Litla-Botnssel

RÚV var með fróðlegan talsmálsþátt 11. des. 2022 um seljabúskap á Íslandi; „Man ég það sem löngu leið – Samtíningur um seljabúskap á Íslandi„.
Eftirfarandi er lesið í þættinum: „Bernskuminning um Miðhópssel“ eftir Stefaníu S. Jósefsdóttur, birt í Húnavöku árið 1975″, „Minningar Þormóðs Sveinssonar úr Goðdölum„, „Sögukaflar af sjálfum mér“ eftir Matthías Jochumsson“ og „Sel og selfarir“ eftir Hólmgeir Þorsteinsson, birt í safnfritinu Heimdragi.

Stekkur

Smali og selsmatsseljur við stekk (kvíar).

FERLIR umbreytti framangreindum frásögnum að hluta yfir í eftirfarandi ritmál. Um er að ræða áhugaverðar upplýsingar um verklag í seljunum fyrrum, en slíkar frásagnir er sjaldnast að finna í skriflegum lýsingum um þessa merkilegu arfleifð íslenskrar búskaparsögu.

Bernskuminning um Miðhópssel“ eftir Stefaníu S. Jósefsdóttur birt í Húnavöku árið 1975:
„Frá ómunatíð hafa selfarir tíðkast hér á landi. Málnytupeningur, ær og kýr, var á hverju sumri fluttur til dala þar sem bithaga voru meiri og kjarnbetri en í heimahögum. Þetta var kallað að hafa í seli. Vafalaust má rekja þennan þátt landbúnaðarins alla leið til landnámsmannanna norsku því að um sel og selfarir er þegar getið í Íslendingasögunum. Enn munu vera á lífi fólk er man af eigin sjón og raun seljabúskap hér á landi. Selin voru útibú frá heimilinum til að nota beitilandið sem fjær lá bæjunum. Ærnar gerðu meira gagn þar en heima.

Selsmatsselja

Selsmatsselja eftir mjaltir.

Selin voru jafnan byggð úr torfi og grjóti. Trog og önnur ílát sem notuð voru í selinu voru smíðuð úr viði. Mikil vinna var við að hirða þau og halda þeim tandurhvítum. Eftir að þau höfðu verið þvegin úr vatni var þeim haldið að hlóðareldinum og þau þurrkuð. Það hét að hlóðarbaka trogin. Selsstúlkurnar höfðu mikið að starfa. Fyrst að mjalta allar ærnar en síðan var málnytin sett í trog og geymd í útihúsum í einn og hálfan til tvo daga. Lágmark var að þrídægra mjólkina. Þá var rennt úr trogunum.

Oft var stutt við rjómann með hendinni meðan undanrennunni var rennt burt. Undanrennan var flóuð – oft fjórir stórir pottar í einu. Síðan þurfti að ausa þessu upp og láta kólna undir skyrgerðina. Þá var hrært í það þétti sem var steinsíað skyr og látnir nokkrir dropar af hleypi út í. Síðan var þetta birgt niður til næsta dags og þá síðað. Það var um að gera að sía vel því þá súrnaði það síður og mátti geyma það eins og nýtt í langan tíma. Entist það yfirleitt allt árið og var notað í hræring og út í kjötsúpu sem mikið var borðað af.
Búnir voru til mjólkurostar og mysuostar líkir því sem þeir eru í dag. En draflinn var líka seiddur og búinn til seidduostur. Hann var brúnleiddur og borðaður heitur og þá sem morgunmatur. Mikið var drukkið að sýru á sumrin og er það áreiðanlegur hollur drykkur. Sýran var flutt heim í kvartilum en heima var hún geymd í tunnum.

Strokkur

Strokkur.

Fyrst eftir fráfærurnar var strokkað tvisvar á dag en sjaldnar er minnka tók í ánum. Úr strokknum var smjörið saltað og hnoðað í kökur sem geymdar voru í eldhúsinu fram á mitt sumar. Þá var smjörinu drepið í belgi, hnoðað og pressað þar til enginn dropi kom úr því. Voru belgirnir pressaðir milli á tveggja fjala og mátti hvergi sjá holu. Þannig geymdist smjörið langa lengi og var svo hart að ekki sá á því jafnvel þótt það væri flutt langar leiðir.
Af kindum var fleginn belgur. Síðan var hann rakaður og þveginn vandlega úr heitu sótavatni og skolaður á eftir. Var hann þá drifhvítur. Smjörinu var drepið inn um hálsopið og saumað fyrir.
Fyrst eftir fráfærurnar var flutt tvisvar í viku heim úr selinu en sjaldnar er leið á sumarið. Flutt var á þremur hestum. Á tveimur voru skrínur undir skyr á á þeim þriðja voru sýrukvartil. Smjör til heimilisnota var flutt jafnóðum heim en meginhluti þess var geymt í selinu þangað til það var flutt beint í verlsunarstað.

Smalaskjól

Smalaskjól.

Ein af mínum mestu ánægjustundum var að vera send í selið til að sækja smjör og osta sem vanhagaði um í svipinn. Þar var oft glatt á hjalla. Móðir mín fór ævinlega með töðugjöldin þangað þegar búið var að halda þau heima. Við unglingarnir fengum þá að fara með, leika okkur og tína ber í ábæti.
Ef rennt var úr trogunum þegar við vorum þar var rjóminn á efri gafli troganna ævinlega skilinn eftir og okkur leyft að borða hann. Þótti mjög gott að fá rjómagafl enda var rjóminn hnausþykkur og töggur í honum eins og öllum þessum góða selmat.
Maturinn sem búinn var til í seljunum var mikið búsílag fyrir heimilin og holl fæða.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Fært var frá seint í júní. All sumarið var selráðskona í selinu með litla dóttur sína með sér. Þar var einnig eldri kona og smali. Lengi höfðum við pilt sunnan af Miðnesi, sem reyndist mjög vel.
Á þessum árum kom allt kaupafólk að sunnan, s.s. frá Garði. Allt kaup var greitt í smjöri. Peningar voru þessu fólki einskis virði á móts við feitmetið. Kaupamaður fékk venjulega fjórðung smjörs í mánaðarkaup, en verð á fjórðungunum var þá 12 krónur.“

Minningar úr Goðdölum“ eftir Þormóð Sveinsson segir höfundur ölítið frá selstöðum í Skagafjarðardölum um síðustu aldramót (1900). Hér lýsir hann heimaseli:
„Alltaf var fært frá sama dag um tíundu sumarhelgina. Var þá strax flutt í selið og verið þar í fjórar vikur. Ærnar voru venjulega um 120 í kvíum. Aldrei voru þær hýstar og gætti einn [smali] þeirra á næturna og annar á daginn. Á selinu voru oftast fjórar stúlkur og tveir karlmenn og svaf fólk í fjárhúsgörðunum við rúmföt þó. Tvær stúlknanna fluttu skyrið heim í skrínum annan hvorn dag. Smjörinu var drepið í belgi og geymt heima þar til undir göngur. Þá var það sent í verslunarstað.

Sel - tilgáta

Selshús – tilgáta ÓSÁ.

Kýrnar voru einnig hafðar í selinu þennan tíma, utan ein. Mjólkurafurðirnar voru geymdar í húsi sér og lítill kofi var þarna, hafður fyrir eldhús.
Mjög svipað þessu sagði faðir minn mér frá seltímanum á Skatastöðum, en þar var haft í seli fram til um 188o eða vel að. En þar flutti allt fólkið fram með kýrnar þennan tíma. Þar var öll ullin þvegin, rifið hrís til kolagerðar svo og heyjað sem hægt var. Hann sagði mér og að sum haustin hafi 9 stórar tunnur, fullar af skyri, verið heima þar eftir sumarið. Af þessu má sjá hversu þessi atvinnugrein hafði áður fyrr.“

Sögukaflar af sjálfum mér“ eftir Matthías Jochumsson:

Matthías Jockumsson

Matthías Jockumsson.

„Ekki voru allir selssmalarnir háir í loftinu eða miklir fyrir sér í þeim raunum er smalann hrjá – þótt þeim væri síðar á ævinni flestir vegir færir. Einn þeirra var þjóðskáldið Matthías Jockumsson, sem á æskuárunum gætti fjár móðurbróður síns, séra Guðmundar Einarssonar á Kvennabrekku í Dölum.
Matthías segir svo frá veru sinni í selinu: Eftir fráfærur fylgdi ég fénu fram á Geldingadal. Var ég þar smalapiltur í þrjú sumur. Hið fyrsta mun ég hafa staðið í stað með þroskun ef ekki miður en hin tók ég heldur við að gangast. Fyrsta sumarið átti Matthías í ólyndi við gildandi selsmatsseljuna. Þau samskipti þótti honum erfið, en voru og eru því miður ekki talin einstök þegar horft er til óæskilegra mannlegra samskipta í víðara samhengi í gegnum tíðina.
Í samanburði við fyrsta sumarið mitt í dalnum má heita að ég hafi lifað eins og sólkinshestur hin sumrin tvö. Þá var góð og gegn kona húsmóðir mín í selinu.“

Sel og selfarir“ eftir Hólmgeir Þorsteinsson frá Hrafnagili, birt í safnritinu Heimdragi, 4. bindi. Hólmgeir lýsir þar Hvassafellsseli í Djúpadal í Eyjafirði.

Hólmgeir Þorsteinsson

Hólmgeir Þorsteinsson (1884-1973).

„Ekki voru húsakynni seljanna ævinlega byggð fyrir þá starfsemi, sem þar fór fram heldur var stundum notast við gömul fjárhús eða einhverja slíka kofa.
Hvassafellsel var reglulegt selhús, sem var byggt aðeins fyrir þessa starfsemi og öll tilhögun hússins sniðinn í samræmi við hana. Selhúsinu var vel við haldið og í alla staði hið snotrasta.
Við skulum nú heyra hvernig Hólmgeir lýsir þessu seli og starfinu þar:
Selshúsinu var skipt í fernt; úr honum var innangegnt í mjólkurhús og búr. Nyrst var eldhúsið og var utangengt í það. Vestan við selið var fjárrétt og kvíarnar, langar og mjóar þar sem ærnar voru mjólkaðar.
Áður en flutt var í selið þurfti ýmis konar undirbúning – taka til ílát, kollur og kyrnur, selskrínur og potta og margskonar smærri áhöld. Gera smalaskóna og margt fleira.
Þegar í selið kom var byrjað að sópa veggi og gólf, þvo mjólkurbekkina, rúmstæði og borð. Og svo hófust daglegu störfin, tilbreytingarlaus frá degi til dags.

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

Þegar kvöldmjöltum var lokið ráku selssmalarnir ærnar fram dalinn. Röltu þær svo sjálfar hægt og bítandi fram í dalbotninn. Smalarnir heftu hesta sína og skriðu inn í smalabyrgi, sem var lítill kofi hlaðinn af grjóti og mosa troðið í göt og glufur. Á veggina voru látnar nokkrar spítur og ofan á þær hagalega raðað hellum og síðan þétt með leir og mosatægjum. Var þá þakið sæmilega vatnsþétt. Á gólfinu var lag af berjalyngi sem legið var á. Loks þurfti að finna hæfilega mosaþúfu til að hafa fyrir kodda. Engin hurð eða dyr voru á byrginu en þess í stað var gat á þeim veggnum, sem smalarnir skriðu inn um. Ef stormur var strengdu þeir poka fyrir gatið. Þarna lögðust þeir til hvíldar,  alklæddir með smalahundana á fótum sér. Til að breiða ofan á sig höfðu þeir gamlar rúmábreiður og úlpurnar sem þeir höfðu með sér til skjóls ef rigndi. Þeir voru fljótir að sofna.

Fornasel

Fornasel – vatnsstæði.
Búsmali þurfti á stundum að hverfa frá selstöðum á Reykjanesskaga fyrr en áætlað var. Ástæðan var jafnan sögð „draugagangur“, en raunin var vatnsskortur.

