Gils Guðmundsson ritstjóri hefur tekið saman mikið verk um þjóðskáldið og að hafnamanninn Einar Benediktsson, og nefnist bók hans „Væringinn mikli – ævi og örlög Einars Benediktssonar„.
Margt hefur verið skrifað um þennan stórbrotna og fjölhæfa jöfur orða og athafna, sem oft var langt á undan samtíð sinni. Hér er því víða leitað fanga til að fá sem fyllsta mynd af þeim Islendingi sem var stærri í sniðum en flestir samtíðarmenn hans. Væringinn mikli var skáld og framkvæmdamaður, draumóramaður og ofurhugi, og Gils rekur sögu hans ítarlega frá bernsku til æviloka. Þar ríkti aldrei lognkyrrð. Nokkrir kaflar úr bókinni fara hér á eftir.
„… Þetta ár og hið næsta keyrði um þverbak hjá Benedikt Sveinssyni. Þegar hér var komið sögu var hann einatt á ferð og flugi og staðnæmdist vart heima hjá sér stundinni lengur. Eirðarleysi, drykkjuskapur og önnur óregla einkenndi allt hans framferði. Hann fór hvað eftir annað til útlanda, ýmist út af málaferlum sínum eða í sambandi við ýmis stórvirki, sem hann hafði á prjónunum. Meðal þeirra má nefna öflun fjár til að hefja blaðaútgáfu og prentsmiðjurekstur, draumsýnir um stórfelld verslunarviðskipti við Norðmenn og miklar samgöngubætur á sjó, kostaðar af norsku fé. Þegar heim kom, lagði hann upp í langa leiðangra innanlands til að safna liði og fjárstyrk til stuðnings áformum sínum og baráttumálum. Og þess á milli sat hann langtímum saman í Reykjavík. Allar voru þessar hugdettur og fyrirætlanir meiri eða minni skýjaborgir, með lítil tengsl við raunveruleikann. Meðan þessu fór fram mátti húsfreyja Benedikts hins vegar sitja með börn sín ung að Elliðavatni, við þröngan fjárhag og búskap í algerri upplausn. Eins og fyrr segir mun hún á sínum tíma hafa verið algerlega mótfallin því að flytja úr höfuðstaðnum og taka að sér búsforráð í sveit. Fara af því sögur, að hún hafi alla tíð verið óánægð á Elliðavatni. Kom þar margt til, erfíðleikar í samskiptum við vinnufólk, þröngur efnahagur er á leið, en þó öðru fremur hátterni húsbóndans. Loks kom þar, að þolinmæði Katrinar var með öllu þrotin. Vorið 1*72, eftir 13 ára hjónaband, flytur hún frá Elliðavatni til Reykjavíkur, og krefst jafnframt skilnaðar.
Einar Benediktsson um sextugt. Þá mun Benedikt hafa verið lagður af stað í enn eina utanferðina. Katrín Einarsdóttir var nú þritug og komin langt á leið að síðasta barni þeirra hjóna. Leitaði hún fyrst skjóls hjá Þorbjörgu ljósmóður mágkonu sinni, systur Benedikts. Þar ól hún sveinbarn í júlímánuði, og hlaut það nafnið Ólafur Sveinar Haukur. Ekki varð dvöl Katrínar löng hjá Þorbjörgu. Munu þær mágkonur ekki alls kostar hafa átt skap saman þegar til lengdar lét. Settist Katrín að í næsta húsi, Litla Holti, og bjó þar í nokkur ár. Að Elliðavatni kom hún aldrei eftir þetta.
