Reykjanesbær.
Reykjanesbær varð til við sameiningu sveitarfélaganna Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna 11. júní 1994.
Í desember árið 2005 búa í Reykjanesbæ 11 þúsund íbúar á landsvæði sem nær frá norðurmörkum Keflavíkur og út á Reykjanestá.
Keflavík, Njarðvík og Hafnir byggðust í kringum sjósókn og fiskverkun sem var meginstoð atvinnulífsins.
Keflavík.
Mikil verslun var stunduð í Keflavík sem gerði hana að stærsta þorpinu á Suðurnesjum, höfuðstað svæðisins. Má rekja verslunarsögu Keflavíkur allt til upphafs 16. aldar og er vitað um þýska kaupmenn þar árið 1518. Undir lok 16. aldar komu Hamborgarkaupmenn til Keflavíkur en þegar Danir settu einokunarverslunina á 1602 féll Keflavík í hendur Kaupmannahafnar. Þessi dönsku áhrif í verslun í bænum héldust svo alveg fram á 20. öld, þó svo að Einokunarverslunin hafi um síðir liðið undir lok. Keflavíkurhreppur var stofnaður 1908 og þann 22. mars 1949 fékk Keflavík kaupstaðaréttindi.
Njarðvík.
Njarðvík er breið vík sem gengur til suðurs úr Stakksfirði. Byggðin í Njarðvík skiptist í Ytri – og Innri-Njarðvík. Ekki er ljóst hvenær sú skipting varð en það var snemma á öldum. Talið er að kirkja hafi verið reist í Njarðvík á 11. öld. Njarðvík var fyrrum hluti af Vatnsleysustrandarhreppi en fékk sjálfstæði sem sveitarfélag 1889. 1908 rann Keflavík saman við Njarðvík undir merkjum Keflavíkurhrepps en Njarðvíkingar klufu sig frá á ný 1942 og tóku á ný að starfa sem sjálfstætt sveitarfélag og fékk Njarðvík kaupstaðarréttindi 1. jan 1976.
Hafnir.
Hafnir eru annað landstærsta sveitarfélagið á Reykjanesi en byggð þar er fámenn nú miðað við það sem áður var. Hafnir byggðust upp í kring
um mikið útræði.
Kirkjuvogshverfið nefnist Hafnir í daglegu tali en þar hafa búið 80-120 manns sl. 2 áratugi. Fyrr á öldum voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins en þær eru samheiti fyrir 3 hverfi (lendingar), þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvog. Nú er byggðin öll í gamla Kirkjuvogshverfinu auk íbúðarhúss í Merkinesi og í Junkaragerði. Á 19. öld var Kotvogur í Höfnum eitt stærsta býli landsins. Var fjölmenn byggð í Höfnum og útræði mikið á stórum bátum allt fram til aldamótanna 1900.
Landnám.
Land það sem nú er Reykjanesbær hefur verið í byggð allt frá landnámstíð. Landnáma getur þess að Ingólfur Arnarson hafði látið frændkonu sína, Steinunni gömlu, hafa mikið land í landnámi sínu, m.a. land Keflavíkur og Njarðvíkur. Land Hafna gaf hann frænda sínum og fóstbróður, Herjólfi Bárðarsyni. Þess má til gamans get
a að langafabarn þessa Herjólfs, Bjarni Herjólfsson, sigldi fyrir slysni til Norður-Ameríku frá Grænlandi og er talinn hafa verið fyrsti víkingurinn til að gera það. Félagi hans Leifur Eiríksson kannaði svo síðar þessa siglingaleið eins og frægt er orðið.
