Straumur

Í bókinni “Á förnum vegi – rætt við samferðafólk” eftir Loft Guðmundsson er rætt við “Einbúann að Óttarstöðum” – Guðmund bónda Ingvarsson.

Óttarstaðir

Guðmundur Ingvarsson á Óttarstöðum efri.

“Við ökum fyrir Straumsvíkina út á Vatnsleysuströnd, lognværan sólskinsdag seint í júní. Sjór er ládauður úti fyrir, varla að sjáist kvika við fjörugrjótið og ekkert lífsmark við víkina. Undarlegt til þess að hugsa að þar eigi á næstunni að rísa nýtísku stóriðjuver og voldug hafnarmannvirki. En svo hefur manni verið fortalið, og ekki farið dult með það.
Þó virðist það jafnvel öllu ótrúlegra, þegar manni verður litið út eftir ströndinni, að ekki skuli vera mannsaldur síðan þar var blómlegt athafnalíf og annríki mikið til sjós og lands – hörkuútræði, enda skammt á fengsæl mið, og arðvænlegur sauðfjárbúskapur, því að fé gekk að kalla sjálfala í hrauninu, jafnvel í snjóa- og frostavetrum. Þess sér að vísu merki enn, að þarna hefur verið þéttbýlt, því það er ekki lengra en það síðan þetta var, að bæjarhús standa enn, en yfirleitt auð; þó mun enn einhverskonar búskaður á nokkrum af hinum gömlu stórbýlum. Og kynlegt er það, að sjá hvergi mann við störf úti við á virkum degi; aftur á móti má líta gljáandi lúxusbíla sumstaðar á bæjarhlaði eyðibýlanna, og er örðugt að ímynda sér erindi þeirra í þessa kyrrlífsmynd sofandi túngarða og lágreistra íbúðarhúsa, sem móka undir ryðbrunnu bárujárni og dreymir liðna tíð.

Óttarsstaðir

Óttarstaðir efri.

Veginn þrýtur og við taka þröngir troðningar inn á milli túngarðanna, svo við yfirgefum jeppann og höldum fótgangandi þann spöl, sem eftir er heim til Guðmundar bónda Ingvarssonar að Óttarstöðum efri. Ekki höfum við lengi gengið, þegar okkur býður í grun að ekki muni þessi sólbjarta og lognværa kyrrlífsmynd öll þar sem hún sýnist, og um leið förum við að skilja, hvernig þar muni standa á lúxusbílunum. Nýtískuleg tjöldin fyrir litlum og rúðusmáum gluggum á gömlu bæjunum gefa til kynna nýtt landnám innan hárra, mosagróinna grjótgarðanna, er skipta túnskákunum. Við reynum eftir bestu getu að horfa beint fram troðninganna og gjalda þannig líku líkt af riddarlegri hæversku þeim íturvöxnu kvenfulltrúum þeirrar nýju landnámskynslóðar, sem liggja í sólbaði í mjúku grasinu í skjóli túngarðanna og látast ekki vera varir ferða okkar. Og ósjálfrátt hvarflar það að okkur, að einbúanum á Óttarstöðum efri kunni að vera það nokkurt happ að vera kominn yfir á níunda aldurstuginn, annars yrði honum ef til vill tafsamara við túnsláttinn og eiga slíka nágranna. Að minnsta kosti er ekki ólíklegt að einhverntíma hefði það vafist fyrir vermönnunum, sem hlóðu alla þessa grjótgarða í landlegum, að velja þar steini stað, ef þeir hefðu mátt líta það í sýn, sem nú freistar augna okkar í skjóli handverka þeirra.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir vestari.

En hvað um það; okkur tekst að þræða götuslóðana heim á hlað á Óttarstöðum efri án þess að sú augnafreisting verði okkur að falli. Guðmundur bóndi stendur fyrir dyrum ásamt tveim dóttursonum sínum ungum, og fagnar okkur vel. Ekki ber hann þá utan á sér, þessa rúmlega átta áratugi, og áreiðanlega ekki hið innra með sér heldur, þá mundi ekki eins létt yfir honum og raun ber vitni. Hann er meðalmaður á hæð, tággranur, hreyfingarnar svo mjúkar og stæltar, að margur fertugur skrifstofumaðurinn mættu sannarlega öfunda hann af. Græskulaust kímnisbrosið er honum eiginlegt og glettnisglampinn í daökkgráum augunum, sem eru snör og vökul undir loðnum, hærugráum brúnum.
Fyrir framan bæjarhúsin er allstór kálgarður, vel hirtur og sér hvergi í mold fyrir hávöxnu kartöflugrasi, en í einu horninu er skák vaxin leggdigrum og safamiklum rabbabara. Túnið er allstórt, eftir því sem þarna gerist, og vel sprottið; sléttir harðvellisbalar og víðast hvar grunnt á hraungrjótinu. Guðmundur kveðst nota gamla lagið við þetta; stinga garðinn upp með skóflu og slá túnið með orfi og ljá, – jú það held ég, segir hann og hlær við.
-Hvað er túnið stórt?
-Ég fæ venjulega af því hundrað og tuttugu hesta.
-Og slærð það einn?
-Já, það held ég nú. En nú eru drengirnir farnir að hjálpa mér við uppvinnuna og snúninga, en tengdasonur minn ekur töðunni á jeppa heim í hlöðu. Dætur mínar eru hérna viðloðandi á sumrin, önnur hér heima en hin í húsi hérna viðloðandi neðan. Jú, ég hef slegið þetta tún einn í meira en fjörutíu ár.
-Ertu ekki farinn að finna til þreytu eða gigtar?
-Nei, blessaður vertu. Ég kann ráð við því. Fæ mér göngu, hleyp út í hraun að eltast við rollurnar, eða gríp í orfið. Hreyfingin – hún er óbrigðul. Og Guðmundur hlær við enn.
-Hefurðu verið svona heilsuhraustur alla ævi?
-Það held ég. Fékk einhverntíma mislinga, sennilega krakki því mig rekur ekki minni til þess. Síðan ekki söguna meir, ekki legið rúmfastur einn dag. Fékk ekki svo mikið sem snert af spænsku veikinni, þegar hún gekk hérna, og kom þó víða daglega hér í kring.
-Og þú hefur alltaf verið lífsglaður og léttur í skapi?

Óttarsstaðir vestari

Óttarsstaðir efri.

-Já, maður lifandi. Ekki dugar annað, enda ekki ástæða til annars; ekki finnst mér það. Og svo er maður alltaf eitthvað að dudda.
-Þú býrð einn hér í húsum allan veturinn, eftir að dæturnar eru farnar til síns heima?
-Já, mér verður nú ekki mikið fyrir því. Leiðis aldrei. Ég huga að kindunum, elda í mig matinn, soðningu og kartöflur og mjólkurgraut; saltkjöt endum og eins, en annars er ég orðinn ónýtari við kjötið síðustu árin. Og svo drekk ég kaffi og þykir það gott; les bækur og blöð, því að nóg er næðið – en á sumrin má það heita undantekninh, að líta í blað. Og aldrei hef ég verið myrkfælinn um ævina, og aldrei heldur orðið veitt var við þessháttar, hvorki hér né annars staðar, ekki nokkurn hræranlegan hlut…
-Ertu kannski borinn og barnfæddur hérna á Vatnsleysuströndinni, Guðmundur?
-Nei, nei. Hingað kom ég fyrst tæplega þrítugur, sem vertíðarmaður til Bjarna ríka á Stóru-Vatnsleysu, Stefánssonar og reri hjá honum sex vertíðir. Giftist svo skömmu eftir að ég fór að vera hérna, konu af Vatnsleysuströndinni. Fyrsta árið bjuggum við í tómthúsi að Stóru-Vatnsleysu, en svo keypti ég hálfa Óttarsstaðina og hef verið hér síðan. Keypti jörðina á hálft sjötta þúsund krónur með þeim bæjarhúsum, sem enn standa og þú getur séð, en öll útihús hef ég byggt upp. Nú er konan áttatíu og fjögurra ára og hefur legið í sjúkrahúsi í Hafnarfirði og elliheimilinu þar í full tíu ár. En ég hel mig hérna…

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir efri og neðri.

-Eru nokkur sérstök hlunnindi hérna – æðarvarp eða hrognkelsaveiði?
-Hér hefur aldrei verið æðarvarp, að því er ég best veit; ein og ein kolla, sem gerir sér hreiður úti í hrauninu, þar sem enginn fer um. Selur hefur aldrei veiðst hér heldur og sést hér sjaldan neitt að ráði. Fjörubeit hefur alltaf verið góð, en aldrei hefur borið neitt á skjögri, að minnsta kosti ekki á meðan gamla féð var hérna. Og hérna er mikil hrognkelsaveiði á vorin, en nú er hún þorrin, sést hvorki rauðmagi né grásleppa frekar en annar fiskur. Áður gekk þorskurinn hér inn fyrir hólma; við fengum oft stærðaraula í hronkelsanetin. Og einu sinni var ég einn á kænu úti á víkinni og dró sextíu á handfæri á svipstundu að kalla. Hann tók beran öngulinn og var svo óður, að ég hafði ekki við að draga hann. Eftir að ég hætti að róa á áttæringnum hjá Bjarna á Stóru-Vatnsleysu, reri ég margar vertíðir á fjögurra mann afari hérna úr vörinni með bóndanum á Óttarstöðun neðri, og við fiskuðum ágætlega. Ég fékk ellefu hundruð krónur, bara fyrir bolinn, inni í Hafnarfirði eftir eina vertíðina, og þar var drjúgur skildingur þá. Það var þegar þeir Booklesbræður voru með togaraútgerðina í Hafnarfirði. Þeir vildu kaupa Straumsvíkina, gera þar höfn, og vitanlega ætluðu þeir að gera út togara þaðan. Buðu í hana 500.000 krónur, sem þá þótti gífurlegt fé, en eigendunum, Bjarna, sem síðar varð skólastjóri á Laugarvatni, og þórði lækni Edilonssyni, fannst það of lágt boðið og vildu ekki selja. Að minnsta kosti var sagt, að það hefði verið þess vegna…
-Þú hefur komist í sæmileg efni hér á Óttarstöðum, eftir því sem um var að gera, þegar þú varst og hést?
-Já, það væri vanþakklæti að segja annað.
-Vildirðu vera kominn á manndómsaldurinn aftur, Guðmundur? Um borð í áttæringinn hjá Bjarna á Stóru-Vatnsleysu?
-Ég hefði ekkert á móti því. Og ætli ég kynni ekki áralagið.
-Hvenær á ævinni heldurðu að þér hafi liðið best?
Guðmundur á Óttarstöðum tekur tappann ú bauknum og fær sér í nefið.
-Það veit ég hreint ekki, svarar hann og hlær glaðlega. Mér hefur alltaf liðið vel…”.

Heimild:
-“Á förnum vegi – rætt við samferðafólk” eftir Loftur Guðmundsson, Ægisútgáfan, Reykjavík 1966. Einbúinn að Óttarstöðum – Guðmundur bóndi Ingvarsson sóttur heim, bls. 113-122.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – örnefni (ÓSÁ).

Strandarkirkja

Í bók Lofts Guðmundssonar “Á förnum vegi – rætt við samferðamenn” frá árinu 1966 er m.a. fjallað um Gunnfríði Jónsdóttur myndhöggvara og styttuna “Landsýn”, sem nú stendur framan við Strandarkirkju í Selvogi:

Gunnfríður Jónsdóttir

Gunnfríður Jónsdóttir.

