Þrettán fjöll Reykjanesskagans

Arnarvatn

Reykjanesið hefur margar fallegar gönguleiðir upp á að bjóða. Reykjanes Geopark í samstarfi við Þráinn Kolbeinsson hefur tekið saman 13 gönguleiðir af Reykjanesinu og nefnist verkefnið „Tindar Reykjaness„. Verkefnið var styrkt af Sóknaráætlun Suðurnesja.

Þorbjörn

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell.

Norðan við Grindavík og rétt hjá Bláa lóninu liggur fellið Þorbjörn (Þorbjarnarfell). Fellið myndaðist á síðasta kuldaskeiði ísaldar, við gos undir jökli, og er að mestu úr bólstrabergi. Þrátt fyrir að vera aðeins 243 metra hátt býður það upp á skemmtilegar og nokkuð fjölbreyttar göngur sem ættu að henta flestum. Hægt að byrja gönguna á nokkrum stöðum, en einfaldast er að byrja við bílastæði við Grindavíkurveg. Þar liggur gamall vegur upp eftir mesta brattanum og tvístrast svo þegar upp er komið. Fjallið stendur á misgengissprungum sem hafa myndað grunnan sigdal.

Þorbjörn

Camp Vail á Þorbirni – uppdráttur ÓSÁ.

Þar má sjá ummerki og leifar frá seinni heimsstyrjöld en setulið Bandaríkjamanna setti upp bækistöð í skjóli dalsins. Við sprunguhreyfingar hefur orðið til mikil hamragjá á toppi fjallsins sem kölluð er Þjófagjá. Sagan segir að þar hafi falið sig 15 þjófar, sem lögðust á fé Grindvíkinga. Það var ekki fyrr en bóndasyni frá Hópi tókst að svíkja þá er þeir böðuðu sig á Baðsvöllum, norðan við Þorbjörn, sem þeir náðust loksins. Meira má lesa um þjófana og afdrif þeirra hér. Þegar upp er komið er möguleiki á nokkrum mismunandi leiðum. Upp á topp, í gegnum Þjófagjá og umhverfis toppinn. Hvert sem farið er má búast við frábæru útsýni í allar áttir. Það tekur ekki langan tíma að skoða hina ýmsu kima Þorbjarnar og fyrir þá sem vilja síður ganga upp á fjallið.

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur (Hádegishnúkur).

Vestan við Kleifarvatn liggur hinn fallegi Sveifluháls en á honum eru margir tindar sem bjóða upp á skemmtilegar göngur. Einn þeirra er Miðdegishnúkur (Hádegishnúkur). Til að byrja gönguna er keyrt um Krýsuvíkurveg með fram Kleifarvatni og svo er þægilegt að leggja bílnum á litlum malar afleggjara. Þaðan er svo hægt að ganga beint upp. Þegar upp brattann er komið tekur við flatlendi umkringt stórbrotnum klettum. Haldið er áfram til norðausturs og eftir um 500 metra blasir tindurinn við. Þarna getur verið auðvelt að ruglast á tindum, en taka skal fram að til að komast upp á topp Miðdegishnúks þarf ekkert tæknilegt klifur.

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur.

Á leiðinni upp síðasta kaflann tekur á móti manni skemmtilegur hellir þar sem tilvalið er að borða nesti og njóta útsýnisins yfir Vigdísarvelli í vestri. Þegar toppnum er náð blasir við frábært útsýni í allar áttir, eftir hryggnum til suðurs og norðurs og einnig yfir Kleifarvatn og Vigdísarvelli. Til vesturs má svo sjá Trölladyngju, Grænudyngju, Keili og fleiri fallega tinda. Hægt að fara sömu leið til baka, en fyrir þá sem vilja aðeins meira brölt er hægt að beygja í átt að Kleifarvatni þegar komið er niður fyrir hellinn. Þar þarf að klöngrast aðeins meira.