Í augum okkar nútímamanna eru gjafir Ingólfs vægast sagt í stærri kantinum. Bjarni Guðmarsson lýsir samskiptum þeirra Ingólfs og Steinunnar gömlu á skemmtilegan hátt í bókinni Saga Keflavíkur 1766-1890: Sagan segir að á öndverðri landnámstíð hafi Ingólfur landnámsmaður Arnarson viljað gefa frænku sinni, Steinunni gömlu, Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun. Þætti það líklega rausnarleg tækifærisgjöf nú á dögum sem innihéldi m.a. Voga, Njarðvíkur, Keflavík, Garð og Sandgerði. Steinunn sá hins vegar skemmst í hendi sér að gjöfin var að vísu góð en böggull fylgdi skammrifi. Æ sér gjöf til gjalda eru forn sannindi og það gæti verið vandkvæðum bundið að endurgjalda gjöf Ingólfs. Þá kynni frændanum að snúast hugur ef örlætið rjátlaðist af honum. Steinunn gamla virðist hafa borið talsvert skyn á fasteignaviðskipti. Hún brá nú á það ráð að leggja flekkótta enska kápu, heklu sem kölluð var, á móti Rosmhvalanesi Ingólfs. Með því móti mátti kalla viðskipti þeirra kaup en ekki gjöf; þau voru ,,kvitt” og engin hætta á að Ingólfur hætti við allt saman. Eftir þessu fyrsta fasteignamati á Suðurnesjum, sem sögur fara af hefur Keflavík varla verið metin meira en sem nam einu hnappagati á enskri kápu eða í mesta lagi vasa.
Þróun byggðanna.
Óvíst er um upphaf fastrar byggðar í Keflavík, Njarðvík og Höfnum, því heimildir eru af skornum skammti þegar sögunum af Steinunni gömlu sleppir. Þó eru menn nokkuð vissir um að kotið Keflavík, sem staðurinn hefur síðan alltaf verið kenndur við, hafi verið þar sem nú er tún, beint á móti Duushúsunum. Á þessu túni er hóll sem talinn er vera rústir þessa kotbýlis, sem að öllum líkindum var torfbær en slík híbýli voru lang algengust á Íslandi áður fyrr. Gömlu Duushúsin voru aftur á móti fyrstu timburhúsin í Keflavík.
Duushúsin.
Talið er að það hafi ekki myndast fastur byggðarkjarni í Keflavík fyrr en komið var fram á 16. öld en þá var hún í eigu Danakonungs sem réði yfir Íslandi. Það voru Njarðvíkurjarðirnar sömuleiðis og íbúar greiddu landsskuldina, sem var einskonar húsaleiga, með fiski.
Árið 1889 varð Njarðvíkurhreppur til en það má segja að hreppur sé það sem kallað er sveitafélag í dag. Fyrir þann tíma hafði Njarðvík verið hluti af Vatnsleysustrandarhreppi. Árið 1908 varð Njarðvík aftur hluti af öðrum hrepp en í þetta sinn Keflavíkurhrepp. Sameiningartímabilið varði í 34 ár en Keflavíkurhreppi var skipt upp árið 1942. Ástæðan var sú að Njarðvíkingar voru ósáttir við ýmislegt, t.d. fannst þeim rafveitu og hafnarmálum þeirra illa sinnt en raflýsing frá Rafveitufélagi Keflavíkur náði ekki til Njarðvíkur.
Þann 22. mars 1949 fékk Keflavík svo kaupstaðarréttindi og Njarðvík 27 árum síðar eða árið 1976.
Engar heimildir eru til um það hvenær sérstök stofnun Hafnahrepps hafi átt sér stað en líklegt er að hreppurinn hafi frá upphafi verið með þeim minnstu á landinu. Árið 1703 voru íbúar Hafna 91 og eru það elstu íbúafjöldatölur byggðarlagsins. Síðan þá hefur íbúafjöldinn verið á bilinu 100-200. Það er talið líklegt að hreppsmörkin hafi breyst lítið síðan Herjólfur Bárðarson nam þar land.
Á góðum árum fjölgaði fólki í þorpunum Keflavík, Njarðvík og Höfnum, en um leið og fiskaðist illa fækkaði að nýju. Eftir 1820 er fyrst hægt að tala um þéttbýlismyndun í Keflavík en þá fjölgaði íbúum nokkuð mikið. Árið 1920 var Keflavík orðið hið myndarlegasta kauptún og voru langflest íbúðarhúsin byggð úr timbri.
