Selvogsgata

„Gísli Sigurðsson, fyrrverandi lögregluþjónn, er margfróður um sögu Hafnarfjarðar og Reykjaness. Hann þekkir gamlar slóðir um Reykjanes eins vel og lófann á sér, og hefur gengið þær flestar margoft. Það er þess vegna ærin upplyfting að fara með honum í gönguför suður í Selvog. Seinna geta svo lesendur farið sjálfir af stað og látið þessa leiðarlýsingu Gísla vísa sér veginn. Lagt af stað úr Firðinum.
grinda-3 Ein er sú gönguleið, sem ég tel með þeim skemmtilegri hér í nágrenni við höfuðborgina, það er Selvogsgatan eða Selvogsleiðin, sem ég ætla að fara með ykkur um, og við skulum fylgja lestum þeirra Selvogsinga. Þeir hafa verið í kaupstaðarferð. Hafa búið vel upp á hesta sína. Þeir leggja upp frá plássinu, Akurgerði, og leiðin liggur suður yfir Hamarskotslæk suður á Mölina upp í Illubrekku, og sveigir til austurs neðan undir Austurhamri. Og því er nú til Selvogsgata í Hafnarfirði, að Selvogsingar fóru þessa leið. Við förum með lækjarsytru sem rennur með Hamarskotstúngarði upp á Öldurnar þar ofan. Á leiðinni verða fyrir okkur nokkur móabörð og austasta barðið heitir Hvíldarbarð og er þar nú kirkjugarðurinn.
Mosahlíðin blasir nú við okkur, og við förum upp á Hrygginn, þaðan liggur leiðin niður undir Hraunið og yfir hraunrimann, og höfum við þá Lækjarbotnana á hvora hönd. Á vinstri hönd eru Neðri-Lækjarbotnar þar sem tekið var vatnið í fyrstu vatnsleiðsluna til Hafnarfjarðar. En á hægri hönd eru Efri-Lækjarbotnar, nokkrar lautir í hrauninu með tæru vatni og fersku. Þegar yfir Hraunrimann er komið, er þar lækjarfarvegur, venjulega þurr nema á vetrum, og er þá Svínholt á vinstri hönd, en Gráhelluhraunið á hægri. Nokkru sunnar eru Moldir og er þá Setbergshlíð á vinstri hönd, allhá hlíð vaxin birkikjarri. Innar gengur fram svo kallað Háanef, en fyrir innan það hallar landinu móti okkur og er þar upp hraunbrekku að fara.
Þar komum við að helli, sem heitir Kethellir. Suður af honum er hellir, sem mun hafa verið bæði í landi Setbergs og Hamarskots. Þarna var í eina tíð sel, að líkindum frá báðum þessum bæjum. Á tímum hraungosanna miklu úr Búrfelli hefur um þessa brekku runnið mikill hraunfoss. Við færumst fet fyrir fet upp brekkuna, en á brúninni komum við á grágrýtisklappir, Sléttuhlíðarhorn, og niður af þeim er þá Sléttahlíðin á hægri hönd en Smyrilbúðarhraun á vinstri.
Svæðið, sem leiðin liggur um, kalla grinda-1Selvogsingar Torfur og ná þær allt að gjá þeirri, sem er framhald af Hjöllunum. Gjáin er mjó en á þó sína sögu. Maður nokkur Kristján að nafni var þarna á ferð með folaldsmeri. Hann missti folaldið í gjána. Varð hann að fara til Hafnarfjarðar eftir mannhjálp til að ná folaldinu upp úr gjánni. Þvi kölluðu Hafnfirðingar gjána Folaldagjá, en Selvogsingar Stjánagjá. Frá Gjánni liggur leiðin suður eftir sléttu hrauni, sem heitir Helluhraun allt að okkar fagra Helgadal. Þar er gjá yfir að fara niður í dalinn. Leiðin upp úr dalnum liggur í troðningum tveim megin við rúst, sem ég hygg að sé fjárhúsarúst. Hún stendur nú undir vernd fornminjavarðar, allt frá því að Brynjúlfur fræðimaður Jónsson frá Minna-Núpi var hér á ferð 1897.
En hraunriminn austur frá Helgadal geymir sína sögu. Í Setbergsannál segir svo frá við árið 1427: „Þjófnaðaröld mikil um Suðurland. Voru 12 þjófar í einu teknir syðra í helli einum í fjalli einu eða felli, þar sem nefnt er Húsfell. Voru allir hengdir um sumarið“. Í hraunrima þessum er hellir, og hygg ég, að þar sé hellir sá, sem um getur í annálum. Kannske getum við giskað á, hvar þjófar þessir voru réttaðir þegar við komum lengra.
grinda-3Við höldum svo yfir Helgadalsás og niður af honum og austur um og förum þar eftir móbergsklöppum, og erum við þá komnir að Valahnúkum, norð-austan við Helgafell, okkar tignasta fell, sem ég trúi að margur Hafnfirðingur óski sér að deyja í og sitja þar að sumri og skrafa saman við langelda. Í Valahnúkum er Músarhellir. Þar sváfu eina nótt fjárleitarmenn á haustum, þeir sem smöluðu Norðurfjallið. Nú hefur helli þessum verið annað nafn gefið, heitir Valaból.
Og áfram höldum við og komum í grunnar dalkvosir sem heita Mygludalir. Líklega hefur einhver áð þar á gæðing sínum, henni Myglu, sem skeiðaði allra hrossa mest. Nú liggur leiðin upp yfir hraunrima allbreiðan og er þar í gjá, sem nefnist Húsfellsgjá. Þegar kemur upp fyrir hraunið taka við melhæðir með hraunrimum á milli. Svæði þetta heitir Strandartorfur, og segja munnmælin, að þar hafi Strandarkirkja átt skógarítak. Þar fer nú litið fyrir skógi eða kjarri. Síðar hefur svæði þetta fengið nafnið Kaplatóur.
grinda-4Þega
r kemur suður fyrir taka við Hellurnar; er það helluhraun mikið og liggur upp undir Grindarskörð, sem blasað hafa við sjónum allt frá því, að við vorum hjá Músarhelli. Hér má sjá að um hafa farið langar lestir hesta, því víða eru götur sorfnar í klappirnar. Hér hefur líka verið farið með rekstra, ekki sízt þegar aðalsláturhöfnin var í Hafnarfirði. Þegar við höfum farið um 10 mín. gang upp Hellurnar eru á hægri hönd klettar sem heita Gálgaklettar. Mér er að detta í hug, að þegar Álftnesingar hafi verið búnir að fanga útileguþjófana í heimahögum sínum hafi þeir farið með þá að klettum þessum og hengt þá þar. Þegar komið er eftir hellunum upp þar sem aðalbrekkan byrjar, er þar jarðafall mikið, þar í eru hellar nokkrir. Árið 1927 eða 8 var einn þessara hella notaður af rjúpnaskyttum , sem stunduðu veiði upp um fjöllin og lágu þarna við nokkrar nætur. Þórðarhelli kalla ég þennan helli og kenni hann við Þórð nokkur Eyjólfsson, sem bjó á Brúsastöðum.
Þegar hér er komið taka við Mosarnir, og nokkru ofar er svæðið nefnt Flá, og er þá komið að örðugasta hjallanum, Kerlingarskarði. Þarna deildust vegir. Stígur lá upp hraunbungu á vinstri hönd, Grindarskarða- stígur. Lá hann suður um austurenda Stórkonugjár upp að Heiðartoppi á Heiðinni há og austur áfram að Vindheimum í Ölfusi. Við höldum nú upp þennan örðuga hjalla. Brekkan er svo brött að kunnugir segja mér, að þeir hafi orðið að hvíla hestana minnsta kosti einu sinni áður en upp var komið. Svo komumst við á brekkubrúnina. Þá höfum við austan okkur Mið-Bolla, sem eru tveir, og vestan eru svo Þríbollar, sem Selvogsingar kalla Kerlingahnúka. Við hnúk næsta tökum við eftir stíg sem liggur vestur. Þetta er Námastígurinn og liggur vestur í Brennisteinsnámur. En við höldum áfram og liggur leiðin um austurenda Draugahlíðar. Þar hefur bæði verið ruddur vegur og hlaðinn. Þegar niður kemur liggur leiðin yfir hraun, sem nefnist Skarðahraun, kennt við Grindaskörð. Þar förum við gegnum girðingarhlið og lítið eitt austar eru svo tvær vörður, sem við köllum Tvívörður. Liggur nú leiðin austur og upp undir Kóngsfellið litla. Í hrauntröðum, sem þar eru, blasir við okkur litill skúti. Hann er kallaður Dauðsmannsskúti. Þar varð úti maður um 1860. Skörðin búa yfir mikilli dul, því 1633 hvarf þarna maður og hefur ekkert af honum fengizt. Haldið var að tröll hafi heillað hann.
selvogsgata-221Nú tekur leiðin á sig hlykk og stefnir vestur og liggur þar um svonefndan Grafning. Við Þrívörður eru vegamót. Þar niður eftir sléttu klapparhrauni liggur Stakkavíkurvegur, fyrir endann á vestari Hvalhnúk og síðan niður Fjallið niður um Selstíg að Stakkavík og vestur að Herdísarvík. Annar stígur liggur nokkru austar niður Fjallið og heitir hann Hlíðarvegur, liggur í Hlíðarskarð og niður skarðið að Hlíð. Þessir vegir eru nú sjaldan farnir.
Þegar komið er niður úr Grafningi er komið í fagran dal, sem heitir Stóri-Leirdalur. Þar er grösugt og sléttar flatir norður með Hvalhnúknum. Úr Leirdal liggur leiðin upp í Hvalhnúkaskarð og niður úr því sunnan við gil, sem þar er. Blasir nú við Fjallið, sem þeir kalla svo Selvogsingar, Herdísavíkurfjall, Stakkavíkurfjall og Hlíðarfjall, og er þetta afréttur þessara bæja í Selvogi. Þegar kemur fram úr Hvalhnúkaskarði liggur leiðin vestur undir hlíðartöglum Heiðarinnar háu, er þar víða grösugt, og heita á vinstri hönd Hvalhnúkabrekkur.
Góðan spöl suður frá Skarðinu er hraunhóll mikill og heitir Þorvaldshóll. Þegar honum sleppir taka við móar og er gatan heldur ógreið um þá. Þá er komið í Litla-Leirdal, sem eiginlega er slakki utan í Heiðinni. Þar nokkru neðar er svo uppspretta og kringum hana flöt, og er þetta kallað Rituvatnsstæði. Nokkru neðar verða á vinstri hönd við okkur fell, sem heita Urðarfell. Þau eru tvö, Urðarfellið stóra og Urðarfellið minna. Þau eru aðskilin af gili er nefnist Kálfsgil. Í því er uppspretta nefnd Sælubuna. Gott vatn ungum sem gömlum.

Hlíðardalur

Tóft í Hlíðardal.

Utan í Urðarfelli stóra er Strandardalur, en í Urðarfelli litla eru Hlíðardalirnir tveir. Þá komum við í Katlana og Katlahraun. Við sniðskerum það vestur á við og erum þá komnir á fjallsbrúnina. Heita hér Katlabrekkur þar sem leiðin liggur niður af fjallinu. Þar í grasivaxinni laut eru vegamót. Liggur ein leiðin þaðan út með Hlíðarfjalli og heitir þar Hlíðarvegur. Önnur leið er þarna og heitir Vogsósaleið. Liggur hún niður svæði sem kallast Rofin um Aldindal og Stekkjardali í Hlaupandahóla heim til Vogsósa.
En við skulum halda áfram og stefna á byggðina. Leiðin liggur um Austur-Rofin,og sunnar er fell á vinstri hönd, sem heitir Vörðufell. Þar voru lögréttir þeirra Selvogsinga. En fell þetta er einnig frægt fyrir sínar mörgu vörður. Svo er mál með vexti, að þegar unglingar voru sendir að leita fjár eða annars búpenings, þá kom oft fyrir, að þeir fundu ekki gripina. Fóru þeir þá á Vörðufell, og ef þeir hlóðu vörðu brást það ekki að þeir fundu gripina. Leiðin liggur þarna upp svo nefndar Eymu-Illhæðir eða Eymu-Hellhæðir, og svo er komið að Kökhól og Skálinn er þar ekki langt frá. Austan leiðarinnar eru nokkrar hæðir, svo sem Strandarhæð og Strandarhellir, og þar skammt frá er hellirinn Gapi, og enn sunnar er Bjarnarhellir. Á þessum stöðum eru rúmgóðir fjárhellar.
Nú erum við komnir niður á þjóðveginn og þar hittum við á vegamót. Við höldum svo niður í Klifið og eru þá Dalhólalágar á hægri hönd, en nokkru neðar á vinstri hönd eru Bjarnastaðahólar. Þeir sem byggja Þorkelsgerði fara nú í suð-vestur, en Bjarnastaðamenn og Nesmenn halda niður undir túngarð. Þar skilja enn leiðir, og halda Bjarnastaðamenn suður og heim, en Nesmenn austur með garði um slétta velli, sem heita Flatir, síðan í túngarðshliðið og heim til bæjar.
Við köllum þetta Selvogsleið eða Selvogsveg, en Selvogsingar kalla hana Suðurferðaleið, og er það einkennilegt, því leiðin liggur því sem næst í norður. Þessi leið sem við höfum nú farið er ágæt gönguleið að sumri til, tekur 6 klukkustundir að ganga hana þegar rólega er farið. Ráðlegg ég öllum sem vilja halda sér ungum að ganga hana tvisvar til þrisvar á sumri. – Gísli Sigurðsson“

Heimild:
-Þjóðviljinn 15. júlí 1973, bls. 6-7.

Strandardalur

Strandardalur – minjar. Loftmynd.

