Hörður Zóphaníasson tók viðtal við formann Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er birtist í Alþýðublaði Hafnarfjarðar, jólablaðinu, árið 1964 undir fyrrisögninni „Plöntum, vökvum rein við rein, ræktin skapar framann„:
„Jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar hafði hug á að kynna fyrir lesendum sínum Skógræktarfélag Hafnarfjarðar og heimsótti því formann félagsins, séra Garðar Þorsteinsson, og lagði fyrir hann ýmsar spurningar um skógræktarstarfið. Séra Garðar leysti greiðlega úr öllum spurningum um skógræktina í Hafnarfirði, og gefum við honum hér með orðið.
Garðar Þorsteinsson.
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar var stofnað hinn 25. október 1946. Það ár var Skógræktarfélagi Íslands breytt í samband héraðsskógræktarfélaga og sérstakt skógræktarfélag stofnað hér. Fyrsta stjórn félagsins skipuðu þessir menn: Ingvar heitinn Gunnarsson kennari, sem var formaður, Jón Magnússon frá Skuld, Jón Gestur Vigfússon, sparisjóðsgjaldkeri, Gunnlaugur heitinn Kristinsson, kennari og sandgræðslustjóri, og Þorvaldur heitinn Árnason skattstjóri.
Fjórir menn hafa fram að þessu gegnt formannsstörfum í félaginu: Ingvar Gunnarsson 1946—’49, Þorvaldur Árnason 1949—’54, Jón Gestur Vigfússon 1954—’58 og sr. Garðar Þorsteinsson frá 1958 til þessa dags.
Árið 1935 var komið upp svonefndri Skólagirðingu í Undirhlíðum, um 12 ha. svæði innan hennar. Börn úr efsta bekk barnaskólans önnuðust þar gróðursetningu fyrir forgöngu þeirra Ingvars Gunnarssonar kennara, Hákonar Helgasonar kennara og Guðjóns Guðjónssonar skólastjóra.
Gráhelluhraun.
Aðalgróðursetningin fór þar fram á árunum 1937—1939. Árangurinn af þessu skógræktarstarfi hefur orðið mjög góður. Hæstu sitkagrenin eru nú 5 til 7 m há. Á þessum tíma hefur landið batnað stórlega og hefur þetta komið skýrt í ljós: Í fyrsta lagi, að víða þarf ekkert að gera til að hefta uppblástur annað en girða landið, og í öðru lagi hefur orðið þarna stórfelld gróðurfarsbreyting. Til dæmis er svæðið innan girðingar blátt af blágresi fyrri hluta sumars, en utan girðingar er ekki blágresi að sjá. Blágresið hefur djúpar rætur og hjálpar mjög til við að bæta jarðveginn. Þetta sama er einnig að koma í ljós í öðrum girðingum skógræktarinnar. Skólagirðingin gekk fljótt úr sér og var ekki gripheld í mörg ár. Þá fór þessi trjágróður ákaflega illa og furðulegt, að hann skyldi ná sér aftur svo sem raun ber vitni.
Sléttuhlíð.
Árið 1952 samdist svo milli bæjarstjórnarinnar og Skógræktarfélagsins, að félagið tæki við þessari girðingu og sæi um hana framvegis. Skógræktarfélag Hafnarfjarðar lét setja nýja girðingu þarna 1955. Þessi girðing segir bezt til þess, hvers vænta má. Bendir allt til, að trén þarna geti orðið allt að 20 m há. Skólabörnin unnu líka að gróðursetningu í Sléttuhlíð, en svæðið, sem þau gróðursettu í þar, var síðar úthlutað undir sumarbústaði.
Ári eftir stofnun Skógræktarfélags Hafnarfjarðar fær félagið land frá Hafnarfjarðarbæ í Gráhelluhrauni. Var það 8 ha. á stærð. Strax var hafizt handa, svæðið girt og gróðursetning hafin. Árið 1949 er svo Gráhelluhraunsgirðingin stækkuð um 30 ha og er hún því nú 38 ha. að stærð.
Hvaleyrarvatn.
