Litluborgir

Haldið var í Litluborgir, stundum einnig nefndar Hraungerði og Minni-Dimmuborgir, með viðkomu í Helgadal og Valabóli.
Litluborgir-3Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar skammt fyrir sunnan Helgafell ofan Hafnarfjarðar sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Aðrar merkar og áhugaverðar myndanir á svæðinu eru dropsteinar og kísilgúr. Hið friðlýsta svæði er 10,6 hektarar að stærð.
Markmiðið með friðlýsingu Litluborga sem náttúruvættis er að vernda sérstæðar jarðmyndanir í landi Hafnarfjarðar. Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis, en Helgafell og nágrenni þess hefur um langan tíma verið afar vinsælt útivistarsvæði.
Litluborgir í Hafnarfirði, friðlýst sem náttúruvætti í stjórnartíðindum B. nr. 395/2009. Þar segir m.a: „Umhverfisráðherra hefur ákveðið að tillögu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og með samþykki Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem landeiganda og sveitarstjórnar, að friðlýsa Litluborgir við Helgafell í Hafnarfirði sem náttúruvætti, skv. 2. tölulið 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Litluborgr-2

Umsjón og rekstur náttúruvættisins skal vera í höndum umhverfisnefndar Hafnarfjarðarkaupstaðar, samkvæmt samningi Umhverfisstofnunar og Hafnarfjarðarkaupstaðar sem umhverfisráðherra staðfestir. Umhverfisstofnun skal sjá um gerð verndaráætlunar fyrir náttúruvættið í samráði við Hafnarfjarðarkaupstað. Almenningi er heimil för um náttúruvættið, enda sé gætt góðrar umgengni. Í samræmi við samþykkt um hundahald er óheimilt að hafa hunda í náttúruvættinu án fylgdar og tryggrar stjórnar. Umferð vélknúinna farartækja, þ.m.t. vélsleða, er óheimil í náttúruvættinu. Óheimilt er að hrófla við eða skemma á annan hátt jarðmyndanir í náttúruvættinu Litlu­borgum. Óheimilt er að spilla gróðri og trufla dýralíf innan marka náttúruvættisins.

Litluborgr-3

Ræktun og dreifing framandi tegunda er jafnframt óheimil innan marka þess. Skotveiðar eru óheimilar á svæðinu. Allar framkvæmdir innan náttúruvættisins eru háðar leyfi Hafnarfjarðarkaupstaðar og Umhverfisstofnunar. Framkvæmdir skulu vera í samræmi við samþykkt skipulag og verndaráætlun. Gert er ráð fyrir merktum og stikuðum gönguleiðum og stígum um svæðið sem tengst geta öðrum gönguleiðum um uppland Hafnarfjarðar. Brot gegn friðlýsingu þessari varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.“
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Litluborgir í Hafnarfirði, friðlýst sem náttúruvætti í stjórnartíðindum B. nr. 395/2009.

Litluborgir

Litluborgir – gervigígur.

