Örnefni – mikilvægi
Þekking á örnefnum var mjög mikilvæg fyrrum – af skiljanlegum ástæðum. Sérhver bóndi þurfti t.d. að þekkja vel staðhætti á jörð sinni til að geta vísað vinnufólkinu leið að tilteknum nauðsynlegum verkefnum, allt árið um kring. Þá gátu nafnkennd landamerki ekki verið látin sitja óbætt hjá garði.
Ásfjall – Dagmálavarðan – stríðsminjar.
Skráðar örnefnalýsingar dugmikils fólks hafa löngum verið varðveittar og þar með hefur tilvist þeirra náð að festa í sessi, bæði þrátt fyrir og með nýbúendum einstakra jarða.
Í Hafnarfirði hafa, í gegnum tíðina, ýmst ágætisfólk verið duglegt að skrá örnefni bæjarins og nágrennis. Má þarf t.d. nefna, Magnús Jónsson, Stefán Júlíusson, Gísla Sigurðsson, fyrrum lögregluþjón og síðar forstöðumaður Byggðasafns Hafnarfjarðar. Hin mikla skráningararfleifð Gísla er nú að finna, reyndar í lokuðu rými, í Bókasafni Hafnarfjarðar.
Sesselja G. Guðmundsdóttir, Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd…
Sesselja G. Guðmundsdóttir er einn þessara mikilvægu skrásetjara hvað Vatnsleysuströndina varðar, líkt og sjá má í bók hennar „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)„. Ekki hefur hún einungis skráð svæðið heldur og gengið að öllum örnefnunum og lýst þeim af nákvæmni. Aðra markvissa skrásetjara á Reykjanesskaganum, þ.m.t. Vatnsleysuströnd og nágrenni, má nefna Ara Gíslason og Gísla Sigurðsson. Þá eru ótaldir öll þau er hafa annað að öðrum ólöstuðum, hvort sem þeir/þau hafa fæðst eða flust á einstakar jarðir, og nýtt tíma sinn til að skrá þekkt örnefni þeirra. Má þar t.d. nefna, óháð tíma, á vestanverðum Skaganum Sigurð Eiríksson í Norðurkoti, Leó í Höfnum, Jón Thoroddsen, Sigurð Sívertssen, bræðurna á Stóra Hólmi, Ragnar Guðleifsson og Sturlaug Björnsson, Lofts Jónssonar í Grindavík, auk Ólafs Þórarinssonar, Konráðs og Kristófers Bjarnasona í Selvogi svo fárra einna merkismanna sé getið. Einnig má nefna Ásgeir Jónsson er skráði Þingvallasvæðið og Hjört Björnsson fyrir lýsingar hans á Mosfellsheili.
Suðurnesjabær – minnismerki; Prestsvarða.
Á austanverðum Skaganum verður fyrst og fremst vísað til einstakra presta, s.s. á Mosfelli og Reynivöllum með vísan til skráðra „Íslendingasagna“. Þorvaldur Thoroddsen hefur auk margra annarra skrásetjara dregið fram ýmis örnefni í sýslunni í ritum sínum.
Örnefni spila jafnan mikilvægan þátt í skráningu fornleifa. Gífurlegt magn handrita hefur í gegnum tíðina verið varðveitt markvisst hjá Örnefnastofnun í gegnum tíðina þar sem Jónína og Svavar sinntu sínum daglegu störfum af áhuga og mikilli fórnfýsi. Þegar áhugafólk þurfti til þeirra að leita voru viðbrögðin jafnan; „Gjörðu svo vel, hvað get ég gert fyrir þig?“ Slík ánægjuleg móttökuorð innan geirans hafa ekki heyrst síðan Örnefnastofnun var lögð undir hina „mætu“ Árnastofnun.
Svavar Sigmundsson.
