Hvassahraunssel

Ákveðið var að freista þess að finna Skógarnefsskúta í Skógarnefi ofan við Krossstapa.

Loftsskúti

Loftsskúti.

Gengið var frá Reykjanesbraut upp að Loftsskúta þar sem mikil hleðsla er fyrir skúta í jarðfalli vestan undir hraunhæð. Varða er á hæðinni er gefur vísbendingu hvar skútann er að finna. Þaðan var haldið beina leið upp í Hvassahraunssel. Þangað er u.þ.b. hálftíma gangur. Rjúpur á stangli. Há varða er á austanverðum hraunhrygg, sem selið er norðvestanundir. Tóttir tveggja heillegra húsa eru í selinu, hvort um sig þriggja herbergja. Gróinn stekkur er undir hraunásnum og annar hlaðinn, heillegur vestan við tóttirnar. Tækifærið var notað og selið rissað upp.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

Haldið var áfram til suðurs upp frá selinu, framhjá Snjódölum, djúpum fallegum hraunlægðum, upp Mosana meðfram Eldborgarhrauni. Þegar komið var að hraunhæð ofarlega í þeim svo til alveg við hraunkantinn, var gengið eftir stíg yfir hraunið og inn á Skógarnefið. Svæðið er mikið gróið og fegurð þess endurnýjar snarlega sérhverja orkulind þreytts ferðalangs. Klukkustund liðinn frá upphafi ferðar.

Skógarnefsgreni

Skógarnefsgreni.

Gengið var niður með gróðursvæðinu og síðan svolítið inn á því. Mikið af rjúpu. Skömmu áður en komið var að landamerkjagirðingu Lónakots, sem liggur þarna niður að Krossstöpum, taka við brattur og gróinn hraunbakki. Ofan hans er nokkuð slétt Mosahraun, en ofar runnabrekkur Almennings. Leitað var að Skógarnefsskútanum, en árangurslaust að þessu sinni.

Neðan við bakkann var hlaðið umhverfis greni (Skógarnefsgreni). Þrjár litlar vörður voru allt um kring. Norðar má sjá litla vörðu við mosahraunskantinn. Við vörðuna liggur stígur stystu leið í gegnum hraunið í áttina að einum Krossstapanum. Lítil varða var hlaðin við stígsendann að norðanverðu.

Urðarásgreni

Urðarásgreni.

Skammt norðar var hlaðið í kringum greni (Urðarásgreni) og litlar vörður um kring. Framundan var mikill stórgrýttur urðarás, merkilegt jarðfræðifyrirbrigði. Þegar komið er að krossstöpunum þessa leið má glögglega sjá þrjá slíka. Sá austasti er greinilega stærstur, en um hann liggur landamerkjagirðingin. Lítill krossstapi er skammt vestar og sá þriðji mun lægri skammt norðvestar. Norðvestan við neðsta krossstapann var hlaðið umhverfis tvö greni (Krossstapagrenin). Fallegt ílangt jarðfall var sunnan þeirra.

Skorásvarða

Skorásvarða, landamerki Hvassahrauns og Lónakots.

Sjá mátti háu vörðuna ofan við Lónakotssel í norðri. Önnur varða var á hraunhól í norðvestri. Gengið var að henni og áfram í sömu átt niður hraunið. Lónakotsselsstígnum var fylgt að hluta, en þegar stutt var eftir niður að Reykjanesbraut var beygt til norðurs og tvær hlaðnar refagildrur, sem þar eru á kjarrgrónum hraunhól, skoðaðar. Önnur gildran virðist hafa verið hlaðin upp úr merkjavörðu, sem þarna var.
Þegar gengið er um ofanverð hraunin má segja að minjar séu við hvert fótmál. Mikilvægt er að kunna að lesa úr þeim. Vörðurnar eru t.d. af margvíslegum toga, s.s. leiðarvörður við götur og stíga, staðsetningavörður við einstaka merkilega staði, grenjavörður (þrjár umhverfis greni – tveir steinar í hverri), sögulegar vörður (er staðsetja sögulega atburði) og refagildrur í vörðulíki.
Gangan tók 2 og ½ klst. Veður var frábært – fjórðungssól og hlýtt.

Hvassahraunssel

Rjúpur við Hvassahraunssel.

Selvogsgata

Gengið var frá Bláfjallavegi áleiðis í Kristjánsdali. Á leiðinni eru tvær vörður. Á milli þeirra er markaður gamall stígur í klöppina. Sést hann vel á nokkrum kafla. Þarna mun vera um að ræða þann hluta Selvogsgötu er lá að veginum um Grindarskörð, en á seinni tímum hefur legið beinna við að fylgja stígnum upp Kerlingarskarð.

