Eldvörp

Í Mbl. 17.11.1981 er frétt með fyrirsögnina „Hellir með mannvistarleifum finnst við Svartsengi“. Þar segir:
Mannvistir„Í síðustu viku fannst fyrir hreina tilviljun hellir við Svartsengi með minjum um einhverjar mannvistir. Var verið að jafna út jarðveginn og undirbúa borun holu þegar ýta féll skyndilega niður um hellisþakið.
Guðmundur Ólafsson, safnvörður, fór og skoðaði hellinn á fimmtudaginn, og sagði hann að þar væru tveir hlaðnir grjótveggir, 2-3 metra langir og tæpur metri á hæð.
„En fleira gæti leynst þarna af mannvistarleifum, því mikið grjót féll niður í hellinn þegar þakið hrundi. Eitthvað gæti komið í ljós þegar grjóthrúgan verður fjarlægð.“
Hellirinn mun vera um 30 metra langur og allt upp í 6-8 metra breiður. „En það er ekki hægt að ganga í honum uppréttur,“ sagði Guðmundur, „því hann er ekki meira en 1 1/2 metri á hæð þar sem hann er hæstur.“
MannvistirSagði Guðmundur að á hellinum væru tvö op. „Annars vegar er megininngangur, ef svo má segja, rétt við þann stað sem ýtan féll niður. Það hefur verið lokað fyrir þann inngang og gengið þannig frá honum að illmögulegt er að finna hann. Það bendir til að einhver hafi viljað dyljast þarna. Hins vegar er önnur leið inn í hellinn inn í rangala, svona 25 metra langan, sem hægt er að skríða eftir inn í hellinn.“
En síðan hvenær eru þessar menjar og hverjir gætu hafa haft þarna bústað?
Guðmundur taldi að þetta væru talsvert gamlar menjar, sem þarna fundust, jafnvel nokkurra alda gamlar. Hins vegar vildi hann ekki vera með neinar getsakir um það hverjir kynnu að hafa hafst þarna við. „En það lítur út fyrir að þetta hafi verið skammtímabústaður.“
Gísli Sigurðsson, fyrrverandi lögregluþjónn í Hafnarfirði, er fróður um þjóðleg efni, og blaðamaður Mbl. innti hann eftir því hvort nokkuð væri hægt að segja um hver eða hverjir hefðu dvalist þarna.

Mannvistir

„Það er ómögulegt að segja með nokkurri vissu. En það hafa fundist menjar um mannvistir í Eldvarpinu þarna skammt frá, og einnig í Grindavíkurhrauni. Manni dettur helst í hug að þegar Tyrkir voru hér – sem voru reyndar alls ekki Tyrkir heldur Alsírbúar – þá hafi fólk flúið þarna uppeftir og haft þarna einhverja dvöl. Þessi byrgi sem hafa fundist eru talin vera frá þeim tíma.
Meira get ég nú ekki sagt þér, nema þá kannski að það er til saga um þrjá stráklinga sem struku úr sveit einhvern tíma á 16. öld og voru á þvælingi þarna í stuttan tíma.“
Björn Þorsteinsson, prófessor í sagnfræði, taldi tilgátu Gísla sennilega. Björn var spurður að því hvort þetta gæti ekki verið útilegumannabústaður.
„Það er til í dæminu kannski. Það hefur verið eitthvað um útilegumenn þarna. Árið 1703 voru teknir útilegumenn í Henglinum, tveir eða þrír, að mig minnir. Þeir höfðu reyndar kerlingu með sér til að elda oní sig sauðina, og gekk víst seinlega að ná henni. Mennirnir voru drepnir, en kerlingin var sett á.“ 

Heimild:
-Mbl. 17.11.1981.

Eldvörp

Hleðslur í helli í Eldvörpum.

Óttarsstaðasel
Gengið var suður eftir Óttarsstaðaselsstíg (Rauðamelsstíg) frá Smalaskálahæðum upp í Óttarsstaðasel. Í leiðinni var litið á Meitlaskjól og síðan á Óttarsstaðaselsskúta syðri og Tóhólaskúta ofan við selið.

Bekkjaskúti

Bekkjaskúti.

Selstígurinn hefur einnig verið nefndur Rauðamelsstígur. Rauðamelsstígur er nafnið á leiðinni milli Dyngjuranans við enda Trölla- og Grænudyngju og Rauðamelanna (Stóra- og Litla Rauðamels) sem voru þar sem núna er Rauðamelstjörn í Rauðamelsnámu. Þessir tveir Rauðamelir voru mjög áberandi kennileiti sérstaklega þegar komið var að sunnan, annaðhvort frá Grindavík, Selatöngum eða Krýsuvík og tóku menn stefnu á Stóra-Rauðamel sem var með vörðu upp á.

Óttarsstaðaselsstígur

Óttarsstaðaselsstígur – gatnamót Skógargötu/Rauðamelsstígs.

Það var allt eins hægt að tala um Rauðamelsstíg þegar farið var frá Rauðamel, yfir Alfaraleiðina suður í selið, eða rétt norðvestan þess. Þaðan liggur vörðuð leið vestan Tóhóla í áttina að Rauðhól. Síðan liggur leiðin vestan við Einihól og Merardali yfir í Skógarnefið og þaðan um Mosastíg í Mosum, vestan við Einihlíðar að Lambafellunum (Stóra- og Litla-Lambafell, eða Eystra- og Vestara Lambafell). Þar kvíslaðist leiðin annarsvegar í Hálsagötur, sem liggja með Núpshlíðarhálsi um Selsvelli að Vigdísarvöllum, Selatöngum eða Grindavík, og hinsvegar liggur leiðin yfir Dyngjurana í áttina að Ketilsstíg og Krýsuvík (reyndar hægt að fylgja Móhálsadalsleið að Vigdísarvöllum eða að Selatöngum). Drumbsstígur lá síðan uppfrá Bleikingsvöllum yfir Sveifluhálsinn til Krýsuvíkurbæjanna.
Menn hafa jafnvel notað Rauðamelsstígs-nafnið yfir alla leiðina frá Óttarsstöðum að Ketilstíg þegar svo bar við, þó það sjáist varla alla leið norður að Rauðamelunum fyrr en menn voru komnir upp á Dyngjuhálsinn, austan úr Krýsuvík.

Sveinsskúti

Sveinsskúti.

Þó svo að þessi leið heiti í heildina Rauðamelsstígur hafa einstakir kaflar hennar mörg og misjöfn nöfn eins og venjan var um svo langar leiðir sem nýttust á köflum í tengslum við hrísrif, skógartöku, mosatöku, vetrarbeit, selfarir eða eitthvað annað. Til dæmis var leiðin á milli Óttarsstaðasels og bæjanna við ströndina ætíð nefnd Óttarsstaðaselsstígur af þeim sem bjuggu í Hraunum, en einnig Skógargata þegar menn fóru til skógarhöggs og kolagerðar. Stundum fóru þeir alla leið upp í Bringur eða Skógarnefið eða Búðarvatnsstæðið, en stundum ekki lengra en í Brenniselið, sem er nærri Bekkjarskúta og Álfakirkju.

Álfakirkja

Álfakirkja.

Þar var aldrei sel í beinum skilningi þess orðs heldur geymslugerði fyrir hrís og kol því þar lágu menn í skútum þegar þeir útbjugu brenni eða gerðu til kola á haustin. Það má líka vera að menn hafi geymt rjúpnafenginn fyrir jólin í þessu gerði sbr. Loftsskútann í Grændölum, Hvassahraunsmegin landamerkjanna.
Sá hluti leiðarinnar sem telst vera Skógargatan liggur upp í Bringurnar. Mosastígur liggur frá Óttarsstaðarselsstíg norðan við Bekkina (tvær fallnar vörður við stíginn) og liðast til suðvesturs upp hraunið, áleiðis að Skógarnefi. Hann er varðaður að hluta. Þessa leið munu Hraunamenn hafa farið þegar þeir sóttu sér mosa til eldsneytis. Fleiri nöfn hafa verið nefnd til sögunnar á þessum stígum eða götum í gegnum ofanverð hraunin.

Óttarsstaðasel

Meitlaskjól.

Annar Mosastígur er um Mosana við Böggukletta, áleiðis niður að Hvassahrauni.
Sjálfur Rauðamelur eða melirnir tveir, voru endanlega eyðilagðir í tengslum við efnisnám þegar Keflavíkurflugvöllur var byggður upp. Hluti af efninu úr Litla-Rauðamel hafði reyndar verið notað um aldamótin 1900 þegar Suðurvegurinn var lagður (Keflavíkurvegurinn elsti) og einnig nokkru fyrr þegar unnið var við lagfæringar á gamla Sýsluveginum. Það var vörubílstjóri, sem var jafnan kallaður Hrauna-Berti, afi Lovísu Ásbjarnardóttur, einn af eigendum Óttarsstaðalandsins, sem var stórtækastur í efnistökunni í Rauðamelsnámunni á sínum tíma, enda átti hann þetta land og gat nýtt það á hvern þann hátt sem honum hentaði. Það er enn hægt að sjá hluta af selstígnum (Rauðamelsstíg) norðan við námuna þar sem hann liggur niður á bæjunum.

Óttarstaðasel

Rauðhólshellir.

Meitlilshellir er í Stóra-Meitli við Rauðameslsstíg. Gróið er í kringum hann og hleðslur við opið. Þegar verið var að voma í kringum Meitlana stökk ljósgráflekkótt tófa upp á einn hraunhólinn, skimaði í kringum sig, en lét sig síðan hverfa. Mikið af lóuhreiðrum voru í móanum, auk hreiðurs skógarþrastar og þúfutittlings. Ekk voru í öllum hreiðrum, sem skoðuð voru.
Norðvestan undan seltóftunum er lægð í hrauninu. Þar undir vesturveggnum skammt neðan við selið er skúti, opinn mót austri. Í honum eru heillegar hleðslur. Væntanlega hefur verið þarna kví í skjóli.

Óttarsstaðasel

Fjárskjól við Óttarsstaðasel.

Tóftir Óttarsstaðarsels eru áberandi þegar komið er að þeim. Norðvestan við þær er vatnsstæðið, en stekkir bæði austan og norðan við þær. Gengið var áfram upp í Óttarsstaðahelli, sem stundum hefur verið nefndur Fjárskjólið mikla eða Rauðhólsskúti þótt Rauðhóllinn sé nokkru ofan við hann.
Óttarsstaðaselsskúti syðri er með nokkuð áberandi fyrirhleðslu sem blasir við þegar komið er í námunda við hann. Fleiri skútar tilheyra selinu og eru þeir flestir með svipuðu sniði. Þeir voru nýttir sem fjárskjól, en ekki síður sem förumannskýli.

