Brunnar í Vogum og á Vatnsleysuströnd

Knarrarnes

Gamlir brunnar teljast til fornleifa. Samkvæmt skilgreiningu þjóðminjalaga þá eru fornleifar allar leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða manna verkverk eru á, og eru 100 ára eða eldri, þ.e. öll mannavist í landinu er tengdist öflun neysluvatns fyrir fólk og fénað.

Landnám

Landnám.

Landnámsmenn, sem reistu fyrst byggð hérlendis, hafa m.a. sælst til þess að rennandi vatn félli hjá bæjarstæðinu og til skamms tíma hefur það þótt góður kostur á sveitabýli að eiga góðan bæjarlæk rétt hjá bæjarveggnum. Þar sem lækir voru af skornum skammti nýtti fólk sér annað hvort regnvatn eða undirliggjandi vatnsrennsli, sem stundum dró dám af stöðu sjávarfalla. Víðast hvar, reyndar við nánast hvern einasta bæ eða kotbýli voru grafnir brunnar utan þeirra vatnsstæða, sem nýtt voru utan þerris. Brunna þessa má enn sjá víða á landinu. Þeir voru margir hverjir byrgðir eða fyllti upp með grjóti að notkun lokinni til að forða slysum á börnum.
þvottalaugarAllt breyttist þetta í byrjun 20. aldar þegar flest byggð ból áttu orðið kost á streymandi lindarvatni, auk heitu vatni til baða, eftir vatnsleiðslum um lengri eða skemmri veg. Þessi breyting gerðist á svo skömmum tíma í sögu þjóðarinnar að enn muna fjölmargir Íslendingar til þess að bera þurfti allt neysluvatn frá brunni eða bæjarlæk í hús.
Vatn á vetrardegi fyrrum gat verið miklum erfiðleikum bundin. Vatn þvarr í langvarandi frostum, eigi síður en í þurrkum, og vatnsból lögðust undir ís.
VatnsberiVatnsburður frá vatnsbóli til bæjar var eitt af húsverkunum. Hafði viss heimilismaður einkum það starf að bera vatn í bæ eða fjós? Kunna menn af eigin raun eða eftir annarra sögn að segja frá fólki sem vann fyrir sér með því að bera vatn í hús frá vatnspósti eða vatnsbóli.
Lækningalindir hafa verið víða hér á landi, margar að sögn tengdar vígslum Guðmundar góða.
Vissa varúð þurfti að hafa við öflun vatns á víðavangi, einkum er menn lögðust niður við vatn til að svala þorsta sínum (að signa yfir vatnið eða drekka gegnum dúk eða síu einhverskonar). Var algengasta aðferðin þó sú að drekka úr lófa sínum?

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – leifar gömlu vatnsleiðslunnar til Hafnarfjarðar.

Vatnsleiðslur með sjálfrennandi vatni eða tengdar dælum eða vatnshrútum koma til sögunnar undir lok 19. aldar og þó einkum í byrjun þeirrar 20. Í fyrstu var um stein- og tréstokka að ræða. Einstakar sveitir lögðu samveitur vatns um langar leiðir. Þessar framkvæmdir léttu miklu oki af fólki og voru þýðingamikill þáttur í framför aldarinnar. Um þetta er völ margra heimilda en annað liggur engan veginn ljóst fyrir og þá allra helst um það hverjir fyrst hófust handa við að leiða vatn í bæjarhús og útihús í einstökum sveitum eða byggðum. Þó höfðu einstakir menn forgöngu um það, öðrum fremur, að leggja vatnsleiðslur til heimila sinna sveita og fóru til þeirra starfa bæ frá bæ?“

Gvendarbrunnar

Gvendarbrunnar – flugmynd.

Af þessum umleitunum má sjá að vatnsöflun og -neysla hefur þótt áhugaverð fornsöguleg arfleifð – og þarf engan að undra því hér hefur verið um að ræða einn af grundvallarþáttum afkomunnar frá upphafi lífs á jörðinni – hér á landi allt frá landnámi til þessa dags.
Þegar skoðaðar eru seinni tíma fornleifaskrárlýsingar má vel sjá hversu framangreindar fornleifar hafa því miður markvisst verið afmáðar við útfærslu byggða í seinni tíð.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum„, Áfangaskýrslum I, II og II, má t.d. lesa eftirfarandi um brunna í Vogum og á Vatnsleysuströnd:

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Tún Tumakots og Nýjabæjar liggja saman á hólnum, sem nefnast Borhólar og skammt þaðan er Nýjabæjarbrunnur, […].“ segir í örnefnaskrá. „Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, voru flestir brunnar í Vogunum grjóthlaðnir en búið er að fylla upp í þá flesta“.

Rétt hjá bænum Hábæ var Hábæjarbrunnur,“ segir í örnefnaskrá. „Brunnurinn sést enn í grasigróinni dæld fast sunnan við sléttaða grasflöt“.

Stapinn

Stapabúð.

Í Stapabúð undir Stapa sjást enn miklar leifar. „Þar eru 4 tóftir, kálgarður, leifar af túngarði og brunnur á svæði sem er um 170 x 90 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Grjóthlaðinn brunnur er um 145 m norðvestan við Stapabúð. Brunnurinn er hrörlegur og nokkuð samanfallinn en enn sést í hleðslur, 3 umför“.

Við Brekku, einnig undir Stapanum, „um 5 m austan við kálgarðinn er steinhlaðinn brunnur. Hann er um 1,5 m í þvermál og um 2 m djúpur. Í botni brunnsins var bárujárnsplata og leifar af viðarröftum en lítið sem ekkert hefur hrunið úr brunninum“.

Stapinn

Brekka undir Stapa.

Bræðrapartsbrunnur „er skammt fyrir sunnan húsið, segir í örnefnaskrá. „Samkvæmt túnakorti frá því um árið 1919 var Bræðrapartsbrunnur um 60 m SV við bæ og um 100 m SV við Suðurkot“, nú horfinn.

Ofan við Stóru-Voga segir: „Þar skammt frá Veginum [í gegnum Voga] er vatnsból er nefndist Gvendarbrunnur eitt þeirra vatnsbóla er vor ágæti Gvendur góði vígði,“ segir í örnefnaskrá. „Milli Leirdals og efstu húsanna er Gvendarbrunnur sem sagður er vígður af Guðmundi góða Arasyni Hólabiskupi. Brunnurinn er lítil hola við klappir oftast með einhverju vatni í,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Gvendarbrunnur er um 10 m austan við íbúðarhús við Hvammsdal 14 og um 450 m suðaustan við Suðurkot. Brunnurinn er í grasi- og mosagrónu grýttu hrauni“. Gvendarbrunnur er nú horfinn undir byggð.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur í Vogum.

Um Stóru-Vogabrunn segir: „Heiman frá bæ lá Stóru-Vogastígur niður í Stóru-Vogavör við Stóru-Vogatanga. Upp frá Vörinni var Stóru-Voganaust og Stóru-Vogasjóhús. Milli sjávar og bæjar var [svo] Stóru-Vogabrunnur,“ segir í örnefnaskrá. „Engar leifar af brunni fundust milli Stóru-Voga og sjávar. Nákvæm staðsetning hans er því óþekkt“.

