Brimketill

6. Gunnuhver – Grindavík

-Gufa sem stígur upp frá jörðu
Austan Reykjanessvita er mikið hverasvæði. Liggur troðningur að því frá vitaveginum. Af mörgum hverum á svæðinu er einn áberandi stærstur. Sá nefnist Gunna eða Gunnuhver og er í kísilhóli sunnarlega á svæðinu. Þjóðsaga er um nafn hversins: Guðrún hét grimm fordæða sem gekk aftur og ,,lék menn grátt, reið húsum og fældi fénað“. Þar kom að leitað var til kunnáttusams prests til að koma draugnum fyrir. Hann fékk draugnum bandhnykil og lét hann halda í endann á bandinu. Þegar hnykillinn rann neyddist draugsi til að elta því hann gat ekki sleppt. Hnykillinn rann í hverinn og draugurinn Gunna á eftir. Síðan hefur ekki orðið vart við Gunnu. Þjóðsagan segir að presturinn hafi verið Sr. Eiríkur Magnússon í Vogsósum (1638-1716) uppnefndur Vogsósagráni og sagður fjölkunnugur.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

Jarðhitasvæðið á Reykjanesi er á Reykjanestá, ekki langt frá Reykjanesvita. Staðsetning (hjá bílastæði) er N 63°49.150′, V 022°40.932′. Svæðið er aðgengilegt ferðafólki og til að komast að svæðinu keyrir maður eftir afleggjara sem liggur útfrá veginum að Reykjanesvita. Afleggjarinn er merktur með skilti sem á stendur Gunnuhver, eftir frægasta hvernum á svæðinu sem nú er kulnaður. Hverasvæðið sjálft er aðeins um einn ferkílómetri að flatarmáli og nær aðeins yfir hluta af háhitasvæðinu. Á hverasvæðinu eru margir leir- og gufuhverir og gufu leggur um allt svæðið. Fallegar útfellingar eftir brennistein er að finna á svæðinu og er litadýrð svæðisins mikil. Hverasvæðið sjálft er síbreytilegt og leirhverir og gufuhverir koma og fara. Þekktustu hverirnir á hverasvæðinu voru hverinn 1918 og Gunnuhver. Þessir tveir hverir eru nú þurrir.

Jarðhiti á yfirborði myndast þegar vatn kemst niður á nokkur hundruð til nokkur þúsund metra dýpi. Þetta getur bæði verið grunnvatn eða leysinga-og úrkomuvatn sem rennur niður í berggrunninn. Vegna þess hve jarðlögin undir Íslandi eru heit, hitnar vatnið. Varminn sem hitar grunnvatnið kemur frá kviku eða heitu bergi í efstu 2-4 km jarðskorpunnar. Varminn er hæstur næst gosbeltunum en þar er jarðskorpan þynnst og bara 10 km niður á bráðið berg. Hitastigið eykst um 80-120° við hverja 1000 metra niður í jörðina. Jarðskorpan þykknar svo og varmaflæðið minnkar eftir því sem fjær dregur gosbeltunum (Axel Björnsson, 1990).
Hitastigið eykst 2-4 sinnum hraðar með dýpi á Íslandi en löndunum í kringum okkur, Skandinavíu og Kanada. Bergrunnur Ísland er auk þess mun sprungnari en berggrunnur þessarra svæða. Þetta skýrir líka þann mikla jarðhita sem er að finna á Íslandi (Ari Trausti Guðmundsson,1982).
Nái vatnið aftur upp á yfirborðið myndast jarðhita- og hverasvæði en stærstur hluti hvers jarðhitasvæðis er þó neðanjarðar. Jarðhiti finnst um allt Ísland en þó síst á Austfjörðum. Jarðhitasvæðum er venjulega skipt í tvo flokka, háhitasvæði og lághitasvæði. Þessi skipting miðast af mismun í hitastigi og mismunandi staðsetningu (Ari Trausti Guðmundsson, 1982).

Í seinni tíð hafa náttúru- og umhverfisverndarsjónarmið verið að ryðja sér til rúms innan raða þeirra sem taka þátt í virkjun jarðvarma. Lengst af hafa slík sjónarmið ekki verið reifuð sérstaklega en nýtingin hefur reyndar ekki verið umfangsmikil fram á síðustu áratugi. Eyðilegging hvera hefur þó átt sér stað bæði vegna nýtingar eða af öðrum ástæðum. Í Náttúruverndarkönnun árið 1979-1980 í Borgarfirði reyndust nærri helmingur hvera hafa verið eyðilagður og var þó heitt vatn langt umfram þarfir íbúa á svæðinu (Tryggvi Þórðarson 1981). Nýting vatnsins var algengasta orsökin fyrir eyðileggingunni, sem fólst oftast í því að steypt hafði verið yfir hverina. Mjög algengt var einnig að náttúrulegar laugar og volgrur höfðu verið eyðilagðar með skurðgreftri og framræslu. Sú nýting jarðhitasvæða sem nú er ráðgerð í landinu er talsvert umfangsmeiri en sú sem stunduð var í Borgarfirði og því er mun nauðsynlegra að náttúru- og umhverfisvernd séu höfð að leiðarljósi við alla áætlunargerð og framkvæmdir. Ljóst er þó að þekkingn á nýtingu jarðhitans er orðin miklu meiri en þekkingin á verndarmöguleikum og umhverfisáhrifum slíkra framkvæmda. Ástæðan er sú að miklu fé hefur verið varið í undirbúning jarðorkunýtingar en tiltölulega litlu í rannsóknir á umhverfisáhrifum á hverina og lífríki þeirra.
Jarðhitasvæðið á Reykjanesi er um það bil 1 km2 að stærð sé einungis miðað við hverina og önnur sýnileg
jarðhitamerki. Viðnámsmælingar benda til að það sé a.m.k. fjórfalt stærra og teygist auk þess út í sjó til suðvesturs. Jarðhitasvæðið er að mestu þakið hraunum, en móbergs- og bólstrabergshryggir standa upp úr.
Einn þeirra, Rauðhólar, nær inn á jarðhitasvæðið. Þar voru fyrstu vel heppnuðu vinnsluholurnar boraðar.
Hraun
Tvær gosreinar liggja yfir “hælinn” á Reykjanesi og er jarðhitinn á þeirri eystri milli Skálafells og Litla-Vatnsfells.
Vestar er Stampareinin með yngstu hraununum. Á henni er ekki jarðhiti, en viðnámsmælingar gefa til kynna að jarðhitakerfið nái einnig til hennar.
Landslag er ekki frítt á Reykjanesi, en þar er þó að finna skoðunarverð fyrirbæri. Þar ber af öskugíg með berggöngum þar sem Stampa-gígarnir ganga fram í sjó. Á jarðhitasvæðinu hafa goshverir komið upp endrum og eins, raunar tvisvar á síðustu öld í tengslum við jarðskjálftahrinur. Þeir gjósa jarðsjó, en hafa reynst skammlífir.
Langlífari hefur verið goshver í s.k. Kísilhól sem nú er óvirkur. Hann er úr móbergi með metersþykku kísilhrúðri ofan á. Þar má einnig sjá sprungu sem reif sig upp í skjálftahrinu fyrir 35 árum og sýnist enn fersk þar sem hún liggur norðaustur frá Gunnuhver. Það sem gefur Reykjanessvæðinu mest gildi er vitundin um að þar koma plötuskil Reykjaneshryggjarins á land. Ferðamenn sem fara út á Reykjanes staldra hjá Valahnúkum til að skoða brimið og hjá Gunnuhver, sem er leirpyttaklasi norðan undir Kísilhólnum.
Búseta á Reykjanesi hefur skilið eftir sig ummerki (bú vitavarðar og nýbýlið Hveravellir). Garðrækt hefur lengi verið stunduð, efnistaka í vegi, boranir og verksmiðjurekstur og því hróflað við mörgu. Ný fyrirbæri hafa skapast. Merkast af þeim eru kísilpaldrarnir vestan undir Rauðhólum í afrennslinu frá saltverksmiðjunni.
Reykjanessvæðið er eitt best rannsakaða háhitasvæði landsins. Grunnurinn að þeim rannsóknum var lagður á árunum fyrir 1970. Þá var nýafstaðin öflug skjálftahrina og við hana færðist líf í hveri. Síðan hefur virknin dvínað töluvert.
Reykjanessvæðið er með þeim heitustu sem nýtt eru hér á landi. 30 ára vinnsla hefur ekki haft nein merkjanleg áhrif á forðann í jarðhitakerfinu. Efnainnihald í jarðsjónum skapar vanda við nýtingu, en jafnframt seljanlega vöru.

-Hraunið og gróður (gróðurleysi)
Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanessskaga síðan land byggðist. Nýjasta er sennilega á 14. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerum verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði. Þar má finna helstu gerðir íslenskra eldstöðva eins og hraunskildir(dyngjur), gígaraðir, gígahópar og sprengigígir t.d. Grænavatn. Auk þess má sjá sigkatla t.d. Hvirfill og Kistufell.
Sjálfur Reykjanesfjallgarðurinn er afar merkilegur því hann hvílir á sjálfu virka gosbeltinu sem partur af hinum mikla Atlandshafshrygg sem liggur þvert yfir Ísland. Lítið er um stöðuvötn og læki á Reykjanesi en Kleifarvatn sem er mest allra vatna á Reykjanesskaganum er á sjálfu gosbeltinu. Það er ekki hægt að skoða þetta framhald af hinum stóra Atlandshafshrygg ofansjávar nema á Reykjanesskaganum. Hann er því einstakur en með duldar hættur. (Jón Jónsson, Árbók Ferðafélagsins, 1984, bls.51-113) (Gunnar H.Hjálmarsson, Útivist 2.tbl. 1.árg 2002

Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanessskaga síðan land byggðist. Nýjasta er sennilega á 14. öld.
Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerum verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði.
Þar má finna helstu gerðir íslenskra eldstöðva eins og hraunskildi(dyngjur), gígaraðir, gígahópa og sprengigíga t.d. Grænavatn. Auk þess má sjá sigkatla eins og til dæmis Hvirfill og Kistufell.
Sjálfur Reykjanesfjallgarðurinn er afar merkilegur því hann hvílir á sjálfu virka gosbeltinu sem partur af hinum mikla Atlandshafshrygg sem liggur þvert yfir Ísland. Lítið er um stöðuvötn og læki á Reykjanesi en Kleifarvatn sem er mest allra vatna á Reykjanesskaganum er á sjálfu gosbeltinu. Það er ekki hægt að skoða þetta framhald af hinum stóra Atlandshafshrygg ofansjávar nema á Reykjanesskaganum. Hann er því einstakur en með duldar hættur.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk.

Á einum eldgígnum stendur nú vitinn. Það er keilumyndaður hóll, nokkuð hár og ofurlitlar grastór utan í hlíðunum á honum, og hefur hann verið nefndur Valahnúkur, [Sennilega er þarna rangt með örnefni farið, því í Öldinni okkar er birt meðfylgjandi mynd af Reykjanesvita í byggingu á svonefndu Bæjarfelli árið 1907] þó að engan veginn eigi hann hnúks-nafnið skilið. Hann er upphár, eldgamall gjallhaugur og ekkert annað, og guð má vita, hvort hann fer ekki að gjósa undir vitanum; ég hefði að minsta kosti ekki viljað treysta honum. Sunnan undir hólnum stendur bærinn, eða réttara sagt hús vitavarðarins, bygt á landssjóðs kostnað. Ofurlítill túnskækill er græddur upp í brekkunni kringum bæinn. Þá mega heita upptaldar grasnytjar þær, sem vitavörðurinn hefir.

Byggðin á Reykjanesi þróaðist í upphafi með ströndinni, enda sjósókn aðalatvinnuvegur íbúanna og verstöðvar og útræði frá nær hverjum bæ.
Þegar Hafnabergi sleppir taka Sandvíkur við. Sandvíkur er heillandi landsvæði með langri og og skemmtilegri sandströnd. Sandurinn hefur verið að hluta til bundinn með melgresi og gefur það fallegan gulan og grænan lit sem fer vel við svartan sandinn. Sandvíkurnareiga sér litla tjörn þar sem fjölskrúðugt fuglalíf bervitni um ríkt náttúrufar.Á Reykjanesi mætast nýji og gamli heimurinn, Evrópa og Ameríka – jarðfræðilega og tæknilega umKeflavíkurflugvöll. Við Kinn eða suður enda Hafnabergs rétt ofan vegar hefur verið byggð brú yfirsprungu þar sem fólk getur upplifað „göngu” milli Evro-asíuflekans og Ameríkuflekans.Landsvæðið sunnan Hafnabergs ber greinilegmerki um mikið jarðfræðilegt umrót. Eldgos, jarð-skjálftar, hverir, hraun og björg sorfin af stórátökum við öflugar öldur og brim. Af Valahnúk er gott útsýni yfir Reykjanes og út í Eldey 8 sjómílur fráströndinni Nær landiskammt undan Önglabrjótsnefi er kletturinn 1908. Hverasvæðið hefur mikið breyst frá þvísem áður var vegna jarðhræðinga og virkjana og er Gunnuhver í dag rétt svipur hjá sjón. Reykjavegur er ný gönguleið sem hefur verið merkt frá Reykjanesvita til Nesjavalla. Sérstaklega áhugaverð leið sem byggir tilveru sína á jarðfræði Íslands. Segja má að gengið sé eftir gossögunni og fylgt s-vestur n-austur sprunguleiðinni. Áætla má 6 daga í alla leiðina en henni er áfangaskipt með áningastöðum á hæfilegu millibili.

-Jarðfræði
Jarðsaga Reykjanesskaga er tiltölulega vel þekkt og hefur verið rakin nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann.

Elsta bergið á skaganum er í grennd við Reykjavík og er talið vera um 500 þúsund ára gamalt. Mest af jarðlögum á skaganum eru hins vegar innan við 100 þúsund ára gömul. Á þessum tíma hefur loftslag verið mjög breytilegt og óstöðugt. Á vissum tímabilum var Ísland hulið mikilli íshellu. Á milli voru tímabil með svipuðu loftslagi og nú er. Kuldatímabilin eru nefnd jökulskeið og hlýrri tímabilin eru nefnd hlýskeið. Við lifum á hlýskeiði.
Þau hraun sem runnið hafa síðan síðasta jökulskeiði lauk eru ekki slípuð af jöklum.
Á jökulskeiðum áttu sér stað gos undir jökli, og móbergsfjöll mynduðust í geilum sem gosin bræddu upp í ísinn. Þegar jöklarnir hopuðu stóðu eftir óregluleg móbergsfjöll. Á hlýskeiðum runnu hraun svipað og nú þ.e.a.s. frá gosstöðvum undan halla og oft til sjávar. Kappelluhraun og Ögmundarhraun eru dæmi um slík hraun.
Allt gosberg á Reykjanesskaganum er basalt (gosberg með lágt kísilsýrumagn).

-Skálafell

Skálafell

Skálafell.

Flest eldgos á Reykjanesskaga, og raunar á Íslandi öllu, verða þannig að fyrst opnast sprunga og gýs hún öll í byrjun. Síðan takmarkast eldvirknin við einstaka staði þar sem gígbarmar hlaðast smám saman upp. Goskeilurnar deyja síðan hver af annarri þar til gosi lýkur og gígaröðin stendur ein eftir. Gos getur varað allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkrar vikur.

Í blandgosum, þar sem háir kvikustrókar þeyta kvikuslettum hátt í loft upp, hrúgast upp háir og reisulegir gjall- og klepragígar. Þeir eru með skarð í gígveggnum þar sem apalhraun hefur runnið út. Apalhraun er gert úr kviku sem rennur eins og seigfljótandi síróp. Hraunstraumurinn skríður eða veltur hægt fram og er jaðarinn jafnan mjög brattur. Yfirborð hraunanna er mjög úfið og þekkjast þau því auðveldlega.
Í flæðigosum verða engir kvikustrókar. Í þeim flæðir þunnfljótandi kvikan líkt og lækur undan halla og myndar hraun, gert úr mörgum þunnum lögum. Slík hraun hafa slétt yfirborð líkt gangstéttarhellum. Ofan á þeim eru hraunreipi sem myndast líkt og hrukkur í súpuskán. Gígar, sem myndast þegar helluhraun rennur, kallast eldborg eða dyngja eftir því hve lengi gosið hefur staðið. Báðar eru lágir og víðáttumiklir hraunskildir sem oftar en ekki er erfitt að greina í landslaginu. Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum. Kvikusletturnar hlaða upp kringlóttan, þunnan og lágan gígvegg sem hvergi er skarð í. Kvikan rennur nefnilega úr gígnum um göng undir storknu yfirborði hraunsins sem rann í byrjun gossins. Þegar gosinu lýkur tæmast göngin og mynda langa hraunhella. Allir stærstu hellar landsins hafa orðið til með þessum hætti.

-Háleyjabunga
Dyngja myndast við flæðigos og er gosopið yfirleitt kringlótt. Dyngjur gjósa oftar en einu sinni, yfirleitt renna mörg þunn hraunlög sem í heild geta verið mjög þykk (beltuð hraun) en engin laus gosefni. Frá dyngjum renna helluhraun, sem oft geta þakið stór landsvæði. Hér á landi eru um 20-30 dyngjur myndaðar á nútíma (yngri en 10 þúsund ára). Dyngjur eru sjaldgæfar erlendis nema á Hawaii: Mauna Loa og Mauna Kea. Dæmi: Skjaldbreiður, Trölladyngja, Selvogsheiði.

-Sandfellshæð
Á toppi Sandfellshæðar er gríðarlega stór gígur sem er um 450 m í þvermál og að minnsta kosti 20 m djúpur og vel þess virði að ganga upp á hæðina. Þótt Sandfellshæð sé ekki nema um 90 m y.s. er gríðarlega víðsýnt af henni.

-Eldvörp
Eldvörp eru um 10 km löng gígaröð í stefnu suðvestur – norðaustur. Talið er að síðast hafi gosið þar fyrir meira en 2000 árum. Jarðhiti er í Eldvörpum og voru þar fyrrum stundum bökuð brauð sem vafalítið hefur komið sér vel í eldiviðarskorti. Örstutt vestan við borholuna er hellir í hrauninu. Þegar Hitaveita Suðurnesja lét bora eftir gufu þarna sumarið 1982 brotnaði hraunið undan jarðýtu sem vann við frágang í kringum holuna. Í ljós kom hellir með geinilegum mannvistarleifum, beinum og hleðslum. Ekki er vitað hver eða hverjir höfðust þarna við. Hellirinn er alllangur eða 25-30 m en hvergi hærri en 1,5 m og víðast hvar mun lægri eða 40-50 sentímetrar.

-Brimketill (Oddnýjarlaug)

Brimketill

Brimketill.

Við ströndina – merktur – vestarlega í Staðarbergi – merkilegt náttúrfyrirbæri. Til er saga um tröllkonuna Oddnýju er baðaði sig jafnan í lauginni.

-Rekaviður
Mikið af rekavið í Sandvík – slóði niður að ströndinni

-Ströndin, sjórinn og fuglalíf
Mikið fuglalíf með berginu beggja vegna – Staðarbergi og Krossavíkurbjargi.
Víða við sjóinn eru skemmtilegar bergmyndanir sem hafaldan hefur sorfið til og mótað. Komið er í Staðarhverfi. Hér var áður vel byggt og kirkjustaður. Eftir miklar hafnarbætur í Grindavík fluttist byggðin þangað og síðar var kirkjan einnig flutt. Á leiðinni frá Staðarhverfi til Grindavíkur er ekið um Húsatóftir. Frá Húsatóftum liggur Prestastígur, forn þjóðleið sem er vel vörðuð og skemmtileg gönguleið til Kalmannstjarnar í Höfnum. Árnastígur liggur einnig frá Húsatóftum til Njarðvíkur. 9 holu golfvöllur Golfklúbbs Grindavíkur er að Húsatóftum. Þessi golfvöllur er mjög vel sóttur enda skemmtilegur fyrir margra hluta sakir. Staðsetning og landslag á stóran þátt í því.

-Grænabergsgjá

Grænabergsgjá

Grænabergsgjá.

Misgengissprunga, líkt og margar aðrar á svæðinu, sbr. Silfra, Bjarnagjá og Hrafnagjá. Ferskvatn – álar.

-Laxeldi – Íslandslax
Fiskeldisstöð Íslandslax hf. (kt: 430894-2349) er staðsett á sunnanverðum Reykjanesskaga um 8 km vestur af Grindavíkurbæ, á jörðinni Stað við Grindavík. Stöðin er af svo nefndri strandstöðva gerð, þ.e. sjó er dælt í ker á landi. Stöðin var byggð á árunum 1984-1985 og hefur verið í samfeldum rekstri síðan. Eldisrými er 26.000 m3 brúttó. Eldisfiskur er lax og bleikja, og nær starfsemin yfir eldi bæði á matfiski og seiðum þessarra tegunda. Stöðvarstjóri er Hjalti Bogason. Brúttó framleiðsla árið 2003 var 1.450 tonn af fiski, 1.128 tonn af matfiski af laxi og um 60 tonn af matfisk af bleikju, og um 50 tonn af laxaseiðum sem fóru í sjókvíar. Fjöldi starfsmanna eru 10.

-Tyrkjavarða – Gíslavarða
Skammt fyrir austan Staðarberg í Grindavík er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker. Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðu til minja um þennan atburð spölkorn fyrir ofan prestssetrið og lét svo um mælt að meðan nokkur steinn væri óhruninn í vörðunni, skyldu ræningjar ekki granda Grindavík. Varðan nefndist Gíslavarða.

-Staður – kirkjugarður – brunnur

Staðarhverfi

Stóra-Gerði í Staðarhverfi.

Eyðibýli skammt utan við kaupstaðinn í Grindavík. Prestssetur og kirkjustaður frá fornu fari og allt fram á síðustu öld. Þar var kirkja helguð með guði Maríu guðsmóður, Jóhannesi postula, heilögum Stefáni, Ólafi konungi, Blasíusi biskupi, Þorláki biskupi og heilagri Katrínu mey. Staðarkirkja var flutt inn í Járngerðarstaðahverfi árið 1909 og nefnd Grindavíkurkirkja.

-Húsatóftir – Arfadalsvík – Kóngshella – konungsútgerð – Anlaby – Skúli fógeti – Anna frá Töfte

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Presturinn bjó að stað og hreppsstjórinn að Húsatóftum. Sagan af viðskiptum Þorsteins í Hamri og hreppstjóra er endaði með því að Þorsteinn rauk með fé sitt upp í hraunið og fóðraði það þar um veturinn; Hamrabóndahellir.

-Grindavíkurstríðið – undanfari
Eins og kunnugt er lauk “Ensku öldinni” með bardaganum og drápi Englendinga í virki Jóhanns breiða ofan við Stórubót í Grindavík í júní 1532. Þar má enn sjá leifar virkisins sem og „Enskulágar“ þar sem hinir ólánssömu Englendingar voru grafnir. En sá bardagi átti sér langan aðdraganda. Árið 1518 varð t.d. stórbardagi í Hafnarfirði milli þýskra og enskra kaupmanna, sem lutu í lægra haldi eftir mjög mannskæða viðureign. Hrökkluðust þeir við svo búið úr bækistöðvum við Hafnarfjörð.
Englendingarnir höfðu sest að í Fornubúðum við Hafnarfjörð og voru með fjölmenni á stóru skipi. Hamborgarar, sem ekki vildu una því, að ensku kaupmennirnir hefðu höfnina, söfnuðu liði meðal Þjóðverja á Vatnsleysuströnd, í Keflavík, Básendum og Þórshöfn (við Ósa) og fengu þaðan fjörutíu og átta menn til liðs við sig.
Hamborgarar klæddu síðan skip sín sængum í sjó niður og sigldu þannig búnir inn fjörðinn í útrænu. Elda kynntu þeir og á skipum sínum, svo að reykinn legði inn yfir Englendinga.
Þarna varð hinn grimmasti bardagi, og er til marks um mannfallið, að ekki komust heilir úr slagnum nema átta þeirra Þjóðverja, sem gengið höfðu í liðið á Suðurnesjum. Eigi að síður unnu Hamborgarar sigur á Englendingum, er nú eiga sér ekki lengur griðland annars staðar á Reykjanesskaga en í Grindavík.
Vorið 1532 sneru þýskir kaupmenn og skipstjórar sér til ráðsins í Hamborg og báðu það senda sér liðsauka, þar er þeir hefðu einsett sér að fara að Englendingum í Grindavík.
Það er skreiðin, sem í rauninni er bitist um. Hún er svo verðmæt, að Englendingar telja skreiðarfarm geta numið allt að fjórum fimmtu hlutum af verði skips, öllum úthaldskostnaði þess í Íslandssiglingu og vörufarmi, er það flytur til Íslands.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Um 1500 voru í raun tveir “kaupstaðir” á Íslandi; Hafnarfjörður og Grindavík. Síðarnefndi staðurinn stóð betur að vígi því hann var aðalhöfn Skálholtssbiskups, sem hafði skip í förum. Bændur greiddu m.a. skatt sinn í osti, sem seldur var í Evrópu, en korn o.fl. flutt til landsins í staðinn. Grindavík var því mikil höfn um langan tíma og það löngu eftir að “Grindavíkurstríðinu” lauk. Enn má sjá minjar veru, sjósóknar og verslunar útlendra ofan við Stóru-Bót. Þar er hóll sem sagður er hafa verið virki Jóhanns breiða og manna hans og Engelska lág er þar undir hólnum þar sem enskir eru sagðir hafa verið grafnir af eftirlifandi félögum sínum. Vestar má sjá móta fyrir görðum Junkaragerðis. Á Kóngsklöppinni í Staðarhverfi, litlu vestar á nesinu, ráku Danir verslun eftir að þeir komu til landsins og tóku við af Þjóðverjum. Þar má enn sjá talsverðar minjar eftir þá verslun, m.a. tóftir húsa”.

Staðarvör

Staðarvör.

Keflavík

1. Keflavík

-Landnámsmenn:
Í Hauksbók Landnámu og Sturlubók Landnámu er kveðið á um að Steinunn gamla hafi fengið Rosmhvalanesið í kaup við Ingólf frænda sinn. Hún bjó í Hólmi. Herjólfur Bárðason fékk land hjá Ingólfi milli Vogs og Reykjaness og er talið að hann hafi haft bú í Gamla-Kirkjuvogi við Ósabotna utanverða. Lönd Steinunnar og Herjólfs lágu því saman við Ósabotna. Land Steinunnar náði að Hvassahrauni, en hún gaf frænda sínum Eyvindi land á milli þess og Kvíguvogsbjarga þar sem líklega hefur verið miðað við Innri-Skoru. Eyvindur bjó í Kvíguvogum.

-íbúafjöldi
Íbúar í Reykjanesbæ eru um 11 þúsund talsins en bæjarfélagið er meðal þeirra fimm stærstu á landinu. Í Keflavík búa nú um 7600 manns.

-Fiskveiðar og verslun
Mikil útgerð og öflug fiskvinnsla var í Keflavík um áraraðir en nú er þjónusta og iðnaður burðarás atvinnulífs staðarins. Keflavík er nú hluti af sameinuðu sveitarfélagi, Reykjanesbæ.
Ekki er vitað hvenær byggð hófst í Keflavík en fyrstu vitneskju um að byggð sé þar er að finna í annálum, þar sem segir frá Grími Bergssyni, sem vað þar bráðkvaddur árið 1649, en hann bjó þá í Ytri-Njarðvík. Talið er að verzlun hafi verið í Keflavík frá því um 1500, en árið 1518 er talað um þýzka kaupmenn þar. Hansarkaupmenn settust þar að 1579 og sama ár gaf Danakonungur út fyrsta verzlunarleyfið fyrir staðinn. Við upphaf einokunarverslunar á Íslandi árið 1602 var kaupmönnum í Kaupmannahöfn afhent Keflavík og mynduðu þeir samlög um verzlunina. Fyrsti togarinn var keyptur til Keflavíkur árið 1944. Hét hann Hafsteinn. Hann var gerður út frá Hafnarfirði, vegna slæmra hafnarskilyrða í Keflavík. Fyrsta íshúsið var byggt árið 1897 og fyrsta frystihúsið 1929.

-Bítlabær
Í raun má segja að poppsaga suðurnesja hefjist með hljómsveitinni Hljómum úr Keflavík, og var það seinni hluta ársins 1963.
Vinsælasta hljómsveitin á suðurnesjum á þessum tíma var hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar, en það var ansi mikill kynslóðamunur á meðlimum hennar um þetta leyti. Skemmtistaðurinn Stapinn og Ungó voru með vinsælustu samkomustaða unga fólksins hér á árum áður.

-Ljósanótt
Ljósanótt var haldin í fyrsta sinn 2. september árið 2000 og var tileinkuð lýsingu á sjávarhömrum Bergsins en útilistaverkið sem unnið var eftir hugmynd Steinþórs Jónssonar var framlag Reykjanesbæjar til Reykjavíkur, menningarborgar árið 2000.
Ljósanótt markar haustdaga í Reykjansbæ en þá verða ljósin á Berginu kveikt á ný að loknu sumri með tilheyrandi viðburðum.
Segja má með sanni að Ljósanótt sé einskonar áramót Reyknesinga, en hún stendur nú orðið frá fimmtudegi til sunnudags, fyrstu vikuna í september.

