ÍSOR (Íslenskar orkurannsóknir) hafa gefið úr „Jarðfræðikort af Suðvesturlandi“ í mælikvarðanum 1:100 000.
Kortið byggist á fjölmörgum eldri jarðfræðikortum. Kortin hafa verið einfölduð, endurskoðuð og nýjum upplýsingum bætt við. Elstu jarðlögin á kortinu eru rúmlega 4 milljóna ára gömul og þau yngstu eru hraun frá Reykjaneseldum 1211-1240. Alls eru á kortinu um 160 mismunandi hraun. Á kortinu er jafnframt bent á 40 áhugaverða staði og eru lýsingar af þeim að finna hér á vefnum.
Jarðfræðilega nær Reykjanesskagi austur að þrígreiningu plötuskilanna sunnan Hengils. „Reykjanesskagi er svokallað sniðrekbelti og fer gliðnunin fram í NA-SV-eldstöðvakerfum, sem eru tugir kílómetra að lengd, með misgengjum, gjám og gígaröðum.
Sniðgengisþátturinn kemur fram í nokkurra kílómetra löngum norður-suður sprungum með láréttri færslu og sprunguhólum. Þær eru á mjóu belti sem liggur eftir skaganum endilöngum. Þar verða tíðum jarðskjálftar. Þeir koma í hrinum og eru flestir litlir. Sá öflugasti hefur verið um 6 stig á Richter.
Tímabil eldgosa og gliðnunarhreyfinga annars vegar og sniðgengishreyfinga hins vegar skiptast á og standa hvor um sig í 6-8 aldir.
Síðasta gos- og gliðnunartímabili lauk um miðja 13. öld. Tímabil eldgosa eru fundin með aldursgreiningu hrauna með hjálp öskulaga og C14- aldursgreiningum, auk skráðra heimilda um gos eftir landnám. Aðeins tvö síðustu gostímabilin eru vel þekkt, það þriðja að nokkru leyti, en helst til fá hraun því tilheyrandi hafa verið aldursgreind. Eldstöðvakerfin hafa ekki verið virk samtímis heldur hefur gosvirkni á þeim flust á milli þeirra með löngum hléum á milli.
Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir.
Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi. Miðstöð þeirra ákvarðast af mestri hraunaframleiðslu í sprungugosum. Sprungusveimar eldstöðvakerfanna, með gjám og misgengjum, eru miklu lengri en gossprungureinarnar.
Þar hafa kvikuinnskot (berggangar) frá megineldstöðvunum ekki náð til yfirborðs. Í fimm af eldstöðvakerfunum er háhitasvæði. Hitagjafi þeirra eru innskot ofarlega í jarðskorpunni. Boranir á háhitasvæðunum hafa sýnt að 20-60% bergs neðan 1000-1600 m eru innskot. Súrt berg og öskjur eru ekki í eldstöðvakerfum skagans. Veik vísbending er þó um kaffærða öskju á Krýsuvíkursvæðinu, og í Hengli kemur fyrir súrt berg í megineldstöðinni, en það er norðan þrígreiningar plötuskilanna (gosbeltamótanna). Bergfræði gosbergsins í eldstöðvakerfunum spannar bilið frá pikríti til kvarsþóleiíts.
Reykjanesskagi – jarðfræði.
Brennisteinsfjallakerfið hefur verið virkast af eldstöðvakerfum skagans eftir ísöld og framleitt mest hraun, bæði að flatar- og rúmmáli. Hvert hinna þriggja gostímabila sem greind hafa verið byrjaði þar um 200-300 árum fyrr en hin komu til. Endurtaki það sig mætti ætla að Brennisteinsfjallakerfið færi að nálgast nýtt upphaf miðað við lengd undanfarinna sniðgengistímabila. Hin myndu svo fylgja eftir með löngum hléum á milli.
Básendar – Básendaflóð
Eitt mesta sjávarflóð sem orðið hefur við Íslandsstrendur, Básendaflóðið, er kennt við Básenda á Reykjanesi. Básendar var gamall verslunar- og útróðrarstaður skammt sunnan við Stafnes og þekktur frá fornu fari. Þar eru grágrýtisklappir við sjóinn og grýttar fjörur. Ströndin öll liggur fyrir opnu hafi en smávíkur og básar gera veitt bátum og smærri skipum var.
Básendaflóðið varð aðfaranótt 9. janúar 1799. Þetta var stórstraumsflóð samfara lágum loftþrýstingi og aftakaveðri af hafi en við slíkar aðstæður magnast flóðbylgjan. Á Básendum gekk hún langt á land og hreif með sér verslunarhúsin og flest önnur hús á staðnum, eyðilagði lendinguna og braut alla báta sem þar voru í naustum. Margir sluppu naumlega úr flóðinu en gömul kona drukknaði. Þá urðu einnig gríðarmikil flóð og eignatjón víða við Suður- og Vesturland allt frá Þjórsárósi til Barðastrandar.
Allmikil tóftarbrot eru á Básendum. Staðurinn er sæmilega merktur.
Í Reykjavík gekk sjór yfir nesið vestan við Lambastaðahverfið svo Seltjarnarnesið var sem eyja í hafinu. Fátítt er að slíkt gerist en átti sér þó stað 1936 í Pourquoi Pas veðrinu fræga. Bærinn Breið, sem var yst á Akranesi, gereyddist, bæði hús og tún. Talið er að 187 skip og bátar hafi eyðilagst eða stórskemmst en engin sjóslys urðu þó. Fárviðri var að suðvestri þessa nótt þannig að það var ekki einungis sjávargangurinn sem olli eyðileggingu. Kirkjurnar á Hvalsnesi og Nesi við Seltjörn fuku af grunni og brotnuðu í spón og kirkjurnar á Kirkjuvogi og Kálfatjörn stórskemmdust .
Miklar breytingar urðu víða við ströndina, sjávarkambar hurfu og nýir urðu til og grandar og eiði tóku stakkaskiptum. Erfitt er að meta flóðhæðina en þó eru ýmsar vísbendingar í tjónalýsingum. Í skýrslu um tjónið á Básendum er sagt að sjór hafi komist 164 faðma upp fyrir verslunarstaðinn og rekadrumbur hafi skolast upp á húsþak og liggi þar 4 álnum yfir jafnsléttu. Geir biskup Vídalín sem bjó á Lambastöðum á Seltjarnarnesi áleit „að 5 álnum [3 m] hefði sjór gengið hærra, þverhnýptu máli, en í öðrum stórstaumsflóðum“.
Breidd flóðsins innan við Lambastaði mældist 300 faðmar (áln 0,63 m, faðmur 1,88 m). Í Staðarsveit á Snæfellsnesi gekk sjórinn alstaðar meira en 560 m lengra á land en í eðlilegum stórstraumi og allt upp í 2800 m. Í dag eru ummerki Básendaflóðsins hvergi glögg. Þrátt fyrir það eru þetta mestu hamfarið af völdum sjávarfalla sem vitað er til að hafi orðið við Ísland á sögulegum tíma.
Pattersonvöllur – fornskeljar, 20-25.000 ára gamlar
Undir Pattersonflugvellinum sunnan við Innri-Njarðvík eru allþykk, forn, hörðnuð sjávarsetlög. Í þeim er á köflum mikið af steingerðum skeljum. Mest ber á sandmigu (smyrslingi – Mya truncata) og er hún víða í lífsstöðu. Í einstaka samloku hefur fundist steingerður skelfiskur. Aldur skeljanna er 20.000-22.000 ár og þær því lifað skömmu áður en jöklar síðasta jökulskeiðs gengu fram í fremstu stöðu fyrir um 18.000 árum. Sjávarstaða hefir verið a.m.k. 5-10 metrum ofar en nú.
Valahnúksmöl – sjávarkambur
Valahnúksmöl er 420 m langur og 80 m breiður stórgrýttur sjávarkampur (-kambur) úr vel núnum hnullungum, mestmegnis á bilinu 1-3 fet í þvermál. Hann liggur þvert um sigdæld, eða sigdal, sem markast af Valahnúk í norðri og Valbjargagjá í suðri. Þegar hásjávað er myndast lítið lón innan við kampinn.