Tumakotsbrunnur – „[…] Tumakotsstígur á niður í Tumakotsvör og Tumakotsbrunnur tilheyrði bænum,“ segir í örnefnaskrá. „Samkvæmt túnakorti frá því um 1919 var Tumakotsbrunnur um 20 m austan við bæ. Á þessu svæði er nú íbúðarhús við Akurgerði 8 og sléttaður garður. Samkvæmt Guðrúnu L. Magnúsdóttur, heimildarmanni, var brunnurinn grjóthlaðinn en búið er að fylla upp í flesta brunna í Vogaþorpi. Ekkert sést til fornleifa. Samkvæmt túnakorti frá árinu 1919 var brunnur um 30 m NV við Suðurkot“.

Stapi

Brekkukotsbrunnur.

Í örnefnaskrá segir: „Þá er Suðurkotsstígur og liggur niður í Suðurkotsvör og rétt við bæinn var Suðurkotsbrunnur.“ Samkvæmt túnakorti frá árinu 1919 var brunnur um 80 m austan við Suðurkot og um 10 m vestan við útihús. Nákvæm staðsetning brunnsins er rétt við mörk bílastæðis og gras/trjábeðs milli Suðurkotshússins og horns suðausturálmu húss eldri borgara, Álfagerðis“.

Auk þess má nefna…

Austan Grænuborgarhúss í Grænuborgartúni er Grænuborgarbrunnur og Brunngatan þaðan og heim til húss. … 5 m suður af tóftinni var brunnur. Búið er að byrgja hann með tréhlera en engin merki sáust um brunngötuna sem nefnd er í örnefnalýsingunni.

Samkvæmt túnakorti frá árinu 1919 var brunnur um 30 m ASA við Minni-Voga. Á þessu svæði er sléttað malarplan við vesturenda Austurgötu að norðanverðu.

Stapinn

Stapinn – Brekkubrunnur.

Ekkert sést til brunnsins þar sem fyllt var upp í hann um 1980. Samkvæmt Ásu Árnadóttur, heimildarmanni, notuðu Austurkot og Minni-Vogar sama brunninn.
Á þessu svæði er sléttað malarplan þar sem geymdir eru gámar og annað tengt því iðnaðarhúsnæði sem nú stendur við bryggjuna í Vogum.
Ekkert sést til brunnsins.

„Auðnabrunnur var austan bæjarins, og Auðnabrunnstígur heim til bæjar,“ segir í örnefnaskrá. Um 60 m NNA við bæ og um 20 m NNA við útihús er merktur brunnur á túnakort frá 1919. Brunnurinn er á röskuðu óræktarsvæði um 20 m norðaustan við skemmu sem er áföst gömlu steyptu útihúsi.
Brunnurinn er byrgður og sést illa en steyptur kantur sést við brunninn. Brunnurinn sjálfur er líklega um 2×2 m að stærð að utanmáli en það sést illa vegna gróðurs og efnis sem sett hefur verið ofan á hann.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 var Höfðabrunnur um 70 m suðaustan við bæ og um 20 norðvestan við Höfða. Í örnefnaskrá segir: „Höfðabrunnur – austan við Höfðatjörn – er löngu fallinn saman.“ „Norðan við stíginn var svo Höfðabrunnur,“ segir í örnefnaskrá Auðnahverfis.

Bergskotsbrunnur

Bergskotsbrunnur.

Bergkotsbrunnur var samkvæmt túnakorti frá 1919 um 80 m austan við bæ. Þar sést enn lítil tóft. Tóftin er í túnjaðri við merkin móti Landakoti. Tóftin er um 5×4 m að stærð og snýr norður-suður. Hún er einföld og grjóthlaðin. Inngangur er í norðvesturhorni. Mesta hleðsluhæð er um 1 m og sjást 3 umför hleðslu í innanverðri tóftinni.
„Austan við bæinn var brunnur (vatnsból), Bergkotsbrunnur. Brunnur þessi var hlaðinn innan, og var hann tæp mannhæð á dýpt. Vatn úr honum var notað handa skepnum og einnig til þvotta, en óhæft til drykkjar, svo sækja var neyzluvatn á næsta bæ, Landakot,“ segir í örnefnaskrá. Brunnurinn er um 25 m suðaustan við bæ. Brunnurinn er í þýfðum móa, rétt utan (suðaustan) við kálgarða. Brunnurinn er um 3 m í þvermál, grjóthlaðinn. Hleðslur standa um 0,3 m upp úr jörðu og eru um 0,5 m á breidd. Ekki sést ofan í brunninn og kann hann að hafa fallið saman eða verið fylltur af grjóti og öðru efni.

Landakot

Landakotsbrunnur.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 var Landakotsbrunnur um 70 m norðan við bæ. Um þennan brunn segir í örnefnaskrá: „Ofan sjávargarðsins liggur landamerkjalínan að sunnan milli Landakots og Auðnahverfis og stakkstæðið upp í krókinn eða hlykkinn, sem var milli sjávargarða Landakots og Auðna. Þaðan um grjótgarðinn í Brunnhóla og svo eftir gamla torfgarðslaginu um Landakotshól og þaðan út í túngarðinn og heiðargarðinn,“ segir í örnefnaskrá. Brunnurinn er í Brunnhólum og sést enn til hans. Brunnurinn er í lægð í túninu, nærri merkjum móti Auðnum. Að sögn Margrétar Guðnadóttur, heimildamanns, var tjörn á þessum stað á æskuárum hennar í Landakoti. Lægðin var þurrlend og grösug þegar skráningarmaður var á ferð (júní 2010).
Brunnurinn sést sem hringlaga dæld í túninu sem er um 4 m í þvermál. Svo virðist sem hlaðið hafi verið meðfram brunninum í boga til norðurs en náttúruleg hæð afmarkar hann til suðurs. Mesta hæð hleðslunnar er um 0,2 m og er hún um 5×3 m að stærð og snýr austur-vestur. Ekki sést grjót í henni nema á einum stað.

Þórustaðir

Þórusstaðir – Syðribrunnur.

Annar brunnur við Landakot var „Vatnsbólið“, og í honum flæðivatn ósalt. Hann þornaði um fjöru, en fylltist á flóði, og varð að sæta sjávarföllum til að dæla úr honum vatni. Hann er um 80-100 m neðan við íbúðarhúsið í Landakoti, langt frá Djúpugröf og miklu yngri og var aldrei kallaður annað en Brunnurinn.“ Brunnurinn er um 90 m norðan við bæ. Brunnurinn er fast norðan við lágan hól í túni sem nýtt er til beitar. Brunnurinn er grjóthlaðinn og hringlaga. Hann er um 3 m í þvermál og stendur um 0,4 m upp úr sverði. Að sögn Margrétar Guðnadóttur, heimildamanns, er hann djúpur en ekki vissi hún hversu djúpur hann var. Reft hefur verið yfir brunninn og sést því ekki ofan í hann. Leiðsla var lögð úr brunninum í fjósið (áfast núverandi íbúðarhúsi) í tíð Margrétar og sést enn móta fyrir henni þar sem hún liggur úr suðausturhorni brunnsins fyrir hólinn og til suðurs. Hún líkist sokknu garðlagi sem er um 0,5 m á breidd og 0,2-0,4 m á hæð.

