Kubbur

Gengið var um Arnarseturshraun undir leiðsögn Björns Hróarssonar, hellafræðings.

Dollan

Dollan.

Fyrst var farið í Dolluna, sem rétt við gamla Grindavíkurveginn við bílastæðið á Gýghæð. Dollan opnaðist er þakið féll niður undan vörubíl þegar verið var að vinna við nýja veginn, en þá var svæðið þarna notað sem athafnasvæði verktakans. Opið er svo til alveg vestan til í svæðinu. Dýptin á fast er um mannhæð og hallar undir á alla vegu. Þarna þyrfti að vera góður stigi fyrir ferðafólk því hellirinn er aðgengilegur svona nálægt vegi. Fyrst þyrfti þó að hreinsa upp drasl, sem safnast hefur neðan við opið. Björn skellti sér niður og skoðaði hellinn. Hann nær spölkorn upp á við til austurs og einnig til vesturs og uppfyllir því öll skilyrði til að geta flokkast sem góður hellir.

Kuppbur

Op í Kubbnum.

Næst var gengið áfram niður hraunið og hraunrásinni fylgt til vesturs. Eftir u.þ.b. 500 metra endar rásin og við tekur hellir. Hann liggur í hægri boga og endar eftir u.þ.b. 50 metra. Þar er stórt op í gólfinu og sést niður á neðri hæðina. Mannhæða hátt er niður. Eftir að hafa rutt niður grjóti til að búa til lendingarpall var hoppað niður. Þar liggur víð og góð rás til austurs, undir gólfið sem áður var gengið. Gólfið í rásinni er alveg hreint og slétt. Þessi hluti endaði eftir u.þ.b. 50 metra. Þar inni var bréfmiði á vegg, en letrið var ólæsilegt. Þó mátti greina dagsetningu og ártalið 1992. Þá var haldið til vesturs. Eftir um 30 metra var komið út í jarðfall. Úr því hélt rásin áfram um 20 metra uns komið var út úr henni á ný. Miðað við lýsingu á Hellinum Kubb gæti þetta vel verið hann. GPS-punktur af hellinum sýndi staðsetningu u.þ.b. 20 metrum norðar, en þrátt fyrir leit þar fannst ekkert op. Miðað við nýjan GPS-punkt, sem tekin var þar, gæti hér verið um misvísun að ræða. Um Kubb segir m.a. í lýsingu: “Kubbur er sennilega í sama hellakerfi og Dollan. Kubbur er á tveimur hæðum”.

Arnarsetur

Op í Arnarseturshrauni.

Annað op fannst skammt austan við þann stað, næstum mannhæða djúpt. Björn hoppaði þar ofan í. Þarna reyndist vera hellir í sömu stefnu og hinir hellarnir, u.þ.b. 30 metra langur. Þessi hellir hefur ekki verið nefndur, en fær hér vinnuheitið Naddur í merkingunni nálægur. Erfitt er að koma auga á holuna nema ganga svo til beint á hana.
Ekki voru meðferðis GPS-punkt á Hnapp, en um hann er til eftirfarandi lýsing: “Hann er með skemmtilegri hellum, sem hægt er að komast í. Hann er ekki mjög langur, en hefur upp á margt að bjóða. Inngangurinn er í gegnum þröngt gasútstreymisop.

Hnappur

Í Hnappnum.

Strax þegar niður er komið er hægt að fara á efri eða neðri hæð. Efri hæðin lokast fljótt, en neðri hæðin liggur góðan spöl inn þar til komið er að hraunfossi. Fyrir innan fossinn lækkar gólfið verulega. Þá er maður staddur í miðjum hellinum í stórum sal. Út frá þessum sal liggja rásir í margar áttir og ein þeirra liggur í hring”. Fróðlegt væri að fá nánari staðsetningu eða leiðarlýsingu á Hnapp. (Eftir að þessi leiðarlýsing var skrifuð kynnti Þorvaldur Örn, kennari í Vogum, að hann hefði fyrrum farið í Arnarseturshraun með félaga sínum, Geirdal. Þeir hefðu rissað Hnappinn upp og nefnt hellinn Geirdal).
Haldið var upp að vegavinnubyrgjunum austan Grindavíkurvegar og áfram upp fyrir þau. Þar eru hellar í hraunrás. Rásin er fallin niður á tveimur stöðum og er efri hlutinn öllu lengri, eða um 50 metra langur. Hann endar í hafti, sem aðskilur hann og efsta hluta hinnar miklu hraunrásar úr Arnarsetursgígnum. Í heildina er þessi hallahluti um 100 metrar á lengd. Þeir fá vinnuheitið Gegnumgangur. Á bökkum rásarinnar eru margar stórar og fallegar hraunæðar.

Dátahellir

Dátahellir.

Loks var gengið niður í Dátahelli. Hann nefnist svo vegna þess að í honum fannst beinagrind er talin er hafa verið af amerískum hermanni er týndist í hrauninu að vetrarlagi allmörgum árum áður. Við skoðun reyndist hellirinn vera um 40 metra langur.
Allar staðsetningar voru samviskusamlega skráðar, en þegar heim var komið uppgötvaðist að blaðið með öllum tölunum hafði gleymst við Dátahelli.

UPDATE:

Arnarseturshellar

Í Arnarseturshellum.

Farið var aftur í Arnarseturshraun og GPS-punktar endurteknir. Við það fannst hellir, er nefndur hefur verið Skjóli.
Farið er inn í Skjóla, sem er nokkuð norðan við Nadda, inn í hraunbólu. Inn úr henni liggja rásir bæði til norðurs og suðurs. Ýmislegt bendir til að þetta séu yfirborðsrásir, en þarna örskammt frá er allnokkurt jarðfall er bendir til að þar undir hafi runnið talsvert hraun. Skjóli var ekki kannaður að þessu sinni, einungis framan við rásirnar er liggja inn.

Arnarseturshellar

Í Arnarseturshellum.

Á leiðinni til baka var aftur hugað að hraunhól, sem lítil varða stendur á, og skoðaður hafði verið daginn áður. Hóllinn er skammt vestan við Dolluna. Í honum eru tvö gasuppstreymisop. Eystra opið er þröngt, en liggur inn til norðurs og víttkar síðan og hallar niður á við. Þarna gæti vel verið um opið á Hnapp að ræða. Viðkvæm fötin gáfu ekki tækifæri til að elta rásina lengra niður að þessu sinni, en þarna er svolítið skrið til að byrja með.
Frábært veður.

Hestshellir

Hestshellir.

Rauðshellir

Ákveðið var að að taka hellahring í Kaldárseli.

Kétshellir

Ketshellir / Setbergsselsfjárhellir.

Byrjað var á að kíkja á Hamarkotsselshelli (Selhellir) og Setbergsselshelli (Ketshellir) undir Setbergshlíð. Hellirinn er um 15 metra langur og opnast í báða enda. Hleðslur eru fyrir opum, einkum Setbergsselshellismegin. Þverhleðsla skiptir hellinum fyrir miðju. Stórar hraunhellur hafa fallið úr þaki inngangsins að norðanverðu, en hellirinn sjálfur hefur veitt fé (og reyndar geitumundir það síðasta, gott skjól á meðan var. Gróið er í kringum Setbergsselið og fallegur stekkur er þar sem Selvogsgatan liðast upp hálsinn, í átt að Kershelli og Smyrlabúðahrauni. Selið er undir hæðinni, utan í Gráhelluhrauninu, en innan við hraunkantinn er enn eitt hellisopið.

Kershellir

Kershellir.

Kershellir er bæði aðgengilegur og rúmgóður. Hann opnast innan úr keri efst á hraunbrún. Ofan við opið er stór varða. Innan úr Kershelli er Hvatshellir, sá sem drengir Friðiks Friðrikssonar söfnuðust saman í á leið þeirra í Kaldársel. Síðar var lagður vegur að búðum KFUM er reistar voru þar. Gamla Kaldársel er undir suðurvegg búðanna (hússins).
Þá voru skoðaðir Kaldárselsfjárhellarnir er FERLIR opnaði fyrir u.þ.b. þremur árum. Þá voru engin spor við munnana og alls engin innan þeirra. Greinilegt er að margir hafa litið þarna við síðan þá.

Helgadalur

Helgadalur – stekkur.