Tóhólaskúti

Tóhólaskúti.

Tóhólaskúti er í Tóhólatagli spölkorn vestur af Tóhólum. Tóhólaþyrpingin, sem stendur dreift, er nærri Rauðamelsstíg ofan (sunnan) við selið. Spottakorn sunnar eru Merarhólar. Þar voru sumarhagar þeirra fáu hrossa sem Hraunamenn áttu að jafnaði. Vestan Óttarsstaðasels er Þúfhólsskúti.
Þegar sest er niður ofan við Óttarsstaðarsel í kvöldkyrrðinni og horft yfir tóftirnar má vel ímynda sér hvernig þar hefur verið umhorfs fyrr á öldum. Selsmatsseljan á ferð um selsstöðuna skipandi smalanum um að gæta að fénu, hann hlaupandi um hjörðina, hún með mjókurfötuna í hendi, kemur sér fyrir í kvínni, hann færandi henni hverja ána á fætur annarri uns allar hafa veri mjólkaðar, hún á ferð með mjókina í strokkinn eða flatbyttuna, hann strokkar, hún fylgist með og hleypir undan, grysjað og síað, bóndinn sést nálgast selið ríðandi með annan í taumi, kostir og gallar; forði og kröfur, bóndinn tekur af vistir, biður um afurðir, selsmatsseljan færir þær út úr geymsluvistinni í viðhlítandi umbúnaði.

Óttarsstaðasel

Nátthagi í Óttarsstaðaseli.

Bóndinn færir á klifbera, brosir og virðist ánægður, smalinn situr álengdar og fylgist með (hans bíður yfirseta, svefnleysi og kuldahrollur), bóndinn kyssir á kinn, skreiðist á bak og heldur til baka með reiðingshestinn eftir selsstígnum, selsmatseljan færir kostinn inn í búrið, bætir sprekum á eldinn í eldhúsinu, sem stendur til hliðar við svefnaðstöðuna og búrið og fer síðan inn í lágreista vistarveruna, sest á flet sitt og nagar harðfisk. Kvöldverkin eru framundan og mjaltir undir morgun. Svona var lífið í þá daga uppi í heiðinni.
Í bakaleiðinni var gengið niður Mosastíg vestan Óttarsstaðarsels, vel varðaða leið, og þá komið við í Sveinsskúta vestan Óttarsstaðarselsstígs, í Bekkjaskúta og síðan Brenniseli áður en haldið var yfir Alfaraleiðina sunnan Smalaskálahæða og að Óttarsstaðarborg.
Frábært veður – eins og ávallt í Hraununum.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel.

Sauðabrekkuskjól

Loftur Jónsson, hinn margfróði Grindvíkingur um fyrri tíma, hafði verið, líkt og svo fjölmargir aðrir, að lesa FERLIRsvefsíðuna. Hann hafði verið að skoða þar umfjöllun um Sauðabrekkuskjólin.
Í Féframhaldinu sendi hann eftirfarandi ábendingu: „Þá datt mér í hug að segja þér (kannske veistu þetta), að áður fyrr þegar Grindvíkingar smöluðu afréttinn ríðandi, þá fóru þeir fyrsta daginn í Hrútagjá vestan við Sveifluháls. Þar gistu þeir í hellisskúta. Og þaðan byrjuðu þeir smölun daginn eftir. Ég veit ekki hvar þessi hellir er svo það þýðir ekki að spyrja mig frekar um það“.
Þegar leitað var nánar til Lofts um fjárleitir Grindvíkinga fyrrum barst eftirfarandi svar: „Ég veit svo sem ekki mikið um fjárleitir hjá Grindvíkingum áður fyrr. Ég veit bara, að þeir  höfðu ótrúlega mikið fyrir þessum skjátum sínum. Vegna heyleysis var fénu sleppt í fjallið í Góulok (eða einhverntíma eftir miðja Góu). Síðan var smalað tvisvar um sumarið. Fyrst til að marka lömbin og síðan til rúnings. Landið sem smala þurfti var víðfemt, allt vestan frá Þórðarfelli og austur á Vörðufell og Herdísarvíkurfjall.  Þar sem rekið var til réttar var í = 1. Í Skálarétt, vestur undir Borgarfjalli. 2. Á Vigdísarvöllum.  3. Í Krýsuvík, réttin var vestan undir Bæjarfelli (eins og þú veist).
Ég veit ekki Féhvar rekið var til réttar, þegar smalað var kringum Þorbjörn og Þórðarfell. Sennilega rekið niður í Járngerðarstaða-hverfi. Þar sem menn snéru við til smölunar var;  í Sóleyjarkrika innan við Höskuldarvelli; í Hrútagjá (eða Sauðabrekkugjá) þar sem gist var yfir nótt. Síðan í Krýsuvík var farið austur á Vörðufell og Herdísarvíkurfjall. Landið er víða  hrauni orpið og illreiðfært, þá voru hrossin taglhnýtt og einn maður settur í það að koma þeim á einhvern ákveðinn staða þar sem menn gátu tekið hrossin sbr. trússmaður. Menn lágu við í tjöldum á Vigdísarvöllum og í Krýsuvík. Við fjallskil (á fjallskilaseðli) voru alltaf tilgreindir menn til að fara í útréttir sem kallað var, það var í réttir í öðrum sveitarfélögum; allt frá Njarðvík og austur í Ölfus og jafnvel til Þingvalla.
Fyrir Sauðabrekkuskjólfjárskipti var sauðfé á Reykjanes-skaganum sunnan  og vestan Hafnarfjarðar um það bil 20 þús. auk 70 – 80 hrossa sem rekin voru í fjallið. Bændur í Vogum og á Vatnsleysuströnd áttu alltaf stóð og það var oft vitnað í flókatrippin á Ströndinni. Þórður á Stóru-Vatnsleysu (faðir Sæmundar) átti u.þ.b. 1000 vetrarfóðraðar kindur og var fjárflestur í Gullbringusýslu. Hjálmar á Þórkötlustöðum átti u.þ.b. 100 sauði og þeir fóru allt austur i Þingvallasveit og Ölfus. Það var engin furða, 70 – 80 hross þurfa mikið að éta og voru eins og ryksugur á þessum grasteygingum á Reykjanesskaganum. Kindurnar sóttu alltaf lengra og lengra og enduðu þess vegna á annarra manna afréttum.
Ég veit ekki hvað ég get týnt fleira til svo ég læt þessu lokið í bili.“
Svo fá voru þau orð – en gagnleg
.

Heimild:
-Loftur Jónsson

Sauðabrekkuskjól

Sauðabrekkuskjól.

Hraunsnes

Gengið var niður hraunið frá Gamla Keflavíkurveginum skammt austan við Hvassahraun, að Stóra Grænhól, yfir Skógarhól og að Vondaskúta skammt ofan við suðvestanvert Hraunsnes. Ætlunin var að skoða skútann og halda síðan áfram yfir að Lónakoti þar sem Vatnagarðahellir er fyrir, gamalt fjárskjól og brugghellir. Fjárgata liggur niður hraunið vestan við skútann.

Vatnagarðahellir

Vatnagarðahellir.

Elsti hluti Keflavíkurvegarins, Suðurvegurinn, var lagður um 1900. Hluti af efninu var þá tekið úr Litla-Rauðamel. Einnig var efni tekið þar nokkru fyrr þegar unnið var við lagfæringar á gamla Sýsluveginum (JG).
Vondiskúti er undir margklofnum kletti upp af austanverði Hvassahraunsbót. Opið snýr í norður. Fjárgata liggur niður hraunið vestan við hraunhólinn. Skútinn ber nafn með rentu því þar endaði sauður ævi sína fyrir löngu. Skútinn var þyrnir í augum fjármanna sem þurftu sífellt að vera á varðbergi og gæta að fjársafni sínu. Víða má sjá hlaðið fyrir skúta í hraununum til að varna fé inngöngu. Þá eru einnig hleðslur við veggi jarðfalla til að auðvelda fénu uppgöngu ef það á annað borð leitaði þar skjóls. Líf bænda og búanda fyrrum snérist meira og minna við að eltast við og gæta að sérhverjum sauð og sérhverri skjátu því án þeirra var vandlifað í og við Hraunin.
Í Hraunsnesi er einnig fjárskjól undir bakka í grunnu jarðfalli, Hraunsnessfjárskjólið. Hleðslur eru fyrir því. Ofan við Hraunsnesið eru fallegar tjarnir og er ferskvatn í sumum þeirra.

Vondiskúti

Vondiskúti.

Gengið var niður að Markakletti, mörkum Hvassahrauns og Lónakots ofan við ströndina, áfram til austurs með ströndinni, Dulaklettum, framhjá minjunum við Réttarkletta og yfir að Lónakoti. Sunnan þeirra er Grænhólsskjól. Sumir telja að þarna hafi Lónakot verið fyrrum, en aðrir að selstaðan hafi verið flutt þangað úr heiðinni. Aðrir telja að þarna hafi svonefnt Svínakot, sem minnst er á í annálum. Í leiðinni var litið á fjárskjólið í skeifulaga hraunskál skammt sunnan við klettana. Troðningur liggur með ströndinni svo leiðin er nokkuð greið.
Ofan lónanna við Lónakot er Vatnagarðahellir í sunnanverðu jarðfalli. Myndarlagar hleðslur eru þar fyrir.

Vatnagarðahellir

Í Vatnagarðahelli.

Vatnagarðahellir var vetrarhellir Lónakotsbænda, skammt undan bænum, en samt utangarðs. Þar rúmaðist góður tugur fjár sem leitaði sjálft skjóls í óveðrum. Þar sem hellirinn er á mörkum Óttarsstaða og Lónakots gerðu báðir tilkalla til hans. Munnmæli herma að göróttur drykkur hafi verið bruggaður í hellinum á bannárunum. Orðrómur var um allnokkra slíka á Reykjanesskaganum. Einn þeirra er í Hvassahrauni, skammt sunnan við Reykjanesbrautina, en yfirvaldið, Björn Blöndal, mun hafa leitað árangurslaust að honum, enda erfitt að koma auga á opið.
Lónakot var einn Hraunbæjanna.
Haldið var inn á Lónakotsselsstíg og honum fylgt upp á þjóðveginn. Gróðurangan fyllti loftið eftir rigningar undanfarna daga.

Lónakot

Grænhólsskjól.

