Sel frá bæjum á Vatnsleysuströnd I

Auðnasel

Í „Aðalskráningu fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I„, er m.a. fjallað um nokkrar selstöður frá bæjum á Vatnsleysuströnd. Þar segir m.a. um selin:
Vogar„Óvanalega mikill fjöldi selja er á skráningarsvæðinu. Alls voru skráð 13 sel, þar af átta í landi Stóru-Voga. Ekki fundust sel á tveimur stöðum þar sem örnefni gáfu slíkar minjar til kynna. Örnefnið Þórusel í landi Stóru-Voga var líklega um 1,8 km frá bæ en engar minjar um sel fundust á vettvangi og engar minjar komu í ljós þegar fornleifafræðingur vaktaði framkvæmdir á þessum slóðum. Örnefnið Selhóll er í landi Flekkuvíkur. Ekki tókst að staðsetja hann en líkur eru til þess að hann dragi nafn sitt af leið að Flekkuvíkurseli sem lá skammt frá honum, frekar en að þarna hafi verið sel. Ekki er þó hægt að fullyrða um það.
Mikilvægi seljanna á Vatnsleysuströnd er augljóst vegna þess hve lítill hagi var heima við bæina og því enn nauðsynlegra en ella að fara með búfénað í selin. Vatnsleysi og uppblástur olli því að sum selstæðin féllu úr notkun og ný selstæði voru fundin. Það skýrir að einhverju leyti mikinn fjölda skráðra selja. Síðast var haft í seli á Vatnsleysuströnd árið 1870 í Flekkuvíkurseli.

Þróun selja

Grófleg þróun selja á Vatnsleysuströnd – ÓSÁ.

Varla er hægt að skýra allan þann fjölda selja sem skráður er í landi Stóru-Voga með því að selin hafi færst til vegna vatnsskorts og uppblásturs. Mögulega hafa Minni-Vogar einnig átt selstöðu í landi Stóru-Voga og ef til vill sumar af stærstu hjáleigunum sem síðar urðu lögbýli. Einnig er mögulegt að sum selin hafi verið kúasel en önnur fjársel. Í bók Lars Reinton Til seters kemur fram að í Noregi eru þekktar þrjár megingerðir selja sem voru í notkun á mismunandi tíma yfir sumarið: heimasel, millisel og sumarsel. Heimaselin voru næst bæ og var farið í þau fyrst á vorin.

Sumarselin voru fjærst bæ og voru notuð yfir hásumarið. Milliselin voru notuð á haustin þegar beitin minnkaði upp til fjalla áður en búfénaður var fluttur heim. Notkun norsku seljanna skiptist líka í þrjá meginflokka; fullsel, mjólkursel og heysel. Í fullseljum var búið allt sumarið og mjólkin fullunnin þar.

Sel - tilgáta

Selshús – tilgáta ÓSÁ.

Í mjólkurseljum var einungis mjólkað en mjólkin flutt heim á bæ til vinnslu. Í heyseljum vann fólk við slátt. Ólíklegt er að heysel hafi tíðkast á Vatnsleysuströnd en ekki er útilokað að eitthvað af seljunum í landi Stóru-Voga hafi verið mjólkursel. Hægt er að hugsa sér að sel í flokki 3 gætu hafa verið mjólkursel. Að vísu hefur þá verið nokkuð langur burður með mjólkina úr Hólsseli, eða 3,1 km. Ljóst er að selin á Vatnsleysuströnd þarfnast frekari rannsókna við til þess að meira sé hægt að segja til um aldur og hlutverk þeirra.“

Hér fara reyndar ekki saman fyrirliggjandi upplýsingar annars vegar um selstöður í Noregi fyrrum og hins vegar  á Íslandi frá upphafi byggðar.

Vogasel – Þórusel

Þórusel

Þórusel – teikning.

„Þá liggur þjóðvegurinn yfir Síkistjörn þar fyrir sunnan hækkar landið nokkuð og eru þar þrír hólar með hundaþúfum á heita Víkurhólar og Víkurhólaþúfur. Austan og ofan þessa svæðis er svo Leirdalur og syðst í honum Vogasel í Selhólum sem eru hér og lægð þar í milli. Sézt þetta vel af Reykjanesbraut,“ segir í örnefnaskrá.
Leirdalur heitir sunnan við syðstu hús í Vogum. Sunnan hans er gróin hraunbreiða og margir sprungnir hraunhólar með hundaþúfum. Á einum þessara hóla, um 100 m neðan Reykjanesbrautar og um 1,4 km SA af Stóru-Vogum, eru umtalsverðar hleðslur og gætu verið rústir Vogasels. Hraunhóllinn er krosssprunginn og gróinn, og talsvert af birkihríslum í sprungunni sjálfri. Umhverfis hann er gróið hraun.

Þórusel

Þórusel – stekkur.

Hleðslurnar eru á hólnum, í krosssprungunni, sem er nokkuð breið. Hleðslurnar eru úr grjóti, nokkuð signar og víða grónar í svörð. Hæð þeirra er þó mest um 1,2 m og þrjú umför nyrst á hólnum, en þar er að hluta hlaðið ofan á sprungu- eða gjárvegginn. Annarstaðar eru hleðslur mun lægri. Rústirnar eru á svæði sem er um 30×25 m.
Mannvirkjunum verður nú lýst og þeim gefinn bókstafur til aðgreiningar. Lýsingin hefst nyrst á svæðinu. Nyrsti armur sprungunnar (A) er dýpstur, en þar er gjárveggurinn að vestanverðu um 2 m hár. Sprungan er um 12 m löng í norður-suður og 2-3 m á breidd. Nyrst hefur verið hlaðið ofaná og með gjáveggnum, báðu megin, og eru hleðslur þar allt að 1,2 m háar. Í suðurhluta sprungunnar liggja hleðslur þvert á hana og mynda 4 lítil hólf.

Þórusel

Þórusel.

Hið nyrsta um 2×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Þar sunnan við er hólf sem er um 2×2 m að innanmáli, en austan þess tvö lítil samliggjandi hólf, bæði um 1×1 m að innanmáli. Austan við þennan arm sprungunnar er annar armur (B) sem liggur NA-SV og hallar talsvert til norðausturs. Í honum eru hleðslur, en mun ógreinilegri en í þeim sem áður er lýst. Sprungan er hér um 2-3 m á breidd og eru á tveimur stöðum hleðslubrot sem liggja þvert á hana.

Hleðslurnar eru einfaldar, aðeins eitt umfar og mest 0,2 m á hæð. Þær hafa myndað a.m.k. Eitt hólf, um 2×1 m að innanmáli.

Þórusel

Þórusel.

Á hólnum miðjum, þar sem sprunguarmarnir fjórir mætast, eru einnig hleðslur og hleðslubrot (C). Sprungan er hér um 3-4 m breið. Á tveimur stöðum liggja grjóthleðslur þvert á hana í norður-suður og mynda á milli sín hólf sem er um 4×4 m að innanmáli. Hleðslurnar eru einfaldar, sumstaðar gisnar og signar í svörð. Op virðist vera á vestari hleðslunni. Suðvestan undir hólnum er hola, um 1×0,5 m að stærð og greinilega manngerð. Hún er fyllt grjóti og dýpt hennar því ógreinanleg. Það virðist vera hleðslur með holunni innanverðri og mögulegt að um brunn sé að ræða.“

Að framangreindu er verið að lýsa Þóruseli, heimaseli frá Vogum.

Þórusel

Þórusel

Þórusel.

