Hellishólsskjól

Þegar skoðaður er kaflinn um Hrauntungur og Brunntorfur (Brundtorfur) í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnastaði í Hraunum má sjá eftirfarandi: „Halda skal nú hér fram með Brennu, allt þar til kemur í Hrauntungukjaft. Þar taka við Hrauntungur, sem liggja norðaustur eftir milli Brennu og Brunans. Þær eru nokkrar að víðáttu, og er skógurinn einna mestur þar, allt að 4 m há tré.
ÞorbjarnarstaðafjárborginÚr kjaftinum liggur Hrauntungustígur norðaustur og upp á Háabruna, út á helluhraunið og austur eftir því upp að Hamranesi vestan Hvaleyrarvatns. Er þetta skemmtileg gönguleið. Efrigóm Hrauntungukjafts gerir Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhell[r]ar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól). Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum. Hún stendur enn, og er innanmál hennar um 7 m. Suður og upp frá brunanum eru Brundtorfur. Þar var hrútum hleypt til ánna forðum daga. Þar voru Brundtorfuvörður og Brundtorfuhellir. Einnig var þetta svæði kallað Brunntorfur, Brunntorfuvörður og Brunntorfuhellir. Hér vestnorðvestur var Gjásel, sel frá Þorbjarnarstöðum, stoð á Gjáselshæð. Rétt hjá selinu var vatnsstæði. Á hæð skammt suður og upp frá selinu var Gjáselsvarða. Norðaustur frá Gjáselsvörðu (G.G.) voru þversprungnir hólar, Vonduhólar. Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög. Upp frá Hrauntungukjafti eru hólar, sem nefnast Skyggnirar. Þar um liggur Hrauntungustígurinn og er ekki vel greinilegur.
Opið á HellishólsskjólinuÍ skrá Gísla Sigurðssonar segir: „Hér lengra og ofar er Þúfuhólshraun með Þúfuhól og þar á Þúfuhólsvörðu. Svæði þetta nefndist líka Hundaþúfuhólshraun, Hundaþúfuhóll og Hundaþúfuhólsvarða.“ En Gísli Guðjónsson og Jósef Guðjónsson segja, að þessi örnefni séu ekki til hér, heldur séu þau vestur af Tóhólum í Óttarsstaðalandi.“
Þegar framangreind lýsing er skoðuð út frá Fjárborginni (Þorbjarnarstaða(fjár)borginni) vakna óneitanlega spurningar; hvenær var borgin reist, hvers vegna og af hverju hér, uppi á Brunanum (Nýjahrauni/Kapelluhrauni), en ekki hinu gróna Hrútadyngjuhrauni? 

Skjólið innanvert

Svörin liggja að hluta til fyrir; fjárborgin var reist af börnunum á Þorbjarnastöðum um og í kringum aldarmótin 1900. Staðsetningin hlaut að hafa tekið mið af staðsetningu á öðru eldra mannvirki, sem hefur átt að bæta um betur! Fjárborgina átti greinilega að hlaða í topp og því nýta sem fjárskýli, en hætt hafði verið við í miðjum kliðum. Ástæðan hefur væntanlega verið sú að fjárhús var þá byggt nálægt bænum. Áður var fé haft í fyrirhlöðnum fjárskjólum frá náttúrunnar hendi. Fjárborgin var því væntanlega „miðlæg“ bygging í tíma og fjárhúsið nýjast því hús voru ekki byggð yfir fé á þessu landssvæði fyrr í byrjun 20. aldar. Skv. þessari ályktun vantaði elsta mannvirkið; hlaðið fjárskjól, einhvers staðar í nánd.
Í örnefnalýsingunni er getið um fjárskjól í Hrauntungum – Hrauntunguhellrar. Sá hellir er með heillegri fyrirhleðslu í jarðfalli norðarlega í Tungunum. Stór birkihrísla hindrar leiðina að opinu. Á hraunhvelinu er varða. Lýsingin segir hins vegar að „Efrigóm Hrauntungukjafts gerir Hellishóll. Hér í hólnum eru Hrauntunguhell[r]ar (að sögn Gísla Guðjónssonar; Gísli Sigurðsson kallar þá hins vegar Hellishólshelli og Hellishólsskjól). Í vætutíð má fá þar vatn. Uppi á hólnum er Hellishólsker. Hér nokkru sunnar er Fjárborgin á tungu út úr brunanum.“ Þessi lýsing passar ekki við fyrrgreinda Hrauntunguhellra. Það hlaut því að vera annað skjól í efrigóm Hrauntungukjafts, skammt norðan fjárborgarinnar.
Þegar nágrenni Fjárborgarinnar var skoðað mjög vandlega var gengið fram á sléttkolla hraunhóla og allnokkur jarðföll. Í einu þeirra reyndist vera mikil hleðsla fyrir skúta. Stór Skjólið innanvert - hleðslabirkihrísla huldi innganginn svo og hleðsluna. Þegar inn var komið sást vel hversu vegleg hleðslan var. Mold var í gólfi og tófugras í því næst opinu. Sléttar hellur hafa verið notaðar fyrir þak. Ein þeirra var enn á sínum stað, en aðrar lágu í gólfinu. Rýmið var svipað og í fjárborginni. Innarlega var gat í gólfinu, að öllum líkindum greni. Kindabein voru utan við opið. Skjólið er vel hulið og ekki er að sjá að þarna hafi maður stigið inn fæti í langan tíma. Skjól þetta er að öllum líkindum svonefnt Hellishólshellir eða Hellishólsskjól, skammt frá Fjárborginni, eins og örnefnalýsingin segir til um. Ofan við jarðfallið hefur verið hlaðið skjól, nú fallið. Þar hefur smalinn væntanlega haft aðsetur.
Ljóst er að hraunin geyma marga mannvistarleifina – ef vel er að gáð.
Frábært veður. Gangan og leitin tóku 33 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Þorbjarnarstaði – ÖÍ.

Þorbjarnarstaðaborg

Grindarskörð

Eftirfarandi lýsing á Grindarskarðsvegi (Selvogsleið) eftir Ólaf Þorvaldsson birtist í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1943-1948:
Grindarskord-223„Leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogshrepps í Árnessýslu gekk venjulega undir nafninu Grindaskarða- eða Kerlingarskarðsvegur. Leið þessi mun vera jafngömul fyrstu byggð í Selvogi, enda aðallega af Selvogsmönnum farin, þar eð lega hreppsins er þannig, að fáir aðrir áttu þar leið um. Legg ég svo upp frá Hafnarfirði.
Þegar upp að fjalli er komið, eru til norðurs með fjallinu grasflatir allstórar, sem heita Kristjánsdalir. Norðan þeirra gengur hæðarskagi fram úr fjallinu: Kristjánsdalahorn.
Upp af kerlingarskard-221Kristjánsdölum rís landið sem í öldum, og heitir þar Kristjánsdalabrúnir. Norðaustur af þeim eru Þríhnjúkar. Til suðurs sér alllangt með Lönguhlíð og til Dauðadala. Upp fjallið liggur vegurinn í krókum og sneiðingum, unz upp er komið á Kerlingarskarð. Allbratt er upp að fara, einkum neðst og efst. Þegar komið er undir efstu brekkuna, er dalverpi litið í fjallið norðan götu. Þar sést enn kofarúst, leifar af skýli, sem byggt var í tíð brennisteins-vinnslunnar í Brennisteinsfjöllum, og var „sæluhús“ þeirra, sem fluttu brennisteininn á hestum til Hafnarfjarðar. Vegur sá, sem nú um langt árabil hefur verið farinn þarna yfir fjallið, liggur um Kerlingarskarð. Annar slóði er nokkru norðar og var nefndur Grindaskarðavegur. Fyrir löngu mun vera hætt að fara þann veg nema helzt lausgangandi menn að vetri til, ef harðfenni var mikið í brún Kerlingarskarðs, því að þar eru hærri og skarpari brúnir en á nyrðri slóðinni. Þegar upp á brún er komið, eru þrír hnjúkar til hægri handar, skammt frá vegi, kúlumyndaðir og allir svipaðir að stærð. Hnjúkar þessir eru á uppdrætti herforingjaráðsins nefndir Grindaskarðahnjúkar, aðrir nefna þá Bolla einu nafni, sennilega eftir lagi bolla á hvolfi. Nokkurn spöl norðan gamla Grindaskarðavegar er allstór hnjúkur, sem á korti frá 1908 er nefndur Kóngsfell, en á korti frá 1932 Bolli.

Selvogsgata-618

Alþekkt fiskimið frá tíð áraskipanna við Faxaflóa er Bollasvið eða Bollaslóð. Þá voru Bollarnir, syðsti, mið- og nyrzti, yfirmið, en Helgafell undirmið. Vitneskju hef ég reynt að afla mér frá gömlum sjó- og formönnum, sem sóttu mikið á þessar slóðir, en ekki ber þeim að öllu leyti saman um Bollana. Nokkrir þeirra telja þá alla sunnan Kerlingarskarðs, en aðrir beggja megin, og er ekki óhugsandi, að þessi sagnamunur stafi af því, að margir af þessum mönnum eru algjörlega ókunnugir á landi þar um slóðir. Allir þessir menn þekkja eflaust Bollana af sjó, en ef til vill gera þeir sér ekki grein fyrir þeim af landi eða þegar nær er komið, þar sem ýmis kennileiti taka breytingum í augum manna, eftir því hvaðan horft er og úr hvaða fjarlægð. Hæsti hryggur fjallsins er mjór, og fer rétt strax að halla austur af, en ekki er það undanhald langt, svo sem hálfrar stundar gangur, þar til landið liggur jafnhátt, og nær það að Hvalhnjúk og Ásum. Á háfjallinu norðan vegar er Stórkonugjá.
Er það Selvogsgata-616hraungjá mikil, sem hraun hefur runnið eftir frá gömlum eldgíg þar uppi. Austur af Stórkonugjá, skammt fyrir norðan veginn, er Kóngsfell. Þar koma saman lönd Gullbringusýslu og Árnessýslu. Þegar komið er austur af fjallshryggnum, er komið að afarstórri hraunbreiðu. Tvær vörður eru þar við götuna, og skiptast þar leiðir, liggur austasta leiðin til Selvogs, miðleiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur, en sú þriðja, sem nú er sjaldan farin, liggur til Brennisteinsfjalla, suður með Draugahlíð. Var það leið þeirra manna, sem brennisteinsnám stunduðu í Brennisteinsfjöllum, þegar þeir fóru um helgar til Hafnarfjarðar, því að flestir af þeim áttu þar heima, en mest var þessi leið farin af þeim, sem fluttu brennisteininn til Hafnarfjarðar, og var hann fluttur á klökkum. Hafnfirðingum, sem hesta áttu, svo og bændum þar í grennd, var að einhverju leyti gefinn kostur á þessum flutningum, og skyldu þeir fá eina krónu á hestburðinn í flutningsgjald. Ferðin mun hafa tekið 12-14 klst. Eitthvað mun þessu hafa verið sinnt, þrátt fyrir þetta lága gjald, sem að lokum reyndist samt félaginu ofvaxið. Þetta var á síðari hluta nítjándu aldar.
Leiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur liggur frá fyrrnefndum vörðum, suðaustur á slétt hraun, og eru smávörður með fram veginum yfir hraunið. Þegar á mitt hraunið kemur, er úfinn bruni suðvestan vegar, og er farið yfir mjótt haft af honum við suðurtagl Hvalhnjúks. Þegar austur fyrir Hvalhnjúk kemur, taka við Vestur-Ásar. Fyrst til hægri handar nokkrir gróðurlausir og dökkir hólar, Svörtu-Ásar. Nokkru suðaustur af þeim úti við brunann er Urðarás, og er hann auðþekktur af mikilli grágrýtisurð sunnan megin. Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Þar sér enn leifar þess, að þar heíur fyrir löngu verið leitað eftir mó, en ekki mun það hafa þótt svara kostnaði. Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrún. Þegar á brún kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist nokkuð.
Það hefur líka hýrnað Selvogsgata-619yfir mörgum vegfaranda þarna, sem kemur úr svartaþoku eða vondu veðri af fjallinu, því að oft er mikill munur veðurfars uppi á fjalli og neðan fjalls. Á brúninni stingum við því við fótum og rennum augum yfir það helzta, sem við blasir. Fyrst skulum við líta niður fyrir fætur okkar, svo að við blátt áfram dettum ekki fram af fjallinu, svo er það snarbratt. Af brúninni blasir við hafið, svo langt sem augað eygir til austurs, suðurs og nokkuð til vesturs, og sjaldan er sjór svo kyrr hér, að ekki kögri hvítu við sanda og hleinar. Héðan sjáum við til Selvogs, og ber þar hæst á vitanum á Selvogstöngum, og kirkjunni á Strönd — Strandarkirkju. Neðan fjallsins er allstórt vatn, Hlíðarvatn. Við austurenda þess, uppi við fjallið, er jörðin Hlíð, bær Þóris haustmyrkurs, þess er nam Selvog. Fyrir nokkrum árum var Hlíð lögð undir Stakkavík, en nú eru báðar í eyði, sorgleg saga, sem gerist víða nú.

Selvogsgata-620

Við vesturenda Hlíðarvatns er Stakkavík. Þar sem hús og tún jarðarinnar var fyrir 70—80 árum, er nú allt í vatni, og sést aðeins smáhólmi, þar sem bærinn stóð. Nú stendur bærinn í hraunjaðrinum við vatnið og má heita túnlaus. Þess vegna var Hlíðin lögð undir Stakkavíkina, því að allgott tún er í Hlíð, en sami eigandi að báðum jörðunum, sem sé Strandarkirkja. Úr vatninu rennur ós til sjávar, Vogsósaós. Í Hlíðarvatni er allmikil silungsveiði, og eru það Hlíð og Stakkavík, sem eiga beztu lagnirnar. Af brúninni sjáum við ekki til Herdísarvíkur, þar eð Stakkavíkurfjall byrgir útsýn þangað. Ef við ætlum okkur heim á annan hvorn víkurbæinn, förum við að feta okkur niður stíginn, sem liggur í mörgum krókum og sveigum niður fjallið og heitir Selstígur. Frá fjallinu er aðeins steinsnar heim að Stakkavík.
Vestur að Herdísarvík er um Stakkavikurvegur-212þriggja stundarfjórðunga gangur frá Stakkavík. Hefur nú verið lýst leið hinna svonefndu útbæja í Selvogi, og hverfum við nú aftur norður undir „Skarð“, að vörðunum tveim, og förum þaðan austustu leiðina, sem liggur til Vogsósa og Selvogshverfis.
Vegurinn til Selvogs liggur frá vörðunum austur milli hrauns og hlíða. Er lág heiði með giljum og skorningum á vinstri hönd, en braunið á hægri, og nær það alveg upp að þessum heiðadrögum, og er þessi kafli vegarins nefndur Grafningur. Þegar austur úr honum kemur, er komið í Stóra-Leirdal, það er allstór sléttur grasdalur. Í Stóra-Leirdal var ófrávíkjanleg regla að æja, taka ofan af hestum, ef undir áburði voru, hvort heldur var verið á austur- eða vesturleið.

Selvogsgata-621

Þarna tóku menn til nestis síns, bæði matar og drykkjar, ef eitthvað var fljótandi í ferðinni, og var þá ekki ósjaldan, ef verið var að koma úr kaupstað, stundum í misjöfnu veðri, þegar menn voru búnir að hressa sig á mat, hver við sinn farangur, að menn færðu sig þá saman, og einhver þá ef til vill með ábæti, aðallega af farangri fararstjórans, því að venjulega hafði einhver einn forystu í ferðinni. En oftast var þetta þegjandi samkomulag, og sungu menn nokkur lög, áður farið var að hafa saman hesta til áframhalds ferðinni. Söngurinn, ásamt yljandi hressingu, færði fjör og hita í menn, sem þeir svo bjuggu að næsta áfanga.
Þegar lagt er upp úr Stóra-Leirdal, er strax farið upp allbrattan háls, með nokkrum aðdraganda austur af. Er þetta Hvalskarð. Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnjúkur, mjór og allhár, en frekar þunnur.

