Eftir að hafa hitt elsta íbúa Þorlákshafnar, heiðursmanninn og einn fróðasta leiðsögumann þar ums lóðir, Garðar, var ekki beðið boðanna heldur haldið að Arnarhreiðri og litið niður í jarðfallið. Arnarhreiðrið, einnig nefnt Arnarker, er staðsett í Leitarhrauni. Á undanförnum árum hefur Hellarannsóknarfélag Íslands bætt mjög aðgengi að hellinum. Skilti við veginn bendir á hellinn, stikur liggja að hellinum og stigi liggur ofan í hann. Rásin er um 490 m löng.
Í Fjallsendahelli.
Gengið var yfir móan yfir að að Fjallsendahelli þar sem fjárhellirinn var skoðaður. Hellirinn er vestan í Fjallsenda. Hann er hraunhellir. Inn úr opi hans eru tvennar dyr. Til hægri er sjálfur hellirinn, 1 m til 1,7 m hár og um 2 m víður, gólfið er allslétt. Hlaðinn garður lokar honum fyrir fé um 10 m fyrir innan dyr. Til vinstri er niður að fara í annan hellir, sem er að mestu hruninn, svo myndast hefur jarðfall um 4 – 5 m djúpt og 8 – 10 m í þvermál. Það heitir Gjögur. Úr því er skammt í hellisbotn. Fjallshellir er tvískiptur. Að ofan var, skv. heimildum, komið fyrir heyforða því um tíma var fé vistað í hellinum.
Hlíðarendahellir.
Gengið var með Hlíðarenda að Hlíðarendahelli, stundum nefndur Hellir, og hann skoðaður. Hellirinn er yst undir Hellisbergi, ágætt fjárból. Hellirinn er sjávarhellir frá lokum ísaldar. Hefur um 40 m langur veggur verið hlaðinn upp með slútandi berginu. Kumltótt er þar neðan við Hellinn. Frá Hellinum er örskammt vestur í Hellisnef, en þar endar Bergið.
Þá var haldið Djúpudali. Markhólar eru hraunhólar í mörkum Hlíðarenda og Selvogs, talsverðan spöl fyrir ofan (norðan) þjóðveginn. Suður frá þeim heitir hraunið Djúpadalshraun. Í því sunnarlega er dalur eða lægð, og hólaþyrping kringum hann. Dalurinn heitir Djúpidalur, lítill en grösugur. Í og ofan við dalinn er fjölbreytilegur gróður og leiðbeindi einn þátttakanda hópnum um plöntubreiðuna, nefndi einstakar plöntur með nafni og útskýrði notagildi þeirra.
Djúpudalaborg.
Fjárborg gömul er í Djúpadalshrauni, um miðja vegu milli þjóðvegarins og Djúpadals. Hún er borghlaðin, þ.e. hringlaga og veggirnir hallast lítils háttar inn, um 3,5 til 4 m á hæð, og um 5 m í þvermál að innan skv. lýsingu í örnefnaskrá fyrir Hlíðarenda. Dyr eru móti suðri, um 1 m á hæð og geta tvær kindur gengið samhliða um þær. Veggirnir eru á annan meter á þykkt. Árið 1921 var hún alveg heil, en nú, 1967, er dálítið hrunið úr veggjunum á tveim stöðum, beggja vegna dyranna, aðallega að utan. Djúpudalaborgin er með fallegri mannvirkjum á Reykjanesskaganum.
Veðrið var frábært, logn, sól og um 20° hiti.
Hafnasel – vatnsstæði.
Loks var þegið handlagað kaffi hjá Garðari, sem upplýsti nánar um þróun byggðar og uppbyggingu Þorlákshafnar.
Á heimleiðinni var komið við í Þorlákshafnarseli (Hafnarseli) undir Votabergi.
Þorlákshafnarsel – uppdráttur.