

Í Alþýðublaðinu 1953 fjallar Svava Jónsdóttir um barnaheimilið Vorboðann í Rauðhólum:
“Árið 1933 var Fulltrúaráði verkalýðsfélagannna í Reykjavík leigð spilda á vesturhluta Rauðhólasvæðisins. Á þeirra vegum og vegum Alþýðuflokksins var á sumrin um nokkurra ára skeið haldnar útisamkomur á svæðinu. Síðar afhenti Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna, barnaheimilinu Vorboðanum leigulandið ásamt skála og var þar rekið um tíma sumardvalarheimili fyrir börn. Árið 1986 var á svæðinu starfrækt útileikhús þar sem sett var á svið brot úr Njálssögu (Páll Líndal, 1985).
Hér langar mig til að segja frá merkri starfsemi, sem fram fer í bókstaflegum skilningi við bæjardyr okkar Reykvíkinga, en fjöldinn hefur litla hugmynd um.
Ég á við sumardvalarheimilið í Rauðhólum, sem “Vorboðinn” hefur rekið með miklum myndarskap og þeirri atorku og alúð, sém jafnan mun segja til sín í störfum kvenna, þegar þær vilja beita sér fyrir góðu málefni.
En „Vorboðinn” er samtök alþýðukvenna, og standa að honum Verkakvennafélagið Framsókn, Þvottakvennafélagið Freyja og Mæðrafélagið. Þessi samtök hafa um langt skeið rekið sumarheimili fyrir börn, og nú allmörg síðustu árin í Rauðhólum, þar sem alþýðusamtökin á sínuni tíma helguðu sér land, girtu það og reistu skála sinn, sem enn er aðalhúsið, þó að Vorboðinn hafi tvisvar byggt við hann.
Rauðhólar eru frá náttúrunnar hendi eitt hið heppilegasta land, sem hægt er að hugsa sér til slíkrar starfsemi, grónir hraunhólar, með dældum, bollum og slökkum, sem gefa skjól við veðrum allra átta, breytileiki og fjölbreytni í landslagi ótrúlega mikil, byggingarefni er þar nærtækt fyrir smáar hendur, vegagerð hægt að stunda þar sumarlangt. Ekki má svo gleyma blessuðu lynginu, sem býður berin sín strax og kemur fram í ágúst, enda eru þau þegin eins og við eigum að: þiggja allir góðar gjafir — með fögnuði hjartans, sem einskis spyr.”

Rauðhólar

Bátur við barnaheimili Vorboðans í Rauðhólum.

Í Morgunblaðinu 1950 er fjallað um barnaheimilið undir fyrirsögninni “Myndarlegur rekstur Barnaheimilisins Vorboðinn”.
“Barnaheimilsnefnd Vorboðans hafði boð inni í gær og sýndi gestum barnaheimilið að Rauðhólum og skýrði frá starfsemi þess. Forstöðukona heimilisins er Þuríður Hringsdóttir. — Heimilið starfar tvo mánuði á sumri hverju og eru þar nú 81 barn á aldrinum þriggja til sjö ára.
Barnaheimilið Vorboðinn tók fyrst til starfa árið 1937. Gengust nokkrar konur úr Alþjóðasambandi Verkalýðsins fyrir stofnun þess, og leituðu til tveggja fjelaga, Þvottakvennafjelagsins „Freyju” og Verkakvennafjelagsins „Framsókn” um styrk í því sambandi. Var því vel tekið og seinna bættist Mæðrafjelagið í hópinn. Eru nú fimm konur úr hverju fjelagi í Barnaheimilisnefndinni.
Í byrjun var barnaheimilið rekið að Brautarholti í Skeiðum, síðan að Flúðum og svo eitt sumar að Þingborg í Flóanum. — Var þetta mjög erfitt fyrirkomulag, þar eð þurfti að fá lánaða heimavistarskóla, flytja þangað allt, sem með þurfti til heimilisins og síðan burtu aftur að haustinu.
Meðan á stríðinu stóð, annaðist Rauði Kross Íslands öll barnaheimili, en er því lauk, byrjaði Vorboðinn að nýju í smáum stíl í skóla að Ásum í Hreppum með 30—40 börn.
Fulltrúaráð Verkalýðsfjelaganna átti um þessar mundir skála í Rauðhólum, er notaður var fyrir skemmtistað, og var ákveðið að hann skyldi gefinn til reksturs Vorboðans það landrými er honum fylgdi, og hóf barnaheimilið starfsemi sína þar árið 1947. Var heimilinu veittur styrkur frá ríki og bæ, og í fyrra og hittiðfyrra var skálinn stækkaður og breytt svo sem með þurfti, og tekinn í algera notkun í fyrra.

Rauðhóla

Framnesvegur 66.

