Þingvallakirkja – Orri Vésteinsson

Þingvallakirkja

Orri Vésteinsson skrifar um „Þingvallakirkju“ í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 2002-2003 (útg. 2204):

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson.

„Þingvallakirkja sú sem nú stendur er byggð 1859 en forverar hennar eru taldir hafa staðið á sama stað að minnsta kosti frá því á fyrri hluta 16. aldar. Hún er uppi á hraunhól norðan við Þingvallabæ en kirkjugarðurinn er hins vegar vestan við bæinn. Ýmsum hefur þótt líklegt að upphaflega hafi kirkjan staðið í kirkjugarðinum og lengi hefur verið talið að á 11. öld hafi kirkjurnar verið tvær. Önnur hefði verið búandakirkja, einkakirkja Þingvallabónda, og staðið í kirkjugarðinum en hin hefði verið þingmannakirkja sú sem Noregskonungarnir Ólafur Haraldsson og Haraldur harðráði gáfu viði og klukkur til. Helst hefur verið bent á að sú kirkja gæti hafa staðið uppi á hólnum þar sem núverandi kirkja er og að það væri hún sem Hungurvaka segir frá að hafi fokið í óveðri 1118.

Þingvellir

Þingvallakirkja og nágrenni 2024 – loftmynd.

Ekki sjást nein merki um kirkjustæði í kirkjugarðinum en norðan og austan við kirkjuna uppi á hólnum hefur verið bent á ójöfnur og þess getið til að þær væru leifar af eldri kirkjum eða kirkjugarðsvegg.
Hér á eftir verður sagt frá fornleifarannsókn sem gerð var sumarið 1999 til að varpa ljósi á sögu Þingvallakirkju, einkum með það í huga að sýna hversu lengi kirkja hefði staðið á hólnum norðan við bæinn. Í sambandi við fornleifauppgröftinn var gerð úttekt á heimildum um Þingvallakirkju og skal fyrst hugað að þeim.

Heimildir um Þingvallakirkju

Þingvellir

Þingvallakirkja og nágrenni – herforingjaráðskort 1910.

Samkvæmt Íslendingabók var kristni lögtekin á Alþingi árið 999 eða 1000. Elsta heimild um kirkju á Þingvöllum er Hungurvaka sem rituð var á fyrsta áratug 13. aldar. Þar kemur fram að árið 1118 hafi kirkja sú fokið á Þingvöllum er Haraldur harðráði (1047-1066) hafi fengið viðinn til. Höfundur Hungurvöku hefur sennilega verið miðaldra er hann reit þessa sögu Skálholtsbiskupa og gæti því vel hafa hitt fólk sem mundi kirkjubrotið 1118. Hungurvaka verður því að teljast fremur áreiðanleg heimild um það atriði og vel má vera að einhver fótur hafi verið fyrir því að Haraldur konungur hafi sent kirkjuviðinn til Íslands.

Þingvellir

Fornleifauppgröftur fór fram norðan Þingvallakirkju árið 1999 með það að markmið að kanna leifar af fyrrum á staðnum. Þetta er afstöðumynd af rannsóknarsvæðinu og nálægum minjum á Þingvöllum, byggð á teikningu Guðmundar Ólafssonar af Þingvallaminjum.

Í Hungurvöku er það orðað svo að Haraldur hafi „fengið viðinn til“ og má vera að að baki liggi sögn svipuð þeirri um kirkju sem Þorkell Eyjólfsson ætlaði að reisa á Helgafelli en Ólafur konungur helgi á að hafa gefið honum viðinn til hennar. Að minnsta kosti er ekki augljóst að túlka Hungurvöku sem svo að Þingvallakirkja hafi verið reist á vegum konungs.
Í yngri heimildum en Hungurvöku fær Þingvallakirkja heldur lengri forsögu. Í Ólafs sögu helga eftir Styrmi ábóta frá um 1220 er sagt um dýrlinginn að hann hafi látið „kirkiu gera a Jslandi a Þinguelli þar sem nu er honum helgud kirkia.“ Snorri Sturluson skrifaði aðra Ólafs sögu, byggða á sögu Styrmis og prjónaði aðeins við söguna um Þingvallakirkju: „Óláfr konungr hafði sent til Íslands kirkjuvið, ok var sú kirkja gor á Þingvelli, þar er alþingi er. Hann sendi með klukku mikla, þá er enn er þar.“ Hér mætti geta þess til að þegar Þingvallakirkja var vígð Ólafi konungi hafi verið búin til helgisögn þess efnis að dýrlingurinn hafi sjálfur gefið kirkjuvið og klukku til fyrstu kirkjunnar þar, og hefur ekki þurft að búa hana til úr engu, aðeins hnika til um einn konung. Uppruni klukku þeirrar sem í Þingvallakirkju var hélt þó áfram að vefjast fyrir sagnariturum og seinna í Heimskringlu, í sögu Haralds harðráða, segir Snorri sjálfur: „Haraldr konungr sendi klukku þangat [til Íslands] til kirkju þeirar, er enn helgi Óláfr konungr hafði sendan viðinn til ok sett er á Þingvelli.“