Þórustaðabrunnur

Þórustaðabrunnur.

Samkvæmt túnakorti var Þórustaðabrunnur fast við Sjávarstíginn, um 60 m norðvestan við bæ. Á heimasíðu Ferlis segir um sama brunn: „Nyrðri brunnurinn er vestan götu frá bænum niður að sjávarhúsnum. Steypt er við opið og stór hringlaga hlemmur ofan á. Hann er fallega hliðinn [svo] niður.“
Brunnurinn er fast suðvestan við bílslóða niður að sjó, í túni. Umhverfis brunninn er nú steyptur kassi og er hann byrgður með miklum tréhlemmi. Samkvæmt Margréti Guðnadóttur, heimildamanni, var brunnurinn hlaðinn niður. Hann er um 2,5×2,5 m að stærð og rís um 0,3 m upp úr jörðu. Fast suðaustan við brunninn er kofahræ, að falli komið, úr viði og bárujárni og á litlu þakinu er allþykk jarðvegstorfa. Líklega eru þetta leifar einhvers konar brunnhúss.

Landakot

Landakotsbrunnurinn gamli.

Við Þórustaði var „Brunnurinn nyrðri“. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var þró eða niðurgröftur í norðurjaðri mýrar sem er á mörkum Landakots og Þórustaða, um 170 m VNV við bæ. „Brunnar tveir eru við Mómýrina Syðri. Nefnast Tjarnarbrunnar[;] Brunnurinn Nyrðri norðan Mýrarinnar og Brunnurinn Syðri sunnan, eða utan Mýrarinnar,“ segir í örnefnaskrá. Líklegt er að gryfjan sem er í norðurjaðri Mómýrarinnar Syðri sé Brunnurinn Nyrðri og að hann hafi verið notaður til að brynna fé í fjárhúsum. Ekki var að sjá önnur ummerki um brunn við norðurenda mýrarinnar. Á heimasíðu Ferlis er talið að brunnur sé Brunnurinn Nyrðri.

Þórustaðir

Þórustaðir – Norðurkot; túnakort 1919.

Þá var við Þórustaði „Brunnurinn syðri“. „Brunnar tveir eru við Mómýrina Syðri. Nefnast Tjarnarbrunnar Brunnurinn nyrðri norðan Mýrarinnar og Brunnurinn syðri sunnan, eða utan Mýrarinnar,“ segir í örnefnaskrá. Á heimasíðu Ferlis segir: „Í raun má sjá báða þessa brunna enn þann dag í dag. Einkum er Syðri brunnurinn áberandi. Hann er bæði hlaðinn og stór um sig, þó líkari vatnsstæði, enda suðvestan undir Tjarnarendanum. Fallega hlaðin brunngata liggur að honum.“ „Mörk Suðurtúnsins eru úr Sandinum undir Þórustaðabakka upp í Brunninn Djúpugróf [búið að strika yfir nafnið í vélriti] eða Djúpugröf, þaðan eftir Markasteinum eftir Gamla-Garðlaginu í Heiðargarðinn. Brunnurinn Djúpagróf var allmikið mannvirki, niðurgrafið og upphlaðið, og tröppur niður að ganga að vatninu, sem aldrei þraut,“ segir í örnefnaskrá. Á túnakorti frá 1919 er brunnurinn sýndur á merkjum milli Landakots og Þórustaða. Margrét Guðnadóttir man eftir því að þvottar voru þvegnir í brunninum og því óvíst að hann hafi verið notaður fyrir vatnsból, a.m.k. í seinni tíð. Brunnurinn er um 210 m vestan við bæ.
Djúpagröf er á merkjum milli Landakots og Þórustaða, í gróinni mýri skammt suðaustur af fjörunni. Brunnurinn er grjóthlaðinn í hring. Hann er um 4 m í þvermál utanmáls og standa hleðslur um 0,3 m upp úr sverði en gróið er yfir þær, Ekki sést í tröppur í brunninum en hlaðið hefur verið undir merkjagirðingu þar sem þær voru á suðvestanverðum brunninum. Líklega er brunnurinn um 1,5 m á dýpt en vatn er í honum og gróður og sést ekki gjörla til botns.

Hellukot

Hellukotsbrunnur.

Um brunn við Hellukot segir: „Upp í túninu sunnan götunnar var hjáleiga í eina tíð, nefndist Hellukot, þar í kring var Hellukotstún. Í þessu túni var Hellukotsbrunnur, og brunnstígur frá honum til bæjar,“ segir í örnefnaskrá. Hlaðinn brunnur er um 1,5 m í þvermál, vandlega hlaðinn en farinn að falla inn efst. Brunnurinn er um 2 m á dýpt en þurr og fullur af drasli.
Brunnurinn er skráður með Hellukoti en hann er horfinn undir veg sem liggur að Þórustöðum. Ekki er annað að skilja af örnefnaskrá en að Þórustaðir hafi sótt vatn í Hellukotsbrunn, en óvíst er hvort það hafi verið gert þegar býlið var byggt.

Norðurkot

Norðurkotsbrunnur.

Norðurkotsbrunnur var af skiljanlegum ástæðum við bæinn Norðurkot norðaustan Þórustaða. Í Norðurkoti var barnaskóli fyrrum. Skólahúsið var síðar flutt að minjasafninu við Kálfatjörn. Á heimasíðu Ferlis segir: „Norðurkotsbrunnurinn er einn fallegast brunnurinn á ströndinni og nær alveg heill. Hann er í lægð skammt norðan við túngarðinn.“ Brunnurinn er um 60 m norðaustan við bæ. Brunnurinn er í lægð í móa innan um gróna hraunhóla. Brunnurinn er grjóthlaðinn, og er sementslím í hleðslunni. Brunnurinn er um 2,5 m í þvermál og er byrgður með viðarplötu svo ekki er hægt að sjá ofan í hann. Hleðslur standa um 0,4 m upp úr jörðinni. Gaddavír er strengdur á staura umhverfis brunninn.“

Kálfatjörn

Kálfatjarnarbrunnur.