Uppruna grjótsins í Valahnúksmöl er einkum að leita í sjávarklettum milli kampsins og Reykjanestáar. Ströndin þarna er ákaflega brimasöm og er þungi úthafsöldunnar mikill þegar hún skellur á klettunum. Ber hún skýr merki þessara átaka og er alsett básum og skútum, jafnvel gatklettum. Valahnúksmöl liggur nokkuð inn á Yngra Stampahraun, sem rann á öndverðri 13. öld, og er því yngri.
Reykjanes – sundlaugin neðst.
Vert er að benda á frumstæða sundlaug innan við kampinn gerða af vitaverði í Reykjanesvita á 3. áratug síðustu aldar. Laugin var sprengd niður í sprungu við norðanvert lónið. Hún var einungis nothæf á flóði en með aðfallinu streymir sjór um sprungur inn í lónið og hitnar.
Háleyjabunga – dyngjugígur
Háleyjabunga er lítil hraundyngja austast á Reykjanesi. Í hvirfli dyngjunnar er allstór hringlaga gígur, um 25 m djúpur.Hraunin eru úr bergtegundinni píkrít, sem er mjög auðugt af steindinni ólivín. Í handsýni má auðveldlega sjá mikið af flöskugrænum ólivíndílum. Píkrít flokkast sem frumstætt berg og er talið eiga upptök í möttli jarðar.
Mesta sjáanlega þvermál dyngjunnar er um 1 km en hún er umlukt yngri hraunum á alla kanta nema suðaustanmegin, þar sem hún liggur að sjó. Í sjávarhömrunum er auðvelt að skoða byggingu dyngjunnar og einnig sést vel hvernig yngri hraun hafa runnið upp að henni. Píkríthraun eru talin elst hrauna á Reykjanesskaga, frá því skömmu eftir að ísaldarjöklana tók að leysa.
Kerlingarbás – öskugígur og berggangar
Við Kerlingarbás, sem er grunnur vogur næst sunnan Önglabrjótsnefs, hafa skapast einstakar aðstæður til að skoða innviði eldgíga af ýmsum gerðum. Gígaraðir á vestari gosrein Reykjaness, sem kennd hefur verið við Stampa, liggja að sjó við Kerlingarbás. Þar sem gossprungurnar opnuðust í sjó hlóðust upp gjóskukeilur en gjall- og klepragígar þar sem sjór komst ekki að gosrásinni. Leifar þriggja gjóskugíga af hverfjallsgerð má sjá við ströndina. Þeir tilheyra Eldri og Yngri Stampagígaröðunum sem liggja um 4 km inn til landsins frá Kerlingarbás.
Gígur á Stampagígaröðinni.
Eldra Stampagosið varð fyrir tæpum 2000 árum síðan en það yngra á 13. öld. Gosmyndanir Stampagígaraðanna eru mest áberandi við Kerlingarbás en þó sér þar í eldri myndanir í sjávarmálinu, bæði túff og hraun.
Gígar og hraun við Kerlingarbás á Reykjanesi. Myndin er tekin frá Önglabrjótsnefi.
Norðan til í básnum er þverskorinn gjallgígur á Eldri Stampagígaröðinni. Þar má m.a. sjá bergstólpa í fjörunni sem er hluti af gosrás hans. Gígur þessi ber nafnið Kerling (kemur fram í þjóðsögum ásamt dranginum Karli).
Eftir að virkni á Eldri Stampagígaröðinni lauk tók við goshlé á Reykjanesi í um 1100 ár. Yngra Stampagosið hófst snemma á 13. öld á gossprungu sem lá um 150 m suðaustan Eldri Stampagígaraðarinnar. Í upphafi gossins hlóðust upp tvær gjóskukeilur af hverfjallsgerð við ströndina. Aldursmunur þeirra er vart meiri en nokkrir mánuðir. Gígrimar beggja gíganna náðu inn á land og eru að hluta varðveittir. Yngra Stampahraunið rann upp að gígrimunum og markar hraunbrúnin hringlaga útlínur þeirra. Við miðjan Kerlingarbás má sjá tvo þunna bergganga sem liggja upp í gegnum yngri gjóskukeiluna, í Yngra Stampahraunið. Gefst þarna gott tækifæri til að skoða tengsl hrauns við aðfærsluæðar þess. Um 150 m breið sigdæld liggur um miðjan Kerlingarbás, með skarpa brún norðan megin. Rofmislægi koma fram beggja vegna sigdældarinnar. Við Kerlingarbás má fá góða mynd af gosvirkni við mörk lands og sjávar.
Við Kerlingarbás. Á myndinni hér að ofan sést berggangur sem liggur í gegnum óharðnaða gjósku, upp í Yngra Stampahraunið.
Eldvörp – gígaröð frá 13. öld
Eldvarpahraun er eitt þeirra hrauna sem runnu í Reykjaneseldum á tímabilinu 1211-1240. Önnur hraun frá þessum eldum eru Stampahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Suðurendi Eld-varpagígaraðarinnar er við vestanvert Staðarberg, þar sem hraunið hefur runnið í sjó, en í norðri endar hún tæpa 2 km vestur af Bláa lóninu. Hún er alls um 10 km löng en nokkuð slitrótt. Mest hraunframleiðsla hefur verið í Eldvörpum, skammt sunnan miðju gígaraðarinnar. Flatarmál Eldvarpahrauns er um 20 km2. Gígarnir á Eldvarpagígaröðinni eru gjall- og klepragígar og eru sumir þeirra allstæðilegir. Hraunið er ýmist slétt helluhraun, uppbrotið helluhraun eða úfið kargahraun. Jarðhiti er í Eldvörpum sem nýttur er til orkuframleiðslu í Svartsengi.
Arnarseturshraun og Illahraun eru talin vera frá því stuttu eftir 1226, líklega nokkrum árum, en þau runnu bæði inn á Eldvarpahraun.
Sandfellsdalur – dyngjugígur
Stærstu hraunin á Reykjanesskaga eru dyngjur. Þær elstu og stærstu, hvor um sig yfir 100 km2, eru Sandfellshæð og Þráinsskjöldur. Þær mynduðust á síðjökultíma fyrir um 14.000 árum. Þá var sjávarstaða næstum 30 m lægri en nú.
Gígurinn í Sandfellshæð heitir Sandfellsdalur. Hann er næstum kringlóttur, mest 450 m yfir barminn. Í honum hefur verið hrauntjörn. Hraun úr henni hefur runnið um hellakerfi. Sums staðar hefur ollið upp úr því, t.d. þar sem röð af hraunbólum vísar til vesturs með Langhól og Berghól stærstum. Í lok gossins hefur sigið í tjörninni og hallandi spildur hangið eftir innan á barminum. Hraun hefur einnig runnið yfir gígbarminn. Næst honum er það fremur frauðkennt og þunnbeltótt en fjær eru beltin þykkri og bergið þéttara. Dyngjugos standa lengi, jafnvel í nokkur ár þau stærstu. Bergið í þeim er jafnan ólivínríkt. Um það bil 5 km breiður sigdalur gengur yfir Sandfellshæð. Jaðarmisgengið suðaustan megin skerst yfir gíginn í henni og heldur áfram norðaustur yfir Sandfell, Lágafell og Þórðarfell. Það sést ekki í um það bil 2000 ára hrauni suðvestan við gíginn en kemur aftur fram í eldri hraunum úti á Reykjanesi, svo sem Háleyjabungu.
Stampagígaröðin
Yngra Stampahraun er eitt af hraunum Reykjaneselda 1210-1240 en þá runnu fjögur hraun á Reykjanes- og Svartsengiskerfunum og neðansjávargos urðu í sjó undan Reykjanesi.
