Herdísarvík

Eftirfarandi fróðleikur um Herdísarvík í Selvogi birtist í Morgunblaðinu í janúar árið 2000.
Herdisarvik-22„Þéttbýlisbúar á Suð-Vesturhorni landsins þurfa ekki að leita ýkja langt til að komast í snertingu við stórbrotið landslag. Að sumarlagi leggja m.a. ýmsir leið sína suður í Reykjanesfólkvang, þar sem hið mikla land, er liggur undir Krýsuvík, laðar til gönguferða og skoðunar. Getur þá jafnframt legið beint við að halda síðan sem leið liggur austur með ströndinni, áleiðis í Selvog. Á þeirri leið er hið forna góðbýli Herdísarvík, sem nú hefur reyndar verið í eyði um áratuga skeið. Herdísarvík var vestasti bær í Selvogi, þ.e. Selvogshreppi hinum forna (sem nú hefur verið sameinaður stærra sveitarfélagi) og þar með vestasti bær í Árnessýslu við sjó fram. Langt er þó frá Herdísarvík að hinni gömlu meginbyggð í Selvogi, sem nú er að vísu farin í eyði að mestu leyti. Jörðin, sem er alllandmikil, er í eigu Háskóla Íslands. Þar er nú friðland samkvæmt ákvæðum náttúruverndarlaga og er gangandi mönnum heimil för um allt Herdísarvíkurland.
Herdisarvik-23Er skemmst frá því að segja, að þetta landsvæði er sérlega vel fallið til útiveru og lengri sem skemmri gönguferða á öllum árstíðum, enda snjólétt, þótt sums staðar geti reyndar verið seinfarið um hraunin, sem setja mjög svip sinn á landið. Umhverfið er afar svipmikið og tignarlegt: Hömrum girt fjallið í norðri gnæfir yfir öllu láglendi jarðarinnar og gefur oft skjól, þegar þannig viðrar, hrikaleg strandlengjan á hinn veg en í millum skiptast á hraun og skjólsælir bollar, víða viði vaxnir, og fagrar gróðurræmur, m.a. milli hrauns og fjallshlíðar. Í suðri er útsærinn, sem oft bylur óvægilega á ströndinni, þegar blæs af hafi, en óvíða gefur að líta stórbrotnara brim en á þessum slóðum. Frá þessari strandlengju, réttleiðis í suðurátt, er ekkert land að finna fyrr en sjálft Suðurheimskautslandið!

Herdisarvik-24

Svipur landsins á þessum slóðum tekur mjög breytingum eftir veðri og birtu. Þegar sólar nýtur er hlýlegt í hrauninu, litir fjallsins eru þá mildir og heiðbirta yfir hafi og strönd, en óvíða verður landið dimmleitara á votum og sólarlausum dögum. Þó er það vissulega fagurt alla daga því að veðrabrigðin draga aðeins fram hina ólíku liti og mögn þess. Gróðurfar er um sumt sérstætt í Herdísarvík. Árið 1978 fannst í rótum Herdísarvíkurfjalls stör, sem áður var ekki vitað að væri á Íslandi. Hlaut hún heitið „vorstör“ á íslensku. Fannst hún á skjólgóðum stað innan um mjaðjurt, garðabrúðu, blákollu, jarðarberjalyng og stúfu.

Herisarvik-25

Vesturmörk Herdísarvíkur, sem jafnframt eru frá fornu fari sýslumörk Árnessýslu á þessum slóðum, liggja um svokallaðan Sýslustein, mikið og auðkennilegt bjarg skammt frá þjóðveginum, sem fer um land jarðarinnar. Ná mörkin allt frá Seljabótarnefi við sjó fram. Í Seljabótinni var fyrrum selstaða frá Herdísarvík (Herdísarvíkursel) og má enn sjá ummerki þeirra mannvirkja, er selinu heyrðu til. Frá Sýslusteini liggja mörkin til norðurs, yfir Lyngskjöld, sem er bunga í brún fjallsins, og allt norður að Kóngsfelli „sem er gömul, en ekki há, grámosavaxin eldborg, umhverfis aflangan, djúpan gíg, til hægri handar við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, góðan spöl fyrir austan Kerlingarskarð, nálægt veginum“ eins og segir í fornri landamerkjalýsingu, en þar er að sjálfsögðu vísað til hinnar gömlu þjóðleiðar Selvogsmanna yfir Grindaskörð til Hafnarfjarðar, þar sem þeir áttu löngum verslun sína. Að austanverðu eru mörk jarðarinnar frá sjó og norður í Mosaskarð austanvert en þaðan í áðurnefnt Kóngsfell.
Uppi á fjallinu er því land Herdisarvik-26Herdísarvíkur að lögun eins og mjög langur þríhyrningur. Fjallsrunan milli Lyngskjaldar og Mosaskarðs (sem er gamall og vel mosagróinn hraunfoss, er fallið hefur fram af brúninni) heitir einu nafni Herdísarvíkurfjall. Er það skriðurunnið neðan til en hömrum girt hið efra.
Um Herdísarvíkurland lá frá fornu fari leið milli Selvogs og Krýsuvíkur, en um hana fóru Sunnlendingar m.a. úr veri og í, en þeir sóttu um alda skeið sjó frá verstöðvum á sunnanverðum Reykjanesskaga. Enn má finna í hraunum Herdísarvíkur gamlar og vel troðnar götur frá fyrri tíð og er forvitnilegt að fylgja þeim. Gamla leiðin í Selvog lá ætíð yfir útfall Hlíðarvatns en ófært var norðan megin við vatnið. Það var ekki fyrr en um eða eftir heimstyrjaldarárin síðari að bílvegur var lagður vestan megin Kleifarvatns og síðan til Herdísarvíkur og áfram, norðan við Hlíðarvatn og austur yfir Selvogsheiði.

Herdisarvik-27

Fram að þeim tíma var Herdísarvík með afskekktustu býlum á Suð-Vesturlandi – og þótt víðar væri leitað – og aðdrættir allir örðugir. Verslun áttu Herdísarvíkurbændur fyrrum til Hafnarfjarðar eins og aðir Selvogsbúar og héldu þá yfir fjalllendið norður um Grindaskörð – ef þeir fóru þá ekki með klyfjahesta sína vestur um til Krýsuvíkur og þaðan yfir Sveifluháls, eftir Ketilstíg, áleiðis til Hafnarfjarðar. Úr Herdísarvík var að jafnaði farin ein kaupstaðarferð á ári hverju, með hesta, en menn sendir gangandi í kaupstað þess á milli vegna brýnna erinda.
Í Herdísarvík var löngum búið góðu búi, á forna vísu, meðan leitast var við að nýta til þrautar öll gögn og gæði jarðarinnar.

 

Herdisarvik-28

Á þessum slóðum, sunnan undir fjallinu, er með afbrigðum snjólétt, enda var Herdísarvík talin með bestu útigangsjörðum fyrir sauðfé. Þar mátti því hafa allstórt fjárbú, þótt samfelldir bithagar séu ekki miklir, en féð þurfti að vakta vel m.a. sökum þess að ella var því hætt við að týnast í hraungjótum, sem krökkt er af í landareigninni. Tún var að vísu lítið, með þunnum jarðvegi, og fóðraði vart meir en tvær kýr, en það kom lítt að sök vegna þess að sauðfé bóndans gekk úti mest allt árið, en fjörubeit er auk þess góð í Herdísarvík. Reki var allnokkur og gjarna vel nýttur til húsasmíða og annarra þarfa. Silungsveiði var lengi í Herdísarvíkurtjörn en hefur nú lagst af. Var sú veiði talin umtalsverð búbót á sínum tíma.
Útræði var mikið frá Herdísarvík, enda fengsæl fiskimið steinsnar frá landi að kalla má, og sóttu herdisarvik-29þangað margir tugir manna víða að, einkum frá Suðurlandi en einnig úr nágrenninu. Lágu útróðrarmennirnir við í verbúðum, meðan á vertíð stóð, eins og venja var. Eru enn sjáanlegar miklar minjar um sjávarútveg og ýmis önnur umsvif í Herdísarvík fyrr á tíð. Innsti hluti víkurinnar sjálfrar, er liggur að kambi þeim, sem er milli tjarnarinnar og sjávar, nefnist Bót, en austast í henni var Vörin, þar sem útróðraskipin voru fyrrum dregin á land. Milli vertíða voru þau geymd þar nærri, í svokallaðri Skiparétt, þar sem hlaðnir grjótveggir héldu að þeim. Fyrir ofan Vörina stóðu margar sjóbúðir og má enn sjá glöggar tóttir sumra þeirra. Vitað er um nöfn margra búðanna, svo sem Landeyingabúð, Fljótshlíðingabúð, Símonarbúð, Bjarnabúð, Gíslabúð og Halldórsbúð, en það efni þarfnast þó nánari athugunar. Nær Herdísarvíkurbænum voru síðan m.a. Ólabúð og Hryggjabúð og að síðustu Krýsuvíkurbúð heim undir bænum, en frá höfuðbólinu Krýsuvík voru löngum gerð út tvö skip í Herdísarvík – en þar að auki var verstöðin að Selatöngum í landi Krýsuvíkur (rétt við vesturmörk þeirrar jarðar).

herdisarvik-29

Afla þeim, sem á land barst í Vörinni, var skipt á Skiptivellinum rétt ofan hennar. Enn má sjá mikla garða, er hlaðnir hafa verið í hrauninu austan og norð-austan Gerðistúnsins, þar sem fiskur var fyrrum þurrkaður eftir að hafa áður legið í „kös“ sem kallað var. Má ætla að samanlagt séu garðarnir nokkrir kílómetrar að lengd. Í svonefndum Básum austan Vararinnar (og niður undan Gerðistúni) var einnig gömul lendingarvör, sem kallaðist Skökk. Róið var með fornu lagi frá Herdísarvík fram á þriðja tug þeirrar aldar, sem nýliðin er.
Ljóst er, að landið hið næsta Herdísarvíkurbæ hefur löngum legið undir ágangi sjávar, og fyrrum stóð mikill sjóvarnargarður, handhlaðinn úr stórgrýti, á kambinum milli Tjarnar og sjávar, en hann hrundi eftir að byggð var þar af lögð. Hefur sjór síðan valdið stórtjóni á túninu norðan Tjarnarinnar og virðist hafa komið fyrir lítið þótt vinnuvél ýtti upp nýjum garði fyrir fáum misserum; sá garður er nú einnig að hverfa. Að sumu leyti má rekja spjöllin til þess að landið sígur á þessum slóðum eins og víðar á Suð-Vesturlandi.

Herdisarvik-30

Gamli bærinn í Herdísarvík stóð við vesturenda Herdísarvíkurtjarnar. Var hann löngum vel húsaður, m.a. baðstofa stór og góð, alþiljuð, og vandað stofuhús – og valinn rekaviður úr fjörunni að sjálfsögðu notaður í allt tréverk. Hið næsta bænum voru síðan ýmis útihús, sum þeirra einnig vönduð timburhús. Bærinn stóð lágt og varð því stundum fyrir ágangi sjávar í aftakaveðrum af suðri með hásævi, þegar Tjörnina fyllti og sjór gekk einnig upp frá henni. Bærinn var rifinn að hluta til árið 1934, eftir að nýtt íbúðarhús hafði verið reist, en þó má enn greina ummerki hans, undir klöppinni Skyggni. Vatnshólmi nefnist lítill hólmi í Tjörninni fram undan gamla bæjarstæðinu. Þar var tekið allt vatn til daglegrar neyslu, en það bullar þar upp um tjarnarbotninn fast við hólmann.
Austan við Vörina, sem fyrr var nefnd, er svonefnt Gerðistún, með vönduðum steingarði, sem enn stendur að hluta til – en athyglisverðar Herdisarvik-34garðhleðslur má reyndar sjá víða í Herdísarvíkurlandi. Talið er, að þar í túninu hafi fyrrum verið um nokkurt skeið hjábýli frá Herdísarvík, svonefnt Herdísarvíkurgerði. Í Gerðistúni má sjá til margra fornra tótta, en lengst stóðu þar fjárhús tvö, er nefndust Langsum og Þversum, og eru ummerki þeirra enn glögg.
Árið 1976 friðaði þjóðminjavörður allar gamlar mannaminjar á jörðinni Herdísarvík, svo sem fiskigarða, verbúðir, tættur af íveruhúsum og útihúsum, þar á meðal seljarústir í Seljabót. Væri vissulega mjög þarft og verðugt verk að kanna ítarlega, mynda, kortleggja og skrá allar mannaminjar í Herdísarvík, áður en um seinan verður, því að gróið land þar liggur undir skemmdum, eins og fyrr segir, ásamt mörgum og merkum fornminjum. Mættu forsvarsmenn Háskóla Íslands, sem er eigandi jarðarinnar, sannarlega huga að því máli, í samlögum með Þjóðminjasafni.

