Fagridalur

Gengið var um Breiðdal frá Vatnsskarði?, með Háuhnúkum, framhjá Breiðdalshnúk og ætluðu Markrakagili, upp að Ing-vari, til suðurs niður í Leirdal og síðan áfram um Fagradal.

Helgafell

Helgafell.

“Fönn, fönn, fönn – íslensk fönn”, kvað við í hlíðum og dölum. Nánari kynni hlíða og dala gerast varla nánari á forvordögum. Nýársdagur var runninn upp, stillilogn, bjart yfir og litadrjúgur himinn sveipaði roða um fjöll. Það marraði taktfast í snjónum undan skósólunum – “Fönn, fönn, fönn, ekta íslensk fönn”
Í Breiðdal hefur Landnám Ingólfs verið að reyna að græða upp, m.a. utan í Breiðdalshnúk. Hnúkurinn er í suðvestanverðum dalnum, fallegur móbergsstandur. Norðan og austan við hann tekur við breiður dalur, sem einhvern tímann hefur verið ríkur af gróðri. Nú hefur þar að mestu fokið upp og leirflög standa eftir.

Breiðdalur

Breiðdalur – Helgafell fjær.

Á vinstri hönd er Markrakagil, eða Markraki. Landamerki Garðakirkju lágu um gilið. Eins og svo títt er í landamerkjadeilum telja sumir að þar sem um sama skarð og ræða og Vatnsskarð, en aðrir að hið eiginlega Vatnsskarð sé undir Vatnsshlíðarhorninu þar sem fyrst sér til Kleifarvatns – eins og eðlilegast væri miðað við hina fyrrum Dalaleið. Hvað sem þeim deilum líður er Markrakagil merkt á landakort við Markraka á Undirhlíðum. Í Breiðdal er steyptur stólpi, sem komið hefur niður úr skarðinu. Hann mun einhvern tímann hafa staðið uppi á brúninni, en einhver hins vegar séð sig knúinn til þess að spyrna við honum þaðan.
MarkrakagilGilið mun áður hafa heitið Markagil á Marraka eða Marrakagil á Undirhlíðum, en síðar er það nefnt 
Marrakagil í skjalinu frá 21. júní 1849 um Álftanesskóga. Það er það sama og annar staðar er nefnt Markrakagil (Melrakkaskarð, Vatnsskarð) eða Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakaskarð) í Undirhlíðum eins og það er nefnt sitt á hvað í “Merki á landi Garðakirkju….” frá 7. júní 1890 og sem staðfest er í landslögum nr. 13. frá 22. október 1912 um merki í landi Garðakirkju. Auk þess virðist þetta kennileiti hafa verið stafað Marrkagil, Marakki, Markragil o.s.frv. og á sumum stöðum staðsett á röngum stað. Í dag er þetta skarð eða gil aðeins nefnd Vatnsskarð. Eigandi Krýsuvíkur er samþykkur aðalmarki Garðakirkju og Krýsuvíkur í Vatnsskarði (Markrakagili, Melrakkaskarði), samkvæmt fyrrgreindu skjali frá 1890 og bréfi frá 14. apríl þ.á. (undirritaður tekur Vatnsskarð út fyrir sviga).
Breiðdalur hefur áður fyrr verið gróinn “milli botns og hlíða”. Stórar grastorfur eru enn í dalnum og sjá má gróðurbörð í hlíðum hans. Slóði liggur í gegnum dalinn, yfir í Slysadal, sem áður hét Leirdalur nyrðri. Á ásnum milli dalanna er stór og mikill “útstigningur”, sem 

Örsmáa

FERLIR hefur áður nefnt Ing-var til heiðurs fyrrum ástsælum bæjarstjóra þeirra Hafnfirðinga.  Útstigningurinn, eða höfðinn, sem hefur mannshöfðusmynd, hefur líkt og stigið út úr sunnanverðum Undirhlíðum eins og hann hafi orðið leiður á undirstöðunni og ákveðið að leggja af stað á brott frá þeim upp á sitt einsdæmi – einhverra erinda. Þannig sker hann sig úr, en hlíðarnar eru þær sömu. Sama mætti segja um Alþýðuflokkinn og Samfylkinguna. Sú síðarnefnda stendur enn sem hlíðin, litlaus og lítt áhugaverð. Hið eina áhugaverða á staðum er höfðinn – Ing-var – í takt við tímann.

Breiðdalur

Strýtur í Breiðdal.

Útsýni frá Ingvari yfir Slysadali, Leirdalshöfða og að Helgafelli, Þríhnúkum, Tvíbollum, Undirhlíðum, Kerlingarskarði, Fagradalsmúla, Fagradal, Vatnshlíðarhorni og Sveifluhálsi.
Gengið var til suðurs yfir að Leirdal syðri, um frosna tjörn og freðna móa. Fagurt útsýni var inn Fagradal. Vel sást hvar hraunstraumurinn hafði komið niður hlíðarnar í honum suðvestanverðum. Um hann lá leiðin til Krýsuvíkur um Hvammahraun.
Gegnt Fagradal eru nokkrar forskallaðar strýtur. Hvaða hlutverki þær hafi átt að þjóna þarna væri fróðlegt að fá upplýsingar um. Í Fagradal er gróinn hóll, sem grunur er um að kunni að leynast tóft neðan undir? Meira síðar…
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Fagridalur

Í Fagradal.

 

Brá

Ein algengasta spurningin um efni Reykjanesskagans mun vera „Er Reykjanes það sama og Suðurnes?“ Stutta svarið er „Nei“.
Lengra svarið er: „Árni Magnússon handritasafnari gerir grein fyrir þessu í riti sínu Chorographica Islandica. Hann segir um Reykjanes: „Fyrir vestan Grindavík, milli hennar og Hafna, er Reykjanes, hraunvaxið land og brunnið og graslaust að fráteknu Grasfelli (so heitir eitt fell mitt á nesinu), sem grasgróið er og óskýrt hver eigi. Á eftir skrá um hvalskipti Rosthvelinga, sem Árni birtir í ritinu, segir hann um Suðurnes: Hér af kann að sjást, að Rosthvalanes er á milli Keflavíkur og Hafnavogs, það sem menn nú kalla Suðurnes eða distinctius (þ.e. nánar tiltekið): Hólmsleiru, Garð, Miðnes, Stafnes.“

Reykjanes

Reykjanes – örnefni.

Í sóknalýsingu sr. Sigurðar B. Sívertsens um Útskálaprestakall sem náði yfir Útskála-, Hvalsness- og Kirkjuvogssóknir árið 1839, segir hann: „Úr fjarlægum plátsum eru þessar sóknir kallaðar Suðurnes, til aðgreiningar við Innnes, nl. Seltjarnar- og Álftanes. Eiginlega heitir samt ekki annað Suðurnes en Hvalsnessókn, allt frá því nesinu fer að veita til suðurs frá fyrrnefndum Skaga, sem vestast liggur af landinu.“ Hann notar nafnið síðan í eintölu, Suðurnesið.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – Innnes.

Í ritinu Landið þitt – Ísland telja þeir Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson að nafnið Suðurnes sé upphaflega komið frá vermönnum, helst Norðlendingum, og hafi verið notað um Rosmhvalanes, Álftanes og Seltjarnarnes til aðgreiningar frá Akranesi og Kjalarnesi. Þeir segja einnig að talið sé að Þorvaldur Thoroddsen hafi fyrstur nefnt svæðið suðvestan Hafnarfjarðar Reykjanesskaga.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – örnefni.

Á fyrri hluta 20. aldar taldist nafnið Suðurnes ná frá Vatnsleysuströnd að Garðskaga. Síðan hefur þessi notkun fest sig í sessi.
Það má því segja að fyrr á tímum hafi verið gerður skýr greinarmunur á Reykjanesi og Suðurnesjum þar sem það fyrrnefnda var „hællinn“ á skaganum en það síðarnefnda „táin“, en í dag sé nokkurn veginn um sama svæði að ræða.“
Skv. framangreindu teljast Grindvíkingar ekki til Suðurnesjamanna því Suðurnes virðast vera svæðið norðan og vestan bæjarmarkanna. Á Suðurnesjum hafa jafnan búið „kátir menn og frískir“, en í Grindavík „sjósæknir og fríðir“. Hvorutveggja á reyndar við enn í dag.
Hvað sem öllu þessu líður búa svæðin í heild yfir ótrúlegri fjölbreytni til handa fólki, sem vill og getur borið sig eftir henni. Grindavík hefur t.d. aldrei tilheyrt Suðurnesjum, en þó verið hluti að Innesjum.
Framangreint hefur ruglað margan „málsmetandi“ ráðamannininn í ríminu í gegnum tíðina.
,,Að fara suður syðra” sögðu vermenn á leið sinni á Reykjanesið á vertíð á tímum róðraskipanna, þeir voru að fara til Grindavíkur, ekki á Suðurnes, en eins og allir vita þá eru það allflest þau nes og tangar sem inn í Faxaflóann vísa.

Heimildir:
-Árni Magnússon. Chorographica Islandica. Ólafur Lárusson gaf út. (Safn til sögu Íslands og íslenzkra bókmennta. Annar flokkur, I.2.) Reykjavík 1955.
-Gullbringu- og Kjósarsýsla. Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1855. Guðlaugur R. Guðmundsson og Svavar Sigmundsson sáu um útgáfuna. Ný útgáfa. Reykjavík 2007.
-Þorsteinn Jósepsson og Steindór Steindórsson. Landið þitt. Ísland. 4. bindi. Reykjavík 1983.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=48881

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1908.

Krýsuvíkurberg

Bergsendi eða Bergsendar eru algeng örnefni í sjávarbjörgum. Nöfnin skýra sig jafnan sjálf.
Endimörk Krýsuvíkurbjargs (-bergs) heita „Bergsendi“ eystri og vestari. Frá Bergsenda eystri að Eystri-Læk á Strandarbergi heitir bergið „Krýsuvíkurbjarg“. Vestan Strandarbergs að Bergsenda vestari, stundum nefndir Ytri-Bergsendar, var það nefnd „Krýsuvíkurberg“. „Ytri“ og „Innri“ voru algeng viðmið á vestanverðum Reykjanesskaga fyrrum. Ytra þýddi nyrðra og Innra syðra.

