Ásfjall

Þegar farið er yfir Fornleifaskráningar fyrir Hafnarfjörð er ljóst að þar er margt miskráð eða jafnvel rangt.

Ásfjall

Ásfjall – meint fjárborg.

Tökum dæmi: Í Fornleifaskráningunni fyrir Ásland má lesa eftirfarandi um skráða fjárborg í norðurhlíðum Ásfjalls, skammt ofan húsa nr. 8-10 við Brekkuás. Þar segir m.a.;
Sérheiti: Borgin.
Tegund: Hleðsla.
Hlutverk: Fjárborg.
Hættumat: Engin hætta.
Ástand: Illgreinanleg/hrunin.
Aldur: 1550-1900.
Lengd: 17.2m.
Breidd: 14.4m.

Ásfjall

Ásfjall – meint fjárborg.

Vegghæð: 0 – 0.4m.
Breidd veggja: 1.2m.
Lýsing: Fjárborgin er hrunin. Ytra lag hennar er enn greinanlegt en er ógreinilegra innan í henni. Inngangur hefur að öllum líkindum verið í NV horni. Veggjahæð er frá 0 – 0.4m og veggjabreidd þar sem hún er greinanleg er að jafnaði um 1.2m.
Heimildir: Katrín Gunnarsdóttir. (2005). Fornleifaskráning í landi Áss Hafnarfirði. Hafnarfjörður: Byggðasafn Hafnarfjarðar.
Örnefnaskrá – Ás.

Ásfjall

Ásfjall – uppdráttur úr fornleifaskráningunni 2005.

Í tilvísaðri Fornleifaskráningu í landi Áss, Hafnarfirði, árið 2005 er getið um „Borgina“; „Fjárborgin er miðja vegu milli hesthúshverfis við Kaldárselsveg og nýrar íbúðabyggðar“ og vísað í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Ás. Gísli minnist hins vegar ekkert á þessa „fjárborg“ í sinni lýsingu, ekki frekar en hin skotbyrgin 6 á fjallinu.

Þegar „Borgin“ er skoðuð er augljóst að um herminjar er að ræða. Hleðslunum er hrófað upp án röðunar og innan þeirra eru hlaðin skjól. Ekkert gras er í eða við fjárborgina, sem er jú sterk vísbending. Mannvirkinu svipar mjög til skotbyrgisins á Flóðahjalla þarna skammt norðar. Hlutverk þess hefur auðsýnilega átt að vera varðstöð gegn mögulegri ógn úr norðri.

Mikilvægt er að skrá fornleifar og ekki síður að skráningin sé rétt.

Ásfjall

Ásfjall – meint fjárborg.

Hraun

Skoðaður var forn „skírnarfontur“ úr grágrýti við Hraun austan Þórkötlustaðahverfis. Hann fannst þegar verið var að grafa við fjárhús, sem þarna eru, en í fyrri tíð átti bænahús að hafa staðið þar norðan húsanna. Steininum var hent til hliðar í fyrstu, en Siggi (Sigurður Gíslason) á Hrauni lét grafa hann upp fyrir skömmu og er hann hinn fallegasti og merkilegasti gripur.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun.

Að vandlega skoðuðu máli virðist steinninn einnig geta verið svonefndur stoðsteinn. Þeir voru hafðir undir burðarstoðum bæja, höggvið í þá fyrir stoðinni og hún látin standa í holunni. Dæmi þessa má t.d. sjá í gömlu Herdísarvíkurbæjartóftinni, en þar er stoðsteinn þar sem önnur burðarstoðin við útidyrnar var.

Siggi sýndi FERLIRsfélögum dys ofan vegar sem Kristján heitinn Eldjárn hafði mikinn áhuga á, en gafst ekki tími til að kanna, auk þess sem skoðaðir voru brunnar við bæinn og Gamlibrunnur úti á sandinum ofan við Hrólfsvík.

Hraun

Refagildra við Hraun. Sigurður Gíslason ásamt Sesselju Guðmundsdóttur.

Um er að ræða fallega hlaðinn brunn, en er nú að mestu fylltur fosksandi. Loks var haldið upp Sandskarðið og upp í Hraunsleyni þar sem leynist ein fallegasta refagildra sem um getur. Um er að ræða krossgildru með fjórum inngöngum (en engum útgöngum).

Sigurður fór að rifja upp staðsetninguna eftir að FERLIR fór að grennslast um refagildrur á þessum slóðum. Niðurstaðan varð þessi ofan við Hraunsleyni. Hún er hlaðin úr hraungrýti. Tveir inngangar hennar er að mestu heilir og sá þriðji heillegur. Staðsetning hennar er nálægt refaslóð, með hraunkantinum.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinninn að vetrarlagi.

Eldri refagildrur eru einnig sunnan við Hraunsleyni, en mun minni. Nokkur hætta er á að gildrunni verði raskað þegar kemur að framkvæmdum við Suðurstrandarveginn því hún fellur vel inn í hraunmyndina.

Þá var haldið að Drykkjarsteini í Drykkjarsteinsdal og hann skoðaður. Steinninn er við gömlu þjóðleiðina áleiðis yfir að Méltunnuklifi á bak við Slögu. Vísa hefur verið ort um steininn og til er þjóðsaga um hann. Sú sögn hvílir og á steininum að í honum þrjóti sjaldan vatn.
Haldið var inn eftir dalnum og áfram inn Nátthaga og gengið á skarðið. Var þá komið inn í slétta sendna dalbreiðu vestan Stóra-Hrúts.

Gengið var að brúnum Merardala og þaðan til vesturs ofan í Geldingadal. Dalurinn var skoðaður fram og aftur sem og meint dys Ísólfs gamla frá Skála.

Geldingardalur

Geldingadalur – dys Ísólfs.

Gengið var upp úr dalnum að sunnanverðu og komið niður í Selskálina norðan Borgarfells. Á leiðinni yfir fellið blasti við stórkostlegt útsýni yfir allt vestanvert Reykjanesið.

Gengið var að Einbúa og skoðuð hlaðin forn hestarétt sunnan hans sem og lítið hlaðið skjól. Gömul leið liggur þarna þvert á og hefur verið talsvert kastað upp úr götunni. Líklega er þarna um að ræða hluta af Sandakravegi þeim, er jafnan er merktur inn á gömul landakort. Stefnir gatan á norðurhlíð Borgarfjalls. Skammt sunnar fannst haglega hlaðið refabyrgi og skammt sunnar þess fallegur stekkur.

Borgarhraun

Borgarhraun – stekkur.

Hraunkanturinn þarna er vel gróinn. Ekki er ólíklegt, ef vel væri leitað, að finna mætti seltóft í eða við einhvern hraunbollan, en afstaðan þarna er svipuð og í öðrum selsstöðum á svæðinu, enda líklegt að þessa svæði hafi verið nýtt til þeirra hluta.

Viðeyjarborg

Viðeyjarborg – fjárborg við Ísólfsskála.

Selskálin bendir til selstöðu, en í dag er ekki vitað hvar Ísólfsskáli hafði í seli fyrrum. Engin ummerki eru eftir selstöðu í sjálfri skálinni og ekki við Einbúa. Hins vegar bendir stekkurinn til selstöðu þarna á skjólsælum stað. Mikið af brönugrasi vex á börmum bollanna og talsvert gras er með köntunum, en óvíða annars staðar.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Gengið var með hraunkantinum niður að Ísólfsskálaréttinni gömlu (Borgarhraunsréttinni) og áfram fram hjá hjá fjárborg (Borgarhraunsborg) áður en göngunni lauk. Sagnir eru um að Viðeyjarklaustur hafi haldið fé í borginni, en það hafði ítök í fjölmörgum jörðum, einkum á norðanverðum Reykjanesskaganum. Um það er fjallað annars staðar á vefsíðunni. Eitthvert samhengi gæti verið með borginni og stekknum norðan við hraunkantinn. Ef svo hefur verið aukast enn líkur á að finna megi tóft eða tóftir á svæðinu. Líklegra er þó að í stekknum hafi verið heimasel frá Skála, enda stutt vegalengd þar á millum.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Hraun

Hraun – uppdráttur ÓSÁ.

Spákonuvatn

Í Andvara 1884 er hluti Ferðabókar Þorvaldar Thoroddsonar þar sem segir frá „Ferðum á Suðurlandi sumarið 1883„. En fyrst svolítið um höfundinn:

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen; 1855-1921.

„Þorvaldur Thoroddsen er fyrsti Íslendingurinn sem lagði jarðfræði fyrir sig í námi og starfi. Hann varð heimsfrægur fyrir rannsóknir sínar á jarðrænni gerð Íslands og þeim ferlum sem þar eru virk. Hann er með mikilvirkustu rithöfundum Íslandssögunnar og í raun landkönnuður Íslands, enda skoðaði hann landið allt að kalla, vítt og breitt, og snúast flest hans skrif um það og náttúrur þess. Fáir munu fyrr en á geimtækniöld hafa ferðast svo vítt um landið og haft jafn víða yfirsýn um það og hann hafði. Fáir hafa líka ritað meira um það en hann. Hjátrúar- og hindurvitnalaus ferðaðist hann á hestum um landið hátt og lágt sumar eftir sumar þegar fólk trúði því býsna almennt að hálendi landsins byggðu fjandsamlegir útilegumenn og þegar mestu harðindaár Íslandssögunnar réðu færð og veðrum.

Þorvaldur fæddist í Flatey á Breiðafirði 1855 og lést í Kaupmannahöfn 1921. Foreldrar hans voru Jón Thoroddsen (1818-1868) skáld og sýslumaður og kona hans Kristín Ólína Þorvaldsdóttir (1833-1879). Á bak við þau bæði eru ættir athafna- og dugnaðarmanna sem hafa haft áhrif á Íslandssöguna.

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen – Lýsing Íslands.

Þorvaldur lærði undirstöðufög í heimahúsum, en ellefu ára gamall fór hann frá foreldrum sínum til Jóns Árnasonar stiftsbókavarðar og konu hans í Reykjavík til þess að búa sig undir skóla. Þorvaldur kom í Lærða skólann 13 ára gamall árið 1868 og varð þaðan stúdent árið 1875. Hann útskrifaðist með 2. einkunn, næstlægstur sinna félaga, og þótti aldrei sérstakur námsmaður í þeim skóla. Fyrir því er þekkt ástæða sem ekki lýtur að skorti á námsgáfum.

Þorvaldur varð kennari í nýstofnuðum Möðruvallaskóla árið 1880 og var þar til 1884. Hann var kennari við Lærða skólann frá 1885 til 1895. Árin 1884-1885 var hann á ferðalagi erlendis til náms og gagnasöfnunar og hann var aftur erlendis 1892-1893, þá orðinn vel þekktur fræðimaður. Árið 1895 flutti Þorvaldur alfarinn til Kaupmannahafnar og sat þar við fræðastörf og skriftir það sem eftir var ævinnar.
Þorvaldur ThoroddsenÞorvaldur notaði sumrin á milli kennslumissera til rannsókna og fór í kerfisbundna leiðangra um landið allt á árunum 1882-1898.
Úr þessum rannsóknum kom aragrúi ritgerða og bóka sem lýstu og útskýrðu landið og náttúrur þess. Segja má að landið hafi verið óþekkt jarðfræðilega þegar hann byrjaði, aðeins til fáeinar greinargerðir á víð og dreif eftir hina og þessa, mest útlendinga og mest ómenntaða menn á sviði jarðfræði. Þegar hann lauk sínum skrifum var til heildarmynd svo glögg og yfirgripsmikil að enginn jarðfræðingur sem unnið hefur á Íslandi hefur komist hjá því að fara í fótspor hans og byggja á þeirri frumþekkingu sem hann dró saman. Hann var ekki sérfræðingur með þröngt áhugasvið heldur víðsýnn fræðimaður og landkönnuður sem las alla þá náttúru sem fyrir augun bar og gerði grein fyrir henni.

