Svæði Reykjanesskagans búa yfir miklum verðmætum, hvort sem horft er til orku eða annarra náttúruauðlinda. Mörg svæðanna eru enn að mestu óröskuð. Þau geyma ótal mannvistarleifar er endurspegla búsetu- og atvinnusöguna frá upphafi landnáms hér á landi. Flestir landsmenn búa nú á skaganum, en hann spannar hið forna landnám Ingólfs, vestan línu frá Ölfusárósum í Hvalfjarðarbotn.
Reykjanesskaginn telst til landnáms þessa fyrsta norræna landnámsmanns hér á landi. Eftir að hafa dvalið um tíma á Austurlandi, þangað sem flestir verðandi landnámsmannanna komu reyndar í fyrstu frá Suðureyjum, færði hann sig um set og taldi loks ákjósanlegri búsetukosti vera við heitavatnslindir ofan víkur þeirrar, er hann lagði loks við skipi sínu. Landnámið hefur verið nefnt eftir manninum og getið er um í Landnámu. Hóf hann, ásamt þrælum sínum, að byggja sér bæ og önnur nauðsynleg mannvirki. Landnámið færðist síðan smám saman yfir á frændur og búalið. Þegar minjar nátengdra afkomenda Ingólfs voru grafnar upp við byggingu húss Happdrættis Háskólans við Tjarnargötu og Herkastalans tæplega 1100 árum seinna var rótað í ummerkjum elstu mannvistarleifa á svæðinu og síðan húsin reist á grunni þeirra. Enginn hafði þá áhuga á hinum fornu og hinum augljósu tengslum þeirra við hinn fyrsta landnámsmann. Auðveldlega hefði verið hægt, með svolítilli umhugsun, að byggja húsin spölkorn frá og geyma svæðið til seinni tíma rannsókna. Nú eru þessar merku minjar glataðar og verða ekki endurheimtar – því miður. Svona er og hefur reyndar verið um margt það sem merkilegt hefur getað talist, hvort sem um er að ræða minjar eða einstök náttúrufyrirbæri. Það er þó bót í máli að á fyrrnefndu svæði eiga eftir að finnast fornleifar er gefa munu til kynna mannvist hér á landi löngu fyrir hið “opinbera norræna landnám”.
Af og til, einkum við hátíðleg tækifæri, og af gefnu tilefni eru mörg orð höfð um umhverfismál, mikilvægi verndunar, verðmæti umhverfis og náttúru, gildi hvorutveggja fyrir ferðaþjónustuna (hinnar sívaxandi atvinnugreinar) sem og nauðsynleg skil núverandi kynslóða til afkomendanna. Á milli orðanna er vaðið yfir stór áður óspillt svæði með stórvirkum vinnuvélum, jarðýtum og skurðgröfum í nafni arðbærar atvinnusköpunnar og aukningar á vergri þjóðarframleiðslu, framfara og “mikilvægrar nauðsynjar”, án þess að sú nauðsyn hafi yfirleitt verið útskýrð fyrir fólki. Gleymst hefur, að ekkert af því sem glatast, verður nokkurn tíma endurheimt – hvorki til handa komandi kynslóðum né öðrum.
En hér er í rauninni alls ekki um einfalt mál að ræða. Staðreyndin er þó auðvitað sú að huga þarf að skynsamlegu meðalhófi, annars vegar að varðveislu verðmætra náttúru- og minjasvæða, og hins vegar að arðsemi og nauðsynlegri nýtingu. Hingað til hefur fulltrúum síðarnefndu sjónarmiðanna verið gefinn um of laus taumur, með sárgrætilegum afleiðingum. Þeir hafa fengið, þegjandi og hljóðlaust, að sóða út dýrmæt svæði, jafnvel án nokkurrar skynsamlegrar ástæðu. Þegar horft er á loftmyndir eða svæði gengin og skoðuð, má vel sjá hvar farið hefur verið yfir landið á “skítugum skónum”. Mestu sóðarnir eru orkufyrirtækin og sjálf sveitarfélögin, sem einna helst hefðu átt að spyrna við fótum og gæta varúðar.
