Vogar

Kristjánstangi skagar út í Vogavíkina sunnan Voga. Ofan hans er tjörn sem gengur inn úr Síkinu svonefnda. Kallast hún Síkistjörn. Ofan við tjörnina er hesthúsahverfi.
Gerði á KristjánstangaÍ örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Voga segir m.a. um þetta svæði: „Nú er að halda áfram með sjó og neðan við þjóðveg. Þegar komið er inn fyrir Brekkulón er þar tangi sem heitir Kristjánstangi þar var einnig útgerð áður fyrr. Inn í þennan tanga, tvö smávik inn í fjöruna, þau eru nafnlaus, nema af sjó hafa þau nöfn og eru þá nefnd Litla-Molda og Stóra-Molda. Upp af Moldunum er svo fjárrétt, Vogafjárrétt sem er reyndar niður fallin. Tangi gengur fram af Kristjánstanga og heitir þar Svartiklettur, er það eins með hann og Moldurnar að hann heitir það af sjó en öðru nafni heitir hann Brimarhólmur og sker fram af honum heitir Brimarhólmstangar en þarna eru nokkur sker. Hóll er á Kristjánstanga sem heitir Guðnýjarhóll þar eru skemmtanir stundum haldnar. Norðan við Kristjánstangann heitir Síki, þetta er rás úr tjörn sem er þar fyrir ofan. Þar upp af tanganum er svo upp undir vegi holt með rústum á, þarna var býli sem hét Steinsholt, svo er þar hóll með rústum sem heitir Sandhóll. Innan við Síkið og Kristjánstanga tekur við svonefndur Vogasandur.“
Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar segir: „Langasker innan við Brekkulóð, en svo var Brekkutúnið kallað, var svo Kristjánstangi. Fremst á honum var Brimarhólmur og þar fram af Brimarhólmstangi og fram í tanganum Tangavör eða Brimhólmstangavör. Tvö vik voru þarna, nefndust Moldir og greindust í Stóru-Moldu og Litlu-Moldu.“
Garður á KristjánstangaÁ aðalskipulags-uppdrætti Voga er örnefnið Andrésarborg ofan við Kristjánstanga. Einu tóftirnar sem þar sjást er hlaðin gróin gerði á hól og hlaðin smátóft. Niður undir bakkanum, skammt sunnar, má sjá hringlaga hleðslur, sem sjórinn hefur verið að taka til sín smám saman, og a.m.k. tveir garðar út frá henni og utan hennar skammt suðvestar. Þegar Viktor Guðmundsson, Vogamaður nr. 1, var spurður um nefnda borg, svaraði hann: „Andrés í Nýjabæ var með hænur í tóttunum á hólnum. Andrésarborg var tóttin kölluð. Hvaðan borgarnafnið er komið veit ég ekki.“
Viktor hafði vísað FERLIR á hringlaga gerðið framan við Kristjánstanga sem og veggina, sem þar eru og hleðslur lítillar tóttar sem stendur undan bakkanum. Beint neðan við hana er gömul vör; Kristjánstangavörin. Þegar umhverfið er skoðað gagnrýnum augum er augljóst að landið hefur tekið verulegum breytingum á umliðnum öldum og áratugum. Bæði hefur sjórinn verið að brjóta smám saman af ströndinni og auk þess hefur landið lækkað þarna frá því sem áður var. Fyrrnefndur Brimahólmur hefur áreiðanlega verið landfastur sem og Svartiklettur.
Ljóst er að á Kristjánstanga var útræði á tímum árabátanna, áður en útgerð hófst í Hólminum (Hólmabúðum) framan við Brekku undir Stapanum. Litlar heimildir eru hins vegar til um útgerðina þar, líkt og reyndar um aðra sambærilega útgerðarstaði á Reykjanesskaganum.
VörVogaréttin fyrrnefnda var, að sögn, þar sem fiskeldisstöðin skammt sunnan Kristjánstanga er nú. Henni hefur nú verið raskað með öllu.  Erfitt er að gera sér í hugarlund hvaða hlutverki leifarnar undan Kristjánstanga hafa þjónað fyrrum. Hringlaga gerðið, ca. 9 m í ummál, hefur verið vandlega hlaðið. Neðsta steinaröðin sést enn. Veggbreiddin hefur verið um 1 1/2 m. Út frá því hefur legið garður til suðvesturs og annar samhliða honum sunnar. Þarna gæti hafa verið geymslusvæði innan gerðisins tilheyrandi útgerðinni og garðarnir þurrkgarðar, en þarna gæti samnefnd Vogarétt einnig hafa verið fyrrum og nefndar Moldir þá verið tvö smávik framar í fjörunni. Þegar horft er á umhverfið þeim augum er slíkt alls ekki útilokað.
Hvað sem framangreindu líður er ljóst að ástæða er til að skoða Kristjánstangann og minjanar þar mun nánar. Augljóst er að verulegar minjar kunna að leynast undir sandinum ofan strandarinnar þegar tekið er mið af þeim minjum sem þegar sjást í sjávarmálinu.
Frábært veður. Gangan tók 25 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar AG og GS fyrir Voga.
-Viktor Guðmundsson.

Vogarétt

Vogarétt – uppdráttur (úr fornleifaskráningu fyrir Vogavík).

 

Bárufleygur

Í bókinni „Sjómannasaga“ eftir Vilhjálm Þ. Gíslason, segir m.a. frá Oddi V. Gíslasyni: „Enginn maður ljet meira til sín taka öryggismál sjómanna á erfuðustu árum þilskipanna en sjera Oddur V. Gíslason að Stað í Grindavík (f. 8. apríl 1836, d. 10. jan. 1911).

Oddur V. Gíslason

Oddur var einkennilega samsettur maður, ákafamaður og brennandi í andanum, síleitandi og reynandi nýjar úrlausnir. Hann var sjómaður og prestur og rithöfundur í senn. Eftir að hann hafði lokið embættisprófi í guðfræði gerðist hann ekki prestur, heldur sjómaður í fimmtán ár og reri kappsamlega, enda var hann karlmenni að burðum. Hann fjekst þá við ýmsar tilraunir til nýrra vinnubragða og vöruvöndunar á sjávarafurðum. Þannig fór hann að gufubræða þorskalýsi suður í Kirkjuvogi, hjá Vilhjálmi Hákonarsyni. Hann varð tengdafaðir Odds. Þau eignuðust fimmtán börn, hann og Anna í Kirkjuvogi. Þorskalýsi sitt sendi Oddur til Boulogne og fjekk verðlaun fyrir. Hann gerði fleiri tilraunir til umbóta á fiskimálum. Hann skrifaði t.d. um nauðsyn þangbrennslu. Hann skrifaði um nýjar veiðiaðferðir og verkunaraðferðir og brýnir fyrir mönnum vöruvöndun. En fyrst og fremst var hann talsmaður aukins öryggis á sjó og slysavarna og brautryðjandi þeirra mála. Hann fór verstöð úr verstöð til þess að tala við sjómenn um þessi mál og hann var þrumandi ræðumaður. Hann gaf af fátækt sinni út blöð og bæklinga um hagsmunamál sjómanna. Hann talaði og skrifaði, hvort sem menn vildu á hann hlýða eða ekki. Sumir yptu öxlum, aðrir reyndu ráð hans og gafst vel. Landssjóður gaf út ágrip sumra erinda hans. Menn gengu í fjelögin, sem hann kom á í verunum, bjargráðanefndirnar, sem hann stofnaði til þess að beita sjer fyrir slysavörnum. Þær áttu að kenna mönnum að hafa góða áttavita, lýsispoka, bárufleyga og kjalfestu. Rit hans voru tvennskonar, fræðirit og hvatningar. Hann skrifaði ritling um „Leiðir og lendingar í fiskiverum Íslands“ (1890). Hann samdi dálitla kenslubók í ensku (1863), einhverja þá fyrstu, sem hjer var samnin, en hann var góður enskumaður og fylgdarmaður enskra ferðamanna. Þá skrifaði hann smáritasafn um „Fiskiveiðamál“, um síld til beitu og fæðu, um lóðir, sem væru landsstoð, en heimska að afnema þær. Þá skrifaði hann um „Líf og lífsvon sjómanna“. Þar talar hann um lýsið sem bjargráð í sjáfarháska, um áttavita og loftþyngdarmæli, skiftispjöld, andþófsstjóra og kjalfestupoka og um formensku og í ofanálag  um saltfiskverkun.

