Seltún

Verkefnið um Brennisteinsvinnslu í Krýsuvík er unnið 2010-2014 með það að markmiði að safna upplýsingum um minjar tengdar brennisteinsnámusvæðunum á Reykjanesskaganum; í Seltúni og Baðstofu í Krýsuvík annars vegar og Brennisteinsfjöllum hins vegar, sem og að skrá og miðla fróðleiknum til annarra.

Brennisteinsvinnsla

Brennisteinsnám á Reykjanesskaga.

Meginviðfangsefnið er þó að reyna að gefa sem sögulegast yfirlit um brennisteinsvinnsluna, bæði í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum, með hliðsjón af fyrirliggjandi heimildum og leggja fram fornleifaskráningu af svæðunum (sjá fornleifaskráningu af svæðu, auk korta og örnefnaloftmynda á Krýsuvíkursvæðinu). Fylgt var leiðbeiningum Minjsstofnunar Íslands (Fornleifaverndar ríkisins) um fornleifaskráningu.
Eins og að framan greinir er Krýsuvíkursvæðinu skipt í tvennt, annars vegar Seltúnssvæðið með tilheyrandi minjum sem og svæði norðan Kleifarvatns er tengst gæti brennisteinsvinnslunni á árunum 1879-1883 og hins vegar Baðstofusvæðinu ofan svonefndra bústjórahúsa. Götur að námunum eru tilgreindar í örnefnalýsingum um Krýsuvík og verður því einnig lýst hér, enda hlutar af órjúfanlegri minjaheild.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Í Brennisteinsfjöllum er í lýsingum og getið heimilda um leiðir að og frá námunni og minja við þr sem og námusvæðið sjálft austan Kistufells. Öll voru námusvæðin fyrrum í Krýsuvíkurlandi (sjá kort á bls. 4) og tilheyrðu því lögsagnarumdæmi Grindavíkur á meðan var. Um er að ræða hluta af atvinnu- og verslunarsögu Íslands og því ástæða til að halda henni til haga. Talið er að brennisteinn hafi verið unninn af Krýsuvíkurbónda á námusvæðinum allt frá 12. öd. Á 17. öld yfirtók danski konungurinn eignarhaldið uns þar var framselt einstaklingum og loks félögum í eigu erlendra aðila. Endalok brennisteinsvinnslu í Krýsuvík var um 1882 og í Brennisteinsfjöllum þremur árum síðar.

Ritið í heild fæst hjá Antikva ehf í Garðabæ.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll.

Búrfell

Gengið var frá Kaldárseli að Valahnúkum. Steinrunnin tröllin trjónuðu efst á hnúkunum. Þau sáust langt að og reyndu heldur ekki að leynast. Tröllin virtust vera að bíða af sér veturinn.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Annars eru tröll fallega ljót, hvert með sitt sérkenni. Þau eru afar misjöfn í útlit, sum stórskorin, önnur með horn og vígtennur, stór eyru og nef en lítil augu. Vörtur finnst þeim vera mesta prýði og oft virðast þau grimm á svip, en það segir bara hálfa söguna því flest eru þau gæðablóð og trygglindir náttúruvættir.
Tröllin eru bæði stór og sterk, í sumum þjóðsögum er sagt að þau séu líka heimsk, gráðug og oft svolítið grimm en í öðrum sögum eru þau góð og launa vel fyrir ef að eitthvað gott er gert fyrir þau. Tröll ferðast yfirleitt um á nóttunni og þá einkum að vetrarlegi. Tröllin búa í hömrum og klettum upp í fjöllum eða í hellum. Sum tröll mega ekki vera úti í dagsljósi og verða að steini þegar sólin kemur upp, þau heita nátttröll. Tröllin á Valahnúkum eru ágætt dæmi um tröll, sem hafa dagað uppi þegar þau voru of sein fyrir, sólin kom upp yfir Bláfjöllum og þau urðu að steini þar sem þau voru. Það eru til ýmsir skrítnir steinar í náttúrunni sem má kannski geta sér til um að hafi verið tröll sem ekki náðu heim til sín áður en sólin kom upp.
Tröllabörn
Talið er líka að sum önnur ummerki í náttúrunni séu eftir tröll því sumar sögur segja að þau hafi fært til fjöll. Grýla og Leppa-Lúði, sem svo margir hafa heyrt um og eru foreldrar jólasveinanna, eru tröllahjón. Vitað er um dvalarstað þeirra í einum hellanna í Arnarseturshrauni við Grindavík (sjá FERLI-783). Önnur tröllafjölskylda er talin búa í Rauðshelli skammt frá Valabóli, örskotslengd frá Valahnúkum. Maður úr Hellarannsóknar-
félaginu, sem sá tröllabarnastóðið og heyrði hroturnar á ferð sinni um hellinn, varð svo mikið um að hann flúði öfugur út aftur – og er hann þó talinn með stilltari mönnum. Síðar var nákvæm mynd af hópnum rissuð upp eftir lýsingu hans. Þá er vitað af tröllum í Trölladyngju. Sögn er a.m.k. um að hjón úr Vogunum hafi séð þar tröllabarni bregða fyrir síðla kvölds í hálfrökkrinu.

Valaból

Í valabóli.

Tröll eru líka stundum kölluð skessur, risar, jötnar eða þursar.
Komið var við í Músarhelli og síðan gengið eftir slóð í gegnum Mygludali, um Víghól að Húsfelli. Þar var haldið um Kringlóttugjá og upp á brún Búrfells. Gígurinn er stórbrotinn og hrauntröðin tilkomumikil þar sem hún liggur um og myndar Búrfellsgjána. Í stað þess að ganga niður gjána var haldið til norðurs yfir að Kolhól. Hólinn er landamerki. Sunnan undir honum, í grónum hvammi, má sjá hleðslur. Einnig eru hleðslur með hraunkanti skammt vestar.
Gengið var frá Kolhól niður um Garðaflatir og að Gjáarrétt.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.hi.is/~soleya/#TRÖLL

