Gengið var með Jóni Ben Guðjónssyni, bónda á Stafnesi, um norðanvert Starfneshverfið. Ætlunin var m.a. að reyna að rekja gömlu kirkjugötuna millum Safnesbæjanna og Hvalsneskirkju (Hvalsneshverfis) og skoða gamlar minjar á leiðinni. Áður hafði verið gengið um vestan og sunnanvert Stafnes,sem og Básenda í Stafneslandi.
Jón sagði að elsti bærinn á Stafnesi hafi sennilega verið þar sem nú má sjá tóftir Vallarhúsa skammt norðvestan við núverandi íbúðarhús. Gamli Stafnesbærinn (timburhús) hafi hins vegar staðið þar sem nú er bílastæði norðan við íbúðarhúsið. Vestan þess hafi verið fjós, en í það hafi verið grafið þegar mjólkurhús var byggt við nýja fjósið, sem enn stendur. Flór hafi legið til vesturs, en suðvestan við gamla bæinn hafi brunnurinn verið. Umleikis hafi verið mikill túngarður. Hann hafi legið með hæðinni að suðaustanverðu við íbúðarhúsið, yfir núverandi veg til norðurs, síðan til vesturs og aftur til suðurs vestar. Þegar Jón var að slá fyrrum hafi hann iðulega komið niður á steinaraðir úr garðinum, en nú er einungis að sjá þar sléttan grasvöll.
Við Stafnes eru víða sléttaðir grashólar í túnum. Þarna var áður fjöldinn allur af gömlum bæjarrústum. Má það eðlilegt kalla, að eitthvað sjáist af rústum, því 10 voru hjáleigurnar, sem Stafnesi fylgdu 1703, og auk þess 12 eyðihjáleigur og búðir, allar taldar með nafni í jarðabók. Þó eru nokkur nefnd nú, sem ekki eru þar talin; hafa líklega verið byggð síðar, en þó fyrir löngu í eyði komin. Frægustu hjáleigurnar m.t.t. skráðra þjóðsagna og eftirminnilegra atburða eru Lodda, Þemba og Básendar.
Ein er til þjóðasaga um Stafnesbónda er birtist í Rauðskinnu, en hvort hún er sönn eður ei skal ósagt látið: „Eftir að mislingarnir gengu hér á landi á 19. öld, var oft mikið um flökkulýð og ölmusumenn, er fóru víða um land, og var meðal annars mikið um þá á Suðurnesjum. Komu þeir tíðast á ríkisheimilin og varð oft mikill átroðningur að þeim og misjafnar viðtökur hjá bændum, því að sumir vildu venja förumenn þessa af komum sínum.
Í þá tíð bjó á Stafnesi ríkisbóndi nokkur; ekki er hér getið nafns hans. Það bar til eitt haustkvöld um réttir, að barið var að dyrum á Stafnesi. Fór bóndi til dyra. Úti stóð lítill drenghnokki og bað hann að gefa sér brauðbita. Tók bóndi þegjandi í hönd drengsins og leiddi hann í úthýsi nokkurt, leysti niður um hann og hýddi duglega og sagði honum að því búnu að hafa sig á brott. Hvarf drengurinn grátandi út í myrkrið, og skildi þannig með þeim. Gekk bóndi síðan til baðstofu og varð enginn annar í bænum var við atburð þennan.
