Straumur

Gengið var frá Straumi að Þýskubúð og síðan að Jónsbúð um Tjörvagerði. Gerðið mun hafa verið notað sem nátthagi. Við Þýskubúð er talið að hafi verið verslunarhöfn á miðöldum og þangað sigldu þýzkir kaupmenn.

Straumur

Straumur 1935.

Straumshúsið var byggt árið 1926 af Bjarna Bjarnasyni, skólastjóra Barnaskóla Hafnarfjarðar, sem ætlaði að reka þar stórbú. Árið 1948 keypti Hafnarfjarðarbær húsið og leigði það til ýmisskonar starfsemi.
Tóftir Jónsbúðar eru lýsandi fyrir kot þeirra tíma. Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur segir svo um Jónsbúð í fornleifaskýrslu sinni: “Rústirnar við Jónsbúð eru nær óspilltar af mannavöldum og vélvæðing nútímans hefur ekki náð að eyða eða fela mannvirki sem þar hafa staðið. Minjar af slíku tagi er ekki að finna annars staðar á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Því eru minjarnar við Jónsbúð mikilvægur minnisvarði um ákveðna búskaparhætti fyrri tíma og styrkur þeirra fellst fyrst og fremst í heildinni, þ.e.a.s. staðurinn geymir allar þær minjar sem búast má við að þurrabúð/hjáleiga geymi svo sem bæjarhús, túngarð, skeppnuhús, vör, vörslugarð, sólþurrkunarreit, vatnsból o.fl.

Jónsbúð

Jónsbúð – uppdráttur BE.

Jónsbúðar er ekki getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, en þess ber að geta að þurrabúða er ekki heldur getið við jarðirnar Lónakot, Óttarstaði og Þorbjarnarstaði, þó að enginn vafi sé á því að þurrabúðir hafi verið við eitthvert þessara býla, ef ekki öll. Hins vegar er hjáleiga getið við Óttarsstaði, Þorbjarnarstaði og Straums. Ekki er víst að greinarmunur hafi verið gerður á hjáleigu og þurrabúð og kemur jafnvel til greina að þær hjáleigur sem voru í eyði í byrjun 18 aldar hafi í raun verið þurrabúðir.

Straumur

Straumur 1935.

Í Manntali árið 1845 er þess getið að tómthúsmaður hafi verið í Straumi, Björn Pálsson að nafni. Var hann giftur Margréti Snorradóttur og áttu þau árs gamlan son, Jón að nafni (Manntal á Íslandi 1845. Suðuramt. Reykjavík 1982. :406). Bóndinn í Straumi hét þá Bjarni Einarsson. Ekki er tekið fram hvar Björn tómthúsmaður bjó nákvæmlega en vel getur verið að hann hafi búið í Jónsbúð.Â

Í manntali árið 1910 er Jónsbúð nefnd sem þurrabúð í landi Straums (Manntal á Íslandi 1910. IV. Gullbringusýsla og Kjósarsýsla. Reykjavík 1998.:228). Þá bjó þar Gunnar Jónsson, sjómaður á þilskipi, Sigríður Hannesdóttir kona hans og Sigríður dóttir þeirra. Þau komu frá Meðalholti í Flóa árið 1882

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Í manntalinu er bæjarhúsum lýst og um Jónsbúð er sagt að þar hafi verið torfbær með einu heilþili og einu hálfþili.
Bæjarstæði Jónsbúðar er óspillt af seinni tíma athöfnum. Þar eru nær öll mannvirki byggð úr grjóti hvort sem um er að ræða bæjarhús, túngarð eða brunn. Grjótið er fengið úr næsta nágrenni, sérstaklega í hrauninu í kring, en yfirleitt ekki úr fjörunni eða sjávarkambinum. Sunnan við bæjarhúsinn er mikill og áberandi klettur og í gjótu við hann er sagt að hafi verið kolageymsla. Kletturinn er rakinn álfa- eða huldumannabústaður, þó ég þekki engar sögur af slíku um þennan klett.

Jónsbúð

Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.

Sennilega er ruslahaugurinn nokkra metra vestan við bæjarhúsið. Norðan megin við bæjarhúsið er rúst hjallsins (nr. 2) og austan við bæjarhúsið er sólþurrkunarreiturinn (nr. 3). Rúman metra vestan af bænum er garður (vörslugarður, nr. 4). Norðan við bæjarstæðið, í Jónsbúðartjörn sunnanverðri, er brunnur (nr. 7) og vatnsból (nr. 8). Skammt vestur af bænum er rúst, áfast við túngarðinn, sem er sennilega fjárhús (nr. 5). Vestan megin við túngarðinn hefur verið stekkur (nr. 9) og nátthagi umhverfis hann (ekki teiknað hér).
Austan við bæinn er vörin og þar má búast við að bátur eða bátar hafi verið dregnir yfir sjávarkambinn og hafðir á þurru vestan megin við sjávarkambinn.

Óttarsstaðir

Brunnur við Óttarsstaði eystri.

Gengið var um Óttarstaði, skoðaðar minjar, sem þar eru, s.s. útieldhús, útihús og brunnar. Yngsti brunnurinn er austan við Óttarstaði eystri (1944), annar sunnan við húsið og sennilega sá elsti norðan Óttarstaða vestri. Að sögn Bjarna eru eldri minjar verslunar norðan Óttarstaða. Sést móta fyrir útlínum húsa þar skammt ofan við fjörðugarðinn ef vel er að gáð. Miklir og fallegir grjótgarðar eru um Óttarstaðatúnin og fjárréttin er fagurlega formuð undir háum klapparhól sunnan vestari bæjarins.