Gerðavellir

Björn Þorsteinsson skrifaði um Grindavíkustríðið 1532 í Faxa árið 1981. Skrifin voru framhald af skrifum hans um „Básendaorustuna“ sama ár:

Björn Þorsteinsson„Það er nauðsynlegt að hefta frelsi manna til þess að merkja sér fisk, áður en hann er keyptur, því að allar deilur milli kaupmanna eru venjulega sprottnar af þeim ósið. Jafnskjótt og kaupmenn koma til hafnar, þjóta þeir út um allar trissur og merkja sér hvern fisk, sem þeir finna. Þá ber það oft við, að þeir merkja sér annarra manna fiska, sem eru seldir fyrir löngu, en kaupendunum gafst aldrei tími til að merkja sér. Því næst verður það, þegar fyrri kaupendur koma og heimta fisk sinn, að hann er seldur öðrum og griðarlegar deilur hefjast. Af þessum sökum er það gott og rétt, að menn spyrjist fyrir um réttan eiganda eða umboðsmann þeirra fiskbirgða, sem þeir ætla sér að kaupa, áður en þeir ganga frá samningum, og merki sér ekki fiskinn fyrr en kaupin hafa verið gerð“.
Þessi klausa er úr „Reglugerð til þess að varðveita frið milli allra höndlunarmanna á Íslandi“ — og er frá árinu 1533. Hún veitir okkur dágott hugboð um það geysilega kapphlaup, sem þá er háð um íslenzka skreið. Jafnskjótt og kaupmenn eru orðnir landfastir, þjóta þeir um nágrenni hafnarinnar með brennimerki á lofti og setjast við fiskstaflana og helga sér skreiðina með því að brennimerkja hvern fisk. Síðar komu aðrir kaupmenn, stundum úr næstu höfn, og töldu sig eiga fiskinn samkvæmt viðskiptasamningi síðastliðins árs og tóku hann í sína vörzlu, ef þeir gátu. En brennimerkið varð ekki þvegið af skreiðinni, og því auglýsa kaupmenn í borgum Englands og Þýzkalands eftir íslenzkum fiski, sem frá sér hafi verið tekinn, merktur S eða R eða einhverjum öðrum stöfum, litlum eða stórum, og út af þessu spinnast alls konar bréfaskriftir og málaferli.
Básendar
Geysilega hörð keppni kaupmanna um íslenzka skreið gefur örugglega til kynna, að verzlunin við Ísland hafi verið mjög ábatasöm. Því miður er erfitt að henda reiður á því, hver sé raunverulegur gróði Íslandskaupmanna í sæmilegum árum, því að heimildir eru fáar um verð skipa og úthaldskostnað og innkaupsverð á fjölmörgum vörum, sem hingað eru fluttar. Það hafa með öðrum orðum ekki varðveitzt neinir viðhlítandi reikningar útgerðarfélags Íslandskaupmanna frá 15. öld og fyrra hluta þeirrar 16., en ýmsar heimildir gefa þó til kynna, að gróði þeirra hefur verið geysimikill. Frá árinu 1532 eru til skýrslur og útreikningar eiðsvarinna manna um útgerðarkostnað nokkurra enskra skipa og áætlað verðgildi þess farms, sem þau flytja venjulega frá Íslandi til Englands.

Viðskipti

Teikning af fiskviðskiptunum fyrrum.

Samkvæmt þeim skýrslum getur verðgildi eins skreiðarfarms frá Íslandi orðið um 80% af heildarverðmæti skipsins að viðbættum öllum úthaldskostnaði og verðmæti þess farms, sem skipið flutti til Íslands. Íslandsfar getur því með öðrum orðum greitt nærfellt allan úthaldskostnað og verð sitt í einni ferð. Svo feitum hesti hafa auðvitað ekki allir riðið úr Íslandssiglingu, en minnsti gróði, sem ég þekki eftir slíka ferð á fyrri hluta 16. aldar, eru 40% af verðmæti skipsins. Þegar búið var að greiða verð útfluttrar vöru, kaup skipverja og allan úthaldskostnað með verðmæti aflans, þá voru eftir peningar sem jafngiltu um 40% af verðmæti kaupfarsins. Íslandssiglingin tók venjulega 6—7 mánuði, en hinn hluta ársins eru Íslandsförin oft í leiðöngrum með ströndum Evrópu, og auðvitað hafa þau ekki tapað í þeim ferðum. Það er því ekkert undrunarefni, að kóngar og æðstu prelátar gerðu stundum út skip til Íslands. Hins vegar má ekki gleyma því, að um þessar mundir og lengi síðan voru margs konar hættur á höfunum, sjórán alltíð og skipstapar af völdum veðra. Siglingar eru því áhættusamar, en freistandi.

Staður

Staður í Grindavík. Hafnarkort Dana frá einokunartímanum.

Síðustu grein lauk á því að Ludtkin Smith, kaupmaður og útgerðarmaður frá Hamborg, hafði unnið frægan sigur á Englendingum í orrustunni að Básendum dagana 2.—3. apríl 1532. Skömmu síðar að því er virðist rita þýzkir kaupmenri í Hafnarfirði til Hamborgar og biðja borgarráðið að senda sér liðsauka, því að þeir ætli í stríð við Englendinga, sem sitji í Grindavík og haldi skreið fyrir þeim.

Grindavík

Grindavík – horforingjaráðskort 1910.

Mönnum kann að virðast, að það hafi verið seint að bíða þess liðsafla, eins og samgöngum var háttað, en slíkt er á misskilningi byggt. Skipaferðir voru alltíðar milli Íslands og Hamborgar vor og sumar og siglingaleiðin ekki lengri en svo, að liðsaukinn gat verið kominn til Íslands tæpum tveimur mánuðum eftir að bréfið var skrifað. En hjálparsveitirnar hafa aldrei komið, því að atburðarásin var hraðari en menn hafa e.t.v. ætlað, og hjá styrjöld varð ekki komizt.

Þórðarfell

Þórðarfell.

Í bréfinu, sem Þjóðverjar skrifa, segir m.a. að Englendingar í Grindavík hafi að ástæðulausu tekið fisk, „sem við höfum keypt og borgað, en bjóða að greiða hann með vörum á landsvísu eða í Englandi á einn nóbíl hundraðið“. Þjóðverjar segjast ætla að ná fiskinum, hvað sem það kosti. Í skýrslu Hamborgara um Grindavíkurstríðið frá sumrinu 1532 segir, að John nokkur Breye, kaupmaður í Grindavík, hafi tekið „réttlaust og með ofbeldi“ 35 lestir af fiski frá Þjóðverjum þá um sumarið, en 12 hundruð fiska frá Danakonungi.

Virki

Virkið ofan við Stórubót.

Þann 18. júlí 1532 útnefnir Erlendur lögmaður Þorvarðarson tylftardóm í Reykjavík til þess að dæma um atburðina í Grindavík, en þar segir, að Yón Beren hafi gripið 20 lestir eða meira af fiski frá þýzkum kaupmönnum. Hins vegar segir í enskri skýrslu um málið, að misklíðarefnið hafi verið fjögur hundruð fiskar, sem John Breye sagðist hafa tekið upp í skuld frá fyrra ári, en Hamborgarar og Brimarar gerðu kröfu til. — öllum heimildum ber því betur saman um orsök styrjaldarinnar en algengt er, þegar stríð hefjast.

Gerðavellir

Garður í Junkaragerði ofan við Stóru-Bót.

Um 1532 höfðu Englendingar alllengi haft eina af helztu bækistöðvum sínum við Ísland suður í Grindavík. Þar munu þeir oft hafa haft vetursetumenn, og var Marteinn Einarsson, síðar biskup, þar verzlunarstjóri hjá þeim um tveggja ára skeið. Systir hans, Guðlaug, giftist enskum kaupmanni, og fylgdi Marteinn systur sinni utan, þá barn að aldri. Hann var 9 ár í Englandi og hlaut þar skólamenntun, en um tvítugt kom hann út, sennilega á vegum mágs síns, og settist að í Grindavík. Það mun hafa verið laust eftir 1520. Þegar hér var komið, var einkum fyrir enskum kaupmönnum þar suður frá fyrrnefndur John Breye frá Lundúnum. Í íslenzkum heimildum kallast hann Ríki-Bragi, Jóhann Breiði eða Eldri Bragur. Jón Gissurarson segir í ritgerð um siðaskiptin, að fyrir Englendingum í Grindavík hafi verið Jónar tveir, kallaðir Eldri-Bragur og Yngri-Bragur. Þetta kemur heim við samtímaheimildir, því að þar getur um nafnana John Bryee, og er annar á skipinu Peter Gibszon frá Lundúnum, en hinn á Thomasi frá Húll, sem var sökkt í orrustunni við Básenda. Eftir þá orrustu hafa þeir, sem af komust, flúið til Grindavíkur.
Þangað kemur Jóhann Breiði á skipinu Peter Gibszon annað hvort snemma í apríl eða um miðjan maí. Skipið er talið um hundrað lestir að stærð. Jóhann setur upp markað og gerir út til þess að veiða þorsk og löngu, eins og segir í heimildum, en fær þegar fregnir af óförum landa sinna við Básenda. Honum þykir ekki friðvænlegt og lætur reisa virki við búðirnar hjá Járngerðarstöðum. Þar var saman komið harðsnúið lið, sem vildi gjarnan hefna harma sinna á Þjóðverjum, og lét reiði sína í þeirra garð bitna að nokkru á Íslendingum.
Jóhann lét þegar þau boð út ganga til Íslendinga í vikinni, að þeim sé stranglega bannað að flytja nokkurn fisk burt úr verzlunarstaðnum eða selja Þjóðverjum og hótaði afarkostum. Þá hefur hann gripið skreið, sem Þjóðverjar töldu sér á einhvern hátt. Einnig hefur hann sennilega viljað skammta Íslendingum verzlunarskilmála að öðru leyti, því að í dómi Erlendar lögmanns eru nafngreindir þrír Íslendingar í Grindavík, sem Jóhann á að hafa rænt, bundið og pínt, og einum þeirra hótaði hann lífláti, ef hann verzlaði við aðra en sína menn. Jón. Gissurarson segir, að Englendingar hafi verið „ómildir við íslenzka, svo að fólk gat ekki það liðið; réð fólk engu sínu og fékk ekkert fyrir sitt“.

Grindavík

Járngerðarstaðir.

Í þýzkri heimild segir, að Jóhann Breiði hafi tekið 80 lömb og sauði frá Íslendingi, sem skeytti ekki verzlunarbanni hans og taldi, að hann hefði ekkert vald yfir sér, og beitti aðra fátæka menn svipuðu ofbeldi. Hann lét taka hest af Íslendingi og barði manninn til ólífis, þegar hann krafðist að fá hann aftur. Einnig gerðist hann djarftækur til kvenna og tók konu nokkra með valdi um borð í skip sitt, en geymdi mann hennar þar hjá sér í hlekkjum á höndum og fótum, svo að hann gerði sér ekki ónæði, á meðan hann hélt konuna.
Um þessar mundir var Diðrik af Bramstað höfuðsmaður á Íslandi, en hann dvaldist erlendis og hafði hér fyrir sig nafna sinn, Diðrik fógeta af Mynden, sem frægur er í íslenzkri sögu fyrir afskipti sín af siðaskiptunum.