Leið nú haustið. En seint á jólaföstunni var enn barið að dyrum á Stafnesi á vökunni. Tvær stúlkur voru frammi í bænum að mala korn og gengu þær til dyra. Dimmt var mjög úti, en þó sáu þær, að kona ein stóð úti fyrir. Biður hún stúlkurnar að skila til húsbóndans, að hún vilji hafa tal af honum. Þær fara inn og flytja bónda tíðindin. Segir þá húsfreyja þeim að fara í humátt á eftir bónda og vita, hvert erindi kona þessi eigi við mann sinn. Þær gera svo, en er þær koma fram að bæjardyrunum, virðist þeim allt útlit konunnar gjörbreytt orðið, og hún vera hin ferlegasta ásýndum og afmynduð af reiði. Hún virðir bónda eigi viðlits, snýr vanga að honum og segir:
„Ekki þarf eg að þakka, en fleirum skal sárna en þeim, sem húðstrýktir eru,“
– og gengur því næst burt. Bóndi sneri þegar aftur til baðstofu og var þá fölur sem nár. Biður húsfreyja þá stúlkurnar að fara og ná í konu þessa og biðja hana í guðs bænum að tala við sig. Stúlkurnar fara og sjá þær hilla undir konuna norður á túninu. Þær hlaupa á eftir henni og ná henni loks og færa henni orð húsfreyju. En hún er ákaflega fasmikil, lítur ekki við þeim og segir:
„Eg hef skilað erindinu,“ – og endurtekur það.
Stúlkurnar þorðu eigi lengur að fást við hana og hlupu skelkaðar heim.
– Líður nú fram yfir jól, fram á þorra, og allt er tíðindalaust. Í þorrabyrjun gerði ógæftir miklar, útsynning og brim. Rak þá á Stafnesi tré eitt mikið. Fór húsbóndi með vinnumenn sína til að bjarga trénu frá sjó. En svo vildi til, er þeir veltu upp trénu, að annar endi þess kom dálítið við hné bónda og meiddi hann eitthvað, en eigi svo, að hann gæti ekki gengið heim. En daginn eftir klæðist bóndi ekki og liggur upp frá því rúmfastur í samfleytt 17 ár í hnémeiðsi þessu. Að því búnu komst hann á fætur aftur alheill og óhaltur. Var það ætlun manna, að kona sú, er fyrr var frá sagt, myndi hafa lagt á hann þjáningar þessar fyrir meðferðina á drengnum.“
Um Þembu segir sagan m.a.: „Fram að aldamótunum 1800 voru Básendar ein helzta verzlunarstöð danskra einokunarkaupmanna á landi hér. Básendar lágu undir höfuðbólið Stafnes. Ein af hjáleigunum frá Stafnesi hét þemba. Var það lítið kot og afgjaldið goldið að Básendum inn í reikning heimabóndans.
Þegar saga þessi gerðist, þá bjó maður sá í Þembu, er Narfi hét. Narfi þessi var allur vel á sig kominn, gleðimaður, kvæðamaður, dróst oft að drykk og laus var í honum hornriðinn. Hann var hrókur alls fagnaðar í veizlum og á mannamótum. Eins og aðrir leiguliðar þá hann atvinnu sína aðra en sjóróðra af Básendakaupmönnum, og tók þar jafnan mikið út af brennivíni. Söfnuðust oft að Þembu kunningjar hans og vermenn; var þar þá oft glatt á hjalla og fast drukkið. Einn kaupmanna hafði konu sína jafnan með sér að Básendum og dvaldist hún þar með honum. Var hún fríð kona og glaðvær, þótti henni Narfi bera af öðrum mönnum og sýndi honum meiri vinsemd en góðu hófi þótti gegna.
Fór svo að lokum, að kaupmanni þótti nóg um dálæti það, sem hún hafði á Narfa. Var það orsök þess, að Narfa var byggt út af kotinu og flæmdur loks burt frá Stafnesi. Þóttist Narfi vita, hvaðan sú alda var runnin og lagði upp frá því mikla fæð á Básendakaupmann.
Næsta vor var þemba byggð manni einum dönskum, er vera skyldi aðstoðarmaður þeirra Básendakaupmanna. Eigi linnti drykkju og söng í Þembu, þó að Narfi væri farinn, og voru það nú Danir, sem höfðu þar drykkjusamkomur og ýmsan gleðskap. En það er frá Narfa að segja, að hann fluttist suður til Kirkjuvogs í Höfnum og dó þar snögglega eftir skamma dvöl. Var hann jarðsunginn þar. Narfi hafði átt góðhest einn steingráan, bæði fljótan og vakran. Hafði sá margan golþeysinginn farið, þegar jörð var setzt á vorum. Þennan hest hafði Narfi neyðzt til að slá af, þegar hann var hrakinn frá Þembu.
