„Gísli Sigurðsson, fyrrverandi lögregluþjónn, er margfróður um sögu Hafnarfjarðar og Reykjaness. Hann þekkir gamlar slóðir um Reykjanes eins vel og lófann á sér, og hefur gengið þær flestar margoft. Það er þess vegna ærin upplyfting að fara með honum í gönguför suður í Selvog. Seinna geta svo lesendur farið sjálfir af stað og látið þessa leiðarlýsingu Gísla vísa sér veginn. Lagt af stað úr Firðinum.
Ein er sú gönguleið, sem ég tel með þeim skemmtilegri hér í nágrenni við höfuðborgina, það er Selvogsgatan eða Selvogsleiðin, sem ég ætla að fara með ykkur um, og við skulum fylgja lestum þeirra Selvogsinga. Þeir hafa verið í kaupstaðarferð. Hafa búið vel upp á hesta sína. Þeir leggja upp frá plássinu, Akurgerði, og leiðin liggur suður yfir Hamarskotslæk suður á Mölina upp í Illubrekku, og sveigir til austurs neðan undir Austurhamri. Og því er nú til Selvogsgata í Hafnarfirði, að Selvogsingar fóru þessa leið. Við förum með lækjarsytru sem rennur með Hamarskotstúngarði upp á Öldurnar þar ofan. Á leiðinni verða fyrir okkur nokkur móabörð og austasta barðið heitir Hvíldarbarð og er þar nú kirkjugarðurinn.
Mosahlíðin blasir nú við okkur, og við förum upp á Hrygginn, þaðan liggur leiðin niður undir Hraunið og yfir hraunrimann, og höfum við þá Lækjarbotnana á hvora hönd. Á vinstri hönd eru Neðri-Lækjarbotnar þar sem tekið var vatnið í fyrstu vatnsleiðsluna til Hafnarfjarðar. En á hægri hönd eru Efri-Lækjarbotnar, nokkrar lautir í hrauninu með tæru vatni og fersku. Þegar yfir Hraunrimann er komið, er þar lækjarfarvegur, venjulega þurr nema á vetrum, og er þá Svínholt á vinstri hönd, en Gráhelluhraunið á hægri. Nokkru sunnar eru Moldir og er þá Setbergshlíð á vinstri hönd, allhá hlíð vaxin birkikjarri. Innar gengur fram svo kallað Háanef, en fyrir innan það hallar landinu móti okkur og er þar upp hraunbrekku að fara.
Þar komum við að helli, sem heitir Kethellir. Suður af honum er hellir, sem mun hafa verið bæði í landi Setbergs og Hamarskots. Þarna var í eina tíð sel, að líkindum frá báðum þessum bæjum. Á tímum hraungosanna miklu úr Búrfelli hefur um þessa brekku runnið mikill hraunfoss. Við færumst fet fyrir fet upp brekkuna, en á brúninni komum við á grágrýtisklappir, Sléttuhlíðarhorn, og niður af þeim er þá Sléttahlíðin á hægri hönd en Smyrilbúðarhraun á vinstri.
Svæðið, sem leiðin liggur um, kalla Selvogsingar Torfur og ná þær allt að gjá þeirri, sem er framhald af Hjöllunum. Gjáin er mjó en á þó sína sögu. Maður nokkur Kristján að nafni var þarna á ferð með folaldsmeri. Hann missti folaldið í gjána. Varð hann að fara til Hafnarfjarðar eftir mannhjálp til að ná folaldinu upp úr gjánni. Þvi kölluðu Hafnfirðingar gjána Folaldagjá, en Selvogsingar Stjánagjá. Frá Gjánni liggur leiðin suður eftir sléttu hrauni, sem heitir Helluhraun allt að okkar fagra Helgadal. Þar er gjá yfir að fara niður í dalinn. Leiðin upp úr dalnum liggur í troðningum tveim megin við rúst, sem ég hygg að sé fjárhúsarúst. Hún stendur nú undir vernd fornminjavarðar, allt frá því að Brynjúlfur fræðimaður Jónsson frá Minna-Núpi var hér á ferð 1897.
En hraunriminn austur frá Helgadal geymir sína sögu. Í Setbergsannál segir svo frá við árið 1427: „Þjófnaðaröld mikil um Suðurland. Voru 12 þjófar í einu teknir syðra í helli einum í fjalli einu eða felli, þar sem nefnt er Húsfell. Voru allir hengdir um sumarið“. Í hraunrima þessum er hellir, og hygg ég, að þar sé hellir sá, sem um getur í annálum. Kannske getum við giskað á, hvar þjófar þessir voru réttaðir þegar við komum lengra.