Sjera Oddur

Um þessi mál og önnur áþekk gaf hann einnig út tímarit, „Sæbjörgu“, en hafði ekki bolmagn til að halda því úti nema eitt ár (1892). Hann var trúhneigður maður og komst snemma í kynni við enska kristilega sjómannastarfssemi. Þaðan mun hann hafa fengið einhverjar hugmyndir sínar. Á vegum ensks smáritafjelags gaf hann út ritlingana; „Hjálpræðisorð“. Löngu seinna þegar hann var kominn til Ameríku, fór hann að lækna með yfirlagningu handa. Hann hafði alla tíð áhuga á lækningum og fór að lesa læknisfræði á gamals aldri vestanhafs, og varð þar læknir, skömmu áður en hann dó. Hann hafði farið þangað á hálfgerðum flótta undan vonbrigðum og fátækt, og gerst prestur í Nýja Íslandi 1894. Er hann undi ekki hafti embættisstarfanna þar fremur en heima og gerðist farandpredrikari og læknir.
Sjera Oddur kom ýmsu góðu til leiðar með starfsemi sini hjer heima, enda naut hann ýmislegrar aðstoðar góðra manna, þó að aðrir tækju honum fálega. Í Sæbjörgu stendur á einum stað, að nokkrir menn höfðu „orðið til þess að spilla fyrir viðleitni“ sjera Odds „og tekist það furðanlega. Þessir menn náðu samt ekki stjórn úr hendi hans, sem öllu ræður, og sem leyfði sjera Oddi að komast allra sinna ferða“. Sjera Oddur talaðai og lifði í trausti trúarinnar. Hann var snortinn af enskum trúboðsanda og naut mikils stuðnings í starfi sínu frá enskum skoðanabræðrum. Hjer heima fjekk hann einnig styrk og aðstoð, einkum frá kaupmönnum. Helsti styrktarmaður hans var H. Th. Thomsen og minnist Oddur hans með virðingu og þakklæti. Duus hjálpaði honum einnig og um skeið naut hann ofurlítilla amtsstyrkja. 1890 ljetu ýmsir kaupmenn hann fá þúsund krónur í farareyri um fiskiverin. Skyldi hann einkum hvetja menn til framfara í fiskverkun og gerði hann það ætíð.
Embætti sínu mun sjera Oddur hafa gegnt af alúð, fyrst í Lundi í Borgarfirði, síðan í Grindavík frá 1878 til ’94. Grindavík var þá lítið og fremur fátækt fiskiver. Útvegsbændur voru þar (1892) átján og ýmsir ágætir sjósóknarar. Búðir voru þar fjórtán. Sjera Oddur mældi þær og komst að því, að sú minsta var 411 tengingsfet. Þar voru fjórir menn, eða húsrúmið var 102 tengigsfet á mann. Stærsta búðin var 1620 tengingsfet og voru þar fimm menn og var því meira en þrisvar sinnum rýmra þar en í minstu búðinni. Fjórir útvegsbændur höfðu sjómenn í heimahúsum sínum, tveir í timburhúsum og tveir í baðstofum. Prestsetrið mun þá hafa verið heldur lítið og ljelegt. Sjera Oddur stundaði sjó jafnframt prestskap sínum og var duglegasti formaður, áræðinn og ærðulaus.

Verbúð

Sagan segir, að einlægt sneri hann hiklaust heim úr róðri og tafarlaust ef til hans var leitað um embættisverk. Var þá breidd hvít voð á þekjuna á bænum og sást af sjó, þegar gestur kom og vitjaði prests. Hann þótti snajll ræðumaður, vel orði farinn og heitmál,,, enda ákafamaður að hverju sem hann gekk og einlægur, en kvikur nokkuð.
Líf hans var einkennilegt sambland sjósóknarerfiði og basli og þrá til andlegs lífs, sambland af guðrækni og áróðri. Þegar hann skrifar á móti afnámi lóðanotkunar, biður hann menn að hugsa þetta mál samviskusamlega, „hvort þjer aftakið nú ýsulóðina“, og „biðjið guð að leiðbeina yður, eins og hann gefur veiðina, eins gefur hann líka vitið ef hann er beðinn“. Blað sitt, Sæbjörgu, sem hann kallar bjargráðarblað fyrir sjómenn, lætur hann „leggja upp í Jesúnafni til framsóknar og varnar bjargráðamálum sjómanna á Íslandi“…

Bátur og haf

Sjera Oddur í Grindavík gat talað eins og sjómaður við sjómann. Hannn varð fyrir áhuga og sjerkennilegan persónuleik ímynd nýrra fjelagsmálahreifinga og framfara. Hann hugsaði ekki einungis um stofnun bjargráðanefndanna, en ráðgerði einnig stofnun sjómannafjelaga til að „tryggja líf og atvinnu sjómanna á allan hátt“. Í þeim tilgangi mælti hann með notkun þilskipa og skrofaði um það, að bátarnir væru og litlir. Hann gerði einnig ráð fyrir því að stofna sjómannaráð fyrir alt Ísland. Frumvarp til laga um þetta er birt í Sæbjörgu…

Bárufleygur

Bárufleygur.

Sjera Oddur í Grindavík stóð ekki einn uppi með þessi áhugamál sín. Sumum þeirra hreyfðu aðrir samhliða honum eða jafnvel á undan honum. Tryggvi Gunnarsson hafði skrifað um gildi lýsisins til bjargráða 1882…
Bárufleygur var, eftir lýsingu sjera Odds sjálfs, holbauja, líkust sykurtopp í lögun, og tók 8 til 10 potta af lýsi. Í botninum voru eitt til fjögur smágöt, auk sponsgats. Þessir bárufleygar voru gerðir úr trje, járni eða blikki, Önnur samskonar lýsistæki til að lægja sjó, voru ilir og lábrjótur. Ilinn (borðili og stafnili) var þríhyrndur strigapoki, sem tók 2 til 4 potta af lýsi. Lábrjótur var sveigur, mettaður lýsi, eða tappalausar flöskur, fyltar lýsi. Tækjum þessum kom sjera Oddur á ýms skip og útskýrði notkun þeirra, s.s. það, hvernig bárufleyginn skyldi nota í undanhaldi, mótróðri, flatskellu og beitivindi. en það var gömul reynsla, sem sjera Oddur nefnir, að þegar lifur brákaði á sjó, lægði öldur. Höfðu hvalveiðimenn helst hagnýtt sjer þetta.
Upp úr þeirri hreifingu, sem sjera Oddur vakti, spruttu smásaman með atbeina annarra, ýmsar umbætur í öryggis- og tryggingarmálum. Hún varð einnig vísir að öðru, því að upp fóru að rísa stjettasamtök eða fjelög um hagsmunamál þeirra, sem að útvegi unnu, einkum í bæjunum. Ýmiskonar fjelagslíf þróaðist því meira, sem margmennið óx í bæjunum…“

Heimild:
Vilhjálmur Þ. Gíslason, Sjómannasaga, 1945, bls. 382-388.

Oddur

Sjóslys

Í Ægi 1914 er yfirlit yfir „Botnvörpuskip sem strandað hafa við strendur Íslands 1896-1906„:

Ása

Kútterinn Ása 1902.