Fjárhagslegir hagsmunir hafa því miður fengið að ráða um of ferðinni – hingað til a.m.k. Fjármagn og möguleg arðsemi (í peningum talið) hefur jafnan ráðið afstöðu manna til fyrirsjáanlegrar eyðileggingar á umhverfinu.
Fólk, sem ber umhyggju fyrir landinu, hefur mótmælt óhóflegri röskun þess. En hversu víðtækur er landverndaráhuginn? Takmarkast hann einungis við ákveðna staði af tilteknum ástæðum? Endurspeglar hann afstöðu fjöldans, eða er hann bara bergmál hrópandans í eyðimörkinni? Langflestir vita mjög lítið um umhverfisvernd, örfáir svolítið meira og til eru þeir sem bulla um eitthvað sem skiptir engu máli. Stjórnmálamenn vita sennilega minnst um efnið þótt þeir tali mest um það – og þá jafnan um ekkert sem skiptir máli.
Tiltölulega auðvelt ætti að vera að samhæfa nýtingu og meðferð verðmætra náttúruauðlinda. Til þess þarf þó meira en menn sem horfa ekki til mögulegrar aðrsemi þeirra sjálfra – í aurum talið. Fólk með heilbrigða skynsemi kann og getur gætt að samræmi þess sem í raun skiptir máli.
Á hverju hefur fólk yfirleitt áhuga? Kannanir hafa sýnt að áhugi á óspilltri náttúru og menningartengdum svæðum séu áhugaverðastar. Þótt langflestir íbúar á Reykjanesskaganum sæki í ósnortna náttúru og nálægð við söguminjar í öðrum og fjarlægari landnámssvæðum eru möguleikar skagans nær óþrjótandi í þeim efnum. Og hvers vegna að aka í þrjár klukkustundir til að geta skoðað eitthvað á fimmtán mínútum þegar hægt er að aka í fimmtán mínútur til að geta skoðað sig um í þrjár klukkustundir? Allflest það er finna má í öðrum landshlutum er einnig að finna á Reykjanesskaganum. Fólk hefur hins vegar tilhneiginu til að horfa langt fyrri skammt.
Óyggjandi þörf er fyrir að varðveita landið sem mest ósnortið svo komandi kynslóðir og gestir þeirra geti notið þess sem skyldi. Líklegra má telja að fólk beri virðingu fyrir landinu meðan það er enn fallegt og jafnvel einstakt – telur sig tilheyra því. En um leið og búið er að raska eða eyðileggja hluta þess, minnkar áhuginn svo og virðingin í réttu hlutfalli við skemmdirnar. Enginn hefur t.a.m. áhuga á brotnum stól eða götóttum hjólbarða. Hvers vegna ætti fólk þá að hafa áhuga á eldborg, sem búið er að skemma og fjarlægja að hluta, eða fallegum dal, sem hefur verið sléttaður út til að koma fyrir stórvirkum bortækjum?
Mikilvægt er að þeir, sem fá leyfi til framkvæmda, standi þannig að málum að sem minnst röskun verði vegna þeirra. Öllum er ljóst að byggja þarf nýja vegi, virkja jarðorkuna, ná í sand, möl og grjót, en það er hægt að gera það að yfirlögðu ráði og með fullri meðvitund.
Eitt þeirra svæða, sem enn er ósnortið á Reykjanesskagnum eru Brennisteinsfjöll. Þar er jarðsagan og –myndunin líkt og opin fræðibók, bæði með litmyndum og augljósum skýringum; fallegar eldborgir, hrauntraðir, hellar og gígar, einstakri fánu og flóru ásamt einu frábærasta útsýni sem hægt er að hugsa sér – í friði fyrir háspennulínum. Minjar námuvinnslu eru í fjöllunum og gamlar þjóðleiðir liggja um þau, þvert yfir Reykjanesskagann, milli suður- og norðurstrandar hans.