Selvogsgata-622

Ekki þætti mér ólíklegt, að nafnið sé dregið af lögun hnjúksins, svo mjög minnir hann á bak stórhvelis að allri lögun. Annars segir þjóðsagan, að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnjúkurinn þar suður af Hvalhnjúkur, sem fyrr er getið. Þegar austur úr Hvalskarði er komið, taka við Hvalskarðsbrekkur til vinstri handar, en Lágahraun, með háum, strjálum hólum, til hægri handar. Hvalskarðsbrekkur liggja í suður- og suðvesturdrögum víðáttumikillar heiðarbungu, er nefnist Heiðin há. Ekki er mikill gróður uppi á Heiðinni há. Grámosi er þar fyrirferðarmestur, og liggur hann yfir hálfbrenndum grjóturðum. Mishæðalaus má heiðin teljast, en dregst að toppi á alla vegu, og heitir efsti toppur hennar Kerlingarhnjúkur og er 626 m hár.

Selvogsgata-623

Útsýni í björtu er allmikið og oft fagurt af heiðartoppnum, en þó sést ekki það fegursta, sem Heiðin há hefur að bjóða, — en menn vita aðeins af því kringum sig — það er nafn heiðarinnar, það er einkennilega fagurt, í senn fornlegt og skáldlegt. Að velja einmitt þetta nafn, en ekki t. d. Háaheiði eða eitthvað þvílíkt, lýsir því, hvað sá, sem skírði, hefur verið mikill snillingur í nafngiftum á örnefni, og sennilegt er, að fleiri fögur og sérkennileg örnefnaheiti um þessar slóðir eigi til sama manns að telja. Má þar nefna Fjallið eina, sem sver sig greinilega í sömu ætt. Þegar Hvalskarðsbrekkum sleppir og komið er nokkuð austur með heiðarbrekkunum, er stór, stakur hraunhóll vestur við veginn, Þorvaldshóll.

Eiriksvarda-23

Litlu austar, þegar brekkunum sleppir, eða þær lækka svo, að útsýn opnast til norðausturs, blasir við í þeirri átt allstórt fell, Urðarfell. Norðaustur af því eru grasbrekkur og lautir, Fornutorfur, var þar oft slegið frá Hlíð og Vogsósum allmikið af finnungi.
Nokkru austan Þorvaldsháls er komið í Litla-Leirdal. Þaðan er smáspölur þar til talið er, að komið sé ofan af fjallinu. Þá er komið ofan í Katlabrekkur, og er þá Hlíðarfjall til vesturs, en Svörtubjörg til austurs. Þar uppi er Eiríksvarða, og á Eiríkur á Vogsósum að hafa hlaðið hana til verndar Selvogi fyrir sjóránsmönnum, svo sem Tyrkjum. Kippkorn vestur með Hlíðarfjalli skagar smáháls fram úr fjallinu, Sjónarháls. Af honum er stutt heim að Hlíð, sem nú er í eyði og hefur verið um 40 ár. Hlíð er við austurenda Hlíðarvatns, og er þar dágóð silungsveiði.
Rið ágætt á svonefndri Bunu. Beljar þar vatn undan fjallinu, en hæfilega stór möl í botni sem hrygningarstaður.
Að Hlíð bjó Þórir haustmyrkur, sá er nam Vordufellsrett-21Selvog og Krýsuvík, sem fyrr segir. Vogsósar standa á sléttum völlum sunnar með vatninu. Úr Katlabrekkum sér til Selvogsbyggðar, nema útbæjanna, Stakkavíkur og Herdísarvíkur. Liggur nú leiðin til suðurs eða suðausturs, niður vestur- og suðvesturdrög Selvogsheiðar. Þegar nokkuð niður í heiðina kemur, er farið í gegnum svonefnd Rof. Litlu neðar er farið vestan undir smáhraunhæð, sem Vörðufell heitir. Við Vörðufell stóð nokkuð fram yfir síðustu aldamót lögrétt Selvogsmanna, Vörðufellsrétt. Nú eru réttir þeirra norðaustur af Svörtubjörgum.
Ég get ekki gengið fram hjá án þess að drepa á eins konar helgisögn í sambandi við Vörðufell, og er átrúnaður þessi, eða hvað sem menn vilja kalla það, efalaust runninn frá Eiríki á Vogsósum, en sögnin er í fám orðum þessi: Selvogsheiði er, sem kallað er á smalamáli, mjög leitótt, og tefst því oft fyrir mönnum að finna gripi, sem að er leitað, þoka gerir leitina stundum erfiða.

vordufell-22

Ef leitarmann ber nú að Vörðufelli, þá skal hann ganga á fellið, leggja þar einn stein í vörðu eða undirstöðu að annarri, ef þær sem fyrir eru, eru nógu háar orðnar, og mun hann þá bráðlega finna það, sem eftir er leitað. Ekki get ég af eigin reynslu sagt neitt um áhrif þessara verka, en það get ég sagt, að Vörðufell er að ofan alþakið vörðum, stærri og smærri, og jafnvel er þessu eitthvað haldið við enn, eítir því sem greinagóður maður hefur tjáð mér nýlega. Ekki hefur mér tekizt að fá nógu áreiðanlegar sagnir um það, hvað liggi hér til grundvallar, hvaða fórn hér sé verið að færa fellinu eða hverjum; en talið er vafalaust, að ummæli Eiríks á Vogsósum, þess spaka manns, liggi hér á bak við og séu enn í góðu gildi.

Selvogsgata-617

Nokkru suðaustur frá Vörðufelli er Strandarhæð. Suðvestur í henni er stór hellir, Strandarhellir. Framan til er hann hár og falleg boghvelfing yfir, en sandur er í botni, og getur þar verið inni fé, svo að hundruðum skiptir, án þrengsla. Suður af hellinum eru sléttar grasdældir, Dalalágar. Þegar hér er komið, er steinsnar til bæja í Selvogi, og þá venjulega komið að túnhliði, ýmist frá Bjarnastöðum eða Nesi, eftir því sem hverjum hentar, eða þá að utustu bæjum í hverfinu, Þorkelsgerði eða Torfabæ.
Á vetrum, þegar Selvogsmenn fóru gangandi vestur yfir fjall, styttu þeir sér oft leið með því að fara Hlíðarskarð í Hlíðarfjalli, vestur með Langhólum í Austur-Ásum, á veginn sunnan undir Hvalhnjúk, Stakkavíkurveginn. Er nú lýst leiðum Selvogsmanna til Hafnarfjarðar.“

Suðurferðavegur

Suðurferðavegur næst Selvogi.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 49, árg.1943-1948, Selvogsleiðir, Ólafur Þorvaldsson, bls. 96-104.

Karlsgígurinn

„Í ljósi þeirra gagna sem safnast hafa um Yngra-Stampagosið á Reykjanesi er mögulegt að gera grein fyrir framgangi þess í grófum dráttum: Gossprunga með stefnu suðvestur-norðaustur opnast á Reykjanesi. Upphaf gossins er við suðvesturströnd Reykjaness Karl-221eftir því sem best verður séð, en ekki er útilokað að gosið hafi í sjó fjær ströndinni um svipað leyti. Engin ummerki hafa þó fundist um slíkt. Gosið hefst í sjófylltri sigdæld sem legið hefur frá ströndinni inn til landsins og hleðst þar upp hverfjall, Vatnsfellsgígurinn.
Lokaþáttur gossins einkennist af strombólskri gosvirkni með gjallmyndun. Gjóskan frá gígnum berst nær algerlega til hafs. Skömmu síðar, sennilega nokkrum mánuðum, hefst gos að nýju, um 500 m undan núverandi ströndu, og hleðst þar upp annað hverfjall, Karlsgígurinn. Í lok gossins kemur upp hraun í austanverðum gígrimanum og rennur inn til lands. Gjóskan frá Karlsgígnum (R-7) berst að nokkru leyti inn til landsins, yfir allt Reykjanes, en að mestum hluta til hafs. í framhaldi af gjóskugosunum við ströndina hefst hraungos á landi og rennur hraun frá 4 km langri gígaröð. Mest hraunrennsli hefur verið til beggja enda gígaraðarinnar þar sem stærstu gígarnir eru. Hraunið rennur upp að Karlsgígnum og markar hraunjaðarinn við ströndina nú útlínur hans að hluta. Nokkur landauki hefur orðið af hrauninu en það rann í sjó fram á a.m.k. fjórum stöðum.
Eldey-221Í annálum, við árið 1210/11, er sagt að Sörli Kolsson hafi fundið „Eldeyjar hinar nýju en að hinar hafi horfið er áður stóðu“ (stílfærsla höfundar). Alls er óvíst hvort eða hvernig þessi frásögn tengist þeirri Eldey sem við sjáum í dag, en ekkert útilokar þó að hún sé frá þessum tíma.
Í heimildum er hvergi sagt berum orðum að hraun hafí runnið á Reykjanesi en helst er þó ýjað að þvi í frásögnum við árið 1210/11 (Storm 1888). í Oddaverjaannál er sagt: „Elldur wm Reykianes: Saurli fann Elldeyjar hinar nyo enn hinar horfnar er alla æfi haufdu stadit.“ Af þessari klausu má skilja að gefið sé í skyn að eldur hafi verið uppi á Reykjanesi og þá væntanlega með hraunrennsli. Í öðrum frásögnum af gosum í sjó á 13. öld er ávallt talað um eldgos eða elda í sjó við eða fyrir Reykjanesi. Það bendir ótvírætt til goss í sjó.
Í Páls sögu biskups segir við árið 1211: „Jörðin skalf öll og pipraði af ótta; himin ok skýin grétu, svá at mikill hlutr spilltist jarðar ávaxtarins, en himintúnglin sýndu dauðatákn ber á sér, þá er náliga var komit at hinum efstum lífsstundum Páls biskups, en sjórinn brann ok fyrir landinu þá; þar sem hans biskupsdómur stóð yfir sýndist náliga allar höfutskepnur nokkut hrygðarmark á sér sýna frá hans „fráfalli“ (Biskupasögur I 1858). Þegar sagt er að himintunglin sýni á sér dauðatákn er vel hugsanlegt að þar sé vísað til móðu í lofti sem gjarnan er fylgifiskur hraungosa og að sól og tungl hafi af þeim sökum sýnst rauð.
Þó að Yngra-Stampagosið standist ekki samjöfnuð við Skaftárelda er ekki útilokað að nokkurt mistur eða móða hafi verið í lofti við gosstöðvarnar sem orsakað gat rauðan blæ á himintungl (sólu).“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 64. árg. 1994-1995, 3. tbl. bls. 225-227.

Eldey

Eldey.

 

Gamli Þingvallavegur

Eftirfarandi lýsing á örnefnum á Mosfellsheiði eftir Hjört Björnsson má lesa í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1937-1939:
Mosfellsheidi-552„Síðan hinn nýi vegur yfir Mosfellsheiði var lagður, fyrir Alþingishátíðina 1930, má svo heita, að ferðir um gamla veginn, sem lagður var nokkru fyrir síðustu aldamót, hafi lagzt niður. Vilja örnefni týnast og falla í gleymsku á þeim leiðum, sem nú eru sjaldfarnar eða þotið er um í bíl, þótt áður væru þær fjölfarnar, bæði af gangandi mönnum og ríðandi, og þá oft með langar og seinfærar lestir baggahesta, og síðar kerrur. — Þá var oft nægur tími fyrir ferðamanninn að virða fyrir sér það, sem fyrir augun bar, og þekkja nöfn á áningastöðum og kennileitum. Vil jeg nú leitast við að telja upp örnefni meðfram gamla Mosfellsheiðarveginum, frá Almannagjá að Geithálsi, þar sem hann sameinast Hellisheiðarveginum.
Þegar komið er upp úr Almannagjá og farið „suður“ — en svo er alltaf að orði komizt um ofanverða Árnessýslu, þegar farið er yfir Mosfellsheiði, Mosfellsheidi-553þó að vegurinn liggi til vesturs og jafnvel norðvesturs — þá liggur vegurinn litlu vestar yfir Breiðabala; lága, en breiða upphækkun í hrauninu. Vestan við Breiðabala er „afleggjari“; liggur hann til hægri handar beint upp hraunið í malargryfjur miklar sunnan í Stórhöfða, sem er á milli Brúsastaða og Kárastaða. Var „afleggjari“ þessi lagður litlu fyrir síðustu aldamót, um líkt leyti og aðalvegurinn var gerður, til aðflutninga á ofaníburði. Dálítið neðan við túnið á Kárastöðum liggur vegurinn yfir Árfar. Er það allbreiður, en grunnur, farvegur, sem oftast er þur á sumrum. Nafnið kemur af því, að stundum í leysingum stíflast öxará af krapi og íshröngli fyrir innan Brúsastaði og flæðir þá vestur hraunið, sunnan undir Stórhöfða, og hefur myndað sjer þar farveg greinilegan; sameinast hún svo lækjarseytlum, er koma úr giljunum fyrir ofan Kárastaði, og rennur svo niður hraunið út í Þingvallavatn.

Mosfellsheidi-554

Þegar yfir Árfarið er komið, tekur við Kárastaðamýri vestur í Borgarskarð, sem oftast í seinni tíð er nefnt Kárastaðaskarð, því að þar sjest fyrst heim að Kárastöðum, þegar komið er austur af heiðinni. Í Borgarskarði var fyr fjárborg, og þar talið, að Mosfellsheiði byrji. Vestan til heitir skarðið Borgardalur, en Borgardalsbrekkur lyngbrekkur miklar á hægri hönd, en til vinstri er Skálabrekkuás. Milli ássins og vegarins er lítil valllendisflöt og heitir Norðlingaflöt. Er þá komið í Bæjardal; hann er kenndur við bæinn að Skálabrekku, sem stendur sunnan undir honum, en sjest ekki af veginum. Bæjardalur takmarkast að suðvestan af Skálabrekkuás, en að norðvestan Lyngás. Liggur vegurinn eftir endilöngum dalnum, unz hann þrýtur, og er þá farið yfir Móakotsá. Það er lítil árspræna, sem oftast er þur í þurkasumrum; kennd er hún við eyðibýlið Móakot, sem stendur á árbakkanum niður-undir Þingvallavatni.

Mosfellsheidi-555

Var Móakot byggt um 50 ára skeið á síðustu öld. Vestan við Móakotsá er farið yfir hæð eina litla, Spýtuás, og taka þá bráðlega við lágar og lyngi grónar hæðir, er Þrísteinaholt heita. Liggur vegurinn milli þeirra og yfir Torfdalslæk, og því næst norðanundir Gíslahóli, sem venjulega er nefndur Gíslhóll. Austan undir Gíslahóli liggur rudd braut til vinstri af aðalveginum niður að Heiðarbæ og svo áfram suður Grafning. Skömmu áður en komið er að steininum, er sýnir 40 km. vegalengd frá Reykjavík, er farið yfir litla valllendisflöt, er Harðivöllur heitir. Nokkru vestar er Ferðamannahorn, þar sem bugur verður á veginum á hæðarbrún ekki mikilli; er þá skammt að Þorgerðarflöt, sem er allstór flöt til vinstri handar. Gegnt Þorgerðarflöt eru mýradrög allmikil, er heita Vilborgarkelda. Sagt er, að keldan beri nafn af konu nokkurri, er fórst þar voveiflega, og þótti hún síðan vera þar á sveimi, er skyggja tók, og gera ferðamönnum glettingar. „í Keldunni“, eins og oftast var komizt að orði, var mjög tíður áningastaður, og lágu langferðaraenn þar oft með lestir sínar, enda er þar haglendi fyrst, svo teljandi sje, austan aðalheiðarinnar. Örskammt vestan við Vilborgarkeldu og Þorgerðarflöt skiptast leiðir, og liggur nýi vegurinn, sem lagður var 1928—9, þar vestur heiðina, sunnan undir Litla-Sauðafelli og niður í Mosfellsdal.
Þegar komið er fram hjá vegamótunum, er farið yfir Mosfellsheidi-556Þórðargil, lítið gildrag, og Þórðargilsmela. Á þeim er varða, þrír steinar miklir, hver ofan á öðrum; er hún af sumum nefnd Berserkjavarða. Þaðan er nokkur spölur að Þrívörðum. Þar er land hæðótt og eru Þrívarðnalautir á milli þeirra, en vegurinn liggur yfir Þrívarðnahrygg vestur heiðina. Nokkuð sunnan við veginn á Þrívarðnahrygg sjer í tjarnir nokkrar, er Klofningatjarnir heita. Vestan í Þrívarðnahrygg eru Moldbrekkur, og hallar þar niður í Lágheiði, breiða dæld, sem er þar í heiðinni. Upp frá Lágheiði er alllöng brekka, Sæluhúsbrekka, og nær hún vestur undir Sæluhús, sem stendur þar fáa metra norðan við veginn. Var það byggt um líkt leyti og vegurinn; og kom mörgum að góðum notum, bæði mönnum og skepnum, þótt ófullkomið væri. Standa nú að eins veggir eftir, en þak og innviðir rifnir burt.

