Í Örnefnalýsingu Ásgeirs Jónassonar frá Hrauntúni (birtist m.a. í Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1932) er fjallað um Miðfellshraun og Miðfellsfjall [Miðfell]. Þar segir m.a.: “Miðfellshraun takmarkast af Miðfellsfjalli að norðvestan, Þingvallavatni að vestan og suðvestan, Kaldárhöfða að sunnan og Lyngdalsheiði að austan; að norðan hallar upp að Hrafnabjargahálsi, og eru takmörk þar víðast óglögg, enda mun hraunið að mestu ættað þaðan.
Þar austur af eru Hamraselshæðir. Ná þær jafnlangt upp og Bringur, og niður að Stóra-Karhrauni og austur að Barmahrauni. Austast á hæðum þessum er hellir, og tóftir, er hæðirnar bera nafn af; þar hefir vafaust verið sel. Syðst á hæðum þessum er stór brekka við Stóra-Karhraun, er Grembás heitir.”
Í framangreindri lýsingu er þess ekki getið að nefnt sel hafi verið frá Miðfelli þrátt fyrir staðsetningu þess í þeirra landareign. Það bendir til þess að selstaðan sé mjög forn.
Í Jarðabókinni 1703 (bls. 360) segir um selstöðu frá Miðfelli í Þingvallasveit: “Selstöðu á jörðin í sjálfrar sinnar landi, en hefur þó ei að nýtingu brúkuð verið. Selstaða hefur eignuð verið Hömrum í Grímsnesi í Miðfellslandi, þar sem heitir Hamrahellir, og eru munnmæli að Miðfells menn hafi hjer fyrir átt hestagöngu á vetur í Hamralandi. Hvorugt þessara ítaka hefur brúkuð verið í manna minnum.”
Þegar selstaðan í Hamraseli er skoðuð er ljóst að um mjög forna slíka er að ræða, þrátt fyrir að Hamrahellir hafi löngum verið nýttur sem afdrep fyrir gesti og gangandi, enda ágætt skjól í nálægð við þekktar þjóðleiðir í Lyngdalsheiði.
Ofan við hellisopið er hlaðið skjól refaskyttu. Þaðan er ágætt útsýni yfir neðanverða heiðina. Varða er við hlið skjólsins, efst á hellisbrúninni. Hellishellir er í enda gróinnar hraunrásar er á sér langan aðdraganda. Í hellinum má sjá aflagaðar hleðslur.
Framan við hellinn, á austurbarmi hrauntraðarinnar, eru hleðslur, sennilega stekkur. Annar stekkur er skammt vestan við opið, nú að mestu mosagróinn.
Selið hefur að öllum líkindum verið í hvylft suðvestan við hellinn, í skjóli fyrir austanáttinni. Þar má greina brunn og óljósar minjamyndanir, sem verður að þykja ekki ósennilegar í ljósi aldurs hinna meintu selsminja.
Frábært veður. Gangan tók 1. klst og 1. mín.