Stampagígaröðin er alls um 4 km löng og er flatarmál hraunsins 4,6 km2. Á norðurenda hennar eru tveir allstæðilegir „stamplaga“ gígar sem heita Stampar. Sunnar á gígaröðinni eru nokkrir stæðilegir gígar sem bera nöfn, s.s. Miðahóll, Eldborg dýpri og Eldborg grynnri, en allir þessir gígar voru notaðir sem mið við fiskveiðar fyrr á tímum. Að öðru leyti eru gígar Stampagígaraðarinnar lágir klepragígar og fremur lítt áberandi.
Í rituðum heimildum er getið að minnsta kosti sex gosa í sjó við Reykjanes á tímabilinu 1210-1240. Á Reykjanesi hafa fundist fjögur gjóskulög í jarðvegi sem skjóta stoðum undir þessar frásagnir.
Einnig eru þekkt fjögur hraun sem runnu á þessu tímabili, það er Yngra Stampahraun, Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Hefur þessi goshrina verið nefnd Reykjaneseldar 1210-1240. Eldarnir byrjuðu með gosi í sjó við suðvesturströnd Reykjaness. Þar hlóðust upp tveir gjóskugígar af hverfjallsgerð með um 500 metra millibili. Er drangurinn Karl hluti af gígbarmi yngri gígsins. Báðir gígarnir eru nú mikið eyddir vegna rofs en hlutar þeirra eru þó varðveittir á ströndinni. Þar má sjá allt að 20 metra þykka gjóskustabba sem vitna um tilvist gíganna. Í framhaldi af gjóskugosunum rann Yngra Stampahraunið.
Gunnuhver – hverasvæði
Gunnuhver er gufuhvera- og leirpyttaklasi. Gufu- og leirhverir stafa af suðu í jarðhitageymi. Gufan leitar upp og blandast yfirborðsvatni. Henni fylgja gastegundir. Þær gera vatnið súrt. Af því umbreytist hraungrýti og móberg í leir. Gufustreymið jókst mjög er þrýstingur lækkaði í jarðhitageyminum við vinnslu vatns og gufu úr honum. Stærsti leirhver landsins, nú með digrum suðustólpa í 20 m víðum stampi, er efst í brekkunni. Um tíma náði gosstólpinn um 10 m hæð og slettur úr honum hlóðust á barmana.
Óróasamt er á Reykjanesi af völdum jarðskjálfta. Þeir koma í hrinum en eru vægir, þeir stærstu rúmlega 5 á Richter.
Í helstu hrinunum hefur sprunga sem liggur frá Valbjargagjá til norðausturs um Gunnuhver hreyfst til, síðast fyrir um 40 árum. Við slík umbrot hefur hveravirkni aukist um tíma og efnaríkt vatn úr jarðhitageyminum náð til yfirborðs og myndað goshveri með útfellingum af hverahrúðri. Þetta voru sjóhverir. Kísilhóll er nefndur eftir kísilhellu efst á honum. Í henni eru skálar eftir kulnaða goshveri. Kulnaður bolli Hversins 1919 er um 100 m sunnar, ofan vegar. Hann var síðast virkur kringum 1970. Skammt þar suðvestan við var Geysir (Reykjanes-Geysir) virkur kringum aldamótin 1900 og framan af 20. öld. Engin merki sjást um hann nú.
Skálafell – jarðskjálfta-sprungur
Skálafell hefur hlaðist upp í nokkrum gosum á gossprungum og aldursmunur á þeim er mikill. Toppgígurinn í því er klepragígur af eldborgargerð. Hann varð til í því yngsta, líklega fyrir rúmum 3000 árum. Kringum toppgíginn eru jarðföll (skálarnar?) þar sem runnið hefur undan. Af þeim toga er einnig smáhellir suður úr toppgígnum. Elstu hraunlögin úr Skálafelli, yfir 8000 ára, sjást í misgengisstalli austan við fellið og í sjávarklettum (Krossvíkurberg). Brotstallar eru stórir í gömlu hraununum en í yngsta hrauninu rétt mótar fyrir þeim. Misgengi þessi takmarka siglægðina á Reykjanesi að austan. Tilsvarandi misgengi á móti eru vestur við Kinn og við táknræna brú yfir flekaskilin. Þar á milli eru 5 km. Á hraunsléttu kippkorn norðaustan við Skálafellsbunguna eru gömul hraun úr Skálafelli og í þeim slitróttar gjár með norð-suðlægri stefnu. Færsla á þeim er lárétt til hægri þegar horft er þvert yfir þær. Einkenni þeirra eru uppskrúfaðir sprunguhólar þar sem sprungubútarnir hliðrast til.
Hrólfsvík – hnyðlingar
Hrólfsvík er þekktur fundarstaður hnyðlinga. Hnyðlingar eru aðskotasteinar sem kvika hefur hrifið með sér í gosum. Ein gerð þeirra er úr gabbrói og svo er um hnyðlingana í Hrólfsvík. Þar eru þeir í hraunlagi, eða öllu heldur í hraunbelti, og krökkt af þeim á litlum kafla austanvert í víkinni. Ekki er vitað um upptök hraunsins. Ofan á því er sandur og möl sem best sést í lágum sjávarbakka. Áhorfsmál er hvort jökull hefur gengið yfir það. Hnyðlingarnir eru ýmist rúnnaðir eða kantaðir. Í þeim er aðallega feldspat en mikið ólivín í sumum. Þeir gætu verið úr botnfalli kvikuinnskots sem var byrjað að storkna en kvika hreif svo með sér eftir viðdvöl í neðra. Skorpan undir Reykjanesskaga er úr gosbergi og minni háttar innskotum niður á 5-6 km dýpi en þar undir innskotsbergi, fyrst berggöngum og síðan gabbrói. Vel mega gabbróhnyðlingarnir vera úr gabbrólaginu.
Festarfjall – rofin eldstöð, aðfærsluæð og berggangar
Óvenjulegt er að sjá þverskurði af móbergsfjöllum eins lýsandi um innri gerð þeirra og í Festarfjalli. Þar hefur sjávarrof verið að verki. Undirlag fjallsins er móberg og á því grágrýti. Fjallið sjálft er úr móbergsbreksíu en grágrýti í toppnum. Á skilunum er rauðagjall. Berggangur, Festi, gengur upp í gegnum undirstöðuna og móbergshluta fjallsins upp að grágrýtishettunni, greinilegur úr fjarlægð. Festarfjall er stapi að gerð, myndaður á stuttri gossprungu í jökli og Festin er aðfærsluæðin. Norðan megin hvílir móbergsbreksían í Festarfjalli á eldri og lægri stapa. Gígurinn í honum er norðan undir Festarfjalli, að hálfu grafinn undir því. Ekki verður greint úr fjarlægð hvort eldri stapinn komi fram í brimklifinu.
Festarfjall kemur við sögu í riti sem tékkneskur jarðfræðingur skrifaði um jarðfræði Reykjanesskaga og út kom árið 1943. Hann benti á að undirlagið gengi óbrotið undir fjallið sem sönnun þess að móbergsfjöll Skagans væru ekki ris-spildur. Í staðinn hélt hann fram jafngalinni kenningu um að þau væru leifar af víðáttumikilli myndun sem rofist hefði burt að mestu. Bergganginn nefnir hann ekki. Þar missti hann af réttum skilningi. Kannski hefði það rétta runnið upp fyrir honum hefði hann velt honum fyrir sér.
Vestan Selatanga – tæmd hrauntjörn
Hraunið vestan við Selatanga er úr Moshólum, sundurgröfnum gjallgígum við veginn neðst í hraunsundinu milli Móhálsa. Moshólar eru ysti parturinn af gígaröð sem nær inn fyrir Trölladyngju. Aldur hennar er um 2000 ár. Þekktasta hraunið úr henni er Afstapahraun. Veiðistöðin gamla á Selatöngum er þar sem hraunið úr Moshólum og Ögmundarhraun koma saman. Þar er dálítið var í smáviki.
Katlahraun heitir í Moshólahrauninu (ekki örnefni) þarna vestur af. Í því eru tvær stórar bungur úr helluhrauni skammt vestur af Selatöngum. Hraun hefur safnast í þær en síðan hlaupið undan fram í sjó og miðsvæðið í þeim sigið og 10-20 m hár veggur staðið eftir umhverfis. Stöku strípar standa eftir í siglægðinni. Innveggir eru ýmist hrunskriða eða húðaðir hraunbrynju, svo einnig stríparnir.