Stapatindar

Stapatindar

Stapatindar.

Sveifluháls liggur vestan við Kleifarvatn og þar tróna Stapatindar hæst. Nokkrar leiðir liggja að toppnum og er hægt að leggja á ýmsum stöðum við Krýsuvíkurveg og fara þaðan upp á Sveifluháls og í átt að Stapatindum. Einfaldast er að leggja bílnum á bílastæði við Kleifarvatn og ganga beinustu leið upp á hálsinn. Á leiðinni eru flottir klettar og bergmyndanir sem gaman er skoða áður en mesti brattinn tekur við. Þegar upp á hrygginn er komið tekur við frábært útsýni eftir hryggnum til suðurs og norðurs og einnig er gaman að sjá Kleifarvatn úr þessari hæð. Í vestri blasa svo við Trölladyngja, Grænadyngja, Keilir og fleiri fallegir tindar umhverfis Sogin. Til að komast niður er eðlilega hægt að fara sömu leið og komið var upp, en einnig getur verið gaman að halda áfram eftir Sveifluhálsinum í suðvestur og vinna sig þaðan niður.

Grænadyngja

Grænadyngja

Grænadyngja.

Eitt ævintýralegasta göngusvæði Reykjaness felur sig við Grænudyngju og Trölladyngju. Grænadyngja er eldfjall sem myndaðist við gos undir jökli fyrir lok ísaldar og rétt við hana er Trölladyngja, en oft er talað um fjöllin sem tvíbura og saman eru þau kölluð Dyngjurnar. Til að komast að Grænudyngju er ekið eftir Reykjanesbraut og þegar komið er að gatnamótum Vatnsleysustrandar er sveigt út af brautinni og inn á malarveg sem merktur er Keili. Malarvegurinn er nokkuð grófur, en þó fær flestum bílum á sumrin en minni bíla þarf að keyra hægt. Þegar komið er að bílastæði fyrir Keili er haldið áfram til vinstri.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju.

Eftir um 1 km er aftur beygt til vinstri þar til komið er að gígnum Eldborg þar sem hægt er að leggja bílnum. Beint suður frá Eldborg er lítið gil sem markar upphaf göngunnar. Gilið krefst ekki tæknilegs klifurs en ef einhver treystir sér ekki þar upp er einnig hægt að ganga upp hlíðarnar austan við það. Haldið er áfram niður í grunnan dal og loks upp eftir suðurhlíðum fjallsins. Þar uppi tekur á móti manni einstakt svæði, grasi gróið og yfirleitt skjólsælt. Gengið er aðeins lengra, þar til nokkuð brött skriða blasir við. Gengið er upp eftir henni þangað til toppi Grænudyngju er náð.

Sog

Sogin og Grænadyngja.

Aðeins sunnar er að finna eitt besta mögulega útsýni yfir háhitasvæðið Sogin og vötnin þar í kring. Ef tími og aðstæður leyfa er tilvalið að bæta við gönguna ferð niður í Sogin og Trölladyngju svo úr verði skemmtileg hringferð. Ef ætlunin er að fara niður í Sogin er haldið áfram eins og leið liggur niður suðurhlíðar Grænudyngju þar til Sogunum er náð. Ef ætlunin er að fara einnig upp á Trölladyngju aftur að bílastæðinu, er best að halda í vestur og ganga niður eftir grasi grónum hlíðum Grænudyngju og niður í dalinn sem liggur á milli fjallanna. Ef ætlunin er einfaldlega að komast ofan af Grænudyngju aftur á bílastæðið, er tilvalið að halda niður vesturhlíðar fjallsins, ofan í dalinn þangað til komið er aftur að gilinu sem farið var upp í upphafi göngu.

