Eyjasel

Eyjadalur gengur inn í Esjuna að norðanverðu, og snýr í suður-landsuður. Hlíðarnar eru háar og brattar með lausaskriðum. Sel hefur verið í miðjum dalnum vestanmegin árinnar, sem eftir honum rennur. Við selið gengur upp afdalur dálítill á snið suðvestur í vesturhlíð dalsins, og kalla menn dalinn þar Hrútadal, en Seltindur heitir milli dalanna. Hvergi í Eyjadal er eins fagurt og hér. Hér sést yfir hinn innra hluta dalsins; grashlíðar og hóla, en fjöllin gnæfa himinhá báðum megin (M. Grímsson 1848).

EyjaselHermann Ingólfsson á Hjalla, fæddur að Eyjum, sagði seltóftir sjást enn vel neðan við Hrútadal. Um fjögurra km gangur væri að tóftunum. Amma hans og síðar móðurbróðir hefðu farið til selja í Eyjadal. Sá síðarnefndi væri enn á lífi (fæddur 1915) svo selstaðan þarna hefði ekki lagst af fyrr en liðið var á 20. öld. Stór steinhella hefði verið notuð sem hurð á dyrum selsins.
Gengið var frá bænum Sandi og haldið upp Eyjadal. Ætlunin var m.a. að skoða selsrústirnar í dalnum, þær sömu og Magnús Grímsson hafði lýst u.m.b. 160 árum fyrr.
Á leiðinni upp dalinn mátti sjá Möðruvallahálsinn á vinstri hönd. Á þá hægri er Sandsfjallið. Sandsá rennur um dalinn. Norðan í Möðruvallahálsi er Fellið. Hægra megin í dalnum má, þegar komið er inn fyrir miðjan dal, fyrst telja Myrkvagil, þá Irpugil, Hrútadal, Seltind og Suðurárdal. Hólatunga er innst í dalnum. Esjuhorn er efst að suðvestanverðu. Á vinstri hönd er Litlaskál innan við Dagmálahamar, þá Miðskál og Stóraskál. Innar er Norðurárdalur og Trana ofan hans að suðaustanverðu. Lækir úr hlíðunum koma úr nefndum skálum og heita eftir þeim; Litluskálarlækur, Miðskálarlækur og Stóruskálarlækur. Gamla reiðgatan liggur með hlíðinni að austanverðu. Hún sést enn greinilega. Þá götu var farið þegar riðið var um Svínaskarð og eflaust hefur hún einnig verið notuð sel selgata því hún kemur beint í selið ef farið er þeim megin að því.
Eyjasel - horft niður EyjadalÓbyggðum dölum eða afréttardölum í Reynivallasókn var m.a. lýst af Sigurði Sigurðssyni. Lýsir hann fjórum óbyggðum dölum eða afréttardölum. Fyrstur er Svínadalur, sem er sagður langur og grösugur, þá Sandsdalur eða Eyjadalur, sem er langur og liggur í suður inn í Esjufjallið og endar við Móskörð. Sá þriðji er Flekkudalur og er hann ekki langur. Sá fjórði er Meðalfellsdalur. Dalir þessir eru allir sagðir brúkaðir fyrir afréttir og beitiland handa búsmala á sumrum og hagbeita á vetrum.
Í lýsingu Reynivallasóknar frá 1840 segir að útbeitarlítið sé á vetri til frá Eyjum og að Eyjadalur tilheyri jörðinni. Eyjahóll er sagður eiga bæði lítið beitarland og útigang. Þar kemur einnig fram hvaða selstöður hafi verið í sókninnni og segir að til skamms tíma hafi selstaða frá Eyjum verið á Eyjadal.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 eru Eyjar sagðar 40 hundruð að dýrleika. Dýrleiki hjáleigunnar Eyjahóls er hinsvegar ekki getið en neðanmáls kemur fram að sýslumaður telji hana 6 hundruð af heildardýrleika Eyja.
Í kaflanum um jörðina Eyjar í jarðamatinu 1849-1850 kemur eftirfarandi fram: Utrymi mikið. Sumarland allgott. Vetrarhagar í minna lagi. Sömu orð eru höfð uppi um afbýlið Eyjahól.
Eftirfarandi yfirlýsingu er að finna í afsals- og veðmálabók Gullbringu og Kjósarsýslu: Þar sem það er óljós eignarrjettur okkar undirskrifaðra fyrir jörðunum Eyjum og Eyhól í Kjósarhreppi í Kjósarsýslu, þá biðjum vjer yður herra sýslumaður að færa til bókar og þinglesturs nú á manntalsþinginu, að eignarrjettur er á nefndum jörðum 7/8 partar, er skiptast að helmingi milli okkar.
Stekkur við EyjaselÍ Vilchinsmáldaga frá 1397 kemur eitt og annað fram um Eyjar. Í máldaga Eyjakirkju er að finna sömu upplýsingar og þegar hefur verið getið í máldaganum frá 1180. Ekki er getið réttar Reynivallakirkju til kastarskurðar í Eyjalandi eins og fram kemur í máldaganum frá 1352. Hins vegar er þar minnst á að Reynivallakirkja eigi sex hrossa beit í Eyrarlandi [Í fjórum öðrum handritum stendur: Eyjarlandi]. Í máldaga Ingunnarstaðakirkju kemur svo fram að kirkjan þar eigi séttung í Eyjalandi.
Ein af þeim jörðum sem Ögmundur biskup Pálsson gaf systursyni sínum Þórólfi Eyjólfssyni til kvonarmundar þann 27. ágúst 1538 voru hálfar Eyjar sem metnar voru til 15 hundraða. Í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar (1575) segir það sama og í máldaga Eyjarkirkju frá 1180. Í máldaga Reynivallakirkju segir að hún eigi sex hrossa beit í Eyrarland (ekki Eyjaland). Jafnframt kemur fram að kirkjan á Ingunnarstöðum eigi séttung í Eyjalandi.
Í Jarðabók Árna og Páls frá 1705 segir um Eyjar: Selstöðu á jörðin í heimalandi. Í lýsingu Reynivallasóknar frá 1840 segir að útbeitarlítið sé á vetri til frá Eyjum og að Eyjadalur tilheyri jörðinni. Eyjahóll er sagður eiga bæði lítið beitarland og útigang. Þar kemur einnig fram hvaða selstöður hafi verið í sókninnni Tóft neðarlega í Eyjadal - óskilgreindog segir að til skamms tíma hafi selstaða frá Eyjum verið á Eyjadal. Í Jarðatali Johnsens frá 1847 eru Eyjar sagðar 40 hundruð að dýrleika. Dýrleiki hjáleigunnar Eyjahóls er hinsvegar ekki getið en neðanmáls kemur fram að sýslumaður telji hana 6 hundruð af heildardýrleika Eyja. Egill J. Stardal getur sels í Kjósarhreppi í grein sem birtist árið 1985. Þar segir hann um Eyjadal: „Rústir sels frá hinu forna höfuðbóli Eyjum í Kjós eru niður við og vestan við Sandsá á móts við Stóruskál. Önnur mannabyggð hefur ekki verið inn í þessum dal.“
Margir minni lækir og grunn gil liggja úr hlíðunum, einkum að vestanverðu. Að þessu sinni hafði verið haldið inn dalinn þeim megin. Leiðin var þó greiðfærari en ella vegna snjóa er þöktu skorningana. Selið sést vel úr fjarlægð. Það er skammt ofan ármóta, neðan við Hrútadal. Bæjarhóllinn er nokkuð stór og vel gróinn. Stærsta rýmið er syðst. Dyr snúa í norður. Vel sést móta fyrir hleðslum í föllnum veggjunum. Í hólnum má greina tvö önnur rými. Skammt neðar (norðvestar) er hlaðin kví, að hluta frá náttúrunnar hendi. Enn norðar er hringlaga stekkur. Suðaustan við hann er einnig hringlaga hleðsla, hluti af stekknum.

Eyjadalur

Eyjadalur.

Á leið upp dalinn var gengið fram á mjög gamlar rústir, á bakka skammt ofan árinnar. Langhús er sunnar, en norðar er rúst með tveimur rýmum. Minjar þessar eru að mestu komnar í þýfi. Þarna gæti verið um að ræða frumbýlisleifar í dalnum.
Á eyri ofan Sandsáar, þriðjungi leiðarinnar, að vestanverðu sást einnig móta fyrir tóftum; tveimur húsum. Þessar rústir gætu hugsanlega skýrt skrifmuninn á Eyri og Eyjum. Þarna gæti hafa verið fyrrnefndur bær, en farið snemma í eyði.
Ef Magnús Grímsson hefur haft fyrir því að ríða inn Eyjadal þá hefur hann að öllum líkindum farið með hlíðinni að austanverðu. Þegar þar er komið að ási sést selið framundan sem og allur inndalurinn. Þá er selið vestan árinnar, en ef farið er að vestanverðu er selið austan árinnar. Ástæðan er sú að tvær ár, jafnstórar, koma saman neðan við selið. Á sumrum gæti vesturáin, úr Hrútadal, hins vegar orðið að læk og því varla merkjanleg frá öðrum slíkum í hlíðunum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-E .J. Stardal, “Esja og nágrenni.” Ferðafélag Íslands. Árbók 1985. s. 95-96.
-Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. 3. b. s. 405.
-Sigurður Sigurðsson, “Lýsing Reynivallasóknar 1840.” Landnám Ingólfs III. b. s. 248-249 og 257.

Eyjadalur

Eyjasel framundan.

Háspennumöstur

Háspennulínur fara æ meira í taugarnar á náttúruunnendum, útivistarfólki, leiðsögumönnum og ferðafólki.
Ferðaþjónustur bjóða gjarnan ferðafólki upp á óspillta náttúru og óraskað umhverfi. Þegar leitað er viðhorfs ferðafólks sFyrri tíma rask í hrauni á Reykjanesskaganumegja þeir það meginástæðu ferðalaga þess til landsins. Þegar hins vegar er af stað farið verður varla þverfótað fyrir háspennumöstrum. Slíkt er ástandið að leiðsögumenn verða að sæta lagi til að geta staðnæmst með ferðafólk á útsýnisstöðum þar sem mörstrin og línurnar leika ekki aðalhlutverkin.
Háspennulínur hafa verið nauðsynlegar því þær flytja rafmagn milli staða. Burðarvirki háspennulína eru ýmist úr timbri eða stáli og með eða án sérstakra undirstaða. Hönnunarforsendur taka m.a. mið af hugsanlegri áraun af vindi og ísingu. Spennuval ræður mestu um hvort byggingarefnið er valið. Þá ræður spennuval mestu um hæð mastra í háspennulínu. Af því helgast að nær sjálfgefið er að möstur í 220 kV línum eru nær undantekningarlaust byggðar upp af stáli og eru á steyptum undirstöðum. Helgunarsvæði slíkra lína er 65 – 85 m svo sérhver lína þarfnast umtalsverðs landrýmis. Gerð er sérstök krafa um fjarlægð leiðara (rafmagnsvíranna) frá jörðu. Fjarlægð er þeim mun meiri sem spenna er hærri. Helgunarrýmið ræðst í réttuhlutfallið við spennuna og hæðina. Með þessum flutningsmáta er það því í raun andrúmsloftið sem einangrar rafmagnið frá jörðu en sérstakir einangrar ýmist úr gleri eða postulíni einangra leiðara frá burðarvirkinu. Auk burðarvirkis háspennulínu eru mikilvægustu þættir línunnar leiðari (rafmagnsvírarnir) , einangraskálar, tengibúnaður og stagbúnaður. Þá eru margar háspennulínur með sérstökum jarðvír efst í burðarvirki til að taka við eldingum og verja endabúnað í spennustöð og leiða eldingarnar um burðarvirki til jarðar. Allt er þetta vel sýnilegt sæmilega sjándi fólki. Hin síðari ár hefur þó áhersla verið lögð á að háspennulínur falli sem best að því landi sem þær liggja um – með takmörkuðum árangri.
Aukin umræða hefur verið lagningu jarðstrengja í stað háspennulína. Ekki er langt síðan að allt flutningskerfi rafmagns hér á landi fór um loftlínur, einnig í þéttbýli. Tækniþróun gaf síðar kost á jarðstrengjum svo nú sést varla loftlína innan bæjarmarka sveitarfélaga. Og það er alls ekki svo langt um liðið.