Járngerðarstaðahverfi

Járngerðarstaðahverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Diðriki þessum bar að halda uppi lögum og reglu í landinu, en Jóhann Breiði gerði honum margt til miska. Prestur nokkur varð sekur um margs konar illvirki, en flýði á náðir Jóhanns, svo að fógeti fékk ekki fangastað á honum. Einnig hafði Jóhann Breiði í heitingum við fógeta og hótaði að hengja hann hvar sem hann næði honum, og fór smánarorðum um Danakonung. Jón Gissurarson segir, að Íslendingar hafi að lokum ekki þolað lögleysur Jóhanns Breiða og manna hans. „Tóku íslenzkir sig þá saman og riðu til Bessastaða, kröfðu höfuðsmanninn, Diðrik fógeta af Mynden, liðveizlu móti slíkum illmennum. Varð hann vel við og sendi strax í alla kaupstaði, því íslenzkir hefðu ella látið illa að honum sjálfum, ef hann hefði ekki við orðið; skipaði hann þýzkum að finna sig við Þórðarfell, sem er hjá Grindavík“. Þessi frásögn er margstaðfest af skjölum að því leyti, að Diðrik af Mynden gengst fyrir herútboði til þess að hindra yfirgang Englendinga, sem höfðu vígbúizt í Grindavík. Fógeti sneri sér fyrst til þýzkra kaupmanna í Hafnarfirði og hét á þá að duga sér í herferð til Grindavíkur. Hann hvatti þá með því að brýna nauðsyn bæri til þess að tryggja hér frið og frelsi til verzlunar og lét lesa mikið kæruskjal á hendur Englendingum fyrir allt það, sem þeir hefðu unnið gegn Danakonungi á Íslandi. Af þeim sökum kvað hann nauðsynlegt, að þeim yrði straffað, og lofaði hverjum manni mála í nafni konungs, ef hann veitti sér lið gegn óaldarseggjunum.

Gerðavellir

Gerðavellir í Grindavík, virki Jóhanns Breiða – kort ÓSÁ.

Hafnarfjarðarkaupmenn tóku vel málaleitan fógeta, ef hann fengi nægan liðsafla, því að Jóhann Breiði væri mannmargur. Diðrik skrifaði þá í aðra verzlunarstaði um Suðurnes, m.a. Ludtkin Smith á Básendum. Hann bað Ludkin í nafni Danakonungs að koma eins og aðra skipara og kaupmenn frá Hamborg og Brimum og hjálpa sér gegn fjandsamlegum Englendingum, sem vinni gegn konungi landsins. Ludtkin segir fógeta, að því miður eigi hann illa heimangengt frá Básendum, því að enn hafi Englendingar á tveimur skipum valið sér þar legu; færi hann í herferð, mundu þeir hertaka skip hans og búðir á meðan. Það varð því úr, að Ludtkin varð eftir á Básendum og gætti skipa með nokkru liði, en félagi hans, Hinrik Berndes, fór með 34 manna sveit til Grindavíkur til fundar við fógeta.

Básendar 1726

Básendahöfn og Keflavíkurhöfn 1726.

Eftir orustuna að Básendum var saminn friður milli enska skipstjórans Roberts Legge og Ludtkin Smiths. Samkvæmt íslenzkum lögum mátti ekki víkja kaupskipi úr höfn, ef það rauf ekki hafnargrið, og virðist Ludtkin hafa sætt sig við að hlíta þeim ákvæðum um sinn. Íslenzk verzlunar- og fiskveiðilöggjöf hafði lengi verið þverbrotin, sérstaklega af Englendingum, en nú sáu Hamborgarar, að þeir gátu eflt hag sinn á Íslandi með því að styrkja íslenzku landstjórnina. Ludtkin leyfir því Robert Legge hafnarvist, en nokkru síðar kom skipið Mary James frá Lynn í Englandi og lagðist á Básendahöfn. Þar hélzt sæmilegur friður um skeið, en Þjóðverjar voru heimaríkir og hindruðu alla útgerð Englendinga á staðnum.

Grindavík

Grindavíkurleiðir fyrrum.

Þegar herförin til Grindavíkur var ráðin, taldi Ludtkin sig ekki lengur bundinn af ákvæðunum um hafnargrið og réðst á skipið Mary James, laskaði það með skothríð, réðst um borð, drap skipstjórann og særði nokkra menn. Hann rænti úr skipinu öllum vopnum og skotfærum, en að því búnu taldi hann sig öruggan á höfninni og sendi Hinrik Berndes með liðið til Grindavíkur.
Jón Gissurarson segir, að liðið hafi komið saman að kvöldi dags við Þórðarfell í tilsettan tíma, og hafi það verið 80 manns annars hundraðs. Flestum þýzkum og enskum heimildum ber hins vegar saman um það, að í liðinu hafi verið 280 menn eða 8 skipshafnir frá Hamborg og Brimum að viðbættri sveit Diðriks fógeta. Ein allörugg þýzk heimild segir þó, að einungis 180 manns hafi verið í hersveitinni, sem réðst á Grindavík, og er það líkast til rétt.

Prestastígur

Prestastígur – frá Höfnum til Grindavíkur.

Þórðarfell er inni í hrauninu um 7 km. norður af Grindavík, og þangað komu liðsveitirnar á hestum úr Hafnarfirði, Njarðvíkum og Básendum. Diðrik talaði fyrir liðinu, rakti ofbeldisverk Englendinga og fann þeim einkum til saka, að þeir hefðu gerzt uppreistarmenn gegn Danakonungi og löglegri stjórn landsins með því að reisa sér virki og vígbúast í víkinni og neita að greiða skylda tolla og skatta. Hann lýsti að lokum alla Englendinga í Grindavík ófriðhelga og réttdræpa, en friðhelgi yfir öllum, sem að þeim færu.

Gerðavellir

Gengið um Gerðavelli – söguslóðir Grindavíkurstríðsins 1532.

Aðfaranótt Barnabasmessu eða þess 11. júní hélt herinn síðan niður í víkina. Hann var alvæddur handbyssum, lásbogum, spjótum og sverðum, búinn léttum brynjum og stálhúfum. Þær njósnir höfðu verið látnar berast til Grindavíkur, að fógeti biði liðsstyrks frá Hamborg og treysti sér ekki til árásar að svo komnu. Íslendingar úr víkinni gátu því borið hernum þau tíðindi, að Englendingar uggðu ekki að sér, margir þeirra væru á sjó við fiskveiðar, en Jóhann Breiði hefði setið veizlu mikla um kvöldið og svæfi í búð sinni innan virkisins ásamt valfangara hertogans af Suffolk í Englandi og 13 öðrum Englendingum; varðhöld væru lítil, svo að nú bæri vel í veiði.

Skyggnisrétt

Gerðavellir – Skyggnisrétt.

Liðinu var skipt í sveitir, og var Hafnfirðingum og Njarðvíkingum boðið að slá hring um virki Jóhanns Breiða og ráðast þar til uppgöngu, en Básendamönnum falið að gæta hafnarinnar og hindra, að skip, sem væru á legunni, kæmust undan. Árásarherinn hélt skipulega og hljótt niður í Grindavík þessa vorbjörtu nótt. Það var útsynningshraglandi og úfinn sjór. Það reyndist rétt, að Englendingum hafði engin njósn borizt af herútboði fógeta, og sannar það okkur, að Íslendingar hafa verið mjög fjandsamlegir Englendingum á þessum slóðum. Klukkan tvö um nóttina var gert áhlaup á virki Jóhanns Breiða. Hafnarfjarðarliðið komst mótspyrnulaust upp á virkisveggina og réðst þá með öskrum og óhljóðum á tjaldbúðirnar. Jóhann Breiði og menn hans vöknuðu við illan draum og þurftu ekki griða að biðja. Fæstir þeirra náðu að tygjast, en allir voru þeir drepnir miskunnarlaust og sumir á níðingslegan hátt. Eftir skamma hríð lágu 15 Englendingar í blóði sínu í virkinu og meðal þeirra sundurhöggvinn líkami Jóhanns Breiða.

Gerðavellir

Leifar virkis Jóhanns Breiða við Gerðisvelli í Grindavík.

Nú varð uppi fótur og fit í Grindavík. Á legunni voru 5 ensk skip, og léttu þau þegar akkerum, er þau urðu ófriðar vör. Skipið Peter Gibszon lá við landfestar, og þangað brunaði nokkur hluti árásarliðsins, komst um borð og náði tafarlaust stjórn þess í sínar hendur. Utarlega í hverfinu voru búðir kaupmanna frá Lynn. Þangað hélt nokkur hluti Hafnarfjarðarliðsins, þegar virkið var unnið, og drap þar menn og rænti. Fjórum enskum skipum tókst að leggja frá landi, þótt átt væri suðlæg og allmikill sjór. Eitt þeirra strandaði í útsiglingu og fórst þar með allri áhöfn.
Eftir skamma stund var Grindavík algjörlega á valdi Diðriks fógeta og Þjóðverja. Sigurinn var ekki dýrkeyptur, því að hvergi var þeim veitt skipulagt viðnám. Þegar mannvígum var lokið, bauð Diðrik að flytja allt herfang um borð í skipið Peter Gibszon og hreinsa valinn. Átta Englendingar höfðu verið teknir til fanga, og voru þeir látnir dysja falina landa sína undir virkisveggnum, en inni í tjaldbúðum Jóhanns Breiða sló Diðrik og aðrir fyrirmenn upp veizlu, létu þeyta lúðra og berja bumbur og drukku siguröl. Herinn hélt kyrru fyrir í Grindavík um daginn, en næsta morgun, sem var miðvikudagur, var nokkur hluti liðsins sendur burt, en hinn varð eftir undir stjórn Diðriks og beið byrjar, en Diðrik ætlaði að sigla skipinu Peter Gibszon til Bessastaða með fangana og herfangið.

Miðaldarskip

Enskt miðaldarskip.