Helluhraunið í botni er ýmislega beyglað og brotið. Þessi tæmda hrauntjörn minnir á Dimmuborgir í Mývatnssveit en sá munur er að þær eru gervigígamyndun og hér vantar gjallið sem einkennir þær.
Húshólmi, Óbrennishólmi – rústir og samspil byggðar og eldgosa
Allstór óbrinnishólmi austast í Ögmundarhrauni niður undir sjó. Hólminn opnast niður í fjöru [Hólmasund]. Ögmundarhraun sem brann árið 1151 umlykur hann. Í hólmanum og kimum vestur úr honum eru mannvistarleifar sem eru eldri en hraunið. Í aðalhólmanum eru tveir fornir torfgarðar sem hraunið hefir runnið upp að og yfir. Annar þeirra var hlaðinn fyrir árið 871, er landnámsöskulagið féll, og því eitt elsta mannvirki sem fundist hefir í landinu. Í kimunum eru húsatóftir sem hraunið rann upp að og að stórum hluta yfir. Þar eru leifar af stórum bóndabæ sem hlaðinn hefir verið að hluta úr lábörðu grjóti.
Þar er einnig heilleg tóft sem talin hefur verið af kirkju. Þessi staður nefnist Forna-Krýsuvík og þar hefir Krýsuvíkurbærinn staðið frá upphafi og fram að gosi er hann hefir verið fluttur á núverandi stað.
Óbrennishólmi er í miðju Ögmundarhrauni norðvestur af Húshólma. Gengið er í hólmann frá fjallinu Lat. Þá er farinn misglöggur stígur um Ögmundarhraun sem brann árið 1151. Í Óbrennihólma er forn, hringlaga fjárborg og einnig eru þar leifar af túngarði. Þessar mannvistaleifar eru eldri en hraunið.
Ögmundarhraun við Núphlíð – gígar og hraunfossar
Ögmundarhraun myndaðist í gosi árið 1151. Þá opnaðist um 25 km löng sprunga eftir endilöngum Móhálsadal og allt norður undir Kaldársel. Í henni miðri er gígalaus kafli. Úr suðurhlutanum rann Ögmundarhraun en Kapelluhraun úr þeim nyrðri. Syðst í Vesturhálsi, þar sem heitir Núphlíð, liggur gígaröðin á bláfjallsbrúninni og falla frá gígunum hraunlænur niður þverhnípta hlíðina. Hraunið er að mestu slétt helluhraun og gígarnir eru flestir litlir.
Grænavatn, Gestsstaðavatn – sprengigígar
Í Krýsuvík er þyrping sprengigíga. Allir eru þeir líklega yfir 6000 ára. Þekktastir eru Grænavatn og Gestsstaðavatn. Í þyrpingunni eru a.m.k. fjórar gígaraðir, þrjár liggja norður-suður og ein NA-SV.Sú vestasta og elsta hefur aðallega gosið gjalli (Gestsstaðavatn) en hinar grjótmylsnu með stórgrýti í bland (Grænavatn) auk gjalls sú austasta (vikið austast í Grænavatni). Yngstar eru tvær gígaraðir sem liggja um Grænavatn. Aðalgígurinn í þeirri eldri er vestan megin í því. Þar gaus bergbrotum og bergmylsnu úr undirlaginu. Það myndar a.m.k. 10 m þykkt lag í gígbarminum sunnan megin. Úrkast þaðan hefur dreifst umhverfis og yfir nálæga gíga með því minni blokkum sem fjær dregur. Kleprahraun, morandi af gabbróhnyðlingum, er úr þeirri yngri austan megin í Grænavatni.
Grænavatn.
Efsti hluti hraunsins er ósambrætt lausagjall. Grjót úr undirlaginu er þarna með. Aldursmunur á Grænavatnsgígunum er sennilega lítill. Augun, smágígar með pollum báðum megin vegar eru á 300 m langri gígaröð með stefnu N50°A. Hún er tvískipt og partarnir standast ekki á. Sprengigígarnir raða sér í stefnu skjálftasprungna. Hraunmagn í gosunum hefur verið mjög lítið, þeim fylgdi mikið magn gabbróhnyðlinga og gossprungurnar voru stuttar. Því er líkast að gengið hafi yfir skjálftatímabil sem kom hreyfingu á storknandi kvikumassa í rótum megineldstöðvar Krýsuvíkurkerfisins. Gliðnunarsprungur hreyfðar eftir ísöld er ekki að sjá þarna nærlendis.
Seltún – háhitasvæði
Seltúnshverir kallast hveraþyrping neðst í lækjarskorningi sem margir skoða, enda við alfaraveg. Fyrir rúmri öld var þar miðstöð brennisteinsvinnslu og fyrir um hálfri öld einn helsti vettvangur borana í Krýsuvík. Þarna eru gufu- og leirhverir og heit jörð umhverfis. Nokkuð er um heiðgulan brennistein en einnig gulleit og hvít hverasölt. Þau þekkjast frá brennisteini á beisku bragði en hverfa að mestu í rigningartíð.
Fúlipollur heitir víð hveraskál austan vegarins en dautt er í honum nú. Kraumandi leirhverir eru fast við veginn aðeins norðar. Gamlir borpallar eru við lækinn vestan við göngustíginn. Borholan í öðrum þeirra reif sig upp í gos veturinn 2010 en dagar liðu og líða enn milli gosa.
Úthlaupi fyrir gosin er beint til hliðar yfir lækinn. Gufusprenging varð í annarri borholu neðst í brekkunni austan við stíginn í nóvember 1999. Hún myndaði gíg um 30 m í þvermál. Úrkastið, leir og grjót, barst inn með hlíðinni til norðausturs og gulleitur hroði situr enn á brekkunni.
Vatnið í hverunum er yfirborðsvatn. Það hitnar af gufu sem sýður upp af jarðhitageyminum undir og þéttist í því. Gastegundir, einkum brennisteinsvetni, fylgja með. Þær sýra yfirborðsvatnið og leysa bergið sundur í leir. Aðeins efstu 300 metrar jarðhitakerfisins undir Seltúnssvæðinu eru í suðu, þ.e. fylgja suðumarksferli með dýpi. Þar fyrir neðan kólnar. Það bendir til flatrennslis frá uppstreymi til hliðar.
Stóra-Eldborg – eldborg
Stóra-Eldborg og Geitahlíð.
Eldborg (Stóra-Eldborg) sunnan við Geitahlíð er dæmi um gíg af eldborgargerð. Gígarnir eru raunar tveir, báðir með eldborgarlögun. Gígar þessir eru á gossprungu með þrem smágígum milli eldborganna og Geitahlíðar. Norðan við Geitahlíð heldur gígaröðin áfram. Eldborgir myndast kringum hrauntjörn af hraunbráð sem fellur úr miðlægum gosstrók, eins og hér, eða smástrókum í tjörninni og hlaða upp kamb allt umhverfis, brattastan efst. Hér er kamburinn úr 5-10 cm þykkum hraunskeljum, líkustum hraunbelti hver og ein, blöðróttar efst en þéttari neðar. Hraun getur runnið yfir gígbarminn og svo var hér um skarð austan í móti. Hrauntraðir eru þar niður undan og sömu þunnu hraunskeljarnar í börmum þeirra.
Bálkahellir í Elborgarhbrauni.
Hraunið úr Eldborg er mjög ólivínríkt helluhraun. Það hefur runnið til sjávar fram af Krýsuvíkurbergi austast. Aldur þess er ekki þekktur en miðað við þykkan jarðveg, framburð á því og áhrif frostveðrunar á yfirborð þess gæti það verið 7000-8000 ára. Nánasta hliðstæða við Stóru-Eldborg er Búrfell ofan við Hafnarfjörð.