Lónakot

Lónakotsbærinn.

Gengið var með fjörunni yfir að Lónakoti, minjarnar þar skoðaðar sem og vatnsbólið, sem er í tjörninni fast sunnan við tóftir bæjarins. Skeljasandsfjara er í lóninu næst bænum og skemmtilegt er fyrir börn að busla þar á góðviðrisdögum. Búið var í Lónakoti framundir 1930, en eftir það var byggt þar myndarlegt sumarhús, sem er löngu fallið. Umhverfis túnið eru Lónakotsvatnagarðar. Nyrst í því eru Norðurfjárhúsin. Sunnan tóftanna er Gjögur.
Haldið var upp eftir Lónakotsselsstíg og síðan beygt til austurs eftir varðaðri götu áleiðis að Straumi. Við háa vörðu á Sigurðarhæð var beygt til hægri og gengið að Kúaréttinni, tilvöldum skjólgóðum áningarstað. Þaðan er stutt í Straumsréttina við Urtartjörn (Brunntjörn) og yfir að Straumi.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 2 klst og 31 mín.

Straumur

Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.

Kubbur

Gengið var um Arnarseturshraun undir leiðsögn Björns Hróarssonar, hellafræðings.

Dollan

Dollan.

Fyrst var farið í Dolluna, sem rétt við gamla Grindavíkurveginn við bílastæðið á Gýghæð. Dollan opnaðist er þakið féll niður undan vörubíl þegar verið var að vinna við nýja veginn, en þá var svæðið þarna notað sem athafnasvæði verktakans. Opið er svo til alveg vestan til í svæðinu. Dýptin á fast er um mannhæð og hallar undir á alla vegu. Þarna þyrfti að vera góður stigi fyrir ferðafólk því hellirinn er aðgengilegur svona nálægt vegi. Fyrst þyrfti þó að hreinsa upp drasl, sem safnast hefur neðan við opið. Björn skellti sér niður og skoðaði hellinn. Hann nær spölkorn upp á við til austurs og einnig til vesturs og uppfyllir því öll skilyrði til að geta flokkast sem góður hellir.

Kuppbur

Op í Kubbnum.

Næst var gengið áfram niður hraunið og hraunrásinni fylgt til vesturs. Eftir u.þ.b. 500 metra endar rásin og við tekur hellir. Hann liggur í hægri boga og endar eftir u.þ.b. 50 metra. Þar er stórt op í gólfinu og sést niður á neðri hæðina. Mannhæða hátt er niður. Eftir að hafa rutt niður grjóti til að búa til lendingarpall var hoppað niður. Þar liggur víð og góð rás til austurs, undir gólfið sem áður var gengið. Gólfið í rásinni er alveg hreint og slétt. Þessi hluti endaði eftir u.þ.b. 50 metra. Þar inni var bréfmiði á vegg, en letrið var ólæsilegt. Þó mátti greina dagsetningu og ártalið 1992. Þá var haldið til vesturs. Eftir um 30 metra var komið út í jarðfall. Úr því hélt rásin áfram um 20 metra uns komið var út úr henni á ný. Miðað við lýsingu á Hellinum Kubb gæti þetta vel verið hann. GPS-punktur af hellinum sýndi staðsetningu u.þ.b. 20 metrum norðar, en þrátt fyrir leit þar fannst ekkert op. Miðað við nýjan GPS-punkt, sem tekin var þar, gæti hér verið um misvísun að ræða. Um Kubb segir m.a. í lýsingu: “Kubbur er sennilega í sama hellakerfi og Dollan. Kubbur er á tveimur hæðum”.

Arnarsetur

Op í Arnarseturshrauni.

Annað op fannst skammt austan við þann stað, næstum mannhæða djúpt. Björn hoppaði þar ofan í. Þarna reyndist vera hellir í sömu stefnu og hinir hellarnir, u.þ.b. 30 metra langur. Þessi hellir hefur ekki verið nefndur, en fær hér vinnuheitið Naddur í merkingunni nálægur. Erfitt er að koma auga á holuna nema ganga svo til beint á hana.
Ekki voru meðferðis GPS-punkt á Hnapp, en um hann er til eftirfarandi lýsing: “Hann er með skemmtilegri hellum, sem hægt er að komast í. Hann er ekki mjög langur, en hefur upp á margt að bjóða. Inngangurinn er í gegnum þröngt gasútstreymisop.

Hnappur

Í Hnappnum.

Strax þegar niður er komið er hægt að fara á efri eða neðri hæð. Efri hæðin lokast fljótt, en neðri hæðin liggur góðan spöl inn þar til komið er að hraunfossi. Fyrir innan fossinn lækkar gólfið verulega. Þá er maður staddur í miðjum hellinum í stórum sal. Út frá þessum sal liggja rásir í margar áttir og ein þeirra liggur í hring”. Fróðlegt væri að fá nánari staðsetningu eða leiðarlýsingu á Hnapp. (Eftir að þessi leiðarlýsing var skrifuð kynnti Þorvaldur Örn, kennari í Vogum, að hann hefði fyrrum farið í Arnarseturshraun með félaga sínum, Geirdal. Þeir hefðu rissað Hnappinn upp og nefnt hellinn Geirdal).
Haldið var upp að vegavinnubyrgjunum austan Grindavíkurvegar og áfram upp fyrir þau. Þar eru hellar í hraunrás. Rásin er fallin niður á tveimur stöðum og er efri hlutinn öllu lengri, eða um 50 metra langur. Hann endar í hafti, sem aðskilur hann og efsta hluta hinnar miklu hraunrásar úr Arnarsetursgígnum. Í heildina er þessi hallahluti um 100 metrar á lengd. Þeir fá vinnuheitið Gegnumgangur. Á bökkum rásarinnar eru margar stórar og fallegar hraunæðar.