Hafnarfjörður

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1703 er fjallað um landshagi á þeim tíma – sem og fyrrum, jafnvel eins lengi og elstu menn muna á þeim tíma er ritið var undirbúi og unnið. Tvennt af mörgu því er fjallað er um í Jarðarbókinni, ef aðskilja ætti einstaka tvo þætti frá öðrum, svona til samanburðar út frá búskaparháttum á þeim tíma, má taka selstöður einstakra jarða annars vegar og hins vegar verbúðir sömu jarða.
LangeyriHér verður umfjöllunin bundin við Hafnarfjörð og Garðahverfi, með framangreint til hliðsjónar. Um Lambhaga í Hraunum (sem þá var bær í Garðahreppi hinum forna) segir um selstöðu: „Selstöðu brúkar jörðin í Þorbjarnarstaðalandi þar sem heitir, eru þar hagar góðir en vatn slæmt“. Um heimræði bæjarins segir: „Heimræði er árið um kring, og lending í besta lagi, gánga skip ábúandans eftir hentugleikum; undir kóngsskipanafni hefur hjer áður oftastnær gengið bátur, tveggja manna far, og ábúandinn hýst áróðrarmenn og ekkert fyrir þegið nema soðningskauo af þeim; næstliðið ár var það ekki. Inntökuskip hafa hjer engin gengið nema skjaldan um hausttíma bátar nágranna fyrir góðvilja eður einhverja þóknan“.
Hvaleyri-221Á Hvaleyri var „heimræði árið um kring og lending góð, og gánga skip ábúenda eftir hentugleikum. Til forna hefur hjer oft undir kóngsskipa nafni gengið eitt tveggja manna far, en síðan Lauritz Hansson Siefing var á Bessastöðum Heidemanns vegna hefur það ekki verið. Inntökuskip hafa hjer stundum gengið ekki stærri en tveggja manna för, og hefur ábúandi þegið undirgift af, mætti og enn vera ef menn vildu“. „Selstöðu á jörin þar sem heitir Hvaleyrarsel, þar eru hagar sæmilegir og vatnsból gott“. Um er að ræða selstöðu austan Hvaleyrarvatns, er enn sést.
Um Ás segir: „Heimræði brúkar jörðin frí og skipsuppsátur í Ófriðastaðarlandi að sumir halda, en sumir eigna skipsuppsátrið Ási so sem ítak á móti selstöðu, sem Ófriðarstaðir skuli eiga og síðar segir. Vita menn ekki glögt hvort þetta skipsuppsátur og búðarstæði sje með skyldurjetti eður fyrir liðunarsemi. Þó gánga þar skip ábúandans og hafa gengið um lángan aldur, en búð var þar ekki það menn minnast fyr en Margret Þorsteinsdóttir bjó að Ási fyrir meir en tuttugum árum“. „Selstöðu á jörðin í heimalandi, þar eru hagar sæmilegir og vatnsból gott“. Um er að ræða selstöðu austan Hvaleyrarvatns, skammt norðaustan Hvaleyrarsels. Má á hvorutveggja staðnum enn vel sjá tóftir þeirra.
skerseyri-1Um Ófriðarstaði segir um heimræði: „Heimræði er árið um kring og lending góð, og gánga skip ábúandans eftir hentugleikum. Kóngsskip haf hjer aldrei verið nema eitt sinni tveggja manna far. Inntökuskip hafa hjer aldrei verið, það menn minnast, nema eitt tveggja manna far fyrir fáum árum“. Og – „Selstöðu á jörin í heimalandi, eru þar hagar sæmilegir en vatnsskortur mikill, og hefur því til forna bóndinn neyðst til að færa selið að eður í Ásland, og fyrir það halda sumir að Áss hafi skipsstöðu eignast í Ófriðastaðarlandi sem áður greinir“.
Hamarskot átti „Heimræði er árið um kring og lending góð, og gánga skip ábúandans eftir hentugleikum. Inntökuskip gánga hjer engin“. „Selstöðu eigna nokkrir jörðinni í Garðakirkjulandi þar nærri sem heitir Sljettuhlíð hjá hellir nokkrum og skuli þar kallast enn í dag Hamarkotssel“.
skerseyri-2Setberg hafði „Selstöðu þar sem heitir Kietshellir, eru þar hagar góðir, en vatnsból ekkert nema snjór í gjá, sem sólarhiti bræðir. „Jörðin á ekki land til sjáfar, en búðarstöðu á hún og skipsuppsátur í Garðastaða landareign þar sem heitir Skipaklettur [þar sem byggðist Hraðfrystihús Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar]. Er þetta eiginlega í Akurgerðislandi, sem Hafnarfjarðarkaupsstað tilheyrir. En þó er undirgiftin fyrir þetta skipsuppsátur betöluð og hefur betalast til staðarhaldarans í Görðum með xx álnum“.
Um Akurgerði, síðar einn helsta verslunarstað í Hafnarfirði segir 1703: „Um næstliðnu vertíð gekk hjer eitt þriggja manna far frá Arnarnesi að leyfi eftirliggjarans [sem var Garðakirkja]“. Svo virðist sem einungis hafi verið að ræða sjávarbúskap því engin selstaða er tilgreind.
Vestan Akurgerðis, sem á þeim tíma var talin austasti bær í Garðahverfi, eru m.a. Einarshús, Digranesbúð, Hólmsbúð, Skerseyri, Bali og Óskarsbúð áður en kom að sjálfum Görðum. Útgerðin á Langeyri virðist síðar hafa yfirtekið Einarshús, Digranesbúð og Hólmsbúð á milli Akurgerðis og Skerseyrar.
Skerseyri-3Í Jarðabókinni 1703 segir um Einarshús: „Hefur verið tómthús uppbyggt af kaupmanninum Petri Reyelssyni [eftirliggjari] fyrir utan túnstæði gömlu hjáleigunnar Akurgerðis… Síðan hefur þetta tómthús í eyði legið, nema hvað eftirliggjarinn hefur brúkað það sem hesthús“.
Um Digranessbúð segir: „Bygð í tíð með leyfi Peturs Reyelssonar kaupmanns lengra inn í Garðastaðar landareign en Einarshús af búandanum í Digranesi á Seltjarnarnesi, sem þessi búð brúkaði og skipi sínu (stundum tveimur, stundum þremur tveggja manna förum) þar hjá til fiskjar hjelt um vertíð orðlofslaust af staðarhaldaranum, so vitt menn vita. Búðin liggur nú í eyði síðan firkiríið brást í Hafnarfirði“.
skerseyri-4Hólmsbúð var „bygð nokkru síðar en Digranessbúð í tíð Knúts Storms kaupmanns í Hafnarfirði og með hans leyfi að menn meina. Stendur þessi búð álíka langt inn í Garða landareign sem Digranessbúð. Brúkaðist hún og brúkast enn nú fyirir verbúð um vertíð af ábúandanum á Hólmi við Seltjarnarnes í leyfi kaupmannsins í Hafnafirði, so framt menn vilja, að vísu leyfislaust af staðarhaldaranum, og gánga þar við þessa búð tvö tveggja manna för jafnlega um vertíð“. Jafnframt segir: „Út með Hafnarfirði í garðastaðarlandi standa þessi tómt hús: Eysteinshús eður Geirahús. Þingvallna búð. Stigshús eður Jodisar hús. Illugabúð eður Langeyrarbúð. Ofanmannabúð. Laugardælabúð. Þessar búðir eru sumar 50 ára gamlar, sumar ýngri, sumar fárra ára. Hefur staðarhaldarinn þær í þeim góðu fiskiárum burt leigt, sumar aðkomandi mönnum með skipsuppsátri fyrir v aura undirgift og sumar tómthúsmönnum fyrir x álna leigu og mannslán. Í sumar lögðust inn skipshafnir, sem reru á staðhaldarans bátum, er þar við búðirnar uppsátur höfðu, og fjekk þá tómthúsmaðurinn soðningskaupið. Þessar grasleysubúðir eru nú síðan fikiríið minkaði sumpart öldúngiss niðurfallnar, sumar hánga uppi enn nú íbúðar og leigulausar á fallanda fæti, ef fiskiríið ei aftur að legst“.
BalamolSkerseyri var hjáleiga frá „Garðarstaðar landi hjer um xx ára gömul. Landsskuld xx álnir. Betalast með i vætt fiska í kaupstað í reikning staðarhaldarans“.
Bali „hefur verið tómtús, fyrir átta eður tíu árum fyrst uppbygt. Nú er þetta býli öldúngis eyðilagt og í tóftarbrot komið og byggist aldrei nema stór fiskigánga inn í Hafnarfjörð komi“.
Óskarsbúð „stendur í Garðastaðar landi og er uppbyggð af Jakob Bang, sem síðar varð sýslumaður í Árness sýslu, fyrir ?? árum eða þar um og bygð einri konu að nafni Ósk, sem hans vegna seldi þar tóbak, brennivín og annan varning. Síðan hafa sjer eignarráð yfir buðinni tiltekið Bessastaðamenn og hafa þar látið gánga kóngsbáta, stundum tíu, stundum fleiri, stundum færri, item inntökuskip fyrir undirgift eður annan góðvilja meðan fikiríið var gott í Hafnarfirði. Búðin stendur enn nú, er þó í auðn“.
Að framansögðu er komið að Görðum, höfuðbólinu. Verður því ekki lýst hér, enda vel lýst annars staðar á vefsíðunni.
Í síðari tíma umfjöllun um framangreint svæði má t.a.m. lesa eftirfarandi: „Hafnarfjörður taldist til Garðasóknar, og landfræðilegu skilin ekki alltaf glögg í því, hvað menn áttu við með Hafnarfirði. Á elztu kortum er fjörðurinn miðaður landfræðilega við Fiskaklett, en síðar við Hliðsnes, en að búsetu til var Langeyri, talið vestasta býlið í Hafnarfirði og þar tæki Garðahverfi við.
ÍBali-223 sóknarlýsingunum, sem hér fylgja er um alla Garðasókn að ræða. „Árið 1780 voru 32 býli í Garðakirkjusókn. Átti konungur 11 þeirra, Garðakirkja 19, en tvö voru í bændaeign. Öll þessi býli áttu land að Hafnarfirði, nema 2. Á býlunum bjuggu samtals 41 ábúandi, (að sýslumanni, presti og kaupmanni meðtöldum), 14 grashúsmenn og 34 þurrabúðarmenn. Áður fyrri höfðu verið þarna 45 bændur og grashúsmenn og 6 þurrabúðarmenn, en auk þess 9 sjóbúðir, er tilheyrðu íbúðum Kjósar- og Árnessýslu. Voru þær ekki byggðar nema á vetrarvertíð. Árið 1780 var þannig 38 fjölskyldum fleira í Garðasókn en áður hafði verið (þar af 10 bænda- og grashúsmanna — og 28 þurrabúðarfjölskyldur), en verbúðirnar 9 voru ekki lengur við lýði.
Árið 1780
var fiskað í Garðasókn á bátum sóknarmanna eingöngu, og gengu þá þaðan 5 fjögra mannaför og 62 tveggja mannaför. Voru á þessum bátum 102 menn úr Garðasókn, 13 Austanmenn, 21 maður af Suðurnesjum og 1 Norðlendingur. Alls námu aflabrögð sóknarmanna 19.822 fiskum og urðu þar af 110 skpd., 2 lpd. og71/9pd. afharðfiski. Auk þessa voru á 8 fiskijögtum, sem verzlunin í Hafnarfirði átti, 30 menn úr Garðasókn, 11 Austanmenn, 6 Suðurnesjamenn og 8 Norðlendingar, eða samtals 55 menn.
Ekki var Skúla Magnússyni kunnugt um, hve mikið þessar 8 fiskijagtir öfluðu á vetrarvertíðinni 1780, enda höfðu hásetar á þeim ákveðið vikukaup, en voru ekki ráðnir uppá hlut. Um þessar mundir var á vetrarvertíð einatt róið úr Hafnarfirði suður undir Vogarstapa og veitt þar bæði á öngla og net“.“

Heimildir:
-Jarðabók ÁM og PV 1703, bls. 166-178.
-Sjómannadagsblaðið, 55. árg. 1992, 1. tbl., bls. 75.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúð um 1917.