Þorvaldur ThorodddsenRitstörf Þorvaldar voru með eindæmum mikil og margbreytileg, allt frá stuttum athugasemdum upp í fjögurra binda stórvirki. Landfræðisagan kom í fjórum bindum á árunum 1892-1904 og er nú nýlega endurútgefin (2003-2009), þýsk útgáfa af sama verki kom út í tveimur bindum 1897-1898, Landskjálftar á Íslandi í tveimur hlutum 1899 og 1905, endurbætt 2. útgáfa af Lýsingu Íslands kom út árið 1900, jarðfræðikort af Íslandi í kvarðanum 1:600.000 frá árinu 1901, Island, Grundriss der Geographie und Geologie ásamt nýrri útgáfu af jarðfræðikortinu í kvarðanum 1:750.000 kom út 1906, og stórlega endurbætt Lýsing Íslands í tveimur bindum árin 1908 og 1911 og tvö viðbótarbindi um landbúnað á Íslandi á árunum 1917-1922.

Ferðabókin kom út í fjórum bindum árin 1913-1915 og aftur 1958-1960, Árferði á Íslandi 1915-16 og þriðja útgáfan af stuttu Íslandslýsingunni árið 1919 og fleira mætti telja.
Þorvaldur ThoroddsenÁ árunum 1909-1912 ritaði hann einnig hið mikla verk sitt um íslensk eldfjöll, Geschichte der Isländischen Vulkane, sem þó kom ekki út fyrr en að honum látnum. Auk þessara bókverka komu á þessum árum ótal greinar, stuttar og langar, í ýmsum blöðum og tímaritum, íslenskum og erlendum, alþýðlegum og hávísindalegum, um ýmis efni, langflest náttúrufræðileg.
Ísland er ólíkt öðrum löndum og því var Þorvaldur að fást við annað en fræðimenn á sama sviði erlendis. Fyrir vikið er afar margt í skrifum hans sem ekki finnst annars staðar á prenti á þessum tímum. Hann varð enda heimsfrægur fyrir störf sín og mun frægari erlendis en samtímamenn hans hér heima gerðu sér grein fyrir. Dagblöð allt frá New York til Moskvu sögðu frá ferðum hans og uppgötvunum. Honum hlotnuðust líka ótal viðurkenningar erlendis fyrir framlag sitt. Þar á meðal eru viðurkenningar frá virtustu vísindafélögum og akademíum beggja vegna Atlantshafs. Ein þessara viðurkenninga er Dalyorðan frá ameríska landfræðifélaginu sem jafnað hefur verið til Nóbelsverðlauna, sem ekki eru veitt fyrir jarðvísindi. Hér heima var honum lítill sómi sýndur.“

Í „Ferðum á Suðurlandi 1883“ segir m.a. um Trölladyngjusvæðið:
Andvari„Úr Grindavík fórum við austur á við fram hjá Hrauni, upp háls hjá Festarfjalli og að Ísólfsskála. Móberg er hjer í fjöllunum, en þó víða dálítil dólerít-lög ofan á. Festarfjall gengur þverhnýpt fram í sjö; austan við það er Ísólfsskáli. mjög afskekktur bær, og taka við hraun rjett fyrir austin túnið. Þau hraun hafa runnið úr gígum vestan við Núpshlíðarháls. Frá Ísólfsskála riðum við upp á Selvelli við Núpshlíðarháls.
Á leiðinni er á einum stað á hálsi nokkru fyrir austan Ísólfsskála svo kallaður Drykkjarsteinn. Það er stór móbergsteinn með djúpum holum í; sezt þar stundum vatn í holurnar, og er það kærkomið ferðamönnum í sumarhita. Við riðum yfir sljettuna vestan við Núpshlíðarháls; er hún öll þakin hrauni: hraun þetta hefir komið úr mörgum gígum, sem eru ofarlega og neðarlega við hálsinn; fellur það niður að sjó milli Núpshlíðarháls og Mælifells vestra, og eru þar í því tveir breiðir hraunfossar, áður en það kemur niður á ströndina; breiðist það síðan út vestur að Ísólfsskála og austur undir Selatanga; en þar hefir Ögmundarhraun runnið yfir það.

 

Frykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Fram með vesturhlíðum Núpshlíðarháls er víðast mjög grösugt og fallegt land milli hrauns og fjalls. Komum við fyrst að Hraunsseli; það er nú í rústum, en ágætt gras er í kring og dálítil vatnsdeiglu í klettunum fyrir ofan. Rjett fyrir norðan þetta sel hafa nokkrir hraunlækir streymt út úr hlíðinni niður í aðalhraunið, en eigi eru þar verulegir gígir; hraunið hefir beinlínis gubbast út um sprungu í fjallinu. Alla leið norður á Selvelli eru stórir gígir í röð í hrauninu fyrir neðan hálsinn.

Selsvellir

Selsvellir – seljatóftir.

Selvellir eru stórar grassljettur norður með hálsinum norðanverðum, allt norður fyrir Trölladyngju; er þar ágætt haglendi og vatn nóg: lækur, sem fellur úr hálsinum niður undir hraunin. Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grindavík, en er nú af tekið; nú hafa menn þar nokkurs konar afrjett, og reka þangað fje og hesta, enda er þar fríðara land og byggilegra, en víða þar, sem mikil byggð er; væri þar nóg land fyrir 2-3 bæi, því bæði eru slægjur nógar á völlunum og ágæt beit í hálsinum.
Við settumst að hjá læknum á Selvöllum, bjuggum þar sem bezt um tjald vort og dvöldum þar nokkra daga, til þess að skoða hraunin og fjöllin í kring.

Oddafell

Oddafell – Keilir fjær. Þorvaldur nefnir Oddafellið „Fjallið eina“.

Fyrir vestan Selvelli eru tvö fjöll eða hálsar; heitir annar Driffell, en nokkru neðar er »Fjallið eina«.

Mitt á milli Driffells og Trölladyngju, sem er á norðurendanum á Núpshlíðarhálsi, er »Hverinn eini«, mitt út í stóru hrauni norður af gömlum gíg, og suður af „Fjallinu eina“. Í hrauninu er kringlótt skál, 14 fet að þvermáli; í henni er hverinn; það er sjóðandi leirhver.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Í botninum liggja hraunbjörg; milli þeirra koma upp gufumekkir, og í kring um þau er bláleitur leirgrautur; sýður og orgar í jörðinni, þegar gufurnar þjóta upp um leðjuna. Hraunsteinarnir eru dálítið sundurjetnir af hinum súru hveragufum og hjer og hvar sjást dálitlir brennisteinsblettir. Hjer um bil 3—4 faðma fyrir norðan »Hverinn eina« er gömul hverahrúðursbreiða; þar er nú enginn hiti; en áður hafa heitar vatnsgufur komið upp um 4 eða 5 op; hverahrúðrið er smágjört, í flögum, og dálítið af sundursoðnum leir og brennisteini innan um hrúðrið; breiðan er 130 fet frá norðri til suðurs, og 150 fet frá austri til vesturs. Úr »Hvernum eina« leggur stækustu brennisteinsfýlu, svo mjer ætlaði að verða óglatt, er jeg stóð á barmi hans. í góðu veðri sjest gufustrókurinn úr þessum hver langt í burtu.

Keilir

Keilir.

Frá Selvöllum fórum við upp á Keilir (1239′); fórum fram hjá Driffelli yfir mikil og úfin hraun, og var þar víða illt að fara. Tilsýndar gætu menn ímyndað sjer eptir löguninni á Keilir, að hann væri gamalt eldfjall, en svo er eigi; hann hefir aldrei gosið; hann er móbergsstrýta með dólerít-klöppum efst uppi.

Keilir

Keilir.

Keilir er strýtumyndaður og mjög brattur ; norður úr honum gengur þó öxl eða rani, svo þar er bezt að komast upp. Litlir mórauðir móbergstindar standa fyrir norðan rætur hans, og eru kallaðir Keilisbörn. Við göngum upp öxlina. Hún er miklu dökkleitari en bergið í kring, af því að hún er mestmegnis úr kolsvörtum hraunmolum þegar ofar dregur verður miklu brattara; þar er lausaskriða ofan á, en sumstaðar sljettar móbergsklappir; þó má nokkurn veginn festa fót á þeim, því smáir hraunmolar standa út úr móberginu eins og oddar og gera það hrufótt. Gekk nokkuð örðugt að sneiða sig upp skriðurnar og móbergsklappirnar, en þegar kom upp á dólerít-klappirnar var það allt ljettara.

Trölladyngja

Gömul FERLIRsmynd tekin við Trölladyngju. Keilir fjær.

Efst er Keilir lítill um sig, og er þar lítill flatur kringlóttur melur, og varða á melnum, sem líklega hefir verið byggð þegar strandmælingarnar voru gjörðar. Móbergið í Keilir er mjög einkennilegt og óvanalega ljett; kemur það af því, að í því eru víða vikurmolar í stað basaltkenndra hraunmola, sem optast eru í móbergi.

Trölladyngja

Trölladyngja, Selsvellir nær.

Keilir stendur einstakur upp úr afarmikilli hraunbungu, sem hefst uppi við Fagradalsfjall, en hallast jafnt og þjett niður að sjó; úr Njarðvík og af Suðurnesjum sjest þessi hraunbunga glöggt, því þaðan tekur rönd hennar sig upp yfir lægri hraunin, sem utar eru á nesinu.

Af Keilir gjörði jeg ýmsar mælingar. Þaðan er bezta útsjón yfir Reykjanesskagann, Innnes og Faxaflóa; sjest þaðan allt frá Eldey og austur í Kálfstinda. þaðan sjest vel, að Strandahraunin gömlu koma úr krikunum uppi við Fagradalsfjöll, en eigi varð jeg þar var við gígi.

Víkingaskip

Í Afstapahrauni.

Sumir kalla hraunin vestur af Keilir Þráinskjölds- eða Þráinskallahraun. Nýleg hraun hafa á einum stað fallið frá Fagradalsfjöllum vestan við gömlu hraunin, er Keilir stendur á; ná þau að vestan hjer um bil saman við Eldvarpahraun, en hafa fallið niður fyrir Vogastapavatn að austan. Dálítill hver sjest í hrauninu fyrir ofan Vogastapavatn; gufustrókur stóð þar beint upp í loptið. Ágætlega sást yfir hraunin hjá Selvöllum, Trölladyngjuhraunin og hraunin frá Undirhlíðum og Mávahlíðum. Afstapahraun hefir runnið alveg niður í sjó hjá Kúagerði og armur úr því nær töluvert til vesturs; mestur hluti þessa hrauns hefir komið frá Trölladyngju, en þó virðist töluvert hafa komið úr gígunum við Máfahlíðar. Upp úr Afstapahrauni ofauverðu stendur einstakt móbergsfell, sem heitir Snókafell. Strandahraun eru þau hraun, sem liggja fyrir vestan Afstapahraun, en hinn eiginlegi Almenningur er á milli Afstapahrauns og Kapelluhrauns.

Driffell

Driffell. Trölladyngja fjær.

Almenningshraun eru afargömul og líklega komin undan Máfahlíðum, Undirhlíðum og ef til vill nokkuð úr Trölladyngju. Milli Keilis og Trölladyngju eru tvö fell, sem áður var getið um, Driffell sunnar og vestar, en „Fjallið eina« norðar.

Keilir

Keilir – Oddafell  („Fjallið eina“) nær.

„Fjallið eina“ er mjög langur, en lágur háls, rjett við Dyngju, og graslendi á milli og dálítil gömul hraun. Úr ýmsum gígum við Selvelli hefir hraun runnið norður á við milli »Fjallsins eina« og Driffells, og milli Driffells og Keilis eru þau bæði nýleg og úfin; koma þau svo saman við Afstapahraun og önnur eldri Dyngjuhraun; verður þar allt í graut, svo eigi er hægt að greina sundur, því allt er umturnað og öfugt, þar sem öll þessi hraun koma saman. Við norðurendann á Driffelli hefir hraunröndin sprungið frá, er það rann, og standa þar sljéttar hraunhellur 2—3 mannhæðir á hæð, reistar á rönd, þráðbeint upp í loptið. Sum hraunin úr gígunum við Selvelli hafa runnið suður á við niður að Selatöngum, eins og fyrr er getið.

Selsvellir

Moshóll á Selsvöllum. Driffell og Keilir fjær.