„Suðaustur frá þessari fjárborg er svæði, sem nefnist Þórusel, þar eru Kúadalur og Kúastígur.“ segir í örnefnaskrá.
„Nokkurn spöl vestan við Viðaukahólana fyrrnefndu sjáum við nokkuð stórt slétt svæði sem áður fyrr hefur verið grasi vaxið en er nú sundurskorið af stórum moldarflögum. Svæðið er rétt ofan við vegamótin í Voga og gæti heitið Þórusel. Nafnið Þórusel kannast flestir eldri menn við en erfitt er að staðsetja það eftir heimildum. Vogamenn segja umrætt svæði líklega heita Þórusel en Strandarmenn segja svæði neðan Reykjanesbrautar og rétt austan vogaafleggjara heita Þórusel eins og fyrr er getið. Víst er að Þóru nafnið er úr Vogum því gamlar sagnir eru til um Þórusker við Voga en á því átti að standa höfuðból og þar „átján hurðir á hjörum“. Engar rústir eru sjáanlegar á fyrrnefndu svæði þó grannt sé leitað en við tökum gildar heimildir úr Vogum um Þórusel á þessum stað þó svo að ólíklega hafi verið selstaða svo nærri byggð,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Eins og sést af ofangreindum frásögnum ber mönnum ekki saman um hvar Þórusel hafi verið. „Vogamenn“ segja það norðan Reykjanesbrautar og austan Vogaafleggjara. Þar er gróið hraun og enginn staður sérstaklega vænlegur fyrir sel, eins og umhverfið er nú.

Þórusel

Þórusel.

Beint sunnan gatnamóta Reykjanesbrautar og Vogaafleggjara er grasi gróinn blettur sem að nokkru hefur verið raskað. Er þetta sá staður sem margir telja að selið hafi verið. Engar leifar um selið er nú að sjá á þessum stað en þar er mjög grösugt og þýft. Svæðið er um 30 m sunnan (ofan) við Reykjanesbraut og um 1,8 km suðaustan við bæ og kemur til með að hverfa undir mislæg gatnamót.
Gróinn grasblettur upp af Reykjanesbraut. Umhverfis eru mosavaxin hraun. Veturinn 2006-2007 voru ráðgerðar framkvæmdir á þessum slóðum og tóku þá vinnuvélar prufuskurð á svæðinu sem Elín Ósk Hreiðarsdóttir fornleifafræðingur vaktaði. Ekki komu í ljós neinar mannvistarleifar á þessum slóðum og verður því að teljast nær útilokað að Þórusel hafi verið á þessum stað.“

Rétt er að geta þess að framangreint „Vogasel“ í nefndum hraunhól er Þórusel. Það er skammt vestan við vegamót Reykjanesbrautar að Vogum.

Snorrastaðasel

Snorrastaðasel

Snorrastaðasel – teikning.

„Við Nyrstu-Vatnsgjá mótar fyrir Snorrastaðaseli,“ segir í örnefnaskrá, en heimildir herma að á þessum slóðum hafi
verið býlið Snorrastaðir þótt staðsetning þess sé nú týnd. „Þrjár kofatóftir eru á nyrðri bakka neðstu og stærstu tjarnarinnar. Ein heimild segir að þarna hafi verið Snorrastaðasel og þá frá bæjum í Vogum. Þetta er annað af tveimur selstæðum í hreppnum sem eru svo nálægt byggð og má ætla að í þeim hafi eingöngu verið hafðar kýr,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Snorrastaðatjarnir heitir falleg tjarnaþyrping um 300 m suðaustan við Háabjalla, en tjarnirnar hafa myndast í gjám sem liggja þarna þétt saman og teygja sig norðaustur suðvestur. Tóftir Snorrastaðasels eru við nyrðri bakka nyrstu tjarnarinnar, en göngustígur liggur fram á bakkann við tóftirnar frá bílastæði við Háabjalla. Selið er um 2,9 km SSV af Stóru-Vogum.

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Tóftirnar eru sunnanundir hálfgróinni hrauntungu, á dálitlu grónu nesi um 5 m frá vatnsbakkanum. Handan tjarnarinnar stendur skáli Skátafélagsins Heiðarbúa í Keflavík.
Á þessum stað eru tvær tóftir á svæði sem er um 22×5 m að stærð og snýr norður-suður meðfram vatnsbakkanum.
Önnur tóftin greinist í þrjú hólf (A,B og C) en hin tóftin (D) er einföld og er sunnan við hin þrjú. Tóftirnar eru allar grónar og signar en þó greinilegar. Op eru á öllum hólfunum til suðausturs að tjörninni, en hvergi er gengt á milli hólfa. Hleðslur eru úr torfi og grjóti, en grjótið er nær alveg yfirgróið. Hleðslur eru stæðilegastar í miðhólfunum tveimur (B og C), allt að 1 m á hæð og 1 m á breidd í veggnum sem skilur þau að. Hólf A er nyrsta hólfið og lang ógreinilegast. Það er um 2×1,5 m að innanmáli og mjög sigið. Sunnan við það er hólf B, sem er greinilegast. Það er um 2,5×1,5 m að innanmáli. Því næst er hólf C, einnig um 2,5×1,5 m að innanmáli. Greinilegur stallur er hlaðinn með vesturvegg þess. Hann er um 0,3 m hár, 0,35 á breidd, 1 m á lengd og mjög kantaður og greinilegur. Ekkert grjót er sýnilegt í honum.
Um 1,7 m sunnan við hólf C er tóft D. Hún er um 1×1 m að innanmáli.“

Nýjasel

Nýjasel

Nýjasel – teikning.

„Austur frá Vatnsgjánum er grágrýtisholt er nefnist Nielsarbjalli að því er sumir segja, en líklega er hér um mismæli að ræða. Nýjaselsbjalli mun hann heita og þar er Nýjasel,“ segir í örnefnaskrá.
„Út frá tveimur efstu tjörnunum til norðausturs er Nýjaselsbjalli eða Níelsarbjalli. Ballinn er nokkuð langt grágrýtisholt sem sker sig dálítið úr umhverfinu. Hann líkist ekki hinum bjöllunum því þeir eru allir með nokkuð brattri hlíð sem snýr í suðaustur en Nýjaselsbjalli er frekar holt en hjalli. […] en Nýjaselsbjalli mun hann heita og dregur nafn sitt af litlu seli sem staðið hefur rétt norðaustan við bjallann. […] Undir bjallanum eru tóftir af Nýjaseli og kúra þær í lægð undir lágum gjárvegg sem snýr til norðurs. Þegar farið er um Skógfellaveginn er selstæðið skammt austan við götuna,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum.
Nýjasel er um 1,1 km norðaustur af Snorrastaðaseli, norðanundir gjávegg skammt norður af Skógfellavegi sem er stikuð og vörðuð leið um hraunið. Selið er um 2,5 km suður af Stóru-Vogum.
Selrústirnar eru fast undir gjáveggnum, sem er þarna um 3 m hár. Meðfram veggnum er dálítil skjólsæl og gróin lægð en allt umhverfis er gróið hraun.

Nýjasel

Nýjasel.

Á heimasíðu Ferlis segir: „Gengið var niður heiðina áleiðis að Snorrastaðatjörnum. Þegar skammt var eftir að tjörnunum var komið við í Nýjaseli undir Nýjaselsbjalla. Selið hefur tilheyrt bændum í Vogum og líklega byggst eftir að selstaða lagðist af ofar í heiðinni eða þá að þarna hafi eingöngu verið kúasel. Rétt norður af selinu eru grasgefnir hólar, sem gætu heitið Selhólar, en heimildir eru til um það örnefni á þessum slóðum.“ Selrústirnar dreifast á svæði sem er um 34×14 m að stærð og snýr norður-suður. Á svæðinu eru þrjár tóftir og auk þess tveir skútar. Hér á eftir verður hverju þessara mannvirkja lýst og þeim gefinn bókstafur til aðgreiningar. Stærsta og umfangsmesta tóftin (A) er á miðju svæðinu. Hún er um 11×8 m að stærð, snýr austur-vestur og greinist í 6 hólf. Megininngangur er á miðri norðurhlið tóftarinnar og er þaðan gengt í öll hólf að einu undanskildu. Komið er inn í hólf 1 sem er um 2×2 m að innanmáli. Úr því er op til vesturs inn í hólf 2 sem er um 1×1,5 m að innanmáli. Í því er talsvert af grjóthruni gróið í svörðinn. Mögulega hefur verið annar inngangur í þetta hólf á norðurhlið, en hann er fallinn saman.

Nýjasel

Nýjasel – uppdráttur ÓSÁ.