Á þrettánda dag jóla, vetur þann, er Narfi andaðist, voru Danir saman komnir í Þembu til drykkju. Þetta sama kvöld bar svo við í Kirkjuvogi, að stúlka nokkur gekk út í vökulok. Úti var veður mjög skuggalegt, en þó nokkur birta af tungli, útsuðurhiminninn sundurtættur af kolsvörtum skýjabólstrum með ljósum glufum á milli og urgur mikill í sjó. Varð þá stúlkunni litið til kirkjugarðsins. Sér hún þar standa mann nokkurn, er styður sig við apalgráan hest og heyrir hann kveða vísu þessa við raust:
Þembu að eg þeysi af stað,
þar er mitt eftirlæti.
Hleypi eg dyn því hófakyn
hefi eg á fæti,
hefi eg létt á fæti.
Vindur hann sér á bak hestinum og tók sá sprettinn, en hvorki heyrði hún jódyn né sá spor hans. Varð stúlkunni óglatt við sýn þessa og hljóp inn og sagði frá því, er fyrir hana hafði borið. Nú víkur sögunni að Þembu. Þar voru, sem fyrr segir, gleðilæti mikil.
Er leið á kvöldið, urðu menn snögglega varir við, að kuldagust lagði um skálann og fylgdi því óþefur nokkur. Og er þeir litast um, sjá þeir, að ókenndur maður er kominn í hópinn. Hefur sá gripið eina brennivínsflöskuna og ber hana að vitum sér. Maður sá var bleikur sem bast, beinaber og brúnaþungur; glotti hann svo, að þeim stóð stuggur af. Rann þá nokkuð af þeim ölvíman. Varð kaupmaður fyrstur til að spyrja, hver hann væri. Svarar þá aðkomumaður:
Hér er kominn Narfi,
hann hraktir þú frá starfi.
Fölur er nú minn farfi,
falli yfir þig stjarfi.
Bregður þá svo við, að kaupmaður féll sem dauður væri á gólfið, og í sama bili sýndist þeim, er inni voru, veggurinn opnast að baki Narfa og hann hverfa þar út. Stumra þeir yfir kaupmanni, en geta ekki vakið hann af dvalanum. Var hann færður heim að Básendum og hugðu hann allir dauðan. Lá hann lengi í dái þessu, en raknaði þó um síðir við, en aldrei varð hann samur maður eftir þetta.“
Um Loddu segir sagan: „Stafnes á Rosmhvalanesi var fyrrum höfuðból og sýslumannssetur fyrir Gullbringur. Var þaðan útræði mikið og mjög var sótt þaðan til Geirfuglaskers á fyrri öldum. Lágu 24 hjáleigur undir Stafnesbóndann og auk þess var Básendakaupstaðurinn í landi hans. Hétu hjáleigur þessar ýmsum nöfnum og voru sum þeirra harla einkennileg, svo sem Refshalakot, Gosa, Hattakollur, þemba og Lodda.