Dátahellir

Dátahellir.

Loks var gengið niður í Dátahelli. Hann nefnist svo vegna þess að í honum fannst beinagrind er talin er hafa verið af amerískum hermanni er týndist í hrauninu að vetrarlagi allmörgum árum áður. Við skoðun reyndist hellirinn vera um 40 metra langur.
Allar staðsetningar voru samviskusamlega skráðar, en þegar heim var komið uppgötvaðist að blaðið með öllum tölunum hafði gleymst við Dátahelli.

UPDATE:

Arnarseturshellar

Í Arnarseturshellum.

Farið var aftur í Arnarseturshraun og GPS-punktar endurteknir. Við það fannst hellir, er nefndur hefur verið Skjóli.
Farið er inn í Skjóla, sem er nokkuð norðan við Nadda, inn í hraunbólu. Inn úr henni liggja rásir bæði til norðurs og suðurs. Ýmislegt bendir til að þetta séu yfirborðsrásir, en þarna örskammt frá er allnokkurt jarðfall er bendir til að þar undir hafi runnið talsvert hraun. Skjóli var ekki kannaður að þessu sinni, einungis framan við rásirnar er liggja inn.

Arnarseturshellar

Í Arnarseturshellum.

Á leiðinni til baka var aftur hugað að hraunhól, sem lítil varða stendur á, og skoðaður hafði verið daginn áður. Hóllinn er skammt vestan við Dolluna. Í honum eru tvö gasuppstreymisop. Eystra opið er þröngt, en liggur inn til norðurs og víttkar síðan og hallar niður á við. Þarna gæti vel verið um opið á Hnapp að ræða. Viðkvæm fötin gáfu ekki tækifæri til að elta rásina lengra niður að þessu sinni, en þarna er svolítið skrið til að byrja með.
Frábært veður.

Hestshellir

Hestshellir.

Rauðshellir

Ákveðið var að að taka hellahring í Kaldárseli.

Kétshellir

Ketshellir / Setbergsselsfjárhellir.

Byrjað var á að kíkja á Hamarkotsselshelli (Selhellir) og Setbergsselshelli (Ketshellir) undir Setbergshlíð. Hellirinn er um 15 metra langur og opnast í báða enda. Hleðslur eru fyrir opum, einkum Setbergsselshellismegin. Þverhleðsla skiptir hellinum fyrir miðju. Stórar hraunhellur hafa fallið úr þaki inngangsins að norðanverðu, en hellirinn sjálfur hefur veitt fé (og reyndar geitumundir það síðasta, gott skjól á meðan var. Gróið er í kringum Setbergsselið og fallegur stekkur er þar sem Selvogsgatan liðast upp hálsinn, í átt að Kershelli og Smyrlabúðahrauni. Selið er undir hæðinni, utan í Gráhelluhrauninu, en innan við hraunkantinn er enn eitt hellisopið.

Kershellir

Kershellir.

Kershellir er bæði aðgengilegur og rúmgóður. Hann opnast innan úr keri efst á hraunbrún. Ofan við opið er stór varða. Innan úr Kershelli er Hvatshellir, sá sem drengir Friðiks Friðrikssonar söfnuðust saman í á leið þeirra í Kaldársel. Síðar var lagður vegur að búðum KFUM er reistar voru þar. Gamla Kaldársel er undir suðurvegg búðanna (hússins).
Þá voru skoðaðir Kaldárselsfjárhellarnir er FERLIR opnaði fyrir u.þ.b. þremur árum. Þá voru engin spor við munnana og alls engin innan þeirra. Greinilegt er að margir hafa litið þarna við síðan þá.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Ummerki eftir heykuml er miðsvæðis, en í nyrsta fjárskjólinu er hlaðinn miðgarður. Syðsta fjárskjólið er stærst og aðgengilegast. Við munnann hafði þröstur verpt fjórum eggjum í hreiður á syllu við innganginn. Fylgdist hann vel með mannaferðum og lét í sér heyra.
Lokst var strikið tekið til austurs áleiðis að Helgadalshellunum; Hundraðmetrahelli og Rauðshelli. Gengið var eftir hleðslunni undir gömlu vatnsleiðsluna úr Kaldárbotnum, henni fylgt áleiðis til suðausturs yfir Lambagjá og síðan vent til austurs að Helgadal. Greinilegt var að einhverjir hafa verið duglegir að hirða grjót úr hleðslunni á köflum. Á leiðinni mátti sjá falleg hraunreipi í helluhrauninu. Ekki var litið inn í Níutíumetrahellinn að þessu sinn, en höfðinu hins vegarstungið niður í Vatnshelli. heyra mátti tónlist vatnsins er dropar þess lentu á sléttum tærum vatnsfletinum og bergmáluðu inni í holrúminu.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Þegar komið var að Rauðshelli skein sólin á munnann og hleðslurnar þar fyrir. Einhverjir hafa í seinni tíð nefnt hellinn Pólverjahelli, en þegar hann er skoðaður gaumgæfilega fer hin gamla nafngift ekki á milli mála. Víða í hellinum hefur rauðleitt hraunið runnið upp á veggina og makað hann litskrúðugan. Hleðslurnar fyrir opum og gróið jarðfallið benda til þess að þarna hafi einhvern tímann verið selstaða. Þá staðfestir forn stekkur norðan við það þá kenningu. Misgengi liggur með norðanverðum Helgadal til austurs og vesturs. Undir því á einum stað sést móta fyrir hleðslum.