Um þessar mundir var Erlendur lögmaður Þorvarðarson hinn sterki á Strönd í Selvogi einn af aðsópsmestu valdamönnum á Íslandi. Þess er ekki getið, að hann hafi verið í herferðinni til Grindavíkur. Hins vegar setur hann tylftardóm í Reykjavík þann 18. júní um sumarið eða réttri viku eftir herferðina, og sitja í dóminum helztu höfðingjar og sýslumenn Sunnlendinga.
Það mun engin hending, að þeir eru þar saman komnir, því að enn þá var nokkur tími til alþingis. Sennilega hafa flestir þeirra verið í sveit fógeta í herferðinni. Dómurinn fjallaði um atburðina í Grindavík, og eru niðurstöður hans þær, að Jóhann Breiði og allir hans fylgjarar dæmast eftir lögbókarinnar hljóðan ránsmenn og réttilega af lífi teknir, en skip þeirra og góss fallið undir konung og umboðsmenn hans, Diðrik af Mynden. Allar réttmætar skuldir skyldu þó greiðast af góssinu, ef þeirra væri krafizt löglega fyrir 10. ágúst. Síðar var þessi dómur staðfestur af biskupum og lögréttu um sumarið, en þau gögn eru öll glötuð.

Miðaldarskip

Skip á 13. til 18. aldar.

Herinn, sem skilinn hafði verið eftir í Grindavík, sat þar í 10 daga eða til 21. júní; þá fyrst gaf byr, svo að hægt var að sigla fyrir Reykjanes. Meðan hann sat í víkinni, dreif þangað Englendinga, sem legið höfðu úti við fiskveiðar. Þeim þótti að vonum heldur köld aðkoma, er öllu hafði verið rænt og ruplað, eitt skip þeirra hertekið og fyrirliðar drepnir. Sjálfir voru þeir hraktir og svívirtir, og þóttust sælir að sleppa við meiðingar.
Grindavíkurstríðinu lýkur í raun og veru þann 21. júní, er Þjóðverjar láta úr höfn á Peter Gibszon, en þó var eftir að semja frið. Í styrjöldinni höfðu fjórar þjóðir átzt við og stjórnir þeirra létu sig atburðina miklu skipta.
Stríðið hófst að vísu á mjög óformlegan hátt, og Erlendur lögmaður Þorvarðarson og íslenzkir dómsmenn úrskurðuðu, að hér hefði einungis verið um að ræða eins konar lögregluaðgerðir gegn lögbrjótum, en stólkonungar og ríkisráð úti í heimi voru á öðru máli. Hér var hafin styrjöld, og þeirri styrjöld varð að ljúka með friðargerð.“

Heimild:
-Faxi, 2. tbl. 01.02.1981, Grindavíkurstríðið 1532 – Björn Þorsteinsson, bls. 42-43 og 45.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Flóki

Gengið var frá Bláfjallavegi norður Tvíbollahraun ofan við Markraka. Stefnan var tekin á Markarakahelli norðan Markraka og Dauðadalahella þar skammt vestar.

Dauðadalahellar

Í Dauðadalahellum.

Stuttur gangur er frá bílastæði við veginn niður að austanverðum Markraka, veðurbörðum melhæðum er standa upp úr hrauninu, eða hraununum réttara sagt, því þarna umhverfis eru nokkur hraun auk Tvíbollahrauns, s.s. Hellnahraun eldra og yngra og Þríhnúkahraun. Vestan við Markraka heita hraunin Skúlatúnshraun, en Tvíbollahraun og Þríhnúkahraun að austan og norðanverðu.
Jón Jónsson, jarðfræðingur (1983) segir aldur Tvíbollahrauns vera frá því um 875 eða þar um kring. Tvíbollahraun gæti því verið fyrsta hraunið sem rann á Íslandi eftir að búseta hófst og hellar þess þá fyrstu hellar sem mynduðust hér á landi á sögulegum tíma.

Dauðadalahellar

Í Dauðadalahellum.

Hellarás Dauðadalahellanna svonefndu er í einni hrauntröðinni, u.þ.b. 500 metra langri. Lengstu hellisbútarnir eru nokkrir tugir metrar, en í nokkrum þeirra er hátt til lofts. Einnig er litadýrð nokkur á köflum. Ekki er fært í alla hellisbútana án þess að síga og eru sumir þeirra lítt eða ekkert kannaðir. Hellarnir eru flestir litlir fyrir utan Flóka og Hjartartröð, sem er nokkru vestar.
Markrakahellir er efsti hluti hraunrásarinnar. Haldið var inn eftir hellinum, en hann lokast fljótlega. Falleg hraunbrigði eru í hellinum.
Dauðadalahellar eru skammt vestar. Meginhellirinn er innan við tiltölulega lítið op er opnast út í lágt, gróið, jarðfall. Fallegir brúnir litir prýða hellinn sem og rennilegir hraunbekkir. Raunar liggja rásirnar hingað og þangað og þyrfti góðan tíma til að skoða þær allar.

Dauðadalahellar

Í Dauðadalahellum.

Dauðadalahellar mynduðust eftir að hraun rann frá Grindarskörðum vestur að Skúlatúni. Hellarnir áttu það til að reynast villugjarnir fyrir sauðfé sem leitaði þar skjóls en komst ekki aftur út eins og nafn Dauðadala gefur til kynna.
Flóki er langstærsti hellir, sem fundist hefur í Dauðadölum. Heildarlengd hans er um 900 metrar og er hann einn sérkennilegasti og margflóknasti hraunhellir hér á landi. Flóki teygir ganga sína víða og lengd meginrásarinnar því aðeins um einn þriðji af heildarlengd hellsins. Op á hellinum eru fjölmörg og er hann hið skemmtilegasta völundarhús. Flóki er einn örfárra hella á landinu sem hægt er að villast í.
Bakaleiðin var gengin um Dauðadalastíg. Hann liggur á milli Kaldársels og Kerlingaskarðs um Dauðadali, um vestanverðan lághrygg Markraka og áfram yfir Bláfjallaveg, um nokkuð slétt mosavaxið helluhraunið.
Á Markraka eru landamerki Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Grindavíkur.
Gangan tók 1 klst og 11 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson 1990.

Daudadalahellar-21

Í Dauðadalahellum.

Valaból

Valaból, sunnan við Hafnarfjörð, hefur á stundum verið nefnt fyrsta Farfuglaheimilið á Íslandi. Fljótlega eftir að Bandalag íslenskra farfugla var stofnað árið 1939 var hafist handa við að leita að hellisskútum sem unnt væri að nota sem gististaði. Fyrstur fyrir valinu varð Músarhellir við Valahnúka, sunnan við Hafnarfjörð.
MúsarhellirFékk staðurinn snemma nafnið Valaból og hefur hann verið þekktur undir því nafni æ síðan. Engar öruggar heimildir finnast um það hvers vegna hellirinn fékk nafnið Músarhellir. En tvær tilgátur hafa einkum verið í gangi. Önnur er sú að hellirinn hafi verið svo lítill að hann minnti einna helst á músarholu. Hin kenningin er að mýs hafi leitað í nesti gangnamanna, en hellirinn var notaður sem náttstaður gangnamanna fram undir 1900.

Eina opinbera staðfestingin á landnámi Farfugla í Valabóli er að finna í fundargerðarbók Bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 13. júlí 1942 og er hún þannig: Farfugladeild Reykjavíkur fer fram á leyfi til þess að mega innrétta og hlaða fyrir hellisskúta norðanvert í Valahnjúkum. Bæjarráð leggur til að þetta leyfi verði veitt meðan ekki kemur í bága við annað sem talið er nauðsynlegra.

Frá upphafi átti Valaból að gegna tvíþættu hlutverki. Í fyrsta lagi að verða áninga- og gististaður Farfugla og annars útivistarfólks, Farfuglahreiður. Í öðru lagi var hugmyndin að lagfæra og fegra umhverfi hellisins og gróðursetja blóm og tré.

Strax eftir að þetta leyfi var veitt hófust Farfuglar handa við að standsetja hellinn. Hann var mokaður út, því það var langt í frá að hann væti Í Valabólimanngengur. Var gólfið lækkað um hálfan metra og segl sett á moldargólfið. Auk þess voru veggir hlaðnir og sett var upp hurð með glugga. Þegar grafið var út úr hellinum fundust þar bein og fyrirhleðsla sem bentu til þess að einhvern tíma í fyrndinni hafi fólk dvalist í hellinum. Síðar var segldúknum skipt út fyrir trégólf, innréttingar gerðar og komið var upp aðstöðu til eldunar. Þá voru geymd þar ullarteppi sem voru næturgestum til afnota. Komu þau í góðar þarfir því hellirinn var óspart notaður til gistingar. Trégólfið var í hellinum allt fram til 1960 en þá var það orðið svo fúið að það var fjarlægt ásamt eldunar- og viðlegubúnaði. Um leið og trégólfið var fjarlægt var gólfið enn lækkað og það lagt steinhellum.

Fyrstu árin eftir að Músarhellir var gerður upp var hann mikið notaður til gistingar. Sú hefð skapaðist fljótt að hafa gestabók í hellinum og er svo enn í dag. Þessar gestabækur eru frábær heimild um þá stemningu sem myndaðist á staðnum og þann mikla fjölda gesta sem árlega heimsækir staðinn.

Við Valaból

Eftir að búið var að lagfæra hellinn og gera hann nothæfan fyrir gistingu var hafist handa við ræktunarstarf. Fyrst verkefnið var að girða nágrenni hellisins, en þar sem ekki var bílfært lengra en í Kaldárbotna varð að bera þaðan allt girðingarefnið. Við girðingarframkvæmdirnar var reynt eftir föngum að nota náttúrulegar hindranir, s.s. kletta sem hluta girðingarinnar. Annars staðar voru hlaðnir steingarðar og á sléttlendi var sett upp girðing á staurum.

Í Valabóli

Eftir að búið var að girða af svæðið var hafist handa við að undirbúa landið fyrir gróðursetningu því það var mest stórgrýtisurð og því illa fallið til ræktunar. Fyrst var stórgrýtinu safnað saman til að hlaða úr því stalla, síðan fyllt ofan á það með smærra grjóti, leir og öðru sem fyrir var og loks var sett mold til þess að unnt væri að þekja svæðið. Lítið var um farartæki á þessum árum og þurfti því að bera mold, þökur, áburð og annað sem til þurfti langan veg.

Mikill hugur var í mönnum við gróðursetninguna og fljótlega þurfti að fá leyfi til að færa út girðinguna. Til eru heimildir um að Farfuglar hafi 5 sinnum sótt um það til Hafnarfjarðarbæjar að stækka svæðið. Síðast var svæðið stækkað 1990 og var girðingin þá færð á þann stað sem hún er nú. Síðustu framkvæmdir í Valabóli áttu sér stað sumarið 2004 en þá var girðingin kringum svæðið lagfærð. Var þar um að ræða samstarfsverkefni Hafnafjarðarbæjar og Farfugla.