Hraun

Ólafur Þ. Kristjánsson skrifaði um „Kapelluna í hrauninu og heilaga Barböru“ í jólablað Alþýðublaðs hafnarfjarðar árið 1961:

„Sunnan Hafnarfjarðar er land hrjóstugt og hraunótt. Það er ekki aðeins, að þar sé hraun við hraun, heldur liggur þar víða hraun á hrauni. Mjög eru þessi hraun misgömul, en flest eru þau miklu eldri en mannabyggð á landi hér.
Ólafur Þ. KristjánssonEitt þessara hrauna er svonefndur Bruni, úfið hraun, lítt gróið og illt yfirferðar. Eru hæg heimatökin hjá Hafnfirðingum að kynna sér útlit og yfirborð hraunsins sjálfir, eins og margir þeirra hafa raunar gert, en til fróðleiks og samanburðar skal hér sýnt, hvernig þetta hraun kom útlendum mönnum fyrir sjónir 5. september 1772, en þann dag var hinn nafnkunni Englendingur, Sir Joseph Banks, þar á ferð, og segir hann frá á þennan veg (þýðing dr. Jakobs Benediktssonar í Skírni 1950, bls. 218-219): „Herra Troil og ég gengum í dag framhjá stað sem á kortinu er kallaður Hvaleyri og rákumst þar af tilviljun á hraunstraum sem virtist geysi-viðáttumikill og þakti allt landið eins langt og augað eygði og fyllti hvern dal á hvora hlið sem var meðfram rennsli sínu. Frá jaðrinum og hér um bil hálfa mílu í áttina að miðjunni var hann eintómar smáhæðir, og yfirborð þeirra var yfirleitt fremur slétt, en gárótt alveg eins og málmur eftir bræðslu, þegar gjallið fer að harðna ofan á honum. Þessar gárur höfðu fengið á sig þúsundir ólíkra myndana, líklega eftir því sem vindur eða aðrar orsakir höfðu haft áhrif á hið bráðna efni. Inni í hrauninu var staður sem hægara er að ímynda sér en lýsa. Hraunstraumurinn hafði hér verið hraður og stöðugt brotið flögur af yfirborði sínu jafnóðum og það storknaði. Þessar flögur hafði hann borið með sér, oft á rönd, og hlaðið upp hólum sem voru aðallega úr steinhellum, oft mjög stórum, sem stóðu á rönd. Óþolandi var að ganga á þeim og auganu voru þær sundurtættari en nokkur hlutur sem ég hef áður séð. Þetta svæði var nærri tvær mílur á breidd, en hinum megin var flatlendi, þakið sléttu hrauni eins og áður var lýst, eins langt og augað eygði, sennilega allt frá rótum næstu fjalla, hér um bil tíu mílur frá okkur. Fyrir neðan okkur var sjórinn, en í hann hafði þessi gífurlegi eldstraumur runnið.“

Kapeluhraun

Kapelluhraun – jarðfræðikort.

Hraun þetta, Bruninn, helur komið úr gígaröðum uppi við Undirhlíðar og fallið í sjó fram. Telja jarðfræðingar, að það hafi verið eftir að land byggðist, en þó á fyrstu öldum byggðarinnar. Má telja víst, að það sé þetta hraun, sem í annálum er kallað Nýjahraun fyrir utan Hafnarfjörð. Svo Ber og að orði komizt í landamerkjaskrám, að mörkin milli Hvaleyrar og Straums séu í norðurbrún Nýjahrauns.
Ekki er að efa, að ferðalög á landi hafa verið töluverð suður með sjó þegar á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, og vegurinn sennilega legið suður frá Hafnarfirði á svipuðum slóðum og hann liggur enn. Þegar svo hraunið rann, hefur sú leið teppzt með öllu, og hefur þá orðið að krækja upp á Undirhlíðar, ef á landi átti að fara. Má nærri geta, hve þægilegt það hefur verið, eins og land á skaganum er yfirferðar. Það hefur þess vegna efalaust verið reynt að ryðja veg yfir hið nýrunna hraun eins fljótt og lært hefur þótt. Sjálfsagt hefur það verið gert, meðan hraunið var enn volgt eða jafnvel heitt undir niðri, þótt ylirborðið væri orðið storkið. Mætti ætla, að ýmsum hafi þótt þetta dirfskuverk mikið og ekki hættulaust.

Kapella

Kapellan og Alfaraleiðin t.h.

Vegurinn hefur legið yfir hraunið öldum saman á sama stað og hann var lagður í öndverðu, því að engar minjar sjást um reiðgötu yfir það nema þar. Var sá vegur notaður þar til akvegur var lagður yfir hraunið nokkru ofar. Gamli vegurinn var sléttur og vel ruddur, hvort sem svo vandlega hefur verið frá honum gengið í byrjun eða bætt um síðar. En krókótt hefur hann legið, eins og vænta mátti, þar sem reynt var að rekja sléttustu leiðina og sneiða hjá mishæðum.

Árni Helgason

Árni Helgason.

Rétt neðan við veginn svo sem miðja vega í hrauninu stendur rúst eða tóft hlaðin úr grjóti. Hún hefur lengi gengið undir nafninu Kapella, og hefur neðsti hluti hraunsins tekið nafn af henni og nefnist Kapelluhraun.
Séra Árni Helgason í Görðum nefnir Kapelluna í sóknarlýsingu 1842 og getur þess, að fólk segi, að „þar séu dysjaðir þeir menn frá Bessastöðum, sem drepnir hafi verið í hefnd eftir Jón biskup Arason 1551, er ólíklegt þykir satt geti verið.“ — Það er víst óþarfi að taka það fram, að þarna liafa aldrei neinir menn verið dysjaðir.
Önnur sögn hermir, að eftir að Norðlendingar höfðu drepið Kristján skrifara suður á Kirkjubóli á Miðnesi seint í janúar 1551, hafi lík hans verið flutt landleið til Bessastaða til greftrunar. Hafi dagur ekki enzt til fararinnar og Kapellan svonefnda þá verið hlaðin til þess að geyma líkið í til næsta dags.

Joseph Banks

Joseph Banks – 1743-1820.

Þessi saga nær auðvitað engri átt. Það hefur verið miklu meira verk að hlaða Kapelluveggina en flytja líkið inn á Hvaleyri, en þar var þá byggð, svo að hægt hefði verið að setja það inn í hús. Hitt gæti frekar átt sér stað, ef færð hefur verið slæm og flutningsmenn orðið dagþrota í Kapelluhrauni, að lík Kristjáns hafi verið geymt náttlangt í Kapellunni, hafi hún staðið þar fyrir, eins og líklegt má þykja, að verið hafi. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi segir heldur ekki annað í grein sinni um Kapelluna í Árbók Fornleifafélagsins 1903 (bls. 34) en að þar sé sagt „að lík Kristjáns skrifara hafi verið náttsett“.
Ekki virðist það ólíklegt, sem menn hafa gizkað á, að Kapellan hafi verið reist í hrauninu miðju, þegar vegurinn var ruddur yfir það nýrunnið, og hafi hún verið raunveruleg kapella eða bænhús, ætlað til þess að menn bæðust þar fyrir, ekki einungis þeir menn, sem lokið höfðu hinu háskasamlega verki, vegarruðningu í heitu hrauni, heldur og aðrir ferðamenn, er leið ættu hér um. Var þetta allvíða gert í kaþólskum löndum, að reisa lítil bænhús við vegi, ekki sízt þar sem vandfarið var eða hættulegt.

Uno von Troil

Uno von Troil – 1746-1803.

Vorið 1950 rannsakaði dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður Kapelluna ásamt fleiri mönnum. Hefur hann ritað glögga skýrslu um þá rannsókn í Árbók Fornleifafélagsins 1955—1956, bls. 5—15. Er hér farið eftir þeirri frásögn um allt, er Kapelluna varðar og þá gripi, sem í henni fundust, en miklu ýtarlegri er þó skýrsla fornminjavarðar, og verður að vísa þeim til hennar, er meira vilja vita um þetta efni.
Kapellan snýr nokkurn veginn frá austri til vesturs, og hafa dyrnar verið á vesturgafli, eins og tíðkast hefur á guðshúsum. Hún er 2,40 m á lengd að innan, en breiddin er 2,20 m við vesturgaflinn, en 2,10 m við austurgafl. Veggirnir hafa verið hlaðnir úr hraunhellum og vel og vandlega frá hleðslunni gengið. Þykktin hefur verið um einn metri.

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn.

Ekki er vitað, hvernig þakið hefur verið. Ætlar þjóðminjavörður helzt, að það hafi verið uppreft og hvílt á mæniás. Hefur húsið verið vel manngengt, að minnsta kosti í miðjunni. Allt telur þjóðminjavörður benda til þess, að hús þetta hafi verið kapella, enda mæli ekkert á móti. Segir þá nafnið á rústinni rétt til um upphaflega notkun hennar. Dýrlingslíkneski lítið, er þar fannst, bendir og til hins sama.
Það er langt frá Kapelluhrauni til Litlu-Asíu, en þó víkur nú sögunni þangað, til borgar þeirrar, er Nikomedia hét og stóð í miklum blóma á öldunum fyrir og eftir Krists fæðingu, þrátt fyrir jarðskjálfta og árásir óvina.
Snemma á 3. öld eftir Krist var í borg þessari heldri maður, sem átti dóttur forkunnarfríða, sem Barbara hét. Var hann svo gagntekinn af fegurð dóttur sinnar, að hann tímdi engum manni að gefa hana og læsti hana inni í rammgerðum turni, til þess að gárungarnir gleptu hana ekki. Þó lánaðist einum af hinum vísu kirkjufeðrum, þeim er Origenes hét, að komast inn til hennar, og kenndi hann henni kristna trú með þeim árangri, að hún lét skírast. Af þeim sökum lét hún gera þrjá glugga á baðherbergi sitt, þar sem ekki áttu að vera nema tveir, og gerði hún það til að minna á heilaga þrenningu. Jafnframt lét hún gera krossmark í vegginn. Líkaði föður hennar illa, er hann komst að þessu, því að hann var trúmaður mikill í gömlum stíl. Segja sumir, að nú hafi hann gjarnan viljað gifta hana, en hún neitað öllum biðlum og sagzt vera brúður Krists og engum dauðlegum manni gefast. Hitt ber öllum saman um, að faðir hennar reiddist svo þrákelkni hennar, því að hún vildi með engu móti leggja niður kristinn sið, að hann seldi hana í hendur yfirvöldum borgarinnar. Höfðu þau við hana hvers konar fortölur, en hún lét ekki skipast við þær. Var hún þá beitt margvíslegum harðræðum, en allt kom fyrir ekki, hún var staðföst í kristinni trú. Var hún þá að lokum hálshöggvin, en elding af himni laust jafnskjótt böðul hennar til bana.
Heilög BarbaraEnginn veit með vissu, hve mikill sannleikur felst í þessari fornu frásögn. Hitt er víst, að Barbara var snemma tekin í helgra manna tölu, og er með vissu vitað, að hún var dýrkuð á 7. öld. Seinna var hún talin ein af fjórum fremstu kvendýrlingum kirkjunnar, en hinir voru þær Katrín helga, Margrét helga og Dórótea helga.
Gott þótti að heita á Barböru helgu í þrumuveðri og hvers kyns óveðri og einnig til varnar gegn húsbruna. Þá varð hún og verndardýrlingur þeirra manna, sem að sprengingum störfuðu, svo sem námumanna og stórskotaliðsmanna. Púðurgeymslur í frönskum og spænskum herskipum voru kallaðar nafni hennar (Saint Barbre og Santa Barbara). — Enn þótti gott að heita á hana, þegar búast mátti við bráðum bana.
Ekki er vitað með vissu, hvort tilbeiðsla heilagrar Barböru hefur verið meiri eða minni hér á landi. Sennilega hefur hún verið allmikil eins og annars staðar. Engin kirkja hér á landi var þó helguð henni fyrst og fremst, en hún var meðal verndardýrlinga tveggja: Reykholtskirkju í Borgarfirði og Haukadalskirkju í Biskupstungum. Getið er um líkneki af henni í kirkjum. Myndir af henni voru á ýmsum altaristöflum, sem enn eru til, og einnig voru þær saumaðir í prestsskrúða, til dæmis að taka í kórkápu Jóns biskups Arasonar. Sagan um hana var snemma þýdd á norrænt mál, og um hana var ort kvæði (Barbárudiktur).

Barbara

Heilög Barbara – altaristafla í Varsjá í Póllandi.

Barbara hefur aldrei orðið algengt kvenmannsnafn hér á landi. Þó hafa nokkrar konur borið það nafn bæði fyrr og síðar. Á myndum er Barbara iðulega látin standa á turni, sem oft er með þremur gluggum. Stundum er fallbyssum komið fyrir hjá turninum. Það ber og við, að mærin heldur á turninum í fangi sér.
Þegar rústin í Kapelluhrauni var rannsökuð 1950, fundust þar ýmsir smáhlutir, þar á meðal brot úr rafperlu, 3 leirkersbrot rauðleit, krítarpípuleggur og 3 skeifubrot. En miklu merkast af því, sem þar fannst, var líkneski heilagrar Barböru. Lýsir dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður því á þennan veg í áðurnefndri ritgerð í Árbók Fornleifafélagsins: „Mynd af heilagri Barböru, telgd úr grágulum leirsteini, aðeins efri hluti eða vef niður fyrir mitti, fannst í þremur hlutum, sem auðvelt var að fella saman.
Kapella
Myndin eða líkneskið er nú aðeins 3,3 sm á hæð, en hefur líklega verið um 5,5 sm heilt. Það er haglega telgt, andlitið nokkuð máð, hár mikið og hrokkið og nær niður á herðar og sveigur um yfir ennið. Barbara er í flegnum kjól, aðskornum í mitti, barmurinn hvelfdur, kjóllinn í miklum fellingum neðan beltis. Hún grípur hægri hendi í kjólinn, og sést, að hann er ermalangur. Skikkju slegna hefur hún yfir um axlir, og fellur hún með stórum, mjúkum fellingum á baki. Í vinstri hendi heldur Barbara á einkunn sinni, turninum, og hvílir hann við vinstri öxl og upp með vinstri vanga hennar. Turninn er ferstrendur með undirstöðu neðst, síðan nokkru grennri bol, þar sem tveir gluggár sjást, sinn á hvorri hlið, slær sér síðan aftur út líkt og neðst, en upp úr hefur loks verið toppur, sem nú er að miklu leyti brotinn af. Sýnilegt er, að einhvern tíma hefur verið brugðið knífi á líkneskinu, sennilega til að kanna efnivið þess, eins og menn gera oft fyrir forvitni sakir. — Lítið brot úr samskonar eða mjög líkum steini fannst einnig í tóftinni skammt frá Barbörulíkneskinu. Það er tiltelgt og mætti vel vera úr neðri hluta myndarinnar, þótt ekki sé hægt að koma því í samhengi nú.“ Við þessa lýsingu þjóðminjavarðar er engu að bæta öðru en því, að líkneskið skipar nú virðulegt sæti í sýningarsal Þjóðminjasafns.
Kapella
Það er augljóst af stærð líkneskisins, að það hefur verið ætlað til þess að menn bæru það á sér sem verndargrip og tækju það gjarnan upp og gerðu til þess bæn sína, þegar þeim þótti mikils við þurfa á ferðalögum eða við aðrar aðstæður.
En hvernig var þetta líkneski komið í kapelluna í Nýjahrauni? Gæti hugsazt, að það hafi verið sett upp í kapellunni, þegar hún var nýreist, og kapellan gerð, þegar vegurinn var ruddur yfir Nýjahraun? Kristján Eldjárn minnir á, að gott þótti að heita á Barböru í háska af eldi, húsbruna og sprengingum, og segir síðan: „Mundi hún þá ekki einnig hafa dugað vel gegn háska af völdum jarðelds og hraunbruna? Ef rennsli Nýjahrauns og háski þess á einhvern þátt í upphafi kapellu á þessum stað, er máske Barbara mær sá meðal helgra manna, sem eðlilegast er að hitta þar fyrir, úr því á annað borð svo ótrúlega heppilega vildi til, að nokkur dýrlingsmynd fannst.“
En það gæti líka hugsazt, að ferðamaður hefði gleymt líkneskinu þarna eða týnt því. Kannske það hafi verið unglingur, sem í fyrsta sinn fór í verið til Suðurnesja og hafði fengið líkneskið að gjöf sér til verndar, þegar hann kvaddi móður sína fyrir norðan eða kannske ömmu sína, og tók nú líkneskið upp, þegar hingað kom, til þess að biðja hina helgu mey verndar í ókomnum háska?