Helgadalur

Op Hundraðmetrahellisins.

Farið var inn í Hundarmetrahellinn og skoðaðir raunbekkirnir með veggum og einnig litið á hraunfossinn inn undir jarðfallinu við enda hans. Ofan við hraunfossin er rás upp úr hrauninu sunnan við og undir sauðfjárveikigirðinguna, sem þarna er.
Helgafell skartaði sínu fegursta í kvöldsólinni, sem og Valahnúkar og Kaldárbotnar.

Frábært veður.

Helgadalur

Hleðslur í Rauðshelli.

Oddafellssel

Gengið var frá nyrðri enda Oddafells frá Höskuldarvöllum og suður með vestanverðu fellinu. Gott rými er á milli hlíðarinnar og mosahraunsins.

Oddafellsel

Oddafellsel – sel frá Kálfatjörn.

Eftir stutta göngu var komið að tóftum hluta Oddafellsseljanna. Gengið er yfir eina tóftina, en sjá má móta fyrir öðrum. Stekkur eða kví er utan í hraunkantinum. Skammt sunnar eru fleiri tóftir. Er þá komið framhjá stíg er liggur inn á hraunið, áleiðis að Keili. Sunnan við þær eru hleðslur, stekkur og gerði, utar með hraunkantinum. Minni-Vatnsleysa hafði þarna selstöðu fyrrum. Eldri stígur (Oddafellsselsstígur) liggur inn í hraunið frá hleðslunum og kemur inn á hinn stíginn eftir stutta göngu. Stígnum var síðan fylgt í gegnum hraunið. Hann er tiltölulega greiðfær.

Keilir

Keilir – handan hraunsins.

Nýr, ógreiðfærari, stígur hefur verið lagður yfir hraunið nánast samhliða, líklega fyrir Keilisfara. Þegar út úr hrauninu var komið var stígnum fylgt áfram áleiðis að Keili yfir móa og mela. Á leiðinni mátti sjá annan stíg liggja þvert á hann, Þórustaðastíginn.
Göngustíg var fylgt upp á Keili. Tiltölulega auðvelt er að ganga upp hlíð fjallsins, aflíðandi í fyrstu, en brattara ofar. Áð var um stund á móbergssyllu að 2/3 leiðarinnar genginni og útsýnið dásamað.

Keilir

Gengið á keili.

Rétt áður en komið var upp var komið uppá hraunnef þar sem horft er niður hinum megin. Sumum finnst nóg um, en ástæðulaust er að örvænta. Af toppnum er útsýni til allra átta. Sjórinn í norðvestri, Stór-Hafnarfjarðarsvæðið í norðri, Esjan og tengdafjöll hennar, Vífilssfell, Bláfjöllin, Þríhnúkar, Lönguhlíð, Helgafell, Fjallið eina, Mávahlíðar, Trölladyngja, Núpshlíðarháls, Driffell, Stóri Hrútur, Litli Keilir, Fagradalsfjöllin, Skógfellin, Þorbjarnarfell og Sandfellsfjöllin (Súlur, Þórðarfell og Stapafell, eða það sem eftir er af því) o.fl. o.fl. Keilir er móbergsfjall (379 m.y.s). Hann varð til við gos undir jökli á ísöld. Hann er helst þekktur vegna sérkennilegrar strýtumyndaðrar lögunar sinnar sem er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju. Tapinn ver það gegn veðrun.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Gengið var niður Keili um stíg að austanverðu og þaðan yfir á stíg norðan Driffells er liggur upp af heiðinni sunnan Keilis. Sást hann vel á köflum ofan af fjallinu þar sem hann lá á ská niður heiðina til vestnorðvesturs. Honum var fylgt yfir úfið hraunið austan fellsins. Um stutt hraunhaft er að ræða. Handan þess er stutt yfir í Hverinn eina, en mann má muna sinn fífil fegurri, Nú stendur fremur lítill gufustrókur upp úr hveraholunni, en á árum áður sást þessi stóri gufuhver alla leið frá Reykjavík í staðviðri og góðu skyggni. Hitasvæði er umhverfis hverinn og ber umhverfið þess glögg merki.
Oddafellinu var fylgt til norðurs að austanverðu, gengið um Höskuldarvelli og komið að upphafsstað á tilskyldum tíma.
Frábært veður – sól og stilla. Gangan tók 3 klst og 59 mín.

Oddafellssel

Í Oddafellsseli.

Lambafellsklofi

Gengið var frá Eldborg austan við Höskuldarvelli að Lambafelli. Ætlunin var að fara um Lambafellsklofa, misgengi og gjá svo til í gegnum fellið.

Eldborg

Eldborg undir Dyngju.

Eldborgin er ein hinna fallegu gíga á Reykjanesi, sem hafa orðið efnisflutningum að bráð. Aðrir slíkir eru t.d. Moshóll, sem Ísólfsskálavegur liggur nú þvert í gegnum sunnan Núpshlíðarhorns, Litla-Eldborg undir Geitahlíð og Rauðhóll norðn við Stampana á Reykjanesi. Einnig mætti nefna Rauðhól undir Sandfellshæðum norðan Vatnsskarðs, Óbrinnishólagíginn og Rauðhóla norðan Elliðavatns.
Ef þessi merkilegu og tignarleg jarðfræðifyrirbæri hefðu verið látin óhreyfð væri Reykjanesskaginn enn verðmætari fyrir bragðið. En því miður er nú of seint að snúa ofan af því, en hins vegar ættu þessar skemmdir að geta orðið áminning til framtíðar.

