Hraunin - Glaumbær

Í Lesbók Morgunblaðsins 1987 fjallar Gísli Sigurðsson, ristjóri Lesbókarinnar, um Hallir Sumarlandsins við Hvassahraun:

Hvassahraun

Hvassahraun.

“Þegar komið er framhjá Kúagerði á leiðinni frá Keflavík til Reykjavíkur, blasir allt í einu við einkennileg byggð í hrauninu, sem hlýtur að gefa ókunnum útlendingum einkennilega hugmynd um menningu og bústaði landsmanna. Glöggskyggn gestur sér að vísu af Keflavíkurveginum, að naumast geti verið búið í þessum kofum, því þar er yfirleitt ekki til gler í gluggum, heldur gapa augntóftir húsanna við vegfarendum, eða þá að neglt hefur verið fyrir þær. Og einn er brunninn til ösku. Þetta gæti minnt víðförla ferðamenn á hreysin í fátækrahverfum Mexikó City og Hong Kong, sem byggð hafa verið úr kassafjölum, en að vísu mun þéttar en hallir sumarlandsins við Hvassahraun. Þar er heldur ekki trjágróður til að fela óþrifnað af þessu tagi; hann blasir við svo skýrt sem framast má verða og eru spýtnahrúgur og ryðbrunnar olíutunnur hafðar með til skrauts.

Hvassahraun

Hvassahraun 1987.

Á sólbjörtum sumardegi, þegar undirritaður tók myndirnar, virtist ekki nokkra lifandi veru að sjá þarna utan mófugla og kríu, sem gerði harða hríð að komumanni. Litlu síðar hitti ég tvo útlendinga á bílaleigubíl og til að kanna viðbrögðin, benti ég þeim á kofana og spurði hvort þeir vissu hvaða bær þetta væri. Þeir vissu það að sjálfsögðu ekki, en annar sagði: „Það virðist vera draugabær” (It seems to be a ghost town).
Einhver hlýtur að eiga þetta land og hefur þá heimilað þessi sorglegu hús, ef hús skyldi kalla. Einhverjir hljóta að eiga þau og einhver yfirvöld hljóta að geta ráðið því, hvort þau fá að standa svona áfram, gestum til furðu og okkur til lítils sóma.” – Gísli Sigurðsson

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 26. tbl. 22.08.1987, Hallir Sumarlandsins við Hvassahraun – Gísli Sigurðsson, bls. 16.

Hvassahraun

Hvassahraun – loftmynd.