Kristjánsdalir

Tóft í Kristjánsdölum.

Skömmu áður en komið er í sjálfa dalina er komið að vatnsstæði. Í dalverpi eru síðan tvær tóttir. Önnur er húslaga en hin virðist vera hleðslur beggja vegna veggja timburhúss. Þarna var lengi sæluhús Selvogsmanna áður en þeir lögðu á heiðina í misjöfnum veðrum. Lengi vel voru hús þessi notuð af rúpna- og refaskyttum, sem þá höfðust við um skamman tíma í Kristjánsdölum þegar þeir voru við veiðar í Hlíðunum. Þegar haldið er upp krikann í dalbotninum er eins og ruddur stígur á ská upp hlíðina. Stígnum var fylgt upp, en áður en brúninni er náð virtist stígurinn enda. Ástæðan gæti verið hrun að ofan efst við brúnina eða hreinlega að engin stígur hafi verið þarna.

Bollar

Kóngsfell.

Haldið var áfram á ská upp brúnina og var þá komið að Stórabolla, einum bollanna sem Tvíbollahraun er komið úr og sjá má fyrir neðan. Varða var á brúninni norðan Bollans. Gengið var inn og niður með honum og inn að Kóngsfelli. Fellið er nokkuð sérstakt. Bæði stendur það eitt og sér austan við Grindarskörðin og í því miðju er hvilft þar sem fjárkóngar fyrrum hittust og réðu ráðum sínum. Í hvilftinni er gott skjól og því góður samkomustaður. Haldið var í suður frá fellinu og inn á Selvogsgötuna (Hlíðarveg). Nokkrar vörður eru á þeirri leið.

Stakkavíkurstígur

Á Stakkavíkurstíg efst í Selsskarði.

Selvogsgötunni var síðan fylgt niður með Draugahlíðum og í gegnum skarðið vestan Austurása. Þar skammt sunnar eru gatnamót. Í stað þess að vinda um og fylgja götunni áfram niður í Strandardal eða áfram niður að Hlíðarskarði var ákveðið að beygja til hægri og halda niður Stakkavíkurselsstíg. Gengið var vestur með Vesturásum og síðan niður með Dýjabrekkum og áfram niður með Grænubrekkum. Ofan þeirra er Stakkavíkurselið. Við stíginn eru einnig tóttir af enn eldra seli. Þegar komið var niður á brún Stakkavíkurfjall ofan við Hlíðarvatn tók Selsstígurinn við niður hlíðina. Þá var komið á Herdísarvíkurveg, u.þ.b. fjórum klukkustunum eftir að lagt var af stað frá Bláfjallavegi.
Veður var frábært – logn og sól.

Selvogsgata

Selvogsgatan.

Ginið
Gengið var að Gininu. Með FERLIRsfólki í för var þjálfað sigfólk frá Björgunarsveit Hafnarfjarðar, Ásdís Dögg Ómarsdóttir og Jón Árni Árnason.
Ginið reyndist um 20 metra djúpt og mestanpartinn lóðréttir klettaveggir. Sjálft gatið er um fjórir metrar á breidd og um átta metrar á lengd. Opið er í jarði þunnfljótandi helluhrauns, sem hefur runnið þarna á tiltölulega afmörkuðu svæði. Það hraun virðist vera mun nýrra en hraunið allt um kring og gæti jafnvel hafa runnið á sögulegum tíma.

Sauðabrekkur

Skjól í Sauðabrekkum.

Stutt er í gjallgígana norðan Sauðabrekkugjár, sem mynda gígaröð í beina línu út frá gígunum ofan við gjárbarminn. Í einum gíganna, sem er holur að innan, hefur gólfið verið flórað, hlaðið er að hluta til fyrir munnann og hella lögð fyrir gluggaop (Sjá Sauðabrekkugjá).
Íshella var á botni Ginsins. Steinar hafa brætt sig um tvo metra niður í helluna og mynda holur ofan í hana. Þegar komið var niður er auðveldara að sjá hvers konar fyrirbæri þarna er um að ræða. Ginið er fyrrum gjá, sem hefur verið geysistór á þessum kafla. Hún er í sömu stefnu og aðrar gjá á svæðinu, s.s. Fjallgjá og Sauðabrekkugjá. Nýja þunnfljótandi hraunið hefur runnið ofan í gjána og fyllt hana. Sennilega hafa barmar gjárinnar risið einna hæsta þarna svo hraunið hefur ekki náð að fylla þennan hluta.

Ginið

Ginið – loftmynd.