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Stóri-Hólmur

Gengið var um Stóra-Hólm og Litla-Hólm í Leiru.
Í Landnámu segir, að Ingólfur Arnarson hafi gefið frændkonu sinni, Steinunni, Rosmhvalanes allt utan Hvassahrauns, en hún kaus að gefa fyrir heklu flekkótta og vildi kaup kalla. Henni þótti það Stóra-Hólmshúsiðóhættara við riftingu. Steinunn kom út til Íslands, ekkja eftir Herlaug bróður Skalla-Gríms og með henni synir hennar tveir, Njáll og Arnórr. Talið er að Steinunn hafi búið að Stóra Hómi (síðar nefndur Stór-Hólmur) í Leiru. Kaup Steinunnar við Ingólf héldu betur en mörg önnur landkaup er Landnáma greinir frá. Síðar kom Ketill gufa út til Íslands, og lenti á hrakhólum. Hann sóttist eftir landi að Gufuskálum í Leiru, en Steinunn fékk hann til að fara annað gegn því að fá verbúðarrétt á Hólmi. Er samkomulag þeirra talið upphaf verstöðva utanhéraðsmanna á Suðurnesjum. Slíkir samningar um aðstöðu og nýtingarétt áttu sér síðan um þúsund ára skeið í atvinnusögu þjóðarinnar.
Litla-HólmshúsiðLandnám Steinunnar tókst og er hún talin meðal fyrstu landsnámsmanna Íslands. Vitsmunir hennar, hagkvæmni og samkomulagsvilji í skiptum við aðra mun hafa verið ástæða þess að við hana festist viðurnefnið og virðingarheitið „hin gamla“.

Í örnefnalýsingu fyrir Hólm segir m.a.: „Þetta var höfuðbólið í Leirunni, næst við Gufuskála. Upplýsingar eru frá þeim sömu og fyrr var getið og þar að auki Jóel  Jónsson, Kötluhól.
Litlihólmur var býli byggt úr landi Stórahólms. Þar var sérstök lending og þar er enn búið. [Við Stóra-Hólm voru] Bakkakot, Nýlenda, Rófa, Garðhús, Ráðagerði og Kötluhóll er nefndur 1703 og enn er hann til sem býli. [Býlið Steinar (Steinakot) er þar einnig að finna.]

Litla-Hólmskot

Í Litlahólmslandi eru hjáleigubýli, Litlahólmskot og Þórukot. Í Sjálfkvíum rak hval 1882. Þetta var stór jörð, margar kýr og mikið að gera. Þess má geta að aldrei fórust skip í Leiru nema frá Litlahólmi. Þá er næst að geta Bakkakots, sem einnig var sérbýli með sérlendingu og grasbýli. Þar voru tvö kot, Traðarkot, þar [sem] þær (svo) voru heitir nú Kúamóatraðir, og Steinar sem fóru í eyði 1930. Innan við Steina tók við Nýlenda. Tún hennar liggur að Bakkakoti. Þar ofar var hjáleiga sem hét Hábær. Þar austur af var Rófa. Upp af henni er hóll sem heitir Kollhóll.
Kötluhóll er grasbýli ofan við Bakkakot. Efst upp við garðinn ofan við bæinn er hóll sem virðist vera holur innan. Heitir hann Kötluhóll. Túngarður er á merkjum móti Garðhúsum. Norðan við Kötluhól er svo Rófan sem fyrr getur. Þar utar og neðar var Nýlenda. Beint fram undan LindBakkakoti er Leiruhólmi. Milli Bakkakots og Hrúðurness, er síðar getur, er Lásalón). Kötluhóll  á fjörustykki frá Stekkjarnefi að Flúðarsnös. Vatnshóll er á merkjum móti Litlahólmi.
Efst við veginn er holt sem heitir Sundvörðuholt. Þar ofar eru Ytra-Langholt og Innra-Langholt. Á vesturhluta Langholts var 1793 hlaðin varða, nefnd Ranglát. Var hún merki þess hvar mætti leggja línu.
Þá er að athuga Stórahólmslandið. Að vestanverðu eru merkin þannig: Á Stórahólmshólma vestan til við svonefndar Stíflur en það er lágt rif er liggur frá hólmanum að Bakkakotslendingu um stórstraumsfjöru, þá til landsuðurs að merktum steini í litlu sandlóni, svo í austurlendingarkamp hjá Nýlendu. Svo er merkt klöpp efst á Hjallarifi.

