Steinbryggjan – framkvæmdaeftirlit og frágangur 2018-2019 – Lilja Björk Pálsdóttir
Lilja Björk Pálsdóttir skrifaði skýrslu um „Steinbryggjuna, framkvæmdaeftirlit og frágang árin 2018-2019“ á árinu 2020:
Aðdragandi rannsóknar og heimildir um minjarnar
„Vor og sumar árið 2018 var unnið að framkvæmdum í Tryggvagötu austan Pósthússtrætis auk Steinbryggju. Vitað var að leifar gömlu Steinbryggjunnar (Bæjarbryggjunnar) var að finna á þessum stað enda höfðu hlutar hennar áður komið fram við fornleifarannsóknir í Pósthússtræti. Í upphafi var áætlað að á svæðinu færi fram yfirborðsfrágangur ásamt minni háttar lagnavinnu og tekið fram að ekki þyrfti að ráðast í jarðvegsskipti á svæðinu.
Markmið og aðferðafræði
Markmið með rannsókninni var að hafa eftirlit með þessum framkvæmdum, og þá sérstaklega á gatnamótum Tryggvagötu og Pósthússtrætis þar sem vitað var um minjar.
Um framkvæmdavakt með framkvæmdaeftirliti og bakvakt var að ræða þar sem fornleifafræðingur var ávallt viðstaddur þegar jarðrask átti sér stað á svæðinu en sinnti annars daglegu eftirliti þegar verið var að vinna.
Þegar minjar komu í ljós var hreinsað frá þeim jafnóðum. Notast var við vélgröfu til að fjarlægja yfirborðslög og uppfyllingar en minjarnar voru fínhreinsaðar með handafli til að koma í veg fyrir skemmdir.
Rannsóknin og niðurstöður
Verkið skiptist niður á tvö ár, 2018 og 2019. Árið 2018 var að mestu unnið á gatnamótum Pósthússtrætis þar sem tvö byggingarstig bryggjunar auk hafnargarða voru grafin fram, en einnig mestur hluti austurbakka Steinbryggjunar. Stærri hluti bryggjunar var svo afhjúpaður árið eftir. Mest var um framkvæmdavakt að ræða á meðan á framkvæmdum stóð en unnið var við lagnavinnu ýmisskonar. Reynt var að laga staðsetningu lagnanna að minjunum og tókst það að mestu.
Yfirborðslög og uppfylling voru fjarlægð með vélgröfu en þegar komið var niður að minjum voru þær hreinsaðar betur fram með skóflum, múrskeiðum og burstum.
Þrátt fyrir góða varðveislu vantaði steina á nokkrum stöðum í yfirborðslögnina og var því leitað eftir því hjá Minjastofnun að fá leyfi til að fjarlægja nokkra steina úr suðurenda lagnarinnar sem þegar var raskaður, til að fylla inn í þar sem vantaði. Voru til þess notaðir steinar syðst úr hleðslunni en óskað hafði verið eftir því við Minjastofnun að fá leyfi til að fjarlægja þá steina vegna framkvæmda. Með þeirri aðgerð varð stétt Steinbryggjunnar heildstæð.
Við stækkun svæðisins kom í ljós hluti af járnbrautarteinum þeim sem lagðir voru til að ferja varning af bryggju og upp á hafnarbakkann. Teinarnir höfðu einnig komið í ljós við fyrri rannsóknir og höfðu þá verið mældir upp. Þegar ráðist var í miklar endurbætur á bryggjunni með því að skipta út maðkétnu timbri fyrir grjóthleðslur árið 1892, var jarðvegi mokað yfir þessa járnbrautarteina og þeir þar með teknir úr notkun. Á ljósmynd sést hækkunin vel sem varð á Steinbryggjunni við þessa framkvæmd.
Garðurinn rofinn
Komið var rof í garðinn vegna lagnavinnu sem áður hafði farið fram og því var ekki hægt að sjá bein tengsl hans við bryggjuna. Hár bakki uppfyllingarefnis lá upp að og yfir austurenda garðsins. Hleðslurnar hafa sigið til vesturs og er líklegt að það hafi að mestu gerst við síðari tíma lagnavinnu. Að öðru leyti var hleðslan þétt og stöðug.