Bergsendi

Bergsendi innri (eystri)- útsýni til vesturs.

Í Örnefnalýsingu sem Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði um Krýsuvík er m.a. fjallað um örnefni í og við Krýsuvíkurbjarg (-berg).
„Nöfn í Krýsuvíkurbergi eru þessi: Austast er Strandaberg, vestan Bergsenda eystri, þar átti Strandakirkja ítak til eggjatekju og fuglaveiða. Vestan við það er Kotaberg, þar áttu hjábýli Krýsuvíkur rétt á eggjatekju og fugla. Þar næst er Heimaberg, þar átti höfuðbólið fugla- og eggjatekju. Neðan undir Heimabergi er Skriða. Austan við hana er Ræningjastígur (nú horfinn).

Bergsendi

Bergsendi vestari.

Vestasta hornið á berginu heitir Bergsendi vestari. Vestan við Bergsenda er Hælsvík. Fyrir Krýsuvíkurlandi eru þessi rekapláss: Skriðurekar, Bergsendarekar og Miðrekar.“ Þorsteinn nefnir bergið allt „Krýsivíkurberg“.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar, lögregluvarðstjóra í Hafnarfirði, sem Svanur Pálsson afritaði 2004 eftir eintaki, sem varðveitt er á Bókasafni Hafnarfjarðar, er fjallað um Krýsuvíkurberg og Krýsuvíkurbjarg. Aðalheildarmaður Gísla var Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður, synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70. Lýsingin er frá austri til vesturs:

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Heiðnaberg (Heinaberg).

„Þá var ekkert örnefni fyrr en komið var að Bergsenda eystri eða Gjánni eystri. Hér tekur svo við Krýsuvíkurbjarg það liggur milli Gjárinnar eystri og Gjárinnar vestri og er þar á margt örnefna. Strandarberg er austasti hluti þess og nær frá Bergsenda að Læk á Bergi. Þá tekur við Krýsuvíkurberg. Þá er Básinn og þá Vondasig og þar ofar Berghólar. Þá er komið á Skriðuás og þá er Skriða mikill gosöskustapi. Austan Skriðuáss er Kotaberg að Vondasigi.

Heiðnaberg

Heiðnaberg – loftmynd.

Framan í Skriðu er Ræningjastígur og er gengur með varúð niður í fjöru. Þar sem Skriða snýr við vesturátt er neðarlega á móbergshellunni svo nefnd Hermannshilla. Upp Ræningjastíg áttu Tyrkir að hafa komist 1627 er þeir rændu hér við land. Lundapallur er hér vestan í Skriðu. Hann er einnig kallaður Lundatorfa. Skriðunef tala menn um að hér hafi verið nefnt. Einstigið liggur hér niður skriðurnar niður á Hermannshillu, sem er hér niður undir fjöru, en þó verður að síga af henni niður í fjöruna. Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík.“

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Skriða.

Í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík er jafnframt getið um Bergsenda:
„Þar sem Krýsuvíkurberg endar, heitir Eystri-Bergsendi og Vestri-Bergsendi. Hluti Krýsuvíkurbergs, vestarlega, heitir Skriða. Mun það vera eini staðurinn í berginu, sem einhvers móbergs gætir, en vestanvert við hæð þessa er basaltlag eitt eða fleiri. Efst í bjargbrúninni skagar basaltið lengra fram en móbergið, svo að loftsig er alla leið í urðina þar fyrir neðan. Austast í berginu er Strandarberg; þar átti Strandarkirkja ítak. Þá er Kotaberg; það áttu til afnota þeir, sem bjuggu í hjáleigunum.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg) – kort.

Svo er Heimaberg; þar er Skriðan fyrrnefnda upp af. Rekarnir þar fram af voru svo nefndir Bergsendarekar, Miðrekar og Skriðurekar. Í berginu var hilla sú, sem nefnd er Lundapallur; þar uppi á brún heitir Lundatorfa. Nýipallur er nafn í berginu. Þá er í Kotaberginu Plankanef. Undir berginu eru tvö áberandi lón, er heita Eystra-Selalón og Vestra-Selalón. Framan í Skriðunni er Ræningjastígur. Hans er getið í þjóðsögum. Stígur þessi er gangur einn, sem myndazt hefur í móbergið og liggur skáhallt niður í flæðarmál af brúninni. Var hann fær til skamms tíma, en nú mun hrunið svo úr honum, að hann sé tæplega fær. Við Hælsvíkina er svo Hæll, sem hún dregur nafn af, og Hermannsstígur í bergið.“

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Ræningjastígur.

Þjóðsagan segir að í “annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurberg og gengu upp þar sem síðan heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík.
Það var sunnudagur og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara að hann væri í ræðustól er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti hátt:
“Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað.”
Prestur mælti: “Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar góðir menn?”
Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja koma á túninu. Hann mælti til þeirra:
“Farið nú ekki lengra! Drepið þarna hvur annan! Væri annar dagur eða ég öðruvís búinn, mundu þið éta hvur annan.”
Þar börðust þeir og drápust niður. Heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll er þeir börðust, en Ræningjaþúfur þar þeir eru dysjaðir. Þar eftir hlóð Eiríkur vörðu á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni að meðan hún stæði skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík.”

Ofan við Ræningjastíg, sem sjórinn hefur nú náð að brjóta niður, eru minjar Krýsuvíkursels.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Á Bergsenda vestari (ytri).

Niðurganga á Bergsendana hvoru megin er auðveld. Frá þeim, til beggja átta, er ágætt útsýni út og inn með berginu (bjarginu) í góðu veðri.

Krýsuvíkursel

Krýsuvíkursel við Selöldu.

Bergsendar eru einnig svo nefndir sitt hvoru megin við Staðarberg neðan Staðarhrauns vestan Grindavíkur.
Í Örnefnalýsingu sem séra Gísli Brynjólfsson skráði og eru í bók hans: Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók. Heimildir Gísla hafa verið frásagnir kunnugra manna og örnefnalýsing Staðar eftir Ara Gíslason, þótt ekki geti Gísli þess. Lýsing Ara er geymd á Örnefnastofnun og er einnig höfð hliðsjón af henni við gerð þessarar lýsingar. Heimildarmenn Ara voru: Gamalíel Jónsson, bóndi á Stað (d. 1964), Guðsteinn Einarsson, hreppstjóri í Grindavík og Þorsteinn Bjarnason frá Háholti.

Staðarberg

Staðarberg – Bergsendi ofan Ræningjaskers.

Í lýsingunni er getið um „Ræningjasker“ og tilnefnd þjóðsaga um Tyrki og komu þeirra að Staðarhverfi. Sagan er ekki ólík þeirri fyrri. Í báðum tilvikum koma prestar að lausn mála.
„Austast á Staðarbergi heitir Bergsendi. Fram af Staðarmölum er Ræningjasker, alltaf upp úr sjó. Þegar Tyrkir komu til Grindavíkur 1627, lentu þeir skipi sínu við Ræningjasker. Gekk þá Staðarprestur upp í Hæðirnar við Húsatóftir og hlóð þar þrjár vörður og mælti svo um að á meðan í þeim stæði steinn yfir steini, skyldi Grindavík ekki verða rænd. Hefur það orðið að áhrínsorðum, enda standa vörður þessar að nokkru enn. Heita þær Nónvörður og eru eyktarmark frá Húsatóftum.
Áður en Mölunum sleppir er Bergsendasker, klettanibbur, sem skaga úr stórgrýtinu fram í sjóinn.

Hróarsbásar

Í Hróarbásum.

Staðarbergið er álíka langt og Malirnar. Um það farast Geir Bachmann svo orð í sóknarlýsingu sinni: „Það er tæp 1/4 míla á lengd. Lágt er það og að öllu leyti ómerkilegt, því hvorki er í því varp né fuglatekja, og eigi er það svo vel, að undir því geti fest nokkurt tré, þó ekki sé það heldur standberg í sjó.“ (Landnám Ingólfs III, bls. 126). – Austast á Bergsendanum er gatklettur mikill, en ekki ber hann sérstakt nafn.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg (-berg fjær) – nafnlausi fossinn.

Þá taka við tvö vik inn í bjargið. Nefnast þau Sölvabásar og Hróabásar. (Ath.: Yfirleitt voru nöfnin á básum þessum höfð í fleirtölu, þótt í rauninni sé hvor um sig bara einn bás). Hróabásar eru við vestari bergsendann. Í þeim var flóruð vör og sjást hennar enn nokkur merki. Bendir það til þess að þarna hafi eitt sinn verið útræði, en um það eru engar skráðar heimildir – aðeins munnmæli. Í Sölvabásum áttu Húsatóftir sölvatekju.“

Sjá skemmtilegt Youtube-myndband frá Krýsuvíkurbergi HÉR.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Þorsteins Bjarnasonar frá Háholti  um Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar um Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.
-Lýsing Gísla Brynjólfssonar fyrir Stað í Grindavík.

Mígandi

Mígandi í Krýsuvíkurbergi.

Brimketill

Nokkrir svonefndir „brimkatlar“ eru við strandir Reykjanesskagans, misstórir þó. Þeir eru flestir við ströndina undir bjargbrúnum, s.s. Herdísarvíkurbergi, Krýsuvíkurbergi og Staðarbergi.  Einnig eru dæmi er um slíka katla neðan hraunstanda, s.s. neðan Skollahrauns, en sá er hinn stærsti á Skaganum.

Brimketill

Brimketill – Oddnýjarlaug.

Brimketillinn í sjávarklettunum vestast í Staðarbergi utan við Grindavík er sennilega sá margumtalaðisti. Hann, líkt og aðrir bræður hans, hefur myndast í stöðugum öldugangi þegar brimið lemur bergið. Basaltbergið er misfast fyrir, ýmist sem hraunmulningur, berghella eða þéttar hraunrásir. Þar sem sjórinn mætir þeim síðastnefndu á hann erfiðara um vik að vinna á þéttu berginu. Við það myndast framangreindir tímabundnir „katlar“, ekki ólíkt og skessukatlar í móbergi. Í báðum tilvikum leika steinar lykilhlutverkin í samvinnu við vindinn í tilviki skessukatlanna og sjóinn í tilfelli brimkatlanna.

