Hjalli
Gengið var um Hjalla í Ölfusi og síðan um Þóroddstaði þar skammt austar. M.a. var skoðaður hraunfossinn í hlíðum hjallans þar sem hraunið átti að hafa runnið þá er kristni var lögleidd. Einnig var skoðaður kross í klöppum ofan við Riftún. Hjalla er getið frá því um 1000 og er nefndur er Kristnitökuhraunið rann frá Eldborgum ofan við Svínahraun, þá er ákveðið var að heiðnir Íslendingar skyldu kristnir verða.
Hjalli er bær og kirkjustaður. Þar bjó einhver vitrasti og lögfróðasti höfðingi landsins á sínum tíma, Skafti Þóróddsson, lögsögumaður (†1030). Vitað er að síðasti katólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, var í heimsókn hjá Ásdísi systur sinni að Hjalla 2. júní 1541, þegar danskir hermenn handtóku hann þar. Hann sætti illri meðferð í þeirra höndum og var fluttur til Hafnarfjarðar, þar sem hann var settur á skip til Kaupmannahafnar. Ögmundur lézt á leiðinni.
Í Landnámu er getið manna er námu land í Ölfusi; Orms hins gamla er bjó ó Hvammi og átti allt Austur-Ölfusið, allt til Þverár. Hinn er Álfur hin egðski, sem bjó á Núpum og átti vesturpartinn.
Kirkjan, sem nú stendur að Hjalla, var byggð 1928 og vígð 5. nóvember sama ár. Hún er fyrsta steinkirkjan, sem var reist austanfjalls. Meðal margra góðra gripa hennar er predikunarstóll með ártalinu 1797 (gefandi Páll Jónsson, klausturhaldari) og lítil, máluð altaristafla frá 20. öld, sem sýnir upprisuna.
Í Flóamannasögu segir að „1000-1030 að [Þorgils Örrabeinsstjúpr, Þóroddr bóndi á Hjalla og Bjarni bóndi hinn spaki deyja]. Váru þeir allir jarðaðir at þeirri kirkju, er Skapti lét gera fyrir utan lækinn, en síðan váru færð bein þeirra í þann stað, er nú stendr kirkjan, því at Skapti hét at gera kirkju, þá er Þóra [Steinsdóttir k.h.] braut fót sinn, þá er hún var at léreptum sínum.“
Árin 1382-91 er kveðið á um að „kirkia hins heilaga Olafs kongs ad Hialla j Olvesi a landid a Backa“. Árið 1397 átti Grindarvíkurkirkja að gjalda til Skálholts 6 hdr skreiðar og “flytia til Hialla”. Þessi skráning er staðfestur vottur um þær þjóðfélagsbreytingar sem orðið höfðu og lýsa hversu mikilvægar fiskveiðarnar voru orðnar. Skálholtsstóll hafði þá og af þeirri ástæðu m.a. reynt að ná undir sig útgerðarjörðunum á sunnanverðum Reykjanesskagnum.
Núverandi Hjallakirkja er í Þorlákshafnarprestakalli í Árnesprófastsdæmi. Hún var byggð og vígð 1928 um haustið.
Katólskar kirkjur voru helgaðar Ólafi helga Noregskonungi. Hjallakirkja var útkirkja frá Arnarbæli og frá Hveragerði. Húsameistari var Þorleifur Eyjólfsson og yfirsmiður Kristinn Vigfússon. Kirkjan er steinsteypt, fyrsta steinsteypta kirkjan austanfjalls.
Goðhóll er ágætt dæmi um það sem var, en er horfið. Heitið var áður á litlum hól, grasigrónum, vestan lækjartún, ofan við gömlu götuna. Hann var því miður allur tekinn sem efni í þjóðveginn.
Vestan við Bakkarás, upp við hlíðina, er fjárrétt sem heitir Hjallarétt. Þar var réttað vor og haust. Rétt fyrir vestan Hjallarétt er gata upp á brúnina, þar sem hlíðin skagar einna lengst fram. Hún heitir Suðurferðarstígur og Króksstígur.
Á grænni flöt vestan við [Bolasteins] rásina er stór steinn sem heitir Bolasteinn. Þar segir sagan að kona hafi bjargast upp undan mannýgum bola. Og þegar boli vildi ekki hafa sig burt, gat hún hellt úr nálhúsi sínu upp í hann. Þá fór hann að lina aðsóknina. Selbrekkur eru ofar. Vestan við þær verður fyrir rani eða múli sem heitir Rjúpnamúli. Niður frá honum heita Lækjarmóar. Þar má vel greina rústir sels eða stekks er heitir Lækjarborg.
Þjóðsagan segir af Guðnýjarhæð. Hún er rétt vestan við Lækjarmóa, lítil hæð. Þar er sagt að Guðný smali hafi alið barn.
Skólgarður var vörslugarður beint upp af Skyggnisþúfu. Sjá má móta fyrir honum ef vel er að gáð.
Fjallsendaborg er fjárskýli. Það er skammt vestan við Skjólgarð.
Selstígurinn liggur ofar, vestan við Kerlingarberg. Hann liggur um skarð nokkurt sem í heild kallast Selstígur, þó að nafnið eigi einkum við götuna, sem liggur þar upp á brúnina. Stígurinn er enn vel greinilegur.
Áhrifaríkt er að skoða hvar hraunstraumurinn hefur runnið niður hlíðar milli Þurárhnúks og Núpahnúks austan Þóroddsstaða, en straumsins er getið í frásögn um kristnitökuna á Þingvöllum það sumarið. Einhver misvísun mun þó hafa verið þar á ferð því hraunstraumur þessi rann ekki árið 1000 heldur allnokkru fyrir landnám. Kristnitökuhraunið er miklu mun vestar.
Skammt vestan Þóroddssataða, ofan við Riftún, er stór kross á klettaborg. Í Riftúni er Kapella hins helga kross, kaþólskt trúboð.
Frábært veður. Gangan um Hjalla tók 2 klst og 2 mín.
Heimildir m.a.:
-http://www.nat.is
-http://www.bokasafn.is