Seinni tíma rask í hrauni á Reykjanesskaganum

Verst af öllu, hvort sem um er að ræða loftlínu eða jarðstreng, er þó allt það rask og náttúrueyðilegging sem því fylgir, ekki síst á órsökuðum svæðum, s.s. á Reykjanesskaganum. Verðfall hans sem eitt af náttúrudjásnum landsins verður umtalsvert ef heldur áfram sem horfir. Líkja mætti því við gengisfellingu eða verðhrun á fasteignamarkaði, hér við bæjardyr þorra Íslendinga og við dyrnar inn í landið. Fyrirhugaðar jarðvarmavirkjanir, með til heyrandi byggingum, vegarslóðum, borplönum, risarörum og ekki síst risavöxnum háspennulínum sem skera í augu, verða orsakavaldarnir, en þar ræður skammvitur maðurinn ferðinni eins og svo oft áður.
Til stendur nú t.a.m. að leggja að minnsta kosti tvær 30 metra háar háspennulínur að fyrirhuguðu álveri við Helguvík og stórskemma með þeim dýrlegt útsýni um skagann þveran og endilangan. Auk ferðafólks munu Vogabúar, Grindavíkingar og Sandgerðingar fá að súpa seyðið af því ef af verður.

Óraskað svæði þar sem fyrirhuguð er loftlína

Þegar stóð til að leggja nýja háspennulínu frá Henglinum að Straumsvík var línulagningunni mótmælt. Viðbrögð Landsnets voru að láta leggja orkudreifinguna í jarðstreng. Í fyrstu sagði skrifstofustjóri Landsnets að ekki kæmi til greina að leggja svo öflugar háspennulínur í jörðu þar sem kostnaðurinn við slíkt væri allt að tíu sinnum meiri en með því að reisa möstur. „Það er einfaldlega of mikið,“ sagði hann í samtali við Morgunblaðið. „Ástæðan fyrir hinum mikla kostnaði við að grafa línur í jörðu sé að einangrun fyrir línurnar sé afar dýr og í sumum tilvikum þurfi einnig að steypa undir þær. Viðgerð á jarðstrengjum taki einnig mun lengri tíma en loftlínu og það skipti verulegu máli fyrir rekstraröryggi álvera.“ Ekkert var t.d. minnst á hversu auðveldlega mönnum hefði tekist hingað til að greina með afar mikilli nákvæmni bilanir í sæstrengnum milli Íslands og Skotlands. Þá hafa menn ekki átt í neinum erfiðleikum með að staðsetja bilanir í öðrum jarðstrengjum, t.a.m. í þéttbýli. Ástæðan eru greiningarpóstar, sem auðvelt er að rekja ef á þarf að halda. Hvers vegna skyldi það verða eitthvað öðruvísu um aðra fyrirhugaða jarðstrengi?
Kostnaður við lagningu háspennulína í jörðu fer eftir því hversu flutningsgeta þeirra er mikil. Spennustig línunnar er mæld í kílóvoltum (KV). Samkvæmt (úreltum) Loftlínaupplýsingum frá Landsneti er jafndýrt að leggja 66 kV línur í jörðu og í möstrum eða í staurum. Ef línan er 132 kV er talið að um 30-50% dýrara sé að leggja hana í jörðu sem þýðir að hver kílómetri af jarðlögn myndi kosta um og yfir 20 milljónir í stað 15 milljóna í staurum. Háspennulína sem er 220 kV og lögð er í jörðu kostar um 4-6 sinnum meira en lína sem er lögð í möstur, í stað þess að hver kílómetri kosti 30 milljónir kostar hann því 120-180 milljónir. Þegar línan er 420 kV er kostnaður við að leggja í jörðu tífaldur. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti kostar hver kílómetri af 420 kV línu um 40 milljónir, sé hún lögð í möstur en myndi kosta 400 milljónir ef hún yrði lögð í jörðu. Þessar upplýsingar segja einfaldlega að það er alls ekki útilokað að leggja háspennulínu í jörðu – það er bara dýrara (eins og stendur). Auk þess myndu margfalt burðarmeiri jarðstrengur afkasta nokkrum loftlínum, sem nú eru til staðar. Þær eiga líka sinn takmarkaða líftíma. Lítið sem ekkert fé hefur verið lagt í rannsóknir og þróunarvinnu á hagkvæmari flutningi raforku hér á landi.

Þessar upplýsingar segja einfaldlega að það er alls ekki útilokað að leggja háspennulínu í jörðu – það er bara dýrara (eins og stendur). Auk þess myndu margfalt burðarmeiri jarðstrengur afkasta nokkrum loftlínum, sem nú eru til staðar. Þær eiga líka sinn takmarkaða líftíma. Lítið sem ekkert fé hefur verið lagt í rannsóknir og þróunarvinnu á hagkvæmari flutningi raforku hér á landi. Nánast öll þekking og efni eru innflutt. Af hverju og hversu lengi ættum við að sætta okkur við það? Ljóst er að takist sérfræðingum okkar að þróa nýja, hagkvæmari og umhverfisvænni flutningsleið á raforku myndi það óumræðanlega skapa landinu gríðarleg útflutningsverðmæti. Hvers vegna ekki að byrja? Þegar til stóð að leggja háspennustrenginn fyrirhugaða að álverinu í Straumsvík var sagt að það myndi verða 800 miljónum króna dýrara að grafa háspennustrengi vegna stærra álvers í jörðu en að hafa áfram loftlínur. Þann kostnað myndi Alcan greiða, samkvæmt samkomulagi fyrirtækisins við Landsnet. Ríflega níu kílómetrar af nýjum jarðstrengjum átti þá að leggja í lögsögu Hafnarfjarðar, en afleggja átti um 17 kílómetrar af loftlínum. Þegar upp var staðið virtist ágóðinn umtalsverður.
Útsýni ferðafólks til Helgafells af KrýsuvíkurvegiLeiða má líkur að því að í náinni framtíð komi stöðugt fram betri tækni við framleiðslu og nýtingu jarðstrengja. Draumsýnin er að þeir verði ekki grafnir í jörðu heldur verði lagðir á jörðu, þ.e. þeir verði afturkræfir með sem allra minnstu ummerkjum. Líftími mannvirkja, s.s. orkuvera, er takmarkaður við 60-80 ár. Jarðstrengir munu úreldast líkt og annað, jafnvel mun hraðar en nú er talið eftir því sem fram líða stundir. Það er því ástæðulaust að leyfa skammsýnum að ráða ferðinni í þessum efnum. Ekki má gleyma að ósnortin náttúra og óraskað umhverfi munu margfaldast að verðgildi eftir því sem tíminn líður – og komandi kynslóðir vaxa úr grasi.

Heimild m.a.
-Landsnet.
-www.grindavík.is
-Þorvaldur Örn Árnason.

Háspennumöstur

Háspennulínur ofan Hafnarfjarðar.

Fjóla Eiðsdóttir

Í Fjarðarfréttum árið 1969 birtist fróðlegt viðtal við Fjólu Eiðsdóttur undir fyrirsögninni „Af sjónarhóli húsmóður – Að standa einn í stríði lífs er sterkra manna dyggð„. Viðtalið er ekki einungis athyglisvert vegna dugnaðar og elju einstæðrar móður við uppeldi sex barna, sem henni tókst að halda að sér þrátt fyrir mótlæti þar sem lítils stuðnings samfélagsins var að vænta, heldur og vegna þess að í því koma fram gildin um veru barnanna bæði í Vinnuskólanum í Krýsuvík og á Barnaheimilinu Glaumbæ í Hraunum á þeim tíma. Um báða staðina er fjallað ítarlega hér á vefsíðunni.

Fjarðarfréttir

Fjarðarfréttir 1969.

„Fjarðarfréttir rabba að þessu sinni við Fjólu Eiðsdóttur, Hún fluttist til Hafnarfjarðar fyrir átta árum. Hún var þá þegar fyrirvinna sex barna á aldrinum eins til sjö ára. Í þessi átta ár hefur hún barizt ein áfram af slíkum dugnaði og myndarskap, að aðdáun hefur vakið hjá öllum, sem til þekkja.
Hvenær fluttist þú til Hafnarfjarðar?
— Það eru nákvæmlega átta ár síðan, á Jónsmessunni 24. júní, ég man það svo vel. Þá fluttist ég hingað með börnin, sem voru þá á aldrinum 1 til 7 ára.
Mestu erfiðleikarnir voru, að maður hafði ekkert húspláss. Ekkert. Ég kalla það ekki húspláss, eitt herbergi og eldhús fyrir sjö manna fjölskyldu. Það var svo erfitt, að það var ekki hægt að búa við það, þó að við værum tilneydd. Þegar ég svo fékk það húsnæði, sem ég er nú í, fyrir tveimur árum, fannst mér öllum erfiðleikum vera lokið.
Áttir þú ekki við veikindi að stríða fyrstu árin þín hér?
Fjóla Eiðsdóttir— Jú, það voru afleiðingar taugaspennu, ég ætlaði að hafa réttinn mín megin, og ég tel veikindin ekki hafa verið mjög alvarleg, enda náði ég mér strax og ég hafði náð rétti mínum. Það gera sér ekki allir grein fyrir því, að það eru til lög, og ég þurfti að berjast harðri baráttu fyrir rétti mínum og barnanna. Ég var alveg gallhörð á því, að það væru til lög og ég skyldi fara eins langt eins og ég kæmist, og það hef ég gert og skammast mín ekkert fyrir það.
Það hefur oft á tíðum verið erfitt hjá þér og þröngt í búi?
— Já ég gat sjaldan hugsað lengra en að eiga til dagsins, hitt þýddi ekkert. Ég var alveg ánægð, ef ég átti einhvern bita til morgundagsins. Ég vissi alltaf að okkur myndi leggjast eitthvað til. Það voru miklu meiri erfiðleikar að eiga ofan í sig að borða, þegar ég var í Grindavík en eftir að ég flutti í Hafnarfjörð. Grindavík var þá annað verðlagssvæði hjá tryggingunum en Hafnarfjörður og það munaði töluvert miklu, hvað ég fékk meira til að lifa af, þegar ég kom hingað. Fjölskyldubætur fékk ég ekki fyrstu árin. Það eru aðeins rúm tvö ár síðan konur, sem eru einar með börnin sín fóru að fá fjölskyldubætur greiddar.
Fjóla Eiðsdóttir
Ég þurfti að liggja á sjúkrahúsi um skeið nokkru eftir að ég kom til Hafnarfjarðar. Það var að vísu erfitt að skiljast við börnin, en ég vissi, að ég varð að gera það til að jafna mig eftir taugaspennuna. Ég vissi líka, að það væru til lög og gott fólk, svo að það færi ekki illa um börnin þann tíma.
Eftir að þú komst í betra húsnæði og náðir fullri heilsu aftur, hefur þú þá unnið úti?
— Já ég vinn í Reykveri frá kl. 7.20 f.h. til 7 á kvöldin. Ég hef unnið þar síðan fyrirtækið var stofnað.
Er þá ekki geysileg vinna eftir, þegar komið er heim að lokinni vinnu?

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnuskólinn (HH).