Daginn eptir að við gengum upp á Keilir var veðrið svo illt á Selvöllum, að eigi var hundi út sigandi, óg næstu nótt á eptir var svo mikið hvassviðri og húðarigning, að tjaldið ætlaði um koll, og oss kom ekki dúr á auga.

Sogaselsgígur

Sogaselsgígur – Trölladyngja fjær.

Þar við bættist, að vætan varð svo mikil alstaðar, að hvergi var hægt að fá þurran blett til að liggja á, því jörðin saug í sig vatnið eins og svampur, og urðum við allir gagndrepa, þrátt fyrir regnföt og annan umbúnað. Þegar veður er svo, er eigi hægt að rannsaka eða mæla, og sáum við oss því ekki annað fært, en að ílýja til byggða. Húðarigning var, þegar við fórum af stað, og svartaþoka í hálsinum; klöngruðumst við þó upp hálsinn, þó illt væri að koma hestunum, og komumst eptir nokkra hrakninga á stíg niður að Vigdísarvöllum; fórum við síðan yfir Sveifluháls Hettuveg að Krýsuvík. Vegur þessi er mjög brattur og liggur hátt. Þar eru enn þá efst í hálsinum ýmsar hveraleifar, sundursoðinn jarðvegur og brennisteinsblandinn á stöku stað. Dvöldum við síðan nokkra daga í Krýsuvík hjá Árna sýslumanni í góðu yfirlæti.

Hettustígur

Hettuvegur.

Áður en jeg fór af Selvöllum hafði jeg skoðað nokkuð af Trölladyngju, og nú fór jeg nokkrar ferðir þangað frá Krýsuvík, þegar veðrið var orðið bærilegt, og mældi þar og skoðaði eins nákvæmlega og jeg gat; fjallið er þess vort, því það er eitt með meiri eldfjöllum á Íslandi.

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

Núpshlíðarháls, sem opt hefir verið nefndur, er hjer um bil 2 mílur á lengd, og gengur frá suðvestri til norðausturs nærri niður að sjó upp af Selatöngum, og nær norður undir Undirhlíðar, hjer um bil jafnlangt og Sveifluháls. Háls þessi er allur úr móbergi, allhár, víðast 12—1300 fet og sumstaðar hærri; ofan á honum eru víðast 2 jafnhliða hryggir, með mörgum kömbum og nybbum, tindum og skörðum. Við háls þennan hafa orðið mikil eldsumbrot, og eru langar gígaraðir beggja megin. Nyrzti endinn á Núphlíðarhálsi klýfst í sundur í tvær álmur og er Trölladyngja á vestari álmunni.

Trölladyngja

Mávahlíðar fyrir miðju – Trölladyngja og Grænadyngja fjær. Mávahlíðahnúkur t.v.

Framhald af eystri álmunni eru Máfahlíðar, og eru þær nokkurs konar hjalli niður af Undirhlíðum, sem ganga norður og austur frá endanum á Sveifluhálsi; þó eru á Máfahlíðum dálitlir hvassir móbergstindar. Dalurinn milli Núphlíðarháls og Sveifluháls er fullur af hraunum, og hafa þau öll komið upp að vestanverðu úr gígum, sem annaðhvort eru utan í hálsinum eða rjett fyrir neðan hann; úr Sveifluhálsi hafa hvergi hraun runnið, og par eru engir gígir nema nokkrir mjög gamlir allra syðst í honum.

Mávahlíðar

Mávahlíðar.

Undan Mávahlíðum hafa mikil hraun runnið, og eru flest nýleg og mjög ill yfirferðar eða því nær ófær gangandi mönnum. Rjett fyrir neðan efsta toppinn á Mávahlíðum er stór gígur, allur sundurtættur af eldsumbrotum, og hlaðinn upp úr stórum hraunstykkjum; hallinn á þessum gíg er um 30°, en hæðin að eins 73 fet; hraunin frá Máfahlíðum hafa runnið vestur á við í mörgum breiðum kvíslum niður í Dyngjuhraunin og saman við efsta hlutann af Afstapahrauni ; í hraunum þessum eru víða stórar sprungur og djúpar; var ís í botninum á sumum. Dalurinn milli Núphlíðarháls og Sveiflubáls er mjög mjór rjett fyrir ofan Vigdísarvelli, því að þar slaga álmur úr Núphlíðarhálsi og smáfell út í dalinn; fyrir neðan þessi fell eru ýmsir gamlir smá-gígir og stdrar raðir af nýrri gígum, sem Ögmundarhraun hefir runnið úr, og skal þess síðar getið.

Eldborg

Eldborg norðan Trölladyngja. Lambafell fjær.

Trölladyngja er stór hnúður á endanum á Núphlíðarhálsi, eins og fyrr var sagt; er lægð mcð mörgum dalverpum í hálsinn fyrir sunnan Dyngjuna og má ríða þar yfir frá Djúpavatni, sem er austan við hálsinn, og yfir á vellina fyrir austan Fjallið eina.

Sogin

Sogin.

Í lægðinni eru 4—500 feta djúp gil, sem eru kölluð Sog; skiptast þau í tvö aðaldrög að ofan og mörg smærri efst, en sameinast niður að sljettunni gagnvart Fjallinu eina; í giljum þessum er lílið vatn, en þau hafa samt grafið sig svo djúpt niður í móbergið; hefir þar áður verið fjarskalegur jarðhiti, því allt er þar sundursoðið af hveragufum, og er móbergið í hlíðum þeirra orðið að eintómum leir, sem víðast er rauður, en sumstaðar eru aðrir litir, hvítir, gulir og bláir.

Trölladyngja

Gígur vestan Trölladyngju.

Enginn er þar jarðhiti nú svo nefna megi; jeg sá að eins á einum stað neðst í grófinni 3 litla reyki koma út úr berginu. Sunnan við Sogin uppi á fjallinu rjett fyrir ofan þau er leirhver utan í barði; þar bullar rauðleit leðja upp úr mörgum smáholum; hiti er þar 78° C. Í „Fjallinu eina“ beint á móti Sogum hefir og verið jarðhiti, því þar sjest upplitað og sundur soðið móberg, og gufar upp úr hrauninu fyrir neðan. Uppi á fjallinu suður af leirhverunum, er jeg síðast nefndi, er vatn í dálítilli hvylft og er kallað Grænavatn.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Hin eiginlega Dyngja er fyrir norðan Sogin; eru á henni tveir hnúkar úr móbergi, hinn eystri breiður um sig og kollóttur, en hinn vestari hvass og miklu brattari; djúp rauf er á milli hnúkanna norður úr. Norður af eystri hnúknum gengur langur rani, og úr honum hafa mestu gosin orðið; utan í röndinni á rananum vestanverðum er röð af fjarskalegum gígum. Hefir raninn klofnað að endilöngu og gígirnir myndazt í sprungunni; sjest sprungan sumstaðar í móberginu og hallast hraunhrúgur gíganna upp að eystri vegg hennar. Tveir syðstu gígirnir eru langstærstir: hinn syðsti 236 fet á hæð yfir hraunið fyrir vestan, og hallast 34°, en úr því taka við margsamtvinnaðir gígir norður úr, milli 20 og 30 að tölu.

Sogagígur

Sogagígur.

Vestur af gígaröðinni er snarbratt, og hefir hraunið fallið niður í samanhangandi fossi, fyrst úr sprungunni og síðan úr gígunum, er þeir voru myndaðir. Hraunið hefir verið svo seigt og runnið svo hægt úr sumum af minni gígunum, að þeir eru eins og gleraðir pottar með sívölum sljettum röndum; sumstaðar eru eins og stampar af steyptu járni. Fyrir neðan gígaröðina að vestan er lóng sprunga og hefir líka runnið úr henni seigfljótandi hraunleðja, svo barmar hennar eru allir gleraðir af þunnum og þjettum hraunskánum. Uppi í raufinni milli eystri og vestari hnúksins eru og gígir.

Trölladyngja

Gígur suðvestan Trölladyngju.

Úr öllum þessum gígum hefir komið afarmikið hraunflóð, og eru það upptök Afstapahraunsins, sem hraunin frá Máfahlíðum hafa síðan runnið saman við. Hraunið allt vestan við Dyngjuranann hefir sokkið við gosið líkloga 100—200 fet. Beint norður af vestari Dyngjuhnúknum er stór mjög gamall rauður gígur, rúm 70 fet á hæð (halli 25°). Sunnan við þennan gíg, milli hans og vestari hnúksins, er töluverður hiti í hrauninu; koma vatnsgufur þar upp um ótal göt; er hitinn þar víðast 40—60° C, en í einu opi voru 78°. Fyrir vestan vestari hnúkinn eru sljettir vellir yfir að Fjallinu eina, og eru þeir áframhald af Selvöllum; þeim megin eru nokkrir smágígir gamlir utan í bnúknum, sem hraun hefir runnið úr, og sumstaðar hefir það spýtzt úr sprungunum án þess gígir mynduðust. Móbergið í endanum á vesturhnúknum hefir á einum stað sprungið í sundur, og stendur sú sprunga lóðrjett á eldsprungunni í eystri rananum, en ekkert hraun hefir þar upp komið.

Sogin

Sogin. Keilir fjær.

Elztu gosin, sem orðið hafa úr Trölladyngju, hafa komið sunnar, rjett við Sogin, enda er þar utan í hlíðunum sá urmull af gömlum stórum gígum, að varla verður tölu á komið. Hafa eldsprungurnar myndazt hver við hliðina á annari, og verið svo þjett, að gígirnir virðast standa í hrúgum; en þó má sjá hina vanalegu stefnu frá norðaustri til suðvesturs, þegar vel er að gáð.

Trölladyngja

Gígur suðvestan Trölladyngju.

Fyrir norðan vesturendann á Sogunum niður undir jafnsljettu er ein gígahrúgan; þar eru að minnsta kosti 30 gígir, en allir svo gamlir, grónir mosa og fallnir saman, að illt er að greina hina smærri. Einn hinn stærsti er neðst við Sogalækinn; hann er opinn til suðurs og eins og skeifa í lögun og í botni hans stór grasi vaxinn völlur. Fyrir sunnan lækinn, ofan frá Grænavatni niður á jafnsljettu og suður með fjalli, suður að hrygg, sem gengur út úr Núphlíðarhálsi vestur undinn Hverinn eina, er mesta mergð af gígum (að minnsta kosti 80—100 að tölu).

Trölladyngja

Gígur suðvestan Trölladyngju.

Þeir eru í mörgum röðum utan í hlíðinni og sumir geysistórir. Nyrzt og hæst upp í hlíðinni, við neðri rönd Grænavatns, er einn af stærstu gígunum; hann er að eins hjer um bil 40 fet hærra upp að ofan en yfirborð vatnsins, en hjer um hil 300 fet er hann á hæð að neðanverðu niður að jafnsljettu; hryggur skiptir gíg þessum í tvennt; hann er 140 fet á dýpt og 1700 fet að ummáli. Fyrir neðan hann, rjett niður á jafnsljettu, er kringlóttur „sandgígur, flatvaxinn (halli 2—3°), og lágur, en mjög stór ummáls (2400 fet).

Grænavatn

Grænavatn á Núpshlíðarhálsi.

Í kringum þessa stóru gígi og suður af þeim er mesti sægur af smærri gígum; þó þeir sjeu eigi mjög stórir í samanburði við þessa, þá eru þeir þó allmerkilegir að mörgu leyti, sumir snarbrattir að innan, aðrir eins og skálar og bollar. Syðsti gígurinn rjett við Selvelli er langstærstur; stendur önnur hlið hans utan í hlíðinni, en hin niðri á völlum; hann er aflangur og opinn í báða enda og yfir 3000 fet að ummáli; innan í honum hafa margir smærri gígir myndazt. Norður af þessum stóra gíg sitja margir smáir utan í hlíðinni, eins og vasar.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall. Nauthólar nær.

Þess er nokkrum sinnum getið í annálum, að Trölladyngjur hafi gosið ; en optast er gosið að eins nefnt, án þess frekari frásögn sje um það, og verður þá eigi sjeð, hvort átt er við þessar Trölladyngjur eða eldfjall með sama nafni í Ódáðahrauni: en hvergi er beinlínis sagt, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni hafi gosið; verður eigi skorið úr þessu fyrr en þetta eldfjall er skoðað, en það hefir enginn enn þá gjört, enda er enginn hægðarleikur að komast þangað. Getið er um fimm gos í Trölladyngjum, fyrst 1151. fá segir svo: „Var eldur í Trölladyngjum, húsrið og manndauði“.