Þingvellir

Þingvallakirkja – Teikning Sigurðar Guðmundssonar, málara, af meintri þingmannakirkju á Þingvöllum.

Hér er helst að halda að misvísandi sögur hafi verið á kreiki, ekki aðeins um hvor konunganna sendi viðinn heldur einnig um klukku þá sem verið hefur í kirkjunni á árunum 1220-30 þegar allar þessar sögur eru ritaðar.
Bestu tilraun til heildarsamræmis er síðan að finna í sögu Magnúsar góða og Haraldar harðráða í Flateyjarbók og Morkinskinnu, einnig frá um 1220: „Haralldr konungr sende vt til Jslands klucku til kirkiu þeirrar er hinn heilage Olafr konungr sende uidin til og adra kluckuna. og su kirkia var sett aa þinguelle þar sem alþinge er sett.“ Hér fá báðir konungarnir nokkurt hlutverk, Ólafur helgi kirkjuviðinn og klukku en Haraldur harðráði aðra klukku, og má sjá á þessu að í Þingvallakirkju hafa verið tvær klukkur á 13. öld, hvorug nýtilkomin.

Þingvellir

Þingvellir – Teikning Sigurðar, málara, af meintu kirkjuporti þingmannakirkjunnar á Þingvöllum.

Auðvitað er ekki loku fyrir skotið að þessar sagnir eigi allar við nokkur rök að styðjast og Ólafur konungur hafi sent út við til að byggja kirkju á Þingvöllum á árunum 1015-1030 og Haraldur harðráði hafi gert það líka á sínum ríkisárum 1047-1066. Kirkja Ólafs gæti hafa verið léleg eða of lítil og orðin þörf á gagngerum endurbótum eða endurbyggingu þó að ekki væri langt um liðið frá byggingu hennar. Slíkar vangaveltur eru þó til lítils. Heimildirnar eru of fjarlægar atburðunum í tíma og of ósamstíga – án þess að vera hver um sig sérstaklega ólíkleg – til þess að hægt sé að draga af þeim skýrar niðurstöður.
Þó að Þingvallakirkju og kirkjugarðs sé getið á nokkrum stöðum í Íslendingasögum, verður lítið af þeim frásögnum ráðið um gerð kirkjunnar eða staðsetningu. Ljóst er að þingmenn hafa að jafnaði gengið til aftansöngs í Þingvallakirkju, að hellur hafa verið sunnan við kirkjuna og að þar hafa menn oft staðið á mannfundum. Í Grágás og Njáls sögu er kirkjugarðurinn á Þingvöllum kallaður ‘búandakirkjugarður’ og hefur það hugtak lengi valdið mönnum heilabrotum.

Þingvellir

Þingvallakirkja 2025.

Páll Vídalín (1667-1727) segir frá því í Skýringum yfir fornyrði Jónsbókar að Alexíus Pálsson, sem var prestur á Þingvöllum frá um 1514 til 1533, hafi fært kirkjuna úr kirkjugarðinum og upp á hólinn þar sem hún hefur staðið síðan, norðan við bæinn, vegna vatnsuppgangs í kirkjugarðinum. Páll bætir því við að kirkjan hafi í fornöld staðið á hólnum þangað sem kirkjan var færð á 16. öld. Hann skýrir ekki nánar á hverju þessi sögn sé byggð, en einfaldast er að álykta að Páli eða einhverjum öðrum glöggum fræðimanni á undan honum hafi þótt hugtakið ‘búandakirkjugarður’ grunsamlegt og því sé um að ræða fræðilega ályktun frekar en áreiðanlega hefð.

Sigurður Guðmundsson

Sigurður Guðmundsson (1833-1874).