— Jú, það er nú oft mikil vinna eftir. Ég verð að byrja á því að elda matinn og sameina fjölskylduna yfir einni heitri máltíð á dag. Ég verð alltaf að fara á fætur kl. 6.00 og taka til fötin, sem þau eiga að fara í, og segja þeim alveg hvað þau eiga að gera yfir daginn. Það bregst varla, að þau fari eftir því. Þegar þau voru í Glaumbæ og vinnuskólanum í Krýsuvík lærðu þau að brjóta saman fötin sín og ganga frá þeim. Mér finnst það hafa hjálpað okkur geysimikið allt, sem þau lærðu þar, auk þess, sem það var mikill hjálp að geta komið þeim þangað á sumrin. í hádeginu hef ég oft getað lagt mig, því að þau taka sjálf til hádegismatinn og elzti sonurinn, sem nú er kokkur á bát hefur stjórnað eldamennskunni.
Á kvöldin er föst regla, að hver gengur frá sínu. Þau brjóta fötin sín vel saman og laga til í herberginu. Það verður að vera föst regla og góð samvinna á heimilinu. Það eru margir, sem hneykslast á því, að ég skuli vinna úti og halda, að þetta sé ekki hægt. Já, það hneykslast margir. Fólk heldur, að maður vanræki börnin mikið með þessu, en ég vil meina, að þetta sé bæði skóli fyrir mig og krakkana líka. Þau læra mikið af þessu. Fyrst ætluðu þau að fara að klaga öll í einu, eitthvað sem hafði skeð yfir daginn, en nú kemur það aldrei fyrir, að það sé neitt. Ég þarf aldrei að skipta mér af heimanáminu hjá þeim. Þau eru samvizkusöm, sem betur fer og ég held, að ég fengi þau ekki í skólann, ef þau væru ekki búin að læra.
Hvað ræða börnin um framtíðina?

Glaumbær

Glaumbær í Hraunum.

— Þau náttúrulega ræða um framtíðina. Þessi ætlar að verða þetta og hinn hitt, en maður veit aldrei hvað verður. Ég ætlaði t. d. að verða kennari, en það fór allt á annan veg. Föðurbróðir minn kenndi mér í barnaskóla, og ég og dóttir hans vorum alltaf að keppa. Hún hafði það af að verða kennari, en ekki ég. Ég sagði oft, að það gæti verið, að ég kæmist í skóla, þegar ég væri orðin gömul og hef alltaf huggað mig við það, en krakkarnir verða nú að sitja fyrir, svo að ég kemst sjálfsagt aldrei í skóla,
Nú hefur þú barizt áfram ein með þín sex börn í átta ár. Hvaða hugsun er það, sem grípur þig, þegar þú lítur til baka?
— Ég hugsa bara ekkert um það. Ekki neitt. Það er nokkuð, sem ég forðast alveg að fara að hugsa um. Þá getur maður farið að hugsa margt. Ég hugsa fyrir morgundeginum. Ég set mér mark að keppa að, og þegar ég er búin að ná því, set ég mér annað mark, og svo koll af kolli. Ég hef lögin með mér, og ég hef notfært mér það, en um það, sem liðið er, hugsa ég ekki.“

Heimild:
-Fjarðarfréttir, 3. tbl. 02.06.1969, Af sjónarhóli húsmóður – „Að standa einn í stríði lífs er sterkra manna dyggð“, bls. 9.

Fjóla Eiðsdóttir

Fjóla Eiðsdóttir og börn 1960.

Skógfellavegur

Gengið var um Arnarsetur til austurs, yfir hraunið að Stóra-Skógfelli. Ætlunin var að skoða hvort enn mætti sjá leifar flugvélar, sem þar eru sagðar vera. Flugmaður, sem flogið hefur yfir svæðið nokkrum sinnum, kvaðst stundum sjá sólarljósið endurspeglast þar af glerbrotum á stóru svæði, auk þess sem hann hefði orðið var við brak í suðaustanverðu fellinu. Ekki leggja þó fyrir heimildir um flugslys á þessum stað.

Arnarsetur

Arnarsetur.

Eftir að hafa skoðað megingíginn í Arnarsetri var haldið eftir stíg í gegnum hraunið. Mikil efnistaka hefur átt sér stað í Arnarsetri, en allt um kring má enn sjá merkar náttúruminjar í Arnarseturshrauni. Stór og mikil hrauntröð er norðan við gíginn og önnur vestan við hann. Í og við þá tröð eru nokkrir hellar. Fallegur hellir er einnig norðan við nyrðri hrauntröðina. Landssvæðið er að hluta til í óskiptu landi Þórkötlustaðabæjanna sex; Þórkötlustaða (Austurbæjar, Miðbæjar og Vesturbæjar), Klappar, Einlands og Buðlungu. Austurmörkin liggja frá mörkum Hrauns í Markarbás, um Húsafjall, Skógfellin og í Arnar

klett sunnan Snorrastaðatjarna, þaðan í Seltjörn og úr henni í beina línu í Markastein í fjöruborðinu u.þ.b. 60 metrum vestan við Hópsnesvita. Talsvert hefur verið ekið af jarðvegi í gryfjurnar, auk þess enn er verið að taka þar efni – í algeru leyfisleysi að því er virðist. Svo er að sjá að eftirlitsaðilar í Grindavík hafi ekki fylgt nægilega vel eftir takmörkunum á efnistökum í gamalli námu sem þessari eða umgengni um svæðið, sem er jú í umdæmi bæjarins.

Skógfell

Stóra-Skógfell – Sandhóll nær.

Hitt er svo annað mál, að sorglegt er til þess að vita, hvernig farið hefur verið með annars verðmætt umhverfið þegar til lengri tíma er litið.
Arnarseturshraun (apal) er á leiðinni til Grindavíkur. Það er frá sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. ISOR telur Arnarseturshraun vera frá Reykjaneseldunum á 13. öld, sennilega frá árinu 1226. Það er því með yngstu hraunum á Reykjanesskaganum.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun.

Frá því að land byggðist er talið að um 12 hraun hafi runnið á Reykjanesskaga eða að meðaltali eitt hraun á öld. Hraunin runnu þó einkum á tveimur gostímabilum: um 1000 og um 1300. Síðara tímabilið gengur undir fyrrnefnda nafninu Reykjaneseldar.
Flest eldgos á Reykjanesskaga, og raunar á Íslandi öllu, verða þannig að fyrst opnast sprunga og gýs hún öll í byrjun. Síðan takmarkast eldvirknin við einstaka staði þar sem gígbarmar hlaðast smám saman upp. Goskeilurnar deyja síðan hver af annarri þar til gosi lýkur og gígaröðin stendur ein eftir. Gos getur varað allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkrar vikur.

Í blandgosum, þar sem háir kvikustrókar þeyta kvikuslettum hátt í loft upp, hrúgast upp háir og reisulegir gjall- og klepragígar, líkt og Arnarseturshraunsgígurinn. Þeir eru með skarð í gígveggnum þar sem apalhraun hefur runnið út. Apalhraun er gert úr kviku sem rennur eins og seigfljótandi síróp. Hraunstraumurinn skríður eða veltur hægt fram og er jaðarinn jafnan mjög brattur. Yfirborð hraunanna er mjög úfið og þekkjast þau því auðveldlega.

Skóf

Skóf.

Í flæðigosum verða hins vegar engir kvikustrókar. Í þeim flæðir þunnfljótandi kvikan líkt og lækur undan halla og myndar hraun, gert úr mörgum þunnum lögum. Slík hraun hafa slétt yfirborð líkt gangstéttarhellum. Ofan á þeim eru hraunreipi sem myndast líkt og hrukkur í súpuskán. Gígar, sem myndast þegar helluhraun rennur, kallast eldborg eða dyngja eftir því hve lengi gosið hefur staðið. Báðar eru lágir og víðáttumiklir hraunskildir sem oftar en ekki er erfitt að greina í landslaginu. Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum. Kvikusletturnar hlaða upp kringlóttan, þunnan og lágan gígvegg sem hvergi er skarð í. Kvikan rennur nefnilega úr gígnum um göng undir storknu yfirborði hraunsins sem rann í byrjun gossins. Þegar gosinu lýkur tæmast göngin og mynda langa hraunhella.

Arnarsetur

Arnarseturshraun.

Arnarseturshraun er í rauninni sambland af hvorutveggja þó einkenni helluhraunsins séu þar meira áberandi.
Nú, 1879, þekja hraungambri og aðrar mosategundir Arnarseturshraunið að mestu. Grámosi eða gamburmosi er þessi mosi nefndur í daglegu tali, en hefur hlotið tegundarheitið hraungambri (Racomitrium lanuginosum). Þetta er einn algengasti og mest áberandi mosinn á öllum suður- og vesturhluta Íslands svo og í strandhéruðum Austurlands. Hann er einn fyrsti landneminn í nýjum hraunum.

Mosi

Mosi.

Við úthafsloftslag á snjóléttum svæðum verður hann einráður á allmörgum áratugum, og myndar samfelldar, mjúkar mosaþembur á 100 ára gömlum hraunum og eldri. Á snjóþyngri svæðum með landrænna loftslagi nær hann ekki að kveða niður keppinauta sína, sem þá verða stundum ráðandi í gróðurfari, einkum hraunbreyskja.

Stóra-Skógfell er úr bólstrabergi af svipaðri gerð og Sandfell, Stapafell og Súlur. Þegar komið var langleiðina að fellinu var komið í grónara hraun; Skógfellahraun. Skógfellahraun er miklu mun eldra og liggur undir Arnarseturshrauni. Skógfellin, bæði Stóra- og Litla-, eru gamlir eldgígar, sem veður, vindar, vatn og ís hafa náð að „aflaga“. Haldið var upp með fellinu að norðanverðu. Í raun er um að ræða tvo toppa á fellinu, en sá austari er hærri. Milli þeirra er háls. Gígurinn er gróinn. Fjárgata liggur um hálsinn. Í hliðunum erum ýmsar fléttur, kræður og glæður. Blóðberg- og lambagrasskollarnir settu svip á hlíðarnar. Á toppi toppanna eru litlar vörður. Útsýnið af austari toppnum til suðurs yfir Sundhnúkaröðina er einstök, sem og útsýni yfir gíg skammt austar og Sandhólinn, sem í raun er lítill gígur úr eldra hrauni.

Arnarseturshellar

Í Arnarseturshellum.

Haldið var skáhallt niður með hlíðunum. Á hálsi utan í vestari toppnum sást járnbrak og gulmálað dekk með axlaböndum björgunarsveitargallans. Sólin sendi geisla sína niður á fellið og glytti fallega á blauta smásteinanan. Þarna gæti verið komin skýring á „tálsýn“ flugmannsins.
Ágætt útsýni er af Stóra-Skógfelli. Vestan við það er Gíghæðin, Þaðan sem lagt var af stað. Í austri blasir Fagradalsfjallið við með sína fylgifiska s.s. Sandhól og Kastið þar sem enn má sjá leifar flugvélar þeirrar er Andrews yfirhershöfðingi fórst með.
Sunnan Stóra-Skógfells liggur vegurinn austan undir fallegri Sundhnúksgígaröðinni, sem er um 8 km löng, og áfram að Sundhnúk sem er aðal gígurinn og stendur hann norðan við Hagafell. Gígaröðin er á Náttúrminjaskrá og á að varðveitast sem slík. Utar er Sundhnúkurinn sjálfur í allri sinni reisn.
Norðan Stóra-Skógfells sést vel yfir að Litla-Skógfelli. Skógfellagatan liðast á milli þeirra, sorfin í helluhraunsklöppina eftir hófa og fætur liðinna alda.

Arnarssetur

Arnarssetur – skjól.

Þegar gengið var á ská niður hlíðina á norðanverðu fellinu hljóp lítil aurskriða af stað skammt utar. Áhrifaríkt var að sjá og heyra hvernig skriðan fór af stað, fyrst hægt, en jók síðan hraðann uns hún óx að afli eftir því sem neðar dró – uns hún dó – áður en komið var alveg niður að rótum fellsins.
Skoðaðir voru nokkrir hellisskútar utan í Arnarsetri. Einn þeirra, utan í megingígnum, er yfir 20 metra langur með fallegum hraunmyndunum. Hann hafði ekki verið skoðaður áður. Í öðrum virtist þursmynd vera við opið. Meginhrauntröðin er mikilfengleg. Utan í henni á einum stað eru einstaklega litskrúðugar hraunmyndanir. Fyrir áhugasamt fólk um jarðfræði væri sennilega hægt að dvelja þarna heilan dag án vitundar um tíma og rúm. Litirnir í berginu eru einstakir, auk þess sem finna má þarna ótal hraunmyndanir og jarðmyndanir án mikillar leitar.

Arnarsetur

Arnarsetur – skjól.