Örnefni og skráningar virðast, því miður, nú til dags, ekki alltaf fara saman þegar kemur að framangreindu. Að meginefni er a.m.k. um tvennt að sakast; annars vegar takmörkuðum skráningarmöguleikum og hins vegar hinni ágætu aðgengilegu fyrrum Örnefnastofnun við Neshaga með sínu takmarkaða húsnæði, fullnýttu skúfurými og hinum duglega mannskap, og hins vegar umfangið áður en hún var sameinuð í skrifstofu í Árnastofnun og í framhaldinu send upp í skrifstofuhróf við Laugarveg þar sem áhugsasamir þurftu að liggja löngum á dyrabjöllu inngöngudyranna til að nálgast upplýsingarnar, yfirleitt án árangurs. Hið vinsamlega viðmót starfsfólksins fyrrum virðist hafa verið látið víkja fyrir stofnanamennskunni.
Hafnarfjörður 1902 – herforingjaráðskort með örnefnum.
Af framangreindu að dæma hefur heldur dregið, bæði úr áhuga og örnefnaþekkingunni meðal landsmanna í seinni tíð. Landmælingar Íslands (lmi) hafa reynt að gefa út „örnefnakort“, sem bæði er þó að mörgu leyti villandi og í sumum tilvikum beinlínis röng. Í fjölmiðlanútímanum gæti fáfræði, meðal sumra, jafnvel talist kostur; því færri sem vita, því betra! Dæmi um slíkt er nýlegt manndrápsmál við Hraunhóla ofan Hafnarfjarðar er fjölmiðlafólkið kenndi við Krýsuvík. Að vísu eru Hraunhólarnir innan lands Krýsuvíkur, en reyndar á ystu norðurmörkum landareiganarinnar, víðs fjarri nafngiftinni.
Spurningin er þó hvort æskilegt sé að örnefnin munu hverfa með öllu út úr landslagsvitundinni er fram líða stundir, til ills eða góðs? Kannski þarf nútímamaðurinn ekkert á fyrrum örnefnum lengur á að halda? Snjallsíminn muni duga honum til allra þarfa? Hafa ber þó í huga að með hvarfi örnefnanna hverfur bæði hluti fornleifanna sem og sögunar.
Jafnan er sagt að fortíðin sé grundvöllur nútíðar vorrar þegar huga þarf að möguleikum framtíðar. Hafa ber í huga að á framangreindum rökum hefur Ísland verið byggt upp frá upphafi til vorra tíma.
Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.
Fornleifaskráningar bæja og sveitarfélaga hafa jafnan verið sagðar byggðar af „fagfólki“. Staðreyndin er hins vegar sú að einstök nátengd einkarekin „fagfélög“ hafa ráðið til sín nema í fornleifafræði við HÍ til sumarstarfa til að skrá fyrir sínar skuldbindingar einstök svæði. Nemarnir hafa jafnan til hliðsjónar tilfallandi örnefnalýsingar og byggja jafnan skráningar sínar á öðrum fyrirliggjandi gögnum. Til eru þó dæmi um að þeir hafi látið hjá að ómaka sig á vettvang einstakra minja og lýst þeim með fáfróðu orðaskrúði.
Í bók Sesselju G. Guðmundsdóttur „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins)“ frá árinu 2007 er m.a. fjallað um „Arfinn“ þann er felst í örnefnunum:
Arfurinn
„Örnefni eru dýrmætur arfur sem geymir upplýsingar um sögu, tungu og ýmsa aðra hætti þeirra sem byggðu landið frá upphafi og til okkar tíma. Við sem erfðum landið höfum skyldur við þá sem næstir koma, meðal annars þær að vernda örnefnin og þá um leið söguna sem í þeim býr.
Þorbjarnarstaðaborg.
