Reykdalsvirkjun – „Köldu ljósin“

Hörðuvallastöð

Þann 18. desember 2024 var sýningin „Köldu ljósin“ opnuð undir búnni á Lækjargötu við Hörðuvelli í Hafnarfirði.
Sýningin var tileinkuð starfi Jóhannesar Reykdal sem sannarlega var einn af þeim sem setti sitt mark á Íslandssöguna og sögu Hafnarfjarðar með skapandi hugsun sinni og framkvæmdagleði.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal (1874-1946).

Jóhannes Reykdal var einna þekktastur fyrir að vera frumkvöðull í rafvæðingu á Íslandi en þó þekktur í Hafnarfirði fyrir margt annað og fyrir að hafa rutt veginn á svo marga vegu. Hann var fæddur 1874 og lést 1946.

Sýningin „Köldu ljósin“ fjallar um tímamótin þegar fyrsta almenningsrafveitan á Íslandi var tekin í notkun í Hafnarfirði árið 1904 og fyrstu húsin þá raflýst. Síðan eru liðin 120 ár. Talið er að fyrsta raflýsingin í desember 1904 hafi náð til fjögurra ljósastaura og rafmagn hafi verið leitt í 16 hús. Í sýningarrýminu er búið að endurskapa trésmiðju Jóhannesar og með gagnvirkum og táknrænum hætti verður kveikt á fyrstu húsunum sem fengu rafmagnið í Hafnarfirði árið 1904. Forsagan er að Jóhannes flutti inn rafal frá Noregi þetta sama ár til að rafvæða trésmiðju sína og fékk í framhaldinu færa menn til að leggja einnig rafmagn í nokkur hús.

Hörðuvallastöð

Hörðuvallastöð Jóhannesar Reykdals.

Jóhannes Jóhannesson Reykdal reisti þessa stöð við Hörðuvelli. Hann reisti rafstöðina einn og óstuddur og sá um rekstur hennar til ársins 1909. Þá keypti Hafnarfjarðarbær rafstöðina.
Sýningin „Köldu ljósin“ verður aðgengileg alla daga ársins allan sólarhringinn og er það snjöll og skemmtileg að gestirnir sjá sjálfir um að virkja sýninguna með því að toga í spotta og tendra virknina. Gangandi og hjólandi umferð um þessar sögulegu slóðir er mikil og ég sannfærð um að sýningin mun gleðja gesti og gangandi og festa söguna um merkan frumkvöðul enn frekar í sessi.

Á fjórum skiltum á sýningunni má lesa eftirfarandi:

Hörðuvallastöðin

Hörðuvallastöðin

Hörðuvalastöðin – skilti.

„Snemma árs 1905 var orðið ljóst að rafstöðin við Austurgötu gæti ekki annað mikilli eftirspurn eða þjónað bænum öllum. Réðst Jóhannes þá í það verk að reisa nýja rafstöð hér á Hörðuvöllum. Hann fékk lán úr viðlagasjóði og samdi við Jens Pálsson, prófast að Görðum, um lóðarleigu undir stíflu, stöðvarhús og íbúð fyrir vélstjóra „ofanvert við Hörðuvelli í Garðakirkjulandi, norðan við Hafnarfjarðarlæk, og fylgja lóðinni rjettindi til að nota, með slíkum umbúnaði, sem ar er nú niðurkominn, vatnsafl úr læknum til að hreifa vjelarnar í stöðvarhúsinu.“ Eins og sagði í samningnum.

Hörðuvallastöð

Sýningin „Köldu ljósin“.