Ummerki eftir heykuml er miðsvæðis, en í nyrsta fjárskjólinu er hlaðinn miðgarður. Syðsta fjárskjólið er stærst og aðgengilegast. Við munnann hafði þröstur verpt fjórum eggjum í hreiður á syllu við innganginn. Fylgdist hann vel með mannaferðum og lét í sér heyra.
Lokst var strikið tekið til austurs áleiðis að Helgadalshellunum; Hundraðmetrahelli og Rauðshelli. Gengið var eftir hleðslunni undir gömlu vatnsleiðsluna úr Kaldárbotnum, henni fylgt áleiðis til suðausturs yfir Lambagjá og síðan vent til austurs að Helgadal. Greinilegt var að einhverjir hafa verið duglegir að hirða grjót úr hleðslunni á köflum. Á leiðinni mátti sjá falleg hraunreipi í helluhrauninu. Ekki var litið inn í Níutíumetrahellinn að þessu sinn, en höfðinu hins vegarstungið niður í Vatnshelli. heyra mátti tónlist vatnsins er dropar þess lentu á sléttum tærum vatnsfletinum og bergmáluðu inni í holrúminu.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Þegar komið var að Rauðshelli skein sólin á munnann og hleðslurnar þar fyrir. Einhverjir hafa í seinni tíð nefnt hellinn Pólverjahelli, en þegar hann er skoðaður gaumgæfilega fer hin gamla nafngift ekki á milli mála. Víða í hellinum hefur rauðleitt hraunið runnið upp á veggina og makað hann litskrúðugan. Hleðslurnar fyrir opum og gróið jarðfallið benda til þess að þarna hafi einhvern tímann verið selstaða. Þá staðfestir forn stekkur norðan við það þá kenningu. Misgengi liggur með norðanverðum Helgadal til austurs og vesturs. Undir því á einum stað sést móta fyrir hleðslum.

Helgadalur

Op Hundraðmetrahellisins.

Farið var inn í Hundarmetrahellinn og skoðaðir raunbekkirnir með veggum og einnig litið á hraunfossinn inn undir jarðfallinu við enda hans. Ofan við hraunfossin er rás upp úr hrauninu sunnan við og undir sauðfjárveikigirðinguna, sem þarna er.
Helgafell skartaði sínu fegursta í kvöldsólinni, sem og Valahnúkar og Kaldárbotnar.

Frábært veður.

Helgadalur

Hleðslur í Rauðshelli.

Oddafellssel

Gengið var frá nyrðri enda Oddafells frá Höskuldarvöllum og suður með vestanverðu fellinu. Gott rými er á milli hlíðarinnar og mosahraunsins.

Oddafellsel

Oddafellsel – sel frá Kálfatjörn.

Eftir stutta göngu var komið að tóftum hluta Oddafellsseljanna. Gengið er yfir eina tóftina, en sjá má móta fyrir öðrum. Stekkur eða kví er utan í hraunkantinum. Skammt sunnar eru fleiri tóftir. Er þá komið framhjá stíg er liggur inn á hraunið, áleiðis að Keili. Sunnan við þær eru hleðslur, stekkur og gerði, utar með hraunkantinum. Minni-Vatnsleysa hafði þarna selstöðu fyrrum. Eldri stígur (Oddafellsselsstígur) liggur inn í hraunið frá hleðslunum og kemur inn á hinn stíginn eftir stutta göngu. Stígnum var síðan fylgt í gegnum hraunið. Hann er tiltölulega greiðfær.

Keilir

Keilir – handan hraunsins.

Nýr, ógreiðfærari, stígur hefur verið lagður yfir hraunið nánast samhliða, líklega fyrir Keilisfara. Þegar út úr hrauninu var komið var stígnum fylgt áfram áleiðis að Keili yfir móa og mela. Á leiðinni mátti sjá annan stíg liggja þvert á hann, Þórustaðastíginn.
Göngustíg var fylgt upp á Keili. Tiltölulega auðvelt er að ganga upp hlíð fjallsins, aflíðandi í fyrstu, en brattara ofar. Áð var um stund á móbergssyllu að 2/3 leiðarinnar genginni og útsýnið dásamað.

Keilir

Gengið á keili.

Rétt áður en komið var upp var komið uppá hraunnef þar sem horft er niður hinum megin. Sumum finnst nóg um, en ástæðulaust er að örvænta. Af toppnum er útsýni til allra átta. Sjórinn í norðvestri, Stór-Hafnarfjarðarsvæðið í norðri, Esjan og tengdafjöll hennar, Vífilssfell, Bláfjöllin, Þríhnúkar, Lönguhlíð, Helgafell, Fjallið eina, Mávahlíðar, Trölladyngja, Núpshlíðarháls, Driffell, Stóri Hrútur, Litli Keilir, Fagradalsfjöllin, Skógfellin, Þorbjarnarfell og Sandfellsfjöllin (Súlur, Þórðarfell og Stapafell, eða það sem eftir er af því) o.fl. o.fl. Keilir er móbergsfjall (379 m.y.s). Hann varð til við gos undir jökli á ísöld. Hann er helst þekktur vegna sérkennilegrar strýtumyndaðrar lögunar sinnar sem er til komin vegna gígtappa eða bergstands á fjallinu miðju. Tapinn ver það gegn veðrun.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Gengið var niður Keili um stíg að austanverðu og þaðan yfir á stíg norðan Driffells er liggur upp af heiðinni sunnan Keilis. Sást hann vel á köflum ofan af fjallinu þar sem hann lá á ská niður heiðina til vestnorðvesturs. Honum var fylgt yfir úfið hraunið austan fellsins. Um stutt hraunhaft er að ræða. Handan þess er stutt yfir í Hverinn eina, en mann má muna sinn fífil fegurri, Nú stendur fremur lítill gufustrókur upp úr hveraholunni, en á árum áður sást þessi stóri gufuhver alla leið frá Reykjavík í staðviðri og góðu skyggni. Hitasvæði er umhverfis hverinn og ber umhverfið þess glögg merki.
Oddafellinu var fylgt til norðurs að austanverðu, gengið um Höskuldarvelli og komið að upphafsstað á tilskyldum tíma.
Frábært veður – sól og stilla. Gangan tók 3 klst og 59 mín.

Oddafellssel

Í Oddafellsseli.

Lambafellsklofi

Gengið var frá Eldborg austan við Höskuldarvelli að Lambafelli. Ætlunin var að fara um Lambafellsklofa, misgengi og gjá svo til í gegnum fellið.

Eldborg

Eldborg undir Dyngju.

Eldborgin er ein hinna fallegu gíga á Reykjanesi, sem hafa orðið efnisflutningum að bráð. Aðrir slíkir eru t.d. Moshóll, sem Ísólfsskálavegur liggur nú þvert í gegnum sunnan Núpshlíðarhorns, Litla-Eldborg undir Geitahlíð og Rauðhóll norðn við Stampana á Reykjanesi. Einnig mætti nefna Rauðhól undir Sandfellshæðum norðan Vatnsskarðs, Óbrinnishólagíginn og Rauðhóla norðan Elliðavatns.
Ef þessi merkilegu og tignarleg jarðfræðifyrirbæri hefðu verið látin óhreyfð væri Reykjanesskaginn enn verðmætari fyrir bragðið. En því miður er nú of seint að snúa ofan af því, en hins vegar ættu þessar skemmdir að geta orðið áminning til framtíðar.

Lambafellsklofi

Í Lambafellsklofa.

Um 15 mín. gangur er að Lambafellsklofa (sem sumir kalla Lambagjá). Þegar komið er að honum neðan frá opnast gjáin skyndilega og inn eftir henni sést í mjóan gang með háa hamraveggi á báðar hendur. Tófugras vex á brotabergsbörmum og þegar stillt er í veðri í ágústmánuði er gjáin venjulega full af fiðrildum.
Gengið var eftir gjánni og upp úr henni að sunnanverðu. Nokkuð bratt er upp en tiltölulega auðvelt ef rólega er farið. Uppi er fallegt útsýni yfir Dyngnahraunið og yfir að Trölladyngju (380 m.ys.). Sennilega er eitt fallegasta sjónarhornið að henni frá þessum stað.
Gengið var yfir Lambafellið, yfir úfið hraun sunnan þess og inn á jarðhitasvæði norðan Eldborgar. Þar eru hleðslur á einum stað. Munu þær eiga að vera skjól við gufubað í einu gufuuppstreyminu.

Sogin

Sogin. Trölladyngja og Grænadyngja fjær.

Haldið var eftir slóða austur fyrir Trölladyngju og síðan beygt til hægri inn kvos á milli hennar og Grænudyngju. Kvosinni var fylgt upp aflíðandi hlíðina milli dyngnanna. Þegar upp var komið tók við grasi gróin skjólsæl laut, sennilega hluti af hinum forna gíg, en dyngjunar eru að mestu móbergsfjöll. Jökullinn hefur síðan sorfið sig niður milli kollana.

Sunnan Grænudyngju er einstaklega fallegt klettabelti, sem auðvelt er að ganga upp með þegar komið er upp frá Lækjarvöllum norðan Djúpavatns. Frá því er fallegt útsýni yfir Sogin, Fíflavallafjall, Hörðuvallaklof og Hörðuvelli, Hrútafell og Sveifluháls. Tiltölulega auðvelt er að ganga niður með norðanverðri Grænudyngju og í kvosina, sem fyrr var nefnd.

Sog

Í Sogum.

