Sogasel

Haldið var upp á Höskuldarvelli þar sem ætlunin var að ganga á Trölladyngju og síðan til baka um Sogin. Vegurinn upp á Höskuldarvelli liggur upp Afstapahraun, sem mun vera frá sögulegum tíma.

Keilir

Hoft á Keili af Trölladyngju.

Gengið var upp grasi gróna vesturhlíð Dyngjunnar, um skarð og síðan aflíðandi upp á hana að austanverðu. Dyngjan er ber á bakinu, en ekki erfið uppgöngu. Heildargangan tekur u.þ.b. 30 mínútur. Fallegt útsýni er af Trölladyngju yfir Höskuldarvelli, Oddafell, Eldborg, Lambafell, niður og norðaustur eftir Dyngjurana, Grænudyngju og um hálsinn að sunnanverðu, yfir að Spákonuvatni og Sogin. Grænadyngja er austan við Trölladyngju og er gróinn dalur (dyngja) á milli þeirra. Hún er gróin upp á topp og því tiltölulega auðveld uppgöngu.
Trölladyngja er móbergsfjall, en þegar komið er á efri hluta hennar verður bólstraberg áberandi. Stundum var talað um Trölladyngur, Dyngjur eða Dyngjuhnúka, og þá átt við báða hnúkana. Trölladyngja er um 375 m og Grænadyngja er um 400 m. Í Trölladyngju hefur fundist silfurberg.
Milli Dyngnanna er skarð sem skipt er þversum af lágum hálsi og heitir hann líklega Söðull.

Sog

Í Sogum.

Sogin skilja Dyngjurnar frá Núpshlíðarhálsi, en þau eru grafningar miklir. Í þeim eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu, og litadýrðin mikil, einkum að sunnanverðu. Hraun hafa runnið bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun, bæði yngra og eldra (Geldingahraun). Enn er þarna mikill jarðhiti á ýmsum stöðum.
Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Eldstöðvakerfin hafa öll skilað blágrýti (þóleiískt berg) til yfirborðsins á nútíma nema Hengilssvæðið. Píkrít er að finna í gömlu og minni dyngjunum á svæðinu en ólivínþóleit í hinum yngri og stærri. Fjöldi dyngnanna frá nútíma er u.þ.b. 30 og gossprungur eru í tugatali.

Sogin

Litadýrð Soganna.

Eldborgin norðan við Trölladyngju var einnig nefnd Ketillinn. Hún hefur verið fallegur gígur, en er nú ekki svipur hjá sjón. Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir að gosið í Eldborg hafi án efa verið með þeim seinustu á þessu svæði og sennilega það síðasta. Það er því yngra en Afstapahraun.
Höskuldavellir eru rúmur kílómetri að lengd og tæpur kílómetri á breidd. Þeir urðu til við leiframburð Sogalækjar, sem kemur úr Sogunum og rennur norður um vellina. Ekki er vitað við hvaða mann vellirnir eru kenndir, en þeir eru í landi Stóru-Vatnsleysu.
Gengið var upp skarðið stóra milli Dyngnanna, yfir að Sogunum. Búið er að girða af beitarhólf Suðurnesjamanna, en víða í grónum giljum má sjá allt að fimm metra undir girðinguna.

Sog

Í Sogum.

Sogin eru 150-200 m djúp leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og aðeins eimir af enn. Þægilegt er að ganga niður í Sogin sunnan við Dyngjurnar og útsýnið er stórbrotið og litadýrðin mikil. Leirkenndur jarðvegurinn er rokgjarn, en drekkur í sig bleytu. Fallegur hver er í hlíðinni sunnan við Sogalæk. Honum var fylgt niður Sogaselsdalur eða Sogadal, litið á tóftir þar sunnan við lækinn og síðan haldið að selsminjunum inni í Sogagíg eða Sogaselsgíg. Gígurinn er opinn til suðurs, girtur skeifulaga hamrabelti og hefur því myndað gott aðhald fyrir skepnur. Þarna var Sogasel frá Kálfatjarnarhverfi og jafnvel Krýsuvík. Margar kofatóftir eru á þremur stöðum í gígnum og kví undir vestari hamraveggnum og við nyrstu tóftina.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Sesselju G. Guðmundsdóttur.

Sogin

Sogin.

Hafnarfjörður

Fiskaklettur í Hafnarfirði stendur traustur í hjarta framkvæmda á Norðurbakkanum í Hafnarfirði. Skammt ofar er Huldukonuklettur. Á honum er lítil varða. Enn ofar er varða við Vörðustíg. Þessar vörður, ásamt nokkrum öðrum, vörðuðu land Akurgerðis fyrrum, allt að Hamarskotslæk. Aðrar vörður en þessar tvær eru nú horfnar undir óskipulega byggð þess tíma. Skammt austan við Vörðustígsvörðuna er Álfaklettur við Merkugötu.

Fiskaklettur

Fiskaklettur – Jónatan Garðarsson við Fiskaklett 1905.

Í Morgunblaðinu árið 2005 fjallar Svavar Knút Kristinsson um Fiskaklett; „Einn af framvörðum hafnfirska hraunsins„:
„Vegfarendur sem eiga leið um athafnasvæði við höfnina í Hafnarfirði, þar sem gamla bæjarútgerðin áður stóð, reka margir augun í undarlegan klett sem stendur dálítið eins og óboðinn gestur innan um rymjandi gröfur, lyftara og jarðýtur. Kletturinn, sem nefnist Fiskaklettur, er alls ekki óþekktur meðal Hafnfirðinga, en hann skipar mikilvægan sess í sögu bæjarins frá upphafi byggðar.
Fiskaklettur er í raun ysti oddi hraunsins í Hafnarfirði og lá hann dálítið út í sjó. Nú stendur hann í miðju landfyllingar sem byggingarnar á höfninni voru reistar á.
„Fiskaklettur var lengi eins konar útvörður Hafnarfjarðar, á meðan bærinn var lítill kaupmannsbær,“ segir Jónatan Garðarsson, dagskrárgerðarmaður og ferðamálaráðgjafi hjá Hafnarfjarðarbæ. „Það var mjög aðdjúpt við klettinn og fiskigöngur áttu það til að lóna við hann og því var hann kjörinn veiðistaður. Þaðan er nafnið dregið.“

Gamalt og merkilegt kennileiti

Hafnarfjörður

Hafnarfjarðarhöfn 1776-1778 skv. mælingum H.E. Minor.

Fiskaklettur er merktur inn í uppdrátt sem gerður var eftir mælingum sjóliðsforingjans H.E. Minor frá árunum 1776–78. Á uppdrættinum eru merkt inn þau fáu hús sem stóðu við Hafnarfjörð ásamt þeim kennileitum sem markverðust þóttu. Fiskaklettur er þar sýndur rétt vestan við verslunarhúsin í Akurgerði.
Þegar stjórnvöld ákváðu að reisa tvo vita í Hafnarfirði árið 1900 var annar þeirra byggður hátt uppi á hraunbrúninni, þar sem Vitastígur er nú, en hinn vitinn settur niður vestur með sjó. Fyrstu árin voru vitarnir reknir á kostnað landstjórnarinnar, en eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi, 1. júní 1908, óskaði Stjórnarráð Íslands eftir því að bærinn tæki við rekstri vitanna. 1. janúar 1911 tók bærinn alfarið við rekstri vitanna.

Hafnarfjörður

Hafnarfjarðarvitinn efri.

Árið 1913 var fyrsta hafskipabryggja landsins tekin í notkun í Hafnarfirði, rétt innan við Fiskaklett við Hellyershúsin, en þar höfðu mikil bólvirki verið hlaðin upp og steypt á klettabrúninni. Þá var Fríkirkjan risin og skyggði hún á ljósgeisla vitans á hraunbrúninni. Þess vegna var ákveðið að stækka hann og færa hinn vitann innar í fjörðinn. Var vitinn endurreistur á Fiskakletti, en þar stóð hann til ársins 1931 þegar hann var rifinn.
Verndaður „óvart“

Fiskaklettur

Fiskaklettur 2003.

Um 1960 var hafnarbakkinn í norðurhöfninni gerður og stálþil rekið niður á rúmlega 170 metra kafla. Á næstu árum var haldið áfram með landfyllingar í áttina að Norðurgarði. Á þessum árum komst efsti hluti Fiskakletts á þurrt land. Þrátt fyrir margs konar framkvæmdir, byggingu stórra vöruskemma og að gömlu fiskverkunarhúsin væru rifin í áföngum var Fiskakletti jafnan hlíft, enda talinn náttúrlegur minnisvarði sem bæri að vernda.

Fiskaklettur

Fiskaklettur – skilti.

„Það má segja að Fiskaklettur hafi verið friðaður óvart,“ segir Jónatan og bætir við að menn hafi ætíð sýnt klettinum mikla nærgætni enda mikil virðing borin fyrir honum. „Þegar menn hafa verið að vinna hér í einhverjum framkvæmdum hafa þeir alltaf gætt mjög vel að því að raska ekki klettinum. Þeir hafa meira að segja raðað gámum í kringum klettinn til að vernda hann þegar mikið er um að vera. En hann virðist alltaf hafa verið verndaður hér fyrir einhverja meðvitund Hafnfirðinga sjálfra frekar en opinbera friðun.
Það var ekki fyrr en fyrir einhverjum árum sem hann fór inn á deiliskipulag sem friðaður staður. Nú hafa verktakarnir sem byggja hér gert ráð fyrir honum í hönnuninni.“
Fegrunarnefnd Hfj. merkti klettinn 1981 og lét setja á hann koparskjöld sem á stendur: „Þetta er Fiskaklettur einn af framvörðum hafnfirska hraunsins, sem mikil fiskimið voru við hér fyrr á árum.“

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar I frá árinu 2020 er m.a. fjallað um Fiskakett og svæðið ofan hans:

Hafnarfjörður
„Hafnarfjörður hefur ætíð byggt afkomu sína af því sem kom úr hafinu og því sem kom af því. Í kring um 1400 komu norsk skip að landi og er elsta heimildin um slíka komu árið 1391 og aftur 1394. Fjórtánda öldin er gjarnan kölluð norska öldin, en við henni tók öld sem kölluð hefur verið enska öldin frá því um 1400. Og enskir tóku að venja komur sínar til Hafnarfjarðar og varð Hafnarfjörður ein helsta höfn Englendinga allt fram til um 1480, en þá tóku þýskir Hansakaupmenn við keflinu og ekki alltaf án átaka. Ítök þýskra varði allt til þess er einokunarverslunin var í lög sett árið 1602, en þá tóku Danir alfarið yfir. Skreiðin var sú vara sem allir þessir aðilar sóttust eftir, en aðrar vörur voru einnig eftirsóttar, t.d. lýsi og brennisteinn.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1902.

Árið 1677 kaupir Hans Nansen kaupmaður land Akurgerðis, sem þá var hjáleiga frá Görðum frá ómunatíð, og við það leggst búskapur endanlega af á býlinu og í staðinn rísa þar þurrabúðir, tvær árið 1703 og ein eyðibúð. Þeim hefur væntanlega fjölgað smám saman, en við tóku betri húsakynni í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. og standa mörg hver enn. Þetta er hluti af því sem nú er kallað Vesturbærinn og því hluti af verkefninu Verndarsvæði í byggð. Þó engin þessara þurrabúða hafi lifað fram á daginn í dag, er líklegt að dreifing þeirra hafi verið sama marki brennd og byggðin varð síðar, „… aðhúsaskipun og götulagning þar væri í mesta ólagi, enda byggði þar hver eftir sínum eigin geðþþótta, óátalið, og væri auðsýnt, að ef svo búið stæði til lengdar, mundi bæjarstæðið skemmast til þeirra muna, að engin tiltök yrði að lagfæra það.“ (Sigurður Skúlason 1933). Þetta var í nefndaráliti nefndar um bæjarstjórn í Hafnarfirði þann 25. febrúar árið 1903.

Hafnarfjörður 1925

Hafnarfjörður 1925 – uppdráttur Jóns Víðis. Hér sjást hinir gömlu garðar vel.

Dreifing húsa sem nú standa hefur tekið mið af hinu sérstæða hraunlandslagi. Húsin hafa gjarnan fundið sér stað í skjóli í hraunbollum eða grasblettum hlémegin við hraunhóla. Utan um þau hafa verið byggðir grjótgarðar sem afmörkuðu lóðirnar frá hvor annarri. Engar eiginlegar götur hafa verið lagðar svo að heitið geti, en slóðar og troðningar legið á milli húsanna. Um 1890 var enginn upp hlaðinn vegur í Hafnarfirði og svo var að mestu leyti fram yfir aldamótin. „Milli húsa eru víðast engar götur og engin fráræsla frá húsum.“ Þetta var í bréfi Guðmundar Björnssonar héraðslæknis í Reykjavík, síðar landlæknis, til Valtýs Guðmundssonar árið 1903.
Innan lóðarmarkanna hafa stundum verið dálitlir ræktunarreitir. Útlendur ferðamaður lýsti Hafnarfirði svo árið 1907: „Geysimikill hraunveggur verndar bæinn gegn bitrum austanvindinum, og húsin eru beinlínis greypt milli hraunklettanna og eru á hlýlegum stöðum.“ (Poulsen, Sven o.fl. 1907).
Opinbert skipulag leit ekki dagsins ljós fyrr en 1926 (Sigurður Júlíusson 1933).“

Í Fornleifaskránni segir auk þessa:

Huldukonuklettur – þjóðsaga

Hafnarfjörður

Huldukonuklettur – varðan sést vel upp á klettinum.

Kletturinn er nánast uppvið Vesturbraut 26b. „Í klettnum neðst við Vesturbraut býr huldukona […]. Hún er stundum sögð eiga tvo uppkomna syni.“ (Bryndís Björgvinsdóttir & Svala Ragnarsdóttir (2018). Krossgötur: Álfatrú, álfabyggðir og bannhelgi á Íslandi).

Álfaklettur – þjóðsaga

Hafnarfjörður

Álfaklettur við Merkurgötu.

Við Merkurgötu. Á milli húsa 9 og 9a. Vegurinn sveigir framhjá klettinum og innkeyrsla fast sunnan við hann.
„Við Merkurgötu er stór álfaklettur eða álfasteinn […]. Vegurinn sveigist hinsvegar og þrengist við steininn áður en hann breiðir úr sér aftur. Sagan segir að til hafi staðið að brjóta klettinn niður árið 1937 vegna framkvæmda […]. Járnkarl sem notaður var til verksins festist í klettinum og „mikil ógæfa helltist yfir vinnumenn þá sem áttu að fjarlægja hann.“
Járnkarlinn situr enn á sínum stað og kletturinn nýtur nú hverfisverndar […].“ (Bryndís Björgvinsdóttir & Svala Ragnarsdóttir (2018). Krossgötur: Álfatrú,
álfabyggðir og bannhelgi á Íslandi).

