Á vef Stjórnarráðsins er „Ágrip af byggingarsögu Stjórnarráðshússins“ eftir Þorsteinn Gunnarsson:
„Hugmynd um byggingu hegningarhúss á Íslandi mun fyrst hafa komið fram árið 1734, þegar stiftamtmaður bauð amtmanni að reifa málið á alþingi í framhaldi af konungsbréfi um fangavist í stað líflátshegningar áður. Amtmaður taldi það annmörkum háð að koma hér á fót slíkri stofnun, og þegar lögmenn og sýslumenn vísuðu málinu frá vegna kostnaðar, féll það niður um sinn.
Á árunum 1751–58 fóru gripdeildir og þjófnaður mjög í vöxt vegna hallæris í landinu. Málið kom til kasta Magnúsar Gíslasonar amtmanns sem taldi að öruggasta ráðið til þess að losna við vandræði af völdum þjófa væri að reisa í landinu hegningarhús. Og í sama streng tók stiftamtmaður. Nokkrum árum áður hafði Skúli Magnússon landfógeti orðað sömu hugmynd í erindi til stjórnarinnar og lagt til að fangarnir yrðu látnir vinna að spuna og öðrum störfum fyrir innréttingarnar nýju.
Hinn 20. mars 1759 var gefinn út konungsúrskurður um byggingu tugthúss á Íslandi og tilgreindir tveir tekjustofnar til þess að standa undir kostnaði, annars vegar leiga af sakeyri, lögð fram af konungi, og hins vegar skattur af fasteignum, greiddur af eigendum. Þótt sjöttungur skattsins, sem Íslendingar kölluðu tugthústollinn, væri áætlaður af konungseign, var augljóst að landsmenn yrðu sjálfir að greiða ríflega helming byggingarkostnaðar.
Tugthúsið á Arnarhóli
Þegar hér var komið sögunni, tók Magnús Gíslason að huga að framkvæmdum. Lagði hann til við stjórnina, að sakamönnum yrði gert að vinna að smíð hússins, og að henni lokinni, sem hann áætlaði að taka mundu fjögur ár, yrðu þeim gefnar upp sakir. Þá lagði hann einnig til að höfðu samráði við Skúla fógeta, að húsinu yrði valinn staður á Arnarhóli við Reykjavík. Þarf ekki að efa, að við staðarvalið hefur þeim Skúla gengið það helst til, að þeir sáu, að með því móti myndi auðveldast að nýta vinnu fanganna í þarfir innréttinganna.
Vorið 1761 var hafist handa um undirbúning að byggingu hússins, aflað tækja og varnings og slegið upp skýli fyrir sakamenn, sem hófu þegar að draga að grjót og grafa fyrir veggjum, en umsjón með verkinu hafði Gissur Jónsson, lögréttumaður á Arnarhóli. Teikning að fangahúsinu hefur ekki varðveist, svo vitað sé, en fullvíst má telja, að hún hafi verið gerð af Georg David Anthon hirðhúsameistara. Í mars 1764 tók Anthon saman skrá yfir byggingarvörur til fangahússins og áætlaði kostnað við trésmíða- og snikkaravinnu að upphæð 1827 rd. og 16 sk. fyrir utan flutningskostnað til Íslands. Sigurður Magnússon trésmíðasveinn var ráðinn til að vinna tréverkið og Christopher Berger múrarasveinn, sem vann að múrverki á Bessastöðum, til að standa fyrir múrsmíðinni.
Verulegur skriður komst ekki á byggingu fangahússins fyrr en sumarið 1765. Olli miklu um það, að innansleikjan við frágang Bessastaðastofu reyndist drýgri en Magnús áætlaði í fyrstu. En ekki var frágangi hennar fyrr lokið en Berger hóf að reisa fangahúsið ásamt tveimur af þeim Íslendingum, sem höfðu lært hjá honum múrverk á Bessastöðum. Þá réð hann tvo Íslendinga til viðbótar og hugðist kenna þeim steinhöggvaraiðn, en verkamenn hans og handlangarar voru tugthúslimir, eins og áður segir. Allt að einu miðaði verkinu hægar en Magnús gerði ráð fyrir. Þó mun það hafa verið trúa manna í ársbyrjun 1767, að þess yrði ekki langt að bíða, að fulllokið yrði. Hinn 17. ágúst 1767 finnur nýr amtmaður, Ólafur Stefánsson, sig knúinn til að tilkynna rentukammeri, að Berger múrsmiður verði enn eitt ár að vinna við fangahúsið. Sama ár var sent til landsins timbur í þakið, sem var þó ekki byrjað að reisa fyrr en 1769. Smíði hússins var að fullu lokið veturinn 1770–71.