Lambafellsklofi

Í Lambafellsklofa.

Um 15 mín. gangur er að Lambafellsklofa (sem sumir kalla Lambagjá). Þegar komið er að honum neðan frá opnast gjáin skyndilega og inn eftir henni sést í mjóan gang með háa hamraveggi á báðar hendur. Tófugras vex á brotabergsbörmum og þegar stillt er í veðri í ágústmánuði er gjáin venjulega full af fiðrildum.
Gengið var eftir gjánni og upp úr henni að sunnanverðu. Nokkuð bratt er upp en tiltölulega auðvelt ef rólega er farið. Uppi er fallegt útsýni yfir Dyngnahraunið og yfir að Trölladyngju (380 m.ys.). Sennilega er eitt fallegasta sjónarhornið að henni frá þessum stað.
Gengið var yfir Lambafellið, yfir úfið hraun sunnan þess og inn á jarðhitasvæði norðan Eldborgar. Þar eru hleðslur á einum stað. Munu þær eiga að vera skjól við gufubað í einu gufuuppstreyminu.

Sogin

Sogin. Trölladyngja og Grænadyngja fjær.

Haldið var eftir slóða austur fyrir Trölladyngju og síðan beygt til hægri inn kvos á milli hennar og Grænudyngju. Kvosinni var fylgt upp aflíðandi hlíðina milli dyngnanna. Þegar upp var komið tók við grasi gróin skjólsæl laut, sennilega hluti af hinum forna gíg, en dyngjunar eru að mestu móbergsfjöll. Jökullinn hefur síðan sorfið sig niður milli kollana.

Sunnan Grænudyngju er einstaklega fallegt klettabelti, sem auðvelt er að ganga upp með þegar komið er upp frá Lækjarvöllum norðan Djúpavatns. Frá því er fallegt útsýni yfir Sogin, Fíflavallafjall, Hörðuvallaklof og Hörðuvelli, Hrútafell og Sveifluháls. Tiltölulega auðvelt er að ganga niður með norðanverðri Grænudyngju og í kvosina, sem fyrr var nefnd.

Sog

Í Sogum.

Gengið var áfram niður hlíðina til vesturs, að Sogaselsgíg. Fallegt útsýni er á Söðul, upp Sogin þar sem litadýrðin ræður ríkjum, yfir að fagurlituðu Oddafellinu, sem myndar þarna sérstæðan forgrunn fyrir Keili, sem og yfir að Selsvöllum vestan við Núpshlíðarháls. Í Sogunum er jarðhiti og eftir Sogadal rennur lækur. Höskuldavellir og Sóleyjarkriki eru meira og minna mynduð úr jarðvegi þaðan úr hlíðunum. Í læknum má finna litskrúðuga smásteina, hvíta, rauða og græna, ef vel er að gáð.
Í Sogaseli eru tóftir þriggja seljahúsa og a.m.k. tveir stekkir. Auk þess er ein tóft utan gígsins.
Slóða var fylgt niður með Trölladyngju og að Eldborg.
Veður var frábært – sól og hiti. Gangan tók 3 klst og 2 mín.

Grænadyngja

Grænadyngja. Sogin framar.

Bláfjallahellar

Ætlunin var að skoða hellana í Strompahrauni vestan Bláfjalla. Hellarnir eru norðan undir svonefndum Hellisgíg, sem er nyrstur Strompanna. Skoðaðir voru 11 hellar, auk eins, sem ekki hafði verið skráður; Djúpihellir – Langihellir – Goðahellir – Rótarhellir – Tanngarðshellir – Hurðarbakshellir – Ranghali (Gljái) – Rósahellir – Smáhellir – Krókudílahellir – Rósarhellir – Smáhellir – Bátahellir – (Litla Gatið).

Langihellir

Í Langahelli.

1. Langihellir700 metra langur. Hann er vestan við Djúpahelli. Meginhellirinn er um 300 metra langur. Ekkert hrun er í honum og því auðveldur í umgengni. Haldið var upp hraunrásina. Á tveimur stöðum skín dagsbirtan inn, en síðan tekur við langur gangur þar sem hellirinn lækkar nokkuð. Innar hækkar hann aftur og skiptist hann þá í tvær megináttir. Þessar rásir ligga um mjög sveran hraunstöpul. Þegar inn fyrir er komið sést falleg hraunsúla. Utan í henni, á stalli, eru allmörg hraunkerti. Hraunkerti eru innig á gólfum. Skammt þarna fyrir innan er útgangur upp úr hraunrásinni. Áður hafa verið margir dropasteinar í efri hluta hellisins, en nú er búið að brjóta þá flesta.

Blafjallahellar-223

Í Rótarhelli.

2. Rótahellir er um 210 metra langur. Þegar komið er niður um gatið, sem er hraunketill, tekur við víð rás. Þröng rás liggur inn úr henni og þarf að skríða á nokkurra metra kafla. Þá er komið inn í helgidóminn. Langar rætur teygja sig niður úr loftinu. Þverhellir er þar fyrir innan svo og við rás með nokkrum þrengri. Innan við eina rásina tekur við víður hellir, sem lokast þar. Rótarhellir er nyrstur Bláfjallahellanna og einn þeirra séstæðasti.

Blafjallahellar-222

Í Tanngarðshelli.

