Móðhola

Í örnefnalýsingu fyrir Hvaleyri eftir Ólaf Guðmundsson og Gísla Sigurðsson, lögregluþjón í Hafnarfirði, er m.a. getið um Móðholu.
Í lýsingunni er m.a. sagt frá Hvaleyrarsandi, norðvestan við Golfvöllinn. “Utan við MóðholaHvaleyri heitir Jónasarlending. Sker er þar skammt undan landi sem heitir Hrútur. Vestan við Hvaleyrarsund heitir Þvottaklettur. Þar kemur tært vatn undan hrauninu og er það af sumum talið vera vatn úr Kaldá. Þar næst heitir svo Gjögrin er ná að Skarfakletti. Innan við Skarfaklett[a] er víkin, nefnd Sandvík og við Skarfakletta[a] heitir Móðhola. Þar var kveðinn niður draugur endur fyrir löngu. Þar er smáhellisskúti og utar, fast við merkin móti Straumi, er vík sem heitir Þórðarvík.”
Í annarri örnefnalýsingu segir að Móðhola sé lítið jarðfall skammt ofan við ströndina. Sá, sem þar fer niður, getur átt í erfiðleikum með að komast upp aftur. Kannski það hafi þess vegna verið hentugt til að kveða niður draug.
Ætlunin var að athuga hvort Móðhola væri enn á sínum stað. Holan gæti verið komin inn fyrir mörk álversins og þá mögulega á þeim stað er fréttist af “mikilli rás” út frá ströndinni.
Í örnefnalýsingunni segir jafnframt að “hér upp frá sjónum er allúfið brunahraun sem heitir Hvelyrarhraun eða Hellnahraun. Upp frá Þórðarvík opnast dalir er ganga þaðan inn í hraunið og heita þeir Leynidalir. Þeir eru innantil við hæsta brunann. Þar eru Leynidalaskjól.” FERLIR skoðaði þau skjól á sínum tíma.
Hafnarfjarðarkaupstaður fékk afsalað til sín landi Garðarkirkju sem nú er innan staðarmarka kaupstaðarins árið 1913 og land Hvaleyrar var afsalað til Hafnarfjarðar 1956, nokkrum árum á undan Hraununum þar vestan af.
Alfaraleiðin Alfaraleiðin milli Innnesja og Útnesja lá í gegnum Hellnahraunið. Þrátt fyrir tilkomu golfvallarins, sem þekur nú hluta leiðarinnar, og byggingu skolpdælustöðvar með tilheyrandi raski í hrauninu má enn sjá búta af gömlu leiðinni, m.a. vegabætur utan í hraunhól. Það verður nú að segjast eins og er að ráðamenn hafa ekki lagt sig mikið fram við að reyna að varðveita hina gömlu leið. Í staðinn fyrir að sníða mannvirkin að umhverfinu hafa þau verið sett niður eftir geðþótta og síðan malbikaðir stígar lagðir umhverfis. Svolítið vanhugsuð aðgerð því vel hefði mátt nýta gömlu leiðina í þágu golfvallarins.
Gengið var með ströndinni skv. framangreindri lýsingu. Þegar komið var að Skarfakletti var gengið spölkorn upp fyrir hann. Þar er lítil varða á lágum hraunhól. Í hraunhólnum er jarðfall, sem að öllum líkindum er Móðhola. Af einhverri ástæðu hefur þessum bletti verið þyrmt og verður það að öllum líkindum að teljast hrein tilvikjun.
Jarðfallið er um þriggja metra djúpt og gróið er að hluta í botninn. Börn, sem farið hefðu þarna niður, ættu ekki afturkvæmt. Sennilegast hefur sagan af draugnum Móð átt að fæla þau frá holunni.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Móðhola