Yfir nóttina þurftu þeir að fara út einu sinni eða tvisvar til að gæta þess að ekkert af ánum færi heimfyrir, en hætta var á því eftir fyrstu næturnar eftir fráfærurnar.
Um kl 6 til 7 að morgninum fóru smalarnir á kreik. Þeir byrjuðu á að grípa í nestisbitann sinn og miðla hundunum þeirra skammti. Hófst þá smölunin og síðan sigið heim á leið. Voru ærnar venjulega komnar í kvíarnar um kl. 11 á daginn. Tóku þá selsstúlkurnar til mjaltanna. Var tvímjólkað fyrir mjaltir og eftir mjaltir. Þótti eftirmjólkin mun smjörmeiri. Voru ærnar svo hafðar heima við uns kvöldsmölun hólfst. Fengu selssmalarnir sér þá smádúra. Þess á milli réttu þeir selsstúlkunum hjálparhöfnd, gripu í strokkinn, báru inn eldivið og sóttu vatn. Annars var fremur lítið sofið í selinu því alltaf var nóg að gera og allir fundu til ábyrgðarinnar, sem á þeim hvíldi um að allt færi þeim sem best úr hendi sem þeim var til trúað.
Selsstúkurnar höfðu geysimikið og erfitt verk á hendi. Vinnudagur þeirra hófst snemma á morgnanna og stóð þangað til seint á kvöldin. Á morgnana byrjuðu þær á því að sækja kýrnar, sem lágu úti, og mjólka þær. Þá tóku þær til við mjólkurvinnsluna, sem hét að búverka. Mjólkin sem til féll um dagin var svo mikil að skipta varð henni við vinnsluna. Varð því að búverka tvisvar á dag. Öll þessi mjólkurvinnsla hvíldi á herðum selsstúlknanna auk hirðingar á sokkaplöggum og skóum smalanna. Og ekki hvað minnsti þátturinn í selsstarfinu var sífelldur þvottur á mjólkur- og skyrílátum, sem gerast alltaf tvisvar á dag. Til þess þurfti verulega að vanda svo ekki kæmist súr í mjólkina. Kæmi það fyrir var vís gellir við flóninguna að mjólkin hlypi í kost og mysu og væru til lítils nýt í selinu.

Mjólkurtrog

Mjólkurtrog.

Ílátin þurfti að sjóða í sjóðandi vatni og sóta og skola vandlega á eftir úr köldu vatni. Þetta útheimti mikinn og sífelldan vatnsburð. Það var því verulegt metnaðarmál stúlknanna að ekki kæmi hjá þeim gellir því hætta var á að um vanrækslu yrði um kennt.
Venjulega var fllutt heim tvisvar í viku skyr og smjör en sauðatað og fleira sem selfólkið þurfti með flutt til þess. Þannig liðu dagarnir í selinu í fábreyttni og kyrrð afdalanna.
Á sunnudögum kom það fyrir að ungt fólk í sveitinni gerði sér listitúr í selin. Þótti það auðfúsigestir og var fagnað vel og var veitt sykrað sauðaskyr og rjómi sem gestunum var nýnæmi á og þótti hið mesta lostæti. Gestirnir höfðu líka með sér ýmislegt sælgæti sem þeir veittu selfólkinu, stundum ofurlítinn brennivínstár út í kaffið. Þegar þessa gesti bar að garði var oft glatt á hjalla í selinu og mikill dagamunur.
Eftir u.þ.b. fjórar vikur í selinu voru ærnar reknar heim og selsstúlkur og smalar breyttum verustað. Var þá seltímanum lokið í það sinn.

Rjómatrog

Rjómatrog.

Um og eftir síðustu aldamót var víðast hvar hætt að færa frá og sú nýbreytti upp tekin að lá ærnar ganga með dilk. Var þá lagður fyrir róða aldagamall þáttur í lanbúnaði Íslendinga – fráfærurnar.
Síðustu selfarirnar i Eyjafirði voru 1803. Þótt stundum væri eritt og kalsamt fyrir selssmalana og þeir yrðu það þola vosbúð og einangrun voru þó miklu fleiri sólskinsdagarnir sem þeir geymdu í hugskoti sínu. Minningin um afdalakyrrðina og mildan árniðinn sem svæfði þá þegar þeir lögðust til hvíldar á mosakoddann sinn í litla byrginu var sem ljúfur draumur liði um vitund þeirra á efri árum. Nú er allt hljóðnað frá seljunum og húsin fallin. Þaðan heyrir ekki lengur hóað saman kvíaám, engin fráfærajarmur og ekkert strokkshljóð. Allt þetta hjúfrar sig í skauti minninganna um það sem einu sinni var.“

Heimild:
-https://www.ruv.is/utvarp/spila/man-eg-thad-sem-longu-leid/33824/a2i8g9

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel.

Búrfell
Gengið var um Lambagjá, en hún hefur verið friðuð. Með í för voru skiptinemar á vegum Lionshreyfingarinnar, annar frá Króatíu og hinn frá Slóvaníu.
Rauðshellir

Rauðshellir.

Ætlunin var m.a. að gefa þeim innsýn í myndun landsins og sýna þeim hrauntraðir, hraunhella og eldgíga.
Í Lambagjá eru hlaðnar þverfyrirhleðslur á a.m.k. tveimur stöðum og einnig er hlaðið fyrir þar sem auðvelt hefur verið að komast upp úr gjánni miðsvæðis. Líklegt má telja að gjáin hafi verið notuð sem aðhald eða jafnvel nátthagi um tíma. Hraunhaft er í hrauntröðinni, en gengið var undir það. Þar niðri var fallegt þrastarhreiður og í því þrjú egg. Þrösturinn hafði greinilega verpt í það öðru sinni í sumar. Skammt ofar var annað þrastarhreiður, yfirgefið. Gengið var áfram upp að opi Níutíumetrahellis. Frá því var haldið upp að Selvogsgötu þar sem hún liggur niður í Helgadal og kíkt í Vatnshelli áður en haldið var upp með misgenginu að Rauðshelli. Við op hans var einnig þrastarhreiður á sillu með fjórum eggjum í.

Rauðshellir

Hleðslur í Rauðshelli.

Farið var inn í hellinn og m.a. skoðuð hlaðin fyrirhleðsla, sem þar er. Misvísandi lýsingar eru á Rauðshelli. Til er gömul lýsing, sem mun vera rétt, en einnig hefur verið giskað á að um Hundraðmetrahellinn gæti verið að ræða, en slíkt passar ekki við gömlu lýsinguna. Náttúrulegur bekkur hefur verið þarna þvert yfir hellinn, sem bæði hefur verið hægt að komast yfir og undir. Hún er nú fallin, en rauður liturinn í hellinum er enn áberandi. Hleðslur eru í jarðfallinu og án efa einnig undir gróðurþekjunni, sem þar er. Forn stekkur er skammt norðar.
Þá var gengið upp í Fosshelli og haldið í gegnum hann. Sást vel hversu fallegur hraunfossinn er sem og flórinn í efri hluta hellisins.

Búrfellsgjá

Hlaðið fyrir helli í Búrfellsgjá.

Gengið var yfir að Búrfelli. Í hrauntröðinni er m.a. skúti með fyrirhleðslu. Haldið var upp eftir tröðinni og litið niður í gíginn, sem er ótrúlega tilkomumikill. Háir veggir traðarinnar geyma ótrúlegar hraunmyndarnir, ef vel er að gáð.
Búrfell er eldborg. Frá henni rann hraun niður í Hafnarfjörð og Skerjafjörð. Heildarflatarmálið er u.þ.b. 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera í kringum 7200 ára.
Búrfellið tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum. Gígurinn er 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp.

Búrfellsgjá

Búrfellsgjá.

Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst Búrfellshraun. Meginuppistaðan í eldvarpinu eru kleprar, þeir eru lagskiptir og hallar lögunum bratt niður í gíginn. Rofist hefur ofan og utan úr Búrfelli og hefur myndast hvasst egg á toppi fjallsins sem er úr lausri gosmöl.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun.

Búrfellshraun

Búrfellshraunin.

Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum.
Sá hraunstraumur sem runnið hefur í Heiðmörk og niður í Garðabæ hefur runnið eftir Búrfellsgjá. Búrfellsgjá þykir með fallegri hrauntröðum landsins. Gjáin er 3,5 km á lengd með meginstefnu í norðvestur. Búrfellsgjá er mjóst upp við gíginn eða um 20-30 metrar milli barma en breikkar þegar lengra dregur og verður mest 300 metrar. Í hrauninu út með Vífilsstaðahlíð grynnkar hrauntröðin og hverfur, sá endi Búrfellsgjár nefnist Selgjá. Á köflum eru gjárveggirnir þverhníptir og mynda sums staðar grunna hellisskúta sem eru með snarhöllu þaki. Barmar, veggir og botn hrauntraðarinnar er allt úr Búrfellshrauni.

Búrfellsrétt

Búrfellsrétt. Gerðið fjær.

Gengið var niður gjána og að Gjáarrétt. Réttin var skoðuð sem og Gerðið. Innst í því, undir slútandi klettaveggnum er hlaðið hús, nokkuð heillegt.

Gjáarrétt

Gjáarrétt og nágrenni.

Gjáarrétt hefur sennilega verið lögrétt Garðhreppinga, Bessataðahreppsbúa og Hafnfirðinga í nokkur hundruð ár (Ól. Þorvaldsson). Sigurður í Görðunum segir í minningum sínum: „Réttin okkar var í hrauninu, skammt fyrir sunnan Vatnsenda. Hygg ég, að það hafi verið ein sérkennilegasta rétt á landinu. Hún hét Gjárétt, enda var hún í gjá. Skammt frá eru víðir og fagrir vellir og þar var oft leikið sér og ekki sízt sprett úr spori bæði þegar komið var í réttina og eins þegar réttardeginum var lokið.“

Gjáarrétt

Gjáarrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Gjáarrétt (Gjárétt) var fjallskilarétt (lögrétt) til 1920, en þá var hún flutt niður í Gráhelluhraun og nefndist Hraunrétt. Dilkar voru 12 talsins uns einum dilk Selvogsmanna var bætt við suðaustast í réttinni. Árið 1955 var gerð rétt við Kaldársel. Gjáarrétt var friðlýst að tilstuðlan þjóðminjavarðar 1964.
Frábært veður – hlýtt og stillt. Gangan tók 3 klst og 30 mín.

Upplýsingar um Búrfellshraun er m.a. fengið af http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/burfellshraun.htm

Búrfell

Gígur Búrfells – upptök Búrfellshrauns.

Hænur

Jafnan er talað um „landnámshænsn“ og þá átt við þau hænukvikyndi sem landnámsmenn komu með hingað til lands frá Noregi og/eða Færeyjum. Á sjöunda áratugnum var þetta hænsnakyn sem hugsanlega hefur verið til í landinu frá landnámi, mjög nálægt því að deyja út.

Landnamshaena-1

Íslenska hænsnakynið var mjög harðgert og hafði ýmsa aðra eiginleika sem önnur kyn hafa ekki haft. Það blandaðist þó brátt með öðrum kynjum eða kynblendingum. Þannig fengust og bæði fallegri fuglar og litríkari, en líka litlausari.
Íslensku hænurnar voru litlar, 1,3 – 1,5 kg að þyngd en hanar 1,7 – 2,0 kg. Þær höfðu allar gulhvítar eyrnaskífur. Flestar höfðu frekar lítinn fiðurtopp á höfði. Þær voru mismunandi á lit en svart og brúnt var algengasti liturinn. Þær voru mjög fúsar til að unga út eggjum og var það mjög einkennandi eiginleiki. Eggin voru frekar keilulaga 50 – 60 gr. að þyngd og voru frá því að vera svo til hvít til þess að vera ljós brún.
Soðin eggin voru þétt í sér og mjög bragðgóð.
HaniÍslenskar hænur voru hvorki með fiðraða fætur eða vangaskegg en dverghænur sem lengi voru til víða um land blönduðust íslenskum hænum mjög auðveldlega. Þær eru mjög gjarnan með þannig fiðurlag og sömuleiðis með mjög fjölbreyttar kambgerðir. Stundum komu fram litaðir einstaklingar frá þeim sem seldu holdakjúklinga til áframeldis. Hætt er við því að þessir fuglar ásamt dverghænum hafi náð að blandast inn í íslenska stofninn.
Ekki má heldur gleyma að á Íslandi voru til innfluttir litaðir stofnar s.s. Brúnir ítalir og Barred Plymuth Rock – holdakyn frá USA sem var nokkuð útbreitt hér fyrir austan á árunum milli 1950 og 1960. Telja má svo til öruggt að bæði þessi kyn og ekki síður Hvítir ítalir, hafi víða blandast gamla íslenska hænsnakyninu.
FLandnamshaena-2yrr á tímum voru íslenskar hænur til á flestum sveitabæjum, litlar, harðgerðar og mjög litskrúðugar eins og íslensku búfjárkynin. Þessar hænur fengu að vera úti mikinn hluta ársins og voru fundvísar á ýmislegt ætilegt á rölti sínu um hlaðvarpann. Þær fengu og líka alla grænmetismatarúrganga frá heimilinu sem hundarnir ekki vildu. Þær verptu vel yfir sumarið og unguðu jafnvel út – ef þær fengu það.
Upp úr 1970, þegar farið var að huga að restunum af þessu kyni, var einungis vitað var með vissu um eina hreinræktaða hænu, sem orðin var meira en 15 ára gömul. Þessa hænu átti Svandís Jónsdóttir á Selsstöðum í Seyðisfirði. Hún átti miklar þakkir skildar fyrir að ala hana svo lengi en þessa hænu ásamt fleirum fékk hún hjá tengdaforeldrum sínum sem fluttu til Seyðisfjarðar frá Bárðarstöðum í Loðmundarfirði 1949 og hefur þessi hænsnastofn vafalítið verið þaðan kominn.
Landnamshaena-3Veturinn eftir útvegaði Ólína Jónsdóttir, íslenskan hana frá Þorbrandsstöðum í Vopnafirði. Vorið eftir verpti Toppa 10 eggjum sem ungað var út í útungunarvél, og klöktust 6 ungar úr þeim, 4 hænur og 2 hanar. Nokkrum árum seinna, þegar Dr. Stefán Aðalsteinsson hjá RALA hóf að safna restunum af íslenska hænsnakyninu, var kominn upp all góður stofn af þessum hænum, og var hægt að senda 104 egg til útungunar og 48 nýklakta unga sem aldir voru upp af RALA í Þormóðsdal í Mosfellssveit, en þetta voru um 28 % af þeim eggjum sem söfnuðust og 60 % af lifandi fuglum. Uppeldið gekk vel og var stofninn í umsjá RALA til ársins 1985 er honum var komið í fóstur á Hvanneyri. Nokkru seinna var hætt að vista stofninn á Hvanneyri en bændur á Steinum II í Stafholtstungum og Syðstu-Fossum í Andakílshreppi fengnir til að sjá um stofninn. Það er af Toppu gömlu að segja að hún verpti ekki framar en lifði þó nokkur ár til viðbótar, í góðu yfirlæti hjá fóstra sínum.
Landnamshaena-4Af og til komu fréttir af íslensku „landnámshænsnunum“ í fjölmiðlum sem urðu þess valdandi að fólk hafði nokkrar áhyggjur af stofninum þar sem virtist sem að allar ræktaðar íslenskar hænur væru af íslenskum stofni og þar með er þeim dembt inn í ræktunina. Það er svo ekki fyrr en 2002 að safnað var saman eggjum til útungunar frá nokkrum af þeim sem töldu sig vera með íslenskar hænur. Fuglarnir sem komu úr þessum eggjum ollu miklum vonbrigðum því þeir voru mjög misjafnir bæði að stærð og útliti – greinilega blendingar. Ekkert er öruggara til að eyðileggja hreinræktaðan stofn en að blanda í hann fuglum af öðrum stofnum. Það var einungis á tveim stöðum sem íslenska stofninn eins og hann hafði verið ræktaður hann en það var á Naustum við Akureyri nokkrar hænur og í Kristnesi hjá þeim Helga og Beate en þau höfðu fengið fugla frá Hvanneyri rétt eftir að stofninn var fluttur þangað og engu blandað í hann síðan. Reyndar hafa þau beint litavalinu í ræktuninni að svörtum lit þannig að lang flestir fuglarnir eru svartir og mjög fallegir, en aðrir litir eru samt til staðar.

