Kaldársel

Farið var með Þórarni Björnssyni um Kaldársel, en hann er að vinna drög að bók um sögu staðarins. Þórarinn sýndi þátttakendum það sem hann hafði grafið upp um staðinn og FERLIRsfólk sýndi honum annað, s.s. Gvendarsel undir Gvendarselshæð, fjárhellana norðan við Borgarstand, Nátthagann í Nátthaga, Þorsteinshelli vestan Selgjár o.fl.

Kaldársel

Kaldársel – áletrun.

Þórarinn benti m.a. á letursteinana við Kaldá, en á nokkra þeirra eru klappaðar sálmatilvitnanir. Á einu er vísað í Davíðssálma þar sem segir að það tré, sem gróðursett er við lind og fær næga næringu, dafnar vel. Þetta mun hafa verið sett á steinana á 5. áratug 20. aldar af aðstandendum KFUMogK í Kaldárseli.
Kaðalhellir er þarna skammt norðvestar sem og Hreiðrið. Gamla gatan frá Kaldárseli til Hafnarfjarðar er mörkuð í klöppina á kafla sem og gamla gatan frá Kaldárseli til Krýsuvíkur.
Þetta var róleg ferð, en fróðleg. Nokkrir aðrir áhugasamir slógust í hópinn. Veður var frábært.

Kaldársel

Kaldársel – uppdráttur ÓSÁ.

Straumssel

Eftirfarandi er byggt á lýsingu Gísla Sigurðssonar um Straumssel:
“Gengið var í Straumssel frá Þorbjarnarstaða-Rauðamel, en þaðan er styst í selið, u.þ.b. 20 mínútna ganga. Straumsselsstígurinn austari liggur upp með Þorbjarnarstöðum Straumssel-222að austanverðu, suður á milli Stekkjarhólanna, um skarð í Jónasarhól, yfir Seljahraunið og upp í Toppukletta. Þar taka lárnar við allt upp undir Jónshöfða, yfir úfið hraun, Katlana, og á Straumsselshöfða. Þá sést að Straumsseli.
En að þessu sinni var gengið upp fyrir Rauðamelsgryfjurnar, upp með hraunkantinum og yfir tiltölulega slétt gróið hraun þangað til komið var inn á Gjáarselsstíg. Honum var fylgt að hraunkanti uns hann beygir til suðausturs. Þar hægra megin við stíginn er lítil varða. Farið var út af stígnum við vörðuna og beygt eftir stíg til

Straumssel

Straumssel – tilgáta.

suðurs. Stígurinn er vel greinilegur ef vel er að gáð, en litlar vörður á hólum hingað og þangað geta auðveldlega afvegaleitt fólk á þessari leið. Stígurinn liggur bestu leiðina upp og í gegnum hraunið. Hún er mjög greiðfær, en auðvelt er að láta glepjast af leið. Stígurinn liggur svo til beint að Straumsseli, en skömmu áður en komið er að því beygir hann til suðausturs og síðan til suðurs þannig að komið er að selinu úr norðaustri. Að þessu sinni skein sólin á tóttirnar og garðana í kring þegar komið var að því. Keilir reis tignarlegur í bakgrunni.

Straumssel-223

Op með fyrirhleðslu ofan við Neðri-Straumsselsfjárhella.

Straumssel er merkur staður. Það hefur upphaflega verið sel frá Straumi, en selið síðan þróast í bæ. Ber það þess merki. Þær eru stærri og rúmbetri en í öðrum seljum á Reykjanesi. Garðar eru allt í kringum túnin og er fallega hlaðinn stekkur sunnan við tóttirnar. Vatnsstæði er í skúta norðan við þær. Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895.
Guðmundur Guðmundsson keypti Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði. Leigði hann heimajörðina en stofnaði sjálfur nýtt lögbýli. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist að í Straumsseli um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Þegar hann gerði Straumssel að bústað sínum klagaði leiguliði hans í Straumi búsetuna til sýslumanns.

Straumssel

Straumsselið gamla.