Trölladyngja

Moshóll við Selsvelli. Trölladyngja fjær.

Ár 1188 »eldsuppkoma í Trölladyngjum« (Ísl. ann. bls. 76).

Ár 1340 segir Gísli biskup Oddsson, að eldur hafi verið í Trölladyngjum, og að hraun hafi hlaupið þaðan og niður í Selvog. Að hraun hafi runnið úr Trölladyngju niður í Selvog, er ómögulegt, því tveir háir fjallgarðar eru á milli; hefir þetta verið sagt af ókunnugleika þeirra, er skrifsettu þetta; hraun þetta kom úr eldgígum í Brennisteinsfjöllum, sem fyrr er getið. Í Flateyjarannál er getið um eldgos úr Trölladyngjum 1360, »ok eyddust margir bæir í Mýrdal af öskufalli, en vikurinn rak allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snjófellsnesi«.

Selvogsgata

Selvogsgata. Bláfeldur fjær. Honum hefur oftlega verið kenndur við „Trölladyngju“ í fornum sögnum.

Mikil líkindi eru til, að hjer sje átt við Trölladyngju á Reykjanesi. Veturinn 1389—90 var víða eldur uppi á Íslandi; þá brann Hekla. Síðujökull og Trölladyngja; segir Espólín (Árbækur I, bls. 110) að Trölladyngja hafi hrunnið allt suður í sjó og að Selvogi. Hjer or sama villan og við gosið 1340, nefnilega, að brunnið hafi að Selvogi. Vera má að þá hafi brunnið gígirnir, sem ná frá Trölladyngju og allt suður undir sjó vestan við Núphlíðarháls, og hraunið myndazt, er fallið hefir þar niður austan við Ísólfsskála.

Trölladyngja

Fíflvallafjall, Mávahlíðar, Grænadyngja og Trölladyngja.

Eitthvað er blandað málum með þessi Trölladyngjugos flest, og hefir það komið af ókunnugleika annálaritaranna; fjöllin hjer syðra eru öll svo eldbrunnin, og hjer eru svo margir gígir, að menn hafa eigi getað greint sundur hina einstöku gosstaði, og hafa öræfin og hraunin þó líklega verið byggðamönnum í kring lítt kunn, og svo er enn.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju.

Á hraununum við Trölladyngju er auðsjeð, að sjálf Dyngjan hefir eigi gosið opt síðan land byggðist; hið eina hraun, sem nokkuð kveður að, og auðsjeð er að paðan hefir komið síðan á landnámstíð, er Afstapahraun; aptur hafa þaðan komið mörg og mikil gos áður. Í fjöllunum í kring, hæði í Mávahlíð og Núphlíðarhálsi, hefir og eflaust gosið síðan land byggðist.“

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 47-57.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=58559

Trölladyngja

Trölladyngja. Vættur fjallanna nær.

Básendar

Gengið var um Básenda frá Stafnesi í fylgd Magnúsar frá Bala. Farið var um gömlu steinbrúna austan Básendahóls á leið að gamla brunninum austan gömlu búðanna. Brunnurinn er greinilegur. Efstu hleðslur sjást, en að öðru leyti er hann fullur af sandi.

Básendar

Básendar – brunnur.

Í fornleifaskrá fyrir Básenda er brunnurinn sagður horfinn í sandinn. En raunin virðist önnur. Þá var gamla hústóttin á Básendum skoðuð, en bærinn, ásamt öðrum húsum, s.s. búðinni, lýsisbræðslunni, fjósinu og hlöðunni, eyðilögðust í Básendaflóðinu árið 1799. Verslunarhúsið var flutt í spýtum til Keflavíkur. Sjá má grunn hússins á Básendum.

Mesta flóð sem sögur fara af á Suðurnesjum og raunar landinu öllu er svokallað Básendaflóð, heitið eftir Básendum. Það er að öllum líkindum flóð sem aðeins gerist með mjög margra alda millibili.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Í Suðurnesjaannál, Rauðskinnu hinni nýrri, er svohljóðandi lýsing:
„1799. Eftir nýár, aðfaranótt 9. janúar, gjörði ofsalegt sunnanveður af hafútsuðri, höfðu þó komið önnur lík, en eigi jafnmikil. Fylgdi veðri þessu mikið regn, þrumur og leiptranir í stórstraum og var himinninn allur ógurlegur að líta. Það með fylgdi óskaplegt stórbrim og hafrót með miklum fallþunga og ægilegri flóðbylgju. Urðu skemmdir miklar hvarvetna…. Í Grindavík eyðulögðust tún á tveim bæjum, og önnur stórskemmdust, fimm hjáleigur spilltust, sex skip brotnuðu, átta manns meiddust og hundruð fjár fórust….

Básendar

Básendar – bærinn.

Básendakaupstaðurinn hjá Stafnesi eyðilagðist alveg, því að öll höndlunarhús braut sjór og veður, svo að þar stóð ekkert eftir og rótaðist grundvöllurinn sjálfur, enda gekk sjór 164 faðma upp fyrir efstu hús kaupstaðarins. Fórst einn maður, en Hannes kaupmaður bjargaðist í dauðans angist með konu sína og börn hálfnakin heim að Loddu, hjáleigu frá Stafnesi. (Lodda er tóft austan við Stafnes, en fyrirhugað er að rissa Stafnessvæðið upp við tækifæri). Fiskigarðar og túngarðar á Nesinu sópuðust heim á tún, sums staðar tóku af skipsuppsátur og brunna og átta skip brotnuðu. Tveir bátar fuku í Njarðvíkursókn og fundust eigi síðan og einn brotnaði, 4 bátar í Útskálasókn. Miklir skaðar á Vatnsleysuströnd og Innnesjum og vestur um allt land, sem menn vissu ekki dæmi til eins stórkostlegt, um allt land á einni nóttu“.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Neðan tóttarinnar að norðanverðu er Básendavörin og má enn sjá för eftir kjalför bátanna á klöppunum. Austan tóttarinnar er gamla réttin og vestan hennar eru kengir, sem bátar í víkinni voru festir við allt frá því á 16. öld.

Básendar

Letursteinn við Básenda.

Ef vel er gáð má sjá einar 5 til 7 kengi með víkinni og á skerjum, en í allt eru þeir 9 talsins. Draughóll með dysinni upp á var skoðaður og síðan gengin gamla Hrossagatan yfir að Þórshöfn. Á leiðinni lýsti Magnús miðum og kennileitum, s.s. Svartakletti með ströndinni, en hann var notaður sem mið í Keili, Mjóuvörðu efst á Miðsnesheiðinni, en hún var notuð sem sundvarða o.fl. Á leiðinni fann göngufólk m.a. vínleirkúta í fjörunni og var tappinn enn í sumum þeirra.
Leitað var að áletruðu Hallgrímshellunni á holti norðan Þórshafnar og síðan litið á leturklöppina ofan hennar. Á henni má sjá ýmis ártöl og fangamörk. Í bakaleiðinni var komið við í Gálgum, gömlum aftökustað, sem heimildir eru
til um.
Gangan tók 2 klst og 2 mín. Gengið var í ágætu veðri. Rigningin beið uns göngunni var lokið. Til fróðleiks er gaman að geta þess að FERLIR hefur, þrátt fyrir reglulegar ferðir, einungis tvisvar lent í rigningu á ferðum sínum.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Kirkjuvogssel

Lagt var af stað í hríðarbyl og snjókomu frá höfuðborgarsvæðinu. Á Vatnsleysuströnd birti til. Þegar komið var að Ósabotnum var komið sólskin.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Gengið var að Kirkjuvogsseli suðaustan Hafnarvegar. Selið er undir hól innan varnarsvæðisins og hefur fengið að vera óhreyft um langan tíma. Tóttir eru á tveimur stöðum í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Neðan þeirra er stekkur og enn neðar og norðar er reglulegur hringur, sem gæti hafa verið kví eða lítil rétt. Selstígurinn sést vel þar sem hann liggur frá selinu í átt að Ósabotnum. Hópurinn gekk frá selinu til norðurs og inn fyrir aðalvarnarsvæðið með leyfi yfirvalda.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel.

Ætlunin var að leita að tóttum Stafnessels, sem þar átti að vera, skv. korti, ofarlega í heiðinni þar sem hallar til vesturs. Mikið landrof hefur átt sér stað á svæðinu, auk þess sem framkvæmt hefur verið alveg að brekkunum. Þó má sjá talsvert gras efst undir brekkunum og einnig er ekki ólíklegt að selið hafi verið þar undir eða ofan við klettana.

Stafnessel

Stafnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Leið er vörðuð að klettunum og eru vörðurnar, sem greinilega eru mjög gamlar, flestar hrundar. Þó er ein stærst og stendur enn nokkuð neðan við brekkurnar. Hún hefur líklega verið sundvarða inn að Ósabotnum því hún ber frá skerjunum í Keili. Þá var gengið niður að Djúpavogi og þaðan til norðvesturs eftir gömlu Kaupstaðaleiðinni. Skammt ofan við voginn er
200-300 m langur beinn mjög fallegur kafli á leiðinni, sem greinilega hefur verið ruddur og flóraður á kafla. Þegar hópurinn kom að enda kaflans skein sólin á svæðið svo hún sást mjög vel þar sem hún liggur upp holtið. Skv. öðru korti átti Stafnessel að vera þarna skammt sunnar. Það reyndist vera rétt.

Þar suðvesturundir stórum klapparhól kúrði selið – nokkrar tóttir.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – stekkur.

Gengið var niður á Ósaleiðina og henni fylgt að Gamla Kirkjuvogi þar sem tóttirnar af gamla bænum og kirkjugarðurinn voru skoðaðar, auk garðanna og brunnsins. Þar sem greinilega var að verða mjög lágsjávað var ákveðið að halda áfram framhjá Skotbakka og Þórshöfn yfir að Básendum. Þegar þangað var komið var gengt út í öll sker.
Farið var fetið út í stærsta skerið vestan Básendalægis. Þar í klöpp á því norðanverðu er festahringur í keng, nokkuð ryðbrunninn.

Básendar

Básendar – festarhringur.

Í hring þennan var festi hér á öldum áður og í hana voru kaupskipin, er þarna lágu, fest. Klöppin var öll upp úr sjó, sem ekki er algengt þarna. Eftir að hafa dáðst að litbrigðunum (rautt, brún, grænt og gult) umhverfis hringinn var haldið í rólegheitum  suður með skerinu. Þar var að sjá annan keng, en í hann vantaði hringinn. Eftir að hafa áð við Draughól var haldið með steingarðinum, sem umlykur Básenda, að Stafnesi þar sem ferðin endaði.
Í því er hópurinn gekk í hlað á Stafnesi um kl. 12:00 byrjaði að snjóa.
Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Kirkjuvogssel

Kirkjuvogssel – uppdráttur ÓSÁ.

Beitarhús

Hér á eftir verður m.a. fjallað um beitarhús sem og slík hús frá Elliðavatni, Vatnsenda, Fífuhvammi, Vífilsstöðum, Urriðakoti, Setbergi, Hvaleyri, Jófríðarstöðum og Krýsuvík.

Beitarhús

Beitarhús.

Beitarhús hafa jafnan verið skilgreind sem „fjárhús (langt frá bæjarhúsum þar sem vetrarbeit er fyrir sauðféð).“ Húsin voru ákveðin gerð af fjárhúsum sem notuð voru á Íslandi fyrr á öldum. Þau voru oft langt frá bæjum og var ástæðan sú að ærnar eða sauðirnir sem þar voru hýstir voru settar út um veturinn og látnar bíta á meðan smalinn stóð yfir. Ef mikill snjór var mokaði hann ofan vellinum af fyrir sauðunum með varreku. Hugmyndin með staðsetningunni, oft við ystu mörk bæja, var að dreifa beitarálaginu og eyja jafnframt möguleika að beita inn á land nágrannans. Beitarhús stóðu einnig víða við fjöruna til að ærnar kæmust í fjörubeit og rústir af slíkum húsum er mjög víða að finna.