Ef að líkum lætur hefur stiftamtmaður látið fara fram skoðunargerð á húsinu fullsmíðuðu og sent rentukammeri, en það skjal hefur ekki varðveist, svo vitað sé. Með eftirfarandi lýsingu er reynt að bera í brestina: Húsið er 42 S alin að lengd og 16 álnir á breidd, ein hæð, með háu gaflsneiddu þaki. Það er byggt úr tilhöggnu grágrýti, veggir tvíhlaðnir og þakið timburklætt. Á framhlið eru átta gluggar og útidyr fyrir miðju; á bakhlið níu gluggar, þrír gluggar á hvorum gafli, einn niðri og tveir uppi, og sín útbyggingin (með kamri) á hvorum gafli. Allir gluggar eru með járnstöngum. Eftir endilöngu húsinu er múrveggur í miðju þess. Austan megin eru tvær stórar vinnustofur og milli þeirra lítill gangur og tvöfaldir kamrar, en í hvorum enda tveir klefar fyrir stórglæpamenn. Vestan megin er forstofa fyrir miðju með stiga upp á loft; í suðurendanum tvö herbergi og eldhús fyrir tugtmeistara og dyravörð, en í norðurendanum stórt eldhús og stofa fyrir ráðsmann. Uppi eru tvö herbergi í hvorum enda og tvískipt framloft með stiga upp á efra loft, þar sem eru geymslur. Á miðloftinu eru tveir litlir kvistgluggar og einn á efra loftinu. Í öllu húsinu eru timburgólf. Tveir múraðir reykháfar eru á húsinu og í því fimm veggofnar úr járni. Tugthúsið er talið geta rúmað 16 stórglæpamenn og 54 venjulega fanga.
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að fljótlega eftir að Danir höfðu dregist inn í Napóleonsstyrjaldirnar 1807 gekk hagur Íslendinga allur saman vegna siglingateppu og vöruskorts. Þetta kom hart niður á föngum í tugthúsinu, og 1813 tilkynnti stiftamtmaður tugthússtjórninni, að til þess að bæta úr yfirvofandi neyð almennings hefði hann orðið að hætta rekstri tugthússins um sinn og ákveðið að limirnir, sem þar voru geymdir, skyldu sendast á sínar sveitir „inntil frekari ráðstöfunar“. Ári síðar staðfesti stjórnin þessa ákvörðun stiftamtmanns og 3. maí 1816 var tugthúsið formlega lagt niður með kóngsbréfi.
Kóngsgarður
Árið 1819 bar það helst til tíðinda, að hér urðu stiftamtmannsskipti. Tók þá við embættinu Moltke greifi, 29 ára að aldri, og kom hingað út ásamt konu sinni að kynna sér aðstæður. Þótti honum yfirréttarhúsið, sem stjórnin hafði keypt fyrir embættið, bæði óhentugt og fátæklegt, og sótti því um leyfi til að breyta hinu „ónotaða tugthúsi“ í embættisbústað. Er skemmst frá því að segja að erindi hans fékk skjóta afgreiðslu: Í apríl var gefinn út konungsúrskurður, sem heimilaði breytingarnar, og í framhaldi af honum var gerður vandaður uppdráttur að nýrri herbergjaskipan. Ole Peter Möller, kaupmanni í Reykjavík, var falið að sjá um breytingarnar á húsinu og lét hann vinna verkið veturinn 1819-20. Hinn 2. mars 1820 taldist verkinu lokið með ítarlegri úttekt sem staðfesti að viðgerð og innrétting var í samræmi við tilgreind fyrirmæli.