Hæna

Hæna.

Haughænsn eða  landnámshænan eiga uppruna sinn að rekja til landnámstíma þessa lands og eru mjög skrautleg að lit. Stofninn einkennist af litlum og harðgerðum einstaklingum og skartar öllum regnbogans litum, sérstaklega hanarnir.  Þessi tegund hefur ekki hentað sem varphænur og um miðja síðustu öld hófst markviss ræktun erlendrar varptegundar. Varð fyrir valinu hvít tegund ,hvítur Ítali, frá Miðjarðarhafinu að uppruna. Frjóvguð egg eru flutt inn til landsins reglubundið og þeim ungað út í sérstakri sóttkví. Þeir dvelja svo um stund í einangrun áður en þeim er dreift til kjúklinga- og eggjaframleiðenda víða um land. Stærstu hænsnabúin eru á Reykjanesinu og á Suðurlandi.
HænsnÝmislegt hefur gengið á í íslenska landnámsstofninum í gegnum tíðina og nánast þótti útséð um að stofninn myndi deyja út ef ekki yrði eitthvað að gert. Nú í dag hefur í fyrsta sinn á landinu verið stofnað félag er einsetur sér að halda íslensku hænunni hér við. Það nefnist Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna og var stofnað 1. nóvember 2003. Stofnendur þess voru 148 talsins en nú hafa bæst við 19 félagar í viðbót. Að sögn Jóhönnu G. Harðardóttur, einum af stofnendum þess, eru í dag að meðaltali 8-10 hænur á eigenda er halda þær hér á landi. Ekki eru svokallaðar dverghænur inn í þessari tölu né þær taldar til landnámshænsna.

Heimildir:
-husdyragardur.is/htmlphp/haensni.htm#nanari
-Mbl. 13. maí 1995

Knarrarnes

Stoltur hani á Knarrarnesi.

Staðarborg
Gengið var að Staðarborg á Strandarheiði. Lagt var upp frá Prestsvörðu sunnan Strandarvegar skammt austan afleggjarans að Kálfatjörn.
Staðarborg

Staðarborg.

Ofar eru svonefndar Klifflatir. Vörður eru á leiðinni svo auðvelt er að nálgast borgina. Staðarstekkur er í lágum hól skammt norðan við hana.
Staðarborg er hringlaga fjárborg, hlaðin eingöngu úr grjóti og er hverjum steini hagrætt í hleðslunni af hinni mestu snilld. Vegghæðin er um 2 m og þvermál að innan um 8 m. Ummál hringsins að utanverðu er um 35 m. Gólfið inni í borginni er bæði slétt og gróið.
Ekki er vitað hvenær borgin var hlaðin upphaflega, en menn telja hana nokkur hundruð ára gamla. Fjárborgir voru víða hlaðnar í heiðinni. Sumar eru horfnar í svörðinn. Sérstök hús yfir fé voru ekki byggð fyrr en í byrjun 20. aldar. Þangað til var það vistað í fjárskjólum (hellum og hraunskútum) nærri bæjum. Tilgangur borganna var að veita fé, sem var á útigangi, skjól í vondum veðrum.

Staðarborg

Staðarborg.

Munnmæli herma að maður að nafni Guðmundur hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjarnarprest. Guðmundur vandaði vel til verka, safnaði grjóti saman úr nágrenninu, bar það saman í raðir og gat einnig valið þá hleðslusteina sem saman áttu. Ætlun hans var að hlaða borgina í topp. En er hann var nýbyrjaður að draga veggina saman að ofanverðu kom húsbóndi hans í heimsókn. Sá hann þá strax í hendi sér að fullhlaðin yrði borgin hærri en kirkjuturninn á Kálfatjarnarkirkju og tilkomumeiri í alla staði. Reiddist hann Guðmundi og lagði brátt bann við fyrirætlan hans. En þá fauk í Guðmund svo hann hljóp frá verkinu eins og það var og hefur ekki verið hreyft við borginni síðan. Staðarborg var friðlýst sem forminjar árið 1951.

Staðarborg

Staðarborg.

Borgin er í þægilegu göngufæri frá Strandarvegi, u.þ.b. miðja vegu á milli hans og Reykjanesbrautar. Vestar eru nokkrar gamlar fjárborgir, sem áhugavert er að skoða, s.s. Þórustaðaborg, Auðnaborg, Lynghólsborg, Hringurinn og Gíslaborg.

Sagan segir að fyrrum hafi þversteinn verið efst í inngangi borgarinnar. Kálfur hafi komst inn í hana og hafi honum ekki verið komið út aftur án þess að fjarlægja hafi þurft steininn fyrst. Hann liggur nú undir veggnum gegnt dyrunum. Leitað var að hugsanlegum ártalssteini í borginni, en enginn fannst að þessu sinni.

Staðarborg

Staðarborg og nágrenni.

Að sögn Sæmundar á Stóru-Vatnsleysu var borgin ávallt nefnd Prestborg fyrrum.
Af ummerkjum að dæma í nágrenni borgarinnar virðist sem þunn hraunskorpan hafi verið brotin skipulega niður og grjótið notað í hleðsluna. Hleðslan sjálf virðist einnig staðfesta það.

Þórustaðaborg

Þórustaðaborg.

Gengið var til vesturs að Þórustaðaborg. Hún er í hvarfi við hraunhól í ca. 10 mín fjarlægð frá Staðarborg. Falleg fuglaþúfa er á hólnum. Borginni hefur einhvern tímann verið breytt í stekk, en suðaustan í honum er gróin tóft. Þá er stök tóft, greinilega gömul, norðvestan undir klapparhólnum, í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Vel gróið er í kringum borgina. Þórustaðastígurinn liggur þarna upp með borginni og sést hann vel þar sem hann liggur til suðausturs ofan hennar, áleiðis að Keili. Stígurinn liggur upp á Vigdísarvelli.
Krækiberjalyngið er farið að reskjast. Sólstafir kitluðu Vogana. Krían átti í erfiðleikum með að fljúga gegn hreyfanlegu logninu. En þrátt fyrir það var veður með ágætum – bjart og hlýtt.

Heimild: http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_stadarborg.htm

Staðarborg

Staðarborg
Staður

FERLIR fer jafnan víðreist þegar lagt er af stað á annað borð. Að þessu sinni var ætlunin að skoða nánar meint bæjarstæði Kaldrana norðvestan Kleifarvatns, mögulegar leifar verslunarstaðar ofan Hvalvíkur austan Hrauns í Grindavík, fornan brunn á Brunnflötum ofan Þórkötlustaðarbótar, gamlar bæjarleifar hins þjóðsagnakennda Nýjabæjar ofan Staðar í Staðarhverfi sem og sagðar sjóbúðaleifar í Litlu-Sandvík.

Kaldrani

Kaldrani í Krýsuvík.

Ari Gíslason skráði örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík. Þar segir m.a.: „Inn við Kleifarvatn er svokallaður Kaldrani. Þar eiga að vera leifar eftir bæ með þessu nafni. Er hans getið í þjóðsögum. Þar eru leifar af gömlum túngarði úr grjóti og lítil grasflöt fyrir ofan, utan í sléttum melhól.“

Í fornleifaskráningu Agnesar Stefánsdóttur 2008 um Krýsuvík og Trölladyngju má lesa eftirfarandi: „Matthías Þórðarson Þjóðminjavörður friðlýsti túngarðsleifar býlisins Kaldrana árið 1930 á grundvelli lýsingar Brynjúlfs Jónssonar (Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902“): Kaldrani er nefndur í þjóðsögum. Er sagt að hann hafi verið hjáleiga frá Krýsuvík og staðið inn við Kleyfarvatn. Og líka er sagt að þar hafi alt fólkið dáið af loðsilungsáti.

Kaldrani

Kaldrani í Krýsuvík.

Örnefnið: Kaldrani er til við vatnið. Sést þar 34 fðm. langur túngarðsspotti úr stórgrýti og lítil grasflöt fyrir ofan, suðaustan í sléttum melhól. Uppi á hólnum er dálítil dreif af hleðslugrjóti, sem virðist flutt þangað af mönnum. Gæti það hafa verið leifar af bænum. Því garðspottinn sýnir það, að þar hafa menn búið á sínum tíma.“

Í örnefnaskrám segir að bæjarins sé getið í þjóðsögum og segir sagan að fólkið á bænum hafi étið loðsilung úr Kleifarvatni sem var eitraður. Um það á þessi vísa að vera:

Liggur andvana
lýður í Kaldrana
Utan ein seta
er ei vildi eta

Kaldrani

Kaldrani – garður.

Suður af Kleifarvatni eru Hvammarnir, þar hafa skátar frá Hafnarfirði byggt skála. Hvammahryggur liggur ofan skálans. En sunnan við hann er Litla-Nýjabæjarhvammur. Seljarúst er þarna og talið, að sel hafi þarna verið í eina tíð frá Kaldrana, sem var eitt býli í Krýsuvíkurlandi. Samkvæmt heimasíðu gönguhópsins Ferlis eru minjar á þessum stað. Mögulegar tóftir fundust á tveimur stöðum í Hvamminum.

Í austur frá Krýsuvíkurvegi við suðurenda Kleifarvatns liggur vegslóði í átt að frístundabyggð sem þar er við endann á vatninu. 150 metrum NA við vegslóðann og 50 m neðan við Krýsuvíkurveg eru leifar túngarðs sem svarar nákvæmlega til lýsingar Brynjúlfs hér að ofan. Túngarðsbúturinn er tæplega 60 metra langur og liggur í sveig neðan við melhól. Friðlýsingarskilti er við norðurenda. Krýsuvíkurvegur fer yfir háhólinn vestan við garðinn.

Kaldrani

Kaldrani – hleðsla undir nýlega girðingu.