„Nítján eru þau, skipin sem liggja hingað og þangað með ströndum fram hjer við land, sem strönduðu á 10 árum, og fleiri eru komin síðan. Sum þessara skipa liggja rjett við land, sum eru á þurru landi og af þeim eru mörg óbrotin en sandorpin, og talið ógerningur að ná þeim út. Þau eru sem hjer segir:

Nafn skipsins:  Heimili: Strandár;
1. Thoyetme  Fleetwood  1896.
2. Präsident Herwig   Geestemünde   1898.
3. Richard Simpson  Hull  1899.
4. Oceanic Hull  »
5. Engjanes  Rvík(Vídalín)  »
6. Friedrich  Geestemünde  1900.
7. Spaniel  Hull  »
8. Cleopatra  Hull  1901.
9. Lindsey Grimsby »
10. Aulaby (Anglaby) Hull 1902.
11. Rriton Hull »
12. Jamesia Grimsby »
13. Africa Grimsby »
14. Adeline Hull 1903.
15. Spring Flower Hull »
16. Molops Hull »
17. St. George Grimsby »
18. Friedrich Albert Geestemünde »
19. Würtenberg Nordenham 1906.

Togari
Þetta er það sem liggur ónotað í fjörunum hjer, og vart hægt að færa sjer það í nyt, því flest skipin liggja á þeim stöðum, þar sem björgunartilraunir mundu vera afarörðugar og kostnaðarsamar.
Til skýringar við þessa skipaskrá skal hjer tekið fram, að nr. 4 liggur við Skerjafjörð, nr. 11 við Stapa undir Jökli, nr. 12 við Bervík, nr. 17 við Ásmundarstaðavík á Melrakkasljettu, nr. 18 og 19 við Skeiðarársand, nr. 1, 2 og 6 við Skaftárós, nr. 3 og 9 við Mýrdalssand, nr. 16 við Rangársand, nr. 8 við Stokkseyri, nr. 5 og 10 milli Grindavíkur og Reykjaness, nr. 14 við Hafnarberg, nr. 7, 13 og 15 við Útskálaskaga.“

Í Ægir 1927 segir m.a. um tvö framangreindra sjóslysa:
-„„Engjanes“, botnvörpuskip frá Vídalínsútgerðinni í Hafnarfirði. Strandaði á flúðum utan við Járngerðarstaði, aðfaranótt 3. okt. 1899. Kent um óþektum straum og truflun á áttavita. Menn björguðust allir.“
-„„Anglaby“, enskur togari, strandaði á tanga austan við Karfabás 14. jan. 1902. Drukknuðu þar allir. Skipstjórinn var Nelson, hinn alþekti landhelgislagabrjótur.“

Í framangreindum Ægi 1927 er „Skýrsla um skipströnd í Grindavík á svæðinu frá Hraunsandi til Staðarbergs árin 1850-1927“ eftir Einar G. Einarsson, Garðhúsum í Grindavík:

Einar G. Einarsson

Einar G. Einarsson í Garðshúsum.

Skýrsla um skipströnd í Grindavík á svæðinu frá Hraunsandi til Staðarbergs árin 1850—1927.
1. „Delphin“, frönsk loggorta, strandaði á Kasalóni laust eftir 1850. Menn björguðust allir. Skip þetta var tekið út sumarið eftir. Keyptu það Sveinbjörn Ólafsson kaupmaður í Keflavík o. fl.
2. „Beta“, dönsk jakt lítil. Rak hún á land í Hrólfsvík, en skipshöfn mun hafa druknað í hafi. Var skipið á leið til Búða með vörur.
3. „Kapracius“, frönsk skonnorta, strandaði á Þorkötlustaðabót. Menn björguðust allir.
4. „Vega“ 30. apríl 1885, þýsk skonnerta, með saltfarm til Reykavíkur, strandaði á Þorkötlustaðnesi. Menn björguðust allir.
5. „Brise“, frönsk skonnerta, standaði á Arfadal. Skip þetta hafði orðið fyrir ásiglingu á hafi úti og sigldi upp vegna leka, um bjartan dag.
6. „Lonaine“, frönsk skonnerta. Strandaði 28. apríl 1885 á Hraunssandi og var leka um kent. Menn björguðust allir.
7. „Petit Jean“, frönsk skonnerta. Rak upp á Hraunsfjörur og varð ekki vart við neinn mann. Hafa því að líkindum allir drukknað áður en skipið kom að landi.
8. „Glitner“, norskur galeas. Rak á land á Járngerðarstaðvík 11. júlí 1896. Menn björguðust allir.
9. „Fortuna“, dönsk skonnerta. Rak á land á Járngerðarstaðavík 29. júlí 1897. Allir björguðust.
10. „Flora“, norskur galeas. Rak á land á Járngerðarstaðavík 7. júlí 1903. Menn björguðust.
11. „Oddur“, gufubátur frá Eyrarbakka. Rak á land á Járngerðarstaðavík. Menn björguðust.
12. „Minna“, þýsk skonnerta. Rak á land á Járngerðarstaðavík 17. júlí 1906. Mannbjörg.
13. „Henrij Rheid“, mótorbátur frá Hafnarfirði, Rak á land á Járngerðarstaðavík 16. febrúar 1907. Mannbjörg.
14. „Engjanes“, botnvörpuskip frá Vídalínsútgerðinni í Hafnarfirði. Strandaði á flúðum utan við Járngerðarstaði, aðfaranótt 3. okt. 1899. Kent um óþektum straum og truflun á áttavita. Menn björguðust allir.
15. „Rapid“, norskt flutningagufuskip strandaði á sama stað og nr. 14. Strandið kent, að sést hafi ljós í glugga, er yfirmenn álitu að væri Reykjanesviti, einnig skekkju á áttavita. Þetta skeði 15. nóv. 1899, kl.
3 árdegis. Menn björguðust.
16. „Anglaby“, enskur togari, strandaði á tanga austan við Karfabás 14. jan. 1902. Drukknuðu þar allir. Skipstjórinn var Nelson, hinn alþekti landhelgislagabrjótur.
17. „Sheldon Abbey“, ensk skonnerta, strandaði á Þorkötlustaðanesi. Var með salt og tunnufarm til Reykjavíkur. Menn björguðust.
18. „Varonell“, enskur togari, strandaði á flúðum, utan við Járngerðarstaði 20. janúar 1913. Þrír menn drukknuðu, en hinum tókst að bjarga.
19. „Karl Markmann“, þýskur togari. Rakst á sker, líklega Þorkötlustaðanes, en losnaði aftur og sökk skipið skammt undan landi 8. des. 1913. — Menn björguðust á skipsbátnum og náðu landi á Sandvík vestan við Reykjanesvita.
20. „Resolut“, mótorkútter frá Reykjavík, strandaði vestan við Hásteina 10. spet. 1916. Hafði stýri bilað. — Mannbjörg.
21. „Schlutrup“, þýskur togari. Strandaði við Stekkjarnef. Menn björguðust allir.
22. „Anna“, færeyskur kútter, strandaði austan við Staðarberg 3.—4. apríl 1924. Týndust allir menn 15 að tölu; ráku 9 á land og voru jarðsungnir hér í Reykjavík 11. apríl. („Anna“ hét áður „Sléttanes“ og var keypt héðan).
23. „Ása“, togari H. P. Duus-verslunar í Reykjavík. Strandaði á flúðum vestan við Járngerðarstaði. Áttavitaskekkju kent um. Allir björguðust.  (Skipið nýtt).
24. „Hákon“, mótorkútter frá Reykjavík. Strandaði við Skarfatanga 9. maí 1926. Sigldi á land í svörtum bil. Menn björguðust i skipsbátnum.

Þessa skýrslu um skipaströnd hefir hr. kaupmaður Einar G. Einarsson í Garðhúsum tekið saman eftir beiðni, og bætir eftirfarandi við:

Gufuskip

Reykvískt gufuskip.