Mosfellsheidi-557

Nokkru vestar er klappahóll til hægri við veginn, er heitir Rauðkuhóll. Fótbrotnaði þar hryssa, er Rauðka hjet, hjá ferðamönnum úr Þingvallasveit. Meðal þeirra var Jónas hreppstjóri Halldórsson í Hrauntúni. Hafði hann broddstaf mikinn í hendi og keyrði í enni hryssunnar, og var hún þegar dauð. Frá Rauðkuhóli er æði spölur, unz vegurinn liggur norðan undir allstórum og mörgum klappahólum, er heita Borgarhólar. Telja jarðfræðingar Mosfellsheiði gamalt hraun, og að Borgarhólar sjeu uppvörp þess, og hafi síðan jökull gengið þar yfir og sorfið. Enda sjást víða jökulruðningar miklir og ísrákir á klöppum um heiðina. Frá Borgarhólum liggja götutroðningar, sæmilega glöggir, niður með Grímmannsfelli (Grímarsfelli) austanverðu, niður hjá Bringum og niður í Mosfellsdal.
Hallar nú upp á melkoll nokkurn, Háamel, sem stundum er líka nefndur Alda. Þar liggur vegurinn hæst, og er þaðan útsýni mikið og fagurt í björtu Mosfellsheidi-558veðri. Til austurs sjest þar austurhluti Þingvallasveitar og fjöllin þar umhverfis og allt inn á Langjökul, en Skjaldbreið fyrir miðju, og sýnist þá engu minni en frá Þingvöllum, þó að miklu muni á fjarlægðinni. Til suðvesturs sjest um Suðurnes og meðfram Reykjanessfjallgarði endilöngum og á haf út, um sunnanverðan Faxaflóa. Sunnan undir Háamel var eitt sumar — eða tvö — fyrir rúmum 20 árum lítill veitingaskúr, er danskur maður átti og nefndi Heiðarhlóm. Sjást þess nú nálega engin merki, að þar hafi mannabústaður verið. Þar suðvestur af taka við sljettir melar, Borgarhólamelar, og hallar úr því nokkuð jafnt niður í byggð í Mosfellssveit. Heita þar Seljadalsbrúnir, löng leið og heldur tilbreytingalítil. Er þá Grímmannsfeli allfjarri til hægri handar, en Efri-Seljadalur milli þess og heiðarinnar.
Við suðurenda Efri-Seljadals eru hólar Mosfellsheidi-559nokkrir, og heitir þar Þrengslin, en sunnan við þau tekur við Neðri-Seljadalur. Verður þar undirlendi meira og dalhvilftin öll grynnri. Þar sunnarlega er Silungatjörn og Silungatjarnarmýri. í Seljadölum er graslendi mikið og var þar tíður áningarstaður ferðamanna fyrrum, enda lá vegurinn um þá áður en akbrautin var lögð. Lítið sjest af veginum ofan í dalina fyr en komið er niður á móts við Silungatjörn. Þegar all-langt kemur niður eftir Seljadalsbrúnum, verða fyrir tvö lautardrög til vinstri við veginn: Efri-Hrossadalur, og litlu neðar Neðri-Hrossadalur, og enn neðar sömu megin Helgutjörn — grunnur tjarnarpollur, sem venjulega þornar upp á sumrum. Þá er til hægri handar Eiríkshóll, einstakur klappahóll, flatur að ofan, að öðru leyti en því, að fuglaþúfa hreykir sjer á honum miðjum. Litlu neðar, en lengra frá veginum, er Vörðuhóladalur, daldrag, sem lítið ber á. Tekur nú vegurinn að verða krókóttur, en hefur verið bugðulítill ofan frá Háamel, og er nú bráðlega komið að Krókatjörn, sem er við veginn til hægri. 

Mosfellsheidi-560

Gengur að norðan út í hana langur tangi, er skiptir henni nærri í tvennt, og er hún því af sumum nefnd Gleraugnatjörn. Mjög litlu neðar, hinu megin við veginn, er Djúpidalur, alldjúp kvos, er áður var klædd valllendisgróðri, en hefur í seinni tíð blásið upp og jetizt af vatni. Sumarið 1907 var þar búinn morgunverður Friðriki konungi VIII. og fylgdarliði hans, er hann reið til Þingvalla og Geysis. Móts við og fyrir neðan Djúpadal er vegurinn enn krókóttari en áður, og heita þar Krókar niður að Miðdalsmýri. Liggur vegurinn yfir hana þvera og Miðdalslæk, sem rennur eftir henni, en bærinn Miðdalur stendur í halla kippkorn norðar. Þegar kemur yfir Miðdalsmýri, er vegurinn yfir háls einn lágan, en allbreiðan, og stóðu norðar á honum fjárhús frá Miðdal. Litlu sunnar, til vinstri handar, er tjörn ein lítil, er Heiðartjörn heitir, og er þá örskammt ofan af hálsinum niður að Lynghólsmýri, og er Lynghóll norðvestan við hana. Var Lynghólsmýri einn af fyrstu blettunum, sem girtur var með gaddavír meðfram veginum, og þótti sumum ferðamönnum súrt í broti, að missa jafngóðan áningastað. Þegar komið er fram hjá mýrinni, er enn dálítil tjörn við veginn til vinstri, er Sólheimatjörn heitir, og spölkorn vestar Hofmannaflöt, allstórar valllendisflatir til hægri við veginn. Þaðan er svo mjög skammt að Geithálsi, þar sem vegurinn sameinast Suðurlandsbrautinni. Hefur þá verið fylgt veginum austan frá Almannagjá, sem er 35—40 km. leið, og skýrt frá örnefnum.“ Hjörtur Björnsson frá Skálabrekku.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Örnefni á Mosfellsheiði, Hjörtur Björnsson, 46. árg. 1937-1939, bls. 164-165.

Þingvallavegur

Yfirgefinn bíll á gamla Þingvallaveginum.

Kaldá

Ein sjö Helgafell eru til í landinu: 1. Suðaustur af Hafnarfirði, klettótt og bratt á flesta vegu. 2. Í Mosfellssveit, fjall og bær. 3. Á Þórsnesi á Snæfellsnesi, ávalt að sunnan og vestan en mjög þverhnípt að norðan og austan. Einnig samnefndur kirkjustaður. 4. Hátt fjall yst sunnan Dýrafjarðar. 5. Fell í Strandasýslu vestan Hrútafjarðar. 6. Í Þistilfjarðarfjallgarði norðaustan Öxarfjarðarheiðar. 7. Í Vestmannaeyjum.
Hugsanlega er nafnið tengt lögun þessara fjalla, en þau eru að minnsta kosti sum hver regluleg eða heilleg að útliti. Af einhverjum ástæðum var talin helgi á Helgafelli á Snæfellsnesi.
HvönninOrðið helgur er samandregin mynd úr heilagur, sem er skylt orðinu heill. Örnefni með Helga- að fyrra lið geta einnig verið dregin af mannsnafninu Helgi.
Í lýsingu er birtist í MBL 1980 segir m.a. um Helgafell og nágrenni: „Helgafell er algengt örnefni á Íslandi. Margt bendir til að þessi nafngift hafi upphaflega verið í tengslum við heiðinn átrúnað, smbr. sögnina um Helgafell á Snæfellsnesi, sem sagt er frá í Landnámabók og margir kannast við. Í nágrenni Reykjavíkur veit ég um tvö Helgafell. Annað fyrir norðan Reykjalund í Mosfellsbæ, en hitt er fyrir austan Hafnarfjörð. Þangað er förinni heitið að þessu sinni.
Við kirkjugarðinn í Hafnarfirði beygjum við út af Reykjanesbraut og höldum í austurátt. Helgafellið blasir við og innan stundar erum við komin að Kaldárseli. Ágætt er að skilja bílinn eftir við fjárréttina, sem þar er. Kaldársel er fornt býli og var í ábúð fram til 1886. Nú er þar starfrækt barnaheimili á sumrin. Kaldársel skipar sess í bókmenntasögu okkar því þar var Sölvi látinn alast upp, en hann er aðalpersónan í samnefndri sögu eftir sr. Friðrik Friðriksson og margir hafa lesið. Framhjá íbúðarhúsinu rennur Kaldá, ein stysta á landsins, því hún hverfur í hraunið skammt fyrir vestan barnaheimilið. Segja sumir, að hún komi aftur upp í Straumsvík.

Móbergsmyndanir

Við göngum yfir ána á brú, sem er fyrir sunnan húsið og tökum síðan stefnuna á norðvesturhorn fellsins, sem nú gnæfir uppi yfir okkur, bratt og skriðurunnið. Helgafell er úr móbergi, hlaðið upp við gos undir ísaldarjöklinum og því með eldri jarðmyndunum hér um slóðir. Þegar við erum komin upp á hæðirnar fyrir austan Kaldársel, tekur við rennislétt helluhraun, sem liggur upp að fellinu að vestan. Hér er gott að ganga, því fast er undir fæti og ekki spillir það fyrir ánægjunni að víða verpa smáhellar og hraungjótur á vegi okkar, sem sjálfsagt er að kanna nánar og ekki síst, ef einhver af yngstu kynslóðinni er með í för. Við höldum suður með fellinu og beygjum fyrir suðvesturhorn þess. Þar opnast nýtt útsýni, því nú blasir fjallgarðurinn við, sem er framhald Bláfjallanna til
vesturs. Við greinum m.a. Grindaskörðin, en um þau lá aðalleiðin frá Hafnarfirði austur í Selvog og Ölfus fyrr á tímum þegar hesturinn var aðalfararskjóti þjóðarinnar. Nú fara fáir um þessar gömlu götur, en þær eru fyllilega þess virði að kynnast þeim nánar. En gangan milli þessara staða fram og til baka er stíf dagleið. Leiðin meðfram Helgafellinu að austanverðu er mjög greiðfær, gatan liggur þar milli hrauns og hlíðar og er fær bilum með drifi á öllum hjólum. Þegar komið er norður fyrir svonefndan Riddara (sjá kort), getur að líta gatklett einn mikinn hátt uppi í hlíðinni og er ekki úr vegi að skreppa þangað, ef tíminn er nægur.
Fyrir norðan Helgafell eru Valahnúkar, og er greiðfært skarð á milli þeirra og Helgafells. Við skulum lengja gönguna og skreppa norður fyrir hnúkana. Leiðin er eins greiðfær og fyrr. Við förum rólega og njótum augnabliksins. Innan skamms komum við að voldugri girðingu, sem gerð hefur verið um skjólgóðan hvamm norðan í hnúkunum. Þetta er Valaból, sem Farfuglar hafa helgað sér. Þar hafa þeir hlúð að gróðri, sáð grasfræi og og gróðursett tré. Enda eru þeir nú að taka við launum þessa erfiðis síns. En það er annað og meira að skoða hér. Innan girðingarinnar er Músarhellir, gamall næturstaður gangnamanna, rjúpnaskyttna og ferðamanna fyrr á tímum. Farfuglarnir hafa sett hurð fyrir hellinn og lagfært margt þar inni, enda hafa þeir oft gist þar í hópferðum sínum. Við komumst yfir girðinguna á göngustiga og sjálfsagt er að staldra þarna við og skoða staðinn nánar.
Í ValabóliFrá Valabóli höldum við svo í áttina að Kaldárseli. Leiðin liggur meðfram girðingunni sem umlykur Helgadalinn, en þar eru miklar lindir, Kaldárbotnar, sem Hafnfirðingar taka úr sitt neysluvatn og þurfa að vernda. Og þar eru upptök Kaldár. Nokkru áður en við komum að bílnum verður garðhleðsla á vegi okkar. Liggur hún frá þessum vatnsbólum og í áttina að Hafnarfirði. Þetta eru undirstöðurnar af gömlu vatnsleiðslu Hafnfirðinga. Í stað þess að leggja vatnið í lokuðum leiðslum til bæjarins, eins og nú er gert var vatnið leitt í lokuðum stokk yfir hraunið og vestur undir Sléttuhlíð. Þar rann það ofan í hraunið en skilaði sér aftur í Lækinn, sem rennur um Hafnarfjörð, en þá höfðu bæjarbúar nýtt lækinn að fullu. Tilraunin heppnaðist fullkomlega og dugði þetta viðbótarvatn Hafnfirðingum í rúmlega 30 ár eða fram að1950. Þá var lögð fullkomin vatnslögn ofan frá Kaldárseli sem dugar enn.
Við skulum fylgja stokknum út í hraunið, en höldum þaðan að bílnum sem bíður okkar við réttina.“
Þetta var nú bara svona almennt um Helgafellið framanvert – aðdragandann að fellinu – til að koma að fleiri myndum.
Gangan að þessu sinni hófst við Kaldárbotna. Ætlunin var að ganga að Helgafelli og síðan suður og austur fyrir það. Austan fellsins er gilmyndun. Efst í því er gatklettur. Að honum þræddum er stutt upp á brún.
Þegar gengið var að Helgafelli (340 m.y.s.) eru Kaldárhnúkarnir áberandi til beggja handa. Litli-Kaldárhnúkur er minnstur og þeirra lögulegastur, rétt innan vatnsverndargirðingarinnar. Hvönnin var falleg myndbæting, bæði við Kaldá og vatnstjarnir innan girðingarinnar. Þegar stefnan er tekin fyrirfram á fjöll eða fell annars vegar gleymist oft hið smærra, jurtir og smásteinar fyrir fótum, sem í raun segja þó engu minni sögu um ummyndun og þróun landsins frá öndverðu.

Sprungur

Vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum.

„Vatnsból Hafnarfjarðar er í Kaldárbotnum. Þaðan liggur aðfærsluæð til bæjarins meðfram Kaldárselvegi um 6 km að lengd, síðan eftir stofnæðum og dreifilögnum sem flestar liggja í götum bæjarins. Fáeinar dælustöðvar innanbæjar sjá þeim bæjarhlutum sem hæst liggja fyrir vatni. Fyrstu tildrög að vatnsveitu í bænum munu vera þau að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað 1904. Í fyrstu sóttu bæjarbúar vatn í vatnskrana, sem settir voru upp víðs vegar um bæinn. Síðar var farið að leiða vatn í hús.  Vatnsveita Hafnarfjarðar sér nú um vatnsöflun og dreifingu neysluvatns í Hafnarfirði. Vatn er leitt til bæjarins frá Kaldárbotnum. Núverandi aðveituæð er frá árinu 1950 og fullnægir hún enn vatnsþörf bæjarins. Sjálfrennsli vatns er í stærstum hluta bæjarins, þó er vatni dælt á Hvaleyrarholt og í efstu byggð í Hvömmunum og Setbergshverfi. Á tímabili skipulagsins er stefnt að því að leggja nýja aðveituæð ásamt því að byggja vatnstanka og dælustöðvar til þess að auka rekstraröryggi og hagkvæmni vatnsveitunnar. Á liðnum áratugum hafa verið boraðar fjölmargar rannsóknarholur í nágrenni Hafnarfjarðar. Fyrstu holurnar voru vegna jarðhitaleitar og voru allar grunnar, eða á bilinu 60-100 m. Hitastigull í nágrenni bæjarins reyndist vera á bilinu 5,7 til 7,2 gráður á 100 m. Merkilegasta holan sem hefur verið boruð er við Kaldársel og varð 987 m djúp. Sú hola var köld (2-5 gráður) niður á 750 m dýpi. Á síðastliðnum áratug lét Vatnsveita Hafnarfjarðar bora á sjötta tug rannsóknarhola til þess að kanna grunnvatn. Dýpstu holurnar eru tæplega 90 m djúpar. Holurnar eru dreifðar um svæðið frá Helgafelli að Straumsvík.