“Þrjár kirkjur eru kunnustar á hér á landi; tvær á biskupsstólunum fornu, sú þriðja í hálfeyddri byggð á suðurströndinni, við lága vík fyrir opnu hafi. Sú vík á sér fegurst nafn staða hérlendis, sú kirkja dýrlegasta frægð hérlendra guðshúsa – Strandarkirkja við Engilsvík í Selvogi.
Á hól við kirkjuna stendur höggmynd af konu með kross í hendi og horfir yfir víkina. Yfirlætislaust en þróttmikið og hugnæmt listaverk, sem á heima á þessum stað. Fjarri sé mér að reyna að geta þess til hvaða hugsun höfundurinn, Gunnfríður Jónsdóttir, leggi í þetta verk sitt. En þegar ég hef staðið þarna á hólnum og virt fyrir mér konuna með krossinn, finnst mér ósjálfrátt að hún bjóði öllum byrginn í hljóðri ró – briminu, veðrunum, auðninni og einmanaleikanum. En fyrst og fremst hef ég furðað mig á því, að það skuli ekki koma manni neitt á óvart að sjá grásteinskonuna með krossinn standa þarna, heldur sætta sig ósjálfrátt við þá tilfinningu, að hún hafi staðið þarna marga áratugi, kannski öldum saman. Nafnið, sem listakonan hefur valið myndinni, “Landsýn”, styrkir þá tilfinningu. Hún er sammrunnin umhverfinu og sögu þess. Og mér kemur því ekki á óvart svar Gunnfríðar, þegar ég spyr hana um tildrögin að því að hún gerði myndina og að myndin stendur þarna.

Landsýn

Landsýn

-Ég sá fyrst kirkjuna við hafið ofan af Selvogsheiði, og einmanaleiki hennar hafði á mig djúplæg áhrif. Næstu þrjár vikurnar ásótti mig stöðugt þessi sýn – einmanaleiki kirkujunnar við hafið. En hugmyndin að myndinni vaknaði ekki með mér fyrr en nokkru seinna – það var þessi þrúgandi einmanaleiki, sem mér hafði birst ofan af heiðinni, sem lá á mér eins og mara. Svo var það í nóvembermánuði, 1940. Systir mín hafði kroppið upp að Álafossi og ég var alein heima. Þegar hún kom aftur, sagði ég henni að ég hefði verið að vinna að lítilli frummynd á meðan hún var í burtu, sem stæði að einhverju leyti í tengslum við Strandarkirkju. “Jæja, ekkert er það!”, varð systur minni að orði, og svo var ekki frekar á það minnst um hríð.

Landsýn

Landsýn – skjöldur á styttunni.

Ég lauk við frummyndina, sem var tólf sentímetrar á hæð, setti hana undir eldavélina og sat svo við að sauma fram yfir nýár. Þegar kom fram í miðjan janúar, dró ég myndina fram undan eldavélinni og gerði aðra eftir henni, mun stærri. Og enn leið ár, þangað til ég tók rögg á mig og stækkaði hana enn, eins og hún er nú. Sú mynd var á sýningunni í skálanum 1943. Ekki hafði ég þá ákveðið henni neinn framtíðarstað, en einhvernveginn fannst mér að hún ætti að standa á ströndu úti við hafið; helst einhvers staðar á Suðurnesjum og ekki langt frá Strandarkirkju, því sagan um Engilsvík hafði verið mér í huga, þegar myndin varð til.
-Hvað skar svo úr um það, að myndin yrði höggvin í granít og valinn staður, þar sem hún stendur ný?

Síldarstúlkur

Síldarstúlkur – mynd Gunnfríðar.

-Það yrði oflangt mál að segja þá sögu alla. Er þar naut ég meðal annars skilnings og áhuga Guðmundar bónda í Nesi í Selvogi, þess fjölgáfaða mannkostamanns. Og Strandarkirkja leysir vanda sinn; þó að ýmsir erfiðleikar yrðu á framkvæmdum, rættist úr öllu og stundum á óvæntan hátt. Myndin var höggvin í granít í Noregi, og gekk allt samkvæmt áætlun – þangað til granítmyndin var komin hingað á hafnarbakkann og ég hélt að nú væri öllum hindrunum rutt úr vegi. Ekki aldeilis – það kom á daginn, að ekki hafði verið gert ráð fyrir slíkum innflutningi við samningu tollskrárinnar og nú lá myndin í fullt misseri á hafnarbakkanum og enginn þóttist kunna ráð eða eiga með að fella nokkrun úrskurð í því sambandi. Loks spurði ég viðkomandi valdhafa, hvort það væri þá ætlun þeirra að taka myndina eignarnámi. Þá loks mátti Strandarkirkja sín betur en ákvæðin, sem ekki höfðu verið sett í tollskrána.

Heimleið

Heimleið – stytta Gunnfríðar.

-En þá var komið fram á haust. Myndin hafði legið í kössum á hafnarbakkanum frá því í maí um vorið, og ég mátti ekki til þess hugsa, að hún lægi þar enn vetrarlangt. Hafði ég því samband við Selvogsbændur; vissi að mestu önnum þeirra var lokið í bili, en enginn þar hafði hins vegar tíma til neins þegar voraði. Ég spurði þá því hvort þeir vildu ekki vera mér hjálplegir við að koma myndinni upp, ef hún yrði flutt þangað suður eftir. Þeir tóku vel í það. Mér tókst að fá ágætan kranabílstjóra til að flytja myndina suður í Selvoginn – Sigurjón hét hann, prýðilegasti drengur – en við komum þangað ekki fyrr en klukkan sjö um kvöldið, og þá var eftir að taka myndina úr kössunum og koma henni á stallann, og það varð að gera strax, svo að kranabíllinn gæti haldið suður aftur.

Nema hvað myndin var komin upp klukkan níu og mátti ekki heldur tæpara standa, því að þá var komið myrkur. Þeir kunnu að taka til hendinni í þann tíð, Selvogsbændur. Sjálf var ég svo þarna í fimm daga og gekk frá þrepunum – við tíndum hellur í fjörunni og fluttum að í hestvagni og ýmsu var að sinna. Bændurnir reyndust mér einstaklega hjálplegir, boðnir og búnir til alls. Loks var settur hjúpur yfir myndina og hún látin bíða þess að hún yrði afhjúpuð að vori. Sú athöfn fór fram á annan í hvítasunnu, 1950, fjölsótt og var hin ánægjulegasta.

Landnámskonan

Landnámskonan eftir Gunnfríði Jónsdóttur frá 1955. Verkið er staðsett í Hljómskálagarðinum.
Landnámskonan er síðasta stóra verkið sem Gunnfríður mótaði árið 1955. Það er að mörgu leyti mjög lýsandi verk fyrir listakonuna. Forfeður, formæður og almennt kvenskörungar íslenskra sagna voru henni hugleiknar. Verkið vísar til landnámskvenna í víðtækari merkingu og þá ekki síst til kvenna í heimi listanna, þar á meðal Gunnfríðar sjálfrar, fyrstu konunnar sem vann höggmyndir á Íslandi. Landnámskonan stendur bein og hnarreist og horfir fram fyrir sig.
Gunnfríður Jónsdóttir (1889–1968) var fyrsta konan sem fékkst við höggmyndalist á Íslandi. Listsköpun hennar var íhaldssöm og klassísk myndlist henni efst í huga.

Gunnfríður sýnir mér grein í hinu kunna tímariti “Scandinavian Review”, 1958, þar sem segir frá Strandarkirkju og “Landsýn”, og fylgir ágæt mynd þaðan, en höfundur fer miklum viðurkenningarorðum um listaverkið. Það leynir sér ekki að Gunnfríði þykir vænt um “Landsýn”. Hún hefur gert tvær aðrar stórar myndir í áþekkum stíl, “Landnámskonu” og “Biskup”, sem enn bíða þess að þeim verði valdir viðeigandi staðir. Loks eru það “Síldarstúlkurnar” – það listaverk væri vel til þess fallið að prýða umhverfið í einhverjum síldarbænum. Núverandi borgarstjóri lét era af þeim afsteypu í bronsi og gaf Stokkhólmsborg. Ein höggmynd eftir Gunnfríði stendur í Tjarnargarðinum, “Á heimleið”, stúlka, sem tyllt hefur sér niður til að varpa mæðinni, og starir fram undan sér eins og hún eigi enn langt heim. Loks hefur Gunnfríður gert “höfuð” af ýmsum nafnkunnum mönnum og konum og þótt vel takast”.

Heimild:
-Á förnum vegi – Loftur Guðmundsson – rætt við samferðamenn, Ægisútgáfan, Reykjavík 1966 – “Frá Sæunnarstöðum í Selvoginn – rætt við Gunnfríði Jónsdóttur myndhöggvara, – Landsýn, bls. 214-217.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

 

Þjóðminjasafnið

Samkvæmt fyrirliggjandi opinberum heimildum er Þjóðminjasafn Íslands miðstöð þjóðminjavörslu og rannsókna á menningarsögulegum minjum á Íslandi. Á vegum safnsins eru sýning í safnhúsinu við Suðurgötu á menningarsögu Íslendinga frá landnámi til vorra daga og þar eru sýndir allir merkustu gripir safnsins.

Þjóðminjasafn

Í Þjóðminjasafninu.

Þjóðminjasafnið var stofnað með með stofnun Forngripasafnsins árið 1863 en þá var stiftsyfirvöldum í umboði íslensku þjóðarinnar fært nokkurt safn forngripa að gjöf með því skilyrði að stofnað yrði íslenskt forngripasafn. Margir fornmunir höfðu þá verið fluttir frá Íslandi og voru í erlendum söfnum eða í eigu einstaklinga. Sigurður Guðmundsson málari var einn aðalhvatamaður að stofnun safnsins. Þjóðminjavörður er Margrét Hallgrímsdóttir, fornleifafræðingur.

Dómirkja

Dómkirkjan.

Fyrstu árin var Forngripasafnið á lofti Dómkirkjunnar, síðan var það í tukthúsinu við Skólavörðustíg, svo í Landsbankahúsinu við Austurstræti og síðan í Alþingishúsinu. Árið 1908 var safnið flutt í sérbyggt safnahús á efstu hæð Safnahússins við Hverfisgötu og var þar til 1950 en þá var Þjóðminjasafnið opnað í eigin húsakynnum við Suðurgötu.

Þjóðminjasafnið

Frá Þjóðminjasafninu.

Nú 70 árum síðar hefur margt gott verið gert, en því miður hefur einnig margt farið úrskeiðis í starfi Þjóðminjasafnsins. Frumkvöðlar safnsins voru áhugasamir um eflingu þess, en núverandi stjórnendur virðast næsta áhugalausir um starfsemina, einkum þjónustuna. Það er a.m.k. reynsla þeirra er til þess hafa þurft að leita. Beiðnum er jafnan svarað með vísan í útfyllingu rafrænna spurnarforma, síðan eru síðan ekki virtar viðlits. Ef eftir svarleysunum er leitað að ærnum tíma liðnum fær beiðandi alls kyns útúrsnúninga og óskiljanlegar afsakanir.

Að mati fulltrúa FERLIRs ætti ríkisvaldið með gildum rökum að skilgreina Þjóðminjasafnið upp á nýtt með áherslu þess sem safngrips í vörslu ríkisins fremur en nútíma þjónustustofnun – sem hún er bara alls ekki.

Dæmi: FERLIR leitaði til Þjóðminjavarðar fyrir nokkrum misserum að gefnu tilefni og óskaði eftir möguleika þess að fá “Hallgrímshelluna”, sem er í geymslum safnsins, aftur í vörðuna þaðan sem hún var fjarlægð á sínum tíma.  Eðlilegra væri að minjar, s.s. letursteinar, væru fremur varðveittir á upprunastað en í geymslum, sem nánasta engir hefðu aðgang að. Vörðurinn vísaði erindinu til starfsmanns. Hann upplýsti að það væri meginmarkmið stofnunarinnar að innkomnir hlutir færu þaðan aldrei aftur út.

Hallgrímshellan

Hallgrímshellan” í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Í  upphafi árs 2020 leitaði fulltrúi FERLIRs eftir því að fá að ljósmynda letursteininn í safninu með það fyrir augum að láta gera afsteypu af honum og koma henni síðan fyrir í framangreindri vörðu. Var bent á að fylla út formlega beiðini þessa efnis, sem og var gert. Fram kom að viðbrögð við slíkum beiðnum gæti tekið allt að þrjá mánuði, auk þess sem þrjá mánuði til viðbótar gæti tekið að afgreiða erindin. Þegar engin viðleytni til svara var að sjá eftir sex mánuði leitaði fulltrúinn viðbragða hjá stofnuninni. Svör starfsmannsins verða ekki birt hér, enda honum ekki til framdráttar. Ábending kom m.a. fram að ítreka þyrfti beiðnina því sú fyrri gæti hafa misfarist þar sem margir þyrftu að koma að afgreiðslunni.

