Útsog á Suðurkjálka – Ágúst Sigurðsson II

Krýsuvík

Árið 1999 skrifaði séra Ágúst Sigurðsson þrjár greinar í „Heima er bezt“ um „Suðurkjálkann“, þ.e. bæi og ábúendur í Krýsuvík og tengsl þeirra við Herdísarvík. Hér birtist önnur greinin af þremur:

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

„Það var í heimskreppunni, svo að út í frá var það ekki fréttnæmt né undarlegt í augum heimamanna í Grindavíkurhreppi eða nærsveitarfólks austur í Selvogi, að Krýsuvík lagðist í eyði. Endanlega, að álitið var, og enginn á manntali, en þó var Magnús Ólafsson frá Óttarsstöðum í Garðahreppi viðbundinn í Krýsuvík 1933-1945, hafði komið þangað fyrir aldamót, unglingur og varð vinnumaður, síðar húsmaður.
Loks einbúi, nema sumartímann, þegar kona hans, Þóra Þorvarðardóttir frá Jófríðarstöðum, og börn voru hjá honum uppfrá“, eins og frú Guðbjörg Flygenring dóttir þeirra kallar það. Svo rækilega hreinsaði útsog tímans og breytinganna þetta byggðarlag að fólki og fénaði, að eftir stendur einn maður með sárafáar skepnur“, segir í Harðsporum Ólafs frá Herdísarvík.

Stóri Nýibær

Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Síðustu bændahjónin í Krýsuvík, sem búið höfðu í Stóra Nýjabæ í 38 ár, fluttu burt með 8 vöxnum börnum sínum, sem enn voru að heimilishúsi, 1933. Hjónin höfðu gifst í Krýsuvíkurkirkju 8. september 1895, hann 29 ára, í húsmennsku og til sjós, sem lengst af ævinnar, hún 18 ára heimasæta í Herdísarvík. Þetta voru Guðmundur Jónsson frá Hlíðarenda í Ölfusi og Kristín Bjarnadóttir, sem getið var í fyrra þætti.
Þessum hraustu, dugmiklu og vel gerðu hjónum varð 18 barna auðið. 4 voru fædd, þegar berdreyminn föðurinn í Stóra Nýjabæ dreymdi, að hann fyndi kolluhreiður úti við sjó. Í hreiðrinu voru 4 egg, en þegar hann tók af dúninum, sá hann 14 egg undir – og eitt brotið. Andvana drengur fæddist 1906. Öll hin heilbrigð og komust upp. Lifir nú Guðrún Elísabet ein, 78 ára.
Stóri-NýibærAllra veðra er von á hrjóstugri úthafsströnd og 4-5 tíma gangur vestur í Grindavík, þar sem ljósmóðirin átti heima. Of langt og áhættusamt var að vitja hennar, stundum árvisst, svo að Guðmundur lærði tökin, sem mjúkhendum eiginmanni og bónda eru lagin og kunnug, og tók hann sjálfur á móti flestum barnanna. Læknir kom ekki á heimilið í lækniserindum í öllum þeirra langa búskap í Stóra Nýjabæ. Svo hraust og heilbrigð var Kristín, 18 barna móðirin, og öll fjölskyldan.
Þau voru aldrei ein í Krýsuvíkurbyggðinni, þó að önnur útbýli færu í eyði á fyrstu árum aldarinnar, sem enn verður sagt, og tíð ábúendaskipti á höfuðbólinu, sem átti hraða hnignun, þegar sýslumannsfjölskyldan var farin. Mest var þó niðurhrapanin eftir 1908, þegar íslenska stórskóldið, löngum erlendis, og norskur auðmaður, félagi hans, höfðu keypt Krýsuvíkurtorfuna eins og hún lagði sig.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1950.