Vestan við veginn uppi í hlíðinni fundust leifar af öðrum garði, mun ógreinilegri. Sumsstaðar er einungis ein steinaröð eftir. Garður þessi liggur nærri þráðbeinn uþb. 80 metra langur í SA-NA meðfram veginum. Ef loftmyndin af svæðinu er skoðuð virðist garðurinn halda áfram í NA u.þ.b. 100 metra í viðbót og jafnvel sveigja í átt að veginum. Mögulega hafa þessir tveir garðar ofan og neðan vegar verið samtengdir í upphafi. [Þessi „garður“ eru reyndar leifar girðingar frá Krýsuvíkurbúinu frá því um miðja 20. öld öld; FERLIR].
Ef marka má sagnir um býlið um býlið Kaldrana og að túngarðurinn hafi legið umhverfis bæjarstæðið má telja líklegt að bæjarstæðið sjálft sé nú að mestu horfið undir veg. Upp við og neðan túngarðs er smávegis gróið svæði í dálítilli lægð, þar er nokkuð þýft og mögulega gætu leynst þar tóftir. Annars er svæðið milli garðanna mjög uppblásið.
Hvammarnir sem selið frá Kaldrana á að vera í er rúmlega 1 km. suðsuðaustur af túngarðinum. Það var ekki skoðað að þessu sinni og var ekki greinilegt á loftmynd.

Kaldrani

Kaldrani – minjaskrá.

Einu heimildirnar um bæ á þessum stað eru munnlegar þjóðsögur sem skráðar voru af Jóni Árnasyni (Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862). Þjóðsagan, útgefin af Jóni Árnasyni. Túngarðurinn bendir hins vegar til þess að einhver fótur sé fyrir sögum um bæ á þessum stað og túngarðsleifar í brekkunni ofan vegar renna frekari stoðum undir það. Hér væri því um að ræða jafnvel elsta bæjarstæði á svæðinu og sem slíkt hefur það mikið rannsóknargildi. Ekki er ólíkegt að finna megi fleiri minjar á þessum stað. Sögusagnir um að sel frá bænum sé í Hvömmunum suður af Kleifarvatni þyrfti líka að kanna nánar.“

Öfuguggi
Bær er nefndur Kaldrani er lá nærri fjöllum; annar bær var þaðan býsna langt burtu og er eigi getið hvað hann hét, en nær var hann byggðum. Báðir þessir bæir höfðu silungsveiði í vatni nokkru allstóru er var á milli bæjanna. Eitt sinn heyrðu menn á þeim bænum sem ekki er nafngreindur að komið var upp á baðstofuglugga um kvöld og þetta kveðið:

„Mál er að gana,
[geislar flana.
[Liggur lífs andvana
lýðurinn á Kaldrana,
[utan sú eina seta,
sem ekki vildi eta.“

Eða svo:

„Mál er að gala
hauknum hálfvana.
Liggur allur lífs andvana
lýðurinn á Kaldrana.
Át af óvana,
át sér til bana.
Liggur allur lífs andvana
lýðurinn á Kaldrana.

Hvalvík

Hvalvík.

Kviknaði þá umræða af þessum hendingum; þóttu öllum þær undarlegar og lögðu ýmist til. En bóndi sagði að menn skyldu fara að morgni að Kaldrana og vita hvað þar væri tíðinda. Leið svo af nóttin, en að morgni komandi var farið að Kaldrana og fundust þar allir bæjarmenn dauðir nema barn eitt sem þar var í niðursetu. Þeir sem að komu sáu að heimamenn höfðu allir verið að matast því sumir sátu enn þótt dauðir væru með silungsfötin í knjám sér, en aðrir höfðu rokið um koll með silungsstykkin í höndunum. Húsfreyju fundu þeir dauða á eldhúsgólfinu; hafði hún fallið fram yfir pottinn og réðu menn af því að hún mundi hafa farið að borða úr pottinum þegar hún var búin að færa upp og skammta hinu fólkinu. Þessi atburður þótti öllum kynlegur því engir sáust áverkar á hinum dauðu. Var þá niðursetningurinn spurður hvernig þetta hefði orðið og sagði hann að fólkið hefði dáið þegar það fór að borða, en hann sagðist ekkert hafa viljað og ekki heldur borðað neitt af silungnum. Var silungurinn því næst aðgættur sem af var neytt, og sáu menn að það var öfuguggi, en ekki silungur; en öfuguggi hefur jafnan þótt drepvænt óæti.
Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði eftirfarandi: „Fyrir innan Miðdegishnúk er Kaldrani. Meðal manna lifir enn sú sögn, að heitið Kaldrani sé af býli, er þarna hafi verið. Nú sjást þess engin merki og hvergi finnst þess getið.“

Kapella

Kapellan ofan Hvalvíkur.

Um ofanverða Hvalsvík eða Efri-Hrólfsvík skráði Loftur Jónsson: „Upp af Efri-Hrólfsvík er grjóthrúga og kölluð Ræningjabæli. Þar gróf dr. Kristján Eldjárn þegar hann var þjóðminjavörður og taldi hann að þetta hafi verið enskur verslunarstaður.“ Þarna er Loftur að vísa í uppgröft þann er dr. Kristján o.fl. stunduðu ofan við Hrólfsvíkina á síðari hluta 20. aldar. Aðstæður eru allnokkuð breyttar frá því sem þá var. Búið er að fara með jarðýtur yfir svæðið með fyrirhugaðar túnsléttur í huga. Garðahróf á svæðinu gefa það skýrt til kynna. Ef verslunarstaður hefur verið ofan Hvalvíkur hefur ummerkjum um hann verið eytt, annað hvort með stórvirkum vinnuvélum eða freklegum ágangi sjávar, sem mulið hefur af ströndinni svo tugum metra skiptir á undanförnum öldum.

Brunnflatir

Brunnurinn á Brunnflötum.

Um Brunnflatir á Þorkötlustöðum eru til eftirfarandi heimildir: „Í fyrsta lagi viðtal við Guðmund Benediktsson; í öðru lagi frá feðgunum á Hópi í Grindavík; í þriðja lagi það sem Þorsteinn Bjarnason frá Háholti hefur skráð. Ari Gíslason skráði („Rétt norðan Kónga er flöt í hrauninu sem heitir Miðmundaflöt. Austur frá henni er Syðribót og Heimribót. Upp af þeim eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Þá eru Miðmundaklettar, og milli þeirra og túns er Sandfjara. Niður af Brunnflötum var vatnsstæði, sem notað var til að vatna í skepnum“).

Loftur Jónsson skráði eftirfarandi um Þórkötlustaði: „Síðan tekur Þórkötlustaðabót við og skiptist hún í tvo hluta. Fyrst Syðribót og síðan Heimribót. Norðaustan við klapparana sem skiptir bótunum eru klappir í flæðarmálinu; Hundaklettar. Upp af Heimribót eru sandflatir nefndar Brunnflatir. Neðst á Brunnflötum við kampinn var grafinn brunnur þar sem skepnum var vatnað áður en brunnur var grafinn hjá Þórkötlustöðum.“

Rétt mun vera að nefndur brunnur hafi verið á Brunnflötum. Leifar hans, þ.e. hleðslum ofan hans, má sjá þar enn í dag.

Staður

Stekkur ofan Staðs.

Í „Örnefni í Staðarlandi“, sem séra Gísli Brynjólfsson skráði og eru á bls. 25-34 í bók hans: Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók, má lesa um „Nýjabæ“. Heimildir Gísla hafa verið frásagnir kunnugra manna og örnefnalýsing Staðar eftir Ara Gíslason. Lýsing Ara er geymd á Örnefnastofnun og er einnig höfð hliðsjón af henni við gerð þessarar lýsingar. Heimildarmenn Ara voru: Gamalíel Jónsson, bóndi á Stað (d. 1964), Guðsteinn Einarsson, hreppstjóri í Grindavík og Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.

„Hæðin vestan og ofan við bæinn á Stað heitir Bringur. Bergskot var uppi á Bringnum, í norðvestur frá Stað (þ.e. bænum). Þar voru tveir bæir sambyggðir þegar Á.V. og S.V.G. mundu eftir. – Nýibær var utan við Bringinn, nálægt 100 m norður af Bergskoti.“
Skv. framanskráðu var nefndur Nýibær í núverandi vegstæði Reykjanesvegar. Ofan vegarins má hins vegar sjá stekk, gerði, rétt, fiskibyrgi, fiskigarða og fleira er hafa verið hluti slíkrar búskaparheildar.

Staður

Staður – gerði ofan bæjar.

Um Litlu-Sandvík segir: „Vestan við Klettinn er Sandvík. Niður í báðar víkurnar, Mölvík og Sandvík, er hægt að aka á bíl.- Skálholtsstaður átti fyrrum allan reka í Sandvík.“
Gísli Brynjólfsson segir, að í Sandvík sé „talið, að hafi verið verbúð, jafnvel tvær, fyrir eina tíð, enda má þetta kallast ein af fáum „byggilegum“ stöðum á þessum auðnarslóðum.“ (Staðhverfingabók, bls. 29). Hvorki S.V.G né Á.V. kannast við að hafa heyrt talað um byggð í Sandvík.

Þegar aðstæður í Litlu-Sandvík voru skoðaðar má ljóst vera að þar hafi fyrrum verið nauðhöfn. Að vísu hefur marinn barið ströndina óbirmilega í gegnum aldirnar svo í dag er þar fyrrum ólíku saman að jafna. Ef sjóbúðir hafa einhvern tíma verið ofan Litlu-Sandvíkur hefur Ægir annað hvort brotið þær undir sig fyrir löngu eða að minjar slíkra búða lumist undir ofanverðri sandorpinni ströndinni. Erfitt er um slíkt að spá…

Litla-Sandvík

Litla-Sandvík – mögulegar mannvistarleifar.

Litla-Botnssel

FERLIR hefur löngum fjallað um seljabúskap á Reykjanesskaganum – m.a. lýst öllum 401 seljunum, sem þar er að finna, gerð þeirra og sérstöðu, aldri m.t.t. heimilda o.s.frv.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Í riti Landbúnaðarháskóla Íslands nr. 131 skrifar Bjarni Guðmundsson um seljabúskap, bæði út frá staðbundinni athugun hans á seljum í Dýrafirði sem og almenn út frá sögum og sögnum. Þar segir m.a.:

„Dalabotnarnir voru alsettir seljum“, fyrirlas Páll Zóphóníasson nemendum sínum á Hvanneyri veturinn 1919-1920, „og enn má sjá þess ljós merki af tóftunum sem nú standa sem menjar um horfna frægð, því frægð var það að hafa manndóm í sjer til að hafa fjenað í seljum.“

Seljahugtakið hefur með árunum fengið á sig eilítið rómantískan blæ, ef til vill vegna ýmissa þjóðsagna sem seljum eru tengdar, legu þeirra í víðernum og frjálsræði fjarri byggð en sjálfsagt einnig vegna erlendra áhrifa, einkum frá Noregi, þar sem þessi búskaparháttur tengist í hugum margra fögru landslagi og sællegum selstúlkum. Ýmsir kannast t. d. við lag Ole Bull, Sunnudagur selstúlkunnar, leikrit Riis: Upp til selja, sem mjög var vinsælt hérlendis á fyrri hluta síðustu aldar, og fleira mætti nefna úr flokki rómantískra lýsinga. Skáldið Snorri Hjartarson orti til dæmis kvæði sem er verðugur fulltrúi þeirra, kvæði sem hann nefndi „Mig dreymir við hrunið heiðarsel“:

Nærsel

Nærsel – uppdráttur ÓSÁ.

Mig dreymir við hrunið heiðarsel: heyri ég söng gegnum opnar dyr, laufþyt á auðum lágum mel? Líf manns streymir fram, tíminn er kyr. Allt sem var lifað og allt sem hvarf er, það sem verður dvelur fjær ónuminn heimur, hulið starf; hús þessa dags stóð reist í gær.

Við göngum í dimmu við litföl log í ljósi sem geymir um eilífð hvað sem er, og bíður. Fuglinn sem flaug framhjá er enn á sama stað. Veruleiki selfólksins hérlendis og sennilega einnig í nágrannalöndum okkar mun þó ekki aðeins hafa verið gleði og rómantík. Víða var seljabúskapurinn hluti þess að komast af við þröng kjör og óblíða náttúru fyrri alda; enginn leikur heldur bláköld og oft mjög erfið lífsbarátta.

Selin í sögu og lögum
Seljabúskapur er eitt af einkennum fornrar norrænnar kvikfjárræktar. Sel og selför voru hluti hins dreifbæra (extensive) búskapar sem einkenndi hana. Hann var og er einnig þekktur í Alpahéruðum Evrópu, í Skotlandi, Írlandi og raunar í fleiri hornum heimsins (summer farming). Seljabúskapur var leið til þess að nýta fjarlæg en oft kostamikil beitilönd, gjarnan ofan skógarmarka, til framleiðslu mjólkur á hásumri með sauðfé, kúm og geitum. Mjólkin var unnin í ýmsar afurðir til heimaneyslu um ársins hring en gat einnig verið liður í öflun nauðsynlegs gjaldmiðils t. d. smjörs upp í land- og gripaleigu. Seljabúskapur á einu eða öðru formi á sér fornar rætur er rekja má langt aftur til járnaldar. Þrennt mótaði seljabúskapinn: búfé, fólk og landkostir, einkum beitarkjörin.