Hallgrímshellan

Hallgrímshellan í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Að tíu mánuðum liðum var enn og aftur spurðist fulltrúi FERLIRs fyrir um þann möguleika um að fá að koma í geymslurnar og taka myndirnar án aðkomu starfsfólks. Því var svarað að enginn mætti koma þangað inn vegna Covid-19. Spurði þá hvort starfsmaður safnsins gæti tekið myndirnar og sent beiðanda. Myndir bárust í framhaldinu með þeim orðum að “um svokallaðar vinnumyndir að ræða. Þær eru ekki ætlaðar til birtingar af nokkru tagi. Ef óskað er eftir einhvers konar birtingu af gripum í vörslu safnsins eru myndir teknar af ljósmyndara safnsins og kostnaður þá í samræmi við gjaldskrá myndasafnsins”. Þvílíkt rugl; áhugasamt fólk á sem sagt ekki, undantekningarlaust, möguleika á að fá myndir af gripum safnsins án milligöngu hirðljósmyndara þess með tilheyrandi kostnaði.
Fulltrúi FERLIRs sendi myndirnar til steinsmiðs í Keflavík með það fyrir augum að gera eftirmynd af hellunni og í framhaldinu verður henni vonandi komið fyrir í gömlu vörðunni við Kaupstaðagötuna milli Þórshafnar og Stafness norðan Ósa, áhugasömum vegfarendum til uppfræðslu og ánægju.

Sjá meira um “Hallgrímshelluna” HÉR, HÉR og HÉR.

Hallgrímshella

“Hallgrímshellan” skoðuð í geymslu Þjóðminjasafnsins fyrir nokkrum árum. Mynd mbl.is. Í framhaldinu fékk FERLIR breiðsíðu skamma frá fulltrúa þjóðminjasafnsins vegna þess að dirfst hafði að taka ljósmyndir á staðnum með “mögulegum skemmdum á minjunum”; slíkt væri einungis á “færi sérstaks ljósmyndara safnsins, gegn gjaldi”.

Íslandssaga

Í “Íslandssögu til okkar daga” eftir þá Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson er m.a. fjallað um landnám Íslands.

Landnám og menjar

Ísland var nær ósnortið af mönnum og grasbítum, þegar víkinga bar þar að strönd, svo að landnámssaga þess er skráð mannvistarleifum út um holt og hæðir. Jarðvegsmyndun hefur verið ör sökum veðrunar og öskufalls í eldgosum, en á síðustu öldum hefur gosið um fimmta hvert ár einhvers staðar á landinu. Eldsumbrot hafa skilið eftir sig greinanleg lög í jarðveginum. Gjóskulögin skipta jarðveginum þannig eftir aldri og tímasetja fróðleik um lífríkið á liðnum öldum.

Íslandskort

Íslandskort frá því um 1000.

Allmikið eldgos hefur orðið við Vatnaöldur um 900 og skilið eftir sig í jarðvegi svonefnt landnámslag. (Eftir sama gos má sjá ummerki í ísnum á Grænlandsjökli, sem færa má með nokkurri vissu til ársins 898.) Þegar landnámslagið féll, hefur landið verið lítt byggt og frumgróður þess ríkjandi, en hann breyttist mjög við búsetu manna; birkiskógur hvarf, en bygg, bruggjurtir, arfi og ýmsar aðrar plöntur námu land; og gróður eyddist á jaðarsvæðum, þar sem hann átti erfitt uppdráttar.
Fornmannagrafir og rústir mannvirkja benda einnig til þess að fáir hafi siglt til Islands fyrr en um 900, enda urðu skip í Norðvestur-Evrópu ekki almennilega hæf til slíkra ferða fyrr en á 9. öld, og fáir áttu erindi til Íslands fyrr en á síðasta fjórðungi aldarinnar, þegar víkingar fóru hrakfarir á Bretlandseyjum. Þá urðu ýmsir víkingar að sætta sig við það að hlaupa eftir sauðum og strita við búskap, og landnámsöld hófst á Íslandi.
Hin langa sigling út til Íslands skolaði ránsandann úr víkingunum. Þeir komu fámennir, 20-30 manns á hverju skipi, og héldu sjaldan samfloti á langri siglingu. Þegar þeir náðu höfn á Íslandi, urðu þeir að vera sæmilega prúðir í framgöngu, ef þeim átti að verða líft í landinu.
Landnámið var friðsamlegt; landið er stórt og skiptist í héruð af fljótum og fjallgörðum, svo að menn þurftu ekki að troða hver öðrum um tær fyrstu áratugina. Hvergi er vitað um nein hernaðarmannvirki, hvorki við hafnir, ferjustaði né einstaka bæi, fyrr en löngu síðar.
Heiðnar grafir, um 300 talsins, hafa fornleifafræðingar kannað hér á landi, og teljast þær frá 10. öld, nema gripir úr einni gætu verið frá því um 850 og úr annarri frá upphafi 11. aldar.
Hinir framliðnu hafa verið heldur lágvaxið fólk, meðalhæð karla um 170 sentimetrar (169 eða 171 eftir því hvaða stöðlum er beitt) og kvenna 155 sm eða rúmlega það. Engar stórhöfðingjagrafir og engir kristnir grafreitir hafa fundist á Íslandi frá 10. öld. Grafirnar benda til þess að á fyrsta stigi byggðarinnar hafi íburðarlítill efnahagsjöfnuður ríkt í landinu eins og jafnan í nýbyggðum. Heiðnar grafir á Íslandi eru sem heild líkastar norskum gröfum af fátæklegri gerð frá sama tíma og mundu ekki þykja framandlegar, þótt þær hefðu fundist þar í landi.
Í Eyjafirði og Rangárvallasýslu hafa fundist flestar heiðnar grafir, en mjög fáar í sumum héruðum öðrum. í Skaftafellssýslum og víðar hafa eldgos, stórflóð, sandfok og aðrar hamfarir eytt gröfum eins og öðrum mannanna verkum. Það á þó ekki sérstaklega við um Borgarfjörð eða Breiðafjörð, einhver bestu héruð landsins, þar sem heiðin kuml hafa bæði fundist fá og fátækleg. Heiðnin virðist ekki hafa staðið djúpum rótum víða vestan lands, og þar hafa menn líklega keppst við að smala forfeðrum sínum í kristinna manna reiti eftir kristnitöku, eða gert forna kumlateiga að kirkjugörðum þar sem þeir voru nálægt bæjum. Slíkt kann að hafa verið algengt hér, þar sem svo lítil átök urðu milli kristni og heiðni.

Byggð og nöfn

Skáli

Skáli frá því um 1000.

Örnefni um gjörvallt Ísland vitna um norrænan uppruna þjóðarinnar. Nokkur kenna staði við heiðin goð, flest við Þór: Þórs-höfn, -mörk og -nes. Njarðvíkur eru heiti á fengsælum útgerðarstöðum, og Freysnes bendir til þess að frjósemisguðinn Freyr hafi í árdaga byggðar átt sér vini á Íslandi.
Allmörg örnefni benda þó til Bretlandseyja. Af keltneskum stofni eru bæjarnöfn kennd við Beccan, Ciaran, Nial og Patric: Bekansstaðir, Kjaransvík, Njálsstaðir; en Patreksfjörður á að bera nafn af því að landnámsmaður frá Suðureyjum hét á heilagan Patrek í hafvillu. Valþjófsstaður ber heiti af engilsaxnesku mannsnafni, Walþeow; en Trostansfjörður vísar á mannsnafnið Dorstan (sbr. Tristan), sem er komið úr tungu Pikta, frumbyggja Skotlands. Dímon er heiti á nokkrum fellum og telst dregið af Dímun (tvífell). Írafell, Katanes, Kumbaravogur og Bretavatn eru staðir kenndir við fólk frá Írlandi, Katanesi á Skotlandi (Caithness), Kumbaralandi (Cumberland) og Bretlandi. En fróðlegt væri að vita hvort Breta- og Kumbaranöfnin festust við staði á Íslandi á 10. eða 15. öld.
Fólk af ýmsu þjóðerni hefur sest að hér á landi í árdaga, en þess ber að gæta að norrænir menn á Bretlandseyjum mægðust þar við heimafólk. Þannig komust írskar nafngiftir inn í norrænar ættir, og sú blóðblöndun, sem mannerfðafræðin vitnar um, gat bæði gerst fyrir og eftir landnám.
Í íslenskum bæjarnöfnum felst ýmis fróðleikur um sögu bæjanna. Þau skiptast m.a. í náttúrunöfn og stöðunöfn. Náttúrunöfnin eru dregin af einkennum landslagsins umhverfis bæinn eins og Hólar og Skálholt; Reykjavík var nafn á bæ, sem stóð við vík sem rauk úr. Skarð var heiti á stórbýlum undir fjalli, bæði við Breiðafjörð, í Landsveit og víðar, en -vellir eru aðsópsmiklar jarðir víða um land, svo sem Möðruvellir í Eyjafirði og Stóruvellir á Landi. Þessi nöfn, og fjölmörg önnur sem vísa til landslags (Ás, Múli) eða annarra staðhátta (Ferja, Höfn), bera ekkert aldursmark, enda merking þeirra óbreytt allt frá landnámsöld; af þeim, eða samsetningum þeirra, verður fátt ráðið um aldur jarðanna.
Stöðunöfnin lúta að stöðu bæjarins í sveitinni. Allt til 1800 var hér að störfum frumstætt bændasamfélag, sem baslaði einkum við kvikfjárrækt og barðist við þrotlitla efnahagskreppu eða stóð í návígi við matvælaskort og hungurdauða. Seint á 10. öld tóku landþrengsli að hrjá það og leiddu til Grænlandsferða, en engra breytinga. A 12. öld óx fiskmarkaðurinn innanlands sökum kröfu kirkjunnar um fiskát á föstum. Þá óx byggð við góðar hafnir, sem lágu að fengsælum miðum; þar fjölgaði kotum og smábýlum, sem enduðu mörg nafn sitt á -kot, -gerði, -sel, -búð. Þau eru frá yngra skeiði byggðarsögunnar en náttúrunöfnin, sem geta verið allt frá landnámsöld. Kot er smábýli, sem ýmist er reist í landi eyðijarðar eða byggt úr landi stórbýlis og dregur nafn af því eða landslagi: Akrakot, Klettakot, Urriðakot. Gerði merkir girðingu eða umgirt svæði. Innan þess hafa risið kofar, og þar hafa sest að menn, sem gættu akra og húsdýra; víða urðu þar til hjáleigur og sjálfstæð heimili, og jafnvel höfuðból eins og Hraungerði í Flóa í Árnessýslu, en þar í sveit er hraun náttúrunafn.

Sagnir um upphaf byggðar

Rúnasteinn

Rúnasteinn frá Gotlandi.