Síðasti heimabóndinn, Marteinn Þorbjörnsson frá Þúfu í Ölfusi, fór til Hafnarfjarðar 1925 með fjölskyldu sinni. Enginn var í manntali á höfuðbólinu eftir það, eins og sagt verður frá og rakið í næsta þætti, að sögulokum í þessari afbyggð á Suðurkjálkanum. En Magnús Ólafsson, þó heimilisfastur í Hafnarfirði með konu sinni og börnum, var eini nágranni fólksins í Stóra Nýjabæ, uns þau létu undan síga fyrir heimskreppunni. Fóru þau til Hafnarfjarðar og dó Guðmundur þar 1940, Kristín á hásumri 2 árum síðar.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Í minningarorðum eftir hana (Mbl. 24. júlí 1942) er ævistarf hennar í Stóra Nýjabæ kallað þrekvirki og hún sögð óvenjulega vel gefin til munns og handa, glöð í lund og bjartsýn, enda tekist að leysa af hendi þetta mikla hlutverk með þeirri sæmd, sem aðeins finnist fá dæmi til. Guðmundur var mjög vel vinnandi til sjós og lands, og bú þeirra var gott og aldrei skortur á hinu stóra heimili. Hann gerði út bát fyrstu 8 búskaparárin frá Herdísarvík og var formaður á, síðar sókti hann sjó utan úr Grindavík.

Krýsuvík

Í Krýsuvík 1887. Árni Gíslason lengst t.h.

Sýslumaðurinn Árni var fæddur í Vesturhópshólum 14. september 1820. Faðir hans, síra Gísli Gíslason var frá Enni, austanvert við ósa Blöndu, bóndaættar dugandi megns, fæddur í lok móðuharðinda. Þókti hann vel gáfaður og gerðist fróður með aldri, skáldmæltur, en flíkaði ekki, því að Ragnheiður kona hans, Vigfúsdóttir Þórarinssonar, var systir skáldsins Bjarna, síðast amtmanns á Möðruvöllum. Hún var talin gáfu- og mannkostakona. Þau skildu 1831 og var hiklaust sagt eftir það, að síra Gísli væri sérsinna og stórbrotinn í lund og hætti. Þeir, sem gerst þekktu, hugsuðu til skaphafnar Bjarna Thorarensens, sem var næsta stirðlyndur og lét hvergi undan. Maður Gyðingalögmálsins um auga fyrir auga í réttvísi lærdóms síns. Var Árni nokkuð með hinu þjóðkunna skáldi, frænda sínum, og mikla embættis- og valdsmanni á unglingsaldri. Saman voru þeir í Bessastaðaskóla Árni og Skúli bróðir hans, númsmenn miklir, en morgunsvæfir, segir Benedikt Gröndal, og söngmenn góðir. Röddina missti Árni í vonbrigðunum í búskap sínum í Krýsuvík, þú á sjötugsaldri.

Hvaleyri

Hvaleyri – uppdráttur ÓSÁ.

Gísli bróðir þeirra í Hólum á að hafa verið mjög latur piltur, en umsögn Gröndals getur verið svigurmæli. Hitt er alkunna, að æviganga Gísla var næsta örðug. Kornungur fékk hann þá ást á roskinni konu í sókn föður síns, Rósu Guðmundsdóttur skáldi á Vatnsenda, að hann kvæntist henni. Var Sigurður Breiðfjörð veisluskáldið í brúðkaupi þeirra undir Jökli. Áttu þau heima síðast, þegar Skáld-Rósa lifði, hann svo einn og sorgmæddur, ungur ekkjumaður, á Hvaleyrarholtinu við Hafnarfjörð.
Síra Skúli Gíslason prófastur á Breiðabólstað í Fljótshlíð, gerði nafn sitt ódauðlegt í sögu íslenskra bókmennta, segir dr. Sigurður Nordal, með þjóðsögunum, er hann færði svo snilldarlega í stílinn fyrir Jón Árnason og prófessor Maurer, rúmar 60 sögur. En faðir þeirra bræðra lét lítið á hæfileikum sínum bera, segir gamli Gröndal á sinn bersögla, beiska hátt: „Það getur vel verið, að þetta sé hin réttasta aðferð hér, því að hér er aldrei til neins að skara fram úr, nema í skömmum og óknyttum, ef lög nú ekki til, því úgæti er einskis metið.“

Krýsuvík

Legsteinn Árna Gíslasonar að baki Krýsuvíkurkirkju.

