Búrfellsgjáarrétt

A.m.k. 220 fjárréttir eru þekktar á Reykjanesskaganum; í fyrrum landnámi Ingólfs. Réttirnar voru til margra nota, s.s. heimarétt, almenningsrétt, skilarétt og rúningsrétt, auk “útdráttarétta” einstakra bæja. Margar þeirra eru heillegar, enda ekki um fornar fornleifar að ræða. Eftir að selstöðurnar lögðust af í lok 19. aldar fóru bændur að reka á fé afrétti í byrjun sumars og smala því síðan til rétta að hausti. Fjárrétt var í raun framhald afréttar. Réttir hafa verið misstórar. Bæði þær sem og staðsetning þeirra hafa jafnan tekið mið af notagildi á hverjum tíma.

Réttir

Réttir á Reykjanesskaga – yfirlit.

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1963 fjallar Guðjón Jónsson um “Kambsrétt”, dæmigerða slíka á þeim tíma. Hér verður gripið niður í greinina á nokkrum stöðum:
“Landbúnaður hefir verið annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar. Fram á síðustu ár bjuggu sveitabændur meira við fjárbú en kúabú. Áttu sumir þeirra margt áa og sauða. Mikil vinna er að hirða vel margt fé og halda því saman, sérstaklega vor og haust. Það þarf að smala því í byggð og óbyggð, reka það saman af smærri og stærri svæðum, og koma því í fjárrétt, þar sem því er sinnt og ráðstafað, eftir því sem við á og þurfa þykir.
Flest heimili eiga sína heimafjárrétt út af fyrir sig eða í félagi með öðrum. Svo er almenningsrétt, skilarétt, fyrir eitt eða fleiri sveitafélög, þar sem byggðasöfn og fjallsöfn eru rekin að til sundurdráttar.
Réttir og réttarhald er gamall og nýr þáttur í atvinnulífi sveitafólksins. Frá þeim eiga margir glaðar og góðar minningar, sérstaklega frá þeim tíma, er þær voru eina almenna skemmtisamkoma ársins. Til þeirra hefur verið hugsað með eftirvæntingu. Þær hafa verið og eru enn sóttar af ungum og gömlum, ríkum og fátækum.
Fjárréttir eru breytingum og eyðingu háðar eins og annað á jörðu hér. Mörgum kann að virðast, að það hafi ekki mikið að segja, þótt ein almenningsrétt sé færð úr stað eða lögð niður. Það sé varla í frásögur færandi. En er hann ekki margur fróðleikurinn, sem nútímamenn vildu gjarnan að geymzt hefði, en glataðist af því að hann þótti ekki, á sínum tíma, þess virði, að haldið væri til haga?
Þótt sameiginlegar byggðarsafnsréttir hafi verið notaðar víða um alllangt skeið, er talið vafasamt, að svo hafi verið fyrr á tímum. Meðan engar girðingar voru til að hindra rennsli fjárins og það flakkaði viðstöðulaust bæja og byggða á milli, kom margt fé í skilaréttir. Í hverri rétt var réttarstjóri. Hann sá um, að rekið væri í almenninginn, þegar þess þurfti, áminnti um að fjárdrætti væri hraðað, því sumir áttu langt heim. Í réttarlok seldi réttarstjóri ómerkinga og kalineyrð lömb, sem eigendur gátu ekki helgað sér. Var þá stundum fjörlega boðið, sérstaklega ef um mislitt og fallegt sauðarefni var að ræða, og menn höfðu hresst sig mátulega á réttarpelanum, sem oft var hafður með í réttir. Þeim kindum, sem ekki voru hirtar í réttinni, kom hreppstjóri fyrir hjá einhverjum bónda nálægt henni. Hann skrifaði mörk kindanna og sendi afrit af þeim lista til allra hreppstjóra í ágrannasveitunum. Eigendur kindanna gátu svo sótt þær til bóndans, sem gætti þeirra, gegn 3 aura gjaldi fyrir hvern sólarhring, sem þær voru í umsjón hans. Þær kindur, sem ekki gengu út á milli rétta, voru seldar á uppboði í næstu rétt. Þannig gekk það allt haustið, þar til því var breytt við endurskoðun fjallskilareglugjörðarinnar 1911; þá var ákveðið að selja allan óskilafénað í lok hverrar réttar.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1963, Kambsrétt – Guðjón Jónsson, bls. 100-102.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt ofan Ísólfsskála