Til norðurs liggur rás undir hraunið. Hún ber keim af fyrrum sprungu. Eftir u.þ.b. átta metra endar gjáin í brekku. Ef farið er upp brekkuna tekur við mjó hraunrás, 6-8 metra löng, svo til beint upp á við. Þessi hluti var ekki kannaður með góðum luktum svo erfitt er að átta sig hvert framhaldið kann að vera. En ummerkin bera þess öll merki að þarna hafi verið gömul hraunfyllt sprunga. Sérstakur heimur út af fyrir sig og sennilega fágætt aðgengilegt jarðfræðifyrirbæri sem slíkt. Hraunið í sprungunni var frauðkennt, ekki þó gjall, og var tekið sýnishorn af því.
Þau Ásdís Dögg og Jón Árni, fulltrúar Björgunarsveitar Hafnarfjarðar, eru að öllum líkindum fyrstu manneskjunar, sem fara þarna niður og kanna fyrirbærið.
Veður var stillt, blankalogn, og falleg kvöldsólin roðagyllti vesturhimininn.

Ginið

Ginið.

Hvatshellir

Gengið var frá Sléttuhlíð upp að Selvogssgötu undir Smyrlabúðahrauni.

Stekkur við Hamarskotsfjárhelli

Stekkur við Hamrakotshelli.

Þaðan var gamla gatan gengin niður að helli, sem í seinni tíð hefur verið nefndur Kershellir, en Hvatshellir er afhellir innan af honum. Stór varða er á suðvesturbrún hans. Farið var niður í hellinn og hann skoðaður hátt og lágt. Hann liggur til vesturs úr jarðfallinu, um 40 metra langur. Segja má að hellirinn hafi verið óvenju fallegur því hæfilega löng grýlukert lágu niður úr svo til öllu lofti hans. Á leiðinni út var farið til vinstri, framhjá jarðfallinu, til austurs og þar inn þrönga hraunrás, sem séra Friðrik Friðriksson kom á spjöld sögunnar í frásögn hans af Sölva. Hellirinn er nefndur eftir göngufélaginu „Hvatur“, sem mun hafa farið þangað af og til og m.a. haldið samkomur sínar í honum. Hellirinn er nokkuð þröngur til að byrja með, en víkkar á ný í hvelfingu. Þá þrengist hann aftur, en opnast síðan inn í enn aðra hvelfingu. Alls er hellirinn um 100 m langur. Til leiðbeiningar skal þess getið að til skamms tíma voru þrjár litlar vörður á Kersbrún norðaustan við op hans (Ólafur Þorvaldsson 1949). Þessar vörður voru sameinaðar í eina um eða eftir 1960.
Ketshellir er sunnan við Kershelli/Hvatshelli. Hann er í gróinni hraunrás í um 30 metra fjarlægð og liggur í sömu stefnu og Kershellir (vesturs). Hellirinn er rúmgóður og um 30 metra langur. Hann er í fornum ritum nefndur Selshellir.

Hamarskotsselsfjárskjól

Hamarskotsselsfjárhellir.

Samkvæmt Jarðarbókinni sem Árni Magnússon og Páll Vídalín unnu að árið 1703 í Gullbringusýslu kemur fram: að jörðin á selstöðu þar sem heitir Kietsheller. Sami hellir var einnig nefndur í tengslum við Hamarskot, sem var hjáleiga Garðakirkju. Var greint frá því að selstöðu ætti Hamarskot í Garðakirkjulandi þar nærri sem heitir Sljettahlíð hjá hellir nokkrum og skuli þar kallast enn í dag Hamarskotssel. (Árni Magnússon og Páll Vídalín 1923-1942). Hellirinn var á mörkum jarðanna og opinn í báða enda og þar af leiðandi notaður af ábúendum beggja jarða til helminga og þá jafnan nefndur einu nafni Selhellir.

Setbergssel

Setbergssel – uppdráttur ÓSÁ.

Vestan við hellana sér niður á grassvæði. Selvogsgatan liggur niður að því og áfram í gegnum það uns hún sveigir að Setbergsshlíð. Á norðanverðu svæðinu er stekkur í kvos. Hleðslur eru til að hindra uppgöngu úr kvosinni. Op er til vesturs. Vestan opsins er hraunkantur. Handan og fast við kantinn er enn eitt op á helli. Hann er þó mun styttri en hinir. Frá opinu liggur hann til austurs, á móti hinum.