Valaból

Þrátt fyrir erfið skilyrði til ræktunar má fullyrða að árangurinn hafi verið vonum framar. Samkvæmt flórulista sem byggður var á athugunum Gests Guðfinnssonar og Mattihasar Guðfinnssonar 24. júlí og 23. ágúst 1970 þá fundust alls 103 innlendar plöntur og 9 erlendar í Valabóli þetta sumarið. Það eru ekki eingöngu hin náttúrulegu skilyrði sem hafa tafið uppgræðsluna í Valabóli heldur hefur ágangur sauðfés verið mikill í svæðið, enda gróðurlítið á stóru svæði umhverfis. En eftir að mönnum tókst að setja upp fjárheldar girðingar tók gróðurinn verulega við sér og tegundum fjölgaði.

Segja má að Valból sé sannkölluð vin í eyðimörkinni í Reykjanesfólkvanginum og er staðurinn í dag vinsæll áningarstaður gangandi fólks og hestamanna.

Heimild:
-www.hostel.is

Valaból

Valaból – Músarhellir 1952.

Gjábakkahellir

Gjábakkahellir milli Þingvalla og Laugarvatns hefur tengsl við Reykjanesskagann.
Björn Hróarsson segir eftirfarandi í stórvirki sínu „Íslenskir hellar“ um Gjábakkahelli: „Gjábakkahellir hefur einnig verið nefndur Helguhellir og Stelpuhellir. Björn Th. Björnsson (1984) segir Stelpuhelli upprunalegasta Í Gjábakkahellinafnið. Nú má hins vegar fullyrða að nafngiftin Gjábakkahellir hafi náð yfirhöndinni og hin nöfnin fallið í gleymsku.
Hellirinn liggur undir veginn milli Gjábakka og Laugarvatns um tvo kílómetra frá eyðibýlinu Gjábakka. Hellirinn er opinn í báða enda og er neðra opið rétt neðan vegarins og merkt með lítilli vörðu. Efra opið opnast í dálitla laut nokkru ofan við veginn. Meginlína hellisins er um 310 metrar en heildarlengdi hans er um 364 metrar.
Hellirinn er töluvert hruninn en hefur samt margt að bjóða hellaförum, til dæmis er þar allajafna töluvert um ísmyndanir. Þá eru þar separ, totur, spenar, storkuborð og ýmsar aðrar hraunmyndanir sem gleðja augað. Á einumstað er hellirinn á tveimur hæðum og á kafla mmá velja tvær leiðir áfram. Önnur lokast þó fljótt svo enginn ætti að villast, í það minnsta kosti hvorki lengi né illa.
Hellirinn hefur verið þekktur lengi. Matthías Þórðarson þjóðminjavörður skoðaði hann árið 1919. Til er þjóðsaga sem segir að stúlka frá Gjábakka hafi farið í hellinn og aldrei komið út aftur eða þá að hún hafi komið upp úti á Reykjanesi og þá hafi skór hennar verið fullir af gullsandi. Þjóðsagan skýrir nafngiftina Stelpuhellir.
Gjábakkahellir var kortlagður af Eichbauer, E. og Fritsch, E. þann 27. júní 1985.“
 

Heimild:
-Björn Hróarsson – Íslenskir hellar -2006, bls. 347.

Gjábakkahellir

Draughólshraun

Gengið var um Brunann, öðru nafni Nýibruni, Nýjahraun eða Kapelluhraun.
Bruninn - Óbrinnishólar og Helgafell fjærKapelluhraun myndaðist úr gíg[um] á 25 metra langri sprungu sem opnaðist í eldgosahrinu er hóft 1151 og hraun rann til sjávar bæði norðan og sunnan megin við Reykjanesskagann. Á síðustu árum hefur mikið efni verið tekið úr hrauninu til uppfyllingar við álverið [sem og úr Rauðamel] og í húsgrunna og götur á Stór- Reykjavíkursvæðinu og það sléttað.
Álverið við Straumsvík stendur á Nýjahrauni/Kapelluhrauni og er allra yngsta hraunið á svæðinu í kringum Hafnarfjörð. Í umræðum meðal Hraunafólksins var hraunið jafnan nefnt Bruninn og brúnir hans Brunabrúnir vestri og eystri. Hann á upptök undir Undirhlíðum og hefur komið úr gígaröðum, sem virðast vera tengdar misgengissprungum. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu hjá Krýsuvíkurkerfinu fyrstnefnda.
Kapelluhraun er ákaflega fallegt [þ.e.a.s. sá hluti þess sem enn er óraskaður], úfið og mosagróið apalhraun. Hraunið er fínkornótt með einstaka tiltölulega stórum dílum. Dílarnir eru oftast plagioklas, pyroxen og einstaka ólivín. Stærð hraunsins er 11,6 km2 – 13.7 km2. Eitt sinni var rudd braut í gegnum hraunið en hún hefur að mestu verið eyðilögð að undanskildum um 10 metra kafla við litla endurgerða rúst í hrauninu, sem er nefnd Kapellan.

Hraunkarl í Brunanum

Árið 1950 rannsakaði Kristján Eldjárn þessa kapellu og fannst þar m.a. lítið líkneski af heilagri Barböru sem er  verndardýrlingur ferðamanna. Hún var góð til áheita gegn hvers konar eldsgangi.
Af þessum rannsóknum má m. a. ráða, að líkur séu á að þunnfljótandi hraunstraumar geti runnið í sjó fram frá gosstöðvum vestan Undirhlíða og víðar yfir það svæði.
Sem dæmi má nefna eftirfarandi úr grein Hauks Jóhannessonar og Sigmundar Einarssonar 1998, s. 175, sjá nr. 5 hér að ofan.:
„Kapelluhraun.
Yngsta hraunið á svæðinu er oftast nefnt einu nafni Kapelluhraun, þó svo að það heiti eigi í raun aðeins við nyrsta hluta þess. Syðri hluti hraunsins hefur gengið undir heitinu Nýibruni. Kapelluhraun er hluti af hraunum sem runnu í Krísuvíkurrein árið 1151 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1989). Þá opnaðist gossprunga sem er alls um 25 km löng en þó slitin í miðjunni.

Hraungambri í Brunanum

Sunnan á skaganum rann Ögmundarhraun í sjó fram og tók það af gamla Krýsuvíkurbæinn. Norðan á skaganum rann Kapelluhraun, aðallega frá gígum við Vatnsskarð [Rauðhól] sem nú heyra sögunni til vegna gjallvinnslu. Hraunið rann til sjávar í Straumsvík … Álverið í Straumsvík stendur á hrauninu“
Í niðurlagi greinarinnar segja höfundar auk þess:
„Eldgos á Rekjanessskaganum virðast koma í hrinum og á milli er minni virkni. Hrinurnar verða á um þúsund ára fresti og hver hrina stendur yfir í nokkur hundruð ár. Síðasta hrinan hófst upp úr miðri tíundu öld og endaði um 1240. Í hverri hrinu verða umbrot í öllum eldstöðvareinunum á skaganum og í síðustu hrinu færðist virknin frá austri til vesturs. Einnig er nokkuð víst að verði eldgos í Brennisteinsfjöllum og í norðanverðum Móhálsadal munu hraun þaðan renna niður til strandar milli Hrútagjárdyngjunnar og Hvaleyrarholts, sömu leið og Hellnahraun eldra og yngra og Kapelluhraun.
Í Brunanum - Fjallið eina og Sandfell fjærAf ofansögðu er ljóst að hraun geta runnið til Straumsvíkur bæði frá Brennisteinsfjallarein, en þar gaus síðast á 10. öld, og frá Krísuvíkurein þar sem síðast gaus um miðja tólftu öld. Síðast urðu með vissu eldsumbrot á Reykjanesskaga á fyrri hluta 13. aldar í Reykjanesrein. Nær útilokað er að hraun frá gosum í þeirri rein geti runnið til Straumsvíkur en hins vegar gæti þar hugsanlega orðið vart landsigs vegna meðfylgjandi gliðnunar í reininni.“
Í grein sinni um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu (sjá nr. 6 hér að ofan, s. 271) segir Páll Imsland m. a.:
„Eftir Krísuvíkurelda á 13. öld hafa ekki komið upp hraun í nágrenni Straumsvíkursvæðisins. Landslagi er þannig háttað að hraun sem koma upp vestanundir Undirhlíðum eiga ekki annarra kosta völ en að renna út á hraunflákana til vesturs og norðurs og leita undan halla og þrýstingi frá kvikunni sem flæðir úr gígunum í átt til strandar, í átt að Straumsvík. Áður en að álverinu sjálfu kemur eru raflagnir, spennuvirki, þjóðvegur og fleira slíkt í rennslisleiðum hrauna; mannvirki sem skipta verulegu máli, bæði fyrir starfrækslu álversins og alla byggð sunnar á skaganum. Það er því ljóst að hraunflóðahætta er þarna til staðar, en ekkert er þekkt sem bendir til yfirvofandi hættu. Náttúran á svæðinu hefur ekki sýnt nein þekkjanleg merki þess að þarna séu eldgos í uppsiglingu. Á hitt ber samt að líta að þetta er afkastamikið, virkt eldgosasvæði þar sem ekki hefur gosið í um 850 ár, og til eru vísbendingar um að virknin á Reykjanesskaganum gangi í hrinum með nokkurra alda aðgerðarlitlum hléum. Hrinur þessar einkennast af jarðskjálftum, sprungumyndun og eldgosum.“
Í greininni „Hamfarir á höfuðborgarsvæðinu“eftir Þórdísi Lilju Gunnarsdóttur, sem birtist í tímaritinu Ský, 6 2001-2002, s. 36, má lesa eftirfarandi:
„Í Kröflueldum í september 1984 rann glóandi hraunáin um tíu metra vegalengd á sekúndu. Það gera 36 kílómetrar á klukkustund. Að mati jarðfræðinganna Páls Imslands og Karls Grönvolds er það álíka hraði og væri á nýju hrauni við höfuðborgina í dag. Því myndi hraunelfan geta náð efstu byggðum borgarinnar á fáum klukkustundum … Ef eldgos brytist út í Húsfelli, Búrfelli eða Trölladyngju gæti hraun runnið niður Kúagerði og yfir Reykjanesbraut, yfir álverið í Straumsvík, rafstöðina við Hamranes og nýjustu byggð Hafnfirðinga sunnan við Reykjanesbraut sökum þess hve Reykjanesskaginn er mjór sunnan við Hafnarfjörð. Í miklum hamförum á þessum slóðum gæti hraun einnig náð til byggðar í Garðabæ og yfir Álftanesið.“