Grávíðir

Vatnið í Kaldárbotnum er tiltækt í miklu magni í 80 til 100 m hæð yfir sjó og næst því sjálfrennsli til bæjarins og um meirihluta dreifikerfisins. Gæði vatnsins eru með því besta sem gerist og vatnsbólin eru mjög vel staðsett með tilliti til mengunarhættu. Áðurnefndar rannsóknarholur leiddu í ljós fleiri möguleg vatnsvinnslusvæði sem lofa góðu, s.s. norðan Valahnúka en grunnvatn þar er í 114-116 m hæð yfir sjó og er sjálfrennsli vatns mögulegt þaðan. Möguleikar eru taldir á vatnsútflutningi vegna gæða vatnsins og nálægðar við hafnaraðstöðu.
Kaldá er náttúrulegt afrennsli linda sem eru í Kaldárbotnum. Frá upphafi byggðar í Hafnarfirði og fram til ársins 1909 höfðu bæjarbúar notast við vatn úr ýmsum brunnum innanbæjar. Vatnið var oft óhreint og stundum svo mengað að fólk veiktist alvarlega af því að drekka það. Þannig braust út taugaveikifaraldur fyrri hluta ársins 1908 sem rakin var til mengaðs drykkjarvatns. Árið 1909 var farið að taka vatn úr lindum í svokölluðum Lækjarbotnum, sem eru í austurjaðri Gráhelluhrauns gegnt Hlíðarþúfum þar sem nú eru hesthús, en vegna þess að vatnið þar þraut í þurrkum og reyndist oft óhreint ákváðu menn að reyna að veita vatni úr Kaldá inn á vatnsvið lindanna. Í þetta var ráðist árið 1918.
Þannig var byrjað að nota vatn frá Kaldá strax árið 1918 á óbeinan hátt. Árið 1951 var svo tekin í notkun aðveituæð sem náði alla leið upp í Kaldá. Kaldá sjálf var stífluð og vatni úr ánni veitt í gegnum síu og þaðan inn í æðina. Á uppistöðulóninu sem myndaðist ofan við stífluna fóru að venja komur sínar fuglar ásamt því að  sandur og allskonar gróðurleifar fóru að berast inn í aðveituæðina. Þess vegna var hlaðin steinþró utan um stærstu uppsprettuna í Kaldárbotnum sjálfum og þaðan lögð pípa sem tengd var beint við aðveituæðina.
Náttúrulegar aðstæður í nágrenni Kaldár skýra af hverju svo mikið af vatni er í Kaldárbotnum. Eldgos í tugi þúsunda ára hafa hlaðið upp jarðmyndunum á svæðinu. Á meðan ísaldir ríktu hlóðust upp móbergsfjöll og bólstrabergshryggir. Á hlýskeiðum runnu hraun og gígir hlóðust upp en við öll þessi eldsumbrot brotnaði jarðskorpan og seig og reis. Þannig hafa myndast sigdalir og gapandi gjár, sem stundum fóru á kaf í ný hraun. Kaldárbotnar sjálfir eru í bólstrabergsmyndun. Bólstrabergið er nokkuð gamalt á mælikvarða jarðmyndana á svæðinu og segja má að það sé umflotið ungum hraunum. Bólstrabergið sjálft er afburða góð náttúruleg sía ásamt því að vera mjög vel vatnsleiðandi, sérstaklega eftir sprungum.Gatkletturinn
Megin misgengið sem lindirnar í Kaldárbotnum tengjast hefur örugglega hreyfst oftar en einu sinni. Þannig eru yfirvegandi líkur á að opnast hafi gjá, í einhverjum hamförum á ísöld, undir ísaldarjöklinum og hún fyllst af jökulurð. Við gröft vegna framkvæmda árið 1997 komu í ljós setlög sem stefndu ofan í misgengið og núið grjót ( sem við köllum héðan í frá hausagrjót )  kom upp af fimm metra dýpi, þegar grafið var niður með borholufóðringu. Ástæður fyrir þessu mikla vatni sem kemur upp austan við misgengið eru því þrjár. Vatnsleiðandi bergsprungur tengdar misgengjum, setfylling í megin misgenginu sjálfu og bólstrabergið
Vatn hefur líklega aldrei þrotið í Kaldárbotnum. Þó er þekkt að Kaldá hefur stundum þornað upp. Þá varð Hafnarfjörður vatnslaus af og til á árunum 1965-68. Við vatnsskorti lá einnig 1979 og 1986. Í eldgosi, sem líklega varð á tólftu öld, rann örþunnt hraun niður í Kaldárbotna sjálfa og þaðan niður fyrir Kaldársel og nam þar staðar. Þetta hraun hefur líklega verið mjög heitt og þunnfljótandi því að það fyllti í allar lægðir á leið sinni og storknaði án þess að í því mynduðust kólnunarsprungur og gjótur. Þegar grunnvatnsborð í Kaldárbotnum lækkar niður fyrir efri brún hraunsins hverfur Kaldá. Eftir að kemur vestur fyrir meginmisgengið í Kaldárbotnum rennur Kaldá ofan á þessu þétta hraunlagi. Þar sem hraunið endar, fyrir neðan Kaldársel, hverfur Kaldá ofan í hraunin þar fyrir neðan. Á árunum 1965-1968 varð ljóst að ekki væri hægt að treysta á lindirnar sjálfar með fullu öryggi og nauðsynlegt væri að bora eftir vatni. Þessar borholur voru ágætar en börn síns tíma. Bæði voru þær of grunnar og of mjóar til þess að koma að fullu gagni. Þá voru dælur einnig of litlar. Dælurnar og frágangur þeirra gerðu að verkum að ekki var stöðugt flæði frá holunum en gert ráð fyrir að hægt væri að dæla þegar lindirnar þryti. Árið 1989 voru svo loks boraðar þrjár stórar vinnsluholur. Þessar borholur voru virkjaðar og dæling úr þeim varð möguleg eftir byggingu stjórnstöðvar 1994. Enn var þó treyst á lindina í steinþrónni. Árið 1997 fór svo fram lokaátakið í beislun vatns í Kaldárbotnum. þá voru boraðar tvær holur til viðbótar en í þessar holur voru ekki settar dælur. Þessar tvær holur voru hannaðar með tilliti til þess að úr þeim fengist nægt sjálfrennandi vatn þannig að ekki þyrfti dælingar við.“
GatiðHraunið umrædda, þunnfljótandi frá 12. öld. er nú undir fótum. Í raun er um að ræða hraunið, sem rann 1151 til 1180. Þegar komið er upp á næstu hæðarbrún má sjá litla gíga. „Gluggi“ er á þeim nyrsta. Um er að ræða endastöð gígaraðarinnar er náði allt frá Ögmundarhrauni á suðurströnd Reykjanesskagans. Ögmundarhraun er komið upp í eldstöðvarkerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún nær frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við Helgafell endar gosvirknin að mestu, en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.
Eldgosið hefur einkennst af umbrotahrinum, af gliðnun lands og kvikuhlaupum með hléum á millum. Síðustu eldsumbrot í Trölladyngju- og Krýsuvíkurkerfinu mætti nefna Krýsuvíkurelda því þá eyddist bærinn í Krýsuvík. Hraunin hafa að mestu fyllt Móhálsadal milli Núpshlíðarháls og Sveifluháls, og runnið til sjávar í suðri. Nyrst í Móhálsadal slitnar gígaröðin á 7 km kafla en tekur sig aftur upp norðan við Vatnsskarð og liggur þaðan meðfram Undirhlíðum allt norður á móts við Helgafell. Hraun frá þessum hluta gígaraðarinnar (Kapelluhraun o.fl.) hafa runnið til sjávar milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Um þau verður fjallað í annarri lýsingu. Jón Jónsson hefur áður haldið því fram að að Ögmundarhraun, Kapelluhraum og Gvendarselshraun hafi runnið í sömu goshrinu.
Gvendarselsgígaröðin er þarna á hægri hönd. Framundan til suðurs er sléttir hraunhleifar. Þarna hefur þunnfljótandi hraunið safnast líkt og vatn saman í lágt dalverpi milli hnúkanna og Helgafells. Á einum stað má sjá hvar hraunið hefur náð að mynda afrennsli til norðurs, grunna hrauntröð, líkt og um akveg væri að ræða.
Svæðið norðan og vestan Helgafells er því bæði ljúft og greiðfært yfirferðar: Þegar komið var suður fyrir fellið hækkar landið svolítið, en með því að fylgja fæti þess er leiðin greið. Falleg móbergsskil eru í neðanverðri hlíðinni. Í skjóli þeirra kúra myrta, holurt og fleiri blómtegundir. Þessi hluti Helgafells hefur stundum verið nefndur Riddarinn, en hann er hins vegar móbergsstandur er stendur hæst upp úr fellinu að sunnanverðu.
Austan undir Helgafelli eru fjölmenningasamfélag jurta, s.s. hrútaberjalyng, mjaðurjurt, blágresi og jafnvel grávíðir og birki. Sunnar er Skúlatúnshraun, Tvíbollahraun og Stórabollahraun. Fleiri nöfn munu vera og á þessum hraunstraumum. Gullkistugjá liggur og þarna til suðurs frá suðausturhorni Helgafells.
Og þá var tekist á við gilskorninginn víða. Aldrei þessu vant heyrðist engin fuglahljóð. Við nánari aðgát sást hvar fýllinn lá á hreiðrum. Hrafn stóð hreyfingarlaus á steini skammt frá. Hvítborin kindabein lágu í gönguleiðinni. Sennilega biðu allir í eftirvæntingi eftir því hvernig til tækist?
BúrfellUppgangan er þægileg í fyrstu, en er á líður eykst brattinn. Þá er betra en ekki að halda sér sem næst móbergsstálinu hægra megin. Smám saman nálgaðist gatkletturinn ofanverður. Haldið var í gegnum hann með þversneiðingi – og áfram upp vinstra megin, alveg upp á brún. Bólstrabergið í móbergsstálinu reyndist hin besta handfesta. Þrátt fyrir lýsinguna eru í raun fáar hættur á leiðinni, nema kannski ef vera skyldi hugsanlegur fótaskortur. Mikið lofthræddir ættu þó bara að halda sig á undirlendinu.
Þegar upp á brún var komið tók við upplíðandi halli að efstu brún – sem betur fer. Riddarinn reis tignarlegur á vinstri hönd og veðurbarðar móbergsmyndanir á þá hægri. Hjartslátturinn sló í takt við álagið.
Efst á Helgafelli er vörðumynd utan um bólstrabergsvegg. Hjá er dagbókastandur. Þaðan í frá er útsýni bæði dýrlegt og tilkomumikið – yfir undirlendið áðurnefnda, sem og allt höfuðborgarsvæðið. Einnig til norðausturs, yfir að Búrfelli (sjá meira HÉR), Kringlóttugjá, Húsafelli og Húsafellsbruna, sem ekki hefur verið lýst hér að framan. (Sjá meira HÉR um Helgafell.)
Gengið var niður af Helgafelli að norðanverðu – líkt og hefð hefur skapast um.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild:
-visindavefur hi.is
-Mbl. 10.júlí 1980.
-vatnsveita hafnarfjardar.is

Útsýnið

Þórkötlustaðahverfi

Gengið var um Þórkötlustaðahverfi í Grindavík.

Heródes

Heródes.

Árið 1703 voru Þórkötlustaðir eign Skálholtsstaðar. Bærinn hafði selstöðu í landi Krýsuvíkur, á Vigdísarvöllum. Hjáleigur voru; Eyvindarhús, Ormshús, Eingland, Klöpp, Buðlunga og tómthúsið Borgarkot. Ekki er vitað hvar Ormshús eða Borgarkot voru. Áður var hjáleigan kölluð Lundun. Árið 1847 hafði hjáleigan Lambúskot bæst við, en 8. ágúst 1787 og síðan 26. janúar 1791 voru Þórkötlustaðir komnir í þrjá hluta (austurparturinn, vesturparturinn og miðparturinn). Þríbýli var á Þórkötlustöðum lengst af á 19. öldinni. Heimræði var árið um kring (1703), en enga engjar. Sjórinn gekk á túnið og braut land að framan. Árið 1840 eru túnin stór og slétt, en hartnær þriðjungur þeirra kominn í móa fyrir órækt og hirðuleysi. Þar var og sæmilegt beitiland fyrir fáan fénað, en þar amar vatnsleysi sem víðar. Syðst á nesinu var fyrrum selalátur frá Þórkötlustöðum. Mikið af landinu er eldbrunnið og bæirnir stóðu austast í landareigninni við sjóinn. Land jarðarinna var frekar mjótt, en nokkuð langt. Lending var dágóð á Þórkötlustaðasundi og margvísleg hlunnindi voru í Nesinu.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi.

Nú eru Þórkötlustaðabæirnir tveir, Miðbær og Vestari-Vesturbær. Áður voru þarna einnig Vesturbær, sem stóð á milli Miðbæjar og Vestri-Vesturbæjar, og síðan Austurbær og Eystri-Austurbær, sem báðir stóðu austan við Miðbæinn.
Áður en Sigmundur Jónasson tók við búi á Þórkötlustöðum á 17. öld voru öll hús á jörðinni skoðuð og metin… „níu vistarverur innabæjar og skiptust í stóra skála, litlu og stóru baðstofu, vesturskála, „hornhús“, „hús innar af skála“ og eldhús. Útíhús voru fjós, hlaða, smiðja og skemma og loks tveir hjallar, annar heima við bæ, en hinn fram á nesinu. Öll voru húsin orðin gömul og hrörleg, og um sum var þess getið, að þau væru að hruni komin vegna elli og fúa. Útveggir voru flestir sagðir „trosnaðir“ og illa farnir, en innveggir virðast sumir hafa verið öllu skrár komnir. Mörg útihúsanna voru hurðarlausar og virðast hvorki halda vatni né vindi.“

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðir – flugmynd. Fornaldarskáli er á milli húsanna.

Í rannsókn sinni í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902 segir Brynjúlfur Jónsson að „á Þórkötlustöðum í Grindavík var byggð heyhlaða í bæjarhúsaröðinni. Þar komu menn niður á merkilegar byggingarleifar. Eldfjallaska ofan á gólfskálinni bendir til þess, að bærinn hafi lagst í eyði um hríð og tóftirnar staðið opnar fyrir öskufalli. Má vera að hraunið, sem myndar Þórkötlustaðanes og runnið hefur á báða vegu við túnið, sé yngra en bygging landsins, og verður þetta þá auðskilið.“ Samkvæmt hugmynd Brynjúlfs virðist þarna hafa verið um fornaldaskála að ræða. Nú hefur hlaðan verið rifin og svæðið stendur tilbúið til uppgraftar, þ.e.a.s. ef einhver hefur þá yfirleitt einhvern áhuga á að skoða undirlag svæðisins.

Klöpp

Klöpp – tóftir.

Tóftir eru skammt vestan við Sólbakka. Þær eru nýlegar fjárhúsleifar frá Hofi. Fjárhúsin suðvestan við Vestari-Vesturbæ voru áður fjárhús og fiskverkunarhús frá Vesturbænum. Þar áður voru þarna fiskhús frá Duus-versluninni í Keflavík og Lafollie-versluninni á Eyrabakka skammt vestar. Annars eru þarna gamlir kálgarðar allt um kring. Sunnan við Miðbæinn voru áður fjárhús og saltverkunarhús frá Miðbænum. Austan við þau voru fiskverkunar- og salthús frá Vestari-Austurbæ. Traðirnar liggja þarna niður að sjó milli bæjanna. Vestan í austasta kálgarðinum var fiskverkunar- og salthús frá Eystri-Austurbænum.