„Til skýringar skýrslu þessari vil ég taka þetta fram, að hún er skrifuð eftir minni og ekki þar stuðst við nein heimildarrit eða minnisbækur og vegna þess er flestum ártölum slept, samt geri ég ráð fyr að hún sé í öllum aðalatriðum rétt og að ekki sé neitt skip rangtalið, sem hér hefir strandað á þessu timabili. En frekari upplýsingar um þetta má eflaust fá í Þjóðvinafélagsalmanakinu, yfir þann tíma, sem það nær, svo og í bókum Gullbringusýslu, þvi fram til síðustu tíma voru öll skipströnd meðhöndluð af sýslumönnum.
Ása5 skip eða nr. 8—12 í skýrslunni, hafa slitnað upp á Járngerðarstaðavík. 2 skip, nr. 2 og 7 hafa sennilega rekið mannlaus á land, skipshafnir verið búnar að skilja við þau, eða hafa drukknað á rúmsjó, og 2 skipin, nr. 5 og 6, líklega siglt viljandi á land.
Öll hin skipin, 15 að tölu, hafa strandað af einhverjum atvikum, sem menn ekki hafa getað ráðið við, og þá líklega í mörgum tilfellum, að einhverju leyti, af skekkju á áttavitum. Í því sambandi mætti ef til vill geta sér til, að hraunið hér, sem alstaðar liggur út í sjó, kunni að vera mengað þeim efnum (járni), er hafi áhrif á áttavitana. – Garðhúsum 27. júní 1927. (Sign.) Einar G .Einarsson.

Togari

Hákon RE 113, áður kútter Haraldur MB 1 frá Akranesi sem kátir karlar voru á.

Skýrslan og skýringar þessar eru settar í „Ægi“ til þess að benda á, að hér muni eigi vanþörf að vitaverði hið bráðasta komið upp. Síðasta Alþingi hafði þetta með höndum og munu undirtektir hafa verið hinar bestu og að sögn vitamálastjóra, mun viti verða reistur á Hópsnesi á komandi sumri.
Til áréttingar því, sem hr. Einar G. Einarsson segir um áttavitaskekkju á þessum slóðum, sem sjómenn hafa orðið varir við, geta þar einnig verið óreglulegir straumar, sem bera skip úr leið.

Hópsnes

Hópsnesviti/Þórkötlustaðaviti. Vitin sá arna er í landi Þórkötlustaða og þar með á Þórkötlustaðanesi. U.þ.b. 120 metrar eru í landamerki Hóps frá vitanum.

Mönnum er það ekki hulið, að vegna jarðskjálfta, hefir komið fyrir að Reykjanesviti hefir ekki logað þegar hann átti að gjöra það. Er því brýn nauðsyn, að fyrirhugaður viti í Grindavík, sendi frá sér ljós, sem sé vel aðgreint frá Reykjanesljósinu, svo aldrei komi það fyrir, að skip, sem úr hafi koma, geti vilst á þeim. Hafi orðið að slökkva ljósið á Reykjanesvitanum í fyrra vegna jarðskjálfta, getur hið sama orðið í ár og önnur ár.

Sveinbjörn Egilsson

Sveinbjörn Egilsson.

Enginn segir fyrir, hvenær skip þurfi á Reykjanesvita að halda; getur það orðið jafnt í jarðskjálfta, þegar ekki er auðið að sýna ljós, og þegar alt er í lagi; en sökum þessa mikla ókosts Reykjaness fyrir sjófarendur, virðist svo, sem brýn nauðsyn heimti, að Grindavíkurvitinn verði góður viti vegna þess, að svo getur viljað til, að hann verði eini landtökuvitinn á þessum hættulegu slóðum.
(Ég hef bætt ártölum og mánaðardögum inn í skýrslu Einars eftir föngum). – Reykjavík, 15. okt. 1927. Sveinbjörn Egilson.

Í framhaldinu verður hér fjallað stuttlega um strand togarans Kinston Period H 55 sunnan Kalmanstjarnar árið 1934.

Strand utan við Kalmannstjörn 1934

Kalmanstjörn

Kingston – strandið 1934.

„Myndin er líklega tekin 26. febrúar 1934. Maðurinn til hægri er líklega Jón Bergsveinsson, framkvæmdastjóri Slysavarnarfélags Íslands. Strandaði togarinn er frá Kingston útgerðarfélaginu í Hull. Það strand sem passar best við myndina er strand Kingston Peridot H 55 rétt sunnan Kalmannstjarnar í Höfnum. Togarinn sigldi á land aðfararnótt 24. febrúar 1934 en skemmdist lítið. Jón fór á staðinn með fluglínutæki og hjálpaði ásamt slysavarnarsveitinni í Höfnum áhöfninni í land samdægurs. Varðskipið Óðinn og breska björgunarskipið Henry Lancaster komu og drógu skipið út 26 febrúar.“ (BÞ 2018)

Heimildir:
-Ægir, 9. tbl. 01.09.1914, Botnvörpuskip sem strandað hafa við strendur Íslands 1896-1906, bls. 117.
-Ægir, 10. tbl. 01.10.1927, Skýrsla um skipströnd í Grindavík á svæðinu frá Hraunsandi til Staðarbergs árin 1850-1927 – Einar G. Einarsson, Garðhúsum 27. júní 1927, skráð af Sveinbirni Egilssyni, bls. 220-221.
-Sarpur.is

Gufuskip

Gufuskip-Baldur RE 146-1913.

Arnarnes

„Sumarið 1926 hafði ég tal af frú Þuríði Guðmundsdóttur Mathiesen, ekkju Theodors Mathiesen í Hafnarfirði. Hún er fædd í Kópavogi 14 árum eftir að Jónas kom þangað (21. sept. 1855) og uppalin þar, unz hún var komin á 19. ár. Frú Þuríður er prýðilega gáfuð kona, skýr í tali og minnug vel enn á margt það er hún sá eða heyrði í æsku. — Hún sagði mér af munnmælunum um dysina við veginn gamla efst á Arnarnesshálsi, sem getið er um hér að framan.
Thorgardsdys-21Neðar, á norðanverðum hálsinum, kvað hún vera dys Þorgarðs, sem svo miklar þjóðsögur gengu um, sbr. Þjóðs. Jóns Árnas., I, 388—91. Mun sú dys þó frá fyrri tímum en Þorgarður á að hafa verið á, eftir þjóðsögunum. Annars er svo að sjá sem sumt í þeim, einkum frásögnin um glæp þann er Þorgarður á að hafa verið drepinn fyrir, stafi frá máli Sigurðar á Árbæ. En hvað sem um það er, þá er líklegast að þessi dys sé yfir einhverjum, sem hafi verið líflátinn hér skammt frá eftir dómi á Kópavogsþingi. Ögmundur skólastjóri Sigurðsson hefir sagt mér, að Filippus heitinn Filippusson, sem ólst upp í Arnarnesi, hafi skýrt svo frá, að þetta væri dys Steinunnar frá Árbæ. Ekki er það fortaks-mál, þótt það komi ekki heim við frásögn Þuríðar. Dysin er úr grjóti og allstór. Að norðanverðu hefir henni verið rótað mikið upp, fyrir nokkrum árum, og kann þá að hafa verið tekið nokkuð grjót úr henni. Hún er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi, er Þuríður kvað svo heita. Þar sjást enn á flöt niður við voginn, norðan gamla vegarins, litlar og óglöggar tóftir eftir kot, sem var þar fyrrum.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 42. árg. 1929, bls. 29-30.

Þorgautsdys

Þorgautsdys.

