Skreið II

Skreið

Það var við hæfi að fara í sérstaka „Hjallaferð“ á föstudaginn langa. Föstur í kaþólskum sið voru helstu forsendurnar fyrir skreiðavinnslu og fiskútflutningi Íslendinga í gegnum aldirnar.

Skreið

Skreið í trönum.

Um langan tíma var hertur fiskur svo til eina útflutningsvaran. Á þeim tíma var fiskur þurrkaður á grjóti, hlöðnum grjótgörðum og byrgjum, auk þess sem sérstök verkhús voru á sumum stöðum. Verin gengdu þýðingarmiklu hlutverki við veiðar og verkun skreiðar. Í sumum þeirra, einkum á Snæfellsnesi, voru sérstakir hjallar (rekaviður milli hlaðinna stólpa). Á Reykjanesi eru nú einungis eftir fiskhjallar (trönur) á fáum stöðum, s.s. við Hafnarfjörð, Grindavík og Garð.

Haldið var í hjallana við Hafnarfjörð, gengið þar um og sagan rifjuð upp í tilefni dagsins. Í hjöllunum hanga nú þorskur, ufsi, ýsa, lýsa og langa, en áður fyrr var þar nær einvörðungu þorskur og hausar. Hausarnir nú virtust af öllum hugsanlegum fiskskepnum. Sumir hafa líklega hangið þarna lengi, aðrir voru nýkomnir.
Þurrkbyrgi á SelatöngumSkreið er framleiðsluheiti yfir þurrkaðan, afhausaðan fisk. Þurrkunin er gömul aðferð til að auka geymsluþol fisks. Íslendingar hafa þurrkað fisk í aldaraðir en í nútímanum má segja að hér á landi sé aðeins borðuð ein tegund skreiðar þ.e. harðfiskur, öll önnur skreið er framleidd til útflutnings. Helstu markaðir fyrir skreið eru Ítalía og Nigería, auk nokkurra ríkja á vesturströnd Afríku.
Skreið hefur lengst af verið útiþurrkuð þar sem tveir fiskar eru spyrtir saman og hengdir upp í þar til gerðum fiskhjöllum og sól og vindur látin um þurrkunina. Nú getur þurrkun fisksins verið hvort heldur sem er, inniþurrkun – og er þá jarðhiti gjarnan nýttur til verkunarinnar.

Skreið

Skreið í hjalla.

Þessi hausaverkun getur verið mismunandi og helst hún gjarnan í hendur með því í hverskonar verkun bolur fiskins fer; haus m/klumbu, haus án klumbu og haus með hrygg.
Á miðöldum steig skreið mjög í verði á erlendum markaði. Þá reið mjög á því fyrir landsmenn að geta framleitt góða og vel verkaða skreið til sölu erlendis. Annmarkar voru á því, sérstaklega vegna rakans í sjávarloftinu. Eyjamenn tóku t.d. þá upp á að herða fisk á syllum í móbergshömrum, t.d. fiskhellum svokölluðum. En meira rými þurfti til. Eyjabúar fundu þá upp gerð fiskigarða. Hver jarðarvöllur (tvær jarðir) eignaðist afmarkað svæði, sem girt var hlöðnum grjótgarði til varnar sauðfé t.d., sem þá gekk í hundraðatali um alla Heimaey. Inni í gerðinu voru síðan hlaðnir reitir úr hraungrýti með bili á milli, svo að ekki þurfti að ganga á reitunum sjálfum (þurrkreitunum) meðan fiskurinn var breiddur til herzlu. En fleira var innan gerðisins en herzlureitirnir. Þarna var byggð kró úr hraungrýti, – hringmynduð kró, sem mjókkaði upp í toppinn svo að loka mátti henni með dálítilli steinhellu. Að baki krónni var reitur, kallaður kassareitur.
Annars staðar á landinu voru hlaðnir langir grjótgarðar og hlaðin grjótbyrgi, s.s. nálægt Grindavík og á Snæfellsnesi.
Oftast var fiskurinn hertur flattur, tekinn úr honum hryggurinn.
Þegar fiskurinn var fluttur í gerðið, ýmist borinn á baki eða reiddur á hesti. var hann settur í kös á kasarreitinn. Þar var hann látinn liggja, þar til byrjaði að slá í hann. Þá var hann breiddur á herzlureitina. Lágnaður fyrir herzlu þótti fiskurinn bragðbetri og mýkri. Eiga Norðmenn að hafa fundið upp þessa verkunarferð á miðöldum.

Skreið

Skreiðarhjallur.