Árið 1957 fær Skógræktarfélagið 35,2 ha. land við Hvaleyrarvatn og er það girt sama ár. Ári síðar, 1958, er stóra girðingin gerð í Stóraskógarhvammi í Undirhlíðum, en innan hennar er 67 ha. svæði. Í Stóraskógarhvammi eru síðustu leifarnar af hinum víðáttumikla birkiskógi, sem upphaflega klæddi allar Undirhlíðar. Þegar girt var, voru þar um 4 m háar birkihríslur á nokkrum stöðum og samfellt birkikjarr á stóru svæði. Nú er gert ráð fyrir því, að á þeim hluta landsins verði eingöngu ræktaður birkiskógur og gamli birkiskógurinn þannig endurnýjaður.
Undirhlíðar – Stóriskógarhvammur.
Loks var árið 1961 þriðja svæðið girt í Undirhlíðum. Það svæði er 60 ha og nær frá Skólagirðingunni og norður undir Kaldá. Höfuðáhugamál félagsins hefur undanfarin ár beinzt að því að girða sem mest, til þess að bjarga landinu frá eyðileggingu ofbeitar. Afgirt land Skógræktarfélags Hafnarfjarðar nú er 212 ha. Samanlögð lengd girðinga félagsins er 14 1/2 km. Í dag mundi það kosta 700 þúsund krónur að koma þessum girðingum upp.
Búið er að gróðursetja í 43,8 ha. af þessu landi félagsins. Þegar Skólagirðingin er frátalin, hefur verið plantað í þetta rúmlega 200.000 trjáplöntum. Mestur hluti þessara plantna er barrviður, svo sem sitkagreni, blágreni, broddgreni, rauðgreni, sitkabastarður, hvítgreni, skógarfura, bergfura, stafafura og lerki. Þá hefur verið plantað allmiklu af birki og verður það gert hlutfallslega meira síðar. Einnig hefur verið plantað út lítið eitt af öðrum trjátegundum. Allmikið af þessu starfi hefur verið unnið í sjálfboðavinnu, einkum fyrstu árin. En síðustu átta árin hefur félagið haft einn fastan starfsmann sumarmánuðina, og sum árin tvo. Það starf hefur einkum verið fólgið í gróðursetningu, áburðargjöf, jarðabótum og viðhaldi á girðingum félagsins.
Piltar úr Vinnuskólanum í Krýsuvík í Stóraskógarhvammi ásamt Hauki Helgasyni.
Árið 1959 kemst sá háttur á, að vinnuflokkur frá vinnuskólanum í Krýsuvík hefur það verkefni meðal annars að vinna að gróðursetningu í Undirhlíðum. Á árunum 1959 til 1962 vinna unglingar og börn úr vinnuskólanum að gróðursetningu undir stjórn Hauks Helgasonar skólastjóra og Helga Jónassonar yfirkennara. En síðastliðin 2 sumur unnu nokkrir hafnfirzkir unglingar að gróðursetningunni undir stjórn kennaranna Guðmundar Þórarinssonar fyrra sumarið, en Björns Ólafssonar og Pálma Ágústssonar sl. sumar og kostaði Hafnarfjarðarbær vinnu unglinganna.
Piltar úr Vinnuskólanum í Krýsuvík við gróðursetningu í Stóraskógarhvammi um 1962.
Allmikið af landi Skógræktarfélagsins er enn ekki hæft til gróðursetningar. Sums staðar eru melar og blásin börð, sem verður að græða. Þar verður að hjálpa náttúrunni til, og ætlum við Alaskalúpínunni þar mikið hlutverk. Hún er sannkölluð undrajurt, vinnur áburð úr loftinu og skilar honum í jarðveginn. Félagið hefur gert tilraunir með hana, sem lofa góðu. Nú þegar klæðir hún heila mela og undirbýr þá undir annan gróður.
Rotaryfélög í Noregi hafa í nokkur ár, eða frá 1959 til 1962, sent félaginu trjáplöntur að gjöf, aðallega bergfuru. Árið 1959 gróðursettu Rotaryfélagar þær trjáplöntur, sem þannig bárust. Alls hafa verið gefnar frá Noregi 42.500 bergfurur og 14.000 sitkagreni.