Rúmar hann nú 80 börn. Eru í honum tveir svefnskálar fyrir stúlkur og einn fyrir drengi, ásamt borðstofu, eldhúsi, herbergi fyrir forstöðukonu og starfsstúlkur, baðherbergi, þvottahúsi og ýmislegt annað. Er allt heimilið með miklum myndarbrag. Landrými er einnig mikið og gott.
Á barnaheimilinu vinna 13 stúlkur, að forstöðukonu meðtalinni. Meðlag með börnunum er mjög lágt og er markmið Vorboðans að taka einungis börn til sumardvalar frá þeim heimilum, sem örðugast eiga, og er von nefndarinnar að geta gert enn meira þeim til hjálpar í framtíðinni.
Árið 1933 var spilda í vesturhluta hólanna leigð fulltrúaráði verkalýðsfélaganna í Reykjavík til útisamkomuhalds. Síðar var spildan ásamt skála, sem hafði verið reistur þar afhentur borginni á ný. Þar var rekið um tíma barnaheimilið Vorboðinn sem sumardvalarheimili fyrir börn.”

Í “Húsaskrá 2004” má lesa eftirfarandi um framangreint hús Vorboðans í Rauðhólum:
“Húsið er einlyft timburhús með risi. Það var flutt á lóðina við Framnesveg 66 árið 1982, en stóð upphaflega við Rauðhóla, austan við Reykjavík. Þar reisti fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík og Alþýðuflokkurinn skála fyrir sumarsamkomur, á spildu sem fulltrúaráðið tók á leigu árið 1933. Síðar var leigulandið ásamt skálanum afhent undir starfsemi sumardvalarheimilis Vorboðans fyrir börn frá fátækum heimilum, sem stofnað var 1935 og rekið af kvenfélögum í Reykjavík með styrk frá bænum. Snemma á 9. áratugnum var ákveðið að rífa barnaheimili Vorboðans og fékkst þá leyfi til að flytja hluta þess, einlyftan skála með leikfimisal, á nýja lóð við Framnesveg og endurbyggja þar sem íbúðarhús. Við endurbygginguna var skálinn styttur um nokkra metra, gerðir á hann gluggar og byggt ris með kvistum ofan á hann, en gólf og veggir héldu sér. Við þetta var notað efni úr þeim hluta barnaheimilisins sem var rifinn. Í nóvember 1982 var húsið fullklárað í núverandi mynd og var flutt inn í það sama mánuð.
Engar minjar er að sjá á staðnum, nema timburbát sem hefur trúlega verið notaður sem leiktæki.”

Skáli/skóli

Rauðhólar

Meintur skáli í Rauðhólum.

Skammt norðan húsgrunns Vorboðans er aflöng tóft, u.þ.b. 12 metra löng; þrískipt. Tóftin er skálalöguð og veggir grónir en vel greinilegir í grasivöxnu umhverfinu. Á Herforingjaráðskorti frá árinu 1908 er þarna getið um “Skóla” eða “Skála”. Kortið var gert löngu áður en Vorboðinn fékk úthlutaða lóð á nálægum slóðum (skammt vestar) og enn fyrr en hernaðarmannvirkin voru byggð í Rauðhólum.  Um athyglisverðar minjar er að ræða, en þeirra virðist hingað til ekki hafa verið getið í fornleifaskránigum af svæðinu.

Sumarskemmtun í Rauðhólum
Rauðhólar
Í Þjóðviljanum 1945 mátti lesa eftirfarndi um “Sumarskemmtun í Rauðhólum”.
“Sumarskemmtun í Rauðhólum í dag yerður fyrsta útihátíð Æskulýðsfylkingarinnar í Rauðhólum, og er það atburður, sem ástæða er til að reykvískir sósíalistar og allt reykvískt alþýðufólk, veiti athygli. Það var í mikið ráðizt þegar Æskulýðsfylkingin ákvað að taka Rauðhólaskálann á leigu og gera úr honum skemmtistað, eftir að hann hafði legið ónotaður um margra ára skeið og húsið drabbazt niður. Fylkingin hafði um langt skeið verið að svipazt um. eftir hentugum stað til sumarskemmtana í nágrenni bæjarins, og þegar Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna gaf æskulýðsfélögum sósíalista og Alþýðuflokksmanna kost á að fá Rauðhólaskálann leigðan, tók Æskulýðsfylkingin boðinu tveim höndum.
„Þú spurðir hvort yið hefðum ekki álitið þetta fyrirtæki ofviða félagsskap okkar”, segir Lárus Bjarnfreðsson, einn ötulasti forgöngumaður Rauðhólamálsins, í viðtali við Þjóðviljann í fyrrahaust, og heldur áfram: „En nú skal ég segja þér nokkuð. Við hófum þetta verk með það fyrir augum, að skapa samastað fyrir alþýðuæskuna í bænum, þar sem hún gæti komið saman til útiskemmtana og hollra leikja, en á slíkum stað hefur verið tilfinnanleg vöntun hér. í öruggri vissu um skilning félaga á þessu mikla nauðsynjamáli, leituðum við til þeirra um að leggja fram vinnu sína til þeirra endurbóta, sem þurfti að gera á staðnum. Félagarnir brugðust ekki trausti okkar, og sýnir það bezt félagsþroska þeirra, er að kvöldi þess sama dags og samningarnir um leiguna gengu í gildi, mættu á skrifstofu Æskulýðsfylkingarinnar yfir 30 manns, piltar og stúlkur, tilbúin að hefja starf”.