Sigurður Guðmundsson, sem fyrstur gerði skipulega rannsókn á Þingvöllum, taldi það gamla og almenna sögn að tvær kirkjur hefðu verið á Þingvöllum í fornöld, annars vegar búandakirkja og hins vegar þingmannakirkja (nýyrði Sigurðar?) enda væri orðið búandakirkjugarður „tilgángslaust orðatiltæki, ef kirkjugarðurinn hefði verið einn.“ Hann taldi það líka almenna sögn að þingmannakirkjan hefði staðið þar sem Þingvallakirkja stendur nú og taldi sig sjá ummerki bæði um kirkjugarð og klukknaport þar á hólnum. Birtir Sigurður tilgátumyndir bæði af þingmannakirkjunni og klukknaportinu.
Matthías Þórðarson gerði röksemdafærslu Sigurðar að sinni, enda taldi hann ófært að þingmenn hefðu þurft að troðast inn í kirkju Þingvallabónda, sem hann sá fyrir sér sem litla einkakapellu sem hefði verið reist skömmu eftir kristnitöku. Þess vegna hefði verið mikil þörf á nýrri kirkju sem Ólafur helgi hefði gefið þjóðinni og hefði hún þjónað þingheimi til 1118 er hana braut í ofsaveðri. Síðan þá hefði aðeins verið búandakirkja á Þingvöllum.

Þingvellir

Þingvallakirkja 2002.

Hugmyndina um að þingmannakirkjan hefði staðið uppi á hólnum þar sem núverandi kirkja er má því rekja allt aftur á 17. öld, til Páls Vídalíns, og má vel vera að um það hafi verið „almenn sögn“ um aldaraðir. Sigurður Guðmundsson taldi sig sjá merki uppi á hólnum um hellurnar sem sagt er í Ljósvetninga sögu að hafi verið sunnan undir kirkjunni. Matthíasi Þórðarsyni fannst hellurnar ómögulega hafa geta verið í kirkjugarðinum og taldi hann lýsingu sögunnar eiga betur við aðstæður uppi á hólnum. Báðir virðast þeir telja að hellurnar í sögunni séu náttúrulegar hraunhellur, sem vissulega geta hafa staðið upp úr sverði sunnan við kirkjuna uppi á hólnum, en hitt virðist fullt eins sennilegt að í sögunni sé átt við hellur í stétt.Verður að telja það beinlínis líklegt að hellustétt hafi verið meðfram kirkju í kirkjugarðinum en þar er deiglent og því þörf á grjótlögn til að koma í veg fyrir að svað myndaðist við mikla umferð.

Þingvellir

Þingvellir 1906 – Ásgrímur Jónsson.

Hugtakið ‘búandakirkjugarð’ mætti skýra með því að kirkjugarðurinn á Þingvöllum hafi á 11.–12. öld verið einkakirkjugarður, að þar hafi aðeins heimilismenn Þingvallabónda átt rétt á legi, en fyrir aðkomumenn sem dóu um þingtímann hafi þurft að finna leg annars staðar. Slíkar takmarkanir voru algengar á 12. og jafnvel 13. öld, eins og fjölmargir máldagar sýna, og hurfu ekki fyrr en sóknaskipulagið var orðið fast í sessi í lok 13. aldar. Á það má einnig benda að þó að hugtakið ‘búandakirkjugarður’ virðist óþarft hafi þar aðeins verið einn kirkjugarður og þeir gætu þess vegna hafa verið tveir, þýðir það ekki að kirkjurnar hafi verið tvær. Þá má
líka stinga upp á því að hafi verið sérstök þingmannakirkja á Þingvöllum sé líklegra að hún hafi staðið í þinginu sjálfu, vestan Öxarár, fremur en austanmegin, svo að segja ofan í bæjarstæðinu.

Þingvellir

Þingvellir – minjakort.