Sprunga

Lýst var hér fyrir nokkrum dögum gamalli refagildru, sem hvergi hefur áður verið sagt frá; gildru er nefna mætti „sprungugildru“, sbr. „Theodór Gunnlaugsson lýsir þó í bók sinni „Á refaslóðum“, fallgryfjum sem gerðar hafi verið í snjó fyrrum, en ekki getur hann þess, hve veiðnar þær hafi verið, enda hefur hann aðeins heyrt um þessa veiðiaðferð.
lonakot-refagildra-221Heimild er þó um, að í Hornafirði hafi gryfjur verið hlaðnar úr grjóti með lóðréttum veggjum eða jafnvel svolítið inn yfir sig. Dýpt þeirra var nokkur, eða svo mikil að öruggt væri að dýrin gætu ekki stokkið eða klifrað upp úr gryfjunum. Á gryfjubotninum var agninu dreift…“.
Hvergi annars staðar virðist hafa verið sagt frá refagildrum þessum, en þær virðast skv. þessu ekki hafa verið óalgengar á vestanverðum Reykjanesskaganum fyrrum… A.m.k. er tvær slíkar að finna í hrauninu ofan við Lónakot í Hraunum.

Grænhóll

Grænhóll – „sprungugildra“ skammt frá.

 

Landnáma

Á Vísindavef HÍ má lesa eftirfarandi skrif Sverris Jakobssonar um aldur Landnámu:

Sverrir Jakobsson

Sverrir Jakobsson.

Landnámu má nota bæði sem frásögn og sem leif. Hún er leif um það að Íslendingar voru byrjaðir að skrifa um landnámið á 12. öld. Hún sýnir okkur einnig hvernig þeir skrifuðu um það og hvað þeim fannst mikilvægt að segja frá í sambandi við það. Þá er varðveislusaga Landnámu til vitnis um áframhaldandi áhuga Íslendinga á landnámi á síðari öldum, þegar hinar og þessar gerðir Landnámu urðu til.
Sem frásögn er hún ekki eins áreiðanleg heimild, því að hún lýsir atburðum sem gerðust um 200 árum áður en Landnáma var fyrst fest á blað. Ef miðað er við varðveittar gerðir Landnámu getur munurinn numið allt að 400 árum. Margt í þeirri Landnámu sem við þekkjum er endursögn úr Íslendingasögum, en svokölluð frum-Landnáma er líklega eldri en elstu Íslendingasögur. Fræðimenn eru ekki sammála um heimildargildi frásagnarinnar af landnáminu, hvort hún sé safn goðsagna eða rétt í meginatriðum. Fáum dettur þó í hug að trúa öllu því sem sagt er frá í Landnámu.

Landnáma

Landnáma.

Ekki er ólíklegt að Landnáma hafi verið notuð sem heimild þegar á 12. öld þegar norskir konungasagnaritarar segja frá fundi Íslands í verkunum Historia de antiquitate regum Norwagiensium og Historia Norwegiæ, sem samin voru á latínu. Þó verður ekki sannað með vissu að þeir hafi stuðst við skrifaða Landnámugerð. Á 13. öld vitum við um Landnámugerð eftir Styrmi Kárason (d. 1245), príor í Viðey, sem nú er glötuð. Elstu gerðir ritsins sem enn eru varðveittar eru fyrst ritaðar um 1300. Ein er eftir Sturlu lögmann Þórðarson (1214-1284), önnur eftir Hauk lögmann Erlendsson (d. 1334) og sú þriðja eftir Snorra lögmann Markússon (d. 1313) eða einhvern náskyldan honum.

Landnáma

Landnáma.

Áhugi á landnáminu lifði áfram á Íslandi. Um 1600 styðst Arngrímur Jónsson lærði (1568-1648) við Landnámu í ritum sínum um Íslandssögu, sem hann samdi á latínu fyrir erlendan markað. Þá skrifuðu Björn Jónsson á Skarðsá (1574-1655) og Þórður Jónsson í Hítardal (1609-1670) upp Landnámu og eru handrit þeirra mikilvæg heimild um samband ólíkra gerða ritsins.
Landnáma var fyrst prentuð í Skálholti 1688 og stóð Þórður biskup Þorláksson (1636-1697) fyrir því. Á 20. öld gerðu Finnur Jónsson (1858-1934), prófessor í Kaupmannahöfn, og Jakob Benediktsson (1907-1999), forstöðumaður Orðabókar Háskólans, vísindalegar útgáfur af öllum handritum sögunnar sem síðan er stuðst við. Þá gaf Jakob út Landnámu á vegum Hins íslenska fornritafélags 1968 (Íslenzk fornrit I. Íslendingabók, Landnámabók) og má nota þá útgáfu til að kynna sér ritið og álitamál tengd því nánar en frá er sagt hér.

Landnáma

Landnáma.

Að lokum má nefna að þegar haldið var upp á 1000 ára afmæli Íslands árið 1874 var ártalið reiknað með hliðsjón af Landnámu. Íslendingabók Ara fróða segir hins vegar ekki að fundur Íslands hafi orðið árið 874. Landnáma er því enn talin grundvallarheimild um hvenær halda skuli upp á afmæli Íslandsbyggðar.“

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=837

Landnáma

Landnáma.

Refur

„Á Íslandi lifir ein tegund refa villt. Það er tófan eða melrakkinn, sem fengið hefur latneska heitið Alopex lagopus.
refur-221Tófan settist að á Íslandi í lok ísaldar, fyrir um það bil 10 þúsund árum, en hingað komst hún á hafís. Útbreiðslusvæði tegundarinnar er allt í kringum Norðurheim-skautið, bæði á meginlöndum og eyjum, en útbreiðslan er takmörkuð við svæði norðan og ofan barrskóga- og birkibeltisins. Af tófunni eru tvö meginlitarafbrigði, hið hvíta og hið mórauða. Auk þess er allmikill breytileiki í lit innan hvors afbrigðis um sig. Dýr af hvíta litarafbrigðinu eru hvít á vetrum en á sumrin eru þau dökkmógrá á baki og niður með síðum en ljósgrá á kvið og innan á útlimum. Mórauðu dýrin eru flest dökkbrún allt árið, þó heldur ljósari á veturna en sumrin. Sum virðast grásilfruð að vetrarlagi sem stafar af því að hluti vindhára eru með ljóst belti neðan við hárbroddinn.

Munurinn á litarafbrigðunum tveimur ræðst af einu geni og dýr af mismunandi litarafbrigðum æxlast innbyrðis án tillits til litar. Hvíti liturinn telst vera víkjandi sem þýðir að genið sem veldur hvítum lit þarf að vera í tvöföldum skammti, þ.e. hafa erfst frá báðum foreldrum, til þess að dýrið verði hvítt. Tófur með tvö gen fyrir mórauðum lit eða með eitt gen fyrir móraðum lit og annað fyrir hvítum eru ávallt af mórauða litarafbrigðinu.

yrdlingar-221Á Íslandi eru um það bil 2/3 allra refa af mórauða litarafbrigðinu en hlutföllin eru þó misjöfn eftir landshlutum. Á Vestfjörðum og Snæfellsnesi er hlutfallslega minnst um hvít dýr, eða innan við 20%, en sums staðar á miðhálendi Íslands og á Austurlandi er hlutfall hvítra dýra yfir 50%. Á freðmýrum Norður-Ameríku og Síberíu eru hins vegar yfir 99% melrakkanna af hvíta litarafbrigðinu, en víða á eyjum og á vestanverðu Grænlandi er meirihluti dýranna mórauður, eins og á Íslandi.