Í nyrðri hrauntröðinni eru ótal skútar og lesa á hinar ýmsustu fígurur út úr hraunmyndunum í börmum gjárinnar. Efst á sjálfu Arnarsetrinu er líkt og fuglshöfuð og skammt norðar er þar bergþurs er horfir frjáum augum til vesturs, eftir vestari hrauntröðinni. Eflaust gætu hraunfræðingar, sem gefa sér tíma til að lesa hraunið, sagt talsvert um slíkar hraunmyndanirnar með hliðsjón af myndun þeirra og tilurð. Slíkt gæti orðið hinn áhugaverðasti fyrirlestur.
Frábært veður. Þægileg rigningin lék aðalhlutverkið í fyrstu, en á það ber að líta að um skírdag var að ræða og þá nota Grindvíkingar tækifærið og skíra allt óskírt á einu bretti. Sólin leikur aðalhlutverkið á svæðinu aðra daga, enda náði hún vel í gegn þess á milli.
Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.nat.is/
-http://www.isor.is/

Arnarsetur

Arnarsetur og nágrenni – örnefni.

Reykjanesviti

Í minnum manna skartaði Reykjanesviti skjaldarmerki Danakonungs – allt frá víxlu hans hinn 20. mars 1908 og fram til um 1970, eða í rúm 60 ár.
Reykjanesviti-fyrsti vitinn 1878Merkið þótti bæði stórt og myndarlegt, enda bæði góður vitnisburður um tilvist konungs og viðurkenningu hans á mikilvægi mannvirkisins. Hjá sumum hefur jafnvel sú minning lifað að konungur hafi sjálfur komið hingað til lands og verið viðstaddur afhendingu skjaldarmerkisins. Fyrir því stendur þó enginn stafur í skráðum heimildum. Í dag er ekki að sjá ummerki eftir skjaldarmerkið á vitahúsinu. Í ljósi þess er nauðsynlegt að skoða eftirfarandi skrif. –
Í „Sjómannablaðinu“ árið 1998 má lesa eftirfarandi um fyrsta vitann á Íslandi: „Fyrsti viti á Íslandi var byggður á Valahnúk á Reykjanesi. Það var hinn 1. desember 1878 að kveikt á Reykjanesvitanum og hann þar með tekinn formlega í notkun. Árið 1897 voru gerðar endurbætur á Reykjanesvita, en hann var orðinn illa farinn, einkum vegna jarðhræringa.
Jarðhræringarnar urðu það afdrifaríkar fyrir Reykjanesvitann að árið 1907 var svo komið, að verulega hafði hrunið úr Valahnúknum og ekki nema 10 m frá vitanum fram á brún, en holt undir og allt sundursprungið. Neitaði vitavörðurinn að vaka í vitanum, og var úr því ákveðið að byggja nýjan vita á Bæjarfelli [Vatnsfelli], sem er hóll nokkru ofar en Valahnúkur. Var nýi vitinn var reistur árið 1908, úr grjóti og steinsteypu, 22 m á hæð upp á pall, sívalur að innan, 2.5 m í þvermál, en keilumyndaður að utan, 9 m í þvermál neðst en 5 m efst. Er því veggþykktin 3.25 m neðst og 1.25 m efst“.
Í „Sjómannablaðinu Víkingur“ árið 1978 var þetta skrifað: „Fyrsti vitinn hér við land var Reykjanesviti, en hann var byggður 1878 og var kveikt á honum 1. desember það ár.
Síðan gerðist ekkert fyrr en 1897, en þá voru byggðir þrír Reykjanesviti 1944vitar. Þeir voru Garðskagaviti, Gróttuviti og vitinn sem stóð í Skuggahverfinu í Reykjavík. Upp úr aldamótunum fer svo þróunin að verða nokkuð hröð. Á þessum upphafsárum voru olíulampar ljósgjafinn í vitunum og brenndu þeir steinolíu.
Olíulamparnir kröfðust mikillar natni af vitavörðunum, sem auk þess að sjá um að næg olía væri fyrir hendi urðu að gæta þess að halda kveiknum og lömpunum hreinum og svo framvegis. En þess ber að geta að um aldamótin var ljósabúnaðurinn sérlega vandaður og mikið í hann lagt. Þetta var hreinasta völundarsmíð. Allt gler var handslípað, svo sem ljósakrónurnar og ljósbrjóturinn sem magnar upp ljósið. Þessi tæki eru enn í notkun sums staðar úti á landi, orðin hátt í aldargömul, en tvö þau elstu eru geymd sem safngripir á Siglingastofnun. Annað er úr eldri Garðskagavita og er frá 1897, en að sjá sem nýtt væri.“
Reykjanesviti-sjoldur-2Í „Óðni“ árið 1907 er sagt frá konungsskiptum í Danmörku: „Fyrir rjettu ári flutti »Óðinn« mynd Kristjáns konungs IX., sem, eins og kunnugt er, andaðist 29. jan. síðastl. og blöð okkar hafa einróma talið Íslandi allra konunga bestan. Friðrik konungur er fæddur 3. júní 1843, en Lovísa drotning 31. okt. 1851.“
Í „Skólablaðinu“ árið 1912 er þess getið að Friðrik VIII hafi dáið þann 14. maí 1912.
Í „Bjarma“ árið 1907 segir: „Hans hátign Kristján X. tók við konungdómi 15. maí 1912, þegar hinn vinsæli konungur Friðrik VIII. féll svo sviplega frá.
Fyrstur konunga vorra hafði faðir hans, Kristján IX., heimsótt land vort, á þjóðhátíðinni 1874, þegar hann kom með frelsisskrá í föðurhendi. Enginn Danakonungur hafði fyr stigið fæti á frónska grund. Friðrik VIII. heimsótti land vort, sumarið 1907. Þá voru sjálfstæðismál þjóðarinnar efst á baugi. Þá voru ungmennafélögin í uppsiglingu og fánamálið framarlega á dagskrá. Friðrik VIII. talaði í veizlu á Kolviðarhóli, um »ríkin tvö«, og þótti Íslendingum það vel mælt, en Dönum miður. Friðrik konungur hafði mikinn áhuga fyrir því, að látið væri að óskum Íslendinga um meira frelsi. En tilraunir þær, sem gerðar voru í hans tíð, mishepnuðust, og svo féll hann sviplega frá 1912.“
„Heimilisblaðið“ 1937: „Hinn 10. þ. m. kemur Friðrik IX. Danakonungur og Ingiríður drottning hans í opinbera heimsókn til Íslands, og er þetta sjöunda konungskoman í sögu landsins, en FReykjanesviti-skjoldur-3riðrik IX er fjórði konungurinn, sem sækir landið heim. Fyrstur kom langafi hans, Kristján IX., á þúsund ára afmæli byggðar landsins 1874; þá afi hans, Friðrik VIII., árið 1907 og loks faðir hans, Kristján X., en hann kom fjórum sinnum til Íslands í valdatíð sinni, árin 1921, 1926, 1930 og 1936.“
Í „Sunnudagsblaðinu“ árið 1956 er sagt frá því að „þann 20. mars 1908 var kveikt á núverandi Reykjanesvita sem er 73 metra yfir sjávarmáli“.
Loks segir frá byggingu þriðja vitans á Reykjanesi í „Morgunblaðinu“ árið 1998: „Árið 1947 var síðan Litliviti byggður á bjargbrúninni skammt austan við Blásíðubás. Sama ár voru ný hús byggð yfir vitavörðinn í stað þeirra eldri, sem ummerki sjást ekki eftir í dag“.
Ekki er getið um skjöldinn í bókinni „Vitar á Íslandi“ frá árinu 2002. Hann (þeir) hangir uppi á vegg Siglingastofnunar að Vesturvör 2 í Kópavogi, tignarlegir á að líta og greinilega vel um haldið. Þegar FERLIR hafði samband við stofnuna brást starfsmaður hennar, Baldur Bjartmarsson, mjög  vel við; upplýsti um tilvist skjaldarins og gaf góðfúslega kost á ljósmyndun hans.
Skjöldurinn sjálfur, sem er úr pottjárni og nánast mannhæðar hár, er með skjaldarmerki Kristjáns IX. og kórónu að ofan. Undir er spjald með áletrunni 1908 (MCMVIII). Til hliðar er annar skjöldur, minni, einnig úr pottjárni, með skjaldarmerki Friðriks VIII., en sá skjöldur hafði verið skrúfaður hafði verið yfir hinn.
Reykjanesviti-skjoldur-4Spjald við skjöldinn á vegg Siglingastofnunar: „Fyrsti viti á Íslandi var byggður á Reykjanesi 1878 og endurbyggður á öðrum stað 1908. Þetta konungsmerki var sett á seinni bygginguna. Eftir að Friðrik VIII. tók við stjórnartaumunum var neðra merkið sett yfir það fyrra“.
Hafa ber í huga, samanber ofangreint, að Friðrik VIII. var konungur yfir Íslandi þegar vitinn var vígður, en ekki faðir hans Kristján IX., sem dó 1907. Líkast til hefur skjöldurinn þegar verið mótaður í tíð Kristjáns, en honum síðan breytt viðeigandi eftir andlát hans.
Að sögn Konráðs Óla Fjeldsteds man vel eftir skildinum á vitanum. Hann hefði verið settur upp í tilefni af víxlu hans 1908. Flaggað hafði verið með hárri flaggstöng og stórum dönskum fána á Stanghól gegnt vitavarðarhúsinu af því tilefni. Sjálfur hefði hann haldið að konungur, Friðrik VIII., hefði komið til landsins af því tilefni, en þó hafi það ekki verið víst, sjálfur væri hann fæddur 1943. Skjöldurinn hefði síðan hangið uppi allt þangað til vitinn var múraður síðast, líklega um 1970. Þá hafi skjöldurinn verið færður inn eftir og ekki sést síðan. Skjaldarmerki konungs hefði einnig verið á ljósakúplinum í vitanum. Áður hefði verið þar gaslukt, en konungur hefði einnig gefið nýtt ljósker í tilefni víxlunnar.
Þarna er kominn skýringin á skjaldarmerkinu sem og á þeim tveimur merkjum konunga Íslands sem og tilvist þess á nýjum stað.
Skjaldarmerkið verður 105 ára á þessu ári (ef miðað er við uppruna þess). Því má með sanni telja það til fornminja sbr. ákvæði þjóðminjalaga. Lagt er þó til að skjaldarmerkið (skjaldarmerkin) umrædda verði fært aftur á upprunalega sögustaðinn – á Reykjanesvitann, þar sem það myndi sóma sér vel og vekja forvitni og aðdáun ferðamanna á svæðinu um ókomna tíð.

Heimild:
-Sjómannablaðið, 61. árg. 1998, 1. tbl., bls. 119.
-Baldur Bjartmarsson, Siglingastofnun.
-Sjómannablaðið Víkingur, Steingrímur Jónsson, 40. árg. 1978, 11.-12. tbl. bls. 21-26.
-Óðinn, 2. árg. 1906-1907, 1. tbl. bls. 2.
-Skólablaðið, 6. árg. 1912, 6. tbl., bls. 81.
-Bjarmi, 1. árg. 1907, 14. tbl., bls. 105.
-Heimilisblaðið, 26. árg. 1937, 5. tbl. bls. 67.
-Sunnudagsblaðið, 8. apríl 1956, bls. 129.
-Morgunblaðið 1. des. 1998, bls. 78.
-Vitar á Íslandi, Leiðarljós á landsins ströndum 1878-2002, Guðmundur Bernódusson, Guðmundur L. Hafsteinsson og Kristján Sveinsson, Siglingastofnun, 2002.
-Konráð Óli Fjeldsted, f. 1943, Reykjanesbæ, sonur Sigurjóns Ólafssonar vitavarðar í Reykjanesvita.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Hraun

Eftirfarandi frásögn er úr Lesbók MBL 1950:
„Þessi mynd úr ferðabók Charles S. Forbes, er ferðist hjer um land 1859. Henni fylgir þessi lýsing á leiðinni frá Hafnarfirði suður á Ketilstíg: „Áfram, áfram var haldið, reynir vindur og regn mjög á hlífðarföt vor og fótabúnað. En við

Kapelluhraun

Ferðast um Kapelluhraun – teikning frá 19. öld.

höfum vindinn á eftir og það flýtir fyrir okkur. Óhugsandi hefði verið að ferðast á móti honum. – Alls stað er er sama tilbreytingarleysið. Stundum liggur vegurinn yfir helluhraun og stundum yfir holuhraun. Það er hættulegt, einkum vegna þess hvað við förum greitt, því að í gegn um sprungur og gjótur getum við sjeð niður í hella, sem myndast hafa af gufum og er þakið á þeim stundum eitt eða tvö fet á þykt, en stundum ekki nema fáir þumlungar. Um veginn sjálfan er það að segja að hann var eins og gjallhrannir úr járnbræðsluofni, en þar sem hann var eitthvað skárri, var hann krókóttur og sleipur. En litlu, gáfuðu hestarnir okkar gerðu hvorki að hnjóta nje detta. Það var dásamlegt hvernig þeir reyndust. Jeg hefði ekki trúað því að hægt væri að ferðast ríðandi, ef jeg hefði ekki horft á leiðtoga okkar, stiftamtmanninn, sem altaf var á undan. Það hefði ekki verið þægilegt að detta hjer af baki, því að alls staðar er yfirborðið glerhart eins og járn. Á myndinni má betur sjá hvernig höfundi hefur funndist vegurinn. Það er engu líkara en að þeir fjelagar þræði háeggja Sveifluháls. Í baksýn sjer út á flóann og er sólin að setjast við Snæfellsjökul. Er nokkur mótsögn í því og lýsingu hans á veðrinu.“
Líklegra er að myndin sýni Helgafell í baksýn ef leið þeirra félaga hefur legið til Krýsuvíkur.