Þórkötlustaðahverfi

Þórkötlustaðahverfi – Túnakort 1918.

Samkvæmt túnkorti frá 1918 var brunnur skammt (40 m) norðan við Miðbæ. Að honum lá gata frá Einlandi. Brunnurinn var notaður af öllum bæjunum. Nú sést móta fyrir brunninum í malbikuðum veginum framan við hliðið að Valhöll (áður en malbikið var endunýjað).
Á milli Valhallar og Miðbæjarins eru tvær bárujárnsklæddar skemmur. Sunnan í syðri skemmunni er hesthústóft. Nyrðri skemman er flór, skv. uppl. Margrétar á Hofi, en sú syðri var ýmist notuð sem fjós eða hesthús.
Kálgarðar eru víða í Þórkötlustaðahverfi, sem fyrr segir. Skv. túnakorti frá 1918 var t.d. kálgarður 50 m vestan við Lambúskot. Garðurinn var frá Eystri-Vesturbæ. Veggirnir hafa verið grjóthlaðnir, þ.e. uppkastið úr túnsléttunni notað til vegghleðslu. Oftast var grjóti, sem týnt var úr móanum, hlaðið í hrauka eða í garða ef því var við komið. Flestar túnbæturnar ofar í hverfinu eru tiltölulega nýlegar því ræktunarmörkin voru til skamms tíma rétt ofan við veginn í gegnum hverfið. Þá var t.a.m. Þórkötludys við mörkin.

Buðlunga

Buðlunguvör.

Klöpp var hjáleiga frá Þórkötlustöðum skv. Jarðabók JÁM 1703. Tóftirnar eru enn greinilegar. Þær eru tvær, báðar vel heillegar. Hleðslur eru úr torfi og grjóti. Grjótið er að einhverju leyti tilhöggvið. Sunnan bæjartóftanna er tröð, um 10 metra langar, suður á kampinn, sbr. síðargreint (austasta sjávargatan).
Móar voru norðan við Einland. Þar eru nú mikar hleðslur um afmarkaða kálgarða. Bærinn var syðst í görðunum. FERLIR mun fljótlega fara með heimamanni um tóftir Móa. Þá verður rústunum þar lýst bæði vel og skilmerkilega. Þegar Móastæðið er skoðað vakti hleðsla, lík sléttum hól, athygli. Hún er um 10 metrum sunnan við eystri kálgarðaþyrpinguna að Móum, í sléttuðu túni. Þar voru fjárhús.

Klöpp

Gamla Klöpp – uppdráttur ÓSÁ.

Fjárhústóftir eru í túninu austan við Buðlungu. Umhverfis tóftirnar er óslétt tún, en fast sunnan þeirra er stórgrýttur sjávarkambur. Um 6 m austan við tóftirnar er gjóthlaðinn túngarður í norður-suður. Sjávarkamburinn er kominn alveg upp að tóftunum að sunnanverðu.
Í örnefnaskrá AG segir: „Austast á merkjum mót Hrauni, niður við sjóinn, er bás inn í klettana, og heitir hann Markabás… Vestur frá Markabás eru smáhvilftir og kvosir með sjó, sem heita einu nafni Básar. Ná þeir vestur að svonefndir Stóruklöpp. Vestan hennar er aðallending, sem nefnd er Buðlungavör. Fram undan vörinni eru tveir boðar, sem heita Fjósi og sá ytri Lambhúsi“.

Guðsteinn Einarsson segir í lýsingu sinni að „austan við Bótina í klettunum niður af Þórkötlustaðabæjunum, er Buðlunguvör.

Þórkötlustaðanesi

Fiskigarðar ofan Kónga.

Meðan árabátaranir voru, var sú vör notuð, alltaf þegar fært vera, og áttu þeir Þórkötlustaðamenn því aflann eftir hverja vertíð á tveim stöðum. Þetta breyttist þegar vélar komu í bátana (trillur). Eftir það var eingöngu lent í Nesinu.“ Ef gengið er suður traðirnar milli Miðbæjar og Vestaði-Vesturbæjar, sem enn standa á Þórkötlustaðatorfunni, fram á kampinn og þá lítið eitt austar, gengur klöpp í suðsuðaustur fram í sjó. Austan við klöppina er lygnara en þar er lendingi í Buðlunguvör.“ Engin mannvirki eru þarna við sjóinn önnur en ryðgaðir festarboltar.

Þórkötlustaðahverfi

Sundvarða ofan Þórkötlustaða.

Sundvarðan ofan við Buðlunguvör var neðst í túninu, suðvestur frá húsinu. Sjórinn lagði vörðuna reglulega útaf, en hún var alltaf endurhlaðin á meðan lent var í Buðlunguvör [eða fram til 1929. Buðlunguvör var einkum notuð af Þórkötlustaðabæjunum að sumarlagi]. Nú hefur sjórinn hins vegar tekið vörðuna. Sundvarða í Buðlungu átti að bera í fjós og lambhús á túninu hjá Einlandi og þaðan eru nöfn boðanna dregin.
Fast norðan við bárujárnsskúr austan við Buðlungu er fjárhústóft, sem nú er orðin jarðlæg.
Randeiðarstígur var gata milli Hrauns og Þórkötlustaða og var hún farin áður fyrr, en aðalumferðargatan lá fyrir neðan Þórkötlustaði og var þar komið á Eyrargötuna“, segir í örnefnaskrá LJ.

Strýthólahraun

Strýthólahraun – fiskibyrgi.

Tóftir Hraunkots eru austast í túninu, við túngarðinn. Götur milli Hrauns og Þórkötlustaða lágu í austur-vestur í gegnum hraunið með stefnu á kotið. Það sér móta fyrir Hraunkotsgötu (sunnar) og Þórkötlustaðagötu (norðar) í hrauninu austan Hraunkots og best í landi Hrauns. Hins vegar eru þær horfnar í túninu vestan kotsins.
Austast á merkjum móti Hrauni er bás inn í klettna er heitir Markbás. Þar utar er tangi er gengur fram í sjó og heitir Slok og upp af honum er Slokahraun. Nafnið er tilkomið af slokrhljóðinu er báran skall undir hraunhelluna á tanganum. Þar ofar er Markhóll, smáhóll upphlaðinn á Leiti milli bæjanna. Þarna eru tveir hólar, grónir í toppinn, alveg á kampinum og er Markhól sá syðri af þeim. Girðing liggur þarna í suður frá Austurvegi með stefnu á hólinn. Umhverfis hólinn er úfið mosagróið hraun. Hann er um 7 m hár og sker sig greinilega frá umhverfinu.
Eyvindarhús voru um 100 m vestan við Búðir. Þar er nú steyptur grunnur á smá bungu í sléttuðu túni. Árið 1703 er getið um Eyvindarhús sem hjáleigu. Árið 1918 er einnig etið um Eyvindarstaði sem kot í norðvesturhorni Þórkötlustaðatúns. Þar stóð síðast timburhús, en það ásamt Miðhúsum var flutt í Járngerðarstaðahverfi um 1950.

Þórkötlustaðahverfi

Valhöll í Þórkötlustaðhverfi. Helgi Andersen stendur þar sem brunnurinn var.

Tómthúsið Borgarkot stóð fyrir norðan bæinn vestasta. Ekki er vitað hvar býlið var, sem fyrr segir, en líklegt er að það hafi staðið vestan við Valhöll, vestan við Brunnskákina svonefndu. Hún var ofan við Þórkötlustaðbrunninn, sem nú er undir malbikinu framan við hliðið að Valhöll. Hann var fallega hlaðinn, en var fylltur möl til að forðast slysum líkt og títt var um slíka brunna.
Tl fróðleiks má geta þess að þurrabúðir eða tómthús voru reist úr jörðum bæjanna, s.s. Hraunkot úr landi Klappar. Vermönnum var gjarnan leift að byggja sér hús í jarðri bæjanna ef það kom ekki niður á landkostum. Þeir ræktuðu skika umhvergis, endurgerðu húsakostinn og smám saman urðu húsin að kotum. Í rauninni eignaðist þurrabúðarfólkið aldrei skikana, en vegna afskiptaleysis afkomendanna má segja að þegjandi samþykki hafi fengist fyrir eignarhaldinu.
Slokahraun er á merkum Þórkötlustaðahverfis og Hrauns. Þar eru leifar fiskigarða og það mikið af þeim. Slokahraun er austan við sjávarkampinn frá Þórkötlustöðum. Það er mosagróið apalhraun.

Þórkötlustaðanes

Lending á Þórkötlustaðanesi.

Garðarnir eru hlaðnir úr hraungrýti og liggja þvers og kruss um hraunið án þess að mynda ákveðið munstur. Þeir eru mosagrónir, en misvel standandi. Hleðsluhæðin er milli 0,5-1,0 m. Garðarnir teygja sig allt austur að Markhól, en eru þá í Hraunslandi.
Á milli Vestari-Vesturbæjar og Miðbæjar eru traðir suður að sjávarkampi. Hlaðnir kálgarðar eru beggja vegna traðanna. Traðrinar eru 30 m langar og um 3 m breiðar, Hleðslurnar eru grjóthlaðnar, en allgrónar á köflum. Traðirnar, eða sjávargöturnar, í Þórkötlustaðahverfi voru þrjár. Sú austasta er beint neðan við elsta Klapparbæinn (flóruð), önnur er neðan við Miðbæ og sú vestasta er framangreind. Gamli Klapparbærinn stóð skammt sunnar og austan sjávargötunnar. Tóftir sjást enn.

Þórkötlustaðir

Heródes – áletrun.

Álagasteinninn Heródes er vestan traðanna, innan garðs Vestari-Vesturbæjar. Sagnir eru um steininn þann að hann megi hvorki færa né raska á nokkurn hátt. Talið var að fornar rúnir væru markaðar á hlið steinsins, en ef vel er að gáð í réttri birtu má sjá þar klappað á bókstaf eða tákn.
Nokkrir kálgarðar eru sunnan Þórkötlustaðabæjanna, flestir hlaðnir. Sunnan þeirra eru fjárhúsin.
Ef við færum okkur svolítið ofar í hverfið verður fyrir Gamla-rétt. Um 350 m norður af bæjarhól í hraunjaðrinum norðvestan við Efra-Land er grasbali inn í hraunið. Í honum, við túngarðinn, er hlaðin kró, sem nefnd er Gamla-rétt. Sunnan við balann er sléttað tún, en hraun norðan við hann. Um hraunið, fast norðan túngarðsins, liggur Austurvegur í austur-vestur. Vel má sjá hann liggja út frá gamla garðhliðinu vestan við Hraun.
Hvammur er um 100 m austan við Efra-Land, fast norðaustan við Þórsmörk.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – ískofi.

Hraunkot er austast við túngarðinn á Þórkötlustaðabæjunum, fast við fyrrnefndar hleðslur í Slokahrauni. Tóftirnar eru á litlum hól austast á túninu upp við túngarðinn. Efst og austast eru tvær tóftir. Grjóthlaðnar tröppur eru niður í garðinn. Vestan við garðinn miðjan er dálítil dæld í túninu. Hraunkot er ágætt dæmi um þurrabúð eða tómhús í Grindavík. Venjulega gekk það þannig fyrir sig að vermaður fékk leyfi til að byggja sér hús í jaðri jarðar, sem hann grjóthreinsaði í kringum, komst yfir hænu, kind eða kú, eignaðist konu, krakka og kött og allt óx þetta upp í kot. Í rauninni áttu hann aldrei blettinn undir húsinu eða í kringum það, en fékk að vera þar ef það truflaði ekki jarðeigandann. Afkomendurnir urðu hins vera ráðríkir á skikann, endurbætu híbýli og bættu við fé.

Þórkötludys

Þórkötludys – Sigurður Gíslason á Hrauni við dysina.

Þórkötlustaðahverfi væri lítils virði án Þórkötlu. Þjóðsagan segir að „Þorkatla hafi búið á Þorkötlustöðum í Grindavík, en Járngerður á Járngerðarstöðum. Báðar voru þær giftar.
Einu sinni sem oftar voru karlarnir þeirra báðir á sjó. Nú gjörði mikið brim og héldu báðir til lands. Þorkötlu karl fekk gott lag á Þorkötlustaðasundi og komst af. Þá varð Þorkatla fegin og mælti hún svo fyrir að á því sundi rétt förnu skyldi aldrei skip farast ef formann þess brysti hvorki hug né dug, og menn vita ekki til að þar hafi farizt skip á réttu sundi.

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Það er að segja frá Járngerðar karli að hann drukknaði á Járngerðarstaðasundi. Þá varð Járngerður afar grimm og mælti svo um að þar skyldu síðan farast tuttugu skip á réttu sundi. Segja menn að nú sé fyrir víst nítján drukknuð, en þá er eitt eftir og má búast við að það farist þá og þá. Á götu þeirri sem til skips var gengin frá Járngerðarstöðum er leiði Járngerðar.“
Í örnefnalýsingum segir að „í túninu austur af bæ er sagt sé leiði Þórkötlu.“ Samkvæmt lýsingum elstu heimamanna, s.s. Sigurðar Gíslasonar á Hrauni, er það í öðrum (eystri) að tveimur grashólum í túninu austan við Hof. Staðsetningin passar vel við þá sögn að sú gamla hafi viljað láta dysja sig í túninu þar sem sæi yfir sundið (Bótina).

Eyrargata

Eyrargata.

Járngerðardysin mun vera undir veginum við Hlið og Þórkötludys mun vera á framangreindum stað. Sá, sem vildi raska þeirri sögu með einhverjum hætti, þætti hugaður í meira lagi, ef tekið er mið af þeim brögðum er slíkir menn hafa beitt í gegnum aldir.
Þegar litið er á upplandið er fróðlegt að huga að inum gömlu þjóðleiðum. Þar segir m.a. um Skógfellastig eða Vogaveg: „Norður af Vatnsheiði er kallað Sprengisandur. Um hann lá gamli vegurinn, einnig um Lyngrima… Dalahraun. Það hraun eru fremur mishæðalítið, nema þar rís norður allhátt fell, sem heitir Stóra-Skógfell. Austan þess er gamall vegur, nefndur Skógfellavegur, stundum nefndur Vogavegur. Austan Svartsengis eru sléttar klappir með melum og vikri á milli og heitir þar Sprengisandur og lá gamli Vogavegurinn þar um. Vogavegurinn liggur austan Stóra-Skógfells og var nefndur þar Skógfellsvegur og tekur við af Sprengisandi“, segir í örnefnaskrá LJ, „en afleggjari er af Skógfellavegi til Hóps og Járngerðarstaðahverfis.
Eyrargötunni var fylgt út á Þórkötlustaðanesið. Hún sést sumstaðar enn. Gömul gata, sem enn sést, liggur og áfram vestur af nesinu um norðanvert Strýthólahraun.

Austur af vitanum á Nesinu er Leiftrunarhóll. Framan af honum er Stekkjarfjara. Upp af Stekkjarfjörunni, á milli Leifrunarhóls og Þórshamars, er Stekkjartún… Það er gróið, en grýtt graslendi, mjög óslétt. Það nær að Flæðitjörn. Í Stekkjartúni eru nokkrar tóftir, einhverjar þeirra eru þó ungar frá því búið var Í Nesinu.

Þórkötlustaðanes

Fiskigarðar á Nesinu.