Gata í Brunanum

Gengið var um Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar. Í göngunni var höfð hliðsjón af skrifum Sigmundar Einarssonar, Hauks Jóhannessonar og Árnýjar Erlu Sveinbjörnsdóttur um Krýsuvíkurelda II – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns, er birtust í Jökli nr. 41 1991.
Gangan hófst við Gerði ofan við Straum, nyrst í vesturjaðri Kapelluhrauns. “Samkvæmt annálum urðu eldgos í Trölladyngjum á Reykjanesskaga árin 1151 og 1188. Líkur benda til að 1151 hafi Ögmundarhraun í Krýsuvík og Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar runnið er umbrotahrina varð í eldstöðvarkerfi Trölladyngju. Hrinunni lauk líklega 1188 með myndun Mávahlíðahrauns. Umbrotahrinan í heild er nefnd Krýsuvíkureldar. Gossprungan er ekki samfelld en milli enda hennar eru um 25 km. Flatamál hraunanna er 36.5 km2 og rúmmálið er áætlað um 0.22 km3. Vegið meðaltal fimm geislakolsgreininga gefur 68.3% líkur á að hraunin hafi runnið á tímabilinu frá 1026-1153.
Í Konungsannál, Oddverjaannál og Annál Flaeyjarbókar 1151 segir frá eldum í Trölladyngjum. Einnig í Skálholtsannál 1188. Ekki er ljóst hvers vegna annálarnir kenna gosin við Trölladyngjur en svo virðist sem þær hafi verið alþekkt örnefni á þessum tíma. Líklegast er að eldgosið 1188 hafi verið lokaþáttur umbrotahrinunnar.
Auk þessara frásagna í annálum eru óbeinar heimildir um hraunrennsli á norðanverðum Reykjanesskaga eftir landnám. Kapelluhraun heitir einnig Bruninn í daglegu tali og það eitt bendir til að menn hafi séð hraunið renna. Yfirleitt er talið að Kapelluhraun hafi áður heitið Nýjahraun og Ólafur Þorvaldsson (1949) segir nafnið Nýjahraun sé enn þekkt um hluta þess. Þessi gögn benda eindregið til að hraunið hafi runnið eftir að land byggðist.
Snókalönd í Brunanum - Stórhöfði fjærElstu heimildir um nafnið Nýjahraun er annars vegar í annálum og hins vegar í Kjalnesingasögu. Annálar greina frá skiptapa við Hafnarfjörð árið 1343 og fórust með skipinu 23 eða 24 menn. Annálar segja þannig frá slysinu: “Braut Katrínarsúðina við Nýja hraun.” (Annáll Flateyjarbókar). Í Gottskálksannál, bls. 352 segir: “Braut Katrínar súðina fyrir Hvaleyri, drukknuðu þar iiij menn ogg xx.”
Í Kjalnesingasögu (1959) er tvívegis minnst á Nýjahraun. Þar segir senmma í sögunni að Þorgrímur Helgason hafi reist bú að Hofi (á Kjalarnesi) og “hafði hann mannforráð allt il Nýjahrauns og kallað er Brunndælagoðorð”. Undir lok sögunnar segir svo frá því er Búi Andríðsson tók við mannaforræði eftir Þorgrím og “hafði hann allt út á Nýjahrauni og inn til Botnsár”.
Kjalnesingasaga gerist á landnámsöld en er talin skrifuð skömmu eftir 1300. Athyglisvert er að höfundurinn skuli nota Nýjahraun til að takmarka Brunndælagoðorð. Notkun örnefnisins Nýjahraun í Kjalnesingasögu bendir til að hraunið sé runnið einhvern tíma á tímabilinu 870-1250.
Ótrúlega fáir, þrátt fyrir framangreint, hafa gert tilraun til að kanna Brunann/Kapelluhraun, upptök þess, útbreiðslu og raunverulegan aldur. Þorvaldur Thoroddsen (1913) reið á vaðið er hann kannaði Kapelluhraun lauslega 1883. Guðmundur Kjartansson (1954) varð fyrstur jarðfræðinga til að kanna Kapelluhraun og Óbrinnishólabruna svo nokkru næmi. Jón Jónsson hefur nokkrum sinnum ritað um hraun á svæðinu. Hann taldi á grundvelli geislakolsákvarðana að Óbrinnihólar væru liðlega 2100 ára gamlir og að Kapelluhraun hefðu runnið í byrjun elleftu aldar.
Úr gígum nyrst í Undirhlíðum hefur runnið hraun sem Jón Jónsson (1978a, 1983) nefnir Gvendarselshraun. Undir því hefur hann fundið Landnámslagið og út frá aldursgreiningu með geislakolsaðferð telur Jón hraunið runnið á elleftu öld.

Hlaðið undir horfna girðingu í Brunanum

Í framhaldi af þessum niðurstöðum hefur Jón stungið upp á því að Ögmundarhraun, Kapelluhraun og Gvendarselshraun hafi öll orðið til í einni goshrinu á fyrri hluta elleftu aldar (Jón Jónsson 1982,1983).
Gossprungan, 25 km löng, er frá norðanverðri Gvendarselshæð og suður fyrir Núpshlíðarháls. Á henni er um 8 km löng eyða, þannig að alls hefur gosið á um 17 km langri sprungu. Syðri hlutinn er um 10,5 km að lengd og nyrðri hlutinn um 6.5 km.
Í Krýsuvíkureldum mynduðust fjórir aðskildir hraunflákar. Syðst er Ögmundarhraun sem nær frá Djúpavatni í Móhálsadal suður í sjó. Næst norðan við það er lítið hraun sem runnið hefur út á Lækjarvelli og er það langminnst þessara hrauna. Þriðja hraunið er við Mávahlíðar, norðaustur af Trölladyngju, og liggur til hliðar við megingossprunguna. Nyrst er svo Kapelluhraun sem runnið hefur frá Undirhlíðum til sjávar.
Hraunið sem rann frá syðsta hluta gossprungunar fyllti allan Móhálsadal sunnan Djúpavatns og fyllti allstóra vík sem að líkindum hefur verið hin forna Krýsuvík. Hraunflákinn gæti hafa myndast í tveimur [eða fleiri] gosum (en þó í sömu goshrinu).
Skammt norðan við Bláfjallaveg eru litlir og snotrir gígar er nefnast Kerin. Frá þeim hefur runnið lítið hraun til vesturs og norðurs. Norðan við gíganna er hraunið á nokkrum kafla svo rennislétt að furðu sætir. Hraunin frá Gvendarselsgígum og Kerjum verða ekki talin sérstök hraun, heldur hluti af Kapelluhrauni, enda um einn samfelldan hraunfláka að ræða. Alls þekur Kapelluhraun 13.7 km2. Ef meðalþykktin er um 5 metrar er rúmmál þess um 0.07 km3.
Líkur hafa verið leiddar að því að Ögmundarhraun hafi runnið 1151 og er þar jöfnum höndum stuðst við frásagnir annála, geislakolsaldur og rannsóknir á öskulögum. Bruninn/Nýibruni/Nýjahraun/Kapelluhraun er frá svipuðum tíma.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-Krýsuvíkureldar II – Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns – Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir – Jökull nr. 41, 1991.
-Guðmundur Kjartansson 1973. Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð. Náttúrufræðingurinn 42. 159-183.
-Jón Jónsson 1978: Jarðfræðikort af Reykjanesskaga. Orkustofnun OS-JHD 7831. 303 bls. + kortamappa.
-Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson 1989. Krísuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins. Jökull 38. 71-87.
-Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson & Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 1991. Krísuvíkureldar II. Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns yngra. Jökull 41. 61-80.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1998. Hraun í nágrenni Straumsvíkur. Náttúrufræðingurinn 67. 171-177.
-Páll Imsland 1998. Um náttúruvár á Straumsvíkursvæðinu. Náttúrufræðingurinn 67. 263-273.

Bruninn - Undirhlíðar og Helgafell fjær

Bögguklettar

1. Grísanes
Umhverfis Ástjörn eru nokkrar grónar tóftir frá fyrri tíð. Gatan frá Ási að Ásseli við Hvaleyrarvatn lá um Skarðið. Norðan við það, vestan götunnar er grjóthlaðinn stekkur.

2. Lækjarbotnar
LækjarbotnarÞegar gengið er upp með læknum er kemur úr Lækjarbotnum má sjá hvar hann liðast með norðurjaðri Stekkjarhrauns og Gráhelluhrauns (Lækjarbotnahrauns). Við upptökin eru hleðslur undan timburhúsi, sem þar stóð um tíma á vatnsþró. Frá húsinu lá trépípa niður til bæjarins. Sjá má leifar hennar neðan við hleðslurnar. Skammt neðar er stíflumannvirki, steypt og hlaðið

3. Frakkastígur
Yfir Selvogsgötuna liggur slóði, Frakkastígur. Um er að ræða línuveg, nefndur eftir verkamönnunum er reistu háspennumöstrin óálitlegu.

4. Kershellir

Kershellir

Kershellir.

Sunnan Suðurhlíðar milli Setbergshlíðar og Slétturhlíðar og er stór varða á vesturbrún kershellis. Um töluverða hvelfingur er að ræða, um 40 metra langa, 10 metra breiða og um tveggja metra háa. Eftir að komið er niður í hellinn sjást göng upp með niðurfallinu. Þar er afhellir [Hvatshellir] álíka langur og aðalhellirinn, en þrengri. Heildarleng hellisins er um 100 metrar. Hellirinn fannst sumarið 1906

5. Valaból
ValabólEina opinbera staðfestingin á landnámi Farfugla í Valabóli er að finna í fundargerðarbók Bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 13. júlí 1942 og er hún þannig: Farfugladeild Reykjavíkur fer fram á leyfi til þess að mega innrétta og hlaða fyrir hellisskúta norðanvert í Valahnjúkum. Bæjarráð leggur til að þetta leyfi verði veitt meðan ekki kemur í bága við annað sem talið er nauðsynlegra. Frá upphafi átti Valaból að gegna tvíþættu hlutverki. Í fyrsta lagi að verða áninga- og gististaður Farfugla og annars útivistarfólks, Farfuglahreiður. Í öðru lagi var hugmyndin að lagfæra og fegra umhverfi hellisins og gróðursetja blóm og tré.

6. Þríhnúkahraun

Strandartorfur

Varða ofan við Strandartorfur.

Strandartorfur eru tvær. Þær eru ílangar tóur undir aflöngum klettaborgum. Allt umleikis eru nýrri hraun. Selvogsgatan forna liggur skammt austan við þær.  Augljóst er að þarna hafa verið áningarstaðir fyrrum sem og hrístaka. Neðri Strandartorfan hefur stundum  verið nefnd Kaplatór á kortum. Selvogsgatan jafnan nefnd Suðurfararvegur meðal Selvogsbúa – og gerir enn.

7. Vatnshlíðarhnúkur
VatnshlíðarhnúkurRétt austan við jarðavegstipp í vestanverðri Vatnshlíðinni er merkjavarða milli Áss og Hvaleyrar. Henni hefur verið hlíft við annars miklu raski á svæðinu. Varðan er við stíginn frá Ási að Ásseli við Hvaleyrarvatn.