Í skilnaðarmáli þeirra hjóna leitaði prestur sátta, svo sem lög gerðu ráð fyrir. En í stað þess að málið færi síðan fyrir sáttanefnd var haldinn sáttafundur hjá Hilmari Finsen stiftamtmanni. Fór hann fram 14. desember 1872, og var þar ákvörðun tekin um skilnað Katrínar og Benedikts að borði og sæng og svofellt samkomulag gert milli þeirra: Sátt var reynd milli þeirra hjóna til framhalds hjónabandssambúðar en árángurslaust og bæði óskuðu hjónabandssambúð slitið. Með tilliti til fjárskipta með þeim tjáðust þau vera ásátt um meðfylgjandi skilmála; að maðurinn taki við búi þeirra með öllum skuldum, sem á því hvíla, og að maðurinn skuldbindur sig tií að borga henni 15 ríkisdali mánaðarlega frá 1. október þessa árs, að borga fyrsta dag hvers mánaðar um separations tímann, samt um sama tíma að leggja henni kýrfóður af heyi árlega hér á staðnum. Af sameiginlegum börnum hjónanna verða tvö hin elstu hjá manninum, hin tvö hjá konunni. Þegar þessir atburðir gerðust, var Einar Benediktsson á áttunda aldursári. Steingrímur J. Þorsteinsson segir: Það lætur að líkum, að uppeldisáhrif þau, sem Einar Benediktsson bjó við á Elliðavatni fyrsta áratug ævi sinnar, hafa engan veginn verið eins og best yrði á kosið, Vegna heimilisóreiðunnar átti Einar meiri mök en ella hefði orðið við vinnufólkið, misjafnt eins og gengur, og hlýddi mjög á tal þess og sögur, sem voru ekki allar fallnar til barnafræðslu. Sagði Einar eitt sinn á elliárum sínum, er honum varð tilrætt um orðbragð þessara fóstra sinna. „Heldurðu .að þetta hafi haft góð áhrif á mig? Eg, sem var allur eitt skilningarvit!“ Um eitt af hjúum föður síns á Elliðavatni orti Einar fyrstu vísuna sem til er eftir hann. Þá hefur hann að líkindum verið átta ára gamall. Jósep hét einn vinnumanna Benedikts, hinn mesti matmaður. Um hann kvað Einar: Jósep er og hundur hans hungraðir að vana, seggur þessi sunnan lands segist kominn að bana.
Síðasta vetur Katrínar á Elliðavatni var Jón Ólafsson skáld og ritstjóri þar til heimilis. Var hann þá nýkominn úr vist sinni í Noregi, en þangað hafði hann flúið vegna málaferlanna út af Íslendingabrag. Nú var Benedikt efst í huga að koma upp prentsmiðju á Elliðavatni og stofna blað. Skyldi Jón vera ritstjóri eða meðritstjóri við blaðið. Jafnframt var Jóni falið að veita börnum þeirra Benedikts og Katrínar tilsögn. Varð hann fyrsti kennari Einars, og samkvæmt kirkjubókum var Einar orðinn læs um jólaleytið 1871, þá sjö ára gamall.
Árið eftir að Katrín hvarf að heiman, kom Benedikt Einari fyrir hjá Grími Thomsen á Bessastöðum og Jakobínu konu hans. Dvaldist hann þar árlangt, enda mun heimilið á Elliðavatni þá hafa verið í algerri upplausn. í húsvitjunarbók Garðaprestakalls er talinn að Bessastöðum 1873 „Einar Benediktsson, tökupiltur, 9 ára, búinn“ (þ.e. að læra kverið)., Á Bessastöðum var Einari haldið strangt til vinnu, og hefur honum brugðið við eftir sjálfræðið á Elliðavatni. Einar þótti rumlatur, og fann vinnufólk á Bessastöðum að því við hann. Þá orti Einar: Vont er fólkið við mig hér, að vilja ekki lofa mér að lúra dálítið lengur. Fara skal á fætur samt, forlaganna þiggja skammt eins og duginn drengur. Grímur bóndi og skáld var strangur húsbóndi og hirtingasamur. Eftir Bessastaðadvölina lá Einari hlýrra orð til frú Jakobínu en Gríms. Öðrum þræði hafa þau hjón komið fram við Einar fremur sem fósturson en tökubarn, létu hann jafnan matast með gestum er þá bar að garði, svo og þegar boð voru haldin. Virti Einar það við Grím æ síðan.