-Sameining þriggja bæjarfélaga Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna
Keflavíkurhreppur var stofnaður 1908 og þann 22. mars 1949 fékk Keflavík kaupstaðaréttindi.
Sveitarfélögin Keflavík, Njarðvík og Hafnir runnu saman í eitt sveitarfélag og nefnast nú einu nafni Reykjanesbær. Byggð í Keflavík og Njarðvík hefur lengi legið saman og voru bæjarmörk ekki ljós, nema tekið væri eftir skiltum við vegarbrúnir, sem gáfu þau til kynna. Keflavík var fjölmennasta sveitarfélagið af þessum þremur og á sér verzlunarsögu frá árinu 1590.

-Listaverk
Í Keflavík má m.a. sjá minnismerki um Stjána blá, eftir Erling Jónsson. Við Vatnsnes er samnefnt hús í eigu Byggðasafnsins. Bjarnfríður Sigurðardóttir gaf húseigina til eflingar safns á svæðinu og þar innan dyra er nú nokkuð hefðbundið byggðasafn með margvíslegum gripum. Gamli skólinn hýsir nú Miðstöð símenntunarr á Suðurnesjum. Við bygginguna er listaverkið Laxnesfjöðurin eftir Erling Jónsson. Í skrúðgarðinum er sérstakur skúlptúr er kallast “Hvorki fugl né fiskur”, eftir Erling Jónsson, þar sem greipt eru nöfn þeirra sem hafa hlotið menningarverðlaun Reykjanesbæjar.
Við Hafnargötuna er minnismerki íslenskra sjómanna eftir Ásmund Seinsson. Beint upp af minnismerkinu er Keflavíkurkirkja, vígð árið 1915. Rögnvaldur Ólafsson teiknaði hana.
Á varnargarðinum vestan við Grófina má sjá ankeri af Brúarfossi til minningar um “tröllatryggð” skipanna við vöruflutninga milli landa.

-Grófin
Keflavík byggðist upp við Grófina. Upp frá henni liggja gamlar leiðir til nágrannabyggðalaganna vestan og norðan á Nesinu.
Ofan við Duushúsin eru tóftir gamla Keflavíkurbæjarins. Jörðin Keflavík var konungseign, en var rýr bújörð og búskapur á jörðinni var alltaf smár. Upphaflega mun jörð þessi eða kot hafa verið í eigu Skálholtsstóls. Við siðaskiptin um 1550 verður hún eign konungsins eins og aðrar jarðir biskupsstóls. Ekki er vitað hvenær búskapur hefst í Keflavík, en hann er örugglega hafinn á 16. öld því árið 1587 greiðir bóndinn landsskuld sína til Bessastaða. Kvaðir á bóndann áttu að vera mannslán til Bessastaðavaldins, en féll niður, vegna bónar kaupmannsins í Keflavík, fyrir vöktun búðanna. Búskapur á jörðinni leggst niður fyrir 1780. Bæjarhúsin voru jöfnuð út rétt fyrir aldamótin 1900.
Í landi jarðarinnar eru eftirtaldar minjar friðlýstar ákvörðun þjóðminjavarðar árið 1987: Hið gamla bæjarstæði jarðarinnar Kefalavík, sem afmarkast af Grófinni að norðan, af Duusgötu og lóð Duusgötu 5 að austan, af Vesturbraut að sunnan og lóðunum Vesturbraut 6 og Grófinni 5 að vestan. Ber eigendum að sjá til þess að ábúanda sé jafnan kunnugt um friðlýsinguna.

-Duus hús
Hér má sjá nokkur merkileg hús. Fyrst er að telja hús byggt 1971, sem hlotið hefur nafnið Svarta Pakkhúsið (dökk grænt). Það er skýrt í höfuðið á enn eldra húsi, sem var á þessum slóðum og minnir á þá tíð þegar pakkhús og bryggjur kaupmannanna í Keflavík einkenndu víkina auk stakkstæða til saltfiskþurrkunnar. Leifar síðustu bryggjunnar má enn sjá beint framundan, og heitir sú bryggja Miðbryggja. Næst er svokallað Fischerhús (gult), sem reist var árið 1881, sem verslunar- og íbúðarhús Fischers kaupmanns. Á hluta fyrstu hæðar hefur hópur handverksfólks hreiðrað um sig og rekur þar Galerý Björg.
Handan götunnar er lítið hús sem kallast Gamla búð (rautt), sem byggð var árið 1871 af Duus kaupmanni. Þar beint á móti er síðan Duushúsalengjan. Bryggjuhúsið var fyrst reist 1877 af sama manni, Bíósalurinn er byggður við og reistur 1890, en sagnir erum að þar hafi verið bíósýningar þegar um aldamót. Síðan er byggt við þessi hús upp úr 1950 þrjár einingar sem fiskverkunarhús. Búið er að gera upp tvær þeirra og eru þetta nú sýningarsalir.

-Duus-hús – Grófin
Þekktasti kaupmaðurinn á árum áður var H. P. Duus og stendur enn hluti af húsum hans, svokölluð Duushús (rauð lengja). Þar er nú mjög góður veitingastaður við smábátahöfnina með bergið andstpænis upplýst, þegar dimma tekur á kvöldin. Mikil útgerð og öflug fiskvinnsla var í Keflavík um áraraðir en nú er þjónusta og iðnaður burðarás atvinnulífs staðarins.

Áfram verður haldið með uppbyggingu Duushúsa en samkvæmt framkvæmdaáætlun er gert ráð fyrir að ljúka verkinu árið 2008. Suðursalur/Gryfjan verður opnaður með formlegum hætti á árinu. Unnið verður að gerð sýningarskrár um Bátasafn Gríms Karlssonar. Nýr starfsmaður verður ráðinn til að hafa umsjón með menningar- og listamiðstöð Reykjanesbæjar í Duushúsum. Helstu verkefni felast í umsjón með þeim sýningum sem í húsunum verða og kynningu á þeim sem og móttöku gesta. Lögð verður áhersla á að auka enn frekar menningarviðburði í Duushúsum, m.a. tónleikahald.
Duushúsin standa við smábátabryggjuna í Grófinni og eru röð nokkurra áfastra húsa frá mismunandi tímum, það elsta frá 1877 og það yngsta frá 1970, og einu stöku húsi. Þar er komin vísir að menningarmiðstöð Reykjanesbæjar og búið er að opna tvo sýningarsali í norðurenda húsalengjunnar. Í öðrum þeirra er sýningin Bátafloti Gríms Karlssonar ásamt sjóminjum frá Byggðasafni Reykjanesbæjar og í hinum eru breytilegar myndlistarsýningar á vegum Listasafns Reykjanesbæjar. Í sal Listasafnsins er góður flygill og þar eru haldnir tónleikar.
Sýningarsalirnir eru opnir alla daga frá kl. 13.00-17.00.

-Bryggjuhúsið
er elsta húsið í Duushúsalengjunni og það merkasta. Það var byggt 1877 af Hans Peter Duus, dönskum kaupmanni. Húsið er mjög stórt á þeirra tíma mælikvarða, 250 m2 að grunnfleti og alls þrjár hæðir. Mikið er eftir af upprunalegu efni í húsinu sem eykur varðveislugildi þess. Allar áætlanir miðast að því að gera húsið upp í upprunalegari mynd en þó með það fyrir augum að húsið geti hýst fjölbreytta menningarstarfsemi.

-Bíósalurinn
er byggður 1890. Hann telst einn elsti bíósalur landsins, en sagnir eru um bíósýningar rétt upp úr aldamótunum 1900, og er bíóloftið enn til staðar í salnum. Grunnflöturinn er ca. 160 m2 og er húsið á einni hæð. Ætlunin er að endurbyggja húsið sem bíósal þar sem m.a. verða sýndar myndir sem tengjast hvalaskoðun og öðru sem tengist menningartengdri ferðaþjónustu á svæðinu.

-Gamla búð
stendur stök (rautt), beint á móti húsalengjunni. Hún var byggð árið 1870 af fyrrnefndum Hans Peter Duus og var þar m.a. rekin verslun eins og heiti hússins gefur til kynna. Húsið er helst merkilegt fyrir þær sakir að það hefur haldist að mestu óbreytt frá fyrstu tíð og er ætlunin að gera það upp í upprunalegri mynd. Grunnflötur hússins er er ca. 80 m2, tvær hæðir og lítill kjallari. Hugmyndir um framtíðarnotkun hússins tengjast menningarlífi bæjarins.

-Fischersbúð
var reist árið 1881 (gult) og stendur á horni Vesturgötu og Hafnargötu. Það kom tilsniðið frá Danmörku og þótti á sínum tíma eitt reisulegasta hús bæjarins. Húsið er tvílyft bindingsverkshús með valmaþaksrisi á hlöðnum grunni. Grunnflötur hússins er ca. 170 m2 og er húsið tvær hæðir með risi og kjallara undir syðri endanum. Í þessu húsi var rekin verslun og einnig bjó kaupmaðurinn sjálfur í húsinu. Enn þann dag í dag er rekin þar verslun á vegum Handverksfélagsins Bjargar. Húsið þarfnast verulegrar endubyggingar og mun framtíðarnotkun þess tengjast menningarlífi bæjarins.

-Um að gera að kynna sér hvernig fólk býr, hitaveitu, rafmagn skóla og annað sem ykkur dettur í hug.

Búrfell

Búrfell eru 39 talsins, nokkuð há stapafjöll með klettum ofantil. En hvers vegna heita öll þessi fjöll á landinu „Búrfell“?
Búrfell landsins eru mörg og finnast um allt land. Að auki eru fjölmörg örnefni dregin af því, nefna má ár, dali, flóa, drög, heiðar, hraun, hyrnur, hálsa og margt fleira. Einnig bera níu bæir nafnið.

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Þrjátíu og níu fell eða fjöll bera nafnið Búrfell [fjögur fellanna eru á Reykjanesskaga; í fyrrum landnámi Ingólfs, þ.e.]:
-Búrfell við Hafravatn í Mosfellsbæ, 81 m
-Búrfell í Heiðmörk, Garðabæ, 179 m
-Búrfell, norðvestan Þingvalla, 782 m
-Búrfell norðvestan við Þorlákshöfn, 200 m

Af þessum fjórum Búrfellum á Reykjanesskaga eru tvær eldborgir (í Garðabæ og í Ölfusi (Þorlákshöfn)) og tvö eru móbergs og basaltfjöll (við Þingvelli og í Mosfellsbæ).

Sigurður Sigurðsson

Sigurður Sigurðsson.

Sigurður Sigurðsson birti fróðlega umfjöllun og vangaveltur um „Búrfell“ á bloggsíðu sinni sigsig.blog.is árið 2013:
„Að einhverju leiti getur verið að útlit fjalla með nafninu „Búrfell“ ráði því að þau fengu nafnið. Ekki veit ég orðið „búr“ merkir upphaflega, ef til vill er það hið sama og nú til dags sem er matargeymsla.

Mér finnst frekar óljóst er af hverju nafn fjallanna er dregið og þess vegna fór ég í dálitla heimildavinnu. Hún dróst dálítið á langinn, endaði í vikuvinnu. Leiddi þar hvað af öðru. Sem betur fer glataði ég tvisvar sinnum því sem ég hafði skrifað. Þá þurfti ég að byrja aftur og þó ég hafi bölvað missinum er ég nú þeirri skoðunar að ritgerðin hafi batnað eftir því sem ég skrifaði hana oftar. Ég vara þó lesandann við, ég er enginn sérfræðingur.

Hvaða búr er um að ræða?

Bær

Bær og útibúr.

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir:
Forliður nafnsins Búrfell er líklega dreginn af hinum fornu útibúrum, sem stóðu ein sér og í voru geymd matvæli, dýrir munir og svo framvegis. Þau gátu staðið nokkuð frá jörð svo að skepnur kæmust ekki í þau.

Búrfell standa oft stök og skera sig úr að lögun, og minna sum þeirra á hús.

Þetta skýrir ekki málið neitt sérstaklega og er heldur einföld skýring.

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Á hinum ágæta vef ferlir.is er fjallað um gíginn Búrfell í Heiðmörk og vitnað í vef Örnefnastofnunar um nafnið. Örnefnastofnun er nú ekki lengur til sem slík heldur var gerð að deild innan Árnastofnunar og vefurinn ekki lengur finnanlegur. En á Ferli segir eftirfarandi:
En hvers vegna ætli fjöll heiti Búrfell? Það fyrsta sem kemur væntanlega upp í hugann er búrhvalur því ef litið er á mynd af slíku dýri þá eru ákveðin líkindi með útliti hvalsins og sumum Búrfellum einkum þeim sem eru stapar.

Þar sem fjöllin þykja oft lík að lögun hefur stundum verið talað um Búrfellslag eða Búrfellslögun fjalla.

Búrfell

Hjallur.

Það er til önnur skýring á nafninu og hún er sú að það tengist matargeymslu og þá helst stokkabúr, sem voru reist á lóðréttum bjálkum upp frá jörð svo að dýr kæmust ekki í þau, öðru nafni stafbúr.“

Sum Búrfellin eru kölluð Matarfell af sjó svo sem Búrfell á Snæfellsnesi og Búrfell í Reykjarfirði á Ströndum en Búrfell á Gnúpverjaafrétti er kallað „fjallið fyrir innan Heklu“ og Búrfell á Tjörnesi er kallað Kistufell. Ástæða þess er sú að sjómenn trúðu því að ef þeir nefndu Búrfell á nafn gætu þeir egnt á sig búrhvalinn. Þetta voru því svokölluð varúðarnöfn.

Hyggjum nú aðeins að þessu. Á Vísindavefnum er getið um „hin fornu útibúr“. Líklega hafa þau verið geymslur, byggðar til að geyma matvöru og hugsanlega byggð þannig að vindur blási um þau eins og hjallar þar sem fiskur er þurrkaður.

Búr og kjölur

Búrfell

Búr.

Voru „búr“ kölluð svo eftir fjöllunum eða fengu fjöllin nafnið af útibúrunum? Þetta er ansi góð spurning, þó ég segi sjálfur frá og eftir svarinu fór ég að leita.

Gæti verið að orðið „búr“ hafi haft aðra merkingu en í dag, jafnvel að það hafi verið einskonar útlitslegt orð, ef ég má orða það þannig. Um leið kemur orðið „kjölur“ upp í hugann. Það var áður haft um ásinn, tréstykkið, sem er frá stefni og í skut. Síðar hefur orðið færst yfir á allan þann hluta bátsins eða skips sem er í sjó enda víst að kjölur, slíkur þeim sem hér hefur verið lýst, er ekki til á stálskipum.

Hugsanlega eru „kjölur“ og „búr“ andheiti. Hið fyrrnefnda gæti átt við kjalarásinn en hið síðara um það sem snéri inn í bátinn … Jafnvel gæti „búr“ verið einhvers konar mænir á húsi, það sem hæst ber.

Orðsifjafræðin

Búrfell

Búrhvalur.

Hvers vegna er hvalur kenndur við „búr“? Er það vegna þess að hvalurinn var notaður í fæðu eða var það vegna útlitsins? Líklega er ágætt að verja dálitlum tíma í að kanna þetta.

Í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar segir:

Búrhvalur
Búrhvalur k., búrhveli h., búri k. ´sérstök tannhvalategund (physeter macrocephalus)´; sbr. nno. [miðnorska] burkval um óvissa hvalatengund. Uppruni óljós. Oftast talið leitt af búr og sé þá átt við lýsisforðann í höfði hvalsins.

Þó tilvitnanir í Orðsifjabókina sé eflaust dálítið flóknar finnst mér engin goðgá að álykta af þessu að orðið „búr“ merki eitthvað stórt.

Í sömu bók segir:

Búrfell

Langreyður.

1 Buri eða Búri k. goðsögul. Nafn á föður Bors eða Burs, föður Óðins. Uppruni óviss. Oftast lesið Buri og þá talið merkja þann sem eignast afkvæmi eða son, sbr. bur. Aðrir ætla að orðið sé sk. fi. [fornindverska] bhuri- ´stór´eða mno. [miðnorska] bura ´öskra´, sbr. að Buri eða Búri var risaættar, af Ými kominn. Ath. búrhvalur.

Þarna fannst mér ég vera kominn í feitt þangað til ég rakst á eftirfarandi:
2. Buri eða Búri k. dvergsheiti. E.t.v. sk. búri.

Komum síðar að nöfnum sem tengjast Búra. Af þessu má draga þá ályktun að „búri“ geti þýtt hvort tveggja, stórt og lítið, sbr. risa eða dverg. Það kann þó að vera misskilningur.

Búrfell

Sandreyður.

Loks er ástæða til að tiltaka þriðju tilvitnunina í Orðsifjabókina. Hún er svona:
1. búri k. ´ruddi, dóni, durgur; aðsjáll maður, nirfill; íbúi (verslunar)borgar´. To. [tökuorð] úr mlþ. [nýlágþýsku] bure ´bóndi´, sk. [skylt] búr og búa.

Er eitthvað hér sem hönd á festir? Hugsanlega má telja að „búr“ sé eitthvað stórt eða það merki hús eða matargeymslu. Engin af ofangreindum tilvitnunum tekur til útlits, ekkert skýrir almennilega „búrfellslagið“.

Ég leyfi mér þó að draga þá ályktun aftur að „búr“ merki eitthvað sem er stórt. Hins vegar verður að hafa það í huga að Búrfell landsins eru afar mismunandi í útliti og stærð og jarðfræðilega eru þau ekki eins.

Fornritin

Sæl væri eg
ef sjá mættag
Búrfell og Bala,
báða Lóndranga,
Aðalþegnshóla
og Öndvertnes,
Heiðarkollu
og Hreggnasa,
Dritvík og möl
fyrir dyrum fóstra.

Búrfell

Steypireyður.

Þetta fallega kvæði er úr Bárðar sögu Snæfellsáss. Helga Bárðardóttir orti það er hún kom til Grænlands eftir að hafa hrakist þangað frá Íslandi. Hún var komin með heimþrá og saknaði heimahaganna. Í sögunni segir: „Þessi örnefni öll eru á Snjófellsnesi“.

Af þessu má draga þá álykta að snemma eftir landnám hafi örnefni myndast og þar með að fjall á Snæfellsnesi fékk nafnið „Búrfell“. Í þessu sambandi má geta þess að Grímur Rögnvaldsson sá sem nam Grímsnes bjó að Búrfelli. Líklega var bærinn samnefndur fjallinu fyrir ofan.

Búrfell

Búrfell í Rogan.

Þetta var mér hvatning til að fletta í gegnum önnur fornrit þó svo að ég minnist þess ekki að hafa séð orðið „búr“ í þeim. Enda varla von, flestir leikmenn lesa vegna söguþráðarins og smáatriðin hverfa.

Ég fór því í gegnum Fornaldarsögur Norðurlanda, Gylfaginningu, Heimskringlu, Íslendingasögur, Landnámubók og Jómsvíkingasögu. Leitaði að öllu því sem tengst gæti búri, Búrfelli eða fólki sem ber nafnið Búri. Margt merkilegt fannst í þessum ritum.

Líklega er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að málið hefur breyst talsvert frá því að fornsögurnar voru ritaðar. Ekki er víst að ég átti mig á öllum blæbrigðum sem málfræðingar og fornritaspekingar koma glöggt auga á.
Við skulum líka hafa hugfast að matur er viðkvæmur og það hafa fornmenn án efa vitað. Þar af leiðir að þeir leituðu ýmissa ráða til að gera hann sem lengst neysluhæfan. Án efa vissu þeir að kæling hjálpar til. Því gátu búr verið stök hús, staðsett annað hvort þar sem um gustaði um eða að þau voru grafin í jörð.

Að öðru leyti er gott ráð að nota hugarflugið þegar eftirfarandi tilvitnanir í fornritin eru skoðaðar. Í þeim er oftlega getið um „búr“ og „útibúr“.

Burfjell í Noregi

Búrfell

Búrfell í Fusa.

Ég er langt frá því sérfræðingur í orðsifjafræði þarlendra. Hitt veit ég í gegnum hann Gúgöl vin minn, að það eru að minnsta kosti tvö Búrfjöll eru þarna fyrir austan og bæði með þessu líka laglega búrfellslagi. Hið fyrra er Burfjell í Fusa og hið seinna er Burfjell í Rogan. Merkilegt er að skoða myndir af þessum tveimur fjöllum. Eru þau með „Búrfellslagi“? Mér finnst nokkur líkindi með því.

Stapi

Fjallið eina

Fjallið eina – dæmigerður stapi.

Mörg Búrfellin eru keimlík í laginu og ekki síst þau sem jarðfræðilega bera heitið stapi eins og Búrfell við Þjórsárdal, Búrfell austan Mývatns og ábyggilega fleiri.
Hvað er þá stapi, svona jarðfræðilega séð. Hann myndast í upphafi þegar eldgos verður undir jökli. Þá hlaðast upp gosefni í plássið sem eldgosið bræðir í jöklinum. Um leið og glóandi kvika snertir vatnið springur hún og myndar smágerð gosefni, en vegna þess að jökullinn virkar sem mót dreifast þau ekki heldur hlaðast smám saman upp. Þegar svo mikil gosefni hafa hlaðist upp að eldvirknin nær upp fyrir vatnsborðið rennur loksins hraun. Eftir að gosi lýkur heldur jökullinn að fjallinu, rétt eins og mót og með tímanum, og vegna hita og þrýstings, verður til móberg úr lausu gosefnunum.
Þetta gerðist margoft hér á landi á ísöld og þegar jökullinn hvarf urðu eftir svokallaðir stapar. Þeir er oftast hringlaga eða jafnvel ílangir. Efst er oft hraunskjöldur, dyngja, en undir er móberg.

Niðurstaða

Búrfell

Búrfell í Ölfusi – loftmynd.

Ég held að nú megi slá því föstu að búr sé ekki aðeins matargeymsla heldur hafi líka ýmislegt annað verið geymt í þeim. Mörg dæmi eru til í fornritum um að búr hafi verið notuð sem íverustaðir. Búr sem matargeymslur hafa líklega staðið þar sem gustar um enda hafi tilgangur verið að halda matvöru kaldri svo hún geymdist sem lengst. Einnig er til að búr hafi verið grafin í jörðu í sama tilgangi.

Óljóst er hins vegar hvernig búr hafa litið út. Draga má þá ályktun af helstu fjöllum sem heita Búrfell að þau hafi verið með frekar flötu þaki, að minnsta kosti ekki bröttu. Þakið kann einnig að hafa verið ílangt.

Orðið „búr“ merkti líklega til forna eitthvað sem var stórt og mikið um sig og þá hefur hugsanlega ekki verið miðað við hús sem var matargeymsla. Orðið hafi einfaldlega verið heiti á stóru húsi eða nafn á stórum manni. Þess vegna er stórt fjall nefnt Búrfell í vegna þess að það er einfaldlega stórt fjall, jafnvel stórt stakt fjall.

Búrfell

Búrfell í Mosfellsbæ – loftmynd.

Hvalurinn hefur þar af leiðandi verið nefndur Búrhvalur vegna þess að hann er stærri og meiri um sig en flestir aðrir hvalir en ekki vegna lýsis eða kjöts.

Hitt er svo til umræðu hvers vegna stórt fjall er nefnt fell. Í Noregi eru eins og áður sagði að minnsta kosti tvö fjöll sem heita Burfjell. Á íslensku örnefnunum kann að vera málfræðileg skýring sem er sennilegri en aðrar, til dæmis náttúruleg.“

Brynjólfur Þorvarðsson fjallar um framangreint og skrifar m.a.:

Búrfell

Búrfell við Þingvelli.

„Sæll Sigurður og takk fyrir skemmtilega ritgerð.
Það er afskaplega erfitt að rekja orðsifjafræði stuttra orða með fjölbreytta merkingu. En mér sýnist þú ekki taka eina algeng merkingu orðsins „búr“ í daglegu máli, þ.e. aflæst hirsla með rimlum. Nú veit ég ekki hversu gömul sú málnotkun er, en rimlar heita „bars“ á ensku og „barer“ á dönsku. Samkvæmt enskum orðsifjum er þetta tekið úr síð-latnesku „barra“.

Búrfell

Búrfell í Mosfellsbæ – kort 1903.

Ennfremur finn ég fornnorræna orðið „burr“, enn notað í ensku, sem merkir fræhylki með litlum þyrnum sem festast í fatnaði. Önnur heimild talar um „borr“ eða „borre“ í fornnorrænu.

Loks finn ég „búrr“ notað sem kenningu um son í Eddukvæðum: „Óðins búrr“. Einhverjir tengja orðin búrr, búri, bör í Eddukvæðum við „að framfæra“ sem aftur er augljóslega skylt sögninni að bera, öll orðin ur Sanskrít „bâras“.

FERLIR spyr: Hvers vegna eru engin fjöll nefnd eftir Langreyð, Sandreyð eða Steypireyð. Allir þeir hvalirnir eru ekki ólíkir Búrhvalnum. Og hvernig er örnefnið „Kistufell“ tilkomið? Gæti það verið hliðstæða við örnefnið „Búrfell“ líkt og örnefnið „Húsfell“?!? Búr var jafnan einungis hluti bæja eða selja. „Bæjarfellin“ eru allnokkur. Undir þeim flestum kúra bæir eða bæjatóftir, sbr. Bæjarfell í Krýsuvík og við Vigdísarvelli. Þar liggja fyrir augljósar skýringar á örnefninu. Bæirnir Búrfell og Búrfellskot voru undir Búrfelli í Mosfellsbæ. Hvers vegna var fellið ekki nefnt Bæjarfell til samræmis?…

Heimild:
-https://sigsig.blog.is/blog/sigsig/entry/1328331/

Búrfell

Búrfellin – kort.

Kálfatjörn

16. Kálfatjörn – Vogar

-Kálfatjarnarkirkja
Ein af fjölmörgum kirkjum á Reykjanesi sem vert er að skoða og er hún er með stærstu sveitakirkjum á landinu. Komast vel um 200 manns fyrir í kirkjunni þó að við vígslu hennar fyrir 100 árum hafi verið taldir út úr kirkjunni rúmlega 400 gestir.
Bær, kirkjustaður og áður prestsetur á Vatnsleysuströnd. Prestasetur var þar til 1907 er sóknin var lögð niður til Garða á Álftanesi. Á Kálfatjörn var kirkja helguð Pétri postula á kaþólskum sið. Núverandi kirkja var reist árið 1892-1893 og vígð 11. júní 1893. Kirkjan er byggð úr timbri, járni varin steinhlöðnum grunni. Kirkjan tekur 150 manns í sæti á báðum gólfum. Kálfatjarnarkikirkja tilheyrir Tjarnarprestkalli í dag.
Málningin innan dyra er upprunaleg að hluta, og píláranir á kirkjuloftinu voru handunnir af manni í sveitinni – meistarverk.
Altaristaflan er máluð af Sigurði Guðmundssyni, málara.

-Hverfin
Kálfatjarnarhverfi – Knarraneshverfi – Brunnastaðahverfi.