Leiguliðinn var Bjarni Einarsson útvegsbóndi sem hafði búið þar allt frá því jörðin var í konungseigu. Honum þótti það vera skerðing á fornum rétti landseta að skipta jörðinni upp með þessum hætti. Guðmundur lofaði að fjölga ekki býlum í Straumslandi meðan Bjarni byggi þar. Bjarni gekk að sáttinni að því tilskyldu að bygging hins gamla Straumssels væri sér með öllu óviðkomandi, skyldu yfirvöld kæra búsetuna. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 ár með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Siguður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan.

Efri-Straumsselshellar

Efri-Straumsselshellar.

Í suðri sést í Hafurbjarnaholt, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum”.

Almenningur

Neðri-Straumsselshellar.

Eftir stutta dvöl í Straumsseli var haldið áfram til suðausturs upp frá selinu. Eftir um sjö mínútna gang var komið í Straumsselshella- neðri. Þetta er rúmgóður fjárhellir utan í holti og snýr opið til vesturs. Hlaðið er framan við munnann. [Skammt sunnan við opið mótar vel fyrir miklum hleðslum við op. Hleðslurnar eru fallnar og hafa lokað fyrir opið. Þarna mun vera op á öðrum fjárhelli, sem langur gangur átti að hafa verið inn í]. Áfram var haldið upp hraunið til suðausturs. Þegar komið var upp á brúnina eftir um fimm mínútna gang var komið í Straumselshella-efri. Þeir eru rúmgóður fjárhellir og vel manngengur. Hlaðið er fyrir munnan, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi. Í suðri blasir Gamlaþúfa við. Deilt hefur verið um hvort hún eða Markhelluhóll, sem er allnokkru sunnar, eigi að marka lendur aðliggjandi jarða.
Gengið var allt í kringum Straumsselið og umhverfi þess skoðað. Síðan var haldið til baka eftir vestari selsstígnum.
Frábært veður. Gangan tók um 1 og ½ klst.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Stapagata

Gengið var um Reiðskarð, gömlu Stapagötuna, sem er sérstaklega falleg á þessum kafla, og með Vogastapanum að Brekku. Þar eru fallegar hleðslur frá tíð gamla bæjarins og hlaðinn brunnur.

Stapi

Brekka undir Stapa.

Þaðan var gengið yfir að Stapabúð. Segja má að lítið þurfi annað en refta gömlu tóftirnar til að koma þeim í gagnið aftur. Utar er Hólmurinn. Enn má sjá minjar saltfiskverkunarinnar á honum, grunna og steinlagðar tröppur timburhúsa, gerði og garða. Utan í eiði sunnan við Hólmann lúrir gamall innrásarprammi.
Skoðaður var gamli brunnurinn norðan við Stapabúð sem og fjárhúsið. Hvönn og starir vaxa utangarðs og skammt undan landi syndir selur. Hvað er friðsælla en að setjast þarna niður um stund og virða fyrir sér haflífið og fagurt umhverfið.

Kerlingarbúðir

Leifar Kerlingarbúðar undir Stapa.

Gengið var að Kerlingabúð, sem eru með elstu minjum á Suðurnesjum, en eitt húsanna hafði verið byggt þar utan í stóran klett ofan við fjöruborðið. Sjórinn hefur smám saman verið að brjóta undir sig minjarnar.
Svæði þetta er bæði stórbrotið og sagnaríkt af mannlífsverkum. Lokst var gengið um Brekkuskarðið upp á Stapann og spölkorn eftir gömlu Stapagötunni áleiðis að Grímshól, niður á gamla Keflavíkurveginn og eftir honum að upphafsstað. Í leiðinni var kíkt á leifarnar af herspítalanum, sem þarna var undir sunnanverðum Stapanum fram yfir stríðsárin.
Veður var með ágætum. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Stapinn

Stapabúð.