Einar Ben-21

Frá 1895 til 1927 bjó í Herdísarvík með fjölskyldu sinni Þórarinn Árnason, sonur Árna Gíslasonar stórbónda í Krýsuvík og fyrrum sýslumanns Skaftfellinga. Hafði Þórarinn gagnsamt bú og bjó við rausn að fornum hætti. Árið 1908 eignast Einar skáld Benediktsson Herdísarvík (ásamt Krýsuvík, sem hann átti þó með erlendum mönnum), en mun lítt hafa skipt sér af högum landseta sinna. Árið 1927 leigir hann jörðina Ólafi Þorvaldssyni, síðar kunnum fræðimanni og rithöfundi, sem þar bjó með sinni fjölskyldu fram til 1933 en leigumáli hans var ekki endurnýjaður eftir það. Hafði Ólafi búnast prýðisvel á jörðinni og hefði, að eigin sögn, feginn viljað vera þar lengur.
Í júlímánuði 1932 fluttist eigandi jarðarinnar, Einar Benediktsson, þá viðurkennt höfuðskáld þjóðarinnar með litríkan afhafna- og umsvifaferil að baki, til Herdísarvíkur ásamt sambýliskonu sinni, Hlín Herdisarvik-36Johnson. Hófst þá smíði nýs íbúðarhúss (járnvarins timburhúss) á jörðinni, norðarlega í túninu og allnokkurn spöl frá gamla bænum. Var húsið fullbúið snemma í septembermánuði það ár. Stendur það enn, nú uppgert, og hefur um allmörg ár verið notað sem sumarorlofshús háskólastarfsmanna. Meðan á byggingu hússins stóð höfðust Einar og Hlín við í gamla bænum ásamt fjölskyldu Ólafs, en fluttu síðan inn í húsið nýja jafnskjótt og það varð íbúðarhæft. Yfirsmiður hússins var Sigurður Halldórsson úr Reykjavík, en allt byggingarefni var flutt sjóleiðina frá Reykjavík að Herdísarvík á strandferðaskipinu Skaftfellingi, en síðan á opnum báti frá skipshlið í lendingarvör. Bjuggu þau Einar og Hlín síðan í húsi þessu þar til Einar andaðist 12. janúar 1940, þá farinn að heilsu og kröftum eins og kunnugt er, en Hlín síðan, mest ein en stundum með aðkeyptri hjálp, nokkuð á annan tug ára, þar til hún brá búi og byggð lagðist af í Herdísarvík.

Herdisarvik-38

Oft var þó sonur Hlínar, Jón Eldon (sem var hennar yngsta barn), þar með þeim Einari og síðan tímabundið með móður sinni. Mætti segja margar sögur af lífi þeirra þarna í einsemdinni, þótt ekki sé ráðrúm til þess hér, en staðfest er – og þarf engum að koma á óvart – að Hlín annaðist hinn aldna og þjóðfræga ástvin sinn mjög vel og af mikilli hlýju allt til hinstu stundar samvista þeirra og hlúði að honum með öllum tiltækum úrræðum. Eina utanför, til Kaupmannahafnar, fóru Einar og Hlín eftir að þau fluttu til Herdísarvíkur, og var það haustið 1934, en annars fór Einar lítið af þessu síðasta heimili sínu, enda var heilsu hans þegar farið að hnigna er hann flutti þangað og hrakaði henni síðan enn á næstu árum. Lítt orti Einar skáld eftir að til Herdísarvíkur var komið.

Herdisarvik-38

Í dagstofu hússins stóð bókasafn skáldsins, á annað þúsund bindi, einkum fáséð rit um fornklassísk efni, sum gömul og dýrmæt, mörg á latínu og grísku, þar á meðal eitt vögguprent, þýsk þýðing á Gesta Romanorum, prentað í Augsburg 1489, einhver elsta prentuð bók, sem til er á Íslandi. Þessu merka bókasafni, ásamt jörðinni sjálfri, ánafnaði Einar Háskóla Íslands með gjafabréfi árið 1935 og var safnið flutt í örugga geymslu í Háskólanum árið 1950.
Hlín Johnson hafði allnokkurt fjárbú í Herdísarvík, einkum þó eftir lát skáldjöfursins.
Svört ær í eigu hennar varð frægust íslenskra sauðkinda á síðari tímum. Hún gekk árum saman Herdisarvik-40sjálfala í Herdísarvíkurfjalli, uns boð kom frá yfirvöldum um að hún skyldi aflífuð eins og gert hafði verið við annað fé Hlínar og reyndar fjárstofninn allan í þeim landshluta, sökum sauðfjárveikivarna. Örðuglega gekk að handsama Surtlu og á árinu 1952 gerðu fjárskiptayfirvöld út marga leiðangra vopnaðra manna til að fella hana, og fé var einnig heitið til höfuðs henni. Surtla var kæn og fótfrá og varðist í fjallinu vikum saman áður en hún var loks lögð þar að velli. Mátti heita að öll þjóðin fylgdist af miklum áhuga með þessari baráttu, í dagblöðum og útvarpsfréttum, og átti ærin víst samúð flestra.“

Heimild:
-Morgunblaðið, laugardaginn 15. janúar, 2000. Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands og fyrrverandi forseti Ferðafélags Íslands.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Selsvellir

Gengið var norður með vestanverðum Núpshlíðarhálsi og upp í Hraunssel neðan við Þrengslin.

Hraunssel

Hraunssel – stekkur.

Eftir að hafa skoðað selstóftirnar var gengið á hálsinn og honum fylgt niður að gígaröð syðst á honum austanverðum. Um er að ræða mjög fallega gíga, myndarlegar hraunæðar og hrauntraðir í hlíðinni neðanverðri. Vestan undir sunnanverðu Núpshlíðarhorni var, að sögn Jóns Jónssonar, jarðfræðings, einn fallegasti hraungígur landsins, en hann hefur nú að miklum hluta verið notaður sem ofaníburður í þjóðveginn.
Suður lægðina austan Méltunnuklifs, hefur tunga úr Leggjabrjótshrauni runnið vestur um skarð á milli Sandfells og Höfða og suður með honum að vestan. Slóði liggur nú þvert yfir Leggjabrjótshraunið og áfram upp með Núpshlíðinni, inn á Selsvelli og áfram niður á Höskuldarvelli suðvestan Trölladyngju.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Gamlar vörður eru við slóðann yfir hraunið svo líklega hefur hann verið gerður ofan í eldri götu, sem þarna var, enda liggur gata þarna áfram upp á hálsinn við Línkrók, í móbergsskarð á honum og síðan í sneiðingum niður hann að austanverðu. Gatan sést síðan á ný sunnan Djúpavatnsleiðar skammt ofan við gatnamót Ísólfsskálavegar.
Gömul gata er á köflum grópuð í hraunið á þessari leið. Litlu norðar er Hraunsel en þar var sel frá Hrauni í Grindavík. Hér sér greinilega til tófta sem eru nú minnisvarði um löngu liðna búskaparhætti. Eftir að hafa skoðað stekkina í hrauninu norðan selsins, sem eru þrjár heillegar tóttir undir Núpshlíðarhálsinum, kom í ljós ein tótt, greinilega elst þeirra, neðar og á milli tóftana og stekksins. Sunnan við þennan hlaðna stekk var annar mun eldri. Selsstígur liggur frá selinu að suðurhlíð Hraunssels-Vatnsfells. Hraunsselið er síðasta selið, sem lengst var brúkað á Reykjanesi, eða allt til ársins 1914.

Leggjabrjótshraun

Gígur ofan Höfða – Leggjabrjótshraunsskapari.

Ofan við Hraunsselið eru Þrengslin, sem fyrr sagði. Neðan við Hraunsselið að sunnanverður heita einnig Þrengsli. Frá Hraunseli liggur leiðin eftir gamalli götu á milli hrauns og hlíðar norður með Núpshlíðarhálsi að vestan. Þegar komið er norður fyrir Þrengsli er fljótlega komið á Selsvelli, u.þ.b. 20 mín. ofar.
Selsvellir eru allmikið gróðurlendi sem myndast hefur með framburði lækja úr hálsinum.
Vellirnir eru eins og vin í eyðimörk, og hér var eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna. Um miðja nítjándu öld höfðu hér 6 bændur í seli ásamt prestinum á Stað og átti hver sitt selhús. Samtals voru þá um 500 fjár og 30 nautgripir á Selsvöllum.

Höfði

Hrauntröð við Höfða.

Núpshlíðarhálsinn er vel gróinn ofan við Hraunssel. Haldið var niður hálsinn og kíkt á hraungígana syðst á honum austanverðum. Þeir eru hver öðrum fallegri. Flestir eru opnir til suðausturs og hefur hraunið, sem rann undan hallanum og niður hlíðina, skilið eftir sig fallegar hraunæðar og traðir.
Moshóll var loks skoðaður niður undan suðvesturhorni hálsins. Jón Jónsson sagði hann merkilegan, ekki síst fyrir það að hægt væri að sjá í honum þversnið af gígrás. Því miður hefur þeirri ásýnd nú verið svipt á brott með stórtækum vinnuvélum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.utivist.is/utivist/greinar/

Hraunssel

Hraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Kross

Að Hjalla í Ölfusi er Ólafskirkja, kennd við Ólaf helga Noregskonung.
Núverandi kirkja er byggð 1928. Hjalli-2Talið er að kirkja hafi staðið á Hjalla í Ölfusi frá um 1000, trúlega alltaf á sama staðnum, nema e.t.v. í upphafi. Hjalli í Ölfusi kemur mjög við sögu kristnitökunnar því að þar bjuggu þeir feðgar Þóroddur Eyvindsson goði og Skafti Þóroddsson lögsögumaður.
Ofan Hjalla stöðvaðist kristnitökuhraunið. Þá komst Hjalli aftur í fréttir sögunnar þegar síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, leitaði þar skjóls hjá systur sinni árið 1541. Gafst hann upp fyrir dönskum hermönnum gegn því að fá að fara frjáls maður. Þeir handtóku hann hins vegar og fluttu um borð í skip áleiðis til Kaupmannahafnar. En biskupinn aldni hlaut samt sitt frelsi því að hann dó í hafi.
Þegar svæðið ofan við Þóroddsstaði var skoðað kom m.a. í ljós hringlaga gerði. Að sögn bóndans hafði svæðið allt verið sléttað út fyrir allnokkru og því erfitt að gera sér grein fyrir gamla bæjarstæðinu af einhverjum áreiðanleik.
Hjalli-3Um hlaðið á Þóroddsstöðum liggur Suðurferðagata um 8 km að þjóðvegi 1 á Hellisheiði. Leiðin er svo kölluð vegna þess að hún var flutningaleið til Reykjavíkur og frá. Hún var einnig nefnd Skógargata, því að þar fóru Hjallamenn í Grafning til hrísrifs. Frá Þóroddsstaðahlaði þarf að stefna fyrst vestar en í meginstefnu, yfir gaddavír og að vörðubroti (N63°7´55 / V21°16´42). Hér er beygt til hægri, farið yfir Hvanngil ofan gljúfra, og stefnt milli Fremra- og Efra-Háleitis. Norðan Háaleita er best að fylgja vesturbrún Þurárbrunans, sem rann um Krists burð, og þvert yfir hann (beygja við N64°00´06 / V21°16´55) þar sem hann er mjóstur, á móts við miðja Hverahlíð. Þá er stutt að Lofti, þar sem einn farvegur Hengladalsár rann undir þjóðveg 1 (við 40 km steininn).
Skógarmannavegur, Skógargata eða Suðurferðagata sameinaðist leiðinni Milli hrauns og hlíðar í Fremstadal undir Svínahlíð. Lá þaðan um Smjörþýfi að Þurá.
Úr Hjallasókn austanverðri var fjölfarin leið á Hellisheiði. Heitir hún Suðurferðagata. Hún liggur milli Háaleita, hjá Hlíðarhorni, og þaðan austur á þjóðveginn rétt fyrir vestan loftið, hjá 40-km steininum. Ennfremur lá gata inn með Hverahlíðinni að Einbúa, og frá honum norður á þjóðveginn, austan við Láguhlíð.
Leiðin var farin þar til vagnfær leið var rudd af þjóðveginum fyrir neðan Kamba út í Hjallasókn. Það mun hafa verið upp úr 1910.
Leiðin er víða sýnileg undir Hverahlíð norðan Skálafells og eins austan við fjallið. Um er að ræða u.þ.b. 30 cm rásir í grasigrónu landi. Rásirnar liggja víða nokkrar samsíða og eru sumsstaðar allt að 30 til 40 cm djúpar.
Leiðin er ágætis dæmi um veg frá síðustu öldum þar sem hún er sýnileg. Hún er ekki uppbyggð eða rudd en hefur myndast við troðning hesta og manna.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 14. nóvember 1998, bls. 72.
-Eiríkur Einarsson. Örnefnaskrá. Hellisheiði. Örnefnastofnun.
-Örnefnaskrá. Örnefnalýsing Þóroddsstaða. Örnefnastofnun.
-Hengill og umhverfi – Fornleifaskráning 2008, Kristinn Magnússon.