Kapella

Kapellan í Kapelluhrauni endurgerð.

Kannske það hafi líka verið aldurhniginn maður, sem marga bratta báru hafði séð og aldrei látið undir höfuð leggjast að biðja Barböru að vernda sig á vertíðinni? Og vissi það á eitthvað, að líkneskið týndist? Boðaði það feigð? Eða átti það kannske öldungur, sem fór frá sjó í síðasta sinn og tók það upp til þess að þakka Barböru helgu fyrir vernd og varðveizlu á langri ævi? Skyldi hann það kannske eftir vísvitandi þarna í kapellunni? Var það þá gert í þakkarskyni? Eða var kominn nýr siður í land, svo að öruggast væri að láta ekki líkneski heilagra manna finnast í fórum sínum?
Við getum spurt og spurt. En heilög Barbara, gerð úr tálgusteini, horfir með heiðum svip og óræðum augum fram undan sér og svarar engu. Þó flytur hún, þar sem hún situr í skáp sínum í Þjóðminjasafni, með sér andblæ frá þjóðlífi, sem var, en er ekki lengur.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 16.12.1961, Kapellan í hrauninu og heilög Barbara – Ólafur þ. Kristjánsson, bls. 4-5 og 12.

Kapella

Kapellan 2022.

Öskjuholtsskjól

Gengið var með Jónatani Garðarssyni um nokkra skúta í landi Hvassahrauns, Straums og Þorbjarnarstaða. Byrjað var á að rölta upp í skúta í Öskjuholti með viðkomu í Virkinu undir Virkishólum, þaðan var haldið í skúta í Smalaskála, þaðan eftir Alfaraleiðinni yfir að Þorbjarnarstöðum, að Loftskúta (Grænudalaskúta) og stefnan tekin á Gránuskúta og síðan Kápuskjól og Kápuhelli í Jónshöfða með viðkomu í stóru Tobburétt (Grenigjárrétt) og litlu Tobburétt.

Þorbjarnarstaðir

Gránuskúti – fjárskjól ofan Þorbjarnarstaða.

Virkið var nota til tilhleypinga í brundtíð.
Sunnan undir Öskjuholti, klofnum ílöngum hraunhól skammt ofan línuvegarins um Hvassahraun, er gat. Hleðsla er um gatið. Þegar inn var komið sást vel hvar hlaðið hafði verið efst fyrir skútann, en að utan er vel gróið yfir hleðsluna. Um er að ræða lágt, en rúmgott fjárskjól. Innst undir hlöðnum veggnum voru nokkur bein. Erfitt er að koma auga á opið, nema komið sé að holtinu úr suðri.
Á Smalaskálahæð er varða. Önnur er norðar og sú þriðja skammt austar. Sunnan undir holtinu, sem þar er miðsvæðis er gat. Hleðsla er um gatið. Þegar inn var komið blasti við rúmgott fjárskjól. Fyrirhleðsla er innar í því til að varna fé áframhaldandi för inn eftir hvolfinu. Skjólið er nokkuð þurrt. Nokkrir smalaskálar eru í hraununum. Yfirleitt var nafnið notað um skála eða skjól, en það virðist ekki eiga við á Reykjanesskaganum. Þar virðist heitið hafa verið notað um hæðir, nema nöfnin hafi verið tengd hæðum með skjólum í, líkt og þarna.
Skoðaðar voru landamerkjavörður milli Hvassahrauns og Lónakots sem og leiðarvörður við Alfaraleiðina og komið við í Loftskúta, fallegu fjárskjóli. Þar eru og sagnir um að menn frá Hvassahrauni hafi geymt rjúpnafeng sinn er þeir voru við veiðar í hrauninu.
Nokkur leit hefur verið gerð að Gránuskúta, Kápuskjóli og Kápuhelli, en tveimur þeirra er lýst í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði.

Kápuskjól

Kápuskjól (Kápuhellir).

Gengið var um heimatún Þorbjarnastaða, rústir síðasta torfbæjarins í landi Hafnarfjarðar. Búið var að Þorbjarnastöðum fram undir seinna stríð (1940). Þar bjuggu síðast Ingveldur Jónsdóttir, dóttir Guðmundssonar á Setbergi, og Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi. Þau eignuðust 11 börn – og það þótt húsbóndinn hafi yfirleitt verið fjari bæ til að afla lífsviðurværis. Það færi vel að gera bæinn upp og hafa hann til sýnis sem dæmi um slíka bæi er voru víða í umdæminu. Hann hefur allt til að bera; heimagarð, vörlsugarð, heimtröð, brunn, selstíg, stekk og fjárskjól.
Gránuskúti er ekki auðfundinn. Hann er sunnan við Þorbjarnastaði, austan Miðmundarhæðrar. Falleg hleðsla er um munnann, en þegar inn er komið tekur við flórað gólf að hluta og fyrirhleðslur. Skjólið er mjög rúmgott og hefur verið vel lagfært. Þá er það óvenjuþurrt. Grána gæti verið nafn á á frá Þorbjarnarstöðum, líkt og Grákolla í frásögninni af Arngrímshelli í Klofningum, þeirri er allt fé Krýsuvíkurbænda átti að hafa verið komið frá.
Haldið var upp í gegnum Selhraun og upp í stóru Tobburétt í Grenigjá. Um er að ræða fallegar hleðslur í og um gjána. Greni er skammt norðan við hana. Steintröll vakir yfir gjánum. Svæðið er allvel gróið. Austar er litla Tobburétt. Gengið var að henni í bakaleiðinni.

Tobburétt

Tobba við Tobburétt.

Straumsselsstígnum var fylgt upp í Jónshöfða. Þar í Laufhrauni komu bæði Kápuskjól og Kápuhellir í ljós. Þessa skúta er einnig erfitt að finna. Lítil varða er á höfðanum ofan við skjólin. Hún er á landamerkum Þorbjarnarstaða og Straums. Skjólið er í landi Straums, en hellirinn í landi Þorbjarnastaða. Fallegar fyrirhleðslur er fyrir þeim báðum. Hellirinn er heldur stærri. Fjárkyn Þorkels á Þorbjarnastöðum var sagt kápótt og þótti allsérstakt. Þá var það ferhyrnt og snúið upp á hornin, sem einnig þótti sérstakt.
Straumsselsstíg var fylgt niður að litlu Tobburétt í Tobbuklettum. Fyrirhleðsla er í stórri hraunsprungu, en ef vel er að gáð má sjá að hlaðinn bogadreginn veggur hefur verið framan við hana. Hann hefur verið leiðigarður fyrir fé, sem rekið var að réttinni að ofanverðu. Stígurinn liggur nú í gegnum garðinn. Þegar horft var á þverklett sprungunnar mátti vel sjá móta fyrir andliti í honum. Ekki er ólíklegt að ætla að álfarnir hafi viljað með því láta vita af tilvist sinni á svæðinu með þeim skilaboðum að fólki gæti þar varfærni.
Annars eru álfa- og huldufólksáminningar víða í hraununum. Þeir, sem gaumgæfa og kunna að lesa landið vita og þekkja skilaboðin. Þegar farið er eftir þeim er engin hætta búin, en ef einhver gleymir sér að er ólæs á landið – guð hjálpi honum.
Gengið var til baka eftir Straumsselsstíg í gegnum Selhraunið og niður að Þorbjarnastöðum.

Öskjuholtsskúti

Í Öskjuholtsskúta.

Krókssel

Í örnefnalýsingu fyrir Krók í Grafningi eftir Guðmund Jóhannesson, Króki, kemur fram að Krókssel sé austan við Kaldá, „mjög fornar rústir; í Selmýri og Stardal var stundum slegið.“

Krókssel

Ölfusvatn eða Vatn er fyrst nefnt í máldaga kirkjunnar þar, sem talinn er frá 1180. Samkvæmt Vilkinsmáldaga frá árinu 1397 var hálft heimaland Ölfusvatns kirkjueign. Ekki er minnst á Hagavík.
Krókur er nefndur í Gíslamáldögum frá því um 1570. En þangað var kirkjusókn að Ölfusvatni. Þá átti Ölfusvatnskirkja hálft heimalandið. Eftir því mætti ætla að Krókur hafi verið sérstök jörð og lögbýli eins og kemur fram í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, en bæði Krókur og Ölfusvatn (Hagavík, hjáleiga Ölfusvatns) voru þá eign Skálholtsstóls. Ölfusvatn og Krókur áttu selstöður í heimalöndum samkvæmt Jarðabók Árna og Páls. Ölfusvatn átti selstöður í Gamlaseli undir Selhól vestan Ölfusvatnsáar og væntanlega síðar Nýjaseli á Seltungum sunnan Mælifells, vestan Þverár. Ekki er ólíklegt að Ölfusvatn hafi um tíma selstöðu þar sem síðar varð Hagavík.
Áhugaverður staður efst við Kaldá - Súlufell fjærStefnan var tekin á Krókssel. Gengið var til suðurs með vestanverði Víðihlíð, austan Ölfusvatnsáar. Lokaður vegur er að sumarbústöðum í hlíðinni. Þegar kom að mótum Þverár og Kaldár var þeirri síðarnefndu fylgt áleiðis upp að Selmýri. Farið var yfir á mótum Stapafellslækjar og Kaldánni fylgt alveg að upptökum austast í Stardal. Þar kemur hún úr lind norðan í rótum nafnlauss fells er lokar af Djáknapoll ofanverðan. Mætti það þess vegna heita „Djákninn“ til heiðurs sögunni. Áin kemur úr safaríkjum lækjum á leiðinni, en upptökin eru í lindinni, sem væntanlega er affall Djáknapolls.
Rétt neðan norðvestanvert Súlufell er nokkurt gil í Kaldá. Gengið var upp með því að austanverðu. Foss er efst í gilinu, en ofan hans beygir áin meira til suðurs, með vesturhlíðum fellsins. Beint ofan gilsins, á austurbakkanum, eru tóftir Krókssels. Tvö rými með dyr til norður, að ánni. Erfitt gæti verið að koma auga á þær, en FERLIRsfélagar eru orðnir öllu vanir. Tóftirnar, sem voru á kafi í sinu, eru alveg upp undir rótum fellsins. Selstígurinn liggur yfir tóftirnar, en hann er raunar hluti af gamalli þjóðleið (gamli suðurferðavegurinn skv. örnefnalýsingu Guðmanns Ólafssonar) frá Villingavatni og Krók til vesturs, um Moldarklif, Upptök Kaldárnorður fyrir Stapafells og áfram til suðurs og upp með fellinu vestanverðu, um Þverárdal og Ölkelduháls í Brúnkollublett og síðan Milli hrauns og hlíða, vestur að Kolviðarhóli. Brúnkollublettur var aðaláningarstaður ferðamann á þessari leið. Gatan yfir Þverána á vaði þars em FERLIRsfélagar áðu á leið sinni að Nýjaseli (sjá Grafningsel…) með viðkomu í Nýjaseli á leiðinni upp með Laka. Hálsinn, sem gatan kemur yfir norðan Súlufells heitir Hempumelur að sögn Egils Guðmundssonar, bónda á Króki. Þar segir sagan að djáknin hafi verið færður úr hempunni áður en honum var drekkt í pollinum efra. Ástæðuna taldi Egill hafa verið einhver kvennamál.
Þótt tóftirnar séu að mestu jarðlægar mótar enn fyrir rýmum. Sel þetta er greinilega mjög fornt, eins og fram kemur í örnefnalýsingunni.
Selmýri er vestan Kaldár, stór hallandi mýrarfláki. Spölkorn ofar er Stardalur, vel gróinn og beitarvænn. Við skoðun á austurbakka Kaldár austast í Stardal, þar sem áin á upphaf sitt í lindinni fyrrnefndu, virðast vera mjög fornar tóftir, nánast jarðlægar. Þúfnamyndun er þarna, en ekki er með öllu útilokað að þarna undir kunni að leynast enn eldri leifar af seli. Bergstál skálalaga Súlufells rís hátt í suðaustri. Ekki er vitað um nafnið á skálinni, en hún gæti þess vegna hafa heitið Selskál. Við komuna á þennan birtist mótökunefnd óvænt (um miðjan apríl) – tvær gráar kindur, tvíburar. Egill sagði síðar að þær hlytu að hafa verið Villingavetningar.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín. 

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Krók eftir Guðmund Jóhannesson.
-Örnefnalýsing Guðmanns Ólafssonar af Króki.
-Jarðabók ÁM 1703.

Krókssel

Krókssel.