3. Tanngarðshellir er um 190 metra langur. Hann er á milli Krókudílahellis og Rótahellis. Farið er niður og inn í sæmilega vítt op til norðurs. Þar skammt fyrir innan er tanngarðurinn utan í nokkuð stórum flór. Farið er yfir haft og þá blasir við fallegur flór og mikil litadýrð. Í lofti eru separ. Hellirinn endar í stórum geimi. Þótt hann sé ekki langur er hann einstaklega fallegur.
Fara þarf varfærnum skrefum hellinn – líkt og um alla aðra slíka á svæðinu.

Blafjallahellar-225

Í Djúpahelli.

4. Djúpihellir er um 150 metra langur. Farið er inn um mjög stórt op í jarðfalli. Hrun er í hellinum, en vegna þess hversu stór hann er kemur það ekki að sök. Dagsbirta kemur niður í hvelfinguna um op á loftinu. Farið er yfir jarðfall og niður og inn um hrunda rás. Þá er komið inn í aðra hvelfingu á þremur hæðum. Liggja hraunrásir þar út frá á hverri hæð, en engin þeirra virðist afgerandi. Lofthæð þarna er a.m.k. 15 metrar.

5. Ranghali (Gljái) er um 100 metra langur. Annað nafn á hellinum er Gljái, en þegar komið er niður um opið eru glansandi hraunfletir utan við þrengri rás. Þegar henni er fylgt er komið inn í víðara rými, en hellirinn endar í hruni. Fallegt sepaloft er í inni hellinum.

Blafjallahellar-224

Í Rósahellir.

6. Rósahellir er um 70 metra langur. Hann er rétt vestan við vestari veginn að skíðasvæðunum og um 15 metra ofan við Kóngfellhraunið. Um miða vegu greinist hann í tvennt, en vinstra rásin nær ekki nema um 20 metra. Hægri rásin nær um 30 metra inn og á gólfi hennar eru fallegt rósamynstur á gólfi.

7. Bátahellir er stuttur, ekki nema um 30 metra langur. Hann er opinn í báða enda, en á gólfi hans mótar fyrir þremur aflöngu bátalaga hraunmyndun. Myndrænt fyrirbæri, líkt og Tanngarðshellir.

8. Smáhellir er fremur stuttur, eða um 20 metra langur. Þegar inn er komið tekur við þröng op, en þar fyrir innan er fallegt hýsi. Falleg hraunrás kemur út úr vegg hellisins innst í honum.

Blafjallahellar-226

Í Krókudílahelli.

9. Krókudílahellir er sérkennilegur, en fremur stuttur. Opið liggur upp úr geimi, til vinstri og upp þegar inn er komið. Þegar í gegnum hana er komið liggur þverrás þar fyrir innan. Þegar beygt er til vinstri má sjá stallaðan hraunflór og er hann eins og krókudílahaus í laginu. Fyrir innan endar hellirinn í þröngri rás.

10. Goðahellir er nyrsti hluti Djúpahellisrásarinnar (auk Bátshellis). Þegar komið er niður í hellinn tekur við mikið gímald. Hellirinn er um 100 metra langur. Farið er inn um þrengsli í botni hans og er þá komið í fremur lágt rými með fallegri brúnni glermyndaðri hrauntjörn á gólfinu.

11. Hurðarbakshellir er stuttur afgangur vestan við Goðahelli. Hann er þó vissulega skoðunarinnar virði.

12. Litla Gatið er fremur lítið, svo til beint niður í jörðina, u.þ.b. hálf mannshæð. Rásin, sem liggur til suðurs, er um 12 m löng, en með fallegum myndunum; tveimur brúnleitum litlum hraunfossum og flór í smækkaðri mynd.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Tanngarðshellir

Í Tanngarðshelli.

Brennisteinsfjöll

Gengið var frá Bláfjallavegi suður Selvogsgötu áleiðis upp Kerlingarskarð. Við götuna, þegar komið er svo til miðja vegu upp í skarðið, eru nokkrir hellar, hér nefndir Hallahellar eftir einum þáttttakenda, sem var hvað áhugasamastur um leitina.

Kerlingarskarð

Tóft brennisteinsvinnslumanna undir Kerlingarskarði,

Einn þeirra (vinstra megin við götuna) er í sæmilegu jarðfalli og gengið inn í hann til suðurs. Þegar inn er komið liggja rásir bæði til hægri og vinstri. Hægri rásin opnast út en sú vinstri lokast fljótlega. Í loftinu er einstaklega fallegt rósamynstur. Skammt norðar er mjög stórt jarðfall, sem band þarf til að komast niður í. Það hefur ekki verið kannað, svo vitað sé.
Rúst af búðum brennisteinsnámumanna er norðan til undir Kerlingarskarði. Efst í skarðinu (vinstra megin) er drykkjarsteinn, sem ferðalangar hafa löngum stólað á að væri vatn í. Svo reyndist vera að þessu sinni. Fokið hafði í skálina og var tækifærið notað og hreinsað upp úr henni. Drykkjarsteinn átti einnig að hafa verið í Grindarskörðum, en hann virðist hafa verið fjarlægður.

Brennisteinsfjöll

Kistufellsgígur.

Gengið var til vesturs ofan við Bolla, framhjá fallegum hraungígum, inn eftir tiltölulega sléttum helluhraunsdal og áleiðis að Kistufelli. Staðnæmst var við Kistufellsgíginn og litið yfir hann, en gígurinn er einn sá fallegasti og stórbrotnasti hér á landi. Vestan við gíginn eru nokkur stór jarðföll og í þeim hellahvelfingar. Í sumum þeirra er jökull á botninum og í jöklinum pollar eftir vatnsdropa. Þegar droparnir falla í pollanna mynda þeir taktbundna hljómkviðu í geimunum.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – tóft af húsi námumanna í Námuhvammi.