Rauðhólar

Grunnur Rauðhólaskálans.

Og unga fólkið kom oftar en þetta kvöld. Kvöld eftir kvöld, sunnudag eftir sunnudag, fór hópur reykvískra æskumanna upp í Rauðhóla, og vann þar í sjálfboðavinnu mikið verk og gott. Laugardags- og sunnudagskvöld, að loknu dagsverki, undu kátir félagar við söng, upplestur og sögur. Þetta var Reykjavíkuræska að eyða tómstundum sínum, við erfitt starf, unnið af þegnskap, landnámsstarf, óeigingjarnt og seinunnið, eins og slík störf eru oftast. Það kom í ljós að til þess að Rauðhólar gætu talizt boðlegur skemmtistaður, þurfti svo mikla vinnu, að ekki tókst að ljúka henni nógu snemma til þess að sumarskemmtanir gætu hafizt þar í fyrrasumar. En öllum þeim, sem voru á vígsluhátíð Rauðhólaskálans í fyrrahaust, varð ljóst, að þar hafði gott verk verið unnið, sú skemmtun varð minnisstæð, og að góðu einu. Nú er komið til kasta reykvískrar alþýðu að sýna að hún kann að meta það starf, sem þarna hefur verið unnið, og er ekki að efa að margmennt verður í Rauðhólum í dag.”

Rauðhólar

Rauðhólar.

Í Þjóðviljanum í maí 1946 er sagt frá “Glæsilegri útiskemmtun Æskulýðsfylkingarinnar í Rauðhólum”.
“Á morgun býður Æskulýðsfylkingin Reykvikingum upp á einhverja fjölbreyttustu cg beztu skemmtun ársins.
Skemmtunin verður haldin uppi í Rauðhólum. Þessi atriði verða á. skemmtiskránni:
1. Ræða: Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur.
2. Upplestur: Elías Mar les kafla úr „Eldur í Kaupinhafn”, eftir Halldór Kiljan Laxness.
3. Söngur: Kátir sveinar, kvartett.
4. Glímusýning: Glímuflokkur frá KB sýnir.
5. Galdrasýningari Baldur Georgs.
Lúðrasveitin Svanur leikur milli skemmtiatriða.
6. Dans: Hljómsveit Björns R. Einarssonar leikur. Haukur Mortens og Alfreð Clausen syngja með hljómsveitinni. Þeir félagar eru vel þekktir fyrir söng sinn í útvarpinu nú fyrir skemmstu í tímanum „Lög og létt hjal”.
Auk þessara atriða mun Einar Arnórsson teikna skopmyndir af teim, sem þess óska, meðan á skemmtuninni stendur. Ennfremur fá mótsgestir að þreyta skotfimi sína og ýmsar aðrar listir í sérstöku tjaldi.
Æskulýðsfylkingin á þakkir skilið fyrir forgöngu sína í því að sjá Reykvíkingum fyrir góðum útiskemmtunum í nágrenni Reykjavíkur, enda mun æskulýður Reykjavíkur vafalaust kunna að meta þau fjölbreyttu skemmtiatriði, sem eru í boði í Rauðhólum á morgun.
Ferðir verða frá Bifreiðastöðinni Heklu eftir kl. 13 á morgun, en skemmtunin byrjar kl. 15.”

Rauðhólar

Rauðhólar.

Í Þjóðviljanum daginn eftir, 22. maí, er fjallað um skemmtanahaldið.
“Eins og sjá má af þessu, var hér um óvenju fjölbreytta og glæsilega skemmtun að ræða, enda hefur verið unnið af kappi að endurbótum á staðnum í vor, og er þeim framkvæmdum langt frá því að vera lokið. Tilhögun skemmtananna hefur verið breytt frá því sem var síðast liðið sumar. Öll skemmtiatriði nema íþróttir fara nú fram í stórum gíg norðan við skálann, og er þar skjól fyrir flestum áttum. Nýr danspallur hefur verið settur upp í laut suður af skálanum, og er hann alveg í skjóli.
Þrátt fyrir tvísýnt veður, einkum framan af degi, sóttu skemmtunina hátt á annað þúsund manns. Ölvunar varð lítið vart, en að því leyti eru Rauðhólaskemmtanir Æ.P.R. undantekning frá flestum öðrum útisamkomum.
Hollar útiskemmtanir eru sá þáttur skemmtanalífsins, sem Reykvíkingar hafa átt mjög lítinn kost á að kynnast.
Nafn Æskulýðsfylkingarinnar í Reykjavík er trygging fyrir góðum og vönduðum skemmtunum. Vonandi kunna bæjarbúar að meta þessa starfsemi félagsins, en það geta þeir bezt sýnt með því að sækja skemmtanirnar.
Hittumst heil á næstu Rauðhólaskemmtun!

Auk framangreinds var gerð tilraun til að reka leiksvið í Rauðhólum.

Njála í rauðum hlíðum

Rauðhólar

Frásögn af Rauðhóla-leiksviðinu í DV.