Þar til skýrari vísbendingar koma fram er einfaldast að gera ráð fyrir að ein kirkja hafi verið reist á Þingvöllum á 11. öld og að sú kirkja eða arftaki hennar hafi fokið í óveðri 1118. Vel er hugsanlegt að einhver fótur sé fyrir sögnum um gjafir Ólafs helga og/eða Haralds harðráða til Þingvallakirkju en ólíklegt er að úr því fáist skorið í hverju þær fólust.
Um staðsetningu þessarar fyrstu kirkju er heldur ekkert vitað en einfaldast er að ætla að kirkja sú er Alexíus Pálsson vígðist til í byrjun 16. aldar hafi staðið mjög lengi á sama stað, hugsanlega allt frá byrjun 11. aldar. Sú kirkja stóð í kirkjugarði þeim sem enn er á árbakkanum vestan við bæinn – um það er Páll Vídalín býsna örugg heimild. Ekki er vitað nákvæmlega hvar í garðinum kirkjan stóð, né hvort garðurinn hefur færst eitthvað til á umliðnum öldum, sem alls ekki er ólíklegt. Elstu kirkjuleifanna gæti því verið að leita í miðjum kirkjugarðinum sem nú er, og er þá tæplega mikið eftir af þeim, því að grafir hafa verið teknar þar um aldabil og var garðurinn talinn útgrafinn um aldamótin 1900. Hafi kirkjugarðurinn verið færður til, t.d. fjær árbakkanum, gæti kirkjuleifanna verið að leita vestan við núverandi kirkjugarðsvegg.

Þingvellir

Þingvellir – kort.

Viðnámsmælingar sem gerðar voru í kirkjugarðinum sumarið 1999 sýndu reglulega ójöfnu í suðausturhorni garðsins en hvort þar er kirkjurúst eða eitthvað annað er ekki hægt að segja til um án frekari rannsóknar.
Miðaldamáldagar Þingvallakirkju eru tveir og gefur hvorugur neina vísbendingu um staðsetningu eða gerð kirkjunnar. Elstu lýsingu á kirkjunni er að finna í máldaga Brynjólfs biskups frá 1644. Þá hafði kirkjan verið nýlega uppbyggð og er henni lýst svo: kyrckian i sialffre sier væn og algilld. Mattar vider / aff eik. v. staffgölff. bunden jnnan Med eikarbóndum / og sud Med vænum grenebordum. þiliadur koren / heffur þetta Allt S. Eingelbrigt tillagt og byggia läted / gamaltt Alltare og Predikunar Stoll. Standþil fyr / er kyrckiu. kuenn sæte i kyrckiu er smijda heffur lat / ed S. Eingelbrigt hurd aa järnum lagde annad / til S. Eingelbrigt jnnlæst vænne læsingu Med hespu.

Þingvellir 1720

Þingvellir 1720.

Séra Engilbrikt Nikulásson var prestur á Þingvöllum 1617-1668 og hefur sennilega reist þessa nýju kirkju um 1640. Næst er til afhending Þingvallastaðar frá 1678 og er þessari sömu kirkju þá lýst svo: kyrkian so standande med 5 stafg- / olfum, alþiliud fyrer framann og bakþil j kornum sumu / lósnu yfer sialfu alltarenu. Alltare Predikunarstoll / halfþil mille kors og kyrckiu…
Næst var kirkja og staður afhent 1703 og er kirkjan þá talin vera í hálfu sjötta stafgólfi: alþiliud utar / i gegn, med standþile og biorþile bak og fÿrer kÿrkiu; / becker födrader bæde i kör og framkÿrkiu; kvenn- / sæte, alltarj velsæmelegt med gradu j predikunarstóll….

Þingvellir

Uppdráttur af Þingvöllum frá 18. öld.

Svo virðist sem kirkjunni hafi eitthvað verið breytt og hún prýdd, m.a. með glerrúðum,en þó virðist þetta vera í grundvallaratriðum sama húsið og lýst er 1644 og 1678. 1726 er kirkjan enn með sama móti, en er þá talin „ad widum æred gomul, fuen og hláleg, fyrer utan weggena, sem eru af griote nylega reparerader.“ Þetta er í fyrsta skipti sem getið er um grjótveggi um Þingvallakirkju en ekki er ástæða til að ætla annað en að kirkja sú sem sr. Engilbrikt reisti um 1640 hafi verið með hlífðarveggjum úr torfi og grjóti að norðan og sunnan.
Sr. Markús Snæbjörnsson reisti nýja kirkju á Þingvöllum um 1740. Hann tók við staðnum 1739 en í vísitasíu frá 1746 er kirkjan sögð „i 6 stafgolfum under Súd, alþiliud um hverfis i Chör og framkirkiu til beggia hlida.

Þingvellir

Þingvallakirkja; rannsóknaruppgröftur 1999 – leifar krjótveggjar úr byggingu frá síðmiðöldum, niðurgröftur frá 18. öld til hægri.