Örnefnafræði er grein af málfræði og er aðaltilgangur hennar að skýra nöfn, þ.e. leita uppruna þeirra. Örnefnaskýringar geta síðan varpað ljósi á hina ýmsu þjóðlífsþætti fyrri tíma. Sögnin „að örnefna“ er til og menn örnefna hóla og hæðir enn í dag þó svo að sögnin sem slík sé lítið notuð. Til gamans má geta þess að austur í Landsveit, á Dómadalsleið, er til örnefnið Boney M (nafn á popphljómsveit frá árunum um 1980). Tildrög þessa örnefnis var að fýrir nokkrum árum hitti maður ár sveitinni hörundsdökkt par þarna á bílaleigubíl og síðan þá er sandaldan kölluð Boney M! – Ekki beint þjóðlegt örnefni.
Sóleyjarkriki efst. Horf frá Trölladyngju.
Flest nöfnin í hreppslandinu hafa augljósa tilvísun og þá til landslagsins — náttúrunnar — og eru því svokölluð náttúrunöfn. Mörg þeirra draga þó nöfn af bæjum, mönnum eða bústörfum.
Í örnefnum felast oft skýrar myndir, svo sem í nöfnum eins og Hrafnabjörg og Einbúi. Hvaða hugmynd skyldi fólk fá þegar minnst er á Sóleyjakrika? Að öllum líkindum mynd af einhverju fallegu eins og t.d. sóleyjabreiðum og veðursæld. Kúadalur og Geldingahóll segja til um búskaparhætti en Ólafsgjá opnar sýn inn í slysfarir og dauða.
Þau eru nokkuð mörg örnefnin í þessari kennnileitalausu sveit sem gefa fyrirheit um eitthvað tilkomumikið en standa svo lítt eða ekki undir nafni við nánari athugun. Djúpidalur er aðeins grunn uppblásin dæld í heiðinni, Fögrubrekkur eru lágt klapparholt með grasrindum og Háhólar greinast tæplega frá öðrum hólum í grenndinni. Þessar nafngiftir eru þó ofur eðlilegar enda komnar frá fólki sem hafði sjaldan eða aldrei séð „raunverulega“ dali, háa hóla né grösug og víðáttumikil beitilönd í svipmiklum sveitum.
Sum örnefnin eru illræð eða óræð og slík nöfn vekja hvað mestan áhuga. Hvað merkja t.d. nöfnin Sprengilendi og Margur brestur? Af hverju í ósköpunum heitir varða Leifur Þórður? Áhugamaður um fræðin reynir til hins ýtrasta að finna lausn gátunnar. Stundum fæst líkleg niðurstaða en í annan tíma verður gátan torræðari því lengur sem vöngum er velt.
Við ættum vissulega að leggja okkur fram um að vernda örnefnin handa komandi kynslóðum svo þær megi hafa gagn og gaman af.“
Fjarðarfréttir – Guðni Gíslason, ritstjóri.
Hvernig væri framtíðin án þekkingu nútíðar og vitneskju fortíðar?
Ók fyrir skömmu með ritstjóra Fjarðarfrétta um Reykjanesbrautina, Grindavíkurveginn og Suðurstrandarveginn. Ókum m.a. í gegnum Grindavík, upp Siglubergshálsinn, austur fyrir Ísólfsskála, litum [G]núpshlíð augum sem og Lat og Stóru-Eldborg. Á leiðinni báru fjölmörg örnefni á góma, s.s. Krýsuvíkurheiði, Drumbur, Drumbdalastígur, Borgarhóll, Einbúi, Gullskjól, Svartaklettur, Ögmundarstígur sem og fjöll og tindar á Sveifluhálsi.
Ritstjórinn sat þegjandi um stund, aldrei þessu vant.
Loks, eftir að hafa horft um stund á umhverfið af athygli með hliðsjón af tilfallandi skýringum, virtist hann skyndilega vakna af dái: „Vá, spyr þú mig; hversu margir landsmenn skyldu hafa áhuga og jafnvel þekkja örnefnin er fram líða stundir. Þú gætir mögulega verið sá síðasti?“…
Heimild:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi (ofan Gamla-Keflavíkurvegarins), Sesselja G. Guðmundsdóttir, bls. 11-13, 2. útgáfa 2007.
Grænuborgarrétt í Vogum.