Arnarhóll – sagan og fornleifar; Ragnar Edvardsson

Reykjavík

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1994 skrifar Ragnar Edvardsson um „Fornleifar á Arnarhóli„:

Saga Arnarhóls

Ragnar Edvardsson

Ragnar Edvardsson.

„Í rituðum heimildum er Arnarhóls sjaldan getið. Elsta heimild þar sem jarðarinnar er getið er frá 16. öld og var Arnarhólsjörðin þá sjálfstæð eign, og átti hana Hrafn Guðmundsson bóndi í Engey. Árið 1534 gaf Hrafn síðan Viðeyjarklaustri jörðina. Árið 1642 var Arnarhóll eign konungs. Árið 1787 var stofnaður kaupstaður í Reykjavík og kaupstaðarlóðin mæld út. Í
skjalinu varðandi þetta kemur fram að konungur hefur ætlast til að Arnarhóllinn skuli leggjast við Reykjavíkurlóðina. Þetta fórst þó fyrir og Arnarhóll lenti fyrir utan lóðina. Upp kom deilumál og þurfti Reykjavík síðar meir að kaupa jörðina. Í febrúar 1835 var ýmsum bújörðum í nágrenninu þ.á m. Arnarhól bætt við bæjarlandið og hefur Arnarhóll síðan tilheyrt Reykjavík.

Arnarhóll

Málverk Aage Nielsen frá um 1960 af stiftamtmannshúsinu nálægt 1820 (sem fáum árum áður var tugthús) og næsta umhverfi. Í bakgrunni má sjá torfbæinn Arnarhól, sem rifinn var 1828 og einnig Arnarhólstraðir sem var þjóðleiðin til Reykjavíkur um aldir. Myndin er lífleg og skemmtileg en taka verður hana með fyrirvara. Athygli vekur hversu fjallgarðurinn í kringum Reykjavík er fjarri raunveruleikanum. Danski fáninn áberandi, enda Reykjavík nánast danskur bær á þessum tíma.

Arnarhóll þótti hið myndarlegasta býli þar til tugthús var reist syðst á Arnarhólstúninu á árunum 1759-64. Þá fór að halla undan fæti og hálfri öld síðar var bærinn orðinn mjög hrörlegur. Ástæðumar má rekja til þess að tekjur Arnarhóls voru lagðar til reksturs tugthússins og smám saman fengu einnig ýmsir embættismenn tugthússins jörðina til eigin afnota.
Fyrstu ábúendur Arnarhóls, sem getið er í heimildum, voru Tómas Bergsteinsson, fæddur 1652 og Guðrún Símonardóttir. Þau bjuggu þar árið 1703 ásamt bróður Tómasar, Jóni Bergsteinssyni. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns stendur að Tómas hafi búið á hálfri jörðinni og Jón á hálfri. Heimilismenn hjá Tómasi voru sex og fimm hjá Jóni. Samkvæmt þessu hefur Arnarhólsbýlið verið tvíbýli. Auk þessara heimilismanna hafa 6 heimilismenn á Litla-Arnarhóli nytjað gögn Arnarhóls og að auki tveir tómthúsmenn og einn húsmaður, samtals ríflega 20 manns á hólnum 1703.

Arnarhóll

Sölvhóll – bærinn. Sambandshúsið í bakgrunni.

Í Jarðabókinni kemur ekkert fram um húsakynni en sitthvað annað kemur þar fram. Leigukúgildi voru tvö hjá Tómasi og Jóni árið 1703, eitt hjá hvorum bónda. Leigur voru borgaðar með smjöri til Bessastaða eða Viðeyjar. Ennfremur voru á jörðinni 4 kýr, 29 sauðkindur og 8 hross, en Arnarhólsbændur hafa lifað meira af sjó en landi.“ Hvorki voru engjar né úthagar. Frá bænum var róið árið um kring en rekavon var lítil og sömuleiðis fjörugrasatekja. Lending var góð undan hólnum og lentu kóngsskip þar stundum. Sjór gekk iðulega yfir tún og vatnsból þraut oft. Landskuldir býlisins voru greiddar með 3 vættum og 6 fjórðungum af fiski í kaupstað.