Kálfatjarnarbrunnur er sagður „niður með Sjávargötunni,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. „Niður með sjávargötunni og fast við hana, um 70 m frá hlaðvarpanum, er brunnurinn, vatnsból, sem enn er notað, og var það fyrsta á Vatnsleysuströnd, sem grafið var svo djúpt í jörð að þar gætti flóðs og fjöru. Slíkt var kallað flæðivatn. Síðar þegar sprengiefni kom til sögunar var þessi brunnur dýpkaður, svo ekki þryti vatn um stórstraumsfjörur,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnarhverfis. Umræddur brunnur er merktur inn á túnakort frá 1919 um 100 m norðvestur af bæ. Hann er í óslegnu belti milli sleginna flata á golfvellinum. Brunnurinn er á litlum hól, 0,5 m háum og 5 m í þvermál. Brunnurinn sjálfur er 2 m í þvermál. Ekki sést í neinar hleðslur í honum. Nú hefur hann verið byrgður. Mikið og hátt gras er í kringum brunninn.“

Minjasvæðið sem tilheyrir Goðhól er um 150 x 70 m og snýr norðvestur-suðaustur. Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru á svæðinu bæjarhús a), brunnur. Brunnurinn sést enn vel og er hann grjóthlaðinn, um 2 x 2 m að stærð og um 0,7 m djúpur. Grjóthleðslur hafa fallið inn í brunninn. Brunnurinn er gróinn í botninn og getur verið að fyllt hafi verið upp í hann að hluta.

Kálfatjörn

Ólafur Erlendsson með FERLIRsfélaga við Landabrunninn.

Landabrunnur er „Í Landamóanum, rétt við túngarðinn, er vatnsból á sléttum bala. Kallast það Landabrunnur; er hann 2x3m ummáls og 1,3m á dýpt. Þar þrýtur sjaldan vatn,“ segir í örnefnaskrá. Vatnsbólið er um 10 m norðan við Heiðargarð og 160 m suður af bæ. Golfvöllur, umkringdur mosagrónu hrauni.
Andrés Guðmundsson, heimildamaður, sagði vatnsbólið ná niður á klöpp. Það var dýpkað með dínamíti um miðja síðustu öld. Líkt og segir í örnefnaskrá er vatnsbólið 2 x 3 m að stærð og nær niður á klöppina, um 1 m að dýpt. Ekkert vatn er hins vegar nú í dældinni og vex nokkur gróður í botni hennar. Engar hleðslur eru sýnilegar við vatnsbólið og er grasi gróið allt í kringum hann.

Hliðsbrunnur var við Hlið,“ segir í örnefnaskrá. Nákvæm staðsetning hans er ekki þekkt en líklegt er að hann hafi verið um 10 m ANA við bæjartóft Hliðs og um 250 m suðvestan við Kálfatjörn. Golfvöllur og tún innan túngarðs Kálfatjarnar. Utan hans er hraun. Hvorki brunnur né vatnsstæði fannst við Hlið. Andrés Guðmundsson,heimildamaður, vissi ekki til þess að þar væri brunnur. Golfvöllur nær nú nánast að Hliði og gæti brunnurinn hafa horfið undir hann.

Móakotsbrunnur

Móakotsbrunnur.

Naustakotsbrunnur var „Við bæinn,“ segir í örnefnaskrá. Ekki reyndist unnt að staðsetja hann. Stórgrýtt fjara. Víða ganga klappir fram í sjó og mynda víkur sín á milli. Milli golfvallarins og fjörunnar er blautt valllendi. Enginn brunnur fannst við Naustakot. Mögulegt er þó að hann sé kominn undir flöt á golfvellinum eða að um sama brunn sé að ræða og nafn hans hafi breyst eftir að Naustakot fór í eyði.

Móakot – Brunnurinn er nú innan golfvallar. Mikið er búið að breyta landslagi á þessum slóðum og nú er manngerð tjörn á svipuðum slóðum og mýrin var áður. Líklegast er að brunnurinn hafi verið norðan undir dálítilli klöpp í túninu, um 50 m norðvestan við bæ. Þar er nú slétt golfflöt en merki eru um að tyrft hafi verið á þessum stað tiltölulega nýlega og getur verið að fyllt hafi verið upp í brunninn og tyrft yfir hann af golfvallarstarfsmönnum.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki var að sjá aðrar vísbendingar um brunn í næsta nágrenni. Það er hins vegar steinsteyptur brunnur mun nær bæ, eða um 30 m norðvestan við hann og því ólíklegt að það sé sami brunnur og merktur er á túnakort. Þarna er hringlaga steinsteypt hella, um 2 m í þvermál og trélok yfir opinu, um 0,5 x 0,5 m að stærð. Brunnurinn er í grasi grónum móa þar sem eru nokkrir klapparhólar. Brunnurinn er um 1 m í þvermál að innanmáli og fullur af grjóti. Tvö stór björg eru í austur- og vesturbrún brunnsins en minni steinar til annarra átta. Líklegt er að brunnurinn hafi verið hlaðinn að innan en grjótið sem sést efst í honum kann að hafa verið sett í hann til að fylla upp í hann eftir að hætt vara að nota hann.

Fjósakot – „Hér var Vatnsstæðið vatn í klöpp og þraut aldrei, sem einnig var nefnt Vatnsgjá,“ segir í örnefnaskrá. Vatnsstæðið er milli tveggja lágra hóla um 90 m norðvestur af bæ. Vatnsbólið er innan golfvallar. Mosagróið hraun er utan vallarins. Vatnsgjá er 1,4 m djúp dæld og 3 x 2,5 m stór. Glitta sést í grjót í dældinni og hefur líklega verið hlaðið ofan í hana. Hún er nú gróin grasi og er þurr.

Flekkuvík

Flekkuvík – túnakort 1919.

Flekkuvík – „Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur um 50 m norðaustan við Vesturbæinn. Brunnurinn er austan í hólsenda í annars nokkuð sléttum grasbala. Brunnurinn er grjóthlaðinn er að mestu hruninn saman. Hann er um 3 m í þvermál og um 1 m djúpur. Ekkert vatn er í honum og hann er gróinn í botninn.

Flekkuvík – „Brunnurinn hefur verið í sléttu grasgefnu túni, sunnan við lítinn blautlendan blett þar sem vex stör. Ekki sást til brunnsins á vettvangi og kann að hafa verið fyllt upp í hann. Hann sést hins vegar sem dökkur díll á loftmynd á Google Earth eins og aðrir brunnar Flekkuvíkur“.

Flekkuvík – „Austurbæjarbrunn er víst óhætt að kalla Brunninn sem áður er nefndur,“ segir í örnefnaskrá. 70 m ASA af bæjarstæði er brunnur, rétt vestan við gróna heimreið að bænum em liggur í gegnum túnið. Brunnurinn er merktur á túnakort frá 1919. Brunnurinn er í grónu túni. Hringlaga brunnur, 2,5 m í þvermál og 2,5 m djúpur. Hann er hlaðinn úr grjóti sem hefur að hluta verið höggvið til. Brunnurinn er nú þurr og sést í grjót í botni hans.

Flekkuvík

Flekkuvík – Vesturbæjarbrunnur.

Flekkuvík – „Vesturbæjarbrunnur,“ segir í örnefnaskrá. Sami brunnur er merktur inn á túnakort frá 1919, í túni Vesturbæjar, um 70 m norðvestan við bæ. Brunnurinn er í túni, nokkuð sléttlendu, en norðan við hann eru lágir og grónir klapparhólar. Brunnurinn er grjóthlaðinn, um 2 m í þvermál og um 1 m djúpur. Ekki er vatn í brunninum. Brúnir brunnsins slúta nokkuð inn og hrunið hefur úr brún hans í suðausturjaðri.