Gengið var áfram niður hlíðina til vesturs, að Sogaselsgíg. Fallegt útsýni er á Söðul, upp Sogin þar sem litadýrðin ræður ríkjum, yfir að fagurlituðu Oddafellinu, sem myndar þarna sérstæðan forgrunn fyrir Keili, sem og yfir að Selsvöllum vestan við Núpshlíðarháls. Í Sogunum er jarðhiti og eftir Sogadal rennur lækur. Höskuldavellir og Sóleyjarkriki eru meira og minna mynduð úr jarðvegi þaðan úr hlíðunum. Í læknum má finna litskrúðuga smásteina, hvíta, rauða og græna, ef vel er að gáð.
Í Sogaseli eru tóftir þriggja seljahúsa og a.m.k. tveir stekkir. Auk þess er ein tóft utan gígsins.
Slóða var fylgt niður með Trölladyngju og að Eldborg.
Veður var frábært – sól og hiti. Gangan tók 3 klst og 2 mín.

Grænadyngja

Grænadyngja. Sogin framar.

Bláfjallahellar

Ætlunin var að skoða hellana í Strompahrauni vestan Bláfjalla. Hellarnir eru norðan undir svonefndum Hellisgíg, sem er nyrstur Strompanna. Skoðaðir voru 11 hellar, auk eins, sem ekki hafði verið skráður; Djúpihellir – Langihellir – Goðahellir – Rótarhellir – Tanngarðshellir – Hurðarbakshellir – Ranghali (Gljái) – Rósahellir – Smáhellir – Krókudílahellir – Rósarhellir – Smáhellir – Bátahellir – (Litla Gatið).

Langihellir

Í Langahelli.

1. Langihellir700 metra langur. Hann er vestan við Djúpahelli. Meginhellirinn er um 300 metra langur. Ekkert hrun er í honum og því auðveldur í umgengni. Haldið var upp hraunrásina. Á tveimur stöðum skín dagsbirtan inn, en síðan tekur við langur gangur þar sem hellirinn lækkar nokkuð. Innar hækkar hann aftur og skiptist hann þá í tvær megináttir. Þessar rásir ligga um mjög sveran hraunstöpul. Þegar inn fyrir er komið sést falleg hraunsúla. Utan í henni, á stalli, eru allmörg hraunkerti. Hraunkerti eru innig á gólfum. Skammt þarna fyrir innan er útgangur upp úr hraunrásinni. Áður hafa verið margir dropasteinar í efri hluta hellisins, en nú er búið að brjóta þá flesta.

Blafjallahellar-223

Í Rótarhelli.

2. Rótahellir er um 210 metra langur. Þegar komið er niður um gatið, sem er hraunketill, tekur við víð rás. Þröng rás liggur inn úr henni og þarf að skríða á nokkurra metra kafla. Þá er komið inn í helgidóminn. Langar rætur teygja sig niður úr loftinu. Þverhellir er þar fyrir innan svo og við rás með nokkrum þrengri. Innan við eina rásina tekur við víður hellir, sem lokast þar. Rótarhellir er nyrstur Bláfjallahellanna og einn þeirra séstæðasti.

Blafjallahellar-222

Í Tanngarðshelli.

3. Tanngarðshellir er um 190 metra langur. Hann er á milli Krókudílahellis og Rótahellis. Farið er niður og inn í sæmilega vítt op til norðurs. Þar skammt fyrir innan er tanngarðurinn utan í nokkuð stórum flór. Farið er yfir haft og þá blasir við fallegur flór og mikil litadýrð. Í lofti eru separ. Hellirinn endar í stórum geimi. Þótt hann sé ekki langur er hann einstaklega fallegur.
Fara þarf varfærnum skrefum hellinn – líkt og um alla aðra slíka á svæðinu.

Blafjallahellar-225

Í Djúpahelli.

4. Djúpihellir er um 150 metra langur. Farið er inn um mjög stórt op í jarðfalli. Hrun er í hellinum, en vegna þess hversu stór hann er kemur það ekki að sök. Dagsbirta kemur niður í hvelfinguna um op á loftinu. Farið er yfir jarðfall og niður og inn um hrunda rás. Þá er komið inn í aðra hvelfingu á þremur hæðum. Liggja hraunrásir þar út frá á hverri hæð, en engin þeirra virðist afgerandi. Lofthæð þarna er a.m.k. 15 metrar.

5. Ranghali (Gljái) er um 100 metra langur. Annað nafn á hellinum er Gljái, en þegar komið er niður um opið eru glansandi hraunfletir utan við þrengri rás. Þegar henni er fylgt er komið inn í víðara rými, en hellirinn endar í hruni. Fallegt sepaloft er í inni hellinum.

Blafjallahellar-224

Í Rósahellir.

6. Rósahellir er um 70 metra langur. Hann er rétt vestan við vestari veginn að skíðasvæðunum og um 15 metra ofan við Kóngfellhraunið. Um miða vegu greinist hann í tvennt, en vinstra rásin nær ekki nema um 20 metra. Hægri rásin nær um 30 metra inn og á gólfi hennar eru fallegt rósamynstur á gólfi.

7. Bátahellir er stuttur, ekki nema um 30 metra langur. Hann er opinn í báða enda, en á gólfi hans mótar fyrir þremur aflöngu bátalaga hraunmyndun. Myndrænt fyrirbæri, líkt og Tanngarðshellir.

8. Smáhellir er fremur stuttur, eða um 20 metra langur. Þegar inn er komið tekur við þröng op, en þar fyrir innan er fallegt hýsi. Falleg hraunrás kemur út úr vegg hellisins innst í honum.

Blafjallahellar-226

Í Krókudílahelli.

9. Krókudílahellir er sérkennilegur, en fremur stuttur. Opið liggur upp úr geimi, til vinstri og upp þegar inn er komið. Þegar í gegnum hana er komið liggur þverrás þar fyrir innan. Þegar beygt er til vinstri má sjá stallaðan hraunflór og er hann eins og krókudílahaus í laginu. Fyrir innan endar hellirinn í þröngri rás.

10. Goðahellir er nyrsti hluti Djúpahellisrásarinnar (auk Bátshellis). Þegar komið er niður í hellinn tekur við mikið gímald. Hellirinn er um 100 metra langur. Farið er inn um þrengsli í botni hans og er þá komið í fremur lágt rými með fallegri brúnni glermyndaðri hrauntjörn á gólfinu.

11. Hurðarbakshellir er stuttur afgangur vestan við Goðahelli. Hann er þó vissulega skoðunarinnar virði.

12. Litla Gatið er fremur lítið, svo til beint niður í jörðina, u.þ.b. hálf mannshæð. Rásin, sem liggur til suðurs, er um 12 m löng, en með fallegum myndunum; tveimur brúnleitum litlum hraunfossum og flór í smækkaðri mynd.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Tanngarðshellir

Í Tanngarðshelli.

Brennisteinsfjöll

Gengið var frá Bláfjallavegi suður Selvogsgötu áleiðis upp Kerlingarskarð. Við götuna, þegar komið er svo til miðja vegu upp í skarðið, eru nokkrir hellar, hér nefndir Hallahellar eftir einum þáttttakenda, sem var hvað áhugasamastur um leitina.

Kerlingarskarð

Tóft brennisteinsvinnslumanna undir Kerlingarskarði,

Einn þeirra (vinstra megin við götuna) er í sæmilegu jarðfalli og gengið inn í hann til suðurs. Þegar inn er komið liggja rásir bæði til hægri og vinstri. Hægri rásin opnast út en sú vinstri lokast fljótlega. Í loftinu er einstaklega fallegt rósamynstur. Skammt norðar er mjög stórt jarðfall, sem band þarf til að komast niður í. Það hefur ekki verið kannað, svo vitað sé.
Rúst af búðum brennisteinsnámumanna er norðan til undir Kerlingarskarði. Efst í skarðinu (vinstra megin) er drykkjarsteinn, sem ferðalangar hafa löngum stólað á að væri vatn í. Svo reyndist vera að þessu sinni. Fokið hafði í skálina og var tækifærið notað og hreinsað upp úr henni. Drykkjarsteinn átti einnig að hafa verið í Grindarskörðum, en hann virðist hafa verið fjarlægður.

Brennisteinsfjöll

Kistufellsgígur.

Gengið var til vesturs ofan við Bolla, framhjá fallegum hraungígum, inn eftir tiltölulega sléttum helluhraunsdal og áleiðis að Kistufelli. Staðnæmst var við Kistufellsgíginn og litið yfir hann, en gígurinn er einn sá fallegasti og stórbrotnasti hér á landi. Vestan við gíginn eru nokkur stór jarðföll og í þeim hellahvelfingar. Í sumum þeirra er jökull á botninum og í jöklinum pollar eftir vatnsdropa. Þegar droparnir falla í pollanna mynda þeir taktbundna hljómkviðu í geimunum.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – tóft af húsi námumanna í Námuhvammi.