… Nú hófst námsferill Einars Benediktssonar. Undir skóla lærði hann einkum hjá séra Guttormi Vigfússyni á Svalbarði í Þistilfírði, síðar presti á Stöð í Stöðvarfirði, ágætum latínumanni. Einar var heilsuveill í æsku, og á Svalbarði veiktist hann hastarléga og lá vetrarlangt og fram á surnar. Upp frá því var hann aldrei heilsuhraustur. Bæði var hann veill fyrir brjósti og gekk með sullaveiki, sem hann losnaði að líkindum aldrei við til fulls. Á efri árum nefndi Einar þessi veikindi sín við Svein Benediktsson framkvæmdastjóra.
Sveinn segir: Einar ræddi nokkrum sinnum um sullaveiki, sem hann hefði sýkst af á bernskuskeiði á Elliðavatni. Kenndi hann um sóðaskap vinnufólksins eftir að foreldrar hans skildu. Sagði hann að hundar hefðu verið látnir sleikja askana, eins og þá mun ekki hafa verið óalgengt hér á landi. Af þessum sökum hafði hann sýkst af sullaveiki og liðið miklar þjáningar og átt við langvarandi vanheilsu að stríða af hennar völdum. Man ég að hann sagði, að hann gengi enn með steingerða sulli. Vorið 1878 var Einar fermdur í Húsavíkurkirkju. Við það tækifæri er honum gefinn þessi vitnisburður í prestþjónustubók: „Les, kann og skilur ágætlega og hegðar sér dável.“
Ýmsar sögur eru til, sem lýsa samúð Einars og hjálpsemi við fátækt fólk og minni háttar, bæði frá æsku hans og fullorðinsárum. Eftirminnileg er sagan sem Jakobína Jósíasdóttir segir frá fermingu Einars: Síðustu dagana fyrir fermingu dvaldist Einar um kyrrt á Húsavík, þar sem hann hafði verið til spurninga. Dreng einn úr Vilpu, koti sunnarlega í þorpinu, vantaði fermingarföt, enda var fólk hans bláfátækt. Einar átti spariföt og hafði auk þess fengið ný föt fyrir ferminguna. Hafði hann fermingarfötin með sér, en sparifötin voru heima á Héðinshöfða. Einar bauð drengnum að lána honum spariföt sín til fermingarinnar, og skyldi sýslumannsfólkið færa honum þau, er það kæmi til kirkju á fermingardaginn. En það var stundum seint fyrir, og svo fór í þetta sinn. Þverneitar Einar þá að ganga til kirkju, meðan faðir sinn sé ókominn, og ber ekki öðru við. Var nú ekki um annað að ræða en bíða, þar sem sýslumannssonurinn átti í hlut. Stóð Einar heima við prestssetrið hjá drengnum úr Vilpu, þangað til sást til ferða Héðinshöfðafólks með fötin. Einar varð æfur við föður sinn fyrir seinlætið.
Þrátt fyrir veikindi Einars í æsku, var hann fjörmikill og gerðist snemma einráður og áræðinn. Sýnir það atburður sá sem nú skal frá sagt. Haustið 1879 sendir Benedikt Einar son sinn fjórtán ára gamlan með áríðandi bréf til Akureyrar. Hafði ekki verið á annað minnst en Einar kæmi austur aftur að loknu erindi og læsi heima næsta vetur undir skóla. Á Akureyri hitti Einar nokkra pilta, sem voru á förum suður til náms og biðu strandferðaskipsins Diönu.