Þessu til staðfestingar má nefna að Jón Ólafsson frá Grunnavík skýrir frá því að Markús hafi fundið í veggjarundirstöðum kirkjunnar, þá er hann byggði hana upp, annan þeirra steina með alinmáli, sem voru í kirkjukömpunum, og komið honum þannig fyrir í öðrum kirkjuveggnum að hann sæist, og má af því ráða að hann hafi byggt kirkjuna algerlega frá grunni. Þó að fjöldi stafgólfa sé ekki áreiðanleg vísbending um stærð húsa má vera að þetta hús hafi verið ívið stærra en kirkja séra Engilbrikts frá um 1640.
Nákvæmari lýsing á kirkju sr. Markúsar er til frá 1750: kyrkian j siälfre sier, er j 6 stafgolfum, öll under Sud, alþiliud til beggia hlida, Slagþil uppj giegn bæde fyrer framann og ad körbake listad, med födrudum vindskeidum yfir. Upp af alltarinu er glerglugge med 9 rudum…

Þingvellir

Þingvallakirkja 1834.

Ekki er getið um breytingar á þessari kirkju fyrr en um 1770 en 1772 hafði norðurveggur hennar verið hlaðinn upp. Um það hafði verið kvartað þegar 1755 að hann væri lélegur og hefur eftir þessu að dæma ekki verið mikið vandað til verks við byggingu þessarar kirkju. 1776 er þess getið að langþiljur séu farnar að gisna og eina vanti og 1779 segir prófastur að kirkjan sé farin að ganga á torfveggina og þurfi viðréttingu.
1783 er svo komið að prófastur telur í vísitasíu að kirkjan þurfi við fyrstu hentugleika að reparerast. Það varð þó ekki fyrr en sumarið 1790 að sr. Páll Þorláksson lét byggja nýja kirkju á Þingvöllum. Sú kirkja virðist hafa verið jafnstór forvera sínum, 6 stafgólf, og mjög lík að öllu leyti, enda voru viðir gömlu kirkjunnar endurnýttir að verulegum hluta í hinu nýja húsi. Samkvæmt mælingu frá 1845 var þetta hús 12×5 álnir að stærð eða 7,5×3,1 m, jafnlöng en heldur mjórri en kirkja sú er reist var 1859 og enn stendur.

Þingvellir

Þingvallakirkja 1874.

Í vísitasíum frá 19. öld er öðru hverju getið um galla og viðgerðir á kirkjunni. 1803 er þilja þegar fallin úr framkirkjunni að sunnan og önnur farin að gallast af fúa, en 1808 hafði verið gert við þær. 1818 er farið að votta fyrir vatnsgangi á þilsperrur kórsins að innan og 1822 er kominn torfgafl á kirkjuna að austan, en fram að því hafði verið timburþil fyrir kórnum. 1828 kemur fram að kórinn taki upp tvö af sex stafgólfum kirkjunnar en 1836 er „kirkiuhusid … nu somasamlega uppbiggt af nyu aukid ad þilium, gólfe og Málverke.“ Næstu ár á eftir er kirkjan talin vel á sig komin en 1844 er „kyrkiuveggurinn nyrdri … faren ad klofna sudurveggurinn er heldur ecki fri ad bungi ut um midiuna.“
1852 hefur gólfið í kórnum verið endurbætt en veggirnir eru enn bilaðir og þakið einnig farið að verða hrörlegt. Næstu ár á eftir virðist hægt og bítandi síga á ógæfuhliðina og aukast og ágjörast gallarnir ár frá ári allt til 1859 að sr. Símon Beck lætur smíða kirkju þá sem enn stendur á Þingvallastað.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja 2025.

Kirkja sú sem nú stendur á hólnum norðan við Þingvallabæ er á grunni hlöðnum úr hraungrýti, 7,80 m löng frá austri til vesturs og 5 m breið frá norðri til suðurs. Norðan við hana er slétt flöt og um 12 m norðan við kirkjuna er hraunhóll sem er gróinn að mestu. Austan við kirkjuna er einnig slétt flöt út að þjóðargrafreit sem hlaðinn var efst í Þingvallatúni árið 1940. Á þessari flöt er þúfnaröð sem liggur frá austri til vesturs norðan við kirkjuna og beygir síðan til suðurs austan við hana. Hleðslugrjót kom í ljós er grafið var fyrir ljóskastara í þúfnaröðina norðan við kirkjuna fyrir nokkrum árum.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 97 árg. 01.01.2004, Þingvallakirkja, Orri Vésteinsson, bls. 163-182.

Þingvallakirkja

Þingvallakirkja og nágrenni.