Hörðuvallastöðin var gangsett laugardaginn 6. október 1906 og var hún gerð fyrir 37 kw. en vegna vatnsleysis náðist aldrei meira úr henni en 22 kw. en talið er að Hörðuvallastöðin hafi verið fyrsta sjálfstæða rafstöðin hér á landi. Í frétt dagblaðsins „Fjallkonan“ af gangsetningu stöðvarinnar sagaði m.a.: „Frá þessari stöð er rafmagninu veitt ofan í bæinn eftir eirþræði, sem liggur á staurum. Nú er lýst með rafmagni 44 hús, og eftir eru 8, sem ætla að fá lýsingu í vetur. Auk þess eru á aðalgötu bæjarins 7 ljósker, 4 sem bærinn leggur sér til sjálfur, og 3 sem kaupmenn hafa sett fyrir framan búðir sínar/…/ Húseigendur kosta rafmagnsveitu um húsin, en Reykdal að þeim. /…/ Gamla stöðin er nú eingöngu notuð handa einu húsi, fundarhúsi Goodtemplara. Þar eru samkomur oft fram á nætur, og fyrir því þykir hentugra að þurfa ekki að nota stóru stöðina handa því húsi.“

Reykdal

Reykdalsstíflan – minnismerki um Jóhannes Reykdal.

Jóhannes Reykdal seldi Hafnarfjarðarbæ báðar rafstöðvarnar árið 1909 og var starfsemi þeirra eldri hætt tíu árum síðar. Upp úr 1920 var orðið ljóst að Hörðuvallastöðin næði ekki að anna þeirri eftirspurn sem var eftir rafmagni í bænum og var þa samið við fyrirtækið Natan & Olsen um að setja upp díselrafstöð í bænum. Frá árinu 1922 sá sú stöð um rafmagnsframleiðslu fyrir notendur vestan Hamarskotslækjar en Hörðuvallastöðin fyrir íbúa sunnan lækjar. Þetta dugði þó ekki lengi og fljótlega kom í ljós að Hörðuvallastöðin gat ekki staðið undir þeirri rafmagnsframleiðslu sem nauðsynleg var. Var þá samið við við eigendur „Nýju stöðvarinnar“ um rafmagnssölu fyrir allan Hafnarfjörð. Í þeim samningi kom fram að frá 10. ágúst 1926 næði einkaleyfissvæðið yfir allan Hafnarfjarðarkaupstað og frá sama tíma var kaupstaðnum óheimilt að framleiða rafmagn með vatnsaflsstöð bæjarins. Jóhannes Reykdal keypti þá tæki Hörðuvallastöðvarinnar og nýtti fyrir trésmíðaverkstæði sitt á Setbergi og til eigin þarfa.“

Fyrsta almenningsrafveitan

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal; Fyrsta almenningsrafveitan – skilti.

„Til er áhugaverð lýsing á upphafi rafvæðingar Íslands eftir Gísla Sigurðsson sem hann ritaði eftir frásögn Árna Sigurðssonar, fyrsta rafvirkja landsins. Þar segir m.a.: „Kvöld nokkurt fyrst í desember 1904 var óvenju mikið um mannaferðir um stígana í Hafnarfirði. Þar voru á ferð fólk á öllum aldri, menn og konur, karla og kerlingar, strákar og stelpur. Allt átti þetta fólk brýnt erindi að litlum skúr er var áfastur „Timbursmiðju“ Jóh. J. Reykdals er stóð ofanvert við Moldarflötina sunnan Hafnarfjarðalækjar. Allur stóð þessi skari framanvert við skúrinn og þrengdi sér í dyrnar. En á gólfinu stóð eins margt manna og inn gat komist og raðaði sér umhverfis sérkennilegan hlut: „Fyrstu rafljósavélina er hingað kom til Íslands“. /…/ Rafallinn átti að vera í sambandi við vatnshjól það, er verksmiðjan var rekin með. Svo var vatnshjólið sett í gang. Þá var tekið í sveif og reim færð yfir á skífu og um leið fór rafallinn að snúast, og um leið skeði undrið mikla. Í lítilli glerkúlu er hékk úr lofti skúrsins tóku að birtast logandi þræðir, daufir í fyrstu en smá skýrðust þar til þeir loguðu með hinni skærustu birtu.“

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal við rafalinn.