Skammidalur

Skammidalur – beitarhús.

Eftir að seljabúskapur og stekkjartíð lagðist af í lok 19 aldar voru selstöðurnar eða nálægð þeirra gjarnan nýttar fyrir beitarhús. Áður höfðu hús ekki verið byggð sérstaklega fyrir sauðfé, a.m.k. ekki á Suðvesturlandi. Í Húshöfða norðan Hvaleyrarvatns ofan Hafnarfjarðar eru t.d. beitarhús frá Jófríðarstöðum. Þar var áður selstaða frá sama bæ. Tóftir hússins er allgreinilegar. Þeim hefur verið hlíft að mestu við skógræktinni umleikis. Leifar selsins eru norðvestan við beitarhússtóftina. Þær eru mun eldri og því ógreinilegri.

Gráhella

Gráhella – beitarhús.

Í Gráhelluhrauni má sjá dæmigert útihús fyrri tíma; hlaðið hús með gerði til beggja hliða. Mannvirkið er byggt utan í náttúrulegan hraunstand; Gráhellu. Útihúsið var frá Setbergi. „Syðra sauðahúsið“ var útihús frá Urriðakoti skammt vestan Selgjár, byggt utan í háan hraunstand, líkt og við Gráhellu. „Nyðra sauðahúsið“ var grjóthlaðið útihús, einnig frá Urriðakoti í Urriðakotshrauni.

Elliðavatn

Beitarhúsahæð – beitarhús frá Elliðavatni.

Elliðavatnsfjárhúsin voru á Beitarhúsahæð skammt ofan við Þingnes. Vatnsendi hafði beitarhús á Vatnsendaheiði og síðar í gróinni dallægð undir Vatnsendahlíð. Fífuhvammur (Hvammkot) byggði beitarhús í Rjúpnadalshæð, Vífilsstaðir byggðu beitarhús í Finnsstöðum og síðar norðaustan Svínahrauns, Setbergsbóndinn reisti síðar beitahús í Húsatúni á Setbergshlíð, Hvaleyri átti beitarhús suðvestan við Grísanes, Jófríðarstaðir byggðu beitarhús í Beitarhúsahöfða (nú Höfðaskógur) og Krýsuvík átti beitarhús á Krýsuvíkurheiði – svo einhver slíks séu upp talin.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

Elstu menn segjast hafa heyrt af því að í Jónsbúð hafi Magnús, síðasti íbúinn í Krýsuvík, setið yfir sauðum á yngri árum er hann var þar í vist hjá sýslumanninum, Árna Gíslasyni.

Eftir því sem best verður séð er lítill munur á beitarhúsum og sauðahúsum. Beitarhúsin voru fjárhús, sem voru yfirleitt í nokkurri fjarlægð frá bænum, stundum alllangt. Orðið sauðhús eða sauðahús var notað í tvenns konar merkingu. Annars vegar almennt um fjárhús fyrir sauðfé en hins vegar um fjárhús sérstaklega ætlað geldfé. Þau voru oftar en ekki nálægt bæjum, líkt og sjá má t.d. við Lónakot.

Litlahraun

Litlahraun – beitarhús.

Í Búnaðarritinu árið 1916 er m.a. fjallað um beitarhús: „Ekki er langt síðan að beitarhús voru algeng mjög um land ait til ómetanlegs gagns fyrir sauðfjárbændur. Nú eru þau að mestu horfin, og er margt, sem því veldur. Sauðir voru mest hafðir á beitarhúsum, enda bezt að beita þeim. Nú eru þeir að mestu horfnir. Þó svo sé, er ekkert vit í því að hætta að beita gemlingum og ám; það má fara vel með féð fyrir því, og skynsamleg beit er skepnunni miklu hollari en kyrstaða í loftillum fjárhúsum. Þá vantar ieitarhúsamennina. Þeir eru horfnir eins og sauðirnir. Hvert? Líklega á eftir kvenfólkinu i kaupstaðinn, þar sem pilsin þjóta. Þykir þeim annað ómaksminna og notalegra en að standa yfir fé og í snjómokstri.
Þá var víða langt og erfitt að jlytja hey á beitarhúsin. En víða hagar svo til, að vel mætti byggja beitarhús, þar sem auðvelt væri að rubba upp á stuttum tíma talsverðum fóðurforða í mýrum og fjallalöndum og flytja í votheystóft heim á beitarhúsin“.

Grísanes

Grísanes – beitarhús.

Í Höldur árið 1861 eru skrif um „Búnað- og verkaskipun í lands- og sveitarjörðum“ eftir Halldór Þorgrímsson: „Þeir húsbændur, sem ekki eru lagaðir
til fjárhirðingar eða ekki geta sinnt þess konar störfum vegna áðurtaldra kringumstæða, ætti að útvega sjer trúan, vanan og glöggan fjármann til vetrarhirðingar. Þar sem svo er hátt að með beit og landslag, að beitarhúsa þarf við, er áríðandi, að fjármaður sje viss og einbeittur að rata í hríðum og dimmu veðri, og að hann hafi heilsu og þrek til að standa úti yfir fje, hvernig sem viðrar. Er tilvinnandi að hlynna aö slíkum mönuum fram yfir hin hjúin með kinda fóðrum eður einhverri annari ívilnun, stundi þeir verk sitt með dyggð og dugnaði.

Kaldársel

Kaldársel – ófullgert beitarhús, líklega byggt af Kristmundi Þorlákssyni, síðar bónda í Stakkavík.

Á öllum útbeitarjörðum, eins þó þar sje ekki haldið upp á beitarhús, er áríðandi, að fjármenn sje gæddir þessum hæfilegleikum eigi fjárhirðingin að vera í góðu lagi“.

Í Skagfirðingabók 1985 segir í grein Eiríks Eiríkssonar frá Skatastöðum, „Viðurværi – Lifnaðarhættir Skagfirðinga á 19. öld„: „Engvir karlmenn fengu þá morgunbita nema þeir, er gengu á beitarhús“.

Elliðavatn

Beitarhúsahæð – stekkur.

Tímarit kaupfjelaga og samvinnufjelaga 1908 fjallar um „Sauðfjárverslunina„: „Bændur lögðu því einkum stund á það að hafa sauðfje sitt feitlagið og ullarmikið að svo miklu leyti sem þetta var samrýmanlegt. Jafnhliða þessu var kostað kapps um það að sauðfje kæmist af með sem allraminnst innifóður. Vetrarbeit var því sótt með kappi og áhuga. Þá voru »beitarhús« mjög víða notuð.“

Blaðið Lögfræðingur 1897 taldi ástæðu til að fjalla um „Ágang búfjár„. Páll Briem skrifaði: „Enginn má byggja nær annars landamerkjum, er nú var sagt, sel, beitarhús, fjárrjettir eða nokkur önnur peningshús, nema það hafi staðið þar áður, eða sá, sem land á á móti, leyfi“.

Álfsnes

Álfsnes – beitarhús.

Björn Bjarnason í Gröf skrifaði um „Að beita sauðfé“ í Frey árið 1904: „Menn, er fyrir 30—40 árum voru aldraðir höfðu uppalist við þann sið, að beita sauðfé svo mikið sem unt var. Var það látið liggja við beitarhús (hagahús), er oft voru jötulaus, og fénu „gefið á gadd“, þá sjaldan því var gefið. Þessi beitarhús eru mjög víða lögð niður, en í þeirra stað komin innigjafahús heima við bæinn“.

Jónas Jónsson frá Hrafnagili lýsir beitarhúsamanninum í bók sinni „Íslenskir þjóðhættir“ frá árinu 1961: „“Sauði höfðu menn víða og gerðu þá gamla, 5 til 6 vetra. Sú trú var almenn, að þeir skærust betur á ójöfnu árunum en þeim jöfnu – þrevetrir og fimmvetra en fjögra vetra eða sex.

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – beitarhús.

Víða voru beitarhús, og það sumsstaðar langt frá bæjum; þurfti þá beitarhúasmaðurinn að fara af stað fyrir dag að láta féð út, ef gott var og næg jörð, en gefa því fyrst, ef lítið var um jörð. Svo létu þeir út og stóðu yfir því, ef viðlit var veðurs vegna, og var það kaldstætt verk í harðindum. En víða áttu þeir skinnhempur með ullinni innan á til þess að standa yfir í og duglegar hettur yfir, þykkar og hlýjar; sumir höfðu hattgarm yfir hettunni, og oftast voru menn í skinnleistunum við það starf. Ef svo var kalt og illt, að féð fór að halfa uppi fótunum fyrir kulda, ráku þeir það dálítinn sprett til, ef hægt var. Ef fanndýpi var mikið, svo að tæplega var krafsturfært, höfðu þeir reku litla með sér og mokuðu oft ofan af, því til léttis.

Vatnsendaheiði

Vatnsendaheiði – beitarhús.

Í rökkri byrgðu menn svo féð og héldu heim á vökunni. Oft komust þeir í hann krappan í hríðum og dimmviðrum, en harðneskjan var mikil, og vaninn gaf listina og gerðu menn einbeitta og örugga að rata“.

Bjarni F. Einarsson skrifaði „Um fornleifaskráningu á Íslandi, upphaf og ástæður“ í Sveitarstjórnarmál árið1996: „Ef við tökum sem dæmi fomleifar eins og beitarhús, þar sem kindur voru hafðar yfir veturinn og þeirn beitt á landið (kjarrið eða sinuna), þá eru beitarhúsin leifar ákveðinna búskaparhátta sem eru löngu horfnir.

Húsatún

Húsatún – beitarhús.

Þessum húsum var gjaman komið fyrir nálægt landamerkjum á milli bæja svo að kindurnar gætu skroppið yfir til nágrannans og náð þar í eina og aðra tuggu svona rétt til að létta bónda sínum byrðina. Því eru beitarhús jafnframt nokkurs konar vitnisburður um tilfinningu manna gagnvart lögunum og kannski eilítið hvers gagnvart öðrum.
Þegar skipuleggja á eitthvert svæði eða jarðrask er í vændum vegna húsbygginga, vegagerðar o.s.frv. er nauðsynlegt að viðkomandi aðilar séu meðvitaðir um þær minjar sem kunna að vera á svæðinu.

Suður-Reykir

Suður-Reykir – beitarhús.

Til að svo megi vera þarf fornleifaskráning að hafa farið fram og niðurstaða þeirrar skráningar verður einnig að vera aðgengileg þeim sem hennar kunna að þurfa við. Án þessarar skráningar er minjavarslan einfaldlega máttlausari en ella í ráðgjöf sinni til einstakra aðila, svo sem skipulagsyfirvalda, framkvæmdaraðila ýmiss konar og jafnvel einkaaðila.
Fyrsta vinnuregla niinjavörslunnar í þessum efnum er að allar fornleifar beri að varðveita, enda er það tekið fram í lögum. Þegar því verður hins vegar ekki við komið er það minjavarslan ein sem ákvarðar hvað skuli gera, eða hversu ítarleg rannsókn þurft að vera eigi slík að fara fram að áliti minjavörslunnar“.

Jónatan Garðarson fjallaði um „Selja- og beitarhúsatóftir í lögsögu Garðabæjar“ á vef Hraunavina árið 2010:

Straumssel

Straumssel.

„Selin voru stór þáttur í bændasamfélaginu á Íslandi frá fyrstu tíð og virðist sem selvenjur hafi að mestu flust hingað til lands frá Noregi. Selstöður voru einnig þekktar víðsvegar í mið og suður Evrópu, þannig að seljabúskapur var greinilega viðtekin venja um aldir. Hér á landi þróaðist seljabúskapurinn með álíka hætti og á norðurlöndum og átti drjúgan þátt í að beitarstýring var með allgóðu móti lengi vel, þó svo að það hafi ekki verið einhlítt. Á nokkrum stöðum voru byggð beitarhús þar sem áður voru sel en sum beitarhúsanna voru reist þar sem haglendi var gott, stundum í námunda við gamla fjárhella eða sauðaskjól.

Setbergssel

Setbergs- og Hamarkotssel. Helgafell fjær.