Án efa hafa fengsæl fiskimið verið helsta ástæða þess að
menn fluttust fyrst til Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna en Suðurnesjamenn voru þekktir fyrir sjósókn sína eins og textinn „Suðurnesjamenn” eftir Ólínu Andrésdóttur við lag Sigvalda Kaldalóns gefur til kynna.
Fast þeir sóttu sjóinn.
Í margar aldir byggðu Íslendingar afkomu sína á landbúnaði og þá sérstaklega fjárbúskap. Þar af leiðandi þótti landsmönnum Suðurnesin ekkert sérstaklega spennandi staður að búa á vegna þess að þar var ræktunarland mjög lélegt og landbúnaður þess vegna hafður sem aukabúgrein. Það var ekki fyrr en á fyrri hluta 20. aldarinnar að þjóðin gerði sér grein fyrir gildi fisksins, sem hafði haldið lífinu í Suðurnesjamönnum, þ.m.t. Keflvíkingum, Njarðvíkingum og Hafnamönnum, frá ómunatíð. Sjósókn og fiskverkun litaði því lífið í þessum þorpum mjög. Fjörunytjar voru líka mikilvægar. Þá nýttu menn sér ýmislegt sem var að finna í fjörunni. Við skulum því kanna nánar hvernig lífið í þessum sjávarþorpum var hér áður fyrr þegar menn reru til sjós á opnum árabátum.
Haldið til sjós.
Á fyrri hluta 19. aldar og fram yfir aldamótin 1900 jókst þilskipaútgerð í Faxaflóa en árabátar voru þó áfram algengastir eins og hafði verið á öldunum áður. Á áraskipum réru menn aldrei það langt að ekki sást til lands, nema ef fiskaflinn brást eða að menn leituðu að sérstökum fiskitegundum. Þá voru stundaðir dagróðrar og tíminn sem veiða mátti á miðunum var takmarkaður.
Sjómenn í árabát.
Þilskipin (skúturnar) voru með þili (dekki) eins og nafnið bendir til, þau voru stærri og með meiri seglum og gátu því komist lengra út á sjó. Áður fyrr var mjög algengt að þeim hafsvæðum þar sem fiskinn var að finna eða hinum svokölluðu fiskimiðum væri lýst í bundnu máli til að muna staðsetningu þeirra betur. Dæmi um slíka vísu er eftir feðgana Vilhjálm H. Ívarsson og Þórodd Vilhjálmsson frá Merkinesi í Höfnum:
Önglabrjóts er erfitt mið,
sem ekki gefur neinum frið,
grunnt í Norðurstrengnum stendur,
steingarður í eldi brenndur.
Upp úr miðri 19. öld var mikil útgerð í Höfnum enda fluttu þangað á þessum tíma metnaðarfullir og duglegir ríkisbændur. Þeir voru þekktir fyrir að sækja sjóinn fast, í öllum veðrum og þóttu miklir sjógarpar. Þetta hafði maður sem kallaður var Finnur á Kjörseyri að segja um Hafnamenn skömmu eftir 1860: Ég man vel, þegar ég var á Hvalsnesi að Hafnamenn reru oft í rokveðri um norðursjóinn, sem er undan Miðnesinu, þegar norðanáttir voru,
þótt engum Nesmanni dytti í hug að fara á flot, enda áttu þeir ekki eins hægt aðstöðu vegna veðurstöðu. Manni datt oft í hug, þegar Hafnaskip mörg og stór sigldu fyrir framan nesið, skip Ólafs Tryggvasonar, er þau sigldu fyrir Svoldur. Sjómönnum þótti upphefð í því að róa hjá sjógörpunum í Höfnum.
Sjóslys voru ekki óalgeng. Það gat verið mikil blóðtaka fyrir svo lítil samfélög að missa menn í sjóinn. Það gat orðið til þess að heilu fjölskyldurnar urðu bjarglausar sem varð til þess
að sundra þurfti fjölskyldunni og fólkið að segja sig til sveitar, sem þýðir að fólkið varð háð greiðslum frá sveitarfélaginu til að hafa í sig og á.