Haldið var undan hlíðum, niður í brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum. Ofan þeirra er tóft af búðum námumanna. Sést vel móta fyrir henni. Neðar er námusvæðið. Þar má sjá hvar brennisteinninn var tekinn úr kjarnaholum, en gjall og grjót forfært og sturtað í hauga. Sjá má móta fyrir götum við haugana, sem og nokkrum múrsteinum frá námuvinnslunni. Undir bakka er hægt að sjá einn ofninn, ef vel er að gáð.
Gengið var niður með suðurenda Draugahlíða. Þar fyrir ofan er gígur, sem mikið úfið hraun hefur runnið úr áleiðis niður í Stakkavík. Selvogsgatan var gengin upp að Kóngsfelli, en frá því má sjá a.m.k. tvö önnur fell með sama nafni, þ.e. Stóra-Kóngsfell austar (Kóngsfell) og Litla-Kóngsfell sunnar. Stóra-Kóngsfell er á mörkum þriggja sýslna og er sagt að þar í skjóli gígsins hafi fjárkóngar hist fyrrum og ráðið ráðum sínum.

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Til baka var gengið austur og norður með Mið-Bolla og fyrir Stóra-Bolla og niður Grindarskörðin. Á sumum kortum er gamla gatan sýnd liggja milli Bollanna. Mið-Bolli er með fallegustu eldgígum á landinu. Reyndar er allt Brennisteinsfjallasvæðið mikið ævintýraland fyrir áhugafólk um útivist, jarðfræði og stórbrotið ósnert umhverfi. Varða er efst á hálsinum og síðan nokkrar á stangli á leið niður mosahlíðina. Þegar niður er komið má sjá vörðubrot og gömlu götuna markaða á kafla áleiðis að Selvogsgötunni þar sem hún liggur yfir Bláfjallaveginn og áfram áleiðis niður í Mygludali.
Veður var frábært. Gangan tók 5 klst og 2 mín.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn efst í Kerlingarskarði.

Hellukofinn

Þjóðvegur milli Reykjavíkur og Suðurlands hefur lengi legið um Hellisheiði. Gamli þjóðvegurinn lá upp kambana austan meginn, yfir Hurðarás og Hellisskarð. Hellisskarð er fyrir ofan Kolviðarhól.

Hellisheiði

Hellukofinn.

Gamli þjóðvegurinn sker núverandi þjóðveg en stór hluti af þessari gömlu leið er enn vörðuð. Enn má sjá djúp för í jörðinni, um hraunklappirnar, því að á sumum stöðum hefur umferðin markað allt að 20 sm djúp för.

Norðan meginn á Hellisheiði milli varðanna, er Hellukofinn svokallaði. Þessi Hellukofi er borghlaðið sæluhús byggt á þessari alfaraleið í kringum 1830. Þvermál þess er 1,85 sm og hæðin er 2 m. Hellukofinn hefur getað rúmað 4 – 5 manns.

Hwellukofinn

Hellukofinn á Hellisheiði.

Talið er að Hellukofinn hafi verið byggður á svipuðum stað og gamla „Biskupsvarðan“ . Biskupsvarðan var ævafornt mannvirki, krosshlaðið þannig að menn og hestur gætu fengið skjól fyrir vindum úr nær öllum áttum. Þessi varða stóð fram á 19. öld en henni var ekki haldið við og var farin að hrynja. Grjótið úr vörðunni var notað til þess að byggja Hellukofann.

Hellukofinn var friðaður 1.janúar 1990.

Vegur hefur legið um heiðina um aldir. Gamla hraungatan sem liggur yfir heiðina fór niður af henni vestan megin í Hellisskarði upp af Kolviðarhóli. Akvegur var fyrst gerður um heiðina um aldamótin 1900 og lá vegurinn þá niður af heiðinni austanmegin niður Kambana í ótal beygjum og hlykkjum. Vegurinn var lagaður til á fjórða áratugnum og hélst í því vegstæði þar til ákveðið var að fara í að gera fullkominn malbikaðan veg yfir heiðina, sem lagður var á árunum 1970-1972. Vegurinn var þá byggður upp með klifurreinum í brekkum sem þóttu nýstárlegar á Íslandi á þeim árum.

-http://notendur.centrum.is/~ate/hellukofinn%20myndir.htm
-https://is.wikipedia.org/wiki/Hellishei%C3%B0i

Hellukofinn

Hellukofinn.

Búrfellsgjá

Gengið var í Búrfellsgjá, að Vatnsgjá og Gjáarrétt.

Þorsteinshellir

Þorsteinshellir.

Upplýsingaskilti er við göngustíginn að gjánni þar sem getið er um aldur réttarinnar, hvenær síðast var réttað í henni, helstu leiðir frá henni o.fl. Hraunréttin í Gráhelluhrauni tók við að Gáarrétt, en sú rétt er nú horfin. Gjáarétt var endurhlaðin, en er nú aftur farin að láta á sjá. Norðaustan í gjárbarminum má sjá skágötu upp úr gjánni. Þar er gamla gatan að Vatnsenda og Elliðavatni. Þá liggur gata upp úr gjánni að norðanverðu áleiðis til Vífilsstaða og Urriðakots og áfram áleiðis út á Álftanes (Görðum). Sunnan réttarinnar er Gerðið. Innst í því er hlaðið heillegt skjól fyrir fyrrum gangnamenn.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel.

Haldið var upp Vífilstaðahlíð og að Vífilsstaðaseli. A tóftum að dæma hefur selið verið nokkuð stórt á Reykjanesvískan mælikvarða. Stekkur er á klapparholti norðan tóftanna. Gengið var norðvestur eftir Vífilstaðahlíðinni, að skotbyrgi frá stríðsárunum þar nyrst utan í öxlinni. Skammt frá er Gunnhildarvarða (Gunhill) eða Grímsvarða, sem og hún var nefnd fyrrum. Sagt er frá hvorutveggja í Örnefnalýsingu Garðabæjar. Gengið var upp Svarthamar og yfir að Hjöllum, eitt af hinum miklu misgengjum á Reykjanesskaganum, þar sem Vatnsendaborgin stendur hvar hæst með ágætu útsýni yfir Heiðmörkina og niður að Elliðavatni.

Selgjá

Selgjá – tóftir.

Frá Vatnsendaborginni var gengið framhjá Grunnuvötnum syðri og vestur með Hjöllunum, yfir í Selgjá (Norðurhellragjá). Í Selgjá eru tóftir allt að 11 selja frá Görðum á Álftanesi. Nyrst í gjánni er Norðurhellragjárhellir, fjárskjól. Vestan hans er fallega hlaðið op ofan við fjárskjól Þorsteinshellis eða Efri-hella. Vestan hans er enn eitt fjárskjólið.
Gengið var til austurs yfir hraunið, að gamalli fjárborg í Heiðmörkinni. Enn sést móta fyrir hringlaga borginni í hrauninu, en nokkur gróður er bæði í henni og við hana. Þá hefur grjót verið tekið úr borginni í hlaðinn hús suðvestan við hana. Erfitt er að koma auga á mannvirkin vegna þess hversu vel þau falla inn í landslagið.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

Gengið var yfir veginn og að sauðahelli Urriðakotsmanna skammt frá göngustígnum undir Vífilstaðahlíð. Hlaðið er framan við skútann. Þá var strikið tekið áleiðis yfir að Seljahlíð með viðkomu í hlöðnu útihúsi í Urriðakotshrauni skammt austan við golfvöllin og við hlaðið aðhald norðvestan undir kletti þar skammt suðaustar. Haldið var vestur um Þverhlíð niður að Lækjarbotnum þar sem gangan endaði.
Góð þversogkrussganga um fallegt og minjaríkt landslag.
Veður var frábært. Gangan tók 4 klst og 21 mín.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Ferlir

Eftirfarandi er hugmynd, sem fæddist nýlega í einni FERLIRsgöngunni. Hún er áhugaverð, bæði fyrir íbúa höfðuborgarsvæðisins og aðra, en engu að síður fyrir aðila ferðaþjónustunnar á Reykjanesskaganum.

Búrfellsgjá

FERLIRsfélagar í Búrsfellsgjá; Jóhann Davíðsson og Björn Ágúst Einarsson. Ágúst Einarsson.

Hugur felst í að gera eitthvað óhefðbundið, en hagkvæmt í sumafríinu; að breyta íbúðinni tímabundið í sumarbústað og gerast ferðamaður á heimaslóðum, skoða dagblöðin og Netið, sjá hvað er í boði og nýta sér það. Sú athugun kæmi áreiðanlega mörgum á óvart og víst má telja, þótt einhver vildi leggja sig allan fram við að komast yfir sem mest, að hann kæmist hann aldrei yfir allt, sem í boði er. Hægt er að spássera um einstök útivistarsvæði með bakpoka, skoða söfn eða kirkjur, kíkja í búðir (oft töluð útlenska), sóla sig á ströndinni með Cervaza (víða fallegar sandstrandir) eða jafnvel taka fram gönguskóna, útbúa nesti og halda á vit náttúrunnar og sögulegra minja skammt utan við byggðina. Allt er þetta meira og minna ókeypis (nema kannski nestið). Hagnaðinum er hægt að verja til að kaupa eitthvað sérstakt í nágrannabyggðalögunum eða jafnvel nýta í eitthvað þarf síðar.