Íbúð stiftamtmanns var komið fyrir norðan megin í húsinu með stofu, svefnherbergi og vinnukonuherbergi að framanverðu en eldhúsi, búri og borðstofu baka til. Í suðurhlutanum voru aftur á móti skrifstofur stiftamtmanns að framanverðu en salur og vinnuherbergi baka til. Og til að gera húsaskipan haganlegri en áður var, voru settar þrennar nýjar dyr á múrvegginn í miðju húsi, einar milli eldhúss og vinnukonuherbergis, aðrar milli stofu og borðstofu og hinar þriðju milli salar og innri skrifstofu. Auk þess var settur á húsið bakdyrainngangur norðaustan megin. Þá voru allir gluggar hússins stækkaðir frá því sem áður var og gólfin lækkuð um eitt fet til þess að auka lofthæðina.
Nú segir ekki af neinum meiri háttar breytingum á húsinu á því tímabili, sem það var bústaður stiftamtmanns, öðrum en þeirri, að mikill kvistur var settur vestan á húsið sumarið 1866. Árið áður hafði Hilmar Finsen, sonarsonur Hannesar biskups Finnssonar, verið skipaður stiftamtmaður. Þótti honum skorta á húsrými í Kóngsgarði og hafði í fyrstu uppi ráðagerðir um að byggja eina hæð ofan á allan vesturhelming hússins, en þar eð hann óttaðist að stjórninni þætti það of kostnaðarsöm aðgerð, fór hann fram á til vara að byggja „kvist á hálft húsið“. Dómsmálaráðuneytið samþykkti tillöguna og næsta sumar var kvisturinn byggður, eins og frá er sagt, og gerður dyraumbúnaður í gotneskum sögustíl, hvort tveggja úr múrsteinum. Var kvisturinn notaður fyrir skrifstofur embættisins og skjalasafn. Einar snikkari Jónsson frá Brúarhrauni sá um verkið.
Landshöfðingjahús
Hinn 1. apríl 1873 tók Hilmar Finsen við nýstofnuðu embætti landshöfðingja skv. konungsúrskurði 4. maí 1872. Meðan sú skipan stóð, eða á tímabilinu 1873–1904, var húsið við embættið kennt og nefnt Landshöfðingjahús.
Í bókinni Stjórnarráð Íslands 1904–1964 eftir Agnar Kl. Jónsson er svofelld lýsing á herbergjaskipun hjá Magnúsi Stephensen landshöfðingja síðustu árin sem hann var í húsinu:
„Á miðri vesturhlið hússins var aðalinngangurinn, svo sem alltaf hefur verið, og þar gengið inn í litla forstofu. Úr henni liggur stigi í sveig upp á efri hæðina. Inn úr forstofunni var gengið inn í borðstofu landshöfðingja, er var sæmilega stór stofa með tveimur gluggafögum til austurs … Suður úr borðstofunni var stærsta og veglegasta stofa hússins, enda nefnd salurinn. Voru á honum þrír gluggar til austurs … Innar af salnum var lítið herbergi með einum glugga til austurs … er nefndist kabinet í tíð landshöfðingja … Norðan megin við borðstofu landshöfðingja var eldhúsið … Voru þar tveir gluggar til austurs … Þarna í norðurenda hússins var líka brattur stigi upp á efri hæðina … Ennfremur voru þarna útgöngudyr (bakdyr) … Í vesturhelmingi hússins voru tvær stofur sunnanmegin við forstofuna og aðrar tvær stofur norðanmegin við hana, allar fjórar jafnstórar, og hver um sig með tveimur gluggum. Sunnanmegin var fyrst skrifstofa landshöfðingja og þar innar af svonefnt frúarherbergi. Var innangengt í báðar (sic) stofurnar úr salnum … Norðanmegin forstofunnar voru svefnherbergi landshöfðingja og fjölskyldu hans …Var innangengt í þessar stofur báðar úr eldhúsi landshöfðingja … Uppi á efri hæðinni, á suðurhelmingi kvistsins (vestanmegin), var hin almenna skrifstofa landshöfðingjaembættisins, og þar sátu landshöfðingjaritarinn (landritarinn, eins og hann var stundum nefndur) og skrifari. Norðanmegin í kvistinum voru skjalageymslur o.fl. … Í norðurenda þarna uppi … hafði landshöfðinginn … þrjú svefnherbergi auk þurrklofts.“
Sé lýsing þessi borin saman við lýsinguna frá 1820, þegar húsið var uppsmíðað og betrað fyrir Moltke greifa, og lýsingu frá 1837, þegar Bardenfleth tók við húsinu af Krieger, er auðvelt að draga upp skýra mynd af því, hvernig herbergjaskipuninni hefur verið breytt á þessu tímabili: Útbygging við norðurgafl er horfin, í norðausturhorni hússins hefur verið settur nýr stigi upp á efri hæðina í tengslum við bakdyrainngang, eldhúsið stækkað til suðurs, borðstofan minnkuð og svefnherbergi í norðvesturenda stækkað.