Forsaga þessa máls var sú að um sumarið 1904 sigldi Jóhannes Reykdal til Noregs og keypti þá 9 kw. rafal sem hann tengdi við ás hverfilsins sem hann hafði notað við trésmíðavélarnar. Jóhannes fékk nýútskrifaðan rafmagnsfræðing, Halldór Guðmundsson, til að hafa umsjón með verkinu og lagningu rafmagnslína til valinna hús í bænum en Árni Sigurðsson, trésmiður, og síðar fyrsti rafvirki landsins, annaðist raflagnir innanhúss. Heimildir eru nokkuð á reiki um fjölda þeirra húsa sem fengu rafmagn í desemberbyrjun árið 1904, sumar heimildir segja að að settir hafi verið upp fjórir ljósastaurar og rafmagn leitt í 16 hús en aðrar telja að húsin hafi verið eitthvað færri.

Jóhannes Reykdal

Sýningin „Köldu ljósin“ – vatnshjólið.

Notendur greiddu fyrir ákveðinn fjölda ljósa, oftast tvö ljós en ljósastæðin voru þó fleiri í hverju húsi og perurnar þá flutta á milli herbergja eftir þörfum. Jóhannes seldi perurnar sjálfur gegn því að hinum ónýtu væri skilað og hafði hann þannig stjórn á fjölda ljósanna. Hver og einn mátti láta loga meðan rafallinn var í gangi en það var frá því að skyggja tók á kvöldin til kl. 12 á miðnætti og á morgnanna frá kl. 6 þar til vinnubjart var orðið inni við. Í samtíða frétt sagði um rafvæðinguna: „Hafnfirðingar eru mjög vel ánægðir með raflýsinguna, þykir hún þægileg, handhæg og ódýr, og þeir mega með réttu vera stoltir að hafa orðið fyrstir til þess að innleiða hana á Íslandi.“

Trésmíðaverkstæðið

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal; Trésmíðaverkstæðið – skilti.

Eftir að Jóhannes Reykdal flutti til Hafnarfjarðar árið 1902 hóf hann þegar að stunda iðn sína í bænum. Hann sami þetta sama ár við hreppsnefnd Garðahrepps um byggingu barnaskóla við Suðurgötu og í kjölfarið risu einnig bæði Arahús og Svenborg en það var upphafi af umfangsmiklum húsbyggingum hans í Hafnarfirði. Árið 1903 samdi hann við séra Jens Pálsson, prófast að Görðum, um lóð undir trésmíðaverksmiðju og afnotarétt að Hamarskotslæk.
Jóhannes ReykdalHann fékk lán frá landsjóði upp á 8.000 kr til framkvæmdarinnar en lán þetta var með 4% vöxtum og afborgunarlaust í þrjú ár en greiddist þá upp á 12 árum. Trésmíðaverksmiðja þessi var sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Í kjölfarið birti hann eftirfarandi auglýsingu á dagblaðinu Ísafold: „Nýtt maskínuverkstæði. Ég undirritaður fæ nú í vor nýjar maskínur á snikkaraverkstæði mitt, fullkomnar til að vinna að bygginga- og möblusmíði og alt sem renna þarf. Tveir nemendur geta fengið pláss strax. Vinnan óvanalega létt.“

Hann sigli erlendis til að kaupa vélar í verksmiðjuna og kom með gufubátnum Skálholti frá Kaupmannahöfn til Hafnarfjarðar annan í páskum árið 1903 með átta trésmíðavélar.
Jóhannes ReykdalVélar verksmiðjunnar voru knúnar áfram með fallorku bæjarins en Jóhannes lagði níu metra langa rennu úr læknum í vatnskassa við húshliðina og var fallhæð vatnsins í kassanum tæpir fjórir metrar. Þar var að finna 11 kílóvatta hverfil og frá honum lá aðalöxullinn inn í kjallarann undir húsinu. Frá öxlinum lágu reimar upp í gegnum gólfið í svokallaða hreyfivél sem svo knúði trésmíðavélarnar áfram. Vélarnar sem Jóhannes keypti þetta vor, voru rétthefill ætlaður til að taka bugður og vending af fjölum, þykktarhefill sem tók við af þeim fyrri, tveir strikheflar, borvél, hjólsög, bandsög og rennibekkur. Vélar þessar voru nýjungar sem þekktust ekki hér á landi og sem dæmi um það er til skemmtileg lýsing úr frétt af opnun verksmiðjunnar þar sem sagði ma.: „Þó að vér tölum hér um hefla, það er það ekki að öllu leyti rétt kveðið að orði. Það, sem vér köllum hér svo, eru í rauninni vélar, sem hefla og sem ekki geta gert sér rétta hugmynd um nema menn sjái þær.“

Jóhannes rak trésmíðaverkstæði þetta allt til ársins 1911 en í árslok það ár seldi hann það tólf Hafnfirðingum sem stofnuðu sameignarfélag undir nafninu Dvergur, trésmíðaverksmiðja og timburverslun Hafnarfjarðar, Flygering & co.“

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal; „Köldu ljósin“ – skilti.