Þorlákshafnarsel

Eftir að hafa hitt elsta íbúa Þorlákshafnar, heiðursmanninn og einn fróðasta leiðsögumann þar ums lóðir, Garðar, var ekki beðið boðanna heldur haldið að Arnarhreiðri og litið niður í jarðfallið. Arnarhreiðrið, einnig nefnt Arnarker, er staðsett í Leitarhrauni. Á undanförnum árum hefur Hellarannsóknarfélag Íslands bætt mjög aðgengi að hellinum. Skilti við veginn bendir á hellinn, stikur liggja að hellinum og stigi liggur ofan í hann. Rásin er um 490 m löng.

Fjallsendahelir

Í Fjallsendahelli.

Gengið var yfir móan yfir að að Fjallsendahelli þar sem fjárhellirinn var skoðaður. Hellirinn er vestan í Fjallsenda. Hann er hraunhellir. Inn úr opi hans eru tvennar dyr. Til hægri er sjálfur hellirinn, 1 m til 1,7 m hár og um 2 m víður, gólfið er allslétt. Hlaðinn garður lokar honum fyrir fé um 10 m fyrir innan dyr. Til vinstri er niður að fara í annan hellir, sem er að mestu hruninn, svo myndast hefur jarðfall um 4 – 5 m djúpt og 8 – 10 m í þvermál. Það heitir Gjögur. Úr því er skammt í hellisbotn. Fjallshellir er tvískiptur. Að ofan var, skv. heimildum, komið fyrir heyforða því um tíma var fé vistað í hellinum.

Hlíðarendahellir

Hlíðarendahellir.

Gengið var með Hlíðarenda að Hlíðarendahelli, stundum nefndur Hellir, og hann skoðaður. Hellirinn er yst undir Hellisbergi, ágætt fjárból. Hellirinn er sjávarhellir frá lokum ísaldar. Hefur um 40 m langur veggur verið hlaðinn upp með slútandi berginu. Kumltótt er þar neðan við Hellinn. Frá Hellinum er örskammt vestur í Hellisnef, en þar endar Bergið.

Þá var haldið Djúpudali. Markhólar eru hraunhólar í mörkum Hlíðarenda og Selvogs, talsverðan spöl fyrir ofan (norðan) þjóðveginn. Suður frá þeim heitir hraunið Djúpadalshraun. Í því sunnarlega er dalur eða lægð, og hólaþyrping kringum hann. Dalurinn heitir Djúpidalur, lítill en grösugur. Í og ofan við dalinn er fjölbreytilegur gróður og leiðbeindi einn þátttakanda hópnum um plöntubreiðuna, nefndi einstakar plöntur með nafni og útskýrði notagildi þeirra.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Fjárborg gömul er í Djúpadalshrauni, um miðja vegu milli þjóðvegarins og Djúpadals. Hún er borghlaðin, þ.e. hringlaga og veggirnir hallast lítils háttar inn, um 3,5 til 4 m á hæð, og um 5 m í þvermál að innan skv. lýsingu í örnefnaskrá fyrir Hlíðarenda. Dyr eru móti suðri, um 1 m á hæð og geta tvær kindur gengið samhliða um þær. Veggirnir eru á annan meter á þykkt. Árið 1921 var hún alveg heil, en nú, 1967, er dálítið hrunið úr veggjunum á tveim stöðum, beggja vegna dyranna, aðallega að utan. Djúpudalaborgin er með fallegri mannvirkjum á Reykjanesskaganum.
Veðrið var frábært, logn, sól og um 20° hiti.

Hafnasel

Hafnasel – vatnsstæði.

Loks var þegið handlagað kaffi hjá Garðari, sem upplýsti nánar um þróun byggðar og uppbyggingu Þorlákshafnar.
Á heimleiðinni var komið við í Þorlákshafnarseli (Hafnarseli) undir Votabergi.

Þorlákshafnarsel

Þorlákshafnarsel – uppdráttur.

Hraunssel

Haldið var norður Leggjabrjótshraun vestan við Núpshlíðarháls og gengið í sólskini að Hraunsseli.

Hraunssel

Hraunssel.