Ræktaða afbrigðið af tófu, sem oftast er nefnt blárefur, er innflutt og er uppruni þess blandaður. Upphaflega voru ræktaðir blárefir ættaðir frá Alaska en síðar var þeim blandað við refi frá Kanada, Grænlandi, Svalbarða og Síberíu. Þeir eru mun stærri en íslensku melrakkarnir, að jafnaði ljósari á lit og mun frjósamari. Auk þess er feldur þeirra nokkuð ólíkur sem stafar að einhverju leyti af ólíkum uppruna en að hluta af því að dýrin hafa verið ræktuð eftir feldeiginleikum. Þar sem blárefir og villta tófan eru sömu tegundar geta þau átt frjó afkvæmi innbyrðis.

Á Íslandi eru einnig ræktaðir silfurrefir, sem eru litarafbrigði af rauðref (Vulpes vulpes). Náttúruleg útbreiðsla rauðrefs er í Norður-Ameríku, Evrópu, Asíu og Norður-Afríku en auk þess fluttu menn hann til Ástralíu þar sem hann er nú algengur.
greni-221Silfurrefir, það er að segja rauðrefir, geta átt afkvæmi með melrökkum en þau eru ófrjó og þess vegna eru þetta aðskildar tegundir. Silfurrefir hafa sloppið út af refabúum hérlendis en aldrei í þeim mæli að þeir hafi náð að tímgast í náttúrunni, ef undanskilið er eitt tilvik þar sem vitað er að silfurrefstæfa æxlaðist með villtum, íslenskum melrakka.“

Þegar aldurinn fer að færast yfir villt dýr taka tennur að slitna og gulna og á það við um íslenska melrakkann sem önnur dýr. Þegar refir nálgast að fylla tug ára hefur tönnum fækkað og sérstaklega er algengt að framtennur vanti. Vígtennur eru orðnar slitnar og algengt er að krónan sé horfin við 10 ára aldur. Illa tenntur refur á sem von er mjög erfitt uppdráttar í lífsbaráttunni, bæði í samkeppni við aðra refi og við veiðar.

Afföll refa breytast lítið með aldri fram að 7 ára aldri en eftir þann aldur fækkar dýrum hlutfallslega hraðar. Refir í íslenskri náttúru sem komnir eru yfir áratuginn eru mjög sjaldgæfir. Gömlu dýrin verða yfirleitt undir í samkeppni við yngri dýr um maka og óðul. Að öllum líkindum er refurinn upp á sitt besta frá tveggja til sjö ára aldurs en síðan fer að halla hratt undan fæti.

Heimild:
-http://www.visindavefur.is/svar.php?id=109
-http://www.visindavefur.is/svar.php?id=1721

Refur

Refur.

Bollastaðir

Bollastaðir er forn eyðijörð í Kjós, sem fáir ef nokkrir núlifendur vita hvar var.
Bollastadir-2Á
www.kjos.is mátti þó fyrir u.þ.b. sex árum (2006) lesa eftirfarandi um nýbýli á þessari fornu jörð: „Íbúðarhús hefur verið byggt í Valdastaðalandi vestan við Bollastaðalæk. Húsið er byggt á lóð sem er einn hektari að stærð, mælt út úr óskiptu landi Valdastaða og Grímstaða. Það stendur neðan við skógræktarreit sem Skógræktarfélag Kjósarhrepps plantaði í um miðja síðustu öld. Lóðin hefur hlotið nafnið Bollastaðir en í Jarðarbók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 er jarðarinnar Bollastaða getið og hafi verið rétt austan við, þar sem hið nýja hús stendur. Þá hafði ekki verið ábúð á jörðinni í manna minnum. Var hún nýtt að jöfnu frá Valdastöðum og Hálsi.
Eigendur hinna nýju Bollastaða eru hjónin Ragnar Gunnarson málari og Unnur Sigfúsdóttir kennari, en Bollastadir-3hún var skólastjóri Ásgarðsskóla síðustu árin áður en skólahald var aflagt þar. Þau eru bæði Dýrfirðingar og áður en þau fluttust í hreppinn voru þau búsett á Þingeyri við Dýrafjörð.“
Í fyrrnefndri Jarðabók Ám og PV frá 1703 segir m.a.: „Bollastaðir: Forn eyðijörð. Veit enginn nær eyðilagst hefur, eður hvað fyrir. …Túnstæðið var mikinn part ófordjarfað inn til þess að næst umlið haust féll þar skriða yfir túnstæðið til óbóta skaða, svo að bæði fyrir því og landþröng er örvænt, að það kunni aftur að byggjast.“
Og jafnframt: „Neðri-Háls, Bollastaðir: …Á Hálsi neðra er nú tvíbýli, 2 íbúðarhús. Þar í landi eru Bollastaðir, fornt eyðiból.  …virðist hafa eyðst af skriðu.“
Í 27. kafla Harðar saga og Hólmverja segir um Bolla og Bollastaði: „Um veturinn fyrir jól fóru þeir tólf saman í Hvamm til Orms á náttarþeli. Ormur var eigi heima. Hann var farinn nokkuð að erindum sínum. Bolli hét þræll hans er annaðist um bú ávallt er Ormur var eigi heima. Þeir brutu upp útibúr og báru út vöru og mat. Þeir tóku kistu Orms er gripir hans voru í og fóru með þetta allt á burtu.
Bolla þótti sér illa tekist hafa er eigi var vakað yfir útibúrinu. Hann Bollastadir-4kveðst skyldu ná kistunni af Hólmverjum eða fá bana ella og bað þá segja bónda að hann væri við átjánda mann að naustum hina fjórðu nótt þaðan og léti hljótt yfir sér.
Bolli býst nú. Hann hafði slitna skó og vöruvoðarkufl. Hann var í Brynjudal hina fyrstu nótt og þó eigi að bæjum. Hann kom til Þorsteins gullknapps og nefndist Þorbjörn, sagðist vera sekur maður og kveðst vildu út til Harðar og koma sér í sveit með honum. Þorsteinn gullknappur flutti hann út í Hólm og er þeir Hörður og Geir sáu manninn leist þeim eigi einn veg báðum. Geir þótti ráð að taka við honum en Hörður kveðst ætla njósnarmann. Geir réð þó og sór hann þeim áður eiða en þeir tóku við honum. Margt sagði hann þeim af landi og kveðst þó vera syfjaður. Hann lagðist niður og svaf um daginn. Þeir Geir komu eigi upp kistunni og spurðu Þorbjörn hvert ráð hann legði til. Bollastadir-7 - uppdratturÞorbjörn kvað það ekki vant.
„Er þar ekki í,“ sagði hann, „utan smíðartól bónda“ – kvað Ormi það eitt mein þykja í ráni þeirra Hólmverja er tólakista hans var í burtu „en eg var þá,“ segir hann, „að Mosfelli er ránið spurðist. Mun eg færa honum kistuna ef þér viljið.“
Lítil slægja þótti Geir í vera um kistuna með því að ekki væri í nema smíðartól ein. Tvær nætur var Þorbjörn þar og taldi um fyrir þeim að þeir létu lausa kistuna. Ekki var Herði um að þeir hefðu nokkur ráð Þorbjarnar, kvað þau mundu illa gefast. Geir vildi þó ráða og fóru þeir sex saman um nátt til nausta Orms. Þeir báru þá kistuna á land og upp í naustið og settu undir húfinn á skipi Orms. Þá kallaði Þorbjörn að menn skyldu upp standa og taka þjófana. Þeir hlupu þá upp er fyrir voru og sóttu að þeim. Geir greip þá einn árarstubba og barði á tvær hendur og varðist hann þá allrösklega. Geir nær þá skipi sínu. Fjórir menn létust af Geir. Ormur tók ferju og reru eftir Geir.
Hörður tók til orða heima í Hólmi: „Það er líkara að Geir þurfi manna við og eigi þykist eg vita hve Þorbjörn sjá hefir gefist honum.“
Tók hann þá skip og rær inn á fjörð, kemur nú að eltingum þeirra Orms og Geirs. Sneri þá Ormur skjótt undan og að landi. Geir fór út í Hólm með Herði.
Ormur gaf síðan Bolla frelsi og land á Bollastöðum og öll búsefni. Bjó hann þar síðan og varð auðigur maður og ófælinn.“
Í Jarðabókinni 1703 segir ennfremur: „Þar vita menn, að yfir hundrað ár hefur hún í auðn legið, og so Bollastadir-6lengi hafa jarðirnar Valdastaðir og Háls brúkað land þessarar eyðijarðar og grasnautn alla átölulaust til helminga hvörir.“ Hvorki er getið um selstöðu frá Valdastöðum né Neðra-Hálsi, en þó má ætla að selstaða hafi verið frá þeim bæjum í heimalandi, a.m.k. um tíma, einkum þegar tvennt er haft í huga. Rústir Bollastaða er á þurrum bala ofan mýri u.þ.b. 70 metrum austan við nýbýlið Bollastaði. Rústirnar eru greinilega mjög fornar, en þó sést þar móta fyrir fjósi, u.þ.b. 14 metra löngu og tilhlýðilega breiðu, skála og þremur til fjórum rýmum öðrum, þ.a. þremur stökum sunnan við meginrústirnar. Bollastaðalækurinn er rétt austan við bæjarstæðið. Augljóst má telja að fínar aurskriður hafa fallið oftar en einu sinni ofan úr bröttum hlíðum Reynivallahálsar niður um „túnin“ því að sjá er þar víðasthvar grunnt á skriðurnar.
Því má ætla að bæjarstæðið Bollastadir-51(bæjarhóllinn) geti verið bæði hærri (dýpri) og breiðari en ætla megi. Fjóstóftin er allgreinilegust. Hún er óvenju stór af fornkotbýli að vera. Því er ekki óraunhæft að ætla að þarna hafi áður verið kúasel, annað hvort frá Valdastöðum eða Neðra-Hálsi og síðar fjársel (í heimalandi). Líklegra má ætla að kúaselið, sem virðist eldra, hafi verið frá síðarnefnda bænum og síðar fjársel frá þeim síðarnefnda. Hafa ber þó í huga, skv. samtölum við þá er til þekkja, að kýr beggja vegna markanna, hafa unað hag sínum hið besta á þeim stað er landamerkin liggja nú. Efst í þeim er stór steinn. Á hann er klappað „LM“. Fallin mosagróin varða er á honum. Þaðan liggur markalínan, að sögn Ragnars, í beina línu um skurð í klett (berggang) niður að Laxá. Þar segja heimildir að eigi einnig að vera klappað „LM“ en ummerki þess eru þar hvergi að finna (enda sagðist Ragnar ekki hafa komið auga á þau við eftirgrennslan).