Lambafellsklofi

Í Lambafellsklofa.

Upplandið býður upp á falleg fjöll, dali, strandbjörg, eldborgir og hrauntraðir. Gróður er fjölbreytilegur (um 400 tegundir mosa) og landnemaplöntur á hverju strái.

Með því að skoða FERLIRssíðuna gætu vaknað hugmyndir um ferðir eða leiðir, sem hægt væri að nýta í þessu nýstárlega sumarfríi. Og ekki er verra að geta sofið í rúminu sínu á milli „ferðalaga“.

Til að komast að fallegum og fjölbreytilegum göngusvæðum þarf ekki að aka nema í innan við klukkustund (í mesta lagi) og þess vegna er hægt að nýta daginn vel. Einnig er hægt að breyta til og taka strætisvagn eða rútu á milli svæða eða byggðalaga.
Minna má á að bjart er svo til allan sólarhringinn og því hægt að njóta útiverunnar bæði vel og lengi hverju sinni. Fuglasöngur er ríkjandi, en umferðarniðurinn víkjandi. Og svo er ekkert sem mælir á móti því að setjast bara niður á fallegum stað, njóta umhverfisins og hvílast.

Arnarvatn

Arnarvatn á Sveifluhálsi.

Þeir, sem best þekkja til, segja að á Reykjanesskaganum sé alltaf sól (reyndar er hún stundum á bak við skýin) og syðst á honum komi ferskt ónotað súrefnið fyrst hér að landi í öllum góðum áttum.
Með þessu fyrirkomulagi er hægt að gera góðar áætlanir með stuttum fyrirvara og fátt ætti að vera því til fyrirstöðu að þær geti gengið eftir.
Njótið sumarsins, afslöppuð og upplýst, í fallegu umhverfi Reykjanesskagans (skrifað árið 2004).

Sogin

Horft yfir Sogin.

Norðurkot

Í ferð FERLIRs um Norðurkot sást snáð stílabók fjúka fram og aftur um hlaðið, eins og hún vildi með því vekja athygli á sér. Þegar litið var í bókina kom í ljós handrituð kennsluritgerð, sem Ingibjörg Erlendsdóttir frá Kálfatjörn, hafði skráð sem verkefni í Kennaraskólanum árið 1942. Eftirfarandi er efnið, sem skráð var upp úr bókinni, áður en henni var komið fyrir að nýju í hinu vind- og vatnsumgegna Norðurkoti. Birtist það hér öðrum til fróðleiks, en flest það er þar er skráð er enn í fullu gildi ef vel er að gáð. Hér er um að ræða nokkrar forsendur og grunnreglur barnaskólastarfs.

Ingibjörg Erlendsdóttir
III. b. – Kennaraskólinn

Kennsluritgerð 1942:
Nokkrir meginþættir í stjórn og starfi barnaskóla.

Kálfatjörn

Kálfatjarnarkirkja. Norðurkotshúsið var fært að Kálfatjörn, lengst til vinstri.

Efnisyfirlit:
I.     Inngangur – Um uppeldi.
II.    Tilgangur skóla.
III.   Stjórn skóla.
IV.    Niðurskipan skólastarfs.
V.     Refsingar.
VI.    Kennsla og kennsluaðferðir.
VII.   Námið og gildi þess.
VIII. Kennarinn og hlutverk hans.

I. Inngangur.

Norðurkot

Norðurkotsbrunnur.

Frá aldaöðli hefur mannkynið verið þeim örlögum háð, að fæðast í heiminn, sem ósjálfbjarga börn og þar af leiðandi þurft mikillar hjálpar og umönnunar. Samkvæmt lögmáli lífsins sjálfs er þessi umönnun í té látin af foreldrunum. Dýrin annast afkvæmi sín, hví skyldi maðurinn, miklu fullkomnari vera, ekki gera slíkt hið sama.

Öllum lifandi verum, hversu ófullkomnar sem þær fæðast, er það áskapað að þroskast og ná þeirri fullkomnun, sem þeim er ætluð, samkvæmt lögum náttúrunnar. Þessi þroski er röð af samfeldum breytingum, sem fara fram á ákveðinn hátt og eftir föstum lögum. Við sjáum ekki líkama barnsins vaxa með áberandi rykkjum og við getum ekki stækkað hann eftir eigin geðþótta. Þroskinn er lögmálsbundinn. Hið sanna verður okkur ljóst er við lítum á andlegan þroska.
Þroski mannsins er þó jafnframt bundinn ytri skilyrðum sem eru svo nauðsynleg, að ef þau vantar verður hann enginn, en því betri sem þau eru því betri verður hann.
Barninu er fullkomin nauðsyn að fá að hreyfa sig frjálst og óþvingað. Heilbrigt lítið barn er á sífelldu iði og hreyfingu. Allur þessi fyrirgangur þess, er merki um vöxt þess og þroska. Það getur oft valdið fullorðna fólkinu óþægindum og sumir eru því miður svo heimskir að þvinga barnið til að sitja og standa eins og því þóknast án tillits til eðlis barnsins, þroska þess og getu. Það barn, sem er líkamlega heilbrigt og fær að njóta orku sinnar á eðlilegan hátt, hefur skilyrði til að þroskast eðlilega, á sál og líkama. Sál barnsins iðar í öllum líkama þess. Heilbrigði líkamans er skilyrði fyrir heilbrigði sálarinnar, þroski líkamans skilyrði fyrir þroska sálarinnar.
Leikir eru börnum eðlilegir og nauðsynlegir. Meðal frumstæðra þjóða veitir náttúran sjálf börnunum ótakmörkuð skilyrði til margvíslegra leikja.
Börn menningarþjóðanna eiga margfalt erfiðara uppdráttar að þessu leyti. Leikir barna eru smækkuð mynd af störfum fullorðna fólksins. Í leiknum er best hægt að kynnast eðli barnsins og kynnast lífi þess. Þeir eru þýðingarmeiri þáttur í lífi barnsins, en margur hyggur. Í leiknum er lagður grundvöllurinn að námi barnsins og starfi síðar meir, þar er rakinn áhugi þess, vinnugleði og þolgæði.
Börn vilja rannsaka, athuga og læra sjálf. Aðeins leikurinn getur á fyrsta skeiði ævinnar veitt þeim möguleika til þessa. En einmitt þessir eiginleikar verða síðar aðaluppistaðan í námi þeirra og störfum.
Það þarf margs að gæta í uppeldi barnsins, ef vel á að fara. Það er því engan veginn ábyrgðarlítið starf, sem foreldrunum er á herðar lagt með fæðingu lítils barns í þennan heim.
Uppeldið er sá þáttur mannlífsins sem mest veltur á. Þrátt fyrir ólíkt upplag, allt frá fæðingu og arfgenga eiginleika er það þó uppeldið, sem miklu, ef til vill, mestu varðar um lífskjör mannanna. Meðfætt eðli og uppeldi í sameiningu gera hvern mann
[að því] sem hann verður. Uppeldið á að stuðla að því, að hvert barn verði svo mikill og góður maður, sem framast er unnt.
Heimilið er sú stofnun þjóðfélagsins sem annast uppeldi barnsins fyrstu ár ævinnar. Þar ber að leggja grundvöllinn. Þar er spurningunum svarað, fyrsti leiðbeiningar látnar í té. Áður var heimilið að mestu leyti eitt um uppeldi og fræðslu þá sem barnið hlaut. En þegar farið var að gera meiri kröfur til afkasta einstaklingsins í þjóðfélaginu, fór mönnum brátt að skiljast að heimilið var ekki einfært um uppeldi barnsins, þ.e. það hafði ekki skilyrði til að veita þann undirbúning, sem hinn verðandi maður og þjóðfélagsborgari þurfti að fá.
Heimilið þarfnaðist aðstoðar í starfi sínu. Nýjar stofnanir risu upp er tóku að sér hlutverk heimilanna á því sviði er getu þeirra þraut. Þessar stofnanir eru skólarnir.

II. Tilgangur skóla.

Norðurkot

Norðurkot – uppdráttur ÓSÁ.