Trölladyngja

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Trölladyngja er tilkomumikið fjall sem gaman er að ganga upp og frábært útsýni sem bíður manns á toppnum. Gangan hentar flestum og engan sérstakan búnað þarf nema ef um ræðir vetrarferð í hálku og/eða snjó. Rétt hjá Eldborg er lítil malarbílastæði og við upphaf göngu er lítið gil sem er skemmtilegt að fara upp en einnig er hægt að ganga upp auðvelda brekku norð-austan megin við það. Það eru nokkrar útfærslur af heildargöngunni en þær taka flestar um 1-2 klst. og eru um 2-4 km með 260m hækkun. Það er tilvalið að tengja göngu upp Trölladyngju við Grænudyngju og Sogin. Á toppnum er einstakt útsýni yfir Reykjanesskagann (Keili, Grænudyngju, Sogin o.fl.) og alla leið til Reykjavíkur og Snæfellsness.

Selsvallafjall

Selsvallafjall

Selsvallafjall.

Selsvallafjall er staðsett á skemmtilegu svæði sem ekki margir fara um, en tindurinn liggur vestan hinna fögru Vigdísarvalla. Í vesturhlíðum fjallsins fá finna leifar af breskri stríðsflugvél sem fórst þar árið 1943 eftir að hafa verið í eftirlitsflugi vegna kafbáta suðvestan Íslands. Á leiðinni gerði svartaþoku sem varð til þess að flugmaðurinn brotlenti vélinni í hlíðum fallsins en hægt er að lesa meira um slysið hér. Enn má finna leifar af flugvélinni en við biðjum alla þá sem heimsækja staðinn að taka enga muni með sér heim.

Selsvallafjall

Selsvallafjall.

Gönguna upp Selsvallafjall er bæði hægt að hefja við Suðurstrandarveg (nr. 247), þar sem Vigdísarvallarvegur byrjar eða með því að keyra inn Vigdísarvelli. Ef byrjað er við Suðurstrandarveg er gengið norður í átt að Núpshlíðarhálsi og honum fylgt, þangað til Selsvallafjalli er náð. Stuttu eftir að lagt er af stað frá Suðurstrandarvegi má sjá nokkra gíga sem skemmtilegt getur verið að staldra við og skoða. Síðan er haldið áfram þar til við tekur gamall malarvegur sem liggur ofan á hluta hryggjarins. Um 700 metra frá toppnum eru svo leifarnar af flugvélarbrakinu fyrir þá sem hafa áhuga á því. Af toppi Selsvallafjalls er frábært útsýni í allar áttir og í góðu skyggni má m.a. sjá alla leið til Vestmannaeyja, Snæfellsjökuls og Eldeyjar.

Stóri-Hrútur

Stóri-Hrútur

Stóri-Hrútur.

Austan við gosstöðvarnar í Geldingadal stendur Stóri-Hrútur, 352 metra hátt keilulaga fjall. Ígegnum tíðina hafa örnefni svæða sem þykja sérlega torfarin stundum verið kennd við hrúta. Með núverandi slóða sem liggur upp eftir suðurhlíð hans er Stóri-Hrútur ekki sérlega torfarin en hann er þó brattur og grýttur svo áður fyrr hefur uppferðin verið mun erfiðari. Samkvæmt sögubókum ber Stóri-Hrútur víst fleiri en eitt nafn en Grindvíkingar hafa oft kallað hann Litla-Hrút og aðrir Syðri-Keilisbróður. Bæði nöfnin verða að teljast nokkuð viðeigandi þar sem hann er hvorki mjög hár í loftinu og er alveg í laginu eins og Keilir.

Stóri-hrútur

Stóri-Hrútur; útsýni yfir að gíg ofan Meradala.

