Landnámsratleikur Grindavíkur 2006

Þyrnir

FERLIR tók þátt í „Landnámsratleik Grindavíkur 2006„.

Járngerðardys

Járngerðardys.

Hér er um að ræða nýbreyttni í ferðaflóru Grindvíkinga. Þátttökuseðlar höfðu verið bornir út í hvert hús í Grindavík, en auk þess er hægt að fá þátttökuseðil í Saltfisksetri Íslands. Það var gert að þessu sinni og síðan lagt af stað (fótgangandi að sjálfsögðu) um þá 9 staði, sem tilgreindir eru í leiknum. Hver staður höfðar til landnámseinkenna Grindavíkur, sem numin var um 940, en var áður hluti af landnámi Ingólfs, þess norræna manns, sem fyrstur fékk viðurkenninguna „landnámsmaður Íslands“. Afrakstrinum var síðan skilað í Saltfisksetrið að göngu lokinni. Á leiðinni bar ýmislegt annað forvitnilegt fyrir augu.
Gengið var að eftirfarandi póstum (á hverjum pósti nálægt hverjum stað, sem vísað er á og fjallað er um ratleiknum, er gult merki með upplýsingum er staðfesta hann. Þær gefa og upplýsingar (bókstaf og tölustafi), sem skrá þarf á viðkomandi reit á þátttökuseðlinum).
1. Molda-Gnúpur og fólk hans námu land í Grindavík í kringum 940. Gnúpur er þekkt nafn á skipum hjá Þorbirni h.f. (ath. hornið við gömlu fiskverkunarhúsin).
2. Hafur-Björn var einn sona Molda-Gnúps. Veitingarstaður við Hafnargötuna bar nafn hans, en heitir nú Lukku-Láki. Óþarfi er að fara inn, þótt allir séu að sjálfsögðu velkomnir.
3. Björn dreymdi að bergbúi kæmi til hans og byði honum að gera félag við hann. Björn játti. Þá kom hafur til geita hans og geitunum fjölgaði og Björn var nefndur Hafur-Björn eftir það og varð stórauðugur eins og flestir Grindvíkingar. Merki Grindavíkur við innkomuna í bæinn (stóra spjaldið neðan við vatnsgeyminn, handan vegarins) sýnir geithafur.

Járngerðarstaðavör

Járngerðastaðavör.

4. Gömlu húsatóptirnar við Hóp eða í námunda við þær gætu hafa verið þar sem einn landnámsbærinn var – jafnvel bær Molda-Gnúps. Ein rústin hefur jafnan verið nefnd Goðatóft. Synir hans, Björn og Gnúpur, gætu hafa búið á Stað og á Húsatóptum.
5. Synir Molda-Gnúps, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi fiskuðu vel, því landvættirnir fylgdu þeim sem og öllum grindvískum sjómönnum eftir það. Ein lendingin gæti verið þar sem nú er Fornavör (neðan og austan við fjárhúsin).
6. Þjóðsagan segir að Járngerður hafi reiðst þegar bóndi hennar drukknaði á Járngerðarstaðasundi og lagt á að 20 skip skyldu farast á sundinu. Járngerður gæti hafa verið gift Þorsteini hrugni og búið á Járngerðarstöðum (þrjú hús standa nú á Járngerðarstaðatorfunni).
7. Munmæli herma að Járngerðarrleiði, sem Járngerður er sögð hafa verið heygð sé við veginn, rétt við bæinn Vík(best að leita sunnan götunnar suðaustanvið Vík).
8. Á Þórkötlustöðum bjó lílkega Þórkatla og gæti hafa verið gift Þórði leggjalda. En þjóðsagan segir að hún hafi reynt að milda álög Járngerðar og lagt á að á Þörkötlustaðasundi skyldi aldrei farast skip.. Þórkötlustaðanes og Þórkötlustaðaréttin bera nafn hennar (kíkja suður fyrir réttina).
9. Munnmæli herma að Þórkötlustaðaleiði, þar sem Þórkatla er sögð hafa verið heygð, er í litlum grónum hól, skammt austan við Hof, beint upp af Eyrarsandsbænum gamla (merkið er austan við hólinn (leiði Þórkötlu)).

Hóp

Goðatóftin á Hópi.

Á leiðinni á framangreinda staði var m.a. litið eftir álagahólum og -blettum, sem eru nokkrir í Grindavík, gömlum húsum, gömlum bæjarstæðum, tóftir skoðaðar o.fl. o.fl.
Leikur þessi er ætlaður fyrir alla og stendur yfir frá sjómannadegi til þjóðhátíðardags (milli tveggja þjóðhátíðardaga í Grindavík). Fróðleikurinn um landnámið er byggður á getgátum, en stuðst er vð Sturlubók, Hauksbók, munnmæli eldra fólks í Grindavík og þjóðsögurnar.
Sem fyrr sagði er galdurinn að skrifa á þátttökuseðilinn bókstaf og tölustafi á hverjum póstanna níu, finna úrlausnarorð yfir þekktan landnámsbæ, skrifa það og skila úrlausninni síðan inn í Saltfisksetrið fyrir 17. júní n.k. Þrír vinningar eru sagðir í boði: 1. 20 kg af saltfiski, sjófrystur fiskur og humar, 2. sjófrystur fiskur og 3. fjölskyldumáltíð á Lukku-Láka.
Ef einhverjir eiga enn eftir að taka þátt þá er bara að byrja leikinn og þar með gönguna um landnámstengda staði Grindavíkurbæjar. Á ferð FERLIRs mátti sjá fólk við póstana, bæði fótgangandi og hjólandi.
Frábært veður.

Grindavík

Grindavíkurkirkja.