 

Hetturvegur

Gunnar Benediktsson, áhugamaður um gönguslóðir, skrifar um „Hettustíginn“ í Morgunblaðið 7. júní 1988. Þar segir hann m.a.:
Gunnar Benediktsson„Örnefnin Hattur og Hetta eru til á Sveifluhálsi og er Hattur austar (norðaustar). Ber þar saman örnefnaskrá Krýsuvíkur og landabréfum. Á landabréfunum eru nöfnin mismunandi nákvæmlega sett, en röðin er jafnan sú sama. Hins er þá að geta að Hettuvegur liggur ekki milli Hatts og Hettu (eins og sagt er í kynningu Útivistar) heldur sunnan undir Hettutindi. Þar heitir skarðið Sveifla og má sjá þegar á uppdrætti Björn Gunnlaugssonar frá 1831 að þar merkir hann veg og ritar nafnið Sveifla meðfram honum. Þessi leið er á uppdrætti Björns merkt sem leið frá Krýsuvík vestur yfir hálsa til Grindavíkur og hefur legið um Vigdísarvelli og Stóra-Hamradal og áfram vestur hjá Skála-Mælifelli og Drykkjarsteini til Grindavíkur eða á Sandakraveg til Vogastapa.
Vegurinn fyrir suðurenda Sveifluháls og vestur um Ögmundarhraun er einnig merktur á uppdrátt þennan, en á sumum yngri uppdráttum Björns er honum sleppt. Ketilsstígur er og sýndur. Þá má vitna í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 þar sem sagt er: „Geststaðir skal hafa jörð heitið undir Móhálsum ausanverðum, þar allnærri er nú liggur almenningsvegur“.

Hettuvegur

Rústir Gestsstaða má enn sjá skammt suðvestan vistheimilis í Krýsuvík. Séra Jón Vestmann í Selvogsþingum segir af fornleifum árið 1818 frá vegaruðningum um Ögmundarhraun og þjóðsögunni um hann. Hann lýkur frásögninni á þessum orðum: „Er hér síðan alfara vegur, miklu skemmri, sem áður lá norður í Fjöllum nærri Hrauns upptökum.“ Sér Jón endurtekur þetta efnislega í sóknarlýsingu 1840. Unnt er að benda á fleiri tilvitnanir, er að þessu lúta.
Hér má segja að kominn sé mergurinn málsins: Áður en vermanna- eða þjóðleiðin var rudd yfir Ögmundarhraun var farin leið yfir fjöllin, innar á hálsunum, er þræddi fyrir upptöku hraunsins. Efstu aðalupptakagígir Ögmundarhrauns eru sem kunnugt er sunnan og suðaustan Vigdísarvalla. Þarna kemur í raun enginn annar vegur til greina en sá er Þorvaldur Thoroddsen gaf nafnið Hettuvegur. Hann hefur legið frá Krýsuvík undir Bæjarfelli, skammt suðvestan Gestsstaða, lagt á hálsinnn upp gjallbrekkurnar á móts við Gestsstaðavatnið mitt, upp í skarðið Sveiflu sunnan undir Hettutindi, ogniður á jafnlendi austur af Vigdíarvallahálsi.
Auðveldast er að finna leiðina þar með því að ganga á gilbrún, þar sem bílvegur nútímans um Móhálsadal liggurnæst Sveifluhálsi að vestan, syðst í eða sunnan Krókamýrar. Þar má við hagstæð birtuskilyrði sjá mannvirki á götunni í austurkinn gilsins auk þess sem glöggt mörkuð sporhella er í austurbrún þess. Ekki er gatan alls staðar greinileg um brekkur og hjalla upp undir Hettutind, en margir kaflar augljósir þeim, sem vanir eru göngum um grónar götur. Ekki skal láta það villa um fyrir sér að þar sem brattast er, ofan jarðhitasvæðisins vestan í Hettu (upp af Hettumýri), hefur jarðvegstorfa skriðið fram og skemmt leiðina þó að sauðfé og menn láti það ekki aftra sér. Hafa skal hugfast að götur hverfa mjög fljótt í gjallbrekkum, en hallinn í austurhlíð hálsins er hægur, sé rétt sneitt.
KortLeið þessi hefur, auk þess að vera alfaravegur til Grindavíkur, verið leið vermanna og annarra er niður fóru Þórustaðastíg á Vatnsleysuströnd.
Enn má geta þess að hverasvæðið í Krýsuvík, skarðið Sveifla, Vigdísarvellir, jarðhitasvæðið við Sandfell o.s.frv. eru öll á eða við belti það, er liggur eftir Reykjanesskaga endilöngum ogtalið er marka skil (og núningsflöt eða – kanta) jarðskoruflekanna, sem kenndir eru við Evrasíu og N-Ameríku. Þarna hefur því jörð skolfið – sveiflast – mjög oft. Þarna kann að vera skýring á örnefninu Sveifla. Þessu til frekari áréttingar má svo minna á margfallna bæina á Vigdísarvöllum vegna jarðskjálfta. Stefnu-breytingu eldgígaraðarinnar framan vallanna tengja sumir skilum þessum.
Ekki má rugla Hettustíg saman við Ketilsstíg norðar, og Drumdalaveg sunnar, sem ávallt eru merktir á landakort þessarar aldar, en Hettuvegur aldrei.
Til viðbótar framanritaðu má færa að því nokkur rök (sem hér er of langt að tekja) að vegurinn um Ögmundarhraun hafi ekki verið ruddur (a.m.k. ekki gerður hestfær) fyrr en um eða rétt fyrir 1750, en fyrsta gerð þjóðsögunnar um vegagerðina þar birtist í Ferðabók Sveins Pálssonar 1796.
Megi svo göngumönnum gróinna gatna vel farnast.“
Sjá meira HÉR, HÉR og HÉR. [Hafa ber í huga að gera þarf ákveðna fyrirvara við kort Björns, a.m.k. á nokkrum stöðum. Til dæmis er Selvogsgatan (Suðurfarargatan/Suðurferðaleiðin) fá Selvogi til Hafnarfjarðar dregin niður í Kaldársel með Kaldá þegar komið er framhjá Valahnúkum, en ekki niður með Smyrlabúðum og áfram niður með Setbergshlíðum eins og hún lá líka fyrrum.]

Heimild:-Gunnar Benediktsson, Morgunblaðið 7. júní 1988, bls. 4C.

Hetta

Hetta.

Hafnarfjörður

Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1966, „Við veginn“ – Magnús Jónsson, bls. 21:

„Ein af mestu umferðaræðum landsins er sem kunnugt er vegurinn milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Verður í þessu greinarkorni rabbað um eitt og annað, sem í hugann kemur á hluta af þeirri leið, þótt lesandinn megi ekki búast við að verða að miklum mun fróðari eftir lesturinn en áður.

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Nú liggur þar steyptur vegur, en á fyrsta tugi aldarinnar og lengur stóð þar yfir vegarlagning sem leysti reiðgötuna af hólmi, því að um eiginlega lagða vegi var ekki að ræða hér á landi áður fyrr, heldur troðninga, sem ekki voru mótaðir af mannshöndinni, nema e.t.v. nokkrum steinum rutt frá. Þó varð ekki komizt hjá víðtækara verki, þar sem brunahraun þöktu stór landsvæði. En þar hafa menn lyft huganum frá bakraun og tilbreytingarlausum átökum við hnullunga og eggjagrjót með myndum þjóðsagna: Ósk um að berserkir — sem tæpast voru mannlegar verur — fengju rutt vegi um þessa farartálma á svipstundu svo að segja. Samkvæmt þjóðtrúnni gerðist slíkt bæði í Berskerkjahrauni á Snæfellsnesi og í Ögmundarhrauni, sem snemma í byggðarsögu landsins rann í sjó fram milli Krýsuvíkur og Grindavíkur. Er þar auðséð, hvar hægt en óstöðvandi hraunrennslið hefur umkringt mannvirki, — en það er önnur saga.
En hvað sem líður fyrstu myndun lestaveganna í hraununum, þá voru þeir „framtíðarvegir‘, sem fullnægðu kröfum kynslóðanna, sem ekki þekktu annað betra. Öðru máli var að gegna með mýrarkenndan jarðveg. Verið gæti, að margur lestarmaður hafi með nokkurri furðu hugleitt þá tilhögun skaparans, að nautgripunum skyldi veitast svo furðu auðvelt að ösla um þau fen og foræði, sem klyfjahestarnir hans urðu að krækja fyrir, já, oft um langan veg, þótt ekki bæru þeir alltaf þunga úttekt úr kaupstaðnum. „Betri er krókur en kelda“, segir máltækið. Og því er það, að einhverjir fyrstu lagðir vegir voru hinar svonefndu brýr, sem lagðar voru stytztu leið yfir mýrarfláka víða um land. Er eitt slíkt örnefni til hér í nágrenni Hafnarfjarðar, sem er „Dysjabrú’. Er það vegarkaflinn þaðan sem hrauninu sleppir og að Garðaholti. Þetta mannvirki er að sjálfsögðu kennt við Dysjar, eitt þekktasta býli Garðahrepps.

Í þéttbýlinu

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1903.

Þegar halda skyldi t. d. frá Reykjavík til Suðurnesja, var farið um Hafnarfjörð með sjónum. Við Arahús — nánast þar sem nú er Strandgata 21 — var æði stutt bilið á milli sjávarmálsins og hins byggða bóls. Þegar suður fyrir lækinn kom tók við samfelld möl, allt að Hamrinum syðri. Þótt sjávarmöl sé þreytandi manna- og hestafótum, hefur hún ýmsa kosti. Leikvöllur barnaskólans frá 1902 var t. d. þakinn þykku lagi af henni. Varð sársaukinn hverfandi lítill, þótt dottið væri á hnéð í áflogum, þar sem hver steinn var svo afsleppur að hann ýttist frá. Fátt er líka heppilegra til að drýgja með steinsteypu en hrein möl úr fjörunni. En nú er velmegunin svo mikil, að sjaldan er talað um að drýgja nokkurn skapaðan hlut í þeirri merkingu. Gatan sveigði fljótlega upp á við, þar sem enn er farið að Ásmundarbakaríi og Prentsmiðju Hafnarfjarðar, því næst þar sem er Suðurgata 24, en síðan skáhallt upp hallann í átt til sjávar. Fljótlega hallaði því undan fæti aftur og var þá komið á Flensborgarmöl.
Algengt vegarstæði er „milli hrauns og hlíða“, t.d. upp í Kaldársel, en hér hefur það sennilega verið bezt „milli mýrar og malar“, ef svo mætti segja. Síðan lá leiðin með sjónum, líkt og þegar nú er farið að verksmiðjunni Lýsi og mjöl, og reyndar alveg suður að Hvaleyri. Var svo farið beint af augum framhjá Hjörtskoti og komið niður þar, sem síðar var sandnámið verðmæta og umdeilda.

Byggðin að baki

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni.

Þá tekur hraunið við. Það er með ávölum klettabungum og gróðri sízt minni en í Hafnarfjarðarhrauni. Er m. a. athyglisvert að skoða, hve langir geta orðið leggir blómanna, sem vaxa í klettasprungunum og teygja sig í birtuna. — Nokkurn veginn sézt hvar lestavegurinn liggur, allmiklu nær sjónum en hinir, og hafa hófar og mannsfætur jafnvel unnið nokkuð á sléttum klöppunum. Þó er vegna gróðurs hraunsins ekki eins auðvelt að fylgja þessari slóð í Hellnahrauninu eins og var til skamms tíma, þegar í Kapelluhraunið kom. Það er miklu yngra, sennilega runnið á 12. öld að áliti jarðfræðinga, ólíkt hinu fyrra að allri gerð og liggur ofan á því. Í annálum er hraunbreiðan öll nefnd Nýjahraun. Í því er lítill gróður annar en mosi, og þess vegna var það, að elzta leiðin um það sást svo vel. Hún þaktist öll grasi og öðrum lággróðri eins og græn rönd um gráan mosann, frá norðri til suðurs, sundurslitin af nýrri veginum sunnan til í hrauninu, — lá þar upp fyrir hann.

Selsvellir

Alfaraleiðin.

Flest sagnorð um þann hluta þessarar hraunbreiðu, sem hér er átt við, mætti hafa í þátíð. Hraunið er þar tæpast lengur til, en hefur verið rutt, flutt og sléttað með stórvirkum vélum. Enn hefur þó verið þyrmt mannvirkinu gamla, Kapellunni, sem hraunið næst sjónum dregur nafn af. Í Jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1961 er ýtarleg grein um mannvirki þetta eftir Ólaf Þ. Kristjánsson skólastjóra. Það var vorið 1950 að lítið líkneski fannst þar af einum dýrlinga kaþólsku kirkjunnar, heilagri Barböru. Þótti hún góð til áheita gegn hvers konar eldsvoða, sprengingum og þvíumlíku. Þar sem, eins og áður er sagt, að hraunið rann eftir landnámstíð, verður manni ósjálfrátt að tengja þennan dýrling einnig bæn gegn eldgosum og hraunrennsli.

Suðurnesjavegur

Suðurnesjavegurinn vestan Straums.

Vart er hægt að hugsa sér meiri andstæður en hljóðlátt bænarandarp innan veggja þessa litla frumstæða húss og svo þau gífurlegu umsvif nútímans, sem fyrirhuguð eru svo að segja á þessum stað, þar sem er álverksmiðjan. Er þá að engu orðin hin kyrrláta fegurð byggðarlagsins í Hraununum, sem svo er nefnt. Hraunin taka við þar sem Kapelluhrauni sleppir. Kapellan lá alveg við elzta veginn — reiðgötuna, — nýrri vegurinn var ofan við hana, en sá nýjasti — steypti — er fáa metra neðan við.
Í Hraununum voru allmargir bæir, en þó aldrei kirkjustaður. Er nú aðeins Straumur í byggð og Óttarsstaðir tveir. Bærinn í Þýzkubúð stendur enn, og ber hann og nánasta umhverfið vitni um hinn hverfandi eiginleika, nægjusemi. Ofar, þar sem vegirnir liggja nú, voru m. a. Stóri- og Litli-Lambhagi og Þorbjarnarstaðir.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur við Alfaraleið.

Efst liggur reiðgatan gamla, en nú verður aftur erfiðara um vik að fylgja henni. Hraunið, sem við nú erum komin í, er ein af stærri hraunbreiðunum og nefnist Almenningur. Er það álíka gróið og Hellnahraun, en líkist enn meira Hafnarfjarðarhrauni. Elzti vegurinn liggur þar fjærst sjónum eins og áður er sagt, en nýrri vegurinn hjá rauðamelsnámunum og síðan klettaborginni Smalaskála. Steypti vegurinn er enn neðar. Við elzta veginn, nokkru nær Hafnarfirði en rauðamelurinn er tekinn, er vatnsbólið Gvendarbrunnur. Þar var tilvalinn áningarstaður, alltaf vatn og svo grasi gróið sléttlendi umhverfis.
Er slíkt óvíða að finna á Reykjanesskaga, og bendir m.a. til þess hið langa nafn hreppsins, sem við nú nálgumst, Vatnsleysustrandarhrepps. En hér hvílumst við (til næstu jóla?) Hér hefur líka Guðmundur biskup Arason hvílt lúin bein, eftir að hafa vígt vatnslind þessa, öldum og óbornum til blessunar. Og hér umhverfis vatnsbólið sat einn bekkur úr Barnaskóla Hafnarfjarðar fyrir 30 árum, ásamt kennaranum, Friðrik Bjarnasyni. Fölleitur, brúneygur drengur úr þeim hópi hefur stundum farið þangað síðan.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 24.12.1966, Við veginn – Magnús Jónsson, bls. 21.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Gamli barnaskólinn fyrir miðju.