Það var sunnudaginn 18. janúar 1874 sem hjónunum í Vallakoti í Þingeyjarsýslu, Jóhannesi Magnússyni og Ásdísi Ólafsdóttur, fæddist þeirra 15. barn. Það var drengur sem síðar hlaut nafnið Jóhannes Jóhannesson Reykdal. Jóhannes ólst upp í Eyjafirði, Fnjóskadal og á Seyðisfirði við lítil efni. Þegar hann var kominn á fullorðinsár fór hann til Akureyrar og lærði þar smíðar hjá Snorra Jónssyni. Á Akureyri var hann um tíma en árið 1098 hélt hann til Kaupmannahafnar til að stunda frekar nám í iðn sinni og dvaldi hann ytra í tvö og hálft ár. Hann kom til Íslands aftur vorið 1901 og var í Reykjavík í eitt ár en flutti þá til Hafnarfjarðar og settist þar að.

Jóhannes Reykdal

Þórunn Böðvarsdóttir.

Jóhannesi hefur verið lýst á eftirfarandi hátt: „Hann var kvikur á fæti og snöggur í fasi, hljóp oft við fót þegar hann var á ferð og var mikið niðri fyrir þegar hann talaði. Hann var ótrauður til verka og gekk í hvað sem var ef honum þótti seint ganga eða óhönduglega að staðið. Hann gat tekið ákvarðanir fyrirvaralaust og þótt þær gætu verið umdeilanlegar var hann maður til að standa við þær svo að ekki hlaust skaði af.“

15 maí 1904 kvæntist Jóhannes Þórunni Böðvarsdóttur og eignuðust þau 12 börn en móðir Jóhannesar var alltaf með honum og sá hann fyrir henni síðustu árin. Hann stofnaði trésmíðaverkstæði og síðar rafveitu í Hafnarfirði en eftir að hafa selt þessi fyrirtæki hof hann búskap á Setbergi ofan við Hafnarfjörð árið 1911, síðar byggði hann nýbýlið Þórsberg þar skammt frá og bjó þar til dauðadags 1946.
HafnarfjörðurVið Setberg reisti hann rafstöð og þar var hann með ýmsar nýjungar í búrekstrinum, keypti dráttarvél 1927 sem hægt var tengja ýmis heyvinnutæki við og þá tók hann í notkun mjaltavél á búi sínu, einna fyrstur manna hér á landi. Árið 1920 reisti hann nýtt trésmíðaverkstæði á landareign sinni og sex árum síðar reis þar einnig íshús sem þjónustaði útgerðina í bænum.

Eins og áður segir fluttist Jóhannes Reykdal til Hafnarfjarðar árið 1902 og upp frá því má segja að saga hans og bæjarins hafi tvinnast þétt saman. Auk fjölda húsa sem hann byggði í bænum settu trésmíðaverkstæði hans og síðar farveitan mark sitt á bæinn. Auk þessa var Jóhannes einn af stofnendum Vatnsveitufélags Hafnarfjarðar, hann var varamaður á lista til fyrstu bæjarstjórnarkosninga í bænum 1908, fyrsti slökkviliðsstjóri bæjarins og fyrsti formaður í stjórn Fríkirkjusafnaðarins í Hafnarfirði svo eitthvað sé nefnt.“

-ÓSÁ tók saman.

Jóhannes Reykdal

Jóhannes Reykdal; sýningin „Köldu ljósin“. Í forgurnni má sjá upplýst húsin í Hafnarfirði á fyrstu árum rafvæðingarinnar.