Sog – gígar og litskrúðug ummyndun
Sogin er slakki sunnan við Trölla- og Grænudyngju. Í Sogunum er litskrúðug háhitaummyndun og nokkrir leirhverir og gufuaugu. Skammt neðan við Sogin er merkileg gígaröð. Norðan við vegslóðann er svonefndur Sogagígur, allstór sprengigígur. Inni í honum eru tóftir af nokkrum fornum seljum. Sunnan við vegslóðann eru nokkrir minni en áberandi sprengigígar. Suður af Sogunum er Spákonuvatn og enn sunnar Grænavatn. Mikið útsýni er af egginni ofan við Sogin. Í sundinu milli Soga og Oddafells eru falleg apalhraun og gufur upp úr þeim í grennd við borholu sem þar er.
Lambafellsgjá – bólstraberg
Norðan við Eldborg við Trölladyngju er lágt, ávallt fell er nefnist Lambafell. Syðst í því eru virk háhitaaugu. Eftir fellinu er slakki eða lág brún sem opnast í hrikalegri gjá sem nefnist Lambafellsgjá. Gjáin er aðeins nokkurra metra víð og mesta dýpi er um 50 metrar. Gjáin opnast út á jafnsléttu í norðurenda fellsins. Hægt er að ganga eftir gjánni endilangri. Auðveldast er að fara upp í fellið að sunnanverðu og ganga niður gjánna. Þar eru bratt og nokkuð laust undir fæti en engin mannhætta. Í veggjum gjárinnar sést bólstraberg sem fellið er byggt úr. Gjá þessi er vafalaust að stórum hluta mynduð við umbrot á nútíma en fellið sjálft virðist aldið og hugsanlega frá næstsíðasta jökulskeiði eða jafnvel eldra.
Hrútagjá – risfláki
Við norðanverðan Sveifluháls, um 2 km vestan Vatnsskarðs, eru upptök dyngju sem heitir Hrútagjárdyngja. Hún dregur nafn sitt af gjá sem liggur umhverfis gígsvæðið. Er þarna um sérstæða myndun að ræða sem vert er að skoða. Hraunin frá Hrútagjá hafa breytt úr sér til norðurs og runnið til sjávar vestan Hafnarfjarðar, á milli Vatnsleysuvíkur og Hvaleyrarholts.
Gengið um Almenning í Hraunum.
Hraun í svonefndum Almenningi, suður af Straumsvík, eru að mestu frá Hrútagjárdyngju komin. Myndarlegir gervigígar eru í hrauninu skammt sunnan Reykjanesbrautar sem myndast hafa þegar hraunið rann yfir sjávarset. Samkvæmt gjóskulaga-rannsóknum er Hrútagjárdyngjan um 6000-6500 ára gömul og er ein af þeim yngri á Reykjanesskaganum.
Sjáanlegt flatarmál dyngjunnar er um 80 km2 og rúmmál hefur verið áætlað rúmir 3 km3. Um lágmarkstölur er að ræða en dyngjan er að stórum hluta hulin yngri hraunum.
Gígsvæði Hrútagjárdyngju er hraunslétta með gapandi gjám á þrjá vegu. Gígurinn sjálfur er óreglulegur með 10-14 m háa, bratta gígbarma. Gígurinn er opinn til suðurs og hefur hraunið aðallega runnið í þá átt. Um 10 m djúpur sigketill er skammt norðvestan aðalgígsins. Undir lok gossins hefur kvika troðist undir gígsvæðið og belgt það upp og hraunbunga (hraunfyllt kýli) myndast. Hún hefur verið allt að 30 m há.
Hrútargjárdyngja.
Ljóst er að yfirborð hraunsins hefur verið storknað er kvikan fór að lyfta því. Síðar hefur kvikan fengið útrás um hraunrásir eða slokast ofan í gosrásina og yfirborð hraunbungunnar þá sigið. Sprunga hefur myndast umhverfis gígsvæðið (vestan megin heitir hún Hrútagjá) og það tekið á sig núverandi mynd. Löngu síðar hefur gossprunga opnast á gígsvæði Hrútagjárdyngju og skilið eftir sig talsverðan hraunflekk.
Straumsvík
Straumsvík er lítil sjávarvík sem gengur inn á milli Kapelluhrauns, sem rann árið 1151, og hrauns frá Hrútagjárdyngju sem er um 6000 ára. Keflavíkurvegurinn liggur við víkurbotninn. Bærinn Straumur stendur við víkina og handan hennar er Álverið í Straumsvík. Þarna eru miklar fjörulindir sem sjást best þegar lágsjávað er en þá flæðir vatnið um þröng hraunsund við ströndina og út í víkina. Á flóði fara lindirnar á kaf og lítil ummerki sjást þá um hið mikla ferskvatnsrennsli. Talið er að um 4000 l/s streymi þarna að jafnaði til sjávar.
Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörn.
Fjörulindir eru allvíða á Reykjanesi en hvergi eru þær eins vatnsmiklar og áberandi. Vatnið er úrkomuvatn sem fellur á hraunin upp af Straumsvík. Hluti þess er kominn úr Kaldá fyrir ofan Hafnarfjörð. Kaldá kemur upp í Kaldárbotnum en hverfur aftur í hraunin nokkru neðar. Vatnið birtist síðan á ný í Straumsvík. Annar grunnvatnsstraumur kemur frá Kleifarvatni. Við Þorbjarnarstaði hjá Straumsvík eru tjarnir sem flóðs og fjöru gætir í. Við innstu tjörnina er Gvendarbrunnur. Mikið er um krækling í Straumsvík og töluvert fuglalíf. Þar finnst einnig sjaldgæft afbrigði af bleikju, dvergbleikja, sem þarna lifir í hraungjótum á mörkum ferskvatns og sjávar.
Ástjörn
Ástjörn er hraunstífluð tjörn í kvos vestan undir Ásfjalli, tæpir 5 ha að stærð og liggur í um 20 m hæð yfir sjó. Berggrunnurinn í kvosinni undir tjörninni er kubbaberg úr neðsta hluta Reykjavíkur-grágrýtisins en í Ásfjalli er yngra grágrýti. Fyrir um 3000 árum rann svokallað Skúlatúnshraun niður með grágrýtisholtunum. Þetta var þunnfljótandi helluhraun sem nú myndar ströndina milli Hvaleyrarhöfða og Álversins í Straumsvík. Það rann fyrir mynni kvosarinnar og þá hefur Ástjörn líklega orðið til í lægð milli hraunsins og grágrýtisins sem myndar Ásfjall. Skömmu eftir landnámsöld, eða um 950, varð eldgosahrina í Grindaskörðum og Brennisteinsfjöllum.
Selhóll í Eldra-Hellnahrauni, skammt vestan Hvaleyrarvatns.
Mjóir, þunnfljótandi hraunstraumar teygðu sig allt niður undir Hvaleyrarholt. Þetta er flatt helluhraun og nefnist eftir útliti sínu Hellnahraun. Tunga úr hrauninu rann inn í kvosina við Ástjörn sem þá fékk sitt núverandi lag. Ástjörn er afrennslislaus á yfirborði, eins og flest vötn á Reykjanesskaga, en vatnsstaðan í henni ræðst af grunnvatnsstöðunni í berginu. Þegar hátt stendur má greina streymi frá tjörninni inn í vikið vestast í henni þar sem vatn sígur í hraun og skilar sér með grunnvatnsstraumi til sjávar vestan við Hvaleyrarhöfða. Innrennsli í tjörnina kemur úr mýrunum norðan hennar og austan. Þar eru smálindir sem koma úr grágrýtinu. Vatnasvið tjarnarinnar á yfirborði er ekki nema um 1 km2.
Útsýni af Ásfjalli er gott og áhugavert fyrir fólk sem vill fræðast um jarðfræði og sögu Hafnarfjarðar og raunar höfuðborgarsvæðisins alls. Bærinn Ás stóð skammt frá tjörninni en bæði hún og fjallið þar ofan við heita eftir bænum. Tjörnin og svæðið umhverfis hana einkenndust af fjölbreyttu gróðurfari en nú er lúpínan að leggjast yfir svæðið og rýma brott upprunalegum gróðri. Fugla- og smádýralíf er auðugt. Ástjörn er friðuð og umhverfis hana er friðland og fólkvangur.