Bollastadir-7 - kuastekkur

Tvennt ber að hafa í huga þegar áætlað er að í Bollastöðum hafi fyrrum verið selstöður á einhverjum tímum. Annars vegar fjósið, sem virðist óvenjustórt í fornbýli. Líklegra er að þarna hafi áður verið kúasel og þá líklega frá Neðra-Hálsi. Aðstæður eru dæmigerðar slíkar í landnámi Ingólfs. Þarna eru bæði nægt vatn og góð grasbeit. Kotið Bollastaðir, sbr. framangreinda sögu, kann því að hafa byggst upp úr selstöðunni. Hlaðinn kúastekkur (sem reyndar virðist vera frá 18. og/eða 19. öld), skammt vestar (í núverandi landi Neðri-Hálsar) bendir til þess. Stekkurinn sá gæti þó hafa verið endurhlaðinn oftar en einu sinni í gegnum tíðina vegna hagstæðra aðstæðna. Hins vegar, að teknu tilliti til fjárborgarinnar skammt norðaustar við bæjarstæðið, má ætla, út frá því hversu heillegar hleðslurnar eru, að þar hafi síðar verið selstaða nýtt sem fjársel út frá kotbúlinu, og þá líklega frá Valdastöðum. Frá bæjarstæðinu má sjá, ef vel er að hugað, selstíg áleiðis að bænum. Í hann hefur verið lagst í vegaumbætur; stuttan vagnveg, sem ætla megi að geti verið frá því um og eftir aldarmótin 1900 (þriggja álna breiðan og „púkkaðan“, eins og dæmi eru um slíkar vegaúrbætur).

Bollastadir-9

Núverandi ábúendum Bollastaða, Ragnari og Unni, var bent á fyrrum bæjarstæði hinna fornu Bollastaða, bæði til að auka líkur á að flytja megi vitneskju um það til komandi kynslóða og jafnframt til að minnka líkur á að það fari forgörðum vegna vanþekkingar (eins og svo oft vill verða). Og svo er alls ekki útilokað að sveitarstjórn Kjósar kunni að hafa áhuga á að láta grafa bæjarstæðið upp í heild sem framlag þess til varpa ljósi á sögu byggðaþróunnar og mannlífs á svæðinu.

Heimildir m.a.:
-http://www.kjos.is/allar-frettir/nr/58288/
-Harðar saga og Hólmverja, 27. kafli.
-Jarðabókin 1703, bls. 428 (Gullbringa- og Kjósarsýsla).
-Björn Bjarnason, Kjósarsýsla 1937, Landnám Ingólfs II, 1936-40.

Bollastaðir

Gerði við Bollastaði.

Óbrinnishólabruni

Kapellu- og Óbrinnishólahraun (-bruni) eru með þeim yngstu í Hafnarfirði og skilja sig frá öðrum, reyndar með ólíkum hætti því hið fyrrnefna er að miklum hluta úfið kargahraun en hið síðarnefnda slétt helluhraun næst upptökunum, bæði þó  með samfelldri Stakurráðandi mosaþembu.
Óbrinnishólabruni á (skv. fyrri rannsóknum) að hafa runnið 190 f. Kr. og Kapelluhraun (Nýjahraun/Bruninn) árið 1151 e.Kr. Um 1340 ára aldursmunur mun því vera á hraununum, en þess virðist þó fljótt á litið ekki sjást glögg merki, hvorki gróðurlega né jarðfræðilega. Mun líklegra er að Óbrinnishólahraunið hafi runnið í sömu goshrinu og Bruninn og þá einungis skömmu áður á jarðfræðilegan mælikvarða (á innan við 300 ára tímabili).
Þegar gengið var um Óbrinnishólabruna í byrjun sumar [2008] vakti stök burnirót, stakt lambagras og grasnýmyndun sérstaka athygli – landnámsplöntur í hraungambra eftir tæplega 2000 ára þrautseigju.
Guðmundur Kjartansson (1954) varð fyrstur jarðfræðinga til að kanna Kapelluhraun og Óbrinnishólabruna svo nokkru næmi. Jón Jónsson hefur nokkrum sinnum ritað um hraun á svæðinu. Hann taldi á grundvelli geislakolsákvarðana að Óbrinnihólar væru liðlega 2100 ára gamlir og að Kapelluhraun hefðu runnið í byrjun elleftu aldar.