Hólf 1 og 2 eru nokkuð niðurgrafin og hæð veggja að innanverðu allt að 1 m. Úr hólfi 2 er svo gengt yfir í hólf 3 til suðurs. Það er um 2×1 m og snýr austur-vestur. Þetta hólf er ekki niðurgrafið og er gólfflötur þess því hærri en áðurgreindra hólfa. Suðurveggur hólfs 3 er grjóthlaðinn að innanverðu, um tvö umför standa en talsvert er af grjóthruni í hólfinu.Til austurs frá megininngangi tóftarinnar eru tvö hólf. Hólf 4 er um 2,5×1,5 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Það er niðurgrafið í brekkuna undir gjáveggnum. Til suðurs úr því er komið í hólf 5 sem er um 2×1,5 m að innanmáli. Það er fast undir gjáveggnum og er ekki niðurgrafið. Um 6 m sunnan við tóft A er tóft B. Hún er einföld, um 4×3 m að utanmáli, en 1×1,5 að innanmáli, og snýr norður-suður. Op er á norðurhlið. Tóftin er hlaðin inn í brekkuna að austanverðu. Hleðslur eru úr torfi og grjóti og mest um 0,5 m á hæð. Um 3 m norðan við tóft A er tóft C. Hún er tvískipt, um 6×4 m að utanmáli og snýr austur-vestur. Hleðslur vestara hólfsins eru úr torfi og grjóti, en þess eystra eingöngu úr grjóti. Bæði hólf eru um 1,5×1 m að stærð og eru op á þeim báðum á suðurhlið. Norðan við tóft C er grjóturð sem hrunið hefur úr gjáveggnum. Í þessari urð eru tveir litlir skútar (D og E) og fagurgrænt og gróið í og umhverfis þá. Þó er aðeins mannaverk á þeim syðri (D), en þar er lítil og sigin torfhleðsla sem lokar skútann af. Hleðslan er ógreinileg og gæti verið um náttúrumyndun að ræða.“

Hólssel

Hólssel

Hólssel – teikning.

„Norður og upp frá borginni [Pétursborg] er Hólssel […],“ segir í örnefnaskrá. „Norðaustur og upp frá Pétursborg en rétt neðan Litlu-Aragjár er Hólasel eða Hólssel á milli þriggja hóla. Þar eru hleðslur á grasbletti og einnig þvert á sprungu sem liggur gegnum einn hólinn.
Rústirnar eru ekki dæmigerðar selrústir en þó má ekki útiloka að þarna hafi einhvern tímann verið haft í seli,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Hólssel er beint í austur frá þéttbýlinu í Vogum og sér vel í það úr selinu. Það er um 1 km norðaustur af Pétursborg, um 2,66 km austnorðaustur af Snorrastaðaseli og um 3,1 km SA af Stóru-Vogum.
Rústirnar eru í gróinni lægð á milli tveggja allhárra og sprunginna hraunhóla. Austan og vestan við þær er hálfgróinn melur en fleiri hraunhólar til suðurs og norðurs.
Svæðið allt er um 26×26 m stórt og eru rústirnar á tveimur stöðum. Annars vegar eru þær í lægðinni á milli hraunhólanna og hins vegar eru hleðslur í sprungunni á nyrðri hólnum.

Hólssel

Hólssel.

Mannvirkjunum verður nú lýst og þeim gefinn bókstafur til aðgreiningar. Meginsprungan (A) í nyrðri hraunhólnum liggur í austur-vestur og er um um 17 m löng og um 2-3 m á breidd. Hún er öll gróin í botninn. Gjárveggurinn er frá 1 upp í 2 m hár. Í sprunginni eru 5 grjóthleðslur sem liggja þvert á hana og mynda fjögur aðskilin hólf. Hleðslurnar eru signar, um 0,2 m á hæð og mest tvö umför. Hólfin eru áþekk að stærð, um 2×2 m að innanmáli og virðist ekki vera op á milli þeirra. Í lægðinni sunnan við hólinn, í brekkurót syðri hraunhólsins, eru tóftir B, C og D nokkuð þétt. Tóft B er vestast. Hún er hringmynduð, um 2×2 m að innanmáli. Hleðslur eru úr grjóti, um 0,2 m á hæð og signar.

Hólssel

Hólssel.

Að einhverju leyti er um jarðfast hraungrýti að ræða, en hlaðið á milli. Inngangur er á suðuausturhlið. Um 1 m austan við tóft B er tóft C. Hún er tvískipt og greinilegust af tóftunum þremur. Hleðslur eru úr grjóti, allt að 1 m á breidd, 0,4 á hæð og 3 umför.
Vestara hólfið er um 1,5×0,7 m að innanmáli og er ekkert greinanlegt op á því. Eystra hólfið er um 2×2 m að innanmáli með op við norðausturhorn. Hólfið er niðurgrafið í brekkuna að suðvestanverðu og er enginn upphlaðinn veggur þar. Tóft D er svo um 2 m austan við C. Hún er fremur ógreinileg en hleðslur eru alveg hrundar út. Hún virðist þó hafa myndað einskonar hólf eða aðhald við tóft C og annað undir klett sem gengur fram úr brekkunni.
Hleðslubrotin eru mest um 0,2 m á hæð.“

Arahnúkasel

Arahnúkasel

Arahnúkasel – teikning.

„Á Aragjábarmi er varða er nefnist Aragjárvarða. Austar og ofar er Arahnúkur og Arahnúksgjá er Gjáin þar kölluð, og í slakkanum er Arahnúkssel,“ segir í örnefnaskrá. „Undir Arahnjúk er Arahnjúkasel eða Arasel frá Vogum,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Aragjáin er stór og mikil og rís gjárveggurinn hátt og sést langt að. Á barmi gjárinnar er Aragjárvarða, afar greinileg, og þar aðeins norðar undir gjárveggnum eru seltóftir. Þær eru um 750 m suður af Hólsseli 075 og um 1,2 km austur af Pétursborg, en um 3,9 km suðaustur af Stóru-Vogum.
Í grónum skjólsælum slakka undir gjáveggnum. Til norðurs og vesturs eru mosagrónar hraunbreiður.
Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: „Undir Arahnúk er Arahnúkasel eða Arasel. Í Jarðabók 1703 er ekki getið um selstöðuna, en það kom fyrir að þær væru færðar neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðurinn eyddist. Af þessu má ætla að Arahnúkssel hafi byggst eftir árið 1703 enda höfðu Vogamenn sel í Vogaholti það ár. Selstæðið er fallegt og grösugt í góðu skjóli við gjárvegginn og þar sjáum við margar kofatóftir ásamt kví. Sagt er að seltúnið hafi síðast verið slegið árið 1917.

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

Ekkert vatnsból finnst við selið svo líklega hefur vatn verið sótt í Snorrastaðatjarnir, eins gæti verið að vatn hafi verið í gjánni. Í bergveggnum á Arahnúk er hrafnslaupur og þar sem uppgangan er á hnúkinn er Araselsgrenið. Heimildir er um tvö önnur nöfn á Stóru-Aragjá, Aragjá og Stór-Aragjá. Gjáin nær allt að Skógfellahrauni til suðvesturs, en þegar komið er nokkuð norðaustur fyrir Arahnúk þrengist gjáin til muna og er svo til horfin í Brunnastaðalandi. Nokkrar heimildir segja að Stóra-Aragjá sé sama gjá og Klifgjá […] þegar komið er austar í heiðina.“ Á svæði sem er um 100×20 m og liggur norðaustur-suðvestur með gjánni eru 7 tóftir (en líklega hefur verið átt við hólf en ekki kofa í tilvitnuninni hér að framan). Mannvirkjunum verður nú öllum lýst og þeim gefinn bókstafur til aðgreiningar.

Arahnúkasel

Arahnúkasel – stekkur.

