Stóru-Vogaskóli er 140 ára í haust. Afmælisveislan hefst kl.12 á hádegi fimmudaginn 18. október n.k. Dagana áður munu nemendur og starfslið skólans sökkva sér í þessa löngu sögu og árangur þess mun væntanlega sjást upp um alla veggi skólahússins. Einnig verður bakað baki brotnu, kræskingar lagðar á borð og hellt uppá. Flutt verða ávörp og erindi og ýmislegt til gamans gert.
Einn af elstu skólum landsins
Haustið 1872 tóku tveir skólar til starfa í nýbyggðu húsnæði. Þeir voru báðir á Suðurnesjum; Gerðaskóli í Garði og skólinn okkar hér í Sveitarfélaginu Vogum sem þá hét Vatnsleysustrandarhreppur og náði einnig yfir Njarðvík. Í upphafi hét skólinn okkar því langa nafni: “Thorchillii Barnaskólinn í Vatnsleysustrandarhreppi”. Það nafn festist þó ekki við hann, heldur var hann kallaður Suðurkotsskóli, enda byggður á jörðinni Suðurkoti í Brunnastaðahverfi. Seinna breyttist nafnið í Brunnastaðaskóli og þegar hann var síðan fluttur í Voga árið 1979 fékk hann núverandi nafn, Stóru-Vogaskóli, enda byggður í túni höfuðbýlisins Stóru-Voga. Rústir tveggja síðustu íbúðarhúsanna að Stóru-Vogum, sem reist voru 1871 og 1912, eru nú hluti af leikvelli skólans.
Allan tímann er þetta sama stofnunin þó hús væru byggð og rifin og nöfnum breytt. Grunnur elsta skólahússins er enn heillegur og aðalbygging skólans frá 1944 – 1979 er nú íbúðarhúsið Skólatún í Brunnastaðahverfi. Byggð voru tvö minni hús, annað í Kálfatjarnarhverfi og hitt á Vatnsleysubæjum og kennt þar um tíma þegar hverfin voru barnmörg. Síðan kom skólabíll til sögunnar 1942 – með þeim fyrstu á landinu – og eftir það var ekki lengur þörf á kennslu í einstökum hverfum. Minjafélag Vatnsleysustrandar hefur nú endurbyggt annað þessara húsa að Kálfatjörn og stendur til að koma þar upp skólasafni.
Thorchilliisjóður fyrir fátæk börn
Hver var þessi Thorchillii sem skólinn var kenndur við? Hann hét Jón Þorkelsson (1697-1759), barn efnaðra foreldra í Innri-Njarðvík. Hann varð mikill lærdómsmaður og rektor Skálholtsskóla um tíma og kallaði sig Thorchilliius upp á Latínu. Hann eignaðist ekki börn en efnaðist vel og gaf eftir sinn dag eigur sínar í sjóð til að “allra aumustu og fátækustu börn í Kjalarnesþingi skyldu fá kristilegt uppeldi, þ.m.t. húsnæði, fæði og klæði”. Árið 1870 hóf Stefán Thorarenssen, prestur og sálmaskáld á Kálfatjörn, undirbúning stofnunar barnaskóla í Vatnsleysustrandarhreppi.
Efnt var til samskota, keyptur jarðarpartur og reist skólahús sem var vígt 13. sept. 1872 með því að halda þar stofnfund skólans sem hóf starfsemi skömmu síðar og hefur starfað óslitið síðan, stundum á fleiri en einum stað samtímis. Með leyfi kóngsins og Alþingis fékkst 1200 ríkisdala vaxtalaust lán til skólans úr Thorchillii-sjóði sem ekki þarf að greiða meðan skólinn sinnir vel börnum sem minna mega sín.
Thorchilllii-sjóðurinn greiddi um áratuga skeið skólagjöld fátækustu barnanna í þessum skóla og síðar í fleiri skólum sem stofnaðir voru á Reykjanesskaga. Mörg “Thorchillii-barnanna” bjuggu á skólatíma í risi skólahússins og ráðið var fólk til að ala önn fyrir þeim.
Þannig var skólinn bæði heimavistarskóli og heimangönguskóli og einnig var börnum komið fyrir á nálægum bæjum, m.a. börnum úr Njarðvík, en fyrstu árin var þessi skóli líka fyrir Njarðvíkinga uns þeir komu sér upp eigin skóla rúmum áratug síðar. Einnig var frá upphafi vísir að unglingaskóla (fyrir fermd börn) og handavinnukennsla fyrir stálpaðar stúlkur. Fyrsta veturinn voru 30 börn í skólanum, þar af 8 fermdir unlingar, og bjuggu 10 af börnunum í skólahúsinu. Í húsinu, sem var 56 m2 að grunnfleti, hæð og ris, var einnig íbúð fyrir kennarann svo það hefur verið búið þröngt. Kannski hefur það komið sér vel því timburhús á þessum tíma voru mjög köld.
Vatnsleysustrandarhreppur í fremstu röð á 19. öld
Hvers vegna voru stofnaðir skólar svo snemma í Vatnsleysustrandarhreppi og Garði? Þá voru komnir barnaskólar á verslunarstöðunum Eyrarbakka (frá 1852) og Reykjavík (frá 1862). Það fiskaðist vel á grunnslóð á þessum tíma áður en togveiðar komu til. Hér var þéttbýlla en víða annars staðar, enda fór fjöldi íbúa í Vatnsleysustrandarhreppi yfir 1000 áður en hreppnum var skipt og Njarðvík klofin frá 1890. En það þarf meira en peninga til að stofna og reka skóla. Það þarf ekki síður menningarlegt atgervi og framsýni. Ég læt Árna Daníel Júlíussyni, sagnfræðingi, eftir að svara þeirri spurningu ásamt mörgu öðru sem á hugann leitar, en hann flytur erindi og situr fyrir svörum á afmælishátíðinni 18. okt. n.k. Sjálfur þakka ég Hauki Aðalsteinssyni, skipasmið og áhugasagnfræðingi, fyrir að afla mikilvægra gagna um þetta mál á Þjóðskjalasafni og víðar, sem ég byggi grein þessa á.
Hvar stöndum við nú?
Stóru-Vogaskóli er í dag 180 barna grunnskóli með 1. – 10. bekk í 2700 m2 húsnæði, en íbúar í Sveitarfélaginu eru rúmlega 1100, ívið fleiri en þegar skólinn var stofnaður. Skólinn hefur á að skipa metnaðarfullu starfsliði sem rækir starf sitt af alúð. Eins og í upphafi er vel hugsað um börn sem minna mega sín eða hafa ýmis konar sérþarfir og er skipulega unnið gegn einelti. Að einu leyti hefur skólinn sérstöðu á landsvísu: Hér fá börnin hádegismat í boði sveitarfélagsins. Hér sitja allir við sama borð og fá einstaklega góðan og hollan mat sem eldaður er í skólanum af snilldarkokki. Hér er leitast við að sinna vel bæði líkamlegum og andlegum þörfum barna, óháð efnahag foreldra.
– Þorvaldur Örn Árnason, kennari við Stóru-Vogaskóla.