Landamerkjastöplar milli Hafnarfjarðar og Garðabæjar

Hafnarfjörður

Í Dagblaðinu í apríl 1978 er m.a. fjallað um skiptar skoðanir á nýsamþykktum landamerkjum Hafnarfjarðar og Garðabæjar, sem síðar urðu grundvöllur að uppbyggingu íbúabyggðar í landi Setbergs. Áður hafði Hafnarfjarðabær vaxið með eignarnámi nálægra jarða, en að þessu sinni var sú aðferð valin að nágrannasveitarfélög kæmu sér saman um breytingar á umdæmismörkum þvert á einstakar jarðir.

Setberg

Setberg 1959.

Í blaðinu mátti t.d. lesa eftirfarandi undir fyrirsögninni „Ný landamerki Hafnarfjarðar — steypt upp á eignarlöndum án samráðs„: „Fjórir steinstólpar með ígreyptum koparskjöldum hafa nú verið settir upp á nýjum „landamærum” Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Er uppsetning þeirra i samræmi við samkomulag bæjarstjóra beggja bæjanna um makaskipti á landsvæði.

Hafnarfjörður

Merki á „landamerkjastöpli“ millum Hafnarfjarðar og Garðabæjar 1956.

Hið undarlega er að steinstólparnir hafa verið settir upp í eignarlöndum einstaklinga án þeirra leyfis og þykir íbúum og eigendum þess lands sem Garðabær nú afsalar Hafnarfirði einkennilega að málum staðið og lítil samráð við þá höfð þó ákvörðunin geti haft viðtæk áhrif á framvindu eignarréttar þeirra á lóðum og löndum. Við makaskiptin sem bæjarstjórnirnar hafa samþykkt fær Hafnarfjörður 109 hektara lands sem tilheyrt hafa Garðabæ. Garðabær fær í staðinn 33 hektara lands í hrauni milli kaupstaðanna.
Við makaskiptin lendir um fjórðungur jarðarinnar Setbergs í landi Hafnarfjarðar en um 75% jarðarinnar verður áfram í Garðabæ. Um 85—90% jarðarinnar Þórsbergs, sem byggð er úr landi Setbergs, lendir nú í Hafnarfirði. Stór hluti jarðarinnar Hlébergs, sem einnig er byggð úr landi Setbergs lendir einnig í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar. Þá lenda og ýmsar húsalóðir i einkaeign í landi Hafnarfjarðar.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Setberg 1983.

Íbúum og eigendum jarðanna þykir undarlegt að steypa ný landamerki án heimildar og vitneskju landeigenda og það áður en tillagan um makaskiptin er lögð fram á Alþingi en þar verður hún að hljóta samþykki áður en landamærabreytingin er lögleg. Ótti eigenda og ábúenda jarðanna sem lenda í Hafnarfirði stafar kannski ekki sízt af því að þeir óttast að fasteignagjöld hækki nú verulega, og jafnvel svo að eigendum verði gert ókleift að eiga áfram lönd sín, en jafnframt að löndin verði ekki seljanleg nema á venjulegu matsverði óbyggðra og óskipulagðra landsvæða, sem er aðeins hluti af því gjaldi sem lagt er til grundvallar fasteignagjalda á skipulögðu landi.
SetbergDB ræddi málin við nokkra aðila og fylgja umsagnir þeirra hér með.

Undir fyrirsögninni „Íbúar og landeigendur hissa á leynimakkinu með makaskiptin“ segir einn íbúi í Setbergslandi og skipulagsnefndarmaður í Garðabæ: „Ein af steinsúlunum fjórum sem steyptar voru í eignarlönd án vitundar landeiganda og löngu áður en tillaga um málið er komin fram á Alþingi.
Það einkennilega við makaskipti kaupstaðanna á landeignum er að um þau hefur ekki verið fjallað i skipulagsnefnd Garðabæjar,” sagði Sigurður Gíslason arkitekt, íbúi í Setbergslandi og nefndarmaður i skipulagsnefnd Garðabæjar.

Hafnarfjörður

Landamerkjastöpull á norðanverðu Norðlingaholti.