Arnarhóll

Arnarhóll – upplýsingaskilti.

Kvaðir Arnarhólsbænda voru ýmsar t.d. að flytja Bessastaðamenn til Viðeyjar og til baka hvenær sem þeim þóknaðist bæði á nóttu sem degi. Þessu til viðbótar komu tveir dagslættir í Viðey á ári, einn á hvorn bónda og skyldi bóndinn fæða sig sjálfur í þessum ferðum. Við til húsaviðgerðar áttu bændur að útvega sér sjálfir en torf og eldivið sóttu þeir í land Reykjavíkur.
Eins og áður hefur komið fram fengu embættismenn fangelsisins býlið til ábúðar sem launauppbót. Fyrir utan þessa embættismenn bjuggu ýmsar fjölskyldur á Arnarhóli uppfrá þessu, en þær stóðu oftast stutt við.

Síðasti ábúandinn á Arnarhóli var Sveinn Ólafsson. Þar bjó hann til ársins 1828. Hann var faðir Málfríðar sem þótti fríðust kvenna í Reykjavík um 1830.
Árið 1828 þótti Arnarhólsbýlið vera kaupstaðnum til mikillar óprýði. Það var Peter Fjelsted Hoppe stiftamtmaður sem stóð fyrir því að rífa býlið og þótt það gott framlag til fegrunar bæjarins.

Arnarhóll.

Sumarið 1930, séð yfir miðbæinn, Arnarhóll og styttan af Ingólfi Arnarsyni í forgrunni. Hverfisgata, Lækjartorg, Hafnarstræti, Kalkofnsvegur ofl. Verið að heyja á Arnarhóli.

Á þessum tíma var býlinu lýst sem kofaþyrpingu eða rústum, þannig að ekki hafa bæjarhúsin verið ásjáleg seinustu ár sem þau voru í notkun.
Oft var rætt um það í skipulagsnefnd Reykjavíkur hvort nota ætti Arnarhólinn sem byggingarlóð eða hvernig mætti nota svæðið. Ýmsar hugmyndir komu fram en síðan var ákveðið að stytta Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns skyldi standa efst á hólnum.“
Haustið 1923 var hafist handa við að reisa stall undir styttuna og í febrúar 1924 var styttan síðan alhjúpuð að viðstöddu miklu fjölmenni. Styttuna gerði Einar Jónsson en Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur sem stofnað var árið 1867, stóð fyrir framkvæmd verksins. Við framkvæmdirnar komu upp ýmsir gripir og var skrifað um það í blöðin hvort ekki ætti að rannsaka hólinn en ekkert var gert. Svo virðist sem staðsetning Arnarhólsbýlisins hafi verið algerlega gleymd um 1920, 92 árum eftir að það var rifið.

Fornleifarannsókn á Arnarhóli

Arnarhóll

Arnarhóll – fornleifauppgröftur.

Framkvæmdir á háhólnum hófust austantil og eftir u.þ.b. eins metra gröft rakst grafan í stein. Þegar hreinsað hafði verið frá var greinilegt að hér var komið niður á bæjarrústir. Við blasti að fornleifarannsókn yrði að gera og því voru framkvæmdir stöðvaðar á meðan að rannsókn fór fram. Allt rannsóknarsvæðið var u.þ.b. 10 x 16 metrar og var grafið frá júníbyrjun og fram í nóvember. Svæðinu var skipt í þrjú minni svæði, A, A1 og A2, og voru svæðin grafin jöfnum höndum.
Við uppgröftinn kom í Ijós að um tvö mannvirki var að ræða, hvort ofan á öðru. Það efra var lítið og hafði orðið fyrir miklu raski af völdum framkvæmdanna um 1924. Sennilegt þykir mér að það hafi verið rétt eða garður frá síðustu öld því engin merki um gólf sáust þar.
ArnarhóllSeinna mannvirkið var miklu stærra og náði yfir allt rannsóknarsvæðið. Fljótlega var greinilegt að þetta mannvirki var leifar torfbæjar sem staðið hafði á hólnum. Heimildir bentu til að hér væri Arnarhólsbýlið sjálft (4. mynd).