Sunnan við opið sést móta fyrir kví í skjóli fyrir austanáttinni. Sunnar, syðst á grassvæðinu eru tóttir Setbergssels. Bæði hefur jarðsig verið notað svo og tóttir, sem þarna eru. Fyrir framan hól eru bogadregnar hleðslur fyrir helli. Þar er Setbergsselsfjárhellir. Þegar komið er inn í hann miðjan er hlaðinn garður þvert fyrir hellinn. Hinn hlutinn er Hamarskotsselsfjárhellir. Hægt er að ganga í gegnum hellinn og er þá komið út þar sem verið hefur tótt Hamarskotssels. Geitur voru hafðar í helli þessum á fyrri hluta 20. aldar. Sunnan við Hamarskotshelminginn er hlaðinn stekkur.
Svæði þetta er tilvalið fyrir þá sem vilja fara í síðdegisgöngu, en jaf
nframt skoða mikið á stuttum tíma. Gerður var uppdráttur af svæðinu.Sjá meira HÉR.
Veður var með ágætum – bjart og stillt.

Kétshellir

Kétshellir / Setbergsselsfjárhellir.

 

Fosshellir

Farið var að Sandfelli við Þrengslaveg undir röggsamri stjórn JS, vestur yfir Þúfnavelli, nokkuð slétta grasvelli norðaustan Geitafells, og áfram vestur með norðanverðu fellinu. Farið var hægt og rólega, en ekki var látið staðar numið fyrr en komið var að slóðaenda við vesturhorn fellsins, ferð sem Meðaljón á minna en 38” hefði ekki treyst sér í. Frá endastöð sást vel suður yfir Kálfahvamm og Selsvelli fyrir neðan.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Í suðvestur, ofan við Réttargjá, sást í jarðfall. Gengið var þangað og var þá komið að opi Fosshellis. Gatið er mót suðri og rás þar innan við. Hún er stutt og lokast fljótlega með hruni. Efra opið er hins leið inn í mikla hraunrás. Mikil hrauná hefur runnið þar niður og má sjá einstaklega fallegar hraunmyndanir á börmum hennar. Hrauntröðin inni í rásinni er há og mikil. Fara þarf upp á brún hennar og fylgja henni áfram inn eftir rásinni. Á einum stað hangir u.þ.b. 30 metra langt hraunstrá niður úr loftinu. Allnokkurt hrun er úr loftinu niður í rásina, en víða má sjá fallegar hraunmyndanir og tauma liggja niður með veggjum. Innst inni, en hellirinn er um 80 metra langur, er hár, mjór og mikill hraunfoss. Erfitt er að mynda hann allan nema með sérstökum ljósmyndabúnaði. Í góðu ljósi sést vel hversu tilkomumikill hann er. Ofarlega á veggjunum neðan við hann eru mjög fallegar myndanir. Þótt Fosshellir sé ekki langur er full ástæða til að gera sér ferð til að skoða hann.
Frábært veður.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Fjárskjól

Gengið var til vesturs frá Krýsuvíkurvegi skammt norðan við Bláfjallafleggjara, meðfram skógræktargirðingu og yfir Stórhöfðastíg. Stefnan var tekin á Gömluþúfu. Gamlaþúfa er í sprungnum hraunkletti í u.þ.b. 110 m hæð yfir sjó. Hún sést vel frá Straumsseli og áður fyrr var hún þekkt kennileiti á Straumsselsstíg áleiðis að Fjallinu eina.

Gamla þúfa

Gamla þúfa.

Eftir stutta göngu var komið í krosshlaðið fjárskjól ofan við Brunntorfur, líklega frá Þorbjarnarstöðum ( fallega hlaðin fjárborg frá bænum er þarna skammt norðvestar) vandlega falið í grunnu jarðfalli. Hlaðinn er gangur áleiðis inn, en síðan klofnar hann til hægri og vinstri. Skjólin eru á hvora hönd.
Fuglasöngur var í lofti og hvarvetna sáust smáfuglar skjótast undan fótum þátttakenda. Notað var tækifærið og hreiður þúfutittlings, inn undir lyngbakka. Eggin voru varla stærri en lambaspörð.

Refur

Refur.

Þegar komið var upp á hæðirnar heyðist tófa gagga skammt frá. Sást hvar gráskellótt lágfóta skokkaði hægt samhliða hópnum í u.þ.b. 50 metra fjarlægð í sömu átt. Líklega sú sama og hefur verið að hnupla þurrkuðum þorskhausum úr fiskhjalla þarna skammt norðar. Hún stoppaði af og til, leit í átt að hópnum og gaggaði tvisvar, sennilega til merkis um yfirvonandi hættu. Eftir að hafa fylgst með tófunni stutta stund var ákveðið að stríða skolla svolítið. Golan var á bakið. Hópurinn staðnæmdist á holti og lét tófuna sjá sig.

Stórholtsbyrgi

Stórholtsbyrgi.