Haldið var undan hlíðum, niður í brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum. Ofan þeirra er tóft af búðum námumanna. Sést vel móta fyrir henni. Neðar er námusvæðið. Þar má sjá hvar brennisteinninn var tekinn úr kjarnaholum, en gjall og grjót forfært og sturtað í hauga. Sjá má móta fyrir götum við haugana, sem og nokkrum múrsteinum frá námuvinnslunni. Undir bakka er hægt að sjá einn ofninn, ef vel er að gáð.
Gengið var niður með suðurenda Draugahlíða. Þar fyrir ofan er gígur, sem mikið úfið hraun hefur runnið úr áleiðis niður í Stakkavík. Selvogsgatan var gengin upp að Kóngsfelli, en frá því má sjá a.m.k. tvö önnur fell með sama nafni, þ.e. Stóra-Kóngsfell austar (Kóngsfell) og Litla-Kóngsfell sunnar. Stóra-Kóngsfell er á mörkum þriggja sýslna og er sagt að þar í skjóli gígsins hafi fjárkóngar hist fyrrum og ráðið ráðum sínum.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Til baka var gengið austur og norður með Mið-Bolla og fyrir Stóra-Bolla og niður Grindarskörðin. Á sumum kortum er gamla gatan sýnd liggja milli Bollanna. Mið-Bolli er með fallegustu eldgígum á landinu. Reyndar er allt Brennisteinsfjallasvæðið mikið ævintýraland fyrir áhugafólk um útivist, jarðfræði og stórbrotið ósnert umhverfi. Varða er efst á hálsinum og síðan nokkrar á stangli á leið niður mosahlíðina. Þegar niður er komið má sjá vörðubrot og gömlu götuna markaða á kafla áleiðis að Selvogsgötunni þar sem hún liggur yfir Bláfjallaveginn og áfram áleiðis niður í Mygludali.
Veður var frábært. Gangan tók 5 klst og 2 mín.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn efst í Kerlingarskarði.

Hellukofinn

Þjóðvegur milli Reykjavíkur og Suðurlands hefur lengi legið um Hellisheiði. Gamli þjóðvegurinn lá upp kambana austan meginn, yfir Hurðarás og Hellisskarð. Hellisskarð er fyrir ofan Kolviðarhól.

Hellisheiði

Hellukofinn.

Gamli þjóðvegurinn sker núverandi þjóðveg en stór hluti af þessari gömlu leið er enn vörðuð. Enn má sjá djúp för í jörðinni, um hraunklappirnar, því að á sumum stöðum hefur umferðin markað allt að 20 sm djúp för.

Norðan meginn á Hellisheiði milli varðanna, er Hellukofinn svokallaði. Þessi Hellukofi er borghlaðið sæluhús byggt á þessari alfaraleið í kringum 1830. Þvermál þess er 1,85 sm og hæðin er 2 m. Hellukofinn hefur getað rúmað 4 – 5 manns.

Hwellukofinn

Hellukofinn á Hellisheiði.

Talið er að Hellukofinn hafi verið byggður á svipuðum stað og gamla „Biskupsvarðan“ . Biskupsvarðan var ævafornt mannvirki, krosshlaðið þannig að menn og hestur gætu fengið skjól fyrir vindum úr nær öllum áttum. Þessi varða stóð fram á 19. öld en henni var ekki haldið við og var farin að hrynja. Grjótið úr vörðunni var notað til þess að byggja Hellukofann.

Hellukofinn var friðaður 1.janúar 1990.

Vegur hefur legið um heiðina um aldir. Gamla hraungatan sem liggur yfir heiðina fór niður af henni vestan megin í Hellisskarði upp af Kolviðarhóli. Akvegur var fyrst gerður um heiðina um aldamótin 1900 og lá vegurinn þá niður af heiðinni austanmegin niður Kambana í ótal beygjum og hlykkjum. Vegurinn var lagaður til á fjórða áratugnum og hélst í því vegstæði þar til ákveðið var að fara í að gera fullkominn malbikaðan veg yfir heiðina, sem lagður var á árunum 1970-1972. Vegurinn var þá byggður upp með klifurreinum í brekkum sem þóttu nýstárlegar á Íslandi á þeim árum.

-http://notendur.centrum.is/~ate/hellukofinn%20myndir.htm
-https://is.wikipedia.org/wiki/Hellishei%C3%B0i

Hellukofinn

Hellukofinn.

Búrfellsgjá

Gengið var í Búrfellsgjá, að Vatnsgjá og Gjáarrétt.

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir.

Upplýsingaskilti er við göngustíginn að gjánni þar sem getið er um aldur réttarinnar, hvenær síðast var réttað í henni, helstu leiðir frá henni o.fl. Hraunréttin í Gráhelluhrauni tók við að Gáarrétt, en sú rétt er nú horfin. Gjáarétt var endurhlaðin, en er nú aftur farin að láta á sjá. Norðaustan í gjárbarminum má sjá skágötu upp úr gjánni. Þar er gamla gatan að Vatnsenda og Elliðavatni. Þá liggur gata upp úr gjánni að norðanverðu áleiðis til Vífilsstaða og Urriðakots og áfram áleiðis út á Álftanes (Görðum). Sunnan réttarinnar er Gerðið. Innst í því er hlaðið heillegt skjól fyrir fyrrum gangnamenn.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Haldið var upp Vífilstaðahlíð og að Vífilsstaðaseli. A tóftum að dæma hefur selið verið nokkuð stórt á Reykjanesvískan mælikvarða. Stekkur er á klapparholti norðan tóftanna. Gengið var norðvestur eftir Vífilstaðahlíðinni, að skotbyrgi frá stríðsárunum þar nyrst utan í öxlinni. Skammt frá er Gunnhildarvarða (Gunhill) eða Grímsvarða, sem og hún var nefnd fyrrum. Sagt er frá hvorutveggja í Örnefnalýsingu Garðabæjar. Gengið var upp Svarthamar og yfir að Hjöllum, eitt af hinum miklu misgengjum á Reykjanesskaganum, þar sem Vatnsendaborgin stendur hvar hæst með ágætu útsýni yfir Heiðmörkina og niður að Elliðavatni.