Fiskaklettur – örnefni

Fiskaklettur

Fiskaklettur 2022.

Kletturinn er á milli húsanna Norðurbakki 15 og 17.
„Fiskaklettur. Krosssprunginn klettur vestur frá Gestshúsum í sjó fram. Allmikið dýpi var við klettinn og þar fiskaðist vel.[…] Í skjölum og sögnum síðari alda kemur Fiskaklettur oft við sögu. Þetta mun oftast vera vegna þess, að hann var endimark hinnar fornu verzlunarlóðar (Akurgerðislóðar) að vestan með sjó.“
Kletturinn hefur verið varðveittur á milli bygginga. (Guðlaugur Rúnar Guðmundsson. (2004). Örnefnalýsing Hafnarfjarðarlands).

Varða við Vörðustíg – landamerki

Hafnarfjörður

Vörðustígur – Landamerkjavarðan; Bragi Brynjólfsson stendur við vörðuna 2022.

Á lóð Vörðustígs 2. Varðan er 1-1,2m við botn, nær ferhyrnd og 1,9 m há. Úr hraungrýti með steypu á milli steina. (Bjarni F. Einarsson, 2018).

Heimildir:
-Morgunblaðið, 228. tbl. 25.08.2005, Fiskaklettur; einn af framvörðum hafnfirska hraunsins – Svavar Knút Kristinsson, bls. 18.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar I, 2020.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Kirkjuvegur 1925.

Baðstofa

Eftirfarandi skrif um brennisteinsnámur í Krýsuvík og víðar í landnámi Ingólfs birtust í „Ný félagsrit“ árið 1885. Höfundur er J.H. (Jón Hjaltalín). Frásögnin lýsir vel jarðfræði og skoðun Jóns á brennisteinsnámum á svæðinu.
Brennisteinn„Eg fór fyrst, eins og ráð var fyrir gjört og stjórnin hafði lagt fyrir, til Krýsuvíkur. Leið mín lá, sem þú veizt, um Hafnarfjarðar-kaupstað, og því gafst mér þá þegar tækifæri á að skoða móbergið (Palagonif) í Fossvogi og Hafnarfjarðar-steininn (Havnefjordit) fyrir ofan Hafnarfjörð. Hin fyrsta af þessum steinategundum er fyrst fundin af barúni von Waltcrshausen og hefir prófessor Bunsen sagt svo, að hann þæktist sannfærður um, að þetta væri hin elzta steinategund á landi hér, og mundi hún hafa myndað grundvöll landsins áður því skaut úr sjó. Eg skal á sínum tíma geta þessa nákvæmlegar, en hér vil eg að eins taka það fram, að undireins og eg fór að skoða móbergið í Fossvogi, varð það ljóst fyrir mér, að þessa hina sömu steintegund hefi eg séð í uppvexti mínum víða um land, og jafnan nærri sjáfarmáli, en sjaldnar upp til fjalla. Steintegund þessi er saman sett af tinnusýru (Silicia) kalki, álúnsjörð, tveimur lútar söltum (Natron og Kalí) og hérumbil 14 hundruðustu pörtum af járnryði.

Brennisteinn

Hafnarfjarðar-steinninn er nokkurskonar Feldspat’s-tegund, sem etazráb Forchhammer fyrstur manna hefir prófað; finnst steintegund þessi ekki neinstaðar, að menn viti, nema hér á landi, en eptir lýsíngu ýmsra steinategunda í Suðurameríku þykir mér líklegt, að mjög líkur steinn finnist sumstaðar í Andesfjöllum.
Mörg holt, sem liggja í suðurátt frá Hafnarfirði, eru saman sett af þessari steintegund, og er steinninn allvíða dáindis glæsilegur. Sumstaðar sá eg í honum smá-æðar af gulamálmsjárni (Chromjerri) og hér og hvar smá-eitla af brennisteins-kopar og brennisteinsjárni. Hraunategundirnar við Hafnarfjörð voru og mjög athugaverðar, og er ein þeirra frábærlega fögur og fáséð, og hana vil eg á voru máli kalla gulasteinshraun (Olivin-Lava), því hún hefir í sér fjölda af gulasteinum, en svo nefni eg stein þann, er steinafræðingar kalla Olivin eða Chrysolith, og er steinn þessi, þegar hann er með fegursta móti og nógu stór, talinn með gimsteinategundum; en til þess honum geti borið það nafn, þarf hann að vera gallalaus, eigi alllítill og vel myndaður (krystalliseret).
BrennisteinnÞegar eg fór úr Hafnarfirði lá ferð mín yfir holtin fyrir sunnan fjörðinn, og yfir þann svo kallaða almenníng, sem ekki er annað en stallagrjótshraun (Trap-lava), en í mörgu mjög ólíkt hraununum fyrir sunnan og norðan fjörðinn. Vegurinn yfir holt og hraun þessi var býsna ógreiður, en þó sá eg, að við hann mátti gjöra með nokkurri fyrirhöfn, svo hann yrði allgreiður þegar ekki er farið nema lestagáng, og það fullyrti fylgdarmaður minn, sem var gagnkunnugur veginum, að með hérumbil 40 dala kostnaði mætti gjöra nógu góban lestaveg úr Krýsuvík í Hafnarfjörð.
LitadýrðEg kom að áliðnum degi að brennisteins-námunum við Krýsuvík, eptir hérumbil 5 tíma reið frá Hafnarfirði. Sú fyrsta náma, sem fyrir mér varð, var hin svokallaða „Baðstofunáma*, sem til aðgreiníngar frá nöfnu sinni, er liggur nokkuð sunnar, kallast „Baðstofunáman nyrðri“; hún er, eins og 
Henchel segir frá, hérumbil 180 álna laung og víðast hvar 40 álna breið, og gengur þannig að breidd og lengd næst Hlíðarnámu við Reykjahlíð. Náma þessi er einka rík af brennisteinsjörð, sem vestan til í henni myndar stóran búnguvaxinn hól. Brennisteinninn er og víða hreinn, og sumstaðar er lagið svo þykkt, að það nemur 12 þumlúngum, einkum þar sem steinar eða þúfur hafa verið brennisteinsgufunni til skjóls. Menn sjá af þessu, að Jónas heitinn Hallgrímsson hafði rétt að mæla, þegar hann sagði, að auka mætti brennisteininn í námunum með því, að byrgja yfir þær á laglegan hátt; hefi eg og jafnan haft þá sömu ímyndan, áður en eg sá námurnar, og er stór skaði að þetta hefir ekki verið við haft við námurnar nyrðra, á meðan tími var til og þær voru í blóma sínum. Allir brennisteinskatlarnir — svo kalla eg dældir eða holur þær er brennisteinninn myndast í — voru mjög heitir allstaðar í Krýsuvík, bæði í nyrðri Baðstofunámunni og í hinum, er nú skal nefna.
BrennisteinnVestari Baðstofunáman liggur í suðvestur frá þeirri námu, er nú var um getið. Hún er nokkuð minni en sú hin norðlægari, hérumbil 60 faðma laung og 8—10 faðma breið. Brennisteinsmoldin í þessari námu er mikið minni en í þeirri fyrst-töldu, en sjálfur brennisteinninn í kötlunum er þó eins hreinn, og álíka þykkur víðast hvar, sem í hinni. Það eru nú þessar tvær námur, sem menn alltaf hafa verið að skýrskota til, þegar talað hefir verið um brennisteininn við Krýsuvík, og ekki er það að sjá á ritgjörð Henchels, að þar sé fleiri en þessar tvær námur; sýnir það ljósast, hvað mikið far menn hafa gjört sér um brennisteininn á Islandi, því eg fann allnærri þessum alkunnu námum fjórar nýjar, sem eg hefi gefið nöfn, og eru þær þessar:
Engjafjallsnáma, hérumbil 40 faðma laung og 20 faðma breið.
BrennisteinnKetilstígsnáma, 18 faðma laung og hérumbil 9 faðma breið, með 10 brennisteinskötlum.
Hveradalsnáma, 26 faðma laung og 16 faðma breið.
Hattfjallsnáma, með 6 brennisteinskötlum, og hér að auk 2 stórir brennisteinskatlar norðvestanvert í Hettufjalli.
Allar þessar námur liggja í sama höfuðfjalli, en örnefnin eru tekin af tindum og hnúkum þeim, sem í fjallgarðinum eru. Mér þykir ekki ólíklegt, að nokkrar af þessum námum sé komnar upp á seinni tímum, en þó eru sumar af þeim auðsjáanlega eldri, og að vísu eins gamlar og Baðstofunámurnar, en athugaleysi manna hefir gjört, að þær hafa allt híngað til verið ókunnar.

Brennisteinn

Þegar útlendir náttúrufræðíngar ferðast hér um land, hvort heldur Danir eða aðrir, svo fara þeir gjarnast sem leiðir liggja, og hafa aðeins mann með sér sem ratar veginn. Slíkir menn eru ekki vanir að gánga í kletta, eða fara yfir klúngur og fyrnindi, og þeir þykjast gjarnan gjöra vel ef þeir geta fundið það, sem eldri ferðabækurnar vísa þeim á. Þeir eru vanir að rita hjá sér úr ferðabók þeirra Eggerts og Bjarna, það helzta af því sem þar er um getið, og fara að mestu eptir þessara og annara fyrri náttúruskoðara ávísun. Hér við bætist nú, að flestir af slíkum ferðamönnum eru svo ókunnir fólki og máli landsins, að þeir geta ekkert spurt sig fyrir til hlítar, og höggva svo jafnan ofan í sama farið, þareð þeir að mestu leyti einúngis finna það, sem eldri ferðamenn fundu áður. Af þessum rökum verður það skiljanlegt, að slíkir menn hver eptir annan nú um lángan aldur hafa farið yfir Krýsuvíkur land og aldrei fundið þar nema 2 námur, þó þar í raun og veru sé 6 eða jafnvel 7, ef menn telja námuna norðan í Hettufjalli, sem vel má, þar hún liggur í sömu landareign.
Til að geta fengið sem nákvæmasta skýrslu, bæði um Krýsuvíkur landareign, og líka um veginn millum Hafnarfjarðar og brennisteinsnámanna við Krýsuvík, tók eg með mér gagnkunnugan ferðamann, Guðmund Guðmundsson frá Setbergi við Hafnarfjörð. Hann var ötull og öruggur ferbamaður, og gagnkunnugur í Krýsuvík, því þar hafði hann verið nokkur ár. Hann er og mjög kunnugur námunum, því þegar störkaupmaður Knudtzon var að fást við brennisteininn þaðan hérna um árið, þá gróf og flutti þessi sami Guðmundur brennisteininn fyrir hann.

Engifjallsnáman

Eptir sögusögn Guðmundar voru námur þessar nú, þegar eg skoðabi þær, í fullt svo góðu standi, eða jafnvel betra, en þegar Knudtzon lét flytja úr þeim, en á meðan hann hafii þær mun ekki hafa verið tekið meir en úr þeim tveimur er þá voru alþekktar, og þó voru á hverju ári í 2 ár fluttar úr þeim sex kaupfarslestir á ári hverju. Eg veit ekki með vissu, á hverjum árum þetta hefir verið, því það fer tvennum sögunum um það. Barún Sartorius von Walterskausen segir það hafi verið á árunum 1839 og 1840, en þeir hérna segja það hafi verið nokkrum árum áður. Að brennisteinninn var tekinn og fluttur, og það sem svaraði rúmum 6 lestum á hverju ári, er áreiðanlegt, en hvort það hefir verið 1839 og 40 eða fyrri læt eg ósagt.
Nyrðri BaðstofunámanBanín S. von Waltershausen talar um, að „PaIagonítinn“ finnist í Krýsuvíkurfjöllum. Eg get ekki verið honum samdóma í þessu með öllu, því mér sýndust þau fjöll að mestu samansett af blendíngi „Tuft), stallagrjóti og járnstallasteini (Trapeisenerts), eða réttara sagt mjög járniblöndnum „Trapp,“ þó þar fyndist og „Palagonít.“ Eg er hræddur um, að barúninn víða hafi blandað saman „palagonítnum“ og járnsteininum, því í fyrsta áliti líkjast þeir nokkuð hvor öðrum. En svo eru að öðru leyti ýmsar steinategundir í Krýsuvíkurfjöllunum járni meingaðar, að eg skil ekki annað, en að úr þeim mætti bræða mikið járn, ef laglega væri að farið, og svo mjög eru þeir segulmagnaðir, að þeir snúa leiðarsteininum (Compas), þegar þeir eru bornir að honum (það er og alkunnugt, að Trapp-járnmálmur) finnst helzt í hinum nýjari eldlöndum, og vel mundu forfeður vorir hafa getab notað hann við rauðablástur sinn, hefðu þeir þekkt hann.

Vestari Baðstofunáman

Þess er getið á seinni tímum meðal steinafræðínga, að etazráb Forchhammer hafi uppgötvað kopar eða eir-málm í steinum þeim, er hann hefir fengið frá Krýsuvík, og kallar hann eirstein þenna Krysuviyit. Segir hann svo, að sá steinn líkist eirmálmi þeim, er finnst í Ural-fjöllum, og kallaður er Brochantit og hefir í sér 70 hundruðustu parta af eiri. Eg sá að vísu steinategund þessa við námurnar í Krýsuvík, en ekki er þar svo mikið af honum, að það mundi einhlítt til eirbræðslu; þó er eg ekki fjarri því, að nokkurt gagn mætti af honum hafa, þegar brennisteinsnámurnar verða réttilega meðhöndlaðar. Þegar eg var búinn að skoða námurnar, fór eg að grennslast eptir, hvort ekki mundi vera mótak í grennd við þær, og fekk eg bóndann, sem nú býr í Krýsuvík, til að vísa mér á mótak það, er væri í landareigninni og næst lægi námunum. Hann gjörði sem eg beiddi, og kom það þá bráðum upp, að þar er bæði mikið og gott mótak rétt neðan undir fjalli því, er námurnar liggja í.

Eirsteinn

Skoðaði eg móinn, og er það einhver sá ágætasti mór sem eg hefi séð hér á landi; er og þar til slík óþrjótandi gnægð af honum, að ekki er að óttast að menn yrðu eldiviðarlausir, þó eima þyrfti hálfu meiri brennistein en þann, en finnst í öllum Krýsuvíkurfjöllum, því bæði er það, að mýrin, sem mótakið liggur í, er ákaflega víðlend, enda liggur mórinn sjálfur 10 til 14 páltorfur niður. Mógrafirnar liggja ekki lengra en svari rúmum 1000 föðmum frá námunum, svo ekki þarf að verða örðugleiki eða mikill kostnaðarauki að eldsneytis-aðflutníngunum, ef ráðlega er á haldið, þegar unnið verður í námunum. Mér þykir þetta mikið góður kostur við Krýsuvíkurnámur, og það er næstum óskiljanlegt, hvernig nokkur heilvita maður hefir viljað taka það fyrir sig, að flytja óhreinsaðan brennistein til Hafnarfjarðar, þegar gnægð eldsneytis, til að bræða eða eima hann við, er rétt við sjálfar námurnar; sýnir þetta, ásamt öðru, hve ófimlega mönnum tekst, þegar rétta þekkíng vantar, og hefir það verið almennt á landi hér og víðar í Danaríkjum, að því hafa mörg fyrirtæki fyrirfarizt, að byrjunin og framhaldið hafa verið með litlu ráfði gjörð.