Hraunssel

Hraunssel – stekkur.

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á seljum og seljabúskap. Það eru ekki síst Norðmenn sem þar hafa verið afkastamiklir enda búhátturinn mjög algengur þar í landi. Hér verða þeim rannsóknum ekki gerð sérstök skil heldur látið nægja að vísa til yfirlitsverka, svo sem þriggja binda verks Lars
Reinton um sel og selfarir; skipulag, verklag og lið í framfærslu. Þá hefur Karoline Daugstad fjallað um sel og selfarir í margbreytilegum formum sem mótandi þátt menningarlandslags svo og vitundar fólks og viðhorfa frá starfrænum og ekki síst fagurfræðilegum sjónarmiðum í listum og menningu.
Reinton skilgreindi hinn norræna seljabúskap (sæterbruk) þannig: „Sæterbruk er det når ein gard (ein fast vinterbustad) har krøtera sine i sumarbeite på ein stad eit stykke frå garden der det er husvære og fast personale, så ein kan nytta ut større vidder til beite, som regel òg til slått og onnor fórsanking, og så ein kan spara på heimemarkene og nå i betre beite, føde fleire krøter over vinteren og skaffe forråd til levemåten på den faste bustaden (garden)“.

Hraunssel

Hraunsselsstígur.

Með nokkurri einföldun má segja að tvær kenningar hafi einkum staðið um upphaf og þróun hins norræna seljabúskapar: Fyrst sú að seljabúskapurinn hafi þróast úr hjarðmennsku (nomadism) og eigi sér rætur í hinum indóevrópska frumbúskap og fyrstu búsetu jarðyrkjufólks. Reinton var einkum talsmaður þeirrar kenningar en verk hans var lengi vel miðlægt í norrænni seljaumræðu. Hin kenningin er sú að seljabúskapur hafi á löngum tíma einkum þróast sem svæðabundið svar við breytilegri þörf fyrir beitilönd og fóður. Svo virðist sem síðari kenningin njóti nú meira fylgis þótt í raun séu þær sprottnar af sömu rót – þörfinni fyrir hagkvæma nýtingu takmarkaðra beitilanda til öflunar lífsnauðsynlegs matarforða. Þótt álitið sé að vestur-norskir landnámsmenn hafi fært seljabúháttinn með sér til Íslands og mótað hann í fyrstu með hliðsjón af eigin reynsluheimi og áþekkum umhverfisaðstæðum virðist hátturinn hafa þróast með ólíkum hætti í löndunum tveimur.

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

Cabouret segir Frostaþingslög geyma orðið sel í sömu merkingu og hin 200 árum yngri lög nota orðið setur/sætr. Upphaflega merkti sel aðeins lítið einsrýmis hús en setur dvalarstað. Það síðara taldi hann fela í sér hlutverkaskiptara mannvirki fyrir fólk og fé og til framleiðslu mjólkurafurða. Ennfremur að það benti til þess að það hafi fyrst verið á hámiðöldum sem norski seljabúskapurinn var fullþróaður. Að baki því áleit Cabouret liggja byggðaþróun sem ýtti búfjárhaldi að sumarlagi það langt frá býlinu að hverfa varð frá mjaltastað svo nærri býli að í mesta lagi þurfti dálítið sel til næturhvíldar, ef fjarlægðin heim var þá ekki orðin það mikil að frágangssök var að fara heim á milli morgun- og kvöldmjalta.

Vífilsstaðasel

Vífilsstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Cabouret benti á að það var aðeins heitið sel sem fluttist til Íslands, og að þess vegna megi reikna með því að þetta form seljabúskapar hafi verið hið algenga í Vestur Noregi við landnám Íslands. Þegar støl/stöðull varð algengt heiti selja í Vestur Noregi bendir það til hins sama. Orðið táknar mjaltastað, upphaflega án búsetu. Á Íslandi er orðið aðeins þekkt í hinni upphaflegu merkingu, sem mjaltastaður. Það taldi Cabouret benda til þess að merkingar-breytingin hafi fyrst orðið í Noregi eftir fólksflutningana til Íslands.

„Hve afarmikla þýðingu selin hafa haft á fyrri öldum, sést af hinum óteljandi seljarústum, sem eru dreifðar um afdali og heiðar um alt Ísland“, skrifaði Þorvaldur Thoroddsen árið 191912 en hann er líklega sá, ásamt þjóðverjanum Hitzler, sem lengi vel átti rækilegasta yfirlitið um sel og selstöður á Íslandi.

Kolhólasel

Kolhólasel – uppdráttur ÓSÁ.

Annars eru innlendar heimildir eru býsna ríkulegar. Þær byggjast bæði á sérstökum sagnfræði- og fornleifarannsóknum, sem gerðar hafa verið, sem og almennum frásögnum af seljum og seljabúskap í einstökum sveitum. Til viðbótar þeim heimildum, sem þegar hafa verið nefndar, má úr fyrri hópnum sérstaklega nefna rannsóknir þeirra Guðrúnar Ólafsdóttur og Guðrúnar Sveinbjarnardóttur en úr þeim síðari til dæmis verk Eyfirðingsins Hólmgeirs Þorsteinssonar og Skaftfellingsins Einars H. Einarssonar. Þá ber úr þeim flokki að nefna afar athyglisverða heimasíðu með fróðleik um sel, selstöður og seljabúskap á Reykjanesskaganum. Þá birti Benedikt Eyþórsson samantekt um seljabúskap á Íslandi og í norrænu ljósi í tengslum við rækilega rannsókn sína á búskap og rekstri Reykholtsstaðar fyrr á öldum. Beitarbúskapurinn, sem var grunnur að rekstri seljanna, gegndi miklu hlutverki í norrænum heimi, jafnvel svo að á vissum tíma sögunnar, svo sem á víkingaöld, hafa fræðimenn talið að [góðir] hagar hafi verið meginuppspretta auðs og valda.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

Höfundur Laxdæla sögu notar heitið sel um hin einstöku hús svo sem talin er hafa verið hin upphaflega merking orðsins. Við stympingar í Vatnshornsseli rifu árásarmenn „ræfrit af selinu“ en „selit var gert um einn ás, ok lá hann á gaflhlöðum, og stóðu út af ásendarnir, og var einart þak á húsinu ok ekki gróit.“ Orðalagið einart þak má í þessu samhengi skilja sem þak einfaldrar gerðar. Frásögnin bendir til þess að yfir selhússveggina hafi verið reft með einföldum hætti, hugsanlega aðeins til sumars í senn. Ekki er fráleitt að takmörkuð árleg notkun selhúsanna, og það á hlýjasta tíma sumars, hafi ýtt undir það að húsagerðin væri höfð einföld og að efni til þeirra væri sparað, til dæmis hvað snerti burðarviði þaks og árefti.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Í lögbókunum fornu, Grágás, lagasafni íslenska þjóðveldisins, og Jónsbók, sem samþykkt var á Alþingi árið 1281, er allvíða vikið að seljum og selförum. Er það mjög til marks um mikilvægi seljanna á gildistíma lögbókanna. Lögin geyma ýmis atriði varðandi umgengni um sel og selstöður svo og selfarir, atriði sem varpa gagnlegu ljósi á forsendur og framkvæmd þessa búháttar. Hér verður því nokkurra ákvæða lögbókanna getið með beinum tilvitnunum í texta þeirra:

Úr Grágás (tölur vísa til blaðsíðu)

20: Manni er rétt að fara, þótt drottinsdagur sé, til sels með byttur . . .

319: OF SELFÖR. Ef maður hefir lönd fleiri undir bú sitt en eitt, og vill hann fara þar í sel yfir annars manns land, og á hann þar að fara með fé sitt tysvar á sumri til sels, en því aðeins oftar ef þar verða misgöngur fjár, þá á hann að reka heim smala sinn. Hann á fornar götur að fara, ef þær eru til.

Nessel

Nessel – uppdráttur ÓSÁ.

Ef hann fer of engi manns, þá skal hann í togi hafa hið lausa hross. Ef þar eru keldur á götu hans, og á hann að gera brúar þar yfir og vinna þau áverk á annars manns landi. Ef maður fer yfir engi annars, og hlýtur hinn af því skaða, þá varðar honum það útlegð, enda skal hann bæta honum skaða, svo sem búar fimm virða við bók.

320: ENN OF SELFÖR. Ef maður fer annan veg til sels of annars manns land með smala sinn eða klyfjahross en áðan var tínt, og verður hann útlagur of það þrem mörkum, og bæta auvisla sem búar virða við bók.

Ef fimm aura skaði verður að eða meiri, þá varðar fjörbaugsgarð. . .

330: . . . Eigi skal sel gera í afrétt. Ef gert er, þá er sel óheilagt, og eigu þeir að brjóta sel er afrétt eigu, enda verður sá útlagur er sel gerði eða gera lét við þá alla er afrétt eigu, og sinni útlegð við hvern þeirra.

Úr Jónsbók (tölur vísa til blaðsíðu):

Bjarnastaðasel

Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.

146: . . . þá skal það boð hver bera en engi fella, og á það að fara með veturhúsum eftir boðburð réttum en eigi með sætrum. . .

147: Sá skal boð bera bæja í milli . . . En ef hjú eru öll af bæ gengin, þá skal ganga í seturhús bónda ef það er opið og setja niður í öndugi svo að eigi falli.

186: [Hvervetna þar sem sætur eru til bæja manna, þá skulu menn fara með búfé sitt yfir annars land til sætra, fornar götur ef til eru, og hafa í togi laus hross ef yfir eng er að fara. En ef keldur eru á leið hans, þá má hann gjöra þar brú yfir og vinna þann áverka á jörðu hins]. Menn skulu fara úr húshaga með fé sitt þá er tveir mánaðir eru af sumri, utan þeim þikki öllum annað hentara er brottfærslu eigu.

En ef einhver situr lengur niðri, þá skal sá er að telur fyrirbjóða honum þarsetu. Nú situr hann heima eigi að síður, þá skal hann stefna honum héraðsþing fyrir rán og þarsetu. Þá eiga þingmenn að dæma konungi hálfa mörk fyrir grasrán en grönnum hans hálfa mörk fyrir grasverð þeim er gras missa. Nú skal hann æsta svo marga bændur liðs sem hann þarf að færa fé hins úr haga sínum. Sekur er sá hver tveimur aurum við konung er eigi fer, ef hann er til krafður. Slíkt hið sama liggur við ef maður fer heim í húshaga fyrir tvímánuð.

186: [Nú skal til sætra á fjöll upp vera merki sem að fornu fari hefir verið og færa sætur eigi úr stað utan hann færi öngum manni til skaða, og svo skulu þeir hið sama sætrum halda. Engi maður skal setja sætur sitt við annars land eður haga, þar sem eigi hefir að fornu verið. Þar skal mæta horn horni og hófur hófi.]

Arasel

Ara(hnúka)sel – uppdráttur ÓSÁ.

186: Þjóðgata og sæturgata og allir rekstrar skulu vera sem að fornu fari hafa legið . . . [187] . . . Ef maður rænir annan mann sæturgötu eður rekstri þeim sem að fornu fari hefir verið, bæti konungi hálfri mörk fyrir vegarán og hafi hinn þó götu sem áður.

198: . . . Sætur má hver maður gjöra er þann almenning á ef hann vill þar sitja í sumarsetri, ef það er.“

Á vef HÍ 2020 má lesa eftirfarandi frétt:
„Flest þekkjum við og höfum sungið þetta kvæði Sveinbjarnar Egilssonar, fyrrverandi rektors Menntaskólans í Reykjavík. Kvæðið vísar til horfins tíma á Íslandi, tíma þar sem kindur og kýr voru reknar á afskekkta staði fjarri bóndabæjum, í svokölluð sel, yfir sumartímann. Þar voru dýrin á beit og smalar eða vinnukonur höfðu það hlutverk að mjólka skepnurnar og hirða um þær.

Seljabúskapur tíðkaðist á Íslandi frá landnámi og fram á 19. öld líkt og víða í Evrópu. Þess konar búskapur er viðfangsefni Árna Daníels Júlíussonar, sérfræðings hjá Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, og erlendra samsstarfsfélaga hans í rannsóknarverkefninu PECUS sem hlotið hefur styrk frá Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.

„Markmið PECUS-verkefnisins er tvíþætt: Annars vegar er viðfangsefni og hins vegar aðferð sem beitt verður til að fást við það. Viðfangsefnið er seljabúskapur í löndum Evrópu. Með í verkefninu eru sérfræðingar sem hafa rannsakað seljabúskap á Íslandi, Bretlandi, Alpafjöllum, á Spáni, Ítalíu og Grikklandi, og markmiðið er að kynna þessar rannsóknir og leggja þær fram þannig að þær nýtist sem viðfangsefni í verkefninu. Aðferðin sem unnið verður með heitir á ensku „Fuzzy Cognitive Mapping“ og felst í að nota tölvuforrit til að greina og bera saman seljabúskap í löndunum fimm. Unnið verður með ókeypis forrit að svokallaðri „huglægri líkanagerð“ (e. mental modelling) með hin ýmsu seljakerfi sem viðfangsefni,“ útskýrir Árni Daníel sem hefur sérhæft sig í sögu íslenska bændasamfélagsins í rannsóknum sínum.