Jóhanna

Sagnfræðinemar við Háskóla Íslands fluttu stutt erindi um rannsóknir sínar á sögu Grindavíkur á 18. öld í Flagghúsinu (2009). Um var að ræða málstofu Landseta Skálholtsstóls um fólk og atvinnu í Grindavík á síðari hluta 18. aldar. Flutningur hvers erindis tók um 10-15 mínútur.

Sérstaða landbúnaðar í Grindavíkurhreppi á 18. öld
SelsvellirJón Torfi Arason sagði allar jarðir á þessum tíma hafa verið eign Skálholtsstóls, nema Húsatóftir, sem var konungsjörð. Árið 1703 voru 9 lögbýli í Grindavíkurhreppi, en jarðir stórlega úr sér gengnar og fokið yfir þær sandi eins og getið er um í heimildum þess tíma. Sérstaða Grindavíkurjarðanna hafi aðallega verið fólgin í tvennu; annars vegar fjörubeitinni og hins vegar selstöðubyggðinni. Í hinu fyrrnefnda hafi aðallega falist þang og beit fyrir skepnur, aðallega fé, og söl og murukjarni til manneldis. Við Faxaflóa sunnanverðan og ef til vill víðar er hann [::murukjarni] oft nefndur einu nafni ,,kjarni„, dæmi: „Fyrir Hópslandi [ […]] er nógur kjarni (::þáng, sem menn gefa kúum, og mjólka þær þar eftir (heimild: Jarðabókin 1703).“
FjörubeitUm hið síðarnefnda (selstöðu-byggðin) eru til litlar litlar heimildir en skilið eftir sig miklar mannvistarleifar. Um sel Grindvíkinga fjallaði Ómar Smári Ármannsson, nemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands, m.a. skrifað BA-ritgerð. Ljóst er að 6 af 9 lögbýlum í Grindavíkurhreppi höfðu í seli 1703. Allt fé bændanna mun hafa verið haft í seli og auk þess stundum annar búpeningur.
Ferðabók Eggerts og Bjarna, sem undirbúin var 1743-’57, gefur til kynna að þeir félagar hafi verið á ferð um Grindavíkurhrepp 1755. Fannst þeim lítið til koma varðandi beit, telja sandinn jafnvel valda sandsótt og harðbýlt hafi þarna verið þá. [Sandsótt mun einnig nefnd sandvelta, en svo nefndist það ef hross urðu veik af því að bíta á sendinni jörð, bíta fjöruarfa eða eta hey í sandi.] Fannst þeim félögum harðbýlt á Grindavíkurjörðunum, gras lítið, en til nytja þang og þari.
Myndir af selsminjunum hafi m.a. vakið áhuga hans á Grindavíkursvæðinu, auk sjósóknar og fleira. Minjarnar væru áþreifanlegur vitnisburður um þennan mikilvæga þátt búsetuminjanna í arfleifð Grindvíkinga. Eins og fram kom er fátt um heimildir. Þó má sjá í riti Eggerts og Bjarna merki þess í orðum aðþeir hafi komið við á Selsvöllum undir Selsvallahálsi þar sem Grindvíkingar hafi haft í seli. Ekkert er hins vegar minnst á vinnu í seli eða annað um verklagið því tengdu.
Trjáreki hafi verið talinn til tekna, en hann hafi jafnan verið eigandans eign, sem var Skálholtsstóll. Kú hafi verið á sérhverri hjáleigu, en fátt var um hesta í umdæminu á þesu tímabili.

Kjör hjábúðarmanna í Grindavík á síðari hluta 18. aldar
MárMár Kristjónsson reyndi að áætla fjölda hjábúðarmanna á þessum tíma og hver staða og kjör þeirra hefðu verið. Til marks um hjáleigurnar mátti geta þess að frá Járngerðarstöðum hefðu verið 9 hjáleigur. Á öllum tímabulum var að meðaltali fleira fólks á hverju lögbýli en á hverri hjáleigu. Við fyrstu sýn virðist mega rekja það til fjölda vinnumanna frekar en til barnafjölda. Vinnuskylda hvíldi á hjáleigubændum, auk annarra kvaða margs konar, s.s. mannslán (róðrarkvöð), dagsláttukvöð og hríshestalánskvöð svo eitthvað sé nefnt.  

LögbýliMannfjöldi í Grindavíkurhreppi á árunum 1712 – ´62 voru 254- 242 manns, þ.e. fór heldur fækkandi. Árið 1789 voru þeir 194 og árið 1790 samtals 163. Grindvíkingum fækkaði því nokkuð á þessum árum. Á lögbýlum og hjáleigum voru gjarnan foreldrarnir með 1-3 börn að jafnaði, auk vinnufólks. Kjarnafjölskyldan var ríkjandi fyrirkomulag. Árið 1703 var hlutfall lögbýla 72.2% og hjáleigubænda 14.4%. Vinnufólk og aðrir voru því um 13.4%. Af hinum síðastnefndu voru 4.2% hjáleigubændur án grasnytjar og 9.2% vour húsfólk. Þurrabúðarfólk var gjarnan undir landeigandann sett, þ.e. Skálholtsstól. Tengdist það oft aðkomufólki á vertíðum, en um 400 slíkir einstaklingar komu til Grindavíkur frá öðrum landshlutum til tímabundinna starfa á þessum tíma.
ÞurrabúðLandsskuld var nokkurs konar ársleiga. Bændur greiddu landsskuld til eiganda jarðar. Hjáleigumenn greiddu landsskuld til bónda. Þegar getið er um „leigukúgildi“ er átt við skylduleigu á kú. Á hverri hjáleigu og hverju löggbýli fylgdu „leiguskilmálar“. Leigan fólst í kvöðum sem inna þurfti að hendi, landsskuld sem þurti að greiða og leigukúgildum. Mælikvarðinn var „landaurakerfið“, þ.e. kúgildið var samsvarandi 6 ám og 6 ær samsvöruðu 40 vættum. Aðrir leiguskilmálar voru að yfirleitt var leigt til eins árs í senn og mismunandi var hvaða hlunnindi fylgdu. Helstu hlunnindin á þessum tima var „viður til húsbóta“, reki og söl. Bág kjör hjáleigubænda í Grindavík birtast m.a. í bréfi til Landsnefndar (1770-1771) og umkvörtunum hjáleigubænda á þeim tíma. Segja má í stuttu máli að kjör hjáleigubænda hafi verið kröpp og að þeir hafi þurft að vinna mikið. Á þeim tíma var u.þ.b. bil annar hver maður í Grindavíkurhreppi hjáleigubóndi.

Verslun í Grindavík á síðari hluta 18. aldar
BjörnBjörn Rúnar Guðmundsson lagði út frá því hvaða áhrif fjárkláðinn hafi haft fyrir Grindavík, mætti sjá hans merki í versluninni? Eins og menn rekur minni til (og heimildir kveða á um) má rekja upphaf fjárkláðans að elliðavatni fyrir ofan Reykjavík árið 1761. Um tveimur árum síðar (1763) mun sýkin hafa breiðst til Grindavíkur. Annar mikilvægur áhrifavaldur á verslunarsöguna er hörfun Hörmungarfélagsins 1759 og upphaf konungsverslunar-innar 1760 til 1763.
Hugmyndin var að bera saman viðskipti Grindvíkinga við konungsverslunina fyrri á þessum árum. Kenningin væri sú að viðskiptin hafi dregist saman vegna fjárkláðans og að Grindvíkingar, sem og aðrir Íslendingar, hafi dregið saman seglin í viðskiptum við kaupmenn á þessum harðindaárum.
En hvað keyptu Grindvíkingar árin 1761 og 1673? Þegar bornar voru saman verslunarskýrslur sem finnast frá nokkrum völdum bæjum í Grindavík og viðskipti frá 4 bæjum; Járngerðarstöðum, Hópi, Vallarhúsi og Hústóftum, mátti sjá að heildarviðskipti hækkuðu frá árunum 1761-1763, skuldir lækkuðu og meira var eitt í brennivín og tóbak. Þrátt fyrir það var ekki jafn afgerandi munur á skuldum og heildarviðskiptum.
LeifarSegja má að fjárkláðinn, líkt og víðast annars staðar, hafi ekki haft svo mikil áhrif í Grindavík því fiskurinn var aðal undirstaðan í efnahag Grindvíkinga. Grindvíkingar höfðu fátt annað að velja en að leyfa sér munað þrátt fyrir sauðfjársýki. [Kannski að sandurinn og harðbýlið hafi stuðlað að minni áherslu á sauðfjárhaldið á þessum tíma og því hafi áhrif kreppu á því sviði haft minni áhrif en ella].
JóhannaAfgerandi breyting var meiri verslun með brennivín, þ.e. bændur þurftu, eða vildu, í auknum mæli taka það út hjá kaupmanni. Á þeim tíma voru 5 fiskar lagðir til jafns við 1 pott af brennivíni. Í verlsunarskrám má sjá að sumir lögbýlisbændur tóku hálft þriðja hundrað fiska út með þeim hætti. Má telja það vel í látið. Hugsanlega má rekja það til brúðkaupa eða stórafmæla á þeim bæjunum, en líklegra er þó að Gindavíkurbændur hafi annað hvort ekki átt aðra útektarmöguleika hjá kaupmanni eða honum og þeim hafi bara hugnast þau viðskiptin svona vel og þau tekið mið af velmeguninni.
Kaupmenn á þessum tíma voru ekki mjög velviljaðir háleigubændum eða höfðu lítið úrval þeim til handa. Dæmi er um að hjáleigubóndi einn hafi þurft spýtu á ljáinn. Gat hann einungis fengið of stutta spýtu, sem bóndi gat ekki notað. Hafa ber í huga að spýta á ljá var eitt að nauðþurftaráhöflum þess tíma.

Upphaf matjurtaræktar í Grindavík
ÞátttakendurJóhanna Þ. Guðmundsdóttir rakti matjurtaræktun Grindvíkinga á síðari hluta 18. aldar. Lagði hún út af áhuga og eftirfylgju séra Ara Guðlaugssonar frá Stað, sem var mikill áhugamaður um slíkt á árunum eftir 1770. Hann skrifaði m.a. um kálgarðsræktun árið 1777. En upphafið mætti rekja til átaks danskra stjórnvalda á þessum tíma. Átakið var liður í stærra verefni stjórnvalda sem var einskonar allsherjaráætlun um viðreisn atvinnuvegnna á Íslandi. Skriður komst síðan á matjurtarækt í Grindavík með dugnaði séra Ara á Stað.
Árið 1776 voru í Staðarsókn 43 heimili með 21 garð eða u.þ.b. helmingur heimilanna (sóknin náði þá yfir meginhluta Grindarvíkurhrepps). Segja má að það megi fyrst og fremst þakka áhuga og eftirfylgju prestins. Hvatti hann aðra bændur til að rífa, sá og rækta m.a. kartöflur, næpur og kál og lagði þeim auk þess hönd til verksins. Uppskeran varð hins vegar rýr og görðunum fækkaði. Til marks um það var engin garður í rækt árið 1799. Ástæðan mun m.a. hafa verið slæm veðrátta, ónýtt fræ til bænda, erfitt var að nálgast það og lélegrar verkunnáttu, auk þess sem eldgos og harðindi fylgdu í kjölfarið á þeim tíma.
Kartöflu- og kálrækt á Íslandi varð svo ekki algeng fyrr en á árunum 1807-1814, á tímum Napóleonstyrjaldanna, þegar skortur varð á innfluttri mjölvöru og öðrum nauðsynjum í landinu [hljómar kunnuglega m.v. ástandið í dag (2009)].

Ýmsar áhugaverðar spurningar voru lagðar fyrir flytjendur og var þeim svarað af öryggi. Framsögufólk á hrós skilið fyrir markvissa framsetningu og hófleg efnistök.

Grindavík

Grindavík.

Grindarskörð

Eftirfarandi upphafslýsing á ferð upp Grindarskörð birtist í Mbl. árið 1980. Lýsingin er betri en margar aðrar, sem birst hafa um þetta stórbrotna svæði í seinni tíð. Af frásögnum fólks virðist flest það, sem ætlaði að ganga hina sögufrægu Selvogsgötu, aldrei hafa ratað inn á hana, en samt talið sig hafa elt hana að Hlíð í Selvogi. Loks, í lok fróðleiksmolanna, er rifjað upp þjóðsögulegt örnefnaskýringarívaf og önnur skyld endurrituð úr  „safni alþýðlegra fræða íslenskra – Huld, 1890-1898.