Til að komast að Stóra-Hrút eru þrjár leiðir í boði og tilvalið að gera einhvers konar hringferð úr leiðinni. Þægilegaster að leggja bílnum hér og ganga þaðan. Ýmist er hægt að halda upp Langahrygg og ganga eftir honum eða öðru hvoru megin við hann, eftir Merardölum eða norður Nátthaga. Leiðirnar eru mislangar en heildar vegalengd getur verið um 7-10 km báðar leiðir. Nátthagi liggur vestan við Langahrygg en hann er meira og minna fullur af hrauni sem gaman getur verið að skoða. Þar hafa myndast magnaðir litir og getur gufa legið uppúr hrauninu í langan tíma eftir að gosi lýkur og því tilvalið að sjá svæðið á meðan enn er hiti í því. Langihryggur býður svo uppá skemmtilega útsýnisferð en gosstöðvarnar sjást vel þegar gengið er eftir hryggnum. Rúsínaní pylsuendanum er síðan uppi á Stóra-Hrúti sjálfum en þaðan sést einn stærsti gíganna hvað best.

Langihryggur

Langihryggur

Langihryggur og nágrenni.

Áður en gosið í Geldingadölum vatt upp á sig gat fólk nokkurn veginn farið hvaða leið sem er að gosstöðvunum og staðið hvar sem er til að upplifa eldgosið. Nokkrum mánuðum síðar var það ekki alveg jafn aðgengilegt og í kjölfarið varð Langihryggur óvart ein vinsælasta gönguleið landsins. Langihryggur er tæplega 300 metra hár hryggur sem liggur með fram Nátthaga, en það er einmitt dalurinn þar sem gosið náði sem næst sjónum. Leiðin er mjög aðgengileg og hægt að velja nokkra mismunandi upphafspunkta en við mælum með því að bílnum sé lagt á bílastæði 2 fyrir gosið eða bílastæði B.

Langihryggur

Langihryggur.

Frá báðum bílastæðum er auðvelt að fylgja stígum og stikum þar til Langihryggur blasir við, en hann ber nafn með rentu og er einmitt langur hryggur. Gangan er um 5-7 km báðar leiðir með nokkuð þægilegri hækkun. Áður en haldið er upp á hrygginn sjálfan getur verið gaman að ganga niður að hrauninu og skoða það. Þegar gengið er eftir hryggnum er stórbrotið útsýni yfir gosstöðvarnar þar sem einn af síðustu virku gígunum trónir vígalegur á toppnum í fjarska. Reykur og gufur geta sést löngu eftir að gosi lýkur og því er tilvalið að sjá svæðið á meðan enn er hiti í hrauninu. Ef tími og orka leyfa þá getur verið gaman að lengja gönguna aðeins og bæta við hana ferð upp á Stóra-Hrút, en hann tekur við í beinu framhaldi af hryggnum. Þar er einnig frábært útsýni yfir gosstöðvarnar og víðar.

Geitahlíð

Geitahlíð

Geitahlíð.

Geitahlíð er falleg grágrýtisdyngja rétt austan við Krýsuvík sem býður upp á skemmtilega og nokkuð greiðfarna göngu. Auðvelt er að komast að henni, annaðhvort um Krýsuvíkurveg (nr. 42) eða Suðurstrandarveg (nr. 247) og bílastæði er við upphaf göngu. Á láglendinu sunnan við Geitahlíð er gígurinn Stóra-Eldborg sem er tilvalið að kíkja á áður en haldið er upp Geitahlíð. Hægt er að ganga alveg upp á gígbrúnina og sjá ofan í gíginn sjálfan. Við hlið hans er Litla-Eldborg, en slóðinn upp Geitahlíð hverfur fljótlega eftir hana og ekki endilega augljóst hvert skal fara.

Æsubúðir

Æsubúðir.

Tiltölulega einfalt er þó að vinna sig upp grýtta hlíðina. Þegar upp mesta hallann er komið liggur beint við að halda í átt að hæsta punkti Geitahlíðar, svokölluðum Æsubúðum. Æsubúðir eru nokkuð stór gígur á toppi fjallsins, en sagan segir að þar hafi eitt sinn verið verslunarstaður jötna. Á tímum þegar sjórinn náði upp að Geitahlíð hafi svo verið hægt var að leggja skipum við Hvítskeggshvamm (norðaustan við Eldborgirnar). Þegar upp er komið er skemmtilegt að ganga eftir brúnum Æsubúða og bæta þannig stuttri lykkju við ferðina. Af toppi Geitahlíðar er frábært útsýni til allra átta, sérstaklega yfir Kleifarvatn, Sveifluháls og Stapatinda.