Hjallakirkja

Í Hjallakirkju.

Grindavík

Í Ægi 1985 fjallar Jón Ó. Ísberg um „Sjómennsku í Grindavík„:

Veiðar
„Eitthvað er það á reiki í gömlum heimildum hvenær vetrarvertíð átti að hefjast, en samkvæmt úrskurði lögréttumanna á Alþingi 1578, skyldi vetrarvertíð eigi byrja síðar en á Pálsmessu þ.e. 25. jan. Í Píningsdómi 1490 segir að vetrarvertíð skuli lokið á föstudegi þegar níu nætur eru af sumri. Vetrarvertíð til forna við Suðurland hefur því staðið yfir í 14 vikur.

Grindavík

Grindavík – tíæringur í lendingu.

Þegar hið gregorianska tímatal var lögleitt á Alþingi árið 1700 breyttust dagsetningar er vörðuðu upphaf og lok vertíða. Eftir 1700 skyldi vetrarvertíð hefjast á Kyndilmessu þ.e. 2. febrúar og standa til 12. maí. Sú venja skapaðist að telja 11. maí lokadag því þann dag var farið í síðasta róðurinn.
Við Faxaflóa og víðar gilti sú regla, að úr lokadagsróðri átti að vera lent fyrir kl. 12 á hádegi. Ef formenn hirtu ekki um þessa venju, gátu þeir átt á hættu að hásetarnir sneru skipinu rétt fyrir utan lendinguna, og reru því með skutinn að landi. Var það til mikillar háðungar fyrir formann að ljúka vertíð með þessum hætti.
Grindavík
Öldum saman var færið eina veiðarfærið sem Íslendingar notuðu. Veiðiskapurinn var þá ekki flókið fyrirbæri, menn reru út á miðin beittu sín færi og drógu uns nóg þótti og sneru þá í land.
Með tilkomu annarra veiðarfæra, línu og neta breyttist veiðiskapurinn all verulega. Í Grindavík byrjuðu menn ætíð vetrarvertíð með færaveiðum en er loðnan kom miðin var skipt yfir á net, sumir voru einnig með lóð. Róður hófst vanalega um kl. 5 að morgni. Menn fengu sér eitthvað í svanginn áður en lagt var af stað, vanlega kaffi og brauð. Skipið var sett niður með þessum orðum formannsins: „Setjum nú hendur á það í Herrans nafni“.

Grindavík

Grindavík – Í Norðurvör.

Hver maður hafði sitt rúm og var rúmið stjórnborðsmegin í andófinu talið það virðingarmesta og í því besti maðurinn, að undanskildum formanninum. Þegar skipinu hafði verið ýtt frá, var tekið í á bak og því snúið sólarsinnis til has, þá tóku menn ofan höfuðföt og fóru með sjóferðarbæn. Misjafnt var hvað róður stóð lengi og fór það eftir veðri og fiskdrætti, ef vel fiskaðist var stundum farið í fleiri en einn róður á dag, yfirleitt var þá róðri (róðrum) lokið seinnipart dags (17:00-18:00). Er komið var að landi þurfti fyrst að seila fiskinn á land og síðan setja skipið upp, því höfn var engin. Venja var að menn fengju sér að borða er þessu var lokið. á meðan skipti formaður fengnum.

Grindavík

Árabátur neðan verbúðar.

Að þessu loknu var allur fiskur borinn í verbúðir þar sem hann var þveginn, hausaður, flattur og saltaður. Söltun hófst á 18. öld, en áður var fiskurinn breiddur á klappir og garða og hengdur upp til þerris. Veiðarfæri voru einnig borin til verbúða að kvöldi. Vinnudagurinn vildi oft verða í lengra lagi og stritið mikið, margur slitnaði því fyrir aldur fram.
Vorvertíð hófst er vetrarvertíð lauk og stóð hún til Jónsmessu. Á vorvertóð var róið á smærri batum, sexmannaförum og þaðan af minni, aðkomumenn voru því færri en á vetrarvertíð. Veiðarfæri var annað hvort færi eða lóð og eitt var ræksni eða krækling. Grindvíkirngar beittu yfirleitt lóð sín í landi og voru þau því einbeitt, en á móti kom að lóð þeirra voru lengri en hjá þeim er beittu um borð. Venja var að fara út að kvöldi til, um eða upp úr miðnætti, legið var við fram undir morgun, en þá dregið og síðan siglt í land.

Grindavík

Bátar ofan varar.

Haustvertíð hófst í lok september og stóð til jóla, róðra stunduðu þá eingöngu heimamenn og var yfirleitt róið á sexmannaförum. Veiðarnar gengu svipað fyrir sig og á vorvertíð, sömu veiðarfæri voru notuð, en róið síðar um nóttina og verið styttra að.
Á sumrin milli vertíða var ekki verið á sjó, nema hvað menn skruppu öðru hvoru til að fá sér í soðið.

Grindavík

Vélbátur.

Með tilkomu vélbáta urðu litlar breytingar á veiðum Grindvíkinga, skipan vertíða og veiðiaðferðir héldust að mestu óbreytt. Það var ekki fyrr en með tilkomu dekkbáta í kringum seinna heimsstríð að breytingar urðu.
Nýrri og fullkomnari veiðarfæri komu á markaðinn ásamt gjörbreyttum tækjabúnaði um borð, bæði í brú og á dekki. Í kjölfar þessa riðlast öll vertíðarskipan, að undanskilinni vetrarvertíð, sem enn er með hefðbundnum hætti og á sama tíma. Í dag eru vertíðir frekar kenndar við þá fisktegund sem veidd er hverju sinni, s.s. humarvertíð og síldarvertíð.
Nokkuð er því árstíðarbundið hvaða veiðarfæri eru notuð hverju sinni og fer það eftir því í hvað er sótt. Aðalveiðarfærin á vetrarvertíð eru sem fyrr net og lína. Á sumrin fara vertíðarskipin yfirleitt á fiskitroll eða humartroll, en á haustin á síldveiðar, með nót eða reknet, nokkur fara á línuveiðar, en útilega hefur lítið verið stunduð. Á síðustu árum hafa nokkur vertíðarskip farið á úthafsrækju yfir sumartímann, hafa þau þá stundað veiðar fyrir norðan og yfirleitt landað hjá rækjustöðvum við ísafjarðardjúp. Meðan á loðnuvertíð stendur, þ.e. frá október fram í mars, elta loðnuskipin gönguna. Þessi skip hafa mjög lítinn bolfiskkvóta en þeim litla kvóta sem þau hafa, ná þau í troll á sumrin.
Fiskiskip Grindvíkinga stunda veiðar með flestum þeim veiðarfærum sem Íslendingar nota yfirleitt, enda hefur útgerð frá Grindavík verið hvað blómlegust á landinu á síðustu árum og áratugum.

Bátar

Grindavík

Árabátar ofan varar.

Höfundur Laxdælasögu byrjar á að lýsa íslandi þannig, að þar sé veiðistöð á öllum misserum og er auðsýnt að hann telur það góða kosti. Orðið veiðistöð merkir stað þar sem meira en einum bát er haldið til fiskjar, og samkvæmt lögum Jónsbókar merkir orðið stað, þar sem um er að ræða veiði á landi eða við land.
Lúðvík Kristjánsson telur upp í riti sínu Íslenskir sjávarhættir II 326 verstöðvar, allt í kringum landið. Verstöðvarnar eru síðan flokkaðar niður eftir aðstæðum ogfyrirkomulagi.

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir gerðu út frá Þórkötlustaðanesi.

Heimaver var það kallað, er róið var úr heimavör. Gagnstætt því var útver, en þá fóru menn með báta sína og áhafnir að heiman og dvöldu í verbúðum meðan á vertíð stóð. Í sumum verstöðum voru aldrei verbúðir þótt þar væru aðkomubátar og aðkomumenn, var það kallað viðleguver. Viðleguver gátu verið með tvennum hætti. Annars vegar viðlegubátar, þ.e. aðkomubátar með áhöfnum, en hins vegar viðleguhafnir, þ.e. aðkomumenn, er reru á heimabátum verstöðvarinnar. Áhafnirnar bjuggu í heimahúsum í stað verbúða meðan á vertíð stóð og höfðu þar þjónustu.
Grindavík var dæmigerður staður fyrir blandað ver, þar sem löngum var allt í senn, heimaver, útver og viðlegurver, enda var Grindavík ein mikilvægasta verstöð landsins um aldir, önnur aðalverstöð Skálholtsstaðar, og hvergi á landinu var uppsátur metið sérstaklega nema í Grindavík.

Grindavík

Tvíæringur.

Frá aldaöðli hafa íbúar Grindavíkur haft aðallífsbrauð sitt frá sjónum. Þeim skipum er þaðan var róið svipar mjög til annarra er notuð voru í öðrum verstöðvum. Á vetrarvertíð var róið á tólf-, tein- og áttæringum. Á vor og haustvertíð var notast við minni báta, sexæringa og þaðan af minni, allt niður í skektur.
Um miðbik 18. aldar voru nálgæt 60 skip í Grindavík, sexæringar upp í teinæringa. Frá sjötta áratug 19. aldar fram á þann áttunda var mikið eymdarástand í Grindavík. Lítið fiskaðist og var Grindavík talin aumasta veiðiplássið á Suðurlandi, útróðrarmenn vildu ekki lengur róa þaðan og lagðist þá útgerð stærri skipanna niður en smærri bátum fjölgaði. En Grindavík náði sér aftur á strik er veiði fór að glæðast á ný. Árið 1896 eru gerð þaðan út 30 skip flest áttæringar. Algengt var í Grindavík, að áttæringarnir væru tírónir, enda voru þeir margir hverjir í stærra lagi af áttæringum að vera.
Grindavík
Grindavík liggur fyrir opnu hafi, þar sem brimaldan gengu óbrotin á land. Stærð og þyngd bátanna takmarkaðist því lengstum af því, að hægt væri að setja þá á land. Meðal annars af þeirri ástæðu komu vélar mun seinna báta í Grindavík en víða annars staðar á landinu, þar sem hafna skilyrði voru betri frá náttúrunna hendi.
Framtil 1910 var róið á árabátum frá Suðurnesjum, en þá var farið að setja vélar í bátana, allsstaðar nema í Grindavík. Þangað kom fyrsta vélin ekki fyrr en 1926 og 1929 var sett vél í síðasta áraskip Grindvíkinga. Þessir bátar voru uppistaða í flota Grindvíkinga fram yfir stríð, lítið var um nýja báta en nokkrir voru endurbyggðir, og þá dekkaðir. Upp úr stríði er farið að byggja nýja dekkbáta ca. 10 lestir.

Grindavík

Grindavík – Grafið inn í Hópið.