Fornleifafræðin, íslenskan, örnefni og jarðvegsrannsóknir eru samkvæða um það að framtakssamt fólk hafi flutt búferlum frá Noregi og Bretlandseyjum til Íslands seint á 9. öld og fyrri hluta 10. aldar, en áður var það eyðieyja. Þar varð til ríkisvaldslaust bændasamfélag, sem sýslaði einkum við kýr, hross og sauði og ræktaði með erfiði bygg til bjórgerðar í veðursælustu sveitunum sunnanlands og vestan. Húsakynni þessa afreksfólks, sem tengdi Atlantshafið við sögusvið Evrópu, eru dável kunn, áhöld þess og farartæki, en einstaklingar birtast á vettvangi í rituðum heimildum.
Nafnið Ísland birtist á rúnaristu frá Timans á Gotlandi sem telst frá fyrri hluta 11. aldar. Ristan segir að félagarnir Ormiga og Úlfar hafi komið til Grikklands, Jórsala, Íslands og Serklands (en svo nefndust lönd Araba). Menn voru orðnir víðförulir í þann tíð. Á engilsaxnesku landabréfi frá svipuðum tíma er dregin aflöng eyja norður af Noregi og nefnd Ísland. Þá er Íslendinga getið í páfabréfum allt frá 1022 og riti Adams af Brimum um sögu Hamborgarbiskupa, sem lokið var skömmu eftir 1070.
Íslendingar komust á atburðaskrár í Evrópu á 11. öld, en 9. og 10. öldin er forsögulegur tími íslenskrar sögu. Í Íslendingabók leitast fyrsti íslenski sagnaritarinn, Ari fróði Þorgilsson (1068-1148), við að setja íslenskri og norrænni sögu kristið tímatal. Honum veittist það auðvelt um sína daga, en málið varð þjóðsagnakennt, þegar kom aftur á 10. öld. Hann segir: Ísland byggðist fyrst úr Noregi . . . í þann tíð . . . er Ívar Ragnarssonur loðbrókar lét drepa Eadmund hinn helga Englakonung. En það var sjö tigum vetra hins níunda hundraðs eftir burð Krists, að því er ritið er í sögu hans. Ingólfur hét maður norrænn, er sannliga er sagt að færi fyrst þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var sextán vetra gamall, en í annað sinn fáum vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjarvík. Íslendingabók (íslenzk fornrit I, 1968), bls. 4-5. Þetta var þjóðsaga, en við vitum ekki betur. Ari fullyrðir, „að á sex tigum vetra yrði Ísland albyggt, svo að eigi væri meir síðan”. Þessi 60 ár (870-930) hafa verið nefnd landnámstíð í íslenskri sögu, en menn hafa eflaust flust til landsins eftir þann tíma.

Ingólfur

Ingólfur í Landnámabók.

Landnáma
Landnáma, safnrit um 430 landnámsmenn, forfeður þeirra og afkomendur, hefur orðið til að stofni fyrir 1100. Seint á 11. öld var mikið skipulagsstarf unnið í landinu, eignakönnun gerð og menn skyldaðir til að tíunda eignir sínar; þá hefur verið skráður í ýmsum héruðum fróðleikur um landnám og ættir, sem síðar var safnað á bækur. Landnámsmannatalið hvílir á arfsögnum, lærdómi og skáldskap. Þar bregður m.a. fyrir þekkingu á Gamla testamentinu. Landnámssagnir voru hagnýt fræði, því að í landnáminu fólst upphaf eignarréttarins, en söfnun þeirra á bók var einnig metnaðarmál, og allt fram um 1300 voru samdar nýjar gerðir Landnámu til styrktar hefðar- og valdsmönnum. Í einni gerðinni (Melabók) segir í eftirmála, að „vér þykjumst heldur svara kunna útlendum mönnum, þá er þeir bregða oss því að vér séim komnir af þrælum eða illlmennum, ef vér vitum víst vorar kynferðir sannar”.
Þegar Landnáma var upphaflega skráð, vissu menn fátt með sannindum um atburði á 9. og 10. öld og urðu ósammála um margt og þurftu að skrifa því meira sem þekkingin var brotakenndari. Í tvær aldir sýsluðu helstu höfðingjaættirnar við það að eignast Landnámu, en þá urðu skjöl og ríkisvald öruggari bakhjarl í valdabaráttunni en vafasamar sagnir um landnám.
Ættvísi var mikil hagsmunafræði í ríkisvaldslausu landi. Hver ættborinn maður varð að þekkja sem gerst ætt sína og geta svarið af sér þræla og illmenni eða sakafólk, en skyldur og réttindi gátu erfst allt í 5. lið. Allt frá upphafi byggðar hafa íslendingar þekkt grundvallarhugmyndir óðalsréttar, enda lögfestu þeir snemma að aðalbólin eða stærstu jarðirnar skyldu ganga óskiptar beinum erfðum í karllegg ættarinnar.
Hafvillusögn hefur gengið í minni manna á 12. öld, en samkvæmt henni voru ónafngreindir farmenn á leið frá Noregi til Færeyja, þegar þá hrakti útnorður í haf, uns þeir tóku land við Austfirði. Þetta gerðist fyrir för Ingólfs. í annarri gerð sögunnar var þarna á ferð færeyskur maður, Naddodur víkingur. Einhverra hluta vegna átti Naddodur síðar andstreymt í hópi landkönnuða, og sænskur víkingur búsettur á Sjálandi, Garðar Svavarsson, tróð sér fram fyrir hann í heimildum. Garðar á að hafa siglt í kringum landið og haft vetursetu norður á Húsavík við Skjálfanda. Eftir för hans nefndist landið Garðarshólmur að austnorrænum hætti, sbr. Borgundarhólmur. Þrír förunautar Garðars eiga að hafa orðið eftir, þegar hann sigldi burt, og verið fyrsta norræna fólkið, sem settist að á landinu. Af þeim er Náttfari nafngreindur, en með honum þræll og ambátt. Síðar sigldi Uni, sonur Garðars, til Íslands og fór þar erindum Haralds hárfagra að sögn. Hann var drepinn vegna kvennamála, sem urðu efni í Íslendingasögu, sem er glötuð, en hefur í eina tíð stuðlað að sögnum um landkönnuðinn Garðar Svavarsson.
Flóki Vilgerðarson, Hrafna-Flóki, nefndist norskur víkingur. Hann notaði hrafna sem siglingatæki eins og Nói gamli dúfur. Flóki telst hafa siglt til landsins með búfé og skyldulið og ætlaði að setjast þar að. Honum láðist að afla vetrarforða, svo að búsmalinn horféll vorið eftir. Þá flýði Flóki til Noregs og gaf landinu hið kaldranalega nafn Ísland. Flóki á síðar að hafa sest að norður í Fljótum.

Forsendur landnámsins

Gröf

Heiðin gröf.

Á síðasta fjórðungi 9. aldar vegnaði víkingum báglega á Bretlandseyjum og í Noregi. Þá minntust margir þess að hafa heyrt getið um eyju norðvestur í hafi lítt byggða. Óbyggt land norður í Dumbshafi skorti aðdráttarafl hjá fólki, sem átti sér einhverra úrkosta völ. Hér var engu að ræna, engir bændur til að skattleggja og engin verðmæti að finna til útflutnings, hvorki grávöru, tannvöru né dýra málma. Hver sem settist hér að varð að lifa á veiðum, sölvum og fjallagrösum fyrstu árin, meðan búfénu, sem menn urðu að flytja með sér, fjölgaði svo, að einhverja nyt væri af því að hafa. Haffært skip hefur verið milljóna virði á landnámsöld, á við nokkrar bújarðir. Á Íslandi var þá ekki annað að hafa en kjarri vaxið land, gott til beitar, og nokkur hlunnindi í veiðum og viðarreka. Ef skipið dýra átti ekki að fúna í naustum, hafa menn orðið að sigla austur um haf með grjót í kjölfestu fyrstu áratugi landsbyggðarinnar. Landnám á Íslandi var fjárfesting, sem ekki var á færi annarra en milljónunga, en þeir hafa hikað lengi við leiðangurinn, af því að þeir eygðu litla von til þess að hann borgaði sig.
Líklega hefur einhverjum norskum farmönnum hugkvæmst, þegar þrengja tók að þeim á Bretlandseyjum seint á 9. öld, að gera út á Ísland, sigla þangað með fólk og fénað til þess að koma þar upp byggð og markaði. Auðvitað hafa þeir tekið talsvert fyrir snúð sinn, svo að öreigar og þrælar hafa ekki fengið far, nema þrælahaldarar hafi fylgt.
Ungir bændasynir og vonsviknir víkingar hafa verið stofninn í landnámsliðinu. Landnámuhöfundar um 1100 hafa ekki talið, að það hafi þótt nein hetjudáð á víkingaöld að sigla til íslands og hlaupa þar eftir búsmala. Rögnvaldur Mærajarl er látinn segja við Hrollaug son sinn, landnámsmann í Hornafirði: „Hefir þú það skap, er engin styrjöld fylgir. Munu vegir þínir liggja til Íslands.” Svo kom að vegir margra lágu til íslands, en þar urðu menn lengi að sætta sig við að strita í sveita síns andlits. Höfðingjar uxu fyrst úr grasi á Íslandi á 10. öld, og seint á þeirri 11. urðu til á vegum kirkjunnar fyrstu stórhöfðingjarnir, menn sem höfðu milljónatekjur og fundu fremur til sín sem aðalsmenn en bændur.
Landnemarnir sigldu til Íslands í dálitlum hópum, nokkrir tugir manna, ein eða tvær skipshafnir undir forystu karls eða konu, og reyndu að hafa samflot og samstarf um landnám og helguðu sér til eignar landsvæði, sem skiptist í jarðir, þegar búsmalinn óx. Landnemahóparnir voru stéttskiptir, greindust í forystusveit, fylgdarlið og þræla. Forystusveitin hlaut jarðnæðið, varð bændastétt, og á hennar ábyrgð var búskapurinn rekinn. Frumbyggjarnir þurftu að reisa allt frá grunni og lifa nær eingöngu á veiðum, fjörugróðri og grösum, meðan búféð var fátt, en það gekk ört fram, eins og sagnir Landnámu herma. Kýrin Brynja „gekk þar úti með fjóra tigu nauta, og voru öll frá henni kominn,” þegar hún fannst í Brynjudal í Hvalfjarðarbotni. Um Hafur-Björn, landnámsmann í Grindavík, segir, að fé hans „tímgaðist svo skjótt . . . að hann varð skjótt vellauðigur”. Landnámið í Grindavík varð ekki fyrr en undir 940, því að Hafur-Björn og bræður hans höfðu flúið þangað undan gosi í Eldgjá 934.
Íslendingar hafa snemma orðið ríkir af ull og fundið góðan markað fyrir ullarvörur erlendis, því að klæði virðast hafa verið dýr á 10. öld. Um 1100 var eyrir silfurs (um 27 g) jafnmikils virði og 48 álnir (alin = 49 sm) vaðmáls af einfaldri gerð. En sex álnir vaðmáls hétu samt „eyrir”, og hafa menn skilið það svo, að á 10. öld hafi vaðmálseyririnn verið jafnmikils virði og eyrir silfurs. Silfur hefur verið ódýrt á Norðurlöndum á víkingaöld sökum framboðs, en vaðmál dýrt; íslenskt klæði hefur þá verið vel þegin vara og íslendingar orðið iðnaðarþjóð þegar á 10. öld. Pá hafa konur verið settar við tóvinnuna, sem var mikið ánauðarverk.

Skáli

Skáli.