Aldamótaárið 1900 lýsir Benedikt Gröndal Landshöfðingjahúsinu með svofelldum orðum: „Það er langt hús og lágt, úr steini, og alls ekki samboðið tímanum; seinna var settur á það kvistur (eftir 1850), og prýkkaði það nokkuð við það, en annars er allt fyrirkomulagið svo lélegt, að ýms prívathús eru miklu betri, og mun lítil ánægja vera að vera skyldaður til að búa í þessu hreysi, sem danskir sjómenn kölluðu „Hytte“ hérna um árið; og í þessu húsi er landshöfðinginn skyldaður til að taka á móti öllum útlendum herrum, sem hingað koma á snærum einhverrar stjórnar, og er þetta ekki til mikils sóma fyrir landið.“
Stjórnarráðshús
Hinn 1. febrúar 1904 gekk ný stjórnskipun í gildi, er landshöfðingjadæmið var lagt niður en heimastjórnin tók við. Þá tók Hannes Hafstein, fyrsti íslenski ráðherrann, við stjórnartaumum úr hendi Magnúsar Stephensens, sem gegnt hafði landshöfðingjaembættinu í átján ár og flutti nú í nýbyggt hús sitt við Skálholtsstíg. Þar með var sögu hússins sem embættisbústaðar lokið. Samkvæmt stjórnskipunarlögunum, sem staðfest höfðu verið 3. október 1903, voru veittar 11.000 kr. „til að breyta hinum núverandi landshöfðingjabústað í stjórnarráðskrifstofur og búa þær út“. Magnús Th. S. Blöndahl trésmiður, síðar útgerðarmaður og alþingismaður og sá hinn sami og byggt hafði hús landshöfðingja við Skálholtsstíg (Næpuna), var ráðinn til að sjá um framkvæmd verksins.
Ekki hafa fundist nákvæmar lýsingar á verkinu, en það liggur í augum uppi að Magnús og menn hans hafa þurft að breyta meiru í norðurhluta hússins, þar sem áður var íbúð landshöfðingja, en í suðurhluta þess, þar sem voru skrifstofur embættisins og móttökusalur. Hinn 31. janúar 1904 birti blaðið Ingólfur svofellda lýsingu á Stjórnarráðshúsinu: „Hefur það nú verið skinnað upp og breitt til. Ráðherrann hefur salinn sem kallaður var og lítið herbergi þar innar af. Landritarinn er í eldhúsinu, en það er nú orðið að snoturri stofu. Firsta skrifstofa (kennslumála- og dómsmáladeild) veit niður að læknum og er þeim megin er landshöfðinginn hafði skrifstofu sína og dagstofu. Önnur skrifstofa (atvinnu- og samgöngumáladeild) er norðanvert við dirnar á sömu hlið. En borðstofan er orðin að biðstofu og diravarðarskíli. Þriðja skrifstofan (fjármála- og endurskoðunardeild) á að vera uppi. – Húsbúnaðurinn er fremur snotur og þó lítið í hann borið.“ Er þá í megindráttum lýst breytingum sem gerðar voru á húsinu 1904. Litla herbergið inn af salnum notaði ráðherra sem hvíldarherbergi, ef honum bauð svo við að horfa. Það var með einum glugga til austurs, en 1912 var bætt við öðrum glugga til suðurs.