Í öllu starfi er best að vita að hvaða marki stefnir, hvers vegna það er unnið og hver er tilgangurinn með því.
Skólar er frá öndverðu stofnanir til hjálpar heimilunum. Starf þeirra er að leiða börnin inn á þær brautir er heimilin síst hafa aðstöðu til, láta þeim í té þá fræðslu er þroski þeirra getur tekið við. Þeir eiga að taka á móti börnum á þeim aldri er lög mæla fyrir að skuli njóta kennslu á slíkum stofnunum. En með öllum menningarþjóðum er nú lögboðið að börn á vissu aldursskeiði skuli ganga í skóla. Það nefnist skólaskylda.
Meginþáttur þess sem skólinn lætur nemendunum í té er þekking. Barnafræðslan verður þó fremur að teljast lykill að þekkingunni um þekkinguna sjálfa. Hún er grundvöllur þeirrar þekkingar sem hver einstaklingur síðar kann að afla sér.
Tökum t.d. lestarkunnáttuna. Hún veitir aðgang að þekkingu og lærdómi gegnum bækur. Hún er sá grundvöllur er byggja má á. Þessi grundvöllur er þó ekki einhlýtur, til þess að geta lifað lýtilegu lífi og koma fram sem siðuðum manni sæmir. Mönnum verðir oft um of starsýnt á þekkinguna eins og hún væri eina menntunin og allt með henni fengið. Þekkinguna má nota jafnt til ills og góðs (kunnáttan er eins og tvíeggjað sverð sem nota má til gagns eða tjóns). Vel læst barn getur notað kunnáttu sína til að lesa spillandi bækur jafnt sem góðar.
Hlutverk skólanna er að beina huga nemendanna á hollar og góðar brautir. Þeir eiga að leita uppi hvern góðan neista í sál barnsins og glæða hann sem best, veita starfskröftum þeirra í þroskandi farvegi, æfa það í sjálfsstjórn, vekja hjá því hjálpfýsi og bróðurhug, og hvetja til hugsunar og framkvæmda.
Þroski og þekking er sitthvað. Þekking er skilyrði til að geta afkastað einhverju. Þroskinn er skilyrði til þess að vinna það vel, sem þekkingin veitir möguleika til að vinna. Enginn getur gefið öðrum þroska. Þroskinn er lögmálsbundinn og kemur innanað, frá einstaklingnum sjálfum. Hann er sá gróður lífsins er hver maður á í sér fólginn. Að þroska aðra er ekki hægt, en það er hægt að glæða þroskann. Það er hlutverk skólanna.
Skólarnir eiga að skapa vaxtarskilyrði fyrir þroska nemendanna, alhliða þroska þekkingar og siðgæðis. Það á [ ]líf þeirra að mótast og þroskast, andlegur sjóndeildarhringur þeirra að víkka.
Skólarnir eru ekki reknir vegna einstaklinganna eingöngu, heldur og vegna heildarinnar. Þjóðfélaginu er það hinn mesti hagur að hver maður verði eins mikill og góður og honum er áskapað að verða.
Það er því tilgangur og höfuðmarkmið hvers skóla að búa nemendurna sem best undir þau störf er lífið síðar meir kann að leggja þeim á herðar. Veita undirbúning undir þann skóla, en stundum alla ævi, skóla lífsins. Enginn veit hve miklu sá undirbúningur veldur um árangur allrar þeirra skólagöngu.

III. Stjórn skóla.

Tíðagerði

Tíðagerði og Norðurkot – uppdráttur ÓSÁ.

Góð stjórn er meginskilyrði hvers skóla. Hún veldur mestu um uppeldisáhrif skólans, auk þess sem hætt er við að mikið af því sem kennarinn segir börnunum, fari fram hjá þeim, ef ekki tekst að beina eftirtekt þeirra að umræðuefninu.
Til þess að halda uppi stjórn er nauðsynlegt að hafa ákveðnar reglur til að styðjast við. Kennari verður því í upphafi að setja reglur um það, sem hann þykir máli skipta og hann hyggst koma í framkvæmd í starfi sínu. best er að þær séu fáar, skýrar, en réttlátar og settar með heill nemendanna fyrir augum. Ekki skulu þær skráðar í lagaformi, með hótun um refsingu ef útaf er brugðið en umbuna að öðrum kosti. Sú stjórn er best sem minnst ber á. Ofstjórn er ill stjórn.
Kennari verður að hugsa ráð sitt vel og velja þær reglur einar er hann telur nauðsynlegar og hollar og treystir sér að fylgja fram. Síðan verða þær að koma fram í starfi hans með festu og samkvæmni.
Þess verður að gæta að börnin hlýði þeim reglum sem settar eru. Eftirgjöf á slíku er skaðleg og veikir viljann.
Barnið verður að læra að hlýða, bæði sjálfs síns vegna og annarra. Það á eftir að reyna ýmislegt í lífinu, sem það verður að beygja sig fyrir og því er gott að það venjist snemma á að hlýða. Auk þess sem brýna nauðsyn ber til að krefjast hlýðni í skólastarfinu. Barninu mun finnast eðlilegt að hlýða, aðeins ef fyrirmælin séu gefin á réttan hátt og á réttu augnabliki. Barninu er eðlilegt að leita stuðnings hjá þeim sterkari. Því myndi finnast það áttavilt og ruglað ef því væri ekki að einhverju leyti stjórnað eftir föstum reglum.
En kennarinn verður ávallt að gera sér ljóst hvers vegna hann krefst hlýðni af barninu. Það dugar ekki að krefjast hlýðni af barni aðeins af gömlum vana eða duttlungum kennarans. Með slíkri framkomu er ekki að vænta mikils árangurs þegar nauðsyn krefur.
Til eru þrjár leiðir til stjórnar nemendunum, en ekki eru þær allar jafn gæfuríkar og verður hver kennari að gera sér ljósa kosti þeirra og lesti.
Til er sú leið að segja: “Þú skalt” og standa síðan uppi í hárinu á þeim sem óhlýðnast og óskapast yfir slæmu uppeldi og illu innræti. Með slíkri framkomu, sem sýnir lítinn skilning á eðli barnsins, er tekin sú stefna, sem hlýtur að leiða til glötunar, því að hún drepur viljann, sljóvgar hugsunina og vekur mótþróa.
Önnur leið er sú að láta barnið haga sér eins og því sýnist og skipta sér ekkert af því. Þessi aðferð er fráleit. Því til hvers er barnið komið í skólann og hvert er hlutverk kennarans?
Þá er þriðja leiðin, sú sem uppeldis- og sálfræðingar telja besta og brjóstvit og þekking kennarans rökstyður. Hún er sú að kennarinn leiðir barnið og hjálpar því. Hann leitast við, með starfi sínu, að koma því í skilning um réttlæti þeirra reglna, sem settar eru, gildi þeirra og að nauðsyn beri til að fylgja þeim.
Kennarinn veit að barnið á ótamda krafta, sem þarfnast útrásar. það hefur ekki þorska né skilning til að leiða þessa krafta fram á réttan hátt. Því brjótast þeir út í óþekkt. Hann leitast því við að leiða það á réttar brautir, veita framtakslöngun þess útrás á heppilegan hátt, og veita kröftum þess næg og hentug viðfangsefni.
Ekki er öllum kennurum jafnsýnt um að skapa hlýðni og góðan aga, innan skóla síns. Virðist í fljótu bragði sem sumum kennurum sé gefið dularfullt vald eða töfrasproti, er þeir geti brugðið á loft með þeim árangri að nemendur þeirra vaka yfir hverri bendingu frá þeim til þess að geta fylgt henni. Slíkir kennarar eru öfundverðir. En ef til vill eiga þeir að baki sér erfiða baráttu.
Kennari verður margs að gæta áður en hann kemur fram fyrir nemendur sína í fyrsta sinn og hann verður alltaf að vanda framkomu sína í viðurvist barnanna. Hann verður að vera sú fyrirmynd er þau vilja líkast, sá foringi er þau geta treyst. Takist kennaranum að ná virðingu barnanna og tiltrú er auðvelt fyrir hann að skapa innan skólans þann anda, sem æskilegt er að þar ríki, og sem getur orðið börnunum hollur förunautur á lífsleiðinni. Þá er auðvelt að fá börnin til að haga sér samkvæmt settum reglum af fúsum vilja. En það er einmitt það sem keppa ber að, að skapa innan skólans fastar venjur, sem ekki kostar sífelldrar baráttu að halda uppi.

IV. Niðurskipun skólastarfs.

Norðurkot

Norðurkot.