Samt eru það sannindi, að Árni Gíslason var metinn að verðleikum sem yfirvald Skaftfellinga á löngum sýslumannsferli, 1850-1879, og virtur vel, er hann var ríkisbóndi á Kirkjubæjarklaustri, þar sem hann bjó svo stórt, að hann var um sinn fjárflestur bænda í landinu og galt hæsta lausafjártíund (sbr. Tíðindi Prestafélags hins forna Hólastiftis 1971).
Árni Gíslason var réttvís í sýslumannsembætti, en minnir þó lítið á Bjarna lagamann, frænda sinn, er hann lifði í anda Kristí miskunnar, ekki lögmálsréttlætis Hebreanna. Lögfræðin var hans góða fylgja í móðurætt, en hann var kynborinn bóndi í húnvetnsku föðurættina. Varð sú hneigð slík árátta, að leiddi hann til ófarnaðar skepnumissis og fjártaps.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði þar sem Magnús dvaldist við fjárgæslu.

Lét hann reka sitt fallega fé austan af Síðu og út í Krýsuvík, þar sem er óyndislegt mönnum og allri skepnu, sem vanist hafa tit muna sælla og betra. Strauk féð úr útigöngunni á harðasta tíma, sem mörg hin fyrstu árin voru í búskap Árna í Krýsuvík, og mun flest hafa farist í vötnunum.
Ef Ölfusárósar voru á ís, þá í Þjórsá…. Og það fann Árni Gíslason brátt, að Krýsuvíkurlandið var ofsetið og ofbeitt. Jörðin bar ekki þann stórbúskap, sem hann ætlaði, auk töluverðs hokurs kotamannanna. Allt á vogun útigangs, engin hús nema lambakofar. Gróðurland hinnar litlu sóknar á Suðurkjálkanum, milli Krýsuvíkurhrauns í austri og Ögmundarhrauns í vestri, frá úthafsströndinni og norður undir Kleifarvatn, hafði stórlega minnkað, farið aftur í kulda, áfoki og ofbeit, síðan hér var hin sæla mjólkursveit við upphaf 18. aldar. Ekki var unnt að verjast ágangi sauðfjár úr öðrum sveitum, fyrr en Hafnfirðingar girtu fyrir með 18 km langri varnargirðingu um miðja þessa öld.

Litlahraun

Litlahraun – beitarhús frá Krýsuvíkurbænum frá fyrri tíð.

Árni sýslumaður komst í varnarstöðu, einnig um Krýsuvíkurberg. Sjósjókn varð æ minni frá verstöðinni á Selatöngum, en róið nokkuð lengur frá Herdísarvík. Ella tók útgerð í hverfunum úti við Grindavík alfarið við.
Með Árna Gíslasyni og öldinni, sem leið, var lokið búskaparsögu Krýsuvíkur til lands og sjávar, sem staðið hafði við kyrr kjör, sem enst höfðu heimabónda og kotamönnum frá upphafi í Gömlu Krýsuvík. Heilli lengdargráðu austar voru lokin nú í nánd. Árni Gíslason dó 26. júní 1898, og er hinn eini legsteinn í kirkjugarðinum á leiði hans við suðausturhorn kirkjunnar. Síðastur var jarðsettur þar 1917, Páll Pálsson þurfamaður, fæddur í Hafnarfirði um 1850. Þaðan í frá enginn í 80 ár, sem enn verður fært í frásöguna.
Elín Árnadóttir frá Dyrhólum, ekkja Árna sýslumanns, bjó áfram fardagaárið og jafnframt henni Ragnheiður dóttir þeirra Árna og Pétur Fjeldsted Jónsson maður hennar, síðar verslunarstjóri í Reykjavík, en þangað fluttu þau hjónin og ekkjufrúin þegar 1899.