Lýsingin hefst nyrst á svæðinu. Tóft A er um 7×5 m að utanmáli og snýr norður suður. Hleðslur eru úr torfi og grjóti og er hleðsluhæð allt að 0,7 m. Tóftin greinist í fjögur hólf og er ekki innangengt á milli hólfanna. Nyrsta hólfið er ógreinilegt og er mögulegt að um sé að ræða sig í útvegg en ekki eiginlegt hólf. Op er á vesturhlið þess. Sunnan við það er hólf sem er um 1×1,5 m að innanmáli með op á vesturhlið. Sunnan þess er hólf, um 2×0,5 m að innanmáli og snýr norður-suður. Op er á vesturhlið þess. Fjórða hólfið er við utanverðan austurvegg tóftarinnar og snýr norður suður. Það er um 2×1,5 að innanmáli og er niðurgrafið í brekkuna ofan tóftarinnar. Um 5 m sunnan við tóft A er tóft B. Hún er einföld, um 6,5×5 m að utanmáli, 2,5×1 m að innanmáli og snýr norður-suður. Op er á vesturhlið. Hleðslur eru úr torfi og grjóti og hleðsluhæð um 0,7 m. Norðan við tóftina er hleðslubrot, um 4 m langt, liggur austur vestur og myndar kró við norðurhlið tóftarinnar. Króin er um 2×1,5 m að innanmáli og virðist opin bæði til austurs og vestur. Um 5 m vestur af tóft B er tóft C. Hún er um 6,5×5,5 m að utanmáli og greinist í tvö hólf. Eystra hólfið er stærra, um 2×1 m að innanmáli og snýr norður-suður. Op er á vesturhlið þess. Vestra hólfið er um 1×1 að innanmáli með op á suðurhlið. Hleðslur eru úr torfi og grjóti og hleðsluhæð um 0,8 m. Um 2 m sunnan við tóft C er tóft D.

Arasel

Ara[hnúka]sel – Uppdráttur ÓSÁ.

Hún er um 9×6 m að utanmáli og snýr austur-vestur. Hleðslur eru úr torfi og grjóti og hleðsluhæð mest um 1 m. Grjót er mest í austurvegg, allt að þrjú umför.Tóftin greinist í tvö hólf. Eystra hólfið er stærra, um 2,5×2 m að innanmáli en greinist í tvennt um 0,3, m háa grjóthleðslu. Op er á suðurhlið þess. Vestra hólfið er um 1,5×1,5 m að innanmáli og er mun signara en hitt. Mun minna grjót er í hleðslum þess og hleðsluhæð um 0,5 m. Op er á suðurhlið þess. Við austurvegg tóftar D og suðurvegg tóftar B virðist vera einhverskonar niðurgrafið hólf, en er mjög sigið og úr lagi gengið. Um 8 m sunnan við tóft D er tóft E. Hún er um 10×7 m að utanmáli og snýr norður-suður. Hún greinist í tvö hólf. Nyrðra hólfið er um 5×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Op er á vesturhlið þess. Syðra hólfið er um 2×1 m að innanmáli og snýr norður-suður, með op á vesturhlið. Hleðslur eru úr torfi og grjóti og hleðsluhæð mest um 0,7 m. Fast norðan við tóft E, neðst í grjóturð sem hrunið hefur úr gjáveggnum, er grjót- og torfhleðslubrot og hefur þar líklega verið lítil kró. Á milli tófta D og E er röð stórra steina sem þjónað hafa óþekktum tilgangi en eru nú grónir niður í svörðinn.

Arasel

Ara(hnúka)sel – tilgáta (ÓSÁ).

Tóft F er fast sunnan við tóft E og mynda þær einskonar tvískipt hólf á milli sín. Tóft F er einföld, um 5×5 að utanmáli en 1×1 að innanmáli. Op er á vesturhlið. Hleðslur eru úr torfi og grjóti og hleðsluhæð um 0,7 m. Austan við tóftina er gjáin nokkuð djúp næst gjáveggnum. Um 50 m sunnan við tóft F er grjóthlaðið gerði eða kví (G). Það er um 7×7 m að stærð og greinist í þrjú hólf. Meginhólfið er um 5×4,5 m að innanmáli og er op á vesturhlið þess. Hólfið greinist í tvennt um torf- og grjóthlaðinn garða, en gengt er á milli hlutanna. Norðan við þetta hólf, í norðausturhorni tóftarinnar er hringlaga hólf. Það er um 2 m í þvermál og ekkert greinilegt op á því. Þriðja hólfið er við utanverðan vesturvegg. Það er niðurgrafið, um 3×2 að innanmáli og snýr norður-suður. Op er til norðurs. Úr norðvesturhorni tóftarinnar liggur einföld grjóthleðsla til vesturs, um 4 m löng.“

Vogasel gamla

Vogasel gamla

Vogasel gamla – teikning.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir: „Selstöðu vissa á jörðin eina nærri þar sem kallað er Vogaholt […].“ „Á Aragjábarmi er varða er nefnist Aragjárvarða. Austar og ofar er Arahnúkur og Arahnúksgjá er Gjáin þar kölluð, og í slakkanum er Arahnúkssel. Enn austar er svo Vogaselið gamla,“ segir í örnefnaskrá. Vogaselið gamla er um 155 m norðan við sel og um 5,9 km suðaustan við Stóru-Voga.
Suðaustast í breiðum dal er grasi gróin hæð áður en farið er til suðurs upp brekku að yngri seltóftum og í þessari hæð er ógreinileg seltóft. Uppblásið er norðaustan við tóftina og norðan við tóftina eru hraunbreiður, mosavaxnar.
Í ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um sel á Reykjanesskaga segir: „Gömlu Vogasel eru greinilega mjög gömul. Þau liggja neðst í grasi vaxinni brekku utan í holtinu […]. Mótar fyrir einu húsi með tveimur rýmum, auk þess það virðist óljóst austan þess. Þarna er greinilega um mjög gamlar tóftir að ræða, enda að mestu orðnar jarðlægar.

Vogasel

Vogasel eldri.

Jarðvegseyðing hefur náð upp að torfu þeirri, sem selin eru á. Ofar í brekkunni, undir og við hraunklett, eru Vogasel yngri. 2-3 ógreinilegar tóftir eru á svæði sem er um 40 x 12 m og snýr austur-vestur.
Tóftunum verður nú lýst og fá þær bókstafi til aðgreiningar, byrjað er nyrst á svæðinu. Tóft (A) er mjög ógreinileg. Hún er um 20 x 6 m að stærð og snýr austur-vestur. Mesta hleðsluhæð er um 0,3 m. Óljóst má greina 4 hólf í tóftinni en hvergi sjást op inn í þau. Austasta hólfið I) er stærst, 3 x 1 m að innanmáli, það snýr norðaustur-suðvestur og mjókkar í norðausturenda. Hólf II) og III) eru um 1 x 1 m að innanmáli og er hólf II) dýpsta hólfið, um 0,5 m á dýpt.
Hólf IV) er svo 2 x 0,5 m að innanmáli og snýr norður-suður. Um 17 m ANA við seltóftina er lítil og ógreinileg tóft (B), um 3 x 2 m að stærð og hleðsluhæð um 0,3 m. Tóftin er einföld og torfhlaðin. Óljóst op er til suðausturs. Um 3 m vestan við tóft (B) eru tvær dældir næst rofabarði sem kunna að vera mannvirkjaleifar (C), hvor um sig er um 1 m í þvermál að innanmáli.“

Vogasel yngri

Vogasel yngri

Vogasel yngri – teikning.

Í ritgerð ÓSÁ um sel á Reykjanesskaga segir: „Ofar í brekkunni, undir og við hraunklett, eru Vogasel yngri. Þar eru þrjár tóftir, ein undir klettinum efst, önnur framar og enn önnur, sú stærsta, tvískipt, utan í grasbakka enn neðar. Austan við tóftirnar er stekkur á bersvæði. Veggir eru heillegir en grónir.“ Seltóftir eru um 155 m sunnan við Vogaselið gamla og um 6 km í suðaustur frá Stóru-Vogum. Ekki eru aðrar heimildir um örnefnið Vogasel yngri og kannaðist Sesselja Guðmundsdóttir ekki við það. Hún telur að örnefnið Vogaselið gamla, Gamla-Vogasel eða Gömlu-Vogasel eigi við um sel og þær tóftir sem hér eru skráðar.
Fjórir hólar eru í brekku sem liggur til suðausturs upp úr víðum dal. Seltóftir eru við þrjá efstu hólana og stekkjartóft og lítil grjóthlaðin tóft eru á grösugum en grýttum bletti þar austan við.