Brimketill

Brimketill. Hart bergið umhverfis.

Hafið hefur mikil áhrif á landmótun á Reykjanesi. Með því að fylgjast með brimi skella á klettunum má sjá þann kraft sem býr í Norður-Atlantshafinu. Aldan vinnur á föstu berginu með því að þrýsta þétt saman lofti í rifum og sprungum. Við útsogið dregur sjórinn loftið með sér. Þá verður til undirþrýstingur. Þannig brýtur hafið upp hraunhelluna smám saman. Við bætist svo rof vegna bergbrota þegar aldan skellur með ofurkrafti á sjávarkletta og laust grjót og þeytir hvorutveggja upp í loft. Þar sem lausara hraunhrap er fyrir myndast sjávarhellar. Þegar þung aldan steypist inn í rásirnar myndast mikill þrýstingur með þeim afleiðingum að „þakið“ innst gefur sig. Þegar það gerist myndast nokkurs konar „strandgeysir“ þar sem aldan nær að spýjast upp innan á ströndinni með tilheyrandi strókamyndun.

Brimketill

Brimketill vestast á Staðarbergi. Hér má sjá takmarkað gagn af brúnni. Annar, minni ketill sést hægra megin við enda brúarinnar, sem virðist ná athygli ferðamanna umfram „Ketilinn“ sjálfan.

Hraunið umhverfis framangreindan Brimketil er gróft, sprungið og með háum úfnum jöðrum og yfirborði. Líklega hefur það runnið í Reykjaneseldum á árunum 1210-1240.

Brimketill

Brimketillinn vestan við brúarpallinn.

Um Brimketilinn austan Grindavíkur er til þjóðsaga. Laugin sú arna mun áður hafa heitið Oddnýjarlaug. Þjóðsaga segir frá nátttröllinu Oddnýju sem bjó í Háleyjabungu, rétt vestan við Brimketil, ásamt Hróari manni sínum og syni þeirra Sölva. Eina nóttina fór hún út að Ræningjaskeri rétt austan við Brimketil til að ná í hvalhræ sem hafði rekið að landi. Í bakaleiðinni hvíldi hún sig og baðaði í Brimkatli. Þegar hún hélt loks heim á leið komst hún ekki langt þar sem sólin kom upp um það leyti. Varð hún því að steini og sást þarna lengi sem hár bergdrangur, allt þar til sjórinn braut hann smám saman niður. Brimketill hefur því einnig verið nefndur Oddnýjarlaug í höfuð á nátttröllinu.

Ísólfsskáli

Kvennagöngubásar – brimketill.

Nú hefur metnaðarfull göngubrú verið handeruð í átt að Brimkatli, en smíðin sú virðist misheppnuð. Í fyrsta lagi fæst ekki nægileg yfirsýn yfir Brimketilinn frá enda brúarinnar. Brúarendinn hefði þurt að ná lengra út til austurs. Í öðru lagi er annar minni brimketill vestan við miðja brúnna. Fjölmargir ferðamenn, sem heimsækja staðinn telja að þar sé hinn eiginlegi „Brimketill“ því þeir ná aldrei sjónhendingu að þeim eina og sanna.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill.

Austan Ísólfsskála er tilkomumesti brimketillinn á Reykjaneskaganum. Hann er á svonefndum „Kvennagöngubásum“. Básar eru nefndir svo austan við Rangargjögur; Skálabásar, Kirkjubásar og Kvennagöngubásar allt þangað til komið er að Hraunsnesi. Þar austan við er Mölvík.

Þegar Ísólfur Guðmundsson á Ísólfsskála var spurður árið 1983 um tilefni nafnsins Kvennagöngubásar svaraði hann: „Þar var kvenfólk sagt baða sig“. Að öllum líkindum hefur Ísólfur haft í huga þekktu þjóðsöguna um Oddnýjarlaugina vestar á ströndinni.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill.

Hið réttara er að Básunum austan við Ísólfsskála var skipt upp á milli bæjarins og kirkjustaða, sem fyrrum voru að hluta til eigendur jarðarinnar. Þannig átti Kálfatjörn um tíma rekaítök í Skálalandi, í svonefndum Kirkjubásum, líkt og Garðakirkja átti rekaítök í Kirkjubásum í Krýsuvíkurlandi austan Bersenda. Rekinn skipti hlutaðeigandi miklu máli í þá daga, líkt og kveðið er á um Jónsbók og fleiri gildandi lögbókum. Kvaðir voru á jarðeigendum af kirkjujarðanna hálfu að sinna reka sínum til jafns við þá. Þannig þurfti bóndinn á Ísólfsskála að þjóna presti Kálfatjarnarsóknar og fylgast með rekanum. Kvenfólkinu á Skála var ekki ætlað það hlutverk að ganga rekann lengra en að Kvennagöngubásum, enda þótt Skálabóndi ætti allan reka frá þeim að Dágon á Seltatöngum, en þangað var öðrum ekki ætlað gangandi en karlmönnum.

Brimketillinn í Kvennagöngubásum er hinn tilkomumesti og þangað hafa meðlimir Sjósundsfélaga farið til að njóta hinna tilkomumiklu náttúrulegu aðstæðna.

Hraunið umhverfis Kvennagöngubása er talið hafa runnið um 1151 en Staðarbergshraunið vestan Grindavíkur er talið hafa runnið um 1221.

Ó.

Kvennagöngubásar

Kvennagöngubásar – brimketill. Festarfjall, Fiskidalsfjall og Húsafell fjær.

Lögreglan

Í Fjarðarfréttum 1969 er grein um aðstöðu lögreglunnar í Hafnarfirði undir fyrirsögninni; „105 kallar stöðina„. Greinin er ekki síst áhugaverð í ljósi þess að í yfirlitsritinu „Lögreglan á Íslandi“ er lítið sem ekkert fjallað um sögu og aðbúnað lögreglumanna annars staðar en í Reykjavík.

Lögregla
„Það var síðla kvölds í marz, að Fjarðarfréttir lögðu leið sína á lögreglustöðina við Suðurgötu. Erindið var að heilsa upp á lögregluþjónana, sem voru á kvöldvakt þetta kvöld og skyggnast inn í heim þeirra manna, sem eiga að halda uppi lögum og reglu í Hafnarfirði, Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Það vildi okkur til happs, að lítið hafði rignt um daginn og Suðurgatan því tiltölulega greiðfær. Þegar við komum að lögreglustöðinni var okkur hugsað til þess, að ekki væri gott að vera bláókunnugur maður hér í Hafnarfirði og þurfa á lögregluaðstoð að halda, því einu upplýsingarnar, sem gefnar eru um staðsetningu lögreglustöðvarinnar eru í símaskránni og eru á þá leið að hún sé að Suðurgötu 8.

Varðstofan

Lögregla

Lögreglustöðin við Suðurgötu 8 í byggingu. Sýslumannshúsið h.m. Knattspyrnuleikur milli FH og Hauka á Sýslumannstúninu.

Við göngum inn eftir ganginum og förum inn um dyr til vinstri, inn á sjálfa lögregluvarðstofuna. Þar situr varðstjórinn við borð og er að tala í símann. Hinir lögregluþjónarnir á vaktinni eru í útkalli.
Skyndilega heyrist í talstöðinni:
105 kallar Stöðina. —
— Stöðin svarar —
— Ertu einn? —
— Oh. ah, nei. —
— Jæja, við komum þá inn. —

Lögregla

Knattspyrnuleika FH og Hauka enn í gangi á Sýslumannstúninu. Dvergasteinn lengst t.v., nýja lögreglustöðin og Sýslumannshúsið.

Hvað er að gerast? Það er von að spurt sé. Við erum í þann veginn að kynnast lélegustu aðstæðum, sem lögregla býr við í kaupstöðum landsins.
Samtalið milli lögregluþjónsins og varðstjórans er eitt dæmið um óviðunandi ástand í löggæzlumálum okkar Hafnfirðinga. Húsakynnin eru svo þröng, að allir, sem þurfa að leita til lögreglustöðvarinnar, og þeir eru ófáir, verða um leið áheyrendur, og stundum áhorfendur, að öllu því, sem fram fer. Þau mál, sem lögreglan fjallar um, eru oft þess eðlis, að óverjandi er, að hver og einn geti fylgst með einstökum þáttum þeirra.

Gísli sigurðsson

Gísli Sigurðsson fyrir framan lögreglustöðina.

En nú skulum við líta í kringum okkur. Varðstofan er lítið herbergi, um það bil 15 fermetrar, málning á veggjunum sennilega tíu ára gömul, og á þeim má lesa, sem í bók, sögu þeirra atburða, sem hér hafa gerzt undanfarinn áratug. Þetta herbergi er vinnustaður sextán lögregluþjóna og hérna er unnið allan sólarhringinn. Nokkrir lögregluþjónanna hafa dvalizt hér svo áratugum skiptir. Hérna er svarað í síma, skrifaðar skýrslur, sinnt talstöðvarviðskiptum, veitt úrlausn þeim, sem inn koma, geymsla fyrir óskilamuni, skjalageymsla, skrifuð dagbók um öll verkefni yfir hvern sólarhring, og svona mætti lengi telja. Til skamms tíma var þetta herbergi einnig kaffistofa lögregluþjónanna.

Fangelsi

Lögregla

Sveinn Björnsson, Jóhannes og Eddi í rannsóknarlögreglu Hafnarfjarðar.