Í DV í júlí 1986 mátti lesa eftirfarandi um “Söguleikana” í Rauðhólum.
“Aðstandendur sýningarinnar á Njáls sögu lentu, sem kunnugt er, á nokkrum hrakhólum með stað fyrir leikritið eftir að endanlega hafði verið neitað um leyfi til að sýna það í Hvannagjá á Þingvöllum, þar sem óneitanlega hefði verið stórbrotið að sjá einmitt þetta verk leikið. En uppi í Rauðhólum fannst um síðir tilvalinn staður fyrir sýninguna, hraunhólamir mynda þarna litríka og sterka umgjörð um örlagasögu persónanna úr Njálu.
Þau Helga Bachmann og Helgi Skúlason hafa við gerð handritsins lagt leikrit Jóhanns Sigurjónssonar, Mörð Valgarðsson, til grundvallar, en hafa bæði skorið burt og annars staðar bætt inn í atriðum og tilsvörum beint úr Njálu sjálfri. Leiksýningin endar, eins og leikrit Jóhanns, á brennunni á Bergþórshvoli, en áður segir frá launráðum Marðar Valgarðssonar, sem með rógi og undirferlum kemur af stað þeirri óeiningu og hatri, sem leiðir til vígs Höskulds, og hefndarinnar, sem óhjákvæmilega hlýtur að koma fyrir það. Miðdepillinn er þannig Mörður, afbrýðisemi hans og öfund, en í kringum hann öðlast allar hinar þekktu persónur Njálu líf, Njáll og Berþóra, kona hans, synir þeirra, Skarphéðinn og Grímur, koma hér við sögðu, Kári, Höskuldur Hvítanesgoði og Hildigunnur, kona hans, Flosi föðurbróðir hennar og Þórkatla, eiginkona Marðar.
Leikritið gengur upp sem sjálfstæð heild, og hinn óvenjulegi sýningarstaður skapar mikla stemmningu.

Rauðhólar

Leiksviðið í Rauðhólum.

Upphafsatriði sýningarinnar er mjög eftirminnilegt, tónlist Leifs Þórarinssonar hljómar að hólabaki og fornkappar og konur þeirra birtast uppi á háum hólum og ber við loft. Þarna er umhverfið nýtt til hins ýtrasta á áhrifamikinn hátt. Annars fer mestöll atburðarásin fram á balanum fyrir framan áhorfendapallana, en þar hefur lítillega verið bætt um betur frá því að lið þeirra Helgu og Helga kom á vettvang. Balinn er ágætis leiksvið en atriðið með Valgarði gráa í forleiknum sýndi að stundum hefði mátt nýta sér kosti umhverfisins betur og færa fleiri atriði upp í brekkurnar.
Leikendur eru flestir af yngstu kynslóð leikara, en til liðs við þá koma nokkrar þaulreyndar kempur. Þau Erlingur Gíslason og Ásdís Skúladóttir eru ungleg og stillileg sem Njáll og Bergþóra. Friðarræða Njáls og lokaatriðið er þau Bergþóra leggjast til hinstu hvíldar eru sterk atriði og vel flutt. Öllu meiri tilþrif fær Valdimar Flygenring tækifæri til að sýna í hlutverki hetjunnar uppstökku, Skarphéðins. Bróðir hans, Grímur, er leikinn af Þresti Leó Gunnarssyni og mágur þeirra bræðra, Kári, er leikinn af Skúla Gautasyni. Þeir standa þétt saman, bundnir af hetjuhugsjón og hefndarskyldu síns tíma.
Jakob Þór Einarsson er í hlutverki Höskulds Hvítanesgoða, og konu hans, Hildigunni, leikur Bryndís Petra Bragadóttir, og komast bæði nokkuð vel frá sínu. Rúrik Haraldsson er höfðinglegur Flosi og hann leikur líka heiðingjann gamla, Valgarð, sem illu heilli egnir son sinn, Mörð, gegn Njálssonum.
Aðalsteinn Bergdal, sem leikur Mörð, lykilpersónuna í leiknum, skapa eftirminnilega persónu. Mörður verður í túlkun hans trúverðugur jafnt í öfugsnúinni aðdáun sinni á Skarphéðni, sem í afbrýðisemi sinni og öfund. Kona hans Þórkatla, björt yfirlitum og algjör andstæða Marðar, er leikin af Guðrúnu Þórðardóttur. Búningar eru ágætlega hannaðir, utan skófatnaðurinn, sem var eitthvað vandræðalegur.
Aðstandendum sýningarinnar má þakka fyrir góða og nýstárlega sýningu og tel ég að enginn sé svikinn af því að leggja leið sína upp í Rauðhóla á næstunni.” – AE

Stríðsminjar

Rauðhólar

Rauðhólar – minjar bragga.