Grænavatnseggjar

Grænavatnseggjar

Grænavatnseggjar. Grænavatn fremst, Djúpavatn t.h. og Spákonuvatn t.v.

Grænavatnseggjar bjóða upp á skemmtilega og þægilega göngu með frábæru útsýni yfir Djúpavatn, Sogin, Grænavatn o.fl. Eitt fallegasta göngusvæði Reykjaness er án efa í kringum Sogin, austan Vigdísarvalla, en þar má sjá einstakt háhitasvæði með tilheyrandi litbrigðum innan um fjölbreytta tinda og vötn. Grænavatnseggjar bjóða upp á skemmtilega og þægilega göngu um þetta svæði með skemmtilegu útsýni. Til að byrja gönguna er hægt að leggja bílum á þremur mismunandi stöðum: Við gamla borholu við Sogin og svo við sitthvorn enda Djúpavatns.

Grænavatnseggjar

Grænavatnseggjar.

Leiðin er ekki stikuð, en fólki ráðlagt að finna sér sem þægilegustu leið upp á hrygginn og ganga svo eftir honum. Auðveldast er að komast upp á hann norðan við Djúpavatn. Á toppi Grænavatnseggja blasir við frábært útsýni til allra átta; yfir Djúpavatn og Vigdísarvelli, í átt að Grænavatni og svo í átt að Trölla- og Grænudyngju. Óháð því hvar byrjað er, þá er auðvelt að lengja gönguna með því að tengja við aðrar leiðir (Sogin, Grænudyngju o.fl.) og tilvalið að halda leiðinni áfram í kringum Grænavatn og aftur til baka í átt að Spákonuvatni með Keili í vestri.

Hverafjall

Hverafjall

Hverafjall.

Einn vinsælasti ferðamannastaður Reykjaness er Seltún við Kleifarvatn. Fjöldinn allur af hverum á litríku háhitasvæði gera staðinn að fullkomnum áfangastað fyrir þá sem hafa áhuga á einstakri og lifandi náttúru. Til að komast þangað er keyrt með fram Kleifarvatni um Krýsuvíkurveg (nr. 42) þar til skilti bendir manni á gott bílastæði. Rétt fyrir ofan Seltún er þó falin perla sem á það til að fara fram hjá þeim sem heimsækja svæðið, Hverafjall. Hverafjall er aðeins um 300 metra hátt og er gangan upp stutt og laggóð.

Hverafjall

Hverafjall.

Umhverfis fjallið er töluverður jarðhiti sem leiðir af sér mikla litadýrð og tilheyrandi gufustróka. Útsýnið á leiðinni og ofan af toppnum er mjög tilkomumikið en þaðan sjást m.a. Grænavatn og Kleifarvatn ásamt fleiri fallegum stöðum. Gangan þarf ekki að taka meira en klukkutíma, en skemmtilegt getur verið að halda áfram á næsta topp sem stendur beint fyrir ofan Seltún (norðan við Hverafjall). Þaðan er svo annaðhvort hægt að fara sömu leið til baka eða halda ferðinni áfram og koma niður að bílastæðinu hinum megin frá.

Keilir

Keilir

Keilir.