Bændabyggð
Þegar landi var náð urðu landnemarnir að reisa sér skýli yfir fólk og fénað, og skýlin urðu að bæjum ef búsetan varð varanleg. Sumir landnemar eiga að hafa varpað öndvegissúlum sínum fyrir borð, þegar þeir sáu landið rísa úr sæ, og numið þar land sem þær rak á fjöru. Þetta er þjóðsaga. A fjörum lágu víðast hrannir af rekaviði, svo að óhugsandi hefur verið að finna þar einstaka rekabúta.
Byggðin á Íslandi hefur hvergi verið mjög þétt. Hvergi er neitt yfirburðahérað, sem skákar öllum öðrum að landkostum. Við skástu landbúnaðarhéruðin hafa náttúruöflin lítt lagt sig fram að hlaða upp sæmilegar hafnir. Landkostir á Islandi buðu höfðingjum hvergi einveldi í heilum landshluta sem hefði hernaðarlega yfirburði yfir aðra. Menn gátu farið í snöggar árásarferðir hvert á land sem var, en til að hersitja héruð skorti matföng. Með tímanum varð hvert hérað yfirleitt háð einum höfðingja, heimamanni að uppruna, en lítið um landvinninga utanheimahéraðs.
Á fyrstu öldum byggðarinnar teygði hún sig miklu lengra inn í landið og hærra en síðar varð. Á Mývatnsöræfum suður af Sellandafjalli var búið á 10. öld í um 460 m hæð yfir sjávarmál, og einnig á Hraunþúfuklaustri í 410 m hæð og 20 km norður af Hofsjökli. Á Hrunamannaafrétti (350 m y.s.) og í Þjórsárdal tók af byggð í Heklugosi 1104, en í Hrafnkelsdal á Austurlandi (420 m y.s.) hafði hana eytt nokkru áður.
Margt bendir til þess að fólksfjölgun hafi verið mjög ör á fyrstu áratugum byggðarinnar og landið verið numið á tiltölulega skömmum tíma um 900. Það liggur á mörkum hins byggilega heims, svo að hálendisbyggðin hefur oft orðið skammæ, gróður ekki þolað ágang búfjár og breyst víða í auðn. Sagt er að búsmali hafi snemma leitað til fjalla og fólk fylgt á eftir, en ull hélst betur á fé ofan skógarmarka. Undan vetrarríkinu hörfuðu menn víða aftur niður fyrir láglendismörkin, og meginhluti byggðarinnar hefur ávallt staðið neðan 200 m hæðarlínu.
Á landnámstíð er talið að um 40% landsins hafi verið þakin gróðri, en í dag um 20%. Lætur þá nærri, að á hverjum degi í „íslands þúsund ár” hafi fimm til sex hektarar gróðurlendis breyst í auðn. Skógar eyddust þó örar en graslendið. Meðan ísland var „viði vaxið á milli fjalls og fjöru”, ætla menn að um 20% landsins hafi verið skógur og kjarrlendi en nú aðeins 1%, og hefur mikið af skóglendinu eyðst á fyrstu öldum byggðar. Margt gat orðið gróðrinum að tjóni: uppblástur (t.d. á Rangárvöllum og víðar), flóð bæði í sjó og vötnum (m.a. á Markarfljótsaurum og undir Eyjafjöllum, Stóraborg), eldgos (Hekla, Skaftáreldar, hraun á Reykjanesskaga o.v.), framhlaup jökla (í Öræfum og norður á Ströndum), skriðuföll (Skriða í Hörgárdal 1390, Skíðastaðaskriða 1545 o.fl.), og jarðskjálftar hafa hrist gróðurþekjuna af bröttum fjöllum. Frumorsök gróðureyðingarinnar hefur þó oftast verið ofbeit og harðindi, sem hafa fylgt miklum hafís við strendur landsins.
Veðráttan hefur ávallt verið dálitlum breytingum háð, og lítils háttar lækkun á meðalhita ársins hefur oft skipt sköpum fyrir afkomu fólks. Margs konar heimildir veita nokkra hugmynd um árferði á liðnum öldum. Vitneskja um hafískomur og hallæri bendir t.d. til kalds loftslags, og frjókorn í jörðu veita upplýsingar um gróðurbreytingar. Þá má styðjast við erlendar rannsóknir, einkum á ískjörnum úr Grænlandsjökli. Allt ber að sama brunni um það að loftslag hafi verið milt fyrstu aldir Íslandsbyggðar, e.t.v. ámóta og það hefur best orðið á 20. öld, en á 12. og 13. öld hafi kólnað tilfinnanlega.

Þingvellir

Uppdráttur af Þingvöllum frá 18. öld.

Harðæri hafa jafnan verið tímabundin, og menn hafa keppt að því í búskap sínum að sigrast á þeim, koma sér í góðærum upp birgðum til mögru áranna. Bændur á vildarjörðum björguðust jafnan bærilega, en harðærin fóru í manngreinarálit og léku kotunga hart, og á jaðarsvæðum byggðarinnar var hættast við að fólk félli úr harðrétti.
Bærinn, heimili bóndans, var neyslueining samfélagsins á Íslandi, og mannfjöldi á heimilinu ákvarðaðist að verulegu leyti af stærð jarðarinnar og kostum til kvikfjárræktar, hve stórum bústofni hún gat framfleytt, aðallega af sauðfé og nautgripum. Öll meginhéruð landsins voru svipuðum kostum búin, svo að þar risu alls staðar stórbýli með tilheyrandi leigujörðum. Korn var ræktað með erfiði sunnan lands og vestan og kostaði þyngd sína í smjöri, en kornyrkja hefur þó verið allmikilvæg búgrein í einstökum sveitum og kornið einkum notað til ölgerðar.

Landnámshöfðingjar
Sagnir herma að höfðingjar, sem réðu fyrir traustu liði frænda og bandamanna, hafi staðið fyrir landnáminu. Margir þeirra voru mótaðir af stórbúskap í Noregi, en fóru þaðan af því að tvísýnt var orðið um höfðingsskapinn. Hagsæld þeirra á Íslandi hvíldi á mannafla og landnýtingu. Leigubúskapur hefur að líkindum hafist strax og kvikfé og mannfjöldi leyfði.
Suðvestanvert Ísland hefur jafnan verið kjarnasvæði til búskapar og stjórnsýslu. Þar fann Ingólfur allsnægtaborð á íslenskan mælikvarða og tók sér búfestu í Reykjavík. Þar var góð höfn og skipaleið með landi fram sem tengdi byggðina við grannsveitir. Undirlendi var nóg á nesinu, laxár og veiðivötn skammt undan, selalátur og gnægð fiskjar uppi í landsteinum. Eyjar voru fyrir landi til margra hluta nytsamlegar: Viðey og Engey, varpeyjarnar Lundey og Þerney, og Akurey, sjálfvarin fyrir ágangi búfjár, þar sem hægt var að rækta bygg til ölgerðar.
Hvaðan sem landnemarnir voru kynjaðir, voru þeir allir mótaðir af háttum manna á víkingaöld: metnaðarsýki, þrælahaldi og hetjudýrkun, eins og lýst er í Íslendingasögum.

Heimild:
-Íslandssaga til okkar daga, Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson, Sögufélag, Reykjavík 1991, bls. 17-29.

Þingvellir

Þingvellir 1866.

Ásdís Dögg

Ásdís Dögg Ómarsdóttir jarðfræðingur, gönguleiðsögumaður og einn eigenda Asgard ehf. og starfsmaður Fjallakofans hefur smekk fyrir ævintýrum. Hún elskar náttúruna og dýrkar Ísland. Hún deilir hér með okkur gönguleið vikunnar í Innstadal.

Innstidalur“Það tekur um 20 mínútur að keyra frá Rauðavatni í Reykjavík að Hellisheiðarvirkjun. Eftir að beygt hefur verið út af þjóðvegi 1, er ekið er framhjá stöðvarhúsinu beint af augum í átt að Henglinum. Ef maður fylgir veginum þangað sem leyfilegt er að aka, endar maður á nokkuð veglegu bílastæði í Sleggjubeinsdal sem markar upphaf göngunnar.

Leiðin er vel merkt með skiltum og stikum, í okkar tilfelli gulum stikum með bláum toppi.

Í upphafi er á brattann að sækja áleiðis að Slekkjubeinsskarði, en stígurinn er glæsilegur og virkilega gaman að ganga eftir honum.

Hækkunin er um 150 m og á meðan gengið er upp í móti öskrar blásandi borholan við bílastæðið á mann. Það er engu líkara en myrkrahöfðinginn hafi fengið aðgang að yfirborði jarðar og skammi okkur öll sem eitt af lífs og sálar kröftum. Sem betur fer nýtist þessi kraftur okkur vel í formi hitaveitu og orkuframleiðslu. Það er ekki hægt annað en að vera þakklátur fyrir alla þessa hreinu orku sem við eigum, og fríska loftið sem maður andar að sér á leiðinni minnir mann á það.

Innstidalur

Innstidalur.

Þegar hækkuninni er að mestu lokið lækkum við okkur ofan í breiðan grasivaxinn dal, og göngum um 1 km eftir sléttu. Þar sem þunnt lag af snjó þakti grasið á þessu kalda þriðjudagssíðdegi, var virkilega notalegt að ganga á grasinu. Nánast eins og að ganga á skýi eða stífu trampólíni. Það var erfitt að valhoppa ekki. Og kannski gerðist það óvart nokkrum sinnum. Þögnin í dalnum var ærandi, þegar öskrandi borholan var komin í hæfilega fjarlægð. Og það var gaman að sjá í snjónum spor eftir alls konar fugla og ref. Öll dýrin á sléttunni eru tæplega vinir þegar veturinn skellur á. Þá lifa bara þau hæfustu af.

Þegar komið er í Innstadal, greinist leiðin og hægt er að ganga alla leið í Hveragerði og jafnvel yfir á Úlfljóstvatn. Einnig er hægt að ganga á Vörðuskeggja, hæsta tind Hengils (803 m.y.s.).

Mikill jarðhiti er í Innstadal; mikið er um hveri, gíga og heitt vatn í dalnum. Og einn mesti gufuhver landsins er í Innstadal. Stefnan var m.a. tekin á gilið er hýsir hverinn, en áður var huga beint að bæði jarðfræðinni og fyrrum útilegumannahelli innst í Innstadal.

Hengill er eitt svipmestu fjöllum í grennd við Reykjavík. Hengill telst til stapafjalla en er mjög sprunginn og hagaður.  Hengill er aðallega úr móbergi en grágrýtishrúður er uppi á honum.

Innstidalur

Lækur í Innstadal.

Ef við eltum leiðina upp á Vörðuskeggja (svartar stikur), framhjá litlum skála, Lindarbæ, skammt neðan við Hveragilið, þá er hægt að baða sig í heitum læk, sem eru frábært verðlaun fyrir um það bil 4 km göngu. Og endurnæra sig fyrir gönguna til baka.

Þar sem myrkrið var að skella á og ískaldur vindur farinn að læsa sig í kinnarnar, var látið nægja í þetta sinn að skoða sig um í Innstadal, stökkva uppá nokkra hóla og njóta útsýnisins sem var glæsilegt þrátt fyrir þungbúinn himinn. Svo var haldið til baka svipaða leið eftir heita hressingu. Það er vissulega kominn nóvember, en enn hefur ekki snjóað í Reykjavík, svo val á skóbúnaði litaðist af íslenskri bjartsýni og sól í hjarta. Slapp til en var ekki sá ákjósanlegasti.

Á leiðinni eru óbrúaðir lækir, sem hægt er að stikla yfir á steinum. Fara þarf varlega þegar frystir, því þá eru steinar í lækjum þaktir ís. Og að sjálfsögðu þarf alltaf að huga að veðurspá þegar lagt er af stað í leiðangur að vetrarlagi, og snúa við ef manni lýst ekki á blikuna. Áfangastaðurinn bíður alltaf eftir manni.

Njótið útivistarinnar.”

Heimild:
-https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2020/11/06/gonguleid_vikunnar_innstidalur/

Innstidalur

Áð í Innstadal.

Bíll

Vegir og vegagerð á Íslandi hafa þróast í gegnum tíðina. Þorvaldur Thoroddsen skrifaði t.d. um vegi á Íslandi í Landfræðilýsing Íslands árið 1898:

Hellugata

Forn gata um hraunhellu Reykjanesskaga.