Selið er merkilegt fyrir að að hafa verið síðasta selið svo vitað sé sem notað var á Reykjanesi, eða allt fram til 1914. Á sumum kortum er það staðsett uppi á hálsinum, en er í norðan undir honum. Selið eru heillgar tóftir og stekkur. Ef vel er að gáð má sjá tóftir eldra sels á sléttlendi skammt norðar. Við þær er einng stekkur, nær jarðlægur. Hraunssels-Vatnsfell, fjallið gegnt selinu, dregur nafn sitt af því.

Núpshlíðarháls

Núpshlíðarháls – gígur.

Vegna góðs veðurs var ákveðið að ganga einnig á Núpshlíðarhorn og skoða gígana, sem þar eru, en þeir munu vera einstakir í sögu jarðfræðinnar. Fyrir ofan hraunárfarvegina klofnuðu gígarnir eftir endilöngu fjallinu svo sjá má þversnið þeirra og þannig átta sig enn betur á hvernig þeir, og aðrir sambærilegir gjallgígar, hafa myndast upp úr móbergsfjalli, eins og víða má sjá, s.s. inn með austanverðum Núpshlíðarhálsinum. Gígarnir eru hver öðrum fallegri og alveg þess virði að gefa sér góðan tíma til að ganga á milli þeirra, virða þá fyrir sér og skoða hraunæðarnar og – traðirnar, sem frá þeim liggja niður hlíðina að vestanverðu.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Hraunssel

Hraunssel- uppdráttur ÓSÁ.

Keilir

Gengið var á Keili í frábæru veðri. Lagt var af stað frá austurenda Oddafells, gengið að Höskuldarvallastíg og eftir honum yfir Höskuldarvallahraunið.

Keilir

Keilir.

Stígnum að fjallinu var fylgt eftir Þráinsskjaldarhrauni. Á leiðinni upp var áð um stund í Fyrstu búðum, ofarlega í klettunum til að jafna þrýstingsmuninn og virða fyrir sér Hrafnafell (raninn norður úr fjalinu) og Keilisbörnin.
FERLIRsfarar voru fyrstir til að skrá sig í gestabókina á toppnum þennan sumardaginn fyrsta. Sjá mátti smáa og stóra flokka mjakast áleiðis að fjallinu niður á sléttlendinu, sem hópurinn síðan mætti á leiðinni niður. Keilir er 379 m hár og tiltölulega auðveldur uppgöngu.

Keilir

Keilir – útsýnisskífa.

Niðurgangurinn er ekki síðri. Frábært útsýni er af fjallinu um norðan, austan og vestanverðan Reykjanesskagann. Þokan, sem hulið hafði topinn, vék frá stutt stund, í lotningu fyrir viljanum til að njóta.
Í bakaleiðinni var haldið til suðausturs yfir hraunið og eftir ónafngefnum stíg (Þórustaðastíg) austan Driffells yfir Höskuldarvallahraun að suðurenda Oddafells.
Gengið var austur með norðanverðu Oddafelli og skoðaðar hlaðnar kvíar og gamlar selsrústir, sem enn eru þar greinilegar, bæði utan í hraunkantinum og skammt austar, norðan í Oddafellinu.
Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Keilir

Keilir. Rauðhólar fremst.

Æsubúðir

Gengið var upp hraunána að Stóru-Eldborg, yfir gömlu þjóðleiðina milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur um Deildarháls, áfram upp Hvítskeggshvamm og upp að gígnum á Geitahlíð. Þarna eru heimkynni þokunnar.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Eftir stutta dvöl á gígbarminum, brá hún sér af bæ svo hið mikla og kyngimagnaða útsýni birtist þátttakendum í allri sinni dýrð. Í norðri birtust eldborgirnar fallegu austan við Kálfadalahlíðar, úfið mosahraunið, Vörðufell og Sveifluhálsinn.

Kleifarvatnið setti skarpan lit í landslagið. Sunnar lágu Klofningar, Litlahraun og Krýsuvíkurheiðin við augum, svo langt sem þau entust.

Hvítskeggshvammur

Hvítskeggshvammur. Stóra-Eldborg neðar.