-Mannlíf -Útgerð – selsbúskapur
Hér verður lýst þróun í atvinnu- og byggðamálum á Reykjanesi og reynt að rýna svolítið í framtíðina í þeim efnum.
Byggðin á Reykjanesi (Suðurnesjum) var frá upphafi svo til öll með sjávarsíðunni. Einstaka bæir voru bundir litlum gróðurblettum þar sem þá var að finna eða hægt var að rækta upp með sæmilegu móti. Útvegsbændurnir höfðu fjárbúskap samhliða útvegnum. Fá býlin höfðu kýr og þá yfirleitt fáar. Annars höfðu bændur stærri og landmeiri bæja margt fjár og höfðu fé sitt yfirleitt í seli yfir sumarið, venjulega frá 6. – 16. viku sumars. Það var aðallega tvennt er einkenndi atvinnuhætti á Reykjanesi í u.þ.b. eitt þúsund ár, allt frá byrjun og langt fram á 19. öldina; annars vegar seljabúskapurinn á sumrin og hins vegar vermennskan yfir veturinn. Hvergi voru fleiri verstöðvar við strendur landsins en á Reykjanesskaganum. Bændur stunduðu þaðan veiðar sem og aðkomumenn víða af landinu. Efldi það samskipti og fjölbreytni mannlífsins, auk nýrra menningarstrauma á hverjum tíma. Verin voru eitt helsta forðabúr Skálholtsbiskupsstóls um tíma og undirstaða útflutningsverslunar landsmanna.
Selin voru yfirleitt í jaðri jarðanna til að nýta mætti landið sem best, þ.e. hlífa heimatúnum, sem yfirleitt voru lítil, og heimahögum, en beita úthagann. Lífið á Reykjanesskaganum snerist um fisk og fé. Fólkið hélt lífinu í fénu og féð hélt lífinu í fólkinu.
Á Reykjanesi, sem telur í dag um 140 sýnilegar selstöður, þ.e. á milli Suðurlandsvegar og Stampa yst á Reykjanesi, voru selin annars eðlis en annars staðar á landinu. Þau voru tímabundnar nytjaútstöðvar bæjanna er byggðu afkomu sína engu minna á útgerð. Selin eða selstöðurnar í heiðunum hafa áreiðanlega ekki öll verið notuð á sama tíma, sum eru greinilega eldri en önnur, þó gera megi ráð fyrir að þau hafi jafnan verið gerð upp eftir því sem not voru fyrir þau. Þá benda gerðir seljahúsanna til þess að þau séu frá mismunandi tímum. Áhersla á landbúnað var meiri á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, en þá voru bæirnir líka færri. Þegar líða fór á miðaldir og síðar urðu fiksveiðar ríkari þáttur útvegsbændanna, en landbúnaður óverulegur. Líklegt er að þá hafi seljunum fækkað. Samkvæmt jarðabókinni 1703 voru t.d. 18 sel og selstöður í notkun frá Vatnsleysustrandarbæjunum, en alls má líta þar minjar 34-40 selja, sum frá fyrstu tíð. Það hefur því oft verið talsvert líf í heiðinni, eða um 40-60 manns að staðaldri yfir sumarmánuðina. Síðasta selið á Reykjanesi var Hraunselið undir Núpshlíðarhálsi, en það var í notkun til 1914. Seljabúskapurinn á Reykjanesskagnum gefur góða mynd af umfangi fjárbúskaparins á svæðinu og þróun byggðar og atvinnuhátta – þar sem allt líf fólks snérist meira og minna um sauðkinda, a.m.k. um allnokkurn tíma.
Selsbúskapurinn hefur því verið stór þáttur í búskaparháttum þessa landsvæðis, en er nú að mestu gleymdur. Hins vegar eru minjar seljanna enn vel sýnilegar og standa þar sem minnismerki þess liðna – fortíðinni – sem nauðsynlegt er að bera virðingu fyrir. Þau tala máli fólksins, forfeðra okkar og mæðra, sem hér bjó, stritaði og dó, en skyldu eftir sig dýrmæta arfleið – okkur.
Á árunum 1940-70 tók íslenskt atvinnulíf stakkaskiptum, auk þess sem tilkoma hersins breytti verulega atvinnuháttum á Suðurnesjum. Ekki var t.d. hægt að manna róðrabáta á útgerðarstöðunum fyrstu tvö árin eftir tilkomu hans þar sem flestir atvinnufærir menn fóru til starfa fyrir herinn. Það var í fyrsta skipti sem sumir þeirra fengu greitt í peningum fyrir vinnu sína. Þéttbýliskjarnar tóku að myndast. Grindavík er ágætt dæmi um breytingar og þróun þéttbýlis og atvinnuhátta á Reykjanesi. Bærinn er. einn öflugasti útgerðarbær landsins með fjölda báta og togara og sterkum sjávarútvegsfyrirtækjum. Grindavíkurhöfn hefur lengi verið í hópi þeirra 4 – 5 hafna landsins sem mestum afla skila á land á hverju ári. Undanfarin ár hefur ferðamönnum fjölgað verulega í Grindavík, en það er aðallega ört vaxandi þjónustu að þakka. Bláa Lónið, sem er aðeins 5 km. fyrir utan Grindavíkurbæ, er vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Íslandi.
Frá miðri 19. öldinni og fram yfir 1930 var mannfjöldinn á Suðurnesjum milli 2000 og 3000, en á 18. öld og fram á þá 19. var íbúafjöldinn á bilinu 1000-1500. Eftir miðja 20. öld og fram til dagsins í dag hefur íbúafjöldinn vaxið hröðum skrefum og byggist það mikið til á sjávarútvegi og þjónustugreinum. Á síðustu öld fækkaði jafnt og þétt í dreifbýli á svæðinu, á sama tíma og þéttbýlisstaðir uxu að sama skapi. Meginþættir atvinnulífs á Suðurnesjum hafa verið öflugur sjávarútvegur og starfsemi á Keflavíkurflugvelli og varnarsvæðunum. Iðnaður og byggingastarfsemi í sveitarfélögunum á Suðurnesjum er hlutfallslega minni en annars staðar og á höfuðborgarsvæðinu, en munurinn jafnast þegar varnarframkvæmdir eru teknar með. Verslun og þjónusta er miklu minni í sveitarfélögunum á Suðurnesjum en annars staðar. Á síðustu árum hefur sjávarútvegur minnkað nokkuð, einkum í Keflavík, Njarðvík og Sandgerði, en annars staðar á Suðurnesjum hefur þessi atvinnugrein að mestu haldið í horfinu sé miðað við fjölda starfa og unnið aflaverðmæti. Segja má þó að í heildina sé atvinnulíf nokkuð einhæft á smærri stöðunum, en benda má á í því sambandi að Suðurnes er eitt atvinnusvæði og samgöngur eru yfirleitt góðar.
Árið 1984 voru 7850 ársstörf á svæðinu, þar af rúmlega 20% á Keflavíkurflugvelli og varnarsvæðunum, en um fjórðungur starfsfólks þar kemur af höfuðborgarsvæðinu. Á sama tíma voru ársverk fólks með lögheimili á Suðurnesjum um 6900 samtals. Fólksfjölgunin hefur verið 50-100% á síðustu áratugum, en gert er ráð fyrir að mannafli á Suðurnesjum aukist um 2500 manns á næstu 20 árum.

-Ströndin og sjórinn
Strönd Reykjanesskagans er óvíða fallegri en á Vatnsleysuströnd. Þar skiptast á kettastarndir og sandstrandir með fjölbreyttu fuglalífi.

-Vogar – saga
Vogar á Vatnsleysuströnd er kauptún, sem varð til við breytingar á útgerðarháttum, þegar vélbátaútgerð gekk í garð með stærri skipum, sem kröfðust góðs lægis eins og er við Voga. Um aldamótin voru tæplega 800 íbúar í Vogum, fleiri en í Keflavík og Grindavík samanlagt. Fyrrum hétu Vogar Kvíguvogar en það nafn er nú með öllu aflagt. Í Landnámabók segir frá Eyvindi, frænda Steinunnar gömlu, en honum gaf hún land ,,milli Kvíguvogabjargs (Vogastapa) og Hvassahrauns” og bjó hann í Kvíguvogum en Hrolleifur Einarsson í Heiðarbæ í Þingvallasveit skoraði á hann til landa og fór svo að þeir höfðu landaskipti. Í Vogum var hálfkirkja að fornu eins og á Vatnsleysu en höfuðkirkja byggðarinnar hefur ávallt verið Kálfatjörn. Mest jörð í Vogunum og hin upphaflega heimajörð, þar sem mörg afbýli og útkot voru síðar byggð og úr var Stóru-Vogar. Þar fæddist Páll Eggert Ólafsson (1883-1949) prófessor. Páll er einn mikilvægast sagnfræðingur Íslands fyrr og síðar. Árið 1893 var Vogavík löggilt verslunarhöfn. Árið 1930 hóft útgerð tveggja vélbáta í eigu hreppsbúa, gerð var stopplabryggja og fiskhús reist. Árið 1942 var reist hraðfrystihús. Margt er að skoða í nágrenni Voga og eru þar margar skemmtilegar og áhugaverðar gönguleiðir og sérkennileg náttúra allt í kring. Fyrirhugað var að reisa álver á Keilisnesi við Voga en því hefur nú verið frestað, hvað sem síðar verður. Sterkasti maður landsins Jón Daníelsson bjó í Vogum og á hann að hafa flutt til bjarg eitt mikið með eigin afli. Hann lézt ungur og er bjargið nú minnisvarði um hann við Vogaskóla.
Vegalengdin frá Reykjavík er 44 km.

Eftir landnám fara litlar sögur af Vatnsleysuströndinni. Hér á eftir er samtínigur af því helsta.
– Í Sturlungu er getið Björns Jónssonar bónda í Kvíguvogum vegna þess að Helgi bróðir hans féll úr liði Þorleifs í Görðum í Bæjarbardaga.
– Vatnsleysustrandarhreppur er nefndur í landamerkjalögum 1270.
– 1592 er dómur kveðinn upp á Vatnsleysu af Gísla lögmanni Þórðarsyni, um það að Guðmundur nokkur Einarsson skuli fluttur á sveit sína vestur á Skarðsströnd.
– Í hafnatali Resens er Vatnsleysuvík talin höfn á 16. öld en þess getið að þangað sé engin sigling.
– 1602 er einokunin hófst var útgefið konungsbréf sem tilkynnir að þýskum kaupmönnum sé leyft að sigla á hafnirnar Vatnsleysuvík og Straum þetta sumar til þess að innheimta skuldir sínar.
– Á 17. öld er getið um mann sem hafði á sér höfðingjabrag, það var stórbóndinn í Vogum, Einar Oddsson lögréttumaður 1639-1684. Einar gerðist handgenginn Bessastaðamönnum, sérstaklega Tómasi Nikulássyni fógeta sem aðrir Íslendingar hötuðu. Tómas gerir Einar að umboðsmanni sínum 1663, veturlangt. (Staðgengill landfógeta).
Hallgrímur Pétursson orti um Einar:
Fiskurinn hefir þig feitan gert,
Sem færður er upp með togum,
En þóttú digur um svírann sért,
Samt ertu Einar í Vogum.

Árið 1699 bjó á hjáleigu frá Brunnastöðum bláfátækur bóndi sem Hólmfastur Guðmundsson hét. Á þessum tíma máttu Vatnsleysustrandarmenn eingöngu versla í Hafnarfirði. Kaupmaður þar hét Knútur Storm. Ekki vildi kaupmaður kaupa allan fisk Hólmfasts og henti úr 3 löngum og 10 ýsum. Ekki mátti Hólmfastur við þessu, hann fer því til Keflavíkur með úrkastið og að auki 2 knippi af hertum sundmögum og selur kaupmanni. Þetta frétti Knútur Storm og stefndi Hólmfasti til Kálfatjarnarþings og kærði hann fyrir óleyfilega verslun. Hólmfastur var dæmdur í þunga sekt en hann átti ekki neitt nema lekan bát sem kaupmaður neitaði að taka upp í sekt. Hólmfastur var því dæmdur til að kaghýðast, en því jafnframt skotið til konungs hvort hann ætti ekki líka að fara á Brimarhólm fyrir þennan mikla glæp. Síðan var Hólmfastur bundin við staur og húðstrýkur rækilega. Seinna kærði Láritz Gottrup lögmaður þetta fyrir konungi og enn seinna þeir Árni Magnússon og Páll Vídalín. Árni og Páll stóðu fyrir því að Hólmfastur fékk miskabætur nokkru síðar 20 ríkisdali frá Jóni Eyjólfssyni sýslumanni. Umdæmaverslunin var afnumin 1732.
– Í manntalinu 1703 er íbúafjöldi hreppsins 251. Fjórum árum seinna, 1707 gekk stóra bóla þá létust 106 manns eða rúmlega þriðjungur og er þess getið í annálum að einn dag voru 34 lík færð til greftrunar að Kálfatjörn.
Ekki hefur hreppurinn alltaf verið jafnstór því;
Með lögum 1596 voru Njarðvíkurnar sameinaðar Vatnsleysustrandarhreppi og náði hreppurinn þá að Vatnsnesklettum. 1889 urðu Njarðvíkurnar aðskildar og urðu sér hreppur.

-Kirkjur
Upphaflega voru þrjár kirkjur í hreppnum, hálfkirkjur í Kvíguvogum (Vogum) og á Vatnsleysu, en aðalkirkja á Kálfatjörn. Þeirra er getið í gömlum máldögum m.a. Vilkinsmáldaga. Hálfkirkjurnar hafa trúlegast lagast niður um siðaskipti. Sagnir eru um að aðalkirkjan hafi upphaflega staðið á Bakka en verið flutt að Kálfatjörn vegna sjávargangs. Kálfatjörn er nefnd Gamlatjörn í Vilkinsmáldaga sem mun vera hið forna nafn staðarins. Í kaþólskum sið var kirkjan á Kálfatjörn helguð Pétri postula. Á Kálfatjörn var torfkirkja fram til ársins 1824, þá var reist ný kirkja og var hún með torfveggjum en timburþaki og stóð hún í 20 ár eða til ársins 1844. Árið 1844 er svo byggð ný timburkirkja á Kálfatjörn, hún stóð aðeins í 20 ár og 1864 er enn byggð kirkja. Núverandi kirkja var byggð 1892-1893 og vígð árið 1893. Hún tekur 150 manns í sæti á báðum gólfum. 1935 er forkirkjan endurbyggð og settur nýr turn á kirkjuna. Prestssetur var á Kálfatjörn til 1907, er sóknin var lögð til Garða á Álftanesi. Árið 2002 var stofnað nýtt prestakall, Tjarnaprestakall, sem Kálfatjarnarsókn eru nú hluti af ásamt Ástjarnarsókn í Hafnarfirði.
Þekktastur presta á Kálfatjörn hefur líklegast verið séra Stefán Thorarensen. Hann var prestur á Kálfatjörn 1857-1886. Séra Stefán var sálmaskáld mikið og réð mest um útgáfu sálmabókarinnar 1871, í þeirri bók eru 95 sálmar eftir hann, frumsamdir og þýddir. Fyrir tilstuðlan séra Stefáns var komið á fót fyrsta barnaskólanum í hreppnum árið 1872. Seinasti prestur er bjó á Kálfatjörn var séra Árni Þorsteinsson 1886-1919.

Atvinnuhættir og viðurværi – Viðeyjarklaustur – landsetar konungs
Einn aðal atvinnuvegur Íslendinga var um margar aldir landbúnaður, þó voru nokkur svæði á landinu sem fiskveiðar voru stundaðar jafnframt og er Faxaflóasvæðið eitt af þeim. Hrolleifur Einarsson sem hafði jarðaskipti við Eyvind landnámsmann hefur litist betur á búsetu við sjávarsíðuna og fiskfangið en grösugar sveitir Þingvallasveitar. Jarðnæði í Vatnsleysustrandarhreppi verður seint talið gott til ræktunar búfjár og má vera ljóst að alla tíð hafa menn stólað á sjóinn sér til lífsviðurværis.
Til að byrja með skiptast bændur í jarðeigendur og leiguliða þeirra. Þegar Viðeyjarklaustur var stofnað 1226 þurfti það auðvitað á tekjum að halda. Við stofnun þess voru því gefnar allar biskupstekjur milli Botnsár og Hafnarfjarðar en í framhaldi fara klaustursmenn svo að ásælast fleiri jarðir. Var svo komið að þegar Viðeyjarklaustur var lagt niður átti það allar jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi nema Kálfatjörn, Bakka og Flekkuvík sem voru kirkjujarðir. Landskuld þurftu menn að greiða af jörðum sínum. Sem dæmi um hve mikil hún var er til skrá frá 1584, þá þurftu 15 jarðir á Ströndinni að greiða samtals 56 vættir fiska og 3 hndr. í fríðu. Klaustrið hefur jafnframt verið með mikla útgerð því það átti báta og skip sem það gerði út á Ströndinni og hafa bændur sjálfsagt verið skyldaðir til að leggja til menn á þá.
Þegar klaustrið var lagt niður tekur sjálfur konungurinn (Bessastaðavaldið) við öllum eignum þess. Ekki reyndist Bessastaðavaldið bændum betur en klaustrið og hlóð á nýjum kvöðum. 1698 hafði landskuld hækkað um nær helming og var um 113 vættir fiska, þó höfðu jarðirnar ekki batnað neitt, sumar jafnvel skemmst af sandfoki og sjávargangi.

Nú áttu Bessastaðamenn ekki skipin lengur en tóku þau að helmingi til útgerðar (helmingaskip). Hvor aðili greiddi helming útgerðarkostnaðar og aflanum skipt jafnt á milli þeirra. Bændur voru svo skyldaðir til að leggja til mann á bátinn fyrir Bessastaði. Ein kvöðin var sú að skila tveimur hríshestum heim til Bessastaða eða Viðeyjar. Þá hvíldi sú kvöð á Hlöðunesbónda að ljá mann til Bessastaða ,, einn dag eða fleiri, þegar hússtörf eru þar og fæða manninn sjálfur”. Svo voru að auki kvaðir um flutninga, hestlán og hýsingu Bessastaðamanna.
Frá upphafi hefur verið veitt á króka (handfæri) og þá beitt fjörumaðki, hrognkelsum, kræklingi og þorskhrognum. Bátarnir voru mestmegnis tveggjamannaför. Netaveiðar hefjast fyrst um 1882 og var í byrjun eitt net á hlut, (sexæringur með 8 net og 8 hluti). Um tíu árum síðar voru orðin 10 net á hlut. Frá upphafi fiskveiða hér við land og um margar aldir var allur fiskur þurrkaður (skreið) enn um 1820-1840 byrja menn að salta fisk hér við Faxaflóa. Talið er að 114 bátar hafi gengið á vertíð 1703 úr Brunnastaðahverfi og ekki færri í Vogum og Hólmi.
Landbúnaður var alltaf stundaður jafnhliða sjósókn þó ræktað land væri lítið. Menn treystu mikið á beit í heiðinni og fjörunum og milda vetur. Allir bæir í hreppnum höfðu selstöðu og um alla Strandar og Vogaheiða eru rústir af gömlum seljum. Í jarðabókinni 1703 eru talir 18 bæir og 22 hjáleigur. Sauðfjáreignin í hreppnum er 698 kindur (38 kindur að meðaltali á jörð), hestar 67 og nautgripir 140. Trúlega hafa flest selin lagst af þegar skera þurfti niður allt fé í kjölfar fjárkláðans árið 1856. Síðast var haft í seli í Flekkuvíkursel 1870. Sauðum var haldið veturlangt upp í Kálffelli um aldamótin 1900. Um sel og selstöður í Vatnsleysustrandarhreppi má lesa nánar á heimasíðu Ferlis, www.ferlir.is .

-Framfarir
Árið 1817 voru konungsjarðir í Gullbringusýslu seldar og urðu þá jarðir í hreppnum aftur bændaeign.
Árið 1817 var gefið eftir afgjald af 8-16 lesta skipum er Íslendingar keyptu erlendis og gerðu út. Hafskip sem væru höfð til fiskveiða skyldu fá verðlaun fyrir hverja lest. Þetta var til þess að þrjár skútur komu í hreppinn, tvær í Njarðvík, þeir Jón Daníelsson Vogum og Árni í Halakoti létu smíða þá þriðju. Vænkast þá hagur manna til muna enda fylgdu mörg góð afla ár í kjölfarið, best var árið 1829. Um miðja 19. öldina hafði tveggja manna förum fækkað mjög en fjölgað sexæringum og áttæringum.
Árið 1870-74 var Lovísa, 45 rúmlesta þilskip, eign Egils Hallgrímssonar í Austurkoti, Vogum. “Það er talið að Lovísa sé fyrsta haffært þilskip í bændaeign sem kom hér til Faxaflóa.”
Árið 1890 eru 939 heimilisfastir menn í hreppnum og annað eins af vermönnum. Upp úr 1893 fer afli síðan mjög minnkandi og lengra verður að sækja á miðin. Nánar má lesa um sjósókn á Vatnsleysuströnd í lok 19. aldar í bókinni Þættir af Suðurnesjum e. Ágúst Guðmundsson frá Halakoti.
Húsakostur manna fer einnig batnandi á 19. öldinni. Árið 1865 byggir Guðmundur Ívarsson á Brunnastöðum fyrsta timburhúsið í hreppnum. Eftir að Jamestown strandaði í Höfnum 1881 með fullfermi af timbri voru byggð timburhús á flestum jörðum í hreppnum. En bætti um betur 1904 þegar rak inn í Vogavík timburskip frá Mandal í Noregi. Mörg íbúðarhús og útihús voru byggð úr því timbri. Gömlu torfbæirnir hurfu svo til við þetta.
Árið 1907 kaupa í félagi fjórir Vogamenn fyrsta vélbátinn í hreppinn , hann hét Von og fylgdu fleiri vélbátar í kjölfarið. Árið 1930 var byggð bryggja í Vogum, fiskverkunarhús og verbúð af Útgerðarfélagi Vatnsleysustrandar (samvinnufélag). Einnig lét félagið smíða tvo 22 tonna báta; Huginn og Muninn. 1935 eignast Vatnsleysustrandarhreppur bryggjuna og húsið. Eftir 1940 hefja rekstur fyrirtækin Valdimar h/f sem stundar útgerð og fiskverkun og Vogar h/f sem stundar útgerð, fiskverkun og frystingu. Tilkoma þessara fyrirtækja skipti sköpun fyrir þróun byggðalagsins næstu áratugina. Um 1930 er farin að myndast þéttbýliskjarni í Vogum. Síðan hefur verið hæg og nokkuð jöfn íbúafjölgun með auknum atvinnutækifærum og bættum samgöngum.
Í dag eru sex fiskvinnslufyrirtæki í hreppnum, flest frekar lítil, tvö fiskeldisfyrirtæki, stórt svínabú og hænsnabú, fjórar vélsmiðjur og bílaverstæði. Líklega sækir rúmur helmingur vinnandi íbúa hreppsins atvinnu út fyrir byggðalagið. Í hreppnum er grunnskóli með rúmlega 200 nemendur og leikskóli auk íþróttahúss.
1. des 2003 voru íbúar Vatnsleysustrandarhrepps 928.

-Áhugaverðir staðir
Vogastapi er gömul grágrýtisdyngja, hæst ber Grímshól 74m. Á Grímshól er útsýnisskífa og þaðan er gott útsýni yfir haf og land. Umhverfis Grímshól í um 70m hæð má sjá kraga úr lágbörðu stórgrýti.
– Misgengisstallar liggja um Vogastapa sunnanverðan og er Háibjalli þeirra mestur. Skammt þar suður af eru Snorrastaðatjarnir. Skoðunarverðar náttúruperlur.
– Þráinskjöldur heitir hraundyngja allmikil norðaustur af Fagradalsfjalli. Þráinskjaldarhraun hefur runnið fyrir 9-12þús. árum. Hraunið þekur heiðina og til sjávar allt frá Vatnsleysu að Vogastapa. Frá Vatnsleysuvík til Vogastapa má rekja fornan sjávarkamb í u.þ.b. 10 metra hæð frá núverandi sjávarstöðu.
– Miklar gjár og misgengi einkenna Strandar- og Vogaheiði, má þar helst nefna Hrafnagjá, Stóru-Aragjá og Klifgjá. Sigdæld er þar allnokkur.
– Fjölbreytt og skemmtilegt útivistarsvæði er við Höskuldarvelli. Vegur þangað liggur frá Reykjanesbraut skammt vestan Kúagerðis (merkur Keilir). Við Höskuldarvelli er mikið úrval stuttra gönguleiða. Má þá helst nefna göngu á Keilir 378 m, Trölladyngju 379 m eða Grænudyngju 402 m. Lambafellsklofi er mikilfengleg gjá sem klífur Lambafellið. Gaman er að ganga eftir gjánni inn í fellið og síðan upp úr því. Í Soginu er mikil litadýrð sem langvarandi jarðhiti hefur gefið svæðinu. Þar liðast lítill lækur.
– Selsvellir eru vel gróið tún vestan við Núpshlíðarháls. Fast upp við Selsvelli er stór og fallegur gígur sem Moshóll heitir. Meginhluti Afstapahrauns mun vera komið úr Moshól og öðrum gíg nokkru sunnar. Þar gaus á 14. öld.
– Almenningur heitir landsvæðið milli Afstapahrauns og Kapelluhrauns. Það hraun er komið úr Hrútagjárdyngju. Þetta svæði er að einhverju leiti í Vatnsleysustrandarhreppi. Í þessu hrauni rétt ofan við Reykjanesbraut og suður af Hvassahrauni eru nokkur allsérstök hraundríli á sléttlendi og heitir þar Strokkamelur. Hraundrílin draga líklega nafn sitt af lögun gíganna sem líta út eins og smjörstrokkar. Nýrri heimilir kalla gígana Hvassahraunsgíga.
Nánar má lesa um örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi í samnefndri bók Sesselju Guðmundsdóttur.

-Sögur og sagnir
Nokkrar þjóðsögur tengjast Vogunum. Er þar fyrst að nefna söguna; Frá Marbendli er segir frá viðureign bóndans og marbendils og sækúnum er gengu á land. Það mun vera skýringartilraun á nafninu Kvíguvogar. Þekkt er sagan um Grím sem Grímshóll dregur nafn af. Grímur fór til sjóróðra suður, varð viðskila við samferðamenn sína á Stapanum og ókunnur maður falar hann til að róa hjá sér um vertíðina. Margar sögur eru til af Jón í Vogum (Jón Daníelsson), hann þótti vita lengra en nef hans náði og var mál manna að hann væri rammgöldróttur og gæti kvatt niður drauga.
Allar þessar sögur og fleiri má finna á vef bókasafns Reykjanesbæjar; www.bokasafn.rnb.is.
Lífseig er sögnin um Stapadraugurinn svonefnda. Birtist hann snöggklæddur. Telja menn að þar fari Jón Úlfhildarson sem kenndur er við Grjótá í Reykjavík. Aðrir aðhyllast þá skoðun að Stapadraugurinn sé Kristján Sveinsson frá Keflavík, Stjáni blái. Margir telja sig hafa séð mann á ferðinni á Stapanum með höfuðið undir hendinni. Jón Dan rithöfundur frá Brunnastöðum hefur greint frá reimleikum á þessum slóðum í bókinni Atburðirnir á Stapa. Við hæfi er að enda þessa samantekt á lýsingu Jóns Dan á Stapadraugnum úr áðurnefndri bók.
“Ég sagði Stapadraugur, en á Stapa gekk hann alltaf undir nafninu Stjúpi. Upphaflega var hann kallaður Strjúpi, en þar eð nokkur óhugnaður var í nafninu hafði það fljótlega breytzt í þetta vingjarnlega heiti, enda var iðulega talað um hann eins og einn af fjöldskyldunni, dálítið erfiðan og mislyndan frænda en sauðmeinlausan að flestu leyti. Eini ljóðurinn á ráði hans voru hrekkirnir, en þeim ókosti varð ekki komizt hjá því það voru þeir sem héldu lífinu í draugsa. Oftar en einu sinni hafði Stapajón ávítað Stjúpa harðlega fyrir hrekkjabrögðin, og svo mikill drengur var draugsi að alltaf tók hann tillit til umvandana vinar síns og sat á strák sínum æði lengi á eftir. En enginn fær umbreytt þeirri nátturu sem guð gaf honum eins og Stapajón sagði, og alltaf sótti í sama horfið. Einu sinni keyrði úr hófi. Á vikutíma hafði hann hrætt vitglóruna úr þremur bílstjórum og sett bíla þeirra út af, ært tvær kerlingar sem voru farþegar í einum bílnum og sent tvo gangandi ferðalanga á hálshnútunum niður Skarð til Stapajóns. Alltaf með þeirri brellu að taka ofan hausinn, ýmist á veginum eða upp í bílnum þegar bílstjórinn hafði aumkað sig yfir lúinn ferðalang og tekið hann upp í. Stapajón sagði þetta atferli ekki annað en kurteisisvenju hjá Stjúpa, að sínu leyti eins og þegar heldri menn taka ofan hattinn í kveðjuskyni, en fólk virtist ekki kunna að meta hana. Það var Stjúpa sjálfum vel ljóst og var hrekkjabragðið honum þeim mun kærara.
Jæja. Eftir slysavikuna kröfðust blöðin í Reykjavík þess hástöfum að Stapajón, granni og náinn vinur Stjúpa, fengi hann ofan af þessum brellum. Og karl lét til leiðast og lýsti yfir því í Kvöldblaðinu að laugardaginn næsta mundi hann ganga á fund Stjúpa og atyrða hann duglega. Hvað karl gerði, enda brá svo við að í röskan hálfan mánuð á eftir varð enginn vegfarandi fyrir ónæði af hans völdum. Úr því fór þó að sækja í sama horfið, og þótti mönnum nóg um, þó ekki yrðu hrekkirnir eins tíðir og í slysavikunni miklu. Var þá mælzt til þess á opinberum vettvangi, nú í Dagmálablaðinu, að Stapajóni yrði falið að koma draugsa fyrir kattarnef í eitt skipti fyrir öll.
Við þessari málaleitan brást Stapajón hinn vesti. Koma fyrir kattarnef. Akkúrat. Jahá. Drepa nágranna sinn og vin með köldu blóði, draug sem aldrei hafði gert meira á hlut hans en það eitt að glettast við hann. Sálga kátum sveitunga sem var á sama andlega þroskastigi og tíu ára barn og hafði þar af leiðandi gaman af hrekkjum og ærslum. Ætti þá ekki að taka af lífi þá unglinga sem léku sér að því að brjóta glugga hjá nábúum, sliga allar girðingar og ríða húsum að nóttu til í því skyni að hræða fólk? Aldrei hafði Stjúpi styggt fé hans eins og margur bílstjórinn gerði, aldrei vaðið yfir túnið og bælt slægjuna, aldrei hrópað að honum kersknisyrðum og kallað hann Draugajón eða Vitlausajón eða Galdrajón eins og unglingarnir í Kyljuvík, aldrei stolizt undir kýr hans eða dregið sér lamb frá honum þó oft væri hart í búi hjá honum og hann hefði ekki málungi matar svo mánuðum skipti. Hafði Stjúpi nokkurn tíma ráðizt á mann og gert honum mein svo sannað yrði, nokkurn tíma drepið mann? Af hverju ætti þá að drepa hann? Af því fólk var hrætt þegar hann var upp á það allra kurteisasta og tók ofan fyrir því? Nei, nær væri að fræða fólk um lifnaðarhætti og venjur þessa skemmtilega huldufólks sem menningin var alveg að tortíma. Heldur en drepa það ætti að halda hlífiskildi yfir því og sjá til þess að það yki kyn sitt.
Yki kyn sitt. Þetta var nú sprengja í meira lagi. Bréfin streymdu jafnt til Kvöldblaðsins og Dagmálablaðsins, þar sem því var hástöfum mótmælt að draugar fengju að auka kyn sitt. Þeim ætti hreinlega að útrýma, hverjum og einum einasta, sögðu sumir. Þá gróf Stapajón orð upp úr útlendri bók og hrópaði hástöfum (það er að segja með stóru letri í Kvöldblaðinu)
Genosíd! Genosíd!
Það þýðir víst þjóðarmorð, er það ekki? Hann spurði hvort nokkrum þætti sómi að því hvernig farið hefði verið með Indíána í Norður- og Suður-Ameríku eða Íslendinga í Grænlandi? Sér þætti ótrúlegt að nokkur maður heimtaði í alvöru að heilum þjóðflokki á Íslandi yrði útrýmt. Ekki vissi hann betur en Stjúpi og hans ættfeður hefðu alla tíð búið á Stapanum, og umferð manna og farartækja væri því hreinn átroðningur um óðal hans. Í sameiningu ættu hann og draugsi þessi lönd, og þyrfti hvorugur hinn að styggja væri yfirgangsstefnu ekki beitt.
Aðgætinn bréfritari spurði þá hvort nokkur vissi til að draugar lifðu fjölskyldulífi? Hvort nokkur hætta væri á því að draugar ykju kyn sitt? Væru þeir ekki allir náttúrulausir, jafnt uppvakningar og afturgöngur, og yrðu þetta 100 til 120 ára gamlir og þar með búið? Stapajón fræddi spyrjanda á því að sagnir væru um barneignir drauga, og meðan mannleg náttúra væri söm við sig, og draugar hefðu mannlega náttúru eins og aðrir, væri slíkt hvergi nærri fráleitt. Og nefndi þá um leið, að þótt granni hans Stjúpi væri mikill einstaklingshyggjumaður eins og flestir draugar, hefði hann haft við orð að sér leiddist einlífið og hygði á ferð til Vestfjarða þar sem dáindisfríð skotta biði sín. Og hlakka ég til og vona sagði Stapajón, að Stjúpi og fjölskylda hans komi suður aftur og búi hér svo ég fái að sjá börn þeirra vaxa úr grasi og leika sér frjáls og glöð á slóðum forfeðra sinna.,,