Nemendur og kennarar starfa saman að verkefninu

Lónakotssel

Lónakotssel.

Árni Daníel segir að frumkvæðið að rannsóknarverkefninu hafi komið frá Ítalíu, frá stofnun sem hefur sinnt ýmsum samevrópskum verkefnum á sviði skipulagsmála, landfræði og sögulegrar landfræði og nefnist U-space. Fulltrúar hennar hafi haft samband við rannsóknasamfélög í Grikklandi, Spáni, Bretlandi og Íslandi og leitað samstarfs og byggður hafi verið upp verkefnishópur.

Verkefnið hófst síðastliðið haust og stendur í tvö ár. „Hugmyndin er að fá kennara og nemendur til samstarfs í verkefninu. Nokkur námskeið og ráðstefnur verða haldin, í Newcastle á Englandi og Valencia og Sevilla á Spáni, og þangað verður kennurum og nemendum úr viðkomandi háskólum boðið til að vinna með viðfangsefni verkefnisins,“ segir Árni Daníel.

Hamrasel

Hamrasel – uppdráttur ÓSÁ.

„Með í verkefninu eru sérfræðingar sem hafa rannsakað seljabúskap á Íslandi, Bretlandi, Alpafjöllum, á Spáni, Ítalíu og Grikklandi, og markmiðið er að kynna þessar rannsóknir og leggja þær fram þannig að þær nýtist sem viðfangsefni í verkefninu. Aðferðin sem unnið verður með heitir á ensku „Fuzzy Cognitive Mapping“.

Seljabúskap hnignaði eftir Stórubólu
Ritaðar heimildir um seljabúskap er að sögn Árna Daníels að finna í íslenska fornbréfasafninu og víða í fornritum, eins Íslendingasögum og öðrum sögum. Þá megi finna ýmislegt um síðari alda seljabúskap mjög víða í ritheimildum og bendir Árni Daníel sérstaklega á Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem gefi mjög nákvæmt yfirlit um ástandið í upphafi 18. aldar.

Viðeyjarsel

Viðeyjarsel.

Hins vegar segir hann að seljabúskapur á Íslandi sé lítt rannsakaður. „Þó hefur ýmislegt komið í ljós um seljabúskap fyrr á tímum við fornleifaskráningu á síðustu áratugum og til er þýskt doktorsrit um seljabúskap á Íslandi frá 1979. Fornleifaskráning leiðir í ljós að seljabúskapur var miklu mun útbreiddari fyrr á öldum en t.d. 1702-1714 þegar miklar heimildir um seljabúskap voru skráðar í Jarðabók Árna og Páls. Við Eyjafjörð hefur komið í ljós að sel var nánast við hvert lögbýli til forna en þegar Jarðabókin var tekin hafði seljunum fækkað mjög mikið. Aðeins voru fá sel eftir í sýslunni miðað við það sem verið hafði. Svo er ekki vitað á hvaða tíma þessi sel störfuðu, hvort það var um skamman tíma eftir landnám eða hvort það var allar miðaldir. Þetta er mjög spennandi viðfangsefni sem vonandi verður unnt að ræða innan ramma þessa verkefnis,“ segir hann enn fremur.

Mjóanessel

Mjóanessel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekkert er vitað um hvort íslenskum seljabúskap hafi svipað eitthvað til sams konar búskapar við Miðjarðarhaf en sá íslenski á rætur sínar að rekja til Noregs. „Norskur seljabúskapur er ekkert sérlega gamall í samhengi landbúnaðarsögunnar. Hann hófst þegar farið var að nýta land betur, að líkindum vegna aukinnar fólksfjölgunar um 200–300 e.Kr. Það kerfi var síðan flutt nær óbreytt hingað til lands en það liggur s.s. nær ekkert fyrir um það hversu lengi því var haldið við. Egon Hitzler gerir í doktorsritgerð sinni frá 1979 ráð fyrir að seljabúskap hafi hnignað eftir plágur 15. aldar og greinilegt er að seljabúskap hnignaði mjög eftir Stórubólu 1707. Þar var frekar um að ræða aðlögun að aðstæðum en hnignun því gróðurlendi á hvern íbúa er það mikið hér á landi að í rauninni var ekki þörf á seljabúskap eins og hann var stundaður í Noregi þar sem gróðurlendi er minna á hvern íbúa og þörf á að þaulnýta allan gróður,“ bendir Árni á.

Verkefnið tengir íslenskt fræðasamfélag við Miðjarðarhafssvæðið
Aðspurður segist Árni Daníel vona að verkefnið skili þekkingu á og færni í nýrri aðferðafræði í félags- og hugvísindum, sem hægt er að nota á breiðu sviði, ekki einungis í tengslum við seljabúskap. „Mikilvægt er þó að fjalla um og búa til gagnagrunn um rannsóknir og þekkingu á seljabúskap hérlendis sem gæti nýst til rannsókna á því sviði.“

Selvogsheiði

Selvogsheiði – sel. Uppdráttur ÓSÁ.

Alþjóðlegt samstarf verður sífellst stærri þáttur í starfi fræðimanna Háskólans sem skilar í senn nýjum hugmyndum inn í íslenskt vísindasamfélag og nýrri þekkingu og vinnuaðferðum innan fræðigreina eða í tengslum við afmörkuð viðfangsefni. „Verkefnið tengir íslenskt fræðasamfélag við lönd sem eru ekki svo nálægt okkur og tilheyra öðru svæði Evrópu, Miðjarðarhafssvæðinu. Nýjar aðferðir í akademískri vinnu eru alltaf velkomnar og mikil nauðsyn er á að kanna betur seljabúskap hér á landi“, segir Árni Daníel að endingu.“
Ástæða er til að vekja athygli á að „hnignun seljabúskapar í kjölfar farsótta fyrr á öldum“ verður að teljast eðlileg í ljósi aðstæðna á hverjum tíma. Hins vegar munu breyttir búskaparhættir hafa haft mun meiri áhrif en hingað til hefur verið gert ráð fyrir.

Á vef Fornleifastofnunar Íslands 6. desember 2022 má lesa eftirfarandi:

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

„Í ár styrkti Rannís verkefnið „Þróun seljabúskapar á Íslandi 800-1800“ til þriggja ára. Í rannsókninni verður leitast við að svara spurningum um upphaf og hnignum seljabúskapar hér á landi og kannað hvaða vísbendingar seljabúskapur fyrri alda getur gefið um vist-, félags-, hag- og landbúnaðarkerfi á Íslandi frá 800 til 1800. Til að svara þessum spurningum verða nýtt ýmis verkfæri fornvistfræði, fornleifafræði og sagnfræði og eru aðferðir landsháttafornleifafræði í forgrunni. Sel voru eins konar útstöðvar frá bæjum. Þau voru gjarnan nokkurn spöl frá bæjum, inn til dala eða upp til fjalla og þar voru mjólkandi skepnur voru hafðar yfir sumartíma.

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – tilgáta.

Á Íslandi voru vinna í seljum yfirleitt talin til kvennastarfa, a.m.k. á seinni öldum, en víða annars staðar í heiminum voru og eru það gjarnan karlar sem sjá um þessi verk, því þótt seljabúskapur hafi að mestu lagst af á Íslandi á 18.-19. öld er hann enn stundaður víðs vegar í heiminum. Margvíslegar athuganir hafa verið unnar á þessu fyrsta ári rannsókna.“
Framangreindar athuganir virðast ekki hafa skilað sér til áhugasamra um verkefnið.

Heimild:
-https://issuu.com/landbunadarhaskoli_islands/docs/rit_lbhi_nr_131_sel_og_selstodur_vid_dyrafjord_lok/s/17199734
-https://www.hi.is/frettir/sameinast_um_ad_rannsaka_seljabuskap_i_evropu
-https://www.facebook.com/people/%C3%9Er%C3%B3un-seljab%C3%BAskapar-%C3%A1-%C3%8Dslandi-Transice/100083391214649/

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel – tilgáta.

Knarrarnes

Gengið var frá letursteininum við garðhliðið að Stóra-Knarrarnesi, um fjöruna og litið á hlaðna garða og sjávarhús á bakkanum neðan við Minna-Knarrarnes.

Knarrarneskirkja

Minna-Knarrarnes.

Birgir Þórarinsson, prestur í Vogum og ábúandi á Minna-Knarrarnesi, fræddi þátttakendur um örnefni, fyrrum bæjarstæði, álagabletti, dysjar, brunna og leturstein. Gamli bærinn að Knarranesi stóð þar sem útihúsin eru núna suðvestan við núverandi hús. Útihúsin eru að hluta til (einn veggur um mið húsin) er hlaðinn úr grjóti er hrökk til afgangs úr byggingu Alþingishússins við Austurvöll (líkt og Breiðabólstaður á Álftanesi). Sjá má í enda vegghleðslunnar á miðjum framgaflinum. Ofar á túninu er svonefnt Brandsleiði, álagablettur, sem ekki hefur mátt hreyfa við.

Knarrararnes

Knarrarnesbrunnur.

Ofan við þjóðveginn er hlaðinn brunnur. Hann hefur verið fylltur upp til að koma í veg fyrir hugsanleg óhöpp líkt og svo margir brunnar aðrir á Reykjanesi. Brunnhleðslan sést vel. Sagðist Birgir hafa séð vatn efst í brunninum s.l. vetur. Ekki liggur ljóst fyrir hvers vegna brunnstæðið er þarna, en þó er vitað að gamli bærinn stóð þarna skammt fyrir norðan brunninn. Hann gæti því hafa tilheyrt honum á þeim tíma. Digravarða (landamerki) er þarna skammt austar á hól. Úr henni liggja landamerki Minna-Knarrarness í Eldborgir ofan við Knarrarnessel, skammt norðan við gamla Hlöðunesselið.

Knararnes

Minna-Knarrarnes – letursteinn.

Digravarða er ofan við hlaðinn garð vestan og sunnan við Hellur. Talið er að hún hafi verið ein kirkjuvarðanna svonefndu, en þarna neðan við á gatan að Kálfatjarnarkirkju að hafa legið fyrrum.
Skoðaður var letursteinn í garði norðan við íbúðarhúsið að Minna-Knarrarnesi. Um er að ræða brotinn myllustein með áletrun. Hann er mosavaxinn og því erfitt að ráða í áletrunina. Birgir taldi að áletrunin gæti verið 1823. Eitthvert skraut er einnig á steininum. Norðan við garðinn eru Krosshólar og Breiðihóll enn norðar.

Knarrarneshverfi

Knarrarneshverfi.

Knarrarnesbrunnurinn er nálægt íbúðarhúsinu. Á túninu eru ýmsar hleðslur og gömul mannvirki, sem fróðlegt væri að skoða nánar.
Sandlóa hafði verpt öðru sinni á einum hraunhólnum. Krían lét illa, enda að verja afkvæmi sín. Birgir sagði krívarpið hafa stækkað umtalsvert undanfarin ár.
Frábært veður.

Knarrarnes

Áletrun á klöpp við Knarrarnes.

ísólfs

Nútíminn hefur vaxandi áhuga á umhverfi og umhverfisvernd, útivist og ódýrri heilsueflingu, ekki síst nú á tímum hækkandi eldsneytisverðs og kröfu um ráðdeild.

Selatangar

Selatngar – verkhús.

En hvað með söguna, varðveislu og nýtingu hinna áþreifanlegu minja?
Á Reykjanesskaganum býr yfir helmingur Íslendinga, á einu fjölbreyttasta útivistarsvæði landsins, en jafnframt því vannýttasta. Á svæðinu er mikill fjöldi sögulegra minja. Lítill hluti þeirra hefur þó verið skráður og örfáar áhugaverðar minjar hafa beinlínis verið varðveittar með markvissum aðgerðum eða áætlunum um að gera þær aðgengilegar fólki. 

Flestar lýsa minjarnar sögu þjóðarinnar frá upphafi norræns landnáms, stig af stigi, menningu og búskaparháttum liðinna alda, t.a.m. tóttir gamalla bæja, sjóbúðir, sel og selstöður, stekkir, kvíar, nátthagar, hleðslur, fjárborgir og hellar, fjárskjól, þjóðleiðir, mörk og merkingar auk dysja, brunna, flórgólf, naust og varir.

Gíghæð

Vegavinnubúðir á Gíghæð.