Brunnur

Þaðan til landnorðurs austast að Skarfatanga.
Hólmssund hét sundið sem farið var hér um. Inn úr því voru allmargar varir, svo sem Stór[a]hólmsvör, Ráðagerðisvör, svo Hrúðurnesvör og Melbæjarvör er síðar getur. Stór[a]hólmsvör er sú sem sagt er frá 1840. Hafi vörin verið rudd með miklum kostnaði fyrir um 50 árum og fékk sá verðlaun frá konungi fyrir. Fram undan hér er Leiruhólmi. Hólmi þessi var áður grasi vaxinn og þar munu Þjóðverjar hafa haft bækistöðvar sínar. Grjótbelti liggur inn að Hólmssundi, slítur þar sundur og heitir Hrúðurlón. Hjá Stórahólmi var þurrabúð sem heitir Krossabrekka. Þar er bærinn nú. Þar fyrir ofan var kot þar sem nú heita Fjósvellir. Þar upp af var Garðhús. Neðan við Stórahólm er Nikulásarnaust og Nikulásarvör.“
FornmannagröfSumir hafa haldið því fram að Steinunn gamla hafi búið á Steinum ofan og milli Stóra-Hólm og Litla-Hólms og að gröf hennar sé í sléttum hól ofan við Stóra-Hólm, neðan Kötluhóls.
Norðan við íbúðarhúsið að Stóra-Hólmi er bátslaga hleðslur. Kunnugir segja að þar hafi Hólmkell, fornmaður, verið grafinn. Aðrir segja hann hafa heitið Stórólfs og bletturinn nefnist Stórólfsleiði. Þennan blett mátti aldrei slá, enda girtur af til langs tíma.
Sagan segir að smali hafi látist þar eftir áverka. Áður en hann lést óskaði hann þess að verða grafinn við götuna heim að bæ. Mun hann hafa verið grafinn „skammt innan við hliðið“. Yfir honum á að vera hella og á henni áletrun. Hella þessi hefur ekki fundist þrátt fyrir leitir.
GarðurÍ örnefnalýsingu fyrir Innrileiru segir m.a. um Hólm: „Verður nú haldið til baka út í Litla-Hólm. Bærinn stóð á háum hól og var norðurhluti hans öskuhaugur. Húsið sem nú er stendur aðeins ofar á hólnum en gamli bærinn.
Stórt tún var á Litla-Hólmi, suðaustan og sunnan við bæinn. Liggur það að túni Bakkakots, sem er við sjóinn suðaustur af Litla-Hólmi. Frá Bakkakoti var gata niður í naust. Aðeins suðaustan við naustin stóðu tvö sjávarhús. Var saltaður fiskur í því austara, en veiðarfæri geymd í hinu. Þessi hús voru pakkhús frá Bakkakoti.
Lending frá Litla-Hólmi var beint niður frá bænum og voru þar einnig sjávarhús fast suðaustan hennar – einnig nefnd pakkhús, en svo voru stærri sjávarhús kölluð á þessum slóðum. Lendingin var kölluð Litla-Hólmsvör (og var langmest mannvirki af öllum vörum í Leiru. Um hana segir svo í bókinni, Undir Garðskagavita: „Litla-Hólmsvör er byggð af Páli bónda Jónassyni, er þar bjó á seinni hluta 19. aldar. Vörin er 50 metra löng, 10 metra breið og vegghæð einn til tveir metrar. Af þessu mikla mannvirki eru 20 metrar byggðir í sjó. Margir steinar í vegghleðslunni munu vega yfir 1 tonn, sumir allt að 2 1/2 tonn. Er hleðslan gerð af meistarahöndum og raunar hið mesta þrekvirki, svo að gengur undrum næst, hvernig verkfæralaus maður hefur getað framkvæmt þetta. Páll Jónsson bjó seinast í Vörum í Garði og dó þar skömmu eftir aldamótin, fimmtugur að aldri.“
Norðvestast í Litla-Hólmstúni voru tvö tómthúskot. Var það efra kallað Litla-Hólmskot, en það neðra Stóra-Hólmsvörhét Móhús. Örskammt var á milli þeirra. Kot þessi munu hafa farið í eyði nálægt 1916.
Suðvestur af miðju Bakkakotstúni voru þrjú tómthúskot frá norðaustri til suðvesturs. Nokkrir faðmar eru á milli þeirra. Næst Bakkakoti var Traðarkot, þá Steinar og fjærst Hábær.
Stórhólmur er nálægt því beint í suður frá Bakkakoti, þó aðeins vestan við suður. Bærinn stóð á miklum hól, Stórhólmshól, ofarlega í túni.
Neðan við hólinn, aðeins austanhallt, var brunnstæði og var þangað sótt vatn, bæði til bæjar og gripa. Fjós var sambyggt gamla bænum.
Lendingin er beint í norðaustur af bænum. Krossabrekka var tómthús, neðanhallt í miðju túni, á milli lendingar og gamla bæjar. Heldur ofar en á þeim stað er nú nýja húsið á Stóra-Hólmi.
HólmurRófa var grasbýli vestur frá Stórhólmi og lágu túnin saman. Bærinn stóð nokkurn veginn í miðju túni. Nýlenda var norðnorðvestast í Rófutúni, Henni fylgdi dálítið tún til austsuðausturs og norðausturs. Tún Stórhólms var neðan og austan þess.
Kötluhóll er suðaustan Rófu. Hann er grasbýli. Tún Rófu og Kötluhóls lágu saman. Bærinn á Kötluhól var suðvestast í túninu.
Suðaustur af Kötluhólstúni voru Garðhús ft., grasbýli. U.þ.b. 100-150 m eru milli Kötluhóls og Garðhúsa.“
Stóri-Hólmur í Leiru er í jarðabók 1861 langstærst metna jörð í Rosmhvalaneshreppi. Um aldamótin [1900] var byggð mjög blómleg í Leirunni. Þá áttu þar heima 134 manns á 29 heimilum, 11 eru taldir bændur, hinir tómthúsmenn. Þá gekk þaðan um einn tugur heimaskipa á vetrarvertíð og á vorvertíð fóru þaðan 62 fleytur þegar flest var.
Skoðaðar voru tóftir hinna gömlu bæja við Stóra-Hólm og Litla-Hólm. Á síðarnefndu jörðinni eru Litla-Hólmskot og Móhús ofan við gamla bæinn. Reynistaður var ofar og nær Langholti. Á síðarnefndu jörðinni má enn sjá tóftir gamla Stóra-Hólms, Rófu, Nýlendu, Steina, Hábæjar, Kötluhóls og Bakkakots. Síðar verður fjallað um innri Leirubæina þar sem nú er golfvallasvæði .
Frábært veður. Gangan tók 2. klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Stóra-Hólm (og Litla-Hólm).
-Undir Garðskagavita, bls. 334.

Litla-Hólmsvör

Grindavík

Klukkan þrjú í nótt, 14. janúar 2024, hófst áköf smáskjálftavirkni á sama svæði og gos hófst 18. desember síðastliðinn austan við Sundhnúk. Einkenni jarðskjálftavirkninnar voru á þá leið að talið var fullvíst að kvikuhlaup væri hafið. Grindavíkursvæðið var rýmt.

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024.

Klukkan sex um morguninn hafi virst sem framrás gangsins hafi stöðvast. Eftir það virtist jarðskjálftavirkni hafa náð jafnvægi og gos hófst rétt fyrir klukkan átta austan við Hagafell á ca. 900 m langri sprungu, skammt sunnan við eldri gossprunguna. Um hádegisbilið opnaðist svo ný 100 m sprunga skammt suðvestar, u.þ.b. 200 metrum ofan við efstu húsin við götuna Efra Hóp í í Hópshverfinu. Hraun tók fljótlega að renna áleiðis að hverfinu og eyrði engu, sem á vegi þess varð.

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024.

Hraunið úr Sundhnúk og gígaröðinni norðan hans er talið vera yngra en 3000 ára og eldra en 2000 ára. Þá myndaðist Sundhnúkahraun. Eldra hraunið, sem myndaði Dalahraun, kom upp í gígaröðnni skammt austar, er talið vera yngra en 8000 ára og eldra en 3000 ára.

Fornleifar hafa farið undir nýja hraunið þar sem Skógfellavegur lá um gossvæðin millum Grindavíkur og Voga. Fornar götur hafa ekki hingað til verið í fyrirrúmi við skráningu fornleifa þrátt fyrir ákvæði þess efnis í fyrrum Þjóðminjalögum og núverandi Minjalögum.

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024. Neðri gossprungan.

Lengri sprungan er að mestu leyti norðan þeirra varnagarða sem lokið hafði verið við að mestu. Þeir beindu megin hraunstraumnum til vesturs og náði hrauntungan fljótlega vel yfir Grindavíkurveg og þaðan áfram meðfram görðunum til suðvesturs.

Telja verður líklegt að gosið verði skammvinnt nú, líkt og hið fyrra. Grindavík er nú rafmagns-, hitavatns- og heitavatnslaus. Ljóst er að mikil uppbyggingarvinna er framundan, bæði meðal íbúanna og stjórnenda sveitarfélagsins með nauðsynlegum stuðningi ríkisvaldsins sem og alls almennings í landinu.