“Reglusemin stjórnar heiminum”. Þessi orð mætti með réttu heimfæra upp á skólana. Kennari verður í upphafi að ákveða niðurröðun kennslustunda og námsefni. Kennarinn þarf að vera börnunum til fyrirmyndar í allri reglusemi, annars getur hann ekki með réttu krafist hennar af þeim. Stundvísi er eitt af því sem hverjum kennara ber að temja sér og krefjast af nemendum sínum.
Börnin eiga að ganga stillt og skipulega inn í kennslu og að sætum sínum, þegar kennarinn gefur merki. Þau eiga að hafa sitt ákveðna sæti allan veturinn og ber kennara strax á haustin að sjá um að þau fái hentug sæti. Þau börn sem eru lægst vexti ættu að sitja framar en hin stærri aftar til að fyrirbyggja að þau skyggi á. Þá er nauðsynlegt að þau börn sitji framarlega, sem hafa slæma sjón eða heyrn.
Nauðsyn er að venja börn á reglusemi með áhöld sín og bækur, “hver hlutur á sínum stað og staður fyrir hvern hlut”, er regla, sem fylgja ber í skólastarfinu.
Fullkomin stjórn í kennslustund er skilyrði fyrir því að hún komi að notum. Takist ekki að halda eftirtekt barnanna vakandi er tímanum varið ver en til einskis. Kennarinn verður að vera vakandi í starfi sínu, annars gæti hann óafvitandi stofnað til ástands, sem væri miður æskilegt. Augu og eyru þarf hann að hafa allstaðar og vera viðbragðsfljótur og hittinn að finna einhverja brellu til að vekja eftirtekt barnanna ef hún er farin að dofna.
Best er að kennari venji sig á að vera viðmótsþýður og alúðlegur, en komi samt alltaf fram eins og honum er eðlilegt. Öll stæling fer illa, hánotaðar fjaðrir vilja fjúka og hætt er við að gríman gleymist einhvern tímann, svo að hið rétta andlit komi í ljós.
Kennari þarf að venja sig á að tala í þeim rómi er hann finnur að hafi best áhrif á börnin og honum er tamast að beita, án allrar tilgerðar.
Kennari sem hefur fullt vald yfir nemendum sínum og finnur að hann nær tökum á viðfangsefni sínu getur vonglaður haldið áfram því starfi er hann hefur valdið sér, í trú á góðan árangur.
Enginn má missa þolinmæðina þótt ekki gangi allt að óskum fyrst í stað. Þá er að leta fyrir sér í hverju mistökin liggja og gera nýja tilraun. “Aðeins mikil áreynsla skapar stóra sál”.
Aldrei má kennari þó nota börnin sem “tilraunadýr”. Börnin eru viðkvæmir einstaklingar og sá kennari sem finnur að hann veldur ekki viðfangefni sínu ætti að hætta þegar í stað og hefja starf á öðru sviði (“ef þú getur ekki spennt bogann er hann ekki þinn”).

V. Refsingar.

Auðnar

Auðnar, Höfði, bergskot, Landakot, Hellukot, Þórustaðir, Norðurkot og Tíðagerði – túnakort 1919.

Refsingar hafa lengi verið álitnar nauðsynlegar til þess að halda uppi stjórn ís kólum. refsingar eiga að koma í veg fyrir brot á reglum séu endurtekin, kenna börnum stjórn á sjálfum sér og venja þau af ósiðum.
Allir eru sammála um að kennari beri siðferðileg og uppeldisleg skylda til að refsa barni, ef hann álítur þess brýna nauðsyn og að þessi refsing geti orðið barninu til góðs. En þá vaknar spurningar: Hvaða refsingar hafa mest uppeldisgildi? Með hverju, fyrir hvað og hvernig og hvenær á að refsa?
Þessar spurningar hljóta að valda hverjum góðum og samviskusömum kennara mikillar umhugsunar.
Eigi refsingar að hafa betrandi áhrif á barn, – sem er tilgangurinn, verður hún að vera þannig að barninu finnist, að þetta eigi það skilið. Tilfinning barnsins fyrir réttu og röngu er furðu næm. Barn á skólaaldri á að geta gert sér grein fyrir sambandi orsaka og afleiðinga. Fyrsta skilyrði þess að refsing komi að notum er, að hún sé bein afleiðing af broti barnsins eða yfirsjón. Kennarinn má aldrei refsa í bræði eða reiði, en með festu og alvöru. Hefnigirni eða persónuleg móðgun má aldrei koma fram í afstöðu kennarans til barnsins. Refsingin er neyðarúræði er kennarinn grípur til ef hann sér siðferðilegri velferð barnsins það fyrir bestu.
Áður en kennari refsar verður hann að gera sér fulla grein fyrir hvort ástæða sé til slíkra aðgerða, og hvaða aðferð skuli beitt. Kemur þá til greina skapgerð barnsins og þroski þess. Undir hvaða atvikum brotið er framið og hvaða orsakir liggja til þess. Fullan mun verður kennari að gera á þeim yfirsjónum sem framdar eru af hugsunarleysi eða fyrir áhrif og eggjan annarra og þeim sem barn fremur að yfirlögðu ráði. hann verður að reyna að skilja orsakirnar og er þá athugun á sálarlífi barnsins nauðsynleg.
Þá kemur spurningin: Hvaða refsingar hafa mest uppeldisleg gildi? Franskur uppeldisfræðingur hefur sagt: “Kjarni refsingarinnar er ávítunin. Að refsa er að ávíta, og besta hegningin er sú, sem lætur í ljósi á skýrastan og hagkvæmastan hátt, ávíturnar sem refsing felur í sér”.
Kjarni refsingarinnar er því ávítunin, en barnið verður að viðurkenna réttmæti þessarar ávítunar ef hún á að hrífa. Ávítunin verður að vekja samvisku barnsins, vekja hjá því löngun til að bæta fyrir brot sitt og styrkja vilja þess til að bæta sig. Þetta eru skilyrði fyrir því að ávítunin missi ekki marks.
Gamall málsháttur segir: “Enginn verður óbarinn biskup”. Væri er ekki eins hægt að snúa honum við og segja: “Enginn verður barinn til biskups”. Það er glæpur að refsa barni fyrir ósjálfráðan veikleika og vangetu. Slík börn þarfnast öllu fremur sterkrar en mildrar handleiðslu og leiðsagnar.
Forðast skal refsingar eins og hægt er. Það er vandi að beita þeim þannig að þær komi að tilætluðum notum. Þær geta í meðferð kennarans, sem hefur litla æfingu í sjálfsstjórn og ónóga þekkingu á sálarlífi barnsins, haft þveröfug áhrif við það sem þeim ber að hafa. Þær geta þá vakið hjá barninu þrjósku og löngun til að hefna sín á þeim sem það finnst hafa beitt sig órétti.
Best er að geta stjórnað þannig að aldrei þyrfti að koma til refsinga. Allar refsingar verða því áhrifaminni sem þeim er oftar beitt. Ætti það einnig að styðja þá skoðun að refsingin á aldrei að vera annað en örþrifaráð, sem grípa verður til þegar önnur uppeldisráð duga ekki, eða barn hefur gert sig brotlegt í yfirsjón og skaðleg stjórn og starfi skólans.
Framkoma kennarans, persónuleiki og samstarf hans og barnanna, er það sem mestu máli skiptir í stjórn skólans. Hátterni hans allt, persónuleiki, hreimur raddarinnar og það hversu hann snýst við þeirra vandamálum er að steðja markar dýpstu áhrifin á sálarlíf barnsins og veldur mestu um framkomu þess.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að áhrif ávítanna hafa neikvæð áhrif, þar sem áhrif viðurkenninga eru jákvæð.
Kennari á því að vera örari á lof en löst. Það vekur allan metnað. Uppörvunin leysir úr læðingi nýja krafta, en sífelld aðfinnsla lamar.
“Leyndardómur uppeldisins er fólginn í lotningu fyrir barnseðlinu”.

VI. Kennsla og kennsluaðferðir.

Norðurkot

Norðurkot – Norðurkotsskóli.

Umgerðin að skólastarfinu er lögð með lögum og reglum stjórnvalda. Þessi lög leggja skólum að nokkru starfsáætlun. Þau ákveða aldurstakmark barna, hvert ber að komast í hverri námsgrein áður en lokið er fullnaðarprófi og hvaða námsgreinar skulu kenndar. Þessi lög verður kennari að kynna sér áður en hann hefur starfs sitt.
Kennara er samt sem áður nauðsynlegt að leggja niður fyrir sér að hvaða marki hann ætlar að keppa og hvernig hann hyggst ná því.
Verkefni kennslunnar á að verða “að skipa í röð skynáhrifum allt frá þeim einföldustu til hinna samsettu”. Þannig að á hverjum tíma sé samræmi milli áhrifanna og þroskastigs barnsins.
Grundvöllur allrar þekkingar, er það sem maðurinn sjálfur og hugurinn finnur, þ.e. allar skynleiðir hans, “kenndir vorar eru steinarnir í heimsmynd vorri”.
Til að taka tillit til alls þess í kennslunni voru tekin upp átthagafræðileg vinnubrögð í skólunum. Þar er gengið út frá því þekkta til hins óþekkta. Byrjað í heimahögunum og haldið lengra út. Hið óþekkta ávallt borið saman við hið þekkta.
Kennslan á að byrja á því létta og halda til þess sem þyngra er. Hún á að miðast við það að vekja börnin til umhugsunar, glæða hæfileka þeirra og löngun til að afla sér þekkingar. Börnin eiga innibyrgða krafta. Það er hlutverk kennslunnar að glæða starfshvötina, gefa börnum tækifæri til að láta hönd og auga vinna með huganum. Kenna börnunum að starfa sem mest að því sjálft að afla sér þekkingar og kunnáttu, til þess að gera þau sem mest sjálfbjarga einstaklinga. Sú regla að börnin eigi sem mest að starfa að náminu sjálf, byggist á því lögmáli náttúrunnar, að framför og þroski næst ekki nema með því að beita kröftunum. Enginn getur gefið öðrum þroska. Þekkingin verður einnig að byggjast á því sem fyrir er. Sú þekking er haldbetri og minnistæðari en einstaklingurinn aflar sér með fyrirhöfn, en sú er hann þiggur fyrirhafnarlaust.
Kennsluaðferðir eru með mörgu móti og verður hver kennari að finna sér út að nokkru leyti sjálfur þá aðferð er honum tekst best að nota. Einn getur komið með aðferðir, sem honum gefst vel, en þegar annar ætlar að fara að nota þá sömu aðferð, getur allt farið í handarskolum. Einstaklingarnir eru svo ólíkur að þeir geta ekki allir notað sömu aðferðir og verða því að skapa sér þá aðferð er best hæfir einstaklingseðli þeirra. Ekki hæfir heldur sama aðferð öllum námsgreinunum.
Ein er sú aðferð er mikið er notuð í kennslu eldri barna, en það er frásögn. Til þess að þessi aðferð beri árangur þarf kennarinn að kunna vel að segja frá, svo a’ börnin hafi ánægju af og fylgist með af lífi og sál. Frásögnin þarf að vera sýr og greinileg og svo lifandi að börnunum finnist þau sjá og heyra þá atburði er frá er sagt. Aðferð þessi getur orðið þreytandi til lengdar og er því ekki rétt að beita henni lengi í einu. Gott er að flétta spurningar inn í frásögnina til að halda eftirtekt barnanna betur vakandi og tryggja sér að frásögnin nái hugarheimi þeirra. Aðferð þessi ber því aðeins árangur að kennarinn kunni vel að segja frá og á því máli er nær best til skilnings barnanna. Allir barnakennarar ættu að temja sér þá list.
Í sumum námsgreinum er nauðsynlegt að beita sýnikennslu, eins og t.d. undirstöðuatriðum reiknings, skrift, teikningu o.fl. Myndir og áhöld eru nauðsynleg tæki í kennslustarfinu.
Spurningar eru nauðsynlegur þáttur í kennslu og námi. Þeim er beitt til að kanna þekkingu barna og glöggva skilning þeirra og ályktunargáfu. Þær þurfa að vera skýrar og beinar, svo að börnin séu ekki í vafa um, við hvað er átt. Kennarar ættu að varast að spyrja “já” og “nei”, spurninga.