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Úr gígum nyrst í Undirhlíðum hefur runnið hraun sem Jón Jónsson (1978a, 1983) nefnir Gvendarselshraun. Undir því hefur hann fundið Landnámslagið og út frá aldursgreiningu með geislakolsaðferð telur Jón hraunið runnið á elleftu öld. Hér ber að hafa í huga að báðar niðurstöðurnar eru rangar í ljósi nýjustu rannsókna – þrátt fyrir að virðingarverðir jarðfræðingar hafi verið þarna að verki. Segja má því með nokkrum sanni að sannleikurinn þarf ekki endilega að vera endanlegur þótt sennilegustu rannsóknir bendi til að svo sé – á þeim tíma. Gildir það enn þann dag í dag – og mun væntanlega gilda á morgun. Þessa eru fornleifafræðingar vel meðvitaðir. Áreiðanleika rannsókna hefur fleygt svo vel fram síðustu áratugi að efasemdir hafa vaknað við hvert fet sem stigið hefur verið hingað til.
Stakur er er áberandi ílöng hæð (reyndar sú eina) milli Óbrinnishólanna og Undirhlíða. Hann er birkigróinn í jarðrana. Grastorfur eru vestan við hann og vatnsstæði suðvestar. Uppi á honum miðjum, í skjóli fyrir austanáttinni, er minjar um yfirsetu smalanna frá Ási, en skammt norðar, undir nyrðri Óbrinnishólum, er fjárskjól þeirra.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu, um 700 metra vestan við Undirhlíðar, og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó. Óbrinnishólar tilheyra Krísuvíkureldstöðvakerfinu, sem var virkt á u.þ.b. 25 km langri sprungurein frá Gvendarselsgígum við norðurenda Undirhlíða að Ögmundarhraunsgígunum suðaustan í Núpshlíð í suðri.
Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða sem sést af gróðurleifum sem fundust milli gosmyndanna. Um fyrra gosið í Óbrinnishólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra hosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Þetta hraun er frábrugðið hinu hrauninu að það inniheldur verulega meira ólivín.
Leifar smalaskjólsins á StakSíðara gosið hófst fyrir 1800 árum í og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. Hæðin sem Óbrinnishólar eru á er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir endilangri hæðinni er um 50 metra breiður sigdalur. Að vestan takmarkast hann af 4-6 m háu misgengi. Rétt austan við sigdalinn rísa gígirnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Óbrinnishólahraun er undir Kapelluhrauni við Straumsvík. Í hrauntröð sunnan við hólana er fyrrnefnt fjárskjól.
Í greinargerð Náttúruverndarráðs um þetta svæði segir m.a.: „Efnistaka úr eldvörpum og gervigígum hefur á undanförnum árum að mestu leyti verið bundin við eldvörp í nágrenni þéttbýlis. Stærstu námurnar á Suðurlandi hafa verið í gígþyrpingum á Reykjanesskaga (Arnarsetur við Grindavík, Óbrynnishólar við Hafnarfjörð, Rauð hólarnir við Reykjavík) og í Grímsnesi (Seyðishólar). Einnig hefur gjall verið unnið úr stökum eldvörpum á þessu svæði, svo sem úr Litlu-Eldborg undir Geitahlíð og nú síðast Eldborg við Trölladyngju.

Óbrinnishólar nyrðri - nú eyðilagðir af námuvinnslu

Á síðastliðnum árum hefur ferðamannaþjónusta verið einn helsti vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi og hafa stjórnvöld bent á ferðamannaþjónustu sem vænlegustu leið okkar til ný sköpunar. Eldfjöllin draga til sín erlenda ferðamenn sem koma til þess að njóta ósnortinnar náttúru og fræðast um jarðfræðilega þróun landsins. Að ,,gera út á„ íslenska náttúru er meira í anda sjálfbærrar þróunar en að selja eldvörp í erlenda vegi.
Fjölbreytileiki íslenskra eldvarpa er eitt af einkennum landsins. Eldfjallaeyjan Ísland á engan sinn líka hvað varðar landslag, gosmyndanir og bergfræði. Þrátt fyrir ungan jarðfræðilegan aldur og tíða eldvirkni eru margar jarðmyndanir hérlendis mjög fágætar, einnig á alþjóðlegan mælikvarða. Og þó Íslendingar telji sig ríka rík af þeim eldvörpum sem skópu landið í aldanna rás þá er vert að minnast þess að margar þessar jarðmyndanir eru afar sjaldgæfar og jafnvel einstakar, svo sem Eldborg í undir Geitahlíð. 

Í Óbrinnishólum syðri

Samkvæmt upplýsingum frá Hauki Jóhannessyni hjá Náttúrufræðistofnun verða goshrinur á Reykjanesskaga á um þúsund ára fresti. Í hverri hrinu verða gos í flestum gosreinum á skaganum og hrinan varir í um 200-300 ár. Síðasta goshrinan gekk yfir á árunum 950-1240 en síðast runnu hraun á Reykjanesskaga árið 1226, þar má nefna Arnarseturshraun, Leitahraun og Eldvarpahraun.
Í umsögn Stofnunar Árna Magnússonar segir svo um nafngiftina: „Óbrinnishólar; réttara en Óbrynnishólar, sbr. so. brinna í fornu máli“.
Þegar gengið er um Óbrinnishólahraun leynist engum hugsandi ferðalangi að þar er um að ræða annað og „geðslegra“ hraun en sjá má í Brunanum/Nýjahrauni/Kapelluhrauni (sett svo fram svo finna megi á leitarstreng). Þó fer ekki á milli mála, jafnvel meðal leikmanna, að ekki getur verið svo mikill aldursmunur á þessum hraunum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-flensborg.is
-Jón Jónsson. Óbrinnishólar. Náttúrufræðingurinn, 42.-45. árgangur. Rkv. 1974a.
-Stofun Árna Magnússonar.

Í Óbrinnishólahrauni

Nessel

Nú er ljóst að Seljadalur rís undir nafni. Áður fékkst einungis tilvist einnar seltóftar staðfest í dalnum, Nessels við Nesselslæk ofan við Innri-Seljadal. Fyrir skömmu skoðaði FERLIR Nærsel ofan Árnesgils norðan Seljadalsár í Fremri-Seljadal. Tvær aðrar tóftir á því svæði eru nú til skoðunnar.

Seljadalur

Tóft í Seljadal.