Það sem gerði útgerð þeirra mögulega frá Grindavík var, að 1939 var hafist handa við að grafa leið inn í Hópið þar sem höfnin er nú. Með tilkomu hafnarinnar þurfti ekki lengur að setja bátana, enda var það ekki mögulegt með dekkaða báta vegna þyngdar þeirra. Annað er breyttist með höfninni var að þá lögðust róðrar niður frá Staðar- og Þórkötlustaðahverfi og síðan hefur útgerð eingöngu verið stunduð frá Járngerðarstaðahverfinu. Höfnin var frumskilyrði þess að Grindavík fengi þrifist sem útgerðarbær og að ekki færi þar sem í Höfnum en þar lagðist niður blómleg útgerð sökum hafnleysis.
Upp úr 1955 tekur útgerð í Grindavík mikinn fjörkipp og var þar mikið blómaskeið allt fram til 1967. Á þessu tímabili voru keypt fjölmörg ný skip. Orsakir þessa blómaskeiðs eru þær helstar að síldveiði jókst mjög fyrir Norður- og Austurland og gerðu Grindvíkingar mikið út á þær. Fiskigengd var og mikil við suðvesturströndina á þessu tímabili, og raunar allt fram til 1972. Skipin stækkuðu sífellt á þessum árum og urðu stöðugt tæknilega fullkomnari.

Grindavík

Grindavík – innsigling í Hópið.

Hér á eftir kemur tafla yfir fjölda báta í Grindavík á tímabilinu 1945-1985, tekinn er bátafjöldinn á 5 ára tímabili. (Samkvæmt skipaskrá Siglingamálastofnunar).
1945 – 15
1950 – 13
1955 – 12
1960 – 17
1965 – 15
1970 – 24
1975 – 47*
1980 – 43*
1985 – 48

*Togararnir Guðsteinn og Jón Dan meðtaldir.

Grindavík

Jón Dan GK 141.

Skipta má Grindavíkurskipunum í tvo meginhópa, vertíðarskip og lonuskip. Vertíðarskipin voru flest byggð sem síldarskip á árunum 1956-1967, en síðan 1980 hefur farið fram gagnger endurbygging vertíðarflotans og mörg skipanna hafa nú verið yfirbyggð þ.e. tvídekkuð. U.þ.b. helmingur vertíðarflotans eru skip á bilinu 150-200 lestir, hinn helmingurinn þar fyrir neðan. Minni skipin eru flest úr tré en þau stærri stálskip. Loðnuskipin eru mun stærri en vertíðarskipin. Flest þeirra hafa um 600 tonna burðargetu og eitt þeirra, Grindvíkingur GK-606, ber t.d. 1100 tonn.
Fjölbreytni í stærð og búnaði skipa er nauðsynleg til að hægt sé að nýta alla þá möguleika er gefast til veiða. Skuttogaraútgerð hefur þó lítt átt upp á pallborðið hjá Grindvíkingum. Er það bæði vegna þess, að bátarnir hafa alla tíð getað séð fiskvinnslufyrirtækjunum fyrir hráefni, og að fyrirgreiðsla opinberra sjóða, svo sem Byggðasjóðs náði ekki til þessa landshluta.

Grindavík

Guðsteinn GK 140 – fyrsti togari Grindvíkinga.

Fyrsti togarinn sem Grindvíkingar eignuðust var Guðsteinn GK-140, hann var sameign þriggja fyrirtækja í Grindavík, Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar og Barðans h.f. í Kópavogi. Einnig áttu Grindvíkingar hlut í togaranum Jóni Dan GK 141. Reynslan af togaraútgerðinni var ekki nógu góð og hafa Grindvíkingar því selt sinn hluta íbáðum skipunum.

Kjör

Grindavík

Grindvísk aflakló.

Frá upphafi byggðar stunduðu bændur við sjávarsíðuna róðra, aflinn gekk til heimilisins og var einnig notaður í skiptum fyrir landbúnaðarafurðir. Þeir menn er stunduðu róðra, en áttu ekki bát voru ráðnir upp á hlut. Venja var að formaður fengi tvo hluti en báturinn þrjá, þó voru á þessu undantekningar.
Er tímar liðu og kirkja, kóngur og höfðingjar efldust og sölsuðu undir sig sífellt meira jarðnæði versnuðu kjör sjómanna, sem og annarra. Vinnumenn og landsetar voru með kvöðum ýmiss konar látnir róa fyrir húsbændur sína fyrir smánarkaup, en hluturinn varð eign húsbóndans. Á bessu verður breyting til batnaðar með afnámi einokunarverslunarinnar og sölu stólsjarða. Flestir fara að róa fyrir hlut sínum sem áður og afkoman skánar verulega.
Með tilkomu vélbáta var nokkuð um að menn væru ráðnir fyrir fast kaup, líkt og á þilskipunum, sérstaklega átti þetta við ef um aðkomumenn var að ræða, þessi háttur lagðist þó fljótt af. Í kreppunni versnuðu kjör bátasjómanna mikið, sem og hjá öðrum.

Grindavík

Grindavík – síldarbræðslan á fullu.

Er síldveiðin brást 1935 gengu margir allslausir í land eftir vertíðina, og voru ekki einu sinni taldir matvinnungar. Þessi kollsteypa varð til þess að sjómenn settu kröfuna um hlutatryggingu á oddinn. Tryggingin komst fyrst á 1936, hún var að vísu lág, en þó betri en engin. 1958 voru gerðar þær breytingar á kjarasamningum bátasjómanna, er gjörbreyttu aðstöðu beirra, en þá var afnumin sú regla að útgerðarkostnaður bátanna væri greiddur af óskiptum afla. Um svipað leyti komst sú skipan á, að hafa kokka um borð í dagróðrarbátum, en áður höfðu menn haft með sér skrínukost. Næsta stóra breytingin hvað varðar kjörin, verður í samningunum 1977, en þá verður hver mánuðum að sérstöku tryggingartímabili. Áður höfðu tímabilin verið þrjú, þ.e. 1/1-15/516/5-15/9 og 16/9-31/12. Í samningunum 1982 var svo skrefið stigið til fulls, en þá var um það samið að sjómenn hefðu rétt á að fá kauptrygginguna greidda vikulega.

Grindavík

Grindavík – bátar í höfn.

Í dag eru kjör sjómanna á hefðbundnum vertíðarbát 50- 110 rúml. þannig að skipverjar fá 28,5% af brúttóafla miðað við 11 menn, kauptrygging á mánuði fyrir háseta er 27.000 kr. að frádregnum ferðakostnaði. Vinnuskyldan er 18 t. á sólarhring, sex daga vikunnar og skal frídagurinn ætíð vera sunnudagur á tímabilinu 1/4-31/12 en frá 1/1 31/3 annað hvort laugardagur eða sunnudagur. Ýmsa félagsmálapakka hafa sjómenn einnig sem aðrir launþegar, og verða þeir ekki taldir hér, enda verða fáir feitir af þeim pökkum. Sjómennskan getur gefið góðar tekjur ef vel fiskast en ekki er tímakaupið hátt ef einungis er róið fyrir trygginguna, eins og oft vill verða.

Konungsbréf um fiskútveg frá 1758

Grindavík

Magnús á Hrauni í vör.

Nú á dögum fer jafnan um viðskipti sjómanna og útvegsmanna eftir kjarasamningum milli aðila.
En hvernig færi ef kjarasamningar væru ekki fyrir hendi? Þá yrði að fara eftir gildandi lögum að svo miklu leyti sem þau ættu við hverju tilviki. Vegna kjarasamninganna eru mjög fáar lagasetningar um þessi samskipti. Ein slík lög er að finna í Konungsbréfi til stiftamtmanns og amtmanna frá 28. febrúar 1758.

Hér birtast nokkrar glefsur úr þessu bréfi sem enn eru í gildi.

1. Allir formenn og hásetar sem hafa látið sig leigja eður festa til að róa nokkrum fiskibát um vertíðina skulu án forsómunar koma í þann áskilda vissa tíma á þann stað, hvar þeir ætla að róa, og það allir í einu undir það straff að bæta fyrir þann tíma sem þeir koma eigi.

2. Þegar formaðurinn hefur snúið skipinu upp og fengið allar þær tilheyrandi tilfæringar, má enginn af hásetum á nokkurn hátt hindra hann frá því að sækja sjóinn, hvenær sem tækifæri gefst til þess, heldur skal sérhver skyldur vera þegar hann er af formanninum kallaður aðláta sig án dvalar finna við bátinn og á honum róa.

3. Ef nokkur háseti er burtu eina klukkustund, eftir það honum hefur verið sagt til og hinir aðrir eru komnir til bátsins, skal hann gjalda þrjá fiska í sekt fyrir það, nema hann geti sannað lögleg forföll.

4. Enginn háseti má á sjónum á nokkurn hátt kúga formanninn til að fara tillands, fyrr en hann skipar það sjálfur.

5. Hver sá háseti er sýnir sig hyskinn eða latan til að fiska og lætur ekki að formannsins áminningu og skipan, sem hann gerir honum í því tilliti, skal gjalda 2 fiska í hvert sinn.

6. Eins og formennirnir eru skyldir til að hafa gætur á, að hásetar verki afla sinn sem best þeim er mögulegt. Í sama máta skal og formaðurinn hafa vakandi auga á, að hásetar sínir haldi sjóklæðum þeirra í góðu standi, svo að enginn þurfi, ef það brestur, að hindrast frá róðri og vera ónýtur til sjósóknarinnar.

7. Enginn háseti má yfirgefa þann fiskibát, á hvern hann er ráðinn, fyrr en formaðurinn hefur sagt upp vertíðinni, nema hann hafi fengið formannsins leyfi þar til vegna mikilvægra orsaka. En strjúki þar á móti nokkur burt án formannsins vitundar og samþykkis, þá skal sá hinn samti takast af sýslumanni og bæta fyrir það fjárlátum eða straffi á líkamanum, eftir málavöxtum.

8. Sérhver formaður skal kostgæfilega sækja fiskveiðar, þegar verðurátt og sjór leyfa það, og má enginn af þeim vera í landi þann dag, sem einn fjórði partur af bátum þeirrar veiðistöðu, hvar hann rær, eru á sjó, nema hann geti sannað, að hann hafi gilda orsök til þessa.

9. Formaðurinn skal einnig hafa vakandi auga á, að fiskibát hans sé altíð haldið í góðu standi með veiðarfærum og öðru tilheyrandi, sem og að hann í hvert sinn verði settur svo hátt upp frá sjónum og skorðaður, að honum geti hvorki grandað sjór eða stormur. Líka skal hann halda sínum hásetum til að gera bátinn jafnaðarlega hreinan. Hann skal og nákvæmlega gæta þess, að hver og einn fari varlega með árar og önnur bátsins og fiskifangsins áhöld.

Verbúð
Grindavík
Líklegt er að verbúðir hafi í öndverðu verið sömu gerðar víðast hvar á landinu, og gerð þeirra hélst svo til óbreytt allt fram undir síðustu aldamót. Teikning sú sem hér er, er af verbúð sem var á Járngerðarstöðum um aldamótin síðustu. Verbúðin var ca. 20 m2 (5,6×3,6). Veggir voru tvöfaldir, annað lagið var grjót en hitt torfstrengir, á milli var troðið mold. Þak var úr torfi, tvöfalt, í sumum búðum var haft þrefalt lag, mold var í gólfi. Svefnbálkar voru með hliðum þrír hvorum megin, í þeim var grjót og urðu vermenn því að finna eitthvað mýkra og var ýmist til notað hey, skeljasandur, lyng eða þang. Eldstæði voru í hverri verbúð, en oft voru erfiðleikar með eldivið, einnig var vatn víða takmarkað.
Grindavík
Vermenn höfðu með sér kost að heiman, smjör og annað feitmeti, einnig sýru eða sýrublöndu. Soðningu höfðu þeir og oftast kaffi, en lítið var um kjöt, helst voru það rifrildi er nýttust best í súpu. Kornmatur var af skornum skammti, sérstaklega hjá þeim er voru fjarri kaupstað. Ekki er þetta þó algild lýsing um mataræði, og undantekningamar æði margar.
Yfirleitt var reynt að búa vel að vermönnum hvað varðar mat, og bjuggu þeir vart við lakari kost en margur annar er ekkert átti nema vinnuaflið.“

Heimild:
-Ægir, 6. tbl. 01.06.1985, Sjómennska í Grindavík – Jón. Ó. Ísberg, bls. 334-342.

Grindavík

Grindavík 2021.