-Vogar – þjóðsaga
Á Suðurnesjum er bæjaþorp nokkurt sem heitir í Vogum, en raunar heitir þorpið Kvíguvogar og svo er það nefnt í Landnámu. Snemma bjó bóndi einn í Vogum er sótti mjög sjó. Einhvern dag reri bóndi sem oftar og er ekki í það sinn neitt sérlegt að segja af fiskifangi hans. En frá því er sagt að hann kom í drátt þungan og er hann hafði dregið hann undir borð, sá hann þar mannslíki og innbyrti það. Það fann bóndi að maður þessi var með lífi og spurði hann, hvernig á honum stæði en hann kvaðst vera marbendill af sjávarbotni. Bóndi spurði hvað hann hefði verið að gjöra þegar hann hefði ágoggazt.
Marbendill svaraði: „Ég var að laga andskjólin fyrir eldhússtrompnum hennar móður minnar. En hleyptu mér nú niður aftur.“
Bóndi kvað þess engan kost að sinni,“ og skaltu með mér vera.“ Ekki töluðust þeir fleira við, enda varðist marbendill viðtals. Þegar bónda þótti tími til fór hann í land og hafði marbendil með sér og segir ekki af ferðum þeirra fyrr en bóndi hafði búið um skip sitt að hundur hans kom í móti honum og flaðraði upp á hann. Bóndi brást illa við því og sló hundinn.
Þá hló marbendill hið fyrsta sinn.
Hélt bóndi þá áfram lengra og upp á túnið og rasaði þar um þúfu eina og blótaði henni.
Þá hló marbendill í annað sinn.
Bóndi hélt svo heim að bænum. Kom þá kona hans út í móti honum og fagnaði bónda blíðlega og tók bóndinn vel blíðskap hennar.
Þá hló marbendill hið þriðja sinn.
Bóndi sagði þá við marbendil: „Nú hefur þú helgið þrisvar sinnum og er mér forvitni á að vita af hverju þú hlóst.“
„Ekki gjöri ég þess nokkurn kost,“ sagði marbendill, „nema þú lofir að flytja mig aftur á sama mið er þú dróst mig á.“ Bóndi hét honum því.
Marbendill sagði: „Þá hló ég fyrst er þú slóst hund þinn er kom og fagnaði þér af einlægni. En þá hló ég hið annað sinn er þú rasaðir um þúfuna og bölvaðir henni, því þúfa sú er féþúfa full af gullpeningum. Og enn hló ég hið þriðja sinn er þú tókst blíðlega fagurgala konu þinnar, því hún er þér fláráð og ótrú. Muntu nú efna öll orð þín við mig og flytja mig á mið það er þú dróst mig á.“ Bóndi mælti: „Tvo af þeim hlutum er þú sagðir mér má ég að vísu ekki reyna að sinni, hvort sannir eru, tryggð hundsins og trúleik konu minnar. En gjöra skal ég raun á sannsögli þinni, hvort fé er fólgið í þúfunni og ef svo reynist, er meiri von að hitt sé satt hvort tveggja, enda mun ég þá efna loforð mitt.“
Bóndi fór síðan til og gróf upp þúfuna og fann þar fé mikið eins og marbendill hafði sagt. Að því búnu setti hann skip til sjávar og flutti marbendil á sama mið sem hann hafði dregið hann á.
En áður en bóndi léti hann fyrir borð síga, mælti marbendill: „Vel hefur þú nú gjört, bóndi, er þú skilar mér móður minni heim aftur og skal ég að vísu endurgjalda það ef þú kannt til að gæta og nota þér. Vertu nú heill og sæll, bóndi.“
Síðan lét bóndi hann niður síga og er marbendill nú úr sögunni.
Það bar til litlu eftir þetta að bónda var sagt að sjö kýr, sægráar að lit, væru komnar þar í túnjaðarinn við fjöruna. Bóndi brá við skjótt og reif spýtukorn í hönd sér gekk svo þangað sem kýrnar voru, en þær rásuðu mjög og voru óværar. Eftir því tók hann að þær höfðu allar blöðru fyrir grönum. Það þóttist hann og skilja að hann mundi af kúnum missa, nema hann fengi sprengt blöðrur þessar. Slær hann þá með kefli því er hann hafði í hendi sér, framan á granirnar á einni kúnni og gat náð henni síðan. En hinna missti hann og stukku þær þegar í sjóinn. Þóttist hann þá skilja að kýr þessar hefði marbendill sent sér í þakkar skyni fyrir lausn sína. þessi kýr hefur verið hinn mesti dánumanns gripur sem á Ísland hefur komið. Æxlaðist af henni mikið kúakyn sem víða hefur dreifzt um land og er allt grátt að lit og kallað sækúakyn.
En það er frá bónda að segja að hann varð mesti auðnumaður alla ævi. Hann lengdi og nafn byggðar sinnar og kallaði af kúm þessum, er á land hans gengu, Kvíguvoga, er áður voru kallaðir Vogar.

-Landnámsmenn
Vogar á Vatnsleysuströnd er kauptún, sem varð til við breytingar á útgerðarháttum, þegar vélbátaútgerð gekk í garð með stærri skipum, sem kröfðust góðs lægis eins og er við Voga. Um aldamótin voru tæplega 800 íbúar í Vogum, fleiri en í Keflavík og Grindavík samanlagt. Fyrrum hétu Vogar Kvíguvogar en það nafn er nú með öllu aflagt. Í Landnámabók segir frá Eyvindi, frænda Steinunnar gömlu, en honum gaf hún land ,,milli Kvíguvogabjargs (Vogastapa) og Hvassahrauns” og bjó hann í Kvíguvogum en Hrolleifur Einarsson í Heiðarbæ í Þingvallasveit skoraði á hann til landa og fór svo að þeir höfðu landaskipti.

-Íbúafjöldi
1. desember 2004 voru íbúar 939. Þar af voru karlar 486 og konur 453.

-Hvað gerir fólkið þar til að framfleyta sér?
Aðallega þjónusta, opinber störf, verslun og sjósókn. Margir stunda vinnu utan þorpsins, s.s. á höfðuborgarsvæðinu, enda er ekki nema u.þ.b. 15 mín. keyrsla til Hafnarfjarðar og 10 mín til Keflavíkur.

Sandskeið

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1966 er m.a. fjallað um hellarásir á Mið-Bolöldu ofan Sandskeiðs:
bolalda„Sunnan við þjóðveginn á Mið-Bolaöldunni er hellir, sem ég veit ekki til, að hafi verið rannsakaður. Við, símalagningar-menn 1909, urðum til þess að sprengja göt tvö niður í gegnum þakhvelfingu hellisins og reistum síðan í þeim tvo símastaura með 50 metra millibili, en op hans, sem er mjög lítið og sést varla, er um 25 metra fyrir vestan vestara staurgatið. Hann náði fyrir víst um 30 m. austur fyrir eystra staurgatið. Þar beygði hann eitthvað til suðurs. Ljóslausir vorum við og gátum því ekki athugað hann lengra heldur en skíman frá stauragötunum í loftinu leyfði. Hann var nálægt mannhæðar hár, hvelfingarmyndaður til beggja hliða og virtist vera þannig alla leið þessa rúma 100 metra.
Þetta var nú innskot, sett hér til þess, að upplýsingar um helli þennan verði til handa einhverjum þeim, er sjá kynnu og vildu athuga hellinn nánar og vera útbúnir til þess.“
bololduhellir-1Einn FERLIRsfélaga hafði leitað nokkrum sinnum að framangreindum stauraopum eftir að honum hafði tekist að rekja leifar línunnar meðfram gamla þjóðveginum upp frá Sandskeiði um Mið-Bolöldu með Fossvallaklifi.
„Er ekki búinn að gefast upp að finna hellinn. Held að staurarnir sem ég fann í dag séu gamla línan það passar við Herforingjakortið og ef hann er að segja rétt um að hellirinn er fyrir sunnan veginn þarf ég að leita neðar því línan krossar veginn rétt fyrir neðan staurana og fer suður fyrir hann. Held ég sé líka búin að sjá á landslaginu hvar þessar öldur eru og þá ætti þetta að passa.“
Úr sömu lýsingu og sagt er frá hellinum segir:
Rétt er að minnast á það hér, að þar, sem lagði vegurinn lá, á sínum tíma, upp af Fossvöllunum, upp í Fossvallaölduna — dálítið sunnar (til hægri á austurleið)— stóð nokkuð stór steinn á klöppum,og var á hann höggvið (klappað) ártal það, þegar lagði þjóðvegurinn var kominn það langt frá Reykjavík.
Ekki man ég nú átalið, en minnir það vera 1884 eða 1886.
Heryði ég sagt, að  norskur verkstjóri, er stjórnað hafði vegarlagningunni þangað, hefði klappað ártalið á steininn, er hann hætti þarna það haust.
bololduhellir-2„Værir þú til í að tékka hvort fjallað er um þennan helli í stóru hellabókinn? Nyrðri endinn er það stór og rétt við þjóðveginn að hann hlýtir að heita eitthvað. Við opið á þakinu er lítil varða (og staur í) örugglega til að vara við þar sem gatið er ekki nema rúml meter í þvermál og svo eru e.t. v. þrír til fjórir metrar niður í botn hellisins. Það var líka vitað um þann syðri þegar síminn var lagður 1909 þannig mér finnst skrítið ef ekki er fjallað um hellana í þessari hraunrás. Samkvæmt lýsingu mundi ég halda að ég hefði fundið vestara stauragatið en það austara sennilega skemmt vegna vegarins upp í námurnar. Þætti ágætt ef þú mundir kíja á þetta með mér við tækifæri og þannig gætum við áttað okkur á þessu.“
Í stórvirkinu Íslenskir helllar segir Björn Hróarsson svo frá hellinum þegar hann fjallar um Leitarhraun (Skari (LET-07)): „Sunnan vegarins nær miðja vegu milli Sandskeiðs og Litlu-kaffistofunnar er yfir 300 metra langur hellir. Hann er mjög bololduhellir-3hruninn um miðbikið og efsti hluti hans er fylltur jarðvegi. Efsti og neðsti hluti hellsisins standa vel uppi. Í neðri hlutanum má skríða inn um þröngan munna nálægt gamla bílveginum. Fyrstu 40 metrarnir eru ógreiðfærir. Um 50 metrum innan við munnann er um þriggja metra djúpt niðurfall sem er um 2 metrar í þvermál. Staur er á brún niðurfallsins. Hellisgöngin neðan við niðurfallið eru lítið hrunin allt í botn en þangað er um 40 metrar og lofthæðin á þeim kafla er tveir til þrír metrar. Efsti hluti hellisins stefnir til suðvesturs frá munna og er mjög lítið hruninn. Framan til er hellirinn hálffullur af aur sem eykst eftir því sem innar dregur. Um 50 metrum innan við munnan er hann orðið svo lágt undir loft að ekki verður lengra skriðið. Göngin ná þó sýnilega miklu lengra og fyrir skófluglaða bíður því þarna pennandi verkefni. Hellisgólfið er hvergi sjáanlegt en breidd þess er vart undir tíu metrum. Faðir Inga Óskarssonar hellismanns sýndi Inga þennan helli fyrir margt löngu og nefndi Ingi hellinn Skara eftir karli föður sínum.“
Ef finnandinn hefði áttað sig á að „niðurföllin“ inni í hellinum væru eftir símastaura hefði hann án efa skírt hann „Staurahelli“. En honum til vorkunnar má geta þess að stauragötin sjást ekki ofanjarðar, þó svo sjá megi púkkið með staurunum, sem nú eru horfnir á þessum tilgreindu stöðum, en búta þeirra má sjá bæði ofar og neðar í stauralínunni.

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað 30. okt. 1966, bls. 932-933.
-Íslenskir hellar, bls. 279.

Bolöldur

Bolöldur – kort. Lega gamla vegarins að Svínahrauni um Bolöldur.

Krýsuvík

12. Krýsuvíkurkirkja – Seltún

-Trúmál
Langflestir Íslendinga Lúthers-kaþólskir. Stjórnarskráin gerir ráð fyrir trúfrelsi og umburðarlyndi í garð trúarskoðana fólks.

-Sóknarkirkjur
Flestar kirkjur á Íslandi voru sóknarkirkjur þótt sumar virðist afskekktar í dag. Áður var þéttbýlið meira. Hér í Krýsuvík voru t.d., auk Krýsuvíkurbæjarins, a.m.k. 12 hjáleigur og má sjá tóftir sumra þeirra enn þann dag í dag. Talið er að kirkja hafi verið í Krýsuvík frá því um 1200. Sumir segja að elsta kirkjan hafi verið í Húshólma, en síðan verið færð hingað upp eftir. Víst er að kirkja var hér um 1662.

-Sveitakirkjur
Sveitarkirkjur eru nú víða hér á landi. Þær eru margar hverjar gamlar, en yfirleitt haldið vel við.

-Krýsuvíkurskóli, hverjir eru þar, hver rekur hann, hverjir kosta hann.
-Krýsuvíkurskóli – Krýsuvíkursamtökin.
Meðferð. Aðalmarkmið samtakanna er meðferð við sjúkdómnum alkóhólisma, en vistmenn taka sjálfir ábyrgð á bata sínum og velferð með stuðningi frá ráðgjöfum vistheimilisins.
Meðferðarmarkmiðin eru:
Að hjálpa vistmönnum til að sjá og viðurkenna vanmátt sinn gegn áfengi og eiturlyfjum og að þeir hafa ekki haft stjórn á eigin lífi.
Að hjálpa vistmönnum til að sjá að þörf til að breyta til og að þeir hafa möguleika til að breyta lífi sínu með hjálp tólf spora meðferðarinnar.
Að hjálpa vistmönnum til að gera átak hér og nú, taka ákvörðun um að taka þátt í þessari breytingu, breyta lífsstíl sínum og æfa þessa nýju háttu hér í Krýsuvík.

Aðalmarkmiðið er lífsleikni, að gera vistmennina tilbúna til að taka þátt í samfélaginu á nýjan leik.

-Grænavatn – aldur, tilurð og einkenni. Augun…. (sprengigígar líkt og Arnarvatn á Sveifluhálsi)
Grænavatn hefur fengið nafn af hinum sérkennilega græna lit vatnsins, er stafar af brennisteinssamböndum. Þetta litla vatn, nokkur hundruð metra breitt, en 45 metra djúpt, er myndað eftir ísöld, við eldgos, sem orðið hefur með sérkennilegum hætti, sem hér er ekki tími til að rekja. Meðal annars hafa í því gosi, sem myndaði vatnið, þeyst upp hraunkúlur, sem hafa gabbrókjarna, en bergtegundin gabbró hefur ekki fundist annars staðar á Suðvesturlandi. Þetta litla vatn er óefað meðal merkustu náttúrurfyrirbrigða í sinni röð, og þar sem það liggur í sérkennilegu umhverfi, við þjóðveg, og ekki nema klukkutímakeyrslu frá höfuðstaðnum, kemur vart sá útlendur jarðfræðingur til landsins, að ekki sé keyrt með hann um um Krísuvíkurveg og honum sýnt Grænavatn, og fjöldi annarra útlendinga fer um þann veg. En nú er á einu ári búið að fordjarfa þetta fallega og merkilega náttúrufyrirbrigði, að hér eftir mun maður blygðast sín fyrir að sýna það nokkrum útlendingi. Svo sem kunnugt er hefur Hafnarfjarðarbær hafið mikla nýsköpun á Krísuvíkursvæðinu og sé fjarri mér að lasta það. Þarna á að verða mikil gróðurhúsarækt og stórt kúabú. Búið er að reisa tvo votheysturna og verið er að byggja stórt fjós bak við þá. Gott og blessað. En þessum turnum og fjósi hefur verið valinn undarlegur staður, frammi á norðurbakka Grænavatns. Nú er búið að fara um stórt svæði með jarðýtum alveg fram á bakka vatnsins. Með þessu umróti og hinum háu votheysturnum er búið að gjörbreyta svip vatnsins og svipta svæðið þeirri sérkennilegu auðnarstemningu, er þar ríkti áður. Ég fæ ekki annað séð, en að í því landrými sem þarna er, hefði, með góðum vilja, verið hægt að koma þaki yfir beljurnar annars staðar en á bakka Grænavatns. Og jafnvel þó að þessi staður hafi, af mér ókunnum ástæðum, verið valinn, var vart nauðsynlegt þetta jarðýtuumrót alveg fram á vatnsbakka. Og ekki nóg með það.Svo virðist, sem nú eigi að fara að nota Grænavatn sem eins konar ruslatunnu. Það er búið að hella hlassi af glerbrotum og drasli niður yfir suðurbakka vatnsins svo að við blasir vegfarendum langt að“ – (Náttúrufræðingurinn 21. árg. bls. 5-7).

Grænavatn skammt frá Krýsuvík er ekki einvörðungu merkilegt fyrir sinn græna lit sem líklega orsakast af dýpt þess heldur einnig af því að margar sögur gengu af undarlegum skepnum sem komu stundum upp úr því. Einn maður fullyrti að hann hefði séð eina slíka skepnu, þó eigi mjög stóra, líkasta marsvíni. Hún hvarf fljótt.
Kleifarvatn gengu þó enn þá fleiri sögur um. 1755 sást undarleg skepna líkasta skötu að lit og lögun koma upp úr vatninu, yfirmáta stóra eins og öllum bar saman um að allar þær skepnur væru er menn þóttust sjá í þessu vatni; væru þær bæði stærri og lengur uppi en í Grænavatni.

-Krýsuvíkurbúið Fyrirhugaða mjólkurbú fyrir Hafnfirðinga – byggt af bænum um 1953 – varð aldrei að veruleika. Breytt löggjöf v/gerilsneyðingu.

-Sveinssafn
Sýningaraðstaðan, sem safnið ræður yfir er í Sveinshúsi í Krýsuvík, þar sem aðal sýningargripurinn er húsið sjálft, sem tekist hefur að varðveita í þeirri mynd, sem listamaðurinn skildi við það. Til að byrja með verður húsið opið fyrsta sunnudag í mánuði yfir sumarmánuðina og þegar messur eru í Krýsuvíkurkirkju í maí og október á hverju ári. Í maí er altaristaflan, sem Sveinn málaði fyrir kirkjuna, hengd upp, en í október er hún tekin niður til vetursetu í Þjóðkirkjunni í Hafnarfirði. Einnig er hægt að fá leiðsögn um húsið á öðrum tímum eftir nánara samkomulagi.

-Stórihver – Austurengjahver – vatnshver

-Seltún – jarðhiti – brennisteinsnám
Jarðhiti er mjög algengur á íslandi. Jarðhitasvæðum má skipta í lág- og háhitasvæði. Á þeim fyrri eru volgar eða heitar uppsprettur sem nefnast laugar eða hverir sem sumir eru goshverir.
Einkenni háhitasvæða eru gufuaugu, leir- og brennisteinshverir. Á Reykjanesskaganum er mest af jarðhitanum háhiti. Í Krýsuvík eru bæði leirhverir og gufuaugu. Í gufuaugunum sést gulur brennisteinn.
Vatnið í hverunum er oftast upprunalega úrkoma sem hefur falið sem regn eða snjór. Það hefur síðan sigið niður í heit berglög á nokkurra kílómetra dýpi og hitnað þar upp í 200 – 300 gráður á Celsíus. Þegar vatn hitnar stígur það aftur upp á yfirborð jarðar, ýmist sem vatn eða gufa.
Á flestum háhitasvæðunum á utanverðum Reykjanesskaga er það hins vegar aðallega sjór sem sígur inn í berglögin og hitnar þar.
Jarðhiti er ein aðalorkulind Íslands Nær 90% húsa eru beint eða óbeint hituð með hveravatni. Háhitasvæðin eru einnig noðuð til raforkuframleiðslu.
Önnur helsta orkulind Íslendinga er vatnsorka.

-Brennisteinsnámur
Þeir félagar Eggert og Bjarni voru á ferð um Krýsuvík árið 1756 og var þá unnin brennisteinn í Krýsuvík. Bændur höfðu í gegnum aldirnar grafið upp brennistein og selt ferðamönnum milliliðalaust. Árið 1753 var komið upp húsi í Krýsuvík til að vinna brennistein að undirlagi Skúla Magnússonar landfógeta og Bjarna Pálssonar landlæknis. Nokkur ágóði varð af brennisteinsvinnslunni. Árið 1858 keypti Bretinn Joseph William Bushby brennisteinsnámurnar í Krýsuvík. Kostnaðurinn varð þó of mikill og var bara unnin brennisteinn í tvö sumur eftir það. Eftir það tóku ýmsir námurnar á leigu en síðastur þeirra var Bretinn T. G. Paterson og bróðir hans W. G. S. Paterson sem tóku námurnar á leigu árið 1876. Þeir stofnuðu Brennisteinsfélag Krýsuvíkur en á þessum tíma var orðið lítið af brennisteini ofanjarðar þar sem auðvelt var að ná í hann. Bora þurfti því eftir brennisteininum. Árið 1880 er talið að allri námuvinnslu hafi verið lokið og sama ár var uppboð á ýmsum eigum félagsins. Vinnsla brennisteins í Krýsuvík stóð því yfir í hartnær tvær aldir. (Sveinn Þórðarson, 1998)

Nýting jarðhita í Krýsuvík
Árið 1941 fékk Hafnarfjarðarbær afsal fyrir jörðinni Krýsuvík ásamt hitaréttindum. Sama ár voru boraðar þrjár tilraunaholur við sunnanvert Kleifarvatn. Ætlunin var að komast að því hvort þar mætti fá gufu til að framleiða rafmagn fyrir Hafnarfjarðarbæ. Það varð þó ekki raunin því ekki fékkst nægt vatn eða gufa úr holunum. Hafnfirðingar gáfust þó ekki upp og árin 1945 og 1946 var ráðist í nýjar boranir. Tilgangurinn var sem fyrr að fá gufu til að framleiða rafmagn en einnig að virkja jarðhitann til upphitunar gróður- og íbúðarhúsa á jörðinni. Í þetta skiptið gekk aðeins betur og fékkst meiri gufa en í borununum árið 1941. Gufan var nýtt til upphitunar í Krýsuvík en ekki var ráðist í gerð jarðgufustöðvar eins og staðið hafði til og streymdi því gufan út í loftið, engum til gagns. Enn sem komið er hefur ekki orðið neitt úr framkvæmdum um nýtingu jarðhitans í Krýsuvík til rafmagnsframleiðslu og upphitunar en það er þó ekki ólíklegt að jarðhitinn á svæðinu verði nýttur í framtíðinni til upphitunar á höfuðborgarsvæðinu eða iðnaðarframleiðslu. Orkustofnun hefur einnig látið bora rannsóknarholur og gert víðtækar rannsóknir á svæðinu í gegnum tíðina (Sveinn Þórðarson, 1998).

-Jarðhiti er eftir bókstaflegri merkingu orðsins sá hiti í jörðinni sem er umfram þann hita er ríkir við yfirborð jarðar.

-Menn hafa lengi vitað að hiti fer vaxandi eftir því sem dýpra kemur undir yfirborðið. Fyrirbæri eins og eldgos og heitar lindir hafa alla tíð verið óræk sönnun fyrir þessu.

-Með aukinni nýtingu jarðhitans á tuttugustu öldinni hefur merking orðsins þrengst nokkuð og er það nú fyrst og fremst notað um það fyrirbæri er heitt vatn og gufa kemur upp úr jörðinni á svokölluðum jarðhitasvæðum.

-Í ritmálsskrá Orðabókar Háskólans eru fjölmörg dæmi um notkun orðsins á síðastliðnum tvö hundruð árum og er elsta dæmið frá lokum 18. aldar.

-Forsendur þess að jarðhiti í þessum þrengri skilningi verði til eru að jarðskorpan sé nægilega heit og í henni séu nægar sprungur og vatnsgeng jarðlög til að vatn geti runnið þar um og flutt með sér hitaorku eða varma neðan úr dýpri og heitari jarðlögum til yfirborðs. Þessar aðstæður eru fyrir hendi í eldfjallalöndum eins og á Íslandi þar sem jarðskorpuflekar snertast og myndast, en síður annars staðar.

-Jarðskorpan á Íslandi er tiltölulega heit vegna þess að neðri hluti hennar er að talsverðu leyti myndaður úr kvikuinnskotum sem ekki hafa náð til yfirborðs heldur storknað á leiðinni upp. Heitust er hún undir gos- og gliðnunarbeltunum en kólnar þegar fjær dregur og jarðskorpan verður eldri.

-Talið er að undir flestum háhitasvæðum landsins, sem öll eru í gosbeltinu, séu kvikuinnskot í tengslum við eldvirkni og þau séu aðalvarmagjafi þessara jarðhitasvæða. Lághitasvæðin sem svo eru kölluð eru þar sem jarðskorpan er kaldari, en þó nægilega heit til að hita vatn upp í 50 til 150 °C…

Þegar greina þarf á milli fyrirbærisins jarðhita og þeirrar orku sem berst með vatni og gufu upp til yfirborðs er orðið jarðvarmi notað um orkuna. Þannig er talað um jarðvarmavirkjanir (eða jarðgufuvirkjanir) fremur en um jarðhitavirkjanir. Er að þessu nokkur eftirsjá því að (jarð)hitaveitur voru lengi vel séríslenskt fyrirbæri og orðið hitaveita á góðri leið með að verða að alþjóðlegu orði um þess konar fyrirbæri, svipað og geysir hefur orðið í fjölmörgum tungumálum.

-Jarðhitasvæði eru mjög mismunandi að útliti frá náttúrunnar hendi. Volgrur, laugar, vatnshverir, gufuhverir, leirhverir, útfellingar af kalki, kísli og brennisteini og marglitt umhverfi, einkum háhitasvæða, er meðal þess sem einkennir jarðhitann sem náttúrufyrirbæri. Þetta eru hin ytri ummerki orkuflutninga sem eiga sér stað í jarðskorpunni.

-Mörg jarðhitasvæði eru hreinustu gersemar frá náttúrunnar hendi. Til að mynda má nefna Torfajökulssvæðið, Kverkfjallasvæðið, Námafjall og Þeystareyki sem dæmi um einkar litskrúðug háhitasvæði. Geysissvæðið í Haukadal er tvímælalaust það jarðhitasvæði sem þekktast er erlendis og hefur orðið erlendum sem innlendum vísindamönnum áhugavert rannsóknarefni. Hefur nafnið Geysir yfirfærst á önnur tungumál sem almennt nafn á goshverum og á ensku hefur það afbakast í geyser. Þannig eru til dæmis til Geysissvæði í Kaliforníu og á Kamtsjatkaskaganum austast í Síberíu. Vel þekkt jarðhitasvæði erlendis eru til dæmis í Yellowstone þjóðgarðinum í Wyoming í Bandaríkjunum, sem er stærsta goshverasvæði heims, Pamukkale í Tyrklandi, þar sem einstæðir kalkútfellingastallar hafa myndast, og Taupo gosbeltið á Nýja Sjálandi, þar sem til skamms tíma var einn öflugasti goshver í heimi.