Góðtemplarar hafa í allmörg ár farið í gróðursetningarferð einu sinni á ári. Góðtemplarareglan í Hafnarfirði verður vafalaust fyrst til að fá ákveðið land innan girðinga Skógræktarfélagsins, sem hún hafi allan veg og vanda af. Vonandi mun svo verða Ingvar gunnarsson kennari um fleiri félög síðar.
Árið 1958 voru höggvin tré úr elztu girðingunni og gefin í kirkjurnar í Hafnarfirði, í barnaskólann, á ráðhúsið, að Bessastöðum og víðar. Trén voru allt að 4 1/2 m á hæð. Þetta ár var líka höggvin bergfura og seld í verzlanir. Síðastliðið ár var enn grisjað, og bílhlass af greni og furu var selt í verzlanir fyrir jólin. Nú er búið að girða um helminginn af Undirhlíðunum frá Vatnsskarði norður að Kaldá. —
Hugmyndin er, að nytjaskógi verði komið upp í Undirhlíðum, enda er landið þar vel til þess fallið. Hvaleyrarvatnsgirðingin og Gráhelluhraunsgirðingin eru hins vegar fremur hugsaðar sem skemmtigarðar en skógur. Þær eiga að verða eins konar Heiðmörk Hafnfirðinga, griðland þeirra og hvíldarstaður.
Árið 1953 barst félaginu dánargjöf frá systkinunum Gunnlaugi Kristmundssyni og Ingibjörgu Kristmundsdóttur, að upphæð 22 þúsund krónur. Gert er ráð fyrir, að gerður verði minningarreitur um þau systkinin í Hvaleyrargirðingunni. Frá því 1958 hafa verið gróðursettar 143.730 skógarplöntur hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar.
Stjórn félagsins skipa nú: séra Garðar Þorsteinsson formaður, Páll Daníelsson ritari, Haukur Helgason gjaldkeri. Aðrir í stjórn eru: Jón Magnússon, sem setið hefur í stjórn félagsins frá upphafi, Ólafur Vilhjálmsson, Guðmundur Þórarinsson og Helgi Jónasson.
Drengir úr Vinnuskólanum í Krýsuvík við skógrækt í Undirhlíðum.
Þú spyrð um framtíðarhorfur í skógræktarmálum. Eg get ekki betur séð, en sú reynsla, sem þegar er fengin, gefi góðar vonir. Því er ekki að neita, að eitt og annað hefur valdið vonbrigðum. Til dæmis var fyrstu árin gróðursett allmikið af skógarfuru. En mikið af henni er dautt, og eins fer um það, sem eftir er, vegna þess, að ekki hefur enn tekizt að gera þær bjöllur landlægar hér, sem halda í skefjum lúsinni, sem á hana sækir. Eins urðum við fyrir nokkrum skakkaföllum í hretinu vorið 1962, þótt það tjón væri minna en við var að búast. Þá hefur grenilúsin valdið nokkru tjóni, en að því eru áraskipti. Þannig olli hún miklu tjóni árið 1962 og aftur nú í haust, einkum í skrúðgörðum í bænum, en hennar gætir mikla minna í skógræktargirðingunum. Skógfræðingar telja að vetrarhlýindin undanfarin ár hafi skapað þessum meindýrum óvenjugóð lífsskilyrði í bili, en annars er við þetta sama vandamál að stríða í öllum löndum, þar sem greni vex. Með úðun er hægt að halda grenilúsinni í skefjum í skrúðgörðum og á litlum svæðum, en þess hefur ekki verið gætt í bæjunum sem skyldi. En við lærum af óhöppunum, og sá er til dæmis dómur norskra skógfræðinga, að árangurinn hér hjá okkur gefi í engu eftir árangri þeirra í Noregi. Aðaláhyggjum veldur ofbeitin á landinu utan girðinga. Það fer algerlega í auðn, ef ekki verður komið í veg fyrir hana.“ – H.Z.
Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1964 (18.12.1964), „Plöntum, vökvum rein við rein, ræktin skapar framann“ – Garðar Þorsteinsson, bls. 15-16.
Minningarskjöldur um fyrrum skógræktarmenn.