Haldið var áfram upp að Æsubúðum í 382 metra hæð y.s. Í gömlum sögum er því haldið fram að Æsubúðir hafi verið gamall verslunarstaður jötna þá og þegar sjórinn náð upp að Geitahlíð og hægt var að leggja skipum við Hvítskegsshvamm. Í honum átti að vera járnkengur sem skipafesti, en lítið virðist vera á honum nú. Landslagið gaf ekki annað til kynna.
Af tindinum er eitt fegursta útsýni hér á landi yfir suðurströndina, fjöllin ofan Herdísarvíkurfjalls, Kleifarvatn, Sveifluháls, Krýsuvík og svæðið ofan Krýsuvíkurbjargs. Gengið var norður með Æsubúðum og síðan í hálfhring niður að brún Geitahlíðar ofan við Stóru-Eldborg.

Æsubúðir

Æsubúðir og nágrenni.

Þaðan sjást vel hinir þrír gígar borgarinnar, einnum þó sýnum stærstur, þ.e. Eldborgin sjálf. Geitahlíðin var skáskorin niður að Eldborginni og hún síðan skoðuð betur í nálægð. Auðvelt var að ganga niður gróna hrauntröðina að upphafsstað.
Huga þarf að umgengni við Eldborgina. Ferðamenn hafa sjálfir verið látnir um að að marka stíg upp um hlíðar hennar, en eðlilegast og án minnstu skemmda væri að ganga upp á hana frá gömlu þjóðleiðinni. Þaðan er stutt upp á brúnina og minnsta umhverfisraskið – just að proposal, eins og Norðmaðurinn sagði.
Frábært veður – Gangan tók 1 klst. og 40 mínútur.

Æsubúðir

Æsubúðir efst á Geitahlíð.

Hlið

Leitað var Skjónaleiðis að Hliði á Álftanesi, en á því var sagður vera áletrunarsteinn frá árinu 1807. Steinninn var friðlýstur árið 1965, en hann hefur verið talinn glataður. Hans er m.a. getið í Árbók Fornleifafélagsins 1966 í umfjöllun Kristjáns Eldjárns eftir að Gísli Sigurðsson sýndi honum hann árið 1963.

Álftanes

Skjónaleiði.

Gengið var skipulega um svæðið og tekin mið af fyrirliggjandi vísbendingum, s.s. „innan garða“ og „eigi langt frá“.
Eftir nokkra leit á svæðinu fannst steinninn. Einungis sást lítillega í hann þar sem algróðið er í kring og jarðvegurinn að færa steininn í kaf. Eftir að hafa flett jarðveginum af steininum kom áletrunin í ljós svo og ártalið 1807. Um er að ræða vísu, sem klöppuð er á steininn. Hann var settur þarna yfir dauðan og eftirsjáanlegan Skjóna bóndans á Hliði. Gamlar sagnir eru til um steininn, en sennilega vita fáir núlifandi af honum (árið er 2000). Torfið var sett varfærnislega yfir steininn aftur og allt lagfært svo sem það var.

Best er að ganga að steininum á auðri jörð að vetrarlagi því á sumrin grær hár grasagróður á svæðinu og hylur undirborðið.

Álftanes

Hlið – túnakort 1917.

Á Hliði eru ýmsar sögulegar minjar. Sjórinn hefur hins vegar verið að brjóta þær niður smám saman og taka þær til sín. Þarna væri því tilvalið að koma upp golfvelli ef það mætti verða til þess að varnargarðar yrðu settir upp áveðurs með ströndinni.
Áletrunin á steininum hefur varðveist vel, en líklegt má telja að hún hafi lengi framan af verið ofan jarðar, en síðan smám saman hulist jarðvegi, hann sigið og loks gróið yfir.
Vísan hefur varðveist á prenti. Hún mun vera eitthvað á þessa leið:

1807

HEIGDAN
SKIONA HIER EG TEL
HESTEN BEST AD
LIDE ÞESSE JÖRSA
ÞIENTE VEL ÞEGAR HAN
BIO A HLIDE

Öll N eru öfug í áletruninni eins og altítt er. Vísan, uppfærð, er því svona;

(Heygðan Skjóna hér ég tel,
hestinn bezt að liði;
þessi Jörsa þénti vel,
þegar hann bjó að Hliði).