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024.

Á vefsíðunni www.ferlir.is má sjá lýsingar, fróðleik, frásagnir, myndir og uppdrætti af öllum fornum þjóðleiðum á Reykjanesskagnum. Þú þarft einungis að skrifa örnefnið í leitina efst á vefsíðunni…

Sjá má myndir af goshrinunum ofan Grindavíkur HÉR. Einnig má sjá myndir frá eldgosum við Litla-Hrút, í Geldingadölum og í Meradal.

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024. Efri gossprungan.

Vífilsstaðasel

Árið 2013 var gerð fornleifaskráning vegna deiluskipulags í landi Garðabæjar; „Heiðmörk og Sandahlíð„.
Í inngangi skýrslunnar segir:

Heiðmörk

Forsíða skýrslu um fornleifaskráningu í Heiðmörk og Sandahlíð.

„Að beiðni Arinbjörns Vilhjálmssonar, skipulagsstjóra Garðabæjar, tók ég undirrituð, Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur, að mér könnun á fornleifum í Heiðmörk í Garðabæ og Sandahlíð vegna fyrirhugaðs deiliskipulags, sbr. tillögu að deiliskipulagi dags. 14. febrúar 2013. Svæðið afmarkast af Heiðmörk í Garðabæ auk Sandahlíðar, það er um 907 ha að stærð og telst til Vífilsstaða og Garðakirkjulands. Landið er í eigu Garðabæjar en tilheyrði áður Vífilsstöðum og Garðakirkjulandi.
Aðeins sá hluti jarðanna var skráður á vettvangi sem deiliskipulagið og áformuð breyting á aðalskipulagi ná til. Skráningin fól í sér athugun á fyrri skráningum, heimildasöfnun, vettvangsskráningu og úrvinnslu, mat á minjum innan skipulagssvæðisins, s.s. hættumat, og skýrslu- og kortagerð.

Vífilsstaðahlíð

Fjárborg og fjárhús frá Urriðakoti undir Vífilsstaðahlíð.

Ragnheiður Traustadóttir og Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur sáu um vettvangsvinnuna og skýrsluskrif. Tilgátuteikningu og uppdrátt af Vífilsstaðaseli gerði Ómar Smári en Ragnheiður annaðist kortavinnuna.
Á umræddu svæði er að finna selsminjar, fornar leiðir, vörður, fjárskjól, kolagrafir, herminjar auk meintra tófta við Grunnuvötn. Skýrsluhöfundar hafa farið nokkra ferðir um svæðið.“

Skýrsluna má sjá HÉR.

Urriðakot

Sauðahellir Urriðakots undir Vífilsstaðahlíð.

 

Urriðakot

Gengið var um Urriðakot, minjarnar í kringum bæinn skoðaðar og síðan haldið upp á Urriðakotskamp (Camp Russel) og stríðsminjarnar skoðaðar.

Markasteinn

Markasteinn – huldufólkshús.

Þaðan var gengið með vestanverðu Urriðakotshrauni að Markasteini og til norðurs yfir í Selgjá. Skoðaðar voru selsminjarnar í gjánni sem og fjárskjólin norðvestan hennar.
Við Urriðakot var m.a. kíkt á leturstein í túninu. Á hann er klappað ártalið 1846 auk upphafsstafa. Það mun hafa verið ábúandinn á bænum er þetta hannaði á sínum tíma. Ofan við hlaðinn túngarðinn er Grjótréttin. Gengið var til austurs með garðinum, að vatnsleiðslu þeirri er hernámsliðið gerði og lá frá steyptum brunni neðst í brekkunni og upp á steyptan vatnsgeymi ofarlega í holtinu. Bækistöð hersins á holtinu nefndist Camp Russel. Þar má enn sjá minjar, t.d. grunna þeirra fjölmörgu húsa og bragga,s em þar voru. Steyptur skorsteinn stendur skammt frá veginum (Flóttamannaveginum), en hann er leifar aðalstöðvanna, sem þarna voru. Þá má sjá vatnsgeyminn í holtinu sem og göturnar, sem lágu á milli húsanna. Til er gamall uppdráttur af kampinum og var hann hafður til hliðsjónar í göngunni.

Urriðakot

Urriðakot – letursteinn.

Gengið var með vesturjarðri Urriðakotshrauns, framhjá hlaðinni Stekkjartúnréttinni og inn með Fremstahöfða. Við hann austanverðan er stórt og fallegt bjarg, Markasteinn. Steinninn stendur utan í holti og segir til um landamerki Urriðakots og Setbergs. Sagan segir að er Urriðakotsbóndi hafi eitt sinn verið að ganga framhjá steininum hafi hann heyrt rokkhljóð koma innan úr honum. Taldi hann þá að þar byggi huldufólk. Sagnir eru um að allan mátt dragi úr fólki er nálgast steininn.

Selgjá

Rjúpur í Selgjá.

Frá steininum var gengið beina leið í Selgjá og komið þar sem stærsti fjárhellirinn og greinilegustu selsrústirnar eru í sunnanverðir gjánni, en sagnir eru um að 11 sel hafi verið í gjánni þegar mest var um haft þar. Litið var á leturstein með merkinu B í norðanverðir gjánni, komið við í Selgjárhelli, Sauðahellinum syðri (Þorsteinshelli) og síðan litið ogfan í Sauðahellinn nyrðri. Staðnæmst var við op Skátahellis sem og op Norðurhellis áður en haldið var eftir Kúastíg að hlöðnu fjárskjóli norðan undir háum hraunkletti og síðan stígurinn genginn áfram með vestanverðum hraunkanti Urriðakotshrauns, framhjá Stekkjartúnsrétt og að upphafsreit.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Urriðaholt

Uppdráttur af Camp Russel á Urriðaholti.

Urriðakot

Friðlýsingu svæðisins sem fólkvangs er ætlað að tryggja aðgengi almennings að náttúru Urriðakotshrauns, sem býr yfir fjölbreyttum náttúru- og menningarminjum og miklum möguleikum til útivistar, náttúruskoðunar og umhverfisfræðslu, m.a. um göngu- og reiðstíga sem liggja um svæðið.

Urriðakotshraun - friðlýsing

Guðlaugur þór, Almar og aðrir viðstaddir friðlýsingu Urriðakotshrauns.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undirritaði í dag, 10. jan. 2024, friðlýsingu Urriðakotshrauns sem fólkvangs.