Hjáleiga sú, sem næst var Básendum, hét Lodda. Hét hún upphaflega Lúðvíksstofa, en síðar breyttist nafnið í Loddustofu og Loddu. Var kot þetta í byggð fram á miðja 19. öld. Loddu fylgdi grasnyt fyrrum og voru leigur goldnar með þremur vættum fiska að Básendum í reikning heimabóndans. Í fyrri daga bjó einhverju sinni í Loddu maður sá, er Bergþór hét. Var ætt hans austan úr Biskupstungum. Hann var maður með sínu lagi og hafði mikla náttúru til hafsins. Kona hans hét Þorkatla. Voru þau hjón einyrkjar, lítt fjáð, en veitul mjög og gestrisin. Var það venja bónda að bregða skjótt við, er gest bar að garði, og taka á móti þeim, er kom, í bæjardyrunum og leiða jafnskjótt til baðstofu, og var á ekkert dregið undan af því, sem ætilegt var í kotinu. Var orðtak þeirra hjóna jafnan þetta: „Lítið en ljúft er veitt í Loddu.“
Bergþór reri á skipi heimabóndans ýmist sem konungsmaður eða hlutamaður. Einu sinni á vertíð var það dag einn, að lengi var setið á færum í kulda, því að dráttur var sæmilegur og vilja varð vart öðru hvoru. En er á daginn leið, tók að hvessa og fengu þeir brátt hinn versta barning heim. En nokkru síðar fékk Bergþór tak mikið og lagðist í rekkju. Var það með þeim býsnum, að hann lá dauður innan þriggja nátta. Hörmuðu menn dauða hans, því að hann var greiðamaður hinn mesti og vinsæll af öllum. Hélt Þorkatla ekkja hans kotið það sem eftir var vetrar og fram að fardögum. Var svo Lodda í eyði um sumarið.
En svo bar til, þegar liðið var sumar fram yfir höfuðdag, að maður einn úr Grindavík kom síðla dags út að Básendum. Varð hann of seinn til að ná tali af kaupmönnum, og gengur því í áttina heim að Loddu og hyggst að leita þar gistingar. Sér hann þá mann standa þar í bæjardyrunum. Býst hann þá við, að menn hafi þar séð til ferða sinna, og húsbóndinn muni bíða í dyrunum til þess að leiða hann til baðstofu og veita honum húsaskjól.
Greikkar hann því sporið og er brátt kominn heim undir hlaðvarpann. Sér hann, að maður sá, er dyra gætir, er í selskinns-vesti með silfurhnöppum og skóm með hvítum ristarþvengjum. Þá er hann kemur að bæjardyrunum, heilsar hann manni þessum, en hann tekur eigi kveðju hans, heldur snýr sér óðara við og bandar til hans hendinni að fylgja sér inn göngin til stofu, og gerir gesturinn það. Þá er þeir koma inn göngin, spyr komumaður þann, er á undan gekk, hvort hann ráði þar ekki húsum. Svaraði þá maðurinn honum með vísu þessari:
Eg bý í Loddu, ljúfurinn,
löng eru göng og steinar,
stígðu innar, stúfurinn,
stofuna enginn meinar,
dyrnar eru á dráttunum
dregnar upp á náttunum,
brátt mér einar,
brátt mér opnast einar.
Sér þá gesturinn grjótvegginn opnast í göngunum og bónda hverfa þar inn. Greip þá gestinn slík ofsahræðsla, að hann óð út úr bænum og hljóp sem fætur toguðu heim að Stafnesi, og vakti þar fólk allt með höggum miklum. Tókst von bráðar að sefa hann svo, að hann sagði upp alla sögu. Bar þá heimamönnum saman um það, að þarna hefði Bergþór verið kominn og viljað sýna fyrri gestrisni sína. Síðar var Lodda byggð aftur og bar þá minna á reimleikum upp frá því.“
Enn eitt býlið eigi skammt frá hét Refshalakot. Um það segir sagan: „Stafnes á Rosmhvalanesi var fyrrum mikil jörð og sýslumannssetur fyrir Gullbringur. Var þaðan útræði mikið og mjög var sótt þaðan í Geirfuglasker á fyrri öldum. Lágu 24 hjáleigur undir Stafnessbóndann, auk Bátsenda er einnig voru í landi hans.
Þá er Stafnes varð kóngsjörð urðu hjáleigubændurnir fyrir ýmsum kvöðum af hendi Bessastaðamanna. Urðu þeir að annast flutninga frá Bátsendakaupmönnum til Bessastaða endurgjaldslaust og fæða sig að auki.