Skoðum nú aðrar vistarverur í þessu húsi og lítum á það, sem fyrir augu ber. Í húsinu eru 6 fangaklefar, og auðvitað þarf engan fangavörð. Fangagæzla er eitt af störfum varðstjórans og manna hans. Við skulum ganga inn í einn klefann. Okkur verður þungt fyrir brjósti, loftræsting er engin. Rimlar eru fyrir gluggum, eins og venja er á slíkum stöðum, en svo „haganlega“ fyrir komið, að nær ógerningur er að hreinsa gluggakisturnar. Dyraumbúnaður er þannig, að hurðum er krækt aftur, og getur hvaða smábarn, sem villist inn í þessi húsakynni, opnað dyrnar meðan varðstjórinn sinnir e.t.v. símahringingu á varðstofunni. Fangar og lögreglumenn nota eitt og sama salernið, sem staðsett er í kompu undir stiga og allt hið óvistlegasta. Dæmi eru til þess, að gæzlufangar hafi þurft að dveljast í þessum fangaklefum yfir mánaðartíma. Eitt sinn var hérna fangi, sem var haldinn kynsjúkdómi, og að sjálfsögðu varð hann að nota sama salerni og samfangar hans ásamt lögregluþjónunum. Vonandi er slíkt einsdæmi á Íslandi á tuttugustu öld. Allir veggir hér eins og á varðstofunni bera ljóst vitni um að málning er bannorð, það er eins og veggirnir blygðist sín fyrir útlitið. Okkur léttir, er við yfirgefum fangaklefana.

Kaffistofa

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn, við störf á varðstofunni.

Næst komum við í kaffistofu lögregluþjónanna. Í þessu herbergi, sem er um það bil 7 m2, var rannsóknarlögreglan til húsa. Þegar skrifstofur bæjarfógeta fluttu í hið glæsilega húsnæði sitt, sem gjörbreytt hefur allri starfsaðstöðu embættisins, fékk rannsóknarlögreglan sæmilega aðstöðu annars staðar í húsinu. Rættist þá loksins langþráður draumur lögreglumannanna í Hafnarfirði. Þeir fengu þetta litla herbergi fyrir kaffistofu.
Settur var upp lítill vaskur og skápur, en þeir urðu þó að mála „stofuna“ sjálfir.

Talstöðin

Lögregla

Hér voru gamla Sýslumannshúsið og lögreglustöðin við Suðurgötu 8.

Við heyrum óm af samtali og skundum inn á varðstofuna. Eitt af mikilvægustu tækjum við nútíma löggæzlu er talstöðin, og hún er mikið notuð hér. Umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði nær allt frá Reykjanestá að Botnsá í Hvalfirði.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður á stríðsárunum. Sýslumannshúsið í bakgrunni, Drengurinn er Hörður Guðmundsson – Fred Harry Wharton.

Ætla má að lögreglustöðin geti haft samband við lögreglubíl hvar sem er á þessu svæði, en það er nú öðru nær. Dæmi eru til þess að lögreglan hefur orðið að leita til leigubílstjóra til þess að flytja skilaboð til lögreglustöðvarinnar. Þegar komið er suður fyrir Kúagerði má heita að sambandslaust sé við lögreglubíl, sem þar er á ferð. Ef árekstur verður í Mosfellssveit eða á Kjalarnesi rofna tengslin milli lögreglubíls og stöðvarinnar um það leyti sem farið er yfir Elliðaárnar. En leigubílstjórar í Hafnarfirði geta með góðu móti talað við „kollega“ sína á Kjalarnesi og í Keflavík. Hvers á Lögregla Hafnarfjarðar og íbúar umdæmisins að gjalda?

500.000 km

Lögreglan

Lögreglubíll lögreglunnar í Hafnarfirði 1972.

Bílar Hafnarfjarðarlögreglunnar eru kafli út af fyrir sig. Þeir eru tveir, annar af árgerð 1966 og í sæmilegu lagi, en hinn af árgerð 1964 og má heita ónýtur, enda hefur honum verið ekið yfir 500.000 km, og það að mestu á götum
Hafnarfjarðar.
Heimsókn okkar er senn lokið. Við ætlum ekki að fara mörgum orðum um atriði eins og þau, að allar skýrslur lögreglunnar eru skrifaðar á aflóga ritvélar frá skrifstofu bæjarfógeta og hvergi fæst aðstaða fyrir lögregluþjóna, til að halda við þeirri líkamlegu þjálfun, sem hverjum lögreglumanni er nauðsynleg.
Eðlilegt er, að fyrir hverja 500 íbúa í þéttbýli starfi einn lögregluþjónn, og ættu samkvæmt því að vera 18 lögregluþjónar í Hafnarfirði einum, fyrir utan þá, sem ráðnir eru á vegum Garðahrepps og sýslunnar. Mikil bót var að stofnun rannsóknarlögregluembættis hér í bæ, og hefur það komið skýrt í ljós, hvað bætt starfsaðstaða má sín mikils, en þó þyrfti að fjölga þar um a. m. k. einn mann, ef vel ætti að vera.

Ný lögreglustöð

Lögregla

Gamla sýslumannshúsið við Suðurgötu.

Hver hugsandi maður, sem kynnir sér starfsaðstöðu lögreglunnar, hlýtur að sjá, að hún er bæjarfélaginu og sýslunni ekki til sæmdar.

Lögregla

Ný lögreglustöð í Hafnarfirði við Flatahraun.

Margt má lagfæra nú þegar, en auðvitað er framtíðarlausn þessara mála aðeins ein, nýtt og veglegt húsnæði fyrir löggæzluna. Nú þegar er tímabært að skipa nefnd til að undirbúa byggingu slíks húss.
Við Hafnfirðingur eigum góðu lögregluliði á að skipa. Starf þeirra er erilsamt og oft hættulegt. Lágmarkskrafa þeirra til bæjarfélagsins er mannsæmandi starfsaðstaða.
Vafalaust mun okkar ágæti bæjarfógeti beita sér fyrir umbótum á þessu sviði, og mun þá væntanlega ekki standa á öðrum, sem til þarf að leita vegna lausnar þessa máls.“

Í Lesbók Morgunblaðsins 1951 segir Árni Óla frá „Fyrsta lögregluþjóninum í Hafnarfirði„:
lögregla„Það eru nú rúm 43 ár síðan (1908) að Hafnfirðingar komu á löggæslu hjá sjer, og fyrsti lögregluþjónninn þar er enn á lífi og við góða heilsu. Hann heitir Jón Einarsson, Hafnfirðingur í húð og hár, fæddur þar og hefur alið þar allan aldur sinn. Mun varla ofmælt að hvert mannsbarn í Hafnarfirði þekki hann, en fæstir munu nú minnast þess að hann var þar eitt sinn vörður laga og rjettar og gekk um göturnar í einkennisbúningi. Hitt er mönnum kunnara, að hann hefur verið verkstjóri í fjölda mörg ár. Hann á heima í „miðbænum“ í Hafnarfirði, Strandgötu 19, og hefur lengi átt þar heima. En þegar hann bygði húsið sitt var öðruvísi þar um að litast en nú. Þá sköguðu úfnir hraunklettar fram í dimma götuna, sem í rauninni var ekki, annað en sjávarkambur með möl og skeljasandi, en nú er þetta „fínasta“ gatan, sem til er á landinu, öll steinsteypt og uppljómuð af tindrandi „fluoresent“ ljósum, svo að þar ber hvergi skugga á og nóttin verður þar svo að segja að björtum degi. Hafnarfjörður hefur tekið stakkaskiftum síðan Jón var þar lögregluþjónn og átti í brösum við ofbeldisseggi og skúmaskotsmenn.

Hafnarfjörður 1910

Lögregluþjónar voru ráðnir í Hafnarfirði áður en staðurinn fengi nokkra lögreglusamþykt. Utanaðkomandi áhrif rjeðu því. Fram að þeim tíma hafði Hafnarfjörður verið friðsældarbær, þar sem menn gengu snemna til náða og fóru snemma á fætur. Reglusemi og nægjusemi mótaði líf manna, og Í bæjarbragur var allur með uðrum hætti en í Reykjavík. Þótt skamt væri á milli og íbúar Hafnarfjarðar orðnir um 1500, drógu þeir ekki dám að stórborginni Reykjavík, þar sem voru þá um 11.000 íbúa. En ástæðan til þess að Hafnfirðingar fengu sjer lögregluþjón var sú, að allmikil breyting hafði orðið þar á árið 1906, eins og nú skal sagt.
Hafnarfjörður
Lögregluþjónn var valinn Jón Einarsson, eins og fyr er sagt, en næturvörður Jón Hinriksson, er seinna varð kaupfjelagsstjóri í Vestmannaeyjum. Voru þeir báðir á besta aldri, hin mestu karlmenni og ljetu sjer ekki alt fyrir brjósti brenna. Þeir byrjuðu starf sitt í apríl og var verkum þannig skift með þeim, að annar fór á vörð kl. 9 á morgnana og var á ferli fram til kl. 3. Þá tók hinn við og var einn á verði til kl. 7, en síðan voru þeir báðir á verði á kvöldin og stundum alla nóttina fram til morguns, þegar mest var ónæðið af hinum útlendu sjómönnum.

Ekkert að gera endranær

Hafnarfjörður 1908

Hafnarfjörður 1908.

Jón Hinriksson sagði starfi sínu lausu um haustið og var þá Einar Ólafsson (tengdafaðir sjera Jakobs Jónssonar) ráðinn næturvörður.
„Um vorið var jeg orðinn svo leiður á þessu starfi, sem mjer fanst ekkert starf vera, að jeg fekk mig leyst an frá því. Þetta átti ekki við mig. Þegar ekkert var um að vera í bænum, fanst mjer jeg vera að slæpast og skammaðist mín fyrir þeim sem voru að vinna. Og það var hjer um bil aldrei neitt að gera nema þegar útlendingar voru með óspektir og drykkjulæti. Aðalstarfið á nóttunni var að líta eftir bátum, ef eitthvað var að veðri, líta eftir skepnum að þær flæddi ekki, hafa gætur á hvort nokkurs staðar yrði vart við eld og hafa gát á kolabyngunum, svo að eldsneytislausir menn hnupluðu ekki nokkrum kola molum. Á daginn var bókstaflega ekkert að gera.

Jón bergmann

Jón Sigurður Sigfússon Bergmann (1874-1927).