Friðlýsingin er staðfest að beiðni Garðabæjar og landeigendanna, Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa, og unnin í samstarfi ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar.

Urriðakotshraun er hluti af Búrfellshrauni sem rann fyrir um 8100 árum og er þar nokkuð um hraunhella. Markmið friðlýsingarinnar er einnig að vernda jarð- og hraunmyndanir sem og menningarminjar Urriðakotshrauns, sem eru fágætar á heimsvísu, sem og náttúrulegt gróðurfar svæðisins.

Urriðakotshraun - friðlýsing

Hið friðlýsta svæði Urriðakotshrauns.

„Það er afskaplega gott þegar hægt er að ljúka verkefnum svona farsællega eins og þessu. Friðun fólkvangsins hefur mikla þýðingu fyrir Garðbæinga, þetta verður til þess að samfella er í þeim svæðum sem eru friðlýst og heildarsýn er að myndast. Mér finnst líka gott í heilsueflandi samfélagi að greiða aðgengi almennings að þessu svæði á sama tíma og við verndum það,” segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri.

Hið friðlýsta svæði er 1,05 km2 að stærð, en samhliða vinnu við friðlýsingu var unnið deiliskipulag fyrir svæðið sem nú hefur verið staðfest og auglýst af Skipulagsstofnun.

Deiliskipulagið gerir ráð fyrir að í náinni framtíð verði lögð golfbraut sem er hluti af golfvellinum Urriðavelli innan fólkvangsins.

Urriðakotshraun - friðlýsing

Urriðakotshraun og nágrenni.

Fólkvangurinn í Urriðakotshrauni er mikilvægur hlekkur í röð friðlýstra svæða sem nær frá upplandi Garðabæjar nær óslitið til sjávar.

Svæðin sem um er að ræða eru: Reykjanesfólkvangur (friðlýst 1975), Búrfell (friðlýst 2020), Garðahraun efra og neðra, Vífilsstaðahraun og Maríuhellar (friðlýst 2021), Gálgahraun (friðlýst 2009) og innan marka Garðabæjar (friðlýst 2009) og Bessastaðanes (friðlýst 2023) og nú bætist Urriðakotshraun við net verndarsvæða Garðabæjar.

Heimild:
-https://www.gardabaer.is/stjornsysla/utgefid-efni/frettir/urridakotshraun-fridlyst-sem-folkvangur

Urriðakotshraun - friðlýsing

Svæðið, sem friðlýst var í umræddum áfanga.

Húsfell

Á Vísindavefnum má lesa eftirfarandi fróðleik Sigurðar Steinþórssonar, prófessor emeritusum, „Virkar eldstöðvar í kringum höfuðborgarsvæðið„:

Reykjanesskagi

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir.

„Þegar spurt er hversu margar eldstöðvar séu á Íslandi kann jarðfræðingum að vefjast tunga um tönn — á til dæmis að telja einstakan gíg sérstaka eldstöð eða goshrinur eins og Kröfluelda 1974-85 eitt eða mörg eldgos. Þess vegna var kringum 1970 tekið upp hugtakið eldstöðvakerfi sem tekur til allra þeirra eldstöðva sem teljast vera samstofna; yfirleitt tengjast þær einni megineldstöð. Á Íslandi eru um 30 slík eldstöðvakerfi, þar af fimm á Reykjanesskaga.
Á Suðvesturlandi liggja mót Evrasíu- og Norður-Ameríkuflekanna, eins og þau koma fram í jarðskjálftaupptökum neðan þriggja km dýpis, frá Reykjanestá austur um Suðurland í átt að Heklu. Eftir flekamótunum raðast sprungur á yfirborði í fimm sprungusveima (sprungureinar) með NA-SV-stefnu (sjá mynd hér fyrir neðan).

Húsfell

Húsfell og Húsfellsbruni.

Þar sem sprungusveimur og flekamótin skerast eru merki um mesta eldvirkni á sprungusveimnum — þar er megineldstöð þess sprungusveims, og til samans mynda megineldstöðin og sprungusveimurinn sem hana sker eldstöðvakerfið. Virkum megineldstöðvum tengjast gjarnan háhitakerfi, og eftir þeim eru eldstöðvakerfin fimm nefnd, talið frá vestri til austurs, Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengill. Fyrstnefndu kerfin tvö eru gjarnan talin sem eitt, enda sameinast norðurhlutar sprungusveima þeirra sunnan við Voga á Vatnsleysuströnd. Tvö eldstöðvakerfi, Krýsuvíkur- og Brennisteinsfjallakerfi, hafa lagt til hraun í námunda við Reykjavík.

Á höfuðborgarsvæðinu eru einkum áberandi tvö nútímahraun (það er sem runnið hafa eftir ísöld) og kallast annað þeirra Búrfellshraun einu nafni en hitt Leitahraun. Hið fyrrnefnda rann úr gígnum Búrfelli sunnan við Heiðmörk fyrir um 7300 árum. Ýmsir hlutar þess bera sérstök nöfn, Gálgahraun, Garðahraun, Hafnarfjarðarhraun, Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Gráhelluhraun, Smyrlabúðarhraun. Búrfell er í Krýsuvíkurkerfi.

Hraunflæði

Leitarhraun.

Leitahraunið mun vera meðal rúmmálsmestu hrauna sem runnið hafa frá Brennisteinsfjallakerfinu eftir ísöld. Það rann fyrir um 5200 árum frá eldstöð þar sem heita Leitin á Hellisheiði, suðvestan við Eldborgir sem gusu Svínahraunsbruna (Kristnitökuhraun) árið 1000. Frá Leitum rann hraunið annars vegar til suðurs langleiðina til sjávar við Þorlákshöfn; í því hrauni er Raufarhólshellir. Hins vegar rann álma til norðvesturs til sjávar í Elliðavogi. Á þeirri leið myndaði hraunrennslið gervigígaþyrpinguna Rauðhóla og hraunstrompana (hornito) Tröllabörn hjá Lækjarbotnum. Meðal kunnra sérnafna hluta Leitahrauns eru Elliðavogshraun, neðsti hluti Hólmshrauna, Svínahraun (að hluta undir Kristnitökuhrauni), Lambafellshraun, og niðri í Ölfusi Hraunsheiði og Grímslækjarhraun.

Bláfjöll

Stóra-Kóngsfell, gígur vestan fellsins.