„17. nóvember var lagt fram á bæjarstjórnarfundi í Garðabæ bréf frá skipulagsstjóra dagsett tveimur dögum áður ásamt drögum um lögsagnarumdæmisskipti. Þar lagði bæjarstjóri fram svohljóðandi tillögu: „Bæjarstjórn samþykkir drögin fyrir sitt leyti og felur forseta bæjarstjórnar og bæjarstjóra að ræða framgang málsins við fulltrúa Hafnarfjarðar“. Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum. Fulltrúi Alþýðubandalagsins sat hjá og lét bóka að hann teldi rétt að ekki aðeins landeigendum heldur og íbúum svæðanna er afsala átti yrði gerð grein fyrir gangi mála áður en lengra væri haldið.”

Hafnarfjörður

Merki á landamerkjastöplinum á Norðingaholti.

Sigurður sagði að í lok marz sl. hefði einhverjum af eigendum Setbergs og e.t.v. Þórsbergs verið skýrt frá málum. Var þá talað um að samhliða breytingunni fengju þessar jarðir hitaveitu og skolp frá Hafnarfjarðarbæ. Í viðræðum landeigenda síðar við yfirvöld í Hafnarfirði muni hins vegar hafa komið fram að það fæst ekki fyrr en svæðið byggist upp.

Taldi Sigurður að upplýsingar til eigenda væru mjög takmarkaðar og þeir fréttu utan að sér um framgang mála. Svartast hefði verið að Hafnarfjarðarbær lét steypa stjóra með landamerkjum án samráðs við landeigendur þar sem landamerkin voru steypt niður. Hefð væri að setja niður mælipunkta en mannvirki sem þessi væri einsdæmi að reisa án samþykkis landeigenda. Sigurður sagði að síðustu tvenn eða þrenn makaskipti bæjanna væru óuppgerð.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – landamerkjastöpull á Fjárhúsholti.

Hafnarfjörður hefði i öll skiptin tekið stærra land en átti að vera i skiptunum. Garðabæ hefði því vantað um 15—25 hektara til jöfnunar eftir því hvernig á málin væri litið.
Nú átti að jafna málin, sagði Sigurður. En staðreynd er að Garðabær fær 33 hektra í hrauni þar sem bæjarmörk voru óljós og Garðabær fær því að hluta til eitthvað af landi sem hann mun sennilega hafa átt fyrir. Hafnarfjörður fær í staðinn 109 hektara lands þar sem er fallegt byggingaland, sagði Sigurður.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – merki á landamerkjastöpli á Fjárhúsholti.

Þetta er réttlætt með því að Garðabær fái mjög gott byggingarland, en í 109 hekturunum sem Hafnarfjörður fær séu hlíðar, þegar uppbyggt svæði og eignarland,“ sagði Sigurður. „Ef frá er dreginn fyrri mismunur makaskipta sem var Hafnarfirði í vil um minnst 15 hektara, fær Garðabær nú 18 hektara fyrir 109. Er það á sama vegg og áður Hafnarfjörður stækkar en Garðabær minnkar. Hefði það átt að vera á annan veg því Hafnarfjörður leitar eftir makaskiptunum og ætti Garðabær því að bera hærri hlut,” sagði Sigurður.

Straumsvík

Straumsvík 1965. Á myndinni sjást m.a. Litli- og Stóri-Lambhagi.

Annar íbúi minnti á hið fræga dæmi er Hafnarfjörður fékk Straumsvík frá Garðabæ í skiptum fyrir kálgarðaland nálægt Garðabæ.
Sigurður Gíslason minnti á að í ýmsum lóðaskiptum kaupstaðaryfirvalda og landeiganda væri fyrirfram um það samið að bæjarfélag gerði skipulag og legði götur um landeigendur sæju um sölu ákveðins lóðafjölda i staðinn fyrir afsal annarra. Um slíkt hefði ekkert verið rætt nú enda litið sem ekkert um málin rætt við landeigendur.“

Í annarri grein undir fyrirsögninni „Makaskiptin flýta fyrir skipulagi í Setbergslandi“ segir bæjarstjóri Garðabæjar makaskiptin skynsamlega ráðstöfun.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – landamerkjastöpull efst á Setbergshamri.