Í Rauðhólum voru herbúðirnar Thinker frá árinu 1943, það var miðstöð ratsjárkerfis, höfuðstöðvar stórfylkis, strandvarna og eða loftvarnastórskotaliðs. Fjölmargar minjar, einkum braggagrunna og vegi, má enn sjá í hólunum, einkum vestanverðum.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Rau%C3%B0h%C3%B3lar
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=11583
-https://www.isor.is/25-raudholar-gervigigar
-Rauðhólafólkvangur, saga, verndun og nýting, Lena Rut Kristjánsdóttir, BS-ritgerð, Landbúaðarháskóli Íslands, 2009.
-Alþýðublaðið, Konan og heimilið, Svava Jónsdóttir, laugardagur 8. ágúst 1953, bls. 5.
-Morgunblaðið fimmtudaginn 6. júlí 1950, Myndarlegur rekstur Barnaheimilisins Vorboðinn, bls. 8.
-https://www.sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=567205
-Þjóðviljinn, sunnudaginn 8. júlí 1945, Sumarskemmtun í Rauðhólum, bls. 3.
-Þjóðviljinn, laugardaginn 18. maí 1946, Glæsileg útiskemmtun Æskulýðsfylkingarinnar í Rauðhólum á morgun, bls. 1.
-Þjóðviljinn 22. maí 1946, bls. 3.
-DV, lagardaginn 5. júlí 1986, Leiklist; Njála í rauðum hlíðum – Auður Eydal, bls. 15.

Rauðhólar

Herminjar í Rauðhólum.

Reiðhjól

Á vefsíðu Fjallahjólaklúbbsins má lesa eftirfarandi grein Óskars Dýrmundar Ólafssonar um fyrsta reiðhjólið á Íslandi.

Fyrsta reiðhjólið
HjólreiðarFyrstu fregnir af reiðhjólum sem vitað er til að hafi birst hérlendis á prenti eru þegar orðið hjólhestur er notað í grein um “Atgervi kvenna” árið 1887 í Fjallkonunni. Í greininni eru rök færð fyrir því að þrátt fyrir allt þá geti konan nú ýmislegt og jafnvel í sumum tilvikum skarað fram úr karlmönnum. “Ein kona hefir nú á dögum náð að skara svo fram úr í stærðfræði, að enginn karlmaður er henni fremri. Önnur hefir á einum degi ferðazt 160 enskar mílur á hjólhesti (Bicycle).” Hér er verið að vitna til kvenna erlendis en víða voru hjólreiðar orðnar að tískuæði þar. En þrátt fyrir afrek kvenna þá var bent á að “ekki geta konur í síðum kjólum klifrað, hlaupið kapphlaup, riðið hjólhesti”, en í þá daga þá var það ekki talið sæma konum að vera öðru vísi klæddar en í síðum kjólum, líka þegar þær hjóluðu eins og sagt var frá í kaflanum alþjóðlegt baksvið.

Fyrstu reiðhjólin sem vitað er um að hafi verið flutt til Íslands sáust í Reykjavík árið 1890. Þau voru tvö og voru í eign Guðbrands Finnbogasonar verslunarstjóra hjá Fischer versluninni og Guðmundar Sveinbjörnssonar. Guðbrandur sem bjó í Reykjavík hýsti ungan mann er byrjaði að sækja nám við Latínuskólann veturinn 1889. Var þetta Knud Zimsen sem síðar varð verkfræðingur bæjarins og svo borgarstjóri Reykjavíkur. Í frístundum sínum gerði hann margt sér til dægrastyttingar en þó var var það ein sem hann undi sér “löngum við, enda fágæt í Reykjavík í þann tíma, en það var að fara á reiðhjóli.” Lýsing hans á fyrsta reiðhjólinu hérlendis sem enn er varðveitt á þjóðminjasafninu er svohljóðandi:

ReiðhjólHjólgrindin var úr járni, en hjólin úr tré með járngjörðum. Ekkert drif var á því, og var aðeins hægt að stíga framhjólið. Það var því ekki auðvelt að fara hratt á því, og ókleift mátti heita að hjóla á því upp nokkurn verulegan bratta. Ég gerði heldur ekki víðreist á því, hjólaði aftur og fram um Aðalstræti og renndi mér á því niður Fischersund.

Reiðhjólið sem Knud lýsir hér var, eins og hefur verið vikið að í bakgrunnskafla, af Velocipede gerð, eða “benskakare” eins og það var kallað í Svíþjóð, sem vinsælt var á sjöunda og áttunda áratug aldarinnar hjá nágrönum okkar og víðar í Evrópu.

Annað reiðhjól sem átti eftir að vekja feiknarathygli var í eigu Elías Olsen, bókhaldara hjá Fischer versluninni. Það kom á árinu 1892 ásamt reiðhjóli Teits Ingimundarsonar úrsmiðs og var með risastórt framhjól og lítið afturhjól.
ReiðhjólKnud Zimsen segir í endurminningum sínum að hjól Olsens hafi tekið “hinum mjög fram, enda safnaðist fólk saman til að horfa á hann aka á því kringum Austurvöll, sem hann gerði ekki ósjaldan.” Má ætla að hér hafi verið á ferðinni reiðhjól sem hét “Ordinary” og varð feiknarvinsælt á níunda og áttunda áratug 19. aldar í Evrópu. Þessi nýjung sem reiðhjólið var þá hérlendis, var fyrst í eigu mjög fárra manna og hlýtur að hafa þótt nýstarleg mitt í allri hestaumferðinni. Enda fór það svo að reiðhjólið sem í fyrstunni var kallað Velocipede af sumum notendum, fékk það nafn sem því hafði verið gefið í Fjallkonunni 1887, nefnilega hjólhesturinn. Óskar Clausen sem var staddur á Þjóðhátíð í Reykjavík laust fyrir aldamótin minnist þess að hafa séð til hjólreiðamanna sem voru að sýna listir sínar.