Heimild:
Mbl. 5. nóv. 1950.

Helgafell

 

Vatnsendi

Stefnan var tekin á Vatnsendahlíð. Ætlunin var að skoða þar sitt hvora fornleifina, báðar leifar breitarhúsa.

Beitarhúsatóftin

Beitarhús frá Vatnsenda á Vatnsendaheiði.

Árið 1807 var með konungsboði sett á laggirnar nefnd til varðveislu fornminja í Danmörku og nýlendum hennar. Árni Helgason (1777 – 1869), dómkirkjuprestur í Reykavík árin 1814 – 1825, svaraði nefndinni árið 1821. Í fornleifaskýrslu sinni telur hann upp þrjá gripi, alla tilheyrandi Dómkirkjunni í Reykjavík. Í bréfi til Finns Magnússonar, dags. 1. mars sama ár, barmar Árni sér yfir fátækt sóknarinnar. Hann segir: „Hún er fyrst ein sú fátækasta á landinu af gömlum Menjagripum, þad sem hingad hefur komid, er jafnodum burtflutt til Kaupenhavnar af þeim utlendu er hellst hafa reist um sudurland. Af Sogum vorum er ecki ad ráda ad her á Nesi hafi nockud Hof verid i fornöld, þes siást ej heldur Menjar. Eingin veit her til Hauga, nema Óbóta manna sem dysiadir eru nálægt Kopavogi, Þingstad fornum her i Sveit. Þad er furdulegt ad í þeim stad sem fyrst bygdist á landinu skuli hvérgi siást neitt þeirra handaverk og nærri hvergi í Sögum getid þeirra sem hér hafa búid.“

Beitarhúsatóftin - syðsti hlutinn

Beitarhús frá Vatnsenda á Vatnsendaheiði.

Lýsingar af þessu tagi voru algengar um allt land og ekkert einsdæmi að prestar teldu sínar sóknir skorta fornaldarminjar jafnt sem önnur gæði. Í bréfi sem Árni prestur sendi með skýrslu sinni dagsettu þann 20. júní 1821 skýrir hann nánar út ástæður þess að á hans ófrjósama landshorni finnist ekkert markvert, þrátt fyrir að sjálfur Ingólfur Arnarson hafi numið þar land. Hafa ber í huga þegar þetta var skrifað í byrjun 19. aldar voru þær minjar, sem nú eru friðlýstar og þykja merkilegar, hluti af „nútímanum“ og því lítt merkilegar. „Til eru aðrar heimildir en skriflegar um byggð í Kópavogi, en það eru fornleifarnar sem þar finnast. Margt er enn ósagt um þær, aðeins nokkrar þeirra hafa verið rannsakaðar og engar þeirra alveg til fulls.“

Vatnsendaheiði

Beitarhús á Vatnsendaheiði.

Í Fornleifaskrá Kópavogs, 2000, eftir Bjarna F. Einarsson, er getið um tvær fornleifar á hæðum ofan Vatnsenda, auk tveggja varða, á og við Vatnsendahlíð. Hin fyrrnefnda er „rúst (stekkur?) undir Vatnsendahvarfi. Rústin er fornleg að sjá. Ekki er sennilegt að um stekk sé að ræða, mun heldur beitarhús frá Vatnsenda. Uppblástur er einhver við rústina og tryggja þarf að hún verði honum ekki að bráð, annaðhvort með því að stöðva uppblásturinn eða rannsaka rústina. Með vaxandi byggð mun rústinni stafa ákveðin hætta og áður en að hún fer að verða fyrir spjöllum þarf að rannsaka hana til að komast að tegund hennar og aldri.

Vatnsendi

Beitarhús frá Vatnsenda við Litlabás.

Fallegar hleðslur

Vegghleðsla í beitarhúsinu á Vatnsendaheiði.

Hin er beitarhús suður af Litlabás. „Eins og algengt er þá er beitarhúsið ekki langt frá landamerkjum Vatnsenda og Vífilsstaða. Þannig var hægt að nýta betur sitt eigið land og jafnvel land nágrannans einnig. Húsið er eitt tveggja beitarhúsa í Kópavogi (eða á hinu skráða svæði) og það elsta. Svæðið í kring um beitarhúsið er kjörið útivistarsvæði og mætti hugsa sér að nýta það til að segja sögu fjárbúskapar fyrr á öldum.“ Um þessa fornleif ofan við Litlabás segir ennfremur: „Beitarhús, engin hætta á raski, ágætt ástand, aldur 1550-1900 og minjagildi talsvert.“
Rústin stendur nokkuð hátt í grasi gróinni hæð. Af byggingarlagi að dæma má telja líklegt að rústin, sem er þrískipt; tvö fjárhús og heimkuml, sé frá því á seinni hluta 19. aldar. Veggir eru vandlega hlaðnir og tiltölulega sléttu mógrjóti, sem líkega er meginástæða staðsetningarinnar, auk þess sem vænlegt hefur þótt að hafa hana á vinsælum stað svo snjó festi síður við húsin. Þá hefur svæðið allt og verið kjarri vaxið og því ekki mörgum öðrum stöðum til að dreifa en þarna á hæðinni. Veggir standa nokkuð vel og má vel sjá byggingarlagið. Hlaðinn garður er eftir miðju syðstu tóftarinnar. Vandað hefur verið til verka. Fróðlegt væri að vita hver, eða hverjir, hafi verið þarna að verki. Líklegt má telja að fjárhús þetta hafi verið frá Vatnsenda. Mun stærri fjárhústóftir frá Elliðavatni er ekki svo langt frá, suðaustan við Vatnsendavatn, sjá HÉR.

Vatnsendi

Beitarhúsið við Litlabás.

Í skýrslunni (frá 2000) kemur m.a. fram að í Kópavogi eru nú; „22 fornleifar á 19 stöðum horfnar, þ.m.t. þær sem voru rannsakaðar og fjarlægðar. Flestar, ef ekki allar, hafa horfið á þessari öld og aðeins tvær þeirra eru rannsakaðar, en það eru Hjónadysjarnar við ósa Kópavogslækjarins og Kópavogsþingsstaður. Ástæður fjarlægingar eru m.a. athafnir setuliðsins á stríðsárunum og vöxtur bæjarins.
GuðmundarlundurEins og fram hefur komið eru fornleifar sbr. lögum 100 ára eða eldri. Af þessu leiðir að fljótlega munu fleiri minjar teljast til fornleifa svo sem minjar um fyrstu þéttingu byggðarinnar upp úr 1936, minjar um hersetuna,samgönguminjar o.s.frv. Trúlega verða fleiri minjar skilgreindar sem fornleifar síðar enda á það sama við okkur sem lifum í dag og Árna prest Helgason upp úr 1800, við sjáum ekki lengra en skilningur og þekking okkar leyfir.“
„Í hugum margra er Kópavogur tiltölulega sögulaust sveitarfélag, sem á upphaf sitt að rekja til 20. aldar. Það má vissulega til sanns vegar færa þar sem sveitarfélagið sjálft er ekki stofnað fyrr en 1948, en þétting byggðar hafði hafist nokkrum árum áður eða um 1936 (Lýður Björnsson 1990:46 og 146). Kaupstaðarréttindi fengust svo árið 1955. Á seinustu tveimur öldum var Kópavogur ekki í brennidepli og þótti jafnvel ekki búsældarlegt um að litast. Segir danski fræðimaðurinn Kristian P.E. Kålund svo frá jörðinni Kópavogi í ferðalýsingu sinni er birtist á prenti árin 1877-82: „Bærinn er á leiðum og ömurlegum stað; umhverfis hann eru lág grýtt hæðardrög eða dökkleitar þýfðar mýrar.“ (Kålund 1984:15).
SitkagreniðKópavogsjörðin var lang rýrasta jörðin af þeim jörðum sem eru í Kópavogslandi. Ekki er víst að jarðirnar hafi talist eftirsóknarverðar til ábúðar (Magnús Þorkelsson 1990(a):160). Það að nafnið á Hvammi breyttist í Hvammkot árið 1552 gefur vísbendingar um það. Hvammkotsnafninu var svo breytt um 1875 af Þorláki Guðmundssyni alþingismanni í Fífuhvamm (Guðlaugur R. Guðmundsson 1970:26 og 29).
Elsta ritaða heimild um byggð í landi Kópavogs er frá árinu 1234. Þá bregður Vatnsenda fyrst fyrir í Máldagaskrá um eignir Maríu kirkju og staðar í Viðey. Segir m.a. svo í skránni: „hvn a oc Elliðavatz land hálft. Oc allt land at vatzenda. Með þeim veiðvm oc gæðvm er þeim hafa fylgt at fornv. … Hamvndur gaf til staðarins holm þann. Er liggr j elliða am. niðr fra Vatzenda holmi.“ (Ísl. fornbréfasafn I 1857-76:507). Heimildir segja svo ekkert um svæðið fyrr en árið 1313, í skrá um leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs. Þá eru nefndir til sögunnar bæirnir Hvammur og Digranes, auk Vatnsenda. Segir m.a. svo um leigumálana í skránni: „At vatz ennda iij merkur. J hvamme c leigv. J digranesi iij merkur:“ (Ísl. fornbréfasafn II 1888:377).
Nafnið Kópavogur kemur fyrst fyrir í heimildum árið 1523. Er þar átt við Kópavogsþingstaðinn og tilefnið var dómur yfir Týla Péturssyni hirðstjóra, sem fundinn var sekur um morð o. fl. (Ísl. fornbréfasafn IX 1909-13:139-142). Bærinn Kópavogur kemur ekki fyrir í rituðum heimildum fyrr en 1553, þá í afgjaldareikningum Eggerts hirðstjóra Hannessonar á Bessastöðum. Er þar afgjald Þorsteins ábúanda tilgreint, en það var „viij alne vatmell.“ (Ísl. fornbréfasafn XII 1923-32:577).
Danska nefndin fyrrnefnda fékk nafnið Commissionen for oldsagers opbevaring. Nefndin sendi spurningalista til allra sókna konungsveldisins og til Íslands bárust þessir listar árið 1809, á dönsku.