“Vagnvegir eru engir á Íslandi og engir vagnar; vegirnir eru mjög vondir, og eru þeir til mikils trafala fyrir ferðamenn, og ekki síður hitt, að þar eru engin gistihús eða veitingahús. Af því vegirnir eru svo vondir, er ekkefrt hægt að fara gangandi, menn ferðast alltaf ríðandi, um fjöll og klungur, dali og mýrar, hestarnir eru svo fótvissir, þó þeir séu faltjárnaðir, að þeir komast yfir verstu ófærur, og aldrei fara Íslendingar af baki hvað vondur sem vegurinn er. Sumstaðar eru brunahraun, sem mjög er hættulegt að fara yfir, þau eru að ofan þakin smágrjóti og sumstaðar eru undir því djúpir katlar, sem hestar og menn geta orðið fastir í; þegar menn ríða um slíka staði, bylur jörðin undir eins og trumba, svo það heyrist langar leiðir. Sumstaðar upp til fjalla eru hyldýpis gjár, sem eru svo djúpar, að ekki sést í botninn, í sumum þeirra er snjór, í sumum vatn, er andir synda á. Sumstaðar er jarðvegurinn hreifanlegur og vaggandi, en þó fagurlega grasi vaxinn, svo það sýnist alveg hættulaust að fara um hann, en þegar hesturinn kemur út á þennan jarðveg, dillar hann allur undir fæti, en ef hesturinn liggur í á slíkum stað, er mjög illt að bjarga honum. Sumstaðar ganga langir firðir inn í landið, sem menn um fjöru riða yfir, eins fljótt og menn geta, svo flóðið ekki nái þeim. Hættulegastar eru þó árnar, og þegar farið er yfir þær, er áríðandi að hafa góðan hest, sem syndir vel; Íslendingar hughreysta ferðamenn, sem smeikir eru, og segja þeir þurfi ekkert að óttast, ef þeir haldi sér vel, klárinn muni koma þeim yfir. Brýr eru hvergi á Íslandi, enda er ekki gott að byggja þær, því þó grjót sé nóg, þá er þó alveg kalklaust.”

Í Reykvíkingi 2. apríl árið 1894 er fjallað um hugmyndir manna um vagnveg milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar:

Skólavarðan

Skólavarðan á Skólavörðuholti.

“Nú eru menn farnir að hugsa um það, hvar bezt mundi að leggja veg hjeðan úr bænum og suður í Hafnarfjörð, og munu margir hafa vagnveg í huganum. Menn hafa eigi orðið á eitt sáttir um það, hvernig ætti að leggja hann; sumir hafa viljað leggja hann suður Skildinganesmela, og þaðan fram hjá Nauthól, sunnanvert við Öskjuhlíðina; aptur hefur öðrum komið til hugar að leggja hann úr Laugaveginum fyrir vestan Rauðará, suður og upp Rauðarárholt, suður yfir Norðurmýrina, beina stefnu austanvert við hlíðina á Fossvogsveginn; nú síðast mun Sigurður Þórðarson hafa stungið upp á því, að byrja þenna veg út af Laugaveginum, kippkorn fyrir vestan erfðafestuland Guðlaugs sýslumanns, suður með Skólavörðuholtinu að austan, suður á móts við Steinkudys, þaðan beina stefnu suður og upp Norðurmýrina, eptir Sigurlaugarstíg, eða í námunda við hann, skáhallt yflr Mjóumýri, austanvert við hlíðina og að Fossvogsveginum. — Flestir munu vera á því, að þegar í Fossvog kæmi, þyrfti stefna hins nýja vegar að verða á brúna á Fossvogslæk. Í tillögum sínum hafa menn sagt, að þyrfti að líta á ýmislegt, bæði stuttleika vegarins, hægðina að gjöra hann og kostnaðinn, sem hann hefði í för með sjer, og svo einnig gagnið, sem yrði af veginum fyrir alda og óborna.
Steinkudys
Þegar er að ræða um vagnveg suður í Hafnarfjörð, þá getum vjer alls ekki skilið, að hans sje svo brýn þörf, því að vjer getum eigi sjeð, hvaða umferð er eða muni verða í bráð milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, svo að þyrfti að kosta upp á vagnveg.
Vjer getum hugsað oss, að það gæti komið fyrir, að menn úr Reykjavík þyrftu og vildu sækja síld suður í Hafnarfjörð, en að kosta upp á vagnveg í því skyni, sjáum vjer eigi að sje svo brýn þörf á; vjer getum einnig hugsað oss, að mönnum kynni að þykja gott að geta keyrt sjer til skemmtunar á vögnum milli umræddra staða, t. d. með tveimur gæðingum fyrir; en ættu nú tveir vagnar, með tveimur hestum fyrir hvor, að geta mætzt, án þess að viðstaða þyrfti að verða, þá þyrfti vagnvegurinn að vera breiður, breiðari en vegir gjörast almennt, og þó mönnum þætti nú girnilegt að fá slíkan veg, og vildu því sneiða hjá gamla Öskjuhlíðarveginum, þá eru svipaðir þröskuldar eins og Öskjuhlíðin eptir af veginum, t.d. upp úr Fossvogi og á Kópavogshálsi, þar sem ekki mundi síður þurfa sneiðinga við en á Öskjuhlíð. En svo er nú Hafnarfjarðarhraun; skyldi veita auðvelt að koma þar upp vagnvegi nægilega breiðum, eða skyldi vegurinn á hrauninu sjálfu vera svo breiður, að tveir stórir vagnar, með tveim hestum fyrir hvor, ættu þar gott með að mætast, án allrar tafar?
En eins og vjer áður höfum sagt, getum vjer eigi sjeð, að sem stendur þurfi að hugsa um vagnveg suður í Hafnarfjörð; en setjum nú svo, að Reykvíkingar vildu hafa hann í huga, og eigi láta sitt eptir liggja, í tilliti til undirbúnings undir hann, en hugsuðu þó eigi að fara lengra að sinni en svo, að það jafnframt og þegar í stað gæti orðið til mikils hagnaðar fyrir bæjarbúa, þá er nú vandinn að skera úr því, hvernig og hvar ætti að leggja þennan veg, svo gagnið af honum, auk annars, sem á þyrfti að líta, gæti orðið sem almennast, eða sem flestir gætu haft gagn af honum.”

Háaklif

Horft upp eftir Háaklifi, nú Reykjavíkurvegi – að Sjónarhóli.

Í Ísafold 26. apríl árið 1899 er skrifað um þegar áunna uppbyggingu vagnvegar milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar:
“Sumrin 1897 og 1898 lét sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu leggja mikið laglegan vagnveg milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, frá Fossvogi, en þangað hafði bæjarstjórn Reykjavíkur lagt áður og hefir þessa ekki enn verið getið í blöðum vorum.
Vegur sá er sýslan lét byggja af nýju, er rúmar 5 rastir á lengd, einnig var borið ofan í og endurbættur gamall vegur (Hafnarfjarðarhraun) rúml. 1 ½ röst á lengd. Hver röst er 531 faðmur. Brýr voru gerðar yfir fjóra læki, og er ein þeirra þrjátíu áln. Lengd, með 50 álna löngum stöplum (þeir eru þrír) og 5 áln. Háum á fullum helmingi. Hinar eru 5-8 álna langar.
Til vinnu þessarar var varið 9.600 kr.
Brýrnar allar kostuðu 1.800 krónur. Aðgerð við gamla veginn um 800 kr. Kostar þá her um bil kr. 2,80 faðmurinn í hinum nýja vegi. Í gegnum veginn eru 16 rennur gerðar úr grjóti 50×100 cm., utan ein úr timbri 3×2½ alin. Mold og möl höfð undir í öllum veginum með torf og grjót á hliðunum, nema um 150 faðmar eru eingöngu úr grjóti (púkkvegur). Ofaníburður allstaðar frá 8-12 þuml. á þykkt. Við vinnuna voru 12 menn fyrra sumarið með 4 hestum, en 15 til 18 hið síðara með 6 og 8 hestum. Verkstjóri var bæði sumrin Sigurgeir Gíslason í Hafnarfirði.
Það var myndarlega til ráðist af sýslunefnd Kjósar- og Gullbringusýslu að leggja veg þennan, og væri óskandi að hún fengi styrk til þess að geta gert meira í líka átt sem þetta. Hefir talsverð vagnaferð verið eftir vegi þessum síðan hann var fullger, en talsverð óþægindi eru að því, að ógert er enn við hallann ofan í Hafnarfjörð [um Háklif], því þar er vegurinn mikils til of brattur fyrir vagna, og er vonandi að ekki bíði mjög lengi svo búið.”

Fyrsti bíllinn

Fyrsti bíllinn á Íslandi, sem kenndur er við Ditlev Thomsen, kaupmann og konsúl, var fransk-þýskur af svonefndri Cudell-gerð. Alþingi samþykkti árið 1903 að veita 2.000 kr. styrk til að flytja inn bifreið og taldi ráðlegast að einkaaðili stæði fyrir því. Thomsen kaupmaður varð fyrir valinu og sá hann um rekstur bifreiðarinnar. Thomsensbíllinn var smíðaður árið 1900 eða 1901 og var eiginlega orðinn úreltur þegar hann kom til landsins, í raun aðeins hestakerra með vél aftur í.

Árið 1918 var víða hægt að komast leiðar sinnar akandi á Íslandi, annaðhvort í hestvögnum eða bifreiðum. Bílaöld hófst hér árið 1913 í Hafnarfirði og Reykjavík en hestvagnar til farþegaflutninga voru eldri í hettunni. Vegagerð á Íslandi var í bernsku á þessum árum og vegir víðast hvar vondir. Það tók lungann úr tuttugustu öldinni að teygja þá um landið og gera þá sæmilega greiðfæra. Árið 1918 var þó víða langt komið að leggja akfæra vagnvegi frá helstu verslunarstöðum eins og kveðið var á um í vegalögum frá 1894 eða „flutningabrautir“, eins og þeir voru kallaðir. Í upphafi var gert ráð fyrir að þessir vegir yrðu alls 375 km á lengd og „vel“ færir hlöðnum hestvögnum og kerrum. Við lagabreytingar varð lengdin 397 km. Áætlað var að lokið yrði að leggja þessa vegi 1923. Vegbreiddin var að jafnaði 3,75 m sem dugði til að hestvagnar gætu mæst. Bifreiðir þurftu fimm til sex metra breiða akbraut til að geta mæst.
Árið 1918 voru einnig komnar brýr á margar ár sem höfðu verið farartálmar um aldir. Sunnanlands var til dæmis búið að brúa Sogið, Ölfusá og Þjórsá, Ytri-Rangá og Eystri-Rangá, vestanlands Hvítá, Örnólfsdalsá, Gljúfurá og Norðurá, á Norðurlandi Miðfjarðará, Blöndu við Blönduós, Héraðsvötn eystri, Hörgá í Hörgárdal og Skjálfandafljót og á Austurlandi Eyvindará og Lagarfljót. Markarfljót og jökulár í Skaftafellssýslum voru enn óbrúaðar og sama átti við um Eyjafjarðará.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegurinn.

Þjóðvegir voru nýr flokkur vega sem kveðið var á um í vegalögunum 1894 en samkvæmt nýjum vegalögum, sem staðfest voru 1907, skyldu þjóðvegir, sem tengdust kauptúnum eða flutningabrautum, einnig vera akfærir ef þess þótti þurfa. Þeir áttu að vera að jafnaði 3,15 m á breidd og voru orðnir 130 km 1915. Sýsluvegir voru þeir vegir sem lágu milli sýslna og um hverja sýslu þar sem var „mest þjóðbraut“, til dæmis í kauptún og fiskiver. Um þá gilti hið sama og um þjóðvegi. Þar sem þeir lágu út frá flutningabrautum eða akfærum þjóðvegum eða voru framhald þeirra skyldu þeir vera akfærir ef unnt var að koma því við. Vegurinn til Keflavíkur, sem tók tíu ár að leggja, var til dæmis sýsluvegur, 38 km langur og akfær árið 1918. Hreppsvegir voru þeir vegir milli hreppa og um þá sem voru hvorki flutningabrautir, þjóðvegir né sýsluvegir. Fjallvegir voru þeir vegir yfir fjöll og heiðar sem ekki töldust til neins annars vegaflokks. Þá átti einungis að varða og gera reiðfæra.
Flutningabrautin frá Reykjavík, Suðurlandsbraut, var lengst, teygði sig frá Laugavegi yfir Elliðaár allar götur austur í Rangárvallasýslu árið 1918 eða þangað sem nú er Hvolsvöllur. Við Geitháls hafði verið lögð út frá henni ný flutningabraut til Þingvalla eftir holtum og melum austan við Seljadal þar sem Þingvallavegur lá áður. Frá Eyrarbakka var flutningabraut lögð upp Flóann að Ölfusárbrú og önnur frá Ingólfsfjalli um Grímsnes að Geysi. Borgarfjarðarbraut lá frá Borgarnesi um Stafholtstungur og tengdist þjóðveginum norðan við brúna á Hvíta við Kljáfoss, Húnavatnssýslubraut frá Blönduósi vestur fyrir Víðidalsá, Skagafjarðarbraut frá Sauðárkróki fram Skagafjörð að þjóðveginum fyrir neðan Víðimýri, Eyjafjarðarbraut frá Akureyri að Saurbæ í Eyjafirði, Þingeyjasýslubraut frá Húsavík að Einarsstöðum í Reykjadal og Fagradalsbraut frá Búðareyri við Reyðarfjörð um Fagradal að Lagarfljóti hjá Egilsstöðum. Árið 1914 bættist vegurinn milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur við flokk flutningabrauta.