Hjallakirkja

Að Hjalla í Ölfusi er Ólafskirkja, kennd við Ólaf helga Noregskonung.
Núverandi kirkja er byggð 1928. Talið er að kirkja hafi staðið á Hjalla í Ölfusi frá um 1000, trúlega alltaf á sama staðnum, nema Hjalli-1e.t.v. í upphafi. Hjalli í Ölfusi kemur mjög við sögu kristnitökunnar því að þar bjuggu þeir feðgar Þóroddur Eyvindsson goði og Skafti Þóroddsson lögsögumaður.
Ofan Hjalla stöðvaðist kristnitökuhraunið. Þá komst Hjalli aftur í fréttir sögunnar þegar síðasti kaþólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, leitaði þar skjóls hjá systur sinni árið 1541. Gafst hann upp fyrir dönskum hermönnum gegn því að fá að fara frjáls maður. Þeir handtóku hann hins vegar og fluttu um borð í skip áleiðis til Kaupmannahafnar. En biskupinn aldni hlaut samt sitt frelsi því að hann dó í hafi.

Heimild:
-Morgunblaðið, 14. nóvember 1998, bls. 72.

Ölfus

Hjallakirkja 1927.

Járngerðardys

Í þjóðsögunni „Þórkatla og Járngerður“ eptir handriti Brynjólfs Jónssonar frá Minnanúpi 1861 í Landsbókasafni 542. 4to. má lesa eftirfarandi:
thorkotludes-3„Þórkatla bjó á Þórkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar vora þær giptar. Einu sinni sem optar voru bændur þeirra báDir á sjó. Nú gerði mikið brim, og héldu þeir því báðir til lands. lióndi Þórkötlu fékk gott lag á Þórkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þórkatla feigin mjög, og mælti svo fyrir, að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast, ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og vita menn ekki til, að þar hafi farizt skip á réttu sundi. En það er að segja frá bónda Járngerðar, að hann drukknaði á Járngerðastaðasundi. Þá varð Járngerður afarreið og grimm í hug, og mælti svo um, að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú (1861), sé fyrir víst nítján farin, og er þá eitt eptir, og má búast við, að það farist þá og þá. Á götu þeirri, sem til skips er geingin frá Járngerðarstöðum, er leiði Járngerðar, nálega einn faðmur á breidd og þrír á leingd frá austri til vesturs, og er austurendinn hærri. Ganga sjómenn opt yfir það.“

Heimild:
-Þjóðsögur og munnmæli, Sigfús Eymundsson 1899, bls. 206-207.

Grindavík

Grindavík.

Hópefli

Kári Jónason skrifaði um útivistar- og virkjanamöguleika á Reykjanesskaga í Fréttablaðið þann 8. september 2006:
Svartsengi„Landshættir hér á landi eru gjarnan þannig að á sömu stöðunum fara saman mikil náttúrufegurð og álitlegir virkjunarkostir. Á þetta bæði við um jarðvarmavirkjanir og vatnsaflsvirkjanir, eins og öllum ætti að vera kunnugt núorðið.
Kárahnjúkavirkjun hefur mikið verið í umræðunni sem eðlilegt er, og þar sýnist sitt hverjum. Sú umræða hefur svo leitt til þess að augu manna hafa beinst að öðrum vatnsaflsvirkjunarkostum á landinu, sem reyndar er bæði gömul umræða og ný. Minna hefur hins vegar verið tekist á um jarðvarmavirkjanir fyrr en nú á allra síðustu misserum, en því er ekki að leyna að þær hafa einnig í för með sér breytingar á umhverfinu, þótt með öðrum hætti sé.

Hengill

Hengill.

Í næsta nágrenni við höfuðborgina og nálægar byggðir eru mikil eldfjallasvæði, sem jafnframt eru upplögð útivistarsvæði, þótt þau sé mörgum íbúum á Suðvesturlandi ókunn. Það er oft þannig að menn leita langt yfir skammt til að komast í ósnortna náttúru. Reykjanesskaginn allur býður upp á mikla möguleika bæði sem útivistar- og náttúrusvæði og svo virkjunarkosti fyrir jarðvarmaveitur. Nú þegar eru miklar virkjanir á vestasta hluta skagans og svo á Hengilssvæðinu. Stór svæði um miðbik hans eru hins vegar tiltölulega ósnert, utan þess að þar hafa á nokkrum stöðum verið boraðar tilraunaholur til að kanna hvað felst þar í iðrum jarðar, og síðan hefur verið óskað eftir að fara í frekari tilrauna- eða rannsóknaboranir, þar sem eru óspillt svæði.
HellurÞað eru þessi ósnortnu svæði á Reykjanesskaganum, sem menn þurfa nú að fara að taka ákvörðun um hvað gert verður við. Þeim ætti eindregið að hlífa við hvers konar raski, nema að gera eitthvað til að þau verði aðgengilegri fyrir gesti og gangandi. Þeim má alls ekki spilla með virkjunum og því sem þeim fylgir.
Nesjavallavirkjun er austast á þessu svæði og með virkjun og vegalagningu þangað má segja að opnast hafi nýr heimur fyrir marga. Mikill fjöldi innlendra og erlendra ferðamanna leggur leið sína þangað árlega og það er eiginlega fastur liður að fara þangað með erlenda tignarmenn sem koma hingað í heimsókn, til að kynna fyrir þeim á auðveldan og aðgengilegan hátt þær orkulindir sem eru hér í jörðu.

Hellisheiðavirkjun

Við Hellisheiðavirkjun.

Íslendingar gera sig nú æ meira gildandi varðandi nýtingu á jarðvarma í öllum heimshlutum og þar er byggt á reynslunni af slíkum verkefnum hér heima. Svipaða sögu er að segja af nýtingu jarðvarmans vestast á Reykjanesskaganum – það kemur varla nokkur útlendingur til landsins án þess að heimsækja Bláa lónið.
Það er því miðja skagans sem fyrst og fremst þarf að verja og vernda frá strönd til standar, jafnframt því að svæðið verði gert aðgengilegt fyrir þá sem vilja njóta þess. Þarna eru miklir möguleikar fyrir hendi til útivistar, ekki aðeins á þeim svæðum þar sem jarðhiti er talinn nýtanlegur heldur ekki síður við og upp af suðurströndinni. Nægir þar að nefna Krísuvíkurbjarg, Ögmundarhraun og Seltanga, að ógleymdum Selvogi og svæðinu þar í kring.“

Heimild:
-Útivistar- og virkjanamöguleikar geta farið saman – Reykjanesskagi – Kári Jónasson skrifar – Fréttablaðið 8. september 2006, bls. 24.

Reykjanesvirkjun

Í Reykjanesvirkjun.

Húshólmi

Þegar einhver er spurður: „Hvað er menning?“, verður viðkomanda annaðhvort svarafátt eða svarið verður svo víðfemt að inniheldið verðu um allt og ekkert.
Mikilvæg menningarverðmæti voru fyrir skammsýni lögð undir hús í miðborg ReykjavíkurMenning hefur stundum verið skilgreind sem „samsafn hegðunarmynstra sem fyrirfinnast í ákveðnum samfélögum, og gildishlaðinna tákna sem gefa hegðuninni ákveðna merkingu eða tilgang. Margar mismunandi skilgreiningar eru til á menningu. Mannfræðingar nota hugtakið til að vísa til þeirrar viðleitni mannsins að skipa lífsreynslu sinni í flokka eða mynstur, og að tjá hana á skipulegan máta. Menning hefur einnig verið skilgreind sem „lífsmynstur heilla samfélaga“. Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, hefur einnig lagt til að menning sé skilgreind sem: „… samsafn þeirra trúarlegu, efnislegu, vitrænu og tilfinningalegu þátta sem einkenna hvert samfélag eða samfélagshóp. Listir og bókmenntir teljast til menningar, en einnig lífsstíll, sambúðarform, mannleg gildi, hefðir og skoðanir.“ Í skilgreiningunni liggur að menning grundvallast á orðinu minning.
Stundum er talað um handverksmenningu, þ.e. hvernig verkin voru unnin áður fyrr. Bókmenning lýtur sama lögmálinu. Það er og eðli goðsagna að hugsa til hins forsögulega og leita skýringa á uppruna heimsins og upphafi sögunnar. Allir menningarheimar eiga sér goðsögulegan uppruna og vestræn menning á sinn uppruna ekki síst í hinum auðuga og fjölbreytta goðsagnaheimi Forn-Grikkja.
Stoðhola í tóft í HúshólmaÍslensk sendiráð á erlendri grundu kynna gjarnan Ísland og íslenska menningu sem mikilvægan þátt í starfsemi. Jafnan er boðið upp á spennandi möguleika á því að koma íslenskri menningu á framfæri. Á hverju ári eru íslenskar kvikmyndir teknar til sýningar í Norræna húsinu og einnig er þar góð aðstaða til fyrirlestra og tónleikahalds. Einnig er náið samstarf með öðrum norrænum aðalræðisskrifstofum að sameiginlegum verkefnum á sviði lista- og menningarmála. Sjaldnast er menningin kynnt í formi minja eða áþreifanlegrar arfleifðar, en þess frekar í hlóði (söng og spili) og mynd (kvikmynd). Getur ástæðan verið sú að ímyndunarhönnuðir vilji gefa aðra mynd af „menningunni“ en hún raunverulega er? Skammast þjóðin sig fyrir „fátæklegheitin“ í samanburði við „íburðinn“ erlendis?
Hér heima er málum öðruvísi háttað. Haldnar eru sýningar á bókmenntaarfinum í Þjóðmenningarhúsinu, upphafi landsnáms í kjallara hótels í miðborginni og Þjóðminjasafnið gefur gestum kost á að líta menningarverðmætin augum.
Skoðum dæmi um klysjukenndan áhuga landans út á við: „Íslendingar hafa haldið fram þeirri skoðun að nýta beri í miklu ríkara mæli þann styrk sem Norðurlöndin búa yfir og felst í mannauði, sameiginlegum menningararfi og gildismati, svo og öflugu mennta-, vísinda- og nýsköpunarkerfi. Margt bendir til þess að Norðurlönd hafi hingað til vannýtt þessa auðlind til að hasla sér völl á alþjóðlegum vettvangi.