Jón Bergmann skáld varð lögregluþjónn þegar jeg hætti, en hélst ekki lengi því starfi. Og lögregluþjónar og næturverðir voru að koma og fara. Norðmenn hurfu líka, útgerð Friis féll niður sumarið eftir, og þá urðu aftur rólegir dagar í Hafnarfirði. Það var ekki fyr en eftir 1930 að komið var upp skýli til þess að stinga ölvuðum mönnum inn í.
Nú er orðin mikil breyting á þessu. Nú eru hjer 7 eða 8 lögregluþjónar, varðstöð opin allan sólarhringinn með síma og bílum til skyndiferða. Og nú er hjer komið fangahús og fangavörður. Hefur það verið sniðið svo við vöxt, að það getur oft tekið við mönnum frá Reykjavík, sem dæmdir hafa verið til fangelsisvistar. Þó er þetta fangahús ekki nema fyrir 6—8 menn. Það sýnir að Hafnfirðingar þurfa ekki mikið á því að halda, enda þótt hjer eigi heima rúmlega 5000 manna. Hafnarfjörður er enn friðsæll bær og Hafnfirðingar friðsamir og háttprúðir menn, eins og þeir hafa alltaf verið“. – Á.Ó.

Heimildir:
-Fjarðarfréttir, 1. árg. 07.04.1969, !105 kallar stöðina“, bls. 8 og 6.
-Lesbók Morgunblaðsins, 46. tbl. 01.12.1951, Fyrsti lögregluþjónn í Hafnarfirði – Árni Óla, bls. 572-575.

Hafnarfjörður

Vestari-Lækur

Í Krýsuvík eru tvær lækir; Vestari-Lækur (Vesturlækur/Krýsuvíkurlækur vestri/Fitjalækur) og Eystri-Lækur (Nýjabæjarlækur/Krýsuvíkurlækur/Eystrilækur). Sá fyrrnefndi á uppruna sinn í mýrinni sunnan við Gestsstaðavatn og sá síðarnefndi í Dýjakrókum ofan bæjarstæðis Stóra-Nýjabæjar. Krýsuvíkurtorfan hefur stundum verið nefnd „byggðin milli lækja“, en það getur ekki verið alls kostar rétt því sjálfur Krýsuvíkurbærinn, auk Suðurbæjar, Norðurbæjar og Snorrakots, eru vestan Vestari-Lækjar.

Eystri-Lækur

Eystri-Lækur, fossinn í „eðlilegu“ ástandi.

Báðir lækirnir steypast fram af Krýsuvíkurbergi, sá eystri austan Bergsenda eystri og sá vestari neðan Fitja undir Selöldu. Vestari-Lækur hefur náð að grafa sig niður í móbergið áður en hann fellur niður í fjöruna, en Eystri-Lækur hefur þurft að sætta sig við ýmist að falla ofan af skarpri hárri hraunbrúninni eða falla niður í sprungur ofan brúnarinnar, allt eftir því hvernig hún hefur þróast af sjóbarningnum neðanverðum eða áhrifum jarðskjálfta hverju sinni.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg – nafnlausi fossinn.

Eystri fossinn hafði ekki nafn fyrrum, en í seinni tíð hafa einstaka ferðamenn reynt að nefna hann „Krýsuvíkurfoss“, sem varla getur talist frumlegt örnefni. Lækurinn ofan bjargbrúnarinnar var áður einnig nefndur „Lækur á Bergi“. Vestari fossinn heitir Mígandi í örnefnaskrám.

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar segir m.a. um lækina: „Vestan undir Strákum er Fitjatún. Hér upp af víkinni er svæði, sem nefnt er Hælsheiði. Þar um rennur Vestri-Lækurinn í víkina [Hælsvík] vestanverða eða vestan hennar, og þess má einnig geta hér, að við Hæl er svonefnt Heiðnaberg í bjarginu.
Vestur frá Litlahrauni [austan Bergsenda eystri] tekur við allmikil mýri, sem heitir Bleiksmýri. Um hana rennur Eystri-Lækur og rennur í sjó á austanverðu berginu.“

Eystri-Lækur

Eystri-Lækur, fossinn þegar hann fellur niður um ofanverðar sprungumyndanir.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar (aðalheildarmaður; Ólafur Þorvaldsson og Krýsuvíkurbræður synir Guðmundar í Krýsuvík, aðallega tveir; voru fluttir til Hafnarfjarðar, annar bjó á Holtsgötu ?, en hinn í Þorgeirstúni. Unnið á milli 1960–70) segir m.a. um lækina og fossana í Krýsuvík: „Að austan var Nýjabæjarlækur. Hann átti upptök sín spölkorn fyrir ofan túnið í Dýjakrókum. Þegar nokkuð var komið frá Nýjabæjartúni, nefndist Nýjabæjarlækur, Krýsuvíkurlækur eystri eða Eystrilækur. Nokkuð niður með honum er Austurlækjarvað, liggur þar gata yfir um lítið holt er nefnist Reiðholt, en gatan lá heim milli garða heim til Krýsuvíkurbæjar. Svæðið sunnan Vesturlækjar og Austurlækjar mætti með réttu nefnast Milli lækja.

Vestari-Lækur

Vestari-Lækur, ónefndur foss ofan Míganda. Fallegur berggangur í rauðamölskriðunni.

Hér vestur undan fellinu [Bæjarfelli] er svo nefnd Krýsuvíkurheiði eða Vesturheiði. Takmarkast að norðan af Hálsinum, en að sunnan af Krýsuvíkurlæk vestri eða Vesturlæk. Vesturlækur á uppruna sinn í mýrinni neðan undir Gestsstaðavatni. Vesturlækur rennur hér ofan af heiðinni í Vesturlækjarfossi, en þar fyrir neðan tekur hann nafnbreytingu, nefnist þá Fitjalækur.

Mígandi

Mígandi í Krýsuvíkurbergi.

Þegar haldið var vestur Bergið þá varð fyrst fyrir í sjónum Selasker og ofan við það Selalón. Vestar var komið að allmiklu viki eða vík, Keflavík. Þar var Keflavíkurkampur stórgrýttur, og þar voru Keflavíkurrekar. Þá var ekkert örnefni fyrr en komið var að Bergsenda eystri eða Gjánni eystri. Hér tekur svo við Krýsuvíkurbjarg það liggur milli Gjárinnar eystri og Gjárinnar vestri og er þar á margt örnefna. Strandarberg er austasti hluti þess og nær frá Bergsenda að Læk á Bergi. Þá tekur við Krýsuvíkurberg. Þá er Básinn og þá Vondasig og þar ofar Berghólar. Þá er komið á Skriðuás og þá er Skriða mikill gosöskustapi. Austan Skriðuáss er Kotaberg að Vondasigi.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – hér fellur Mígandi fram af berginu í skoruna nær.

Framan í Skriðu er Ræningjastígur og er gengur með varúð niður í fjöru. Þar sem Skriða snýr við vesturátt er neðarlega á móbergshellunni svo nefnd Hermannshilla. Upp Ræningjastíg áttu Tyrkir að hafa komist 1627 er þeir rændu hér við land. Lundapallur er hér vestan í Skriðu. Hann er einnig kallaður Lundatorfa. Skriðunef tala menn um að hér hafi verið nefnt. Einstigið liggur hér niður skriðurnar niður á Hermannshillu, sem er hér niður undir fjöru, en þó verður að síga af henni niður í fjöruna. Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og Fossinn Mígandi. Kirkjufjara er er undir Hei[ð]nabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri.“

Mígandagróf

Mígandagróf.

Nafngiftin „Mígandi“ er einnig til á litlum fossi í Hvalfirði, háum fossi norður af Dalvík, myndarlegum fossi í Vatnsdal Austur-Húnavatnssýslu (einnig nefndur Hjallafoss), á fossi austur af Bjarnanúp á Vestfjörðum og auk þess má finna örnefnið Mígandagróf ofan Lönguhlíða á Reykjanesskaganum.

Sjá myndband um austanvert Krýsuvíkurberg HÉR.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.

Krýsuvíkurberg

Krýsuvíkurberg – Eystri-lækur og fossinn nafnlausi á góðum degi.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson var borinn til grafar frá Sandgerðiskirkju 1. febrúar 2024. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 21, janúar, 75 ára að aldri.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson.

Reynir var rafvirki og mikill Sandgerðingur enda bjó hann allt sitt líf í Sandgerði. Hann lét mikið að sér kveða alla tíð í þágu samfélagsins í Sandgerði og kom víða við. Hann átti sæti í sveitarstjórn í 20 ár og starfaði í hafnarráði Sandgerðishafnar í 16 ár. Hann starfaði í sóknarnefnd Hvalsneskirkju í 35 ár, þar af sem formaður sóknarnefndar í 30 ár.

Reynir rak fyrirtæki sitt Rafverk hf í um 30 ár en starfaði eftir það í Fræðasetrinu í Sandgerði sem síðar varð Þekkingarsetur Suðurnesja þar til hann lauk sínum starfsferli um 70 ára aldur. Auk allra þessara starfa í þágu samfélagsins var Reynir annálaður leiðsögumaður, enda þekkti hann hvern krók og kima ásamt alls kyns sögur sem tengjast svæðinu.

Reynir Sveinsson

Reynir (á miðri mynd) á ferð um Árnastíg með Svæðaleiðsögumönnum Reykjanesskaga.

Hann var mikill ljósmyndari og hann skilur eftir sig gríðarlegt magn ljósmynda sem fanga sögu Sandgerðis og nágrennis og er hluti af menningararfi sveitarfélagsins. Auk alls þessa var hann fréttaritari Morgunblaðsins um langt skeið, þar sem hann kom á framfæri fréttum af mannlífi í Sandgerði og nágrenni.

Reynir fæddist 2. júní 1948. Hann var fjórði í röðinni í hópi sjö systkina, lærði rafvirkjun hjá föður sínum og hóf síðar störf hjá Sandgerðisbæ sem forstöðumaður Fræðasetrinu. Þar starfaði Reynir lengi, aðallega við móttöku gesta og leiðsögn enda vel staðkunnugur á Reykjanesskaganum. Vann einnig með ýmsu móti að eflingu ferðaþjónustu í nærsamfélagi sínu.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson.