Um Neðri-Brunnastaðabrunn“ segir; „Eftir Sigurjóni Sigurðssyni í Traðarkoti er haft, að fram undir 1908 hafi aðeins verið fjórir brunnar í Brunnastaðahverfi, innangarðs, þ.e. í Halakoti, Neðri-Brunnastöðum, Skjaldarkoti og Suðurkoti. Utangarðs voru brunnar í Grund og Vorhúsum . … Í (Neðri-) Brunnastaðabrunni gamla, sem af Hverfisingum er talinn elsti brunnurinn, voru steintröppur, og sömuleiðis í gamla Halakotsbrunni,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi.

Flekkuvík

Flekkuvík – Austurbæjarbrunnur.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnurinn um 20 m norðvestan við Neðri-Brunnastaði. Brunnurinn var þar sem malarflöt er á milli nýlegs sjóvarnargarðs og heimreiðar að bænum. Búið er að hylja brunninn og er ástand hans því ekki þekkt. Að sögn Jóhanns Sævars Símonarsonar, heimildarmanns, var brunnurinn um 4 m á dýpt og saltbragð var að vatninu í honum. Engin ummerki um brunninn sjást lengur á yfirborði en ætla má að hann sé nokkuð heillegur undir sverði.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur um 40 m austan við Efri-Brunnastaði. Brunnurinn er í túni á sléttuðum hól við vegarslóða sem liggur að Skjaldarkoti. Búið er að fylla upp í brunninn en að sögn heimildamanns, Virgils Scheving Einarssonar, var hann grjóthlaðinn og mjög djúpur. Þar sem brunnurinn er sést aðeins lítil dæld sem er um 0,5 m í þvermál og 0,1-0,2 m á dýpt.

„Á Bieringstanga voru nokkrir bæir sem fóru í eyði á árunum 1920-1925. Þeir voru þessir: Grund eða Trumba,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Þar kemur fram að tún hafi verið umgirt grjótgörðum og að brunnur hafi verið utan túns. Brunnur C er um 45 m austan við húsgrunn. Hann stendur lágt á milli hæða í túninu. Brunnurinn er grjóthlaðinn og er um 2×1,5 m að innanmáli, snýr austur-vestur. Hrunið hefur ofan í hann, aðallega úr vestur- og suðurhliðum. Hann er nánast fullur af grjóti og er um 0,5 m á dýpt. Vatn stendur í brunninum (maí 2013). Á korti sem fylgir ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi og sýnir hlaðin mannvirki er merktur inn brunnur á öðrum stað en þessi brunnur er, eða norðan við bæ. Í örnefnaskrá fyrir Bieringstanga segir einnig að Grundarbrunnur hafi verið í norður frá bænum.

Vorhús

Vorhúsabrunnur.

Nýi-Vorhúsabrunnur er um 20 m sunnan við bæjartóft og er sá sem sýndur er á túnakorti. Hann er hringlaga, um 4 m í þvermál og 1 m í þvermál innanmáls. Brunnurinn virðist vera grafinn ofan í klöpp en hann hefur verið byrgður og því sést ekki ofan í hann. Brunnurinn (eða klöppin) stendur 0,5-0,6 m upp úr túninu. Gata, Vorhúsabrunngata, liggur til suðurs framhjá Nýja-Vorhúsabrunni að Gamla-Vorhúsabrunni í dálitlum sveig frá norðvesturhorni bæjartóftar. Hún er upphlaðin og er um 22 m á lengd, 1 m á breidd og 0,2 m á hæð. Ekki sést í grjóthleðslur. Gamli Vorhúsabrunnur er við endann á Vorhúsabrunngötu. Hann sést sem hringlaga gróin þúst sem er um 4 m í þvermál. Þústin er flöt að ofan og er hæst um 0,5 m á hæð. Sjávargata lá
frá brunni til vesturs í Vorhúsavörina. Engin ummerki um hana sjást.

Bieringstangi

Hvammsbrunnur við Bieringstanga.

Hvammur – „Rétt norðaustan við bæinn er brunnur, Hvammsbrunnur. Brunnurinn er um 7 m austan við bæinn. Hann er grjóthlaðinn og er um 4 m í þvermál utanmáls og hefur fallið saman að miklu leyti. Hleðslurnar eru grónar og eru um 0,3 m á hæð þar sem þær eru hæstar. Rof er komið í hleðslurnar á tveimur stöðum. Innanmáls er brunnurinn um 1,5 m í þvermál.

Á Klapparholti var brunnur og sézt þar enn fyrir veggjum. Brunnurinn var þar skammt fyrir sunnan salthúsið …“ Auk þeirra mannvirkja á Klapparholti sem þegar hafa verið nefnd voru að sögn Ágústs grjótbyrgi þar sem fiskurinn var saltaður í en þau voru komin í sjó. Árið 1878 var lagt mat á eignir verslunarinnar í Klapparholti vegna nýrra laga um húsaskatt. Þá var þar salthús, timburhjallur og torfbær sem skiptist í baðstofu bæjardyr og eldhús.

Bieringstangi

Grundarbrunnur.

Í Vorhúsum var (Neðri-) Brunnastaðabrunnurinn gamli, sem af Hverfisingum er talinn elsti brunnurinn, voru steintröppur, og sömuleiðis í gamla Halakotsbrunni,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Brunnur er um 20 m norðan við bæ og um 30 m norðvestan við bæjarstæði.
Brunnurinn er í túni, fast norðaustan við malarveg sem liggur að fjöru og gömlu sjóhúsi sem byggt var 1930 eða 1940 og hefur verið endurgert.
Þar sem brunnurinn er hefur verið steyptur upp ferkantaður stokkur og er hleri ofan á honum svo ekki sést ofan í hann. Ætla má að brunnurinn sé grjóthlaðinn og nokkuð heillegur.

Halakotsbrunnur

Halakotsbrunnur.

Gamli-Halakotsbrunnur er sýndur á korti sem sýnir hlaðin mannvirki. Ummerki um brunninn eru um 20 m suðaustan við bæ. Ógreinileg ummerki eru um Gamla-Halakotsbrunn. Halakotsbrunnur sé undir sverði. Hann er um 1,5 m í þvermál og 0,2-0,4 m djúpur. Fyllt hefur verið upp í brunninn eða hann fallið saman og svo hefur verið sléttað yfir hann.

Suðurkotsbrunnur gamli var utangarðs við brunna í Grund og Vorhúsum,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Á korti sem fylgir ritgerðinni er nafnið Suðurkotsbrunnur gamli. Er það sami brunnur og merktur er inn á túnakort frá 1919. Brunnurinn var 70-75 m ANA við bæ. Hann sést en hefur verið byrgður og er þúst ofan á honum. Brunnurinn er í flatlendum hluta túnsins. Votlent er í túninu sunnan og vestan við brunninn.