-Sveifluháls

Sveifluháls

Sveifluháls.

Móbergsfjöll myndast við gos undir jökli, í sjó eða vatni. Meðan vatnsþrýstingur er nægur yfir eldstöðinni hleðst upp bólstraberg. Ljúki gosi á þessu stigi verður til bólstrabergshryggur, dæmi: Sigalda. Haldi gosið áfram, minnkar vatnsdýpið vegna upphleðslu gosefna undir yfirborði vatnsins/jökulsins og tekur þá fyrir bólstrabergsmyndun enda er vatnsþrýstingur þá ekki nægur til að halda vatnsgufu og gosgufum niðri. Gosvirkni breytist þá í þeytigos. Ofan á bólstrabergið leggst því gjóska sem er ýmist úr vikri, ösku eða brotabergi. Ef gosið hættir á þessu stigi verða til móbergshryggir, dæmi: Sveifluháls, eða keilulaga móbergsfjöll, dæmi: Keilir (ef um gos á kringlóttu goseopi eða stuttri sprungu er að ræða).Haldi gosið enn áfram, hlaðast gígrimar upp úr vatnsborðinu og vatn nær þá ekki lengur að komast í snertingu við bergkvikuna og snöggkæla hana og valda þeytigosi. Tekur þá að mestu fyrir myndun lausra gosefna og hraun fer að renna úr gígnum. Séu gígrimarnir umflotnir vatni, fyllir hraunið undir sig upp að vatnsborði með skálögðuð bólstra- og gjalllagi sem hraunhella leggst síðan ofan á. Móbergsfjöll, sem náð hafa þessu stigi nefnast móbergsstapar, dæmi: Eiríksjökull og Herðubreið.

-Fúlipyttur (leirhver)
Dæmigerður leirhver af stærri gerðinni. Kemur við sögu í meintu morðmáli hér á landi, auk þess sem hann er notaður í einni af skáldsögum Hrafns Jökulssonar.

Bleikhóll

Bleikhóll – málverk Jóhannesar Kjarvals.

Staðarborg
15. Straumsvík – Kálfatjörn
-Straumsvík – hver á álverið, hver margir vinna þar, hvað er framleitt þar, hve mikið, hvert selt og hvers vegna framleitt hér á landi
Íslenska álfélagið reisti álverið í Straumsvík um 1965. Síðan hefur það verið stækkað. Hver kerskálanna þriggja e rum eins km langir, eða með lengstu hú
sum á Íslandi. Nú er álverið í eigu Alcoa. Um 500 starfsmenn starfa á vegum fyrirtækisins hér á landi. Framleiðslan erum 170.000 tonn af áli til útflutnings. Fyrirhugð stækkun er á álverinu hér til suðurs, yfir veginn, en honum er ætlaður staður lengra upp í hraunið.
Ævintýrið um álverið í Straumsvík hófst í háloftunum yfir Íslandi og það hefði hugsanlega ekki orðið að veruleika ef ský hefðu verið á himni. Um borð í farþegaþotu á leið til Bandaríkjanna voru tveir af ráðamönnum svissnesks álfyrirtækis. Þar sem þeir sátu í vélinni og virtu fyrir sér landið úr lofti sáu þeir Vatnajökul, stærsta jökul Evrópu. Og þá kviknaði hugmyndin. Þar sem svona mikið er af jöklum hlýtur að vera gnótt af vatnsföllum sem hægt er að virkja. Þetta var upphafið af virkjunum Þjórsár við Búrfell, virkjuninni sem enn sér álverinu fyrir raforku.
Fyrirtækið hét áður Íslenska álfélagið en ber nú nafnið Alcan á Íslandi. Fyrirtækið er stærsti einstaki orkukaupandinn hér á landi og á síðasta ári nýtti Alcan 36% af allri orkuframleiðslu landsins. Rannveig segir að álverið hefði aldrei verið reist á sínum tíma nema vegna orkunnar sem hér er nóg af. „Það er ekki nóg að orkan sé til staðar, heldur er jafnvægi og stöðugleiki orkunnar forsenda þess að hægt sé að vinna ál. Fyrstu árin lenti fyrirtækið í ýmsum vandræðum, m.a. vegna ístruflana og klakahlaups í Þjórsá auk þess sem rafmagnið virtist stundum af skornum skammti á álagstímum, t.d. þegar allir landsmenn voru að elda jólamatinn. Þetta heyrir hins vegar sögunni til og er nú komið í gott horf.“ Rannveig segir að rafmagnsleysi geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið og til útskýringar líkir hún kerunum við grautarpott á eldavél. „Ef rafmagnið fer byrjar fljótandi álið að storkna á skömmum tíma og það er mikil vinna að ná því í burtu, hreinsa kerin og koma framleiðslunni af stað aftur. Ef við hins vegar vitum af rafmagnsskorti með einhverjum fyrirvara þá er hægt að laga reksturinn smám saman að því og minnka framleiðsluna. Sú staða hefur komið upp nokkrum sinnum, t.d. árið 1998 þegar þurfti að slökkva á kerum þegar lítið vatn var í uppistöðulónum á hálendinu.“

Úr vatni í virkjanir
Rannveig Rist hefur tengst öllum grunnþáttum álframleiðslunnar. Hún vann með föður sínum, Sigurjóni Rist, við vatnamælingar og vann síðan við Búrfellsvirkjun áður en hún hóf störf í Straumsvík. Við síðustu stækkun álversins fékk fyrirtækið að gjöf frá Landsvirkjun gamlan kunningja Rannveigar úr Búrfellsvirkjun; nefnilega eitt af túrbínuhjólum virkjunarinnar. Hjólið skipar nú heiðursess á lóð álversins og er eitt af kennileitum þess. Þegar fyrirtækið var stofnað árið 1969 var framleiðslugeta þess 33.000 tonn á ári. Síðan þá hefur verksmiðjan verið stækkuð fjórum sinnum, síðast árið 1997, og framleiðslugetan nú er um 176.000 tonn á ári.
Súrál er flutt í duftformi til landsins, en hér er það blandað steinefnum og hitað upp þangað til það verður fljótandi. Þá er það unnið í ál og mótað. Ástæðan fyrir því að stóriðja er rekin hér á landi er fyrst og fremst nægileg raforka á viðráðanlegu verði.

-Straumsvík bær…
Undirbúningur að stofnun listamiðstöðvarinnar og endurbygging gömlu bæjarhúsanna í Straumi hófst árið 1988. Hér var áður rekið svínabú undir stjórn Bjarna Blomsterbergs, fyrrum eiganda Fjarðarkaupa, en Húsið er teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins fyrir Bjarna Bjarnason. Straumur var um tíma athvarf hafnfirskra kvenna í orlofi eða þangað þær til þær fluttust að Lambhaga skammt norðar.

-KaldáSumir segja að Kaldá uppi í Kaldárbotnum komi undan hrauninu við Straum, en sannara mun vera að hún kemur upp undan Hvaleyrarfjörum, skammt frá landi.

-Hraunin – Hraunabæirnir
Hraunin sunnan StraumsvíkurHraunin ná frá Straumsvík vestur að Hvassahrauni og tilheyrðu Álftaneshreppi frá fornu fari en árið 1878 urðu þau hluti Garðahrepps þegar Álftaneshreppi var skipt í Bessastaða- og Garðahrepp. Þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðaréttindi 1908 fleygaði bærinn Garðahrepp í tvennt, en Hraunin tilheyrðu áfram Garðahreppi. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær skika úr landi Straums sem var í eigu Bjarna Bjarnasonar fyrrum skólastjóra Flensborgar og Skógræktar ríkisins og 1955 var gerður makaskiptasamningur við Skógræktina um viðbótarhluta úr landi Straums. Árið 1964 höfðu Hafnarfjarðarbær og Garðahreppur makaskipti á löndum og komu Hraunajarðirnar sunnan bæjarins í hlut Hafnarfjarðar.
Hraunamenn og gamlar göturÍbúum Reykjanesskagans hefur löngum verið skipt í útnesjamenn sem bjuggu utan Kúagerðis og innnesjamenn sem bjuggu í Álftaneshreppi og innan hans. Í Hraunum bjuggu Hraunamenn sem voru jafnframt innnesjamenn.
Fornir stígar og götur vísuðu nesjamönnum og ferðalöngum veginn um Suðurnes fyrrum. Fjölförnustu göturnar voru svokallaðir Alfaravegir sem liggja út og inn Reykjanesið. Þvert á Alfaraveg eru síðan stígar eins og Rauðamelsstígur, sem liggja suður í Almenning og upp í fjöllin ýmist til Grindavíkur eða Krýsuvíkur. Innan Hraunahverfis voru einnig margir stígar og götur s.s. Sjávargata, Straumsvegur, Skógarstígur, Jónsbúðarstígur og Lónakotsgata.
Búsetu- og fornminjarEkki er vitað með vissu hvenær búskapur hófst í Hraunum. Þó er talið, útfrá fornum rústum og skipan þeirra, að búskapur hafi verið við Óttarsstaðir í kringum árið 1200.
Fáein bæjarhús frá síðustu öld standa enn í Hraunum, en mun algengara er að sjá tóftir býla, hjáleiga og gripahúsa. Helstu lögbýli í Hraunum voru (talið frá suðri til norðurs): Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot. Þessum býlum fylgdu hjáleigur og þurrabúðir s.s. Gerði, Péturskot, Litli Lambhagi, Þýskabúð, Jónsbúð, Kolbeinskot, Óttarsstaðargerði og Eyðikot. Túnskikar voru yfirleitt girtir vandlega hlöðnum tvöföldum grjótgörðum sem sjást enn, þá má víða sjá upphlaðna brunna og skjólgarða sem marka kvíaból, fjárréttir og nátthaga.
Sunnan Reykjanesbrautar í Almenningi eru selin í 3 – 4 km fjarlægð frá bæjunum. Selin voru einskonar framlenging á búskap jarðanna. Snemma á sumrin flutti vinnufólk sig upp í selin með kindur og kýr og stundaði þar búskap til haustsins. Á þessum tíma var aflað matar og afurðir unnar fyrir komandi vetur.
Við helstu götur og við sum selin eru náttúrlegir brunnar í klöppum sem geymdu rigningarvatn fyrir ferðalanga, fjársmala, matselju og þá sem leið áttu hjá. Þá má ennfremur sjá nátthaga, fjárskjól og smalaskúta við selin.
Sauðfjárbúskapur var aðalbúgreinin í Hraunum. Sauðfé var haft á útigangi í Almenningi eða á fjörubeit. Sauðir voru ekki teknir á hús og leituðu sjálfir í skjól eða skúta í illviðrum. Fjárskjól leynast víða í Hraunum. Sauðamenn eða smalar fylgdu sauðum sínum og unnu einmanalegt og erfitt starf. Lömb sem sett voru á að hausti voru höfð í lambakofum og hrútar í hrútakofum. Víða má sjá réttir s.s. Þorbjarnarstaðarétt sem var haustrétt Hraunabænda, Óttarstaðarétt og réttina við Lónakot sem tók 70-80 fjár. Þessar réttir gegndu mikilvægu hlutverki þegar sá siður að færa frá var enn tíðkaður, en hann lagðist af seint á 19. öld.
Á 18. öld var algeng búfjáreign í Hraunum 1-3 kýr og 18-20 kindur en fækkaði þegar bráðapestir eða fjárkláðar geisuðu. Um miðja 19. öld og fram á 20. öldina fjölgaði sauðfé í Hraunum og héldu bændur þá 80-100 kindur að meðaltali.
Mjólkandi kýr gátu verið tvær og kvíga til viðbótar. Oft fylgdu kýrnar með í selið eða voru hafðar nær bæjum í kúarétt á sumrin. Flestir bændur áttu tvo hesta, en kotungar engan eða í besta falli einn hest til flutninga.
Búskapur lagðist af að mestu á kreppuárunum eða um 1930. Búið var í Óttarsstöðum eystri til ársins 1952 og í þeim vestri til 1965. Síðasti ábúandi Hraunanna var Guðmundur Sigurðsson bátasmiður, sem lést árið 1986. Í dag eru aðeins sumarbústaðir í Hraunum og eru þar elst húsa Óttarsstaðir vestri og Eyðikot.
Sjósókn var Hraunamönnum nauðsyn. Heimaræði kallaðist útræði sem stundað var frá jörðum sem lágu við sjó. Uppsveitarbændur fengu oft leyfi sjávarbænda til að stunda sjósókn frá jörðum þeirra og senda vermenn á vertíð. Var það kallað að hafa inntökuskip á jörðinni og bændur sem sendu menn í ver nefndust útvegsbændur. Minjar um útræði eru víða í Hraunum; þurrabúðir, vörslugarðar og fiskreitir. Í fjörunni innan skerjagarða mótar fyrir uppsátrum, fiskbyrgjum og vörum þar sem bátar voru dregnir upp öldum saman, t.d. Péturskotsvör, Straumsvör, Þýskubúðarvarir tvær, Jónsbúðarvör, Óttarsstaðavör og Eyðiskotsvör.
Söltekja, skeljafjara og hrognkelsafjara voru hlunnindi. Skelfiskur var oft notaður til beitu, en verðmeiri voru auðfönguð hrognkelsi, sem fjaraði undan í fjörupollum.
Sérhver þúfa, gjóta, hóll og hæð hefur sitt nafn, sem gefur umhverfinu merkingu og aukið gildi. Oft reyndust hólar og hæðir vera merkileg kennileiti eða vegvísar og gerðu mönnum auðveldara að ferðast um svæði og vísa til vegar þegar kennileiti hétu einhverjum nöfnum. Mörg örnefni hafa haldist óbreytt um aldir, en sum hafa breyst eftir búsetu fólks, t.d. er ekki óalgengt að kot eða túnskiki hafi breytt um nafn eftir því hvað ábúandinn hét.
Þá eru sum örnefni sem einungis hafa haft gildi fyrir afmarkað svæði. Í því sambandi má nefna nöfn hóla og hæða umhverfis bæjarhús Óttarsstaða, sem þjónuðu þeim tilgangi að segja til um sólargang, svokölluð eyktarmörk. Það eru örnefni eins og Hádegishæð (kl. 12:00), Miðmundarhæð (um kl. 13:30), Nónhóll (kl. 15:00), Miðaftansvarða (kl. 18:00) og Náttmálahóll (kl. 21:00). Slík eyktarmörk koma einnig fyrir að einhverju leyti við Þorbjarnarstaði og hafa þá einungis gilt fyrir það svæði. Svo eru mörg örnefni sem gefa skýra mynd af því hvaðan þau eru upprunnin, eins og t.d. Smiðjubali, Fjárhlið, Markhóll og önnur í svipuðum anda.

-Óttarstaðir
Óttarsstaðir vestri og Óttarstaðir eystri. Aðrir bæir í Hraunum voru t.d. Blikalón og Glaumbær og Litli- og Stór-Lambhagi, auk Þorbjarnastaða og Gerðis.

-Lónakot
Búið þar til stríðsloka. Sjá má minjar hins gamla bæjar, garðanna sem og útihúsanna. Fallegt umhverfi, lónin og fjaran og ströndin.

-Urtartjörn – sérstakt lífríki í tjörnum þar sem mikið ferskvatn blandast við sjó
Utratjörnin á hægri hönd er sérstök fyrir það að í henni gætir sjávarfalla. Þannig flýtur ferskvatnið ofan á þyngri sjónum. Við þær aðstæður vex fjölbreyttur gróður, bæði sjávar- og ferskvatnsgróður ofar á bökkunum, en einnig gróður er þolir hvorutveggja.

-Vatnsstraumur inn á flóði, út á fjöru
Ofan við straum streymir vatn undan hrauninu. Helstu ferskvatnsbyrðir Hafnfirðinga eru annars vegar í Kaldárbotnum og hins vegar hér beint fyrir ofan í Straumsseli. Þar hefur verið borið um 50 m djúp tilraunborhola, sem lofar góðu. Þá hefur álverið sýna eigin ferskvatnsborholu í hrauninu. Við Þorbjarnarstaði er brunnur í hraunkantinum. Þangað var sótt vatn fyrrum, auk þess sem ullin og annar þvottur var þveginn þar. Munur á flóði og fjöru geta verið allt að þremur metrum.

-Hvassahraun – Hraundríli – brugghellir
Á móts við eyðibýlið í Hvassahrauni (hægra megin við Reykjanesbraut þegar ekið er í átt að höfuðborgarsvæðinu) er sléttlendi nokkurt sem kallast Strokkamelur. Þar má finna nokkur hraundríli eða hraunkatla eins og þeir eru nefndir í Náttúruminjaskrá. Katlarnir eru mjög sýnilegir frá Reykjanesbrautinni og aðeins örfáum metrum ofan við nýtt vegstæði. Merkileg náttúrufyrirbæri sem líkjast einna helst gömlum strokkum. Nokkurs konar strompar sem hafa hleypt upp lofti/gastegundum þegar hraun rann um svæðið en um leið hefur hlaðist utan á þá og þeir stækkað. Í miðju þeirra er op sem nær niður í hraunhelluna.

-Fagravík
Svæðið er í landi Vatnsleysustrandarhrepps og Hafnarfjarðar. Um er að ræða um 500 metra breitt belti ásamt ísöltum tjörnum frá botni Fögruvíkur að Straumi. Um sérstætt umhverfi er að ræða ásamt miklu og óvenju fjölskrúðugu fjörulífi og gróðri. Tjarnirnar eru mismiklar að seltu og einstæðar að lífsskilyrðum. Þarna er fagurt útivistarsvæði og er rannsóknar- og fræðslugildi þess mikið ásamt nálægðinni við þéttbýlið.
Með skráningu svæða sem náttúruminja, er bent á sérstöðu svæðis eða sérkenni. Munurinn á friðlýstum náttúruminjasvæðum og öðrum svæðum á náttúruminjaskrá er aðallega sá að verndun svæðisins er lengra á veg komin ef um friðlýst svæði er að ræða.
Það sem helst ber að hafa í huga varðandi náttúruminjar er meðal annars, samkvæmt Náttúruvernd ríkisins:
“Ef hætta er á röskun náttúruminja vegna framkvæmda eða annarra athafna er sérstaklega kveðið á um að á friðlýstum náttúrminjasvæðum þurfi leyfi Náttúruverndar ríkisins og að leita þurfi umsagnar hvað aðrar náttúruminjar varðar áður en framkvæmdaleifi er veitt.” (Náttúruminjaskrá)

-ÞráinsskjöldurÞráinsskjaldarhraun (Vatnsleysuhraun). Skjaldlögun austan Fagradalsfjalls er dyngja. Dalur milli dyngnanna. Þar eru Afstapahraun (apal), áður nefndt Arnstapahraun. Eldra Hraun undir, en þar er líka frá sögulegum tíma (landnámslagið er undir því). Það eru u.þ.b. 12 söguleg hraun á skaganum, en litlar skráðar heimildir eru til um tilurð þeirra. Ástæður eru meðal annars þær, að bækur hurfu úr Viðeyjarklaustri. Þeim var rænt og hurfu í flutningi á 17. öld (skipstapi). Þráinsskjaldarhraun runnu við hærri sjávarstöðu skömmu eftir síðasta kuldaskeið. Það sést á rúlluðu grjóti ca 5m ofar núverandi sjávarstöðu (9000 ára). Þráinsskjöldur er bunga austan Fagradalsfjalls (9000-10000 ára). Erfitt er að ákveða hvenær kuldaskeiði lauk hér, áætlað fyrir 9000-10000 árum.

-Afstapahraun – rann á 12. öld

-Kúagerði – Akurgerði
Grasblettur við tjörn við gamla veginn í suðurjarði Afstapahrauns upp af Vatnsleysuvík. Þar var kunnur áningarstaður fyrrum og kúahagi frá Vatnsleysujörðum. Reykjanesbrautin liggum um blettin þveran. Þar var samneft býli um skeið.

-Vatnsleysa
Stóra- og Minni Vatnsleysa. Bæir á Vatnsleysuströnd, stórbýli fyrrum og miklar útvegsjarðir . Standa þeir vestanvert við allstóra vík sem Vatnsleysuvík heitir, milli Keilisness að vestan og Hraunsness að austan. Á Minni-Vatnsleysu er reikið eitt stærsta svínabú landsins (Ali). Til hlunninda þessara jarða eru talin hrognkelsveiði, reki og hverahiti. Á Vatnsleysu var kirkja í kaþólskum sið, helguð öllum heilögum og átti hún 15 hundruð í heimalandi jarðarinnar. Löngum mun Vatnsleysukirkja hafa verið þjónað frá Kálfatjörn.

Við Stóru-Vatnsleysu er m.a. forn letursteinn í túninu, sennilega við hina gömlu kirkju.

Það mun hafa verið nálægt 1850, sem Jón nokkur fór að byggja sér nýjan bæ á Stóru-Vatnsleysu. Hann gróf fyrir kjallara, en þegar komið var nokkuð langt niður, fundust mannabein mörg. Gamlir menn þóttust þá hafa heyrt þess getið að fyrrum hefði bænahús verið á Stóru-Vatnsleysu og var þess því getið til að kirkjugarður eða grafreitur mundi hafa verið þar, sem nú átti að byggja bæinn. Jóni var ráðlagt að hætta við að byggja á þessum stað; því sinnti hann ekki, en hann hætti við að grafa kjallarann.
Svo var bærinn byggður og var á þeim tíma ekki annar skrautlegri hér í hreppi. Það var loft í honum öllum og undir því voru afþiljuð tvö herbergi, sitt í hvorum enda. Fólkið allt svaf uppi á loftinu. Eina nótt um vorið vaknaði allt fólkið (nema húsbóndinn) við það að hurðunum að herbergjunum niðri var skellt svo hart, að bærinn skalf allur.
Gömul kona, Ingveldur að nafni, var þar þá vinnukona og hefur hún sagt þessa sögu. Ekki kvaðst hún hafa orðið vör við annað undarlegt á meðan hún var þar, en fyrrnefnda hurðaskelli, en ýmsa fleiri kynjaviðburði heyrði fólk sagða úr þessum bæ; þar á meðal var sá, að kona af næsta bæ gekk einu sinni um albjartan dag fram hjá stofugluggunum og leit inn um þá, um leið og hún ætlaði framhjá; sá hún þá sex menn sitja þar inni við borðið, og þekkti engan þeirra.
Jón nokkur var vinnumaður á þessum bæ hjá nafna sínum þau ár, sem bærinn var byggður. Einhverju sinni þegar mikið gekk á niðri fór hann ofan í stigann um bjarta sumarnótt; en hann sneri fljótt við aftur, því hann sagði að sér hefði sýnst allur bærinn niðri, og göngin, svo langt sem hann sá, svo troðfull af fólki, er hann þekkti ekki, að hvergi var hægt að smjúga út né inn. Húsbóndinn sjálfur varð aldrei neins var, og trúði því engu af því, sem fólk hans sagði honum um þessa fyrirburði í bæ hans; taldi hann það allt hérvillu og eintómar ýkjur. En á fyrsta eða öðru ári, er hann var á bænum, veiktist hann af einhverri óþekkjanlegri veiki, sem hann þjáðist af í fimm ár eða lengur. – Þá flutti hann burt úr bænum, af því hann þóttist viss um að hann fengi ekki heilsuna aftur, ef hann væri þar, enda batnaði honum nokkrum árum eftir að hann flutti úr bænum, þó hann væri fremur veiklulegur lengst af æfinni. Guðmundur bóndi á Auðnum ólst upp á næsta bæ við Stóru-Vatnsleysu; hann var kominn yfir tvítugt, þegar Jón byggði bæ sinn.
Með Guðmundi reri vinnumaður frá bænum, að nafni Magnús, þá orðinn gamall, fámálugur og dulur. Karlinn vildi lítið um þessa atburði tala, en sagði honum þó, að eina nótt sem hann vaknaði í rúminu, tók hann hendinni uppfyrir sig; þreifaði hann þá á alsberum, ísköldum mannsskrokk, sem lá fyrir ofan hann í rúminu. Ekkert gaf karl sig að þessum lagsmanni sínum, en fór að sofa aftur. Þegar hann vaknaði um morguninn til að klæðast var þar enginn.
„Varð þér ekki bilt við?“ spurði Guðmundur. „Ekki svo mjög,“ svaraði hann.
„Maður er orðinn þessu svo vanur,“ bætti hann við. Guðmundur sagði að bær Jóns hafi staðið í eyði, mannlaus, eftir að Jón flutti úr honum, að minnsta kosti eitt ár. Sú saga gekk, að ferðamaður, einn eða fleiri, hefðu um sumarnótt gengið um hlaðið á Stóru-Vatnsleysu; hefðu þá þrír menn staðið þar á stéttinni fyrir framan bæ Jóns; hafði einn þeirra haldið á öxi, annar á atgeir, og þriðji á hríslu;tveir voru fulltíða menn, en sá, sem á hríslunni hélt, var unglingur.

-Keilir
Móbergsfjall (379 m.y.s) á Reykjanesskaga. Keilir er til orðinn við gos undir jökli á ísöld. Hann er þekktur vegna sérkennilegrar strýtumyndunar lögunar sinnar sem er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju er ver það gegn veðrun. Útsýn er mikil af Keili yfir Reykjanesskagann og víðar.

-Vatnsleysuströnd
Byggðarlag við sunnanverðan Faxaflóa, frá Hvassahrauni að innan og út að Vogastapa, gjarnan nefnd Ströndin af heimamönnum. Alls er Vatnsleysuströnd 15 km löng. Upp frá henni liggur Strandarheiði sem öll er þakin hrauni, Þráinsskjaldarhrauni, er runnið hefur til sjávar fyrir um 9000 árum.
Byggðin á Vatnsleysustönd er eingöngu á örmjórri ræmu við ströndina að mestu í hverfum sem mynduðust við bestu lendingarnar.

-Silungseldisstöð
Norðan við Vatnsleysu er silungseldisstöð, fremur smá í vexti. Rekstur hennar hefur gengið brösulega, en nú virðist hann eitthvað vera að braggast.

-Hafnhólar
Taldir tengjast verslunarhöfn þýskra á Stóru Vatnsleysu.

-Flekkuvík
Flekkuleiði – vinsæll köfunarstaður – fjölskrúðugt fuglalíf.

-Borgarkot
Kot frá Viðeyjarklaustri – talsverðar minjar – stógripagirðing.

-Staðarborg
Fjárborg á Strandarheiði, 2-3 km frá Kálfatjörn, í stefnu þaðan og á Dyngju. Hún er hringlaga, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld. Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m. Ummál hringsins að utanverðu er um 35 m. Gólfið inni í borginni er grasi gróið og rennislétt.
Ekki er vitað hvenær borgin var hlaðin en menn telja hana nokkur hundruð ára gamla. Munnmæli herma að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest. Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat einnig valið þá hleðslusteina sem saman áttu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp. En er hann var nýbyrjaður að draga veggina samað að ofanverðu kom húsbóndi hans í heimsókn. Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans. En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan. Staðarborg var fiðlýst sem forminjar árið 1951.

-Kálfatjarnakirkja
Ein af fjölmörgum kirkjum á Reykjanesi sem vert er að skoða og er hún er með stærstu sveitakirkjum á landinu. Komast vel um 200 manns fyrir í kirkjunni þó að við vígslu hennar fyrir 100 árum hafi verið taldir út úr kirkjunni rúmlega 400 gestir.
Bær, kirkjustaður og áður prestsetur á Vatnsleysuströnd. Prestasetur var þar til 1907 er sóknin var lögð niður til Garða á Álftanesi. Á Kálfatjörn var kirkja helguð Pétri postula á kaþólskum sið. Núverandi kirkja var reist árið 1892-1893 og vígð 11. júní 1893. Kirkjan er byggð úr timbri, járni varin steinhlöðnum grunni. Kirkjan tekur 150 manns í sæti á báðum gólfum. Kálfatjarnarkikirkja tilheyrir Tjarnarprestkalli í dag.
Málningin innan dyra er upprunaleg að hluta, og píláranir á kirkjuloftinu voru handunnir af manni í sveitinni – meistarverk.
Altaristaflan er máluð af Sigurði Guðmundssyni, málara.
Ekki má láta hjá líða að ganga upp að Staðarborg miklu steinhleðsluvirki á miðri heiðinni. Leiðin að Staðarborg er merkt ofan við veginn hjá Kálfatjarnarkirkju.
Kauptúnið Vogar er framundan, en eins og flestir bæir á Reykjanesi orðið til fyrir breytingar á útgerðarháttum. Þegar vélbátaútgerðin gekk í garð og skip urðu stærri varð nauðsynlegt að finna betri lægi. Leiddi þá eitt af öðru og byggðin fluttist hægt og rólega að þessum stað. Sterkasti maður landsins Jón Daniesson bjó í Vogum og segir sagan að hann hafi af regin afli flutt til heljar bjarg sem nú er minnisvarði um hann og stendur við Vogaskóla. Flest fólk var á Vatnsleysuströnd um aldamótin eða tæplega 800 manns. Þar bjuggu þá fleiri en í Keflavík og Grindavík saman lagt. Í dag búa þar tæplega 700 manns.