Í Guðmundarlundi

Í bréfi sem Árni prestur Helgason sendi með skýrslu sinni dagsettu þann 20. júní 1821 skýrir hann nánar út ástæður þess að á hans ófrjósama landshorni finnist ekkert markvert, þrátt fyrir að sjálfur Ingólfur Arnarson hafi numið þar land. Árni skrifar: Vel tog Ingolf den förste Landnamsmand sig Boepæl i Reykevig; men baade dadlede hans Folkl da strax, denne hans Beslutning, og sagde de havde reist over alt for frugtbare Strækninger for at nedsætte sig her paa den nögne Kyst; og tillige fortælles at Jngolf siden efter, fandt det raadeligt at flytte her fra til Ølveset i sine ældre Aar, hvor hans Gravhöj ogsaa er at see. … Hof eller Tingstæd tales ikke heller om i dette Sogn; de som boede her sögte först Kialarnes, og siden til Hofstad på Alftenes … Her af synes jeg det er rïmeligt at paa dette Sted skulle man ikke vænte at finde Oldsagers Levninger.
GuðmundarlundurÁ þessum árum var skilgreining manna á fornleifum talsvert önnur en í dag og rústir í venjulegum skilningi ekki taldar til fornleifa. Yfirleitt áttu menn við leifar frá hinum glæsta þjóðveldistíma, sérstaklega tengdar þinghaldi og trúarbrögðum.“
Skammt frá Litlabás er Stóribás. Þar er nú hinn myndalegasti skógræktarlundur. Á skilti við Lundinn segir: „
Guðmundur Halldór Jónsson varð snemma áhugasamur um ræktun landsins.
Hann er vaxinn úr grasi í fallegri sveit noðrur í Fljótum í Skagafirði, þar sem vetur eru snjóþungir og harðir, en jörð vaknar gjarnan iðagræn að vori undan hvítum feldi. Sú náttúrusýn hefur án efna haft sterk og mótandi áhrif á Guðmund. Hann hleypti ungur heimdraganum, en ann sínum bernskustöðvum og hefur á síðari árum kostað kapps að græða sárin foldar norður þar með umsvifamikilli skógrækt á jörð sinni Minna-Grindli.
GuðmundarlundurÞað er óhætt að segja að aðdragandi stofnunar Byggingavöruverslunar Kópavogs árið 1962, sem Guðmundur reisti og rak ásamt Hjalta Bjarnasyni mági sínum, hafi verið ræktunarstarf hans í landi Vatnsenda. Þar tók Guðmundur á leigu landspildu snemma á sjöunda áratugnum. Ásamt fyrri konu sinni Önnu Bjarnadóttur og börnum braut hann ófrjóa jörð og setti niður kartöflur og rófur. Uppskeran var síðan seld og ágóðanum varið í uppbyggingu verslunarrekstursins.

Guðmundarlundur

Guðmundarlundur.

Árið 1967 voru fyrstu trjáplöntur gróðursettar í Stórabásinn eins og þetta land heitir, þar á meðal sitkagrenisplanta, sem Guðmundur hljóp með upp í hlíðina og gróf niður mót suðvestri. Þetta tré er í dag mjög áberandi og gróskumikið þar sem það breiðir út sígrænar greinar og býður gesti og gangandi velkomna í Guðmundarlund. Af brennandi áhuga og óbilandi elju ræktaði Guðmundur upp þetta örfoka land, sem nú er orðið að sannkallaðri vin. Þegar illa áraði og harðir vetur brutu niður og eyðilögðu fyrri ræktunarstörf eða frostnætur á sumri felldu viðkvæmar plöntur, þá var horft til grenitrésins góða og byrjað upp á nýtt af tvíefldum krafti.

Guðmundarlundur

Guðmundarlundur.

Um árabil var plastgróðurhús í Stórabási eða Garðinum, því innan fjölskyldunnar var alltaf talað um að fara upp í Garð. Í þessu gróðurhúsi var eplatré ásamt perutré, sem bæði náðu að bera ávöxt og einnig heilmikil jarðaberjaræktun. Það er Guðmundi og fjölskyldu hans mikils virði að vita af þessum reit í höndum Skógræktarfélags Kópavogs og megi hann vaxa og dafna og veita bornum og óbornum ómældar yndisstundir.“
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a:
-Skilti Skógræktarfélags Kópavogs við Guðmundarlund.
-Bjarni F. Einarsson – Fornleifaskráning Kópavogs 2000.

Í Guðmundarlundi

Vatnshlíð

Í umfjöllun um Höfðana við Hvaleyrarvatn er getið um Bliksteina, öðru nafni Bleiksteina eða Bleikstein.
SvæðiðÞegar örnefnalýsing fyrir Ás er lesin og reynt að staðsetja Bliksteina eftir henni er það næsta ómögulegt með nokkurri vissu þegar á vettvang er komið. Í örnefnalýsingunni (AG) fyrir Ás segir: „Svo er hár hnúkur syðst á fjalli, sem heitir Vatnshlíðarhnúkur. Vestur af honum hallar fjallinu niður og myndar þar háls, sem nær niður á Hamranesið fyrrnefnda og heitir Bliksteinaháls eða Bleiksteinaháls. Á honum eru tveir steinar ljósir að lit, sem heita Bliksteinar. Þeir eru í hálsinum norðanverðum og eru á merkjum móti Hvaleyri.“
Ef hins vegar er skoðuð
örnefnalýsing fyrir Hvaleyri segir um þetta: „“Línan móti Ási er á þessa leið: Úr Fuglstapaþúfum beina línu rétt fyrir sunnan Ásstekk í þúfu fyrir vestan skarð, sem er austast á Grísanesi, þaðan í Bleiksstein (svo) á Bleikisteinshálsi norðanverðum, þaðan um Hvaleyrarselhöfða, svo Þormóðshöfða og Fremstahöfða upp í Steinhús. Þetta er norðausturhlið landsins, sú sem veit að Ási.“ Síðar segir í sömu lýsingu: „Þá er næst Bleikisteinn í norðanverðum Bleikisteinshálsi.“
LandamerkjavarðaEftir að hafa skoðað síðarnefndu örnefnalýsinguna var tiltölulega auðvelt að staðsetja Bleikstein. Á honum er gróin fuglaþúfa, sem einhverju sinni hefur verið lítil varða á jarðfastri klöppinni. Önnur klöpp er skammt norðar, en hefur verið raskað vegna grjótnáms í Hamranesi. Framan við Bleiksteinshálsinn (Bleiksteinahálsinn) er Hamranesið. Norðan undir því eru mikil björg, fagurlega skófum skreytt – trúlega álfabyggð. Dalurinn er í kvos norðan Hamradals og vestan við Bleiksteinsháls.
Nú hefur mikilli uppfyllingu verið hrúgað á hálsinn ofanverðan og austan í honum eru gamlir sorphaugar, sem nú er verið að nota sem tipp fyrir jarðvegsúrgang. Á ofanverðum Bleiksteinshálsi er óröskuð landamerkjavarða Áss og Hvaleyrar. Tippurinn er að nálgast vörðuna og vantar nú einungis 5-6 metra að henni.
BleiksteinnAllt umleikis á holtinu hafa verktakar sætt lagi og tekið holtagrjót á víð og dreif til að selja garðeigendum, eflaust með leyfi bæjaryfirvalda.
Enn norðar er Vatnshlíðarhnúkur ofan Vatnshlíðar er hallar að Hvaleyrarvatni. Á honum er varða.
Fyrrnefndir Bliksteinar, Bliksteinn eða Bleiksteinn er sennilega eina þekkta örnefnið þeirrar merkingar á landinu (svo vitað sé). Því er ógnað þessa stundina; annars vegar með hinni miklu uppfyllingu að austanverðu og Hamranesnámunni að vestanverðu.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Hvaleyri.
-Örnefnalýsing fyrir Ás.

Bleiksteinsháls

Bleiksteinsháls – kort.

 

Garðakirkja

Árni Óla skrifaði um „Rústir Garðakirkju“ í Lesbók Morgunblaðsins ári 1951:

„Nú var það einn góðan veðurdag í sumar, að jeg hitti kunningja minn á götu og hann sagði: „Þú ættir að fara og skoða Garðakirkju, jeg er viss um að þjer þykir hún merkileg.“
Jeg ljet ekki segja mjer þetta tvisvar, steig upp í Landleiðabílinn og ók til Hafnarfjarðar. Og svo lagði jeg land undir fót, eins og svo ótal margir kirkjugestir höfðu áður gert. En nú eru gömlu göturnar horfnar og akvegir komnir í staðinn.

Landleiðir

Landleiðavagn.

Það er ekki nema svo sem fjögurra rasta vegur frá Hamarskotslæk út að Görðum, og Hafnarfjarðarbær hefur nú teygt sig hálfa leiðina. Vegurinn liggur út með ströndinni. Hjer hefur hrauntlóðið fallið fram í sjó og má enn, eftir margar aldir sjá hverjar hamfarir hafa átt sjer stað, þegar glóandi hraunið og sjórinn mættust og alt varð hjer í eima og mökk, en ógurlegar gufusprengingar tættu hraunbreiðuna sundur, mynduðu gíga og turnuðu hálfstorknuðu hrauninu upp í hrannir og hrauka. Sumir þessir sprengjugígar eru nú grasi grónir í botninn, skemtilegar hvosir, þar sem er skjól í öllum áttum. En fram í sjóinn ganga svipill sker á aðra hönd og bera enn vitni um hver ákefð og þungi hefur verið í áhlaupi hraunstraumsins. Sjórinn varð að þoka undan því og um aldir hefur hann lamið þessar klappir og reynt að brjóta þær niður, en ekki tekist.

Garðavegur

Garðavegur – steinn frá stríðstímum í götukanti.

Út á móts við Skerseyri liggur vegurinn yfir djúpa gjá eða hraunhvos og er þar hátt ofan af honum til beggja handa. Niðri í gjótunni liggja stórir steyptir steinar, þrístrendir og toppmyndaðir og líklega um metra á hæð. Steina þessa ljet herstjórnin steypa hjer á árunum og raðaði þeim á veginn. Var ætlunin að þvergirða veginn með þeim, ef til bardaga kæmi á landi. Eftir að herinn var farinn var þessum ferlíkjum velt ofan í gjótuna, en þeir eru, ásamt svo fjölda mörgu óðru, talandi tákn um það, að hernámsliðið bjóst við því í alvöru, að Þjóðverjar mundu gera innrás hjer.

Árni Óla

Árni Óla.

Jeg er að svipast um hvort jeg sjái ekki turninn á Garðakirkju. En hann er hvergi sýnilegur. Þegar jeg kem út á móts við Bala hitti jeg unga og fallega stúlku og jeg dirfist að spyrja hana:
Er langt út að Garðakirkju?
— Nei, hún er þarna, eða rústirnar af henni. Og hún bendir mjer á grátt hús og þaklaust fram undan.
Hvenær var hún rifin? spurði jeg.
— Það eru mörg ár síðan, sagði hún. Turninn var orðinn svo ljelegur, að menn voru hræddir um að hann mundi hrynja. Og svo var hann rifinn og alt innan úr kirkjunni. En steinveggirnir standa enn.
Til hvers var kunningi minn að segja mjer að skoða kirkju, sem er alls ekki til? hugsaði jeg. Og í hálfgerðum vandræðum sagði jeg svo upphátt:
Hvernig stóð á því að kirkjan hjer var lögð niður?
Það kom gletnissvipur á stúlkuna: — Þeir stofnuðu fríkirkju í Hafnarfirði og þá varð sóknarnefndin dauðhrædd um að allir Hafnfirðingar mundu verða fríkirkjumenn. Þeir mundu ekki nenna að ganga út að Garðakirkju, þegar kirkja væri komin í Hafnarfirði, og því ekki um annað að gera en flytja Garðakirkju til þeirra.

Fríkirkjan

Fríkirkjan í Hafnarfirði í smíðum. Kirkjan var vígð þann 14. desember 1913 af séra Ólafi Ólafssyni presti safnaðarins og hafði hún þá verið reist á aðeins 3-4 mánuðum af nýstofnuðum söfnuðinum. Síðan hefur fjórum sinnum verið byggt við kirkjuna og síðast var henni breytt að innan við gagngerar endurbætur árið 1998.