Þorgarðsdys

„Sviðholtsættinni fylgdi draugur, sem kallaður var Þorgarður. En um uppruna hans er þessi saga:
Hallldór faðir Bjarna í Sviðholti bjó að Skildinganesi og var maður auðugur. Um þessar mundir fekk maður einn, sem annað hvort var dæmdur til dauða eða ævilangrar fangelsisvistar, leyfi til þess að leysa sig út með peningum, en hann var sjálfur fátækur og fekk því loforð hjá Bjarna fyrir gjaldi því, er þurfti. Aðrir nefna til þess bróður Halldórs.
Þá er Halldór var að telja gjaldið, kom að kona hans. alftanes-221Hún sópaði saman peningunum og sagði að þarfara væri aft verja þeim öðruvísi en að kasta þeim svo á glæður. Seki maðurinn fekk ekki fjeð, og sagði hann að svo mætti fara að tiltæki konunnar yrði henni til lítillar hamingju og ættliði hennar. Nú átti að flytja hann utan, en dugga sú, er hann var á, týndist fyrir Austfjörðum með allri áhöfn. Eftir þetta gekk hann aftur og sótti mjög að konu Halldórs og fór svo að hún ljest. Tók draugurinn þá fyrir aðra menn í ættinni og varð að ættarfylgju. Hann var nefndur Þorgarður.
Þuríður hjet systir Bjarna í  Sviðholti og sótti Þorgarður einna mest  að henni. Loksins skrifaði Bjarni eftir Sigmundi, fóstursyni Latínu-Bjarna, sem var ramgöldróttur, en hann kom að vestan og dvaldist hjá Bjarna um hríð. Við það ljetti ásókn Þorgarðs. Sigmundur bjóst við góðum launum hjá Bjarna, en minna varð úr en hann hafði ætlað. Þegar þeir Bjarni skildu spurði hann  mund hvort sjer mundi vera óhætt. Sigmundur svaraði að svo yrði að vera, en enn mundi sumum af ættmönnum hans verða klaksárt, enda er sagt, að aðsóknin yrði Þuríði ]oksins að bana og alls dæi fjórir menn í ættinni, þar á meðal Þórður stúdent sonur Bjarna. Þetta var alt kent Þorgarði.
Það er mælt að Björn Gunnlaugsson hafi haft mestu skömm á Þorgarði, en sjeð hann oft. Björn þjeraði alla. En einu sinni er hann mætti Þorgarði á hann að hafa sagt: „Ekki held jeg að jeg fari nú að þjera yður“.
Þorgarður fylgdi Bjarna rektor, syni Jóns adjunkts og Ragnheiðar. En það var merkilegt um Þorgarð. að hann var svo sjóhræddur (líklega af því að hann hafði drukknað), að Bjarni rektor þurfti ekki annað en fara yfir Skerjafjörð eða út í Viðey til að losna við hann. Eftir lát Bjarna fara engar sögur af Þorgarði.“

Þorgarðsdys

Þorgarðsdys.

Sagan í „Þjóðsögur og munnmæli í samantekt Jóns Þorkelssonar, 1899, bls. 16-17, er svona: „Þorgarður drepur Þórð í Sviðholti; fer á kjól og stígvél; frá Birni og Þorgarði. [Eptir bréfi Guðmundar Jónssonar, Salomonssonar, úr skóla, til Friðriks prófasts Jónssonar á Stað 2. marts 1835].
Stúdent Þórður Bjarnason (Sviðholti dó af skrítilegum atvikum, að sögn manna. Óbótamaður hafði einu sinn átt að biðja einhvern forföður Þórðar Bjarnasonar að kaupa sig út frá lílsstraffi; ætlaði maðurinn reyndar að gera þetta, en varð ekki af vegna mótmæla konu hans (í Þjóðsögum Jóns Árnasonar I, 388 er sagt, að þessi hjón hafi verið Jón bóndi á Seli við Reykjavík og Guðrún kona hans. Aðrir segja, að það hafi verið Bjarni Bergsteinsson á Seli og í Skildinganesi (d. 1759) og kona hans, er neitaði Þorgarði um féð, en Bjarni var faðir Halldórs, föður Bjarna, föður Þórðar í Sviðholti.) Sá seki hafði þá átt að boða manninum, að hann skyldi ekki kippa sér upp við það, þótt ókennilegir sjúkdómar vildu til í ættinni eptir þetta. Síðan brá svo við, eptir að sá seki var af tekinn, að kona þessa manns varð brjáluð. Síðan hefir ætíð einhver í ættinni verið veikur af sinnis- og hjartveiki. Þessi déskoti segja menn að einlægt hafi ásótt madame Gunnlögsen meðan Johnsen sálugi lifði. Þá hann sigldi og fórst segja menn, að hann, nefnilega Johnsen, hafi verið svo máttugur að láta hann koma með sér. Síðan hefir karlinn, að sögn manna, ætíð birzt á kjól og stígvélum.
Í haust fór Bjarnesen inn í Reykjavík til lækninga, svo hann gæti verið nær doktornum. Fór hann þá stundum að gamni upp á Klupp (klúbb). Sóru sig þá margir, bæði danskir og íslenzkir, upp á það, að þeir hefðu þá séð þénarann“.
Þorgarður var sá eini, sem komst af og ekki drukknaði af póstskipinu undir Svörtuloptum 1817. Kom hann sjóhrakinn af skipbrotinu á bæ undir Jökli um kvöldið og bað að lofa sér að vera, en var farinn um morguninn, þegar fólk kom á fætur, og hafði þá áður drepið þrjár kýr í fjósinu í þóknun fyrir næturgreiðann. Eptir það er sagt, að hann hafi um hríð öðru hverju haldið sig að konu Björns Gunnlaugssonar, ekkju Jóns skólakennara og systur Þórðar í Sviðholti. Er sagt Þorgarði hafi þó heldur staðið geigur af Birni, og hefir hann líklega verið hræddur um, að hann mundi reikna sig í rot með tölvísi. Lagði Björn og litla virðing á Þorgarð. Björn þéraði alla, en þegar Þorgarður varð á vegi hans, er haft eptir honum: „Já, ekki held eg fari ekki að þéra yður“ og „farið þér nú út um norðurdyrnar“.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 25. ágúst 1946, bls. 344.
-Þjóðsögur og munnmæli, Jón Þorkelsson, 1899, bls. 16-17.

Garðabær

Þorgarðsdys í Arnarnesi.

Selvogur
Gengið var um Nes í Selvogi í fylgd Kristófers Bjarnasonar, kirkjuvarðar í Strandarkirkju, til vesturs með ströndinni og yfir að Bjarnastöðum.
Nes er austasta býli í Selvogi. Neshverfi eða Nestorfa var sameiginlegt heiti á Nesi og hjáleigum þar. Einnig var hverfið nefnt Austurvogur eða Austurvogshverfi.

Nes

Nes – legsteinn.

Landnámsmaður í Selvogi var Þórir Haustmyrkur, sem hafði bú í Hlíð. Konráð Bjarnason úr Selvogi segir í Lesbók MBL 17. des. 1991 að hann telji að sonur hans, Böðmóður, hafi fengið hinn víðáttumikla eystri hluta landnáms föðurs síns og orðið fyrsti bóndinn í Nesi. Heggur, annar sonur Þóris, er sagður hafa búið í Vogi, sem getið er til að hafi verið Vogsósar.
Í Selvogi virðast hafa verið tvö hverfi, í kringum Nes og Strönd, og þéttbýli var mikið, svo að tún flestra eða allra jarðanna lágu saman. Á 11. öld er vitað um kirkju á Nesi. Kirkjurnar, sem vitað er um, eru á öllum dýrustu jörðunum. Þess hefur verið getið til að undir lok 13. aldar hafi Nes í Selvogi orðið bústaður höfingja. Maður að nafni Finnur Bjarnason byggði þar nýja kirkju á seinni hluta 13. aldar og var hann af höfðingjaættum. Eftir hann bjó í Nesi Erlendur sterki Ólafsson (d. 1312), faðir Hauks lögmanns og bókagerðarmanns. Það að Erlendur hafi valið sér Nes til bústaðar hefur verið tekið til marks um aukið mikilvægi sjávarútvegs frá því um 1300 og að höfðingjar hafi þá kosið frekar að búa við sjávarsíðuna til að geta auðgast á sjávarfangi en í miðju fjölbyggðra landbúnaðarhéraða.