Gata í Grindarskörðum

„Fyrr á tímum lá aðalleiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogs, fyrir norðan Valahnúka, um Grindaskörð, Hvalskarð og þaðan til byggða í Selvogi. Í daglegu tali er þessi leið nefnd Selvogsgata. Hún er á ýmsan hátt torsótt. Meðfram henni er lítið sem ekkert vatn að finna, hún liggur að mestu um gróðurlaus brunahraun og í Grindaskörðum kemst hún í 400 m y.s. Með breyttum samgönguháttum lagðist umferð um Selvogsgötuna niður að mestu og hin síðari ár hefur verið lítið um mannaferðir í Grindaskörðum. Þó munu gangnamenn eiga þar leið um vor og haust, rjúpnaskyttum bregður fyrir á haustin í leit að bráð og svo kemur fyrir að einstaka göngumaður sé þar á flakki sér til gagns og ánægju.
Eins og sjá má á korti eru Grindaskörðin milli Lönguhlíðar og Kristjánsdalahorns. Þar eru þrír hnúkar sem heita Stóribolli, Tvíbollar (á kortinu nefndir Miðbollar) og Syðstubollar. Á þessu svæði öllu hefur verið mikil eldvirkni áður fyrr og eru Stóribolli og Tvíbollar gamlir gígar, sem hafa lagt til megnið af því hrauni, sem þekur svæðið fyrir norðan og vestan skörðin. Fyrir ferðamanninn eru Tvíbollar einna forvitnilegastir og þangð tökum við stefnuna. Þegar komið er upp á gígbarminn kemur í ljós að gígskálarnar eru tvær. Unnt er að ganga brúnirnar allan hringinn, en þó er nokkuð laust undir fæti á stöku stað.
Enginn hefur rannsakað þetta svæði betur er Jón Jónsson jarðfræðingur. Álit hans er að meginhluti þeirra hrauna, sem Í Völundarhúsinuþekja svæðið frá Grindaskörðum og norður að Undirhlíðum og Helgafelli, sé komið frá Stórabolla og Tvíbollum. Hann segir Stórabollahraunið eldra og liggi það víða undir Tvíbollahrauninu. Samkvæmt mælingum munu þessi hraun vera nokkurn veginn jafnstór, þekja um 18 ferkm. Hvort og vera um 0.36-0.37 km að rúmmáli. En þegar farið er að athuga aldur Tvíbollahrauns nokkru nánar, koma fram sterkar líkur til þess, að það hafi runnið eftir landnám norrænna manna hér á landi, því undir því hefur fundist á einum stað hið svokallaða landnámslag, en það er öskulag, sem talið er að sé frá því um 900.
Útsýnið af Bollunum er frábært í einu orði sagt. Hraunbreiðurnar til norðurs blasa við fyrir fótum manns, og gamla Selvogsgatan hlykkjast milli hraunhólanna í áttina að Valahnúkum. Og í einni sjónhending greinir maður byggðina á Innnesjunum, allt frá Hafnarfirði til Kjalarness. Og ekki spillir fjallasýnin með Snæfellsjökul sem útvörð í vesturátt. Þótt útsýnið til suðurs sé ekki eins tilkomumikið, hefur það samt glögga mynd af hinu gífurlega hraunhafi sem þekur þennan hluta Reykjanesskagans, enda telur Jón Jónsson að á sama tíma og Tvíbollahraunið rann, hafi á annan tug gíga við Grindaskörð og þar fyrir suðvestan, verið virkir.

Miðbolli

Þótt við höfum ekki farið lengra en upp í Grindaskörðin, er margt annað að sjá og skoða, sem athyglisvert er, þótt ekki hafi verið minnst á það hér. T.d. er margir fallegir og sérkennilegir hellar í hraununum fyrir norðan skörðin og má það nefna hellana í Dauðadölum og Kristjánsdölum.
Við höldum til baka sömu leið að bílnum. Það hallar undan fæti og leiðin sækist greitt. Og þá er gott að rifja upp stutta sögn úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar: “Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík. Það hefur verið seint á Landnámstíð, því fjölbyggt hefur verið orðið syðra eftir þeirri sögn, að fátækt fólk hafi flakkað í Selvog bæði utan með sjó og sunnan yfir fjall. Það þótti Þóri illt og setti því grindarhlið læst í Grindaskarð, en annað í það skarð, sem farið er úr Grindavík og upp á Siglubergsháls. Þar af skulu þessi örnefni vera dregin: Grindaskarð og Grindavík”.
Þjóðsagan um Þóri haustmyrkur og örnefnið Grindarskörð birtist í Huld I, „skráð eptir sóknarlýsingu Jóns Vestmanns Drykkjarsteinn efst í Kerlingarskarðiá Vogsósum 1840″.
„Í mæli er að Þórir haustmyrkur, landnámsmaður í Selvogi og bóndi í Hlíð, hafi lagt veg yfir Grindarskörð; hafi þá verið svo mikill skógur yfir allt, að hann hafi sett raftagrind afberkta á skarðsbrúnina að vestanverðu, sem horfir til Hafnarfjarðar, til þess að fá rétt hitt á Skarðið, þegar ferð lá yfir fjallið. Skyldi því vegurinn og skarðið hafa fengið nafn af þessari grind. Rétt vestan við veginn er hnöttótt blásið fell, sem er nafn gefið, svo eg viti, en fyrir vestan fell þetta er Kerlingarskarð (sjá HÉR), líklega nefnt svo af skessu þeirri, sem mælt er að hafi búið í Stórkonugjá; er hún spölkorn fyrir austan vegin n, þegar komið er upp á Grindarskarða veg. Gjá þessi er víð og löng, víst yfir 200 faðma löng, en um dýpt hennar [er óvíst], því undir slátt eður miðsumar er hún ætíð barmafull af snjó. Annars er pláss þetta, eins og allur fjallgarðurinn vestanverður, efstu og fjærstu afréttarpláss Árnesinga.
Enn er sagt að Þórir haustmyrkur hafi eitt sinn gengið að geldingum sínum og séð til ferðar téðrar kerlingar, elti hana og náði [henni] á hæsta fjalla kjöl; bar hún þá fullbyrði af hval. Hann þóttist eiga hvalinn og vildi drepa hana, en hún beiddi sér griða, líklega óviðbúin, og keypti sig í frið við hann með því að lofa honum að láta sauði hans ekki renna vestur af fjalli, heldur halda þeim í hans eiginbyggðar högum. Heitir þar Hvalshnúkur, sem þau fundust, hár, ávalur [og] blásinn í sand og grjót. Liggur Grindarskarða vegur í skarðinu hjá þessum hnúk [og er það síðan nefnt] Hvalskarð.“

Vatnsból ofan Skarðanna

Fáir fara í dag um nefnd Grindarskörð. Selvogsgatan er í dag gengin, jafnvel undir leiðsögn, um fyrrnefnt Kerlingarskarð. Beggja vegna Grindaskarða eru tóftir, fyrrum skýli rjúpnaskytta. Undir Kerlingarskarði má sjá leifar af birgðastöð brennisteinsvinnslumanna í Brennisteinsfjöllum. Efst í skarðinu eru tveir drykkjarsteinar. Neðan þess eru nokkrir hellar – sumir allmyndarlegir.
Þótt færri fari nú um Grindarskörð er þar auðgegnari uppganga á suðurleið [austurleið] en um Kerlingarskarð (munar u.þ.b. 15 mín). Þéttar vörður ofan og vestan skarðsins leiða fólk ósjálfrátt inn á Hlíðarveg að Hlíðarskarði. Selvogsgatan er hins vegar austar. Gatnamót eru við vatnsból ofan skarðanna. Liggur gatan með hlíðum að Hvalskarði, um Hlíðardal og Strandardal að Strönd í Selvogi. Gatnamót eru undir brúnum Strandardals, vestan Svörtubjarga. Þaðan liggur Hlíðargata að hinu forna höfuðbóli Hlíð, bústað Þóris haustmyrkurs.
Sjá MYNDIR.

Heimildir m.a.:
-Mbl, júlí, 1980.
-Huld I, bls. 74-75.

Grindarskörð (t.v.), Stóribolli og Kerlingarskarð (t.h.)

Svínaskarðsvegur

Í tilefni dagsins (sumardagurinn fyrsti) var gengið upp í Sumarkinn undir vesturhlíðum Skálafells um Haukafjöll og Þríhnúka. Milli kinnarinnar og Þverfells, undir Móskarðshnúkum, liggur gamli vegurinn um Svínaskarð. Stórbrotið útsýni er úr skarðinu. Að handan er Svínadalur og að ofan norðar er Trana.

Haukafjöll

Gunnar Sæmundsson við Haukafjöll.

Í leiðinni var komið við í Þerneyjarseli og Varmárseli ofan við Tröllafoss sem og Esjubergsseli undir Skopru, ofan Esjubergsflóa. Norðan Selsins er Svartiflói og Svínaskarð blasir við. Með í för var Gunnar Sæmundsson – þaulkunnugur á svæðinu, 75 ára að aldri.
Esjubergsflói er dalverpi sem skilur að Haukafjöll og Stardalshnúka. Vestan við flóann eru þrír stakir búldulaga grágrýtishnúkar í Haukafjöllum og nefnast Þríhnúkar. Esjubergsflói hefur nafn sitt af því að forðum var þangað selför frá Esjubergi á Kjalarnesi; má enn líta tóftir selsins austast í honum undir strýtumynduðum hnúk sem heitir Skopra. Klofin klettahæð er vestan selsins. Úr flóanum fellur lækur suður til Leirvogsáar um svonefnt Rauðhólsgil. Í Ferðabók (1848) Magnúsar Grímssonar segir m.a. um Rauðhól(a): “. . . . Gil þetta er kallað Rauðhólagil, og dregur nafnið af eyðibænum Rauðhólar, sem staðið hafa skammt frá gilinu. Þar er nú svart moldarflag, sem áður var túnið á Rauðhólum.“ Ætla má að bærinn hafi fengið nafn af einhverjum rauðum hólum þarna en allt eins að fólkið hafi flutt það nafn með sér.
Að sögn Magnúsar Jónassonar, bónda í Stardal, er nafnið dregið af hól ofan við gili, Rauðhól, einnig nefndur Stórhóll. Hann er rauðleitur, en að mestu gerður úr móbergi.
Á loftmynd að dæma er greinilegur stígur, líklega selsstígurinn, utan í hlíð suðvestan selsins. Stígurinn er framhald stígs er liggur upp með Rauðhólsgilinu. Hægt er að fylgja honum upp í Esjubergsflóa. Stígurinn liggur yfir þvergil og svo beina leið í selið.
Í fyrstu var þó gengið upp með Leirvogsá að norðanverðu og kíkt á svonefndar Tröllalágar, grasi grónar. Áarmegin er nær þverhníptur klettaveggur. Í honum er hrafnslaupur.
Einu ummerkin eftir tóftir í Tröllalágum, en þar er Þerneyjarsel jafnan sagt hafa verið, eru ógreinilegir leggir út frá hæðinni syðst í þeim. Erfitt er að greina hvort þeir hafi verið veggir eður ei.
Móskarðshnúkar Eftir að hafa litið á Tröllafoss var gengið upp í Varmársel. Það er mjög vel greinilegt svolítið ofar með ánni, í gróinni sléttri kvos.
Gengið var til norðurs milli Haukafjalla og Amta, vestast í Stardalshnúknum. Stærsta og fremsta klettahæðin nefnist Stiftamt. Undir því er klettahæð, Strípur. Vestan í henni er aflagður sumarbústaður.
Þegar komið var upp í Esjubergssel, í 213 m hæð, mátti greina þar a.m.k. tóftir 5 húsa og stekksmynd. Eitt húsið er stærst, það austasta að norðanverðu. Tækifærið var notað og rústirnar rissaðar upp. Sennilega er þarna um tvær selstóftir að ræða.
Í jarðabókinni 1703 segir um Esjubergsselstöðu: ‘’Selstöðu á jörðin undir Svínaskarði að sunnan, og er þar berjalestur nokkur.’’ Þetta ár er kvikfénaður í Esjubergi 10 kýr og 24 ær með lömbum, a.m.k., fyrir utan geldneyti og hross. Hlutfall kúa er hátt og því e.t.v. selstaðan svona rík af húsakosti eins og sjá má.
Skv. Jarðabókinni 1703 höfðu margir bæir í Kjós selstöður í Stardalslandi. Bæir, sem höfðu selstöðu í Stardal fyrir og á tímum Jarðabókar eru: Gufunes, Korpúlfsstaðir, Blikastaðir, Lágafell, Helgafell og Þerney (flestar stórjarðir). Esjuberg og Móar eiga þá selstöðu í Sámsstaðalandi sem nú tilheyrir Stardal. Um Móa í Kjós er sagt um selstöðu: “…brúkast hjá Esjubergsseli.“ Sem fyrr segir sést móta fyrir tóftum tveggja selja Í Esjubergsseli. Þá sést móta fyrir hleðslum suðaustan við selstæðið, handan gróna svæðisins neðan rústanna. Þar gæti stekkurinn hafa verið. Benda má einnig á að þegar rústir Sámsstaða eru skoðaðar líkjast þær mest seljarústum.

Svínaskarð

Genginn Svínaskarðsvegur.