„Við höfum átt fund með bæjarstjóra Hafnarfjarðar og eigendum Þórsbergs og Setbergsfjölskyldunni. Við höfum lagt áherzlu á að svæðin sem Garðabær lætur af hendi fái hitaveitu og aðra þjónustu fljótt. Einhver vandkvæði eru á framkvæmdum hjá hitaveitunni, en makaskiptin flýta alla vega fyrir framkvæmdum hvað varðar skipulag og fleira á þeim svæðum, sem nú tengjast Hafnarfirði,” sagði Garðar Sigurgeirsson, bæjarstjóri Garðabæjar.
Garðar taldi makaskiptin mjög hagstæð Garðabæ. „Í stað afmarkaðs skika úr Garðabæ sem í eru snarbrattar hlíðar, byggð svæði og ekkert sambærilegt byggingarland við það sem Garðabær fær í staðinn,” sagði hann.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – landamerkjastpullinn á Setbergshamri; merkið hefur verið fjarlægt.

Hann taldi að önugt hefði verið fyrir Garðabæ að þjóna þeim hverfum sen nú fara til Hafnarfjarðar. Minnst tveir áratugir hefðu liðið þar til þjónusta hefði þar verið komin fyrir frumkvæði Garðabæjar. Þá dreifðu byggð sem nú er á þeim svæðum sem Hafnarfjörður fær vantar ákveðið skipulag og hitaveita er ekki lögð í svo dreifða byggð. Sömu erfiðleikar hefðu því verið áfram ríkjandi þarna ef Garðabær hefði áfram átt að sjá um málin. Ljóst þarf að vera hve margt fólk kemur til með að byggja óbyggð svæði áður en hitaveita og annað er þar lagt. Þess vegna er nauðsyn á skipulagi og framkvæmdum og landeigendur ættu að vera betur settir með það í höndum Hafnarfjarðar.
Garðar hvað nýju landamerkjastólpana ekki setta upp með vitund bæjarstjórnar Garðabæjar og harmaði að ekki skyldi samráð haft við landeigendur um þá framkvæmd. Þar hefði að verki verið verkfræðingur frá Skipulagi ríkisins.
Garðar kvað það ekki undarlegt að Garðahær skyldi minnka en Hafnarfjörður stækka. Allur Hafnarfjörður væri byggður úr landi Garðabæjar og Garðahrepps. Ekki skipti höfuðmáli, þó sama jörðin væri í tveimur lögsagnarumdæmum. Það væri jú allt eitt svæði sem þessir kaupstaðir skiptu með sér um að skipuleggja. Breytingin yrði að teljast skynsamleg.

HafnarförðurVarðandi framkvæmdir á hinum nýju svæðum Hafnarfjarðar í Setbergslandi og útjörðum Setbergs kvaðst Kristinn ekki vilja lofa neinu, „en það verður þegar farið að huga að framtíðarskipulagi og byggð þessara svæða og miklu eðlilegra að ætla að Hafnarfjörður geti lokið því verki mun fljótar en Garðabær.
„Við munum stuðla að því að einhverjar bráðabirgðaráðstafanir verði gerðar með hitaveitu á nýju svæðin og það verður reynt að stuðla að því að þær framkvæmdir verði gerðar svo fljótt sem unnt er,” sagði bæjarstjórinn.“ -ASt

HafnarfjörðurÍ erindi bæjarstjóra Hafnarfjarðar 3. apríl 1978 segir m.a. um framangreint: „Á undanförnum árum hafa fulltrúar Garðabæjar og Hafnarfjarðar rætt breytingar á lögsagnarumdæmismörkum bæjarfélaganna. Fyrir milligöngu skipulagsstjóra ríkisins, Zóphóníasar Pálssonar, og að hans tillögu hafa sveitarstjórnirnar gert með sér samning, fskj. nr. 1, sbr. samþykkt bæiarstjórnar Garðabæjar frá 17. nóv. 1977, fskj. nr. 2, og samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 22. nóv. s.l., fskj. nr. 3, um breytingu á lögsagnarumdæmismörkum sveitarfélaganna, sbr. og uppdrátt, fskj. nr. 4, sem sýnir hin nýju mörk sveitarfélaganna milli Engidals og Lækjarbotna eins og sveitarstjórnirnar hafa kornið sér saman um að þau verði m.a. (með vísan til nefndu landamerkjastöplanna):