Landslag í kringum selin er keimlíkt og hægt að gera sér nokkra grein fyrir því hvernig landið var umhorfs á meðan það var nýtt fyrir seljabúskap. Talið er að selfarir hafi að mestu lagst af í hreppnum um eða eftir 1865, sem er ekki alveg öruggt því sagnir hafa verið á kreiki um að fært hafi verið frá fram undir 1910-20 á bæjum í Hraunum og haft í seli á sumrin þó svo að það hafi verið í mun smærri stíl en áður tíðkaðist.
Finnsstaðir nefnast rústir tvískiptra beitarhúsa í hraunbrúninni undir Hlíðarhorni Vífisstaðahlíðar skammt suður af Vífilsstöðum.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – beitarhús.

Björn Konráðsson ráðsmaður á Vífilsstöðum taldi að þarna hefði verið býli og peningshús, sem var seinna breytt í beitarhús. Húsatóftin stendur skammt frá mýrlendinu suðvestan Vífilsstaðalækjar eins og Hraunsholtslækur nefnist þar sem hann rennur úr Vífilsstaðavatni í gegnum land Vífilsstaða. Göngustígur liggur þétt við Finnsstaðatóftina og þar er bekkur til að hvíla lúin bein.

Setberg var stórbýli á sínum tíma og eru þrennar fjárhúsa- og beitarhúsatóftir uppistandandi sem áhugavert er að líta á. Sú sem er næst Setbergshverfinu er Svínholtsmegin á Norðlingahálsi í jaðri Oddsmýrardalstúnsins rétt handan við Vífilsstaðaveginn.

Oddsmýri

Oddsmýri – beitarhús.

Oddsmýrarfjárhús var notað vel fram yfir miðja 20. öldina. Gráhellubeitarhús stóð vestan við hraundranginn Gráhellu í Gráhelluhrauni. Þetta var ekki mjög stórt beitarhús og sennilega verið notað sem sauðakofi þegar þeim var haldið á vetrarbeit í hrauninu. Veggirnir standa enn og hægt að ganga inn í tóftina sem er án þekju. Beitarhúsið er stærst að ummáli en það lét Jóhannes Reykdal reisa í hæðarslakka Setbergshlíðinni mitt á milli Sandahlíðar og Þverhlíðar.

Oddsmýri

Oddsmýri – beitarhús.

Þar má enn sjá vegghleðslur úr holtagrjóti og hefur húsið átt að hýsa vel yfir 100 fjár. Umhverfis húsatóftina var Húsatún sem sker sig rækilega úr umhverfinu.“

Hér á eftir er fjallað stuttlega um nokkur framangreindra beitarhúsa. Upplýsingarnar eru m.a. fengnar úr opinberum fornleifaskráningum. Hafa ber í huga að skráningarnar eru misgóðar eða áreiðanlegar. Á meðan vel er vandað til sumra þeirra virðist annað hvort kastað til höndunum við aðrar eða þekking skráningaraðila hafi verið takmörkuð.

Vatnsendaheiði – Beitarhús

Vatnsendaheiði

Vatnsendaheiði – beitarhús.

10×14 m (N – S). Veggir úr grjóti, 1- 1,8 m breiðir og 0,3-0,6 m háir. Þrjú hólf eru á rústinni (A-C) og eru dyr á þeim öllum til austurs. Í hólfi C er garður eftir því endilöngu og áberandi stór og ferhyrndur steinn fyrir endanum. Garðlög eru víða greinileg, en rústin er farin að falla talsvert. Kampsteinar all áberandi. Gólf rústarinnar eru vel gróin og nánasta umhverfi einnig. Þar fyrir utan er talsver!ur uppblástur. Um 60 m vestan við rústina, neðar í brekkunni, er slóði sem gæti verið gamall. Hann var ekki skráður.

Rjúpnadalaháls – Beitarhús

Fífuhvammur

Rjúpnadalshlíð – beitarhús.

8,5×14 m stórt. Veggir úr grjóti og torfi, 1,5-2,5 m breiðir og 03-0,7 m háir. Þrjú hólf eru á rústinni. Í vestasta hólfinu mót NV, á austasta hólfinu mót NA og á syðsta hólfinu eru dyr inn í austasta hólfið. Syðsta hólfið er hlaða. Víða sést í garðlög að innanverðu. Rústin er gróin grasi og mosa.

Norðan húsa nr. 76-78 við Austurkór í Rjúpnadalshlíð í Kópavogi er tóft beitarhúss frá Fífuhvammi (Hvammkoti). Við tóftina er skilti. Á því má lesa eftirfarandi:
„Minjar um eldri byggð í landi Kópavogs er víða að finna. Helstar sem enn eru greinilegar ber kannski að nefna rústir gamla bæjarins í Digranesi og tóftirnar á þingstaðnum við ósa Kópavogslækjarins.

Fífuhvammur

Skilti við beitarhús á Rjúpnadalshlíð.

En víða eru merki um hversdagslíf Kópavogsbúa fyrr á öldum þótt ekki beri mikið á þeim. Eitt af þeim er þessi tóft hér í Rjúpnadalshlíð.

Tóftin er um 10×15 metrar og er innan landamerkja Fífuhvamms. Svo heitir jörðin frá árinu 1891, áður hét hún Hvammkot. Um þessa tóft hafa engar ritheimildir fundist. Fólkið sem gerði hleðsluna og stafaði hér er og verður því miður nafnlaust og ástæður hennar á huldu.

En þótt ekki finnist heimildir um þennan stað hindrar það okkur ekki við að velta vöngum yfir tilgangi mannvirkjanna. Í seljum var búfénaður haldinn á sumrin í bithaga, þar var mjólkað og mjólkin unnin. Oft voru þrjú hús í seljum, búið í einu, mjólkin geymd í öðru og það þriðja eldhús. En þessi tóft er ekki nema í rétt tæplega tveggja kílómetra fjarlægð frá þeim stað sem bæjarhúsin í Hvammkoti stóðu (þar er nú bílastæði við Melalid 8 og 10).

Fífuhvammur

Rjúpnadalshlíð – beitarhús.

Um selstöður segir í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, en þeir ferðuðust um landið á árunum 1752-1757, að sel séu oft í tveggja mílna fjarlægð eða lengra frá bæjum. Ein dönsk míla var rúmlega sjö og hálfur kílómetri og því er þesssi tóft of nálægt bænum til að sennilegt megi telja að hér sé um sel að ræða.
Líklegra er að þetta hafi verið kvíar frá Hvammkoti. Kvíar voru réttir fyrir ær sem lömbin höfðu verið færð frá. Þegar fráfærurnar höfðu borið um vorið voru lömbin alin við heimajörðina en ærnar mjólkaðar í kvíum.

Fífuhvammur

Rjúpnadalshlíð – beitarhús.

Vegna nálægðarinnar við bæjarhúsin og stærðar tóftarinnar verður það að teljast sennileg skýring á tilgangi þessara húsa.“

Rétt er að benda á að tóftirnar bera þess merki að þarna hafi fyrrum verið beitarhús með heimkumli að baki.
Bjarni F. Einarsson skráði minjarnar sem „beitarhús“ í endurskoðaðri Fornleifaskrá Kópavogs 2020.

Vatnsendahæð – Beitarhús

Vatnsendahæð

Vatnsendahæð – beitarhús.

12×14 m (NV-SA). Veggir úr grjóti (og torfi), 1-2 m breiðir og 0,3-0,7 m háir (utanmál). Fimm hólf eru á rústinni (A-E), en upprunalega hafa þau aðeins verið þrjú (A/B, C/D og E). Dyr eru á nær öllum hólfum til NNV og sennilega hafa verið dyr á milli E og hinna hólfanna, en hólf E hefur verið hlaða. Gólf í hólfi E er (mjög) niðurgrafið. Garðlög eru víða greinileg að innanverðu, sérstaklega í hólfi E, sem er S langveggur. Þar er veggurinn 1,7 m hár. Garðar (jötur) eru tveir í rústinni og er steypa ofan á þeim báðum. Við N enda þess eysri er steypt baðkar. Rústin er vel gróin. Einstaka fúin spýta sést í rústinni. Rústabrot gætu leynst um 10 m NV af rústinni.

Beitarhúsahæð – Beitarhús

Elliðavatn

Beitarhúsahæð – beitarhús.

Húsin (frá Elliðavatni) eru um 15 x 14 m (NV – SA). Veggir úr grjóti um 1,0 – 2,0 m á breidd og 0,3 – 1,0 m á hæð. Fornleifarnar samanstanda af 4 hólfum (A, B, C og D). Dyr eru á hólfi A, B og C í NV. Á hólfi D eru dyr inn í hólf B og C. Hleðslur eru mjög greinilegar. Í hólfi A, B og C er hlaðinn garði eftir miðju gólfi um 0,6 m á breidd og 0,2 – 0,4 m á hæð. Gólf eru niðurgrafin, sérlega í hólfi A. NA – hornið á hólfi D er hrunið.

Grísanes – Beitarhús

Grísanes

Grísanes – beitarhús.

Landareign: Hvaleyri. Aldur: 1550-1900. Lengd: 14.6m. Breidd: 13.1m. Vegghæð: 0 – 0.7m. Breidd veggja: 2.8. Húsið er neðst í grýttri brekku vestan undir Grísanesi. Tóftin er grjóthlaðin og opin í vestur. Fóðurbekkir meðfram langveggjum og í miðju. Tóftin er töluvert sigin, mótar fyrir grunni við inngang sem gefur til kynna að þar hafi verið timburþil. Tóftin er í mikilli hættu vegna framkvæmda Hauka á svæðinu og er hún innan áhrifasvæðis framkvæmdanna, þ.e. innan 15m.

Húsatún – Beitarhús

Húsatún

Húsatún – beitarhús.

Húsatún er á vestanverðri Setbergshlíð. Það er um 2,9 km SA af bæ og um 930 m ASA af Gráhellu. Í kringum beitarhúsið er melur og vex á honum lyng á stangli, en fjær er kjarrgróður. Tóftin er algróin þykkri sinu að innan og einnig er smá grasblettur fast vestan við tóftina,
gróinn þykkri sinu. Beitarhúsið er hlaðið úr grágrýti og virðist hleðslan vera nokkuð vönduð þó hún sé nú tilgengin á stórum hluta. Mest hleðsluhæð er um 1,5 m, á norðurvegg einna austast og eru þar 5-6 umför. Grjótið í hleðslunni er af öllum stærðum, en mest er þó af miðlungs og stóru grjóti. Utan með grjóthleðslunni er sigin torfhleðsla, um 1 m breið og 0,5 m há. Beitarhúsið er um 17 x 11 m að stærð A-V og er innanmál um 14 x 8 m. Vestur hlið tóftarinnar er að mestu opin og hefur þar að líkindum verið timburþil fyrir.

Finnsstekkur/Finnsstaðir – Stekkur/Beitarhús

Finnsstekkur

Finnsstekkur/Finnsstaðir – beitarhús.

Í örnefnaskrá segir: ,,Finnsstekkur: Stekkur var þarna í eina tíð við voginn.“ Finnsstekkur er um 1 km austnorðaustur frá Vífilsstaðaspítala). Hann er rétt norðan við veginn að Elliðavatni, undir „suðvestur horni“ Smalaholts. Reiðvegur liggur hjá tóftinni. Á grasi- og lyngi grónum hjalla við brekkurætur. Tóftin er um 14×6 m stór. Hún skiptist í tvö hólf, rétt og lambakró. Er lambakróin byggð við réttina að suðaustanverðu, bæði hólfin norðvestur-suðaustur. Ekki eru greinilegar dyr á milli hólfanna. Dyr eru hins vegar allgreinilegar á norðvestur enda réttarinnar hólfsins. Réttin er um 11×6 m að stærð og lambakróin um 4x3m. Hleðsluhæð er mest um 1 m. Hleðslur eru yfirleitt grónar þótt sjáist í hleðslugrjót hér og þar.

Vífilsstaðir – Beitarhús

Víðistaðir

Vífilstaðir – beitarhús.

Tóftin, sem líkast til er af beitarhúsi, er fast austan við göngustíg sem liggur N-S milli skógar og hrauns. Gras, mosa- og skógivaxinn mói. Birkihríslur vaxa inni í tóftinni. Tóftin er 12 m löng, 5 m breið og snýr N-S. Veggjahæð er 0,6-0,8 m en breidd 1-1,5 m. Tóftin er eitt hólf og inngangur er ekki greinanlegur. Engar grjóthleðslur eru sjáanlegar í tóftinni og er hún algróin grasi og mosa.