Álftanes og Álftanesgarður
Álftanesgarðurinn er jökulgarður sem myndast hefur framan við skriðjökulstungu sem lá yfir Álftanes einhvern tíma í ísaldarlok. Bæjarröðin gamla á nesinu frá Skógtjörn að Bessastöðum er á garðinum sem síðan heldur áfram út á Bessastaðanes. Þar hverfur hann í sjó. Á árum áður mátti sjá hvar hann tók land yst á Kársnesi en nú er hann horfinn undir fyllingu þar. Garðurinn er lágur og breiður og gæti hafa myndast í sjó, a.m.k. er ljóst að sjór hefur gengið yfir hann eftir að hann varð til. Álftanesgarðurinn er langstærsti jökulgarðurinn á höfuðborgarsvæðinu. Minni garðar og garðstubbar eru á nokkrum stöðum, s.s. við botn Kópavogs og við Grafarvog. Fátt er vitað með vissu um aldur Álftanesgarðsins. Hann virðist þó vera yngri en skeljalög Fossvogsins og er að líkindum frá yngra dryas kuldakastinu og um 11.000 ára.
Rauðhólar – gervigígar
Í Rauðhólum.
Fyrir um 5200 árum varð eldgos í austanverðu Brennisteinsfjallakerfinu en þá rann mikið hraun frá gígnum Leitum austan undir Bláfjöllum (nefnt Leitahraun). Meginhraunstraumurinn fór til suðurs á milli Bláfjalla og Lambafells og niður á láglendið, allt til sjávar (þar sem nú er Stokkseyri). Önnur hraunkvísl rann til norðurs að Húsmúla og síðan til vesturs um Sandskeið, Lækjarbotna, Elliðavatnslægðina og síðan um farveg Elliðaár til sjávar. Á leið sinni fór hraunið um allvíðlent votlendi og grunnt stöðuvatn, forvera Elliðavatns. Gufusprengingar urðu í hrauninu þegar það rann yfir vatnssósa setlög og upp hlóðst þyrping gjall- og klepragíga. Hólarnir ná yfir um 1,2 ferkílómetra svæði. Annað minna gervigígasvæði er um 5 km austan Rauðhóla, svonefnd Tröllabörn.
Rauðamalarnám var stundað af kappi úr Rauðhólum um miðja síðustu öld og var þá um þriðjungi hólanna spillt. Talið er að gíghólarnir hafi í upphafi verið um 150 talsins. Í sundurgröfnum gígunum gefst gott tækifæri til að skoða innri gerð gervigíga og sjá hvernig þeir hafa hlaðist upp. Hægt er að aka að Rauðhólum frá Suðurlandsvegi, um 1 km austan Rauðavatns.
Viðey – basaltinnskot og keilugangar
Viðey.
Berggrunnur Viðeyjar skiptist alveg í tvennt. Á Vestureynni er grágrýtishraun frá hlýskeiði seint á ísöld. Á Heimaeynni er aftur á móti mest áberandi jarðlög sem myndast hafa í tengslum við svonefnda Viðeyjarmegineldstöð sem var virk fyrir um tveimur milljónum ára. Þar er gosmóberg víða og einnig eru setlög austast á eynni. Inn í móbergið hafa troðist innskotseitlar s.s. Virkishöfði. Norðan á Heimaey er svo grágrýtisflekkur allstór.
Búrfellsgjá – gígur og hrauntröð
Búrfell upp af Hafnarfirði er eldstöð af þeirri gerð sem kallast eldborg. Gígurinn er aðeins einn og rís 180 m y.s., hlaðinn úr gjalli og hraunkleprum. Hraunið frá honum nefnist einu nafni Búrfellshraun en einstakir hlutar þess hafa sérnöfn;
Smyrlabúðarhraun
Gráhelluhraun
Lækjarbotnahraun
Urriðakotshraun
Hafnarfjarðarhraun
Garðahraun
Gálgahraun
Þrjár stórar hrauntungur hafa runnið frá Búrfelli til sjávar.
Búrfellshraun – loftmynd.
Sú stærsta fór niður með Vífilsstaðahlíð og náði í sjó bæði í Hafnarfirði og við Arnarnesvog.
Önnur tunga rann í átt að Kaldárbotnum og síðan niður hjá Ásfjalli og í sjó við Hamarinn í Hafnarfirði. Þriðja hrauntungan rann suður fyrir Kaldárbotna og til sjávar í Straumsvík. Hún er nú að mestu hulin yngri hraunum.
Þegar hraunið rann stóð sjór um 10 m lægra við landið en hann gerir nú. Berggerðin er ólivínbasalt með hvítum plagíóklasdílum og ljósgrænum ólivíndílum. Mörg hverfi í Hafnarfirði og Garðabæ standa á Búrfellshrauni.
Sprungur og misgengi setja svip sinn á landslagið við Búrfell. Þeirra mest er Hjallamisgengið sem nær allt frá Elliðavatni að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu NA-SV sem teygir sig frá Krýsuvík og upp í Úlfarsfell.
Hraunið er talið um 24 km2 að flatarmáli en um þriðjungur þess er hulinn yngri hraunum. Rúmmálið er um 0,5 km3. Það er um 8000 ára og með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu.
Hrauntraðir mynduðust í hrauninu meðan á gosi stóð. Þær stærstu nefnast Búrfellsgjá og Selgjá. Þessar gjár eru af allt öðrum toga en gjárnar sem þverskera hraunið í grennd við Hjallamisgengið, svo sem Hrafnagjá og Vatnsgjá sem hafa myndast við jarðhræringar og brot af þeirra völdum.
Margir hraunhellar eru í Búrfellshrauni. Lengstur er Selgjárhellir yfir 200 m langur en þekktastir eru Maríuhellar við veginn upp í Heiðmörk.
Hverahlíð – jökulhamlaður hraunjaðar
Á hverasvæði við Hverahlíð.
Hverahlíð er hluti af bogadregnum stalli. Hann er hæstur á móts við hverina en lækkar niður að jöfnu til austurs og heldur nokkurn veginn hæð til vesturs. Stallur þessi er hraunbrún á dyngju sem myndaðist seint á ísöld, líklega á síðasta jökulskeiði, og nefnd er Skálafellsdyngja (ekki örnefni). Hún er hæst vestan við Skálafell. Þar er gígurinn, Trölladalur. Hraunið er skrapað af jökli sem hvalbök og jökulrákir á því sýna. Hraunbrúnir sem þessar myndast þar sem hraun hafa runnið í aðhaldi af jökli. Hér hefur hann verið á hæð við stallinn eða lítið þar yfir. Neðst í stallinum sést hér og þar móbergsbreksía með bólstrum. Hún nær hátt upp í hann nokkuð austur frá hverunum.
Vatn hefur eftir því staðið mishátt í lóni milli jökuls og hrauns. Lægri stallur í miðri hlíð sýnir hraunrennsli við lága vatnsstöðu. Hverahlíðarhorn skagar vestur úr hraunjaðrinum. Þar hefur hraunið leitað í rás sem þangað lá. Hraunið hefur runnið niður á jafnsléttu í Ölfusi og í sjó við um það bil 30 m háa sjávarstöðu sem skil á breksíu og hraunlögum sýna. Þar er á því hnullungakambur eftir 20 m hærri sjávarstöðu frá lokum ísaldar. Hverirnir sem hlíðin dregur nafn af eru á NA-SV sprungu. Hana má rekja töluverðan spöl suður á dyngjuna. Undir Hverahlíð er hæstur hiti í jarðhitakerfinu sunnan Hengils, vel yfir 300°C.