Skjónaleiði

Skjónaleiði – letursteinn.

Jörsi mun hafa verið Jörundur Ólafsson, ættaðan frá Fossum í Andakíl; hann kom um aldamótin 1800 að Hliði og bjó þar lengi, dó 1843. Kristján Eldjárn nefndi staðinn „Skjónaleiði“.

Rétt er að árétta að skv. núgildandi lögum (sem vonandi verður breytt fljótlega) skal hafa samráð við Fornleifavernd ríkisins áður en fornleifar eru grafnar upp, en að þessu sinni var einungis ætlunin að leita staðfestingar á að umrædd sögn ætti við rök að styðjast eður ei. Gengið var frá öllu sem fyrr og steinninn hulinn torfi.

Hlið

Við Hlið á Álftanesi.

Í nýjum þjóðminjalögum, eða í reglugerð þeim tengdum (sem ekki er til m.v. núverandi lög), þarf að skapa eðlilegan og sjálfsagðan samhljóm á milli stofnana (fagfólks (lærðra)) og áhugasamtaka (leikinna) um söfnun og skráningu upplýsinga. Ljóst er að áhugafólk virðist eiga mun greiðari leið að t.d. eldra fólki (vegna áhuga síns og fórnfýsi (ekki krafist greiðslu fyrir ótakmarkað vinnuframlag)) á hinum ýmsu stöðum og svæðum, fólki sem býr að öllu jöfnu yfir miklum upplýsingum um fyrri búsetu og búsetuhætti, minjar og sögu.

Hlið

Hlið á Álftanesi.

Áhugafólk virðist einnig vera fundvísara á minjar, sem ekki virðast meðvitaðar fræðingum. Hinir síðarnefndu virðast of uppteknir af greiningu, flokkun og fyrirfram mótuðum listum (formúlum), en hinir fyrrnefndu geta leyft sér að „leika af fingrum fram“, óháð kerfisskráningunni. Hvorutveggja er gott, út af fyrir sig, en saman mætti ná enn betri árangri. Búa þarf til vettvang til þess að þessar upplýsingar, sem ávallt eru að glatast, nýtist sem skyldi. Vettvangurinn þarf ekki að vera stofnun (opinberra kvenna eða karla) með lögbundið vald. Hún getur alveg eins verið aðstaða þægilegs viðmóts og gagnkvæmrar virðingar – samtalsvettvangur „jafningja“ án þvingana.

Hlið

„Minjar“ á Hliði.

Fornigarður

Gamall slóði. Gamli vegur eða Selsgata, var genginn frá Fjárskjólshrauni niður í Herdísarvíkursel suður undan Herdísarvíkurhrauni ofan við Seljabót.

Herdísavíkursel

Í Herdísarvíkurseli.