Vogasel yngri

Vogasel yngri.

Minjasvæðið er í heild um 46 x 68 m og snýr norðaustur suðvestur. Á þessu svæði eru samtals 5 tóftir og verður hverri þeirra gefinn bókstafur til aðgreiningar. Tóft A er efst á svæðinu til suðausturs. Hún er einföld, grjóthlaðin en mjög gróin. Hún stendur norðaustan undir allmiklum kletti. Tóftin er um 6 x 5 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur, op er á henni til norðurs. Mesta hleðsluhæð er um 1 m. Fast vestan við þessa tóft, undir sama kletti, eru stórar þúfur og grjót sem gróið er yfir og kann þar að vera annað mannvirki sem er um 3 x 2,5 m að stærð og snýr NNV-SSA. Um 10 m vestan við tóft (A) eru tvö óljós hólf eða dældir sem einnig kunna að vera mannvirkjaleifar. Þær eru hvor um sig um 2 x 2 m og er 1 m á milli þeirra, þær liggja NV-SA.

Vogasel yngri

Vogasel yngri – stekkur.

Um 10 m norðan við tóft (A), neðar í brekkunni, er tóft (B) á litlum hól með litlum klöppum. Tóftin er grjóthlaðin og hefur jarðfast grjót og klappir verið nýtt í hleðsluna. Tóftin er einföld, um 4 x 4 m að stærð og er opin til norðurs. Hleðslur eru grónar og eru hæstar um 1 m. Norðan við tóftina myndar klöpp hálfhring og kann að hafa verið lítið hólf þar, það er þó ógreinilegt og ekki sjást neinar hleðslur. Fast norðvestan við tóftina má sjá einfalda röð af steinum sem virðast mynda hringlaga hólf, um 3 x 3 m að stærð, snýr NV-SA. Þetta hólf er mjög óskýrt. Tóft (C) er um 18 m norðvestan við tóft (B). Ekki sést í grjóthleðslur í henni og virðist hún vera elsta tóftin á svæðinu. Tóftin er um 13 x 6 m að stærð og snýr ANA-VSV. Hleðslur tóftarinnar eru mjög grónar, um 0,6 m á hæð, og greina má fimm hólf í tóftinni. Op eru á henni á miðri suðsuðaustur langhlið og í austurhorni. Hólfin eru lítil, 1-3 x 1-2 m.

Vogasel yngri

Vogasel yngri – uppdráttur ÓSÁ.

Grjóthlaðinn stekkur eða rétt (D) er um 25 m austan við tóft (A). Hann er um 12 x 10 m að stærð og snýr NNV-SSA. Stekkurinn er nokkuð hringlaga en veggur liggur um 3 m út úr hringnum til NNV, vestan við opið inn í stekkinn sem er til norðvesturs. Stekkurinn skiptist í tvö hólf, það austara er um 6 x 4 m að innanmáli, snýr NNV-SSA og það vestara er um 3 x 4 m og hefur sömu stefnu. Austara hólfið er opið til VNV og vestara hólfið til opið til norðurs. Veggurinn sem aðskilur hólfin er stuttur og er opið milli hólfanna norðvestast í tóftinni, þar sem tóftin er opin. Hleðslur eru signar og grónar, um 0,4 m á hæð. Um 10 m norðaustan við stekkinn er lítil grjóthlaðin hringlaga tóft (E), um 4 m í þvermál. Tóftin er full af grjóti sem hefur hrunið inn í hana og er hún orðin mjög mosavaxin. Ekki er hægt að sjá op á tóftinni. Hleðsluhæð veggja er um 0,3 m en grjóthrunið inni í henni stendur ívið hærra. Suðvestan við tóftina er bunga sem virðist vera mosavaxin grjóthrúga og er líklega hrun úr tóftinni. Sel það sem hér hefur verið lýst er mjög nálægt Vogaseli gamla en virðist mun yngra og er líklegt að selið hafi verið flutt sunnar og ofar, ef til vill vegna þess að haglendi hefur eyðst við Vogaselið gamla en þar er nokkur jarðvegseyðing. Sesselja Guðmundsdóttir telur að selin hafi bæði fengið nafnið Gamla- eða Gömlu-Vogasel þegar selstaðan hafi verið flutt að Arahnjúksseli en ekki er vitað hvenær það gerðist.“

Þegar Vogarselin á Vogaselshæðum eru skoðuð er greinilega um tvær selstöður að ræða, sú efri öllu yngri.

Auðnasel

Auðnasel

Auðnasel – teikning.

„Samkvæmt núverandi landamerkjum sem Sveitarfélagið Vogar hefur látið í té er Auðnasel á merkjum milli Þórustaða og Landakots, og eru minjar því tengdar á báðum jörðunum. Flestar tóftirnar eru í landi Landakots og er það því skráð undir þeirri jörð. Auðnasel er um 4,7 km suðaustan við Þórustaði, 4,8 km norðaustan við Landakot og 4,9 km suðaustan við Auðnir.
Seljatóftirnar eru í grónum og gróðursælum hvilftum umhverfis allhátt holt en einnig eru minjar uppi á holtinu og í seltúni sem er norðaustan við holtið. Allt er hér gróið en stutt er í uppblásinn hraunmóa utan svæðisins.
Selið er á svæði sem er um 110×120 m að stærð og snýr nálega norður-suður. Tvær tóftaþyrpingar eru á vesturhluta svæðisins og stekkir eða kvíar eru á þremur stöðum.

Auðnasel

Auðnasel.

Minjarnar fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingu. Grjóthlaðin tóft A, sennilega stekkur, er uppi á holtinu suðaustan við aðaltóftasvæði 1. Hún er tvískipt, um 8×4,5 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Um 4 m langur innrekstrargarður liggur til norðvesturs frá inngangi á norðvesturgafli. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m en hleðslur eru hrundar. Tóftin er gróin að hluta. Lítið hólf I er í suðvesturenda tóftar, um 2×1 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Stórt hólf II er svo þar norðvestan við og er það um 3,5×2,5 m að innanmáli, snýr eins og tóftin.

Auðnasel

Auðnasel.

Tóft B er um 52 m norðan við tóft A en hún er grjóthlaðin kví norðvestan undir klettavegg í allstórri hvilft, grasi gróinni. Tóftin er grjóthlaðin, um 7,5×4 m. Suðaustast er lítið hólf I upp við klettavegginn. Það er um 1×0,5 m að innanmáli, snýr norðaustur-suðvestur. Þar framan við er hólf II sem er um 2×1 m að innanmáli og snýr eins og tóftin. Loks er svo hólf III sem er um 2×2,5 m að innanmáli og snýr eins og tóftin. Þessi hólf eru hvert fram af öðru. Opið er í norðvesturenda tóftarinnar inn í hólf III og opið er á milli hólfa III og II. Stuttur veggur, mögulega aðrekstrargarður, liggur til norðvesturs frá norðaustur langvegg, er um 1,5 m langur. Hólf IV er samsíða hólfum II og III. Er það um 2,5×1,5 m að innanmáli og snýr eins og tóftin. Suðaustan við hólfið að klettavegg er mikið stórgrýti og kann þar að hafa verið framhald af þessu hólfi eða annað hólf. Mesta hleðsluhæð tóftarinnar er um 0,2 m utanmáls.

Auðnasel

Auðnasel – stekkur.