Reynir starfaði mikið og lengi að félagsmálum á Suðurnesjum, sat t.d. í bæjarstjórn Sandgerðis og í hafnarráði sveitarfélagsins. Gegndi jafnframt ýmsum trúnaðarstörfum öðrum á sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Reynir var mjög virkur í björgunarsveitinni Sigurvon ásamt hörðum kjarna sem byggði björgunarmiðstöðina í Sandgerði. Þá var Reynir í Slökkviliði Sandgerðis í 40 ár og slökkviliðsstjóri í níu ár.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson í Hvalsneskirkju.

Á vefsíðu Þjóðkirkunnar, kirkjan.is, má lesa um áhuga Reynis Sveinssonar, formanns sóknarnefndar Hvalsnesóknar og fyrrum FERLIRsfélaga undir fyrirsögninni „Fólkið í kirkjunni„:

„Reynir Sveinsson, formaður sóknarnefndar Hvalsnessóknar í Útskálaprestakalli, er einn af þeim mönnum sem verða máttarstólpar í sínu samfélagi. Hann hefur komið víða við. Rak rafmagnsverkstæði í áratugi, tekið þátt í stjórnmálum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, setið í bæjarstjórninni, verið virkur í björgunarsveitinni Sigurvon sem er elsta sveitin í Slysavarnafélagi Íslands, stofnuð eftir strand togarans Jóns forseta árið 1928 við Stafnes. Verið slökkviliðsstjóri, flinkur ljósmyndari allt frá fermingu, fréttaritari Morgunblaðsins, forstöðumaður Fræðaseturs í Sandgerði, leiðsögumaður … og svo mætti lengi telja. Maður sem hefur látið samfélagsmál sig varða og ekki talið neitt eftir sér.

Reynir Sveinsson

Reynir í hópi Svæðaleiðsögunema Reykjanesskagans.

Reynir er hógvær maður og viðræðugóður. Margfróður um sögu síns samfélags og er kirkjunnar maður.

Hvalsneskirkja er honum kær.

„Ég var alinn upp á trúræknu heimili,“ segir Reynir Sveinsson, formaður sóknarnefndar Hvalsnessóknar í Útskálaprestakalli, „móðir mín söng alla sálmana með útvarpsmessunum á sunnudögum og virtist kunna þá alla“. Hún hét Guðbjörg Hulda Guðmundsdóttir, húsfreyja, og faðir hans Sveinn Aðalsteinn Gíslason, rafveitustjóri.

Kirkjan er 135 ára á árinu

Hvalsneskirkja

Núverandi Hvalsneskirkja var vígð á jóladag 1887. Hún er staðsett á vestanverðu Reykjanesi, kirkja Sandgerðinga. Ketill Ketilsson stórbóndi í Kotvogi, þáverandi eigandi Hvalsnestorfunnar kostaði kirkjubygginguna. Hvalsneskirkja er byggð úr tillhöggnum steini og var grjótið sótt í klappir í nágrenninu. Um steinsmíði sá Magnús Magnússon og Stefán Egilsson, um tréverk sá Magnús Ólafsson. Allur stórviður hússins var fenginn úr fjörunum í nágrenninu, m.a. súlurnar. Viðamiklar viðgerðir fóru fram árið 1945 undir umsjón Húsameistara ríkisins. Kirkjan er enn starfandi í dag og rúmar 100 manns. Kirkjan er friðuð. Altaristaflan er eftirgerð af Dómkirkjutöflunni máluð af Sigurði Guðmundssyni árið 1886 og sýnir hún upprisuna. Einn merkasti gripur kirkjunnar er legsteinn yfir Steinunni Hallgrímsdóttur sem dó á fjórða ári (1649). Hún var dóttir Hallgríms Péturssonar (1614-1674) mesta sálmaskálds Íslendinga sem þjónaði þá sem prestur í Hvalsnessókn, hans kona var Guðríður Símonardóttir. Hallgrímur Pétursson þjónaði á Hvalsnesi fyrstu prestskaparár sín 1644-1651. Hella þessi var lengi týnd en fannst 1964 þar sem hún hafði verið notuð í stéttina framan við kirkjuna. Kirkja hefur liklega verið á Hvalsnesi lengi, hennar er fyrst gerið í kirknaskrá Páls biskups frá 1200.Hvalsnes var fyrrum prestssetur og útkirkjur í Kirkjuvogi og Innri-Njarðvík. Hvalsnesprestakall var lagt niður 1811 og Hvalsnes- og Kirkjuvogskirkjur lagðar til Útskála. Íbúarnir voru mjög ósáttir við það og var ný kirkja byggð 1820 og var hún timburkirkja. Núverandi kirkja er fyrsta kirkjan sem stendur utan kirkjugarðs. Í kaþólsku tengdust margir dýrlingar kirkjunni, María guðsmóðir, Ólafur helgi, heilög Katrín, Kristur, allir heilagir og hinn helgi kross.

Reynir er búinn að vera sóknarnefndarformaður í rúm þrjátíu ár. „Var kosinn formaður að mér fjarverandi,“ segir hann með bros á vör. „Og er enn að, 74 ára.“

Þegar tíðindamann kirkjunnar.is bar að garði voru menn að vinna í turninum. „Þessi fallegi turn er einstakur,“ segir Reynir, „hann var orðinn fúinn að hluta til og skreytingar á honum höfðu fokið út í veður og vind.“

„Kirkjan er friðuð,“ segir hann, „Minjastofnun hefur verið mjög hliðholl öllum framkvæmdum við kirkjuna.“

Hvalsneskirkja var vígð á jóladag árið 1887 og verður því 135 ára á næstu jólum. Kirkjan var svo tekin í gegn 1945 en síðan hefur margt verið unnið henni til góða.

„Fyrsta sem ég gerði eftir að ég varð formaður var að hafa forystu um að hlaðnir yrðu grjótgarðar í kringum kirkjugarðinn,“ segir hann og bendir á fallega hleðslu. „Það var Sveinn Einarsson frá Hnjóti á Egilsstöðum sem hlóð þá – hann var 83ja ára – og blés ekki úr nös!“

Kirkjan og hafið
Reynir þekkir sögu kirkjunnar í þaula og rekur hana vel og áreynslulaust. Enda hefur hann þurft að segja hana býsna oft því að alls konar hópar sækja kirkjuna heim og óska eftir því að fá að heyra sögu hennar.

Nábýli við hafið gefur og tekur. Margur hefur farist á Suðurnesjunum. Eitt kunnasta strandið er þegar togarinn Jón forseti strandaði á rifi við Stafnes í febrúar 1928. Tíu mönnum var bjargað en fimmtán drukknuðu.

En það var seglskipið Jamestown sem gaf mikið timbur af sér. Árið 1881 rak það mannlaust að landi Hvalsness gegnt Kotvogi. Skipið var fullt af timbri. Reynir segir að efnaðir bændur hafi keypt timbur úr skipinu. Ketill í Kotvogi keypti aðra síðuna, hún var dregin yfir ósinn í Hafnir og var það margra mánaða vinna að taka hana í sundur. Allt hafi verið neglt með koparnöglum.

Hvalsneskirkja

Í Hvalsneskirkju.

„Kirkjugólfið er allt úr Jamestown,“ segir Reynir, „og prédikunarstóllinn – úr amerískum rauðviði.“ Hann segir prédikunarstólinn vera þungan og hafi gólfið sigið undan honum um 6 sm. Það var lagfært og gólfplankarnir hvíla á grjóti en eru ekki festir út í kirkjuveggi. Jónískar súlur til sitt hvorrar handar eru einnig úr plönkum úr skipinu.

Kirkjubóndinn Ketill Ketilsson í Kotvogi lét reisa Hvalsneskirkju. Þar hefur kirkja staðið frá allt frá 1200. Ketill frétt að verið væri að reisa hlaðna kirkju í Njarðvík. Snaraðist þangað og samdi við steinsmiðina um að koma á Hvalsnes þegar verkinu væri lokið og hefja þar hleðslu. Grjótið var tekið úr klöppinni fyrir utan túnið og því ekki langt að fara.
„Hvalsneskirkja er af svipaðri stærð og Njarðvíkurkirkja,“ segir Reynir, „tveimur steinaröðum hærri, þakið brattara, – hún tekur um 100 manns í sæti.“

Einstakar minjar og góðir gipir

Hvalsneskirkja

Skírnarfonturinn smíðaður 1835-1837.

Hvalsneskirkja geymir legstein Steinunnar Hallgrímsdóttur sem sr. Hallgrímur Pétursson meitlaði en hún dó á barnsaldri. Steinninn er í kór kirkjunnar. Sr. Hallgrímur var vígður á sínum tíma til Hvalsnesssóknar og var þar prestur í sjö ár, 1644-1651.

„Skírnarfonturinn er frá því um 1835,“ segir Reynir, „og það er skemmtileg saga í kringum hann: Bóndinn í Stafnesi lá í fimmtán ár og var með öllu ógöngufær. Meðan svo stóð þá dundaði hann við að smíða þennan skírnarfont sem hann gaf síðan kirkjunni. Þegar búið var blessa skírnarfontinn þá gerist það undir að hann fær mátt í fæturna og gat gengið um.“

Fylgst vel með öllu
Reynir segir að ástand kirkjunnar og innanstokksmuna sé gott. Þó eigi eftir að laga altaristöfluna sem er eftir Sigurð málara Guðmundsson.

Hvalsneskirkja

Altaristaflan er eftir Sigurð Guðmundsson, málara, frá 1867 – eftirmynd af töflu Dómkirkjunnar.

„Þegar maður horfir vel á hana sést að hún er ögn gisin á köflum,“ segir hann. Altaristaflan er upprisumynd í sama stíl og tafla Dómkirkjunnar, „Já, og í Kirkjuvogskirkju og á Ingjaldssandi – íslenskur sérfræðingur sem starfar í Hollandi sagði mér að þær væru tíu svona á landinu.“ Farið var yfir allt grjótið í kirkjunni og fúgur lagaðar þar sem með þurfti. Lofthvelfingin var yfirfarin og þiljunar slegnar saman og fellt í rifur. Þá var þakið klætt kopar og kirkjuhurðir endursmíðaðar og gluggar settir í með tvöföldu gleri.