Herdísarvík

Herdísarvík um 1900.

Þórarinn smiður sonur Árna af fyrra hjónabandi hóf búskap í Herdísarvík 1895, þegar Sólveig Eyjólfsdóttir, ekkja Bjarna Hannessonar, hætti þar búskap, sem hún hafði stýrt af röggsemi í nær 7 ára ekkjudómi. Voru þau foreldrar Kristínar húsmóður í Stóra Nýjabæ, síðustu húsffeyju hins gamla sögutíma í Krýsuvíkursókn.
Þjóðkunnur var Skúli héraðslæknir í Skálholti, sonur Árna sýslumanns af síðara hjónabandi, dáinn nær níræður 1954, latínumaður mikill. Sonur hans var Sigurður magister og ritstjóri, sem m.a. samdi hina fyrri Hafnarfjarðar sögu, sem út kom 1933.

Sóknin fyrr á tíð

Krýsuvíkurtorfan

Krýsuvíkurtorfan – uppdráttur ÓSÁ.

Við allsherjar manntalið 1703 eru 6 hjáleigur í Krýsuvík og alls í þeim 23 sálir, 10 á heimabólinu. Í grannsveitinni að austan eru 12 jarðir og fjöldinn allur af hjáleigum. Flestar mjög lítil kot og graslaus að kalla, eins og úti í Grindavík, þar sem 4 hjáleigur voru á Stað, 3 á Húsatóftum, 10 í Járngerðarstaðahverfi, á Þókötlustöðum 5 og Hrauni 2.
Tíu árum síðar hefur fjölgað í Krýsuvík og eru 41 í sókninni. Eru þá nefndar hjáleigur staðarins í Nýjabæ og Litla Nýjabæ, Norður- og Suðurhjáleigu, Austur- og Vesturhúsum, en Gestsstaða getið, eyðibóls austan undir Móhálsum. Selstaða heimajarðarinnar er talin merkilega góð, önnur til fjalls, hin niður undir sjó.
Eins og gefur á að líta í ferðabók hafa kýrgrös sýnst góð í Krýsuvík, en í stórfjósið, sem er harðneskja fyrir mannsauganu norðan við sprengigíginn Grænavatn, komu að vísu aldrei þær mjólkurkýr, sem vænst var, um eða yfir 300, og áttu að sjá Hafnfirðingum fyrir hvítum mat.

Krýsuvík

Krýsuvík – túnakort 1918.

Í Jarðabókinni í byrjun 18. aldar eru taldar 20 kýr í Krýsuvík og hjáleigunum, auk annars nautpenings, en griðungurinn fóðrast á staðnum. Leigukúgildin eru 4 og er greitt af í smjörum. Ekki til eiganda jarðarinnar, Skálholtsdómkirkju, heldur af hálfu til þingaprestsins, kirkjuþjónsins. Hinn hálfan smjörtollinn fékk ábúandinn, Sigvaldi Bjarnason, fyrir að fóðra nautið og hafa tilsjón með hinum mikla kúabúskap landsetanna. Mjólkurmaturinn var veigamikill með fiskmetinu í sjávarsveit, en verstöðin við Selatanga hafði eflst. Ef ekki væri heilbrigði með fólkinu væri lítil eftirtekjan af Krýsuvíkureigninni.