Í bók Agnars Kl. Jónssonar um Stjórnarráðið segir svo um næstu meiri háttar breytingu, sem gerð var á húsinu:
„Þegar ráðherrarnir urðu þrír árið 1917, varð að stækka Stjórnarráðshúsið, til þess að þeir gætu allir komizt þar fyrir, auk þess sem störf Stjórnarráðsins höfðu aukizt það mikið á stríðsárunum, að með réttu mátti segja, að veruleg þörf hafi líka af þessari ástæðu verið orðin á rýmra húsnæði fyrir skrifstofur þess. Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árin 1916 og 1917 fór því stjórnin fram á sérstaka fjárveitingu til stækkunar á Stjórnarráðshúsinu, og segir svo um hana í athugasemdum við frumvarpið: „Húsrúmið í Stjórnarráðshúsinu hefur síðari árin verið af svo skornum skammti, að á sumum skrifstofunum hefur ekki verið rúm fyrir svo marga menn sem þurfti til að inna af hendi hin sívaxandi störf. Þegar ráðherrarnir urðu þrír – í stað eins ráðherra og landritara – skorti ráðherraherbergi og biðstofu handa einum þeirra. Stjórnin hefur því ekki séð sér annað fært en að stækka húsið með því að byggja kvist á austurhlið þess, sem samsvaraði kvistinum á vesturhliðinni, flytja dyravörðinn út í geymsluhúsið og breyta því í íbúðarhús fyrir hann. Með því móti fæst húsrúm, sem komizt verður af með um sinn fyrir Stjórnarráðið eitt saman. Breytingin er ætlazt á að kosti 27.000 kr.“
Alþingi samþykkti þessa fjárveitingu og sumarið 1917 var austurkvisturinn byggður. Guðmundur H. Þorláksson byggingameistari gerði teikningu að kvistinum en Sigurjón Sigurðsson trésmíðameistari var ráðinn til að standa fyrir verkinu. Smíðinni var að mestu lokið um haustið og var þá (10. nóvember 1917) gerð á húsinu ný og endurskoðuð brunabótavirðing. Er þá lýsing hússins sem hér segir: „Húseign þessi er töluvert endurbætt. Húsið er einlyft með kvisti í gegn og 8 S al. risi, bygt úr grásteini, cementsljettað utan og með helluþaki á 5/4″ borðaskarsúð. Niðri í því eru 9 herbergi og gángur, allt kalksljettað innan nema undir gluggum eru brjóstþil; allt málað. Þar eru 5 ofnar. Uppi eru 8 herbergi, gángur, geymslu-klefi og vatnssalerni; allt þiljað og m. striga og pappír, málað og betrekt. Þar eru 6 ofnar. Á skambitum eru 3 herbergi og framloft.“ Samsumars var rifinn timburskúr við bakdyrainngang á austurhlið hússins og reistur þar nýr og stærri skúr úr steinsteypu.
Í kvistinum fengust tvö rúmgóð skrifstofuherbergi fyrir atvinnumálaráðherra og fjármálaráðherra, en milli þeirra, gegnt stiganum, var útbúið lítið herbergi, sem notað var sem biðstofa fyrir þá næstu árin. Á neðri hæðinni var landritaraskrifstofan gamla – sem fjármálaráðherra hafði haft – lögð undir II. skrifstofu, sem þar með hafði lagt undir sig allan norðurhelming hússins niðri.
Eins og frásögnin ber með sér, kom fljótt í ljós að húsnæðið í Stjórnarráðshúsinu var síst of mikið; ýmist voru færðir til veggir eða kompur og skot dubbuð upp, að þau mættu koma að notum. Það var þó látið duga allt fram til 1939, þegar farið var að flytja sum ráðuneytin yfir í Arnarhvol. Um svipað leyti voru gerðar breytingar á súðarherbergjunum tveimur á syðra lofti hússins, þar sem verið höfðu skjalageymslur; vestan megin var útbúið herbergi fyrir aðalendurskoðanda ríkisins 1933, og austan megin herbergi fyrir atvinnumálaráðuneytið 1939, eftir að fjármálaráðuneytið var flutt í Arnarhvol. Ráðherraherbergið sunnan megin í austurkvisti var stúkað sundur í tvö lítil herbergi og gang, en geymslu undir súð vestan megin á nyrðra lofti hússins breytt í vélritunarherbergi.