Vestan Flæðitjarnar eru hlaðnir grjótgarðar, Hraungarðar. Þeir eru í úfu hrauni, uppgrónu að hluta. Hraunsmenn þurrkuðu þar skreið þegar þeir lentu í Nesvör, segir í örnefnalýsingu. Garðarnir liggja þarna um allt og virðast ekki fylgja neinu ákveðnu mynstri. Þeir voru hlaðnir úr hraungrýti, fallnir að miklu leyti.
Skotti er nokkur stór pollur ofan kampsins, norðan Nesvarar, og þar noðrur af er hóll, flattur að ofan með hlöðnum grjótgörðum, kallaður Krabbagerði. Krabbagerði er um 70 m austan við rústir Hafnar, sem var nyrsti bærinn í Nesinu. Hóllinn sjálfur er gróinn og allt umhverfis hann, nema til austurs þar sem stórgrýttur kampurinn skríður inn í landið. Hleðslur eru alveg fallnar og virðist sem grjót hafi verið fjarlægt úr þeim. Af þeim má hins vegar sjá hvernig mynstrið var, þ.e. líklega sex aðskildir garðar í austur-vestur.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – örnefni.

Nesvör var niður og norðan við Leiftrunarhól, norðan Stekkjarfjöru. Nesvörin var svo nefnd til aðgreiningar frá Buðlungavör. Upp af Vörinni og norðan við Flæðitjörn er Sundvörðuhóll. Þar stendur Sundvarða. Nesvör er u.þ.b. í miðju Þórkötlustaðanesi austanverðu, um 100 m sunnan rústanna af Höfn, sem var nyrsti bærinn í Nesinu. Guðsteinn Einarsson segir m.a. um Nesið: „Meðan árabátarnir voru, var Buðlungavör notuð, alltaf þegar fært var, en í öllu misjöfnu var lent í Nesinu, sem kallað var. Þegar vélar komu í bátana var eingöngu lent í Nesinu. Þarna eru steyptar leifar bryggjunnar (reist 1932-3), nú uppfullar af grjóti, sem sjórinn hefur rutt upp í þær.
Látrargötur voru slóðar úr vesturenda Stekkjartúns í Látur. Slóðirnir liggja í grónu túni, en einnig móta fyrir þeim í hrauninu sunnan við túnið. Göturnar eru ekki sérlega djúpar, en afar greinilegar, allt að fjórir paldrar saman.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – örnefni.

Framundan Krabbagerði í flæðamálinu og við syðri enda Herdísarvíkur eru háar klappir, nefndar Draugar. Þar norður af er vík, Herdísarvík. Upp af henni í norðurenda eru klettahólar, sem heita Kóngar. Upp af Kóngum tekur við Kóngahraun og inn undir miðju nesi í norðvestur frá Kóngahrauni er hár hóll með grasþúfu í toppinn, sem heitir Gjáhóll. Hjá Gjáhól er lægð, sem heitir Gjáhólslægð. Síðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiptist hún í tvo hluta. Fyrst Syðri-bót og síðan Heimri-bót. Upp af Heimri-bót eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Eftir þeim liggur vegurinn um Nesið. Austur af Heimri-bót taka við Vötnin, svartar klappir. Þar rennur ósalt vatn um fjöru.

Látrargötur

Látrargötur.

Brunnflatir voru áður söndugar, en eru nú uppgrónar allt vestur í hraunið. Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur, þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum. Í norðurnenda Brunnflata, um 100 m sunnan hraðfrystihússins og um 50 m vestan kampsins, er gróin hringlaga gróp, um 1 m í þvermál. Umhverfis hana er talsvert af grjóti, gróið í svörðin. Óvíst er hvort þetta eru leifar brunnsins því skv. örnefnaskrá var hann við kampinn og má vera að hann sé löngu kominn undir hann. Eftir lýsingum elstu núlifandi manna virðist brunnurinn þó enn vera sjáanlegur ofan við kampinn.
Eftir Brunnflötum lá gata og sunnan við sandorpnar hæðir vestur af Brunnflötum, við norðurenda Gjáhólsgjáar, í átt að Rifinu (Eyri). Hét hún Eyrargata, en lítið markar fyrir henni nú.
Norðarlega í Þórkötlustaðanesi er pípuhlið á veginum sem liggur suður í Nesið. Kálgarðar eru í grónum grýttum tanga, sem gengur þar til austurs.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – sundvörður.

Við bryggjuna í Nesvör í Þórkötlustaðanesi eru tvær sundvörður. Vörðurnar eru í grónu, en sósléttu og grýttu túni norðan við rústir Þórshamars, sem er sysða húsarústin í Nesinu. Eystri varðan er fast vestan við leindinguna í Vörina norðaustur af Þórshamri, fast við sjávarkambinn. Sú vestari er um 50 m vestsuðvestur.
Sunnan við Nesvör er gróið en grýtt tún, Stekkjatún. Sunnan og suðaustan við úfið mosagróið hraun. Í hrauninu eru ótal rústir hleðslubyrgja og hleðslugarða. Byrgin virðast vera um 2×2 m að stærð og er skammt á milli þeirra.
Pétur Guðjónsson, skipstjóri, lýsir vel mannvirkjum ofan við Nesvörð í Sjómannablaði Grindavíkur árið 2004. Þar er sérhver ískofi og beitningaskúr tíundaður, lifrabræðslan sem og saltkofar á svæðinu.

Þórkötludys

Þórkötludys.

Kálgarður er sunnan við Þórshamar. Þar er og skrúðgarður. Tóftir eru austan við húsið. Útishúsið stendur þar enn, nokkuð heillegt. Merkasta tóftin er gerði utan um manngerðan hól, sem óvíst er hvað hefur að geyma. Líklegt má telja að þessar minjar sem og þurrkbyrgin í Strýthólahrauni skammt vestar séu með elstu mannvirkjum á Nesinu.
Austnorðaustan við Þórshamar er Flæðitjörn. Meðfram henni sunnanverðir liggur heimreiðin, upphlaðin að hluta, á um 50 metra löngum kafla. Hleðslan er um 2 metra breið.
Minjarnar í Þórkötlustaðahverfi eru „óður um fátækt og óupplýst fólk, sem bjó yfir miklu viti og djúpum tilfinningum.“

Sjá meira undir Þórkötlustaðarhverfi II.

Heimildir m.a.:
-Saga Grindavíkur.
-Jarðabók ÁM 1703.
-Fornleifaskráning í Grindavík.
-Jón Árnason IV 231.
-Örnefnalýsing.

Við Þórkötlustaðarétt

Fé við Þórkötlustaðarétt.

Selatangar

Eftirfarandi fróðleik um „Verbúðarlífið á Selatöngum“ birtist í Dagblaðinu-Vísi 1983:
Selatangar-553„Rústir sjóbúða er að finna víðsvegar við strendur Íslands. Þessar búðir eru merkar fornleifar sem minna fólk á þá tíð þegar landsmenn sóttu til veiða á opnum bátum, oft við erfiðar og hættulegar aðstæður.
Hinar eiginlegu sjóbúðir — líka nefndar útver — voru reistar á þeim stöðum þar sem stutt var á miðin og heppilegt að sitja fyrir fiskgöngum á vissum tímum árs.
Misjafnlega margir bátar voru saman komnir á hverjum stað og voru áhafnir þeirra þar um kyrrt meðan á veiðum stóð enda höfðu þær þar ýmist hlaðnar verbúðir eða tjöld. Sjósókn úr þessum útræðum var þjóðinni ákaflega mikilvæg á fyrri öldum enda bætti hún hag hennar til muna frá því sem var þegar landsmenn höfðu varla úr öðru að moða en afurðum búfjárins.
Mikilvægi búðanna sést kannski best þegar talan hundrað fimmtíu og fjórir er nefnd, en hún segir einmitt til um þann fjölda útvera sem talið er að hafi verið reist við strendur landsins.
Ein heillegasta og best varðveitta sjóbúðin frá fyrri tíð er vafalitið útverið Selatangar á sunnanverðum Reykjanesskaga. Það er að finna — með öllum sínum fornlega blæ — þar sem Ögmundarhraun liggur út í sjó milli Hælsvíkur og Hraunsvíkur. Selatangar eru langt utan alfaraleiðar og er reyndar nokkuð erfitt að komast að útverinu landleiðina. Þessi einangrun búðanna hefur sennilega átt mestan þátt í því hvað þær hafa varðveist lengi og vel og hvað þær eru í rauninni ósnortnar af því sem heitir nútími. Hér á eftir verður lítillega skrifað um sögu útræðisins við Selatanga og almennt um verbúðamennsku landsmanna á fyrri öldum.

Sjötíu og þrjú mannanöfn í eina þulu fyrir mötu
Selatangar-564Selatangar voru syðsta verstöðin í Gullbringusýslu. Þaðan var einkum útræði Krýsuvíkurbæjar, en bænum Krýsuvík (sem er í um átta kílómetra fjarlægð frá Selatöngum) fylgdu lengi nokkrar hjáleigur. Til er gömul og allmerkileg þula sem telur sjötíu og þrjá menn við róðra frá útverinu. Ástæða fyrir þeim kveðskap er sögð vera sú að strákur einn hafi orðið mötustuttur í verinu. Buðust þá hásetar á skipum þeim sem þar reru að gefa honum mötu til vertíðarloka, ef hann kæmi nöfnum þeirra allra í eina þulu. Og strákur brá fyrir sig stílvopninu og orti:

Tuttugu og þrjá Jóna telja má,
tvo Árna, Þorkel, Svein.
Guðmunda fimm og Þorstein,
þá Þorvald, Gunnlaug, Freystein.
Einara tvo, Ingimund, Rafn,
Eyvind, tvo Þórða þar.
Vilhjálmur Gesti verður jafn
Vernharður, tveir Bjarnar,
Gissura tvo, Gísla, Runólf,
Grím, Ketil, Stíg, Egil.
Erlenda þrjá, Bernharð, Brynjólf,
Björn og Hildibrand til.
Magnúsar tveir og Markúsar
með þeim Hannes, tveir Sigurðar.
Loftur, Hallvarður, Hálfdán, senn
þar sezt hann Narfa hjá.
Á Selatöngum sjóróðramenn sjálfur Guð annist þá.

Draugurinn Tangar-Tómas gerir mönnum lífið leitt
Selatangar-555Á síðara hluta nítjándu aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar Sæmundsson hét. Hann átti mörg börn, og er eftirfarandi saga frá Selatöngum höfð eftir tveimur sonum hans, Einar og Guðmundi. Einar, f aðir þeirra, var allt að þrjátíu vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mæli að reimt hefði verið á Selatöngum og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tangar-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur en var þó ekki mjög hamramur. Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá er Beinteinn hét. Var talið að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans: „Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini.“
Einu sinni varð Beinteinn heylítill og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeitar. Var hann þarna um tíma og hafðist við í einni sjóbúðinni þar. Kvöld eitt, er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefið.
Selatangar-556Tík ein fylgdi honum jafnan við féð, og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo að Beinteini, að hann hélst loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hrökklast út i illviðrið og fara heim til sín um nóttina. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi, og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn þó heim, en var þó mjög þrekaður.
Um önnur viðskipti Beinteins og Tangar-Tómasar á Selatöngum er ekki vitað, svo að sögur fari af.

„Þarna er hann Tómas þá núna“
Selatangar-558En nokkru eftir þetta bar svo við, að tveir áðurnefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu aö líta til kinda og ganga á reka; og jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæju ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð. Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert. Fóru þeir þá inn í eina sjóbúðina og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttunni, en fara á fætur með birtu og ganga þá á fjöru og vita hvort nokkuð hefði rekið um nóttina. Bálkar voru í búðinni fyrir Hraunsnes-551fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum, og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig, að Einar svaf við gaflhlaðið, en Guðmundur andfætis.
Þá er þeir höfðu lagst niður, töluðu þeir saman dálitla stund, og segir þá Guðmundur meðal annars: „Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar?“ Kvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætla að sofna. En er þeir hafa legið litla stund, þá heyra þeir, að ofan af ytra bálkinum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað. Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið. Voru þeir þó hundlausir, er þeir komu þangað og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna: „Þarna er hann þá núna,“ en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli, sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, inn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekara til sín heyra.
Því eru þessar gömlu draugasögur rifjaðar upp hér, að Tangar-Tómas ku hafa hrættæði marga verbúðarmenn við Selatanga þann tíma sem þaðan var útræði. Má gera sér í hugarlund hvernig lífið hefur verið í búðunum, draug þessum samfara, og er næsta víst að það hefur verið viðburðaríkt, og jafnvel hættulegt þá er Tómas var í sem mestum ham.

Fólkið varð að sækja sjóinn sér til bjargar
Selatanga-559En hugum nú nánar að því hvernig vistin var fyrir verbúðarmenn í þessum sjóbúðum. Fyrst skal vikið að nauðsyn verferða fyrir þjóðina á næstliðnum öldum.
„Án stuðnings frá sjónum gat bændaþjóðfélagið ekki þrifist,“ segir Lúðvik Kristjánsson í þeirri gagnmerku bók sinni „Íslenskir sjávarþættir“. Verður hér á eftir stuðst nokkuð við umfjöllun hans um þetta efni.
Lúðvík heldur áfram: „Fiskmeti hefur um allar aldir verið mikilvægur þáttur í mataræði landsmanna, en þó öllu mestur meðan það kom að miklu leyti í staðinn fyrir kornvöru. Fjöldi bújarða var kostarýr og þess vegna engin tök á að hafa þar svo stóra áhöfn, að hægt væri að framfleyta meðalfjölskyldu. Kotabúskapur leiddi af sér mikinn straum manna í verstöðvar víðs vegar um land, en þó einkum á Suður- og Vesturlandi. Ef kotbóndinn fékk enga björg úr sjó, skorti hann ekki einungis fisk til heimaneyslu, heldur jafnframt gjaldgengan varning til greiðslu á erlendum vörum.
Selatangar-559Bændur á sæmilegum jörðum gátu fengið fisk í vöruskiptum og látið búvöru fyrir erlenda varninginn. En bústærðin fór eftir heyfengnum, sem ekki gat orðið mikill nema með töluverðum mannafla, því þúfnakargið var seinslegið. Bændur þurftu því, ef vel átti að heyjast, að hafa marga vinnumenn, en fyrir þá voru ekki nægileg störf við búin á vetrum, og þess vegna voru þeir þá margir sendir til sjávar. Fólkið í sveitunum hafði því náin kynni af lífi og starfi manna í verstöðvum. Margan ungling fýsti að komast úr einangrun dalabæjanna i margmenni við sjóinn og taka þátt í ævintýrum tengdum fiskveiðunum. Jafnskjótt og þeir komust í útversár, eins og Skaftfellingar orðuðu það, voru þeir víða, sökum brýnnar þarfar sendir til róðra í aðra landsfjórðunga.“

Vertíðin tók allt að sextán vikur
Upp úr nýári var farið að huga að færum manna, sem ætluðu í ver, en margir þeirra áttu langa og erfiða ferð fyrir höndum og burtveru ekki skemmri en fjórtán til sextán vikur. Vetrarvertíðin stóð að jafnaði á þessum árum frá þriðja febrúar til tólfta maí. Einyrkjar urðu að fela konu og börnum bústörfin og jafnvel allar voryrkjur. Þessi tvískipti barningur var eina leiðin til þess að bjarga fé og fólki fram á græn grös, en sem þó lánaðist misjafnlega. Stundum átti bóndinn ekki afturkvæmt eða aflinn brást og í annan tíma var horfellir sökum ónógra heyja og harðinda. En þótt fólk þekkti ekki til þess konar ófara nema af frásögnum var skuggi þeirra þó víða í augsýn, ekki síst um það leyti sem menn voru að leggja upp í verferð um heiðar og fjöll, meðan enn var stuttur dagur og allra veðra von.
Vermenn urðu að hafa með sér nesti, sem nægði til ferðarinnar, því oft var borin von að þeir gætu fengið beina á þeim bæjum sem þeir gistu. Sjálfsagt þótti að skera ekki nestið við nögl, því að þess voru dæmi að greiðsla fyrir gistingu kom sér best í matarbita.

selatangar-560

Vitaskuld voru heimili misjafnlega fær um að gera vermenn vel út með mat, en venja var að velja það besta sem til var. Nestið var einkum hangið sauðkjöt, brauð, smjör og kæfa. Það var haft í belg, svonefndum klakksekk. Viðbit til ferðarinnar var haft í dallskrínum. Dagana áður en ákveðið var að leggja upp voru vinir og nánustu venslamenn kvaddir. Áður en ferðin hófst létu margir lesa húslestur, einkum ef sjálfur heimilisfaðirinn var að kveðja. Þegar komið var út á hlað, tóku menn ofan, fóru með Faðir vorið og signdu sig. Að því búnu var gengið til hvers og eins á heimilinu og honum boðnar góðar stundir með kossi. Síðan hófst verferðin.