Litadýrð námanna felst ekki bara í gula litnum

Á þennan hátt hafa brennisteinsnámurnar og „saltverkin“ hér á landi, ásamt mörgu öðru, liðið undir lok, því endirinn hefir orðið að samsvara upphafinu.
Þegar eg var búinn að skoða Krýsuvíkurnámurnar, sem mér þókti hlýða, lagði eg leið mína niður í Trölladýngjur, því svo höfðu sumir mælt, að þar mundu finnast brennisteinsnámur, og drógu það til, að þar væru margir hverír. Þetta varð samt sem áður ónýtisferð fyrir mér því eg fann þar engan brennistein, þó nóg sé þar af vatnshverunum, því ekki þykir mer það teljanda, þó hér og hvar við vatnshveri kunni að finnast ofur þunn brennisteins-skán, sem að öllu samanlögðu kynni að verða nokkrar merkur. Slíkur samtíníngur út um allt land gæti aldrei orðið til neins liðs, þegar fara ætti að safna brennisteini sem vöru. Trölladýngjur eru að öðru leyti fagurt eldfjall, og úr þeim hefir komið mikill hluti hrauna þeirra, er liggja um Suðurnes. Sjálft er fjallið samsett af stallagrjóti, þussabergi og móbergi, og efst finnst býsna mikið af vikurhrauni, en ekki gat eg fundið þar vikurkol, er brúkanleg væri.

Hengillinn

Svo var fyrir lagt í erindisbrefi mínu, að eg skyldi fara frá Krýsuvík upp í Henglafjöll, og Ieita þar að brennisteini, því þar höfðu þeir Jónas og Steenstrup átt að finna brennisteinsnámur nokkrar, þegar þeir ferðuðust hér um land. Fylgbarmaður minn, sá er áður var um getið, var ættaður úr Grafníngi; hafði hann upp-alizt þar, og var því mjög kunnugur þessum fjöllum; hann kvaðst ekkert geta sagt um þetta efni, en réði mér til að tala við Jón á Elliðavatni og Guðmund, fyrrum bónda á Reykjum í Ölfusi, því hann mundi mjög kunnugur Henglinum, þar hann hefði opt farið þángað til að skjóta hreindýr. Eg gjörði nú svo, og hafði viðtal við báða þessa menn, sem bæði eru mjög greindir og líka gagnkunnugir flestum suðurfjöllum.
Jón á Vatni kvaðst hafa heyrt, að brennisteinn væri í Henglinum, en ekki vissi hann gjörla hvar það væri, þó þókti honum mestur grunur á Sleggjubeinsdölunum, en hann spurði mig, því eg færi ekki út í Brennisteinsfjöll, því það segði margir, að þar væri brennisteinn, og líka vissi hann, að brennisteinn fyndist á Hverahlíð. Guðmundur var samhljóða Jóni í þessu, og kvaðst hafa beztu von um Hverahlíð því þar hefði hann sé brennistein, og líka vissi hann til, að mikið væri af hverum sunnanvert í Henglinum.

Brennisteinn

Eptir þessara manna ávísun lagði eg nú leið mína upp í Hengilinn, og nam fyrst staðar í Sleggjubeinsdölum; þar fann eg jafnskjótt tvær brennisteinsnámur; önnur þeirra, sem liggur neðst, er 60 álna laung og 18 álna breið; hin, sem liggur nokkuð hærra í fjallinu, er 40 álna laung og 16 álna breið; í báðum þessum námum er góður brennisteinn og nægur hiti, einkum í þeirri efri, sem lítur út til að vera nýmynduð. Dalir þeir, sem námur þessar liggja í, eru vestanvert í Henglinum; þeir eru grasgefnir og má sjá upp í þá þegar maður ríður að sunnan yfir Bolavelli, og eru þeir á vinstri hönd þegar riðið er neðan að upp í Hellisskarð. Ekki fann eg neinstaðar fleiri námur í grennd við þær, er nú var getið, og leitaði eg þó vandlega, bæði norðvestan og vestan til í fjallinu. Eg reið þá norður fyrir Hengilinn og hafði hann á hægri hönd og komum við þá að einstigi nokkru, er Dyravegur heitir, og mátti skammt þar frá sjá yfir allt fjallið að austanverðu, en hvergi sást þar heldur líkindi til brennisteinsnáma. Þá reið eg ofan að Nesjavöllum, því svo var mér sagt, að bóndinn þar ætti land sunnanvert í Henglinum, og þókti mér því líkur til, að hann mundi geta sagt mér, hvort nokkrar námur fyndist í landi hans. Bóndinn, sem nú býr á Nesjavöllum, heitir Grímur, skytta góð, röskur maður og góður drengur; eg bað hann fylgja mér upp í fjallið og tók hann vel undir, og var þó mjög liðið á dag, en við vissum að við mundum vel geta notað nóttina, því veður var bjart og blíðviðri hið fegursta.

Í Hveragili

Við fundum þegar skammt frá garði bónda eina brennisteinsnámu, og var hún allgóð, en þó ekki mjög stór. Lengra upp í fjallinu og nokkru sunnar liggja 3 gil eða dældir, og voru brennisteinsnámur í þeim öllum. Lítur svo út, sem námur þessar hafi myndazt á seinni tímum og sé nú í vexti, því ekki hafa brennisteinslögin enn náð töluverðri þykkt í allflestum af þeim. Hitinn í þeim og brennisteinsgufan eru þó svo megn, að hvergi hefi eg séð það eins hér á landi; þykir mér mjög að líkindum að þær kunni að vera upp sprottnar við seinustu eldgosin, sem nú um fullan mannsaldur hafa gengið hér um suðurkjálka landsins, og mun eg síðar, þá er eg hefi sagt frá námunum fyrir norðan, tala um þau rök, er lúta að því.
BrennisteinnHvað nú Henglafjöllum viðvíkur, þá er það að segja, að bæði eru þau falleg og líka mjög grasgefin að sunnanverðu. þau eru að mestu leyti mynduð af þussabergi, og hafa aðeins að norðaustanverðu stallasteinslög, og víða má sjá í þeim uppskotna veggi (Gangé) af stublagrjóti, sem flestallir liggja frá suðaustri til norðvesturs, og er það almennast á landi hér, að stuðlabergsveggir liggja á þenna hátt, eins og barún von Waltershausen hefir frá skýrt. Sunnan og suðaustan í Henglinum er graslendi eitthvert hið bezta, er eg hefi sé á fjöllum uppi, og er það allvíða fjalldrapa og víði vaxið. Mótak finnst og sunnanvert í fjallinu, upp undan Grafníngshálsi, en hvorki er það nærri eins mikið eða gott sem það, er um var getið við Krýsuvík; þó hygg eg það vera notanda til brennisteinshreinsunar, því ekki þarf vandaðan eða hitamikinn eldivið til þess.“
Í frásögn Jóns vantar lýsingar hans á mannvirkjum er notuð voru áður við brennisteinsvinnsluna í Krýsuvík, bæði við Seltún og Baðstofu. Þar voru hús er hýstu námumenn sem og ofnar, hreinsunarbúnaður o.fl. Ekki minnist hann á Seltúnsnámuna, en nefnir hana Ketilsstígsnámuna. Þá minnist hann hvorki á Köldunámur né Leynihver vestan í Sveifluhálsi eða Hverinn eina, en á öllum þessum stöðum hefði mátt finna brennistein. Smá meira um brennisteininn HÉR.

Heimild:
-Ný félagsrit – 12. árg. 1885  – Jón Hjaltalín – II. FJÖGUR BRÉF FRÁ ÍSLANDI TIL JÓNS SIGURDSSONAR – FYRSTA BRÉF.Brennisteinn

Urriðakot

Eftir að framkvæmdir hófust við vegagerð á Urriða[kots]holti (2007) spurðist FERLIR fyrir um hvað hefði orðið að letursteininum frá 1846 er verið hafði skáhalt til suðurs neðan frá bænum – því við vettvangsferð um svæðið virtist hann við fyrstu eftirgrennslan vera horfinn.

Steinninn þar sem hann er nú (2008)

Bæjarverkfræðingur Garðabæjar sendi erindið áfram til hlutaðeigandi aðila. Svar kom um hæl: „Verktakinn hafði fært steininn til á meðan á framkvæmdum stendur og er ætlunin að koma honum aftur fyrir á sínum stað að þeim loknum“.
Farið var aftur á vettvang að þessu sögðu. Rétt neðan við suðvesturhorn bæjartóftanna lá myndarlegur steinn. Á honum var áletrunin og vístaði hún upp. Það verður því að teljast bæjaryfirvöldum og verktakanum til hróss að hafa hlíft steininum, eins og sagt hafði verið.
Örnefnalýsing Urriðakots segir m.a.: „Bærinn Urriðakot lá í halla vestan í Urriðakotsholti (Urriðavatnsholti).“
Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Urriðakot, hálfbyli so kallað, því það hefur ekki fyrirsvar nema til helmings á móts við lögbbýlisjarðir.“
Áður en hlíðinni var rótað upp var þarna heilstætt kotbýlislandslag með hlöðnum túngarði, túnblettum, heimarétt, fjárhúsi, lambhúsi, bæjarhúsum, Snorralaut (að ganga Snorra í merkingunni að ganga örna sinna), brunni, heimtröð og brunni svo eitthvað sé nefnt. Í túni er og enn letursteinn með áletruninni „JTh 1846″. Steinninn var í traðarveggnum, en þegar hann var sléttaður fór hann í túnið. Það mun hafa verið Jón Þorvarðarson, bóndi í Urriðakoti, sem hjó áletrunina. Um stafina er hogginn rétthyrndur rammi.“
Efst á holtinu er listaverkið „Táknatréð“. Við listaverkið eru útlistingar á höfundunum, M. Augustyniak, M. Amzalag og G. Friðriksdóttur, hugmyndum þeirra og stefnum.

Táknatréð

Um Gabríelu segir m.a.: „Sagt er um verk Gabríelu að í þeim birtist innra landslag, þar sem ímyndaður kynjaheimur forsögulegs tíma rennur saman við samtímann. Hún framkallar heim þar sem engin rökvís orð geta dregið skýr mörk á milli myrkra tilfinninga og gleði, og í stað öryggiskenndar þarf áhorfandinn að kljást við djúpstæð mannleg tákn og minni, á andartaki þar sem allt virðist í þann mund að tortímast og fæðast á ný.“ Flest í textanum er auðvitað bara bull (að slepptum hinum listræna mælikvarða), en taka þarf viljan fyrir verkið (með fullri virðingu fyrir listafólkinu).
Sennilega hefði farið langbest á því að staðsetja mjög nærtækan friðaðan leturstein á þeim stað þar sem listaverkið „Táknatréð“ er nú. A.m.k. hefur hann hvorki tortímst né endurfæðst, einungis legið þarna áfram, bæði með litlum tilkostnaði og auk þess með áletruninni, sem hann hefur borið í rúmlega öld – tákni þeirrar handa sem þá markaði sögu Urriðakots. Væri það vel við hæfi í ljósi allra þeirra umbreytinga, sem bæði landslagið er nú að ganga í gegnum á svæðinu og á aðbúnaði mannanna m.v. fyrri tíð.

Urriðaholt

Uppdráttur af Camp Russel á Urriðaholti.

Eitt pínulítið kríuegg, sem fyrir ótrúlega heppni hafði sloppið í hreiðri sínu millum hjólfara ofurstórvirkra vinnuvéla, var kannski hin mesta áminning (sanna og áhrifamesta minnismerkið) á Urriða[kots]holti þetta síðdegið. Kríumóðirin flaug yfir með tilheyrandi verndarlátum, líkt og mæður hafa gert svo lengi sem vitað er – og mun vonandi verða um ókomna tíð – líka í hinu nýja uppbyggjandi mannfólkshverfi á Urriða[kots]holti.
Málið er að stundum ferst bæjarráðsmönnum og -konum ekki fyrir í allri vitleysunni. Í dægurþrasinu er nefnilega svo mikilvægt að hafa bæði skynsemi og gáfur til að sjá í gegnum orðskrúðið. „Elítan“ fágæta lifir og hrærist í orðskrúðinu líkt og dvergbleikjan í grunntjörninni. Hún er í mjög svo afmörkuðu umhverfi, en líkt og dvergbleikjan er henni sama um það og þá er búa ofan og utan tjarnarinnar. Þar búa bara miklu, miklu, mun fleiri…. og þeim er ekki sama….
Þegar gengið var um Urriðaholtið og hið smá gaumgæft virtist augljóst hvað skipulagsaðilum og öðrum hönnuðum svæðisins hafði yfirsést. Líkt og árstíðirnar eiga sér mjög svo ákveðna stund og tiltekinn stað á holtið sér nærtæka nálgun. Hana sjá einungis þeir/þau er gefa sér tíma og hafa vilja til að skilja.
Kríuegg á Urriðaholti

„Hegningarhúsið er hlaðið steinhús reist árið 1872 af Páli Eyjólfssyni gullsmið. Húsið var friðað 18. ágúst árið 1978 samkvæmt 1. málsgrein 26. og 27. greinar þjóðminjalaga nr. 52/1969 og tekur friðunin til ytra borðs þess ásamt álmum til beggja hliða og anddyri með stiga. Hæstiréttur var þar til húsa á árunum 1920 – 1949.
Í hegningarhúsinu voru sextán fangaklefar, litlir og þröngir og loftræsting léleg. Fangaklefarnir voru auk þess án salernis og handlaugar. Á efri hæð voru skrifstofur og salur sem áður hýsti bæjarþingsstofuna, Landsyfirrétt og síðar Hæstarétt þar til hann flutti í nýbyggingu við Lindargötu árið 1947.
„Fyrsti fanginn kom í hegningarhúsið fyrir 80 árum. Árið 1869 voru sett ný hegningarlög fyrir Ísland og hafði stiórnin samið þau mjög eftir danskri löggjöf. Var tekið fram í lögunum sjálfum að þau skyldi taka gildi 1. ágúst 1870, en þó sleginn sá varnagli, að þeim skyldi ekki beitt fyrr en skilyrði væri fyrir hendi. Mun hafa verið svo til ætlazt að mörg fangahús væri þá komin upp og allsheriar hegningarhús fvrir land allt í Reykjavík. En dráttur varð á því, og þess vegna var þessi varnagli sleginn. Það var ekki fyrr en árið 1871 að mæld var út lóð í Efri-Þingholtunum í Reykjavík, við Skólavörðustíginn, handa hinu fyrirhugaða hegningarhúsi. Átti þetta að verða allmikið hús á þeirra tíma mælikvarða og byggt úr steini.