Frá eldstöð nærri Stóra-Kóngsfelli hjá Bláfjöllum (Brennisteinsfjallakerfi) hafa runnið fimm hraun sem nefnast Húsfellsbruni hið efra en Hólmshraun neðar—Heiðmörk er á þeim hraunum. Hið elsta þeirra er eldra en Leitahraun en hin fjögur þó öll forsöguleg.
Einu hraunin sem segja mætti að nálgast hafi höfuðborgarsvæðið á sögulegum tíma eru sunnan við Hafnarfjörð og komu úr Krýsuvíkurkerfi: Afstapahraun um 900, Hvaleyrarhraun kringum 1000 og Kapelluhraun árið 1151. Hengilskerfi hefur ekki látið á sér kræla í 2000 ár en á hinum fjórum hafa mislangar goshrinur hafist á um það bil 1000 ára fresti, fyrst austast (Brennisteinsfjöll) og færst síðan vestur skagann. Hin síðasta hófst fyrir um 1100 árum. Grindavík mun vera sú byggð, sem helst væri ógnað af næstu hrinu.

Klambrahraun

Klambrahraun.

Yfirleitt eru þær eldstöðvar kallaðar „virkar“ sem gosið hafa eftir ísöld, það er síðastliðin 10.000 ár eða svo. Á þeim tíma hafa aðeins þrjár sent hraun í námunda við Reykjavík, Búrfell austan við Hafnarfjörð, eldstöð hjá Stóra-Kóngsfelli hjá Bláfjöllum og Leitin á Hellisheiði.“
Húsfellsbruni er að mestu Klambrahraun. Þau myndast þegar efri skorpa helluhrauna brotnar upp og myndar yfirborðsbreksíu við skyndilega aukinn straumþunga hraunsins eða þegar það flæðir upp að fyrirstöðu sem aftrar framrás þess um tíma. Þótt ásýnd klumpahrauna sé talsvert frábrugðin dæmigerðum helluhraunum, er flutningur kviku eftir lokuðum rásum, myndun hraunsepa og hraunbelging lykilþáttur í myndun þeirra. Vegna yfirborðsbreksíunnar hafa þau oftar en ekki verið flokkuð sem apalhraun, sem hefur leitt til mistúlkunar á flæðiferlum og eðli þessara hrauna.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=62126

Hraunflæði

Grindavík - varnargarðar

Þann 29. desember 2023 birtist eftirfarandi á vefsíðu Dómsmálaráðuneytisins um „Bygging varnargarðs til að verja byggð og innviði í Grindavík„:

Guðrún Hafsteinsdóttir

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra.

„Dómsmálaráðherra lagði til á ríkisstjórnarfundi að ráðist yrði í fyrsta áfanga varnargarða við Grindavík sem fyrst. Fyrsti áfanginn er sá hluti af varnargörðunum sem Almannavarnir telja mikilvægastan. Áætlaður kostnaður við fyrsta áfanga er hálfur milljarður króna, en heildarkostnaður við varnargarðana við Grindavík verður umtalsvert hærri. Algjör samstaða var í ríkisstjórn um tillöguna. Tillaga ráðherrans byggir á minnisblaði frá ríkislögreglustjóra um varnargarðinn. Þar kemur fram að með hliðsjón af vernd íbúa og verðmætum byggðar og innviða Grindavíkur, með vísan til 1. gr. laga um almannavarnir nr. 82/2008 og laga um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga nr. 84/2023, leggur ríkislögreglustjóri til að ráðist verði sem fyrst í byggingu varnargarðs til varnar Grindavík. Lagt er til að í fyrstu lotu verði einungis byggður helmingur af hæð efsta hluta garðsins og staðan þá endurmetin, m.a. með hliðsjón af stöðu og þróun jarðhræringa. Hæð varnargarðsins er mismunandi eftir staðsetningu í landinu og þróun jarðhræringa en garðurinn verður almennt um 6 -10 m.

Forsendur fyrir byggingu varnargarðsins

Eldgos

Eldgos austan Sundhnúkagígaraðarinnar ofan Grindavíkur í janúar 2023.

Frá því að jarðhræringar hófust á Reykjanesskaga í árslok 2019 hefur verið unnið að gerð sviðsmynda eldgoss og hraunflæðis. Markmið þeirrar vinnu er greina með hvaða hætti sé unnt og best að vernda íbúa og mikilvæga innviði fyrir hraunrennsli ef eldgos hefst.
Veðurstofa Íslands telur nú líklegastan upptakastað fyrir eldgos vera á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Sú sviðsmynd gæti leitt af sér hraunflæði er á skömmum tíma næði til byggðar í Grindavík.
Almannavarnarkerfið og hlutaðeigandi aðilar hafa unnið að mögulegum viðbrögðum til að takmarka tjón á byggð og innviðum á Reykjanesskaganum, meðal annars með byggingu varnargarða til varnar orkuverinu í Svartsengi. Verkís hefur kynnt drög að hönnun og útsetningu varnargarða ofan við Grindavík fyrir helstu hagaðilum og lagði fram minnisblað um málið.

Fólk og verðmæti í Grindavík

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

Í samantekt Byggðastofnunar frá desember 2023 kemur m.a. fram að íbúafjöldi Grindavíkur sé um 3.600 manns. Áætlað vinnuafl er um 2.100 manns og atvinnuleysi rétt rúm 2%. Sjávarútvegurinn er stærsta atvinnugreinin með ríflega 35% af heildaratvinnutekjum en næst kemur opinber þjónusta. Samkvæmt upplýsingum frá Náttúruhamfaratryggingum Íslands nema heildarverðmæti vátryggðra húseigna um 110 milljörðum króna. Auk þess nema verðmæti vátryggðs lausafjár, innbús og hafnar- og veitumannvirkja um 44 milljörðum. Eru þá ótalin verðmæti í götum, göngustígum, lóðum og öðrum samfélagslegum mannvirkjum á svæðinu.

Framkvæmd og stærð

Grindavík - varnargarðar

Grindavík – fyrirhugaður varnargarður ofan byggðarinnar.

Í minnisblaði Verkíss kom meðal annars fram að varnargarður sem innviðahópurinn hefur gert tillögu að ofan við Grindavík væri samtals um 7 km að lengd. Hann myndi liggja að mestu í hápunktum í landinu ofan og umhverfis Grindavík. Ljóst er að meginmarkmið garðsins er að verja byggð og innviði í Grindavík og yrði hann áberandi kennileiti. Garðurinn þverar Grindavíkurveg og Suðurstrandarveg ásamt því m.a. að liggja samsíða Nesvegi. Reynt verður á byggingartíma að milda áhrif garðsins og gera viðeigandi ráðstafanir til lengri tíma.