Fátæklegar selleifar á Reykjanesskaga - fulltrúi verkmenningar í 1000 ár

Íslendingar leggja því áherslu á að nýta sem best innri og ytri styrk Norðurlanda til að efla samkeppnisstöðu á sviði menningar, mennta og vísinda. Lykilorðin eru annars vegar samlegð (synergi) og hins vegar hnattræn útrás. Með öflugra rannsóknarsamstarfi þarf að samþætta og samræma þekkingarauðinn í löndunum, en jafnframt stefna að útbreiðslu norrænna menningar-, mennta- og vísindaafurða.“ Hér er öllu grautað saman; menningu, vísindum, útrás og nýsköpun – ágætt dæmi um ómeðvitaða arfleifð.
Menningarmál hafa jafnan verið ofarlega á baugi í byggðum landsins og bera menningarstefnur sveitarfélaga þess glöggt merki. Menningarstefnur eru staðfesting og viðurkenning á mikilvægi og gildi menningarlífs í sérhverju sveitarfélagi og markmið hennar er að skapa sem best skilyrði fyrir varðveislu, ræktun og miðlun sameiginlegs svæðisbundins menningararfs. Ennfremur er það gjarnan markmið að tryggja eftir föngum að „allir geti notið menningarlífs og að búa í haginn fyrir skapandi, lifandi listasemi og stuðla að sem almennastri þátttöku íbúa á því sviði.“
ÞorsteinshellirEn hvað er menning?
„Samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs er menning „þroski mannlegra eiginleika mannsins, það sem greinir hann frá dýrum, þjálfun hugans, andlegt líf.“ Íslensk orðsifjabók bætir því við að menning sé „þroski hugar og handa; … það að manna einhvern … þróun, efling, siðmenning“. Orðabók Menningarsjóðs segir líka að menning sé „sameiginlegur arfur (venjulega skapaður af mörgum kynslóðum) … rótgróinn háttur, siður“. Hin Íslenska alfræðiorðabók Arnar og Örlygs segir að menning sé „sú heild þekkingar, siðferðis, trúar og tákna sem er undirstaða mannlegs samfélags“.
Hér má greina að minnsta kosti tvær ólíkar merkingar sem lagðar eru í hugtakið „menningu“ í almennri notkun. Í fyrsta lagi mætti nefna hugmyndina um siðmenningu. Í öðru lagi kæmi svo hugmyndin um menningu sem rótgróinn sið, sameiginlegan arf. Síðari hugmyndin er oft tengd hugtakinu þjóðmenning, að hver þjóð eigi sérstaka menningu, [líkt og sveitarfélög landsins].
Prestsvarðan - er hún einskis virði í menningarsögulegu tilliti?„Menning“ er einnig lykilhugtak ýmissa fræðigreina, ekki síst mannfræðinnar. Í því sem hér fer á eftir er sett fram mjög einfölduð mynd af hefðbundnum hugmyndum mannfræðinnar um menninguna.
Mannfræðin hefur lengi litið svo á að mannkynið sé eitt og það búi yfir sameiginlegum eiginleikum. Við blasir þó að það hefur búið sér mjög fjölbreytilega lifnaðarhætti. Eitt af helstu verkefnum mannfræðinnar að lýsa og skýra þennan fjölbreytileika og það hvernig hann er mögulegur.
Mannfræðingar hafa lengi haft þá skoðun að fjölbreytileikinn byggi ekki á líkamlegum mun manna eins og sjáist af því að fólk fylgi þeim siðum sem það lærir. Barn sem á ættir að rekja til Íslands en er ættleitt og elst upp hjá japönskum foreldrum, lærir japönsku eins og hvert annað barn þar í landi. Klassískar hugmyndir mannfræðinga um menningu ganga út á það að hún sé afl sem mótar einstaklinginn, hugsun hans og hegðun, og að þannig megi líta á að sá fjölbreytileiki í lifnaðarháttum sem mannkyn hefur búið sér sé menningarlegur.
Eru þetta einskisnýtar menningarminjar?Þá hafa mannfræðingar lengi álitið svo að í heiminum séu margar ólíkar menningar, að við getum talað um íslenska menningu, danska menningu og svo framvegis. Þó að hverri menningu megi skipta niður í ákveðna þætti – trúarbrögð, goðsagnir og vígslusiði, svo einhverjir séu nefndir – fléttist þessir þættir í hverju tilviki saman og myndi ákveðna heild. Þannig kennir klassískur skilningur mannfræðinnar að einstakur þáttur tiltekinnar menningar verði ekki skilinn í einangrun heldur verði að skoða hann í samhengi við alla aðra þætti hennar. Samkvæmt þessu er hver menning heildstæð eining.
Ef menningin er heildstæð, er hún líka afmörkuð. Við getum þannig talað um íslenska menningu og enska menningu og dregið skýr mörk milli þeirra. Það fólk sem tilheyrir hverri menningu, tilheyrir henni allt á sama hátt. Íslensk menning er menning íslensku þjóðarinnar en ekki bara einhvers hluta hennar. Hugmyndin er líka sú að menning hafi ákveðinn stöðugleika. Íslensk menning er „íslensk menning“ hvort sem talað er um landnámstímann eða nútímann, og þarna á milli er eitthvert sögulegt samhengi, einhver stöðuguleiki.
Dæmi um afskiptar menningarminjar á ReykjanesskagaÞetta er þá hin klassíska hugmynd mannfræðinnar um menninguna: Hver menning er sjálfstætt kerfi sem endurnýjar sjálft sig. Þessi hugmynd um menningu hefur verið tekin til gagngerrar endurskoðunar undanfarna áratugi. Nú telja flestir að menning sé afsprengi valdatengsla og drottnunar, að menning sé ákveðið form valds og drottnunar, hún sé miðill þar sem vald er bæði skapað og spornað við því.
Sem dæmi um þetta má benda á hvernig vísað var í þætti úr íslenskri menningu og sögu til rökstuðnings fyrir uppsetningu gagnagrunns á heilbrigðissviði: Víkingaarfleiðina og sagnirnar. Einnig má benda á hvernig andstæðingar gagnagrunnins notuðu hliðstæð menningarleg rök gegn gagnagrunninum: Afsal sjálfstæðisins 1262 og „sölu landsins“ 1949. Menning er þess vegna ekki hlutur til fyrir utan og ofan okkur, heldur er hún hluti af hinu daglega lífi, með allri sinni baráttu og striti.“
Í raun, ef vel er að gáð, fela sérhver mannanna verk í sér afurð menningar er krefst ákveðinnar varðveislu og virðingar þeirra er á eftir koma. Hversu vel hún hefur varðveist á ekki að skipta neinu máli.
Þegar menningarsögulegar minjar á Reykjanesskaganum eru skoðaðar, hvort sem um er að ræða á einstaka stað eða sem heild, blasir vanræksla hvarvetna við. Svo er að sjá sem fulltrúar minjavörslunnar hafi MJÖG litlar áhyggjur af þessum fornleifum, enda hafði einn þeirra það á orði í einni kennslustundinni í HÍ að “engar merkilegar fornleifar væri að finna á svæðinu”. Þá var hann að miða við Glaumbæ í Skagafirði, Víðimýri og aðra slíkar er endurreistar hafa verið í „sómasamlegri mynd“. Það segir nokkuð um gildismat viðkomandi. Fátækleg, óhreyfð, en áþreifanleg arfleifð, jafnvel jarðlæg, er auðvitað engu að síður merkileg en uppgerð fornleif. Þessum skilningi “sérfræðinganna” þarf að breyta.  Ef það tekst verður Reykjanesskaginn eitt merkilegasta minjasvæði landsins. Alþingismenn (fjárveitingavaldið) er mjög svo upptekið, líkt og var í lok 19. aldar, að dýrð Íslendingasagnanna og endurreisn þeirra, en huglægni þeirra kemur samt sem áður aldrei til með að geta staðfest eitt eða neitt á vettvangi fornleifanna. Þess vegna eru minjarnar sjálfar svo mikilvægar, þ.e. myndbreyting þess sem var í raun, bæði frá einum tíma til annars svo og raunverulegum aðstæðum fólksins er þar bjó – og dó. Þær, hversu lítilmótlegar sem þær eru, hver og ein, ber að virða til eins langrar framtíðar og mögulegt er.

Heimildir m.a.:
-wikipedia.org
-visindavefur.is

Lokinu hefur enn ekki verið lyft af menningarverðmætum Reykjanesskagans

Hverasvæði

Hvera- og jarðhitasvæðin eru nokkur á Reykjanesskaganum, enda landsvæðið bæði tiltölulega ungt á jarðfræðilegan mælikvarða auk þess sem flekaskil liggja um skagann endilangann. Þau skiptast í háhita- og lághitasvæði.
Helstu háhitasvæðin eru í Brennisteinsfjöllum, á Hengilssvæðinu, yst á Reykjanesi, í Krýsuvík, við Trölladyngju, við Stóru Sandvík, í Eldvörpum og í Svartsengi. Sum svæðanna tengjast innbyrðis að einhverju leyti.

Háhitasvæði
Á vefnum Wikipedia.org er fjallað almennt um háhitasvæði:
„Háhitasvæði eru svæði þar sem hiti á 1 km dýpi er yfir 200°C. Jarðhitasvæðum er skipt eftir hámarkshitastigi í efsta lagi jarðskorpu en það er gjarnan metið með mælingu á hitastigli svæðisins. Háhitasvæði eru iðulega að finna á virkum gos- og rekbeltum, ýmist á flekamótum eða flekaskilum. Þar er jarðskorpan heitust og fer kólnandi eftir því sem fjær dregur og jarðlögin jafnframt eldri. Ummerki um háhitasvæði á yfirborði jarðar eru brennisteinshverir, gufuhverir, leirhverir og vatnshverir.

Háhitasvæði
Hitastig í miðju jarðar í kjarna hennar er um 7000°C. Uppruni þessa hita er tvíþættur. Sú orka sem átti þátt í myndun jarðarinnar fyrir 4600 milljónum ára umbreyttist í varma. Hins vegar myndast varmi í möttli og jarðskorpu vegna klofnunar geislavirkra samsæta á borð við þóríum 232Th, úraníum 238U og kalíum 40K0 og berst hann til yfirborðsins með varmaburði og varmaleiðni.

Laugardalur

Laugardalur – þvottalaugarnar.

Talið er að maðurinn hafi öldum saman nýtt sér jarðhita til að mæta ýmsum þörfum. Þar má nefna notkun til baða, þvotta, matseldar og iðnaðar. Ein frægasta laugin á Íslandi er líklega Snorralaug. Þá bendir ýmislegt til þess að jarðhiti hafi verið notaður til ylræktar til dæmis í Hveragerði og á Flúðum. Eins og nafn þeirra bendir til, voru Þvottalaugarnar í Laugardalnum lengi vel notaðar til þvotta og upp úr 1930 var farið að nota þær til húshitunar. Laugardalurinn telst þó til lághitasvæða. Þegar olíukreppa skall á árið 1970 hófst mikil vinna við að finna orkugjafa sem leysti olíu og kol af hólmi til kyndingar. Í dag eru opinberar hitaveitur á fjórða tug og litlar sveitahitaveitur tæplega tvö hundruð.

Ítalir voru fyrstir til að nýta jarðhita til raforkuframleiðslu en þá var gufuvél tengd við rafal sem framleiðir rafmagn. Í kjölfarið var fyrsta jarðhitavirkjun heims reist þar með 250 kW afköstum. Í dag er afl virkjunarinnar rúmlega 700 MW og til stendur að stækka hana í 1200 MW.  Íslendingar hafa lengi verið í fremstu röð hvað varðar jarðhitarannsóknir og jarðhitanýtingu.“

Á vefsíðum Orkustofnunnar og ÍSOR má lesa eftirfarandi um háhitasvæðin:
Megineldstöðvar
„Mið-Atlantshafshryggurinn liggur í gegnum Ísland, sem skýrir dreifingu jarðhitans um landið. Öflugustu háhitasvæðin liggja öll í gosbeltinu sem hefur myndast á flekaskilum. Þar eru skilyrði sérlega góð til myndunar jarðhitakerfa vegna nægra varmagjafa í formi heitra kvikuinnskota og margsprunginnar og vel vatnsgengrar jarðskorpu. Hringrás vatnsins flytur smám saman varma frá dýpri hlutum skorpunnar upp undir yfirborð þar sem hún þéttir að nokkru leyti yfirborðsjarðlögin með útfellingum og myndar jarðhitageyma eins og þekktir eru frá borunum niður á 1 – 3 km dýpi.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – aðkoman upp frá Fagradal – ÓSÁ.

Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 400–500 m hæð yfir sjó. Í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Brennisteinsfjöll er skýrt afmörkuð gos- og sprungurein með stefnu NA-SV. Kjarninn í henni er á milli Heiðarinnar há og Bláfjalla að austan og Lönguhlíðarstapans að vestan. Bláfjöll eru oft felld undir þetta sama eldstöðvakerfi sem sérstök gosrein með móbergshryggjum, dyngjum og fáeinum gígaröðum, mikilli gosframleiðslu, en furðulítið er þar um brot. Jarðhitasvæði er ekki sýnilegt í Bláfjallareininni. Brennisteinsfjöll voru á náttúruverndaráætlun 2003-2008. Þau þykja sérstök vegna óvenju fjölbreyttra jarðmyndana og þá einkum gosmenja. Bent er á að Brennisteinsfjöll og umhverfi eru meðal fárra slíkra svæða nærri höfuðborgarsvæðinu sem mega heita ósnert. Hins vegar er land þar niðurnítt af beit og uppblásið með flögum og vatnsgrafningum.
Viðnámsmælingar benda til þess að svæðið sé um 18 km2 á 700 m dýpi undir sjávarmáli, um 1200 m undir yfirborði þar sem jarðhita verður vart.

Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – námusvæðið.

Virkur jarðhiti kemur fram sem gufur í um 450 m hæð en köld ummyndun er á fjórum stöðum og vitnar um meiri virkni á fyrri tíð. Jarðhiti á yfirborði er óverulegur og miðað við útbreiðslu jarðhita og ummyndunar er svæðið um 3 km2. Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í samnefndri sprungurein og hefur gosið þar a.m.k. 30–40 sinnum eftir að ísöld lauk. Brotalínur eru ungar á svæðinu frá sjó og norður á Mosfellsheiði og verða oft jarðskjálftar á um 5 km breiðu og um 40 km löngu belti. Jarðskjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið nokkuð stórir.
Megingerð jarðlaga er móberg og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.

Hengilssvæði

Hengilssvæðið

Horft yfir Hengilssvæðið að hluta.

Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 140 km2. Það er þó ekki allt einn og sami suðupotturinn. Vesturhlutinn tengist eldstöðvarkerfi Hengilsins. Innan hans eru vinnslusvæðin á Nesjavöllum og á Hellisheiði. Austan Hengils er Ölkeldu­hálssvæðið, sem tengist Hrómundar­tindseldstöðinni. Sunnan þess er Hverahlíð og ný gögn benda til að vinnanlegur jarðhiti geti verið við Gráuhnúka og Meitil. Austasti hluti háhita­svæðisins tengist Hveragerðiseldstöðinni sem er útdauð og sundurgrafin.

Hellisheiðavirkjun nýtir jarðhitavökva frá Hellisheiði og Hverahlíð. Alls er talið að Hengilssvæðið geti staðið undir um 700 MWe rafafli og enn meira varmafli.

Jarðhiti á Hengilssvæðinu

Hengilssvæðið

Á Hengilssvæðinu.

Hengilssvæðið nær yfir tvær megineldstöðvar og nágrenni þeirra. Önnur, Hveragerðiseldstöðin, er útdauð og sundurgrafin. Hin er virk og nær yfir Hengil og Hrómundartind. Gosmyndanir á svæðinu eru um 800.000 ára gamlar. Elstu jarðlögin er að finna í ásunum suðaustan við Hveragerði en yngst eru hraunin sem flætt hafa frá gosreininni gegnum Hengil.

Gosmyndanir á Hengilssvæðinu eru fjölbreyttar. Aðalgerðir eldstöðva eru þó einungis tvær, tengdar sprungugosum og dyngjugosum. Jarðskorpuhreyfingar í gliðnunarbelti, eins og verið hefur á Hengilssvæði allan þann tíma sem jarðsaga þess spannar, sýna sig í gjám og misgengjum og hallandi jarðlögum á jaðarsvæðunum. Skjálftabelti Suðurlands gengur austan til inn í Hengilssvæðið.

Henglafjöll

Henglafjöll.

Á vestanverðu Hengilssvæðinu er landslagið mótað af gosmyndunum sem hafa hlaðist upp á síðasta jökulskeiði og á nútíma. Austan til hafa roföflin hins vegar mótað það.

Laus jarðlög þekja sléttlendi og fjallshlíðar eru hvergi mjög skriðurunnar nema þar sem þykk hraunlög eru í brúnum eða fjöllin eingöngu úr bólstrabergi. Um vatnafar á Hengilssvæðinu skiptir í tvö horn. Á því vestanverðu eru stöðugar lindir og lækir einungis þar sem jarðlögin eru svo ummynduð að þau halda vatni. Annars sígur þar allt vatn í jörð. Á austanverðu svæðinu renna ár og lækir árið um kring.

Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 100 km2. Það er þó ekki allt einn og sami suðupotturinn, heldur er það a.m.k. þrískipt:

Grændalur

Í Grændal.

Suðaustasti hluti þess er í Hveragerðiseldstöðinni (Grændalur). Hún er hætt gosum og þegar nokkuð rofin. Boranir í Hveragerði og upp með Varmá hafa sýnt að þar er á ferðinni afrennsli af heitara svæði norðar eða norðvestar. Vinnsla umfram það sem núverandi borholur gefa myndi því byggjast á borunum í Grændal. Ef nefna ætti eitthvert séreinkenni þessa svæðis, þá væru það kísilhverirnir í Hveragerði og á Reykjum, eða hinar fjölmörgu laugar sem spretta fram úr berghlaupum í Grændal. Innan um eru gufuhverir sem gjarnan fylgja sprungum tengdum Suðurlandsskjálftum. Mörg dæmi eru um hverabreytingar á þessu svæði, bæði fornar og nýjar. Svæðið er þægilega lágt í landinu, um og innan við 200 m. Aðgengi útheimtir vegalagningu yfir skriðurnar vestan megin í dalnum án þess að spilla hverum eða laugasvæðum.

Reykjadalur

Í Reykjadal.

Ölkelduhálssvæðið sker sig úr fyrir kolsýrulaugarnar sem eru í þyrpingu frá Ölkelduhálsi suður í Reykjadal og í Hverakjálka. Jarðhitinn þar fylgir gosrein með misgömlum móbergsfjöllum og stökum hraungígi, Tjarnarhnúki.
Loks er jarðhitasvæðið í Henglafjöllum. Það nær frá Nesjavöllum suðvestur í Hveradali og Hverahlíð. Jarðhitinn er mestur og samfelldastur utan í Hengli alls staðar nema norðvestan megin. Brennisteinshverir eru mestir vestan til í Henglafjöllum, þ.e. í Sleggjubeinsdölum, norðan við Innstadal og ofan við Hagavíkurlaugar. Austan megin eru kalkhverir og kolsýrulaugar algengar. Jarðhitanum á Henglafjöllum má hugsanlega skipta í nokkur vinnslusvæði, sem öll gætu verið innbyrðis í þrýstisambandi: Nesjavelli, Sleggjubeinsdal, Hellisheiði, Hverahlíð, Þverárdal, Innstadal og Fremstadal.
Landslag á svæðinu er fjöllótt og vinnsla jarðhita fer mjög eftir aðgengi að viðkomandi svæðum. Einnig eru jarðhitasvæðin misjafnlega heppileg til nýtingar, sem aðallega fer eftir hita og kolsýruinnihaldi.

Reykjanessvæði

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ÍSOR.

Á Reykjanesi kemur gliðnunarbelti Reykjaneshryggjarins úr sjó. Eystri hluti Reykjaness er klofinn af misgengjum og opnum gjám, en vestari hlutinn að mestu hulinn yngri hraunum úr Stamparöðinni. Úr henni hefur gosið 3-4 sinnum á síðustu 5 þúsund árum, síðast 1226. Líklegt er að tvær aðskildar sprungureinar séu á Reykjanestá, og að háhitakerfið sé tengt þeirri eystri en nái ekki yfir í þá sem vestar liggur, þ.e. Stampareinina. Viðnámsmælingar gefa til kynna að jarðhitakerfið sé bundið við þrönga uppstreymisrás eða sprungu og heitt afrennsli út frá henni á 2–300 m dýpi í allar áttir. Þegar rýnt er í viðnámsmyndina neðan lágviðnámskápunnar niður á 5 km dýpi má sjá svæði eða strók með lægra viðnámi en umhverfis. Vökvinn í jarðhitakerfinu er jarðsjór og hiti fylgir suðumarksferli yfir 300°C. Stærð svæðisins er talin um 9 km2 og vinnslugeta er metin 45 MWe.

Framkvæmdasvæðið er innan svæðisins Reykjanes-Eldvörp-Hafnaberg sem er á Náttúruminjaskrá, ekki síst vegna merkilegra jarðmyndana. Einnig njóta jarðmyndanir á svæðinu sérstakrar verndar skv. 37. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Það á við um nánast öll hraun á svæðinu, fjölda gíga, Stamparöðina og Skálafell og hvera­svæðið við Gunnuhver.

Jarðhitasvæðið á Reykjanesi

Gunnuhver

Á Reykjanesi – Gunnuhver og nágrenni.

Jarðhitasvæðið á Reykjanesi (á hælnum) er um það bil 1 km2 að stærð sé einungis miðað við hverina og önnur sýnileg jarðhitamerki. Viðnámsmælingar benda til að það sé a.m.k. fjórfalt stærra og teygist auk þess út í sjó til suðvesturs. Jarðhitasvæðið er að mestu þakið hraunum en móbergs- og bólstrabergshryggir standa upp úr. Einn þeirra, Rauðhólar, nær inn á jarðhitasvæðið. Þar voru fyrstu vel heppnuðu vinnsluholurnar boraðar.

Tvær gosreinar liggja yfir “hælinn” á Reykjanesi og er jarðhitinn á þeirri eystri milli Skálafells og Litla-Vatnsfells. Vestar er Stampareinin með yngstu hraununum. Á henni er ekki jarðhiti en viðnámsmælingar gefa til kynna að jarðhitakerfið nái einnig til hennar.

Stampar

Stampar.

Á Reykjanesi er að finna mörg jarðfræðileg fyrirbæri sem vert er að skoða. Þar ber af öskugíg með berggöngum þar sem Stampagígarnir ganga fram í sjó. Á jarðhitasvæðinu hafa goshverir komið upp endrum og eins, raunar tvisvar á síðustu öld í tengslum við jarðskjálftahrinur. Þeir gjósa jarðsjó en hafa reynst skammlífir.

Kísilhóll

Kísilhóll h.m.

Langlífari hefur verið goshver í svo kölluðum Kísilhól sem nú er óvirkur. Hann er úr móbergi með metraþykku kísilhrúðri ofan á. Þar má einnig sjá sprungu sem reif sig upp í skjálftahrinu fyrir 35 árum og sýnist enn fersk þar sem hún liggur norðaustur frá Gunnuhver. Það sem gefur Reykjanessvæðinu mest gildi er vitundin um að þar koma plötuskil Reykjaneshryggjarins á land.

Ferðamenn sem fara út á Reykjanes staldra hjá Valahnúkum til að skoða brimið og hjá Gunnuhver sem er leirpyttaklasi norðan undir Kísilhólnum.

Höyer

Búsetuminjar við Gunnuhver.

Búseta á Reykjanesi hefur skilið eftir sig ummerki (bú vitavarðar og nýbýlið Hveravellir). Garðrækt hefur lengi verið stunduð, efnistaka í vegi, boranir og verksmiðjurekstur og því hróflað við mörgu. Ný fyrirbæri hafa skapast. Merkast af þeim eru kísilpaldrarnir vestan undir Rauðhólum í afrennslinu frá saltverksmiðjunni.

Reykjanessvæðið er eitt best rannsakaða háhitasvæði landsins. Grunnurinn að þeim rannsóknum var lagður á árunum fyrir 1970. Þá var nýafstaðin öflug skjálftahrina og við hana færðist líf í hveri. Síðan hefur virknin dvínað töluvert.

Reykjanessvæðið er með þeim heitustu sem nýtt eru hér á landi. 30 ára vinnsla hefur ekki haft nein merkjanleg áhrif á forðann í jarðhitakerfinu. Efnainnihald í jarðsjónum skapar vanda við nýtingu en jafnframt seljanlega vöru.

Krýsuvíkursvæðið – Seltún

Seltún

Hverasvæðið í Seltúni.

Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, í Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju, og við Sandfell. Krýsuvík er hluti af Fólkvangi á Reykjanesskaga. Land í Krýsuvík er í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn.

Meginsvæðið er um 80 km2 að flatarmáli. Umfangsmiklar rannsóknir standa yfir en segja má að miðja uppstreymis sé enn ekki staðsett. Í Trölladyngju eru tvær borholur. Í báðum er um 250°C hiti ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 330°C hita á rúmlega 2 km dýpi. Í Krýsuvík er hveravirknin samfelldust í Hveradölum og við Seltún og nokkuð upp á Sveifluhálsinn, með gufu- og leirhverum. Í Krýsuvík hefur dýpst verið borað um 1200 m. Hæstur hiti í borholum þar er í Hveradölum um 230°C og nærri suðuferli niður á um 300 m dýpi en þar neðan við kólnar.

Viðnámsmælingar gefa vonir um að rafafl svæðisins sé 440 MWe og varmaafl öllu meira. Svæðið er metið 89 km2 og rafafl 445 MWe. Óvissa ríkir um vinnslugetu meðan miðja uppstreymis er ekki fundin með rannsóknarborunum.

Jarðhitasvæðið Krýsuvík

Austurengjar

Hveraummyndanir á Austurengjum.

Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, í Krýsuvík, Köldunámum, Trölladyngju og við Sandfell. Fjögur þau fyrsttöldu sýna sig samfelld í viðnámsmælingum en Sandfellssvæðið er laust frá. Meginsvæðið er hringlaga um 50 km2 að flatarmáli innan 10 ohmm jafnlínu. Sandfellssvæðið er mælt á sama hátt um 4 km2. Sveifluháls og Vesturháls með Trölladyngju eru móbergshryggir samsettir úr mörgum goseiningum og ná mest í 300-400 m hæð. Nútímahraun þekja allt sléttlendi vestan við hálsana og á milli þeirra. Upptök þeirra eru í gossprungum báðum megin við og utan í Vesturhálsi og Trölladyngju. Gossprungur eru einnig austan í Sveifluhálsi og sprengigígar á öldunum vestan hans en hraunmagn úr öllum er lítið. Gosvirknin hjaðnar þaðan til NA og verður að lægð þar sem Kleifarvatn er. Jarðmyndanir milli Sveifluháls og Austurengja eru eldri en vestur í hálsunum og á hraunasvæðunum. Efnismiklar móbergsmyndanir úr öðru eldstöðvakerfi eru austan við Kleifarvatn og öldurnar þar suður af.