Á einni þjóðhátíðinni fyrir aldamótin voru sýndar hjólreiðar á Melunum, og voru þeir tveir, sem sýndu sig á hjólunum. Þótti þetta merkilegt. Annar var Jes Zimsen konsúll, þá ungur maður. Hann fór vel á hjóli, svo að dáðst var að, þó að hann reyndar skylli flatur áður en hann skylli flatur áður en hann næði marki. Óheppni þessi var því að kenna, að annað hjólið sprakk, en öllum þótti það bezt, að Jes meiddi sig ekkert og stóð upp skellihlæjandi.

Óskar greinir ekki nánar frá því í þessarri lýsingu sinni hvaða þjóðhátíð þetta hafi verið en líklegt er að þetta hafi verið á árunum 1895-1898.

HjólreiðarSá sem fyrst fór svo að nýta sér reiðhjólið í atvinnuskyni var Guðmundur Björnsson héraðslæknir, síðar landlæknir og þingmaður, en hjólaði í sjúkravitjanir um allan bæ og hjólaði hann m.a. alla leiðina til Hafnarfjarðar til að sinna sjúklingum. Hjólreiðar Guðmundar bárust meira segja inn í umræður Alþingis um rýmkun atkvæðisréttar sem Guðmundur studdi. Var hann sakaður um að nýta sér kosti hjólhestsins til atkvæðasmölunar fyrir kosningar í umræðum á Alþingi 1907. Eða eins og Dalvíkur þingmaðurinn Björn Bjarnason komst að orði: “Mér þætti gaman að sjá landlæknirinn okkar fara hjólandi um meðal allra vinnukvenna bæjarins til þess að “agitera” fyrir einhverju borgarstjóraefni er hann vildi koma að.”

Í Reykjavík fór að bera á að konur hjóluðu líka uppúr aldamótum. Í frétt Ísafold frá 1904 kemur fram að allskonar fólk hjólar í bænum. “Ungir og gamlir, karlar og konur, fara hér á hjólum nú orðið, alveg eins og í stórborgum erlendis. Færra kvenfólk þó að tiltölu en þar gerist að svo komnu.” Í greininni kemur einnig fram að um sex konur eigi hjólhesta í Reykjavík og fleiri konur muni kunni á þá. Blaðið talar um þetta séu “allt ungar stúlkur, heldri stúlkur sem kallað er. Meira er ekki um að vera þar. Þetta er mjög svo nýlega tilkomið. Það er nú fyrst að verða tíska hér að kvenfólk fari á hjólum.”

Í dag eru reiðhjól í sérstöku uppáhaldi hjá yngri kynslóðinni, enda er þetta eina farartækið sem þeir sem eru yngri en 17 ára eiga kost á. Fyrstu sögurnar sem berast af því að unglingar fari að eignast reiðhjól eru úr Reykjavík upp úr aldamótum. Fyrstu kynni okkar af reiðhjólum eru ógleymanleg og sígild upplifun eins og lýsing Ómars Ragnarssonar minnir okkur á þegar vinir hans voru að kenna honum að hjóla

Ýta þeir mér af stað og sleppa síðan. Ég þeytist áfram á fleygiferð niður götuna og skelfing læsist um mig. Guð minn almáttugur, ég ræð ekki við neitt! Hjólið byrjar að hallast og sveigja sitt á hvað og ég bruna í beygjum niður eftir götunni. Þetta hlýtur að enda með ósköpum!

Innflutningur eykst
HjólreiðarSamkvæmt innflutningsskýrslum þá voru flutt inn 427 reiðhjól á tímabilinu 1903-1910 og flest þeirra fóru til Reykjavíkur. Fyrir þann tíma virðist innflutningur reiðhjóla ekki hafa verið skráður sérstaklega þó að hér hafi verið talsvert um hjólreiðar fyrir aldamótin. Þessi fjölgun á reiðhjólum hlýtur því að hafa breytt talsverðu í samgöngum, a.m.k. í þéttbýli.

Á sama tíma og reiðhjólið verður hluti af bæjarlífinu í Reykjavík, þá fara fregnir að berast af því víðs vegar um landið. Í aldamótalýsingu sinni á Seyðisfirði gefur skáldið Þorsteinn Erlingsson okkur eftir farandi lýsingu á hjólhestareið nokkurra bæjarbúa. “Hjólhestar sjást hér á götunum og ríður Stefán Th. Jónsson mest, en Eyjólfur bróðir hans og Friðrik Gíslason ríða mikið og vel.” Fyrir norðan eru til heimildir frá reiðhjólanotkun Jóhannesar Norðfjarðar úrsmiðs frá síðustu aldamótum sem flutti til Sauðárkróks með reiðhjól í farteskinu. “Hann kom fyrstur manna með nýtízkulegt farartæki til Sauðárkróks, reiðhjól, sem hann hafði keypt erlendis. Þótti það merkisgripur. Á Ísafirði fregnast um hjólreiðakeppni á Þjóðminningahátíðinni 1905. Samkvæmt innflutningsskýrslum voru 10 reiðhjól flutt til Ísafjarðar árið 1905 og 1 árið eftir sem getur passað því á hátíðinni 1906 kepptu 9 hjólreiðamenn.