Af loftmyndum að dæma virtist móta fyrir tóftum á tveimur öðrum stöðum í Innri-Seljadal, norðan Seljadalsáar, auk þess sem vísbending hafði borist um aðra þeirra. Ætlunin var að reyna að staðsetja þær og skoða. Ekki er með öllu útilokað að þar kynnu að leynast enn fleiri sel, enda Seljadalsnafnið í fleirtölu.
Á leiðinni upp með Seljadalsánni, austan Þormóðsdals, eru fallegar skemmtilegar rústir, risastór fjárborg, mjög jarðlæg og rétt vestan við hana stórt sauðahús með einskonar gerði fyrir framan og svo hlöðu aftan við. Allt er þetta hlaðið úr torfi. Þetta gæti verið sama sauðahúsið og talað er um í örnefnalýsingunni um Þormóðsdal, sem Tryggvi frá Miðdal skráði; „og þá rennur um gilið Árneslækur“. Ef þetta er rétt túlkað er skilti, er geymir loftmynd af svæðinu niður við gatnamót Hafravatnsvegar og Þormóðsdalsvegar algjör della. Mjög falleg mosagróin varða, hlaðin úr þunnum steinflögum, stendur á holti rétt við línuna, sem þarna liggur. Tryggvi talar um Innri-Seljadal og gæti sá legið fyrir innan Kambhól því þar koma aðeins þrengsli í dalinn.

Seljadalur

Tóft í Seljadal.

Kíkt var á Nærselið á vallendistungu nokkru austan við Árnesgilslæk. Lítill lækur rennur úr grunnu gili ofan við tóftirnar. Þá var haldið áfram til austurs inn að Kambhól og litið á Kambs(hóls)réttina áður en stefnan var tekin í svo til miðjan norðanverðan Innri-Seljadal.
Gömlu þjóðleiðinni var fylgt að mýrarbrú, sem liggur þarna nokkurn spotta beint yfir mýrina. Hann er nú aflagður, enda gatan verið færð ofar á trébrú. Skammt austan hennar var stefnan tekin til norður upp í gróið afhallandi sléttlendi með lágum bakka að austanverðu. Þar undir bakkanum kúrir títil tóft með tveimur rýmum. Stærra rýmið, er hefur dyr mót vestri, hefur verið ca. 120×160 cm að innanmáli. Hitt er norðan hennar og snúa dyr mót norðri. Það hefur verið enn minna, ca. 60×80 cm. Norðan við tóftina virðist vera ferköntuð afmörkun, líkt og garður. Þetta gæti hafa verið sel og þá notað til skjóls og/eða geymslu. Hrístaka hefur verið þarna, sem og mótaka.
Skammt austan við þessa tóft er gróinn hvammur. Í honum miðjum er þúfóttur hóll. Uppspretta er norðan við hann undir grasbakkanum og rennur lítill lækur niður með hólnum að vestanverðu.

Nessel

Nessel.

Ekki sést móta fyrir veggjum eða hleðslum í hólnum, en hann sker sig úr öðru, sem þarna er. Ekki er með öllu útilokað að þar kynna að hafa verið hús, en ef svo er þá er það mjög fornt. Handan við ás ofan við tóftina er Nessel, undir grónum hól í grónum dal, í skjóli fyrir austanáttinni.
Tóftirnar eru mjög greinilegar. Í tóftarhólnum eru þrjú rými, eitt stærra en hin. Lækir renna hjá selinu, bæði að sunnanverðu og vestanverðu. Sameinast þeir í Nesselslækinn sunnar. Þegar svæðið var gaumgæft betur en áður hefur verið gert, komu í ljós tvö önnur mannvirki, að mestu jarðlæg. Sunnan við selið mótar fyrir hringlaga gerði. Annað svipað er skammt suðvestar. Vel má sjá lögunina, en erfitt er að segja til um hvaða hlutverki þessi mannvirki hafa þjónað. Giskað er þó á að það, sem er nær selinu, hafi verið stekkur, en það sem er fjær, hafi verið fjárborg eða nátthagi. Það gæti einnig hafa verið stekkur eða rétt.
Í bakaleiðinni var gengið fram á nokkur lóuhreiður.
Frábært veður – stafalogn og hlýindi. Fuglasöngur mófuglanna fyllti loftið og svanir sveimuðu tignarlega yfir ánni. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Nessel

Nessel – uppdráttur ÓSÁ.

Krýsuvíkurkirkja

Timburkirkja á grunni torfkirkjunnar frá því á 12. öld í Krýsuvík var byggð 1857 og var hún sóknarkirkja allt fram undir 1910, en aflögð 1917.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja fyrrum – tilgáta.

Fyrir altari var „fornfáleg altaristafla“. Kirkjuhúsið var í framhaldinu m.a. notuð til íbúðar frá 1929 uns hún var endurbyggð 1964 og endurvígð þann 31. maí það ár af biskupi landsins. Viðgerðir við kirkjuna hófust svo á ný 1986 og var kirkjan þá færð til upprunalegri gerðar. Hún brann til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010, en var byggð að nýju skv. upphaflegu fyrirmyndinni og komið á kirkjustaðinn þann 10. okt. 2020.

Ný endurgerð Krýsuvíkurkirkja var vígð hvítasunnudaginn 5. júní s.l. Af því tilefni var gefinn út bæklingur um sögu endurbyggingarinnar, flutninginn á vettvang í Krýsuvík, afhendinu og kirkjuvígsluna. Í honum er m.a. að finna yfirlit um þátttakendur í endurreisninni, sbr. meðfylgjandi upplýsingamynd.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – altaristaflan borin til kirkja á vígsluathöfninni. (Ljósm. Árni Sæberg)

Krýsuvíkurkirkja brann til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010 en kirkjan var byggð árið 1857, gerð upp og endurbyggð 1964 og síðar færð sem næst í upprunalegt horf með vinnu sem hófst 1986. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi svo rúmlega tvítugan mann í eins árs fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir að leggja eld að Krýsuvíkurkirkju.
Kirkjan stóð við hlið Krýsuvíkurbæjarins en það sem eftir var af honum var jafnað við jörðu með jarðýtu um 1960 ásamt fleiri minjum.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – kirkjugestir við vígsluna. (Ljósm. Árni Sæberg)

Þann 25. febrúar 1964 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að afhenda Krýsuvíkurkirkju ásamt kirkjugarði og öðrum mannvirkjum tilheyrandi staðnum Hafnarfjarðarsókn til fullrar eignar og varðveislu, ásamt landspildu umhverfis kirkjuna, samtals 7.096 m² að stærð.

Krýsuvíkurkirkja

Endurnýjað og uppfært upplýsingaskilti við Krýsuvíkurkirkju.

Áfallið varð mikið þegar gamla kirkjan í Krýsuvík var brennd í ársbyrjun 2010. Endurgerð hennar í framhaldinu, sem fór fram undir handleiðslu kennara og nemenda Iðnskólans í Hafnarfirði, síðar Tækniskólans, lauk áratug síðar. Þann 9. október 2020 var kirkjan flutt á grunn gömlu kirkjunnar í Krýsuvík. Formleg afhending fór fram á vettvangi 22. júní 2020. Þá var kirkjan afhent Þjóðminjasafni Íslands, eiganda kirkjunnar frá árinu 1857, sem síðan fól hana Hafnarfjarðarkirkju til varðveislu.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup, annaðist vígsluna. (Ljósm. Árni Sæberg)

Formleg vígslan tafðist hins vegar vegna heimsfaraldurs þar til s.l. hvítasunnudag, árið 2022. Fyrrum vígslubiskup í Skálholti, séra Kristján Valur Ingólfsson, annaðist vígsluna og flutti bæn að því tilefni.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – altaristaflan komin á sinn stað ásamt öðrum kirkjumunum.