Straumur

14. Vatnsskarð – Straumsvík

-Vatnsskarð – fallegur berggangur t.h. og Sveifluháls t.v.
Stundum nefnt Markrakagil eða Melrakkagil. Sveifluhálsinn á vinstri hönd og Undirhlíðar á þá hægri.

-Malarnám til hvers?
Ein af gömlu námunum. Svo virðist sem alltaf þurfi að fara utan í fjöllin á augljósustu stöðunum, en ástæðan er fyrst og fremst aðgengið sem og efnahagsleg. Þessi náma er í eigu ríkisins, en leigð út af einkaaðilum. Efnið er bólstraberg líkt og í Stapafelli. Það er aðallega notað í húsgrunna, lóðir, vegi og uppfyllingar. Önnur slík náma er skammt norðar undir Undirhlíðum.

-Umhverfisspjöll
Nú í seinni tíð er farið að huga betur að staðsetningu malalrnáms og útvíkkun eldri náma, sbr. námuna í Ingólfsfjalli. Margir gjallgígar, mjög fallegir, hafa farið undir vegi á Reykjanesskaganum og víðar um land. Má í því sambandi benda á Hraunhól hér vinstra megin, en hann er einn megingíganna, sem Nýjahraun, oft nefnt Kapelluhraun, rann úr 1151. Nú er hann ekki svipur hjá sjón. Aðrir gígar eru t.d. Óbrennishólar á hægri hönd. Úr þeim er Óbrennishólabruni runninn úr (á hærgi hönd).

-Móbergsjöllin í kring, gos undir jökli
Móbergsfjöll myndast við gos undir jökli, í sjó eða vatni. Meðan vatnsþrýstingur er nægur yfir eldstöðinni hleðst upp bólstraberg. Ljúki gosi á þessu stigi verður til bólstrabergshryggur, dæmi: Sigalda. Haldi gosið áfram, minnkar vatnsdýpið vegna upphleðslu gosefna undir yfirborði vatnsins/jökulsins og tekur þá fyrir bólstrabergsmyndun enda er vatnsþrýstingur þá ekki nægur til að halda vatnsgufu og gosgufum niðri. Gosvirkni breytist þá í þeytigos. Ofan á bólstrabergið leggst því gjóska sem er ýmist úr vikri, ösku eða brotabergi. Ef gosið hættir á þessu stigi verða til móbergshryggir, dæmi: Sveifluháls, eða keilulaga móbergsfjöll, dæmi: Keilir (ef um gos á kringlóttu goseopi eða stuttri sprungu er að ræða).Haldi gosið enn áfram, hlaðast gígrimar upp úr vatnsborðinu og vatn nær þá ekki lengur að komast í snertingu við bergkvikuna og snöggkæla hana og valda þeytigosi. Tekur þá að mestu fyrir myndun lausra gosefna og hraun fer að renna úr gígnum. Séu gígrimarnir umflotnir vatni, fyllir hraunið undir sig upp að vatnsborði með skálögðuð bólstra- og gjalllagi sem hraunhella leggst síðan ofan á. Móbergsfjöll, sem náð hafa þessu stigi nefnast móbergsstapar, dæmi: Eiríksjökull og Herðubreið.

-Undirhlíðar – Undirhlíðarvegur
Gengið er austur að Undirhlíðum og þar er komið á enn eina forna leið á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur, Undirhlíðarveg. Héðan er leiðin greið og auðrötuð eftir gömlum götum með Undirhlíðum niður í Kaldársel. Þegar komið er á móts við Helgafell er farið fram hjá eldgígum á sprungu sem gaus á 12. öld. Vestan undir Undirhlíðum, suður undir Vatnsskarði, á Kapelluhraun hins vegar upptök sín. Það rann í sjó fram hjá Straumsvík eftir landnám.

-Óbrennishólar
Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu um 700 metra vestan við Undirhlíðar og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó. Óbrinnishólar tilheyra Krísuvíkureldstöðvakerfinu.
Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða sem sést af gróðurleifum sem fundust milli gosmyndanna. Um fyrra gosið í Óbrinnis­hólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra hosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Þetta hraun er frábrugðið hinu hrauninu að það inniheldur verulega meira ólivín.
Síðara gosið hófst fyrir 1800 árum í og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. Hæðin sem Óbrinnishólar eru á er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir endilangri hæðinni er um 50 metra breiður sigdalur. Að vestan takmarkast hann af 4-6 m háu misgengi. Rétt austan við sigdalinn rísa gígirnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Óbrinnishólahraun er undir Kapelluhrauni við Straumsvík.

-Hraunið – gerð þess og aldur – 1150
Hraunið sem Álverið við Straumsvík stendur á heitir Kapelluhraun eða Nýjahraun og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Það er frá árinu 1151 Sjá á korti merkt fjólubláu H 97. Það á upptök undir Undirhlíðum og hefur komið úr gígaröðum, sem virðast vera tengdar misgengissprungum. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu hjá Krísuvíkurkerfinu. Þá opnaðist gossprunga undir Undirhlíðum sem var alls um 25 metra löng en slitin í miðjunni. Kapelluhraun rann norðan á skaganum og til sjávar og myndað þar tanga, en vestan undir honum er Straumsvík.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt úfið og mosagróið apalhraun en hörmung er að sjá hvernig karganum hefur verið rutt af yfirborði þess á stórum svæðum. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast plagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2. Eitt sinni var rudd braut í gegnum hraunið en hún hefur að mestu verið eyðilögð að undanskildum um 20 metra kafla við litla rúst í hrauninu, sem er nefnd Kapellan. Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn þessa kapellu og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi. Einnig var hún verndardýrlingur stórskotaliðsmanna, slökkviliðs- manna, námumanna,verkfræðinga og jarðfræðinga. Þess má geta að Kapellutóftin er á fornminjaskrá og þar má sjá eftirlíkingu af líkneskinu.

-Tveir flokkar hrauna: apal- og helluhraun
Bráðin bergkvika (hraun) sem rennur frá eldstöð eftir yfirborði jarðar og storknar þar nefnist hraun. Þau hlaðast hvert yfir annað þannig að yngsta hraunið er ávallt efst. Jarðlagastafli Íslands er nær eingöngu orðinn til við slíka upphleðslu hrauna síðustu 20 milljón árin. Hraun geta verið ólík að útliti og stærð og stafar það af aðstæðum á gosstað, gerð kvikunnar og hegðun gossins. Eftir útliti eru hraun |1| flokkuð í apalhraun og helluhraun.
Apalhraun [aa] kallast úfin hraun sem mynduð eru úr einu lagi. Yfirborðið er þakið gjallkenndu hraungrýti en neðar tekur við grófstuðluð samfelld hraunklöpp. Oft má greina stórgerða garða eða múga á yfirborðinu sem myndast þvert á rennslisstefnu hraunsins og kallast þeir svigður. Jaðar apalhraunanna er jafnan mjög brattur þegar þau skríða eða velta fram og hrynur þá laust gjall úr honum og lendir undir hrauninu. Þannig myndast botnlag úr gjalli undir hrauninu og er það einkennandi fyrir apalhraun.
Súr og ísúr kvika er ávallt seigfljótandi og myndar því jafnan mjög úfin apalhraun sem geta verið tugir metra á þykkt. Sem dæmi um slík hraun má nefna Laugahraun í Landmannalaugum og Hekluhraunin. Basísk kvika myndar einnig apalhraun einkum kvika sem rennur við blönduð gos á sprungum. Þegar líða tekur á gosin hafa hraunin oft náð mikilli útbreiðslu og er þá mestur hluti þeirra storknaður. Leitar kvikan þá í vissa farvegi á leið sinni út frá gígnum. Við lok gossins tæmast farvegirnir oft og tíðum og kallast þeir þá hrauntraðir. Slíkar hrauntraðir sjást víða t.d. við Lakagíga, Þrengslaborgir og Búrfell ofan Hafnarfjarðar.
Skaftáreldahraun sem upp kom í gosi í Lakagígum 1783 er dæmigert apalhraun. Það er stærsta hraun sem runnið hefur á sögulegum tíma, 595 km2 að flatarmáli og 12 km3 að rúmmáli.
Helluhraun [pahoehoe] eru slétt og greiðfær yfirferðar. Þau myndast einkum þegar um hreint hraungos án kvikustrókavirkni er að ræða. Yfirborð hraunanna storknar oft og myndast þannig fremur þunn og seig skán sem sígur áfram með rennslinu á bráðnu undirlaginu. Við það gárast skánin þannig að yfirborðið verður alsett fíngerðum gárum sem líkjast helst kaðalhönk og kallast gárurnar því hraunreipi. Verði yfirborðsskánin þykkri brotnar hún oft upp í fleka við framskrið og hreyfingar á bráðnu undirlaginu. Við slíkar aðstæður myndast oft háir hólar í helluhraununum. Hólar og hæðir í helluhraunum stafa líka stafað af því að djúpir hraunstraumar kaffærðu hóla og hæðir sem fyrir voru í landslaginu. Mishæðirnar koma svo aftur í ljós þegar kvikan rennur undan storknaðri hraunskáninni í lok gossins. Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum. Frá gígnum rennur hún yfirleitt úr hrauntjörninni um göng og oft langar leiðir undir storknu yfirborðinu uns hún flæðir upp um augu á hraunþekjunni. Þannig renna ótal hraunspýjur hver yfir aðra og því eru helluhraun, einkum ættuð frá dyngjum, mjög lagskipt og er ekki að finna gjall eða önnur millilög milli laganna. Hraungöngin tæmast oftast eins og hrauntraðirnar að gosi loknu og verða þá til hraunhellar sem geta orðið mörg hundruð metrar á lengd. Þekktastir slíkra hella eru Surtshellir í Hallmundarhrauni og Raufarhólshellir í Þrengslum. Oft eru fallegar myndanir dropsteina og hraunstráa í slíkum hellum.
Dæmigerðan þverskurð af helluhrauni má sjá í Almannagjá. Þar mynda 0,5 – 2 m þykk hraunbeltin eitt og sama hraunið sem er tugir metra á þykkt.
Helluhraun finnast víða en sem dæmigerð helluhraun má nefna Hallmundarhraun, Hvaleyrarhraun við Hafnarfjörð og Eldhraun norðan Mývatns sem rann í Mývatnseldum 1724 – 1729.

-Fjallið eina
Stendur eitt sér norðan við Hrútfell. Ofan þess er Hrútargjárdyngja.

-Hrútargjárdyngja
Hellar – Húshellir – Híðið – minjar.

-Almenningur
Hraunspilda milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns á Vatnsleyuströnd. Var þar fyrrum skógi vaxið en han eyddist af höggi og beit. Síðan um aldamót 19. og 20 . aldar hefur hraunið lítið verið breitt enda hefur það gróið nokkuð á ný. Á Almenningi er einn hinna mörgu Gvendarbrunna, við gamla veginn. Almenningsnafnið mun dregið af því að þar var sameiginlegt beitiland Hraunbæjanna.

-Hellnahraun
2200 ára og 4000 ára – kom úr Tvíbollum.

-Mosi og annar gróður
Á Íslandi eru nú þekktar um 600 tegundir af mosum. Meginhluti íslenzkra mosa er af tveim ólíkum flokkum sem nefnast laufmosar og soppmosar. Mun fleiri tilheyra laufmosum, en af þeim flokki eru bæði barðastrý og hraungambri sem sjást á myndunum hér að ofan. Líkami laufmosanna er neðantil myndaður af grænum sprotum sem eru þétt settir örsmáum, þunnum laufblöðum. Á toppi blaðsprotans myndast örsmáar egghirzlur og frjóhirzlur, og þar á sér stað frjóvgun eggfrumnanna. Af okfrumu þeirri sem myndast við frjóvgunina vex upp langur stilkur, sem getur verið grænn eða rauðbrúnn á litinn, og á toppi þessara stilka myndast hnapplaga gróhirzlur, sem oft eru nefndir baukar. Á toppi bauksins situr oft lausleg hetta, sem síðar dettur af. Þegar gróhirzlurnar þroskast, myndast lok á toppi þeirra, sem opnast þegar gróin þroskast. Það vaxtarlag sem hér hefur verið lýst má greina allvel á barðastrýinu á myndinni til vinstri.

Til hægri og vinstri má sjá þykka mosaþembu gerða af hraungambra, en það er tegundarheiti þess mosa sem oft myndar þykkar breiður á hrauni við Suðaustur-, Suður- og Vesturströnd landsins. Í daglegu tali er hann oftast nefndur grámosi eða gamburmosi.

-Trönur
Fiskur hefur verið þurrkaður hér á landi frá upphafi. Líklegast kemur verkunaraðferðin frá Noregi. Hún var sú eina varanlega áður en saltið kom til sögunnar hér á landi á 18. og síðan á 19. öld. Áður var fiskurinn lagður á steingarða, en seint á 20. öldinni var byrjað á þvía ð flytja inn trjávið frá útlöndum og byggja svona “komlexa”, þ.e. trönur, ti að hengja fiskinn í. Um er að ræða þosk og ýsu, en einnig löngu, keilu og jafnvel steinbít. Langmest af afurðunum hafa verið fluttar til Nígeríu. Til er gamall brandari, byggður á fyrirsögn í einu dagblaðanna: “Skeriðtil Nígeríu”.
Nú eru trönurnar á hallandi fæti og óðum að hverfa. Fiskur er þó þurrkaður áfram, aðallega innan dyra, með rafmagnsþurrkun eða jarðgufuþurrkun eins og sjámátti dæmi um úti á reykjanesi og einnig hefur það verið gert í Mývatnssveitinni.

-Skíðasvæði í Bláfjöllum
Skíðasvæðin í Bláfjöllum hafa verið skíðasvæði höfðuborgarsvæðisins og sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Vinsæl þegar snjóar, sem hefur verið mjög lítið unadanfarin ár a.m.k., en hins vegar er Bláfjallasvæðið kjörið útivistarsvæði.

-Ásfjall
Ástjörn er friðuð sem náttúruvætti og 1997 var stofnaður fólkvangurinn Ásfjall og umhverfi Ástjarnar. Það er kjörið að ganga umhverfis Ástjörn á stíg sem þar hefur verið lagður eða leggja á fjallið sem er auðvelt uppgöngu. Þó Ásfjall standi aðeins 125 m.y.s. er þar góð sýn yfir næsta nágrenni Hafnarfjarðar og fjallahringinn umhverfis Faxaflóa, sem hægt er að glöggva sig betur á með aðstoð hringsjár á toppi fjallsins.
Ástjörn er vogskorin uppistöðutjörn í dalkvos undir Ásfjalli, sem hefur myndast þegar Hellnahraun rann fyrir um 2200 árum og stíflaði afrennsli hennar til sjávar. Lífríkið er fjölbreytilegt enda er tjörnin kjörlendi margra fuglategunda vegna mikils fæðuframboðs. Sést hafa 44 tegundir fugla við tjörnina og eru andfuglar mjög algengir, en mesta athygli vekur flórgoðinn. Ástjörn er að líkindum síðasti varpstaður flórgoðans á suðvestanverðu landinu.
Það er best að hefja gönguna umhverfis Ástjörn við vesturendann hjá Ásvöllum, athafnasvæði íþróttafélagsins Hauka. Gengið er rangsælis um Ástjörn eftir stíg sem liggur meðfram hlíðarfæti Grísaness, en það er hæðardrag sem umlykur suðvesturhluta tjarnarinnar. Fljótlega er komið að tóftarbroti á hægri hönd og Hádegisskarði, þar sem Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur lágu fyrrum á milli vestri Ásfjallsaxlar og Grísaness. Hér er hægt að taka á sig krók, leggja á brattann og halda sem leið liggur upp vestari Ásfjallsöxl. Eftir stutta göngu er komið að rústum fjárborgar eða stekks á vinstri hönd. Haldið er áfram upp að Ásfjallsvörðu og skammt frá henni er hringjsá þar sem helstu fjöll og önnur kennileiti eru kyrfilega merkt. Þeir sem vilja heldur fylgja stígnum umhverfis Ástjörn halda sem leið liggur í áttina að heimatúni Ásbæjarins sem stóð undir fjallinu um aldir en var rifinn á áttunda áratug 20. aldar. Áður en komið er að bæjarhólnum er lítil steinbrú á einum smálækjanna sem renna í tjörnina. Yfirborðsrennsli lækjanna er breytilegt og hefur lítil áhrif á vatnsborðið. Þar sem Ásbærinn gamli stóð áður var nú síðast skógræktarstöðin Skuld og frá henni er gengið eftir stíg sem liggur neðan hins nýja byggðahverfis sem er risið í landi Stekks og hlíðum eystri Ásfjallsaxlar. Nú blasa Ásvellir aftur við og hringurinn lokast.

-Hafnarfjörður
Hafnarfjörður, sem gengur undir nafninu „Bærinn í hrauninu”, fékk ekki kaupstaðarréttindi fyrr en árið 1908 þó svo að staðurinn hafi verið einn mikilvægasti verzlunarstaður landsins um aldir. Nú búa í bænum um 22.000 íbúar (2005).

-Kapellan
Úfið og gróðursnautt hraun milli Hafnarfjarðar og Staums. Talið er að það hafi runnið snemma á sögulegum tíma. Í hrauninu, sunnan við

Reykjanesbrautina á móti álverinu í Staumsvík er lítið byrgi, hlaðið úr hraungrýti og nefnist kapella. Árið 1950 fannst þar við uppgröft lítið líkneski heilagrar Barböru og eru líkur til að þarna hafi verið bænastaður í kaþólskum sið. Á síðustu árum hefur mikið efni verið tekið úr hrauninu til uppfyllingar í húsgrunna og götur á Stór- Reykjavíkursvæðinu og það sléttað. Hraunhóllinn með kapellunni hefur verið látinn ósnortinn og er hún fiðlýst.

-Álverið
Íslenska álfélagið reisti álverið í Straumsvík um 1965. Síðan hefur það verið stækkað. Hver kerskálanna þriggja e rum eins km langir, eða með lengstu húsum á Íslandi. Nú er álverið í eigu Alcoa. Um 500 starfsmenn starfa á vegum fyrirtækisins hér á landi. Framleiðslan e rum 170.000 tonn af áli til útflutnings. Fyrirhugð stækkun er á álverinu hér til suðurs, yfir veginn, en honum er ætlaður staður lengra upp í hraunið.
Ævintýrið um álverið í Straumsvík hófst í háloftunum yfir Íslandi og það hefði hugsanlega ekki orðið að veruleika ef ský hefðu verið á himni. Um borð í farþegaþotu á leið til Bandaríkjanna voru tveir af ráðamönnum svissnesks álfyrirtækis. Þar sem þeir sátu í vélinni og virtu fyrir sér landið úr lofti sáu þeir Vatnajökul, stærsta jökul Evrópu. Og þá kviknaði hugmyndin. Þar sem svona mikið er af jöklum hlýtur að vera gnótt af vatnsföllum sem hægt er að virkja. Þetta var upphafið af virkjunum Þjórsár við Búrfell, virkjuninni sem enn sér álverinu fyrir raforku.
Fyrirtækið hét áður Íslenska álfélagið en ber nú nafnið Alcan á Íslandi. Fyrirtækið er stærsti einstaki orkukaupandinn hér á landi og á síðasta ári nýtti Alcan 36% af allri orkuframleiðslu landsins. Rannveig segir að álverið hefði aldrei verið reist á sínum tíma nema vegna orkunnar sem hér er nóg af. „Það er ekki nóg að orkan sé til staðar, heldur er jafnvægi og stöðugleiki orkunnar forsenda þess að hægt sé að vinna ál. Fyrstu árin lenti fyrirtækið í ýmsum vandræðum, m.a. vegna ístruflana og klakahlaups í Þjórsá auk þess sem rafmagnið virtist stundum af skornum skammti á álagstímum, t.d. þegar allir landsmenn voru að elda jólamatinn. Þetta heyrir hins vegar sögunni til og er nú komið í gott horf.“ Rannveig segir að rafmagnsleysi geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtækið og til útskýringar líkir hún kerunum við grautarpott á eldavél. „Ef rafmagnið fer byrjar fljótandi álið að storkna á skömmum tíma og það er mikil vinna að ná því í burtu, hreinsa kerin og koma framleiðslunni af stað aftur. Ef við hins vegar vitum af rafmagnsskorti með einhverjum fyrirvara þá er hægt að laga reksturinn smám saman að því og minnka framleiðsluna. Sú staða hefur komið upp nokkrum sinnum, t.d. árið 1998 þegar þurfti að slökkva á kerum þegar lítið vatn var í uppistöðulónum á hálendinu.“

Úr vatni í virkjanir
Rannveig Rist hefur tengst öllum grunnþáttum álframleiðslunnar. Hún vann með föður sínum, Sigurjóni Rist, við vatnamælingar og vann síðan við Búrfellsvirkjun áður en hún hóf störf í Straumsvík. Við síðustu stækkun álversins fékk fyrirtækið að gjöf frá Landsvirkjun gamlan kunningja Rannveigar úr Búrfellsvirkjun; nefnilega eitt af túrbínuhjólum virkjunarinnar. Hjólið skipar nú heiðursess á lóð álversins og er eitt af kennileitum þess. Þegar fyrirtækið var stofnað árið 1969 var framleiðslugeta þess 33.000 tonn á ári. Síðan þá hefur verksmiðjan verið stækkuð fjórum sinnum, síðast árið 1997, og framleiðslugetan nú er um 176.000 tonn á ári.

En sér Rannveig fram á stækkun verksmiðjunnar í náinni framtíð?
„Það er vel mögulegt að stækka verksmiðjuna, framleiðslan gengur mjög vel hjá okkur og við framleiðum hér um 200 vörutegundir. Markaðurinn hlýtur hins vegar að ráða, því það er enginn hagur í því að framleiða ál ef eftirspurnin er ekki næg. Nú hefur Alcan Inc., eigandi verksmiðjunnar í Straumsvík, nýverið fest kaup mjög öflugu frönsku álfyrirtæki og framleiðir þar með miklu meira ál í Evrópu en áður. Það gæti frestað enn frekar ákvörðun um framtíðarþróun hér. En við höldum okkar striki og einbeitum okkur að því að gera framleiðsluna eins hagkvæma og kostur er. Eftir að verksmiðjan var stækkuð árið 1997 var framleiðslugetan 162.000 tonn á ári. Með breyttum áherslum í kerrekstri, tæknilegum lagfæringum og straumhækkunum hefur okkur hins vegar tekist að auka framleiðslugetuna upp í 176.000 tonn á ári og það án mikilla fjárfestinga. Þetta sýnir hve verksmiðjan er byggð á góðum grunni, því þær aðgerðir sem við höfum gripið til síðustu ár hefðu annars verið ómögulegar.“
Hjá Alcan á Íslandi eru um 500 starfsmenn og það hefur vakið athygli hvað starfsmannaveltan er lág. Starfsmönnunum virðist líða vel og lítið er um mannabreytingar. Rannveig segir starfsandann mjög góðan „og sem dæmi um það má nefna að þegar hafa vel á annað hundrað starfsmenn fengið afhent gullúr, en það fá þeir eftir 30 ára starf. Þetta er ótrúlega há tala miðað við að fyrirtækið tók til starfa árið 1969 og er aðeins rúmlega þrítugt.“

-Straumsvík
Vík sunnan Hafnarfjörð, gengt Straumi. Þar var verslunarhöfn á miðöldum og sigldu þýskir kaupmenn þangað. Árið 1966 var samþykkt á Alþingi að hefja þar álvinnslu með svissneska félaginu Alusuisse. Er það fyrsta stóriðjuver á Íslandi. Skyldi dótturfyrirtæki Alusuisse, íslenska álfélagið hf. (ISAL), byggja og reka álverið. Framkvæmdir hófust 1967 en starfræksla hófst 1969. Framleiddi álverið þá 30.000 lestir af hrááli á ári en síðan hefur það stækkað. Jafnframt byggingu álversins var gerð höfn í Staumsvík til að skipa upp hráefni til álframleiðslunar og útskipunar á áli og þá var ráðist í byggingu Búrfellsvirkjunar en sala á raforku til álversins var talin forsenda fyrir henni.

-Straumur
Undirbúningur að stofnun listamiðstöðvarinnar og endurbygging gömlu bæjarhúsanna í Straumi hófst árið 1988. Hér var áður rekið svínabú undir stjórn Bjarna Blomsterbergs, fyrrum eiganda Fjarðarkaupa, en húsið er teiknað af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins.

-Keflavíkurvegurinn
Keflavíkurvegurinn var lagður um 1960 af Bandaríkjamönnum. Þetta var í raun fyrsti vegurinn á Íslandi sem lagður var bundnu slitlagi utan þéttbýlis. Vegurinn vars teyptur í fyrstu og þótti nýlunda þá. Lengi á eftir var gjaldskýli við Straum, líkt og er við Hvalfjarðargöngin nú, þar sem gjald var heimt af ökumnönnum, sem um veginn fóru. Sjá má móta fyrir eldri veginum sunnan þess nýja, en Alfaraleiðin gamla, gamla þjóðleiðin minni Innnesja og Útnesja, er skammt sunnar í hrauninu, fallega vörðuð á kafla.

Kotvogur

3. Hafnir – Stóra Sandvík

Hér kemur flekakennings Alfreds Wegener í góðar þarfir…
Flekamót og Flekaskil… Um Ísland liggja flekaskil, þ.e. meginlandsflekarnir reka frá hvorum öðrum. Landið er því að stækka.

-Akkeri Jamestown
Árið 1881 (26. júní) rak timburskip, Jamestown, upp við við Hvalsnes á milli Hestakletts og Þórshafnar í Ósunum gegnt Kotvogi. Það var mannlaust og virtist hafa verið lengi á reki, því að reiði og seglbúnaður var horfinn.
Fjölmargir húsbyggjendur á Suðvesturlandi nutu góðs af timburfarmi skipsins (sjá Sandgerði) og akkeri skipsins er nú varðveitt framan við fyrrum sæfiskasafn í Höfnum við Nesveg.
Jamestown mun hafa verið með stærstu seglskipum á 19. öld; á lengd svipað og fótboltavöllur og líklega mælst um eða yfir 4000 tonna skip á okkar tíma mælikvarða. Gríðarlegu magni af timbri, sem allt var plankar, var bjargað úr skipinu og flutt á brott. Timbrið var notað til húsbygginga á Suðurnesjum og víðar, t.d. austur um allar sveitir. Þó var það einungis hluti timburfarmsins því áður en tókst að bjarga meiru brotnaði skipið í spón í óveðri. Rak þá talsvert af timbri á land. Sögusagnir um annan farm skipsins virðast ekki hafa verið á rökum reistar. Sumarið 1989 var einu af 4 akkerum þessa risaskips lyft upp af hafsbotni þar sem það hafði legið í 108 ár. Að því verki stóðu tveir Hafnamenn. Akkerið og hluti af akkerisfestinni prýðir nú hlaðið framan við Sæfiskasafnið við Hafnagötu í Kirkjuvogshverfi. Hin akkerin ásamt lengri akkerisfesti höfðu fyrir löngu verið flutt til Vestmannaeyja þar sem festin var lengi notuð sem landfesti smábáta í höfninni. Eitt akkeri er þó enn á sjávarbotni nálægt Þórshöfn.

-Landnámsbærinn
Kirkjuvogskirkja í Höfnum var vígð 1861. Á túninu fyrir aftan kirkjuna hafa nú fyrir skömmu fundist elstu mannvistarleifar bæjarfélagsins. Það er skáli (íbúðarhús). Við aldursgreiningu kom í ljós að skálinn er ekki yngri en frá árinu 900.

-Höfnin
Mikill útvegur var frá Höfnum. Fjöldi vermanna kom víðs vegar að af landinu á vetrarvertíð, sem hófst snemma árs á hverju ári um aldir. Verstöðvarnar voru fjölmargar á svæðinu öllu, en þar skipti mestu máli nálægðin við hin gjöfulu fiskimið.
Hafnahreppi er að venju skipt í þrjú svæði; Kirkjuvogshverfið, Merkineshverfið og Kalmannstjarnarhverfið. Sú skiptin markast af gömlu lögbýlunum. Þeim fylgdi síðan fjöldi hjáleiga, sem sumar hverjar áttu stutta lífdaga, en aðrar uxu höfuðbýlinu yfir höfuð, eins og t.d. Kotvogur.
Gamla bryggjan var byggð um 1930 og var notuð fram til 1939. Sú nýja var byggð árið 1954 og hefur þjónað byggðalaginu síðan með breytingum og lagfæringum.

-Virkishóll, álfabýli
Saga af álfum, konu er giftist álfasveini, viðsnúningi og erfiðleikum.

-Kirkjan

Kirkjuvogskirkja

Kirkjuvogskirkja 1960.