NNV við tóftina, fast við hana er þúst sem er um 3 m í þvermál og er hún um 0,6 m á hæð. Grjót sést á einum stað í henni en annars er hún gróin. Tvær rákir eru í þústina sem liggja norður-suður og eru 1-1,5 m langar. Tvískiptur stekkur C er í miðju stekkjartúninu á dálítilli hæð. Hann er um 70 m norðvestan við tóft B. Stekkurinn er grjóthlaðinn, er um 5×4 m að stærð, snýr norður-suður. Að auki liggur veggur frá honum miðjum til vesturs, um 4 m langur en tóftin snýr norður-suður. Stærra hólfið I er í suðurenda og er um 2x3m að innanmáli, snýr austur-vestur. Inngangur er í norðvesturhorni. Minna hólfið II er mun ógreinilegra, er um 1,5 x 2 m að innanmáli, snýr austur-vestur. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m og sjást 3 umför. Dálítil þúst er um 3 m norðaustan við tóftina og er hún um 2 m í þvermál og um 0,6 m á hæð. Seljatóftirnar eru á tveimur stöðum á svæðinum. Annars vegar eru tóftir litlu vestan við mitt svæðið 1 og hins vegar eru tóftir vestast á minjasvæðinu 2.

Breiðagerðissel - Auðnasel

Auðnasel og Breiðagerðissel – uppdráttur ÓSÁ.

Á fyrrnefnda staðnum eru sex tóftir og ein gryfja sem mögulega hefur verið vatnsstæði. Tóftirnar eru allar nema ein ofarlega í brekku stórrar hvilftar. Tóft I er tvískipt og er hlaðin undir hamravegg sem er suðurveggur hennar. Hún er orðin nokkuð óskýr en er um 7×2,5 m að stærð, snýr austur vestur. Vestara hólfið I er um 1,5×1 m að innanmáli og snýr eins og tóft. Hólf II er um 2×1,5 m að innanmáli og snýr eins og tóft. Op er á báðum hólfum til norðurs. Mesta hleðsluhæð er um 0,4 m. Tóft E er neðst í hvilftinni, um 14 m norðaustan við tóft I og virðist hún vera nokkuð gömul. Hún er um 5×2,5 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur. Tóftin er tvískipt og er hólf I í suðausturenda um 1,2×1 m að innanmáli. Op er á því til norðausturs. Hólf II er um 2,5×0,5 m að innanmáli, snýr eins og tóft. Op er á hólfinu á norðvesturgafli og einnig er op á því til norðausturs. Mesta hæð veggja er um 0,4 m, ekki sést í grjóthleðslur. Tóft D er um 20 m vestan við tóft E. Hún er stærst tóftanna á þessu svæði og greinilegust þeirra. Hún er um 5×4 m að stærð, snýr norður-suður. Grjóthleðslur sjást í henni innanverðri og op er á henni á miðjum austur-langvegg. Mesta hleðsluhæð er um 1 m. Fast norðaustan við tóft D er tóft F. Hún er um 3×3 m að stærð og er opin á norðausturgafli. Grjót sést í innanverðum veggjum. Mesta hleðsluhæð um 0,5 m.

Auðnasel

Auðnasel – stekkur.

Fast norðvestan við tóft D er tóft G. Hún er um 3,5×2,5 m að stærð, snýr norðaustur-suðvestur. Grjóthleðslur sjást í innanverðum veggjum. Mesta hleðsluhæð um 0,5 m. Fast norðvestan við tóft G er tóft H. Hún er um 3×2 m að stærð, snýr norðaustur-suðvestur. Op er á tóftinni í austurhorni. Grjóthrun er á gólfi tóftarinnar. Mesta hleðsluhæð er um 0,5 m. Gryfja J er um 15 m norðan við tóft F. Hún er um 2 m í þvermál og um 1,2 m á dýpt, gróin, e.t.v. vatnsstæði. Á tóftasvæði 2 er þrískipt tóft K um 30 m norðvestan við tóft H hún snýr suðvestur-norðaustur og er um 10×6 m að stærð. Norðaustast hólf I sem er 2×1 m að innanmáli, snýr suðaustur-norðvestur. Grjót er á gólfi þess og í innanverðum veggjum. Suðvestan við þetta hólf er hólf II sem aðeins virðist tengt hólfi I með norðvestur-langvegg. Það hólf er um 2,5×1 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur, opið til norðausturs.

Breiðagerðissel

Auðnasel.

Fast suðvestan við þetta hólf er hólf III en þau eru laustengd og ef til vill eru þau sitthvor tóftin. Hólf III er 2×1 m að innanmáli, snýr norðvestur-suðaustur. Ekki sést op á hólfinu. Mesta hleðsluhæð er um 1 m. Fast norðvestan við tóft K er önnur þrískipt tóft L algróin og virðist eldri en hin. Hún snýr austur-vestur og er um 7×4 m að stærð, gróin en sést lítillega í grjót að innanverðu. Vestast er lítið hólf I sem er um 1×1 m að innanmáli og í austurenda er stórt rými sem óljóst skiptist í tvö hólf. Austast er hólf II sem er um 2x1m að innanmáli snýr austur-vestur og vestan við það er svo hólf III sem er um 1×1,5 m að innanmáli snýr norður-suður.
Mesta hleðsluhæð er um 1 m. Inngangur inn í hólf II og III er úr suðvestri og inngangur inn í hólf I er úr suðaustri. Varða M er um 20 m norðvestan við tóft K. Hún stendur á lágum klapparhól, er um 1 m í þvermál og um 0,7 m á hæð. Steinar nokkuð skófum vaxnir en virðist ekki gömul, 5 umför.“

Fornasel

Fornasel

Fornasel (Litlasel) – teikning.

„Þar suður af [Klifgjá og Klifgjárbarmi sem eru sunnan við Kolgrafarholt] er Fornasel eða Litlasel,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar. Fornasels er ekki getið í örnefnaskrá Þórustaða en samkvæmt núverandi landamerkjum er selið innan landamerkja þeirra. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi segir um Fornasel: “ Í austurátt frá Skrokkum er lítið selstæði sem heitir Fornasel. Ein heimild segir það vera frá Þórustöðum [mögulega úr bókinni Strönd og Vogar] en önnur heimild segir að selið gæti heitið Litlasel og verið frá Landakoti [í örnefnalýsingu Landakots eftir Gísla Sigurðsson segir: „Ekki er með öllu víst, að Fornasel tilheyri landi Landskots, en hafi svo verið nefndist það einnig Litlasel.“ Ekki er ljóst hvernig Litlasel kemur til sögunnar. Þess virðist ekki vera getið annarsstaðar en í þessari örnefnaskrá. Í annarri örnefnaskrá fyrir Landakot er Fornasel talið til örnefna sem tilheyra því en framar í skránni er tekið fram að erfitt sé að staðsetja þekkta hóla og kennileiti í Strandarheiði í landi hverrar einstakrar jarðar vegna þess hve þéttbýlt sé á svæðinu].

Fornasel

Fornasel í Strandarheiði – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabókinni 1703 er ekki getið um Fornasel eða annað sel á þessum slóðum en bókin nefnir Fornuselshæðir sem eru líklega nokkuð ofar í heiðinni […].“ Í bókinni Strönd og Vogar segir: „Þá er Fornasel. Þar áttu fyrst selstöðu Kálfatjörn og Þórustaðir en Kálfatjörn fékk seinna selstöðu, þar sem heitir Sogasel […].“ Mögulega er hér átt við sel í Fornuselshæðum en í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 kemur fram að Kálfatjörn og Þórustaðir hafi átt selstöðu þar. Fornasel er um 3,2 km suðaustan við bæ.
Selið er í hrauninu sunnan við Reykjanesbraut þar sem landið fer hækkandi og er selið á dálítilli hæð [og sést vel frá brautinni]. Gróið er í kringum selið.
Í ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um sel og selstöður á Reykjanesskaga segir um Fornasel: „Í selinu er ein megintótt með tveimur vistarverum og hlöðnu gerði sunnan við. Vestar er hlaðinn stekkur. Ofan við hólinn er vatnsstæði í krika og minni tóft með tveimur vistarverum. Tóftirnar eru grónar, en vel sést móta fyrir veggjum. Hleðslur sjást í veggjum. Hlaðið er um vatnsstæðið.“

Fornasel

Fornasel.