Að sjálfsögðu var Íslendingum ekki treyst til þess að reisa svo vandað og mikið hús, og voru fengnir danskir menn til að standa fyrir smíðinni, Bald timburmeistari og Liiders múrari. Reykjavíkurbær lagði fram 4135 rdl. 53 sk. til byggingarinnar og Hegningarhúsið í Reykjavík tryggði sér um leið 200 ferálnir í húsinu til sinna þarfa. Fékk bærinn þarna tvær stofur til umráða. Annað var þingstofa bæjarins, sem enn er þarna, en hitt var svonefndur „borgarasalur“. Átti að halda þar almenna borgarafundi, en til þess var stofan brátt of lítil. Í þessari stofu var hæstiréttur frá því að hann var stofnaður og þangað til hann fluttist í hin nýju húsakynni sín á Arnarhóli. Nú er þetta hluti af íbúð yfirfangavarðar. Smíði hússins gekk heldur seint, en þó var henni lokið að mestu árið 1873. En áður en húsið væri tekið í notkun, þótti nauðsynlegt að setja lög um hegningarvald það, er veita skyldi stjórn hegningarhússins. Frumvarp um þetta lagði stjórnin fyrir Alþingi 1873, en þingið neitaði algjörlega að fallast á það.“
Alþingi taldi það vegna ómannúðlegt. Sendi það frumvarpið frá sér með beiðni til konungs um að það yrði ekki gert að lögum.
Þessi afstaða Alþingis var að engu höfð, og var frumvarpið óbreytt gefið út 5. janúar 1874 sem tilskipun um stjórn hegningarhússins.
Með tilskipun 28. febrúar s. á. var svo ákveðið að frá 15. ágúst skyldi öll hegningarvinna, sem menn væri dæmdir til hér á landi samkvæmt hinum nýu hegningarlögum, úttekin í hegningarhúsinu í Reykjavík. Enn voru og gefnar
út reglur 22. júní 1874 um meðferð fanga og mataræði, og var allt þetta samið eftir dönskum lögum og tilskipunum.
Seint á þessu ári flyzt fangavörðurinn, Sigurður Jónsson, í húsið með fjölskyldu sína. En fyrsti fanginn kemur ekki þangað fyr en 26. janúar 1875, og eru því liðin rétt 80 ár á miðvikudaginn kemur frá þeim atburði. Er því ekki úr vegi
að athuga hvað þessi maður, er svo að segja vígði hegningarhúsið, hafði til saka unnið.
Fyrstu afbrotin: Maður þessi hét Guðlaugur Sigurðsson og var fæddur í Reykjavík 8. júlí 1852. Árið 1872 er hann talinn til heimihs í Grjóta hjá móður sinni, Sigrúnu Guðlaugsdóttur, sem var ekkja. Hann er þá tvítugur að aldri. Þar er einnig bróðir hans Sigurður, tveimur árum eldri. Þá átti margt fólk heima í Grjóta. Voru þar talin sjö heimili og tveir lausamenn, samtals 31 maður. Svo virðist sem Guðlaugur hafi um þessar mundir lagzt í óreglu, og kemst hann undir manna hendur þá um sumarið.
Hinn 3. ágúst er dómur felldur yfir honum í aukarétti Reykjavíkur í máli, sem réttvísin hafði höfðað gegn honum fyrir þjófnað og gripdeildir. Er þess þar getið, að hann hafi aldrei sætt ákæru fyr. Nú er hann borinn ýmsum sakargiftum og hefur meðgengið allt. Fyrsta afbrot hans er talið það, að haustið áður hafi hann hnuplað hnakk og tveimur kössum og falið undir bát niðri í fjöru. En ekki var felustaðurinn öruggari en svo, að menn fundu þetta og var þýfið tekið af honum. Virðist svo sem ekki hafi verið gert meira úr því að sinni, en það er nú rifjað upp, þegar aðrar sakir bætast við. Þá var honum gefið að sök að hafa farið inn í hús Robb kaupmanns, sem var opið, og gengið rakleitt inn í stofu og stolið þar áttavita og sálmabók. Hvort tveggja mun þó hafa verið tekið af honum aftur og þjófnaðurinn ekki verið kærður. En svo var það í júnímánuði þá um sumarið, að Guðlaugur kom inn í einhverja búð hér í bænum og sá poka liggja þar á gólfinu, og fekk þegar ágirnd á honum. Poka þennan átti sveitarmaður nokkur, sem nefndur er E. Einarsson. Var í pokanum „lítilræði af afhöggnum hæklum af nautgrip, brennivínsflaska, hnífur og brýni“. Guðlaugur þreif pokann og hljóp út
með hann, en þetta komst fljótt upp og var málið kært. Guðlaugur var tekinn og fannst hjá honum pokinn með hæklunum og hnífnum, en brýninu hafði hann glatað og brennivínið hafði hann drukkið. Fyrir þessar sakir var hann dæmdur til að sæta „5 daga fangelsi við vatn og brauð í fangahúsi Reykjavíkur kaupstaðar“. Er látið skína í að þessi dómur sé hafður vægur, vegna þess að hinn ákærði sé mjög ungur að aldri og hafi ekki sætt neinni ákæru fyr. Annar dómur Hinn 7. apríl 1873 er Guðlaugur dæmdur öðru sinni, og eru sakargiftir nú meiri og alvarlegri en fyrr, og allt hefur Guðlaugur meðgengið.
Þess er þá fyrst að geta, að rúmum mánuði eftir að hann hafði verið dæmdur, laumaðist hann „inn í ólokað hús P. Ólafssonar og faldi sig þar í heyi“. Þessi P. Ólafsson mun sennilega vera Pétur hattari, sem átti heima í Aðalstræti 6. Pétur var heima þegar Guðlaugur laumaðist inn í húsið, en gekk út skömmu síðar. Þá fór Guðlaugur á stúfana og náði þar í skrúfur og ýmislegt fleira smávegis, sem hann stakk í vasa sinn. Svo náði hann þar einnig í „hér um bil 4 pund af
smjöri, viðlíka af kaffi og 10 pund af riklingi.“
Var hann kominn með þetta fram að útidyrum þegar Pétur bar að. Sá Guðlaugur þá sitt óvænna, skildi þetta allt eftir og hljóp út fram hjá Pétri. Varð Pétur var við manninn, en þekkti hann ekki vegna myrkurs. Rakst hann svo á smjörið, kaffið og riklinginn í anddyrinu og bar það allt inn aftur.
Þá um haustið hafði Guðlaugur hnuplað tvennum sokkum, sem voru hengdir til þerris hjá húsi frú Herdísar Benediktsen í Austurstræti 10. Og rétt fyrir jólin hafði hann stolið deshúsi og bókarslitri í veitingahúsi Einars Zoéga. Var deshúsið virt á 2 rdl. og hefur því verið vandað.
Nokkru eftir hátíðar hafði Guðlaugur svo farið inn í ólæst íbúðarhús Halldórs Kr. Friðrikssonar skólakennara í Kirkjustræti, og stolið þar gulri olíukápu og tveimur kútum með slatta af mjöli og byggi, og ennfremur skál með mjólk. Var þetta allt geymt í inngönguskúr hjá húsinu. Segir í dómnum að þetta hafi „fundizt aftur hjá honum, og er aftur skilað að öllu leyti, að fráteknu mjöli, byggi og mjólk, fyrir hvað endurgjalds hefur ekki verið krafizt.“
Í marzmánuði 1873 hafði Guðlaugur svo brotizt inn í fiskhjall nábúa síns, Eiríks Ásmundssonar útgerðarmanns í Grjóta, föður Árna kaupm. og leikara. Hjallur þessi var læstur, en Guðlaugur komst inn í hann með því móti, að hann braut fyrst einn rimil með steini og gat svo rykkt þremur öðrum úr með handafli, enda er sagt að rimlarnir hafi verið veigalitlir og gamlir.

Síðan tók Guðlaugur þarna úr hjallinum 9 bönd af fiski (18 fiska), sem Eiríkur átti ekki, heldur voru eign Pálínu Ólafsdóttur. Fyrir þetta var hann kærður. Seinna þennan sama dag lagði Guðlaugur leið sína að húsi Páls Melsteds yfirréttarmálaflutningsmanns við Austurvöll (þar sem nú er Sjálfstæðishúsið). — Þetta var gamla húsið, sem Páll hafði keypt af Álaborgar-Jóni. Húsið var ólæst þegar Guðlaug bar að því, og fór hann þar rakleitt inn í búr og náði sér þar í „tvö brauð, eitt eða tvö stykki af osti, nokkuð af soðnu kjöti, en kokkhúslampa hafði hann þess utan stungið í vasa sinn.“ Var hann kominn með þetta fram í anddyri, en þá var komið að honum og allt af honum tekið.
„Auk þessa er hinn ákærði orðinn uppvís með eigin játningu að því, að hafa fundið gamlan vasahníf og klæðisvettlinga, sem eru næsta lítils virði, án þess hann hafi lýst þessum hlutum, en sú hegning, er hann kynni að hafa bakað sér fyrir ólöglega meðferð á fundnu fé, fellst undir þá hegningu, er honum verður ákvörðuð fyrir þjófnað.“ Fiskarnir, sem hann tók úr hjalli Eiríks í Grjóta komu ekki til skila og var hann dæmdur til að greiða Pálínu andvirði þeirra að fullu, og einnig allan málskostnað. Síðan var hann dæmdur fyrir þjófnað í 8 mánaða hegningarvinnu, er afplánast mætti með 27 vandarhagga refsingu. En í 8 mánuði skyldi hann vera háður sérstöku eftirliti lögreglustjórnarinnar.

