Stekkir og stekkjatíð
Fornir stekkir, flestir nánast jarðlægir, virðast yfirleitt ekki vera áhugaverðar mannvistarleifar. En við nánari skoðun kemur annað í ljós. Þeir voru jú fyrrum órjúfanlegur hluti af búskaparsögunni.
Flekkuvíkurstekkur I – uppdráttur ÓSÁ.
Stekkir voru yfirleitt tvískiptir, hlaðnir úr grjóti og eða torfi, eins konar rétt með viðbyggðri „lambakró“. Í þeim var ám og lömbum haldið fráskildum þegar leið á vorið á meðan á mjöltum stóð sem og næturlangt.
Áður fyrr voru ær mjólkaðar jöfnum höndum í stekkjum nálægt bæ sem og í seljum, en í lok 19. aldar færðust þau búverk nánast alveg heim að bæ uns stekkjartíðin lagðist alveg af skömmu eftir aldamótin 1900. Þó var enn um sinn fært frá heima á bæ, enda þá víðast hvar hafin bygging sérstakra fjárhúsa, uns rekið var á afrétt. Eftir það stækkuðu heimastekkir til mikilla muna í takt við fjölgun fjárins, urðu líkari tvískiptum réttum. Þessir stekkir, eftir að þeir lögðust af sem slíkir, voru gjarnan síðar notaðir sem matjurtargarðar. Þannig má segja að vegghleðslurnar hafi þjónað tvenns konar hlutverki, fyrst að halda fénu innan og síðar utan þeirra.
Fornistekkur – uppdráttur ÓSÁ.
Bæði ummerki benda til og vitað er að stekkurinn var jafnan tvennskonar bygging. Rétt eða innrekstrar byrgi og kró eða lítið hús með þaki. Þar sem lömbin voru byrgð inni, þegar þeim var stíað frá ánum. Stekkurinn hefur jafnan verið valinn staður í skjólsælum hvömmum eða undir hólum, þó jafnan snertispöl frá bæ. Sælst var til að stutt væri í vatn frá stekknum, lækur eða árspræna.
Í seljunum var stekkurinn oftast tvískiptur, en í nærstekkir voru ýmist tví- eða þrískiptir.
Heimristekkur – uppdráttur ÓSÁ.
Ástæðan fyrir þriðja hólfinu er sennilega stækkun á lambakrónni á einhverjum tímapunkti, enda fjölgaði fé eftir því sem leið á. Þessi hólf eru jafnan hliðsett. Í sumum stekkjum er leiðigarður og jafnvel lítil „rétt“.
Tæplega kemur til mála að lambakróin hafi verið notuð sem fjárhús til þess var hún of langt í burt og of lítil. Þar sem svo hagaði til hefur vafalaust einhver ræktun myndast kringum stekkinn, og þá slegið þar, en um aðra ræktun hefur varla verið að ræða.
Dæmi eru um að stekkir ekki fjarri bæ hafi um stund verið notaðir sem „heimasel“, einkum eftir að selstöðurnar í heiðinni lögðust af og fólki fækkaði til sveita. Við þá stekki má gjarnan sjá hliðstæða tóft þar sem afurðirnar voru geymdar tímabundið milli flutninga. Þá eru og dæmi um að fjárborgum hafi um tíma verið breytt í stekki.
Borgarkotsstekkur – uppdráttur ÓSÁ.
Í Stekkjatíð var lömbunum stíað frá mæðrum sínum í viku til hálfan mánuð, byrjað var í miðjum júní og undir mánaðarmótin voru lömbin tekin frá mæðrum sínum fyrir fullt og allt. Talað var um að fara á stekkinn eða fara ofan á stekk. Lambféð var rekið á stekk um 9 leitið á kvöldin. Ærnar voru reknar inn í stekkinn og lömbin færð inn í stíuna. Síðan var ánum hleypt út og þær voru næturlangt í kringum stekkinn, þær höfðu að éta þar og fóru hvergi meðan þær heyrðu í lömbunum.
Færikvíar.
Lömbin fengu broddmjólkina úr ánum og þegar byrjað var að stía var mjólkin orðin nógu góð til að hægt væri að nota hana í hvað sem var, enda var hún nýtt á svipaðan hátt og kvíamjólkin. Lömbin voru yfirleitt ekki mörkuð yngri en viku gömul en eftir það voru þau mörkuð, hvar sem náðist í þau. Börnum var oft gefið fráfærulamb á stekk en sjaldnast smalanum.
FERLIRsfélagar skoðuðu 22 þekkta stekki frá bæjum á Vatnsleysuströnd, milli strandar og Reykjanesbrautar.
Litlistekkur – uppdráttur ÓSÁ.
Þeir eru mislangt frá bæ, en þó aldrei lengra en svo að í þá væri ca. tuttugu mínútna gangur – stekkjargangur.
Stekkirnir eru misjafnir að gerð og lögun og hefur hvorutveggja væntanlega bæði markast af byggingaefni og aðstæðum á vettvangi. Stærð þeirra gefur til kynna fjölda mögulegs fjár frá viðkomandi bæ. Staðsetningin er nánast ávallt innan landareignar eða á mörkum.
Mannvirkin bera glögg merki fyrri búskaparhátta og eru því merkilegar fornleifar, ekki síst í heildar búskaparlandslagi hlutaðeigandi bæjar sem og alls sveitarfélagsins.
Miðmundarstekkur.