Ýmiss konar hjátrú tengd burtför vermanna
Selatangar-561Ýmiss konar hjátrú var tengd burtför vermanna. Engu af fötum þeirra, sem skilin voru eftir heima, mátti hreyfa við eða bleyta fyrr en eftir fullar þrjár vikur frá burtför. Það gat valdið drukknun þeirra. Þegar svo fötin voru þvegin, varð að velja bjart og gott veður til þerris. Þé mundi oft fötunum um í þvottinum. Það gat valdið villu á sjó. Rúm sjómanna skyldu óhreyfð í þrjár nætur eftir brottför, annars var óttast um afturkomu þeirra. Skó, sem urðu eftir heima, átti að hengja upp í eldhúsi og þurrka þar þó ónýtir væru. Þá þótti góðs viti, ef gestur kom stuttu eftir að vermenn kvöddu, helst sama daginn. Þá var talið víst að þeir ættu afturkvæmt, en brugðið gat til beggja vona ef enginn gestur lét sjá sig. Menn höfðu illan bifur á því, ef fyrsti gesturinn, sem kom þegar vermennirnir voru nýfarnir, var kona. Svona má lengi halda áfram með alla þá hjátrú sem fylgdi vermennskunni.

Byggingarlag sjóbúðanna og önnur hýsi við verin
Selatangar-563Svo sem gefur að skilja hafa menn þurft að gera sér einhvers konar skýli til þess að liggja í jafnsnemma og farið var að stunda útræði. Um þetta eru þó nánast engar heimildir í fornritunum. Í Fljótsdælasögu er þó getið um skála sem vafalaust hefur verið vermannaskáli og er Skálanes norðan Njarðvíkur kennt við hann. Í Grágás er svo getið um fiskibúð og fiskiskála. Önnur heiti á hýsi vermanna í útveri voru: sjóbúð, sjómannabúð, verbúð og vermannabúð, en ekkert af þessum nöfnum kemur þó fyrir í gömlum heimildum. Þá eru einnig til orðin búðarhús, búðarkofi og legukofi. Af þessum heitum voru sjóbúð og verbúð algengust. Líklegt er að verbúðir hafi í öndverðu verið sömu gerðar víðast hvar á landinu, en þegar kemur fram á nítjándu öldina verða þær dálítið mismunandi. Og þar eð við erum stödd í verbúðinni á Selatöngum í þessari grein, þá er eðlilegt að grein verði gerð fyrir helsta byggingarlaginu þar um slóðir.

Sjobud-562

Á Selatöngum sér enn fyrir tóftum nokkurra verbúða. Ein verbúðanna er þó heillegust. Dyr hafa verið á gaflinum sem snýr til sjávar. Inn af þeim hafa verið rösklega þriggja álna löng göng og er þá komið þar í búðina sem bálkarnir hafa verið en bilið milli þeirra er um einn metri. Bálkarnir eru næstum fjórir metrar á lengd en dálítið misbreiðir, annar nálega hálfur annar metri en hinn um einn metri, og kann það að stafa af missigi. Búð þessi hefur rúmað átta menn. Í framhaldi af rýminu á milli bálkanna eru rúmlega metra löng göng yfir í lítið hýsi sem hefur verið eldhús, um tveir metrar á breidd.

Selatangar-552

Hlóðirnar hafa verið hægra megin þegar inn er komið og sjást enn glögglega. Vafalaust hefur verið reykháf ur upp úr eldhusinu, en tilgáta er að tveir skjáir hafi verið beggja vegna á þekjunni. Slíkir hafa íverustaðir vermanna verið á Selatöngum. Fyrir utan þessar búðir á Selatöngum, sem að líkum voru allnokkrar að tölu, sjást einnig rústir ýmissa annarra bygginga, svo sem þeirra sem notaðar hafa verið undir áhöld og mat. Svo er þar víða hlaðna garða að finna en þeir voru notaðir til að þurrka þorskhausa meðal annars.
Þá eru hjá Selatöngum allmargir hraunhellar, en flestir litlir. Var hlaðið fyrir opin á sumum þeirra til hálfs, og notuðu sjómenn þá til ýmissa hluta. Í einum þeirra höfðu þeir kvöm sína og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór.

Selatangar-565

Í öðrum söguðu þeir rekaviðinn sem barst að ströndum, og sá hellir var því kallaður Sögunarkór. Í framhaldi af þessu má geta að reki var mikill á Selatöngum á meðan útræði var þaðan, og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum.

„því flóin vildi sækja í rúm manna með slíku undirlagi“
Sjobud-555En víkjum aftur að för vermannanna til sjóbúðanna. Jafnskjótt og þeir komu í verið inntu þeir formann sinn eftir hvar hver þeirra ætti að liggja og hvaða rúmlagsmann hver ætti aö hafa. Að því búnu var farið að laga til í bálkinum eða rúminu og koma fyrir skrínum og öðru lauslegu.
Var það kallað búðun eða að búða sig. Að því hjálpuðust rúmlagsmenn — lagsmenn eða lagsar. Þar sem rúmstæðin voru bálkar varð að fá eitthvað til mýktar ofan á grjótið. Víða var haft hey. Á Suðurnesjum var gömul hefð að skipseigandi legði það til í fyrsta skipti sem sest var að í nýrri verbúð. En á bálkana voru ennfremur látnir hefilspænir og marhálmur. Í Grindavík bar það við að skeljasandur var látinn ofan á grjótið og þar ofan á þang eða marhálmur, en þó kusu menn fremur lyng vegna þess að fló vildi sækja í þangið og hálminn. Ofan á lyngið, þangið eða heyið lögðu sumir fyrst strigapoka eða jafnvel gæruskinn og þar ySjobud-556fir rekkjuvoð.
Flestir höfðu brekán sem yfirbreiðslu og þá stundum tvö. Síðasta verkið við að búða sig var að koma mötuskrínunum fyrir í bálkinum. Var önnur höfð í bríkarstað, en hin í höfðalagsstað. Einstaka maður hafði með sér skrifpúlt og var það haft upp við vegg fyrir miðjum bálki. Einnig bar við að hilla var fest á vegginn og þar geymt ýmislegt smávegis, til dæmis tálguhnífar, nafrar, hornspænir og því um líkt.
Skinnklæði, hvort sem þau voru þurr eða blaut, jafnvel nýlega mökuð með lifur, héngu á stoðum milli bálkanna. Verbúðarskyldur voru nokkrar og skipaði formaður fyrir í byrjun vertíðar hvernig þeim skyldi háttað. Rúmlagsmenn áttu einn dag í senn að sjá um að sækja vatn, hita kaffi og sópa búðina.
Þeir seSjobud-557m sváfu næst fyrir innan bálk formannsins byrjuðu og síðan koll af kolli sólarsinnis. Þá bar vermönnum að afla eldiviðar og sjé um matseldun og sama manni var falið að annast blöndukútinn, þar sem drykkur var hafður með á sjó. Kirna úr tré með trégjörð var í búðinni og tók um tuttugu potta. Hún var sameiginlegt næturgagn allra búðarmanna og stóð á miðju gólfi um nætur — kölluð kerald eða kjásarhald, oftast þó síöara heitinu. Það var skylda hvers búðarmanns að sjá um kjásarhaldið eina viku á vertíðinni. Hann varð að losa það og þrífa daglega og sjá um að það væri á sínum stað á kvöldin, og væri ekki til vansa, þó einhver kæmi ókunnuguri búðina.

Erfitt að treina matarbirgðirnar fram á vertíðarlok
Selatangar-notahellirHin eiginlega mata, öðrum nöfnum vermata, vertíðarmata, skrínukostur, eða það sem nú yrði kallaö nesti, var feitmeti (smjör, tólg, hnoðaöur mör) og kjöt (kæfa). En auk mötunnar fengu vermenn rúg (brauð og kökur), harðfisk, sýru og siðar kaffi, kaffibæti og sykur. öll þessi matföng voru kölluð útgerð eða útvigt, og hinn fastákveðni skammtur, sem var mismunandi eftir því hvar var á landinu, nefndist lögútgerð. Hún var ýmist miðuð við heila vertíð, mánuð, þrjár vikur, hálfan mánuð eða einungis viku. Eins og gefur að skilja þegar nesti er annars vegar, þá áttu vermenn misjafnlega erfitt með að treina sér skammtinn fram eftir vertíð. Þetta átti til dæmis við um smjörið, sem allir voru sólgnir í á þessum tíma en var dýrt. Eftirfarandi vísa var ort í sjóbúð þegar einn vermaður á miðri vertíð var svo til kominn í þrot með Seltangar-563smjörskammtinn:
Átta merkur á hann Jón
eftir í skrínu sinni,
má það heita mikið tjón,
á miðri vertíðinni.
Önnur vísa er þekkt um svip að efni: Smérið bráðast þrýtur þá þar til ráð má enginn sjá mör skal hrjáður hefnast á hitt fyrst áður þrot réð fá. Til er skemmtilegt orðatiltæki — tilorðið í verbúð — um það hlutskipti manna að verða uppiskroppa með smiör áður en vertíð lauk. Það voru Sunnlendingar sem höfðu þetta orðatiltæki að orði, en þeir sögðu um þá sem voru orðnir smjörlausir, að þeir þyrftu að „skyrpa á bitann“.
Sá sem kom vanbúinn af mötu í verið, var jafnan kallaður mötulítill, en sá sem var kominn í mötuþrot fyrir lok, mötustuttur. Þegar saxast tók á mötuna var sagt að komnar væru messur eða Maríumessur í skrínurnar, og olli það sumum vermönnum hugarangri sem einn þeirra lýsir þannig:
Selatangar-557Mín er útgerð orðin rýr
eykur sút því mæðan knýr
niðurlútur hjari óhýr
harmi þrútinn máls óskýr.
Kann ég ljúka upp kofforti
kámur strjúka af botni
áfram rjúka í ráðleysi
reiður brúka illyrði.
Og með þessum gagnorðu vísum um eymd höfundar í verbúðinni lýkur þessari lýsingu á verbúðum og verbúðarlífi á fyrri öldum.“

-SER tók saman. (Helstu heimildir: Íslenskir sjávarhættir II eftir Lúðvík Kristjánsson, Rauðskinna 1. bindi, safn frásagna eftir Jón Thorarensen, ýmis munnmæli og fleira).

Heimild:
-Dagblaðið-Vísir/Helgarblað, 136. tbl, 18. júní 1983, Verbúðarlífið á Selatöngum, bls. 2-5.

Selatangar

Selatangar – uppdráttur ÓSÁ.

Þingvellir

Eftirfarandi saga um Skötutjörn á Þingvöllum birtist í Unga Ísland árið 1938:
„Við hittum umsjónarmanninn í Þingvallabænum — bærinn var byggður fyrir Alþingishátíðina 1930 — og fáum hjá honum leyfi til að tjalda. Líklega vísar hann okkur á tjaldstað austur í hrauninu. Við ætlum nefnilega að búa í tjaldi og vera sjálfum okkur nógir. Það er frjálsara, skotutjorn-991skemmtilegra og ódýrara.
Á leiðinni austur túnið göngum við fram hjá dálítilli tjörn. Hún er nærri kringlótt, bratt niður að henni og vatnið hyldjúpt, blágrænt og tært eins og í öllum gjám hérna. Þetta er Skötutjörn. Um nafnið er þessi þjóðsaga: Einu sinni fyrir löngu var gjá, er lá undir búrgólfið á prestssetrinu. Ef rennt var færi í gjána veiddist silungur, en álög voru það, að ekki mátti veiða meira í senn en sem svaraði nógu í eina máltíð handa öllu heimilisfólkinu. Var þess og vandlega gætt. Nú kom þar að, að prestaskipti urðu og var nýi presturinn ákaflega ágjarn. Dregur hann nú upp silung úr gjánni í búrgólfinu og er hann hefir veitt nóg í máltíð, rennir hann enn. Kemur þá á öngulinn skata – og var hún með níu hölum. Verður klerki allfelmt við; þrífur skötuna, hleypur sem fætur toga austur túnið og kastar henni í tjörnina.

Seinna átti skatan að hafa veiðst suður á Reykjanesi. En eftir þetta tók fyrir alla veiði í búrgjánni og hefndist presti þannig fyrir ágirnd sína.“
thingvellir - skotutjorn-995Þjóðsagan útskýrir nafnið svona: „Einu sinni náði Skötugjá alveg undir eldhúsið á Þingvallabæ. Hlemmur var á eldhúsgólfinu yfir gjánni. Hægt var að opna hlemminn og veiða silung upp úr gjánni. Veiðin var óþrjótandi, alltaf veiddist silungur þegar færi var dýft í gjána úr eldhúsinu. Hins vegar var sú kvöð á að aldrei mátti veiða meira en það sem þurfti í næstu máltíð. Svo kom nýr ábúandi að Þingvöllum. Sagt var að hann væri bæði illur og ágjarn. Hann vildi græða á veiðinni í gjánni. Hann opnaði því hlemminn í eldhúsgólfinu og settist við að veiða. Hann veiddi og veiddi, dag og nótt. Margir reyndu að vara hann við og segja honum að þetta mætti hann ekki en hann lét sig það engu skipta og veiddi hvern silunginn á fætur öðrum. Svo gerðist það loks að bitið var óvenju fast í færið. Maðurinn togaði af miklum krafti og dró loks upp úr gjánni stóra og ljóta skötu með sjö eða jafnvel níu hala. Búandinn varð dauðhræddur og þess fullviss að þarna væri kölski sjálfur kominn í skötulíki. Hann kastaði því færinu með öllu saman í tjörnina sem síðan er kölluð Skötutjörn. Eftir þetta hefur engin veiði verið í Skötutjörn eða -gjá.“

Heimild:
-Unga Ísland, 33. árg. 1938, 8. tbl., bls. 109-110.

Þingvellir

Þingvellir – Skötutjörn.

Básendar

Eftirfarandi lýsing var hraðskrifuð upp á námskeiði er Jón Böðvarsson hélt um Grindavíkurstríðið í Saltfisksetrinu í Grindavík. Hún er birt með fyrirvara – hugasanlega er þörf á einhverri leiðréttingu – eftir er að bera hana saman við skriflegar heimildir, s.s. í „Ensku öldinni„og „Tíu þorskastríð„, sbr. innihald texta:

“Grindavíkurstríðið”
III. hluti – 17. mars 2004.

“Filmurnar reyndust við leit vera á Þjóðskjalasafninu. Þær liggja hins vegar ekki á lausu.
Í Fornbréfasafninu (nr. 16, bls. 536-717) er heilmikið af skjölum og gögnum vegna eftirmála Grindavíkurstríðsins, langflest á latínu og þýsku, en örfá á íslensku. Friðarviðræðurnar fóru fram í bænum Bad Segenberg, skammt norðan borgarinnar Lübeck í Þýskalandi.
Þorskastríðin voru 10 talsins.
1.  1415-1425. Í lok þess varð Ísland opinn fiskmarkaður.
2.  1447-1449, en eftir það tengdist Ísland danska ríkinu.
3.  1467-1473. Björn Þorleifsson var drepinn og loks samið um óbreytt ástand.
4.  1484-1490. Englendingar fengu heimild Danakonungs til fiskveiða og verslunar við Ísland. Árið 1484 hófst flotavernd Englendinga á Íslandsmiðum. 1485 var orrustan við Bosworth. Á árunum 1485-1509 var Hinrik VII. við völd í Englandi og Hinrik VIII. á árunum 1509-1547.
5.  1532-1533 var Grindavíkurstríðið.
6.  1896-1897 voru firðir, víkur og flóar opnaðir öllum til veiða.
7.  1952-1956 var landhelgin færð út í 4 mílur til verndunar fiskistofnum.
8.  1958-1961 var hún færð út í 12 mílur. 1972-1973 var hún færð út í 50 mílur og loks
10. (1975-1977) út í 200 mílur.