Einn úr hópnum hélt áfram eftir hraunlægðunum í sömu stefnu og beygði síðan til vinstri, þvert fyrir ætlaða leið dýrsins, og beið þar á bak við hraunhrygg. Hópurinn hélt síðan áfram, rebbi stóð upp og fylgdi fyrra hátterni. Fylgst var með rebba þar sem hann stöðvaði þegar hópurinn stöðvaði, settist, gaggaði tvisvar og var síðan kyrr, en stóð upp þegar hópurinn færði sig. Svona gekk þetta nokkra stund uns rebbi var svo til alveg kominn að þeim er beið. Þá stóð sá hægt upp og beið. rebbi átti aðeins nokkra metra í hann þegar hann áttaði sig, stóð grafkyrr, rak upp gól, tók síðan til fótanna þvert á fyrr leið og hvarf. Fuglasöngurinn fyllti loftið á ný. Lóan settist á nálægan stein og virtist alveg óhrædd við tvífættlingana.

Brunntorfufjárskjól

Brunntorfufjárskjóls er ekki getið í skráðum heimildum. Samt er það á þeim stað, sem það er.

Mörg greni voru merkt á leiðinni (tveir steinar á tveimur til þremur stöðum umhverfis greni).
Nákvæmlega klukkustund tók að ganga að Gömluþúfu. Hún er áberandi í Almenningum ofan við Straumsselið. Þegar komið var að henni tyllti rjúpa sér á þúfna og horfði yfir svæðið. Umhverfis þúfuna eru nokkrar vörður og merkt greni. Eftirtektarvert var hversu hljótt var við þúfuna. Þar heyrðist ekki fuglasöngur. Sennilega eru grenin þarna í búsetu þessa stundina. Hafurbjarnarholt er austar og þar eru einnig merkt greni. Neðar er Stórholts og þar eru Stórholtsgrenin. Hlaðið byrgi grenjaskyttu er utan í holtinu. Ekki er ólíklegt að það hafi verið hlaðið af sömu skyttunni og byrgið við Efri-Straumsselshella (Jónas Bjarnason).
Gengið var til baka svo til beina línu að upphafsreit. Lognið var nær algert og kvöldkyrrðin mikil.
Frábært veður.

Gamla Þúfa

Gamla Þúfa.

Snorri

Gengnar FERLIRsferðir um Reykjanesið eru nú um 3200 talsins. Hver ferð hefur að jafnaði verið 7 km. Skv. því hafa verið farnir 20. 700 km eða sem nemur u.þ.b. nokkrum hringferðum í kringum landið. Í þessum ferðum hafa verið skoðaðar:

Ferlir

Í hellinum FERLIR í Brennisteinshellum.

-90 fjárborgir,
-120 brunnar og vatnsstæði,
-283 gamlar göngu- og þjóðleiðir,
-60 greni,
-603 hellar og skútar,
-83 letursteinar,
-68 hlaðnar refagildrur,
-92 gamlar réttir,
-401 sel og nálæg mannvirki,
-32 skotbyrgi,
-193 sæluhús og sérstakar tóttir,
-23 vegavinnubúðir,
-17 vitar,
-320 vörður á sögulegum stöðum,

auk eldvarpa, eldgíga, gosrása, dala, fjalla, hóla, hæða, vatna, stranda, gjáa, hvera, gróðurs, hrauna, móa, mela, dysja, gatna, stíga, brúa, stekkja, kvía, vara, byrgja, nausta, sjóbúða, flóra og annarra mannvirka eða sögulegra staða.

Urriðakotsdalur

Gengið um Efri-Urriðakotsdal (þar sem nú er golfvöllur)

Ef gert er ráð fyrir að sérhver göngumanna hafi náð af sér um 0.5 kg í hverri ferð ætti 80 kg maður nú að hafa lést um 850 kg. Af því mætti draga þá ályktun að þeir, sem oftast hafa gengið, væru nú horfnir með öllu. En sem betur fer er það nú ekki svo. Þeir hinir sömu hafa fengið tækifæri til að næra sig á milli ferða og þannig tekist að vega upp þyngdartapið, en auk þess njóta þeir að einhverju leyti aukinna vistmuna, meiri vöðvabyggingar, efldrar notadrjúgrar þekkingar sem og aukins skilnings á landi og þjóð sem hverjum og einum er svo mikilvægur til enn meiri þroska og viðurværis. Með lögjöfnun má því segja að þeir, sem ekki hafa tekið þátt í FERLIRsgöngum, séu nú þeim fátækari því þær hafa hingað til ekki kostað þátttakendur neitt annað en milliferðir.