Við höldum svo yfir Helgadalsás og niður af honum og austur um og förum þar eftir móbergsklöppum, og erum við þá komnir að Valahnúkum, norð-austan við Helgafell, okkar tignasta fell, sem ég trúi að margur Hafnfirðingur óski sér að deyja í og sitja þar að sumri og skrafa saman við langelda. Í Valahnúkum er Músarhellir. Þar sváfu eina nótt fjárleitarmenn á haustum, þeir sem smöluðu Norðurfjallið. Nú hefur helli þessum verið annað nafn gefið, heitir Valaból.
Og áfram höldum við og komum í grunnar dalkvosir sem heita Mygludalir. Líklega hefur einhver áð þar á gæðing sínum, henni Myglu, sem skeiðaði allra hrossa mest. Nú liggur leiðin upp yfir hraunrima allbreiðan og er þar í gjá, sem nefnist Húsfellsgjá. Þegar kemur upp fyrir hraunið taka við melhæðir með hraunrimum á milli. Svæði þetta heitir Strandartorfur, og segja munnmælin, að þar hafi Strandarkirkja átt skógarítak. Þar fer nú litið fyrir skógi eða kjarri. Síðar hefur svæði þetta fengið nafnið Kaplatóur.
Þegar kemur suður fyrir taka við Hellurnar; er það helluhraun mikið og liggur upp undir Grindarskörð, sem blasað hafa við sjónum allt frá því, að við vorum hjá Músarhelli. Hér má sjá að um hafa farið langar lestir hesta, því víða eru götur sorfnar í klappirnar. Hér hefur líka verið farið með rekstra, ekki sízt þegar aðalsláturhöfnin var í Hafnarfirði. Þegar við höfum farið um 10 mín. gang upp Hellurnar eru á hægri hönd klettar sem heita Gálgaklettar. Mér er að detta í hug, að þegar Álftnesingar hafi verið búnir að fanga útileguþjófana í heimahögum sínum hafi þeir farið með þá að klettum þessum og hengt þá þar. Þegar komið er eftir hellunum upp þar sem aðalbrekkan byrjar, er þar jarðafall mikið, þar í eru hellar nokkrir. Árið 1927 eða 8 var einn þessara hella notaður af rjúpnaskyttum , sem stunduðu veiði upp um fjöllin og lágu þarna við nokkrar nætur. Þórðarhelli kalla ég þennan helli og kenni hann við Þórð nokkur Eyjólfsson, sem bjó á Brúsastöðum.
Þegar hér er komið taka við Mosarnir, og nokkru ofar er svæðið nefnt Flá, og er þá komið að örðugasta hjallanum, Kerlingarskarði. Þarna deildust vegir. Stígur lá upp hraunbungu á vinstri hönd, Grindarskarða- stígur. Lá hann suður um austurenda Stórkonugjár upp að Heiðartoppi á Heiðinni há og austur áfram að Vindheimum í Ölfusi. Við höldum nú upp þennan örðuga hjalla. Brekkan er svo brött að kunnugir segja mér, að þeir hafi orðið að hvíla hestana minnsta kosti einu sinni áður en upp var komið. Svo komumst við á brekkubrúnina. Þá höfum við austan okkur Mið-Bolla, sem eru tveir, og vestan eru svo Þríbollar, sem Selvogsingar kalla Kerlingahnúka. Við hnúk næsta tökum við eftir stíg sem liggur vestur. Þetta er Námastígurinn og liggur vestur í Brennisteinsnámur. En við höldum áfram og liggur leiðin um austurenda Draugahlíðar. Þar hefur bæði verið ruddur vegur og hlaðinn. Þegar niður kemur liggur leiðin yfir hraun, sem nefnist Skarðahraun, kennt við Grindaskörð. Þar förum við gegnum girðingarhlið og lítið eitt austar eru svo tvær vörður, sem við köllum Tvívörður. Liggur nú leiðin austur og upp undir Kóngsfellið litla. Í hrauntröðum, sem þar eru, blasir við okkur litill skúti. Hann er kallaður Dauðsmannsskúti. Þar varð úti maður um 1860. Skörðin búa yfir mikilli dul, því 1633 hvarf þarna maður og hefur ekkert af honum fengizt. Haldið var að tröll hafi heillað hann.
Nú tekur leiðin á sig hlykk og stefnir vestur og liggur þar um svonefndan Grafning. Við Þrívörður eru vegamót. Þar niður eftir sléttu klapparhrauni liggur Stakkavíkurvegur, fyrir endann á vestari Hvalhnúk og síðan niður Fjallið niður um Selstíg að Stakkavík og vestur að Herdísarvík. Annar stígur liggur nokkru austar niður Fjallið og heitir hann Hlíðarvegur, liggur í Hlíðarskarð og niður skarðið að Hlíð. Þessir vegir eru nú sjaldan farnir.