Komið var niður á tvö bæjarhús og hellulögð bæjargöng, og snéri rústin í norður og suður. Sennilega hefur verið gengið inn í bæinn vestanmegin, á þeirri hlið sem snýr að miðbænum. Rústin sjálf var illa farin, bæði vegna þess að býlið hafði verið jafnað við jörðu árið 1828 og að framkvæmdirnar um 1924 höfðu skemmt rústasvæðið rnikið. Á þeim tíma var grunnurinn undir styttuna af Ingólfi grafinn beint í gegnum rústina og vinna við tröppur og hólinn sjálfan höfðu einnig farið illa með rústina. Á syðsta hluta rústarinnar, sem snýr að Hverfisgötunni, voru heillegustu mannvirkin. Á því svæði komu í ljós heillegir veggir og á milli þeirra gólf með hellulögn undir. Líklegt er að þetta séu bæjargöngin.

Arnarhóll

Arnarhóll – stuttan af Ingólfi og Arnarhólstraðir framar v.m.

Lítið er hægt að álykta um notkun mannvirkjanna því bæði er rústin mjög skemmd og eingöngu hluti rústarinnar var kannaður.
Margir gripir komu í ljós við uppgröftinn. Mest var af leirkerabrotum, glerbrotum og málmi. Í efstu jarðlögunum úði og grúði af gripum frá 17.- 20. öld. Ástæða þess að gripir frá ýmsum tímum finnast hver innan um annan er hve mikið rask hefur verið á hólnum. Því neðar sem dró fækkaði gripunum.
Mörg brot úr krítarpípum fundust og voru mörg þeirra skreytt. Flest voru þau frá því í kringum 1800. Erfitt er að tímasetja krítarpípubrotin nákvæmlega, þar sem sömu gerðir voru oft framleiddar lengi.
ArnarhóllSjö peningar fundust á hólnum og hægt var að greina fimrn þeirra. Tveir peninganna, frá árunum 1727 og 1734, fundust í gólflögum og gefur það hugmynd um aldur rústarinnar.
Einn rómverskur peningur fannst á hólnum, svo nefndur dupondius frá 260-290 e. Kr., sleginn af Árelianusi keisara.
Peningar Árelianusar komust ekki í umferð um allt rómverska heimsveldið og barst lítið sem ekkert af þeim til Norður-Evrópu. Þeir finnast því sjaldan við uppgröft í Norður-Evrópu og yfirleitt ekki stakir.

Arnarhóll

Arnarhóll – upplýsingaskilti um Arnarhólstraðir.

Peningar Árelianusar keisara frá 260-290 finnast t.d. afar sjaldan á Bretlandseyjum, en aftur á móti finnst þar mikið af peningum annarra keisara. Rómverski peningurinn fannst í rúst frá átjándu eða nítjándu öld, og kann að hafa verið komið þar fyrir meðan á uppgreftinum stóð.

Af öðrum gripum má nefna beltissylgjur, hnappa, myllur, netanálar, vaðsteina, brýni og ýmsa aðra smágripi. Einn vaðsteinninn sem fannst var með áletruninni 1790 og upphafstöfunum S.E.S. og A þar undir. Þá fannst á einum stað hrúga af netaflám. Margir gripanna voru svo illa farnir að ekki var hægt að greina þá.
Uppgröfturinn á Arnarhóli stóð í sex mánuði, frá júní og fram í nóvember. Eingöngu var grafið í efstu hlutum rústarinnar og það sem neðar liggur verður að bíða betri tíma.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1994, Fornleifar á Arnarhóli – Ragnar Edvardsson, bls. 17-27.

Arnarhóll

Hátíðahöld á Arnarhóli 17. júní árið 1948. (Ljósmynd: Sigurhans Vignir)