HafnarfjörðurÍ frumvarpi til laga árið 1971 um „breyting á lögum nr. 46, 16. apríl 1971, um lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðarkaupstaðar“ segir um framangreindar „landamerkjasúlur“:
13. Hnit X 22.094,89, Y 10.079,01 (steyptur stöpull í hraunjaðrinum milli Kaplakrika og Stórakróks).
14. Hnit X 22.110,63, Y 9,534.19 (steyptur stöpull efst á Setbergshamri).
15. Hnit X 21.657,44, Y 8.850,84 (steyptur stöpull efst á Fjárhúsholti).
10. Hnit X 21.590,11, Y 8.417,44 (steyptur stöpull á Norðlingahálsi, norðan vegar).
17. Hnit X 21.903,84, Y 7.972,13 (steyptur stöpull við gömlu landamerkjalínuna í Moshlíð, um 250 m sunnan Elliðavatnsvegar).
Hnit eru í hnitakerfi Reykjavíkur frá 1951.

Af framangreindum fimm steinstólpum á umdæmismörkum Hafnarfjarðar og Garðabæjar 1978 standa þrír enn. Merkið á einum þeirra, þ.e. á Setbergshamri, hefur verið fjarlægt, væntanlega í framhaldi af uppákomu þess tíma.

Hafnarfjörður

Umfjöllun Fjarðarpóstsins.

Í Fjarðarpóstinum 15. september 2005 má lesa eftirfarandi undir fyrirsögninni „Garðabær hefur aldrei greitt fyrir Molduhraun„.
„Í ljós hefur komið að samningur sem bæjarstjórar Hafnarfjarðar og Garðarbæjar gerðu sín á milli, hafa aldrei verið samþykktir af bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Því hefur aldrei verið veitt afsal fyrir 33 ha. svæði merkt B (grátt svæði) úr landi Hafnarfjarðar skv. umræddum samningi ódagsettum í mars 1978.
Svæði þetta er í landi Garðakirkju sem Hafnarfjarðarbær keypti árið 1913 og sést að hlut á myndinni hér að neðan. Þar má sjá, sem og í lögum um lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar síðast frá 1964 að mörk eru m.a. frá vörðu við veginn frá Hafnarfirði til Reykjavíkur (við Engidal) og í Hádegishól (rétt aftan við Fjarðarkaup) og í Miðaftanshól sem er gamalt hádegismark frá Hraunsholti. Þaðan liggja svo mörkin í vörðu í Stórakrók.

Hafnarfjörður

Landsspildan, sem um ræðir, er merkt B á uppdrættinum.

Skv. teikningu hér til hliðar nær umrætt 33 ha. svæði, sem Hafnarfjörður ætlaði að láta Garðabæ fá, ekki að Miðaftanshól og munar þar um 8 ha. ef tillit er tekið til að gráa svæðið nær út fyrir forn eignarmörk Hafnarfjarðar.
Þar sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur framkvæmt eins og samningurinn hafi verið staðfestur telur Guðmundur Benediktsson, bæjarlögmaður að samningurinn standi en eðlilegt væri að meta verðmæti landsins miðað við verðlag ársins 1978 og uppreikna með vísitölu. Hins vegar er ljóst að um 8 ha. lands eru utan þessa samnings og Hafnarfjarðarbær getur því selt það land á markaðsvirði nú sem er mun hærra en á verðlagi ársins 1978.“

Sjá einnig umdæmismörk Hafnarfjarðar frá 1908.

Heimildir:
-Dagblaðið 7. apríl 1978, bls. 8.
-https://timarit.is/page/3075930?iabr=on#page/n7/mode/2up
-https://www.althingi.is/altext/99/s/pdf/0514.pdf
-Fjarðarpósturinn 15. september 2005, bls. 6.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – umdæmismörk Hafnarfjarðar og Garðabæjar í Kaplakrika.