Ölfusvatnslaugar – uppsprettur
Ölfusvatnslaugar eru austan undir Hengli, þyrping hvera og kalklauga. Hverirnir eru í brekkunni ofan við laugarnar, aðallega gufuhverir. Töluverður brennisteinn er í þeim. Laugarnar eru á dálitlum bala. Þar hafa fyrrum verið goshverir. Gospípa þess stærsta er 1,5 m á vídd og í henni smáólga af loftbólum og lítið rennsli af um 70°C heitu vatni. Hrúðurbunga, 50×50 m að stærð, er umhverfis. Hún er úr kalkhrúðri. Hverir og laugar austan við Hengil frá austanverðum Innstadal [í Þrengslum við Miðdal] inn að Ölfusvatnslaugum eru með kolsýruríku vatni og ölkeldur koma fyrir. Koldíoxíð er kvikugas sem einkum ber á í háhitakerfum þegar innskotsmassi, hér sennilega gömul kvikuþró, í rótum þeirra storknar.
Gjárnar á Þingvöllum
Gliðnunarbelti Reykjaneshryggjar gengur inn í Ísland. Á Reykjanesskaga er það samsett af tveim þáttum, gliðnun og sniðgengi. Það mætti nefna sniðrekbelti. Hreint rekbelti verður hryggjarstykkið ekki fyrr en norðan Hengils, í norðurgrein eldstöðvakerfis hans. Partur af því er Þingvallasigið með gjánum beggja vegna. Gjárnar norðan við Þingvallavatn eru í dyngjuhrauni sem rann fyrir um 10.000 árum. Gígurinn í dyngjunni er suður af Hrafnabjörgum. Nýrunnið náði hraunið suður á móts við Nesjaey. Þingvallavatn var þá að flatarmáli aðeins um þriðjungur þess sem það er nú. Gjárnar komu fram við tognun yfir flekaskilin og því fylgdi landsig. Þetta gerðist í hrinum með gangainnskotum frá Hengli og gliðnun gjánna ofan þess sem gangarnir náðu. Við landsigið færðist ströndin innar. Tímann á milli slíkra umbrota þekkjum við ekki en síðasti atburður af því tagi varð í júní 1789.
Vatnskot.
Sokkinn túngarður í Vatnskoti sýnir að landsigið þar nam um 2,5 metrum. Vestan megin er svo til allt sigið um Almannagjá en austan megin deilist það á fleiri gjár. Sigið í Almannagjá losar 40 m þar sem mest er. Líta má á misgengin við Hestvík sem framhald gjárinnar til suðvesturs. Þar sneiða þau sundur grágrýtisdyngju og er austurhlíð hennar töluvert neðar en botn víkurinnar. Samanlögð stærð sigstallanna, þeir eru tveir stærstir, nemur hátt í 400 metrum. Hún gæti eftir því verið tíu sinnum eldri en Þingvallahraun og þá frá síðasta hlýskeiði ísaldar.
Súlufell – sprengigígar
Súlufell (446 m) er norðarlega í Grafningshálsum, strýtulaga móbergsfjall, núið af jökli og þakið jökulruðningi hið neðra. Suðvestan í því er feiknamikill gígur, Smjördalur, gróinn í botninn og þverhnípt, sveiglaga hamraþil upp af að austan. Vestan megin er lægra upp úr dalnum og þar sem lægst er rennur dalbotninn saman við yfirborð ássins sem fjallið rís upp af, framhald Katlatjarnahryggjar til norðurs. Gígurinn er um 500 m yfir barminn á langveginn en um 400 m þvert á. Í hömrunum að austan sést innri gerð Súlufells, bólstraberg upp fyrir miðju, og móberg þar ofan á. Gígurinn skerst upp í gegnum berglög fjallsins og það hefur verið fullmyndað er hann braust upp. Norðan megin hefur svo bólstrabergshryggur komið upp utan í háfjallinu og nær með suðurendann nokkuð ofan í gíginn. Úrkast er ekki þekkt sem tengst gæti myndun hans. Ætla verður að hann hafi myndast á ísöld og það lent á jöklinum.
Basaltkvika veldur ekki sprengigosi nema vatn komist að henni og hvellsjóði. Koldíoxíð þenst einnig við fasabreytingu og þekkt er að það eykur á gjóskumyndun í basaltgosum. Nærtækt dæmi um það eru Seyðishólar í Grímsnesi. Þá er þriðji möguleikinn að súr kvika hafi komið þarna upp en hún er gasrík og henni fylgja sprengigos. Hins vegar kemur venjulega hraun eða gúll á eftir en slíks sér hér ekki merki, nema ef hryggurinn norðan í honum sé af þeim toga og þá basaltfasi í blönduðu gosi þar sem súri fasinn fór á undan. Fráleitt er þetta kannski ekki því að ísúrt berg kemur þarna fyrir, þ.e. í Stapafelli norðan við Hrómundartind. Sunnar á Katlatjarnahrygg er röð sams konar sprengigíga, Katlatjarnir, eða Kattartjarnir. Sá syðsti hefur sprungið upp úr Kyllisfelli.
Tjarnarhnúkshraun við Ölfusvatnsá – fjölbreyttir hnyðlingar
Tjarnarhnúkur (520 m) er stakur gjallgígur. Hann situr efst á Ölkelduhálsi og er yngstur í röð fjallshryggja sem annars eru úr móbergi með Hrómundartind hæstan. Hraunið á hálsinum sunnan hans er afar veðrað og frostsprungið. Norðan við gíginn heita Lakaskörð. Þar eru hverir og leirskellur. Hraun hefur runnið þar niður en skriður síðan fallið. Þær ná ofan frá gíg, sú efsta, og hafa ýmist bunkast upp í brekkunum eða náð niður á dalgrundina með leirrennsli í Ölfusvatnsá. Hraunið hefur runnið norður með ánni og endar á vatnshjalla í um 160 m hæð.
Sogið.
Eftir að hraunið rann hefur Ölfusvatnsá grafið 1500 m langt gljúfur meðfram því ofan í jökulurð, móberg og aðallega bólstraberg. Jarðveg er ekki að sjá á milli. Hraunið hefur líkast til komið upp skömmu eftir að ísöld lauk. Neðsti hluti gljúfursins er í bólstrabergi úr Mælifelli. Bergið í því er pikrít, afar ólivínríkt.
Í bólstrunum má sjá að ólivínkristallarnir hafa sokkið og langmest er af þeim neðst. Í feldspatdílóttu bólstrabergi, sem einnig kemur fram í gljúfrinu, má sjá að feldspat (bytownít) í bólstrum þess hefur sokkið og mun minna er af því efst í bólstrunum en neðan til. Hraunið úr Tjarnarhnúk er mjög dílótt, aðallega af feldspati. Óvenju mikið er í því af hnyðlingum. Mest er af þeim neðst í hrauninu við gljúfrið. Hnyðlingarnir eru úr grófkristölluðu bergi, gabbrói, mismundandi að gerð eftir því hvaða steind er ríkjandi. Hnyðlinga má einnig finna í bombum utan í gígnum. Steindir í gabbróhnyðlingunum eru þær sömu og finnast sem dílar í hrauninu sjálfu. Því er líkast að hér hafi kvikumassi verið að storkna í gabbró þegar nýtt kvikuinnskot blandaðist honum og braust upp til yfirborðs.
Dyrafjöll – móbergshryggir og misgengi
Dyrafjöll eru samsett úr mörgum goseiningum sem skiptast í þrjár syrpur. Tvær af þeim eru við Nesjavallaveginn.
Eldri gossyrpan er úr næstum dílalausu þóleiítbasalti, sem aðallega er móberg, en grágrýtishraunlög samkynja eru ofan á því, ósamfelldir flákar og bleðlar. Grágrýtið er straumlögótt og oft rauðagjall neðst í því. Stærsti flákinn er á Háhrygg.
Yngri syrpan samanstendur af bólstrabergs- og móbergshryggjum úr dílóttu basalti. Móbergshryggirnir eru skarpir en bólstrabergshryggirnir ávalir og skriðurunnir.
Hryggir þessir eru fremur efnisrýrir og dalir skilja þá að, luktir öllum megin. Fyrir kemur þó að rás hafi grafist á milli. Dyrnar eru dæmi. Þar má á nöfinni sjá jökulbergslag á skilum milli þessara myndana.