Nes

Nesbrunnur.

Næsta lítið er vitað um byggð í Selvogi á síðmiðöldum, en margar jarðir þar komust í eigu Erlendunga; Þorvarðar Erlendssonar lögmanns (d. 1513) og afkomenda hans, sem margir bjuggu á þessum slóðum. Synir Þorvarðar, Vigfús og Erlendur áttu fjölda jarða á þessu svæði og bjó Erlendur (d. 1576) á Strönd og Guðbjörg dóttir hans (d. 1596) eftir hann. Sextánda öldin var einskonar blómaskeið Selvogs. Þá bjuggu þar stórhöfðingjar áratugum saman og mjög mikið fer fyrir útgerð Skálholtsbiskupa frá Þorlákshöfn, Selvogi og Herdísarvík í skjölum frá þessum tíma. Byggð í Selvogi fór hinsvegar mjög hnignandi í kjölfar 17. aldar. Þar eyddist land vegna sandfoks, tún Strandar og nærliggjandi jarða voru smátt og smátt beinlínis kaffærð í sandi og var öll byggð eydd í Strandarhverfi um 1750.

Nes

FERLIRsfélagar í Nesi.

Jarðabók Árna og Páls sem tekin var saman á árunum 1706 og 1708 á þessu svæði er víða getið um hjáleigur og afbýli sem höfðu byggst á seinni hluta 17. aldar. Margar fóru fljótlega í eyði aftur í harðindunum um 1700 eða í kjölfar Stórubólu 1707, en önnur héldust í byggð. Ekki er ástæða að í Selvogi hafi orðið verulegar breytingar í skipulagi byggðar í Selvogi fyrr en á þessari öld.

Bærinn í Nesi stóð á Bæjarhól neðan við mitt tún. Þegar tvíbýli var í Nesi, voru bæirnir nefndir Austurnes og Vesturnes. Fyrrum mun kirkjan í Nesi hafa staðið, þar sem nú er braggabygging, notuð síðast sem heygeymsla. Legsteinar komu upp, þegar grafið var fyrir þessu húsi, og munu þeir vera þarna á hlaðinu. Kirkjan var lögð niður 1706.

Selvogur

Selvogur – Nesborgir.

Síðustu sjóbúðir í Nesi voru niðri á kampinum, og sér fyrir þeim enn. Nesbrunnur eða Austurnesbrunnur er í Suðurtúni, beint suður af tröðunum. Hann er alltaf fullur af vatni. Þaðan lágu götur til bæjanna og allra hjáleiganna.
Vestar á kampinum ofan við vörina voru Nesborgir, þrjár fjárborgir. Vestasta borgin fór í flóðinu mikla 25. febr. 1925. Enn sést hluti af hinum tveimur.
Í austri blasir Selvogsviti við, en hann var reistur fyrst framarlega á klöppunum, en síðar færður ofar, þangað sem hann stendur nú. Eldri vitinn (1919) var stálgrindarviti, en nýi vitinn er steyptur. Hann var byggður 1931 og er 18 m hár.

Selvogur

Selvogur – Nesborgir.

Gísli Sigurðsson tók saman örnefnaskrá um Nes. Þar kemur m.a. fram að af bæjarstæðinu í Nesi hafi verið eitthvert fegursta útsýni í Selvogi. Í Austurtúni neðst var hjáleigan Litla-Leður. Tóftir Litla-Leðurs hafa nú verið sléttaðar út. Austast í Hátúni var Stóra-Leður. Þar sjást enn tóftir, upp við túngarðinn. Í Vesturtúni voru þrjár hjáleigur: Neðst var Bartakot í miðju túni, og Erta var ofar og austar, rétt vestan við traðirnar. Þessi kot hafa bæði verið sléttuð út. Þórðarkot var norðvestur af Ertu, vestur undir mörkum. Það er nokkurn veginn uppistandandi enn. Beitarland frá Nesi, eins og öðrum bæjum í Selvogi, er í Selvogsheiði. Hún liggur neðan frá túngörðum allt vestur að Hlíðarfjalli, neðan Svörtubjarga, um Hnúkana og austur að hreppamörkum.

Nesborg

Nesborg.

Ofan byggðarinnar er heiðinni skipt í Austurheiði, sem er Nesland, Miðheiði, sem er upp frá Bjarnastöðum og vestur um Torfabæjarland, og Vesturheiði eða Útheiði, sem er land Eimu og Vogsósa.
Frá túngarði í Nesi liggur sjávarkampur austur að vita. Hlaðinn garður er á honum, en hann nær ekki alla leið. Austast á kampinum var bær, sem hét Snjóhús
Gengið var að brunninum, niður að sjóbúðunum og síðan út með ströndinni að fjárborgunum, sem enn standa að hluta. Gengið var framhjá Guðnabæ, kíkt í brunninn í túninu og síðan haldið áfram yfir að Bjarnastöðum.
Þorkelsgerði

Bjarnastaðir

Bjarnastaðir í Selvogi.

Á túngarði austan Bjarnastaða var hlið, og lá þar um kirkjugatan frá Nesi og vestur um hjá Bjarnastöðum. „Kirkjugatan lá neðan við Harðhaus og ofan við Mosaflöt og Víðavöll“, eins og segir í örnefnaskrá.
Í fornleifakönnun um Bjarnastaði koma m.a. fram upplýsingar um Fornagarð í gegnum Selvog, ofan bæjarins. Árið 1821 segir að “máské mætti telia Meniar-Fornaldar: Sýnishorn af þeim stóra Vördslu gardi, úr Hlídar-Vatni, allt framm ad Strónd og einlægum Túngardi þadan, austur ad Snióthúsa vórdu, fyrir óllum Túnum sveitarinnar / sem óll skyldu þá hafa samfóst verid / med læstu Hlidi ad Lógbýli hvóriu.“

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

Einnig segir í sömu lýsingu að „eignad er verk þetta Erlendi Þorvardssyni sem hér var lógmadur sunnan og austan, frá 1520, til 1554; bió léngi sin efri ár ad Strónd i Selvogi og Deidi þar 1576. … Þessum nausynlegu Túna og Vórdslu Górdum verdur hér ei vidhaldid, vegna sandfoks, sem þegar hefur eydilagt, þetta, i Fyrndinni góda og Prídilega Pláts, er þá nefndist Sæluvogur, ad sógn Manna.”
Árið 1840 segir að „engar fornleifar eru hér af neinu merkilegu, nema garðlag eftir stóran varnargarð frá tíð Erlendar lögmanns Þorvarðssonar, sem liggur úr Hlíðarvatni og austur að Snjóthúsavörðu, fyrir ofan alla byggðina.

Fornigarður

Selvogur – Fornigarður. Nesviti fjær.

