Letursteinar – almennt
Af um 125 letursteinum og letursteinastöðum sem hafa verið rannsakað á suðvesturhorni Íslands eru langflestir varðveittir á vettvangi undir berum himni.
Áletranirnar á steinunum eru af ýmsu tagi en algengast er þó að finna ártöl og upphafsstafi, fangamörk eða nöfn. Stundum fylgja þeim einnig vísur eða aðrar stuttorðar upplýsingar, jafnvel myndir. Steinarnir eru fjölbreytilegir og má skipta þeim í nokkra flokka. Sumir tengjast höfnum og verslunarstöðum en aðrir hafa verið notaðir í tengslum við siglingar og fiskveiðar. Einn flokkur letursteina eru ýmis konar minningarmörk og legsteinar. Þá hafa steinar verið áletraðir til að merkja mannvirki og leiðir og landamerkjasteinar eru algengir. Áletranir alþýðufólks eru af ýmsu tagi og meðal þeirra eru líka áletranir frá hermönnum sem telja má til herminja. Loks eru sumir steinar alveg sér á báti.
Yfirleitt er letrið höggvið í steinana fremur en rist enda hafa þau sem þannig merktu klappir og grjót ætlað að skilja eftir eitthvað varanlegt.
Skoðaðir voru letursteinar frá síðustu tæplega 500 árum þannig að ljóst er að þessi hefð nær langt aftur. Væntanlega hefur þetta tíðkast hér á landi í einhverju formi frá upphafi byggðar en eldri áletranir hafa veðrast af steinunum í tímans rás. Ártöl eru mjög oft gefin upp og virðist yfirleitt mega treysta þeim þannig að marga letursteina er auðvelt að tímasetja.
Letursteinarnir eru ýmist jarðfastir eða lausir og hafa flestir mikið minjagildi og sumir eru í hættu vegna ágangs náttúruafla. Örfáum hefur því miður verið bjargað á söfn í stað þess að varðveita þá við menningarstaði þar sem saga þeirra á uppruna.