Svæði Reykjanesskagans mynda bæði sjálfstæð og heilstætt búsetuminjasvæði. Þau hafa að geyma tæplega 260 selstöðuminjar, yfir 100 hlaðin fjárskjól, meira en 100 réttir og stekki, um 80 fjárborgir, ótal vörður tengdar sögulegum atburðum, a.m.k. 32 hlaðnar refagildrur, yfir 100 brunna og vatnsstæði, ótal gamlar götur þar sem fætur, hófar og klaufir liðinna kynslóða hafa markað djúp för í hraunhelluna, allnokkrar verminjar, varir naust og lendingar, fiskverkunarminjar og aðrar þær mannvistarleifar sem maðurinn hefur skilið eftir sig á löngum tíma. Minjar þessar lýsa m.a. hvernig forfeður og –mæður lifðu, við hvaða aðstæður og hversu aðdáunarvert megi telja að við, sem nú lifum, skulum yfirleitt geta orðið til. Fyrir það ber okkur að sjálfsögðu að þakka, t.d. með því að bera umhyggju fyrir því sem þetta fólk skildi eftir sig, hvort sem um er að ræða minjar, líkar þeim er byggt var á við Tjarnargötu, eða landið sjálft.
Mikið hefur verið rætt um mikilvægi eftirlits í samfélaginu – til að auka öryggið. Þær hugmyndir eru að mörgu leyti góðra gjalda verðar, en í umræðunni gleymist að helstu “skemmdarvargarnir”, sem fólki og landi stafar hvað mest hætta af um þessar mundir eru stjórnmálamenn og embættismenn tengdir ýmiss konar framkvæmdum, s.s. virkjanagerð, álversframkvæmdum og öðru því sem til þarf, s.s. vegagerðaraðilar. Utanvegaakstur spillir og landinu, malartaka ýmiss konar, íbúðabyggð o.fl. Engum hefur hins vegar látið sér detta í hug sérstakt eftirlit með aðilum er telja sig hjafa fengið leyfi til framkvæmda. Eitt nýlegt dæmi um slíkt er frá Heiðmörk. Annað frá Reykjanesbraut. Fáum dettur í hug að bæði sé hægt að vera með framkvæmdir og varðveita þau svæði, sem framkvæmdir ná yfir, en með svolítilli hugsun, eins og áður segir, þar sem varfærni er höfð til hliðsjónar og virðing fyrir umhverfinu er meðvituð, ættu verðmæti náttúrunnar sem og sögulegar minjar sér meiri möguleika til lengri framtíðar en hingað til, sbr. minjar hins fyrsta landnámsmanns við Tjarnargötu í Reykjavík. Einnig gamla gatan yfir Siglubergsháls, sem fór að óþörfu undir Suðurstrandarveginn.
Ef einhverjum hefði þá dottið í hug að leggja til að færa áætlaðar byggingar í miðborginni á sjötta áratug 20. aldar eða hnika til skipulagi um nokkra metra, væru nú, hálfri öld seinna, til sögulegasta minjasvæði landsins, og þótt víðar væri leitað – um upphaf landnámsbúsetu heillrar þjóðar. En það var bara ekki gert – því miður.
Náttúru- og söguminjar Íslands eru bæði einstakar og fjölmargar. En þær eru hvorki ótakmarkaðar né óaðgengilegar fyrir stórhuga framkvæmdamenn í arðsemisleit. Létttifandi lækur, fiðraður vorboði á hreiðri, háreistur álfaklettur, vel hlaðið fjárskjól í hrauni frá sögulegum tíma, tímalaus vör eða brönugras í júní með undirspil golunnar virðist allt fátæklegt í fyrstu. En þegar betur er að gáð er allt þetta, hver einstakt, margfalt verðmætara en t.d. ipot, tölvuleikir, gargandi tónlist, pizza eða samfelldur umferðarniður frá morgni til kvölds. Jafnvel verðmætara en suðið í háspennulínum hinna óteljandi mastra með undirliggjandi slóðum er hlykkjast nú þvers og kurs um landið.
Virðing fyrir landinu kostar ekkert. Eyðilegging náttúru- eða menningarminja verða aldrei bætt. Með ákvörðun um varðveislu og skynsamlegri nýtingu landsins er hægt að koma í veg fyrir óþarfa eyðileggingu, auka vitund fyrir raunverulegum verðmætum og skapa sátt. Og allir græða – a.m.k. eitthvað.