Húsfell - refagildra

Refagildra ofan við Húsfell.

Skyggnisrétt

Tómas Þorvaldsson, 83. ára gamall, tók á móti FERLIR í Grindavík.

Járngerðardys

Tómas Þorvaldsson við dys Járngerðar.

Þegar var haldið að Vergötu í Járngerðarstaðahverfi með það fyrir augum að staðsetja dys Járngerðar, sbr. söguna. Gatan liggur til suðurs gegnt Garðhúsum, sem Einar kaupmaður byggði 1918.
Næsta hús að vestan er Valdabær, síðan Járngerðarstaðir og loks Vesturbær. Gamla sjávargatan lá fyrrum til suðurs frá Járngerðarstöðum, en það var samheitið á torfunni, og yfir þar sem nú er Helgavöllur. Vergatan er yfir gömlu götunni. Þar sem gatan beygir á móts við Garð, á milli Víkur og Hliðs, var Járngerður dysjuð. Í þjóðsögunni segir að dysin hafi verið einn faðmur á breidd og þrír á lengd. Hafi dysin hækkað til austurs. Framhjá henni hafi vermenn gengið til skips. Vergatan hefur verið lögð yfir dysina þarna ú beygjunni, en ef grannt er skoðað má sjá í suðvesturhorn dysjarinnar, sjávarmegin, undan veginum.

Kapella

Kapellan í Kapellulág.

Tómas sagði frá því að Skálholtssúðin hafi farist með 23 mönnum í Hróflsvíkinni (austan við Hraun) árið 1602. Hafi fólkið verið grafið við kapelluna í Kapellulág.
Þá var haldið að Virkinu. Í og við það var Grindavíkurstríðið háð árið 1532. Skærur voru með Englendingum undir forystu Jóhanns Breiða (Joen Breen) annars vegar og Hansamönnum og heimamönnum hins vegar. Enduðu þær með því að hinir síðarnefndu söfnuðu liði (um 180 – 250 manns) eina nóttina ( 10. júní) og réðust að Englendingum í Virkinu (kl. 02:00 að nóttu). Lágu um annar tugur Englendinga í valnum og þar á meðal Jóhann Breiði, sundurhöggvinn. Aðrir reyndu að flýja til skipa sinna. Fjórum enskum skipum tókst að komast frá landi, en eitt strandaði í útsiglingu og fórst þar með allri áhöfn.

Vikri Jóhanns

Tómas við leifar virkis Jóhanns breiða.

Átta Englendingar voru teknir til fanga. Hinir látnu voru dysjaðir austur undir virkisveggnum. Heitir þar nú Engelska lág. Tómas benti á lágina, sem nú er sandorpin, skeifulaga og hefur áður verið nokkurs konar dalur austan við Virkið – á milli þess og Hellanna. Virkið sjálft er nú þarna fremst á kampinum, en sjórinn hefur brotið þarna talsvert af landinu. (Sjá nánar Grindavíkurstríðið undir Fróðleikur).

Tómas sagði frá Skjöldunni, en svo nefndust hús þar sem fátækir fengu að búa vestan við Járngerðastaði. Þar eru nú hlaðin útihús frá bænum.

Grindavík

Skjalda.

Vestan við Skjölduna er graslaut, opin til suðurs. Hún heitir Geldingalaut. Þar voru folöld gelt, stundum mörg á dag. Norðan við Skjölduna er Vatnsstæðið og síðan hraunið. Uppi í því er fallegur gróinn hraunbolli, Einisdalur. Þangað fóru Grindvíkingar oft á góðvirðisdögum og tóku með sér nesti. Austar, norðan Járngerðastaða, er Bóndastekkstúnið. Á því var hlaðin rétt, Bóndastekkstúnsrétt. Hún var síðar notuð sem kartöflugarður. Norðvestan túnsins er gjáin Silfra, sem þjóðsaga er kennd við. Í gjánni á að vera silfursjóður, en þegar menn eru að því komnir að ná honum upp er eins og húsið á Járngerðarstöðum standi í björtum logum.

Títublaðavarða

Títublaðavarða.

Norðan við Silfru liggur Skipsstígurinn í átt að fjarskiptastöðinni. Við hann er heil varða, en skammt norðan hennar er önnur fallin, á efstu brún áður en komið er að girðingunni. Hún heitir Títublaðavarða. Þaðan má vel sjá hvar stígurinn liðast innan girðingarinnar, að vörðu norðan hennar, skammt frá gatnamótum götu að Hópi. Einnig sést þaðan í Gyltustíg vestast í sunnanverðum Þorbirni.