Selgjá

Selgjá – tóftir.

Frá Vatnsendaborginni var gengið framhjá Grunnuvötnum syðri og vestur með Hjöllunum, yfir í Selgjá (Norðurhellragjá). Í Selgjá eru tóftir allt að 11 selja frá Görðum á Álftanesi. Nyrst í gjánni er Norðurhellragjárhellir, fjárskjól. Vestan hans er fallega hlaðið op ofan við fjárskjól Þorsteinshellis eða Efri-hella. Vestan hans er enn eitt fjárskjólið.
Gengið var til austurs yfir hraunið, að gamalli fjárborg í Heiðmörkinni. Enn sést móta fyrir hringlaga borginni í hrauninu, en nokkur gróður er bæði í henni og við hana. Þá hefur grjót verið tekið úr borginni í hlaðinn hús suðvestan við hana. Erfitt er að koma auga á mannvirkin vegna þess hversu vel þau falla inn í landslagið.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Gengið var yfir veginn og að sauðahelli Urriðakotsmanna skammt frá göngustígnum undir Vífilstaðahlíð. Hlaðið er framan við skútann. Þá var strikið tekið áleiðis yfir að Seljahlíð með viðkomu í hlöðnu útihúsi í Urriðakotshrauni skammt austan við golfvöllin og við hlaðið aðhald norðvestan undir kletti þar skammt suðaustar. Haldið var vestur um Þverhlíð niður að Lækjarbotnum þar sem gangan endaði.
Góð þversogkrussganga um fallegt og minjaríkt landslag.
Veður var frábært. Gangan tók 4 klst og 21 mín.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Ferlir

Eftirfarandi er hugmynd, sem fæddist nýlega í einni FERLIRsgöngunni. Hún er áhugaverð, bæði fyrir íbúa höfðuborgarsvæðisins og aðra, en engu að síður fyrir aðila ferðaþjónustunnar á Reykjanesskaganum.

Búrfellsgjá

FERLIRsfélagar í Búrsfellsgjá; Jóhann Davíðsson og Björn Ágúst Einarsson. Ágúst Einarsson.

Hugur felst í að gera eitthvað óhefðbundið, en hagkvæmt í sumafríinu; að breyta íbúðinni tímabundið í sumarbústað og gerast ferðamaður á heimaslóðum, skoða dagblöðin og Netið, sjá hvað er í boði og nýta sér það. Sú athugun kæmi áreiðanlega mörgum á óvart og víst má telja, þótt einhver vildi leggja sig allan fram við að komast yfir sem mest, að hann kæmist hann aldrei yfir allt, sem í boði er. Hægt er að spássera um einstök útivistarsvæði með bakpoka, skoða söfn eða kirkjur, kíkja í búðir (oft töluð útlenska), sóla sig á ströndinni með Cervaza (víða fallegar sandstrandir) eða jafnvel taka fram gönguskóna, útbúa nesti og halda á vit náttúrunnar og sögulegra minja skammt utan við byggðina. Allt er þetta meira og minna ókeypis (nema kannski nestið). Hagnaðinum er hægt að verja til að kaupa eitthvað sérstakt í nágrannabyggðalögunum eða jafnvel nýta í eitthvað þarf síðar.

Lambafellsklofi

Í Lambafellsklofa.

Upplandið býður upp á falleg fjöll, dali, strandbjörg, eldborgir og hrauntraðir. Gróður er fjölbreytilegur (um 400 tegundir mosa) og landnemaplöntur á hverju strái.

Með því að skoða FERLIRssíðuna gætu vaknað hugmyndir um ferðir eða leiðir, sem hægt væri að nýta í þessu nýstárlega sumarfríi. Og ekki er verra að geta sofið í rúminu sínu á milli „ferðalaga“.

Til að komast að fallegum og fjölbreytilegum göngusvæðum þarf ekki að aka nema í innan við klukkustund (í mesta lagi) og þess vegna er hægt að nýta daginn vel. Einnig er hægt að breyta til og taka strætisvagn eða rútu á milli svæða eða byggðalaga.
Minna má á að bjart er svo til allan sólarhringinn og því hægt að njóta útiverunnar bæði vel og lengi hverju sinni. Fuglasöngur er ríkjandi, en umferðarniðurinn víkjandi. Og svo er ekkert sem mælir á móti því að setjast bara niður á fallegum stað, njóta umhverfisins og hvílast.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.

Þeir, sem best þekkja til, segja að á Reykjanesskaganum sé alltaf sól (reyndar er hún stundum á bak við skýin) og syðst á honum komi ferskt ónotað súrefnið fyrst hér að landi í öllum góðum áttum.
Með þessu fyrirkomulagi er hægt að gera góðar áætlanir með stuttum fyrirvara og fátt ætti að vera því til fyrirstöðu að þær geti gengið eftir.
Njótið sumarsins, afslöppuð og upplýst, í fallegu umhverfi Reykjanesskagans (skrifað árið 2004).

Sogin

Horft yfir Sogin.