Kirkjugarðurinn – járnminningarmörk um grafir…
Á 19. öldinni bjó í Kirkjuvogi dannebrogsmaðurinn Wilhjálmur (Chr(istinn) Hákonarson (1812-1871), en þannig er nafn hans stafað á leiði hans í Kirkjuvogskirkjugarði. Vilhjálmur átti 2 dætur. Önnur þeirra hét Anna. Heimiliskennari í Kirkjuvogi var þá ungur menntamaður, Oddur V. Gíslason, og felldu þau Anna hugi saman. Þegar ungi maðurinn bað um hönd dótturinnar brást faðir hennar hinn versti við og þvertók fyrir ráðahaginn. Afleiðingin varð eitt frægasta og æsilegasta brúðarrán Íslandssögunnar. Sættir tókust þó síðar. Oddur varð prestur í Grindavík við mikinn orðstír og var m.a. upphafsmaður að sjóslysavörnum á Íslandi. Af honum er mikil saga sem endar í Bandaríkjunum.
Vilhjálmur Kr. Hákonarson reisti þá kirkju sem nú stendur í Höfnum. Hún er úr timbri og var vígð árið 1861. Vilhjálmur lést 10 árum seinna 59 ára að aldri. Ekkert er eftir af Kirkjuvogsbænum en kirkjan stendur nánast á bæjarhlaðinu enda nefnist hún Kirkjuvogskirkja og sóknin Kirkjuvogssókn. Ketill Ketilsson (1823-1902) dannebrogsmaður og útvegsbóndi í Kotvogi, stundum nefndur Mið-Ketill vegna þess að hann tók við búi af föður sínum og Ketill sonur hans tók svo við búi af honum, hefur ekki viljað vera minni maður en Vilhjálmur í Kirkjuvogi og byggði kirkju úr timbri á Hvalsnesi í Miðneshreppi, en þá jörð átti hann. Kirkjuna lét hann síðar rífa og byggja aðra stærri og íburðarmeiri úr tilhöggnu grjóti. Sú kirkja var vígð 1887 og stendur enn.

-Gömlu-Hafnir
Nýr uppbyggður vegur var lagður frá Höfnum út á Reykjanes um miðjan 9. áratug nýliðinnar aldar. Hann liggur fjær sjó en sá gamli sem reyndar var ekkert annað en slóð og skurður á víxl. Eins og áður sagði tekur einungis um 10 mínútur að ganga yfir holtið frá bílastæðinu ofan Laxeldisstöðvarinnar og niður á gamla veginn skammt sunnan Kalmanstjarnartúns. Af gamla veginum þar sjást 5 áberandi stórir grasi vaxnir hólar. Þessir hólar koma við sögu í bókum Sr. Jóns Thorarensens, (Litla skinnið, Rauðskinna, Marína ofl.) en sögusvið þeirra er Hafnir (Jón var ættaður og ólst upp í Kotvogi). Nyrstur og næst Kalmanstjörn er Stekkhóll hægra megin vegarins. Annar stærri hóll er sunnar, einnig hægra megin vegarins. Sá heitir Kirkjuhafnarhóll. Vinstra megin vegarins er lægri hóll og sést garðhleðsla í jöðrum hans að norðan- og austanverðu. Þetta er talinn vera gamall kirkjugarður Kirkjuhafnar og mun hann hafa lagst af um miðja 14. öld. Suðvestan Kirkjuhafnarhóls, nær sjó, eru 2 graxi vaxnir hólar og eru sýnilegar rústir í syðri hólnum. Hólarnir nefnast Sandhafnarhólar. Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru fyrr á öldum þekkt stórbýli og helsta útræði í Höfnum. Talið er að býlin hafi farið í eyði á 17. öld. Til eru heimildir um stærð Kirkjuhafnar sem segja að þar hafi verið miklar byggingar, m.a. 50 hurðir á hjörum, en sá mælikvarði var algengur áður. Umhverfis Sandhafnarhóla, en þar munu hús einning hafa verið mörg og stór, eru bæði hlesðslur og rústir.

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Skammt utar, nær sjó, eru rústir tvíbýlis sem nefnist Hafnaeyri og talið hafa farið í eyði um 1830. Nokkuð heillegur hlaðinn garður er yst á Eyri um 15 m á kant. Þessi hleðsla varði kálgarð fyrir sandfoki. Þegar gengið er um þessa hóla nú er erfitt að gera sér í hugarlund að þar hafi áður fyrr verið stórbýli – svo vandlega hefur foksandurinn unnið sitt eyðingarstarf. En nú skal haldið til baka austur á akveginn. Af veginum efst á brekkubrúninni (4,4) ofan Laxeldisstöðvarinnar í Hundadal sjást grashólarnir í Kirkjuhöfn á hægri hönd. Greinilega sést ofan á kollinn á Stekkhól lengst til hægri. Framundan Stekkhóli er Stekkjarvik (Í Höfnum heita smærri skörð eða bugur í ströndina vik en stærri nefnast víkur). Sandhafnarhólar sjást upp af Eyri. Ströndin frá Kalmanstjarnarvör að Stekkjarviki nefnist Draugar (suður í Draugum). Syðst í Stekkjarviki er há klöpp sem nefnist Hvarfklöpp, (í henni býr álfkona segir í sögunni Marína eftir Jón Thorarensen).

Í fyrri daga bjó að Eyri við Hafnaberg ungur og dugandi bóndi. Átti hann góða konu, unga og fríða sýnum, bóndadóttur úr Grímsnesi. Í þá tíð var grasnyt lítil orðin á Eyri en sjósókn því meiri því að útræði var afbragð og sat bóndi því öllum stundum á sævartrjám. Var hin unga húsfreyja óvön slíkum búsháttum og áður en langt leið sóttu að henni mikil leiðindi. Varð bóndi óglaður mjög af þessu en fékk þó ekki neitt frekara að því gjört.
Nótt eina um haust dreymir húsfreyju að til hennar kemur há og tíguleg kona og segir við hana: „Viltu gefa mér höfuðið af þeirri skepnu sem eftir verður á morgun í skutnum hjá bónda þínum þegar skipt hefur verið afla og tekið á köstum. Mun ég hirða höfuð þetta sé það látið á naustavegginn og launa þér með einhverju þótt síðar verði.“ Að því búnu fannst húsfreyju kona þessi hverfa burt. Þessa sömu nótt rær bóndi í bíti með falli suður fyrir Hafnaberg og leggst í svonefndri Skjótastaðaholu. Beitir bóndi sig niður og dregur þar flakandi lúðu um fallskiptin en rétt í því örvast svo fiskur hjá þeim við upptökuna að ekki stendur á neinu nema grunnmáli og höndum háseta. Fengu þeir brátt góðan afla og nutu að því búnu bæði straums og vinds heimleiðis.
Þegar heim kom var borinn upp afli, tekið á köstum og skipt í hluti. Gekk þá húsfreyja til varar og kom að máli við bónda sinn og sagði honum draum sinn. Sagði bóndi henni þá að flyðra væri óskipt í skut skipsins og skyldi hann að öllu leyti gjöra samkvæmt vilja hennar. Fór þannig allt eins og fyrr er frá sagt og var höfuðið horfið morguninn eftir.
Leið svo á vetur með góðum gæftum því að ýmist var hæg átt eða andvari af landsuðri með ládeyðu og var bóndi bæði fiskisæll og byrsæll. En það er frá húsfreyju að segja að leiðindi hennar jókust svo mjög að hún tók að fara einförum. Svo var það í lok föstunnar að húsfreyja fór um lægri dagana inn að Kalmanstjörn sér til léttis og hugarbótar. Dvaldist hún lengi og lagði seint af stað heimleiðis. Segir ekki af ferð hennar fyrr en hún kemur suður að svo nefndum Kirkjuhafnarhólum. En húsfreyja var hindruð og settist þar því um stund til þess að hvíla sig.
Þegar hún stóð upp sá hún allt í einu hólinn standa opinn. Sá húsfreyja þar inn í stóra og mikla hvelfingu. Þar logaði eldur glatt í hlóðum og hékk pottur yfir í hóbandi. Fyrir framan eldinn stóð há og tíguleg kona sem hafði lítinn hnött undir handlegg sér en sprota í höndum. Varð húsfreyja hrædd við sýn þessa og hugði að flýja burt sem fljótast. En þá brá hin ókunna kona sprotanum í áttina til hennar. Runnu þá á húsfreyju töfrar svo miklir að hún gekk mót vilja sínum beint inn í hólinn til álfkonunnar.
Sú tók til orða og mælti: „Vita skaltu það að þú ert hingað komin af mínum völdum. Ég fékk hjá þér fiskinn en hef hann að litlu einu goldið þér. En ég veit að þú unir illa hjá bónda þínum hér við sjóinn. Ég mun því reyna að veita þér hjálp, þótt lítilfjörleg verði“
Tók þá álfkonan smyrslabauk og smurði bæði augu húsfreyju og mælti: „Upp frá þessu skaltu öðrum augum lífið líta og mæli ég svo um að lán fylgi þér.“
Lagði svo álfkonan hönd sína á höfuð húsfreyju og mælti fram vísu þessa:
Brimhljóð á köldu kveldi kyrrir og svæfir bezt;
hlóðirnar hlaðnar eldi huganum sýna flest,
glæður og glitruð bára gylla muna og rann,
þá gleymist sorgin sára, sætztu við byggð og mann.
Að því búnu leiddi álfkonan húsfreyju út úr hólnum og brá sprota sínum. Brá þá svo einkennilega við að töfrar allir og leiðsla hurfu jafnskjótt af húsfreyju og var sem hún vaknaði af draumi. Þó mundi hún vel eftir öllu sem fyrir hana bar og eins nam hún vísuna, er áður getur. En nú var álfkonan horfin, og á hólnum sáust engin verksummerki; hann var eins og hann jafnan hafði verið fyrr. En svo brá við að húsfreyja varð önnur eftir atburð þennan, hún mátti aldrei af heimili sínu sjá, varð bæði vinnusöm og stjórnsöm, jók kyn sitt og lifði farsællega með manni sínum til æviloka.

-Leið að Reykjanesi
Merkines, Hafnarberg, Grænhóll, brúin milli heimsálfanna, táknræn fyrir flekaskilin, (ekki rétt að skilin séu aðeins þar á milli, ná yfir stærra svæði en er undir brúnni).

-Flekakenningin
Þar sem vegurinn sveigir aftur til suðurs gengur stór gjá upp frá sjó og inn í landið. Hún nefnist Mönguselsgjá og liggur nyrst upp úr Stóru-Sandvík. Gjáin er ein af mörgum sem mynda sprungubelti. Jarðskorpan gliðnar hér á miklum hrygg og jarðeldasvæði sem liggur í miðju Atlantshafi frá suðri til norðurs. Landsig sést greinilega þegar horft er um öxl til Mönguselsgjár eftir að komið er upp á Stampahraun. Yfir Mönguselsgjá (ekki Tjaldstaðagjá sem er stærri og sunnar) hafa lafafrakka-menn, sem komu á Lýsingar-jeppum úr Keflavík, byggt brú til að drýgja tekjur sínar af erlendum ferðamönnum með því að telja þeim trú um að þarna séu meginlandaflekar Ameríku og Evrópu að reka hvor frá öðrum. Greinarhöfundur er einn þeirra Hafnabúa sem hafa skömm á tiltækinu og líta á þetta sem pretti – í skásta falli fíflagang og Suðurnesjamönnum til vansæmdar enda hafa jarðvísindamenn bent á og staðfest að landrekið kemur ekki fram á þessum stað heldur miklu austar (nánar tiltekið austur í Hreppum – LMJ).

Árið 1912 setti þýski veðurfræðingurinn Alfred Wegener fram vísindalega kenningu til þess að útskýra þetta. Hann hélt því fram að meginlöndin flytu á undirlagi sínu og gætu því flust úr stað. Hann taldi að meginlöndin hefðu verið ein heild, Pangea (al-álfa) fyrir um 200 milljónum ára. Þessi álfa hefði síðan brotnað upp, fyrst í tvennt, nyðri hluta (Laurasíu) og syðri hluta (Gondwanaland). Síðan klofnuðu þessi meginlönd enn frekar og bútana rak í sundur þangað til núverandi landskipan var náð.

Líklegt er að landrekið hafi fyrst borð á góma er evrópskir landkönnuðir fóru að kortleggja strendur s-ameríku og Afríku á 17. öld. Þær pössuðu lygilega vel saman.

Ysti hluti jarðar er samsettur úr nokkrum geysistórum bergflekum sem ná djúpt niður í seigan möttul jarðar. Flekarnir eru 100–200 km þykkir og „fljóta“ ofan á möttlinum. Efsti hluti flekanna kallast jarðskorpa og er hún 5-70 km þykk.

Við flekamót rekur fleka saman en við flekaskil rekur þá í sundur.

Við flekaskil valda iðustraumar í möttulbráðinni því að flekar færast í sundur. Þar þrýstist bráðin hraunkvika upp og bætist á jaðra flekanna. Eldgos verða þar sem hraunkvikan brýst alla leið upp á yfirborð.

Flekaskil eru að langmestu leyti á botni úthafanna og mynda þau geysilangt net af neðansjávarhryggjum, alls um 60 þúsund km að lengd. Aðeins um 1% af úthafshryggjum jarðar eru ofansjávar.

Ísland er á flekaskilum og eru flekarnir tveir, Ameríkuflekinn og Evrasíuflekinn. Úthafshryggurinn sem liggur um Ísland og sker það í tvennt kallast einu nafni Norður-Atlantshafshryggur og er hann hluti af jöðrum flekanna tveggja.

Svæði þar sem flekana tvo rekur hraðast í sundur eru kölluð gliðnunarbelti eða rekbelti. Utan rekbeltanna eru tvö hliðarbelti og liggja þau í eldri jarðskorpu en rekbeltin. Tvö þverbrotabelti tengja saman hliðrun sem er á Norður-Atlantshafshryggnum um mitt Ísland.

Hliðrun úthafshryggjarins stafar líklega af miklum möttulstrók, svokölluðum heitum reit með sérstaklega heitu, léttu og miklu kvikuuppstreymi, sem er undir Íslandi. Miðja möttulstróksins er undir Vatnajökli og togar strókurinn hrygginn eða gliðnunarbeltin til sín.

Ameríkuflekann og Evrasíuflekann rekur um 1 cm á ári frá hvor öðrum í vestur og austur. Ísland gliðnar því um 2 cm á ári, eða um 2 m á 100 árum. Óvíst er hvort Ísland stækki við þetta vegna þess að samtímis nýmyndun jarðefna á sér stað landeyðing vegna ýmissra rofafla

-Merkines
Sunnan við þorpið er hraðahindrun á veginum (vegur nr. 425). Þar skulum við núllstilla vegmæli bílsins á nýjan leik. (Tölurnar í svigunum segja til um vegalengd frá Kirkjuvogshverfi að næstu kennileitum). Þegar ekið er út úr Kirkjuvogshverfi og sem leið liggur í suður er brátt komið að Merkinesi, býli sem er á hægri hönd. Í Merkinesi bjó síðast (Vilhjálmur) Hinrik Ívarsson ásamt eiginkonu sinni Hólmfríði Oddsdóttur. Hinrik í Merkinesi var fyrrverandi hreppstjóri Hafnahrepps, þekktur sjósóknari, refaskytta, báta- og húsasmiður og hagyrðingur (faðir m.a. Ellýar Vilhjálms söngkonu og Vilhjálms Vilhjálmssonar flugmanns og söngvara en þau eru öll látin). Hlaðinn hringlaga steingarður sem er hægra megin vegarins spölkorn norðan Merkiness nefnist Skipagarður. Þetta var kálgarður en hér áður fyrr voru vertíðarskipin dregin upp og höfð í skjóli við garðinn. Skammt sunnan Merkiness er grasi vaxinn hóll vinstra megin vegarins. Hóllinn nefnist Syðri Grænhóll. Sunnan hans mun ekki hafa fundist stingandi strá, sem heitið gat, fyrr en melgresi fór að taka við sér en því var fyrst sáð til að hefta sandfok utar á skaganum fyrir rúmum 60 árum (þessi grein er skrifuð 2002).

-Junkaragerði

Junkaragerði

Sólheimar, Junkaragerði, Traðarhús og Kalmannstjörn fyrir sunnan Hafnir. Séð til norðausturs.

Spölkorn sunnan Grænhóls sér á þak Junkaragerðis en það er fornt býli og verstöð sem nú er notað sem íbúð. Upphlaðinn túngarður á hægri hönd eru einu minjarnar sem eftir eru af býlinu og verstöðinni Kalmanstjörn (þaðan var Oddur Ólafsson læknir á Reykjalundi og alþingismaður) en íbúðarhúsið var rifið 1990. Á Kalmanstjörn var búið fram á miðjan 8. áratug 20. aldar. Gamli vegurinn út á Hafnaberg og áfram út á Reykjanes lá á milli Kalmanstjarnar og Junkaragerðis. Hann er nú lokaður allri umferð. Í lýsingu skráðri af Hinriki í Merkinesi fyrir Örnefnastofnun segir m.a: ,,Fyrr á öldum, er sagt, að ,,þýzkir“ hafi haft mikinn útveg á opnum skipum í Höfnum. Meðal annarra staða höfðu þeir búðir, þar sem nú heitir Junkaragerði, en svo voru þeir nefndir. Þessir menn voru ribbaldar miklir og ,,óeirðamenn um kvennafar“, þeir voru illa séðir af landsmönnum, sem vildu fyrir alla muni koma þeim af höndum sér.“ Til er þjóðsaga um hvernig Hafnamenn fóru að því að losa sig við Junkarana. Vestan vegarins (3,0), neðan við brekku, er Hundadalur. Þar er fiskeldisstöð. Á vinstri hönd má sjá nokkrar vörður en við þær liggur Prestastígur – vel vörðuð forn gönguleið úr Höfnum yfir Hafnasand og Eldvörp yfir í Staðarhverfi í Grindavíkurhreppi, um 5-6 tíma gangur.
Sagt er að bærinn heiti eftir 12-18 erlendum mönnum sem þar áttu að hafa búið kallaðir voru junkarar. Voru þeir taldir ölkærir, karlmenni mikil en óeirðarmenn um kvennafar. Vildu landsmenn koma þeim af höndum sér og nótt eina söguðu þeir næstur sundur nefjur (ræðin) á hástokkum báts þeirra. Reru junkarar svo fyrir dag en er líða tók á morgun gerði hvassan vind og hrukku nefjurnar í sundur. En ekki náðist tilætlaður árangur því að junkarar reru við hné sér og björguðu sér þannig í land. Næst leystu menn skautana af árunum, söguðu þeir meir en til miðs og negldu skautana aftur svo að ekki sáust verksummerki. Nokkru síðar reru junkarar, gerði þá andvirði mikið og brotnuðu árarnar hver af annari. Spurðist ekki til þeirra síðan.
Önnur saga segir að að þar hafi tveir bræður búið, afarmenn hinir mestu. Þá var sjósókn mikil í Höfnunum, en þó sköruðu þeir bræður fram úr öllum öðrum Hafnamönnum; reru þeir sex- eða áttæru skipi tveir einir. Mikil öfund lék öðrum Hafnamönnum á atgjörvi og afla þeirra bræðra. Gerðu þeir margar tilraunir til að stytta þeim aldur fyrir utan það hvað þeir spilltu veiðarfærum þeirra. Oft söguðu þeir sundur keipa-nagla þeirra, en þeir reru þá við kné sér. Loksins boruðu þeir sundur árar þeirra undir skautum; en við það fórust þeir. Sagt hefur verið að þeir væru útlendir menn og af þeim taki bærinn nafn. Það er samt óviðfellt útlenzkir jungherrar færu til sjóróðra.

-Prestastígur
Prestastígur er gömul þjóðleið sem var gengin á milli Hafna og Grindavíkur leiðin er vel vörðuð alla leið. Nafnið Prestastígur er nýlegt heiti á fornri og fyrrum fjölfarinni þjóðleið á Reykjanesi, sú skýring er þó líkleg að með prestakallalögum frá árinu 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið.
Þegar þessi forna þjóðleið er farin frá Höfnum liggur leiðin frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn, þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru Sandvík, þaðan hjá Haug og yfir Haugvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar. Þar fylgir gatan hraunjaðri Eldvarpahrauns. Á vegi okkar verður þá nýlegur vegaslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðara. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá og þaðan að Húsatóftum í Staðarhverfi.

-Stofnfiskur
Sérstaða Stofnfisks er fólgin í því að í framleiðsluferlinu fara saman eftirfarandi þættir:
1) umfangsmikil kynbótaverkefni sem byggja á
sterkri sérfræðiþekkingu Stofnfisks hf.
2) afgreiðsla laxahrogna allt árið
3) gott ástand í fisksjúkdómamálum hjá félaginu
Meginframleiðsla Stofnfisks eru laxahrogn sem fyrirtækið getur afgreitt allt árið um kring. Framleiðslan á þeim nemur um 45 milljónum á ári. Að auki framleiðir Stofnfiskur hrogn fyrir regnbogasilungs- og bleikjueldi, en framleiðsla á þeim er um 30 milljónir hrogna á ári.
Auk þess hefur Stofnfiskur hafið framleiðslu á sæeyrum, líkt og í Vogum. Stofnfiskur er leiðandi í kynbótum á ofantöldum tegundum. Stofnfiskur rekur umfangsmikil kynbótaverkefni fyrir lax, bæði á Íslandi og erlendis.
Hjá fyrirtækinu starfa um 35 starfsmenn sem hafa að baki fjölbreytta menntun.

-Hafnaberg

Hafnaberg

Hafnaberg.

Hafnaberg er suður af Höfnum og er þar skemmtileg og vel vörðuð gönguleið en þar eru nokkrir af beztu stöðum til fuglaskoðunar á landinu. Frá Hafnabergi má einnig oft sjá smáhveli í ætisleit rétt við landsteina.
Höfuðborgarsvæðið er víða vel fallið til fuglaskoðunar. Tjörnin er einstök í sinni röð, því að þar er eina kríubyggðin, sem til er í höfuðborg. Auk skógarþrasta hafa auðnutittlingar og maríuerlur komið sér fyrir í borgarlandinu. Starinn hefur látið æ meira á sér bera á höfuðborgarsvæðinu eftir 1965. Fátt er um fugla við og á höfninni um varptímann, en mávategundum fjölgar, þegar líður á sumarið og í oktober er þar að finna allt að átta tegundum eftir að bjartmávurinn kemur frá Grænlandi. Á Gróttusvæðinu er upplagt að skoða fjörufuglana á vorin og haustin. Algengustu varpfuglarnir eru sandlóa, lóuþræll og sendlingur auk rauðbrystings, tildru og sanderlu, sem eru fargestir.
Á Reykjanesskaganum eru fuglabjörg í Hafnabergi og Krýsuvíkurbjargi. Þar eru toppskarfar, síla- og bjartmávar, álka, Lundi, langvía og stuttnefja. Teista býr víðast um sig í sprungum og í skjóli stórgrýtisins neðst í fuglabjörgunum. Þórshani fannst til skamms tíma við Sandgerði og sendlingur og snjótittlingur verpa umhverfis bæinn. Við Garðskagavita er eini opinberi fuglaskoðunarstaður landsins.

-Stóra-Sandvík
Nú komum við að syðri troðningnum (8,0) sem liggur niður í Stóru-Sandvík. Hér var melgresi sáð um 1950 til að hefta sandfok. Eins og sjá má hefur það tekist vel. Tjörnin sem prýðir svæðið og laðar að sjó og vaðfugla í stórum flokkum, myndaðist ekki fyrr en melgresið hafði stöðvað fokið. Hún er því gerð af mannavöldum! Afleiðingar hrikalegra náttúruhamfara blasa við í Stampahrauni í suðvestri og Eldvörpum í austri. Ævagamlar heimildir segja að árið 1000 hafi mest allt Reykjanes sokkið í sjó og Geirfuglasker komið upp. Þá átti landið að hafa legið langt út fyrir Eldey í norðvestur en Eldey og drangar við hana hafi áður verið fjöll á Reykjanesskaganum. Til að girða fyrir misskilning skal aftur ítrekað að Reykjanesskagi og Reykjanes er tvennt ólíkt þótt skaginn dragi nafn af þessu litla nesi yst á honum.

Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, voru stofnuð fyrir rúmum þrjátíu árum með það meginmarkmið að græða upp landið og sporna við uppblæstri og landeyðingu. Þá var þjóðin á fleygiferð inn í nútímann með tilheyrandi uppbyggingu og nýjungum og lítill ágreiningur um nýtingu náttúruauðlindanna. Menn veiddu fisk úr sjó og beisluðu fallvötn landsins til að veita birtu og yl inn á heimili landsmanna. Fátæk þjóð þróaðist á örskömmum tíma í nútíma þjóðfélag. Tækninýjungar, betri húsakynni og greiðari samgöngur hafa bætt líf okkar og auðveldað á margan hátt. En í skeytingarleysi mannsins og kappi við að lifa við allsnægtir hefur verið gengið of nærri náttúrunni sem var ætlað að klæða okkur og fæða um ókomin ár.

Áherslur í starfi Landverndar hafa breyst í takt við tímann og ný viðfangsefni á sviði umhverfismála blasa við. Heimsmyndin er önnur og vandamál sem áður voru óþekkt eða staðbundin hafa skotið upp kollinum og eru orðin sameiginleg vandamál heimsins. Fátækt, ofnýting náttúruauðlinda, eyðing regnskóga, mengað andrúmsloft, skortur á hreinu vatni, gróðurhúsaáhrif og mengun hafsins eru viðfangsefni sem voru áður ekki fyrirferðamikil í umræðunni en eru nú viðurkennd vandamál sem þjóðir heims þurfa að takast sameiginlega á við. Þar er Ísland ekki undanskilið.

-Stampar
Á árunum 1210-1230 má segja að Reykjanesið hafi logað stafnanna á milli og leikið á reiðskjálfi. Annálar greina frá eldsumbrotum með stuttum hléum, á og úti fyrir Reykjanesi á 12. og 13. öld. Samkvæmt þeim hefur gosið á Reykjanesi árið 1118, og a.m.k. 13 sinnum á 13. öld. Sagt er að sumum eldgosum hafi fylgt miklir landskjálftar og þess getið að svartamyrkur hafi verið um annars hábjartan dag (1226) og að Reykjanesið hafi brunnið (1210 og 1211).
Í hamförum á fyrri hluta 13. aldar er talið að byggð hafi eyðst á Reykjanesi en merki um hana sjást m.a. við Skjótastaði norðan Stóru-Sandvíkur. Í annál er þess getið að 18 manns hafi farist á Reykjanesi í landskjálfta og eldi árið 1118. Næsta lítið er vitað um sögu Hafna á 14. og fram á síðari hluta 16. aldar eins og margra annarra staða á landinu, m.a. vegna þess að kirkjubækur, sem geymdar voru í Viðey, eyðilögðust í bruna. Þó munu vera til heimildir um mikinn landsskjálfta 1389 og að 1390 hafi hálft Reykjanesið brunnið. Til mun vera heimild um að eldur hafi komið upp í hafi fyrir Reykjanesi 1420 og að þá hafi skotið upp landi. Einnig er getið um eld fyrir Reykjanesi 1422 og aftur 1584. Í annál er greint frá eldi í ,,Grindavíkurfjöllum“ árið 1661 og hafi sést oft, fyrir og eftir jól, á Norðurlandi. Til er heimild um að árið 1706 hafi komið upp eldur í sjó fyrir Reykjanesi og einnig 1783 fyrir sunnan Geirfuglasker: Kom þá upp land sem sökk aftur (Nýey). Síðasta gos sem minnst er á í annálum, á eða fyrir Reykjanesi, á að hafa verið árið 1830 en þá sigu Geirfuglasker í sjó. Síðustu eldsumbrot sem heyrst hefur um, fyrir Reykjanesi, eiga að hafa átt sér stað í kringum 1930. Á þá að hafa gosið á sjávarbotni nálægt Eldey.

Gossaga Reykjanessskagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin virðist hafa verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin. Dyngjugos virðast hafa verið algeng á fyrri hluta Nútíma þ.e. fyrir 5000 – 10 000 árum en sprungugosin hafa verið nær einráð síðustu 5000 árin.
Eldgos eru ekki jafndreifð í tíma. Þau virðast koma í hrinum. Á Reykjanesskaganum koma hrinurnar á um 1000 ára fresti og stendur hver goshrina í 200 – 350 ár. Síðasta hrinan hófst um miðja tíundu öld og lauk á seinni hluta þrettándu aldar.
Eldgosin hegða sér þannig að í upphafi þeirra opnast spunga og landrek á sér stað. Rekið er nokkrir metrar í hverri hrinu. Hvert gos er líka í hrinum. Það stendur í fáeina daga eða vikur og síðan er að draga úr virkninni í mánuði eða ár áður en næsta gos verður.
Neðansjávargos verða einnig á Reykjaneshryggnum, suðvestur af Reykjanesi. þau hegða sér svipað og gos undir jökli. Spungugos undir jökli mynda móbergshryggi og eru þeir algengir á Reykjanesskaganum.

Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos.
Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1000 í þessu gosi myndaðist feiknarmikið hraun.
Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjóómílna fjarlægð frá stöndinni.
Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.