Básendar

Húsgrunnur á Básendum.

Grindavíkurstríðinu sjálfu lauk í raun 21. júní er Þóðverjar létu úr höfn á Peter Gibson. Erlendur Þorvarðarson á Strönd og önnur stjórnvöld voru eindregið á því að líta á atburðina sem lögregluaðgerð gegn lögbrjótum, en stjórnvöld út í heimi voru hins vegar á öðru máli. Helstu borgir Þjóðverja voru þá Lübeck og Hamborg. Þýskaland var í raun mörg nokkuð sjálfstæð borgríki. Danir stóðu t.d. í stríði við Lübeck, en Hamborgarar voru hliðhollir Danakóngi. Danir vildu styrkja umboðsstjórn sína á Íslandi og víðar og þeim þótti því þægð í því að hafa þýskar skipshafnir hér, sér til halds og trausts. Danakóngur lék þó tveimur skjöldum því hann var tilbúinn til að semja við Englendinga ef þurfa þótti gegn því að þeir versluðu ekki hér á landi. Íslendingar vildu hins vegar fyrir alla muni halda í verslunina við Englendinga. Samkeppnin skapaði lægra verð fyrir innfluttan varning og hærra verð fyrir útflutninginn. Þetta kom berlega í ljós eftir að Englendingar fóru héðan því þá breyttust hlutföllin Íslendingum í óhag. Mikið var gert að því að prjóna sokka og vettlinga til að selja Englendingum, en Danir reyndu að banna alla slíka verslun. Þeim tókst þó ekki að framfylgja banninu. (Skv. vísindavef HÍ barst prjón fyrst til Íslands á fyrri hluta 16. aldar).
Enskir sjóræningar rændu bæði ensk og þýsk skip á þessum tíma. Hinrik VIII. samdi t.a.m. við þá um að ræna einnig spænsk skip. Talsverðar skærur hlutust af. Þegar enskir sökktu þýskum skipum brugðust Þjóðverjar ókvæða við og reyndu jafnan að hefna hatrammlega fyrir slíkt.
Í upphafi var litið á átökin á Básendum og í Grindavík sem sjóræningjaskærur. Þjóðverjar lögðu hald á enska skipið á Básendum og íslensk yfirvöld, Erlendur á Strönd og hirðstjóri Danakonungs, Diðrik af Minden, hikuðu t.d. ekki við að leggja hald á herfang sitt í Grindavík. Eitt skipanna fórst á skerjum á flóttanum, en þremur tókst að komast til Englands. Þar bar áhöfnin umsvifalaust fram kvörtun og kærur við Englandskonung.

Básendar

Brunnur á Básendum.

Í Hamborg voru margir Íslendingar á þessum tíma, s.s. Gissur Einarsson, fyrsti lútherski biskupinn á Íslandi. Líklegt er að þeir hafi verið Þjóðverjum til ráðgjafar vegna þess sem á eftir fylgdi. Yfirvöld hér á landi sendu Hinriki VIII. frekjulegt bréf og sögðust einungis hafa staðið í lögregluaðgerðum við Grindavík. Þjóðverjar í Hamborg skrifuðu einnig Hinriki VIII. bréf og töldu Englendinga á Íslandi hafa verið lögbrjótana, en ekki þá þýsku. Töldu þeir þar ýmislegt máli sínu til stuðnings, m.a. að Englendingar hefðu verið orðnir aðsópsmeiri við Ísland en Íslendingar sjálfir, lægju á djúpslóð og kæmu í veg fyrir fiskigengd í firði og víkur. Einnig að Englendingar neyddu Íslendinga til að afhenda sér fisk með illu og hefðu þar að auki á brott með sér fólk, settu það í land í Færeyjum eða hnepptu jafnvel í þrældóm. Þetta er kannski svolítið ýktar lýsingar hjá Þjóðverjum. Hið rétta er að fátækir bændur létu Englendinga stundum fá stráka um fermingu til að túlka fyrir þá. Þessir strákar fóru stundum út með þeim, ólust upp í Englandi og komu síðan með þeim sumir hverjir til landsins að vori þar sem þeir heimsóttu sitt fólk. Þá töldu Þjóðverjar upp að Englendingar ynnu leynt og ljóst gegn Danakonungi á Íslandi og teldu sig jafnvel eiga þar meiri rétt en aðrir. Stælu þeir fiski og jafnvel skatti frá Dönum.
Þjóðverjar ráku atvikin á Básendum í bréfi sínu til Hinriks VIII. og töldu síðan upp nokkur atvik um yfirgang Englendinga, sem þeir hefðu komist upp með fram að þessu vegna þess að ekkert lögregluvald væri til staðar í landinu, heldur “stjórnuðust viðbrögð af hefndum og gömlum vana”. Líklegt er að Gissur hafi hjálpað Þjóðverjum að semja bréfið til Hinriks VIII. Sá taldi hins vegar að þýskir hafi byrjað að skjóta á landsmenn sína og ritaði hástemmt bréf til baka og óskaði eftir samningaumræðum um skaðabætur og annað, sem tiltekið var. Friðrik II. Danakonungur svaraði hortugur fyrir sig og sagði sína þegna á Íslandi saklausa af öllum ásökunum Englendinga vegna lögregluaðgerðanna hér.
Hinrik VIII. vildi láta dæma Ludtkin Smith fyrir hans þátt í málinu, ekki síst fyrir að hafa haldið heljarinnar veislu í virkinu eftir drápin ofan við Stóru-Bót. Þjóðverjar svöruðu og bentu á að Englendingar hefðu nú áður ætlað að bjóða Íslendingum í “þjóðverjakjöt” eftir væntanlegan sigur þeirra yfir þýskum á Básendum. Englendingar reyndu þá að útskýra að þar væri um einhvern misskilning að ræða – kjöt frá Þjóðverjum hefði átt að vera þar í matinn.

Járngerðarstaðir

Járngerðarstaðir og Gerðavellir.

Hinrik VIII. sendi mann að nafni Thomas Lee til Danakonungs til viðræðna og samninga, en vegna tungumálaerfiðleika gekk hvorki né rak. Lee talaði einungis ensku og latínu. Úti í heimi voru átök um, verslun, trúarbrögð og stéttaskiptingu. Um var að ræða flókna blöndu. Hinrik VIII. var t.a.m. kaþólskur eins og meginþorri Evrópubúa, en Hansakaupmenn voru t.d. flestir lútherskir. Hinrik var studdur af borgarastéttinni, en lýðurinn bankaði á dyrnar. Inn í þett allt blönduðust kvennamál Hinriks.

Þannig stóðu málin við upphaf friðasamninga er fylgdu í kjölfarið. Fyrsti fundurinn var haldinn í Hamborg þann 30. janúar 1553. Hálfur mánuður fór í þýðingar gagna. Enski sendifulltrúinn var Thomas Lee. Hann skrifaði á latínu, en Þjóðverjar vildu hafa allt á þýsku. Kristján Friðriksson (Danakonungssonur) var einn fulltrúi Danakonungs. Hann hélt nokkuð vel á málstað Íslendinga, en þeir áttu sjálfir engan fulltrúa í viðræðunum.

Segeberg

Segeberg.

Nú kemur þar að er búið var að þýða öll gögn og undirbúningi lokið. Þá stóð í stappi um fundarstað. Varð úr að hann var fluttur til Segenbergs. Samningahöllin stóð þar sem nú er torg. Englendingar heimtuðu enn skaðabætur, en Þjóðverjar sögðust einungis hafa verið þátttakendur í lögregluaðgerðum. Lee dró þá upp drög að reglugerð um höndlun friðar vegna siglinga til Íslands. Þar sem minnst er á fiskveiðar í þeim eru þær taldar að hluta til jafngilda verslun. Annars var efni þeirra í megindráttum eftirfarandi:
1. Þeir sem fyrstir koma til hafnar á Íslandi mega ekki reka aðra er á eftir koma á brott, eins og verið hefur, heldur leyfa þeim að versla í friði.
2. Ef ekki er nægur fiskur á boðstólnum fyrir nógu mörg skip eiga þau forgang er fyrstir komu.
3. Sömu reglur gilda um öll skip.
4. Orðið viðskipti á einnig við um sölu á fiski.
5. Kaupmenn mega ekki sprengja upp verðið hver hjá öðrum.
6. Kaupmenn mega ekki merkja sér fisk áður en þeir greiða fyrir hann (flestar deilur milli kaupmanna höfðu stafað af því). Komi upp deildur eiga íslensk yfirvöld að fjalla um málið. (Hér er um merkilega viðurkenningu að ræða frá því sem var).
7. Skipstjórar skulu áminntir um að hafa ekki ofbeldismenn í áhöfn, einungis góða sjómenn.

Básendar

Letursteinn við Básenda.

Samningaviðræður hófust nú fyrir alvöru. Sáttarfundir stóðu í 3 daga, 15.-17. febrúar. Niðurstaðan varð sú að engar kröfur Englendinga voru teknar til greina. Þeir voru sagðir hafa sjálfir kallað yfir sig aðgerðirnar á Íslandi, auk þess sem Kristján hafði í hótunum um að svipta Englendinga öllum veiði- og verslunarheimildum á Íslandi. Lee varð auðsveipari og lofaði að Englendingar myndu ekki grípa til refisaðgerða gegn Þjóðverjum, en hann vildi í staðinn fá tryggingu fyrir áframhaldandi veiðiheimildum Englendingum til handa.
Skjöl og gögn frá viðræðunum eru varðveitt í ríkisbókasafninu í Hamborg. Björn Þorsteinsson er líklega eini Íslendingurinn (“Enska öldin – Fimm þorskastríð”) sem hefur skoðað þau. Friðarsamingurinn, sem loks var gerður, er þar í heild sinni. Í lok hans er samþykkt að “duggarasigling skipist burt undan landinu”, þ.e. að einungis verði leyft að fiskur verði keyptur hér, en ekki veiddur.
Að loknum samningum slógu Þjóðverjar upp mikilli veislu til heiðurs enska fulltrúanum, ekki síst vegna eftirlátssemi hans. Hann fór síðan til Englands mánuði síðar og í framhaldi af því skrifaði Hinrik VIII. Þjóðverjum bréf og þakkaði þeim beinan fulltrúa sínum til handa.

Englendingar höfðu haft 6 herskip tilbúin til Íslandssiglinga. Skotar voru um þessar mundir að hertaka ensk skip og ræna. Varð það til þess að verulega dró úr áhuga og getu Englendinga til siglinga til Íslands. Andstaðan gegn Englendingum hér var enn mikil eftir lætin fyrir og í kringum Grindavíkurstríðið og var ýmislegt fundið þeim til foráttu. Eymdi enn af fyrri reynslu. Kristján III. gerði loks erlenda fiskimenn brottræka af Íslandsmiðum.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Hinrik VIII. varð í raun til þess að bola Englendingum af Íslandsmiðum með aðgerðarleysi sínu. Völd þau er Englendingar höfðu haft á Íslandi með siglingum sínum voru ekki endurnýjuð. Kristján III. kvartaði enn yfir yfirgangi Englendinga við Hinrik VIII, einkum í Grindavík. Um 1539 hurfu Englendingar svo til af Íslandsmiðum. Danir voru þá orðnir staðráðnir í að ná undir sig versluninni til handa dönskum kaupmönnum. Á Alþingi 1545 voru eigur útlendra kaupmanna gerðar upptækar hér á landi. Englendingar urðu fyrir litlum skaða vegna þessa því þeir voru farnir frá öðrum stöðum en Vestmannaeyjum. Þær höfðu þeir fengið í spilaskuld frá Skálholtsbiskupi árið 1420, en urðu nú frá að víkja. Smám saman hröktu Danir einnig Þjóðverja frá landinu. Árið 1602 var einokun Dana til verslunar á Íslandi lögleidd.

Hafnarfjörður
Um 1500 voru í raun tveir “kaupstaðir” á Íslandi; Hafnarfjörður og Grindavík. Síðarnefndi staðurinn stóð betur að vígi því hann var aðalhöfn Skálholtssbiskups, sem hafði skip í förum. Bændur greiddu m.a. skatt sinn í osti, sem seldur var í Evrópu, en korn o.fl. flutt til landsins í staðinn. Grindavík var því mikil höfn um langan tíma og það löngu eftir að “Grindavíkurstríðinu” lauk. Enn má sjá minjar veru, sjósóknar og verslunar útlendra ofan við Stóru-Bót. Þar er hóll sem sagður er hafa verið virki Jóhanns breiða og manna hans og Engelska lág er þar undir hólnum þar sem enskir eru sagðir hafa verið grafnir af eftirlifandi félögum sínum. Vestar má sjá móta fyrir görðum Junkaragerðis. Á Kóngsklöppinni í Staðarhverfi, litlu vestar á nesinu, ráku Danir verslun eftir að þeir komu til landsins og tóku við af Þjóðverjum. Þar má enn sjá talsverðar minjar eftir þá verslun, m.a. tóftir húsa”.
Sjá IV. hluta.

Grindavík

Frá Grindavík.

Þingvellir

Eftirfarandi fróðleikur um Öxará er finna má bæði í Sturlubók og Landnámu birtist í Tímariti Hins íslenska bókmenntafélags árið 1889:
oxararfoss 1935„Á eftir fer orðrjettur útdráttur úr Íslendingabók hinni yngri um þá feðga Ísleif og Gizur og Teit Ísleifsson. Alveg tilsvarandi kafli er í Landnámu vorri, og það vill líka svo vel til, að ættartala Ketilbjarnar, sem stóð í „ættartölu“ hinnar eldri Íslendingabókar, hefur geymst aftan við Íslendingabók hina yngri, og hef jeg áður tilfært hana orðrjett ásamt tilsvarandi kafla úr hinni yngri Íslendingabók. Í Sturlungu og Landnámu er grein sú, sem hjer ræðir um, svo látandi (Sturl. Oxf. 1878,1,203.bls. (Khöfn 1817,1, 202. bls.)): Ketilbjörn Ketilsson, maðr norænn ok frægr, fór til Íslands, þá er landit var víða bygt með sjó. Móðir hans hét Æsa Grjótgarðsdóttir, systir Hákonar Hlaðajarls. Hann átti Helgu, dóttur Þórðar Skeggja , Hrapps sonar, ok var með honum inn fyrsta vetr á Íslandi fyrir neðan Bláskógaheiði ok fór upp í landaleitan um várit eftir. Svá segir Teitr. En þeir görðu sér skála, þar er þeir höfðu náttból, ok kölluðu þat af því Skálabrekku. En er þeir vóru þaðan skamt farnir, þá komu þeir á árís, ok hjoggu þar á vök, ok felldu í öxi sína, ok kölluðu hana af því Öxará. Sú á var síðan veitt í Almannagjá, ok fellr nú eftir Þingvelli. Þá fóru þeir þar til, er nú er kallaðr Reyðarmúli. Þar urðu þeim eftir reyðar þær, er þeir fóru með, ok kölluðu þar af því Reyðarmúla.
Ketibjörn görði bú undir Mosfelli ok nam þar land umhverfis svá vítt sem hann vildi átt hafa. Frá þeim Ketilbirni ok Helgu eru Mosfellingar komnir.“
Áin kemur upp í Myrkavatni og fellur milli Búrfells og Leggjabrjóts og um Biskupsbrekkuhraun innan við Brúsastaði. Hún mun áður hafa runnið suður um Kárastaðahraun og í vatnið rétt hjá Skálabrekku en í Sturlungu segir að henni hafi verið veitt í Almannagjá til að þingmenn þyrftu styttra að fara til að sækja sér neysluvatn. Eftir það fellur hún ofan í gjána í fossi, Öxarárfossi.

Heimild:
-Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags, 10. árg. 1889, bls. 229-230.

Öxará

Öxará – virkjun.