Þriðji dómur Hinn 12. nóvember 1873 er Guðlaugur svo dæmdur í þriðja sinn í aukarétti Reykjavíkur fyrir þjófnað og óráðvandlega meðferð á fundnu fé. — Málavextir voru þessir: Hinn 15. október var Guðlaugur staddur inni í eitingastofu Einars Zoéga. Þar var einnig maður nokkur, er Gunnar Árnason hét. Meðan Gunnar þessi var að tala við þriðja mann, laumaðist Guðlaugur að honum og tókst að hnupla úr vasa hans peningabuddu, sem í voru 3 rdl. og 16 sk. Komst Guðlaugur undan með þetta og fleygði buddunni, en peningana, sem í henni voru, afhenti hann móður sinni daginn eftir.
Þetta sama kvöld braut Guðlaugur tvær rúður í húsi Bergs Þorleifssonar söðlasmiðs við Skólavörðustíg. Seildist hann svo inn um gluggann og náði þar í „maskínuhníf“, sem söðlasmiðurinn átti. Fór hann með hnífinn heim til sín og faldi hann í rúmi sínu um nóttina. Ekki mun honum hafa virzt sá felustaður öruggur, því að daginn eftir fór hann með hnífinn vestur að Hlíðarhúsum og faldi hann þar í skurði. Þessi hnífur var hinn mesti forlátagripur, hafði kostað 9 rdl. 32 sk. Eftir tilvísan Guðlaugs fannst hnífurinn þarna í skurðinum og mun hafa verið óskemmdur, því að Guðlaugur hafði vafið hann innan í þangrusl.
Þá játaði Guðlaugur það, að hjá búð Havsteins kaupmanns hefði hann fundið buddu, sem í voru 6 rdl. Þessa buddu hefði hann hirt og ekki lýst henni. Var þetta um sömu mundir og Vilhjálmur nokkur Halldórsson hafði tilkynnt lögreglunni að hann hefði týnt buddu með þessari peninga upphæð í. — Þótti líklegt að hér væri um sömu budduna að ræða. En fyrir 5 ríkisdali af þessum peningum hafði Guðlaugur keypt sér kind, og einum ríkisdal hafði hann sólundað. Var í réttinum gerð krafa um að Guðlaugur yrði dæmdur til þess að greiða lögreglusjóði Reykjavíkur þessa 6 rdl., svo að hægt væri að koma þeim til eigandans, ef hann gæfi sig fram. Dómur fell nú þannig, að Guðlaugur skyldi sæta 16 mánaða hegningarvinnu, er afplánast mætti með tvisvar sinnum 27 vandarhagga refsingu, og skyldi hann vera háður eftirliti lögreglustjórnarinnar í 16 mánuði. Auk þess var hann dæmdur til að greiða Gunnari Árnasyni 1 rdl. 16 skildinga (en það var mismunurinn á því, er fannst hjá honum, eða móður hans, og því sem hann hafði stolið frá Gunnari). Bergi Þorleifssyni skyldi hann greiða 40 sk. fyrir rúðurnar, er hann braut. Lögreglusjóði Reykjavíkur skyldi hann greiða þá 6 rdl. er hann hafði fundið, og auk þessa skyldi hann greiða allan málskostnað. Allt þetta skyldi greitt innan hálfs mánaðar, að viðlagðri aðför að lögum.
Þess má geta, að Guðlaugur kærði sig aldrei um að sér yrði skipaður málsvari í réttinum. Málið var einfalt frá hans hálfu í hvert skifti, hann meðgekk allar yfirsjónir sínar, og tók dómunum mótmælalaust.
Fyrsta dóminn, 5 daga við vatn og brauð, mun hann hafa tekið út í „svartholinu“ svonefnda, sem var í húsinu þar sem nú er Haraldarbúð. En ekki hafði sú refsing nein áhrif á hann, því að tæpum mánuði eftir að hann er laus, fer hann að hnupla aftur. Síðan sætir hann tvívegis líkamlegri refsingu, eftir því sem vottað er í réttarbókum, fyrst hýddur 27 vandarhöggum og síðar fangavist. En þessar refsingar geta ekki stöðvað hann á þeim óheilavegi, sem hann var á, og enn kemst hann undir manna hendur og fær dóm.
Fjórði dómur Hinn 12. nóvember 1874 er Guðlaugur enn kærður, og nú fyrir innbrot og tilraun um þjófnað. —
Voru málavextir þessir: Um miðjaan október hafði hann verið seint á ferli á götum bæarins, en þá var talið að menn væri seínt á ferli ef klukkan var farin að ganga ellefu. Mvrkur grúfði þá yfir allt, því að ekki voru götuljósin. búðum hafði verið lokað og ljós slökkt víðast hvar í íbúðarhúsum. Þá kom Guðlaugi allt í einu til hugar að brjótast inn í eitt af vörugeymsluhúsum W. Fischers kaupmanns við Aðalstræti og stela þaðan. Og hann lét ekki sitja við umhugsunina eina. — Umhverfis verslunarhúsin var hár skíðgarður. Hann kleif nú yfir skíðgarð þennan, braut rúðu að vestanverðu á austasta geymsluhúsinu. Síðan náði hann sér í tunnu, til að standa á, og af henni komst hann inn um gluggann og inn í húsið. En ekki hefur hann farið varlega, því að menn urðu begar varir við ferðir hans.
Var svo komið að honum inni í húsinu áður en honum tókst að stela neinu. Fvrir þessar sakir var honum stefnt, en nú fór sem fyrri, þegar hann var yfirheyrður, að hann játaði á sig fleiri yfirsjónir. Hann sagði frá því, að veturinn áður hefði hann stolið tveimur fiskum úr salti frá Jóni Ólafssyni, húsbónda sínum. En Jón kom að honum og tók af honum fiskana og kærði hann ekki.
Þá sagði hann frá því, að þá um haustið hefði hann stolið höggpróu og nokkrum látúnshringum frá Óla Finsen póstmeistara. Fundust þessir munir hjá honum og var þeim skilað til póstmeistarans.
Dómur í þessu máli var kveðinn upp í aukarétti Reykjavíkur hinn 8. desember 1874. Þar segir svo: „Þessi brot ákærða. sem áður hefur verið dæmdur þrisvar og straffaður fyrir þjófnað, ber að heimfæra undir 234. gr. hegningarlaganna. sbr. 45. og 47. gr. sömu laga, og virðist hegning sú, sem hann fyrirfram hefur til unnið, þegar á annan bóginn er litið til þess, að ákærði er mjög þjófgefinn, en á hinn bóginn tekið til greina, að hann er ungur og þýfið er ekki mikils virði, en ákærði fús að meðganga — hæfilega metin 16 mánaða betrunarhúsvinna. Svo ber honum og að greiða allan af máli þessu löglega leiðandi kostnað.“
Guðlaugur ferði sig ánægðan með þennan dóm, og svo er hann fluttur sem fyrsti fangi í hið nýja Hegningarhús og kemur hann þangað hinn 26. janúar 1875. kl. 12 á hádegi. Þarnaa skvldi hann nú sitja í lfl mánuði. Í fangaskrá hegningarhússins er hann kallaður vinnumaður, ógiftur og barnlaus. — Í athugasemdadálki stendur þetta: „Með því að hlutaðeigandi prestur og læknir ekki þekktu neitt til um framferði eða heilbrigðisástand sakamannsins, verður þess hér einnngis getið, sem hann sjálfur í þessu tilfelli ber. Sakamaðurinn getur þess, að hann ávallt hafi verið heilsugóður og aldrei legið neina stórlegu, nema árið áður en hann fermdist hafi hann legið í taugaveikinni“. Sóknarprestur var þá Hallgrímur Sveinsson, síðar biskup. Hafði hann tekið við embættinu 1871, og hefur ekki þekkt neitt til Guðlaugs. Jón Hjaltalín var héraðslæknir, en þar sem Guðlaugur hafði aldrei þurft að leita læknis, hefur Hjaltalín verið ókunnugt um heilsufar hans.
Í seinasta dóminum er Guðlaugur talinn „mjög þjófgefinn“, en þjófur hefur hann þó ekki verið. Ljós vottur þess er það, hve óhönduglega honum tekst til í hvert sinn hann anar áfram og oftast nær er komið að honum og þýfið tekið af honum. Þetta, ásamt ýmsu öðru, ber vott um að stelsýkin hafi aðeins sótt á hann undir áhrifum áfengis.
Ýmislegt ber og vott um að hann hafi verið talinn meinleysismaður, og mÖnnum hafi verið gjarnara að vorkenna honum, en taka hart á yfirsjónum hans. Í dómunum skín það alltaf í gegn, að dómendur vilja hlífast við, bæði Árni Thorsteinsson sem dæmdi hann þrisvar sinnum, og Lárus Sveinbjörnsson, sem dæmdi hann síðast. Þeir finna honum það báðir til málsbóta að hann sé ungur að aldri, og hafi fúslega meðgengið allt. Og þetta, hvað Guðlaugur er fús á að játa yfirsjónir sínar, ber ekki vott um að hann hafi verið harðsvíraður þjófur. Virðist það og vera undir tilviljan komið hvað hann hrifsar í hvert skifti. Þó er eins og hann hafi slægst eftir að stela því er matarkyns var, og gæti það bent til þess að þröngt hafi verið í búi hjá móður hans. Það ber og vott um að hann hafi ekki verið illa kynntur, að menn bregðast við á svipaðan hátt. þegar hann stelur frá þeim. Halldór Kr. Friðriksson yfirkennari vill ekki kæra hann og heimtar engar bætur fyrir missi sinn. Páll Melsted vill ekki heldur kæra hann, og sama máli gegnir um Robb kaupmann, þótt Guðlaugur væri staðinn að stuldi inni í stofu hjá honum. Jón Ólafsson húsbóndi hans lætur sér og nægja að taka af honum fiskana, sem hann stal. Virðist þetta allt benda til þess að menn hafi vorkennt Guðlaugi og vitað að honum var þetta hnupl ekki sjálfrátt. Lýkur svo hér að segja frá fyrsta fanganum í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg.“
Síðasti fanginn í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg gekk þaðan út í frelsið kl. 10:50 þann 1. júní 2016.

Heimildir:
-http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3282319
-http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3272022
-http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=327203s

Hegningahúsið

Múlasel

Landnámsbæjarins „Múla“ er getið í 11. kafla Landnámubókar.
Jörðin lá á milli Leirvogsáar og Esjubergssel-402Mógilsáar. Síðan virðist staðsetning bæjarins, eftir öllum sólarmerkjum (heimildum) að dæma, hafa týnst. Þegar gögn eru skoðuð, s.s. Jarðabækur, einkum sú frá 1703, virðast tvær staðsetningar koma helst til greina; annars vegar núverandi Hrafnhólar og hins vegar jörðin Stardalur. En byrjum á því að skoða skráðar heimildir:
Í „Skrá um friðlýstar fornleifar“, (fyrsta útgáfan 1990) segir: „Hrafnhólar. Sámsstaðarústir, suðvestanundir Stardalsfjalli, fast uppi við brekkuna. Sbr. Árb. 1908: 11-12. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 16.11.1938. Fornleifum þessum er friðlýst á jörðina Stardal, Kjalarneshr., þótt þær séu í landi Hrafnhóla. (Þjms. Könnun um friðlýstar fornleifar. Svar Magnúsar Jónssonar, Stardal).“

Í þessu skyni voru m.a. tóftir Sámsstaða skoðaðar, með hliðsjón af leifum bæjar „Halls goðlausa Trollafoss-31Helgasonar er nam land að ráði Ingólfs millum Mógilsár og Leirvogsár og bjó í Múla“, sbr. fyrrnefnda lýsingu í 11. kafla Landnámubókar.
Í
Árbók Hins íslenska fornleifafjelags árið 1908 lýsir Brynjúlfur Jónsson t.a.m. Sámsstöðum: „Suðvestanundir Stardalsfjalli, stuttri bæjarleið fyrir ofan Tröllafoss í Leirvogsá, er eyðibýli, sem heitir Sámsstaðir og segja munn mæli, að þar hafi verið kirkjustaður. Þesa sjást þó eigi merki svo fullyrt verði. En rústir eru þar miklar og eftir þeim að dæma hefir þar verið stórbýli. Enda er þar túnstæði bæði mikið og fagurt. Liggur það milli lækja tveggja, er koma ofan úr fjallinu um stórt skarð, sem er uppundan túnstæðinu. Heitir Stardalsfjall fyrir austan skarðið. En fyrir vestan það er hamrastapi, mikill og einkennilegur, sem kallaður er ýmist »Amtið« eða „Stiftamtiðið“, og vita menn nú eigi um tildrög til þess örnefnis.

Mulasel-21

Túnstæðið er afhallandi og liggur upp að brattri brekku. Er bæjarrústin fast upp við brekkuna og liggur samhliða henni, þ. e. a. s. frá austri til vesturs. Hún er nál. 10 faðm. löng og skiftist í 2 tóftir, er hvor gengur af enda annarar og eru mjög svo jafnstórar. Hefir hin vestri glöggvar dyr mót suðri, en framveggur hinnar eystri er svo niðursokkinn um miðjuna, að ekkert verður fullyrt um dyr á honum. Þar hafa þær þó hlotið að vera, ef engar dyr hafa verið gegnum miðgaflinn, sem ekki sést að verið hafi. Breidd rústarinnar er nál. 3 faðm. Austur og fram frá henni er dálítil kringlótt upphækkun, um 4 faðm. í þvermál. Engi sjást þar tóftarskil. En vestaná sér fyrir dyrum, eða uppgöngu. Ósagt læt eg hvort þetta hefir verið »borg« og er fallin saman, eða á þessari upphækkun hefir staðið dálitið hús, gert af viði einum.
Svo sem 7—8 faðm. fram frá bæjarrústinni er önnur rúst, nál. 6 faðm. löng frá Samsstadir-22suðaustri til norðvesturs og bakhússtóft aftur af miðjunni. Framveggur rústarinnar er mjög niðursokkinn. Þó má greina sérstaka tóft í norðvesturendanum, eigi allstóra, og hefir hún dyr mót suðvestri. Hún virðist eigi hafa haft samgöng við aðaltóftina. En sú tóft er svo aflöguð og óglögg, að ekki er hægt að lýsa henni. Þar austuraf er sérskilin rústabreiða, sem eigi sjást tóftaskil í. Er hún nál. 5 faðm. breið austur og vestur og nál. 3 faðm. breið. Raunar eru takmörkin eigi vel glögg. Bakvið hana vottar fyrir þvergarði. En eigi sjást skil á, hve langur hann hefir verið, eða hvort hann hefir beygst að rústabreiðunni. Hafi svo verið, gæti hann verið leifar af kirkjugarði. Jarðvegur er hér nokkuð þykkur og í mýkra lagi. Verður hann víst mjög blautur á vorin, er leysingarvatnið sígur í hann úr hinni háu og bröttu brekku fyrir ofan.
Er þvi eðlilegt, að rústirnar séu Samsstadir-232niðursokknar og aflagaðar á löngum tíma. Bygðin mun hér hafa lagzt snemma niður, og er þessa bæjar hvergi getið, svo eg hafi séð.“
Svo mörg voru þau orð. Í afrakstri af einni af könnunarferðum FERLIRS má sjá eftirfarandi á vefsíðunni www.ferlir.is um Sámsstaði: „Tóftin er efst í hallandi túnbleðli austan við niðurgrafinn árfarveg undir hlíð Stardalshnúks. Í grasi grónum, afmörkuðum, tóftunum er staur með málmplötu á. Á henni er nákvæmlega engin áletrun [arið 2003] eða annað er gefur til kynna hvers vegna hún er yfirleitt þarna á þessum stað. Líklega hefur einhvern tímann staðið á þessu litla skilti: „Friðlýstar fornleifar“. Jafnvel fyrir áhugasamt fólk gefur staurinn nú ekki neitt til kynna, ekki einu sinni að þarna kunni að vera friðlýstar minjar.

Hrafnholar-201

Munnmæli eru, sjá nánar hér á eftir, um að þarna hafi fyrrum verið „kirkjustaður en legið í auðn síðan drepsótt var hér á landi, þ. e. Plágan mikla 1402“, eða svo er hermt eftir elstu mönnum í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Um eigendur þeirrar kirkjujarðar vissi enginn neitt að segja enda vart von á því þeirrar kirkju getur hvergi í skjölum. Bæði nafnið og ummerki benda til þess að þarna hafi fremur verið bær en selstaða. Þarna er hlýlegt og gott skjól fyrir flestum fjandsamlegum veðrum.
Ef „bæjarstæðið“ er skoðað af nákvæmni og þekkingu mætti strax ætla að þarna hafi verið sel, eða nokkar kynslóðir selja, a.m.k. eru tóftirnar allar verulega „seljalegar“; tvö til þrjú hús að svipaðri stærð, en mismunandi gerð og sjá má í seljum á þessu svæði (Reykjanesskaganum).
Vitað er að margir bæir í Mosfellssveit og Kjalarnesi áttu fyrrum selstöðu í núverandi Stardalslandi. Tóftirnar miklu suðvestan undir Ríp (Sámsstaðir) gætu Stardalshnukur-201hugsanlega hafa tengst einhverjum bæjanna um tíma, Sámstöðum, Múla eða Rauðhólum.
Stardalshnúkur er áberandi kennileiti til norðurausturs. Hann myndaðist við að hraunkvika tróðst upp í móberg inni í í Stardalsöskjunni. Móbergið er enn hægt að skoða í giljum upp af Sámsstöðum, sem koma niður úr fyrrnefndu skarði, Sámsstaðaklauf.“…
Í bókinni Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, er m.a. fjallað um landnám í Mosfellsveit. Þar segir um landnámsmennina: „Landnámabók (Landnáma) greinir frá því að liðlega 400 nafngreindar fjölskyldur, ásamt vinnufólki, þrælum og búpeningi, hafi numið land á Íslandi á árunum eftir 870. Landnám Ingólfs Arnarssonar náði frá Hvalfjarðarbotni, suður um Þingvallavatn og austur að Ölfusi og öll nes út. Hann byggði bæ sinn í Reykjavík“.
Mogilsa-201Í Landnámubók segir: „Helgi bjóla nam land á Kjalarnesi frá Mógilsá og var kvæntur Þórnýju, dóttur Ingólfs Arnarsonar, en Helgi og Þórður voru bræðrasynir. Örlygur gamli Hrappsson, bróðir Þórðar, fékk hluta af landnámi Helga bjólu og settist að á Esjubergi á Kjalarnesi þar sem hann byggði fyrstu kirkju á Íslandi eftir því sem Landnáma hermir. Þriðji frændi Þórðar var Hallur goðlausi sem fékk land frá Leirvogsá og að Mógilsá í Kollafirði.“
Í fyrrnefndum 11. kafla Landnámu segir: „Hallur goðlauss hét maður; hann var son Helga goðlauss. Þeir feðgar vildu ekki blóta og trúðu á mátt sinn. Hallur fór til Íslands og nam land með ráði Ingólfs frá Leiruvogi til Mógilsár. Son Halls var Helgi, er átti Þuríði Ketilbjarnardóttur; þeirra son var Þórður í Álfsnesi, er átti Guðnýju Hrafnkelsdóttur. Hallur bjó í Múla.“