Einar grípur nú áköf löngun til að slást í hópinn, en til þess sér hann engin ráð, síst fjárhagsleg. Þá vill svo til að hann mætir á götu á Akureyri Tryggva Gunnarssyni, góðkunningja fóður síns. Ber hann þegar upp vandkvæði sín við Tryggva, og kveður fjárskort hamla því að hann komist suður í skólann. Tryggvi kveðst geta bætt eitthvað úr þessu og lánar Einari ríflega fyrir farinu suður. Hefur Einar nú enga vafninga, skrifar föður sínum, siglir suður með piltum, fer til Þorbjargar föðursystur sinnar, gengur undir inntökupróf, stenst það með prýði og sest þegar í fyrsta bekk Latínuskólans. Skömmu síðar skrifar Benedikt Tryggva Gunnarssyni, og er í senn undrandi og stoltur yfir uppátæki sonar síns. Þakkar hann Tryggva lánið til „Einsa litla“ og segir síðan: Víst var um það, að ég hafði eigi ætlað honum að fara í skólann í þetta sinn, mest vegna þess að ég treysti ekki heilsu hans, en hann lá í allan fyrri vetur og fram á sumar. En nú hefur drengurinn ráðist í þetta, og þú getur því nærri, að ég er þér þakklátur fyrir hjálpina – að hverju sem hún verður honum.
Á fyrstu árum hinnar nýju aldar fór efnahagur Einars Benediktssonar verulega batnandi. Enda þótt Benedikt faðir hans hefði oft verið í peningaþröng og mesta basli, kom í ljós við skipti eftir hann látinn að eignir dánarbúsins voru töluverðar. Komu til skipta samtals rúmar 37 þúsund krónur eða 9300 krónur í hlut hvers hinna fjögurra erfingja. Einar erfði nokkrar jarðir eftir föður sinn, Elliðavatn, Korpúlfsstaði o.fl. Jafnframt“ fór hann nú að sækjast eftir að kaupa jarðir, fyrst aðallega vegna veiðiréttinda, en hann hafði löngum hinn mesta ahuga fyrir veiðiskap. En brátt tóku jarðakaupin ekki síður að beinast að öflun vatnsréttinda með virkjanir í huga, sem síðar verður frá greint.
Á þessum árum aflaði Einar tekna með margvíslegum hætti. Málflutningsstörfin við Landsyfirréttinn voru að vísu ekki mjög ábatasöm, en lögfræðileg og viðskiptaleg ráðgjöf ýmiss konar gaf drjúgt af sér og fasteignaviðskiptin voru veruleg tekjulind. Um skeið runnu og til Einars umtalsverðir fjármunir frá Marconifélaginu í Lundúnum fyrir ýmsan erindrekstur í þess þágu. Sagði Einar frá því síðar, að árstekjur sínar á þessu skeiði hefðu komist upp í 25 þúsund krónur, en það voru þreföld eða fjórföld embættismannslaun. Eitt árið kærði hann útsvar sitt til hækkunar, þar eð hann leit svo á að of lágt útsvar rýrði álit sitt sem fjármálamanns! Til er skemmtileg frásögn af fasteignaviðskiptum Einars. Ber hún það með sér að hann var bæði framsýnn og ráðhollur, þegar ungur og vaskur athafnamaður átti í hlut. Thor Jensen segir þessa sögu í minningabók sinni. Hann hafði árið 1901 stofnað verslun í Reykjavík í gamla biskipshúsinu við Pósthússtræti. Húsið var á besta stað í bænum, en engan veginn nógu stórt og hentugt fyrir nýtísku verslun. – Thor Jensen segir: Einar Benediktsson var á þessum árum málafærslumaður í Reykjavík. Við höfðum kynnst á ferðalögum og fallið sérlega vel á með okkur. Var gaman að ræða við hann um framfaramál og framtíð íslands. Einar kom nú til mín og bauð mér til kaups gamla pósthúsið, sem var eign dánarbús Óla Finsens póstmeistara, en Einar annaðist sölu á eignum þess. Sagði Einar, að ,jafn stórhuga maður þyrfti meira olnbogarúm handa fyrirtæki sínu“. Féllst ég á þetta og keypti gamla pósthúsið af honum fyrir 15 þúsund krónur. Þetta var mjög hentugt, þar eð það var næsta hús fyrir. sunnan verslun mína, og því fylgdi mikil og góð lóð. Á heimleið úr utanfór sumarið 1903 hitti Einar Eggert Claessen, sem var á heimleið að nýloknu lögfræðiprófi. Leist Einari vel á hinn unga mann og tókst með þeim vinátta sem entist ævilangt. Bað Einar Claessen nú að taka við málflutningsstörfum sínum við Landsyfírréttinn og réðst það með þeim. Gegndi Einar þeim ekki eftir þetta, þótt hann segði starfinu fyrst lausu árið eftir.