Þá var gengið til móts við Svínaskarðið, um Sumarkinn og Skarðskinn, austan Skarðsáar. Hrútshornið sést mjög vel utan í suðaustanverðri hlíð Móskarðshnúks (-hnúka) og Kerlingin, 4-7 m hár (svartur) drangur, svo til undir toppi fjallsins. Bláhnúkur trjónir á toppi Þverhlíðar og Gráhnúkur lægri, svolítið vestar.
Móskarðshnúkar eru gerðir úr líparíti. Þeir eru hæstir 807 m. Fjallið Trana norðaustan þeirra er 743 m. Það sést þegar komið e rupp í skarðið. Hnúkarnir (stundum er talað um hnúk í eintölu (þann austasta) og aðrir sérnefndir) eru í austanverðri Esjunni. Örnefnastofnun segir að „hnúkarnir [séu]kenndir við svonefnd Móskörð. Á korti yfir Gullbringu- og Kjósarsýslu sem Björn Gunnlaugsson teiknaði fyrir Bókmenntafélagið 1831 hefur hann skrifað Móskarðahnúkr (Haraldur Sigurðsson, Kortasaga Íslands frá lokum 16. aldar til 1848, milli bls. 244 og 245 (1978)).
Jónas Hallgrímsson nefnir Móskarðahnúka svo í sínum skrifum, m.a. í dagbókum 1840 (Ritverk. Bréf og dagbækur II:364 (1989)). Hið sama gerir sr. Magnús Grímsson í Ferðabók sinni fyrir sumarið 1848, bls. 12 og víðar (1988). Hann talar um Móskarðahnúkinn enn eystasta sérstaklega (14). Um tildrög nafnsins hefur hann þessi orð: “grjótið í öllum þessum hnúkum er ljósrautt tilsýndar, og þar af mun Móskarða-nafnið dregið” (12).
Skálafell Þannig lýsir sr. Stefán Þorvaldsson hnúkunum undir fyrirsögninni Fjöll í sóknalýsingu Mosfells- og Gufunessókna 1855: “Móskörð, háir fjallahnúkar af gulleitu (Thrachyt) grjóti, vestanvert við Svínaskarð. Þetta fjall er hæsti tindur allrar Esjunnar.” (Sýslu- og sóknalýsingar. Landnám Ingólfs III:221 (1937-39)).
Þorvaldur Thoroddsen nefnir Móskarðshnúk 1890 (Ferðabók III:10) (1958) en Móskarðshnúka 1883 (Ferðabók I:102), og 1898 (Ferðabók IV:114). Sú nafnmynd hefur yfirleitt birst á opinberum kortum fram undir þetta. Á nýju korti Landmælinga Íslands, Ferðakorti 2 í mælikvarðanum 1:250.000 (2003), er nafnmyndin þó Móskarðahnúkar, sett að tillögu Örnefnastofnunar.
Í landamerkjalýsingu Eyja í Kjós frá 1887 er hnúkanna ekki getið en hinsvegar í landamerkjalýsingu frá 1921, þar sem segir: “alla leið suður á Móskarðahnúk”.
Egill J. Stardal lýsir Móskörðum á þessa leið í Árbók Ferðafélags Íslands 1985: “Móskörð eru hnjúkahvirfing úr baulusteini eða líparíti. Austasti hnjúkurinn og þeirra tígulegastur er Móskarðahnjúkur, sem rís vestan Svínaskarðs, einn og stakur eins og tröllvaxinn píramídi.” (92). Í sömu bók talar Ingvar Birgir Friðleifsson um Móskarðahnúka, en einnig í eintölu um Móskarðahnúk (166). Sr. Gunnar Kristjánsson skrifar í sömu bók um Móskarðshnúka (180).
Örnefnaskrár í Örnefnastofnun nefna ýmist Móskarðahnúka (þar á meðal Egill J. Stardal) eða Móskarðshnúka og eru heimildarmenn um sitt hvort jafnvel frá sama bæ og sýnir það hversu mjög á reiki nafnmyndirnar hafa verið. Yfirleitt er við því að búast að orðmyndin –hnúkur sé á Suðurlandi en –hnjúkur norðan- og austanlands, en sumum finnst hnjúkur “réttari” mynd en hnúkur.
Svínaskarðsleið Sérkennilegt er að kalla –skörð fjöll eins og sr. Stefán gerir í sóknalýsingu sinni en skörðin eru fleiri en eitt og því eðlilegt að nefna hæsta hnúkinn Móskarðahnúk. Ekki er gott að segja um hvort eintalan –hnúkur hefur leitt af sér eintöluna Móskarðs-, eða hvort Svínaskarð austan við hann hefur haft áhrif á það. Fleirtalan Móskarða- kann að hafa haft áhrif á myndun fleirtölunnar –hnúkar, þó að vissulega lægi beint við að hafa þá mynd, af því að hnúkarnir eru fleiri vestur af honum og eru nafnlausir.“
Svínaskarð er milli Skálafells að suðaustanverðu (Skarðskinn heitir norðvesturhlíð þess) og Móskarðshnúkar í Esju að vestanverðu.
Þegar horft er út Svínadal er Múlinn milli Svínadals og Trönudals á vinstri hönd en Hádegisfjall á þá hægri. Það fjall nefnir sr. Sigurður Sigurðsson reyndar Írafellsfjall í sóknarlýsingu sinni frá 1840. Ofan af Hádegisfjalli er útsýni gott yfir Kjósina. Sunnan við það er Skálafellið. Sagnir segja það væntanlega kennt við skála Ingólfs Arnarsonar: „Ingólfr lét gera skála á Skálafelli”, segir í Landnámu, en þegar komið er að fellinu frá Stardal má vel sjá hina stóru skál þess. Líklegra er að Skálafell dragi nafn sitt af henni.
Örn H. Bjarnason hefur m.a. lýst hinni gömlu leið frá Lækjartorgi í Hvalfjarðarbotn – um Svínaskarð (fyrst í útvarpserindi og síðan í greinum). Þar segir hann m.a.:
„Sumt fólk í dag virðist halda að fyrstu landnámsmennirnir hafi verið þeir sem innleiddu íslenska sjónvarpið. Svo er þó ekki. Áður en sjónvarpið kom til sögunnar hafði þjóðin lifað í þessu landi í 1100 ár og fréttaflutningur einna helst með förufólki, en ferðamátinn lengst af tveir jafnfljótir eða þarfasti þjónninn. Hvaða leiðir menn fóru getur verið forvitnilegt að skoða.
Í þessari grein hyggst ég lýsa stuttlega gömlum götum úr Kvosinni í Reykjavík um Mosfellssveit, yfir Svínaskarð sem er milli Móskarðshnjúka og Skálafells. Þaðan svo um Reynivallaháls og inn Brynjudal um Hrísháls yfir í Botnsdal.“
Hólsfjöll Hann hefur síðan leiðina við Lækjarósinn og fer um Arnarhólstraðir, skáhallt yfir núverandi Arnarhólstún. Öll ummerki eftir gömlu leiðina, sem lýst er, að Hrafnhólum er svo að segja horfið, m.a.s. um Grafarvoginn. Á nútíma ætti nú einhver verkfræðingurinn að hafa a.m.k. það mikið raunveruleikavit í kollinum að gera ráð fyrir að ummmerki eftir hina gömlu götu mætti halda sér að einhverju leyti um slíkt nýbyggingarsvæði. Í Árbæjarhverfi hefur fólk þurft að flytja úr húsum er byggð voru yfir hina gömlu þjóð leið til austurs. Ástæðan er mikil umferð „látinna“ að næturlagi.
Örn heldur áfram: „Leiruvogar er víða getið í fornsögum. Þar áttust m.a. við Hrafn Önundarson og Hallfreður vandræðaskáld, en Hrafn sótti að honum með 60 manns og hjó á landfestar Hallfreðar. Skipið rak og lá þarna við alvarlegu skipbroti. Leiruvogar er einnig getið í Landnámu, en Hallur goðlauss nam land að ráði Ingólfs frá Leiruvogi til Mógilsár.
Rétt þar hjá sem hringvöllurinn er á Varmárbökkum var Hestaþingshóll, sem bendir til að þar hafi verið háð hestaöt, vinsæl skemmtun til forna. Þegar graðhestum var att saman var gjarnan höfð meri í látum ekki langt undan. Fnykurinn gerði þá áhugasamari um að standa sig.
Fyrir norðan hesthúsahverfið er svo Skiphóll, en hann var seinasta leiti á mörkum milli Helgafells og bæjarins Varmár. Skip fóru þarna upp um flóð m.a. til að taka hey úr Skaftatungu en Skaftatunga voru mýrar sem lágu undir Helgafelli.
Ekki langt undan eru Varmármelar. Milli þeirra heitir Klauf eða Varmárklauf. Þar lá vegurinn um að vaði á Köldukvísl fyrir neðan Tungufoss þar sem heitir Hjallberg norðan við ánna. Fyrir neðan Krókhyl var annað vað.
Minnst var á Víðirodda en það er hið gamla Tjaldanes. Þar var Egill Skallagrímsson heygður. Í Egils sögu segir: „Egill tók sótt eftir um haustið, þá er hann leiddi til bana, en er hann var andaður, þá lét Grímur færa Egil í klæði góð. Síðan lét hann flytja hann ofan í Tjaldanes og gera þar haug og var Egill þar lagður og vopn hans og klæði.“ Seinna voru bein hans flutt í kirkjugarðinn á Hrísbrú.

Hólsfjöll

Áfram lá leiðin svo fyrir sunnan Mosfell þar sem Egill bjó á efri árum og að Skeggjastöðum. Fyrir utan Mosfell er Kirkjugil en um það fóru Kjalnesingar til kirkju að Mosfelli.
Egill átti tvær kistur af ensku gulli, morðfé í þá daga. Karlinn ætlaði að ríða með það á Þingvöll og strá gullinu yfir þingheim, vildi láta menn berjast um það. Sonur hans bannaði honum þetta. Lét Egill þá tvo þræla grafa gullið en drap þá síðan svo að þeir segðu ekki frá. Sumir segja að gullið sé grafið í Kirkjugili aðrir að það sé í fenjum í dalnum eða í hver hinum megin í dalnum. Egill var brellinn.
Frá Skeggjastöðum lá leiðin á vaði yfir Leirvogsá og í brekkurótunum norður af Hrafnhólum, en síðan hjá Haukafjöllum sérkennilegum hamraborgum og norður yfir Svínaskarð, Svínaskarðsveg svonefndan. Þarna eru glöggar götur.
Svínaskarð er 481 m.y.s. og þar lá gamla þjóðleiðin um sumardag en á veturna var þar oft ófært vegna svellalaga og fannfergis. Þetta var styttri leið en að fara út fyrir Esju. Norður af lágu göturnar á gilbarmi og niður í Svínadal. Eftir honum rennur Svínadalsá og var á víxl farið vestur fyrir hana eða austan megin.
Dys er í Svínaskarði. Margt hesta- og göngufólk hefur þann sið að kasta steinvölu í Dysina, vill friða æðri máttarvöld. Það er betra að hafa Írafellsmóra með sér en á móti. Náttúran er óblíð þeim sem ekki leitar samkomulags við hana.
Fyrir fáeinum árum fór undirritaður um Svínaskarð upp úr 20. september með tvo til reiðar á leið í haustbeit að Reynivöllum í Kjós. Ég lenti í byl og vonskuveðri. Áður en ég lagði á brattann tók ég steinvölu upp af götu minni og setti í vasann. Það var hvasst í skarðinu og ég áði þar ekki heldur seildist í vasa minn eftir steinvölunni og henti í Dysina. Lúinn en sæll komst ég klakklaust að Reynivöllum. Oft hefur kaffisopinn verið góður hjá þeim hjónum séra Gunnari Kristjánssyni og Önnu, en þennan dag sló hann öll met.
Svínaskarð Svínaskarði er tengd hryggileg saga. Á aðfangadag jóla árið 1900 lagði 15 ára piltur frá Hækingsdal í Kjós á skarðið. Hann ætlaði að eyða jólunum með foreldrum sínum. Þegar hann skilaði sér ekki hófst umfangsmikil leit að honum og fannst hann loksins dáinn í snjóskafli í háskarðinu. Þannig voru þessi jól í Hækingsdal. Í Ísafold árið 1901 segir m.a.: „Pilturinn, sem úti varð aðfangadag
jóla á Svínaskarði, Elentinus Þorleifsson frá Hæklingsdal, er ófundinn enn.
Hann gisti nóttina áður í Pitjakoti og lagði einsamall á skarðið daginn eftir,
í góðu veðri, sem spiltist þó, er á daginn leið.“
Sveinn Pálsson lýsir því í Ferðabók sinni að hinn 9. október 1792 hafi hann farið frá Meðalfelli í Kjós um Svínaskarð til Mosfellssveitar. „Koldimmt var orðið þegar við komum upp á háfjallið,“ segir hann, „og komumst við með naumindum að Gufunesi kl. 11 um kveldið. Þar fengum við bát og komum til hinnar fögru Viðeyjar um miðnætti og var þá ferðum mínum lokið að því sinni, en ég mun hafa vetursetu í Viðey eins og síðastliðinn vetur.“
Fyrst var farið á bíl um Svínaskarð árið 1930. Í árbók Ferðafélags Íslands 1985 kemur fram að Vígmundur Pálsson, mjólkurbílstjóri og síðar bóndi, hafi brotist þessa leið ásamt félögum sínum í fólksbíl árið 1930. Þá höfðu menn ekki einu sinni látið sér detta í hug að fara með hestvagna um Svínaskarð. En síða er mikið vatn runnið til sjávar og nútíma jeppamönnum þykir slóðin áhugaverð.
Svínaskarðleið hefur nánast allt til að bera sem reynir á farartækin og kannski ekki síður á ökumennina. Hún er brött á köflum, langir kaflar eru mjög stórgrýttir og grófir þar sem fara verður með gát og víða þarf að þræða hægt og varlega um gilskoringa. Sums staðar er betra að fá einhvern til að standa úti og leiðbeina ökumanni þar sem grjótið getur skagað upp úr miðri slóðinni og hætt við að rekist uppundir bílinn. Það er líka bara öruggara og óþarfi að skemma nokkuð.
Í umfjöllun um „Leiðir og slóða á Reykjanesi“ hér á FERLIRsvefsíðunni lýsir Jón Svanþórsson m.a. þessari leið um Svínaskarð með eftirfarandi hætti:
Móskarðshnúkar „Ekið er af vesturlandsvegi (GPS N64 11 690 W21 41 845)af Esjumelum í austur, veg sem liggur hjá skemmum sem meðal annars eru notaðar af Fornbílaklúbbnum, og áfram austur melana, þar til komið er að gatnamótum. Annar vegurinn liggur nánast beint áfram, en hinn beygir til vinstri, og eru vegstikur með honum. Við ökum þann veg framhjá afleggjara að Völlum, og síðan framhjá afleggjara að Norður-Gröf. Næst höfum við veiðihús við Leirvogsá á hægri hönd. Við erum nú í nafnlausum dal á milli Esjunnar og Mosfells og ökum upp með Leirvogsá. að norðanverðu. Svo er ekið yfir Grafará á vaði, og svo liggur leiðinn hjá Þverárkotshálsi. Þegar fyrir hann er komið sést Þverárkot á vinstri hönd.Við ökum þvert yfir eyrar Þverár, yfir hana og komum svo að hliði á girðingu á vinstri hönd. Við förum í gegnum hliðið (GPS N64 12 623 W21 34 819) og ökum slóða sem liggur að nokkrum sumarbústöðum, sem eru dreifðir upp dalinn að austanverðu. Svo komum við að Skarðsá sem kemur úr Svínaskarði, förum yfir hana og framhjá efsta bústaðnum. Versnar nú vegurinn til muna. Leiðin um Svínaskarð var mikið farin áður en bílar komu til sögunar, enda mun styttra að fara Svínaskarð og Reynivallaháls en að fara út fyrir Esju. Nú á tímum eru það aðallega hestamenn sem fara skarðið á hestum sínum, sér til skemmtunar. Hér er mjög fallegt. Þverárdalurinn hömrum girtur, en austan við hann eru Móskörð, og Móskarðshnjúkar, sem sjást vel frá höfuðborgarsvæðinu, og virðast alltaf vera baðaðir sól (Móskörðin eru milli hnúkanna). Austan við þá er Svínaskarðið og þar fyrir austan gnæfir Skálafell. Sunnan við það er Stardalshnjúkur. Okkur á hægri hönd eru síðan Haukafjöll. Ekið er yfir nokkur lækjargil, og getur þurft að fara úr bílnum til að laga veg og leggja grjót í verstu skvompurnar. Þegar upp í skarðið er komið, í 481 metra hæð yfir sjávarmáli, blasir við mikið útsýni til suðurs, og vesturs. Þegar komið er norður á brún skarðsins, sést yfir Svínadalinn, norður um Kjós og Hvalfjörð.