Grágrýtið í dyngjunni vestan við Hestvík gengur undir Dyrafjöll. Það er sennilega frá síðasta hlýskeiði ísaldar. Fjöldi misgengja liggur eftir Dyrafjöllum. Lóðrétt færsla á þeim er báðum megin frá að Háhrygg. Í honum er siglægðin þannig dýpst þótt landið sé hæst. Frá Háhrygg gengur hún ofan í Hestvík, og til suðvesturs yfir Hengil.
Nesjavellir.
Nesjavellir eru á austurvæng siglægðarinnar. Misgengi eru báðum megin við hann en færsla á þeim er niður til vesturs. Því er líkast að misgengi með færslu niður til austurs sé vestan Nesjavalladalsins en svo er ekki. Þar hefur á austurhlíð Háhryggjar gosið á Hengilssprungunni auk þess sem einn af yngri hryggjunum, Kýrdalsbrúnir, hafa hlaðist þar upp. Eftir Kýrdalsbrúnum liggja að auki tvær gígaraðir. Gosrein þessi er meginuppstreymisrás Nesjavallahluta jarðhitakerfisins sem virkjunin byggir á.
Seltjörn – fjörumór
Land er að síga við sunnanverðan Faxaflóa. Þetta sést bæði í gömlum örnefnum og í jarðlögum. Þegar land byggðist virðist hafa verið allmikil tjörn eða stöðuvatn á Seltjarnarnesi sem nesið dró nafn sitt af. Vegna landsigs og ágangs sjávar breyttist tjörnin í breiða sjávarvík milli Gróttu og Suðurness. Talið er að allt fram á 18. öld hafi Seltjarnarrif (eða Suðurnesrif) lokað Seltjörn og hún því verið með fersku eða lítt söltu vatni fram til þess tíma.
Grótta.
Þegar lágsjávað er við ströndina, t.d. á stórstraumsfjöru, koma sérkennilegar jarðvegstorfur í ljós sem standa upp úr sandinum og sjávarmölinni við ströndina fyrir miðri Seltjörn. Þetta er fjörumór sem myndast hefur í vel gróinni mýri. Mórinn er 3000-9000 ára og sýnir að Seltjarnarnes hefur sigið um 3-5 m á síðustu 3000 árum og um 1-1,5 m frá landnámstíð.
Fossvogur – setlög frá ísaldarlokum
Fossvogslögin eru meðal þekktustu setlaga í íslenska jarðlagastaflanum. Þetta er setlagasyrpa þar sem skiptast á jökulruðningslög og sjávarsetlög með skeljum og sums staðar er straumvatnaset. Lögin finnast við Fossvog, í Nauthólsvík og út með Skerjafirði. Þau hafa einnig komið í ljós í húsgrunnum víða um vesturbæ Reykjavíkur, svo sem á Háskóla- og flugvallarsvæðinu. Lög þessi hafa lengi verið þekkt meðal náttúrufræðinga og margt hefur verið um þau ritað allt frá öndverðri 19. öld.
Ýmsar tegundir skelja og kuðunga hafa fundist í lögunum og allt eru það tegundir sem enn lifa við Íslandsstrendur, t.d.:
smyrslingur (mya truncata)
hallloka (macoma calcaria)
beitukóngur (buccinium undatum)
hrúðurkarlar ((Balanus balanus) o.fl.
Jökulrispaðar klappir Reykjavíkurgrágrýtis og jökulruðningur eru undir skeljalögunum og ofan á þeim má sums staðar sjá yngri jökulruðning. Jarðlög þessi hafa myndast í lok síðasta jökulskeiðs meðan jöklar voru enn að verki á höfuðborgarsvæðinu, ýmist að hörfa eða sækja fram. Sjór stóð þá töluvert hærra en hann gerir í dag. Aldursgreiningar á skeljum úr Fossvogslögum sýna að sjávarsetið í þeim er 12.500-13.000 ára, eða frá alleröd-tímabilinu og jökulruðningurinn ofan á lögunum er frá yngra dryas kuldakastinu.
Raufarhólshellir
Raufarhólshellir er rétt fyrir ofan efsta hjallann á Þrengslavegi, áður en farið er niður í áttina til Þorlákshafnar. Hann er ekki vel sýnilegur frá veginum þótt hann sé aðeins steinsnar frá honum austanverðum. Hellirinn er u.þ.b. 1360 m langur og liggur að hluta undir Þrengslaveginum til norðvesturs. Hann er 10-30 m breiður og upp undir 10 m hár.
Í Raufarhólshelli.
Nokkur smá op eru fremst í hellinum og er farið ofan í það syðsta. Raufarhólshellir er fjórði lengsti hraunhellir landsins og sá lengsti utan Hallmundarhrauns í Borgarfirði. Hellirinn er í Leitahrauni sem rann fyrir um 5200 árum en upptökustaður eldsumbrotanna voru rétt austan Bláfjalla í Leitum. [Hann dregur nafn sitt af lágum hól rétt vestan vegarins móts við Hellisopið.]
Hvalfjarðareyri – eyri, baggalútar, geislasteinar og berggangar
Á sunnanverðri Hvalfjarðarströnd norðan við Eyrarfjall er Hvalfjarðareyri. Meðfram ströndinni er að finna mikinn fjölda síðsteinda (seólíta). Bergið er mjög ummyndað af völdum bergganga frá Kjalarneseldstöðinni sem skera jarðlagastaflann. Þeir koma vel fram í Tíðarskarði við mynni fjarðarins og áfram inn með ströndinni. Önnur þyrping bergganga er svo austan og norðan við Hvalfjarðareyri en þeir eru ættaðir frá Hvalfjarðareldstöðinni sem liggur nærri Ferstiklu norðan við fjörðinn.
Síðsteindir myndast við ummyndun bergsins þegar heitt vatn leikur um það. Vatnið leysir upp frumsteindir bergsins en í staðinn falla út síðsteindir í sprungur og holrými. Dæmi um seólíta sem finna má með ströndinni eru:
kabasít
stilbít
analsím
mesólít
thomsonít
heulandít
Á Hvalfjarðareyrinni er einnig einn aðalfundarstaður baggalúta á suðvestur horni landsins. Baggalútar eða kýlingar nefnast smákúlur sem myndast þar sem gas hefur orðið innlyksa í líparíthraunum eða flikrubergi. Nálar af feldspati og kvarsi vaxa út frá kristalkími. Þeir eru ýmist stakir eða samvaxnir tveir eða þrír hér og þar í kvikunni. Baggalútar eru yfirleitt frá 0,5-3 cm í þvermál en geta þó orðið enn stærri. Baggalútarnir hafa rofist út úr líparíthraunlögum sem mynda jarðlögin með ströndinni austan við eyrina.
Botnsdalur – grafinn móbergshryggur
Innst í Hvalfirði er að finna grafinn móbergshrygg. Hryggurinn kemur fram í miðju Múlafjalli sem skilur á milli Brynjudals og Botnsdals. Móbergshryggurinn hefur myndast undir jökli á jökulskeiði snemma á kvarter. Mörkin milli tertíer og kvarter (2,58 milljóna ára) liggja þarna utar með ströndinni og neðar í staflanum sem sýnir að hryggurinn er um 2,5 milljóna ára gamall. Hann liggur þvert undir Múlafjallið með NNA-stefnu sem er algeng stefna misgengja á svæðinu. Móberghryggurinn kemur best fram í Botnsdal. Þar má sjá hvernig hryggurinn rís hæst í miðju og hvernig hraunlög frá yngri dyngjugosum hafa runnið upp að honum og að lokum kaffært hann.“
Á jarðfræðikortinu eru jafnframt upplýsingar um aldur flestra hraunanna á Reykjanesskaganum.
Heimild:
–http://isor.is/
-Kristján Sæmundsson, 2010.
-Haukur Jóhannesson, 2010.
-Magnús Á. Sigurgeirsson, 2010.
-Árni Hjartarson, 2010.
-Sigurður Garðar Kristinsson, 2010.
Jarðfræðikort af Reykjanesskaga