Hvert sem farið er liggur sagan geymd – en ekki öllum gleymd. Ótaldar eru náttúruminjarnar á Reykjanesskagnum, sem margar hverjar eiga hvergi sína líka, svo og umhverfið og náttúrúran sjálf í hraunum, hlíðum, dölum, fjöllum, hálsum og við læki og vötn.
Lítill áhugi virðist hafa verið fyrir því að rannsaka og/eða endurgera minjar á svæðinu svo gera megi söguna aðgengilegri og um leið nýtanlegri.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli (Arngrímshelli).

Allir hafa í raun gott af því að vita af uppruna sínum og fá tækifæri til að gera sér grein fyrir hvar rætur þeirra liggja, hvernig forfeðurnir lifðu og við hvaða aðstæður þeir komust af. Jafnframt hvernig nýta megi arfinn sem best komandi kynslóðum til heilla.

Minjasagan lýsir ekki síst einkennum þjóðarinnar og hvernig hún nýtti landkosti og efni öðruvísi en aðrar þjóðir, hvernig dreifing útvegsbændabyggðarinnar var með ströndum landsins, nýting innlandsins og önnur hagnýting landsgæðanna. Hver var t.a.m. ástæðan fyrir því að landsmenn bjuggu í „moldarhólum“ og hlöðnum byrgjum langt fram eftir öldum á meðan fólk víðast hvar annars staðar í Evrópu hafði búið í steinhúsum um árþúsundir?

Flekkuleiði

Flekkuleiði.

Á Reykjanesskaganum er hægt að sjá bæði þróun híbýlanna hér á landi og upphaf steinhúsabygginganna á 19. öldinni – ef vel er að gáð. Fyrsti viti landsins var reistur á Valahnjúk á Reykjanesi og svo mætti lengi telja. Um hann og ótalmargt annað, bæði fyrst og merkilegast, er fjallað á vefsíðu þessari.

Algengara er í seinni tíð að hópar eða jafnvel vinnustaðafélagar taki sig saman og skipuleggi stuttar gönguferðir starfsmanna. Um er að ræða ódýrt en hollt ráð til að bæta heilsu og líðan þeirra, sem hlut eiga að máli, en jafnframt kjörið tækifæri til að kynnast sögu, minjum og umhverfi svæðisins. Stutt er á þau mið sem og allt, sem til þarf. Frá Reykjavík tekur t.a.m. ekki nema innan við stundarfjórðunga að komast á flest áhugaverðustu svæði Reykjanessins.

Garður

Gengið um Garð.

Ástæða er til að hvetja fólk til að hreyfa sig umfram hið venjubundna og að áhugasamt fólki nýti sér nálægðina til að kynna sér hið margvíslega sem umhverfið og svæðið allt hefur upp á að bjóða.

Gönguhópurinn FERLIR hefur nýtt undanfarin misseri til að ganga um einstök svæði á Reykjanesskaganum. Upphaflega var markmiðið að fara eitt hundrað ferðir um svæðið til að skoða það helsta, en þrátt fyrir tæplega 1260 ferðir, sem að jafnaði hafa tekið 1-5 klst hver, eru enn stór svæði ógengin og óskoðuð.

Keflavík

Í Keflavík.

Hópurinn hefur á ferðum sínum um Reykjanesskagann leitað til fólks, sem fætt er eða uppalið á hinum ýmsu svæðahlutum. Hvarvetna hefur hópnum verið vel tekið og fólk verið ótrúlega áhugasamt og viljugt að miðla af fróðleik sínum og þekkingu. Berlega hefur komið í ljós að þetta fólk býr yfir bæði mikilli og ómetanlegri vitneskju um minjar og sögu staðanna. Þessu fólki fer því miður fækkandi og líklega kemur að því að margt af því, sem vitneskja er um í dag, hverfi með tímanum – nema eitthvað verði að gert til að varðveita það (umfram það ágæta sem þegar hefur verið gert).

Hrútagjárdyngja

Gengið um Hrútagjárdyngju.

Komið hefur á óvart hversu ótrúlega mikið og margt Reykjanesskagasvæðið, bæði ofan og utan höfuðborgarsvæðisins, hefur upp á að bjóða útivistarfólki eða öðru því fólki, sem nennir að leggja svolítið á sig eða hefur áhuga á að fræðast, hreyfa sig eða skoða sig um.

Í ferðum FERLIRs hefur oft verið um að ræða gönguferðir utan alfararleiða og þá tækifærið verið notað og skoðaðar jarðmyndanir á svæðinu, fjöll, dalir, hæðir og lægðir, hellar, minjar, s.s. sel, fjárskjól og brunnar, nátthagar, gjár, gamlar þjóðleiðir, vötn, námur, hverir, brunnar, flugvélaflök, eldgígar, eldborgir, vitar, hleðslur og skógræktir. Jafnframt hefur verið reynt að setja sig í spor og kynnast lífi fólks og aðstæðum þess á öldum áður.

Festarfjall

FERLIRsfélgar ferðast um neðsta hluta „Festarinnar“ undir Festarfjalli.

Sumir staðanna, sem gengið hefur verið á, eru mjög viðkvæmir fyrir átroðningi og því kannski ekki beinlínis æskilegt að hvetja margt fólk til að fara þangað, en ef það er gert þarf ávallt að gæta þess að fara um með varkárni og af tillitssemi. Ósnert náttúran verður æ verðmætari og á nokkurs vafa munu verðmætin margfaldast þegar fram líða stundir.

Til gaman má geta þess að þátttakendur hafa fram að þessu skoðað um fjögur hundruð selstöður á svæðinu frá Hvalfjarðarbotni að Reykjanestá (landnámi Ingólfs), auk allra mannvirkjanna, sem þeim fylgja, s.s. stekkir, kvíar, fjárskjól, gerði, brunnar, vatnsstæði og leiðir, gamlar hlaðnar réttir, um 600 hella og nafngreinda skúta, fjölmargar gamlar leiðir, gamla hlaðna brunna, letursteina og áletranir, vörður, sem tengdar eru einhverjum sögum, um 60 hlaðnar refagildrur, flugvélaflök frá stríðsárunum sem og margt annað er ætti að þykja áhugavert.

Ferlir

FERLIRsfélagar á göngu um Almenningsveginn á Vatnsleysuströnd.

Mest um verð er þó sú innsýn, sem þátttakendur hafa öðlast á landssvæðið, breytingar á því í gegnum aldirnar, aðstæður fólksins og dugnað þess við takmarkaða möguleika og erfiðan kost. Þetta fólk á skilið mikla virðingu frá okkur afkomendunum. Mikilvægt er og að láta vitundina um það lifa áfram á meðal þeirra sem eiga að erfa landið – og umgangast með með sómasamlegum hætti.

Eldvörp

Gengið um Eldvörp.

Hóp

“Í tveimur íslenskum fornsögum, – Eyrbyggju og Kjalnesingasögu, – eru all-ítarlegar lýsingar á hofum hér á landi í fornöld, og viljum vér taka þær hér upp, þótt þær ef til vill séu ekki sem áreiðanlegastar í alla staði, því ólíklegt er, að eigi sé eitthvað á þeim að græða.
Eyrbyggja lýsir hofi Þórólfs Mostrarskeggs á þessa leið: “Þar lét hann (c: Þórólfur) reisa hof, ok var þat mikit hús; váru dyrr á hliðvegginum ok nær öðrum endanum; þar fyrir innan stóðu öndugissúlurnar, ok váru þar í naglar; þeir hétu reginnaglar. Þar fyrir innan var friðstaðr mikill. Innar af hofinu var hús í þá líking sem nú er sönghús í kirkjum, ok stóð þar stalli á miðju gólfi sem altari, ok lá þar á hringr einn mótlauss, tvítögeyringr, ok skyldi þar at sverja eiða alla. Þann hring skyldi hofgoði hafa á hendi sér til allra mannfunda. Á stallinum skyldi ok standa hleytbolli, og þar í hleytteinn sem stökkull væri, ok er hlaut var kallat; þat var þess konar blóð, er sæfð váru þau kvikendi, er goðunum var fórnat. Umhverfis stallann var goðunum skipat í afhúsinu”.

Þyrill

Hoftóftin við Þyril.

Lýsingin í Kjalnesingasögu er mjög svipuð, enda virðist hún að nokkru leyti tekin upp eftir Eyrbyggju, þótt ýmsu sé þar við bætt, sem ef til vill er ekki sem áreiðanlegast. Hún er svo: “Hann (c: Þorgrímur goði) var blótmaðr mikill; lét hann reisa hof mikit í túni sínu; þat var hundrað fóta langt, en sextugt á breidd; þar skyldu allir menn hoftoll leggja. Þórr var þar mest tignaðr; þar var gert af innar kringlótt svá sem húfa væri; þat var alt tjaldat og gluggat. Þar stóð þórr í miðju ok önnur goð á tvær hendr; frammi fyrir þar stóð stallr með miklum hagleik gerr og þiljaðr ofn með járni; þat kölluðu þeir vígðan eld. Á þeim stalli skyldi liggja hringr mikill af slifri gerr; hann skyldi hofgoði hafa á hendi til allra mannfunda; þar at skyldu allir eiða sverja um kenslumál öll. Á þeim stalli skyldi ok standa bolli af kopar mikill; þar í skyldi láta blóð þat alt, er af því fé yrði, er Þór var gefit, eðr mönnum. Þetta kölluðu þeir hlaut ok hlautbolla. Hlautinu skyldi dreifa yfir menn ok fé, en fé þat, sem þar var gefit til, skyldi hafa til mannfagnaðar þá er blótveislur eru hafðar. En mönnum, er þeir blótuðu, skyldi steypa ofan í fen þat, er úti var hjá dyrunum; þat kölluðu þeir blótkeldu”.

Þyrill

Blótsteinn í hoftóftinni við Þyril.

Ef óhætt væri að leggja trúnað á allt það, er í þessum lýsingum stendur, þá hefðu menn hér með fengið nokkurn veginn ljósa hugmynd um hn fornu hof og alla tilhögun á þeim. En með því að sterkur grunur leikur á því, að lýsingarnar, að minnsta kosti hin síðarnefnda, séu eigi sem áreiðanlegastar, þá er að svo stöddu eigi vert að byggja og mikið á þeim.
Er því ráð að víkja aftur að hinum fornu hoftóftum og athuga þær nokkuð nánar, ef ske kynni að komast mætti með samanburði að nokkurn veginn fastri niðurstöðu um, að hve miklu leyti beri að leggja trúnað á lýsingarnar…
Hoftóftin í Ljárskógum er 88 fet á lengd. Bálkur eða millum veggur mjög þykkur skiftir tóftinni í tvennt, aðalhús og afhús, og eru engar dyr ámilli. Aðalhúsið er 54 fet á lengd, en afhúsið  34. Afhúsið er hálf-kringlótt fyrir gafl og tóftin öll mjórri í þann endann, en breiðust fyrir gafl aðalhússins. Glöggar dyr eru á miðjum gafli á afhúsinu. Á aðalhúsinu eru dyrnar ekki eins glöggar, en virðast hafaverið á nyrðra hliðarvegg nær gaflinum. Í miðju afhúsinu fudust leifar af viðarkolaösku og hrosstönnum.
Þvert yfir hoftóftina á Lundi nær öðrum enda liggur bálkur þykkur og dyralaus, alveg eins og á Ljárskógatóftinni, og myndast við það aðalhús og afhús. Við eystra hliðvegg tóftarinnar sýnist vera útbygging út úr aðalhúsinu og er hún bogadregin eða sporöskjulöguð fyrir endann; sést móta fyrir dyrum milli hennar og aðalhússins. Glöggar dyr eru á enda aðalhússins og á austurhliðvegg afhússins nær gafli. Í aðalhúsinu er steinlegging eftir miðju gólfi, sem þó eigi nær alla leið inn að bálkinum, og er steinaröð þvert yfir tóftina þar sem steinleggingin endar að innanverðu. Steinleggingin er vel samanfeld af steinum sléttum að ofan og liggur jafnhátt hinu upprunalega gólfi, en til beggja hliða eru lagðar raðir af stærri steinum, sem miklu hærra ber á, og mynda þeir eins og upphækkaðar brúnir beggja vegn fram með steinlegginguni. Gólfið í útbyggingunni er steinlagt fram yfir miðju, en engin upphækkuð brún að framan. Í afhúsinu er engin steinlegging.
Í Freysneshofinu skiftir bálkur mjög þykur tóftinni í tvennt og er aðalhúsið 57 fet á lengd, en afhúsið 39, og er það kringlótt eða bogadregið fyrir gafl. Á hliðvegg afhússins eru dyr fast við bálkinn, en inni í afhúsinu eru 4 þúfur, ein hringmynduð inni í sveignum eða bogakryppunni, en 3 aflangar sín með hverjum vegg. Aðaltóftinni er aftur skift í tvennt með þvervegg og eru dyr á honum miðjum. Aðaldyrnar eru á austurhliðinni fast við gaflinn.
Bæði af stærð og öðrum ummerkjum þykir mega ráða, að þessi 3 hof hafi verið höfuðhof. Vér höfum áður getið þess, að öllum hafi verið heimilt að reisa hof á bæ sínum fyrir sjálfa sig og heimili sitt, og talið líkindi til, að svo hafi oft verið gert. Á seinni árum hafa leifar fundist af slíkum heimilishofum, og má þar helzt til nefna blóthúsið á Þyrli og hörginn á Hörgslandi í Mývatnssveit. Er þá réttast að taka þau með til samanburðar, ef ske kynni að eitthvað mætti á þeim græða.