Já, stundum kemur fjallið til Múhameds. Fyrir hundrað árum rúmum voru ekki nema fjögur eða fimm timburhús í Hafnarfirði. En smám saman tók hann að seiða til sín fólk. Jafnvægið í sókninni raskaðist. Garðahverfið, þar sem áður var mest þjettbýli, hvarf í skugga Hafnarfjarðar þegar hann reis á legg. Árið 1910 eru talin 228 hús í Hafnarfirði. Það var því eðlilegt að Hafnfirðingar gætu ekki unað því að sækja kirkju að Görðum, en vildu koma upp kirkju hjá sjer.
Garðakirkja
En þá var of dýrt fyrir Garðhverfinga að standa straum af sinni kirkju. Þeir kusu heldur að sækja kirkju til Hafnarfjarðar. Fólkinu fór líka fækkandi eftir því sem Hafnarfjórður óx. Þeir höfðu reist sjer skólahús skamt frá kirkjustaðnum. Nú eru skólaskyld börn svo fá í hverfinu, að það borgar sig ekki heldur að halda þar uppi skóla, svo börnunum er komið til kenslu að Bjarnastöðum eða í Hafnarfjörð og skólahúsið stendur autt. Þetta er eitt af tímanna táknum um þá þjóðflutninga, sem fara fram hjer innan lands.
En þetta breytist. Fólkið kemur aftur. Hafnarfjörður á fyrir sjer að þenjast út. Bygðin færist út með firðinum og gleypir einhvern tíma Garðahverfið. Og þegar svo er komið og mikil bygð er risin þar upp, þá þarf að koma þar bæði kirkja og skóli. Þá verður Garðakirkja endurreist og þá rís þar stórt og fagurt skólahús.
Garðakirkja
Jeg er kominn að Görðum. Þar hefur eitt sinn verið voldugur grjótgarður umhverfis túnið, en liggur nú hruninn og utan við hann er komin vírgirðing. Akbraut liggur heim túnið og skamt fyrir vestan hana stendur kirkjurústin gnapandi og einstæðingsleg, því að kirkjan hefur ekki staðið í kirkjugarðinum heldur utan við hann. Hún horfir tómum gluggatóftum út og suður og burstháir stafnar gnæfa yfir umhverfið. Veggirnir eru eitthvað um fjögurra metra háir, en stafnarnir helmingi hærri, því að rishæðin hefur verið álíka og vegghæð. Að innanmáli er kirkjutóftin 17 metrar á lengd og 8 á breidd. Öll er hún hlaðin úr íslensku grjóti og er hleðslan tvöföld, höggnir steinar í ytri hleðslu en óhöggnir í innri hleðslu og bundnir saman með steinlimi. Svo hafa allir veggir verið sljettaðir að utan og eins inni í aðalkirkjunni. Sjest enn á austurgafli boglína svo hátt uppi sem hvelfingin hefur náð.

Garðakirkja

Garðakirkja 1940.

En að innanverðu á vestri burstinni er hleðslan ber. Er snildar handbragð á henni og sýnir að þar hafa verið menn að verki, sem enn kunnu að hlaða sljetta og lóðrjetta veggi úr óhöggnu grjóti. Það munu fáir leika nú orðið og þess vegna er þessi bygging stórmerkileg, og þykir mjer ólíklegt að hún eigi nokkurn sinn líka hjer á landi. Hjer er byggingarlag, sem þyrfti að varðveitast, ef þess er nokkur kostur. Lítið á þennan háa og sljetta stafn, hlaðinn úr smáu grjóti, eins og það kom fyrir. Lítið á hleðsluna umhverfis dyrnar og hina bogadregnu glugga. Og segið mjer svo hvort þjer eruð mjer ekki sammála um að hjer sje íslensk byggingarlist, er sje þess virði að bún sje varðveitt. Að vísu er hún ekki svo gömul, að hún geti talist forngripur. En sje hún varðveitt, verður hún forngripur með tímanum, og mun þá þykja mjög merkilegur forngripur, er menn mundu ekki vilja missa fyrir nokkurn mun.

Um Garðapresta

Holger Rosenkrans

Holger Rosenkrantz höfuðsmaður.

Garðakirkja var upphaflega helguð Pjetri postula. Prestatal hennar nær aftur til ársins 1284 og hafa þar setið margir merkir menn. Þar var Böðvar prestur Jónsson, er druknaði i Ölfusá 1518 ásamt dóttur sinni og fjölda manns (sumir segja 30, aðrir 40 eða 50). Var fólk þetta að koma úr pílagrímsför til krossins helga í Kaldaðarnesi. Þar var sjera Jón Ólafsson (um 1527—30) afi Jóns Egilssonar annálaritara og sjera Ólafs í Vestmannaeyum, er Tyrkir handtóku.
Eftir hann kom sjera Þórður Ólafsson, er dreymdi drauminn um Hannes hirðstjóra Eggertsson. — Hannes hafði látið taka Týla Pjetursson af lífi 1524 fyrir rán og gripdeildir. Árið 1530 varð Hannes bráðkvaddur í náðhúsinu á Bessastöðum. Þá dreymdi sjera Þórð að maður kom til hans og mælti: „Furðar yður hversu snögglega Hannes dó?“ Prestur kvað já við.
Ekki skal yður undra það,“ mælti draummaður, „því að Hannes drap Týla og Týli drap Hannes.
Sjera Jón Kráksson, hálfbróðir Guðbrands biskups (þeir voru synir Helgudóttur Jóns Sigmundssonar lögmanns) var kominn að Görðum 1569. Hjá honum dó Gísli biskup Jónsson á vísitatiuferð hinn 30, ágúst 1587.

Garðakirkja

Garðakirkja 1892.

Árið eftir tók Knútur Steinsson hirðstjóri Hlið á Álftanesi ásamt hjáleigum undan Garðakirkju, en ljet hana fá Vífilsstaði í staðinn. Í makaskiftabrjefinu lofaði hann að Garðakirkju skyldi árlega greidd ein tunna mjöls, vegna afgjaldsmismunar á þessum jörðum. En þegar Enevold Kruse varð valdsmaður, kom upp fjandskapur á milli hans og sjera Jóns Krákssonar, og til þess að hefna sín á presti, tók hann þessa mjöltunnu af Garðakirkju og hefur hún ekki goldist síðan. Sjera Jón Kráksson var grafinn í Garðakirkjugarð. Á legsteini hans var þessi áletrun: „Hjer hvílir sá frómi mann sjera Jón Kráksson, sem lifði trúlega, kendi siðlega, deyði loflega, ljóma mun eilíflega. Rjettlatir fara frá ógæfu og hvílast í sínum svefnhúsum.“ Hann dó 3. mars 1622, 89 ára að aldri. Dóttir hans var Margrjet kona Gísla lögmanns Hákonarsonar. Móðir hennar var Jarþrúður Þórólfsdóttir Eyólfssonar, en kona Eyólfs var Ásdís, systir Ögmundar biskups Pálssonar. — Biskup gaf Þórólfi systursyni sínum jarðirnar Laugarnes og Engey. Þess vegna komust þær jarðir í eigu Gísla lögmanns.

Garðakirkja

Garðakirkja 1956.

Eftir sjera Jón varð prestur í Görðum; Ólafur sonur hans, er jafnan skrifaði sig Ólaf Jónsson Kráksson. Hann var einlægur maður og bersögull og kom sjer því ekki vel við valdsmenn á Bessastöðum. Einu sinni er hann messaði í Bessastaðakirkju, kom vín og brauð ekki svo skjótt á altarið sem hann vildi, og sendi hann þá eftir hvoru tveggja heim að Görðum. Þá var Holger Rosenkrantz höfuðsmaður og notaði hann þetta tækifæri til þess að skylda Garðapresta að leggja framvegis vín og brauð til Bessastaðakirkju.
Þorkell Arngrímsson var prestur í Görðum 1658—1677. Hann var sonur Arngríms lærða á Melstað og Sigríður Bjarnadóttir, er kölluð var „kvennablómi“ af friðleik sínum. Þorkell prestur stundaði kálgarðarækt og þótti það nýlunda á þeim dögum. Hann var góður læknir og segir sagan að hann gæti læknað sár fjarverandi manna, ef honum væri sent blóð úr sárinu. Sonur hans var Jón biskup Vídalín, og var hann fyrst prestur í Görðum 1696—98.
Björn Jónsson Thorlacíus var prestur í Görðum 1720—1746. Laundóttir hans hjet Steinunn. Árið 1737 eignaðist hún barn og kendi það Skúla Magnússyni, er þá var sýslumaður í Skagafjarðarsýslu, en hann vildi ekki gangast við því. Þá varð sjera Björn reiður og kvað honum eigi skyldi hlýða að gera dóttur sinni vansæmd. Gekk hann svo fast að Skúla að hann giftist Steinunni 15. sept. 1737. Má af slíku marka hver skörungur sjera Ólafur hefur verið, því að Skúli landfógeti ljet ekki sinn hlut fyrir neinum miðlungsmönnum.
Guðlaugur Þorgeirsson var prestur í Görðum 1747—1781. Hann tók að sjer að gera veðurathuganir fyrir þá Eggert Ólafsson og Bjarna Pálsson, og helt því síðan áfram til æviloka, eða um nær 30 ára skeið. Munu það vera hinar fyrstu samfeldu veðurathuganir, sem gerðar voru hjer á landi.

Árni Helgason

Árni Helgason bisku – 1777-1869.

Markús Magnússon var næsti prestur í Görðum (1781—1825). Hann var stiftprófastur og því bar honum að þjóna biskupsembætti þegar Hannes biskup Finnsson féll frá, og var það þá eitt af biskupsverkum hans að hann vígði dómkirkjuna í Reykjavík. Svo var hann í biskupskjöri, en féll fyrir Geir Vídalín. Hann stofnaði ásamt Jóni Sveinssyni landlækni fyrsta lestrarfjelag hjer á landi, og var það fyrir Gullbringusýslu, Kjósarsýslu, Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Hann hafði mikla garðrækt hjá sjer og árið 1787 fekk hann 10 rdl. verðlaun hjá landbústjórnarfjelaginu fyrir garðahleðslu. Munu það vera garðar hans sem enn sjer rústirnar af umhverfis túnið.
Síðan sátu jafnan þjóðkunnir menn í Görðum: Árni biskup Helgason 1825—1858, Helgi Hálfdanarson 1858—1867, Þórarinn Böðvarsson 1868—1895, Jens Pálsson 1895—1912.

Helgi Hálfdánarson

Helgi Hálfdánarson prestur – 1826-1894.

Við prestkosningu þá er fram fór eftir fráfall sjera Jens Pálssonar, voru fimm prestar í kjöri. Voru þeim greidd atkvæði eins og hjer segir: Þorsteinn Briem 505, Björn Stefánsson 152, Guðmundur Einarsson 64, Árni Þorsteinsson 13 og Árni Björnsson 9. Þetta var í marsmánuði 1913. En mánuði seinna var haldinn fundur í Hafnarfirði og samþykkt að stofna þar fríkirkjusöfnuð. Þetta taldi sjera Þorsteinn Briem vera vantraust á sig og afsalaði sjer því embættinu. Um sumarið fór því aftur fram prestkosning og voru enn 5 umsækjendur. Þá fellu atkvæði svo, að sjera Árni Björnsson á Sauðárkróki var kosinn með 113 atkvæðum, Guðmundur Einarsson fekk 98, Björn Stefánsson 80, Sigurbjörn Á. Gíslason 5 og Hafsteinn Pjetursson ekkert atkvæði. Hinum nýkjörna presti var þá jafnframt gert að skyldu að flytjast til Hafnarfjarðar, ef kirkja yrði reist þar fyrir söfnuðinn. Sjera Árni var seinasti prestur í Görðum. Hann sat þar til 1928, en fluttist þá í Hafnarfjörð.

Ýmislegt um Garðakirkju

Fiskaklettur

Fiskaklettur.

Akurgerði hjet jörð inst í Hafnarfirði og var hún eign Garðakirkju. Árið 1677 var hún tekin handa kaupmönnum, en Garðakirkja látin fá í staðinn 1/2 Rauðkollsstaði í Hnappadalssýslu, en vegna fjarlægðar varð kirkjan að selja þá jörð. Akurgerðisland eyddist smám saman af sjávargangi, og segir sjera Árni Helgason í sóknarlýsingu um 1840: „Enginn veit nú hve mikið land Akurgerði fylgdi, það hefur dankað svona, að kaupmenn sem eiga Akurgerði, eigna sjer ströndina frá Fiskakletti og inn að Hamarskotslæk, og prestar í Görðum hafa ei ákært.“ Eftir þessu að dæma virðist hann hafa álitið að kaupmenn hafi sölsað undir sig meira land en þeim bar, jafnharðan og Akurgerðisland eyddist.