Austurkot

Austurkotsbrunnur.

Austurkot – „Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur um 25 m norðan við bæ. Búið er að byggja lítið brunnhús yfir brunninn og er hann enn notaður fyrir íbúðarhúsið í Austurkoti. Brunnurinn er í lægð í horni milli vegar að Traðarkoti og vegar að Brunnastaðabæjunum. Húsið sem er yfir brunninum var læst og því ekki hægt að sjá brunninn sjálfan“.

Naustakot – „Brunnur er merktur inn á túnakort frá 1919, um 30 m norðaustan við bæ. Brunnurinn sést enn. Brunnurinn er í óræktarbletti innan túns litlu norðan við íbúðarhúsið í Naustkoti. Brunnurinn er byrgður og er hlemmur yfir honum sem er um 1,5 m í þvermál. Ekki sést ofan í brunninn en það heyrist vatnsgutl í honum. Ætla má að hann sé um 3 m í þvermál utanmáls og 1 m í þvermál innanmáls. Hann er grjóthlaðinn en ekki er vitað hversu djúpur hann er“.

Skjaldarkot

Skjaldarkotsbrunnur.

Skjaldarkot – „Brunnurinn er í túni, um 50 m suðaustan við sjóvarnargarð. Túnið er í rækt. Lítið hús með steyptum grunni hefur verið byggt yfir brunninn. Húsið var læst þegar skráningarmaður var á vettvangi vorið 2013 og var því ekki hægt að skoða hann. Ætla má að brunnurinn sé heillegur“.

Gerði – „Fyrstan er að nefna tómthúsbæinn Gerði sem var norðaustast í Skjaldarkotslandi. Féll Gerði úr byggð 1905, en við hann eru kenndir Gerðiskálgarðar,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Á kort sem fylgir ritgerðinni er merktur brunnur hjá býlinu og er hann skráður með því. Enn sjást kálgarðarnir, allstór tóft og ummerki um brunninn. Að öllum líkindum hefur verið fyllt upp í hann. Þar er grjótþúst á og við litla klöpp“.

Traðarkotsbrunnur

Traðarkotsbrunnur.

Traðarkotsbrunnur – „Brunnlaut dregur nafn sitt af Traðarkotsbrunni …, “ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Brunnurinn er merktur inn á túnakort frá 1919 og er um 30 m vestan við bæ. Brunnurinn er í hólóttu túni. Dálítil brekka er frá brunninum upp á hólinn þar sem bæjarstæði Traðarkots er. Brunnurinn er grjóthlaðinn. Hann er 3,5 m í þvermál að utanmáli og 1,5 m í þvermál að innanmáli. Hleðslurnar standa vel og eru 0,5 m á hæð ofan jarðar. Steypt hefur verið ofan á brunninn og sett viðarlok þar ofan á. Gat er á lokinu og hægt að sjá niður um það ofan í brunninn. Hann virðist vera 4-5 m á dýpt og sjást 12-14 umför í innanverðum hleðslum. Ekki sést vatn í brunninum en slanga liggur úr brunninum í fiskikar sem notað er til að brynna skepnum“.

Hlöðunesbrunnur

Hlöðunesbrunnur.

Hlöðunesbrunnur – „Hlöðunesbrunnur, Halldórsstaðabrunnur og þá Narfakotsbrunnur voru allir skammt frá bæjum í Túnunum,“ segir í örnefnaskrá. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur um 80 m norðan við bæ og er það að líkindum Hlöðunesbrunnur. Brunnurinn er enn greinilegur. Brunnurinn er í fremur sléttu og flatlendu túni. Brunnurinn er byrgður og því sést ekki ofan í hann. Hann stendur nokkuð upp úr túninu og er um 3×3 m að stærð og 0,4 m á hæð. Brunnurinn er gróinn. Ekki fengust upplýsingar um það hversu djúpur hann er en ætla má að hann sé grjóthlaðinn“.

Halldórsstaðir

Halldórsstaðabrunnur.

Halldórsstaðir – „Á túnakortinu eru sýnd 5 útihús, einn brunnur, ein þró og þrír kálgarðar. Fyrir utan bæjarstæðið sáust þrjár tóftir (ein þeirra er ekki sýnd á túnakortinu), leifar af brunni og leifar af tveimur kálgörðum. Á túnakorti sést einnig að brunnur var um 10 m norðaustan við kálgarð. Þar er nú vegur sem liggur að Narfakoti og líklegt að brunnurinn hafi farið undir hann. Hins vegar er annar brunnur skráður á númer og hefur hann að öllum líkindum tilheyrt Halldórsstöðum. Ekki er útilokað að brunnurinn sem merktur er á túnakort sé sá sami“.

Narfakotsbrunnur – Brunnurinn er fast suðaustan við hæð í túni, um 10 m norðaustan við heimreið að íbúðarhúsi. Brunnurinn er byrgður og ekki hægt að sjá ofan í hann. Hann stendur um 0,3 m upp úr jörðu og er um 3 m í þvermál. Hann er grjóthlaðinn en gróinn. Ferkantaður viðarrammi er ofan á brunninum sem er um 2×2 m að stærð. Hann er með hlera og ofan á hleranum er grjót.

Ásláksstaðir

Ásláksstaðabrunnur.

Ásláksstaðabrunnur – Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur um 40 m sunnan við bæ. „Ásláksstaðir eiga þrjú túnstykki í Norðurtúni. Túnstykki niður við Tjörn, túnstykki niður að Vesturkofa og túnstykki niður á Ásláksstaðabrunni,“ segir í örnefnaskrá. Þar stendur einnig: „Hallandabrunnur var framan bæjar í túninu.“

Hallandabrunnur hét Nýjabæjarbrunnur eftir að nafni Hallanda var breytt í Nýjabæ. Ásláksstaðabrunnur og Hallandibrunnur/Nýjabæjarbrunnur eru að öllum líkindum sami brunnurinn og á túnakorti sést leið 028 liggja frá Hallandi/Nýjabæ að brunninum. Brunnurinn er í túni, fast austan við tjörn. Brunnurinn er grjóthlaðinn en byrgður þannig að ekki sést ofan í hann og ekki ljóst hversu djúpur hann er. Hann er um 3×2,5 m að utanmáli og um 1 m á hæð þar sem hann er hæstur. Hann er gróinn að utan. Að sögn heimildamanns, Helga Davíðssonar, var gott vatn í brunninum og vatn er í honum enn“.

Móakot

Móakotsbrunnur.

Móakot – „Samkvæmt túnakorti frá 1919 var í túni Móakotsbærinn, tvískipt útihús, þró, lítið útihús og áfastur kálgarður , brunnur, kálgarður, útihús, þrískipt útihús, annað þrískipt útihús, þró, kálgarður áfast sjávargarði og túngarður sem afmarkar túnið og er jafnframt merkjagarður. Bærinn var um 160 m NNV við bæ. Útihús var fast NNV við bæ. Þró var fast norðvestan við bæ. Útihús var 20 m suðvestan við bæ. Brunnur var 10-15 m ASA við bæ“.
Brunnurinn við Móakot sést enn, byrgður með timbri, en glögglega má sjá undirliggjandi djúphlaðnar steinhleðslur.