Goðatóft

Hoftóft að Hópi í Grindavík.

Blóthúsið á Þyrli, sem kunnugt er úr Harðarsögu, er 57 fet á lengd með breiðum þvervegg eins og hin hofin; er aðalhúsið 40 fet, en afhúsið 17. Á tóftinni er sporöskjulag til beggja enda og eru á henni tvennar dyr, aðrar á aðalhúsinu nær endanum og hinar á afhúsinu út við gafinn. Þessi tóft er einkennileg aðþví leytinu til, að fram með millumveggnum eða þverveggnum er grjótbálkur þeim megin, er inn að afhúsinu veit, og að gólfið í afhúsinu er fullri alin lægra en gólfið í aðalhúsinu og allt steinlagt. Annar grjótbálkur gengur frá innra vegg afhússins í stefnu til dyranna og er hann um 1 al. á hæð. Lítill grjótpallur eða hrúga er við miðjan gaflinn í afhúsinu inni í sjálfri bugðunni. Fannst þar aska rétt við gaflinn og á öðrum stað í afhúsinu aska og hrosstennur. Gólfið er nokkurn veginn slétt og vel steinlagt. Á þyrli var einnig sýndur steinn, sem átti að vera kominn úr blóthúsinu, og var kallaður blótsteinn. Hann er úr blágrýti, 1 ¼ al. á lengd, ¾ al. á breidd og ½ al. á þykkt. Niður í hann er klappaður bolli.
Fyrir nokkurm árum fannst á Hörgslandi í Mývatnssveit tóftarleif, sem öllum ber saman um að eigi geti annað verið en hinn forni hörgur, sem bærinn dregur nafn sitt af. Menn hafa almennt ætlað að hörgar hafi verið nokkurs konar ölturu eða blótstallar undir berum himni, en eftir þessu að dæma hafa hörgar einnig getað táknað hús, sem höfð voru til blóta, enda benda ýmsir staðir í fornritunum á, að svo hafi stundum verið. Tóftin reyndist að utanmáli c. 42 fet á lengd og 32-33 á breidd. Grjótbálkur mikill skipti tóftinni í tvennt og myndaði eins og aðalhús og afhús, og var afhúsið 1/3 af allri tóftinni. Tvennt var einkennilegt við þennan grjótbálk. Annað það, að hann tók eigi alveg yfir breidd hússins, heldur var talsvert bil milli hans og veggjarins öðru megin íhúsinu, og hitt það, að hann virðist aldrei hafa verið hærri en hann nú er. Í miðjum þessum bálki stóðu 4 steinar og ofan á þeim lá flöt stór hella auðsjáanlega eldborin; var klöppuð í hana laut eða skál. Í hlóðunum undir hellunni fannst lítill hnullungssteinn og var klappaður í hann bolli mjög reglulegur. Á bálkinum til beggja handa viðheluna voru steinar sótugir og eldbornir. Í afhúsinu fundust tvær steinaraðir, er virtust nokkurn veginn reglulegar, önnur ytri og hinn innri, og virðist ýmislegt benda á, að steinar þessir hafi verið undirstöðusteinar undir súlum. Ef svo skyldi vera, hefir þakið í afhúsinu hvílt á 4 súlnaröðum, 2 hvoru megin. Grjótið í bálkinum var blandað kolaögnum, ösku og hálfbrenndum einaleifum. Á gólfinu fundust brýni, kljásteinar, hrosstennur o.fl. Allt virðist því benda eindregið í þá áttina, að húsið hafi verið nota til blóta.

Hóp

Hóp; fornar minjar – uppdráttur ÓSÁ.

Vér ætlum nú að hér séu fengin nægileg gögn til samanburðar við hoflýsingar þær, sem áður er getið, svo að unt sé að gera sér nokkurn veginn ljósa grein fyrir tilhögun og sniði hofanna hér á landi ífornöld. Frásagan um tvísjiftingu hofanna í aðalhús og afhús reynist á fullum rökum buggð, og virðist alls eigi ulla til falið að líkja afhúsinu við sönghús eða kór í kirkjum. Einnig bera hoftóftirnar það með sér, að afhúsin hafa stundum verið kringlótt eða bogadregin fyrir endann (Ljárskógarhofið, Freysneshofið), og hefir þá þakið upp af hlotið að vera sem hvelfing eða húfa, eins og segir í Kjalnesingasögu. Goðalíkneskin hafa sjálfsagt staðið inni í afhúsinu á stöllum, eins og segir í lýsingununum, og blótstalli eða altari verið þar einnig (sbr. þúfurnar í afhúsinu í Freysneshofinu og grjótstallana í blóthúsinu á Þyrli). Að hofin hafi verið tjölduð, einkum þó afhúsin, eins og segir í Kjalnesingasögu, teljum vér eigi aðeins hugsanlegt, heldur jafnvel mjög sennilegt, eigi síst þar sem svo hagaði til, að súlnaraðir voru fram með veggjum, eins og líkindi er til að verið hafi í hörgnum á Hörgslandi.Â
Af fornsögunum sjáum vér, að það var algengur siður á Íslandi að tjalda skála og stofur á bæjum, og er þá ekkert sennilegra en að hofin, sjálfur helgidómur héraðsins eða ættarinnar, hafi verið tjöldum klædd. Það virðist meira að segja liggja næst að hugsa sér,að menn hafi lagt sérstaka áherzlu á að skreyta hofin sem mest og bezt, og er slíkt alkunnugt hjá öllum þjóðum veraldarinnar. Um einn af hinum merkustu landnámsmönnum, Ketilbjörn hinn gamla á Mosfelli, er það meir að segja sagt berum orðum, að hann hafi viljað láta slá þvertré af slifri í hofi því, er synir hans reistu, er en hann fékk því eigi ráðið, hafi hann ekið silfrinu á fjall og falið svo, að aldrei hefir fundist.
Blóthellurnar og blótbollarnir, sem fundist hafa í sumum hoftóftunum (t.d. á Þyrli og Hörgslandi), koma einnig heim við lýsingar, og þar sem viðarkolaaska og brunnið beinarusl hefir verið grafið uppúr tóftunum, þá sýnir það og sannar, aðþar hefir eldur verið kynntur og matreiðsla farið fram. Höfum vér þá við samanburðinn komist að þeirri niðurstöðu, að hoflýsingarnar í Eyrbyggju og Kjalnesingasögu séu réttar í öllum aðalatriðum. Hitt er annað mál, að lýsingin í Kjalnesingasögu er að ýmsu leyti ýkt og ósennileg.
BænhúsTil samanburðar við blótsiðalýsinguna á þessum tveim stöðum, viljum vér taka hér upp kafla úr áreiðanlegu heimildarriti, Heimskringlu Snorra Sturlusonar, þar sem lýst er hofinu á Hlöðum og blótveizlum Sigurðar jarls. Þar segir svo: “Þat var forn siðr, þá er blót skyldi vera, at allir bændr skyldu þar koma, sem hof var, ok flytja þannig föng sín, þau er þeir skyldu hafa, meðan veizlan stóð. At veizlu þeirri skyldu allir menn öl eiga; en blóð þat alt, er þar kom af, þá var þat kallat hlaut, ok hlautbollar þat, er blóð þat stóð í, ok hlautteinar, þat var svá gert sem stöklar; með því skyldi rjóða stallana öllu saman ok svá veggi hofsins utan ok innan, ok svá stökkva á mennina; en slátr skyldi sjóða til mannfagnaðar. Eldar skyldu vera á miðju gólfi í hofinu ok þar katlar yfir, ok skyldi full um eld bera. En sá, er gerði veizluna ok höfðingi var, þá skyldi han signa fullit ok allan blótmatinn. Skyldi fyrst Óðins full; skyldi þat drekka til sigrs ok ríkis konungi sínum, en síðan Njarðar full ok Freys full til árs ok friðar. Þá var mörgum títt at drekka þar næst Bragafull. Menn drukku ok full frænda sinna, þeirra er göfgir höfðu verit, váru þat minni kölluð.

Ölfusvatn

Ölfusvatn – blótsteinn.

Svipað þessu hafa blótsiðirnir og blótveizlurnar á Íslandi vafalaust verið, því Ásatrúin með öllu sem henni laut var fornaldararfur Íslendinga, og í engu eru menn ófúsari á að breyta frá gamalli venju, en í trú og trúarsiðakreddum. Að langeldar hafi verið kynntir í hofum á Ísland alveg eins og í Noregi, virðist ljóst af hoftóftinni á Lundi, því steinleggingin eftir miðju gólfi í aðalhúsinu með upphækkaðri brún beggja vegna eftir endirlöngu getur varla verið annað en eldstæði. Það er og af fornsögunum að ráða, að öndvegi hafi verið í hofunum, því þat er getið um öndvegissúlur. Það getur því varla leikið neinn vafi á því, að blótveizlurnar hafa verið haldnar í sjálfum hofunum, í aðalhúsinu, og að menn hafi setið fram með veggjunum beggja vegna við langeldana. Hefir þá slátrið og ketið af fórnardýrunum verið soðið í kötlum yfir eldunum. Rannsóknirnar á Hörgslandi virðast þó bera það með sér, að sumstaðar hafi eldarnir verið kynntir ofan á þverbálkinum. Þar sem svo hefir til hagað hafa veizlugestirnir, er sátu í aðalhúsinu, getað séð allt það er fram fór í afhúsinu, og ef vér mættum nokkurs til geta, þá þætti oss líklegast, að þverveggirnir eða millumveggirnir í hofunum hafi aldrei náð upp úr, heldur aðeins verið þverbálkar. Með því fyrirkomulagi gátu allir horft á blótin, sem fóru fram í afhúsinu, en að öðrum kosti hefðu þeir eigi getað það, því óhugsandi er að allur sá mannfjöldi, er sótti til blótana, hafi komist fyrir í sjálfu afhúsinu.
Fornmenn héldu venjulega 3 höfuðblót á ári; haustblót, miðsvetrarblót eða jólablót og sumarblót.”

Heimild:
-Jón Jónsson, Gullöld Íslendinga – alþýðufyrirlestrar með myndum, Reykjavík 1906, bls. 131-140.

Brúsastaðir

Hlautsteinn við Brúsastaði.

Óttarsstaðasel

“Í fornöld tíðkuðust mjög selstöður á sumrum, og er víða í sögunum getið um sel og selfarir. Voru bæjarhúsin til aðgreiningar frá seljunum nefnd vetrarhús. Var stundum margt manna í seli og selin tvö, svefnsel og búr, og var þá annað haft til íbúðar, en hitt til matargerðar.

Mosfellsbær

Nessel.

Voru hér sumarhagar fyrir búfé og mjólkin höfð til smjörgerðar, skyrgerðar og osta. Voru nytjarnar fluttar heim jafn ótt og skyrið reitt í belgjum eða húðum og bundið fyrir ofan; voru slíkir belgir nefndir skyrkyllar. Munu flestir kannast við söguna af Gretti, er Auðun frændi hans flutti mat úr seli og sletti skyrkyllinum í fang Gretti, svo hann varð allur skyrugur; þótti honum það illt, því hann barst þá allmikið á í klæðaburði. Selstöður voru mjög nauðsynlegar í fornöld til hlífðar heimahögum, þar sem búfé var svo margt. Í selin fluttu menn að jafnaði um fráfærur, en úr þeim um réttaleytið eða í 22. viku sumars. Voru nákvæmar reglur settar um það í lögunum, hversu með skyldi fara er fé var rekið í sel eða frá.

Nessel

Nessel.

Geldfé var rekið á afrétt að sumrinu til, eins og nú tíðkast, og voru strangar reglur settar um beit í afréttum og notkun þeirra að öðru leyti. Mátti eigi gera sel í afrétt né heyja og eigi beita þangað öðru en geldfé, og lá við útlegð. Fé sitt skyldu menn reka á afrétt er 8 vikur voru af sumri, en úr afrétt er 4 vikur lifðu sumars. Réttir höfðu fornmenn tvisvar á ári, að vorinu til áður féð var rekið á fjall, og að haustinu til er afréttir voru smalaðar, og var hvorttveggja nefnt lögréttir”.

Efnið er úr Gullöld Íslendinga eftir Jóns Jónsson, alþýðufyrirlestrar með myndum, Reykjavík 1906, bls. 247-248.

Nessel

Nessel; dæmigert sel á Reykjanesskaga – uppdráttur ÓSÁ.