Störf Einars höfðu verið ákaflega erilsöm um sinn og reynt mjög á hann, enda heilsan aldrei sterk. Hann þráði ekki hvað síst að fá betra næði til að gefa sig sem mest að skáldskap sínum. Hann vildi komast í fast og ekki of annasamt embætti, þar sem hann gæti skapað sér og vaxandi fjölskyldu framtíðarheimili.
Haustið 1904 losnaði sýslumannsembættið í Rangárvallasýslu, það hið sama og Einar hafði sótt um en ekki hlotið tíu árum áður. Ákvað Einar að sækja, þótt ósýnt væri um árangur, þar eð hann átti lítilli stjórnarhylli að fagna. Hannes Hafstein, skáldbróðir Einars, var nú orðinn ráðherra og fór með veitingavaldið. Gekk Einar á fund ráðherra. – Valgerður Benediktsson segir: Einar dáðist alla tíð mjög mikið að Hannesi Hafstein bæði sem skáldi og glæsimenni, en vegna mismunandi stjórnmálaskoðana var kunningsskapur þeirra mjög kulnaður um þessar mundir. Hannes tók umsókn Einars fálega í fyrstu og lét í ljós við hann það hugboð sitt, að nú mundi Einar fyrir alvöru ætla að fara að gefa sig að stjórnmálum, er hann væri orðinn sýslumaður, og komast á þing og vinna á móti sér. Einar svaraði því til, að hann mundi að vísu alltaf láta í ljós skoðanir sínar á þjóðmálum, er honum þætti ástæður til, en til þingsetu hugsaði hann ekki. Lét Hannes sér þetta vel líka og veitti Einari sýsluna.
Þjóðsagnapersóna, Skúli Skúlason, síðar ritstjóri, prestssonur í Odda á Rangárvöllum, var 14 ára unglingur þegar Einar kom austur. Hann hefur skrifað skemmtilegar minningar frá þessum tíma. Birfust þær í Lesbók Morgunblaðsins, 33. tbl. 1964. Þar segir: Einar var orðinn að þjóðsagnapersónu áður en hann kom í héraðið og það álit færðist í aukana þessi fáu ár er hann var þar og enn meir eftir það. Og ég tel efamál, hvort nokkur þjóðsagnapersóna hafi verið eins umrædd í sýslunni.
Allir könnuðust við nafnið. Þetta er skáld og hafði gefið út sögur og kvæði og þýtt „Pétur Gaut“ og selt hvert eintak á hundrað krónur! Hann hafði ort magnað draugakvæði um síra Odd í Miklabæ, en margir héldu því fram, að mest af kveðskap hans væri „hálfgert hnoð, sem enginn skildi“. Og svo hafði hann gefið út blað og stofnað stjórnmálaflokk. Hvernig átti svona maður að geta verið sýslumaður? Og ofan á allt þetta var nýi sýslumaðurinn „þjóðhættulegur braskari“, sem á skömmum tíma mundi setja sýsluna á hausinn og alla Rangæinga á rassinn nema þá, sem voru á honum áður. En hugkvæmur var hann, mannskrattinn. Hann hafði selt jarð skjálfta. Hver veit nema hann gæti selt Heklugos líka? Og þá hlypi kannski á snærið fyrir Rapgæingum. Skeggræðendunum kom saman um, að andvirðið ætti að renna í sýslusjóð og notast til brúargerðar í sýslunni… Það var mikið glæsimenni, sem komið var í sýslumannsembættið. Ég hugsa, að aldrei hafi Einar Benediktsson verið fríðari sýnum en um þær mundir og glæsilegri í allri framkomu. Ég man að hann var í sútuðum leðurjakka þegar hann kom fyrst að Odda, en slíka flík hafði ég aldrei séð á nokkrum manni nema Hvítárvallabaróninum. Og eigi síður var konan hans, Valgerður, glæsileg. Hún var svo tignarleg, að þjóðsagan var búin að segja manni að Einar hefði látið gera faldbúning handa henni og farið með hana til London og „sýnt hana þar fyrir peninga“. Það væri gaman að vita, hvort þetta var fyrirboði fegurðarsamkeppna nútímans?