Ein af hjáleigum Stafnessbóndans hét Refshalakot; var þar lítilfjörleg grasnyt og afgjaldið goldið í fiski. Sagt er að eitt sinn hafi búið maður sá í Refshalakoti er Þórólfur hét. Var hann vanur og veðurglöggur formaður, harðgerr mjög og stórlyndur, ef því var að skipta. Eigi hafði hann búið lengi í Refshalakoti er úfar risu milli hans og Stafnessbóndans út af leigunum. Galt Þórólfur venjulegar leigur eftir kotið en heimabóndi sagði að fylgja ætti þurr og vel verkaður þanghestur að auki. Eigi vildi Þórólfur ganga að því.
Eitt sinn er Þórólfur var að heiman, skrapp Stafnessbóndinn heim að Refshalakoti og lét greipar sópa um þangbirgðir þær er voru í kotinu. Kom Þórólfur nokkuru síðar heim; sárnaði honum mjög tiltæki bónda en fékkst þó eigi neitt frekar um það.
Haust eitt, nokkuru eftir Mikaelsmessu, vildu Bátsendakaupmenn flytja ýmsar vörur til Bessastaða og heimtu þá sem fyrr leiguliðana í för þessa. Skyldi Þórólfur vera formaðurinn. Morgun þann, er fara átti, vaknar Þórólfur snemma; var þá andi af vestri, móða á jöklinum, og þyngsli mikil í sjó. Þótti Þórólfi illt útlit og vildi hvergi fara en þorði þó eigi annað en hlýða, sökum ofríkis og hótana kaupmanna.
Var þá settur fram teinæringur einn mikill, er staðið hafði í naustum frá vertíðarlokum og gisnað nokkuð af sól um sumarið. Var nú borinn flutningur á skip og héldu þeir að því búnu af stað. Voru á skipi þessu margir leiguliðar Stafnessbóndans og þénarar kaupmanna. Var skipið lítt búið seglum og er inn fyrir Skaga kom, gjörði ofsarok af norðvestri, svo að þá hrakti inn allan Garðsjó og bar þá loks undir Vogastapa og týndist skipið þar með öllu. En nóttina eftir gerðust reimleikar miklir hjá kaupmönnum á Bátsendum. Voru einkum mikil brögð að því í verzlunarhúsunum og var bæði lýsi og brennivíni spillt, skreið hent víðsvegar og leirkönnur brotnar úr búðarhillum. Voru svo mikil brögð að þessu að menn héldust eigi við í búðunum er rökkva tók.
Þóttust menn sjá að þar væri kominn Þórólfur formaður. Sótti hann að einum kaupmanna svo mikið að vaka varð yfir honum á nóttum; var oft slegið blautum sjóvettling í rúm hans og þótti þeim sem sáu formann hann skælbrosa um leið og hann gekk út.
Þá bjó í loddustofu maður sá, er Brandur hét. Var Lodda ein af hjáleigunum frá Stafnesi. Brandur þessi var risi mikill og hraustmenni, óþjáll og stirðlyndur en ótrauður til allra verka ef „betaling var í boði“. Höfðu þeir dönsku beyg af honum vegna afls hans og slapp hann því við ýmsa snúninga og kvaðir hjá þeim. Mann þennan fékk nú hinn áður nefndi kaupmaður til að vaka hjá sér.
Kemur Brandur til kaupmanns um kvöldið; er honum vísað til rúms eins í svefnstofu kaupmanns, og skyldi hann halda vörð þaðan um nóttina. Háttar kaupmaður snemma og sofnar þegar. En er liðið er nokkuð fram yfir miðnætti heyrir Brandur frammi í bænum umferð og núningshljóð, eins og þá menn ganga snúðugast skinnklæddir; nálgast þetta svefnstofu kaupmanns; en jafnframt finnur Brandur, að úr sér dregur mátt allan og stenst það svo á að þegar lokið er upp hurðinni að svefnstofunni er Brandur orðinn svo aflvana að hann má sig hvergi hræra né gefa hljóð frá sér.
Loddubrunnur.