Hraunstekkir eru austan við Gerðisvallabrunna. Sunnan við þá er hlaðinn stekkur og tótt undir grónum hól. Þar voru lömbin höfð um vorið þegar ærnar voru reknar í sel innan við Þorbjörn (Baðsvallasel).

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðisvöllum.

Haldið var að Gerðisvallabrunnum að vestan. Þar má sjá vörðu á hægri hönd. Hún stendur við gamla þjóðleið út að Húsatóttum. Sést vel móta fyrir gömlu götunni við vörðuna. Beint niður frá henni, á sjávarkampinum er Markhóll, landamerki Húsatótta og Járngerðarstaða. Vestar er Stekkhóll. Gamall stekkur er vestan í hólnum, nú að mestu jarðlægur. Þá er komið að Hrafnagjá. Austan hennar eru garðar hlaðnir í ferkantað gerði. Þar er Junkaragerði. Þýskir og heimamenn áttu í gerðinu með sér marga glettuna fyrr á öldum. Innan þess má sjá gamlar tóttir. Eftir að Englendingar höfðu verið hraktir frá Grindavík sátu Hansamenn nánast einir að verslun við Íslendinga um sjö áratuga skeið, eða þangað til Danir tóku að sauma að þeim og einokuðu verslunina. Líklegt má telja að Hansamenn hafi sest að þarna í búðum Englendinga eftir að þeir voru flæmdir á brott.

Gerðavellir

Gengið um Gerðavelli – söguslóðir Grindavíkurstríðsins 1532.

Gerðið sést vel og gaman er að ganga um svæðið með hliðsjón af sögunni. Junkarar bönnuðu t.d. heimamönnum að fara inn fyrir gerðið á meðan þeir voru í róðrum, en þeir læddust nú samt þar inn fyrir og náðu sér í ýmislegt nýtanlegt. Junkarar reyndu að hefna sín á Grindvíkingum, en þeir svöruðu fyrir sig með því að saga í sundur árar, gera gat á báta o.s.frv.

Utar á kampinum er rétt, Skyggnisrétt á Skyggni. Í hana voru trippi rekin á vorin og þau klippt áður en þau voru rekin upp á Selsvelli. Vestar eru Hásteinar. Víkin útaf Skyggni, undan Gerðisvallabrunnum, heitir Stórabót.
Frábært veður.

Junkaragerði

Garður í Junkeragerði á Gerðavöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Gömlu Hafnir

Gengið var frá bifreiðastæðinu sunnan Hundadals (þar sem laxeldisstöðin er sunnan Junkaragerðis) að Systrum, séstæðum vörðum á hólum norðaustan við gömlu Hafnarbæina. Sunnan í öðrum hólnum virðist vera fjárborg, sú 75. er FERLIR hefur skoðað á Reykjanesi fram að þessu.

Gömlu Hafnir

Gömlu-Hafnir – kirkjugarður?

Af hólnum sést vel yfir gömlu Hafnarbæina. Nokkrir hólar er með sjónum og hylja þeir tóttir gömlu bæjanna, Kirkjuhafnar, Sandhafnar og Eyrar(hafnar) eða Hafnaeyri. Þegar gengið er vestur eftir veginum, eins og nú var gert, sjást fyrst hlaðnir garðar á hægri hönd. Því næst sést grashóll, einnig á hægri hönd. Skv. upplýsingum Leós Jónssonar, sem mikið hefur gengið um þetta svæði og kynnt sér það af kostgæfni, heitir hóllinn Stekkhóll.

Gömlu Hafnir

Gömlu-Hafnir – vörslugarðar.

Leó ritaði góða lýsingu á svæðinu í 3. tbl. Áfanga árið 1991. Vinstra megin við veginn er klapparhóll. Á honum er hlaðið byrgi og varða trjónir hærra. Þá taka við hlaðnir garðar á hægri hönd og grashóll svo til alveg fram við fjörukampinn. Vestan hans er stór grashóll, Kirkjuhafnarhóll. Vestan hans er minni hóll, greinileg tótt. Handan vegarins er hóll og utan í honum garðhleðslur á tvo vegu. Að sögn Leós er þetta talinn vera gamall kirkjugarður Kirkjuhafnar, sem mun hafa lagst af um miðja 14. öld. Á norðanverðum hólnum er hringlaga tótt. Þarna gæti verið um gamla kapellu eða guðshús að ræða. Einnig myndarlega gröf, en tóttin norðan vegarins, sem minnst var á, gæti einnig verið tótt kirkju. Heimild er einnig um bæ á þessum stað, nefndur Bæli.

Gömlu-Hafnir - fiskbyrgi.

Gömlu-Hafnir, fiskbyrgi.