Suðurlandsvegur

Fyrsti Suðurlandsvegurinn 1887.

Þegar bílaöld hófst 1913 var lokið við að leggja 287 km af flutningabrautunum. Í árslok 1916 höfðu samkvæmt verslunarskýrslum verið fluttir til landsins 30 bílar. Engin bifreið var flutt inn árið eftir enda lögðu Þjóðverjar hafnbann á Bretland í byrjun þess árs og hófu jafnframt stórfelldan kafbátahernað á höfum úti til að fylgja banninu eftir. Hér varð því brátt skortur á ýmsum nauðsynjum, meðal annars eldsneyti. Árið 1918 voru hins vegar fluttar til landsins 27 bílar. Þeir voru allflestar suðvestanlands, í Reykjavík, Hafnarfirði og Árnessýslu. Akureyringar eignuðust fyrstu bifreið sína árið 1914 og Húsvíkingar sína ári síðar. Enn fremur höfðu Austfirðingar hafið tilraunir með rekstur bifreiðar.
Í höfuðstaðnum var ástand gatna bágborið í byrjun tuttugustu aldar. Árið 1912 var gerð sú bragarbót á gatnakerfinu að Austurstræti var „makademiserað“, með öðrum orðum malbikað enda hafði bærinn þá eignast gufuvaltara. Sumarið 1908 hafði portið við barnaskólann við Fríkirkjuveg, Miðbæjarskólann eins og hann hét síðar, verið „tjörusteypt“. Sú aðferð var einnig notuð við gatnagerð í Reykjavík.

Reykjavík

Mynd frá haustinu 1917 sem sýnir verkamenn tjörusteypa Pósthússtræti. Gufuvaltarinn „Bríet Knútsdóttir“ var notuð til að þjappa jarðefninu saman. Valtarinn dró nafn sitt af tveimur kröftugum bæjarbúum, Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og Knut Zimsen.

Árið 1918 var lokið við að makademisera eða tjörusteypa þessar götur í höfuðstaðnum: Suðurgötu alla leið að sálarhliðinu á kirkjugarðshorninu sunnanverðu, Kirkjustræti frá Aðalstræti að Pósthússtræti og Pósthússtræti frá Kirkjustræti að Austurstræti, Lækjartorg að Stjórnarráðsblettinum, Lækjargötu frá Bankastræti að barnaskólanum við Fríkirkjuveg, Bankastræti og Laugaveg frá Skólavörðustíg að Frakkastíg. Sama átti við um gangstéttir á þessum stöðum. Sums staðar voru þær þó hellulagðar.
En bílferð var ekki ókeypis og því var haldið fram að það hafi einungis verið á færi hinna efnameiri að nota þá. Allur almenningur hefði naumast fé handa á milli til að eyða í skemmtanir eins og að ferðast í bifreiðum, allra síst fátæklingar. En þær stundir koma að nauðsyn brýtur lög. Margir áttu erindi til Vífilsstaða þar sem þeir lágu sem hvíti dauðinn, berklaveikin, hafði tekið heljartökum. Í laugardagsblöðum sumarið 1918 voru jafnan auglýstar ferðir þriggja bifreiða til Vífilsstaða á sunnudögum og kostaði sætið tvo þriðju af daglaunum verkamanns, eða 5 krónur báðar leiðir með klukkustundar ókeypis viðstöðu, 3 krónur aðra leiðina sem fyrir marga var kannski fyrsta og einasta bílferðin.
Prestar, læknar og sýslumenn nýttu bíla í embættiserindum og einnig til ferðalaga eins og þeir sem betur máttu sín. Sambandslaganefndin, sem kom saman hér á landi í lok júní 1918, gerði til dæmis hlé á störfum sínum sunnudaginn 7. júlí og brunaði sér til upplyftingar í mörgum bifreiðum sem leið lá eftir Suðurlandsbrautinni upp að Geithálsi og þaðan eftir flutningabrautinni til Þingvalla. Með í för voru meðal annars ráðherrarnir íslensku. Um viku síðar var farin önnur bílferð enda hafði nefndin þá lokið störfum og frumvarp til sambandslaga tilbúið á pappírnum. En nú var farið austur yfir Hellisheiði. Áð var á Kolviðarhóli þar sem hægt var að kaupa veitingar, snætt í Sigtúnum við Ölfusárbrú og síðan haldið austur að Sogi og á hestum upp með því og Sogsfossarnir skoðaðir. Þangað var ekki bílfær vegur þegar hér var komið. Flestir gistu um nóttina á Eyrarbakka, örfáir í Grímsnesi. Um nónbil á sunnudeginum var haldið af stað til Reykjavíkur og boðið upp á kaffi og pönnukökur á Kolviðarhóli. Um kvöldið var boð hjá forsætisráðherra.

Heimildir:
-Þorvaldur Thoroddsen – Landfræðilýsing Íslands, Hið íslenska bókmenntafélagr 1898, bls. 202-203.
-Reykvíkingur, Hafnarfjarðarvegurinn, 2. apríl 1894, bls. 1.
-Ísafold, Vagnvegur, 26. apríl 1899, 26. árg., 26. tbl., bls. 103.
-Alþingistíðindi 1893 A, 1914 B, 1907 A.
-Dagsbrún 23. september 1918.
-Framsókn 6. ár 1900.
-Guðlaugur Jónsson: Bifreiðir á Íslandi I-II.
-Ísafold 9. ágúst 1890, 3. ágúst 1912.
-Lögrétta 10. júlí, 17. júlí 1918, 123.
-Morgunblaðið 11. júlí 1917, 1. júní, 22. júní, 29. júní, 6. júlí og 13. júlí 1918.
-Óðinn 14. ár 1918.
-Stjórnartíðindi 1907 A-deild.
-Tímarit VFÍ 1917, 1918, 1919.
-Tíminn 20. júlí 1918.
-Verslunarskýrslur 1913–1918.
-Þjóðólfur 19. júlí 1918.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=75182

Geitháls

Fjölskylda í bílferð við Geitháls.

Suðurlandsvegur

Hólmsá er í og ofan við Reykjavík. Upptök Hólmsár eru við Elliðakotsbrekkur og áin rennur í Elliðavatn og heitir þá Bugða. Árið 1887 var fyrst byggð brú á Hólmsá á þjóðveginum austur fyrir fjall. Sú brú sem var 18 álna löng, tók af í vetrarflóði 1888. Afrennsli Selvatns heitir einungis Ós og fellur um Gljúfur og Elliðakotsmýrar í Hólmsá, þar sem heitir Óskjaftur.

Suðurlandsvegur

Elsta leiðin er mörkuð í hraunhelluna.

Hólmsá rennur fyrir norðan við bæinnn Gunnarshólma undir Hólmsábrú suður um Heiðartagl. Þar fellur kvíslin Ármótakvísl úr Hólmsá í Suðurá en Hólmsá norðan við bæinn Hólm. Áin heitir Hólmsá þangað til hún er til móts við Baldurshaga en þá heitir hún ýmist Hólmsá eða Bugða. Vegagerð ríkisins brúaði Hólmsá árið 1926 og lagði veg frá Suðurlandsvegi í Rauðhóla. Fyrrum lá leiðin upp frá Árbæ, með Selási og sunnan Hólms þar sem hún greindist í tvennt skammt austar; annars vegar í Austurleiðir upp frá Elliðakoti að Lyklafelli norðan og sunnan þess og áfram um Hellisskarð og hins vegar um Lækjarbotna upp í Öldur þar sem sú leið greindist annars vegar inn með Svínahraunsbruna að Hellisskarði þar sem hún sameinaðist Austurleiðunum og hins vegar inn á Ólafsskarðsveg. Þessar götur sjást enn greinilega, einkum sporið á hellunni suðaustan Hólms.

Suðurlandsvegur

Elsta leiðin.

Vagnvegur var lagður frá Öldum um Klifheiði og suður fyrir Rauðavatn árið 1887. Þá var brú sett á vað yfir Hólmsá, en hún entist stutt. Vestan og ofan við vaðið er klappað í klöpp ártal (18?7) og nafn (Ágúst), líklega frá þeim tíma er vagnvegurinn var lagður þar árið 1887.

Brúin yfir Hólmsá var byggð samhliða veglagningu 1887. Hún var strax nefnd Rauða brúin vegna litarins. Árið 1888 tók brúna af í miklum vetrarflóðum. Hún var síðan endurnýjuð 1926. Gamla brúin var 18 álnir á lengd og voru 4 álnir upp í hana venjulega. Stöplarnir voru steinhlaðnir og skemmdust þegar brúna tók af í flóðunum. Brúin var brotin niður en hluta af stöplum hennar er að finna um 45 m vestan ár.
Suðurlandsvegur var lagður að grunni til (vagnvegurinn) árið 1886, í landi Geitháls. Grunnur gamla vegarins er enn sjáanlegur, þ.e.a.s. frá bæjarstæði Geitháls að Hólmsá. Vegurinn var upphaflega lagður 10 fet á breidd (3,13 m). Snemma á 20. öld var vegurinn breikkaður og aðlagaður að bílaumferð.

Suðurlandsvegur

Vaðið á Hólmsá. Letrið neðst.

Í Ísafold 1888 er fjallað um “Veginn nýja”, sem Norðmennirnir hafa verið við 2 sumur undanfarin, frá Fóelluvötnum niður í Reykjavík, og kominð var í haust nærri niður undir Hólm, með 18 álna brú yfir Hólmsá, hefir skemmzt stórkostlega í leysingunum vikuna sem leið, og brúna tekið af ánni aðfaranótt hins ll. Skemmdirnar eru mestar á hólmunum upp frá brúarstæðinu, og sömuleiðis mjög miklar upp á Sandskeiði : stórt haf brotið í brúna yfir það og klofinn frá annar jaðarinn vegarins þar á löngu bili. Nánari skýrsla um þetta ljóta áfall, sem líklega nemur 7—8000 kr. skaða, verður að bíða næsta blaðs.

Suðurlandsvegur

Áletrið við Hólmsá; 18?7 – Ágúst.

Þá segir undir fyrirsögninni “Skemmdir af vatnavöxtum”: Skemmdirnar á norska veginum*, milli Svínahrauns og Hólmsár, hafa þó ekki orðið eins miklar og fyrst var látið, þótt ærnar sjeu. Fyrst eru nokkrar skemmdir á Öldunum fyrir ofan Sandskeiðið. Svo er á Sandskeiðinu grafið skarð í veginn við efstu brúna og austurkampurinn undir henni fallinn, en brúin á því miðju öll á burt og vegurinn þar horfinn á 18 föðmum; enn fremur grafið djúpt ker ofan í gegnum hann neðst á skeiðinu, og loks jetin skörð inn í hann hingað og þangað að ofanverðu, til þriðjunga eða helminga inn í hann. Þá eru litlar skemmdir þaðan ofan að Lækjarbotnum. Hjá Lækjarbotnum hefir áin meðal annars numið burta vegiun á 20 faðma bili og brotið vesturkampinn undir brúnni þar.

Suðurlandsvegur

Letrið.