Samskipa Einari utan um haustið var Guðmundur Hlíðdal, síðar póst- og símamálastjóri. Hann hafði um vorið komið heim til Islands að loknu prófi í rafmagnsverkfræði í Þýskalandi. Um sumarið hafði hann birt í landvarnarblaðinu Ingólfi grein, sem hann nefndi Notkun fossanna. Þar galt hann mönnum varhug við að selja útlendingum fossa fyrir smánarverð og án allra skilyrða, en hvatti til að leigja eða jafnvel selja þeim fossa, ef upp úr því sprytti iðnaður, sem orðið gæti okkur til hagnaðar. Þyrfti að búa svo um hnúta í samningum, að landeigendur hlytu sæmilegan hagnað af, er til framkvæmda kæmi, en full umráð fossanna á ný, yrðu þeir ekki virkjaðir innan hóflegs tíma.
Einari hafði getist vel að grein þessari og haft samband við höfundinn eftir birtingu hennar. Kynntust þeir nú nánar á ferðinni utan og fór vel á með þeim. Einar stóð stutt við í Edinborg, þar sem hann kom fjölskyldu sinni fyrir, en hélt til Kaupmannahafnar. Þar hitti hann Guðmund Hlíðdal og fékk hann til að koma með sér til Kristianiu í því skyni að takast á hendur vatnsorkumælingar fyrir fossafélög, sem þar skyldi stofna. Þangað fóru þeir nú saman. Löngu síðar lýsti Guðmundur Hlíðdal dvölinni í Noregi þessa haustdaga. Segir hann svo frá, að mörg kvöld hafi þeir félagar setið í dýrlegum veislum norskra fjáraflamanna og lögfræðinga, þar sem Einar naut sín ákaflega vel og var miðdepill hvers samkvæmis. Hann var alger bindindismaður þennan tíma í Kristianiu, að sögn Guðmundar, enda þótt allt flyti í hinum dýrustu vínum. Milli veisluhaldanna voru fundir haldnir með þessum fésýslumönnum þar sem Einar lýsti fossafli Íslands fyrir þeim og beitti óspart einstæðum frásagnatöfrum sínum. Flest var stórt í sniðum í frásögn hans, en óhjákvæmilegt var að viðurkenna, að margt væri enn lítt rannsakað, svo sem fallhæð fossa. Með orðfimi reyndi Einar að forðast fullyrðingar, svo sem að nefna nákvæmar tölur, en dró þó hvergi úr.
Hlín kemur til sögu í febrúarmánuði 1927 kom nýr gestur á heimili Einars Benediktssonar og Valgerðar konu hans að Þrúðvangi í Reykjavík og drakk kaffisopa með þeim hjónum. Gesturinn var kona, Hlín Johnson að nafni. Þannig stóð á gestkomunni að konan hafði hitt Val, elsta son skáldsins, á samkomu í Reykjavík. Hlín var ættuð frá Sandhaugum í Bárðardal, og hafði faðir hennar, Jón Eldon Erlendsson frá Garði í Kelduhverfi, verið skrifari Benedikts Sveinssonar á Héðinshöfða um tveggja ára skeið, þega Einar var um fermingaraldur. Bar hann æ síðan hlýjan hug til þessa skrifara föður síns.