Birta var mjög dauf en þó sér hann að inn kemur Þórólfur formaður; er hann ófrýnn mjög og alskinnklæddur; heyrir Brandur gutla í brók hans og leka niður af honum bleytuna; jafnframt finnur Brandur lýsislykt og reykjarlykt, því að formaður hafði hengt skinnklæði sín í eldhús til verkunar en tekið þau niður daginn sem fara skyldi til Bessastaða. Sér Brandur að formaður hefur sjóvettling í hendi, rennblautan og heldur í totuna og gengur rakleitt að rúmi kaupmanns og slær hann rokna kjaftshögg með blautum laskanum. Hrökk þá kaupmaður upp með hljóðum miklum en svo var þá af Brandi dregið að hann gat enga björg sér veitt fyrr en kveikt hafði verið ljós og hann hafði jafnað sig.
Þaut hann þá heim til sín og fékkst eigi til að vera stundinni lengur, hvorki með loforðum né hótunum. Lifði ljós það sem eftir var nætur og var svefninn lítill hjá kaupmanni. Sótti formaður áfram að kaupmanni, þótt viðskipta þeirra sé eigi frekar getið.
Kvöld eitt kom að Bátsendum maður innan frá Kirkjubóli; var þá þénari einn sendur út í búðirnar að mæla honum brennivín. En er þangað kom heyrir hann hávaða mikinn; lýkur hann þá upp gluggahlera einum og sér þá að búðin er full af skinnklæddum mönnum og allt er þar á ferð og flugi en einn manninn sér hann handleika „hevert“ einn mikinn og sí og æ stinga honum ofan í eina ámuna og heyrði hann jafnframt kveðnar þessar hendingar:
Drekkjum og dýfum
þeim dönsku í djúp,
dáum ekki, drengir,
þeirra dyggðahjúp.
Fór maðurinn sem skjótast af glugganum og var ekki til brennivínsins tekið það kvöldið. Nokkru síðar kom dugga ein að Bátsendum; var þá verzlunarhúsunum lokað og Danir allir fóru á brott um veturinn.
En er fram á jólaföstuna leið sáu menn sem gengu til skipa á nóttu reyki mikla frá eldhúsi Stafnessbóndans og jafnframt tóku heimamenn þeir á Stafnesi er til róðra gengu á nóttu að heyra snark mikið er fram til eldhússins kom. Logaði þá eldur glatt í hlóðum og var þang vel að borið en ekkert var yfir eldinum né maður nokkur sjáanlegur. Gekk þetta nokkrar nætur og voru svo mikil brögð að eyðslunni að þangbirgðir allar virtust ætla að ganga til þurrðar. Lét bóndi þá vaka í bænum; bar þá eigi neitt til tíðinda í eldhúsinu, en í þangkofanum heyrðist skrjáf mikið, sem gengið væri eftir þangköstunum og nýju þangi væri hlaðið ofan á þá og troðið duglega innundir súðirnar, lamið saman reipahögldum og fleira.
Nokkru síðar bar svo til að kona ein af næsta bæ kom að Stafnesi; dvaldist henni lengi fram eftir kvöldinu og fór þaðan eigi fyrr en í vökulok. Þegar hún var komin út fyrir túngarðinn, sér hún mann einn koma móti sér, sem henni virtist teyma hest með böggum.
Snjór hafði verið í nokkra daga en nýlega hlánað, svo að krap var mikið á jörðu og skreipt í spori. Miðar manni þessum drjúgum í áttina til hennar og finnst henni það furðu sæta, hve lítið ganghljóð hún heyrir til þeirra félaga. Víkur hún því úr vegi fyrir þeim.
Sér hún þá, að maður þessi er skinnklæddur og þunglamalegur mjög í gangi, svo sem væri hann brókarfullur; slamsast hann áfram og heggur með höfðinu í hverju spori, en skepnu þá, er hann teymir, getur hún ekki greint, en henni sýnist hún vera múlbundin með reiptagli og á baki hennar er heljarstór reiðingur og reiðir maðurinn á honum tvo þá ferlegustu þangbagga, er konan hafði nokkurn tíma séð og marrar gríðar mikið í silunum. En um leið og maður þessi fer fram hjá henni, heyrir hún, að hann kveður vísu þessa með gömlu kvæðalagi:
Frá Refshalakoti eg reidda tel
reipafylli þanga,
brenni nú og braki vel
blöðkuklóin langa.