Vikið var út af þjóðveginum og gengið eftir stíg, sem nostrað hefur verið við. Stígurinn liggur út að öðrum stórum grashól, Sandhafnarhólnum. Í honum eru hleðslur og suðvestan undir honum eru garðhleðslur. Þar gæti hafa verið heimatúngarður. Vestan við hólinn er enn annar grashóll. Norðaustan í honum er hlaðinn garður og á honum sjálfum eru hleðslur. Þessi hóll mun hafa tilheyrt Sandhöfn.

Gömlu-Hafnir

Tóftir í Gömlu-Höfnum.

Sandhöfn og Kirkjuhöfn voru fyrr á öldum stórbýli og helsta útræði í Höfnum að sögn Leós. Talið er að býlin hafi farið í eyði á 17. öld. Gífurleg landeyðing hefur orðið á svæðinu. Gróður hefur eyðst og sandur lagst í lægðir. Munu Sandhafnabæirnir hafa verið tveir; Stóra- og Litla-Sandhöfn.
Umhverfis alla byggðina liggur vörslugarður, sem hefur verið mikið mannvirki á sínum tíma. Sést enn móta fyrir honum svo til alla leiðina. Samskonar garður umlykur einnig bæina austan Hundadals. Þegar staðið er á Sandhafnarhól og horft er til suðvesturs má sjá hleðslur austan við klapparhól. Þar er um að ræða gamla rétt. Hleðslur hennar eru nokkuð heillegar.

 

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

Norðvestar eru tóttir bæjarins Eyri, sem mun hafa verið í byggð fram á 4. áratug 19. aldra. Heillegasti hluti þessa gamla bæjar er hlaðin kálgarður á tanganum. Ofan og utan við tangann eru tóttir gamla bæjarins. Sá má hleðslur í þeim. Frá Eyri liggur stígur til vesturs upp á Hafnaberg. Efst á berginu eru vörður í Siginu og Berghóll (Bjarghóll). Í berginu vestan við vörðurnar er hellirinn Dimma.
Ofan við Eyri eru klapparhóll. Á honum eru þrjú hákarlabyrgi er nefnast einu nafni Hákarlabyrgi. Miðbyrgið stendur heilt að hálfu. Á milli þess og vestasta byrgisins er hlaðinn refagildra.
Svæði þetta er sennilega eitt það afskiptasta á landinu, en þó svo nálægt. Þegar laxeldisstöðin var reist í Hundadal var klippt á gamla Reykjanesveginn, sem liggur þarna meðfram gömlu byggðinni. Staðurinn hefur upp á allt að bjóða fólki, sem vill ganga um og skoða sögulega minjar og fallega náttúru. Þarna þarf að tengja gamla þjóðveginn þeim nýja og lagfæra hann svolítið. Upplýsingatafla á staðnum með skýringarmyndum myndi enn auka áhuga fólks á að koma þarna við, skoða sig um og njóta svæðisins. Veðurblíðan er og jafnan með eindæmum.
Frábært veður. (Sjá meira HÉRog HÉR.)

Gömlu-Hafnir

Gömlu-Hafnir – uppdráttur ÓSÁ.

 

Arnarþúfa

Skoðaðar voru rústir eftir Bretana frá stríðsárunum vestan undir hólum vestan Arnarþúfu vestan Sandskeiðs.

Arnarþúfur

Skjól í Arnarþúfum.

Vestan við hólana eru miklar rústir eftir, s.s. skotbyrgi, vegir, varnarveggir og önnur mannvirki. Nyrst undir vestanverðum hólunum eru einnig tvær, sem virðast vera eldri en aðrar rústir á svæðinu. Önnur er hlaðið hús úr móbergssteinum. Norðan við tóttina er sorpbrennsluofn frá Bretanum. Tóttin er nokkuð heilleg. Í einn steininn inni í henni eru ritaðir stafirnir R.B. Þarna gæti verið um gamalt sæluhús að ræða, en það er, líkt og svo magrar aðrar tóttir á Reykjanesi, í skjóli fyrir austanáttinni. Skammt sunnan við tóttina er önnur graslæg. Þar virðist hafa verið brunnur og er allgróið í kringum hann. Gamla þjóðleiðin austur er þarna skammt austar. Ekki langt frá, á klapparhól skammt vestan við Sandskeið, er tótt hlaðins sæluhús. Það sæluhús er annað tveggja, sem vitað er um nálægt Fóelluvötunum. Hitt er svo til miðja vegu á milli þessa húss og Lyklafells, þar vestan undir smáhæð. Þar eru a.m.k. tvær tóttir.

Arnarþúfur

Áletrun í Arnarþúfum.