-Eldey

Eldey

Eldey.

Eldey er sérkennileg 77 m há þverhnípt klettsey sem liggur tæpa 15 km frá landi og er talin m.a. vera mesta Súlubyggð Evrópu (alfriðuð). Milli Eldeyjar og Reykjaness er Húllið – fjölfarin siglingaleið. Vegarslóði (6,7) á hægri hönd liggur niður í Stóru-Sandvík og að gamla Reykjanessveginum þar sem heitir Skjótastaðir en það er hár höfði norðan við víkina en þar mun hafa verið byggð fyrr á öldum. Annar vegarslóði liggur í Stóru-Sandvík niðri í dalverpinu framundan. Frá útskoti (7,0) við enda beygjunnar til austurs sést ofan í Stóru-Sandvík vaxna melgresi. Handan hennar í suðri tekur við talsvert hraun, kolsvart og sviðið með foksand í flákum. Stamparnir þrír, sem blasa við framundan handan víkurinnar, eru sérkennilegir eldgígar og eftir þeim nefnist hraunið Stampahraun og nær fram í sjó. Eldgígarnir tveir sem sjást suðvestar, lengra til hægri og utar á nesinu, nefnast Eldborgir. Eins og við er að búast eru þessir upptippingar notaðir sem mið til staðsetningar fiskiskipa úti á Eldeyjarbanka. Sú Eldborganna sem sést af grynnra vatni nefnist Eldborg grynnri og stendur sunnar og nær sjó. Eldborg dýpri nefnist sú sem sést af dýpra vatni. Er hún stærri og stendur vestar. Þar heitir Eldborgahraun. Fjær til norðausturs eru mikil ummerki eldsumbrota. Eru það nefnd Eldvörp. Hafnamenn nefna það einnig í daglegu tali Hörzl, þ.e. ójöfnur. Stamparnir, Eldborgirnar og aðrar eldstöðvar eru eins og misstórir hnútar á svörtu bandi í landslaginu og setja ógnþrunginn svip á umhverfið, jafnvel svo að sumt fólk verður hrætt og þorir ekki að dvelja lengi á svæðinu af ótta við eldgos – enda er hér eldur undir, sem sést m.a. á hverasvæðinu og blásandi borholum austan Reykjanessvita.

Þverhnípt klettaeyja (77 m.y.s) 8 sjómílur suður af Reykjanesi. Eldey er mynduð úr móbergi og er 0,03 km2. Hún er innsta skerið í skerjaklasa miklum sem stendur á einni grynningu og nær 45 sjómílur frá landi. Kallast hann Fuglasker eða Eldeyjar. Eitt þessara skerja var Geirfuglasker þar sem síðustu höfuðstöðvar geirfuglsins en það sökk að mestu í eldsumbrotum 1830.
Í Eldey er mesta súlubyggð sem þekkist í heiminum og er eyjan jafnan þakin súlu. Við talningu, sem gerð var 1949 var fjöldi súlna þar talin um 70 þúsund.

Reykjanes

Reykjanes – Karlinn.

Hraun
10. Grindavík – Festarfjall – Ögmundarhraun
-Haldið frá Grindavík

-Þórkatla – þjóðsaga
Þorkatla bjó á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.
Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.
Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.

-Þórkötlustaðanesið – björgun – útgerð
Svo heitir að vestanverðu nesið milli Hraunsvíkur og Járngerðarstaðavíkur við Grindavík. Að austanverðu heitir það Þorkötlustaðanes. Á Hópsnesi er viti, reistur 1928.
Hér fyrr á öldum gátu sjómennirnir, sem fóru í róður að morgni, aldrei verið vissir um að komast heilir og höldnu að landi að kveldi. Enda eru mörg dæmi þessa. Sem betur fer eru einnig mörg dæmi og merkar sagnir um mannbjörg eftir ófarir manna á hafi úti. Veður gátu skipt um snögglega og þótt ekki hafi verið róið langt gat róðurinn að landi bæði tekið langan tíma og verið erfiður. Stundum urðu sjómenn að bregða á það ráð að leita annað en ætlunin var. Þannig gátu sjómenn frá Járngerðarstöðum oft treyst á var í Þórkötlustaðasbótinni þegar þannig skipaðist veður í lofti. þann 24. mars 1916 fóru t.d. 24 árabátar í róður frá Grindavík að morgni. Óveður skall skyndilega á og komust bátsverjar fjögurra báta ekki að landi. Þeim var hins vegar öllum bjargað, 38 mönnum, af áhöfn kúttersins Esterar frá Reykjavík. Þegar komið var með skipverja að landi þremur dögum síðar urðu miklir fagnaðarfundir í plássinu. Sumir segja það hafi verið sá mesti gleðidagur, sem Grindvíkingar hafi upplifað.
Um árið 1940 lenti Aldan frá Vestmannaeyjum upp á skerjum á Hellinum, en svo nefnist klettahlein, sem gengur fram úr kampinum, skammt austanvið Hópsvörina, og út í sjó. Mannbjörg varð, og báturinn náðist út aftur. Þótti öllum, sem fylgdust með siglingu bátsins, það með ólíkindum. Sigling inn í sundin var vandasöm, og fyrr á tímum fóru sjómenn eftir framangreindum sundvörðum og öðrum leiðarmerkjum á leið sinni inn á þau. En erfitt gat verið að stýra bátum inn þau því mikla þekkingu og reynslu þurfti til þess í vondum veðrum. Dæmi eru um að ekki hafi verið við neitt ráðið og að Ægir hafi annað hvort kastað bátunum upp á sker og strönd eða hreinlega fært þá á kaf. Þannig fylgdust t.d. íbúar Grindavíkur angistafullir og hjálparvana á sjötta áratugnum með því af ströndinni er lítill bátur með þremur mönnum innanborðs á leið inn í Hópið var skyndilega færður í kaf og sjómennirnir drukknuðu svo til fyrir framan nefið á þeim, án þess að það gæti fengið rönd við reist.
Rétt fyrir utan lendinguna á Járngerðarstöðum eru miklir þarar og grynningar, Rif kölluð. Á þeim hafa mörg skip af þeim beðið meira eða minna tjón og margur maður við þau látið lífið. Fyrrum var hættan mikil á leið inn Járngerðarstaðasundið er Svíravarða bar í Stamphólsvörðu. Þá voru þrengslin mest. Þá eru á stjórnborða Manntapaflúð, en Sundboði á bakborða. Aðstæðurnar urðu kannsi ekki síst til þess að álög Járngerðar á sundið, sem lýst er í þjóðsögunni, gengu eftir, en skv. henni áttu tuttugu bátar að farast þar eftir að hún hafði séð á eftir eiginmanni sínum og áhöfn hans í öldurótið.
Austan við Helli eru tveir básar; Heimri-Bás og Syðri-Bás og þar fyrir utan Sölvaklappir, en þar mun hafa verið sölvataka frá Hópi. Fram af klöppunum er klettur, sem Bóla heitir, og upp af honum, uppi á kampinum, var varða, sem kölluð var Sigga og var mið af sjó. Grjótið úr henni var tekið í hafnargarðinn er hann var byggður. Sigga var síðar endurhlaðin af Lionsmönnum í Grindavík, en sjórinn hefur nú fært grjótið úr henni að mestu í lárétta stöðu á ný.
Þegar gengið er austur með Nesinu má sjá nokkur upplýsingaspjöld um strönd á síðustu öld. Áður en komið er að fyrsta spjaldinu verður fyrir hluti braksins úr Hrafni Sveinbjarnarsyni, sem strandaði þarna utan við 1988. Sagt er að stýrimaðurinn hafi sofnað á leið til lands svo báturinn stýmdi beint upp á ströndina utan við Hellinn, austan við innsiglinguna. Mannbjörg varð, en þegar reyna átti að ná bátunum út gerði vonsku veður með þeim afleiðingum að bátinn tók í tvennt og Ægis spýtti leifunum síðan langt upp á land þar sem þær eru nú. Afl hamsjávarins sést vel á brakinu, þ.e. hvernig hann hefur hnoðað járnið og rifið það í sundur og fært hluta þess langt upp á land, upp fyrir háan malarkampinn.
Fyrsta spjaldið um skipsskaðana er um Gjafar VE 300. Báturinn fórs þarna fyrir utan 27. febrúar árið 1973. Tólf manna áhöfnin var bjargað frá borði með aðstoð björgunarsveitarinnar Þorbjörns, en saga sveitarinnar gæti verið og verður umfjöllunarefni út af fyrir sig. Fáar sjóbjörgunarsveitir á landinu hafa bjargað jafn mörgum sjómannslífum og sveitin sú.
Næst er skilti um flutningaskipið Mariane Danielsen er fór þarna upp á ströndina í vonsku veðri eftir að hafa siglt út úr Grindavíkurhöfn þann 20. janúar 1989. Átta mönnum úr áhöfninni var bjargað í land með aðstoð þyrlu, en yfirmennirnir neituðu að yfirgefa skipið. Þeir voru síðan dregnir í land með aðstoð björgunarstóls daginn eftir.
Vélbáturinn Grindvíkingur GK 39 fórst þarna utan við 18. janúar 1952. Fimm menn fórust. Lík fjögurra fundust daginn eftir, en lík þess fimmta fanns þar skammt frá daginn eftir. Neðan við kampinn, þar sem báturinn fórst, er langur skerjatangi út í sjó, svonefnd Nestá. Hún fer á kaf í flóðum.
Eldhamar GK 13 lenti uppi í grynningunum þann 22. nóvember 1991. Sjórinn kastaði skipinu fram og til baka uns það steyptist með stefnið niður í djúpa gjá. Af sex skipverjum um borð komst einn lífs af. Þetta óhapp varð neðan við vitann á Nesinu.
Varðandi strand franska togarans Cap Fagnet, þá strandaði hann 24. mars 1931 við Skarfatanga við Hraun. Allri áhöfninni var bjargað, 38 manns, með fluglínutækjum sem þá voru tiltölulega nýkominn hingað til lands fyrir tilstuðlan Slysavarnafélags Íslands. Var þetta í fyrsta skipti á Íslandi sem fluglínutækin voru notuð hér við land til björgunar. Þarna eru enn ketillinn úr skipinu ásamt tveimur akkerum. Skrúfan af skipinu fyrir utan björgunarsveitarhúsið í Grindavík, minnisvarði um þessa fræknu björgun.
Annar tilgangur göngunnar var að skoða þurrkbyrgin í Strýthólahrauni.
Neðan við Vitann heitir Látur. Þarna var selalátur. Fleiri selanöfn eru á þessum svæði, s.s. Hópslátur og Kotalátur
Suðaustur af vitanum er grasflöt niður við kampinn; Stóra-Látraflöt. Kampurinn hefur nú að mestu þakið hana grjóti. Austur af vitanum er grasi vaxinn hóll; Tófuflatarhóll. Þar var tófugreni. Annað greni má sjá í hrauninu ofan við vestari hlutann af Hrafni Sveinbjarnarsyni. FERLIR merkti það áður en áfram var haldið.
Austan við Tófuflatarhól eru Strýthólar, þ.e. Vestri-Strýthóll, með tveimur þúfum, en Eystri-Strýthóll er skammt austar niður við Kampinn. Austar er Þórkötlustaðabótin. Í henni hafa nokkrir bátar strandað, t.d. frönsk skúta um miðja 19. öld. Áhöfnin gat gengið í land og heim að Einlandi þar sem hún knúði dyra eftir að skipstjórinn hafði fallið í hlandforina framan við bæinn. Flest skipanna, sem þarna hafa strandað, hafa orðið þar til í fjörunni, en sjórinn hefur tekið það til sín, sem skilið hafði verið eftir. Austast, utan við Klöpp, varð eitt af stærstu sjóslysunum. Það var nóttina áður en Aldan rak upp í Nesið að vestanverðu að annan vélbát rak frá Vestmannaeyjum, Þuríði formann, sem einnig varð fyrir vélarbilun í sama veðrinu og rak þarna upp. En þar tóku höfuðskepnurnar öðruvísi á hlutunum. Þegar fólk kom á fætur á Þórkötlustöðum, varð það vart við óeðlilega mikið brak í fjörunni, og þótti all væri mjög maskað niður. Sást þó, að þarna hafði Þuríður formaður rekið upp og hún farist með allri áhöfn.
Hinn 8. desember 1923 gerðist það í austan veðri og snjókomu, að þýskur togari strandaði utan við Grindavík. Áhöfnin komst í björgunarbáta og bjargðaist í Blásíðubás. Þórkötlustaðanesmenn töldu, að eftir strand þetta hafi komist festa á veiðarfæri þeirra, sem ekki hefði verið þar áður, á leirbotni skammt út af víkinni, og veiðarfærin oft ryðlituð, er þau komu upp.
Strýthólahraun, stundum nefnt Strútuhóalhraun, er nefnt eftir Strýtuhól vestari og Strýtuhól eystri, sem sjá má þarna inn í hrauninu. Í hrauninu eru fjölmörg hlaðin fiskbyrgi og þurrkgarðar. Ná þau svo til frá veginum niður að Leiftrunarhól, sem stendur á sjávarkambinum. Þessi byrgi eru fáum kunn, enda falla þau mjög vel inn í hraunið. Þegar hins vegar er staðið við byrgin sjást þau hvert sem litið er. Þegar staðið var á einum hraunhólnum mátti t.d. telja a.m.k. 14 sýnileg byrgi í hrauninu. Ekki er gott að segja hversu mörg þau eru í heildina. Norðan vegarins eru hlaðnir þurrkgarðar. Á þessu svæði má auk þess sjá standa undir vindmyllur, heimtraðir, veglegar sundvörður o.fl. o. fl. Þá má sjá, ef grannt er skoðað, mjög gamlar minjar sunnan og vestan við Flæðitjörnina.
Þórkötlustaðanesið er einstaklega áhugavert til útivistar og ekki síður út frá sögulegum forsendum. Þurrkbyrgin í Strýthólahrauni eru t.d. engu ómerkilegri en þurrkbyrgin á Selatöngum og e.t.v. ekki yngri en byrgin, sem þar eru. Bændur og sjómenn frá Hrauni réru frá Þórkötlustaðanesinu og eflaust eru byrgi þessi minjar eftir þá. Þau gætu þess vegna, sum a.m.k., verið allt frá þeim tíma er Skálholtsbiskupsstóll gerði út frá sjávarbæjunum við Grindavík, en svæðið var eitt mesta og besta matarforðabúr stólsins um alllangt skeið og ein helsta undirstaðan undir fiskútflutningi hans.
Fleiri lýsingar af Þórkötlunesinu, t.a.m. svæðinu austan Strýthólahrauns, má sjá á vefsíðunni undir Fróðleikur (Þórkötlustaðanes) þar sem Pétur Guðjónsson, skipstjóri lýsir því, en hann ólst upp í Höfn, einu af þremur húsunum í Þórkötlustaðanesi.
Tvískipt heitið á Nesinu eru líkt og dæmi eru um ýmis fleiri en eitt örnefni á kortum Landmælinga yfir sama stað, kennileiti eða náttúrufyrirbæri. Þannig er Grímmannsfell vestast á Mosfellsheiði jafnframt nefnt Grímarsfell á korti Landmælinga. Nafnaskiptingin kom við sögu dómsmáls á meðal bænda í Mývatnssveit, Hverfell versus Hverfjall, árið 1999, en í honum kemur fram að annað dæmi megi nefna um Hópsnes við Grindavík sem einnig er nefnt Þórkötlustaðanes á korti Landmælinga.
Reykjanesskaginn býður upp á meira en fagra náttúru og útiveru. Þess má vel geta hér að gangan frá Saltfisksetrinu austur að Herdísarvík skammt austan gömlu bryggjunnar á Þórkötlustaðanesi tekur u.þ.b. 30 mínútur. Farið er um stórbrotið hraunsvæði á vinstri hönd og minjar skipsskaðanna á þá hægri. Þessi leið er, ef vel er á haldið sögulega séð, ein sú magnaðasta á gjörvöllu Reykjanesinu. Og til að skynja áhrifamátt hafsins og smæð mannsins er nóg að stíga upp á kampinn og þenja skynfærin.

-Strýthólahraun – byrgi
Hlaðin byrgi frá því á 17. Öld. Hugsanlega útilegumanna – fundust seint á 19. öld.

-Slokahraun – byrgi
Svipað og í Strýthólahrauni – garðar.
-Hraun – Tyrkir – dys – hellir

-Kapella
Frá 15. öld – grafin upp um 1950.

-Landnámsmenn
Landnámabók greinir frá því að landnámsmenn hafi komið til Grindavíkur í kringum árið 934. Landnámsmenn voru tveir. Þeir hétu Molda-Gnúpur Hrólfsson sem nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson sem nam Selvog og Krýsuvík. En allt fram til 1946 náði Grindavíkurhreppur yfir tvær sóknir Staðarsókn og Krýsuvíkursókn. Synir Moldar-Gnúps settust að á þrem höfuðbólum sem hin 3 hverfi Grindavíkur heita eftir. Austast er Þórkötlustaðahverfi, þá Járngerðarstaðarhverfi, þar sem megin byggðin er í dag, en Staðarhverfi heitir vestast.

Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, Álftaver allt; þar var þá vatn mikið og álftveiðar á.
Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, son Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar.
En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.
Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, en hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímgaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð skjótt vellauðigur; síðan var hann Hafur-Björn kallaður. Það sá ófreskir menn, að landvættir allar fylgdu Hafur-Birni til þings, en þeim Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar.
Hafur-Björn átti (Jórunni, stjúpdóttur Gnúps bróður síns). Þeirra son var Svertingur, er átti Húngerði, dóttur Þórodds Tungu-Oddssonar og Jófríðar Gunnarsdóttur, þeirra dóttir Þorbjörg móðir Sveinbjarnar, föður Bótólfs, föður Þórdísar, móður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona. Gnúpur Molda-Gnúpsson átti Arnbjörgu Ráðormsdóttur, sem fyrr er ritað. Iðunn var dóttir Molda-Gnúps, er átti Þjóstar á Álftanesi. Þormóður var son þeirra.

-Fiskveiðar
Þriðji stærsti útgerðarbær á landinu.

-Tyrkjaránið -segja nafni fjallsins (festin),
Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar ræntu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.
Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir.
Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest. Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.
Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu.
Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollað hvarfi þeirra.
Engin dys sjást þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.

-Festarfjall – Dúnknahellir – jarðfræði – saga
Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall (190 m.y.s). Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin.
Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.

-Fuglar
Fuglar í og við Festarfjall eru að mestu fýll, rita, teista og lundi.

-Jarðfræði
Festarfjall, sem og Húsafjall (174 m.y.s.) og Fiskidalsfjall, auka Lyngfells og Lambafells, eru að mestu úr bólstabergi. Einnig eru í því móberg, brotaberg og grágrýtisberggangar. Tveir slíkir mynda “festina” er fjallið dregur nafn sitt af. Í berginu, einkum ofan við Hraunsvíkina, má auk þessa sjá rauðleit gjalllög, sem eru eins og “krem” á milli harðari kökubotna. Sjónn grefur þessi grófu hraunlög út undan þeim harðari og brýtur þau síðan smám saman niður. Þannig sjáið þið nú inn í mitt Festarfjallið. Það varð til fyrir u.þ.b. 12-16 þúsund árum síðan þegar jökull lá yfir landinu. Síðan sáu jökullinn, vatn, vindar og frost um að móta landslagið eins og þið sjáið það nú.
Fagurt útsýni norður efttir Hraunsvíkinni.

-Malarnám
Malarnámið hægra megin er frá því á 6. áratug 20. Aldar. Fyrirtækið hét Ægissandur. Ekið var með stóru sjálfmokandi tæki niður í sandfjöruna, það fyllt og efnið flutt upp í námuna. Þar var það sigtað, sandur annars vegar og sjávargrjót hins vegar. Úr efninu voru hin steinsteyptu hús byggð. Þegar alkaliskemmdir fóru að koma í ljós undan söltum sandinum var farið að taka sandinn á þurru landi.
Gísli á Hrauni er með malarnámið í Fiskidalsfjalli, en auk þess er nú farið að hirða sandinn í Húsafjalli, en svæðið var áður hluti af varnarsvæðinu, sbr. frásögnina af hlustunarstöðvunum við Grindavík.

-Rallývegur
Þessi vegur, Hraunsvegur eða Ísólfsskálavegur, er tengast síðar Krýsuvíkurvegi, hefur verið vinsæll á meðal rallýökumanna vegna þess hversu hlykkjóttur og holóttur hann er öllu jafnan. Þá er þetta einn af fáum malarvegum, sem eftir er á Reykjanesi. Annar vinsæll kafli er vegurinn milli Grindavíkur og Reykjanesvita.

-ÍsólfsskáliÍsólfur bjó á Skála. Gömul sögn segir að hann sé dysjaður í Geldingadal hér uppi í Fagradalsfjalli því “hann vildi láta heygja sig þar sem sauðir hans undur hag sínum svo vel.”
Guðmundur Hannesson var annar frægur bóndi á Skála. Hann kom frá Vigdísarvöllum hér austan við Núpshlíðarháls um aldamótin 1900. Fjórði ættliður hans á nú aðstöðuna og eignirnar á Ísólfsskála. Guðmundur er frægastur fyrir að hafa eignast um 20 börn á lífsleiðinni, auk þess sem hann var mikill veiðimaður og var víðförull þar sem hann fór um.

-Drykkjarsteinn – saga – ljóð –
Símon Dalaskáld
Alfaravegur lestamanna og vermanna að austan er sóttu fiskifang til verstöðvanna á Suðurnesjum haust og vor fyrr á tímum lá með suðurströndinni um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík og Krýsuvík til Grindavíkur og þaðan til Hafna. Milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, og þó miklu nær Grindavík, í landi Ísólfsskála, greindist vegur þessi í tvær áttir. Lá annar vegurinn áfram til Grindavíkur en hinn yfir fjallgarðinn til Vogastapa.
Þar sem vegirnir skiptast er steinn sá er Drykkjarsteinn nefnist. Er hann mikill um sig, en ekki allhár eða svo sem hálfönnur mannhæð þar sem hann er hæstur. Nafn sitt dregur steinninn af því að í honum eru holur nokkurar þar sem vatn safnast fyrir. Svo var sagt að í hinni stærstu þeirra þrjóti ekki drykkjarvatn nema í langvinnustu þerrum. Hefir þetta komið sér harla vel fyrir ferðamenn er þarna áttu leið um, þar sem hvergi var vatn að fá á þessum vegi á löngu svæði og menn og hestar voru því örmæddir af þorsta er að Drykkjarsteini kom og svaladrykknum sárlega fegnir. Varð steinninn þannig langþráður áfangastaður ferðamönnum og var ekki laust við að á honum hvíldi helgi nokkur, þar eð varla þótti einleikið hversu haldsamur hann var á drykkjarvatn, jafnvel í mestu langviðrum.
Þó gat það við borið að vatnið þryti í steininum eins og þessi saga sýnir. Einhverju sinni bar svo við sem oftar að ferðamenn voru á suðurleið um veg þennan. Þurrkar höfðu miklir á undan gengið svo að hvergi var vatn að fá á leiðinni. Voru mennirnir því mæddir af þorsta og hugðu því gott til að fá sér nægan svaladrykk er þeir kæmu að Drykkjarsteini. En er þangað kom bar nýrra við því að allar holurnar voru tómar og engan dropa þar að fá. Urðu mennirnir vonsviknir mjög eins og vænta mátti. Í gremju sinni tók þá einn þeirra til þess klækibragðs að hann ósæmdi í stærstu holuna. Segja sumir, að hann hafi migið í hana, en aðrir, að hanna hafi gengið þar örna sinna. Eftir þetta brá svo við að holan var jafnan þurr og það engu að síður þótt rigningum gengi.
Liðu svo nokkur ár að ekki bar til tíðinda. Átti þá þessi sami maður enn leið um veg þennan og var ferðinni heitið til Grindavíkur. Vissu menn það síðast til ferða hans er hann lagði upp frá Krýsuvík. En fáum dögum síðar er farið var um veginn fannst hann dauður undir Drykkjarsteini og kunni það enginn að segja hvað honum hefði að bana orðið. En eftir þetta brá Drykkjarsteinn til sinnar fyrri náttúru, og hefir vatn eigi þrotið í honum síðan.

-Siglubergsháls – saga – grindur
Sagan af Hafur-Birni og grindverkagerð, sbr. Grindarskörð.

-Skökugil
Saga af smérkökunni, sem datt af hesti, sbr. Méltunnuklif.

-Móklettar
Landamerki – 1880.

-Fagradalsfjall – Geldingadalur – Ísleifur

-Sandakravegur
Tengis Skógfellavegi við Stóra-Skógfell – aðrir segja við Mosa ofan við Grindavíurgjá.

-Lyngfell
Fjallið austan Festarfjalls.

-Litli-háls
Ekið eftir hann austan Lyngfells. Norðar er Borgarhraun. Í því er Borgarhraunsborgin, auk Borgarhraunsréttarinnar.

-Drykkjarsteinsdalur – Drykkjarsteinn – saga
Alfaravegur lestamanna og vermanna að austan er sóttu fiskifang til verstöðvanna á Suðurnesjum haust og vor fyrr á tímum lá með suðurströndinni um Þorlákshöfn, Selvog, Herdísarvík og Krýsuvík til Grindavíkur og þaðan til Hafna. Milli Krýsuvíkur og Grindavíkur, og þó miklu nær Grindavík, í landi Ísólfsskála, greindist vegur þessi í tvær áttir. Lá annar vegurinn áfram til Grindavíkur en hinn yfir fjallgarðinn til Vogastapa.
Þar sem vegirnir skiptast er steinn sá er Drykkjarsteinn nefnist. Er hann mikill um sig, en ekki allhár eða svo sem hálfönnur mannhæð þar sem hann er hæstur. Nafn sitt dregur steinninn af því að í honum eru holur nokkurar þar sem vatn safnast fyrir. Svo var sagt að í hinni stærstu þeirra þrjóti ekki drykkjarvatn nema í langvinnustu þerrum. Hefir þetta komið sér harla vel fyrir ferðamenn er þarna áttu leið um, þar sem hvergi var vatn að fá á þessum vegi á löngu svæði og menn og hestar voru því örmæddir af þorsta er að Drykkjarsteini kom og svaladrykknum sárlega fegnir. Varð steinninn þannig langþráður áfangastaður ferðamönnum og var ekki laust við að á honum hvíldi helgi nokkur, þar eð varla þótti einleikið hversu haldsamur hann var á drykkjarvatn, jafnvel í mestu langviðrum.
Þó gat það við borið að vatnið þryti í steininum eins og þessi saga sýnir. Einhverju sinni bar svo við sem oftar að ferðamenn voru á suðurleið um veg þennan. Þurrkar höfðu miklir á undan gengið svo að hvergi var vatn að fá á leiðinni. Voru mennirnir því mæddir af þorsta og hugðu því gott til að fá sér nægan svaladrykk er þeir kæmu að Drykkjarsteini. En er þangað kom bar nýrra við því að allar holurnar voru tómar og engan dropa þar að fá. Urðu mennirnir vonsviknir mjög eins og vænta mátti. Í gremju sinni tók þá einn þeirra til þess klækibragðs að hann ósæmdi í stærstu holuna. Segja sumir, að hann hafi migið í hana, en aðrir, að hanna hafi gengið þar örna sinna. Eftir þetta brá svo við að holan var jafnan þurr og það engu að síður þótt rigningum gengi.
Liðu svo nokkur ár að ekki bar til tíðinda. Átti þá þessi sami maður enn leið um veg þennan og var ferðinni heitið til Grindavíkur. Vissu menn það síðast til ferða hans er hann lagði upp frá Krýsuvík. En fáum dögum síðar er farið var um veginn fannst hann dauður undir Drykkjarsteini og kunni það enginn að segja hvað honum hefði að bana orðið. En eftir þetta brá Drykkjarsteinn til sinnar fyrri náttúru, og hefir vatn eigi þrotið í honum síðan.

-Borgarhraunsborg
Frá Viðeyjarklaustri.

-Borgarhraunsrétt
Undir hraunkantinum í norðanverðu hrauninu.

-Hlínarvegur 1932
Fimm menn lögðu veginn að beiðni Hlínar Johnsen í Krýsuvík, síðar Herdísarvík, árið 1932. Fengu 100 kr. fyrir hver. Allir frá Skála, nema einn. Hann var að Vestan.


-Grettistak
Hattur – nendur vegna hins hattlaga forms.

-Nótarhóll – byrgi – þurrkgarðar.

-Kista
Kistulaga steinn út í Skollahrauni.

Skollahraun
2000-3000 ára gamalt.

-Slaga – bergsaga.
Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir að Slaga hafi breytt afstöðu hans til aldurs bergsins á sunnanverðum Reykjanesskagagnum. Jökulrispaðar klappir í neðri lögum, sem benda til hærri aldurs en áður var talið. Fýll verpir í berginu. Gamlir sjávarhamrar áður en Skollahraun (Höfðahraun) rann fyrir um 2000-3000 árum síðan. Austar er Katlahraun.

-Vörður
Hlaðnar af Bergi og vinnumanni á Ísólfsskála um 1920.