Sjómenn – Sjóklæði.
Þegar sjómenn reru til sjós klæddust þeir skinnbuxum úr sauðskinni, kálfskinni eða hrosshúðum. Þær náðu upp á nafla og voru bundnar með snæri eða skinnól. Skórnir voru úr sútuðu leðri. Síðan voru þeir í skinnstökkum úr kindaskinni, með ermum úr lambsskinnum og vöfðu að sér um úlnliði. Hálsmálið drógu þeir saman og höfðu ullartrefla um hálsinn. Innanundir voru þeir í strigastakki og strigabuxum yfir vaðmálsföt eða prjónuð ullarnærföt. Loks voru þeir með sjóhatta og sjóvettlinga.
Vertíð, verkun og útflutningur.
Í Gullbringusýslu veiddu menn mest á milli 2. febrúar og 12. maí. Þetta var hin svokallaða vertíð, sem var og er sá veiðitími sem menn veiddu og verkuðu fisk. Í heild sinni var Gullbringusýsla eitt mesta útróðrasvæði landsins á 18. öld.
Þegar Íslendingar voru undir Danaveldi setti danski konungurinn ákveðnar verslunarreglur á Íslandi sem var þannig að bara Danir máttu selja Íslendingum vörur sem ekki voru framleiddar á Íslandi og aðeins Danir máttu kaupa varning af Íslendingum. Þessi tími er kallaður einokunartíminn því svona verslunarbann heitir einokun. Á einokunartímanum var mestallur fiskur sem seldur var úr landi verkaður í skreið en það var tímafrek og vandasöm vinnsluaðferð.Á seinni hluta 18. aldar breyttust þó aðferðir við að veiða fisk og verka nokkuð mikið. Þá var byrjað að nota þorskanet og Íslendingum kennd saltfiskverkun. Saltfiskurinn var að mestu
leyti seldur til Miðjarðarhafsins, aðallega Spánar. Eftir að netaveiðar urðu almennar á Suðurnesjum varð það algengara að bændur úr öðrum landshlutum sendu vinnumenn sína þangað til að vinna á vertíð.
Salftfiskkonur í Keflavík í byrjun 20. aldar.
Í fiskiþorpunum Höfnum, Njarðvík og Keflavík voru svokallaðar verstöðvar en það voru útgerðarstaðir. Þaðan sigldu bátar út á sjó og komu með fiskinn að landi til verkunar. Verstöðvar voru tvennskonar: útver og heimræði. Í útver komu menn utan af landi með báta og búnað og dvöldu þar aðeins á meðan á tímabundinni sjósókn st
óð. En það hét aftur á móti heimræði þegar fiskveiðar voru stundaðar frá heimili heimamanna.
Það er óhætt að segja að alla 19.öldina hafi lífið verið saltfiskur í Keflavík, Njarðvík og Höfnum. Menn verkuðu afla sinn sjálfir og fluttu tilbúna vöru í verslunarstaðinn, en kaupmennirnir í Keflavík voru líka umsvifamiklir útgerðarmenn og höfðu því mikla fiskverkun í nágrenni við sig.
Breyttir útgerðarhættir.Fyrstu vélbátarnir sigldu úr Njarðvíkur- og Keflavíkurhöfn í byrjun 19. aldar. Þá komu þangað margir sjómenn annars staðar frá en samt voru engar verbúðir reistar. Aðkomusjómenn fengu þess í stað að búa í útihúsum en það hefur sjálfsagt ekki verið neitt sérstaklega skemmtilegur húsakostur! Þetta var eflaust gert svo að menn hefðu ekki ákveðið að setjast að í verbúðunum.