Valur sagði nú föður sínum frá því, að hann hefði hitt þessa þingeysku konu, og kynni hún mörg ljóð hans utan að og væri ákafur aðdáandi þeirra. Bað Einar þá son sinn að koma kveðju til dóttur Jóns Eldons, og bjóða henni að heimsækja sig í Þrúðvang.
Hlín Johnson stóð á fimmtugu þegar hún fékk boðin um að ganga inn fyrir dyr Einars Benediktssonar. Hún hafði aðeins einu sinni séð hann áður, þá innan við fermingu, en kvaðst aldrei hafa getað gleymt honum. Hann var þá með föður sínum á þjóðmálafundi á Ljósavatni, ungur og fríður.
Í viðtali við Matthías Johannessen komst Hlín svo að orði: Ást mín á honum hefur haldist frá því ég heyrði fyrsta ljóðið eftir hann, tólf ára gömul, íslandsljóð. Það birtist í einhverju blaðinu, líklega Sunnanfara, sem var sendur norður eins og hver annar pappír. Og þegar fóstri minn las ljóðið, stökk ég á fætur og hrópaði: „Svona hefur enginn kveðið áður!“ En ég var skömmuð fyrir að þykjast hafa vit á skáldskap, og það var reynt að þagga niður í mér og líklega hefur það tekist, en ég sagði satt! Og nú hefur Hlín Johnson fengið boð um það, að koma á fund skáldsins. Hún segir: Eg fór upp í Þrúðvang, og um leið og augu okkar mættust, var eins og við hefðum þekkst alla ævi. Ekki fer það á milli mála, að næstu árin eftir skilnaðinn við Valgerði voru Einari erfið á marga lund. Jónas Jónsson fer svofelldum orðum um skáldið á þessu tímabili: Þegar fokið var í flest skjól um fjárafla tók hann sér til hressingar að neyta áfengis meira en góðu hófi gegndi. Var hann þá um stund heimilislaus og án nokkurs verulegs stuðnings frá frændum og vinum. Gátu höfuðstaðarbúar stundum séð þá sorgarsjón að höfuðskáld þjóðarinnar, sem auk þess hafði um langt skeið verið mest glæsimenni á landinu, við hlið Hannesar Hafsteins, ráfaði einmana um götur bæjarins, fátæklega búinn og undir áhrifum áfengis.
Á þessum tímum einsemdar og erfiðleika kynnist Einar lífsreyndri og viljasterkri konu, sem hafði dáðst að honum og unnað ljóðum hans allt frá ungum aldri. Hann fann þar athvarf og skjól.
En hverjar voru tilfinningar konunnar, sem nú fyrst tók að umgangast draumaprinsinn, og sá með opnum augum jafnt veikar sem sterkar hliðar hans? Einar var nú orðinn 63 ára, stoltur maður en bitur og kominn sár og móður af vígvelli lífsins. Varð hún ekki fyrir vonbrigðum? Matthías Johannessen spyr Hlín Johnson hálfníræða um samband þeirra Einars:
— Þetta var ást, Hlín.
— Sú eina ást, sem ég hef þekkt, og miklu meira en það… Fyrir það er ég þakklát alla tíð.
— En hvernig er hægt að elska mann gegnum kvæði?
— Það er ósköp einfalt. Maður elskar sálina, sem birtist í ljóðunum. Og svo þegar ég kynntist henni, varð ég ekki fyrir vonbrigðum, þvert á móti, því sjálfur var hann jafnvel stærri en verk hans. Að vísu átti hann það til að vera ruddalegur og nota stór orð, ef hann bragðaði vín eða talaði um pólitík, en það kom mér ekki við, því ég var ekki pólitísk.“
Heimild:
-Morgunblaðið 16. desember 1990, bls. 20-21.
Herdísarvík.