8. Hellnahraun
Stórhöfðastígurinn liggur frá Stórhöfða, upp með Fjallinu eina og upp á Undirhlíðarveg. Stígurinn sést einna gleggst á kafla þar sem línuvegur sker hann. Á þeim kafla hefur stígurinn verið unninn fyrir vagnaumferð, sem slíka kafla má víða sjá á hinum fjölfarnari götum frá fyrri tíð.

9. Brunntorfur

Brunntorfur

Hrauntungustígur um Brunntorfur.

Ofan við Brunntorfur liggur Stórhöfðastígur um gróið Hrútagjárdyngjuhraun (~5000 ára gamalt) með hraunjaðri Nýjahrauns/Brunans, nú nefnt Kapelluhraun, sem rann 1151.

10. Fjallið eina
Fjallið eina er móbergshnúkur (223 mys). Það varð til undir ísbreiðu, en efsti hluti þess, grágrýtiskollurinn, náði upp úr henni, eins og sjá má.

11. Kýrskarð
KýrskarðDalaleiðin frá Kaldársseli lá um Kýrskarð og út með Bakhlíðum (Gvendarselshlíð). Ofarlega í auðgengu skarðinu er gróin hrauntröð.

12. Ker

Kerin

Kerin.

Kerin eru tveir fallegir gígar utan í Undirhlíðum. Sjá má slétt helluhraun framundan, en það mun hafa komið úr gígum þessum. Ofan við vestari gíginn er birkitré, að sögn kunnugra, eitt það stærsta villta hér á Reykjanesskaganum.

13. Bakhlíðar

Gvendarsel

Gvendarsel í Bakhlíðum.

Gvendaselsgígar kallast hraungígar á stuttri gossprungu í bakhlíðum Undirhlíða milli Kaldárbotna og Gvendarselshæðar. Talið er að gosið hafi um miðja 12 öld. Hraunið rann annarsvegar á milli Helgafells og Undirhlíða og niður með Kaldá en hinsvegar í hraunfossi norður yfir Undirhlíðar þar sem þær liggja lægst.

14. Dalaleið
Dalaleiðin lá um Slysadal og Breiðdal. Suðaustan þeirra er vatnsstæði, lítil tjörn, sem nýtt var frá selstöðu í Fagradal.

15. Hrauntunguskúti
HrauntunguskjólHrauntunguskúti er einn af fjölmörgum fjárskjólum í Hraununum. Myndarlegar hleðslur eru beggja vegna opsins, sem á sumrum er falið á bakvið mikið og þétt birkitré.

16. Fornasel
Vatnsstæði, sem aldrei þornar, er við selið, sem verið hefur með tvískiptum húsakosti, sem verður að teljast sjaldgæft í þeim 400 selstöðum er enn má greina á Reykjanesskaganum. Eldhúsið stendur skammt vestan við baðstofuna og búrið. Vestar er stekkurinn og kvíin. Nátthagi er þar skammt vestar. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur, gróf í tóftirnar sumarið 2002 og kom þá í ljós að þær virtust vera frá því um 1400-1500.

17. Sjónarhólsskúti

Sjónarhólshellir

Sjónarhólshellir.

Landamerki Lónakots og Óttarsstaða liggur frá sjó suðsuðaustur í Sjónarhól. Á honum er Sjónarhólsvarða, en suður frá honum er Sjónarhólshellir/-skúti, fjárhellir stór inni í krika. Hann var áður yfirreftur, en nú er það dottið mikið niður. Skammt austur af Sjónarhól er stór hæð, sem er kölluð Vatnsstæðishæð. Rétt norður af Sjónarhól eru tvær háar vörður, er hétu Ingveldur og stóðu á Ingveldarhæð.

18. Stígamót
AlfaraleiðVið Alfaraleiðina milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns er mjög sérkennilegur, stakur klettahóll sem er eins og hetta í laginu. Þessi hóll er mjög áberandi þó hann sé ekki stór. Við hann sjást lítil og fá vörðubrot við götuna. Við hólinn liggur Lónakotsselsstígur áleiðis upp í Lónakotssel.

19. Gvendarbrunnshæðarskjól

Gvenndarbrunnshæðaskjól

Gvendarbrunnshæðarskjól.

Gvendarbrunnshæðarskjól er fjárskjól í Óttarsstaðalandi. Það er með hleðslum við op og er hellirinn í hæðinni við Alfaraleiðina. Fast austan við fjárskjólið er svo Gvendarbrunnurinn, gott vatnsból í klöpp en um brunninn þveran liggur gömul fjárgirðing, landamerki Straums og Óttarsstaða.

20. Sveinshellir
SveinshellirSveinshellir er fjárhellir með fyrirhleðslum í yfirborðsæð í gróinni jarðlægð vestan við Óttarsstaðaselstíginn (Rauðamelsstíginn-/Skógargötuna) milli Bekkja og Meitla áleiðis upp í Óttarsstaðasel. Áberandi kennileiti er varða, Sveinsvarða, við opið. Ekki er vitað um tilefni nafnsins. Hellirinn er feiknastór, en sést ekki, fyrr en að er komið, því að opin er svo þröngt. Fyrir munnann er vaxin birkihrísla. Hellirinn er hvergi manngengur, og fé fór ekki inn í hann nema rétt inn fyrir opið.

21. Fjallgrensvarða

Fjallgrensvarða

Norðan við Litlu-Sauðabrekku og Sauðabrekkugíga er áberandi landamerkjavarða á mörkum Straumslands og Óttarsstaðalands, sem nefnist Fjallgrensvarða og skiptir hinum mosavöxnu Fjallgrensbölum á milli jarðanna, en þar voru áður grösugir hagar. Ofan vörðunnar tekur við nokkuð sléttir mosar á helluhrauni. Grenin eru merkt með dæmigerðum steinum á þremur stöðum og hlaðin skotbyrgi grenjaskyttnanna er þar skammt frá.

22. Bögguklettur
BöggukletturKletturinn hefur nafnið Bögguklettur. Klofinn er um 100 metra langur og allbreiður. Hann hefur staðið þarna nokkuð hár fyrrum, en slétta helluhraunið umhverfis hefur síðan runnið allt um kring og í gegnum klofann. Á leið sinni hefur það smurt klettaveggina beggja vegna. Þegar hraunið hjaðnaði skildi það eftir u.þ.b tveggja metra háan hraunvegg utan á klettunum. Ljóst er að hraunstraumurinn hefur komið með allnokkrum hraða að austuropinu, runnið upp á klettana, sen síðan runnið rólegar niður í gegnum klofann og klettana allt um kring. Bögguklettar eru bæði falleg og stórbrotin náttúrusmíð. Sú saga var sögð um nafngiftina að klettarnir hétu eftir Böggu gömlu frá Vigdísarvöllum eða öðrum bæ þar í sveit. Synir hennar tveir hafi haldið að Hvasshrauni um Mosastíg til róðra, en gleymt sjóklæðunum. Þegar það uppgötvaðist hafi móðir þeirra, Bagga, bundið þau á bak sér og haldið í humátt á eftir sonum sínum. Hún ætlaði sér þó um of á langri leið, hreppti vont veður og leitaði skjóls í klettunum, sem eru örskammt frá Mosastígnum. Við vesturenda þeirra er lítil skúti. Þar leitaði Bagga skjóls, en varð úti. Þegar hún fannst hélt hún fast um sjóklæðin því þeim skyldi þó komið til réttra eigenda, hvað svo sem um hana yrði. Hvort þarna hafi verið sagt satt skal ósagt látið.

23. Tobburétt austari
StraumsselsstíguVið Straumsselsstíg er Tobburétt austari (Litla Tobburétt) í Tobbuklettum. Fyrirhleðsla er í stórri hraunsprungu, en ef vel er að gáð má sjá að hlaðinn bogadreginn veggur hefur verið framan við hana. Hann hefur verið leiðigarður fyrir fé, sem rekið var að réttinni að ofanverðu. Stígurinn liggur nú í gegnum garðinn. Þegar horft var á þverklett sprungunnar mátti vel sjá móta fyrir andliti í honum. Ekki er ólíklegt að ætla að álfarnir hafi viljað með því láta vita af tilvist sinni á svæðinu með þeim skilaboðum að fólki gæti þar varfærni. Vestari Tobburétt (Stóra Tobburétt) er skammt vestar.

24. Straumsselshellar nyrðri

Efri-Straumsselshellar

Efri-Straumsselshellar.

Í Nyrðri/neðri-Straumsselshellum eru fallegar hleðslur fyrir þremur opum þeirra. Þeir eru frekar lágir innvortis, en í þeim má sjá stuttar hleðslur út frá veggjum. Skammt norðan hellanna er hið ágætasta vatnsstæði.

25. Straumsselshellar syðri
Guðmundur Guðmundsson sem keypti jörðina Straum af Páli Árnasyni setti byggð í Straumsseli 1849, en hafði þá búið þar í tvö ár. Fyrsta árið  bjó hann í selinu ásamt föður sínum, Guðmundi Bjarnasyni, sem var oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann skyldi eftir sig miklar hleðslur víða, m.a. þessar í Efri-Straumsselshelli.

26. Gamla þúfa

Gamla Þúfa

Gamla Þúfa.

Svo nefnist hæsta hæðin í Almenningi, ágætt kennileiti. Um er að ræða gróna þúfu efst á þversprungnum hraunkletti í u.þ.b. 110 m hæð yfir sjó. Hún sést vel frá Straumsseli og áður fyrr var hún þekkt kennileiti á Straumsselsstíg áleiðis að Fjallinu eina. Skammt vestan við „þúfuna“ er hlaðin varða.

27. Hrútagjárdyngja
HrútagjáHrútagjá umleikur Hrútagjárdyngju. Líklega er gjáin í heild.þ.b. 5 km löng – og hrikaleg á köflum. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hraunið hafi myndast fyrir u.þ.b.  5000 árum.  Áður en dyngjan sjálf gaus myndaðist gífurlegur undirþrýstingur svo yfirborðið lyftist smám saman og myndaði loks háa bergveggi allt umhverfis  – með tilheyrandi sprungu – og gjármyndunum. Hraunsskjöldurinn hlóðst  upp og gígbarmarnir risu yfir umhverfið. Gos hófst og gríðarstór hrauntjörn myndaðist – og tæmist. Ógurlegur þrýstingur frá innskotinu myndaðist undir kvikuhólfinu. Storknað yfirborðið hefur verið tiltölulega þunnt svo landið reis enn meira en ella. Við það lyftist svæðið um 10-15 metra og myndaði nokkurs konar skál, sem fyrr er lýst. Upplyftingin sést allt umleikis.Straumssel