Endurtekur hann síðustu hendingarnar svo lengi sem konan heyrir til og sér hún það síðast til hans að hann hverfur heim að Stafnesi.
Nótt þessa var eigi vakað á Stafnesi, en er heimamenn reru, þá logaði eldur í hlóðum sem fyrr. Brá bóndi sé þá daginn eftir inn að Bæjarskerjum og var hann þar allan daginn. Morguninn eftir lét hann með birtu heimamenn sína binda hverja einustu þangkló, sem til var á Stafnesi og reiða heim til ekkjunnar í Refshalakoti; jafnframt lét hann ætíð á vökunni hita eldhússskörunginn og gera með honum hvítglóandi krossmark milli hlóðarsteinanna og mátti enginn ganga til eldhúss eftir það. Hurfu skjótt öll undur við þessar aðgerðir bónda; en talið var að hann hefði þar fylgt ráðum Bæjarskerjabóndans. En aldrei var goldinn þanghestur frá Refshalakoti eftir það.“
Magnús Þórarinsson lýsir Stafnesi og örnefnum þar í „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Stafnes“, í ritinu Frá Suðurnesjum er birtist árið 1960. Frásagnir frá liðinni tíð, „Syðsta örnefni í Hvalsneslandi var Mjósund. Er þá komið að landareign Stafness og Stafneshverfis.
Á góðu og gömlu, sjómannamáli bátverjanna á opnum áraskipum var öll hin stóra vík frá Ærhólmum að Stafnesrifi kölluð einu nafni, Hólakotsbót. Á henni eru eftirtalin örnefni: Landamerki milli Hvalsnes og Stafneshverfis eru í viki einu litlu sunnan við Ærhólma; heitir það Mjósund, stundum kallað Skiptivik. Á bakkanum er lítill grasblettur, sem heitir Ögmundargerði, og þar sunnan við er gamalt byrgisbrot, sem er kallað Stafnesstekkur. Víkin sunnan við Stekkinn heitir Stafnesvík. Sunnan við er Glaumbæjarvík, og skilur smágrjótrani víkurnar. Á bakkanum fyrir ofan er hóll grasi gróinn, sem heitir Glaumbæjarhóll, það er gömul rúst. Sunnan við Glaumbæjarvík er Glaumbæjarrif, öðru nafni Kúarif, í fjörunni. Sunnan við Kúarif er Nýlenduvík; nær hún suður að Hliðhólsklöpp, sem er í sjávarmáli niður af hliðinu á túngarðinum norðan við gamla Hólakot, ætíð nefnt af umfarendum „Hólakotshliðið“. Fram af Hliðhólsklöppum eru Selatangar. Það eru nokkur smásker í röð, sem koma upp úr um fjöru; þar á meðal eru Skjöldusker og Kringlótta-Sker. Sunnan við allt þetta, sem nú hefir nefnt verið, er nafnlaus fjara suður að svo nefndum Hólakotshól, en það, er gömul rúst á sjávarbakkanum, niður af Hólakoti, sem var nyrzti bær í Stafneshverfi og nyrzta túnið, en bærinn hefir staðið í eyði um allmörg ár. Öll túnin í Stafneshverfi eru samliggjandi flatneskja, en sundur greind með gaddavír á stólpum. Þess má geta um víkur þær, sem kenndar eru við Glaumbæ, og Nýlendu, að þarna var rekafjara þeirra og þangtekja, enda voru þetta gamlar hjáleigur frá Stafnesi.“
Gengið var eftir gömlu kirkjugötunni og m.a. kíkt á gömlu bæina. Þegar staðnæmstvar við Nýlendu vakti Jón athygli á heillegum hleðslum norðan við núverandi íbúðarhús og vestan við skemmu norðan þess. Þarna sagði Jón að sjá mættu leifar af gamla Nýlendubænum. Innan við vegginn hafi verið rými, ca. 2-3 metrar á breidd. Afi hans, Eiífur Ólafsson frá Ölfusi, og amma, Margrét Benediktsdóttir úr Rangárvallasýslu, eiginkona hans, hefðu haft þarna afdrep í gamla torfbænum, sem hafði þó bárujárnsþak. Þau fluttu frá Hólakotinu nær á stríðsárunum seinni, en síðan hefðu þau flutt til Reykjavíkur (1947). Jón mundi vel eftir bænum, sem þarna stóð; með gluggum mót vestri.