Leirvogsa-301

Í skýrslu Óbyggðanefndar, sem jafnan mikil vinna hefur verið lögð í, segir m.a. um Múla: „Bæjarnafnið Múli er óþekkt og ekki víst hvar bæjarins er að leita [Haraldur Matthíasson, Landið og Landnáma. 2. b. Reykjavík 1982. s. 83-84].
Í Jarðabók ÁM og PV frá 1703, segir m.a. á bls. 338 í þriðja bindi um jörðina „Hafnhoolar“ (sem í dag heitir Hrafnhólar): „Þetta er forn eyðijörð og veit enginn hvað lengi í auðn verið hefur, þar til að í tíð Heidemanns er hjer að nýju bær gjör fyrir sextán árum, og hefur síðan viðhaldist til þess í fardögum 1703 það lagðist aftur á ný í eyði“.
Leirvogsá hafi skipti í upphafi löndum Múla og Skeggjastaða, sbr. „Það afmarkast af Leirvogsá til norðurs, Laxnesi og Skógarbringum til vesturs og suður og Selvangi og Selholti til austurs“.
Í Markusarsel-201Selholti á Selvangi m.a t.d. finna leifar að svonefndu „Markúsarseli“. Það mun þó ekki hafa tilheyrt landnámsbænum, af ummerkjum að dæma. Í örnefnalýsingu fyrir Skeggjastaði er getið um selstöðu „norðan við Geldingatjörn“ uppi í heiðinni – og má sjá móta fyrir hinni þar á mosavöxnum mel (með góðum vilja).
Hverfum aftur að Jarðabókinni 1703. Þar segir m.a um Stardal: „
Nýlega uppbyggð fyrir þrjátíu árum, og kemur hjer sá enginn fram, sem þykist vita að þar hafi fyrri nokkrun tíma bygt ból verið. Einn maður fertugur þykist heyrt hafa einhvörn segja þar skuli hafa verið bygð, áður drepsótt kom hjer á land, en þó kann hann öngvan mann að nefna þann á þessu samkvæmi, til hvurst hann þykist þetta heyrt hafa.
Þar í mót eru flestir hjer, er þykjast muna það Haukafjoll-201hafi af gömlum mönnum efað verið, hvort nokkurn tíma hafi hjer í fyrndinni bær staðið, og tveir frómir menn, sem báðir muna glögt föður sinn, og voru þá fulltíða menn er hann andaðist, segja föður sinn hafa það haldið, að aldrei hefði þessi Stardalur í gamla daga bygður bólstaður verið, og var faðir þeirra yfir nírætt, þá er hann andaðist. Þessari meiningu þess gamla manns samhljóðar það, er fólk hjer saman komið þykist heyrt og endurtekið hafa sögn og meiningu gamallra manna hjer í sveitinni, þá til hefur talað orðið um nýbýli þetta, einkanlega um það tímaskeið er fyrst var þessi bygð reist fyrir 30 árum, sem áður er getið. Hitt er almennilega kunnugt og gömlum, að þar sem nú er þessi nýi bær, Stardalur, hafa um lánga æfi selstöður verið frá mörgum bæjum í Mosfellssveit, sem Jarðabókin í þeirri sveit vottar, og so frá Þerney, sem hjer er áður getið.“
Esjubergssel-uppdrattur-2006Ekki er getið um selstöðu frá Stardal í Jarðabókinni.
Um „Samstader“ segir og í Jarðabókinni: „Forn eyðijörð, sem almennilega segist áður skuli verið hafa kirkjustaður og legið í auðn síðan drepsótt var hjer í landi. Eigandinn hvör verið hafi áður í fyrnd veit enginn að segja. Nú er það um lánga æfi eignað kóngl. Majestat, og brúka kóngsjarða ábúendur hjer grasnautn alla. Einkanlega hefur í lánga tíma frá Esjubergi hjer í því landi, sem þessari jörðu halda menn tilheyrt hafa, selstaða brúkuð verið, þar sem heitir Esjubergs sel. Jörðin meina menn að ekki byggjast kunni til gagnsmuna fyrir landþröngvar sakir og þess annars að tún þau, er verið hafa, eru mjög uppblásin og spillt af skriðum.“ Ekki er minnst á selstöðu frá „Hafnhoolum“ í nefndri Jarðabók.
Skeggjastadir-201Til að gera langt mál stutt er niðurstaðan þessi: Vissulega eru, m.t.t. vænlegrar staðsetningar, líkur á að fornbýlið „Múli“ hafi verið þar sem Hrafnhólar eru nú. Þar má m.a. finna gamla garða og gerði, en hvorki eru þar ummerki eftir fornan skála né aðrar mjög fornar rústir. Vitað er að „Hafnhoolar“ hafi haft verulegt land til umráða þá og þegar bærinn byggðist á um 1780. Bærinn sá virðist hins vegar hafa verið skamman tíma í byggð. Á 18. öld er hann byggður upp að nýju og þá nefndur „Hrafnhólar“.
Eina örnefnið „Múli“ er suðaustan við Stardalsbæinn… Líklegt má telja að bærinn hafi tekið mið af nálægðinni. Auk þess er bæjarstæðið á lour-301ákjósanlegum skjólsælum stað vestan undir Múlanum. Vatnsgóður lækur rennur niður með bæjarstæðinu.
Vel má hugsa sér að þarna hafi í upphafi landnáms byggst upp bær, hann hafi farið hallloka, s.s. fyrir „Pestinni“, hann lagst af og í framhaldinu hafi staðurinn verið nýttur sem selstaða frá bæjunum neðar í landnáminu, þ.e. milli Leirvogsár og Mógilsár.
Selstöðurnar síðustu lögðust allflestar af hér á landi í kringum 1870 og sumar jafnvel mun fyrr. Selminjarnar á „“Sámsstöðum“ bera keim af þeirri þróun, því líklegt verður að telja að í þeim kunni að leynast svarið við hinu fyrsta landnámsbýli á svæðinu. Það kæmi ekki á óvart að það hafi verið þar sem núverandi Stardalsbær er nú (eða skammt frá). Örnefni, s.s. „kornakrar“, benda t.d. til þess að bærinn sjálfur, þrátt fyrir ungan aldur, kunni að hafa verið þarna, jafnvel frá fyrstu tíð.

Heimildir:
-Landnámabók, 11. kafli.
-Árbók Hins íslenska fornleifafjelags 1908, bls. 11-12.
-Skrá yfir Friðlýstar fornleifar 1990.
-Mosfellsbær, saga byggðar í 1000 ár.
-Jarðabók Ám og PV 1703, þriðja bindi, bls. 336-338.
-Haraldur Matthíasson, Landið og Landnáma. 2. b. Reykjavík 1982. s. 83-84.

Sámsstaðir

Sámsstaðir – uppdráttur ÓSÁ.

Fyrir utan fyrrum Listamiðstöðina í Straumi stendur myndarlegt listaverk úr ryðfríu stáli; Þórsvagninn. Höfundurinn er Haukur Halldórsson, en hann fagnaði sjötugsafmæli sínu fyrir stuttu.
ListaverkiðÍ Straumi er nú í gangi þróun og vinnsla geysimikilla hugmynda um heim goðafræðinnar, s.s. bygging módels af EDDUGARÐINUM, möglegum fróðleiks- og skemmtigarði sem byggir á goðafræði. Af af yrði þyrfti garðurinn aðstöðu á ca. 1200x1200m landssvæði.
Listaverkið utan við Straum er hugsað sem kynning á Goðheimum, safninu og starfseminni, sem er öllum opin.
Að sögn Friðriks Brekkans, upplýsingafulltrúa, er meiningin að fá leyfi til að setja verkið upp á hæð á milli þjóðvegarins og hússins. Væri verið að vinna í því máli. Listaverkið muni sóma sér vel þar og verða landinu góð auglýsing.
Höfundurinn, Haukur Halldórsson, sýndi FERLIR aðstöðuna í Straumi sem og aðdragandann að listaverkinu. Hann hannaði það smátt í tré, síðan var gert járneintak, það síðan stækkað og útfært uns verkið spratt fullspakað upp í fulla stærð. Hugmyndin er að það fái sess á hraunhæð skammt suðvestan við afleggjarann að Straumi, ofan við Straumsréttina norðan Brunntjarnar. Þar á vagninn, með þrumuguðinum Þór og geithöfrunum tveimur, að trjóna líkt og ferðast væri um himinhvolfið.
Vegna þess að listaverkið er úr spegilsléttu stáli tekur það til sín öll litbrigði veðrahvolfanna.

Þórsvagn

Þórsvagninn.

 

Hrauntún

Hraun á Íslandi taka yfir 120 fermílur. Þau eru einkum um miðbik landsins, en hvorki á Austfjörðum né Vestfjörðum. Hraun eru öll fram komin við eldgos; af sumum hafa menn sögur, hvenær þau mynduðust, en flest hafa brunnið fyrir landnámstíð. Flest eru gróðurlítil eða gróðurlaus. Þau er myndast hafa síðan land byggðist eru flest enn þá graslaus, en aðeins hulin mosa hér og hvar, en sum hinna eru á einstaka stað grasi vaxin, þó óvíðast sé það svo, að það sé til gagns og nytsemdar fyrir landsbúa.
Sprunginn hraunhóll í ÞjófahrauniHraunin eru ýmisleg að lögun og ásigkomulagi, eftir því, hvernig þau hafa myndast. Sumstaðar eru þau slétt, með rákum og öldum eftir rennslið, þar sem hallinn hefir verið lítill, en sumstaðar, þar sem óslétt hefir verið eða brattlendi, eru þau ófær yfirferðar, því að þar er hraunspildum, gjalli, ösku og stórgrýti hrúgað svo saman, að það er engu líkara öðru en því, að stórsjór í hafróti og roki hefði allt í einu orðið að steini.
Efsta skánin á hrauni kólnar og storknar fyrst af loftkuldanum, en neðar rennur áfram miklu lengur brætt hraun. Þegar nú eldgosinu slotar, verður hraunskánin efsta oft á huldu og fellur sumstaðar niður, en sumstaðar myndast ýmislegir hellar og holur, en hér og hvar rifnar hraunið, er það kólnar og dregst saman, og verða þar stórar sprungur og gjár. Hraun eru eigi nein sérstök steintegund, heldur samanbrædd hella af ýmsum steinum og bergtegundum.
Reykjaneshraunin eru samanhangandi hraunfláki, er nær norðan frá Langjökli út á Reykjanestá. Það eru ótal smá og stór hraun í stórum spildum og kvíslum, og hafa komið frá ýmsum eldfjöllum, flest fyrir landnámstíð. Í þeim eru víða stórar sprungur og gjár, hverar og laugar. Merkasta hraun á þeim hraunfláka er Þingvallahraun.
Sprunginn helluhraunsflekiÁ sögulegum tíma hafa runnið a.m.k. 25 hraun á Reykjanesskaganum. Sjá má hvar þau hafa runnið yfir eldri hraun á afmörkuðum svæðum, fært ströndina utar, runnið niður í eldri sprungur, fyllt fyrrum lægðir, dali og eldri jarðmyndanir, hlaðið upp skjól o.s.frv. Og landmótunin mun halda áfram – og hugsanlega breytast á næstu árþúsundum.
Storknun tekur mjög mislangan tíma eftir ytri aðstæðum: Gjóska (eldfjallaaska, gjall og vikur) kólnar á fáeinum sekúndum, ekki síst ef gosið verður í vatni eða undir jökli. Hraun verða að „hörðum steini“ á skömmum tíma þótt glóðin geti varað í 10 ár inni í hrauninu, eins og gerðist í Eldfellshrauninu í Vestmannaeyjum þar sem varminn í hrauninu var nýttur til húshitunar í áratug. Kvika sem er djúpt niðri í jörðinni tekur aldir að storkna. Stundum rennur nýtt hraun yfir jarðhitasvæði og nær þá undirliggjandi hitinn fljótlega upp úr nýmynduninni.
Hraun er bráðið berg eða möttulefni (einnig kallað bergkvika) sem flæðir upp á yfirborð jarðar við eldgos og storknar þar.  Bergkvika er seigfljótandi efni í iðrum reikistjarna, sem safnast fyrir í kvikuhólfum. Þar getur hún kristallast og myndað innskot eða borist til yfirborðs í eldgosi og storknað sem gosberg. Hitastig hraunbráðar getur verið frá 700 – 1200°C. Kvikan verður til vegna hitamyndunar í iðrum jarðar sem einkum stafar af niðurbroti geislavirkra efna (t.d. úrans og þóríums). Kvikan er heit og því eðlisléttari en umhverfið, sem veldur því að hún tekur að stíga í átt til yfirborðs þar sem hún kemur upp í eldgosum og rennur sem hraun.
HraunhveliBasísk hraun (eða mafísk) eru venjulega fremur kísilsnauð og eru því fremur þunnfljótandi. Þau koma oftast upp í gígaröðum eða dyngjum. Súr hraun (eða felsísk) eru yfirleitt kísilrík og seigfljótandi og mynda gjarnan straumflögótt berg. Þau koma oftast upp í megineldstöðvum.
Kísill er frumefni með efnatáknið Si og er númer fjórtán í lotukerfinu. Fjórgildur málmungur, kísill er ekki jafn hvarfgjarn og efnafræðileg hliðstæða þess, kolefni. Kísill er annað algengasta frumefnið í jarðskorpunni sem að samanstendur af 25,7% kísil ef mælt er eftir þyngd. Það finnst í leir, feldspati, kvars og sandi, þá aðallega í formi kísiltvíoxíðs (þekkt einnig sem kísl) eða sílikata (efnasambönd sem að innihalda kísil, súrefni og málma). Kísill er aðaluppistaða glers, sements, postulíns, flestra hálfleiðara, og silíkona (plastefni).
Hraun eru orðið að „hörðum steini“ löngu áður en það er fullstorkið. Reynslan er sú að hörð skorpa myndast á glóandi hrauni eftir fáeinar sekúndur og fljótlega er hægt að ganga á hrauninu á góðum skóm vegna þess hve slæmur varmaleiðari (eða góður einangrari) berg er. Varminn frá 1200 stiga heitri kviku streymir sem sagt hægt út gegnum storknuðu skorpuna. Hraun kólna eða storkna á yfirborði og mynda fast berg.
Fasta bergið er samsett úr kristölluðum Urðarás í Hraunumsteindum, en kólnunarhraði hraunsins ræður mestu um það hversu grófgerðir kristallarnir verða. Þeim mun hægar sem hraun kólna þeim mun stærri verða kristallarnir. Stórir kristallar geta einnig myndast í kvikunni meðan hún er neðanjarðar og þá verður hraunið sem upp kemur dílótt. Snertifletir og yfirborð hrauna er oft gler- eða kargakennt, þar sem kólnun þessara flata er hraðari vegna snertingar við eldri og kaldari jarðmyndanir og andrúmsloft. Því ná kristallar ekki að myndast. Berg sem myndast við eldgos kallast einu nafni gosberg hvort sem um er að ræða hraun, gjóskuberg eða móberg.
Dyngja er breitt, aflíðandi og keilulaga eldfjall sem myndast í langvinnu eldgosi á hringlaga gosopi. Dyngjugos eru svo kölluð flæðigos þar sem hraunið er þunnfljótandi og flæðir langar leiðir. Eldvirkni í dyngjum getur varað mörg ár eða áratugi.