Leiðin er mjög falleg í gegnum hraunið og vel greinileg. Selið, sem kúrir undir hraunkantinum mót suðri, hefur verið stórt og eru margar tóttir því tengdu, sem og vatnsstæði vestan við þær. Skoðaðar voru gamlar hlaðnar refagildrur á klöppunum austan Seljabótar og einnig rúningsréttin í sjálfri bótinni.
Þá var hraunsleiðin gengin til baka og haldið að Fornagarði austan Vogsósa, en garðurinn, sem getið er um í heimildum frá árinu 1275, náði frá Hlíðarvatni að Nesi í Selvogi. Um hefur verið að ræða mikið mannvirki í þá daga. Hann var því 7 km langur. Að sjálfsögðu hét hann ekki Fornigarður í upphafi, heldur Strandargarður, en eftir því sem aldirnar færðust yfir hann gerði nafnið það líka.
Lognið var á smáhreyfingu, en hlýtt.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Járngerðardys
Tómas Þorvaldsson, barnfæddur Grindvíkingur, nú nýlátinn [2. des. 2008], var manna fróðastur um sögu og örnefni í Grindavík.
Tómas ÞorvaldssonEkki er langt um liðið síðan hann gekk rösklega að Járngerðardysinni við Járngerðarstaði, staðnæmdist og sagði: „Hér er hún“. Um var að ræða gróna þúst undan beygju á veginum framan við Vík. „Sjómennirnir gengu til skips eftir sjávargötunni frá Járngerðarstöðum, staðnæmdust hér við dysina, tóku ofan og fóru með sjóferðarbæn. Síðan gengu þeir sjávargötuna áfram að Norðurvör, hérna fyrir neðan þar sem gamla bryggjan er nú.“
Nokkrum árum síðar lögðu ómeðvitaðir aðkomumenn malbik yfir dysina. Þeir höfðu ekki vit á því að ræða við Tómas áður en gengið var til verksins.
Framangreint er nú rifjað upp vegna þess að Tómas miðlaði af margvíslegum fróðleik um staðháttu í Grindavík fyrrum, benti á örnefni og sagði frá liðnum atburðum og horfnu fólki. Eitt af því, sem kom upp í samræðum við Tómas, voru gamlar þjóðleiðir til og frá Grindavík. Skipsstíginn þekkti hann eins og fingurna á sér, staðsetti Títublaðavörðuna og Dýrfinnuhelli, lýsti leiðinni í gegnum loftskeytastöðvarsvæðið o.m.fl. Skipsstígurinn var meginleiðin milli Járngerðarstaða og Njarðvíkna (Keflavíkur). Vogaveginn þekkti hann og mjög vel, enda meginliðin milli Járngerðarstaða og Innnesja.

Hemphóll

Varða á Hemphól.

Öðrum leiðum átti Tómas ekki jafn auðvelt með að lýsa, enda fæddur um það leyti er fyrsti bílvegurinn var lagður til Grindavíkur árið 1918 (fæddur 1919). Hann hafði þó farið Prestastíginn gömlu götuna norðan Sandfellshæðar) niður að Ósum, nokkrum sinnum austur í Krýsuvík eftir Krýsuvíkurleiðinni, um Hálsana ofan við Keili niður í Hraunin við Hafnarfjörð og auk þess hafði hann einu sinni ungur farið í fylgd manna um Brúnaveginn frá Hauni í Kúagerði og áfram inn til Reykjavíkur. Því miður var ekki rætt við hann nánar um síðastnefndu leiðina, hvorki um staðháttu né legu hennar. Eitt örnefni kom þó við sögu, en það var Presthóll [Hemphóll]. Ýmist var farið um hjallann (sunnan Húsfells) eða upp Skökugil og inn fyrir Mókletta. Hvar leiðin lá nákvæmlega um Brúnirnar efst í Strandarheiði liggur ekki ljóst fyrir. Það verður því verkefni næsta vors að sporrekja heiðina ofanverða með það að markmiði að reyna að staðsetja þennan svonefnda Brúnaveg.

Sigurður Gíslason

Líklega hefur leiðin ekki verið fjölfarin, en þó hefur hún verið farin af mönnum er þekktu vel til staðhátta og vissu hvernig og hvar væri hægt að fara auðveldlega á millum svæða á sem skemmstum tíma.
Sigurður Gíslason, bóndi á Hrauni, sagðist aðspurður oft hafa heyrt förður sinn, Gísla Hafliðason, tala um  Brúanveginn. Sjálfur hefði Sigurður ekki farið þá leið, en hún hefði verið aðalleiðin frá Hrauni niður í Kúagerði fyrrum. Farið var þá upp með Húsfelli og inn með því að vestanverðu, áfram inn á Sandakraveg og áfram norður með vestanverðu Fagradalsfjalli, inn á Brúnirnar og á ská niður í Kúagerði. Faðir hans, sem hafi verið frár á fæti, hefði yfirleitt farið þessa leið einn eða sem fylgdarmaður með öðrum fyrir og eftir aldamótin 1900.

Reykjanes

Reykjanesskagi – fornar götur.