Hveravirknin á fyrrnefndum fjórum jarðhitasvæðum er að ýmsu leyti ólík.

Baðstofa

Í Baðstofu.

Í Krýsuvík er hveravirknin samfelldust í Hveradölum og við Seltún og nokkuð upp á hálsinn, með gufu- og leirhverum. Þar er nokkuð um brennisteinshveri og miklar gifsútfellingar. Hverir eru einnig í Grænavatni. Frá Grænavatni og Gestsstaðavatni liggja gossprungur með fleiri gígum til norðurs, og stefnir önnur upp í Hveradali en hin á hverina við Seltún. Hæstur hiti í borholum er í Hveradölum um 230°C. Dýpst hefur verið borað um 1200 m. Hiti er nærri suðuferli niður á ~300 m dýpi en þar neðan við kólnar. Engar mælingar eru til úr borholum neðan 400 m.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn. Töluverð ummyndun sést í bergi alllangt út frá beggja vegna. Auk jarðhitans eru á þessari hitarák nokkrir sprengigígar sem gosið hafa gjalli og smáhraunum með úrkastinu. Sá stærsti er um 100 m í þvermál skammt norðaustur af Stóra-Lambafelli og mikil gjalldreif austur frá honum. Gígar þessir eru frá því snemma á nútíma. Ein 600 m djúp borhola er við Kleifarvatn um 150 m vestan við hverarákina. Hæstur hiti í henni er um 160°C. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver við jarðskjálfta en var áður lítilfjörlegur. Stórir hverasprengigígar eru norður frá honum en eldri, sem bendir til að grunnt sé á jarðhitakerfi nærri suðu líkt og í Krýsuvík.

Köldunámur

Köldunámur.

Köldunámur heita vestan í Sveifluhálsi langt norður frá jarðhitanum í Krýsuvík. Þar skammt vestur af eru gufuaugu í hraunbolla og nokkur brennisteinn (Leynihver) en í hlíðinni köld jarðhitaskella. Gifsmulningur sést sem bendir til að þar hafi einhvern tíma verið brennisteinshverir.

Leynihver

Leynihver.

Í Trölladyngju eru hverir og ummyndun samfelldust á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirkin er fremur dauf, tveir hverir upp við Sogin, gufur með smávegis brennisteini og hverasprengigígur neðan undir hálsinum og hitaskellur í Oddafelli. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru á gossprungum þar sem þær liggja yfir fyrrnnefnda A-V-skák. Ummyndun er mest í Sogum þar sem stórt svæði er ummyndað í klessuleir. Vestan í hálsinum frá Sogum, suður á móts við Hverinn eina, er móbergið einnig ummyndað en hvergi nærri eins og í Sogum. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Kalkhrúður finnst á tveim stöðum. Hitarák með gufuhverum liggur frá Trölladyngju um Eldborg norður í Lambafell, bundin nánast við eina sprungu. Hverinn eini er í hrauni skammt suðvestur af SV-endanum á Oddafelli. Gufuauga með smávegis brennisteini er í hraunbolla og gufur á smásvæði í kring. Þar hjá er dálítil hrúðurbunga (kísill) og kaldar hveraholur í henni. Í Trölladyngju eru tvær borholur, önnur við hverasprunguna norðan undir henni og hin á hverasvæðinu vestan undir hálsinum. Báðar gefa um 260°C hita ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 320°C hita á rúmlega tveggja km dýpi.

Sogin

Í Sogum.

Jarðhitinn sem kenndur er við Sandfell er í hrauni norðaustan undir fellinu. Þar stígur gufueimur máttleysislega upp á nokkrum stöðum. Á bletti er leirkennd ummyndun í jarðvegi og þar hefur hiti mælst nærri suðumarki. Móbergið í Vesturhálsi er nokkuð ummyndað á móts við Sandfell og inn með Selvöllum og þar eru grónar hlíðar með rennandi lækjum. Uppi á háhálsinum gegnt gufunum við Sandfell er allstór, leirgul hveraskella en alveg köld. Svæðið gæti samkvæmt því verið stærra en sýnist af yfirborðsmerkjunum.

Hitalækkun í borholum eftir að nokkur hundruð metra dýpi er náð hefur vakið spurningu um hvar uppstreymis sé að leita. Boranirnar í Trölladyngju benda til að þar sé þess að leita undir Sogum. Í Krýsuvík væri þess helst að leita undir Sveifluhálsi. Austurengjahitinn er í útjaðri jarðhitakerfisins skv. viðnámsmælingum, líkt og Trölladyngjuholurnar vestan megin. Svæðið þar sem viðnámsmælingar skynja hátt viðnám undir lágu þarf ekki að lýsa núverandi ástandi því þær sjá ekki mun á því sem var og er >240°C heitt.

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík.

Niðurstöður djúpviðnámsmælinga gefa til kynna að jarðhita kunni að vera að finna á Stóru Sandvíkursvæðinu. Ekki er unnt að meta stærð hugsanlegs jarðhitageymis því veru­legur hluti hans gæti legið utan við ströndina. Boranir þarf til að fullvissa sig um hvort nýtanlegur hiti sé á svæðinu. Líklegt er að jarðhitakerfið sé tengt jarðhitakerfinu á Reykjanesi og því mætti líta á Stóru Sandvík sem annan virkjunarstað á Reykjanessvæðinu.

Eldvörp – Svartsengi

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Í Svartsengi hefur verið rekin jarðhitavirkjun frá 1977 og er núverandi afl hennar 70 MWe. Í Eldvörpum liggur fyrir hugmynd um að virkja 30-50 MWe í fyrsta áfanga. Borhola, EG-2 var boruð þar árið 1983 niður í 1265 m dýpi. Hún hefur aldrei verið nýtt, en hefur verið blástursprófuð og eftirlitsmæld nær árlega alla tíð síðan. Hún sýnir náin tengsl við jarðhitasvæðið í Svartsengi, og niðurdælingasvæði Svartsengis liggur mitt á milli svæðanna. Svæðið Eldvörp-Svartsengi er talið um 30 km2 og rafafl þess er metið 150 MWe.“

Lághitasvæði

Ölfus

Ölfusölkelda á Hengilssvæðinu.

Í Wikipedia.org er einnig fjallað um lághitasvæði:
„Lághitasvæði eru skilgreind svæði með jarðhita þar sem hiti er lægri en 150°C á 1-3 km dýpi í jörðu. Lághitasvæði Íslands eru fjölmörg en þau eru misdreifð um landið. Mikill lághiti er á Vestfjörðum, í Borgarfirði og víða um Suðurland og Miðnorðurland. Lítið er um lághita á Austfjörðum og í Skaftafellssýslum. Leit að heitu vatni á lághitasvæðum til húshitunar, garðyrkju, fiskeldis eða annarra nota beinist að því að finna heitt vatn á sem ódýrastan hátt. Lághitavatn keppir við aðra orkugjafa til húshitunar.

Lághitasvæði eru stundum talin nálægt 250 á landinu, og eru þau mjög misstór, allt frá einstökum volgrum og upp í nokkra tugi uppsprettna. Oft er erfitt að skera úr hvað skuli teljast til eins og sama lághitasvæðis, og geta slíkar skilgreiningar breyst með tímanum eftir því sem þekking eykst á einstökum svæðum.“

Á vef ÍSOR segir um lághitasvæði:
Lághitasvæði„Lághitasvæði landsins eru utan við virka gosbeltið sem nær frá Reykjanestá norður um landið út í Öxarfjörð. Þau ná frá jöðrum gosbeltanna, út um allt land og út á landgrunnið. Að vísu má ná ágætis lághitavatni innan gosbeltisins, hvort heldur er til húshitunar, garðyrkju eða fiskeldis, og eru Reykjanesskaginn og Öxarfjörður gott dæmi þar um.

Lághitarannsóknir

Ölkelda

Ölkelda í Hengladölum – nú horfin.

Leit að heitu vatni á lághitasvæðum til húshitunar, garðyrkju, fiskeldis eða annarra nota gengur út á að finna heitt vatn á sem ódýrastan hátt. Lághitavatn keppir við aðra orkugjafa til húshitunar. Einstaklingar og smærri byggðarlög eiga því nokkuð undir högg að sækja þar sem samanlagður jarðhitaleitar- og vinnslukostnaður má ekki fara yfir ákveðið hámark á einhverjum ásættanlegum afskriftatíma, þó í reynd njóti nokkrar kynslóðir góðs af stundum áhættusamri jarðhitaleit.

Með breyttri tækni í jarðborunum hefur þróast upp ný leitartækni hjá ÍSOR sem kallast hefur jarðhitaleit á köldum svæðum (þurrum svæðum) og gengur slík leit út á að gera fjölda viðnámsmælinga eða bora margar 50-60 m djúpar ódýrar hitastigulsholur á tilteknu landsvæði og finna þannig út hvar grynnst er á nýtanlegan jarðhita til húshitunar (helst >60°C). Ef álitlegur valkostur finnst er nokkur hundruð metra djúp vinnsluhola boruð.“

Reykir
Lághitasvæði á Reykjanesskaganum eru t.d. yst á Reykjanesi, á Krýsuvíkursvæðinu, í Ölfusdölum, á Hengilssvæðinu og á Reykjavíkursvæðinu, s.s. á Reykjum í Mosfellsbæ og í Hvammsvík í Kjós.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/H%C3%A1hitasv%C3%A6%C3%B0i
-https://orkustofnun.is/jardhiti/jardhitasvaedi-a-islandi/hahitasvaedi/
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-i-brennisteinsfjollum
-https://www.isor.is/jardhiti-hengilssvaedinu
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-reykjanesi
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-krysuvik
-https://is.wikipedia.org/wiki/L%C3%A1ghitasv%C3%A6%C3%B0i
-https://www.isor.is/laghiti

Hverasvæði

Á hverasvæði Reykjaness.

Skessuhellir

Í Fréttablaðinu árið 2008 mátti lesa eftirfarandi um Svartahelli í Reykjanesbæ (Keflavík):
svartihellir-1Nýverið flutti óvenjulegur nýr íbúi inn í helli í Hólmsbergi við smábátahöfnina í Gróf í Reykjanesbæ. Það er fimm metra há og fjögur hundruð ára gömul skessa sem þó er með barnshjarta.
Það var Herdís Egilsdóttir rithöfundur sem skapaði skessuna og hún átti líka hugmyndina að því að skessuhellirinn yrði reistur á Reykjanesi nú. „Víða um lönd hafa verið gerð söfn í kringum sögupersónur úr barnabókum. Ég nefndi þetta við Árna Sigfússon bæjarstjóra og hann tók verkefnið strax upp á sína arma.“
Fjöllistahópurinn Norðanbál vann verkefnið í samstarfi við Ásmund Friðriksson verkefnisstjóra og réð útliti og stærð hellisins. Hann er hlaðinn í kringum smá skúta sem heitir Svartihellir en byggingin kostar tæplega sautján milljónir.
Allt sem tengist safninu er stórt í sniðum. Krakkar geta farið ofan í skóna hennar og stór fótsporin. Innanstokksmunir hellisins eru í sama stærðarflokki, borð, stólar og risarúm sem má skríða upp í. „Augu skessunnar eru á stærð við fótbolta og þau hreyfast. Svo andar hún og situr í ruggustól og prjónar þannig að safnið verður líflegt,“ segir Herdís. „Svo er hugmyndin að hengja fötin hennar á snúru meðfram veginum og mála sporin hennar á götur Reykjanesbæjar svo krakkarnir sjái hvar hún hafi verið.“
Herdís hefur skrifað fimmtán bækur um skessuna og vinkonu hennar hana Siggu. Nú er ný bók á leiðinni sem mun fjalla um ævintýri skessunnar í nýja bústaðnum á Suðurnesjum.

Heimild:
-Fréttablaðið 29 ágúst 2008, bls. 42.

Reykjanesbær

Svartihellir (Skesuhellir).