Gjáarrétt

Gjáarrétt.

Kirkjuland heitir fyrir ofan bygðina, frá Elliðavatns og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi, og upp undir fjöllin. Þar áttu Garðar selstöðu og þar var haft í seli fram um 1832. Um 1840 var sett þar rjett fyrir Garðahrepp, hin svonefnda Gjáarrjett, sem enn stendur.

Skúli Magnússon

Skúli Magnússon.

Garðakirkja átti um miðja fyrri öld alt Garðahverfi og auk þess þessi býli: Hamarskot, Vífilsstaði, Hraunsholt og Selskarð. Hamarskotsland fekk Hafnarfjarðarkaupstaður keypt árið 1913, samkvæmt lagaheimild. Skúli Magnússon segir í sýslulýsingu sinni að þá sje 32 býli í Garðakirkjusókn, þar af voru 11 konungseign, 19 eign Garðakirkju og aðeins 2 bændaeign…

Lónakot

Lónakotsbærinn um 1940.

Syðsta býlið í sókninni var Lónakot, en það hafði eyðst af sjávargangi 1776. Gekk þá sjór yfir túnið, reif upp allan grassvörð, fylti bæjarhúsin og vörina með grjóti og möl. Sjera Árni Helgason segir að þau munnmæli gangi að út af þessu hafi bóndinn þar orðið svo sturlaður að hann hafi fyrirfarið sjer, og síðan hafi enginn þorað að búa þar. En Skúli Magnússon segir að margar skoðunargerðir hafi farið fram á jörðinni, og þar sje hvergi 30 ferálna stór blettur, sem hægt sje að gera að túni. Þó var bygð tekin upp aftur í Lónakoti um 1840.

Garðahverfi

Garðahverfi – bæir.

Árið 1781 eru áhöld um fólksfjölda í Garðasókn og Reykjavík. Þá eru taldir 385 íbúar í Garðasókn en 394 í Reykjavík. En talsverður munur virðist hafa verið á lífskjörum manna í þessum tveim ur sóknum, hvað þau hafa verið betri í Garðasókn. Þar var þá 41 bóndi, 14 hjáleigumenn og 34 þurrabúðarmenn. En í Reykjavíkursókn voru 8 bændur, 24 hjáleigubændur og 59 þurrabúðarmenn. Kvikfjáreign þessara manna var samtals (tölurnar fyrir Reykjavík í svigum): kýr 112 (69), kvígur 5 (1). naut 2 (1), kálfar 3 (2), ær 200 (20), sauðir 116 (9), hross 146 (106). Samkvæmt þessu eru rúmlega 3 menn um hverja kú í Garðasókn, en 5 1/2 um hverja kú í Reykjavík. Í Garðasókn eru tæplega tveir um hverja á, en nær 20 í Reykjavík. Og þegar þess er nú gætt, að þá var altaf fært frá, sjest best hvað viðurværi hefur verið betra í Garðasókn vegna þess að þeir höfðu miklu meiri mjólk en Reykvíkingar. Og svo eiga þeir í Garðasókn sauði til frálags, en Reykvíkingar sama sem sauðlausir.

Þórarinn Böðvarsson

Þórarinn Böðvarsson prestur – 1825-1895.

Lengstum mun hafa verið torfkirkja í Görðum. En timburkirkja er komin þar fyrir 1853. (Það ætti að vera kirkjan, sem Vellýgni Bjarni bjargaði. Hann var að koma úr róðri í dimmviðri og sá þá einhverja svarta flyksu í loftinu. Hann náði í hana og var þetta þá Garðakirkja. Hafði hún fokið. En Bjarni flutti hana í land og skilaði henni á sinn stað). Þessi kirkja var orðin ófær til messugerðar árið 1878, og heíur hún því sjálfsagt verið orðin nokkuð gömul, líklega bygð snemma á 19. öld. Um þetta leyti var sjera Þórarinn Böðvarsson prestur í Görðum. Vildi hann að kirkjan væri rifin og ný sóknarkirkja reist í Hafnarfirði, þar sem meginþorri sóknarbarnanna var. En því fekst ekki framgengt. Og svo var steinkirkjan bygð í Görðum 1879. Þótti hún þá veglegt hús.
Upp úr aldamótunum fór íbúum Hafnarfjarðar að fjölga mjög ört, og komu þá upp raddir um að þangað skyldi kirkjan flutt. Var sjera Jens Pálsson því meðmæltur, en það fórst þó fyrir. En árið 1910 afhenti hann sóknarnefnd Garðakirkju til umsjónar og fjárhalds.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1910. Kirkjan var byggð á túnblettinum miðsvæðis ofanverðum.

Eins og fyr getur höfðu Hafnfirðingar stofnað fríkirkjusöfnuð 1913 og sama árið reistu þeir veglega kirkju handa sjer. Leist þjóðkirkjusöfnuðinum þá ekki á blikuna, svo að þá um sumarið var fengið leyfi til þess að Garðakirkja yrði lögð niður og ný kirkja reist í Hafnarfirði. Var byrjað að grafa fyrir grunni hinnar nýu kirkju þá um haustið og komst hún upp ári síðar en fríkirkjan. Þá var talað um að selja Garðakirkju, en það fórst fyrir og var hún látin standa, en gripir hennar fluttir í hina nýju kirkju í Hafnarfirði. Tveimur árum seinna (1916) bundust 10 menn samtökum um að kaupa hina gömlu Garðakirkju og ætluðu að halda henni við. Flestir þeirra eru nú dánir og af kirkjunni er ekki annað eftir en steinveggirnir.

Gamlar kirkju í Hafnarfirði

Fríkirkjan

Fríkirkjan í Hafnarfirði.

Nú voru risnar upp tvær nýar kirkjur í Hafnarfirði, eftir að staðurinn hafði verið kirkjulaus í hartnær tvær aldir. En áður höfðu verið þar tvær kirkjur.
Á Hvaleyri var kirkja í kaþólskum sið. Jörðin hafði snemma verið gefin Viðeyarklaustri, en kirkjunnar er fyrst getið á dögum Steinmóðs ábóta Bárðarsonar í Viðey (1444—1481). Hún á þá Hvaleyrarland. Í vísitatiubók Gísla biskups Oddssonar á árunum 1632—37 er lýsing á kirkjunni og segir að hún hafi verið með þremur bitum á lofti auk stafnbita. Í Jarðabók Árna og Páls er talin hálfkirkja á Hvaleyri og sögð liggja undir Garða og þar messað þrisvar á ári. Þetta var graftarkirkja og sást til skamms tíma móta fyrir kirkjugarðinum. Hún var lögð niður með konungsboði 17. maí 1765 og er þá nefnd bænhús. Mun hún seinast hafa verið svokölluð fjórðungskirkja og aðeins fyrir heimafólk.

Hafnarfjarðarkirkja

Hafnarfjarðarkirkja. Kirkjan var vígð 20. desember 1914. Áður áttu Hafnfirðingar kirkjusókn að Görðum á Álftanesi.
Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðar-réttindi árið 1908 komst skriður á kirkju-byggingarmálið, þótt sú hugmynd hefði reyndar komið fram áður, t.d. um miðja 19. öld að byggð yrði kirkja í Firðinum. Hafnfirðingar leituðu til Rögnvalds Ólafssonar um teikningu að kirkju og skilaði hann teikningu í febrúar 1909. Samkvæmt henni var kirkjan úr steinsteypu og átti að taka 500 manns í sæti eða þriðjung íbúa kaupstaðarins.
Var kirkjunni valinn staður í landi sem bæjarfógeti hafði til umsjónar við Strandgötu. Framkvæmdir við kirkjugrunninn hófust haustið 1913 og lauk smíðinni á aðventu 1914. Yfirsmiður var Guðni Þorláksson, en hann andaðist úr lungnabólgu um það leyti sem smíði kirkjunnar lauk og var lík hans borið í kirkjuna á Þorláksmessu. Biskupinn, hr. Þórhallur Bjarnason, vígði kirkjuna 20. desember 1914.

Hina kirkjuna reistu Hamborgarkaupmenn þegar þeir versluðu í Hafnarfirði og er hennar fyrst getið 1537. Ekki vita menn nú hvar hún hefur staðið, en talið sennilegt að hún hafi verið á Óseyri, sunnan við fjörðinn. Kirkja þessi hefur verið timburkirkja og vönduð, því að þess er getið að hún hafi verið með koparþaki. Þessi kirkja var auðvitað óháð Skálholtsstól og þess vegna eru litlar heimildir um hana. Þó finst getið þriggja presta, sem þar voru á árunum 1538—1552.
Hinn 24. apríl 1608 skipaði Kristján IV. svo fyrir, að öll hús Þjóðverja hjer á landi, þau er stæði á jarðeignum kirkju eða konungs, skyldu rifin, og sennilega hefur þá kirkjan líka verið rifin.

Kirkjugarður í eyði
Garðakirkja
Kirkjugarðurinn í Görðum er umgirtur grjótgarði á þrjá vegu, en trjegirðingu á einn veg. Hann er nokkuð stór, þegar miðað er við kirkjugarða í sveit. En hann varð þó of lítill vegna þess hvað sóknarfólkið er margt. Um átta ára skeið eftir að Garðakirkja var lögð niður, voru öll slík frá Hafnarfirði flutt þangað til greftrunar. En þá var svo komið, þrátt fyrir það að kirkjugarðurinn hafði verið stækkaður, að hann var út grafinn. Og þá rjeðust Hafnfirðingar í það að gera nýan kirkjugarð hjá sjer á svokölluðum Öldum, sunnan og ofan við bæinn, og fór fyrsta greftrunin fram þar í mars 1921. Síðan er Garðakirkjugarður í eyði, eins og kirkjan, en samt hefur verið jarðað í honum við og við, vegna þess að menn hafa viljað láta ættingja hvíla saman.
Garðakirkja
„Nautgæfa fóðurgrasið grær“ á leiðunum í Garðakirkjugarði eins og í öðrum kirkjugörðum. Og hann hefur verið sleginn og taðan er komin í bagga, sem liggja þar í garðinum. Það er verið að hirða túnið og þessir baggar verða fluttir til hlöðu fyrir kvöldið.“

Sjá fróðleik um endurreisn Garðakirkju HÉR og HÉR.
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 47. tbl. 24.12.1951, Rústir Garðakirkju – Árni Óla, bls. 585-591.

Garðakirkja

Garðakirkja og kirkjugarðurinn 2014.

Grímannsfell

Við Grímannsfell í Mosfellsbæ er skilti. Á því má lesa eftirfarandi texta:

Halldór Laxnes

Halldór Laxnes við Köldukvísl.

„Kaldakvísl er dragá sem á upptök sín austan Grímannsfells og fellur eftir endilöngum Mosfellsdal. Suðurá sameinast ánni neðst í dalnum en Kaldakvísl fellur til sjávar í Leirvog.
Handan árinnar rís Grímannsfell 484 metra yfir sjávarmáli og er eitt hæst þeirra fella sem prýða sveitarfélagið. Fjallið, sem er að mestu úr móbergi og grágrýti, er einnig nefnt Grímarsfell og hafði Halldór Laxnes skýringu á þeirri nafnbreytingu. Hann ritaði í bókinni „Grikklandsárið“ sem kom út árið 1980: „Frá Laxnesi lokar Grímarsfell sjóndeildarhringnum til suðausturs og horfa klettabelti fjallsins í norður mót okkur, og safna skugga; fjallið hefur upphaflega verið kennt við Grímar sem síðan breyttist í Grímann uppá dönsku eins og annað hér. Efst í klettabeltunum klofnar fjallið fyrir miðju, en fyrir neðan kluftina byrja grænar hlíðar og hallar niðrað á þeirri sem fellur meðfram fjallinu ofan dalinn, Köldukvísl.“

Kaldakvísl

Foss í Köldukvísl.