Heildarstærð minjasvæðisins er um 68×20 m og snýr það norðvestur-suðaustur. Seltóftirnar eru á tveimur stöðum, annars vegar tóftir A-C sem eru norðaustan við dálitla klapparbungu, hins vegar tóft D sem er suðaustan við sömu bungu. Um 60 m eru á milli staðanna. Á milli svæðanna er svo líklega vatnsstæði eða vatnsból E og er dálítil hleðsla eða steinlögn meðfram henni. Tóft A er einföld og mjög ógreinileg. Hún er neðst (norðvestast) í tóftaþyrpingunni og útflött að mestu leyti. Tóftin er um 4×5 m að stærð og snýr NNV-SSA. Ógreinilegir veggir eru á austurhlið og á SSA-gafli. Aðrir veggir eru útflattir en grjót finnst undir sverði. Óljóst er hvar inngangur hefur verið.

Fornasel

Fornasel – vatnsstæði.

Tóft B er tvískipt, 6,5×4 m að stærð, snýr suðaustur-norðvestur. Tóftin er gróin en þar sem hrunið hefur úr veggjum inn í tóftina sést í grjót. Hólf I er í norðvesturenda og er um 1×1 m að innanmáli en hólf II í hinum endanum er um 2×2,5 m að innanmáli, snýr norðaustur-suðvestur. Fast við þessa tóft en líklega ekki sambyggð er tóft C. Hún snýr austur-vestur og er um 5×5 m að stærð og skiptist óljóst í 2 hólf. Hólf II í suðausturenda er um 2,5×1 m að innanmáli og snýr NNA-SSV. Op er á því til norðvesturs inn í hólf I. Hólf I er í norðvesturenda tóftar, opið til norðvesturs, um 2×2 m að innanmáli. Tóftin er vel gróin og ekki sést í steina nema á stöku stað. Mesta hleðsluhæð í tóftum B og C er um 0,5 m.

Fornasel

Fornasel.

Um 18 m suðaustan við tóft C er gróin gryfja E, um 2×3 m að stærð og snýr austur-vestur. Mikið grjót er í gryfjunni, sérstaklega að austan- og sunnanverðu og grjóti hefur verið raðað á bakka gryfjunnar í vesturenda sem er að mestu þurr og er gryfjan dýpst þar, um 1-1,2 m. Líklegt er að þarna hafi verið vatnsstæði eða vatnsból. Um 24 m suðaustan við vatnsstæðið er tvískipt tóft D sem er um 5×3 m að stærð og snýr norður-suður. Tóft þessi er mun fornlegri en tóftir A-C. Hólf I er í norðurenda og er um 2×1 m að innanmáli, snýr norður-suður, op til austurs. Hólf II er um 1×1 m að innanmáli, óljóst op er á austurvegg. Mesta hleðsluhæð tóftarinnar er um 0,5 m. Tóftin er vel gróin en lítillega sést í grjót í hólfi II.“

Sogasels er ekki getið í fornleifaskráningunni.

Fornuselshæðir

Fornuselshæðir

Fornuselshæðir – teikning.

„Í Jarðabók Árna og Páls frá 1703 segir: „[…] áður hefur hann [staðurinn] og brúkað selstöðu þar sem staður á sjálfur land, þar sem heitir Fornuselshæði [svo], þar er mein stórt að vatnsbresti og hagar naumir […].“ Í Jarðabókinni segir einnig að Þórustaðir eigi selstöðu í Fornuselshæðum: „Selstöðu á jörðin þar sem kallaðar eru Fornuselshæðir, þar eru hagar næsta að þrotum komnir, en vatnsból so lakt, að fyrir þann skort er selstaðan aflögð orðin, og hefur því bóndinn selstöðu að annara láni með miklum óhægðum og lángt í burtu.“ „Engin önnur heimild er til um Fornuselshæðir en líklega eru hæðirnar í eða við Sýrholtið. Vestan í holtinu sjást þrjár mjög gamlar kofatóftir og þar hefur líklega verið selstaða fyrrum og gæti verið selstaða sú er getið er um í Jarðabókinni,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Þrískipt tóft („þrjár mjög gamlar kofatóftir“) er vestan í Sýrholti, um 980 m suðvestan við Flekkuvíkursel, um 4,4 km suðaustan við Kálfatjörnog um 4,6 km suðaustan við Þórustaði. Tóftirnar eru allhátt á holtinu og er þar grasi gróinn blettur í kring. Umhverfis holtið eru hraunbreiður sem eru grónar á köflum en nokkur gróðureyðing er hér í kring.

Fornusel

Fornusel í Fornuselshæðum (Sýrholti).

Í ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um sel á Reykjanesskaga segir: „Vestan í holtinu [Sýrholti] sjást þrjár mjög gamlar jarlægar [svo] kofatóftir og þar hefur mjög líklega verið sel fyrrum og gæti verið selstaða sú sem getið er um í Jarðabókinni. Mikill uppblástur er á þessum slóðum og á holtinu sjást merki eftir landgræðslu. Útveggir sjást. Tvær tóftanna [hér hefur líklega átt að standa „Þrjár tóftanna…“ þar sem áður hefur verið talað um að kofatóftirnar séu þrjár vestan í holtinu og uppdráttur sem fylgir umfjölluninni sýnir einnig þrjár tóftir] eru suðvestan í hæðunum, en sú þriðja er á gróðurbleðli skammt vestar. Hlaðin kví er í gróinni gjá þar skammt vestan hennar.“

Fornusel

Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.

Tóftirnar þrjár vestan í Sýrholti sem nefndar eru í heimildum er í raun ein tóft, en þrískipt. Tóftin er um 8 x 4 m og snýr norðvestur-suðaustur. Hólfin 3 snúa suðvestur-norðaustur. Þau eru 1,5 x 0,5-1 m að innanmáli og er norðvestasta hólfið ógreinilegast. Hleðslur eru mjög signar en hólfin eru enn nokkuð djúp. Mesta hleðsluhæð utanmáls er um 0,3 m en innanmáls er hún um 1 m. Ekki sjást op inn í hólfin og ekki sést í grjót. Efst uppi á Sýrholti er mikil hundaþúfa, grasi
vaxin. Líklegt er að þar hafi staðið varða sem vísað hefur á selið því lausir steinar sjást grónir við þúfuna og minnst er á það í örnefnaskrá Kálfatjarnar (AG) að á þessu svæði sé landamerkjavarða, Sýrholtsvarða, og kann að vera að þessi meinta varða hafi einnig haft það hlutverk. Tóft fannst ekki á vettvangi og ekki er ljóst hversu langt frá seltóftinni hún er. Þar sem það er óljóst, sem og tengsl hennar við seltóftina, er hún skráð á sér númer.
Hleðsla er í gjá um 290 m norðvestur af seltóftinni og er þar líklega um meintan stekk að ræða sem nefndur er á heimasíðu Ferlirs. Hann er skráður á sér númer enda langt frá seltóftinni. Samkvæmt landamerkjum sem fengust hjá sveitarfélaginu er selið á merkjum milli Kálfatjarnar og Þórustaða. Það er skráð með Kálfatjörn þar sem líkur eru til þess að hér sé um selið að ræða sem talað er um í Jarðabók Árna og Páls og hefur það þá verið í landi Kálfatjarnar. Hleðslan og tóftin sem Ómar Smári talar um í ritgerð sinni eru að öllum líkindum það langt frá seltóftinni og nokkuð inn í landi Þórustaða og eru þær minjar því ekki skráðar með selinu heldur í sitt hvoru lagi með Þórustöðum.“

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – teikning.

„Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: „Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi, og báglegt eldiviðartak.“ „Vestan eða suðvestan undir honum er Flekkuvíkursel og er það í landi Kálfatjarnar,“ segir í örnefnaskrá GE. „Þar rétt hjá er Selstígurinn [svo] beint suður í Flekkuvíkursel. Það stendur í Seltúninu og eru þar allmiklar rústir greinilegar. Þar var haft í seli fram til 1845. […] Þegar haft var í seli var búsmalinn rekinn til vatns í Kúagerði, 40 mínútna leið fram og til baka,“ segir í örnefnaskrá Flekkuvíkur. „Enn ofar, vestan undir klapparási, er Flekkuvíkursel. Þar er allstór mói í kringum selið, er nefnist Seltún. Amma Ólafs, Herdís Jónsdóttir frá Flekkuvík, kom í selið sem barn og voru þá bæði smali og selráðskona þar. Það hefur verið á milli 1860-70, en Herdís var fædd 1858. Þarna sjást rústir allmargra kofa,“ segir í örnefnaskrá Kálfatjarnar.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Í ritgerð Gunnars Ingimundarsonar um örnefni í Brunnastaðahverfi kemur fram að Flekkuvíkursel hafi verið síðasta selið sem fór í eyði í sveitinni, um 1870. Selið er 4 km SSA við bæ. Heimildum ber ekki saman um hvað ásarnir heita í kringum Flekkuvíkursel en það skiptir miklu máli í þessu tilviki því landamerki Flekkuvíkur á móti Kálfatjörn annarsvegar og Vatnsleysu hins vegar liggja um ása sitt hvorum megin við selið. Í bókinni Örnefni og gönguleiðir er aðeins talað um Vestari- og Nyrðri-Flekkuvíkurselás eins og gert er í landamerkjalýsingu. Í lýsingum af staðsetningu selsins í sömu heimild er talað um að Selásvarða sé á Vesturásnum. Í Örnefnaskrá Flekkuvíkur er hins vegar talað um Selásinn vestari, Selásinn eystri og Mið-Selás. Og samkvæmt sömu heimild er Selásvarðan á Mið-Selás.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – stekkur.

Á vettvangi og af loftmyndum virðast ásarnir vera þrír og er líklegt að Selásinn eystri í örnefnaskrá sé sami ás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás í landamerkjalýsingu en þessi ás er norðaustastur ásanna og því geta bæði nöfnin átt við hann. Mið-Selássins er væntanlega ekki getið í landamerkjaskrám af því að landamerkin liggja ekki um hann. Mið-Selás er suðaustan við Flekkuvíkusel og á honum er stór varða sem að öllum líkindum er Selásvarða en tvær vörður eru á Selásnum vestari sem er vestan við Flekkuvíkursel. Annað sel er um 185 m norðaustan við Flekkuvíkursel en það er að öllum líkindum í landi Vatnsleysu og er skráð með Stóru-Vatnsleysu. Óvíst er hver tengslin eru milli seljanna tveggja en selið í landi Vatnsleysu virðist vera eldra en Flekkuvíkursel og því tilheyra færri sýnilegar rústir. Selið kann að hafa verið frá Vatnsleysu eða eldra sel frá Flekkuvík þó að selstæði Flekkuvíkursels sé mun ákjósanlegra eins og aðstæður eru nú.
Flekkuvíkursel er norðvestan undir Mið-Selás sem er allhátt hraunholt. Seltóftirnar eru í Seltúninu sem er nokkuð flatlendur og grasi gróinn túnblettur.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

„Drjúgan spöl suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts en norðaustan Sýrholts er Flekkuvíkursel. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásnum norðan tóftanna og fáeinir steinar við það,“ segir í Örnefnum og gönguleiðum. Á heimasíðu Ferlirs segir: „Frá Bræðrum sést vel að Flekkuvíkurseli í suðri. Um 10 mínútna gangur er að því frá vörðunum. Selið sjálft er undir löngu holti, Flekkuvíkurselási. Á því er varða, Selásvarða. Annars eru sjáanlegar vörður á holtum þarna allt í kring, átta talsins.“

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Í ritgerð Ómars Smára Ármannssonar um sel á Reykjanesskaga segir: „Í selinu sjálfu má vel greina 8 tóttir. Líklega hafa selstöðurnar verið a.m.k. tvær. Stekkur er undir holtinu skammt sunnar, en vestan við selið eru hleðslur er gætu verið rétt og eldra gerði. Vel gróið er í kringum selið, Seltúnið. Norðan við selið er klapparhóll. Í kvos norður undir norðurholtinu er hlaðin kví. Norðan þess eru þrjár tóftir er benda til þess að þar hafi verið minna sel. Norðan þess er u.þ.b. metershár hóll með hleðslum [Framangreindar minjar: kví, sel og hóll með hleðslum er skráð saman auk vatnsstæðis og vörðu. Talsverð landeyðing er í kringum hann, en þarna gæti hafa verið stekkur, lítil borg eða hlaðið hús. Hugsanlega gæti þetta hafa verið sel frá öðrum Flekkuvíkurbæjanna, en Flekkuvík skiptist í Austurbæ og Vesturbæ, auk þess sem bærinn Refshali (Rifshali) var býli þar í túnkróknum (fór í eyði 1920).“ Flekkuvíkursel er á svæði sem er 100 x 80 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Þar eru sex tóftir og eitt garðlag og fá minjarnar bókstafina A-G til aðgreiningar.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Tóft A er grjót- og e.t.v. torfhlaðin tóft sem skiptist í þrjú hólf. Hún stendur á lágum hól undir lágum hálsi og er 11 x 6 m að stærð og snýr austur-vestur. Hólf I er austast og stærst. Það snýr í norður-suður og er 6 x 5 m að innanmáli. Breidd veggja er um 1 m og er hæð þeirra 0,7 m. Greinilega sést í grjóthleðslur sem hafa víða hrunið inn á við. Um 1 m breitt op er á hólfinu á vestari langvegg, um 2 m frá syðri skammhlið. Hólf II er vestur af I og áfast því í suðvesturhorni, sunnan við dyraopið. Hólfið er 3 x 1 m að innanmáli og snýr það þvert á hólf I. Veggir þess eru aðeins mjórri, um 0,8 m að breidd og sömuleiðis lægri eða um 0,4 m. Veggirnir eru afar grónir og sést ekki í grjóthleðslur. Líklega eru veggirnir þó grjóthlaðnir eða torf- og grjóthlaðnir. 0,5 m breitt dyraop í á langvegg í norðvesturhorni. Hólf III er austur af II og snýr á sömu vegu. Það er 3 x 1,5 m að innanmáli. Veggir þess eru einnig 0,8 m að breidd og 0,4 m háir. Dyraop er í suðvesturhorni skammhliðar. Er það aðeins 0,3 m breitt.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Tóft B er 3 m vestur af A. Er hún einföld og er 6 x 4 m að stærð. Tóftin snýr norðaustur-suðvestur. Breidd langveggja og austari skammhliðar er um 1 m en vestari skammhliðin er 1,5 m breið. Allir veggirnir eru 0,6 m háir. Grjót er í veggjum og sést það greinilega á syðri langvegg og í eystri skammhlið. Dyraop er í norðurhorni á skammhlið. Tóft C er um 4 m austan við tóft B. Hún snýr norður-suður og skiptist í a.m.k. tvö hólf, e.t.v. þrjú. Hólf I er nyrst. Það er 5 x 4 m að utanmáli en 3 x 2 m að innanmáli. Eystri langveggur er ríflega 1 m á breidd en aðrir 1 m. Eru þeir 0,5 m háir. Nyrðri gaflinn er nánast opinn en greina má smá veggjabút í austurhorni. Þó er hugsanlegt að einungis hafi hrunið úr langveggnum. Tóftin er grasi gróin. Hólf II er 4 m suður af I. Er það 4 x 6 m að utanmáli, 3 x 1,5 m að innanmáli og snýr í VSV-ANA. Veggir hólfsins eru 1,5 m að breidd og 0,5 m háir. Op er á nyrðri langvegg miðjum, 0,4 m breitt.
Tóftin er grasi gróin og sést ekki í grjót í veggjum. Milli hólfa I og II eru þúfur sem mynda e.t.v. ógreinilega veggi. Væri það þá þriðja hólf tóftarinnar. Er það 4 x 5 m að stærð og mjókkar til norðurs. Breidd veggjanna er um 1 m og hæð þeirra 0,3 m. Tóft D er 4 m austan við C II.“

Framhald á „Sel á Vatnsleysuströnd II„.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2011.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.