„Allar þessar framkvæmdir kosta sitt en við fáum styrki úr ýmsum sjóðum kirkjunnar,“ segir Reynir. „Gjaldendur í sókninni eru um 1000 og Hvalsnessókn er að Garðskaga og þá tekur Útskálasókn við, erum í Útskálaprestakalli.“

Ánægjuleg umsjón
Reynir segir að starfið í kringum kirkjuna sé allumsvifamikið og veiti það honum mikla ánægju.

Reynir Sveinsson

Reynir Sveinsson – lósmyndarinn.

Kirkjan sé vinsæl fyrir ýmsar kirkjulegar athafnir eins og brúðkaup. Hljómburður er afar góður í kirkjunni og hafi dregið tónlistarfólk að henni eins og Sumartóna á Suðurnesjum. Þá hafi kirkjan sjálf og umhverfi hennar heillað kvikmyndagerðarmenn sem hafa nýtt sér hana og nefnir hann mynd Friðriks Þórs, Á köldum klaka, og mynd Baltasars Kormáks, Mýrina, sem dæmi. Hann hlær glettnislega þegar hann segir frá tuttugu manna erlendu tökuliði sem kom til að taka upp og var þar í einn dag. „Það voru miklar tilfæringar og stúss,“ segir hann og síðar sýndi einn honum atriðið sem tekið hafði verið upp. „Það var þá sex sekúndur,“ hlær Reynir.

Reynir Sveinsson

Reynir á ferð með Svæðaleiðsögumönnum Reykjanesskagans.

Snoturt aðstöðuhús er skammt frá kirkjunni og breytti það öllu til hins betra segir Reynir. „Það er þrefalt torflag á þaki þess og dugði ekki minna.“

Þá getur Reynir þess í lokin að í Sandgerði sé Safnaðarheimili, Sandgerðiskirkja, og þar fari fram fjölmennar athafnir.

Hvalsneskirkja er svo sannarlega í góðum höndum undir forystu Reynis.

Reynir Sveinsson, sóknarnefndarformaður Hvalsnessóknar, er einn af þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni. Kirkjan er söfnuðurinn; fólkið.“ -hsh

Sandgerði

Reynir í Sandgerði á knattspyrnuvellinum að kveldi til.

FERLIRsfélagar minnast Reynis sem góðs og glaðværs manns. Börnin sín sagðist hann eiga íþróttafélaginu, Reyni í Sandgerði, að þakka. Það hafi heitið eftir honum. Þegar leikir fóru fram á íþróttaleikvanginum að kvöldi til hafi ómuð hávær hvatningaköllin; „Reynir, áfram Reynir“, hvatt hann verulega til dáða þá og þar sem eiginkonan var annars vegar.
Þegar Reynir var við nám í Svæðaleiðsögn á Reykjanesskaganum var ein áskorunin m.a. fólgin í „rútuleiðsögn“ um Skagann.

Reynir Sveinsson

Reynis Sveinsson.

Sérhver nemandi átti að lýsa fyrir öðrum nemendum í tíu mínútur tilteknum hluta leiðarinnar. Það kom í hlut Reynis að lýsa leiðinni frá Þórkötlustaðahverfi, framhjá Hrauni og upp Siglubergsháls að Ísólfsskála. Í minningunni var þessi kafli leiðsagnarinnar hin eftirminnilegasti í ferðinni. Reynir settist í stól leiðsögumannsins fremst í rútunni, horfði um stund á hljóðnemann, fletti þegjandi um stund blöðum í möppu og leit rólega í kringum sig, en sagði ekki orð alla leiðina. Þegar hann var spurður að ferð lokinni hvað hefði gerst svaraði hann: „Blöðin í möppunni voru bara ekki á réttum stað“. Málið var að Reynir gerþekkti umhverfi Sandgerðis og nágrennis, eins og gerist jafnan um heimalinga, en þegar út fyrir það var komið reyndist róðurinn þyngri, eins og sagt er á sjóaravísu.
Reynir Sveinsson var alltaf reiðubúinn að aðstoða eða upplýsa FERLIR um staði í og við Sandgerði, verkefni Fræðasetursins eða einstaka viðburði, s.s. á sviði Lionsfélagsskaparins, líkt og sjá má annars staðar á vefsíðunni. Blessuð er minning hans.

Heimildir:
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/01/23/andlat_reynir_sveinsson/
-https://www.sudurnesjabaer.is/is/moya/news/reynir-sveinsson-minning
-https://kirkjan.is/frettir/frett/2022/07/09/Folkid-i-kirkjunni-Enn-ad/?fbclid=IwAR139S9dMYMygJt6XNv19tpViZ79LoAPNqarhoIUjSd6Iu1Y4VbInwWJGlA

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja 1. febr. 2024.

Hraunin - Glaumbær

Í Lesbók Morgunblaðsins 1987 fjallar Gísli Sigurðsson, ritstjóri Lesbókarinnar, um „Hallir Sumarlandsins við Hvassahraun“:

Hvassahraun

Hvassahraun 2021.

„Þegar komið er framhjá Kúagerði á leiðinni frá Keflavík til Reykjavíkur, blasir allt í einu við einkennileg byggð í hrauninu, sem hlýtur að gefa ókunnum útlendingum einkennilega hugmynd um menningu og bústaði landsmanna. Glöggskyggn gestur sér að vísu af Keflavíkurveginum, að naumast geti verið búið í þessum kofum, því þar er yfirleitt ekki til gler í gluggum, heldur gapa augntóftir húsanna við vegfarendum, eða þá að neglt hefur verið fyrir þær. Og einn er brunninn til ösku. Þetta gæti minnt víðförla ferðamenn á hreysin í fátækrahverfum Mexikó City og Hong Kong, sem byggð hafa verið úr kassafjölum, en að vísu mun þéttar en hallir sumarlandsins við Hvassahraun. Þar er heldur ekki trjágróður til að fela óþrifnað af þessu tagi; hann blasir við svo skýrt sem framast má verða og eru spýtnahrúgur og ryðbrunnar olíutunnur hafðar með til skrauts.

Hvassahraun

Hvassahraun 1987.

Á sólbjörtum sumardegi, þegar undirritaður tók myndirnar, virtist ekki nokkra lifandi veru að sjá þarna utan mófugla og kríu, sem gerði harða hríð að komumanni. Litlu síðar hitti ég tvo útlendinga á bílaleigubíl og til að kanna viðbrögðin, benti ég þeim á kofana og spurði hvort þeir vissu hvaða bær þetta væri. Þeir vissu það að sjálfsögðu ekki, en annar sagði: „Það virðist vera draugabær“ (It seems to be a ghost town).

Hvassahraun

Bergstaðastræti 7.

Einhver hlýtur að eiga þetta land og hefur þá heimilað þessi sorglegu hús, ef hús skyldi kalla. Einhverjir hljóta að eiga þau og einhver yfirvöld hljóta að geta ráðið því, hvort þau fá að standa svona áfram, gestum til furðu og okkur til lítils sóma.“ – Gísli Sigurðsson.

Húsið að Bergsstaðastræti 7 var byggt 1902, en flutt að Hvassahrauni um 1967. Vigdís Hrefna Pálsdóttir, leikkona, og Arnar Úlfar Höskuldsson, húsasmiður, keyptu húsið 2017 og vilja færa það á lóð að Bergsstaðastræti 18 og gera það í upprunalega mynd.

Íbúðarhúsið við Hvassahraun var rifið 2024.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 26. tbl. 22.08.1987, Hallir Sumarlandsins við Hvassahraun – Gísli Sigurðsson, bls. 16.

Hvassahraun

Hvassahraun – loftmynd.

Kálfatjörn

Farið var í fylgd Ólafs Erlendssonar, 87 ára, um Kálfatjarnarland. Ólafur er fæddur í Tíðargerði, sem er skammt vestan við túngarðinn á Kálfatjörn, en ólst upp á Kálfatjörn og þar bjó systir hans, Herdísi, til 78 ára aldurs, eða þangað til íbúðarhúsið brann.

Kálfatjörn

Ólafur Erlendsson með FERLIRsfélaga við Landabrunninn.

Ólafur sagðist vel muna eftir Flekkuvíkurselinu. Þangað hefði hann komið fyrst um 1921 og þá hefðu húsin verið nokkuð heilleg. Þegar hann hafi komið þangað um 1987 hafi orðið þar mikil breyting á. Hann sagði að í þurrkatíð hafi fé verið rekið úr selinu niður í Kúagerði til brynningar. Einungis hafi fé verið haft í seli í Flekkuvíkurseli. Hann sagðist hafa séð norðurtóttina í selinu, en ekki vitað hverjum hún tilheyrði. Hann sagði landamerki Flekkuvíkur og Vatnsleysu hafa legið um Nyrðri Flekkuvíkurselásinn og því gæti tóttin hafa verið sel frá síðanefnda bænum.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Hann vissi til þess að Þórður Jónsson, faðir Sæmundar á Stóru-Vatnsleysu hafi látið leggja veg upp að Höskuldarvöllum og ræktað vellina. Hann hafi haft margt fé, allt að 600 kindur, og því hefði þurft að heyja talsvert á þeim bænum.

Hvassahraun

Hvassahraun – rétt.

Ólafur benti á stað þar sem gamli Keflavíkurvegurinn kemur undan nýja veginum að sunnanverðu skammt norðan Hvassahrauns. Sagði hann þar heita Gíslaskarð.
Hól á hæðinni áður en Hvassahraun birtist hægra megin vegarins sagði Ólafur heita Skyggnir. Norðan undir honum er gamla Hvassahraunsréttin. Samnefndur hóll er einnig við Minni-Vatnsleysu.
Ólafur sagðist muna eftir því að Hvassahraunsbændur, en þar voru 5-6 kot, hafi verið iðnir við brugggerð. Þeir hefðu aldrei viljað gefa upp hvar brugghellirinn var. Hann nefndist Brandshellir. Í honum átti að hafa verið soðinn landi með tveimur þriggja hana prímusum. Staldrað var við á Reykjanesbrautinni og Ólafi bent á staðsetningu hellisins.

Ólafur Erlendsson

Ólafur Erlendsson við Kálfatjörn.