Vífilsstaðahlíð – Beitarhús

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir/Heiðmörk – beitarhús.

Í örnefnaskrá segir: ,,Vífilsstaðabeitarhús: Í Hraunbrúninni er fjárhústótt, jötustallar.“ Tóftin er um 280 m SSA af Sauðahellinum nyrðri og rúmlega 50 m SV við veg undir Vífilsstaðahlíð. Beitarhúsið er um 2,5 km SSA af bæ. Rúmlega 3 m austur af tóftinni er rúst fjárborgar og um 10 m vestan við er garðbrot. Umhverfis tóftina er úfið mosavaxið hraun, en fyrir framan tóftina og fjárborgina er hraunið vel grasivaxið á smá bletti, sem er eflaust leyfar túnbleðils. Tóftin er tvö hólf, hið stærra er austanmegin og er að líkindum fjárhús en hið minna kann að vera hlaða.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir/Heiðmörk – beitarhús.

Hún er hlaðin úr þurri hraungrýtishleðslu, úr hraunhellum sem sumar hverjar kunna að hafa verið klappaðar til. Utanmál tóftarinnar er 10,5 x 7,5 og snýr hún N-S. Hleðsluhæð er mest um 1,5 m, en víðast kringum 1 m og mesti fjöldi umfara er 7-8. Tóftin er gróin mosa, grasi og lyngi og er austurveggur mest yfirgróinn. Óvíst er hvort veggirnir hafi verið einangraðir að utan með torfi.

Urriðakotshraun – Sauðahús/Beitarhús

Urriðakot

Urriðakotshraun – sauðahús/beitarhús.

„Áberandi hóll er í hrauninu, sem heitir Einbúi. Suðaustur af einbúa eru rústir beitarhúss, sem byggt var fyrir minni heimildarmanns“, segir í örnefnaskrá SP. „Sauðahúsið: Tóft þessi er eftir sauðahús, sem Guðmundur bóndi Jónsson í Urriðakoti byggði,“ segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Beitarhúsið er um 130 m ASA af Réttinni gömlu, en mannvirkin eru sitthvoru megin við hraunkargann sem myndar
vesturbrún Flatahrauns. Beitarhúsið stendur við úfið hraun að sunnan og vestan, en norðan við er gamall algróinn túnblettur, um 20×10 m N-S. Um 20-30 m austan við er malarborinn göngustígur sem hlykkjast gegnum hraunið frá N-S.

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun – beitarhús – Kjarval.

Tóftin er eitt hólf sem opnast til norðurs, að gamla túnbleðlinum og er 7×5 m að utanmáli N-S. Hún er þurrhlaðin úr miðlungs- og stóru hraungrýti, flest tilklappað í múrsteinslagaða kubba og
hleðsluhæð er um 1,4 m. Hleðslan í tóftinni er vönduð en er nokkuð tilgengin. Utan með veggjunum að neðan, er pakkað að grjóthleðslunni með torfi.

Urriðakotshraun – Beitarhús

Urriðakotshraun

Urriðakotshraun – beitarhús.

„Austan við Kúadali er Fjárhústóftin syðri. Það var upphaflega reist sem Sauðahús“, segir í örnefnaskrá GS. „Nokkru norðar en Skotbyrgið er rúst gamals fjárhúss við allstóran klett“, segir í Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi. Fjárhústóftin syðri er um 470 m NV af Selgjárhelli, skammt frá öðru háspennumastri frá Heiðmerkurvegi. Fjárhústóftin er uppi á hárri mosa- og grasigróinni hæð í hrauninu. Tóftin er hlaðin uppvið náttúrulegt bjarg, sem myndar hluta suðurveggjar hennar. Innanmál tóftarinnar er 6×2,5 m A-V og dyr eru á vesturvegg. Veggirnir eru um 0,8 á hæð og um 1-2 m á breidd. Nokkuð hefur hrunið úr hraunhleðslum veggjanna, sem eru grónar mosa, grasi og lyngi. Gluggi er hlaðinn í suðurvegg tóftarinnar.

Gráhelluhraun – Beitarhús

Gráhella

Gráhella – beitarhús.

„Sel. Byggt norðan í hraunkletti, sem nefnist Gráhella í Gráhelluhrauni. … Gráhella er merkt á „uppdrátt Íslands“, geodætisk Institut, blað 27.“ Selið er á mörkum Setbergs og Hamarskots og er fast austan í skógarlundi sem er í Gráhelluhrauni. Það er um 930 m VNV af beitarhúsatóft sem stendur í Húsatúni. Selið er um 2.2 km SSA af bæjarstæði Setbergs. Bæði í kringum og innan tóftarinnar og garðlagsins er grasi gróið, en fjær er mosi og lyng. Mannvirkin eru í úfnu hrauni og vestur af er skógræktarsvæði í landi Hafnarfjarðar þar sem eru reiðstígar nýttir af eigendum nærliggjandi hesthúsa.

Gráhella

Gráhella – beitarhús.

Mannvirkið er hlaðið upp að klettinum Gráhellu, sem myndar suðurvegg þess, og samanstendur af einni tóft og hlöðnum grjótgarði fast austan við hana. Tóftin er að utanmáli um 9×6 m, snýr N-S og að innanmáli 7×2,5 m. Dyr vísa til norðurs. Veggir hennar eru hlaðnir úr torfi og grjóti og eru grjóthleðslurnar að innanverðu. Veggirnir eru milli 1,5 og 2 m breiðir, um 1,2 m háir og samanstanda af 5-6 umförum af meðalstóru hraungrýti, sem er nokkuð fallega hlaðið. Lítill skúti gengur suður úr enda tóftarinnar inn í Gráhellu, um 2 m djúpur, 4 m breiður og um 1 m á hæð. Bogadregið garðlag úr hraungrýti gengur frá norðausturhorni tóftarinnar og sveigir til suðurs að Gráhellu. Grjóthleðslan í gerðinu er nokkuð tilgengin, mest 2 m breið og 0,5-1 m há. Innanmál gerðisins er um 8×8 m og myndar tóftin vesturvegg en Gráhella
suðurvegg. Garðurinn hefur mögulega verið aðhald fyrir sauðfé eða heystæði.

Húshöfði – Beitarhús

Beitarhúsaháls

Beitarhúsaháls/Húshöfði – beitarhús.

Fornleifaskrá Hafnarfjarðar IX, Kaldársel og nágrenni, 2021, bls. 51. Hlutverk: Beitarhús. Aldur: 1900+. Lengd: 8.5m. Breidd: 7.7m. Vegghæð: 0.5 – 1.2m. Breidd veggja: 1.1m. Í litlu rjóðri umkringt háum grenitrjám, um 160m austan við Hvaleyrarvatn. Útihús, grjóthlaðið og grasivaxið. Vel stæðilegir veggir og inngangur í SV horni, einhverskonar hleðsla í innanverðu NV horni. Liggur smá garðbútur í vestur frá NV horni. Veggjahæð er frá 0.5 – 1.2m og veggjabreidd er að jafnaði um 1.1m. Búið er að gera eldstæði í miðri tóftinni úr grjóti úr henni.

Litlahraun – Beitarhús

Litlahraun

Litlahraun – beitarhús.

Hlutverk: Beitarhús. Aldur: 1550 – 1900. Lengd: 15.2m. Breidd: 5.6m. Vegghæð: 0.4 – 1.1m. Breidd veggja: 1m. Í hraunjaðri undir klettum á grónu svæði – uppblásið í kring. Um 1.1 km sunnan við Suðurstrandaveg og um 350m vestan við landamerki Hafnarfjarðar og Grindavíkur.
Beitarhús úr torfi og grjóti, grasi vaxið. Inngangur í suður, aðeins hrunið inn í hann. Tóftin sjálf er um 15m löng og 5m breið. Tóftin er hlaðin upp við kletta og rúmgóður skúti er í NA horni hennar sem hefur verið nýttur. Búið er að hlaða undir girðingu sem liggur yfir tóftina miðja (ekki mælt). Veggjahæð er frá 0.4 – 1.1m og veggjabreidd er að jafnaði um 1m.

Krýsuvíkurheiði; Jónsbúð – Beitarhús.

Jónsbúð

Jónsbúð – beitarhús.

Hlutverk: Beitarhús. Aldur: 1550 – 1900. Lengd: 14.8m. Breidd: 7.1m. Vegghæð: 0.5 – 1.1m. Breidd veggja: 1.3m. Á grasivöxnum bakka á annars uppblásnum mel, um 500m sunnan við Suðurstrandaveg og um 430m austan við Eystri-læk. Beitarhús úr torfi og grjóti. Inngangur í suður, hrunið inn í hann. Tóftin er um 15m löng og um 7m breið. Veggjahæð er frá 0.5 – 1.1m og veggjabreidd er að jafnaði um 1.3m.

Heimildir m.a.:
-Búnaðarrit, 3. tbl. 01.08.1916, beitarhús, bls. 166.
-Höldur, 01.01.1861, Búnað- og verkaskipun í lands- og sveitarjörðum, Halldór Þorgrímsson, bls. 81-82.
-Skagfirðingabók, 1. tbl. 01.01.1985, Viðurværi – Lifnaðarhættir Skagfirðinga á 19. öld, Eiríkur Eiríksson frá Skatastöðum, bls. 70.
-Tímarit kaupfjelaga og samvinnufjelaga, 1. tbl. 01.03. 1908, Sauðfjárverslunin, bls. 30.
-Lögfræðingur, 1. tbl. 01.01.1897, Ágangur búfjár. Samið hefur Páll Briem, bls. 18.
-Freyr, 4. tbl. 01.04.1904, Að beita sauðfé, Björn Bjarnarson í Gröf, bls. 36.
-Íslenskir þjóðhættir, Jónas Jónsson frá Hrafnagili, Reykjavík 1961, bls. 100-101.
-Sveitarstjórnarmál, 2. tbl. 01.06.1996, Um fornleifaskráningu á Íslandi, upphaf og ástæður, Bjarni F. Einarsson, bls. 114.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Beitarh%C3%BAs
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=63412
-https://skraning.minjastofnun.is/Verkefni_2332.pdf
-https://www.hraunavinir.net/seljatoftir-i-gar%C3%B0ab%C3%A6jarlandi/
-https://www.kopavogur.is/static/extras/files/20200512-0518_fornleifaskra-kopavogs_lok-compressed-1420.pdf
-https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-VIII-A%CC%81sland.pdf
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 33.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 34.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 48.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 56.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 65.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 66.
-Fornleifaskráning í Garðabæ, Fornleifastofnun Íslands 2009, bls. 67.
-Fornleifaskrá Reykjavík – Bjarni F. Friðriksson 1995.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar VI III – Ásland, 2021, bls. 55.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XI I – Krýsuvík, 2021, bls. 98.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar XI I – Krýsuvík, 2021, bls. 104.

Beitarhús

Beitarhús.

Fífuhvammur

Norðan húsa nr. 76-78 við Austurkór í Rjúpnadalshlíð í Kópavogi er tóft beitarhúss frá Fífuhvammi (Hvammkoti). Við tóftina er skilti. Á því má lesa eftirfarandi:

Fífuhvammur

Skilti við beitarhús á Rjúpnadalshlíð.

„Minjar um eldri byggð í landi Kópavogs er víða að finna. Helstar sem enn eru greinilegar ber kannski að nefna rústir gamla bæjarins í Digranesi og tóftirnar á þingstaðnum við ósa Kópavogslækjarins.
En víða eru merki um hversdagslíf Kópavogsbúa fyrr á öldum þótt ekki beri mikið á þeim. Eitt af þeim er þessi tóft hér í Rjúpnadalshlíð.

Tóftin er um 10×15 metrar og er innan landamerkja Fífuhvamms. Svo heitir jörðin frá árinu 1891, áður hét hún Hvammkot. Um þessa tóft hafa engar ritheimildir fundist. Fólkið sem gerði hleðsluna og stafaði hér er og verður því miður nafnlaust og ástæður hennar á huldu.