Var þá hagalandið milli garðs og fjalls, en tún og engjar milli garðs og sjóar, allt sjálfvarið. Mælt er, að læst hlið hafi verið fyrir hverju lögbýli, og átti hvör heimabóndi að passa sitt hlið, að ei stæði opið, og þessvegna læst, að enginn gæti opnað hliðið óforvarandis.” Samkvæmt þessu voru læst hlið á vörslugarðinum að hverjum bæ.
Bjarnastaðavörin er neðan bæjarins. Þar er merki á klöpp, sem og „bindisteinar“ við lendingu.
Fáir staðir við ströndina eru skemmtilegri til göngu en Selvogur. Þarna er sagan svo að segja við hvert fótmál. Í dag er Selvogur lifandi minjasafn – óspillt af mannanna hendi.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Gapi

„Í landnorður frá Vogsósum er hellisskúti í hrauninu, skamt frá alfaravegi; hann er kallaður Gapi. Ferðamenn liggja opt í helli þessum, eins og í sæluhúsi. Í helli þessum leyndi Eiríkur prestur sekum manni heilt sumar. Maðurinn var austan af Síðu, og hafði þar orðið mannsbani, svo það átti að drepa hann. þeir sem um veginn fóru sáu aldrei hellinn Gapa þetta sumar; því Eiríkur hafði brugðið yfir hann hulu, og eins vöröu þá, sem stóð á hólnum hjá honum, og mundu þó margir eptir hvorutveggju. gapi-22Sakamaðurinn hafðist þarna við í hellinum um sumarið, og geingu lýsingar á honum um allar sveitir, og skipun, að taka hann fastan, hvar sem hann næðist. Eiríkur prestur fékk einn af seðlum þessum. Sendi hann þá manninn sjálfan með hann austur á Síðu, en einginn gat þekt hann. Eiríkur lét hann skila því með, að maðurinn heíði náðzt í Selvogi, og sæti hann nú í fjötrum, og væri geymdur í Strandarkirkju. þángað skyldu þeir sækja hann hið allra fyrsta. Maðurinn fór, lauk erindi sínu, og sneri svo suður aptur í helli sinn. En Síðumenn brugðu við, og fóru suóur i Strandarkirkju. þar fundu þeir manninn í fjötrum. Var hann þá fluttur austur, og átti nú aö höggva höfuðið af honum; því svo hafði hann dæmdur verið. En þegar til kom beit ekki öxin, og beyglaðist eggin í hverju höggi. Hættu þá Síðumenn, og fluttu hann á skip, og ætluðu að senda hann til Danmerkur; því þar ætluðu þeir öxunum að bíta. En þegar þeir komu með hann út á skipiö, hvarf hann, og var þar þá steindrángi einn með böndum á. Urðu skipverjar þá æfir við Síðumenn, og ráku þá burtu með sneypu, en vörpuðu sökudólgi þeirra fyrir borð. Síðumenn sáu nú, hversu Eiríkur hafði gabbað þá, og vildu hefna sín. Feingu þeir til þess mann á Vestfjöröum, og sendi hann Eiríki kött. Stóð Eiríkur Þá úti á hlaði, þegar kisa kom, og ætlaði hún að hlaupa um háls honum, og drepa hann. En þá var hjá Eiríki maður sá, sem forðum sókti kverið, og hjálpaði hann Eiríki til að drepa köttinn. Sagt er, að Eiríkur hafi sent Vestfirðingnum draug, sem honum hafi orðið að bana.“

Heimild:
-Íslenskar þjóðsögur og æfintýri, Jón Árnason, 1862, bls. 571.

Gapi

Í Gapa.

Stifnishólar

„Þeir vóru margir saman í einu félagi, skiptu sér niður á bæi á Álftanesi og gengu ljósum loganum svo enginn hafði frið. Þeir vóru kallaðir Hverfisdraugar.

Brúsastaðir

Brúsastaðir og Stifnishólar.

Þetta var seint á 18 öld, og þá var séra Guðlaugur prestur í Görðum og hann kunni margt fyrir sér. Nú þegar bændur voru orðnir ráðalausir með þessa aðsókn þá fóru þeir til séra Guðlaugs og beiddu hann að hjálpa. „Mikið er að vita,“ segir prestur, „að þið skulið ekki hafa komið fyrr; það er nú orðið of seint, þeir eru nú orðnir of magnaðir, ég get ekki sett þá niður.“ Þó fór hann af stað og fékkst lengi við draugana og gat komið þeim að Stiflishólum, en lengra kom hann þeim ekki í því hvar sem hann leitaði á þar var eitthvað fyrir. Hann markaði því reit umhverfis hólana sem þeir aldrei komust út yfir og skildi svo við. Síðan eru þeir kallaðir Stiflishóladraugar, og hefur lengi verið þar reimt og einhver vandræði fyrir flesta sem fara þar fram hjá, en nú eru þeir farnir að dofna því þeir eru orðnir svo gamlir.“

Heimild:
-Jón Árnason I (1954), 254.

Stifnishóll

Stifnishóll.

Álftanes

Gengið var um vestanvert Álftanes, norðan Skógtjarnar. M.a. var komið við í tóftum Litlabæjar, gengið út á Litlabæjartanga og síðan gengið með ströndinni innan við Sandskarð. Þar fyrir innan er t.d. Bakkakot og Bakkakotstjörn. Fyrir innan röðuðu kotin (Hákot, Gesthús, Sveinskot, Kekkjakot, Mýrarkot, Garðskot, Þóroddarkot, Grashús, Þórukot, Bjarnastaðir og Friðrikskot) sér í þétta þyrpingu fyrr á öldum.

Eldhús

Hlóðareldhús – Gaimard.

Sá hluti Álftaness, sem tilheyrir landi Garðabæjar, afmarkast af vestanverðu af Skógtjörn. Í tjörninni gætir mikils munar flóðs og fjöru. Í Skógtjörn er fjölbreyttur gróður og dýralíf. Skógtjörn er mikilvægur viðkomustaður farfugla. Yfir vetrarmánuðina halda þar til endur og álftir. Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir Árni Helgason að sögur hermi að Skógtjörn og Lambhúsatjörn hafi fyrrum verið engi.
Þegar staðið er á Litlabæjartanga í svo “stórri sveit”, sem Álftanesið hefur verið í gegnum aldirnar með stjórnsýslusetrið Bessastaði innanborðs, með hafið á mót ströndinni og lífsblett smælingjans landmegin, verður ekki hjá því komist að velta lífi hins venjulega fólks fyrir sér hér fyrr á öldum. Nákvæm lýsing á búskapnum í Litlabæ er til frá því á ofanverðri nítjándu öld. Gísli Jónsson, alþingismaður, skrifaði þær og studdist við minnisblöð föðurs síns, Jóns Hallgrímssonar. Foreldrar Gísla fengu jörðina til ábúðar árið 1884 og bjuggu þar í tólf ár.

Álftanes

Stíflisgarður við Skógtjörn.

Í Litlabæ bjuggu 11 manns samkvæmt manntalinu 1890; hjón ásamt fimm börnum sínum, tveimur vinnumönnum og tveimur vinnukonum. “Þar hefur fjölskyldan verið í hörðum skóla. Þar hefur hún liðið sult, klæðleysi, sjúkdóma og fátækt. Þar hefur faðir minn margoft teflt á tæpasta vaðið í baráttu við æðisgengnar öldur, stórviðri, myrkur og byl.”
Lýsing Gísla gæti átt við svo til sérhverja fjölskyldu á Íslandi á þessum tíma.
Jörðinni og híbýlum þeirra lýsir Gísli svo: “Suðvestast á Nesinu, alveg fast að klettóttri ströndinni, er lítið kot. Litlibær heitir það, og ber nafn með rentu. Húsakynnin eru lítill torfbær, byggður í gömlum íslenskum bæjarstíl, með göflum og dyrum gegnt hafinu.

Bær

Í bæjargöngum.

Þegar gengið er inn moldargöngin, er til vinstri handar þiljuð örlítil stofa með timburgólfi. Til hægri handar er moldareldhús, með hlóðum,… en óþiljað. Fyrir enda gangsins er stigi upp í baðstofu. Hún er tvö stafgólf, með súð og torfþaki. Þar er engin upphitun. Einn fjögurra rúðu gluggi er á stofugafli, en á hvorum enda baðstofu er einnig gluggi, en nokkru minni. Á eldhúsi er enginn gluggi, en birta fæst niður um víðan stromp, sme er beint yfir hlóðunum og tekur frá þeim allan reyk. Við norðurvegg eldhússins er gripahús. Er þar bás fyrir eina kú, stalldur fyrir einn hest, og stía fyrir sex kindur. Inn af því er heygarður til geymslu á fóðri, og op á milli svo að taka má heyið, án þess að fara út. Beint fram af gripahúsinu er safnþró, opin og óvarin. Við suðurvegg er hjallur, sem notaður er til geymslu og til að þurrka föt og fisk…

Álftanes

Álftanes fyrrum.

