Bara grjót? – Gísli Sigurðsson

Kollafjörður

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1982 fjallar Gísli Sigurðsson, ritsjóri, um „Bara grjót?“ við Kollafjörð:
Kollafjörður„Á Íslandi þarf yfirleitt ekki langt að fara til þess að komast í umhverfi, sem náttúran hefur algerlega mótað — og það með þvílíkum kostum og kynjum, að við stöndum agndofa. Oftast mætir auganu gersamlega ólík náttúrufegurð þeirri sem séð verður í nágrannalöndum okkar til dæmis, þar sem óbyggt eða óræktað land er oftast skógi vaxið. En heilu flæmin á Íslandi, þar sem ekki sést ein hrísla — Reykjanesskaginn til dæmis — eru þeim mun auðugri af annarskonar fegurð, sem helgast af grjóti. Og margbreytileikinn í ríki grjótsins virðist óendanlegur. Sú fegurð nær ef til vill hámarki á Austfjörðum eins og fram kom í ágætum sjónvarpsþætti Ómars Ragnarssonar.
Það eru kannski helzt Flóamenn, Holtamenn og Landeyingar sem þyrftu að bregða sér frá bæ til að sjá grjót. Víðast á landinu er það aftur á móti innan seilingar, ef svo mætti segja, og stundum er full mikið af því góða.

Kollafjörður

Grjót við Kollafjörð.

Grjót er uppistaðan í fegurð Þingvalla og Ásbyrgis; fagrir eru grjótásarnir vestur á Mýrum, fagurt er stuðlabergið hjá Hofsósi, þar sem sagt er að Guðjón Samúelsson hafi fengið hugmyndina að stuðlastíl Þjóöleikhússins. Fögur eru grjótþilin sem gnæfa yfir bæi undir Eyjafjöllum og þannig mætti lengi telja.
Til er einnig í næsta nágrenni Reykjavíkur sérstök fegurð, sem birtist í grjóti og fremur fáir vita um. Úr þeim reit eru myndirnar sem hér fylgja með. Þessi reitur er á norðanverðu nesinu við Kollafjörð, og blasir við af veginum, þegar farið er framhjá Mógilsá og vestur með Esju. En það ber lítið á honum til að sjá og nesið er utan við alfaraleiðir. Þarna er allsfór grjótflákl, sem hallar niður að firðinum, en það er ekki venjulegt grágrýti, heldur einhverskonar sandsteinn, sem er gljúpari og því hafa frost og önnur veðrunaráhrif skilið eftir sig svo sérkennileg merki.

Kollafjörður

Kollafjörður – grjót.

Sumir steinarnir eru eins og nútíma höggmyndir, sumir eins og ormétnir og víða koma fram kynjamyndir.
Mér skilst að sandsteinn af þessu tagi verði annaðhvort til af setlögum úr fínum sandi, sem hleðst upp við árósa og verður að steini á milljónum ára — ellegar þá að fíngerö gosefni hafi i fyrndinni hlaðizt upp og myndað sandstein með tímanum. Ekki er hægt að sjá neina lagskiptingu í þessu furðugrjóti og hins að gæta, að Esjan er hluti af geysimikilli eldstöð, sem náði alla leið útá núverandi Reykjavíkursvæði. Þess vegna má teljast líklegra, að þessi sandsteinn eigi uppruna sinn í gosefnum.

Kollafjörður

Kollafjörður – grjót.

Einhver brögð munu hafa verið að því, að fólk sækti sér einn og einn furðustein í Kollafjörð til að prýða með garð. Það er þó bót í máli, að flestir steinarnir eru ómeðfærileg björg og eins hitt, að ekki er hægt að koma bíl eða öðru flutningatæki þarna mjög nærri.
Þessar línur eru skrifaðar til að koma á framfæri þeirri frómu ósk, að menn lofi þessum reit að halda sér eins og hann er og stundi þar ekki gripdeildir á þessum skrýtnu náttúrumunum. Það gæti kannski virzt út í hött að tala um náttúruvernd í sambandi við grjót á Íslandi. En frásagnir af framferði erlendra ferðamanna á Austurlandi sýna, að það er ekki út í bláinn.

Kollafjörður

Kollafjörður – grjót.

Um leið er ástæða til að benda fólki á þessa sérstöku „sýningu“, ef svo mætti segja; eða kannski ættum við að segja grjótgarð — í næsta nágrenni við mesta þéttbýli landsins. Þangað er aðeins stutt gönguferð frá þjóðveginum, eða Kollafjarðarbænum. En fyrir alla muni: Lofum þessum garði að standa eins og hann er og spillum ekki á nokkurn hátt, því sem þar er.“

Rétt er að geta þess að framangreint grjótmynstur var jafnan nefnt „álfasteinar“ á Reykjanesskaganum.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 3. tbl. 23.01.1982, „Bara grjót?“, Gísli Sigurðsson, bls. 8-9.

Kollafjörður

Kollafjörður – grjót.