Gamla kirkjugatan lá rétt neðanvið bæinn. Hún hafði áður legið frá Básendum ofan við Glaumbæ og síðan um um Glaumbæjarhliðið áleiðis yfir að Nýlendubrunni, neðan við garða bæjarins sem og Bala og Hólakots. Fast og ofan við Glaumbæjarhliðið hafi verið hænsnakofi, sem enn má sjá leifar af.
Hér að framan eru gjarnan tilgreindir brunnar bæjanna. Hafa ber í huga að brunnarnir – er geymdu „lifsins viðurværi“ – eru jafnan ein gleggsta staðfesting á til vist þeirra fyrrum.
Fast við Bala að suðvestanverðu var Litlibær. Þar er nú einungis gróinn hóll, óljós. Vestar er Balabrunnur.
Hólakotið yngra er norðan Bala. Vestan þess er Hólakotsbrunnur. Jón sagaði kirkjugötuna hafa legið til norðurs með vestanverðum görðunum. Norðan Bala hefur túngarðurinn verið sléttaður, en gatan lá með honum utanverðum.
Utar voru skoðaðar leifar af gamla Hólakoti, sem nú eru fast fram á sjávarbakkanum. Garður hefur legið upp frá því norðanverðu sem mætt hefur fyrrnefndum garði norðan hins nýrra Hólakots. Nýrra kotið hefur verið fært ofar í landið, enda sjórinn nú kominn að rótum þess gamla. Jón sagði að sjórinn hefði brotið mikið af landinu á hans lífstíð.
Komið var við í Ögmundargerði, sem var nyrsta kotbýlið í Stafneslandi mót Hvalsnesi. Tóftirnar eru óljósar, en þó með staðfestu minjagildi. Skammt utar er Hólakotsstekkur, af sumum nefndur Stafnesstekkur. Um er að ræða sandopinn hól, en í honum má þó sjá leifar af hleðslum stekksins, með op mót norðnorðvestri.
Jón sagði að þarna skammt frá, við enda girðingar mót kampinum, væri áletrunin LM. Sjórinn hefði hins vegar kast grótið yfir áletrunina svo nú væri u.þ.b. einn meter af grjóti niður á hana.
Þar sem kirkjugatan lá til norðurs á merkjum hverfanna var vörðubrot. Frá því var gatan sérstaklega augljós um holtið. Handan þess mátti sjá gatnamót. Með því að fylgja götunni áleiðis að Hvalsnesi mátti áætla legu hennar að kirkjustaðum. Hafa ber í huga að gamla kirkjan að Hvalsnesi stóð nánast í miðjum núverandi kirkjugarði. Hvalsneskirkja var hins vegar reist utan garðs.
Frábært veður.
Heimildir m.a.:
-Jón Ben Guðjónsson, bóndi að Stafnesi.
-Magnús Þórarinsson, „Leiðir, lendingar og örnefni á Miðnesi; Stafnes“, Frá Suðurnesjum er birtist árið 1960. Frásagnir frá liðinni tíð, Félag Suðurnesjamanna í Reykjavík, Hafnarfirði, 1960, bls. 151 –165.
-Rauðskinna I, 26.
-Rauðskinna I, 62.
-Rauðskinna I, 64.
-Gráskinna I, 201.
Stafnes – kirkjugatan. ÓSÁ.