VII. Námið og gildi þess.

Norðurkot

Norðurkot.

Börnin koma í skólann til að nema. Eitt meginatriði í kennslu barna er það að gera námið skemmtilegt. Börnin eru skylduð til að vera í skólanum. Þau hafa því að öðru jöfnu minni áhuga fyrir náminu en þeir nemendur, sem fara í skólann af fúsum vilja. Auk þess eru þau óþroskaðri en aðrir nemendur og áhugasvið þeirra oft fjarri skólanum.
Kennarinn verður því að gera þeim skólavinnuna sem skemmtilegasta og aðgengilegasta. Starf, sem unnið er af litlum áhuga eða engum hefur minni árangur, en það sem unnið er af áhuga og ánægju.
Ekki má þó gera námið alveg erfiðleikalaust. Það á ekki að vera alvörulaus leikur heldur skemmtilegt, en þó alvarlegt starf. Fyrsta skylda kennarans er að vera skemmtilegur í starfi sínu. Það er oft erfitt en á því byggist að námið verði aðgengilegt og veki áhuga og ánægju hjá börnunum.
Sú aðferð hefur mjög tíðkast í skólastarfinu að leggja áherslu á að efnið sem numið er, sé munað sem nákvæmast og því sé skilað sem líkustu því er í bókinni stendur. Hitt lagði skólinn minni áherslu á hvort nemendurnir skyldu það efni sem munað var. Hvort þeir skyldu samhengið milli orsaka og afleiðinga og annað sem fyrir kom. Í þessu efni var þululærdómurinn kunnastur. Það er hægt að læra utanað ýmislegt það, sem orkar á fegurðarsmekk og tilfinningarnar, en án þess að efni hins lærða sé skilið, t.d. vísur.

Gildi utanbókarlærdómsins má þó ekki fordæma með öllu. Í sumum námsgreinum er hann nauðsynlegur. Kvæði verður að læra utanað, ártöl þarf að muna, ýmislegt úr landafræði og reglur í reikningi. Í reikningi á sér oft stað minni án skilnings og hefur gildi.
Efni sem skilið er hefur þó margfalt meira gildi en minnisnámið eitt. Skilningurinn getur oft komið til sögunnar þó að minnið bili og rifjað upp það sem annars hefði glatast.
Skilningurinn vekur hugsun, opnar útsýn og gefur margfalt betri árangur. Ártöl sögunnar eru lítils virði ef ekkert atriði er til að skýra í sambandi við þau. Skilningur og minni þurfa ávallt haldast í hendur) að fara saman ef góður árangur á að nást.
Talað er um tvenns konar gildi námsins; menningarlegt gildi og hagnýtt gildi. menningarlegt gildi náms glæðir og eflir vitsmunina, skerpir viljann og gerir manninn að siðmenntaðri manni. Hagnýtt gildi hefur nám að því leyti að það á að gera einstaklinginn færari í lífsbaráttunni, veita honum skilyrði til betri afkomu.
Allar námsgreinar ber að kenna með þetta tvennt fyrir augum. Engin námsgrein hefur svo mikið menningargildi í sér, að það geti ekki farist í meðferð lélegs kennara. Allar námsgreinar hafa mikið gildi, séu þær kenndar með menningarleg og hagnýt sjónarmið fyrir augum. Skólanám á að auka manngildi nemandans og hæfi hans til að lifa lífinu og vinna störf sín vel og einlæglega.

VIII. Kennarinn og hlutverk hans.

Norðurkot

Norðurkot – sjóhús.

“Kenn þeim unga þann veg sem hann á að ganga og þegar hann eldist mun hann ekki ef honum beygja”.
Þessi orð eru ekki sögð út í bláinn, því ef svo væri hefðu þau ekki staðist próf þeirra alda, sem liðin eru síðan þau voru sögð. Svo mikið hefur það að segja að vandað sé til þess vegarnestis sem barnið fær með sér út í lífið að undir því er kominn lífshamingja manna allt til elliára.
“Af því læra börnin málið að það sé fyrir þeim haft”. Það er á valdi hinna fullorðnu, hvernig það mál er, hvernig þær venjur eru, sem barnið á við að búa, hvernig sá andi er sem umhverfis það ríkir.
“Æskan er á öllum tímum það akurlendi mannlífsins sem besta umönnun þarfnast”.
Allur gróður þarfnast umhirðu og nærgætni, einkum sá sem er ungur og veikbyggður. Þetta vita garðyrkjumennirnir og breyta samkvæmt því.
Kennararnir eru garðyrkjumenn á akri mannlífsins. Þeir eiga að vernda gróður mannlífsins og hlúa að honum á viðkvæmasta skeiði ævinnar. Þeir eiga að búa barnsálirnar undir lífið og gróðursetja fræin, sem framtíð þjóðarinnar sprettur upp af.
Þeir eiga að vekja til lífsins hæfileika barnanna og blundandi krafta og beina þeim í rétta átt.
Á kennurunum hvíla miklar skyldur gagnvart börnunum. Meðan barnið dvelur í skólanum hefur kennarinn mikil áhrif á uppeldi þess. Sá kennari, sem hefur sama barnið undir höndum í marga vetur á áður en yfir lýkur, mikil ítök í huga þess.
Kennurum ber skylda til að rækja starf sitt af bestu getu, skyldu við þjóð sína, nemendur sína og samvisku sína.
Kennari, sem veit hlutverk sitt, gerir sér ljóst að það er mikilvægt ábyrgðarstarf. Hann leitast við að gera sér grein fyrir þroskaferli barnsins og miðar störf sín á hverjum tíma við að getu nemenda sinna. (Hann veit að hann þarf að þekkja þau vel og kynnast einstaklingseðli þeirra hvers fyrir sig).
Kennarinn þarf að þekkja börnin vel. Hann þarf að þekkja einstaklingseðli hvers barns er hann hefur undir höndum. “Það er kennarans sök ef barnið lærir ekki”, sagði [Gormenins]. Kennarinn verður að gera sér ljóst hvers hægt er að krefjast af barninu og haga starfi sínu eftir því.
Góður kennari setur sér það takmark að leiða nemendur sína á rétta braut. Vekja áhuga þeirra, starfslöngun, vilja og manndóm, vekja þá til umhugsunar og leitast við að benda þeim á hið góða og fagra í lífinu. Sá kennari, sem getur skilið við börn sín ánægð, og sjálfur ánægður yfir vel unnu starfi, hann má vita að hann hefur unnið landi sínu og þjóð gæfuríkt starf.

Heimildarrit:
-Uppeldismál eftir Magnús Helgason,
-Þroskaliðinn eftir S. Jóhann Ágústsson,
-Fyrirlestar Hallgríms Jónassonar í Kennaraskólanum.

 ÓSÁ skrifaði upp.

Norðurkot

Norðurkoti lyft af grunni sínum og síðan flutt að Kálfatjörn.