Túnið er lítið og þýft. Sjávarmegin er hár kambur af möl, sem brimið hefur sópað upp.

Bær

Bæjargöng.

Þegar úfinn er sjór og brim er mikið í stórstaumum, gengur möl, sandur og sjávargróðurinn yfir kambinn og alla leið inn á túnið. Verður því að hreinsa það á hverju vori. Í sæmilegu ári gefur túnið af sér kýrfóður. Fyrir aðrar skepnur verður að afla heyja á annarra landi.”

Svo mörg voru þau orð – lýsing á dæmigerðum íslenskum bæ á nítjánu öld. Síðan eru liðin mörg ár – eða hvað?
Stundum er hollt að staldra við, setjast niður og rifja upp við hvaða kost forfeður okkar bjuggu við fyrir tiltölulega stuttu síðan. Árið 1910 -´20 voru helmingur allra húsa á Íslandi úr torfi og grjóti. Nú, 85 árum síðar, eru torfbæir ekki til (nema sem söfn). Hugsaðu um það – lesandi góður!
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín – en hugurinn reikaði á þeim tíma allt að 101 ár aftur í tímann, eða hér um bil.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – 2002.
-Álftanesssaga – Anna Ólafsdóttir Björnsson – 1996.

Álftanes

Álftanes – Örnefnakort – ÓSÁ.

Gálgahraun

Gengið var um Grástein á Álftanesi, framhjá Selskarði, skoðuð steinbrú yfir Skógtjörn og haldið austur með suðurjarðri Gálgahrauns að Garðastekk.

Gálgahraun

Gálgahraun – skófir.

Skammt frá vegamótum Suðurnesvegar og Norðurnesvegar er sá merki steinn Grásteinn, sem er álagasteinn. Í honum eru för sem sýna að reynt hefur verið að færa steininn úr stað en eitt sinn er það var reynt sýndist mönnum Eyvindarstaðir standa í björtu báli og hættu við flutninginn. Skyggnt fólk segja álfa búa í steininum. Þeim er illa við að fólk fari með gassagangi framhjá honum. Sé það gert reyna þeir að gera því fólki glettu. Þeir láta fólks hins vegar í friði fari með friðsemd.
Gengið var með Álftanesvegi áleiðis að Gráhelluhrauni. Selskarð er þar á vinstri hönd, skammt austan heimkeyrslunnar að Bessastöðum.

Garðastekkur

Í Garðastekk.

Á leiðinni var skoðuð gömul göngu- og reiðleið um Álamýri við Skógtjörnina. Leiðin lá fyrrum um steinbrú, „stíflurnar“ yfir jarðar tjarnarinnar og stytti það leiðina yfir í Garðahverfi. Brúin var þó hrunin á nítjándu öld, að minnsta kosti þegar Benedikt Gröndal skrifaði Dægradvöl. Benedikt segir brúna „allmikið verk, en illa gert“.

Guðmann Magnússon, bóndi á Dysjum í Garðahverfi, lýsti helstu leiðum, sem farnar voru út á Álftanes um aldamótin.

Skógartjörn

Skógartjörn – brú.

Austur úr hafi tvær leiðir með sjónum í gegnum hraunið. Önnur í vestæga stefnu um Garðastekk, en þaðan hafi sú leið skiptst í tvennt og ein leið legið meðfram sjónum og út á Álftanes (Bessastaðasókn), en önnur í Garðahverfi.

Þetta getur vel passað við Fógetagötuna annars vegar og Garðaveg/-götu hins vegar, en hún liggur upp á Garðaholt, svo til í beina stefnu á Garðakirkju. Álftanesgatan gæti síðan hafa tekið við frá gatnamótunum, áleiðis að Bessastöðum.
Selskarði hefur verið mikið raskað, þrátt fyrir viðurkennt fornleifagildi. Það er í rauninni ágætt dæmi um hvernig á ekki að umgangast fornminjar og ætti því að geta orðið víti til varnaðar.

Fógetagata

Fógetagatan um Garðahraun.

Gísli Sigurðsson nefnir nafnið Selsgarðar. Í jarðabók ÁM og PV segir að Garðar hafi brúkað þar (í landi Hausastaða) skipsuppsátur. Álftanesgata (Fógetagata) hafi legið á vatnaskilum (þurrlendi) sunnan Selskarðsbæjar gamla.
Gálgahraun er fremsti hlutinn af hrauninu norðvestan Álftanesvegar. Þar lá vegurinn til Bessastaða allt fram á nítjándu öld. Gálgahraun þótti mjög gjöfult.

Ólafur Þorvaldsson segir í enduminningum sínum að “þeir , sem fóru til aðdrátta í Gálgahrauni, voru aðallega Garðhverfingar, svo eitthvað Hafnfirðingar, og var það þang og marhálmur, sem þangað var sótt, og ver það bæði rekaþang og skorið þang.

Garðastekkur

Garðastekkur.

Betra þótti rekaþang til brennslu en þang það, sem skorið var, aðallega fyrir það að minna salt virtist í því og þornaði því fyrr.
Þegar þangið var orðið þurrt báru menn það oftast heim á sjálfum sér, í stórum byrðum eða sátum, þar eð fæstir þurrabúðarmenn áttu hesta. Gálgahraun lætur ekki mikið yfir gróðri þeim, sem það býr yfir, en hann er meiri heldur en flesta grunar. Gálgahraun fæddi og fóstraði marga sauðkindina, meðan menn hagnýttu sér útibeit. Þó var beitin þar ekki með öllu áhættulaus. Gálgahraun, sem er nyrsti hluti Garðahrauns, á sér engin ákveðin mörk að sunnan í hrauninu.

Gálgahraun

Gálgahraun – kort.

Gálgahraun býður upp á stórbrotna náttúru. Hraunið, sem kemur úr Búrfelli um Búrfellsgjá, um 10 km leið og er um 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera um 7200 ára. Heitir það ýmsum nöfnum á leiðinni. Í því eru fjölbreyttar tjarnir, fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki. Gálgahraun er tilkomumikið nútímahraun með lífauðugum sjávarfitjum.

Hluti þessa svæðis hefur verið friðlýstur. Í matsskýrslu fyrir nýjan Álftanesveg kemur fram að hin forna þjóðleið, Fógetastígur, hafi verið leið um Gálgahraun. Stígurinn þykir mjög óvenjulegur þar sem óvíða hafi umferð á Íslandi verið það mikil fyrr á öldum að rásir hafi klappast í hraun. Stígurinn er þannig minnisvarði um mikilvægi Bessastaða sem miðstöðvar stjórnsýslu á Íslandi og efnahagslífs við Faxaflóa um aldur. Þykir stígurinn “meðal allra merkustu fornleiða á höfðuborgarsvæðinu og hefur ótvírætt varðveislugildi”.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Gálgahraun er nefnt eftir Gálgunum nyrst í hrauninu. Þar var aftökustaður. Sakamannastígur liggur frá Álftanesgötu (Fógetastíg/-götu) yfir að Gálgaklettum.
Gengið var að Garðastekk. Garðastekkur er gömul fjárrétt. Mikilvægt er að varðveita stekkinn, enda teljst hann til menningarminja. Í hrauninu, ofan við stekkinn, er gömul fjárborg, sem ekki er getið um í örnefna- eða fornleifalýsingum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – 2002.
-Álftanessaga – Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Gálgaklettar

Gálgaklettar – meintur grafreitur.