Þegar komið er niður úr Grafningi er komið í fagran dal, sem heitir Stóri-Leirdalur. Þar er grösugt og sléttar flatir norður með Hvalhnúknum. Úr Leirdal liggur leiðin upp í Hvalhnúkaskarð og niður úr því sunnan við gil, sem þar er. Blasir nú við Fjallið, sem þeir kalla svo Selvogsingar, Herdísavíkurfjall, Stakkavíkurfjall og Hlíðarfjall, og er þetta afréttur þessara bæja í Selvogi. Þegar kemur fram úr Hvalhnúkaskarði liggur leiðin vestur undir hlíðartöglum Heiðarinnar háu, er þar víða grösugt, og heita á vinstri hönd Hvalhnúkabrekkur.
Góðan spöl suður frá Skarðinu er hraunhóll mikill og heitir Þorvaldshóll. Þegar honum sleppir taka við móar og er gatan heldur ógreið um þá. Þá er komið í Litla-Leirdal, sem eiginlega er slakki utan í Heiðinni. Þar nokkru neðar er svo uppspretta og kringum hana flöt, og er þetta kallað Rituvatnsstæði. Nokkru neðar verða á vinstri hönd við okkur fell, sem heita Urðarfell. Þau eru tvö, Urðarfellið stóra og Urðarfellið minna. Þau eru aðskilin af gili er nefnist Kálfsgil. Í því er uppspretta nefnd Sælubuna. Gott vatn ungum sem gömlum.
Utan í Urðarfelli stóra er Strandardalur, en í Urðarfelli litla eru Hlíðardalirnir tveir. Þá komum við í Katlana og Katlahraun. Við sniðskerum það vestur á við og erum þá komnir á fjallsbrúnina. Heita hér Katlabrekkur þar sem leiðin liggur niður af fjallinu. Þar í grasivaxinni laut eru vegamót. Liggur ein leiðin þaðan út með Hlíðarfjalli og heitir þar Hlíðarvegur. Önnur leið er þarna og heitir Vogsósaleið. Liggur hún niður svæði sem kallast Rofin um Aldindal og Stekkjardali í Hlaupandahóla heim til Vogsósa.
En við skulum halda áfram og stefna á byggðina. Leiðin liggur um Austur-Rofin,og sunnar er fell á vinstri hönd, sem heitir Vörðufell. Þar voru lögréttir þeirra Selvogsinga. En fell þetta er einnig frægt fyrir sínar mörgu vörður. Svo er mál með vexti, að þegar unglingar voru sendir að leita fjár eða annars búpenings, þá kom oft fyrir, að þeir fundu ekki gripina. Fóru þeir þá á Vörðufell, og ef þeir hlóðu vörðu brást það ekki að þeir fundu gripina. Leiðin liggur þarna upp svo nefndar Eymu-Illhæðir eða Eymu-Hellhæðir, og svo er komið að Kökhól og Skálinn er þar ekki langt frá. Austan leiðarinnar eru nokkrar hæðir, svo sem Strandarhæð og Strandarhellir, og þar skammt frá er hellirinn Gapi, og enn sunnar er Bjarnarhellir. Á þessum stöðum eru rúmgóðir fjárhellar.
Nú erum við komnir niður á þjóðveginn og þar hittum við á vegamót. Við höldum svo niður í Klifið og eru þá Dalhólalágar á hægri hönd, en nokkru neðar á vinstri hönd eru Bjarnastaðahólar. Þeir sem byggja Þorkelsgerði fara nú í suð-vestur, en Bjarnastaðamenn og Nesmenn halda niður undir túngarð. Þar skilja enn leiðir, og halda Bjarnastaðamenn suður og heim, en Nesmenn austur með garði um slétta velli, sem heita Flatir, síðan í túngarðshliðið og heim til bæjar.
Við köllum þetta Selvogsleið eða Selvogsveg, en Selvogsingar kalla hana Suðurferðaleið, og er það einkennilegt, því leiðin liggur því sem næst í norður. Þessi leið sem við höfum nú farið er ágæt gönguleið að sumri til, tekur 6 klukkustundir að ganga hana þegar rólega er farið. Ráðlegg ég öllum sem vilja halda sér ungum að ganga hana tvisvar til þrisvar á sumri. – Gísli Sigurðsson“
Heimild:
-Þjóðviljinn 15. júlí 1973, bls. 6-7.