Apalhraun

Á Íslandi setja dyngjur mikinn svip á landslagið. Einna þekktastar eru Skjaldbreiður og Trölladyngja, hvor um sig um 600 metrar á hæð frá rótum. Aðrar eru flatari og ógreinilegri í landslaginu, s.s. Kjalhraun hjá Hveravöllum og Lyngdalsheiði. Stærsta fjall sólkerfisins, Ólympusfjall á Mars, er dyngja.
Basísk hraun mynda venjulega annaðhvort hellu- eða apalhraun sem vísar að mestu til yfirborðsásýndar hraunanna. Enskt heiti þessara hraungerða eru „Aa-lava“ (apalhraun) og „Pahoehoe“ (helluhraun), en ensku nafngiftirnar eru komnar frá Hawaii eyjaklasanum, þar sem eingöngu renna basalthraun.

Helluhraun

Helluhraun.

Helluhraun (e. Pahoehoe; úr Hawai’isku) er nokkuð slétt hraun sem verða til við eldgos með þunnfljótandi basalt-kviku. Helluhraun eru að jafnaði auðveld yfirferðar og oft alsett hraunreipum sem myndast þegar efsta lag hraunsins storknar en massinn heldur áfram að hreyfast. Í helluhraunum má oft sjá, auk hraunsléttunar, sprungna kolla. Þeir myndast þegar yfirborðsstorkið hraun rennur frá eftir að kvikan rann yfir hóla og hæðir eða sprungur myndast á sléttum afmörkuðumhraunflekum. Eftir standa svonefnd hraunhveli. Andstætt fyrirbæri eru urðarásar þar sem afmörkuð hraunsvæði brotna niður í kvosir, líklega vegna þess að undir voru hraunrásir eða -hvelfingar. Víða má sjá svipað fyrirbæri sem hraunbolla eða jarðföll.
Við mikið hraunrennsli getur myndast hraungöng yfir og undir yfirborðinu. Ef slík hraungöng tæmast myndast hellar og traðir sem standa eftir. Dæmi um slíka hella eru Surtshellir og Raufarhólshellir.
Apalhraun (e. Aa, úr havaiísku) er úfið hraun sem verður til í þeim eldgosum þar sem er flæðigos með basískri hraunkviku. Dæmi um apalhraun eru sum hraunin sem liggja yfir Suðurnesin. Oft getur verið um blandgos að ræða, þ.e. hraunin verða í fyrstu þunnfljótandi helluhraun, en breytast í úfin apalhraun þegar frá dregur upptökunum og kvikan kólnar.

Heimildir m.a.:
-wikipedia.org

Hraunreipi

Hraunreipi.

Innstidalur

Stefnan var tekin á Innstadal í Hengli. Ekki var genginn hinn hefðbundni stígur upp Sleggjubeinsskarð syðst í dalinn heldur haldið niður af norðvesturbrúnum (Vesturása) Skarðsmýrarfjalls, um gönguskarð, sem þar er og fáir fara að jafnaði um. Þaðan er hið ágætasta yfirsýn yfir gjörvallan dalinn sem og umlykjandi fjöll, auk þess sem ekki tekur ekki nema nokkrar mínútur að snerta dalbotninn.
GöngusvæðiðÞegar niður var komið var gengið um grasgróninga til norðurs, áleiðis að Lindarbæ, skála nyst í dalnum, skammt neðan við Hveragilið. Það sem vakti sérstaka athygli á leiðinni var a.m.k. tvennt; annars vegar greinilega fjölfarin hestagata langsum eftir dalnum upp úr Grafningi (Miðdal og Fremstadal) og hins vegar nýlegri hraunmyndun. Svo virðist sem lítið gos hafi komið upp í dalnum löngu eftir myndunina (sjá meira um jarðfræðina hér á eftir), sennilega u.þ.b. þúsund árum fyrir norrænt landnám.
ReiðgatanÁ leiðinni var gengið fram á tvær grafir, greinilega teknar af jarðfræðingum er hafa verið að skoða góskulög í dalnum. Grafirnar voru í lægð á milli barða, en ekki utan í börðunum, sem eðlilegra væri, vildu þeir sjá tímabilið allt. En hvað um það; landnámsöskulagið var greinilegt í sniðunu á u.þ.b. 40 cm dýpi eða á rúmlega metersdýpi að börðunum meðtöldum. Segir það nokkuð til um nýmyndunina í dalnum, en af umhverfinu mátti ljóst vera að lækir hafa runnið um hann úr nálægum hlíðum og flutt niður með sér mikið magn jarðvegs. Grónir farvegir eru víða um dalinn svo sjá má að núverandi lækir hafa áður leikið sér annars staðar en nú gerist.
LambhóllÍ örnefnalýsingu Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti um „Örnefni í Henglinum og hálendinu, sem er áfast við hann“, segir m.a. um Innstadal: „Sunnan í Henglinum eru þessir dalir; Innstidalur, og austur frá honum Miðdalur og Fremstidalur. Milli dalanna eru Þrengslin og inni í þeim er Lambhóll. Úr þesum dölum rennur Hengladalaá, en við ána er Smjörþýfi. Skarðamýrar eru áfastar við Fremstadal, og sunnan við Skarðsmýrar er Skarðsmýrarfjall.“

Mikill jarðhiti er í Innstadal. Mikið er um hveri, gíga og heitt vatn í dalnum. Og einn mesti gufuhver landsins er í Innstadal. Stefnan var m.a. tekin á gilið er hýsir hverinn, en áður var huga beint að bæði jarðfræðinni og fyrrum útilegumannahelli innst í Innstadal.

Jarðvegssnið„Hengill er eitt svipmestu fjöllum í grennd við Reykjavík. Hengill telst til stapafjalla en er mjög sprunginn og hagaður. Hæstur er hann að norðanvestanverðu þar sem heitir Skeggi eða Vörðu Skeggi (803m yfir sjávarmáli). Hengill er aðallega úr móbergi en grágrýtishrúður er uppi á honum. Í sleggju sem gengur uppi á fjallinu er líparít. Jarðhiti er utan í Hengli á nokkrum stöðum. Sunnan við Hengil eru þrjú dalverpi. Vestastur er Innstidalur, þá Miðdalur en Fremstidalur er austastur. Úr þeim fellur Hengladalaá. Í Innstadal, sem liggur milli Hengils og Skarðsmýrarfjalls (597 m.y.s.), er einn mesti gufuhver landsins. Víðar er jarðhiti í Hengladölum. Þar er einnig ölkelda [norðan í Miðdal]. Örskammt norðvestur af gufuhvernum í Innstadal er hár móbergsklettur og ofarlega í honum hellir sem í eru mannvistarleifar. [Reyndar er ekki um kletta að ræða heldur standberg. Margir klettar eru undir því.] En ekki er fært í hann nema góðum klettamönnum. Ýmsar sagnir eru til um útilegumenn í Henglinum fyrr á öldum.

Innstidalur

Hengilssvæði nær yfir tvær megineldstöðvar og nágrenni þeirra. Önnur, Hveragerðieldstöðin, er útdauð og sundurgrafin. Hin er virk og nær yfir Hengil og Hrómundartind. Hún skiptist í tvær gosreinar. Önnur liggur gegnum Henglafjöll, hin um Hrómundartind. Gosmyndanir á Hengilssvæðinu spanna um 800.000 ár í aldri. Elstu jarðlögin er að finna í ásunum suðaustan við Hveragerði, en yngst eru hraunin sem flætt hafa frá gosreininni gegnum Hengil. Þar á milli skipar sér fjölbreytt jarðlagsyrpa þar sem skiptast á móberg frá jökulskeiðum og hraunlög frá hlýskeiðum. Berggrunnur Hengilssvæðisins er að mestu úr móbergi. Um 500 metrum undir móberginu eru basalthraunlög. 

Hveragil

Grafningsmegin á svæðinu má finna röð móbergshryggja sem fylgja sprungustefnu. Í jörðum svæðisins kemur grágrýti fram undan móberginu. Jarðskorpuhreyfingar í gliðnunarbelti eins og verið hefur á hengilssvæðum allan þann tíma sem jarðsaga þess spannar sýna sig í gjám og misgengjum og hallandi jarðlögum á jaðarsvæðunum. Skjálftabelti Suðurlands gengur austan frá inn í Hengilssvæðið. Sprungur tengdar því eru þekktar í Fram-Grafningi, um alla Hveragerðiseldstöðina og vestur á Hálsa við Skálafell. Jarðskjálftar eru tíðir, en smáir á þessu svæði, nema þegar suðurlandsskjálftar ganga yfir. Um 24.000 jarðskjálftar af stærðinni 0.5 (á Richter) eða stærri voru mældir á árunum 1993 til 1997. Sá stærsti var 4.1 á Richter.

Brennisteinn

Gosmyndanir á Hengilssvæðinu eru fjölbreyttar og byggist á því hvort og hversu þykkur Jökull lá yfir svæðinu þegar gosinn urðu. Aðalgerðir eldstöðvana eru þó einugis tvær, tengdar sprungugosum og dyngjugosum. Á vestanverðu Hengilssvæðinu er landslagið mótað af gosmyndunum sem þar hafa hlaðist upp á síðasta jökulskeiði og á nútíma (þ.e. eftir ísöld). Austan til hafa roföflin hins vegar mótað það. Úrkoma á Hengilssvæðunum er mikil, raunar með því mesta sem hefur mælst á landinu. Á austanverðu Hengilssvæðinu eru stöðugar lindir og lækir einugis þar sem jarðlögin eru svo ummynduð að þau haldi vatni. Annars sígur þar allt vatn í jörð eða rennur stuttan tíma í leysingum. Á austanverðu svæðinu renna ár og lækir allt árið um kring. Í sumum er lindaþátturinn stór, en allar mega þær þó fremur teljast dragár. Heita vatnið á Hengilssvæðinu er álitið vera á eins til þriggja km dýpi. Á mörgum stöðum á svæðinu nær þessi hiti að komast upp á yfirborðið. Þekktustu hverasvæðin eru í Reykjadal, á Ölkelduhálsi, ofan við Nesjavelli og í Innstadal. Hengilsvæðið er með þeim stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 100 ferkílómetrar. það er þó ekki allt sami suðupotturinn heldur er það a.m.k þrískipt: Hveragerðaeldstöðin, Ölkelduhálsvæðið og jarðhitasvæðið í Henglafjöllum. Boranir og virkjanir eiga sér stað á Nesjavöllum sem eru á vegum Orkuveitunnar. Einnig standa yfir miklar framkvæmdir á Hellisheiðarvirkjun, sem er á landi Kolviðarhóls. Þær framkvæmdir eru einnig á vegum Orkuveitu Reykjavíkur. Mikill jarðhiti eru í þessum jarðlögum. Regnvatn sem seytlar niður í berggrunninn og kemst í snertingu við heitt bergið þrýstist sjóðandi upp um sprungur og misgengi. En innskot frá kviku verða algengari því neðar sem dregur.“
HveragilslækurHér að framan er reyndar ekki minnst á hraunmyndunina í Innstadal, enda væri þar um að ræða nánari jarðfræðilega úttekt í dalnum og svæðinu umleikis. Eitt er það, sem vakti sérstaka athygli FERLIRs á þessari göngu, voru fagurmyndaðar og stórar hraunbombur er finna mátti í austanverðum dalnum. Benda þær til þess að þarna hafi um tíma verið kröftugt gjóskugos – þótt hraunmassinn frá því hafi ekki verið verulegur.
Eftir að hafa barið litadýrð Hveragils auga (ein ljósmynd segir meira en þúsund orð) var haldið upp og til vesturs með ofanverðum hömrunum, yfir gil og gjár. Upptök Hengladalsárinnar er þarna með öllum sínum grænsafaríku dýjamosum. Litskrúðið þar gefur Hveragilinu lítið eftir.

Hengladalsáin

Sagnir eru til um það að í helli í Innstadal hefðu verið menn sem komu sunnan úr Höfnum. Þeir hefðu verið áhafnar meðlimir af einhverju skipi en verið brottviknir fyrir einhver níðingsverk. Ekki bera heimildum saman um hversu lengi þeir höfðust við í þessum helli, sumir sögðu eitt sumar aðrir tvö ár. Það er ekki vitað með vissu. Talið er að þeir hafi verið 6 til 7 karlmenn og tvær hlutakonur. Þau lifðu á saufé sem þeir stálu frá bændum í Grafningi og Ölfusi. Bændur sátu síðan fyrir þeim og drápu, en ekki fyrr en eftir miklar eltingar. „Þjófahlaup“ í Henglinum er skýrt eftir þessar eftirfarir. Útilegumennirnir voru drepnir ýmist vestan í Henglinum eða á Mosfellsheiðinni. Konurnar voru fangaðar eftir mikið viðnám. Ekki er heldur vitað með vissu hvaða ár þetta var en talið er að það hafi verið í kringum 1700.   

Hellir þessi átti að hafa verið, sem fyrr segir, í Innstadal.
Heimildir skýra svo frá; „Norðan við sléttuna í dalsbotninum sé einn af mestu gufuhverum landsins, en örskammt norðvestur af honum er hár móbergsklettur. Ofarlega í þessum kletti er hellir og grastó fyrir framan hann. Hellismunninn sést strax og komið er yfir Sleggjuháls. Móbergið fyrir framan hellinn er mjög bratt og illkleift á tveggja til þriggja mannhæða kafla.