Grjótið sem notað hefur verið í hleðsluna er ótilhoggið holtagrjót úr Öskjuhlíð. Valið hefur verið stórt grjót, allt að 0,70m í þvermál. Smærri steinar voru notaðir til að skorða þá stærri. Vélgrafið var niður á um 2,5 metra sem var nauðsynleg fyrir vatnsbrunn og lagnir tengdar honum. Sást í allt að fjögur umför hleðslugrjóts á þessu dýpi. Ofan garðsins og að hluta yfir honum lágu vatns- og rafmagnslagnir sem þjóna Tollhúsinu við
Tryggvagötu 19. Skráning sniðsins gekk því erfiðlega en teknar voru ljósmyndir af garðinum eins og hægt var og teiknað eftir þeim. Hleðslur hafnargarðs sáust einnig austanmegin við Steinbryggjuna. Hleðslurnar höfðu orðið fyrir raski vegna síðari tíma framkvæmda en þær voru óhreyfðar upp við bryggjuna.
Þessi hluti hafnargarðsins var upphaflega hlaðinn á árunum 1913-1917 en var endurhlaðinn árið 1928.
Steinbryggjan í heimildum
Í skýrslu sem gefin var út árið 2015 af Fornleifastofnun Íslands ses. í tengslum við fyrrnefndar rannsóknir voru teknar saman eftirfarandi heimildir um bryggjuna sem hér eftir verður vísað til sem Steinbryggju:
“Fram á seinni hluta 19. aldar voru einu bryggjurnar í Reykjavík, timburbryggjur sem kaupmennirnir reistu sjálfir. Árið 1884 var hins vegar fyrsta bryggjan gerð, sem byggð var á vegum yfirvalda eftir nokkurra ára umræðu um frjálsan aðgang að bryggju í Reykjavík. Bryggjan hét formlega Bæjarbryggjan, en var yfirleitt kölluð Steinbryggjan. Bryggjan, sem lá beint undan Pósthússtræti, var byggð af Jakobi Sveinssyni trésmiði, og var hún upprunalega að hluta úr tré og að hluta úr steini. Bryggjan þótti illa smíðuð. Nokkrum mánuðum eftir að hún var tekin í notkun var ritað um hana í Ísafold:
„Bæjarbryggjan mikla, er bæjarstjórnin hefir snarað í um 10,000 kr., en sem er svo vísdómslega gerð, að það verður hvorki lent við hana um flóð nje fjöru, og sjór gengur upp eptir henni endilangri, ef ekki er nærri hvítalogn, og er þá ekki fyrir aðra en vatnsstigvjelaða að nota hana.“
Árið 1892 var bryggjan því endurbætt, og sá hluti hennar sem áður var úr tré hlaðinn úr grjóti. Árið 1905 var enn unnið að endurbótum á bryggjunni undir stjórn Tryggva Gunnarssonar bankastjóra. Ekki þótti þetta takast betur til en svo, að eftir viðgerðina fór bryggjan að síga og var hún þá kölluð Tryggvasker eða Tryggvaboði. Eftir að hafnargerðin hófst árið 1913 minnkaði hlutverk bryggjunar enn frekar og hvarf hún á endanum undir hafnarfyllingu á árum heimstyrjaldarinnar síðari.
Það voru þó ekki einungis bátar sem lögðust upp að Steinbryggjunni heldur segir frá í Mannlífi við Sund að flugvélar hafi lagst upp að henni áður en flughöfn var byggð í Örfirisey.
Engir gripir komu í ljós enda um að ræða svæði þar sem um uppfyllingu frá síðari tímum var að ræða ofan á og við minjarnar sjálfar auk enn yngri lagnafyllinga.“
Heimild:
-Steinbryggjan, Framkvæmdaeftirlit og frágangur árin 2018-2019, skýrsla Fornleifastofnunar Íslands 2020.