Ef litið er til þess hvort algengt hafi verið að hjólað væri utan þéttbýlis þá eru margar vísbendingar til þess að fram undir fjórða áratuginn hafi það tíðkast talsvert. T.d. kemur fram í talningu sem framkvæmd var á allri umferð frá Austur og Vestu-Skaftafellssýslum, Rangárvallasýslu og Árnessýslu til Reykjavíkur árið 1913 að talsverður fjöldi manna hafi farið þessa leið fyrir eigin afli. Talið var í nákvæmlega eitt ár við Þingvallaveginn og Hellisheiðarveginn hve margir voru ríðandi, akandi og svo hjólandi og gangandi. 15008 voru á hestum, 4052 voru akandi og 2691 voru ýmist gangandi eða hjólandi, nánari útlistun vantar á milli hjólandi og gangandi umferðar í skýrslunni.

Íslenskar konur hjóla líka
Hjólreiðar
Þegar komið er fram á annan áratuginn verður sífellt algengara að konur hjóli í laugarnar og voru dæmi um að konur hjóluðu óléttar þrátt fyrir allar kreddur.

Reiðhjólið í daglegu lífi
Á millistríðsárunum fór innflutningur á reiðhjólum hratt vaxandi. Þetta er samhliða aukinni velmegun að öðru leyti í samfélaginu. Framleiðsla í landbúnaði og fiskiveiðar höfðu stóraukist þegar hér var komið við sögu og neysluvörur tóku að berast í síauknum mæli til landsins þrátt fyrir að ríkið hefði veitt sér rétt til að takmarka eða banna alveg innflutning ýmiss varnings og voru reiðhjól þar á meðal.

En hvernig var staðan í samgöngumálum á þriðja og fjórða áratugnum? Það var álit Thorvalds Krabbe fyrrum landverkfræðings að bíllinn hefði fengið sérstöðu í samgöngumálum á Íslandi. En hann greindi líka fleiri þætti sem væru hluti af samgöngum hér á landi. Þar á meðal væru tvíhjóla samgöngutæki sem hann er þó hissa á að skuli blómstra jafnvel og þau gera við erfiðar aðstæður:

Fyrir utan bílana hafa tvíhjólin -bæði reiðhjólin og mótorhjólin- orðið mjög þýðingarmikil nýjung á Íslandi, aðallega í bæjunum, og einnig út á landi, og kemur á óvart hve notkun er mikil. Bæði valda vegir og lega landslagsins víða erfiðleikum, og svo óþægilegt veður, en það virðist ekki hræða menn frá!

Hjólreiðar
Reyndin var sú að sala reiðhjóla stórjókst á þriðja áratugnum þrátt fyrir að bíllinn hefði “numið land”. Reiðhjólið hafði áunnið sér sess sem hagnýtt farartæki, þó sérstaklega í þéttbýli. Rétt eins og Guðmundur Björnsson læknir hafði farið sinna erinda á fyrsta áratug 20 aldar þá notaði Ólafur Þorsteinsson læknir hjólið sitt í sjúkravitjanir um allan bæ fram til 1930 en eftir það tók bíllinn við hlutverki reiðhjólsins. Talsvert var um það á þessum árum annars að læknar notfærðu sér hjól til sjúkravitjana. Má því segja að þeir ásamt sendisveinunum og svo rukkurum síðar meir, hafi verið þeir einu sem beinlínis notuðu hjól í atvinnuskyni. Sama ár og læknirinn fékk sér bíl þá fékk ungur verkamaður að nafni Ragnar Jónsson sér nýtt reiðhjól sem hann notaði m.a. til að komast sinna leiðar í daglegu lífi. Hann notaði t.d. hjólið til að leita sér að atvinnu um veturinn 1935-36 og ef dæma má af þeim myndum sem til eru frá þessu tímabili virðast reiðhjól vera mjög algengur fararmáti a.m.k. innan Reykjavíkur.

Hjólabyltingin
HjólreiðarFrá því að seinni heimsstyrjöldin var farin að fjarlægjast virðist sem að áhuginn á hjólreiðum hafi dvínað að sama skapi. Heimildamönnum virðist bera saman um að sjötti áratugurinn hafi verið fremur dauflegur og ekkert hafi farið að gerast í raun fyrr en uppúr 1965. Þá virðist fólk vera farið að líta aftur hægt og rólega til reiðhjólsins eftir að bílaeign landsmanna hafði margfaldast og öll samgöngutækni hafði tekið risastökk fram á við. Greina má merki um að hjólreiðar séu að færast aftur inní sviðsljósið um 1970 þó að nýstárlegar þættu ef marka má viðtal sem tekið var þá við Ómar Ragnarsson íþróttafréttamann. Í viðtali við Íþróttablaðið var hann spurður; “Þú ert gamall íþróttamaður Ómar?”