Fyrir neðan brúna er vegurinn gjörsamlega sópaður burtu ofan í klappir á löngu færi; við Hraunsnefið efra 3 faðma skarð í veginn; brotinn annar kampurinn af brúnni þar, en hinn hangir; og að öðru leyti talsverðar skemmdir á veginn um allt niður að aðalbrúarstæðinu á Hólmsá, en brúin yfir hana, 18 álna löng og 4 álna hátt yfir vatnið venjulega, öll á burtu, og kamparnir (rammgjörvir) skemmdir til muna: efsta lagið raskað á vesturstöplinum og hornsteinar í öðru, en 2 steinalögin efstu í þeim eystri mjög skemmd, og nokkuð neðar. Brúin sjálf í tvennu lagi: þriðjungur af henni rjett fyrir neðan brúarstæðið, en hitt langar leiðir niðar betur. Guðm. bóndi Magnússon í Elliðakoti, er þetta er haft mest eptir, samkvæmt skýrslu hans til amtmanns, með hliðsjón á skýrslu annara skoðunarmanna, fullyrðir, að 1871 hafi komið fullt eins mikið flóð í á þessa, og 1885 annað nokkuð minna.
— Í Ölvesá kom líka feiknaflóð í sömu leysingunni; hún flóði yfir mikið af Kaldaðarneshverfi í Flóa, bæði fjenaðarbús og bæi; allt fjeð á einum bænum, Lambastöðum, drukknaði í fjárhúsinu (30 kindur).

Auðvelt er að fylgja framangreindum leiðum milli byggðalaga vestra og eystra, utan elstu leiðarinnar sem hverfur í gróður og umhverfisspjöll vestan við Hólm.

Heimildir:
Morgunblaðið, 143. tölublað (29.06.1967), bls. 4.
-Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson. “Elliðavatnsheiði og Hólmar“, 208.
-Ísafold 18. og 23. janúar 1888, 11, 15 og 16.
-Ísafold 24. ágúst 1926.
-Magnús Grímsson. „Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi“, 93.

Suðurlandsvegur

Elsta leiðin upp frá Reykjavík til austurs (blá brotalína).

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall er móbergsfjall á Reykjanesskaganum vestanverðum. Það er talið vera vestasti hluti Reykjanesfjallgarðsins, en vestan þess eru stök fell. Fagradalsfjall er aflangt frá austri til vesturs, um 385 metrar á hæð og er þar með hæsta fjall á Reykjanesskaga. Það hefur orðið til á ísöld við gos undir jökli og er smáhraunlag á því ofanverðu, sem gefur til kynna að gosið hafi náð lítið eitt upp úr jöklinum. Fjallið flokkast því sem stapi.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli.

Fagradalsfjallskerfið er fyrst nefnt hjá Mary Gee. Hún dregur fram öll helstu einkenni þess, en það er um flest ólíkt öðrum eldstöðvakerfum á Reykjanesskaga. Kerfið er um fimm kílómetra breitt á milli Svartsengis- og Krýsuvíkurkerfanna. Lengdin er um 15 kílómetrar milli Keilis í norðaustri og Húsafjalls í suðvestri. Sérstaða þess felst í því að eiginlegur sprungusveimur tengist því ekki, og fátt er um misgengissprungur og gjár með norðaustur-suðvestur stefnu. Þar er ekki heldur að finna langar gossprungur. Hins vegar eru þar allmargar skjálftasprungur með norð-suðlæga stefnu. Háhitasvæði tengist því heldur ekki.
Einkennandi gosmyndanir eru dyngjur eða ígildi þeirra, það er stapar, bólstrabergs- og móbergsstrýtur, sem og stuttar gossprungur og snubbóttir móbergshryggir. Langihryggur er þeirra lengstur, um tveir kílómetrar. Tvær stórdyngjur eru í kerfinu, Fagradalsfjall, raunar stapi, vart eldri en frá síðasta jökulskeiði, og Þráinsskjöldur frá síðjökultíma, sjá mynd. Aldursgreiningar á skeljum næst undir breksíuhluta Þráinsskjaldar á Vatnsleysuströnd gáfu aldurinn 12.620±55 og 12.605±50 kolefnisár sem samsvarar um 14.100 almanaksárum.

Land á Reykjanesskaga utanverðum hefur orðið íslaust á Bølling-Allerød hlýskeiði. Það hófst fyrir um 14.500 árum og lauk fyrir 12.500 árum. Eftir fylgdi 1000 ára kuldaskeið, yngri Dryas, með nýrri framrás jökuls. Þetta 3000 ára tímabil er oft nefnt síðjökultími og þá runnu elstu hraunin á utanverðum Reykjanesskaga, þar á meðal Þráinsskjöldur. Þegar hann myndaðist hefur sjávarborð verið um 35 metrum lægra en nú, en skilin milli hrauns og breksíuhluta í honum eru á því dýpi.

Kristján Sæmundsson

Kristján Sæmundsson í FERLIRsferð undir Festisfjalli/Lyngfelli.

Að frátöldum stórdyngjunum eru 30-40 smáfell í Fagradalsfjallskerfinu. Þau eru þó ekki endilega mynduð í jafnmörgum gosum. Sex þeirra, þar á meðal Skála-Mælifell, eru úr öfugt segulmögnuðu, ólivínríku bergi. Aldursgreiningar sýna þau um 90.000 ára, frá segulflöktstíð sem kennd hefur verið við Skála-Mælifell. Af öðrum goseiningum kerfisins má nefna Festarfjall. Þar má sjá gosganginn í sjávarhömrum, Festina sem fæddi það. Gangur úr pikríti með stefnu á Lyngfell (einnig úr pikríti) sést í fjörustálinu nokkru austar en Festin, efalaust aðfærsluæðin. Gossprungan hefur í því tilviki verið um 700 metra löng. Bergið í goseiningum kerfisins er þóleiít, ólivínbasalt og pikrít.

Vatnsheiði

Við op K-9 neðst í Vatnsheiði.

Í kerfinu eru tólf gígar og stuttar gígaraðir frá eftirjökultíma, allt í því vestanverðu, nema ein dyngja á austurjaðrinum, norðan í Hraunsels-Vatnsfelli. Óvíst er hvort gos hafi verið jafnmörg. Elst hraunanna er sennilega Hrólfsvíkurhraun, frægt fyrir fjölda hnyðlinga sem aðallega sjást í einu belti. Líklega hefur gosið byrjað í sjó og þá myndast túffbingurinn í Berjageira upp af Hrólfsvík. Sjór hefur eytt honum að hluta áður en hraunið úr Vatnsheiði lagðist að og varði hann fyrir frekara rofi.
Aðalgosreinin frá eftirjökultíma nær frá Vatnsheiði norðaustur fyrir Fagradalsfjall með tíu hraunum. Stærst þeirra, að undanskildum Þráinsskildi, eru smádyngjan Vatnsheiði, að mestu leyti úr pikríti, og Borgarhraun úr þóleiíti. Borgarhraun er upprunnið í fjórum gígum suðvestan í Fagradalsfjalli. Önnur hraun eru lítil, en erfitt er þó að ákvarða stærð þeirra, því að yngri hraun hafa lagst yfir þau vestan frá. Yngsta hraunið í kerfinu mun vera Beinavörðuhraun, en það er eldra en Reykjanesgjóskan R~6000.

Heimildir:
-Gee, M. A. M., 1998. Volcanology and Geochemistry of Reykjanes Peninsula: Plume-Mid-Ocean Ridge interaction. Doktorsritgerð, Royal Holloway University of London. 315 bls.
-Kristján Sæmundsson, óbirt gögn 2011.
-Kristján Sæmundsson, 1995b. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, 1:25.000. Blað 1. Orkustofnun, Hitaveita Suðurnesja og Landmælingar Íslands, Reykjavík.
-Kristján Sæmundsson, 1995c. Um aldur stóru dyngnanna á utanverðum Reykjanesskaga. Eyjar í eldhafi. Afmælisrit til heiðurs Jóni Jónssyni jarðfræðingi (Björn Hróarsson, Dagur Jónsson og Sigurður Sveinn Jónsson í ritnefnd). Gott mál, Reykjavík, 165-172. Aldursgreiningar á bergi úr sex af þessum fellum gáfu fyrst til kynna að þau væru um 46.000 ára, frá svokallaðri Laschamp-segulflöktstíð (kennt við þorpið Laschamp í Chaine de Puys í Mið-Frakklandi) (Levi og fleiri, 1990. Late Pleistocene geomagnetic excursion in Icelandic lavas: confirmation of the Laschamp excursion. Earth and Planetary Science Letters, 96, 443-457).  Nákvæmari aldursgreiningar á fjórum af þessum öfugt segulmögnuðu fellum (Jicha og fleiri, 2011) sýna hins vegar, að þau eru mun eldri eða um 90.000 ára.
-Sveinn P. Jakobsson og fleiri, 1978. Petrology of the Western Reykjanes peninsula, Iceland. Journal of Petrology, 19, 669-705.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65697

Fagradalsfjall

Jarðskjálftar í og við Fagradalsfjall.

Álftanes

Í þjóðsögunni um “Steinarnir á Álftanesi” er getið um tvo staka stein sunnan og neðan við Grástein á Álftanesi. Grásteinn er þekktur af sögnum, en fáir hafa veitt framangreindum steinum sérstaka athygli. Sagan segir:

“Það vita allir að flestir hólar eða steinar sem nokkuð kveður að eru byggðir af fólki því sem álfar heita. Nú eru álfar misjafnir, sumir góðir, en sumir illir. Þeir góðu gjöra engum mein nema þeir sé áreittir af mönnum að fyrra bragði; hinir þar á móti vinna mörgum manni tjón.

Álftanes

Steinarnir tveir á Álftanesi – Grásteinn fjær.

Góðu álfarnir eru margir ef ei allir kristnir og halda vel trú sína. Mega þeir sín mikils og er það heill mikil að hjálpa álfum og koma sér vel við þá því þeir eru nokkurs konar andar eða verur. Flestir álfar eru alvarlegir og hafa óbeit á öllum gáska og gapaskap. Skyldi maður því forðast allt ósiðsamlegt nálægt bústöðum þeirra því annars getur hlotizt illt af því, því álfar reiðast illa. Þetta hefur og Álfa-Árni tekið fram. Hann varar menn við að ganga í steininn mikla sem stendur fyrir utan Hvamm í Hvítársíðu; þar búa illir álfar og alheiðnir.

Grásteinn

Grásteinn á Álftanesi.

Svo er t. a. m. um steina tvo á grandanum milli Brekku og Lambhúsa á Álftanesi. Þeir standa sunnanvert við götuna skammt fyrir neðan Grástein. Þessir steinar eru sjálfsagt álfabæir því ef maður hleypur af ásetningi á milli þeirra með gáska og hlátri eða ósiðsemi þá hlekkist þeim eitthvað] á sem það gjörði eða hann deyr jafnvel áður en langt um líður. Viti maður ei af þessum álögum á steinunum þá sakar ei þó milli þeirra sé gengið. Ei sakar heldur þó milli þeirra sé gengið með siðsemi og hæversku. Þegar Steindór Stefánsson heyrði sögu þessa þókti honum hún ótrúleg og gjörði hlátur að henni. Bar þá svo vel við að hann gekk frá kirkju þegar hann heyrði hana og hljóp hann þá milli steinanna með öllum illum látum. En álfar láta ei að sér hæða, Steindór drukknaði á SkerjafirÖi stuttu eftir. Við þetta minnkaði nú ekki trúin á steinunum því hefði Steindór ekki hlaupið á milli þeirra, þá hefði hann ekki drukknað. Veturinn 1844 tóku tveir piltar sig saman og ætluðu að reyna steinana; það vóru þeir Magnús Grímsson og Páll Jónsson. Þeir hlupu nú milli þeirra og gjörðu allt sitt til, en ekki hefur það á þeim séð; þeir lifa enn góðu lífi.”

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og ævintýri, Jón Árnason, bókaútgáfan Þjóðsaga, bls. 8-9.

Grásteinn

Grásteinn