Svartsengi - varnargarður

Svartsengi – varnargarður.

Lagt er til að byggja varnargarðinn í tveimur áföngum, þ.e. nyrsta hluta garðsins (merkt L7 og L8) sem fyrst, en vinna með samráð og hönnun annarra hluta á næstu mánuðum og hefja byggingu þeirra hluta vorið/sumarið 2024, nema augljós breyting verði á virkni þannig að hraða þurfi framkvæmdum. Þannig yrði forgangsraðað með tilliti til yfirvofandi hættu á eldgosi frá Sundhnúki nú, en aðrir hlutar unnir með meiri yfirvegun til að tryggja góða útfærslu næst byggð og innviðum.“

Forsætisráðherra lagði fram lög á Alþingi er lögðu álögur á alla skattskylda þegna landsins að leggja að jafnaði kr. 12.000 til verksins. Lögin voru samþykkt þrátt fyrir skamman fyrirvara.

Rúnar Leifsson

Rúnar Leifsson, forstöðumaður Minjastofnunar.

Daginn áður hafði skrifstofustjóri almanna- og réttaröryggis í dómsmálaráðuneytinu óskað eftir umsögnum nokkurra hlutaðeigandi opinberra aðila um fyrirhugaða framkvæmd. Hins vegar var aldrei óskað eftir umsögnum eigenda landsins, líkt og hún kæmi þeim ekki við.

Þann 2. janúar 2024 svaraði forstöðumaður Minjastofnunar, Rúnar Leifsson, beiðni skrifstofustjórans:
Dómsmálaráðuneyti; Efni – Varnargarður við Grindavík.
Með tölvupósti dags. 28.12.2023 óskar skrifstofustjóri almanna- og réttaröryggis í dómsmálaráðuneyti eftir umsögn Minjastofnunar Íslands um tillögu ríkislögreglustjóra um að hefja fyrstu framkvæmdir til að vernda byggð í Grindavík vegna eldsumbrota.

Grindavík - varnargarðar

Umsögn forstöðumanns Minjastofnunar um fyrirhugaða varnargarða ofan Grindavíkur – fyrri hluti.

Í minnisblaðinu er lagt til að í fyrstu lotu verði einungis byggður helmingur af hæð efsta hluta garðsins (merkt L7 og L8 í minnisblaði ID377698), en óskað er eftir að umsögnin ná til varnargarðsins í heild sinni.
Minjastofnun Íslands gerir ekki athugasemd við fyrstu lotu framkvæmda vegna hluta L7 og L8.
Mikill fjöldi menningarminja er í og við þéttbýli Grindavíkur, bæði friðuð hús og fornleifar sem mynda heildstætt búsetulandslag. Fyrirséð er að framkvæmdir munu að raska þessum minjum að hluta. Á það sérstaklega við um vesturhluta garðsins (L10) þar sem hann liggur hjá gamla bænum og út í sjó við Silfrutjörn.
Á fundi þann 5. desember sl. kynnti Verkís drög að hönnun og útsetningu varnargarða ofan við Grindavík. Kom þar fram að reynt væri að haga hönnun með hliðsjón af þekktum menningarminjum á svæðinu, en Minjastofnun Íslands hafði þá þegar sent Verkís hnitsetningar skráðra menningarminja í og við Grindavík. Í gögnunum sem Verkís kynnti á fundinum kom fram að garðurinn myndi liggja vestar en áður hafði verið áætlað og hlífði þannig menningarminjum.

Grindavík - varnargarðar

Umsögn forstöðumanns Minjastofnunar um fyrirhugaða varnargarða ofan Grindavíkur – seinni hluti.

Í tillögunni sem fylgir fyrirliggjandi erindi hefur vesturendi garðsins verið færður á ný á upphaflegan stað. Ljóst er að sú staðsetning mun valda verulegum og óafturkræfum skemmdum á fornleifum sem eru þar undir sverði.
Minjastofnun fer fram á að fyrirhuguð staðsetning garðsins verði aftur færð til vesturs til að fyrirbyggja skemmdir á fornleifum á svæðinu og til að varðveita búsetulandslag elsta hluta Grindavíkur eins og kostur er. Jafnframt hefur Minjastofnun Íslands áhyggjur af Þórkötlustaðahverfi, sem er verndarsvæði í byggð, sbr. lög nr. 87/2015 um verndarsvæði í byggð, og með hátt menningarsögulegt gildi. Minjastofnun hvetur til þess að reynt verði að verja Þórkötlustaðahverfi og að varnargarður L14 verði fyrir valinu.

Hraun - kort

Hraun – minja- og örnefnauppdráttur.

Auk þess má benda á fast austan við Þórkötlustaðahverfið stendur bærinn Hraun sem er mikil minjajörð og hefur að líkindum verið í byggð allt frá landnámi. Gera má ráð fyrir miklum fjölda merkilegra menningarminja á því svæði en ekki hefur farið fram skráning fornleifa á Hrauni.
Minjastofnun óskar eftir að minjar við framkvæmdasvæði verði merktar með það fyrir augum að verja þær fyrir mögulegu raski á framkvæmdatíma og býður stofnunin fram aðstoð sína við það verk. – Virðingarfyllst, Rúnar Leifsson – Forstöðumaður“

Tilgreind fylgiskjöl frá Verkís fylgdu ekki með í eftirleitandi svari Minjastofnunar til vefsíðunnar. Svarið sem slíkt lýsir vel þekkingu og afstöðu forstöðumanns stofnunarinnar til mikilvægi menningarverðmæta í og ofan Grindavíkur og nauðsyn þess að þeim verði hlíft svo sem kostur er. Hins vegar mætti vel velta því fyrir sér hvers vegna opinberar stofnanir treysti sér ekki til að birta opinberlega umsagnir sem þessa, t.d. á vefsíðum sínum?

Heimild:
-https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2023/12/29/Bygging-varnargards-til-ad-verja-byggd-og-innvidi-i-Grindavik/
-Umsögn Fornleifastofnunar um varnargarða ofan Grindavíkur, dags. 2. jan. 2024.

Grindavík - varnargarðar

Grindavík – fyrirhugaðir varnargarðar ofan byggðar.