Hálfharður var fiskurinn síðan settur inn í króna. Þar blés hann og fullharðnaði án þess að regn kæmist að honum. Loftstraumur lék um króna, þar sem hún var hlaðin upp úr hraungrýti með einföldum veggjum. Fyrir krónni var rimlahurð. Dyrnar voru lágar, svo að ganga varð hálfboginn um þær eða skríða nánast. Yfir dyragættinni var hvalbein, t.d. rifbein úr hval. Í krónni geymdist skreiðin vel. Þaðan var hún flutt á verzlunarskipið, þegar hún var seld til útflutnings, og þangað sóttu menn skreið til heimilisnota. Á Reyjanesi voru notuð steinhlaðin byrgi í sama tilgangi.
Líkan af vestmannaeyskum fiskigörðum gjörði Kristinn Ástgeirsson frá Litlabæ. Það er gjört eftir frásögn Jóns Jónssonar frá Brautarholti, síðast sjúkrahússráðsmaður þar í bæ. Hann var fæddur 1869 og mundi gerð síðasta fiskigarðsins, sem var rifinn um 1880, eða um svipað leyti og verstöðin á Selatöngum lagðist af.
Fiskbyrgi í Strýthólahrauni við GrindavíkHarðfiskur hefur fylgt landsmönnum allt frá upphafi byggðar og lengi framan af skipaði hann stóran sess í fæðunni, einkum til sveita þar sem ekki var mikið framboð af fersku sjávarmeti. Í Íslenskum sjávarháttum eftir Lúðvík Kristjánsson sagnfræðing er fróðlegur kafli um skreið og harðfisk. Þar segir að víða sé minnst á skreið í Íslendingasögum og má þar nefna skreiðarhlaðann á Fróðá í Eyrbyggju. Í Íslandslýsingu Odds biskups Einarssonar frá lokum 16. aldar segir að næst á eftir mjólkurvörum og kjöti sé venjulegur fiskur stór hluti af fæðu Íslendinga. „Er hann þá fyrst hertur…

Skreið

Skreiðarhjallur á 19. öld – Gaimard.

Þegar leið á 18. öldina, og þilskip tóku að leysa áraskipin af hólmi, varð saltfiskur aðalútflutningsvara Íslendinga. Fram að því höfðu vaðmál og skreið verið undirstaða utanríkisverslunar. Með tilkomu togaranna varð saltfiskverkun í raun að stóriðju og saltfiskur hefur æ síðan skipt verulegu máli fyrir afkomu þjóðarbúsins. Grindvíkingar hafa löngum verið drjúgir við að vinna saltfiskinn og sýning um sögu verkunar og sölu á saltfiski og þýðingu hans fyrir þjóðarbúið í gegn um tíðina á því vel heima í þessu ágæta sjávarplássi við suðurströndina.

Strýthólahraun

Fiskbyrgi í Strýthólahrauni – Uppdráttur ÓSÁ.

Sýningin er forvitnileg fyrir erlenda ferðamenn, fróðleg fyrir skólafólk, sem getur hér kynnt sér mikilvægasta atvinnuveginn, og ánægjuleg fyrir hinn almenna Íslending sem fer í helgarbíltúr með fjölskylduna. Hún er liður í að draga upp og efla sjálfsmynd bæjarins og fólksins sem þar býr.

Sloki

Fiskgarðar í Slokahrauni.

Í kringum Grindavík eru víða gamlir þurrkgarðar og byrgi, s.s. við Húsatóftir, í Strýthólahrauni á Þórkötlustaðanesi, í Slokahrauni, við Ísólfsskála og á Selatöngum. Í Herdísarvík má einnig enn sjá garða og leifar byrgja, en vegagerð hefur þegar skemmt hluta þeirra.
Um miðja átjándu öld voru fáeinir tugir báta gerðir út frá Reykjavík, mest tveggja manna för, og voru veiðarfærin nær eingöngu handfæri. Fiskurinn var að mestu leyti verkaður í skreið. Eftir 1800 stækkuðu fleyturnar og fjögurra og sex manna för urðu uppistaða bátaflotans.

Reykjavík

Reykjavík – tómthús 1890.

Í holtunum í kringum miðbæ Reykjavíkur og út frá honum meðfram sjónum mynduðust þyrpingar torfbæja þar sem tómthúsmennirnir bjuggu. Þeir höfðu lífsframfæri sitt af því að róa til fiskjar og af daglaunavinnu sem til féll. Upphaflega voru þeir sem bjuggu við sjávarsíðuna og höfðu ekki skepnur kallaðir tómthúsmenn, húsin þeirra voru talin tóm. Víða á Suðurnesjum var þetta fólk nefnt þurrabúðafólk. Fékk það að reisa hús (skjól) á jörðum formanna eða annarra góðviljaðra, sem síðan þróuðust í smábýli eða bæi. Dæmi um slík hús eru t.d. í Þórkötlustaðahverfi í Grindavík – reyndar endurnýjuð síðan þá var.
Um 1820 var saltfiskur orðinn aðalútflutningsvaran frá Reykjavík og hafði það örvandi áhrif á þéttbýlismyndunina þar sem saltfiskverkun var frek á vinnuafl gagnstætt skreiðarverkun. (Sjá meira undir Skreið I).

Sjá einnig MYNDIR.
Sólstafir yfir Grindavík