En þótt ekki finnist heimildir um þennan stað hindrar það okkur ekki við að velta vöngum yfir tilgangi mannvirkjanna.

Fífuhvammur

Rjúpnadalshlíð – tóft.

Í seljum var búfénaður haldinn á sumrin í bithaga, þar var mjólkað og mjólkin unnin. Oft voru þrjú hús í seljum, búið í einu, mjólkin geymd í öðru og það þriðja eldhús. En þessi tóft er ekki nema í rétt tæplega tveggja kílómetra fjarlægð frá þeim stað sem bæjarhúsin í Hvammkoti stóðu (þar er nú bílastæði við Melalid 8 og 10). Um selstöður segir í ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, en þeir ferðuðust um landið á árunum 1752-1757, að sel séu oft í tveggja mílna fjarlægð eða lengra frá bæjum. Ein dönsk míla var rúmlega sjö og hálfur kílómetri og því er þesssi tóft of nálægt bænum til að sennilegt megi telja að hér sé um sel að ræða.

Fífuhvammur

Rjúpnadalshlíð – tóft.

Líklegra er að þetta hafi verið kvíar frá Hvammkoti. Kvíar voru réttir fyrir ær sem lömbin höfðu verið færð frá. Þegar fráfærurnar höfðu borið um vorið voru lömbin alin við heimajörðina en ærnar mjólkaðar í kvíum. Vegna nálægðarinnar við bæjarhúsin og stærðar tóftarinnar verður það að teljast sennileg skýring á tilgangi þessara húsa.“

Rétt er að benda á að tóftirnar bera þess greinileg merki að þarna hafi fyrrum verið beitarhús með heimkuml að baki. Bjarni F. Einarsson skráði minjarnar sem „beitarhús“ í endurskoðaðri Fornleifaskrá Kópavogs 2020.

Fífuhvammur

Rjúpnadalshlíð – tóft.

Selalda

Í Gráskinnu segir af “Tyrkjum á leið vestur með landi, utarlega á móts við Krýsuvíkurberg, í svonefndri Hælsvík. Þar upp af er stígur, nefndur Ræningjastígur, en nokkru vestar eru seltættur gamlar“.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Ræningjastígur.

Tyrkir lágu í logni á víkinni. Þrír af þeim drápu tvo kvenmenn, er þeir gengu á land, en þær voru í selinu. En á meðan þetta gerðist kom smali frá Krýsuvík með féð og tóku þá þrír af Tyrkjunum á rás á eftir honum og eltu hann heim á tún í Krýsuvík, en þegar þangað kom, komu heimamenn á móts við smalann og drápu Tyrkjana þrjá við svonefndan Ræningjahól í Krýsuvíkurtúni, sem hefur nafn sitt af þessu. Þrjár þúfur austanvert við hólinn í túninu er kallaður Ræningjaleiði og eru Tyrkir þar heygðir. Af Hælisvík fóru Tyrkir til Grindavíkur, samanber Tyrkjaránssögu Björns á Skarðsá. Öll sjást örnefnin enn í dag”. Frásögn þessari tengjast síðan frásagnir af Séra Eiríki og viðureign hans við Tyrkina umrætt sinn þar sem hann atti þeim hverjum gegn öðrum uns þeir lágu dauðir eftir.

Krýsuvíkursel

Tóftir Krýsuvíkursels.

Byrjað var á því að skoða selið ofan við Krýsuvíkurbjarg austast í Selöldu, skammt frá tóftum bæjarins Eyri. Enn má sjá tóftir þess norðan og austan við bæjartóftirnar. Ræningjastígurinn upp bergið var fær þangað til fyrir skömmu að brotnaði neðst úr honum. Gengið var upp heiðina með viðkomu í Arnarfellsréttinni. Dysjarnar sjást utan í nefndum hól sunnan Krýsuvíkurkirkju. Sunnan við hann eru tóftir Suðurkots.
Gangan tók 2 klst og 12 mín í frábæru veðri.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg (Heiðnaberg).

Brim

Þann 24. mars 1916 varð mörgum Grindvíkingum eftirminnilegur. Þann dag réru öll skip, 24 að tölu, til fiskjar, flest með 11 mönnum á.

Kútter Esther

Guðbjartur Ólafsson, skipstjóri.

Grindvíkingar kölluðu fleytur sínar skip. Flest skipin voru tírónir áttæringar, þ.e. þar var búið að bæta við þóftu á skipið og gátu þá tíu menn setið undir árum og formaurinn sat aftur á skut og stýrði skipinu. Þarna væru líka sexæringar og tólfæringar.
Þegar skammt var liðið morguns brast á ofasveður af norðri líkt og hendi væri veifað. Með veðrið beint í fangið tóku menn að berjast til lands en flest voru skipin 4-6 sjómílur undan landi. Fæstum tókst að lenda á réttum stað, en björguðust þó upp í Víkurnar vestan við byggðina og víðar. Flest skipin lentu heil eftir nokkra hragninga en nokkur brotnuðu við landtöku án þess að menn sakaði.

Fjögur skip sem dýpst voru náðu ekki landi um sama leyti og önnur. Var því óttast um afdrif þeirra. En hjálpin var nær en menn grunaði því innan skamms höfðu áhafnirnar fjórar, 38 manns, bjargast um borð í kútterinn Esther frá Reykjavík. Esther hafði leitað vars í Grindavíkursjó á leið sinni fyrir Reykjanes. Þegar sjóhraktir Grindvíkingar voru komnir um borð í Esther voru samtals 65 sjómenn um borð og því þröng á þingi. Esther var þrauthlaðið af fiski svo þar var að estu á kafi í sjó á hléborða og lá undir stöðugum áföllum í ólgusjó. Um borð í kútternum voru Grindvíkingarnir í 3 sólarhringa í góðu yfirlæti þótt þröngt væri, en þá komst Esther loks inn til Grindavíkur. Voru þá heimtir úr helju þeir síðustu af hragningarmönnunum 220 af 20 bátum sem lentu í erfiðleikum þennan dag.

Kútter Esther

Kútter Esther

Kútter Esther RE 81.

Kútter Esther RE 81 er 84 brúttó rúmlestir, smíðaður 1888 af Collison, James, Grimsby; lengd 23,2 m, breidd 6.2 m og dýpt 3.4 m, keyptur til Íslands 1902. Eigandi Estherar var útgerðar- og sæmdarmaðurinn Pétur J. Þorsteinsson og skipstjórinn var hinn 27 ára gamli Guðbjartur Ólafsson. Guðbjartur var fliknur skipstjóri og gæfumaður allan sinn sómannsferil. Eftir að hann hætti til sjós var hann forseti Slysavarnarfélags Íslands frá 1940 til 1960.

Um borð í Esther er hásetaklefi með rúm fyrir 20 menn og í káetunni eru rúm fyrir 7 sjómenn.
Í dag er kútter Esther í eigu National Historic Ships UK og liggur á sjávarbotni við bryggju í Alexandra Dock, Grimsby í Bretlandi.

Sjá meira um björgunina HÉR og HÉR á vefsíðunni.

Höfundur texta: Gunnar Tómasson.
Heimild:
-Frásögn Sæmundar Tómassonar frá Járngerðarstöðum í Grindavík í Lesbók Morgunblaðsins 24. mars 1957.

Grindavík

Grindavíkurbrim.

Kútter Fríða

Laugardaginn 11. mars 1911 voru sjö opnir róðrabátar á sjó frá Grindavík. Alls voru 58 manns um borð, blómi manna í fámennu byggðarlagi. Flestir bátanna voru áttæringar en nokkrir með 10-12 í áhöfn. Veðrið í grindavík var gott þegar bátarnir fóru í róður en veðurútlit ótryggt. Því réru þeir í styttra lagi þennan dag.

Kútter Fríða RE 13

Kútter Fríða RE 13.

Á stuttum tíma gerði hið versta veður, hávaðarok og slydduhríð. Strax þótti sýnt að bátarnir myndu ekki ná landi. Líklega hefur mörgum Grindvíkingum verið órótt þennan dag enda náði aðeins einn bátur landi á meðan aðrir þurftu frá að hverfa. veðrið var orðið það slæmt að ólíklegt væri að bátarnir héldust ofansjávar. Eina von þeirra var að þeir kæmust um borð í skútu sem sást á ferð úti fyrir um það leyti sem veðrið skall á.

Skútan nefndist Kútter Fríða og var að koma af miðunum með fullfermi og var á leið til Reykjavíkur. Úti fyrir Krýsuvíkurbergi veittu skipverjar litlum báti athygli þar skammt unadn og hafi sá uppi neyðarflagg. Þegar skipstjórinn, Ólafur Ólafsson, lét beina skútuni í átt til bátsins komu fljótlega fleiri bátar í ljós. Öðru hverju hurfu bátarnir sjónum skútumanna er þeir fóru niður í bárudalina, en þess á milli mótaði fyrir þeim í slydduéljum, að því er virtist á mörkum hafs og himins.

Kútter

Kútter svipaður Fríðu.

Skipverjarnir á Fríðu röðuðu sér meðfram borðstokknum, en leggja átti skútunni að bátunum og freista þess að kippa mönnunum um borð þegar bátarnir voru á öldutöppunum og borðstokkar lágu saman. Ekki þurfti að spyrja að leikslokum þegar kippa átti mönnunum um borð. Með þessum hætti bjargaði áhöfnin á Kútter Fríðu öllum Grindvíkinganna utan eins er klemmdist á milli báts og skútunnar.
Um kvöldið sigldi Kútter Fríða inn á Járngerðarstaðarvík í Grindavík, en þá var mesti ofsinn úr veðrinu. Þar lá Fríða um nóttina en um morguninn eftir tókst að ferða skipsbrotsmennina í land og voru þá miklir fagnaðarfundir í Grindavík.
FERLIR fékk eftirfarandi ábendingu frá Bergrós Fríðu Jónasdóttir: „Svo skemmtilega vill til að Ólafur Ólafsson er langafi minn í móðurætt, og er ég nefnd í höfuðið á kútter Fríðu!“

Kútter Fríða

Líkanið af Kútter Fríðu.

Hvað er kútter?
Kútter (e. cutter) er lítið þiljuð seglskip með eitt eða tvö möstur þar sem stórseglið er, stundum gaffaltoðð, tvö framsegl og bugspjót að framan. Kútterar eru upprunir á Englandi en voru vinsælir á Íslandi frá lokum 19. aldar fram á 20. öld. Þar sem kútterar voru í notkun langt fram á vélbátaöld fengu sumir þeirra vel og stýrishús síðar á lífsleiðinni.

Kútter Fríða

Kutter Frida

Kútter Fríða ásamt Elvari Antonssyni.

Kútter Fríða RE 13 var smíðuð hjá William McCann sb Shipyard on Carrison Side í Hull árið 1884 fyrir Richard B Simpson & George Bowman í Hull. Skipið kom til Íslands árið 1897 þegar Geir Zoega kaupmaður í Reykjavík keypti skipið ásamt fjórum öðrum kútterum. Skipið sinnti ýmsum verkefnum fyrir eigendur sína á Íslandi, í Færeyjum og á Englandi til ársins 2000. Árið 1957 var sett díselvél í skipið.
Skipið var gert upp í upprunalegri mynd árið 1980 en hélt þó vélinni. Í dag er skipið í kví í Lowestoft í Englandi þar sem það bíður þess að vera gert upp.

Líkanið

Kútter Fríða

Kútter Fríða – líkan.

Líkanið, sem sjá má á meðfylgjandi myndum og er nú til sýnis í Saltfikssetrinu (Kvikunni) í Grindavík, var smíðað af Elvari Antonssyni á árunum 2019-2020 fyrir Minja- og sögufélag Grindavíkur. Líkanið er í hlutföllunum 1:25. Það er um þriggja metra langt, 2.10 metrar á hæð og um 60 sentimetrar á breidd. Þá vegur það um 60 kíló.

Styrktaraðilar
Eftirfarandi aðila styrktu smíði líkansins; Grindavíkurbær, Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur, Vísir, Besta, Einhamar Seafood og Sigmar Júlíus Eðvarðsson.

Kútter Friða - líkan

Ólafur R. Sigurðsson við líkanið af Kútter Fríðu.