Keilir er frábær ganga fyrir fólk á öllum aldri en krefst þess þó að geta gengið upp þokkalega brattan kafla þar sem eitthvað um laust grjót er og laus sandur. Það tekur um 2-3 klst. að ganga frá bílastæði, upp á topp og aftur til baka en vegalengdin er 7-8 km með 280m hækkun. Á toppi Keilis er útsýnisskífa og frábært útsýni í allar áttir – ganga sem allir ættu að prófa.
Flestir hafa séð Keili þegar keyrt er eftir Reykjanesbrautinni, en ekki jafn margir hafa klifið hann. Gönguleiðin er skemmtileg og nokkuð greiðfarin og af toppnum er frábært útsýni í allar áttir. Keilir er móbergsfjall sem myndaðist á ísöld við gos undir jökli, án þess að gosið næði að brjótast upp úr jöklinum.

Keilir

Keilir – gestabókastandur á toppnum.

Leiðin að Keili er nokkuð einföld en keyrt er eftir Reykjanesbraut (nr. 41) og loks beygt af veginum á sama stað og ef ætlunin væriað fara Vatnsleysustrandarveg (nr. 420), en vegurinn að Keili er við sömu gatnamót en fer í gagnstæða átt. Áberandi skilti við veginn vísar á Keili. Þar tekur við malarvegur sem er í grófari kantinum, en þó fær flestum bílum á sumrin en á minni bílum er best að fara sér hægt. Eftir um 8 km blasir við bílastæði og upplýsingaskilti um gönguna á Keili. Gangan sjálf er skemmtileg og á flestra færi, en tvær leiðir að fjallinu eru í boði. Annars vegar eftir stikaðri leið í gegnum hraunið og hins vegar eftir hrygg Oddafells. Skemmtilegt getur verið að gera úr leiðinni hringferð. Upp eftir Keili liggur svo slóði sem á endanum leiðir mann að dýrindis útsýni yfir stóran hluta Reykjaness.

Fagradalsfjall – Langhóll

Langhóll

Á Langhól.

Það þarf eflaust ekki að minna marga á eldgosið sem hófst 19. mars 2021, kennt við Fagradalsfjall. Hæsti tindur þess svæðis heitir Langhóll og er um 390 metra hár. Þótt gangan hafi boðið upp á fallegt útsýni áður en gosið átti sér stað, þá varð útsýnið alls ekki síðra eftir það. Á leiðinni er gott útsýni yfir gosstöðvarnar og magnað að sjá hvernig hraunið hefur fyllt upp í botn Geldingadals. Til að komast að Langhóli er ýmist hægt að keyra Suðurstrandarveginn (nr. 427) um Krýsuvík eða Þorlákshöfn eða með því að fara í gegnum Grindavík. Gott er að byrja gönguna við bílastæði 1 fyrir gosstöðvarnar. Þaðan er gengið eftir merktum stíg í gegnum hraunið og í átt að gossvæðinu.

Langhóll

Langhóll – merkjastöpull.

Eftir rúman kílómeter skiptist stígurinn í tvennt, önnur leiðin liggur í átt að gosinu, en til að komast að Langhóli skal beygja til vinstri. Leiðin er stikuð og leiðir mann í átt að smá brekku brölti, en þar er þessi fíni kaðall sem gerir ferðina upp auðveldari. Þegar upp er komið halda stikurnar áfram og leiða mann stystu leið að útsýni yfir gosstöðvarnar. Þar sem engar stikur beina manni í átt að Langhóli getur verið þægilegt elta stikurnar þar til gígurinn og hinn nýlega hraunfyllti Geldingadalur blasir við og halda svo áfram með fram brúninni. Frá kaðlinum eru um 2,5-3 km að toppi Langhóls og þar sem hann er hæsti punktur svæðisins liggur beinast við að fara brattann og vinna sig hægt og rólega upp í móti. Þegar nær dregur toppnum ætti að glitta í útsýnisskífu. Á toppnum er svo frábært útsýni yfir Þráinsskjaldarhraun, Keili og til Grindavíkur. Skemmtileg ganga sem hentar flestum.

Heimild:
-https://reykjanesgeopark.is/is/tindar-reykjaness/

Arnarnýpa

Arnarnýpa. Hæsti tindur Sveifluhálsins.