Eldgos

Á vefsíðu ÍSOR er m.a. fjallaðum „Eldgos á Svartsengis/Sundhnúksgosreininni eftir ísöld„:

„Svartsengiskerfið er um 30 km langt og 6-7 km breitt. Eftir að jökla ísaldar leysti fyrir um fimmtán þúsund árum hefur gosvirknin í kerfinu einskorðast við Eldvarpa-gosreinina annars vegar og Svartsengis/Sundhnúks-gosreinina hins vegar.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Sú síðarnefnda liggur skammt austan móbergsfjallanna Þorbjarnar, Sýlingarfells (einnig nefnt Svartsengisfell) og Stóra-Skógfells. Þótt ýmislegt sé vitað um sögu gosvirkni á Sundhnúksgosreininni er margt enn óljóst, einkum um elstu hraunin. Á það reyndar við um allan Reykjanesskaga.
Hraunum sem eiga upptök á gosreininni verður lýst stuttlega hér að neðan í aldursröð. Í umfjölluninni er vísað er í kenni á meðfylgjandi korti.

Grindavík

Grindavík – eldgos 2021-2024 (ÍSOR).

Bleðla af máðum og fornlegum hraunum má finna víða utan í móbergsfjöllum austan Svartsengis, s.s. í austan- og norðanverðum Þorbirni, við Sýlingarfell og Stóra-Skógfell (s.s. ks, sb, mk á korti). Á láglendi eru þessi hraun hulin yngri hraunum og útbreiðsla því óþekkt. Þessi hraun eru að mestu samsett úr sambræddum kleprum, sem bendir til að þau hafi myndast við ákafa kvikustrókavirkni. Hraun af þessu tagi má kalla kleprahraun. Eru þau líklega frá því snemma á eftirjökultíma, jafnvel síðjökultíma. Engar aldursgreiningar liggja fyrir á hraununum enn sem komið er. Vísbending um aldur eins þeirra kemur þó fram í grjótnámu við Hagafell, en þar liggur það vel undir 8000 ára gömlu hrauni (sjá neðar) og er áætlaður aldur þess um 10.000 ár (Magnús Á. Sigurgeirsson, óbirt gögn).

Hagafell

Hagafell.

Bæði suðvestan og austan megin í Hagafelli eru stuttar fornlegar gígaraðir. Hraunið frá þeim hefur verið nefnt Hópsheiðar- og Hópsnesshraun (hh á korti). Aldursgreining C-14 á gróðurleifum undan hrauninu leiddi í ljós að þær eru um 8000 ára gamlar og líklegt að hraunið sé af líkum aldri. Stærstu flákarnir í þessu hrauni koma fram á Hópsheiði og Hópsnesi við Grindavík. Einnig kemur hraunið fram í hraunhólmum við Sundhnúk, um 500-700 m norðan Hagafells, sem sýnir að gossprungan hefur verið a.m.k. 1,5 km löng.
Við norðurenda Sundhnúkshrauns má sjá fjögur hraun sem koma undan því (merkt kh, ed, hf og da). Aldur þessara hrauna er óljós en þau eru þó talsvert meira en 4000 ára gömul. Einnig má nefna fornt hraun með upptök í Lágafelli vestan Þorbjarnar (lf á korti). Þarna er verk að vinna við nákvæmari aldursgreiningar.

Sundhnúkur

Sundhnúkagígaröðin að Stóra-Skógfelli.

Sundhnúksgígaröðin er ein af lengri gígaröðum Reykjanesskaga, alls um 11,5 km löng og þekur hraunið um 22 km2 lands. Aldursgreining á koluðum kvistum undan hrauninu gaf aldurinn 2300-2400 ár. Hins vegar benda gjóskulagarannsóknir til að hraunið sé nær 2000 áum í aldri (Magnús Á. Sigurgeirsson, óbirt gögn). Gígaröðin liggur vestan með Hagafelli og áfram sundurslitin 3 km til suðvesturs. Syðstu gígarnir eru á 250 m langri gígaröð, sem er aðskilin frá megingígaröðinni (á afgirtu svæði fjarskiptastöðvarinnar norðan Grindavíkur). Þessir gígar liggja rúma 400 m frá næstu húsum í Grindavík og er hraunjaðarinn mun nær, við Nesveg. Athyglivert er að í gosinu 14. janúar hófst gos á stuttri gígaröð 600 m sunnan megingígaraðarinnar líkt og gerðist fyrir 2000 árum. Mörg dæmi mætti nefna um goshegðun af þessu tagi, þ.e. þar sem gýs á stuttri gígaröð sem er aðskilin megingígaröðinni.

ReykjanesskagiÁ tímabilinu 1210-1240 e.Kr. voru eldgos tíð í Reykjanes- og Svartsengiskerfunum, gjarnan nefnt Reykjaneseldar 1210-1240. Sundhnúksgosreinin var ekki virk á þeim tíma en þá gaus hins vegar á Eldvarpagosreininni 4 km vestar. Rannsóknir á hraunum og gjóskulögum benda til að virknin á 13. öld hafi byrjað á Reykjanesi en síðan færst til austurs yfir á Svartsengiskerfið um 1230 og síðan lokið árið 1240 þegar Arnarseturshraun rann. Ritaðar heimildir eru rýrar en nefna þó a.m.k. sex eldgos á þessum 30 árum, flest í sjó við Reykjanes. Telja má líklegt að gosin hafi verið fleiri sé tekið mið af þeim tíðu eldgosum sem nú ganga yfir á Reykjanesskaga.

Reykjanes

Reykjanes – jarðfræðikort (ÍSOR).

Í ljósi sögunnar má telja líklegt að yfirstandandi virkni á Sundhnúksreininni geti dregist á langinn, í nokkur ár að minnsta kosti. Í undangengnum eldum, á síðustu 2000 árum, hefur verið algengast að hraun þeki um 40-50 km2 í hverjum eldum, eða meira, sem styður frekar þá ályktun að eldvirkni í Svartsengiskerfinu gæti staðið yfir eitthvað lengur.“

Helstu heimildir:
Kristján Sæmundsson og Magnús Á. Sigurgeirsson (2013). Reykjanesskagi. Í: Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar. Viðlagatrygging Íslands og Háskólaútgáfan.
Kristján Sæmundsson, Magnús Á. Sigurgeirsson, Árni Hjartarson, Ingibjörg Kaldal, Sigurður Garðar Kristinsson og Skúli Víkingsson (2016). Jarðfræðikort af Reykjanesskaga, 1:100 000 (2. útgáfa). Íslenskar orkurannsóknir.

Heimild:
-https://isor.is/eldgos-a-svartsengis-sundhnuksgosreininni-eftir-isold/

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – nútímahraun.