Gjábakkahellir

Gjábakkahellir milli Þingvalla og Laugarvatns hefur tengsl við Reykjanesskagann.
Björn Hróarsson segir eftirfarandi í stórvirki sínu “Íslenskir hellar” um Gjábakkahelli: “Gjábakkahellir hefur einnig verið nefndur Helguhellir og Stelpuhellir. Björn Th. Björnsson (1984) segir Stelpuhelli upprunalegasta Í Gjábakkahellinafnið. Nú má hins vegar fullyrða að nafngiftin Gjábakkahellir hafi náð yfirhöndinni og hin nöfnin fallið í gleymsku.
Hellirinn liggur undir veginn milli Gjábakka og Laugarvatns um tvo kílómetra frá eyðibýlinu Gjábakka. Hellirinn er opinn í báða enda og er neðra opið rétt neðan vegarins og merkt með lítilli vörðu. Efra opið opnast í dálitla laut nokkru ofan við veginn. Meginlína hellisins er um 310 metrar en heildarlengdi hans er um 364 metrar.
Hellirinn er töluvert hruninn en hefur samt margt að bjóða hellaförum, til dæmis er þar allajafna töluvert um ísmyndanir. Þá eru þar separ, totur, spenar, storkuborð og ýmsar aðrar hraunmyndanir sem gleðja augað. Á einumstað er hellirinn á tveimur hæðum og á kafla mmá velja tvær leiðir áfram. Önnur lokast þó fljótt svo enginn ætti að villast, í það minnsta kosti hvorki lengi né illa.
Hellirinn hefur verið þekktur lengi. Matthías Þórðarson þjóðminjavörður skoðaði hann árið 1919. Til er þjóðsaga sem segir að stúlka frá Gjábakka hafi farið í hellinn og aldrei komið út aftur eða þá að hún hafi komið upp úti á Reykjanesi og þá hafi skór hennar verið fullir af gullsandi. Þjóðsagan skýrir nafngiftina Stelpuhellir.
Gjábakkahellir var kortlagður af Eichbauer, E. og Fritsch, E. þann 27. júní 1985.”
 

Heimild:
-Björn Hróarsson – Íslenskir hellar -2006, bls. 347.

Gjábakkahellir