Hraustur líkami, búhyggindi eins og um heimatekjur prestsins
KrýsuvíkHjátrúin launar í jörðum Selvogsþing voru fátækt brauð og afskekktur útnári, og svo drungalegt er þar í útsynningi og regnsteypum af hafi við brimseltusog, að hjátrú átti þar greiða aðkomu. Trúin á galdramátt síra Eiríks Magnússonar, sem varð sálnahirðir Krýsvíkinga löngu fyrir stóra manntalið og átti enn nokkur ár ólifuð, þegar bæði menn og kýr komust á skrár Jarðabókarinnar, var mjög meinlaus dægrastytting.
KrýsuvíkÞegar hugsað er til hinna ægilegu galdraofsókna samtímans og skelfilegu manndrápa í heitum eldslogunum, eru galdrar síra Eiríks aðeins sjónhverfing, dáleiðsla, sem hlaut ríkulega umbun í jörðum. Á Suðurlandi og út með sjó á Suðurkjálkanum á Reykjanesi voru menn ekki brenndir á bálköstum, þótt sýndi glettni, jafnvel sjálfum biskupinum. Og skemmtileg þversögn er það við hina sjúklegu hjátrú og sálsýki, sem einstakir menn gátu magnað í heilum byggðarlögum, að ekkja eins hins alvarlegasta og aðfinnslusamasta biskupsins í Skálholti á þessari síðustu öld stólsins, madama Guðrún Einarsdóttir, gaf hinu fátæka brauði, Strandar- og Krýsuvíkursóknum, þær eignir, sem um munaði: Strönd, Vindás og hálft Þorkelsgerði. Var það 18. september 1747.

Krýsuvík

Krýsuvík 1936 – Ásgeir L. Jónsson.

Með sérvisku sinni og hálfkæringi hafði síra Eiríkur í Vogsósum einstakt lag á að vekja athygli á eymdarkjörum þingaprestsins í Selvogi. En smjörskökurnar úr 2ja dómkirkjukúa mjólkinni í Krýsuvík reiddi hann heim eftir messu í þessari litlu sókn, þar sem smjör draup af strái í mýrlendinu milli hraunanna.
Hitt er meinleg rás viðburðanna, að allt, sem var til gangs og góða í kúasveitinni Krýsuvík á fyrri tíð, varð sú glýja í augum aldarfarsins, þegar sóknin var lögst í eyði, að ginnti út í eitthvert dýrasta og vitlausasta búskaparævintýri á landbúnaðarbyltingar tímanum. Skilur eftir djúpu skurðasárin í landinu, sem var mannlaust eyðipláss og saklaust, en freistaði að vísu, af því að í gamla daga var það vaxið svo góðu kýrgrasi, að haldið var, að allt þetta væri hér um bil gefins og gerðist fýrir sama og ekki neitt.

Krýsuvík

Krýsuvík 1909.

Listinn um eina mjólkurkú fyrir hverja tvo á fólkstalinu villti hrapallega sýn. En síra Eiríkur í Vogsósum er jafn sæll á svip í mynd sögulegrar geymdar, þegar hann sveiflar hægri löppinni yfir hnakkinn eftir messu og góðgerðir í Krýsuvík með þétta og fallega smjörbelgi yfrum hnakknefið og slær í heimfúsan hestinn. Langt var að sækja, því að útkirkjuvegurinn í Selvogsþingum er teygingasamur, þegar kvölda tekur og svört hraunin og dimm nóttin sameinast. Alfaraleiðin lá yfir að Geitahlíð og með henni hjá Eldborginni á Deildarháls, um Hvítskeggshvamm, þar sem síra Eiríkur safnaði galdragrösum sínum, og svo um Herdísarvíkurhraun.
Miklu austar miðju á þessari draugalegu, seinförnu reiðgötu er bærinn í Herdísarvík, umkringdur reginauðnum hrauns og úthafs. Á fyrri tíð var hér aðhlynnandi áningarstaður ríðandi manns, en oftast gangandi. Í síðustu byggðarsögu sat einsemdin um sálirnar á þessu afskekkta hrauns- og sjávarbóli og kvaldi í beyg þau, sem var hræðslugjarnt, og boðaði feigð, þegar hallaði út degi og jarðdimmt orðið undir skáldhimninum.“

Sjá meira HÉR.

Heimild:
-Heima er best, 4. tbl. 01.04.1999, Útsog á Suðurkjálka, Ágúst Sigurðsson, bls. 140-143.
Krýsuvík