Esjubergssel

Esjubergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar horft er niður í Svínadalinn, sést hvernig slóðinn fer í mörgum hlykkjum niður með giljunum, í snarbratta. Þetta er ekki fýsilegur slóði til að aka bílum eftir, en þó hefur það verið gert, en ekki er mælt með því. Ef menn reyna, og sleppa óskaddaðir niður í Svínadal, er þrautin ekki unnin, því þar taka við mýrar með tilheyrandi bleytum. Betra er að aka sömu leið til baka niður Þverárdal…“
Útsýnið úr Svínaskarði til suðurs og vesturs er stórbrotið. Þaðan má sjá svo til allan fjallahring Reykjanesskagans, að Þórðarfelli og Súlum í vestri og allt að Skeggja norðan Hengils.
Í bakaleiðinni var rakin gamla gatan er að framan er lýst, spölkorn niður úr Svínaskarðinu, áður en haldið var til baka um Þríhnúkana. Vestar er Skánardalur. Í honum er falllegur foss. Við fossinn eru háir stuðlabergsstandar. Með hliðsjón af árstíðarskiptunum mátti á áþreifanlegan hátt bæði skynja, heyra og finna muninn; annars vegar á leiðinni upp í Svínaskarð um Sumarkinn og hins vegar á leiðinni niður um háhlíðar Móskarðshnúkr. Veturinn vék skyndilega fyrir vorinu á u.þ.b. 3 metra kafla og sumarið tók við, ekki einungis með snjóleysi heldur og sól og il. Lóan lét í sér heyra og hópar liðu um loftin. Sumarbyrjunin lofar góðu.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnastofnun.
-Örn H. Bjarnason.
-Mbl. 24. sept. 2003 – Jóhannes Tómasson.
-Gunnar Sæmundsson.
-Ísafold 12. janúar 1901, bls. 11.

Svínaskarð

Dysin í Svínaskarði.

Gapi

Í Árbók HÍF 1930-1931 má lesa eftirfarandi um hella á Strandarhæð sem og í Krýsuvíkurhrauni (Klofningi) úr „Lýsingu Strandarkirkju- og Krýsuvíkursókna“ eftir séra Jón Vestmann, 1840.
Saengurkonuhellir HerdisarvikHerdísarvíkurhraun kemur úr Brennisteins-fjöllunum, engir eru þar hellirar eður stórgjár; — þó er þar 1 hellir, kallaður Sængurkonuhellir, því kvenpersóna hafði einhvern tíma alið þar barn; þessi hellir er annars ekki stór. Í Selvogsheiði eru 3 hellrar: a. Strandarhellir, rúmar 200 fjár. b. Bjargarhellir, álíka stór. c. Gapi, tekur um 60 kindur. d. Vestan undir Krýsuvíkurhrauni er stór hellir, og bezta hagaland í kring, í og með hrauninu, samt víðar út um heiðina, svo alltíð má beita fé undir vind, af hverri átt, sem hann er. Hellir þessi er langt frá bæjum; er því erfitt að nota hann í vetrarharðindum. Fyrir hér um bil 100 árum, eður má ske nokkuð meir, var bóndi í Krýsuvík, að nafni Arngrímur, mig minnir: Jónsson. Hann tíundaði jafnan 50 hndr. Hann hafði fé sitt við hellir þennan. Hann skyldi hafa átt 99 ær grákollóttar. Systir hans átti eina á, eins lita, og hætti hann ei fyr að fala hana af systur sinni en hún yfirlét honum ána, sárnauðug.
Strandarhaed-22Sama veturinn, seint, gjörði áhlaupsbil, sem stóð 6 dægur. Hrakti þá allt hans fé fram af Krýsuvíkurbergi, hér og þar til dauðs og algjörlegs taps, því sjórinn tók við fyrir neðan bergið, en vindurinn rak til hafs. — Í hengisfönninni framan í bergbrúninni stóð Grákolla alein, er hann fékk hjá systur sinni, þegar hann eftir bylinn fór að leita að fénu. Tekur hann ána þá og reynir í þrígang að kasta henni fram af berginu, en gat aldrei kastað henni svo langt, að hún færi niðurfyrir, en jafnótt og hún losnaði í hvert sinni við hendur hans, brölti hún upp að hnjám honum. Loksins gaf hann frá sér, og skal hafa sagt löngu seinna, að útaf á þessari hefði hann eignazt 100 fjár. — 

Strandarhaed-23

Þetta hefi ég að sögusögn og gef það ei út sem áreiðanlegan sannleik. — Ævilok Arngríms urðu þau, að steinn datt á hann úr Krýsuvíkurbergi og murði hann í sundur, og 2 manneskjur aðrar. Þetta er víst.
Árið 1827 kom gamall bóndi til Krýsuvíkursóknar, Guðmundur Bjarnason, byggði nýbýlið Læk, aldeilis að stofni, átti margt fé, hélt því við áður-nefndan hellir, en þar honum þótti langt að hirða það þar, byggði hann þar annan bæ, dásnotran sem hinn, með glergluggum, sængurhúsi, af- og al-þiljuðu, með 2 rúmum; í hinum karminum geymsluhús.
Strandarhaed-24Byggði hann hús þetta framan við hellirsdyrnar og rak féð gegnum göngin útúr og inní hellirinn.
Hlóð af honum með þver- vegg, bjó til lambastíu með öðrum; gaf þeim þar, þá henta þótti; bjó til jötur úr tilfengnum hellum allt í kring í stærri parti hellirsins; gaf þar fullorðna fénu í innistöðum (sem verið mun hafa allt að 200m eftir ágetskun manna). Flutti þangað talsvert hey og smiðju sína, og mun hafa starfað þetta að mestu, ef ei öllu leyti, aleinn, á einu ári. Þarna var hann 10 vetur samfellt yfir kindum sínum, aleinn, en á sumrum heima. Loks gafst hann upp, yfir sjötugt, og sagðist hafa verið smali síðan hann hafði 6 ár á baki.“
Strandarhaed-25Í
„Þjóðsögur og munnmæli” – Sagnir frá Strönd í Selvogi, segir m.a.: „Á Strönd í Selvogi, sem nú er eyðisandur, var áður stórbýli. Átti þá jörð fyrrum Erlendur lögmaður sterki (d. 1312) og frændbálkur hans, þeir Kolbeinsstaðamenn, svo öldum skipti, og bjuggu þar jafnan höfðingjar. Síðastur höfðingja og sagnamestur, er þar bjó, var Erlendur lögmaður Þorvarðsson (d.1575). Var Strönd annað höfuðból hans, en hitt Kolbeinsstaðir í Hnappadal. Á Kolbeinsstöðum bjó Erlendur fyrri hluta ævi sinnar, og þar var það, að sagt var, að hann hefði átt mök við álfkonu og getið við henni barn. Var og Erlendur kallaður bæði fjöllyndur og forneskjumaður, skapstór og vígamaður var hann mikill. Þegar hann bjó á Strönd á efri árum sínum, var hann svo ríkur, að hann átti sex hundruð ásauðar. Af þeim gengu 2100 með sjó á vetrum og höfðu þar borg við sjóinn, og geymdi þeirra einn maður.
Strandarhaed-26Önnur 200 gengu upp á Völlum hjá Strandarborg, sem nú (1861) er lítil rúst, og geymdi þeirra annar maður. Þriðju 200 gengu á Strandarhæðum við Strandarhelli upp undir heiði, og geymdi hinn þriðji maður þeirra. Sauðirnir gengu uppi í heiði. Eitt kvöld hafði smalinn við Strandarhelli, sem oftar, byrgt allt fé, sem þar var, inni í hellinum, en um morguninn vantaði eina á, og varð þá lögmaður mjög reiður og sagði, að ána mundi hafa vantað um kvöldið. Smalinn þrætti þess. Lét þá Erlendur afhýða smalann, en aðrir segja, að hann hafi drepið hann. Litlu síðar fréttist, að ærin hefði Strandarhaed-27einn morgun verið inni í byrgðum fjárhelli á Hlíðarenda í Ölfusi.
Þóttust menn því vita, að hellar þeir næði saman, og var því hlaðið í þá gaflhlað. Annar smalamaður eða þá sveinn Erlends lögmanns, er sagt, að eitt sinn hafi rekið spjót sitt ofan í jörðu. Kom þá sandur upp á oddinum. Sagði sveinninn þá, er hann sá það, að sú jörð mundi verða eyðisandur. Lögmaður svaraði: „Það skaltu ljúga!” Sveinninn stóð fast á þessu, en Erlendur reiddist og sagði hann skyldi fá laun fyrir hrakspá sína og vildi vega hann. Hljóp þá sveinninn undan norður um tún, en Erlendur náði honum og drap hann við háan hól fyrir norðan túnið. Sá hóll heitir síðan Víghóll enn í dag. „Skúta” hét tólfæringur, er fylgdi Strönd í Selvogi langa ævi. Hafði Skúta lag á Strandarsundi, hversu mikið brim sem var. Aðrir segja, að þau ummæli hafi fylgt Strandarsundi, að þar kæmi alltaf lag á nóni, enda var Strandarsund kallað bezta sundið í Selvogi þangað til það grynntist, af því að sandfok barst ofan í það. Nú er það ekki tíðkað, en þó haldið allgott.
Selvogur-562Það var mörgum árum eftir andlát Erlends lögmanns, nær 1632, að Skúta fórst. Er svo sagt, að næstu nótt áður en það varð, gæti einn af hásetunum á Skútu ekki sofið, fór hann því á fætur og gekk ofan til nausta. Stóðu þar tvö skip, sem gengu í Strandarsundi þann vetur. Var það Skúta og annar tólfæringur, sem Mókollur hét. Þegar hásetinn kom til naustanna, heyrði hann, að skipin töluðu saman. Mókollur byrjaði:
„Nú munum við verða að skilja á morgun.” „Nei,” sagði Skúta, „ég ætla ekki að láta róa mér á morgun!.” „Þú mátt til,” segir Mókollur. „Ég læt hvergi hræra mig,” sagði Skúta.
Arngrimshellir-21
Formaður þinn skipar þér þá í andskotans nafni,” segir Mókollur.
„Þá má ég til,” segir Skúta, „og mun þá ver fara.” Síðan þögnuðu þau. Maðurinn gekk heim og var þungt í skapi, og lagðist niður.
Um morguninn eftir var sjóveður gott, og bjuggu menn sig til róðrar. Maðurinn, sem heyrt hafði til skipanna samtal þeirra um nóttina, sagðist vera veikur og ekki geta róið og bað formann að róa ekki. En ekki tjáði að nefna slíkt. Hvorar tveggja skipshafnirnar fóru nú að setja fram, og hljóp Mókollur greiðlega af stokkunum, en Skútu varð hvergi mjakað úr stað, og hættu menn við að setj hana fram. En þegar þeir höfðu hvílt sig um hríð, kallaði formaður þá aftur og bað þá leggja á hendur í Jesú nafni, eins og hann var vanur, en ekki gekk Skúta enn. Reyndu þeir í þriðja sinn og gekk ekki um þumlung.
Gvendarhellir-21Þá reiddist formaður og kallaði menn í fjórða sinn og sagði í bræði sinni: „Leggið þið þá hendur á í andskotans nafni!”
Hlýddu þeir því, og hljóp Skúta þá svo hart fram, að menn gátu varla fótað sig. Nú var róið í fiskileitir. Þegar á daginn leið, gerði aftakabrim og fóru menn í land. Tólf-æringarnir frá Strönd sátu í lengra lagi, en fóru svo heim. Þegar þeir komu að sundinu, mælti formaður Mókolls: „Nón mun ekki vera komið og skulum við bíða við.”
Formaðurinn á Skútu sagði, að nón væri liðið, og þrættu þeir um það, þangað til Skútuformaðurinn staðréð að hleypa út að Herdísarvík og fór af stað. Rétt á eftir kom lag. Þá kallaði Mókollsformaður: „Nú er Skútulag.” Skútuformaður heyrði það ekki og hélt áfram út í Herdísarvík og hleypti þar að í Bótinni, en svo var brimið mikið, að Skúta stafnstakkst þar og fór í spón. Drukknuðu menn allir.
Gardur-21Mókollur naut Skútulags á Strandarsundi og komst með heilu og höldnu til lands. Þá sagði maðurinn frá því, er fyrir hann hafði borið um nóttina. (Að mestu eftir handriti Brynjólfs Jónssonar frá Minnanúpi 1861)
Það er tekið til þess, hvað lítið sé um hrafna um vetrarvertíðina á Garðinum, þvílíkur sægur sem þar sé af hröfnum endranær, svo sem haust og vor. En sú er saga til þess, að í fyrndinni var dæmafár hrafnagangur suður í Garði, svo þeir rifu allt og slitu, hvort sem það var í görðum, í hjöllum, króm eða byrgjum. Stefndi þá einn af bændunum þar í Garðinum hröfnunum í burtu um vertíðina og austur í Krýsuvík og Herdísarvík, og síðan hefur varla sézt hrafn í Garðinum um vertíðina, því síður að hann hafi gert þar skaða. En því stefndi bóndinn hrafnavaðnum í Krýsuvík og Herdísarvík, að hann átti Krýsuvíkur-bóndanum eitthvað illt upp að inna, gott ef hann hafði ekki stefnt hröfnunum frá sér haust og vor suður í Garð.
Strandarhaed-28Það hafa vermenn sagt mér, að þeir hafi oft mætt hröfnum, þremur og fjórum í hópum, er þeir hafa farið suður á veturinn. (Eftir handriti Jóns Sigurðssonar í Steinum 1662-64)“
Hér að framan er blandað saman, annars vegar sóknarlýsingum og þjóðsögum. Margir taka sannleiksgildi hins fyrrnefnda oftar framm yfir hið síðarnefnda, en þótt ótrúlegt megi ber hvorutveggju ótrúlega oft saman þegar kemur að áþreifanlegum minjastöðum, a.m.k. á Reykjanesskaganum. Hér að ofan má t.d. sjá opið á Bjargarhellisskjóli, en skv. sögnum ætluðu Selvosgbúar þangað að flýja léti „Tyrkinn“ sjá sig aftur eftir 1627.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 43. árg. 1930-1931, bls. 76.
-Fréttaveitan, fréttarbréf Hitaveitu Suðurnesja, 150. tbl., 7. árg., 1. nóv. 2000, bls. 4-5.

Strandarhæð

Strandarhæð – uppdráttur ÓSÁ.