Þessir breyttu útgerðahættir urðu til þess að fólki fór stigfækkandi í Höfnum. Vélbátarnir rúmuðu ekki alla þá sjómenn sem höfðu haft pláss á árabátunum. Menn leituðu því annað eftir atvinnu, margir til annarra sveitarfélaga á Suðurnesjum, aðallega Keflavíkur.
Daglegt líf áður fyrr.
Samfélagið í þessum sjávarþorpum litaðist allt af atvinnulífi þess. Á vertíð snerist allt um sjóróðra og útgerð. Flestir vinnufærir karlmenn sóttu sjóinn en konur, börn og eldri menn hjálpuðu til með fiskverkun og sáu um húsdýrin. Á vorin og sumrin vann fólk við heyskap og önnur nauðsynleg verk og sumir fóru burt í verkavinnu. Á haustin voru sjómenn í raun atvinnulausir því þá var hvorki veitt né verkað. Fólk var þó önnum kafið við færaspuna, önglasmíði og skinnklæðagerð. Þó að mest hafi verið fiskað á vertíð þá veiddu menn sér að sjálfsögðu í soðið allan ársins hring.
Þó að vinnan hafi skipt mestu máli í svona strandarsamfélögum þá kunni fólk líka að skemmta sér. Kirkjuhátíðir, afmæli, brúðkaup, barnsfæðingar og tyllidagar gáfu fólki tilefni til að gera sér glaðan dag og lokadagur vertíðar var hátíðisdagur.
Á seinni hluta 18. aldar borðaði fólk á Suðurnesjum aðallega fisk með smjöri, mjólk og kornvöru. Við sjávarsíðuna var algengt að menn fengu sér þunnan rúg- eða bygggraut með örlítilli mjólk eða mysu út á. Um miðjan dag borðuðu menn harðfisk eða herta þorskhausa og smjör með og á kvöldin var yfirleitt soðinn fiskur með smjöri á boðstólnum. Á tyllidögum á haustin var boðið upp á kjötsúpu en um og eftir jól var vindþurrkað kjöt algengt á Suðurnesjum en ekki reykt.
Fram yfir seinni heimsstyjöld var t.d. Njarðvík sambland af fiskimannabyggð og sveitaþorpi og þar ægði öllu saman. Búfjárhald tíðkaðist fram eftir síðustu öld, sérstaklega í Innri-Njarðvík. Á flestum lóðum stóðu misgóð íbúðarhús, fiskverkunarhús, geymsluhús, gripahús, útieldhús og útikamrar en fólk losaði þó sums staðar úrgang sinn í gripahúsum. Vatnið var sótt í brunna og í þá var hægt að fá þokkalegt vatn allan ársins hring. Sums staðar var vatnið þó saltblandað. Vatnið var takmarkað og olli vatnsskortur íbúum oft miklum óþægindum. Búfjárhald tíðkaðist fram eftir síðustu öld, aðallega í Innri-Njarðvík.
Verslun í Keflavík.
Mikil verslun var stunduð í Keflavík sem gerði hana að stærsta þorpinu á Suðurnesjum, höfuðstað svæðisins. Saga Keflavíkur skilur sig að því leyti örlítið frá sögu Njarðvíkur og Hafna, þar sem nær eingöngu var róið til fiskjar. Fyrstu viðskipti Keflvíkinga við útlendinga hófust í byrjun 16. aldar en þá komu þangað þýskir kaupmenn til að versla við heimamenn. Undir lok 16. aldar komu Hamborgarkaupmenn til Keflavíkur en þegar Danir settu einokunarverslunina á árið 1602 féll verslunarstaðurinn Keflavík í hendur danska konungsins í Kaupmannahöfn. Þegar einokunarverslunin komst á varð Keflavík ein af 20 höfnum sem versla átti á hér á landi. Keflvíkingar seldu fyrst og fremst fisk.
Saltfiskurinn þurrkaður í fjörunni í Keflavík.