Hellnar – „Brunnur er 450 m suðaustan við bæ. Hann er 105 m vestan af bæjarstæðinu á Hellnum. Brunnurinn er í móanum sunnan við veginn í lægð á milli klapparhóla. Brunnurinn er 2,5×2 m að utanmáli. Hann er hringlaga og um 1 m í þvermál að innan. Hann er 0,5 m djúpur og sjást 2 umför og hleðsluhæðin frá yfirborði er um 0,3 m. Hrunið hefur inní hann en grjótið er mosavaxið“.

Sjónarhóll – „Samkvæmt túnakorti var brunnur um 40 m sunnan við bæ. Hann sést ennþá í túninu. Yfir brunninum er járnplata og annað rusl svo ekki sést ofan í hann og því ekki hægt að segja hversu djúpur hann er. Við plötuna sést þó móta fyrir grjóthleðslum“.

Knarrarnes

Stóri-Knarrarnesbrunnur. Nú kominn undir kampinn.

Stóra-Knarrarnes – „Samkvæmt heimildamanni, Guðbergi Ólafssyni, var nýr brunnur gerður á þessum stað árið 1936. Hann var 4 m djúpur og í honum var gott vatn. Að öllum líkindum er þessi brunnur Nýi-Brunnur sem nefndur er í örnefnaskrá“.

Stóra-Karrarnes – Samkvæmt heimildamanni, Guðbergi Ólafssyni, var brunnur í suðurenda nafnlausrar tjarnar á Knarrarneshöfða, um 140 m norðan við bæ. Tjörnin er í grónum móa, suðvestarlega á höfðanum. Engar leifar af brunninum sjást nú og ekki fengust neinar upplýsingar um gerð hans. Hann hefur væntanlega fyllst af jarðvegi og sigið saman. Þar sem brunnurinn var er nú (júní 2011) mýrlent“.

Litla-Knarrarnesbrunnur – „Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur um 60 m SSV við bæ. Líklega er þessi brunnur Litla-Knarrarnesbrunnur sem nefndur er í örnefnaskrá. Brunnurinn var í túni og eru litlir hólar til austurs og norðvesturs frá honum. Ekki sjást lengur ummerki um brunninn“.

Knarrararnes

Minni-Knarrarnesbrunnur.

Minna-Knarrarnes – Gamlibrunnur: “ Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur 60 m vestan við bæ. Þar sjást enn ummerki um brunninn. Líklega er þessi brunnur sá Gamlibrunnur sem nefndur er í örnefnaskrá KE. Brunnurinn er í miðju vestanverðu túninu, tæpum 30 m suðaustan við Sjávarhúsið.
Ekki sést í brunninn nema sem lítil dæld túninu á þessum stað. Dældin er 3×2,5 m á stærð“.

Hellur – „Brunnur er um 15 m suðaustan við bæ. Hann er um 14 m norðan við núverandihús, í lægð í túninu. Hann er um 2,5 m í þvermál en steypt plata er ofan á honum og lokuð lúga á henni svo ekki er hægt að sjá brunninn að innan og ekki er vitað hversu djúpur hann er. Fyrst hann er ekki merktur inn á túnakort er líklegt að hann hafi verið gerður eftir 1919“.

Breiðagerði – „Brunnurinn er í lægð í túni sem komið er í órækt. Eitthvert nútímarask hefur orðið í túninu NNA við brunninn en þar sjást 2-3 samliggjandi grónar rákir. Ekki er ljóst hvernig þær hafa myndast. Brunnurinn er grjóthlaðinn og samanfallinn. Hann er um 1 m í þvermál og 0,2 m á hæð. Lítið op er niður í hann, um 0,3 m í þvermál og um 0,3 m á dýpt“.

Breiðagerði

Breiðagerðisbrunnur.

Breiðagerðisbrunnur – „Breiðagerðisbrunnur var sunnan bæjar,“ segir í örnefnaskrá. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnurinn um 30 m suðvestan við bæ. Brunnurinn var í flatlendum hluta túnsins. Dálítil lægð er í túninu þar sem brunnurinn var, um 1 m í þvermál. Ekki sjást grjóthleðslur eða önnur skýr ummerki um brunninn. Þó er gróinn jarðvegskragi austan við lægðina í túninu sem kann að vera leifar af brunninum en getur líka verið náttúrulegur. Líklega hefur verið fyllt upp í brunninn“.

Breiðagerði – „Grjóthlaðinn brunnur er um 20 m norðan við bæ. Brunnurinn er norðvestan undir bæjarhólinn, við norðausturenda hans þar sem hann er hæstur. Brunnurinn er í lægð í túninu og norðan við hann er nokkurt deiglendi. Hólmgrímur Rósenbergsson, heimildamaður, greindi frá því að hann hefði byrgt brunninn fyrir um 30 árum með bárujárni og er það enn á sínum stað. Ekki sést því ofan í brunninn en hann var að sögn heill þegar hann var byrgður en ekki fengust frekari upplýsingar um gerð hans eða aldur. Brunnurinn er líklega 2×2 m að stærð en umfang hans sést ekki glöggt“.

Minni-Vatnsleysa

Minni-Vatnsleysubrunnur.

Minni-Vatnsleysa – „Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur með tröppum 70-80 m austan við bæ. Í örnefnaskrá Minni- og Stóru-Vatnsleysu eru þrír nafngreindir brunnar í Norðurtúni: Danskur, Hólabrunnur og Minni-Vatnsleysubrunnur. Ekki er vitað hverjir af þessum brunnum eru teiknaðir inn á túnakortið en líklegt er að einhver þeirra eigi við um þann brunn sem hér er skráður. Brunnurinn var þar sem byggingar svínabúsins eru. Ekki sést til brunnsins og eru byggingar að öllum líkindum ofan á honum. Líklegt er að hann hafi eyðilagst við byggingaframkvæmdir“.

Hólar – „Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur 140-150 m SSA við bæ og um 70 m norðan við tóft sem er áföst sjóvarnargarði. Í örnefnaskrá Minni- og Stóru-Vatnsleysu eru þrír nafngreindir brunnar í Norðurtúni: Danskur, Hólabrunnur og Minni-Vatnsleysubrunnur. Ekki er vitað hverjir af þessum brunnum eru teiknaðir inn á túnakortið en líklegt er að einhver þessara örnefna eigi við um þann brunn sem hér er skráður. Brunnurinn er líklega undir malarvegi sem liggur um athafnasvæði svínabúsins, nærri sjávarbakkanum. Ekki sést til minja um brunninn og hefur hann horfið við vegagerðina en mögulegt er að hann hafi verið horfinn áður vegna fyllingar eða af öðrum ástæðum. Ekki er útilokað að leifar af brunninum séu enn til staðar undir veginum“.

Stóra-Vatnsleysa

Fúli-brunnur.

