Fornleifafræðingar Minjastofnunar í kapphlaupi við tímann….
Í Fréttablaðið.is 5. mars 2021 mátti lesa eftirfarandi „frétt“; „Minjar í hættu samkvæmt spá um hraunrennsli“. Þar segir m.a.:
Yfirlitskort Minjastofnunar er unnið út frá þeim minjum sem eru þekktar og eru á skrá hjá stofnuninni en fleiri minjar er að finna á svæðinu þar sem heildarskráning fornleifa á svæðinu hefur ekki farið fram.
Fornleifafræðingar Minjastofnunar eru í kapphlaupi við tímann að skrá minjar sem eru í hættu miðað við hraunrennslisspá. Enn á eftir skrá margar minjar sem gætu glatast að eilífu komi til eldgoss.
„Fjölmargar friðaðar og friðlýstar minjar eru á óróasvæðinu og enn á eftir að skrá margar minjar með fullnægjandi hætti að sögn Sólrúnar Ingu Traustadóttur fornleifafræðings. Hætta er á að þær glatist að eilífu komi til eldgoss.
„Fjöldi þekktra friðaðra minja er á svæðinu. Minjarnar tilheyra ýmsum minjaflokkum en helst er að nefna fjölmörg sel, bæði frá bæjum sunnan- og norðanvert á Reykjanesskaganum,“ útskýrir Sólrún. Hún segir helstu selin í hættu vera Dalssel við Fagradalsfjall, Knarrarnessel, Auðnasel, Fornasel, Rauðhólasel, Seltó, Kolhólasel, Oddafellssel nyrðra og syðra sem eru sunnan Reykjanesbrautar.
Ekki er talið líklegt að gos hefjist á næstu klukkustundum og lauk gosóróanum sem hófst um klukkan 14:20 á miðvikudag um miðnætti þann sama dag.
„Nú er viðvarandi skjálftavirkni á svæðinu en óróinn var bara á miðvikudag,“ segir Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur, í samtali við Fréttablaðið.“
Staðreyndirnar eru hins vegar þessar:
Í fyrsta lagi; Minjastofnun hefur sýnt minjum á svæðinu takmarkaðan áhuga í gegnum tíðina, jafnvel svo jaðrar við vanrækslu, þrátt fyrir þrálátar ábendingar. Eitt svarið við einni slíkri ábendingu var t.d.: „Það eru engar merkilegar minjar á svæðinu“.
Í öðru lagi; Minjastofnun hefur hingað til ekki haft einn sérstakan minjavörð er gætt hefur hagsmuni svæðisins sérstaklega, líkt og um aðra landshluta.
Í þriðja lagi; Minjastofnun á að vita að áhugasamir einstaklingar, umfram starfsfólk hennar, hefur bæði skoðað, skráð, ljósmyndað, teiknað upp og fjallað opinberlega um allar mikilvægar minjar á svæðinu. Má þar t.d. nefna Sesselju Guðmundsdóttur o.fl. Þessir aðilar hafa haldið skrár, þ.á.m. hnitaskrár, af öllum fornminjunum. Stofnunin hefur hins vegar haft lítinn áhuga á samvinnu við þetta fólk, a.m.k. hingað til.
Í fjórða lagi; Minjastofnun má vita að allar selstöðurnar á svæðinu hafa þegar verið skráðar, hnitsettar, ljósmyndaðar og teiknaðar upp. Heimildir um það liggja fyrir í opinberum skrám, öðrum en hennar.
Í fimmta lagi; Seltó var ekki selstaða í eiginlegum skilningi, líkt og þekktist í heiðinni. Staðurinn var að vísu nytjastaður til hrístöku fyrrum, líkt og nafnið bendir til, þótt þar finnast engar minjar þess í dag.
Í sjötta lagi; Ef Minjastofnun vildi leggja áherslu á minjasvæði á mögulegu gossvæði ætti starfsfólkið að beina athygli sinni fyrst og fremst að Selsvöllum, en mér að vitandi hefur starfsmaður stofnunarinnar varla stigið þar niður fæti þrátt fyrir aldarlýsingar ferðalanga og sagnir þeirra fyrrum af minjunum þar sem og handavinnu áhugasamra einstaklinga um mikilvægi þeirra í hinu sögulega samhengi svæðisins.
Í áttunda lagi; Fáir vita t.d. að fjárborgir á Reykjanesskagnum eru 134 talsins, fornar refagildrur 91 og sels og selstöður 402, réttir 122 o.s.frv. Efast er um að Minjastofnun hafi yfirlit um allar þær minjar, hvað þá allar mannvistaðleifarnar er finna má í hellum á svæðinu.
Í níunda lagi mætti Minjastofnun gjarnan líta sér nær þegar kemur að umræðu um minjar á Reykjanesskaga.
Fyrir áhugasama vil ég vekja athygli á vefsíðunni www.ferlir.is sem hefur fjallað um örnefni, leitir að mannvistarleifum, hversu ómerkilegar sem þar kynnu að virðast, á Reykjanesskaga um áratuga skeið…
Heimild:
-Fréttablaðið.is 5. mars 2021, Minjar í hættu samkvæmt spá um hraunrennsli.