Um aðrar breytingar á húsinu segir svo í bók Agnars Kl. Jónssonar: „Árið 1943 lét Vilhjálmur Þór utanríkisráðherra flytja vegg í suðurhelmingi hússins vestan megin um eitt gluggafag, þannig að þar fengist ein stór stofa með forherbergi fyrir framan. Hefur skrifstofa utanríkisráðherra verið þarna upp frá því. Árið 1960 lét Ólafur Thors forsætisráðherra á sama hátt taka burt vegginn milli forsætisráðherraherbergisins og litla herbergisins innar af því, sem nefnt var kabinet, og þilja í staðinn af lítið herbergi fyrir framan ráðherraherbergið, eins og utanríkisráðherra hafði áður gert. Er því skipulagi í suðurhelmingi hússins niðri þannig fyrir komið nú (1969), að þar eru tvær rúmgóðar stofur, hvor fyrir sinn ráðherra, og smáherbergi fyrir framan þær fyrir starfsfólk þeirra“.
Hér verður að lokum getið nokkurra helstu breytinga, sem gerðar hafa verið á húsinu á tímabilinu 1964-1996. Eftir að utanríkisráðuneytið flutti úr húsinu og skrifstofu forseta Íslands var komið þar fyrir 1973, var tekinn burt veggur milli skrifstofanna tveggja norðan megin í vesturhelmingi hússins og þiljað af lítið herbergi fyrir framan skrifstofu forseta. Eftir þá aðgerð var innra fyrirkomulag hið sama báðum megin forstofunnar í vesturhelmingi hússins. Herbergjum dyravarðar og deildarstjóra utanríkisráðuneytis var slegið saman og úr þeim gerð ein rúmgóð biðstofa, sömu stærðar og borðstofa landshöfðingja var á sinni tíð. Árið 1984 var hlaðið upp í glugga þann á suðurgafli hússins, sem settur var á húsið 1912. Um svipað leyti var skrifstofuherbergi norðan megin í austurhelmingi hússins stúkað sundur, þegar fjölgaði starfsfólki á skrifstofu forseta Íslands.
Á efri hæð hússins var herbergjaskipan komið í betra horf, eftir að menntamálaráðuneytið flutti úr húsinu. Þeim breytingum verður ekki lýst í smáatriðum en 1996 var fyrirkomulagið sem hér segir: Nyrst var skrifstofa ráðuneytisstjóra, með tveimur gluggum, syðst skrifstofa skrifstofustjóra, með einum glugga; þar í millum var herbergi ritara, með tveimur gluggum, en grynnra en þau fyrrnefndu og nam mismunurinn rúmri breidd opsins við uppgöngu stiga. Þá var tveimur herbergjum syðst í austurkvistinum slegið saman í eina skrifstofu með tveimur gluggum.
Enn er frá því að segja, að sumarið 1995 voru gerðar endurbætur á frágangi þaks. Þá var tekinn niður reykháfur, sem settur hafði verið á húsið í upphafi aldarinnar, en hinir tveir, sem verið hafa á húsinu frá öndverðu, voru klæddir flögusteini, eins og gert hafði verið þegar þakið var hellulagt laust upp úr miðri 19. öld.
Eftir að skrifstofa forseta Íslands flutti úr húsinu, var ákveðið að ráðast í gagngerar endurbætur á húsinu í þeim tilgangi að laga innra fyrirkomulag að breyttri notkun, endurskoða öryggismál og bæta tæknilegt ástand einstakra byggingarhluta. Sé gengið í bæinn eftir endurbætur, er fyrst komið í forstofu, sem eitt herbergja í húsinu hefur alla tíð haldist óbreytt að stærð og lögun. Þar eru veggir berir eins og jafnan áður og steinn á gólfi. Úr forstofu er gengið í biðstofu, sem ásamt tveimur forrýmum báðum megin forstofu er klædd brjóstþili og að ásýnd áþekk innri gerð hússins á tímabilinu 1873–1917. Inn af biðstofunni eru í suðurenda hússins skrifstofuherbergi aðstoðarmanns ráðherra og fundarherbergi ríkisstjórnar, en í norðurenda fundarherbergi og skrifstofa forsætisráðherra. Þessi herbergi eru nú heilklædd innan eins og 1820, þrjú þeirra með nýsmíðuðu brjóstþili og römmum, en hið fjórða og fyrstnefnda þiljað innan með leifum af klæðningum úr sal Moltke greifa. Á efri hæð hússins er frágangur allur einfaldari og með svipuðu sniði og tíðkaðist á fyrri hluta tuttugustu aldar.“ – Þorsteinn Gunnarsson
Heimild:
-https://www.stjornarradid.is/raduneyti/forsaetisraduneytid/stjornarradshusid/byggingarsaga/