Holger Jacobeus, síðasti einokunarkaupmaðurinn, hafði mikinn áhuga á þessari fiskverslun og var í fararbroddi. Hann eignaðist t.d. hlut í fiskiduggu, stærra skipi en hér tíðkuðust, og hvatti hann til þess að menn tækju upp netaveiðar o.fl. Holger var fyrsti einokunarkaupmaðurinn sem settist að í Keflavík. Segja má að þar með hafi hann lagt hornstein að myndun þorpsins Keflavík. Dönsk áhrif á verslun í bænum héldust svo alveg fram á 20. öld, þó svo að einokunarverslunin hafi liðið undir lok.
Á seinni hluta 19. aldar breyttist Keflavík úr verslunarþorpi í útgerðarþorp og flestir íbúarnir byggðu afkomu sína á því sem sjórinn gaf. Rétt fyrir miðja 20. öld urðu þó gífurlegar breytingar á atvinnulífi Suðurnesjamanna og þá sérstaklega Keflvíkinga, Njarðvíkinga og Hafnamanna.
Sjávarútvegur um og eftir stríð.
Ljóst er að öll atvinnan sem skapaðist við komu bandaríska hersins var og er mikil. En hvaða áhrif ætli þessi nýju atvinnutækifæri hafi haft á sjávarútveginn í Njarðvík og Keflavík sem hafði áður mótað allt samfélag bæjanna? Eins og áður hefur komið fram einkenndi það sjósókn Suðurnesjamanna að mest var veitt á vetrarvertíð og var hún svo sannarlega annatími þeirra. Vertíðarnar voru þó misjafnar en árið 1942 var gósenár, sem þýðir að þá fiskaðist einstaklega vel. Það ár var vertíðin sem sagt mjög góð og Bretar borguðu vel fyrir fiskinn. Peningar voru bæjarbúum kærkomnir.
Þetta var árið sem Njarðvíkurhreppur var stofnaður á ný og maður sem kallaður var Kristinn Reyr setti Bókabúð Keflavíkur á laggirnar. Lífinu í Keflavík og Njarðvík á þessu ári lýsti maður sem hét Albert K. Sanders svona: „Allt dafnaði þá. Börn keyptu sér buddu, unglingar ilmandi, marghólfa veski, sem marraði í. Fullorðnir fengu sér nýja og stærri peningakassa og fyrirtæki eldtrausta og þjófhelda skápa á stærð við símaklefa. Og bækur birtust, komu og fóru. Fólk sem lengi hafði lifað á brauði einu saman – og illa það á stundum – gat loksins látið eftir sér að kaupa brauð og bók.
Hvorttveggja í senn.
Þrátt fyrir að góðæri væri til sjávar og mikið að gerast var engu að síður erfitt að manna bátana því nú var setuliðsvinna í boði og hún heillaði miklu meira heldur en þorskveiðistrit. Margir minni bátar lágu auðir í höfnum og sumir stærri bátar önnuðust flutninga fyrir breska hersetuliðið. En þó svo að stríðinu lyki varð ekkert aftur eins.
Keflavíkurhöfnin full af skipum.
Á sjöunda áratug síðustu aldar breyttist bátafloti Keflvíkinga og Njarðvíkinga þannig að stálbátar komu í stað trébáta. Þeir voru miklu stærri og betur búnir. Á 8. áratugnum dofnaði mjög yfir útgerð í Keflavík og Njarðvík. Þeir menn sem gert höfðu út allt frá því á millistríðsárunum höfðu nú hætt störfum eða snúið sér að öðru.
Vinnuaflsskortur var ekki eina vandamál útgerðamanna á Suðurnesjum. Fiskvinnslustöðvarnar voru orðnar of margar og fengu ekki nóg hráefni til vinnslu, verðbólga varð meiri og þar sem vetrarvertíðin krafðist bara vinnuafls á ákveðnum tíma árs leitaði fólk í aðra vinnu sem það hafði allt árið. Þessi hnignun sjávarútvegsins varð hvað mest í Keflavík og Njarðvík af landinu í heild.
Heimildir m.a.:
-VÍSIR Föstudagur 2. júni 1978, bls. 5.
-Upplýsingaskilti í Reykjanesbæ.