Öllu má nú nafn gefa! Ég get ekki neitað því, að ég hef spriklað talsvert um ævina og hef alla tíð haft áhuga á íþróttum…Sannleikurinn er sá að mér líður illa, ef ég hreyfi mig ekki eitthvað. Nú eru íþróttaæfingar mínar aðallega fólgnar í því að hjóla í og úr vinnunni. Ég á lítið reiðhjól, sem má brjóta saman. Það er mjög þægilegt að hafa það meðferðis á ferðalögum. Það er hægt að geyma það í bílnum eða flugvélinni. Ekki fer hjá því, að hjólreiðamaður veki eftirtekt. Ég man, að Austfirðingar ráku upp stór augu, þegar ég kom hjólandi, er ég átti að fara að skemmta á Hallormsstað, var ekki laust við, að þeim fyndist maðurinn skrítin. Annars er það mín skoðun að fátt sé eins hressandi og hjólreiðar. Með reiðhjól, úlpu og stígvél eru þér flestar leiðir færar.

Ekki verður vart mikilla hræringa á áttunda áratugnum þó að innflutningstölur gefa til kynna aukinn áhuga.

Ef það má tala um einhverskonar vakningu á notkun reiðhjólsins á milli 1890-1910 þá hefur tíminn frá 1980 verið byltingakenndur hvað varðar reiðhjólaeign. Meira hefur verið flutt inn til Íslands af reiðhjólum á milli 1980 og 1990 en samanlagt á milli 1890-1980. T.d. voru árið 1980 18 aðilar sem fluttu reiðhjól til landsins.

Eins og allar almennilegar byltingar þá eiga þær sér allar einhverjar orsakir. Ein þeirra var að felldir voru niður tollar af reiðhjólum sem flutt voru til landsins eftir 1 júlí 1979. Einnig bárust erlendir straumar frá Danmörku meðal annars þar sem megininntakið var aukin áhersla á heilsuna og svo rétt hjólandi fólks í umferðinni. Ofan á bættist olíuskortur og hækkandi olíuverð á heimsmarkaðnum.

HjólreiðarSérstakir hjólreiðadagar fóru að verða árlegt fyrirbæri en þeir hófu göngu sína árið 1980. Árið 1983 var þetta orðið svo vinsælt að milli 5-6 þúsund hjólreiðamenn hittust á Lækjartorgi þann 29 maí. Reiðhjólið fór að verða vinsælt til ýmiskonar söfnunarátaka. Ungmannafélag Íslands efndi til hjólreiðaferðar ysta hringinn í kringum landið undir kjörorðunum “Eflum íslenskt”. Var lagt af stað 25 júní 1982 og var svo aftur komið 16 dögum síðar aftur til Reykjavíkur. Hjóluðu 3200 manns á þremur hjólum þessa 3181 km sem voru farnir svona rétt til að sýna hvað hægt væri þegar margir fætur sameinuðust um góðan málstað, eins og að efla innlendan iðnað.

Það sem einkennir þessa fersku vinda sem léku um hjólreiðamenningu hérlendis var fyrst og fremst sú alþjóðlega áhersla sem lögð var á heilsurækt og má rekja til skokkbylgjunnar (“The jogging boom”) sem skolaði á fjörur vestrænnar velmegunar.

En hvers vegna kom þessi mikla lægð í hjólreiðar sem sjá má af innflutningi hjóla á árunum 1983 og 1984? Sverrir Agnarsson heldur því fram að hér hafi vantað alla fræðslu og þekkingu á meðal almennings þannig að skilning hafi vantað á meðferð reiðhjólanna. Einnig hafi verðmætamatið ekki réttlætt þessi dýru hjól sem gáfu svo mun betri endingu á móti. Margir hjólreiðamenn hafa einnig þá skýringu að sumarið 1983 hafi verið kalt og mjög rigningasamt og því ekki fýsilegt hjólasumar.

Ný vakning
HjólreiðarHin síðari ár hefur aftur verið að lifna yfir hjólreiðamönnum. Jafnframt hefur innflutningur hjóla aukist og nokkuð stöðugur innflutningur gefur til kynna að viðhorf til reiðhjóla séu aftur að taka við sér. Ástæður þess eru eins og 1980 misjafnar. Helstu atriði sem eru áberandi má greina frá stóraukinni áherslu á umhverfismál og hafa umhverfissinnar lagt mikla áherslu á notkun reiðhjólsins í baráttunni gegn hinum mengandi og sóandi einkabíl. Einnig hefur heilsubylgjan sem skolaði á fjörur Íslendinga fest sig í sessi og orðið að einhverskonar lífsstíl og svo hefur tilkoma fjallahjólsins gert notkun auðveldari og mögulegri allan ársins hring hér á landi. – Óskar Dýrmundur Ólafsson.

Heimild:
-https://fjallahjolaklubburinn.is/pistlar-og-greinar/saga-reidhjolsins-a-islandi/iii-reidhjolid-a-islandi
Hjólreiðar