Minni-Vatnsleysubrunnur – „Í Norðurtúni voru Hólarnir. Þar var Hólabrunnur og þar var Minni-Vatnsleysubrunnur og brunnurinn Danskur. Enginn þessara brunna var góður,“ segir í örnefnaskrá. Ekki er þó útilokað þessi brunnur sé ekki merktur inn á túnakort en engar frekari upplýsingar fengust um staðsetningu eða gerð“.

Fúli – „Neðan við Hólshjall er gamall hlaðinn brunnur, sem heitir Fúli. Það er ekki flæðibrunnur eins og aðrir brunnar á bæjunum, heldur safnast í hann úr jarðveginum í kring, enda vatnið ekki neyzluvatn. Fúli var líka kallaður Hólsbrunnur,“ segir í örnefnaskrá. Brunnurinn er ekki merktur inn á túnakort frá 1919 og má leiða að því líkum að hann hafi verið hlaðinn eftir gerð þess. Hann er um 245 m suðaustan við bæ og um 50 m norðaustan við Hólshjall. Brunnurinn er í grónum hraunmóa, nærri sjávarbakka. Brunnurinn er ferköntuð gryfja sem er um 6×5 m að stærð og snýr norður-suður. Hann er fullur af grjóti og drasli. Í suðvesturhorni sjást 3 umför hleðslu en ekki sést til botns í brunninum. Mesta hleðsluhæð utanmáls er 0,2 m. Líklega er þessi brunnur ekki nógu gamall til að teljast til fornleifa samkvæmt lögum um fornminjar. Hann er hafður með í fornleifaskrá engu að síður þar sem hann er til vitnis um þá hefð að grafa og hlaða vatnsbrunna“.

Stóra-Vatnsleysa

Fjósabrunnur.

Danski – „Fleiri brunnar eru nær bænum, sem hafa verið notaðir. Talað er um brunninn Danska,“ segir í örnefnaskrá. Engar nánari upplýsingar fengust um brunninn eða staðsetningu hans og tókst því ekki að staðsetja hann með innan við 50 m skekkju. Mögulega var brunnurinn Danski annar tveggja brunna sem merktir eru inn á túnakort frá 1919″.

Stóra-Vatnsleysa – Fjósbrunnur: „Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur um 70 m norðvestan við bæ. Um hann segir í örnefnaskrá: „Rétt vestan bæjar er gamall og grunnur brunnur, sem nefndur er Fjósbrunnurinn.“ Brunnurinn er 10-15 m norðan við steinsteypt fjós sem notað er sem skemma. Líklega dregur hann nafn sitt af því fjósi en ekki er vitað hvort eldri fjós hafi verið undir því fjósi eða hvort brunnurinn dragi nafn sitt af fjósi sem nú er horfið.
Brunnurinn var í túnjaðri, skammt norðvestan við slétt malarplan. Grjóthrúga er fast sunnan við hann. Ekki sést til brunninn vegna fyllingar en samkvæmt Sæmundi Þórðarsyni, heimildamanni, var brunnurinn grjóthlaðinn, um 1,2 m á dýpt. Hlaðin þrep voru í honum norðanverðum“.

Vatnsleysa

Vatnsleysa – örnefni; ÓSÁ.

Stóra-Vatnsleysa – „Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur um 100 m norðaustan við bæ. Í örnefnaskrá segir um hann: „Vegur liggur frá bænum og niður að sjávarhúsum. Rétt við veginn norðan megin, rúmlega hálfa leið til sjávar, er gamall brunnur, sem var notaður þar til fyrir fáum árum. Þetta er flæðibrunnur og nokkuð saltur,“ Brunnurinn sést enn en búið er að byrgja hann og ekki sést ofan í hann. Brunnurinn er í túni, fast norðan við veg niður að Austurbæjarvör. Samkvæmt Sæmundi Þórðarsyni, heimildamanni, var brunnurinn hlaðinn að hluta en að hluta grafinn í gegnum klöpp. Hann var um 5 m djúpur og um 1/3 hluti var hlaðinn. Vatnið í brunninum var salt. Hann var notaður fram yfir síðari heimsstyrjöld. Gerð var borhola árið 1952 og vatn leitt í íbúðarhúsið“.

Stóra-Vatnsleysa

Kotbrunnur.

Stóra-Vatnsleysa – Kotbrunnur: „Á flötunum, rétt ofan þar sem kotablettirnir voru, er flæðibrunnur, vel hlaðinn innan. Þó mun eitthvað vera hrunið úr veggjum hans nú. Vatnið í honum var saltminna en í brunninum vestar í túninu, sem áður er sagt frá. Þessi brunnur var kallaður Kotbrunnur,“ segir í örnefnaskrá. Brunnurinn er merktur inn á túnakort frá 1919 og er um 180 m ASA við bæ. Brunnurinn er í sléttuðu túni sem komið er í órækt. Til vesturs eru hólar og hæðir en nokkuð flatlent er til annarra átta. Brunnurinn er grjóthlaðinn, um 2 m í þvermál, en stendur aðeins lítillega upp úr sverði. Honum virðist lítið sem ekkert hafa verið raskað og er líklegt að hann hafi verið notaður eftir að sléttað var úr býlunum á svæðinu þar sem vatnið í honum þótti betra en í nærliggjandi brunni. Brunnurinn er um 8 m á dýpt og sést til botns í honum. Hleðslan í brunninum er 4-5 m á hæð en neðan við hleðsluna er klöpp sem grafið hefur verið ofan í. Ekki sást vatn í botni brunnsins þegar hann var skráður á fjöru á vordögum 2012″.

Stóra-Vatnsleysa

Stöðulbrunnur.

Stóra-Vatnsleysa – Stöðulbrunnur: „Um það bil 20-30 m frá suðurgafli skólans er gamalt vatnsból, sem sjaldan þornar. Þar hefur eitt sinn verið stöðull, því brunnurinn er kallaður Stöðulbrunnur,“ segir í örnefnaskrá. Vatnsbólið er um 225 m suðaustan við bæ. Vatnsbólið er á milli tveggja hóla í grónum hraunmóa. Austari hóllinn er gróinn og lægri en sá vestari. Vatnsbólið virðist vera náttúrulegt. Það var gruggugt vatn í því þegar skráningarmaður var á ferð á vordögum 2012 og ekki sást til botns. Það er um 2×1,5 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Ógreinileg tóft er fast sunnan við vatnsbólið. Hún er um 3×3 m að stærð, nokkuð hringlaga. Aðeins sést í skýra hleðslu á austurhlið en þar er hún skýr á um 3 m löngum kafla. Aðrir hlutar eru undir gróðri og standa lítið upp úr sverði. Líklega hefur eitthvað hrunið úr norðurhluta tóftar ofan í vatnsbólið. Mesta hleðsluhæð er um 0,2 m og sjást 2 umför. Ekki sést skýrt op á tóftinni og hlutverk hennar er óljóst. Ekki er útilokað að hún sé leifar af kvíum eða öðrum mannvirkjum“.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2014.
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2016.

Narfakotsbrunnur

Narfakotsbrunnur.