Meðal annarra dagskrárliða voru innganga og upphenging altaristöflu Sveins Björnssonar, upphafsorð Jónatans Garðarssonar, formanns Vinafélags Krýsuvíkurkirkju, ritningarorð Hildar Ingvarsdóttur, skólameistara Tækniskólans, „Upp er risin Krýsuvíkurkirkja; ljóð ort og flutt af sr. Gunnþóri Ingasyni í tilefni af vígslu kirkjunnar og kirkjubæn sr. Jónínu Ólafsdóttur.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Þorkell Marinósson, yfirsmiður.

Að lokaorðum Magnúsar Gunnarssonar, formanns sóknarnefndar Hafnarfjarðarkirkju, loknum var messuvíni dreypt á gröf Sveins Björnssonar utan við kirkjuna. En hvers mátti fyrrum sýslumaðurinn Árni Gíslason í Krýsuvík að gjalda? Hann var sýslumaður í Skaftafellssýslum 1852-1879 en bjó síðast í Krýsuvík 1880 til dauðadags 26. júní 1898. Hafði um tíma hæsta lausafjártíund allra búandi manna á Íslandi. Talinn dugandi embættismaður og vinsæll í héraði, einkennilegur í lund og háttum, gamansamur og hagmæltur. (Ísl. æviskrár I, bls. 44.). Hann var jarðsettur aftan við kirkjuna og er legsteinn hans þar enn í dag.

Hryssingslegt veður var í Krýsuvíkinni á vígsludaginn; suðaustan rigning og þokusúld – dæmigert. Hið jákvæða var að kirkjuhúsið hélt vatni og veitti skjól. Að vígslu lokinni var kirkjugestum boðið til stofu í Sveinssafni.

Hrafnkell Marinósson, kennari við Iðnskólann, átti ekki minnstan þátt í nýsmíðinni. Aðspurður eftir vígsluathöfnina í Krýsuvík hvað væri honum minnistæðast í tíu ára byggingarsögu kirkjunnar á lóð Iðnskólans í Hafnarfirði (síðar Tækniskólans) svaraði hann án umhugsunar: „Félagi, það er samvinna og trú“.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – Þátttakendur í endurreisn Krýsuvíkurkirkju.

Þyrnir

FERLIR tók þátt í „Landnámsratleik Grindavíkur 2006„.

Járngerðardys

Járngerðardys.

Hér er um að ræða nýbreyttni í ferðaflóru Grindvíkinga. Þátttökuseðlar höfðu verið bornir út í hvert hús í Grindavík, en auk þess er hægt að fá þátttökuseðil í Saltfisksetri Íslands. Það var gert að þessu sinni og síðan lagt af stað (fótgangandi að sjálfsögðu) um þá 9 staði, sem tilgreindir eru í leiknum. Hver staður höfðar til landnámseinkenna Grindavíkur, sem numin var um 940, en var áður hluti af landnámi Ingólfs, þess norræna manns, sem fyrstur fékk viðurkenninguna „landnámsmaður Íslands“. Afrakstrinum var síðan skilað í Saltfisksetrið að göngu lokinni. Á leiðinni bar ýmislegt annað forvitnilegt fyrir augu.
Gengið var að eftirfarandi póstum (á hverjum pósti nálægt hverjum stað, sem vísað er á og fjallað er um ratleiknum, er gult merki með upplýsingum er staðfesta hann. Þær gefa og upplýsingar (bókstaf og tölustafi), sem skrá þarf á viðkomandi reit á þátttökuseðlinum).
1. Molda-Gnúpur og fólk hans námu land í Grindavík í kringum 940. Gnúpur er þekkt nafn á skipum hjá Þorbirni h.f. (ath. hornið við gömlu fiskverkunarhúsin).
2. Hafur-Björn var einn sona Molda-Gnúps. Veitingarstaður við Hafnargötuna bar nafn hans, en heitir nú Lukku-Láki. Óþarfi er að fara inn, þótt allir séu að sjálfsögðu velkomnir.
3. Björn dreymdi að bergbúi kæmi til hans og byði honum að gera félag við hann. Björn játti. Þá kom hafur til geita hans og geitunum fjölgaði og Björn var nefndur Hafur-Björn eftir það og varð stórauðugur eins og flestir Grindvíkingar. Merki Grindavíkur við innkomuna í bæinn (stóra spjaldið neðan við vatnsgeyminn, handan vegarins) sýnir geithafur.

Járngerðarstaðavör

Járngerðastaðavör.

4. Gömlu húsatóptirnar við Hóp eða í námunda við þær gætu hafa verið þar sem einn landnámsbærinn var – jafnvel bær Molda-Gnúps. Ein rústin hefur jafnan verið nefnd Goðatóft. Synir hans, Björn og Gnúpur, gætu hafa búið á Stað og á Húsatóptum.
5. Synir Molda-Gnúps, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi fiskuðu vel, því landvættirnir fylgdu þeim sem og öllum grindvískum sjómönnum eftir það. Ein lendingin gæti verið þar sem nú er Fornavör (neðan og austan við fjárhúsin).
6. Þjóðsagan segir að Járngerður hafi reiðst þegar bóndi hennar drukknaði á Járngerðarstaðasundi og lagt á að 20 skip skyldu farast á sundinu. Járngerður gæti hafa verið gift Þorsteini hrugni og búið á Járngerðarstöðum (þrjú hús standa nú á Járngerðarstaðatorfunni).
7. Munmæli herma að Járngerðarrleiði, sem Járngerður er sögð hafa verið heygð sé við veginn, rétt við bæinn Vík(best að leita sunnan götunnar suðaustanvið Vík).
8. Á Þórkötlustöðum bjó lílkega Þórkatla og gæti hafa verið gift Þórði leggjalda. En þjóðsagan segir að hún hafi reynt að milda álög Járngerðar og lagt á að á Þörkötlustaðasundi skyldi aldrei farast skip.. Þórkötlustaðanes og Þórkötlustaðaréttin bera nafn hennar (kíkja suður fyrir réttina).
9. Munnmæli herma að Þórkötlustaðaleiði, þar sem Þórkatla er sögð hafa verið heygð, er í litlum grónum hól, skammt austan við Hof, beint upp af Eyrarsandsbænum gamla (merkið er austan við hólinn (leiði Þórkötlu)).

Hóp

Goðatóftin á Hópi.

Á leiðinni á framangreinda staði var m.a. litið eftir álagahólum og -blettum, sem eru nokkrir í Grindavík, gömlum húsum, gömlum bæjarstæðum, tóftir skoðaðar o.fl. o.fl.
Leikur þessi er ætlaður fyrir alla og stendur yfir frá sjómannadegi til þjóðhátíðardags (milli tveggja þjóðhátíðardaga í Grindavík). Fróðleikurinn um landnámið er byggður á getgátum, en stuðst er vð Sturlubók, Hauksbók, munnmæli eldra fólks í Grindavík og þjóðsögurnar.
Sem fyrr sagði er galdurinn að skrifa á þátttökuseðilinn bókstaf og tölustafi á hverjum póstanna níu, finna úrlausnarorð yfir þekktan landnámsbæ, skrifa það og skila úrlausninni síðan inn í Saltfisksetrið fyrir 17. júní n.k. Þrír vinningar eru sagðir í boði: 1. 20 kg af saltfiski, sjófrystur fiskur og humar, 2. sjófrystur fiskur og 3. fjölskyldumáltíð á Lukku-Láka.
Ef einhverjir eiga enn eftir að taka þátt þá er bara að byrja leikinn og þar með gönguna um landnámstengda staði Grindavíkurbæjar. Á ferð FERLIRs mátti sjá fólk við póstana, bæði fótgangandi og hjólandi.
Frábært veður.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.