Þegar ekið var eftir Vatnsleysustrandarveginum sagði Ólafur flötina ofan við bogadregna strandlengjuna hafa verið nefnd Búðabakki. Þar væru til sagnir af veru þýskra kaupmanna fyrr á öldum.
Bændur á Ströndinni keyptu vörubíl árið 1921 og stofnuðu Bifreiðastjórafélag til að annast mjólkurflutninga frá bæjunum. Gamlivegur hafi lítið verið notaður. Hann mynnti að vegavinnuverkstjórinn hafi heitið Brynjólfur, en bændur hefðu gert kröfu um að þjóðvegurinn lægi nær bæjunum er sá vegur, aðallega vegna mjólkurflutninganna.
Efst á hæðinni vestan við Stóru-Vatnsleysu er varða á hól hægra megin. Ólafur sagði hana vera leifarnar af svonefndum Tvívörðum, sem þarna höfðu verið sitt hvoru megin vegarins. Þær hefðu verið teknar undir veginn, eins og flest annað tiltækt grjót á þeim tíma. Þá hefðu minkaveiðimenn oft farið illa með garða og vörður til að ná í bráð sína.

Borgarkot

Borgarkot – stórgripagirðing.

Þannig hefði t.d. Stóra Skjólgarði verið að hluta til rutt um koll þegar verið var að eltast við mink. Hermannavarða hafi verið 1 og ½ meters há varða á hæsta hól neðst á Keilisnesi. Danskir hermenn, sem voru að vinna landmælingarkort, hefðu hlaðið vörðuna, en þegar minkur slapp inn í hana löngu seinni, hafi henni verið rutt um koll. Nú sæist einungis neðsta lagið af vörðunni á hólnum.
Ólafur sagði frá strandi togarins Kútt við Réttartanga. Mannbjörg varð, en bændur hefðu rifið og nýtt svo til allt úr togaranum. Faðir hans hefði misst heyrn í öllum látunum. Gufuketillinn úr bátnum er nú við Sjóminjasafnið í Hafnarfirði. Á tanganum strandaði einnig báturinn Haukur og fórust allir. Fimm lík rak á land og var kistulagt í Helgatúni.
Ólafur lýsti gerð Staðaborgarinnar og takmörkunum prests.

Staðarborg

Staðarborg.

Niður við ströndina, vestan við Keilisnesið, heitir Borgarkot. Þar eru allnokkrar rústir. Fyrrum hafi Viðeyjarklaustur beitt sauðum á gróið svæðið, en síðar hafi Kálfatjörn skipt á sauðabeit þar við Krýsuvík og selsaðstöðu í Sogagíg. Kotið hafi verið byggt síðar. Þar niður frá hefði verið rétt. Benti hann á að ræða einhvern tímann við bræðurnar Geir og Frey í Litlabæ. Á Keilisnesi væru t.d. tveir Vatnssteinar, náttúrlegir drykkjarsteinar og Bakkastekkur í heiðinni suðaustan við Bakka. Ólafur sagðist hafa gengið mikið um Vatnsleysustrandarheiðina í smalamennsku. Þeir hafi þurft að fara alla leið að Sýslusteini og rekið féð yfir að Vigdísarvöllum. Þar hafi verið réttað; fé Grindavíkurbænda og Hafnfirðinga skilið að, og þeir rekið sitt fé áfram niður á Strönd.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur ofan Bæjarfells Vigdisarvalla.

Þeir hefðu yfirleitt farið Þórustaðastíginn og síðan Hettustíg til Krýsuvíkur. Þar hefðu þeir gist í kirkjunni hjá Magnúsi, en einu sinni hafi hann gist í baðstofunni á Stóra-Nýjabæ.
Staðnæmst var skammt fyrir innan garð á Kálfatjörn og gengið vestur með suðurgarðinum. Þar rétt innan garðs, Heiðargarðs, er fallegt vatnsstæði, Landabrunnur. Ólafur sagði fólkið á Kálfatjörn hafa þvegið þvotta í vatnsstæðinu. Við það jafi verið sléttur þvottasteinn, hella, en henni hefði sennilega verið hent ofan í vatnsstæðið. Norðan við vatnsstæðið mun heita Landamói og túnið Land eða Landatún.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – túnakort 1919.

Ólafur lýsti og benti á staðsetningu kotanna á Kálfatjörn, s.s. Hátún hægra megin við veginn þar sem gólfskálinn er nú, Fjósakot austan kirkjunnar, Móakot, norðan hennar, Hólkot, ö.o. Víti, þar skammt norðar. Utar væru Bakki, Bjarg og Gamli Bakki, tóttin næst sjónum, og Litlibær, Krókur og yst Borgarkot. Neðan við Bakka er Bakkvör. Norðvestan við kirkjuna, utan garðs, er Goðhóll, Naustakot nær sjónum og Norðurkot utar. Neðan þess er Norðurkotsbyrgið (stendur nokkuð heillegt). Í því var saltaður fiskur. Austan þess var Kálfatjarnarbyrgi (Byrgið), en það er nú horfið. Austan þess með ströndinni er Goðhólsvör og Kálfatjarnarvör. Ofan vararinnar sjást leifar af gömlu tréspili. Austan þess er Snoppa, langur tangi. Landmegin er veglegur garður, en við hann var hlaðin bátarétt, Skiparéttargarðurinn. Vestan hennar eru tvö fjárhús, en norðan hennar, sjávarmegin, var fjós. Það er nú horfið. Enn vestar sjást leifar af garði. Þar var gömul rétt, Hausarétt.

Kálfatjörn

Kirkjubrúin við Kálfatjörn.

Vestan við Kálfatjarnatúnið er Hlið og Tíðargerði. Þá koma Þórustaðir.
Skoðaður var ártalssteinninn (1674), sem fannst niður í fjöru fyrir nokkru. Hann er nú upp við safnaðarheimilið. Ólafur sagðist vel muna eftir steininum. Hann hefði stundum setið á honum þar sem hann var fast vestan við garðinn ofan við Snoppu. Hann hefði stundum setið á honum á góðvirðisdögum. Hann og Gunnar, bróðir hans sem nú er látinn, hefðu síðar leitað nokkuð að honum, en ekki fundið aftur. Ólafur var upplýstur um að steinninn hefði fundist um 30 metrum vestar. Sagði hann það vel trúanlegt því sjórinn hefði þegar brotið niður öll mannvirki á milli garðsins og Snoppu og hann hafi því vel getað fært steininn til þessa vegarlengd.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – hlaða.

Þegar ekið var niður með hlöðunni, hlöðnu húsi norðvestan kirkjunnar, sagði Ólafur, hana vera meira en aldargamla. Hún er að hluta til hlaðinn úr reglulegu grjóti. Kristján Eldjárn hefði viljað láta friða húsið á sínum tíma.
Hægra megin vegarins er vatnsstæði, Víti. Ólafur sagði það botnlaust. Nafnið hefði færst yfir á Hólkotið, sem stóð norðan við Víti, eftir að vísa hefði verið ort um staðinn í tengslum við áfengi.

Kálfatjörn

Letursteinn (skósteinn) í Kirkjubrúnni.

Vinstra megin vegarins er brunnur, Kálfatjarnarbrunnur. Ólafur sagði að gera þyrfti þessum brunni hærra undir höfði því hann væri einn elstur hlaðinna brunna á Suðurnesjum. Norðar er tjörn, Kálfatjörn. Vestan hennar er tótt á hól. Ólafur sagði hana hafa verið sjóbúð.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – Tjörnin.

Vestan við tjörnina er Síkið, en áður hafi verið rás, Rásin, inn í það. Bróðir hans hefði stíflað Síkið, en smám saman hefði sjávarsandurinn fyllt það upp. Túnið norðan og vestan við Kálfatjörn er mest vegna slíks sandburðar. Norðan Kálfatjarnar er gamall garður, vestan hans eru garðanir ofan við Snoppu. Ólafur lýsti skerjunum utan við ströndina, flókinni innsiglingunni inn í Kálfatjarnavör og sandmaðkstýnslu vestan við Bakkasund.

Prestsvarða

Prestsvarða.

Ofan Vatnsleysustrandarvegar, skammt austan gatnamótana að Kálfatjörn, stendur Prestsvarðan. Upp á hæðinni nokkru austar, norðan vegarins, er Stefánsvarða. Hún stendur við gömlu Almenningsleiðina og var nefnd eftir séra Stefáni Thorarensen (1857-1886).
Gerður var grófur uppdráttur af kotum Kálfatjarnar eftir lýsingu Ólafs, sem og öðrum mannvirkjum.

 

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Eldborgir

Í Andvara 1973 er grein eftir Finnboga Guðmundsson; „Gripið niður í fornum sögum – og nýjum„:

Kristnitökuhraun

Kristnitökuhraun – kort.

Þar segir m.a. annars: „Hvað er það í fornum frásögnum, er hrífur oss einna mest? Eru það ekki hinir einföldu drættir og skýru myndir, sem þar er tíðum brugðið upp?
Vér skulum líta á t.a.m. örfáar frásagnir af jarðeldum eða öðrum náttúruhamförum“.

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Í Landnámabók segir svo frá: „Allir kannast við frásögn Kristnisögu af því, er menn deildu sem fastast um hinn nýja sið á alþingi sumarið 1000 og maður kom „hlaupandi og sagði, að jarðeldur var upp kominn í Ölfusi og mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða [er þá hafði tekið kristni].
Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undur í, að goðin reiðist tölum slíkum.“

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá.

Þá mælti Snorri goði: „Um hvað reiddust goðin þá, er hér hrann hraunið, er nú stöndum vér á?“ Eftir það gengu menn frá lögbergi.
Jarðfræðilegar athuganir á Eldborgarhrauni og hraunum Hellisheiðar hafa leitt í ljós, að frásagnir Landnámabókar og Kristnisögu af fyrrnefndum jarðeldum fá að öllum líkindum staðizt, að Eldhorgarhraun hið yngra hafa raunverulega runnið á landnámsöld og hraun hafi teygt arma sína af Hellisheiði ofan í byggð sumarið 1000.“

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1973, Gripið niður í fornum sögum – og nýjum – Finnborgi Guðmundsson, bls. 100-101.

Kristnitökuhraun

Eldborgir efst í Svínahrauni.