Syllan

Lýður Björnsson, sagnfræðingur, fór í þennan helli 1978. Hann skýrir svo frá að hellir þessi sé um 2 til 3 metra langur inn í botn og manngengur að framanverðu. Breiddin er um 2 metrar. Hlaðið hefur verið fyrir hellismunann en hleðslan er nær hrunin, fallin bæði inn og út. Talsvert var af beinum undir hellum í hellinum, mest stórgripabein. Engar leifar sáust af eldstæði eða ösku.
Eins og heimildir greina frá þá er verulega erfitt að klífa upp í þennan helli. Alls ekki ráðlagt fyrir fólk að reyna uppgöngu án sérhæfðar búnaðar og kunnáttu. Bergið fyrir framan hellinn er bæði mjög bratt og laust í sér.“

Heimildir eru að finna m.a. í lesbók MBL frá 1939, grein sem Þórður Sigurðsson „Tannastöðum“ skrifaði, Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra. Þar segir:

Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra

Hellirinn

Í annálum er þess getið, að útileguþjófar hjeldu til í henglafjöllum. Ekki er þó tekið til hvar í fjöllunum þeir hafi verið, en yfirleitt er afrjettur Grafningasmanna og Ölfusinga nefndur Henglafjöll í fyrri tíðar ritum. Þeirra er getið tvisvar að mig minnir, og að hafa að líkindum verið oftar, þó það sje ekki í frásögur fært. Í Nesjum í Grafningi höfðu þeir eini sinni vetursetu sína, en voru teknir og þeim refsað.
Þegar jeg var unglingur heyrði jeg sagt frá því, að útilegumenn hefðu verið í Henglinum; þeir hefðu haldið til í stórum helli og engin leið hafði verið að komast að þeim. Sagt var, að þeir hefðu komið sunnan úr Höfnum og væru þeir skipshöfn, sem hefði gert einhver níðingsverk, en aldrei heyrði jeg hver þau hefðu átt að vera.
Tóku þeir sjer nú stöðu í þessum helli og höfðust þar við, sumir sögðu í tvö ár, en aðrir aðeins eitt sumar, en hvort sannara er verður ekki vitað. Og ekki vissu menn heldur, hve margir þeir voru – jafnvel 6 eða 7, og tvær hlutakonur voru með þeim, og eru ef til vill líkur fyrir því.
Þeir höfðu með sjer langan kaðal eða stjórafæri og drógu konurnar upp í hellirinn og föng sín jafnóðum og þeir öfluðu þeirra, en það var mest sauðfje Ölfusinga og Grafningsmanna.
AðhaldNú þótti sveitamönnum hart á barið að verða að þola slíka óhæfu, en fengu ekki að gert um sinn. Er frá leið þá gerðu þeir ráð sitt og tóku sig saman eitt haust litlu fyrir fjallreið og lögðust í leyni margir saman úr báðum sveitum, Ölfusi og Grafningi – sem að vísu var þá sama þingsóknin – og bíða þess að hellisbúar færu úr hellinum í smalatúr og ætluðu þeim svo syndirnar og var þess skamt að bíða. Fóru nú allir úr hellinum, en sveitamenn skipuðu sjer sem fljótast fyrir hellisbergið að neðan og komu hellismenn innan skamms með fjárhóp. En nú var ekki greitt aðgöngu og enginn vegur að ná hellinum. Sveitamenn veittu strax svo harða aðsókn, að hinir hjeldust ekki við, enda var liðsmunur ákaflegur, því sveitamenn höfðu verið milli 50 og 60. Fjárrekstur útilegumanna tvístraðist brátt, enda gáfu menn þá engan gaum að fjenu.
SkessuketillHellsimenn tóku nú að flýja hver sem best mátti, en sveitamenn eltu þá af hinum mesta ákafa og mest þeir, sem fótfrástir voru. Allir komust hellismenn nokkuð langt undan og  vestan í Henglinum urðu mestar eltingar. Þar eru melar og skriður, segja kunnugir menn; eru þar kölluð „Þjófahlaupin“ enn í dag sem örnefni síðan. Allir voru hellsimenn drepnir, ýmist vestan í Henglinum, eða niður á Mosfellsheiði, því undan hlupu þeir slíku ofurefli meðan þeir gátu uppi staðið sökum mæði.
Nú voru hellismenn allir unnir, en fylgdarkonur þeirra voru enn í hellinum. Þær höfðu veitt hart viðnám, og svo er haft eftir þeim mönnum, sem í atförinni voru, að svo ilt sem hefði verið að sigra hellisbúa, þá hefði þó hálfu verra verið að vinna fylgikonur þeirra. En samt að lokum urðu þær teknar og fluttar burtu, og er ekki getið að þær sýndu neinn mótþróa eftir að þær komu undir annara manna hendur.
Jón hjet maður, sem kallaður var „yddú“, Jónsson ins harða í Ossabæ, Sigurðssonar Þorkelssonar Jónssonar.
HellisopiðJón var fæddur 1777. Hann var hverjum manni flínkari, ófyrirleitinn og harðfengur í meira lagi, nokkuð ertinn og kappsfullur, starfsmaður mikill og þrekmaður hinn mesti. Ekki fara sögur af honum í æsku. Hefir hann líklega alist upp hjá foreldrum sínum. Þegar hann var um tvítugsaldur var hann vinnmaður í Reykjakoti. Þá var það eitt sinn í fjallgöngum, að Jón kleif upp í þennan umtalaða hellir útilegumannanna. Ekki getur þess, að Jón fyndi þar neitt merkilegt, en öskuleifar litlar voru í einum stað utan við hellisopið, enda hefir alt verið tekið burt þaðan, hafi nokkuð verið að taka, þegar útilegumenn voru unnir.
InnstidalurNú var Jón í hellinum og hafði tvisvar gert tilraun að komast niður, en hikað við. Sá Jón nú, að ekki dugði, að vera þar til lengdar og rjeð því til enn að nýju og komst með naumindum alla leið niður fyrir hellisbergið og ómeiddur að öllu leyti. Hafði hann svo sagt, að ekki mundi hann leggja upp í aðra för í þann hellir. Hefir þetta verið kringum aldarmótin 1800, eftir því sem næst verður komist, og vita menn hjer ekki til að síðan hafi neinn maður farið upp í þennan hellir.
Það er og haft eftir Jóni „yddú“, að þegar útilegumennirnir komu með fjárhópinn, að þá hafi sveitarmenn skipað sjer í kring og slegið hring um þá, en þó sluppu þeir allir til að byrja með, og byrjuðu þá strax eltingar. Það hafði og verið mestur tálmi hjá hellismönnum, að þeir voru illa skóaðir, en sveitamenn betur búnir til handa og fóta, og mest höfðu hellismenn fallið fyrir grjótkasti og bareflum, er hinir höfu, en eiginlg vopn voru fá eða engin.
KjóiSögu þessa hafði Jón „yddú“ eftir Jóni harða föður sínum og Sigurði Þorkelssyni afa sínum, en Jón „yddú“ sagði aftur Hávarði gamla Andrjessyni, en þeir voru samtíða á Völlum meir en 20 ár, en Hávarður sagði oft gömlum karli, sem enn er á lífi. Jón „yddú“ var hrekkjóttur í uppvexti, en svi fimur, að til þess var tekið. Hann var og ágætur vinnumaður til hvers er taka þurfti, og eru fáeinar smásagnir til um hann.“
Þessi sama frásögn birtist síðan í Lögbergi 2. mars 1939, bls. 4-5.
Þegar skoðað var neðanvert umhverfi „útilegumannahellisins“ mátti sjá að milli stórra steina undir honum mátti greina aflagaða hleðslu. Við endann á henni að sunnanverðu var skúti undir stórum steinum. Ofanvert var náttúrulegt aðhald. Þarna hefði mátt geyma fé án þess að til þess sæist úr dalnum. Tvö bein lágu þar við skútann.
KjóinnÞrátt fyrir framangeinda lýsingu er ekki ókleift upp í hellinn. Hins vegar þarf að fara varlega, bæði upp  og niður. Sennilega á lýsing Jóns við um helli skammt norðar í berginu. Þar er aflöng sylla, líklegasta hellisstæðið þegar horft er upp í hamarinn. Til að komast þangað þarf að fara með erfiðsmunum upp móbergsbrúnir, en öllu erfiðara er að komast niður aftur. Freistingin gæti þó auðveldlega leitt áhugasama þangað upp, en uppgötvunin hlýtur ávallt að valda vonbrigðum. Þrátt fyrir álitlegan helli neðanvert séð er um að ræða slétta og grunna stétt í berginu. Af ummerkjum að dæma (göt í berginu) má ætla að margir hafi lagt leið sína á þessan stað í vissu um að hann væri sá er leitað væri að.
Innstidalur„Útilegumannahellirinn“ umræddi er skammt sunnar. Hann er, sem fyrr sagði, tiltölulega auðveldur uppgöngu. Þegar þangað upp var komið mátti sjá leifar af fyrirhleðslu. Innar var grjót er gæti verið leifa af beðum. Tveir leggir lágu undir vegg. (Næst verður málmleitartæki með í för.) Útsýni úr hellinum er frábært yfir Innstadal og Miðdal. Enginn maður hefði getað óséður komist að hellinum án þess að vistverjendur hefðu áður komið auga á hann.
DaggardroparUndir hellinum eru skjól undir klettum. Líklegt er, ef einhverjir hafi hafst þarna við um tíma, að þeir hafi nýtt sér aðstöðuna þar. Hleðsla hefur verið fyrir opi að norðanverðu, en hún fallið inn. Op er milli steina að austanverðu – sem sagt hið ágætasta skjól og vandfundið. Þá er og bæði kalt vatn til svölunnar og heitt í grenndinni soðningar. Sérstaka athygli þátttkenda vöktu skessukatlar undir hellinum. Í þá hefur ávallt verið hægt að sækja drykkjarvatn að sumarlagi, auk þess sem Hengladalsáin kemur upp svo til undir hellismunnanum. 

Tveir einkaskálar eru í Innstadal, annar er staðsettur austast í dalnum (Hreysi), en hinn er norðan meginn fyrir miðju við Hengilinn (Lindabær). Þessir skálar eru lokaðir almenningi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir m.a.:
-Lesbók Morgunblaðsins, Þórður Sigurðsson, Tannastöðum, „Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra“, 29. jan. 1939, bls. 30-31.
-www.wikipedia

Hveragil

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar (Móskarðahnúkar) eru hnúkaröð fjögurra tinda og tengir saman Esju og Skálafell. Þeir eru að mestu úr líparíti. Austasti tindurinn er hæstur 807 metrar.

Tómas Einarsson

Tómas Einarsson (1929-2006).

Tómas Einarsson lýsti gönguleiðinni á „Móbergshnúka“ í Morgunblaðinu árið 1982:
„Móskarðshnúkar nefnist sá hluti Esjunnar, sem austast liggur, en milli þeirra og Skálafellsins er Svínaskarð. Hnúkarnir sjálfir eru auðþekktir vegna lits og lögunar. Hinn ljósbleiki litur vekur athygli vegfaranda

ns en blekkir oft á tíðum því það er eins og sólin skíni alltaf á Móskarðshnúka, þótt veðurstofan segi annað.
Hnúkarnir eru fjórir en milli þeirra eru grunn skörð. Þunnur klettahryggur tengir þá við meginfjallið en hann liggur milli tveggja dalabotna, Þverárdals að sunnan og Eyjadals að norðan.
Fyrrum lá þjóðleiðin milli Kjósar og Mosfellssveitar um Svínaskarð og um skarðið fór fjöldi ferðalanga úr fjarlægum landshlutum, en það breyttist þegar akvegurinn var lagður vestur fyrir Esjuna skömmu eftir 1930.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Ganga á Móskarðshnúka er auðveld og er venjulegast gengið á þá að sunnan. Þá er ekið að Leirvogsá, hjá Hrafnhólum, og gengið þaðan eftir gömlu götunum áleiðis að Svínaskarði. Skammt fyrir norðan bæinn liggur leiðin yfir Skarðsána. Hún er ekki mikil að jafnaði svo auðvelt er að stikla yfir hana á steinum. Mörgum hættir til að taka stefnuna beint á hnúkana eftir að komið er yfir ána. Sú leið er vel fær, en þó er léttara að ganga áfram eftir götunni uns komið er að gili, sem liggur niður frá hnúkunum. Farið er yfir það, en síðan upp með því að austanverðu og stefnt beint í skarðið milli tveggja austustu hnúkanna.

Svínaskarð

FERLIRsfélagar við dys í Svínaskarði.

Úr skarðinu er létt að ganga á austasta hnúkinn, en hann er hæstur (807 m) og af honum er besta útsýnið. Ekki er mikið víðsýni af Móskarðshnúkum, nema helst til austurs og suðurs, því fjöll kreppa að til annarra átta, svo minna er þar að sjá en vænta mætti.
Um fleiri en eina leið má velja, þegar halda skal til baka. Sennilega liggur leið flestra af austasta hnúknum niður skriðurnar og ofan í Svínaskarð (það er í 481 m hæð) og ganga gömlu götuna til baka. Þetta er mjög þægileg leið og falleg. En ef tíminn er nægur er sjálfsagt að lengja leiðina nokkuð og ganga þá vestur hnúkana áleiðis að Esjunni.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

Þá eru efstu brúnir hnúkanna þræddar og eykur það ekki síst á tilbreytinguna. Síðan er gengið yfir klettahrygginn milli Þverárdals og Eyjadals og vestur á Esjuna. Krækt fyrir botn Þverárdals, gengið á Hátind (909 m) og haldið síðan niður Þverárkotsháls að Hrafnhólum. Þessi leið er bæði fjölbreytt og falleg, og veitir víðari sjóndeildarhring en Móskarðshnúkar einir. Þó er rétt að hafa það í huga, að þessi gönguleið tekur meginhluta dagsins, ef farið er rólega og án alls óðagots.

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar.

En hvernig mynduðust Mókarðshnúkar og hvers vegna eru þeir frábrugðnir öðrum nærliggjandi fjóllum bæði að lit og lögun? Jarðvísindamenn segja að Esjan sé mynduð við eldsumbrot fyrir 2 1/2-3 millj. árum. Fyrir um 2 milljónum ára var stór og mikil askja fyllt vatni á svæði sem nú er á milli Skálafells, Móskarðshnúka, Þverárkotsháls og allt suður undir Grimmannsfell. Á börmum þessarar öskju voru tíð eldgos og þá mynduðust Móskarðshnúkar. Þeir eru því fornar eldstöðvar myndaðir úr líparíti, en það berg gefur þeim ljósa litinn og gerir þá svo auðkennda, sem alkunnugt er. En síðan hafa ísaldarjöklarnir, frost, vatn og vindar máð burtu þessi fornu eldvörp að mestu og gefið fjallinu þá lögun, sem það hefur í dag. Með skarpskyggni sinni og nútímatækni hefur vísindamönnum okkar tekist að ráða þessar rúnir. En um leið hafa þeir veitt okkur óbreyttum leikmönnum tækifæri til að gefa hugarfluginu lausan tauminn meðan við fetum okkur áfram áleiðis að áfangastað.“

Móskarðshnúkar

Móskarðshnúkar – gönguleið.

Tómas Einarsson fæddist 10. nóvember 1929. Hann lést 12. febrúar 2006. Eftir barnaskólapróf fór Tómas í Héraðsskólann í Reykholti, síðan í Kennaraskóla Íslands og lauk þaðan kennaraprófi 1950. Íþróttakennaraprófi frá Laugarvatni lauk hann 1952 og prófi frá Lögregluskóla Reykjavíkur 1954. Námsdvöl á vegum The Cleveland International Program í USA 1964 og Cambridge í Englandi 1974-75.
Hann var kennari við barna- og unglingaskóla 1950-53. Hóf störf í lögreglu Reykjavíkur 1953 og í rannsóknarlögreglunni (afbrot unglinga) 1955-1966. Kennari við Hlíðaskóla í Reykjavík frá 1966 og kennslufulltrúi á Fræðsluskrifstofu Reykjavíkurumdæmis til starfsloka.

Heimild:
-Morgunblaðið, 159. tbl. 23.07.1982, Móskarðshnúkar – Tómas Einarsson, bls. 39.

Móskarðshnúkar

Móskarðahnúkar – herforingjaráðskort 1908.